Færslusöfn

Brynjólfur Bjarnason

Brynjólfur Bjarnason fæddist árið 1898 og stundaði sem ungur maður nám í Kaupmannahöfn og Berlín. Heimspekiiðkun og önnur fræðastörf Brynjólfs véku þó fyrir pólitísku starfi fram á efri ár, því hann var í framvarðasveit íslenskra sósíalista, sat á þingi og gengdi ráðherraembætti. Framlag hans til íslenskrar heimspeki verður þó seint ofmetið enda má segja að hann hafi unnið braut­ryðjendastarf í heimspekiiðkun hér á landi. Rit á borð við Frelsi og lögmálForn og ný vandamál og Á mörkum mannlegrar þekkingar bera þekkingu Brynjólfs og innsýn í sígild vandamál heimspekinnar vitni. Brynjólfur lést árið 1989.

Einar Ólafsson rithöfundur fjallar ítarlega um ævi og störf Brynjólfs í grein sinni „Hver var Brynjólfur Bjarnason?“, bæði hvað varðar heimspeki- og stjórnmálastörf hans. Eyjólfur Kjalar Emilsson ræðir skoðanir Brynjólfs á frumspekilegum vandamálum tengdum löggengi og frelsi viljans í grein sinni „Brynjólfur Bjarnason um frelsi viljans“, og Jóhann Björsson fjallar að lokum um við­horf Brynjólfs til tilvistarstefnunnar í greininni „Tilgangurinn, hégóminn og hjómið“.

Greinarnar eru byggðar á erindum sem haldin voru á málþingi um heimspeki Brynjólfs Bjarna­sonar. Félag áhugamanna um heimspeki efndi til málþingsins á haustdögum 1998 í tilefni þess að öld var liðin frá fæðingu Brynjólfs.

Einar Ólafsson:
Hver var Brynjólfur Bjarnason?

Eyjólfur Kjalar Emilsson:
Brynjólfur Bjarnason um frelsi viljans

Jóhann Björnsson:
Tilgangurinn, hégóminn og hjómið. Um gagnrýni Brynjólfs Bjarnasonar á existensíalismann

Greinarnar birtust í Hugi 10.-11. árg., 1998/1999.

« Til baka

David Hume

David Hume (1711–1776) er jafnan talinn með merkustu og áhrifamestu heimspekingum síðari alda. Einkum er hann kunnur fyrir þekkingarfræði sína, trúarheimspeki og siðfræði. Í þessum greinum heimspekinnar setti hann fram kenningar sem gengu þvert á þær skoðanir sem viðteknar voru á hans tíma. Hann færði meðal annars rök fyrir því að mannlegum skilningi væri þrengri skorður settar en flestir vildu vera láta, að um guðfræðileg efni væri nánast ekkert hægt að vita og obbinn af allri guðfræði væri hártoganir og hindurvitni. Auk þess reyndi hann að leggja grundvöll að veraldlegri siðfræði og sýna fram á að siðferði helgist af mannlegu eðli og þörfum samfélagsins, en komi trúarbrögðum ekkert við. Jafnframt reyndi Hume að grundvalla vísindalegri skilning á mannlífinu en tíðkast hafði. Hann er því einn af frumkvöðlum félagsvísindanna og geta þeir sem huga vilja að undirstöðum þeirra margt lært af að lesa bækur Humes.

Tvö af stærri verkum Humes hafa verið gefin út á íslensku hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi:

Um Rannsókn á skilningsgáfunni eftir David Hume

Um Samræður um trúarbrögðin eftir David Hume

Atli Harðarson:
David Hume og gagnrýni hans á trúarbrögðin
Greinin birtist upphaflega í Ganglera, vorhefti 1989, en birtist hér á Heimspekivefnum í nokkuð breyttri og endurbættri mynd af hálfu höfundar.

David Hume:
Útdráttur Humes úr Ritgerð um manneðlið
Þýðing Gunnars Ragnarssonar, frumbirt á Heimspekivefnum.

« Til baka

Friedrich Nietzsche

Þýski heimspekingurinn Friedrich Nietzsche fæddist árið 1844 í bænum Rökken sem þá tilheyrði Prússlandi. Menntaferill Nietzsches hófst á sviði fornfræði og varð hann snemma vel að sér í forn­grískri heimspeki og menningu. Árið 1869 var hann gerður að prófessor í fornfræði við háskólann í Basel einungis 24 ára að aldri, en neyddist til að láta af störfum árið 1879 vegna slæmrar heilsu. Fyrsta rit Nietzsches, Fæðing harmleiksins (1871), fjallaði um samspils hins villta og hins fágaða í forngrískri leiklist.

Siðfræðin var eitt af höfuðviðfangsefnum Nietzsches, og eru rit á borð við Handan góðs og ills (1886) og Sifjafræði siðferðisins (1887) úttektir á því sem hann taldi menningarbundnar kreddur bæði í hugmyndum almennings og heimspekinga um siðferðislegan skilning á „hinu góða“. Nietzsche taldi þörf á að endurskilgreina siðferðislega hugtakanotkun og áleit sig standa í fylkingarbrjósti nýrrar hugmyndafræðilegrar sýnar öll heimspekileg og menningarleg viðfangsefni.

Nietzshe velti fyrir sér afdrifum einstaklings og menningar á umbrotatímum í sögu heimspeki­legrar hugsunar, þar sem mörgum fannst upplausnin ein ríkja. Upplausn og niðurbrot gilda eru miklvæg stef í heimspeki Nietzsches, samanber „dauða Guðs“, eina af frægustu hugmyndum hans.

Verk Nietzsches eru gjarnan söguleg eða „sifjafræðileg“ (genealógísk) úttekt á heimspekinni, þar sem hann taldi sig „fletta ofan af“ ýmsum forpokuðum hugmyndum hennar. Nietzsche taldi til dæmis kristið siðferði, hinn viðurkennda útgangspunkt vestrænnar siðfræði, vera „þrælasiðferði“ og þjóna hagsmunum hinna undirokuðu, eða þörf þeirra fyrir siðferðislega upphafningu á þræls­lunduðum dyggðum sínum: hógværð, undirgefni, o.s.frv. Nietzsche var heimspekingur vantrausts­ins og efans, og hafa ýmsir heimspekingar 20. beitt aðferðum hans við að grafa undan viðteknum viðhorfum í samfélaginu. Má þar nefna sem dæmi Michel Foucault og Richard Rorty, sem beita þeirri aðferð að „segja sögu“ fyrirbæranna í stað þess að einbeita sér að því að hrekja eða af­sanna fullyrðingarnar sjálfar.

Friedrich Nietzsche lést við upphaf nýrrar aldar, árið 1900, fársjúkur af geðveilu sem þá hafði hrjáð hann árum saman.

Fjölmargir íslendingar hafa ritað um Nietzsche, og er það til marks um þann aukna áhuga sem vaknað hefur á verkum hans á síðustu áratugum. Freistandi er að skýra þennan áhuga sem svo að verk Nietzsches eigi nú loksins erindi við mannkynið, þar sem hann taldi kenningar sínar á sínum tíma „ótímabærar“ eins og sjá má af titlum bóka hans; Ótímabærar hugleiðingar og undir­titil Handan góðs og ills, „Forleikur að heimspeki framtíðar“.

Tvö af ritum Nietzsches hafa komið út á íslensku. Þau eru Handan góðs og ills (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1994) í þýðingu Arthúrs Björgvins Bollasonar og Þrastar Ásmundssonar og Svo mælti Zaraþústra (Háskólaútgáfan, 1996) í þýðingu Jóns Árna Jónssonar. Einnig hefur komið út greinin „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“ (Skírnir, 1993) í þýðingu Magnúsar Diðriks Baldurssonar og Sigríðar Þorgeirsdóttur.

Tímarit Máls og menningar gaf árið 1997 út sérstakt hefti tileinkað Nietzsche. Hér má lesa allar greinarnar úr því, sem og greinarnar „Við rætur mannlegs siðferðis“ eftir Vilhjálm Árnason og „Tilraun um styrk: Trúin í túlkunarsálarfræði Nietzsches“ eftir Matthew Ray.

Vilhjálmur Árnason:
Grímur manns og heims. Látbragðslistin í heimspeki Nietzsches
Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

Vilhjálmur Árnason:
Við rætur mannlegs siðferðis. Siðagagnrýni og heilræði Friedrichs Nietzsche

Greinin birtist í Broddflugum, Háskólaútgáfan 1997.

Kristján Árnason:
„Bara flón! bara skáld!“ Heimspeki í molum eða molar um Nietzsche
Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

Róbert H. Haraldsson:
Eftirmyndir Nietzsches
Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

Arthúr Björgvin Bollason:
Stefnumót við Díonýsos. Nokkrir punktar um Nietzsche
Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

Matthew Ray:
Tilraun um styrk: Trúin í túlkunarsálarfræði Nietzsches
Birtist í Hugi 10.-11. árg., 1998/1999.

Atli Harðarson:
Nietzsche og Dínamít
Stutt er síðan nýjasta leikrit Birgis Sigurðssonar, Dínamít, var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu. Efniviður þess er ævi þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsche, samband hans við systur sína, Elisabeth, og andleg hrörnun. Hér birtist gagnrýni Atla Harðarsonar á heimspekisögulegan þátt leikritsins, þ.e. á þá meinleysislegu mynd sem honum þykir þar vera dregin af hugsuðinum. Dómurinn birtist áður fyrir stuttu í Lesbók Morgunblaðsins.

« Til baka

Karl R. Popper

Karl Raimund Popper fæddist í Vínarborg árið 1902 en dvaldist lengst af á Englandi, þar sem hann gegndi kennarastöðu við London School of Economics. Hann er þekktur fyrir heimspekilegt framlag sitt til bæði stjórnmála- og vísindaheimspeki. Karl Popper lést árið 1994. Gunnar Ragnarsson ritaði eftirfarandi inngangstexta með þýðingu sinni á viðtali Bryans Magee við Popper:

„Meðal almennings mun Popper þekktastur sem óvæginn gagnrýnandi marxismans og annarra kenninga sem þykjast hafa höndlað stórasannleik um mann og heim og má þar, auk marxismans, nefna sálgreiningu Freuds og þráttarhyggju Hegels. Það gefur að skilja að Popper á ekki upp á pallborðið hjá fylgismönnum slíkra kenninga.

Vínarhringurinn sem nefndur er í innganginum að samtalinu var samtök vísindalega sinnaðra heimspekinga í tengslum við háskólann í Vínarborg. Eru samtök þessi einkum tengd nafni Moritz Schlicks (1882–1936) sem var aðalhvatamaður að stofnum þeirra. Þau störfuðu á þriðja og fjórða áratug 20. aldar, gáfu út tímarit, bækur og héldu ráðstefnur, en leystust upp þegar nasistar náðu völdum í Austurríki. Sumir félaganna fluttu til Bandaríkjanna og höfðu mikil áhrif á þróun heimspeki þar í landi, t.d. Rudolf Carnap (1891–1970). Heimspekingarnir í Vínarhringnum héldu fram kenningu sem kallast á ensku logical positivism og hefur fengið á íslensku nafnið rökfræðileg raunhyggja. Meginhugmynd þessarar heimspeki er sú að allt sem hægt er að segja af viti og hefur merkingu sé annaðhvort raunvísindalegs eðlis, þ.e.a.s. staðhæfingar um sannreynanleg fyrirbæri, staðreyndir, ellegar staðhæfingar í rökfræði og stærðfræði. Samkvæmt þessari tegund raunhyggju eru því til að mynda frumspekilegar og siðfræðilegar staðhæfingar bókstaflega merkingarlausar, að ekki sé minnst á guðfræði. Popper var frá upphafi eindreginn andstæðingur og óvæginn gagnrýnandi þessarar kreddu og sýndi fram á að kenningin um merkingu og merkingarleysi fengi ekki staðist. – Í sjálfsævisögu sinni (Unended Quest) segist Popper hafa gengið af rökfræðilegri raunhyggju dauðri í bók sinni Rökfræði rannsóknar.

Sem vísindaheimspekingur er Popper frægastur fyrir kenningu sína um afmörkun raunvísinda og alræmdur fyrir þá skoðun að engin aðleiðsla sé til. Eins og fram kemur í samtalinu telur hann sig hafa fundið mælikvarða sem hægt sé að nota til að draga markalínu milli raunvísinda, frumspeki og annarra fræðigreina – án þess að halda því fram að staðhæfingar í öðrum greinum en þeim raunvísindalegu séu merkingarlausar! (Magee talar um mörkin milli vísinda og ekki–vísinda). Þetta er hrekjanleikaregla Poppers og er hún sett fram gegn sannreynslu- eða sannreynanleikareglu rökfræðilegra raunhyggjumanna sem átti m.a. að útiloka frumspeki frá merkingarbærri orðræðu. Hugmynd Poppers er að hugsanlegur hrekjanleiki kenningar sé mælikvarði á vísindalegt einkenni hennar.

Einn höfuðkostur Poppers sem heimspekings er sá hve skýr hann er í framsetningu. Hann felur ekki loðna eða óljósa hugsun á bak við tvírætt eða margrætt orðalag. Hann leggur sig allan fram við að orða skoðanir sínar þannig að unnt sé að koma höggi á þær, nefnilega að gagnrýna þær. Og hann er eflaust einn mesti rökfærslusnillingur í hópi heimspekinga. Heimspekilega afstöðu sína kallar Popper gagnrýna rökhyggju (critical rationalism). En nafngiftir út af fyrir sig skipta ekki máli að hans dómi, enda þótt hann telji að ekkert sé mikilvægara en tungumálið, eins og fram kemur í samtalinu.

Bestu kynningu á þekkingarfræði Poppers og þróunarhyggju er að finna í bók hansHlutlæg þekking (Objective Knowledge. – Oxford University Press, 1972) en besta inngang að hugsun hans almennt, fyrir utan bókina Popper eftir Magee, tel ég vera að fá í safni greina eftir Popper sem birtist í bók undir heitinu Tilgátur og afsannanir(Conjectures and Refutations. – Routledge & Kegan Paul, 1963).“

Í greininni „Ágiskanir og afsannanir“ skýrir Popper fræga hugmynd sína um svokallaðan „afsannanleika“ vísindakenninga, sem hann taldi góðan prófstein á þær. Viðtal Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við Popper snýst einkum um stjórnmálaheimspeki. Viðtal Poppers og Magees er greinargóður inngangur að öllum helstu hugmyndum Poppers.

Karl R. Popper:
Ágiskanir og afsannanir
Haukur Ástvaldsson þýddi.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson:
Frjálshyggjan verður aldrei fullsköpuð

Bryan Magee:
Samræða við Karl R. Popper
Samræðan birtist upphaflega í Modern British Philosophy. Gunnar Ragnarsson þýddi.

Karl Popper:
Immanúel Kant: Heimspekingur upplýsingarinnar. Fyrirlestur til minningar um Kant á 150. ártíð hans
Upphaflega útvarpserindi. Textinn er prentaður í Conjectures and Refutations (7.kafli) og In Search of a Better World (9. kafli). Gunnar Ragnarsson þýddi.

« Til baka

Ludwig Wittgenstein

Ludwig Wittgenstein fæddist í Vínarborg árið 1889. Hann var sonur iðjuhölds af Gyðingaættum og aldist upp við mikið ríkidæmi. Ungur ákvað hann að leggja stund á verkfræði og fékk í gegnum hana áhuga á stærðfræði. Sá áhugi vakti hann síðan til umhugsunar um undirstöður stærfræðinnar og hreina rökfræði. Að ráði Gottlobs Frege hóf hann samstarf við Bertrand Russell í Cambridge á Englandi um rannsóknir í rökfræði. Samstarf þeirra stóð yfir á árunum 1912–1913.

Á meðan Wittgenstein gegndi herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni lagði hann lokahönd á bók sína Tractatus Logico-Philosophicus þar sem hann lagði fram tímamótakenningu sína um tengslin milli rökgerðar setninga og rökgerðar heimsins. Að mati Wittgensteins var ekki mögulegt að gera grein fyrir eða tjá rökgerð setninga, þ.e. þá rökfræðilegu byggingu sem ljær tungumálinu merkingu, innan markanna sem tungumálið setur. Þar sem hann taldi að setningar tungumálsins væru eingöngu nothæfar til að lýsa stöðu mála í heiminum, þ.e. heimi reynslunnar, þá væri ekki hægt að lýsa sjálfum reglunum. „Um það sem maður getur ekki talað verður maður að þegja“ var lokaniðurstaða bókarinnar. Wittgenstein taldi sig í fúlustu alvöru hafa leyst öll vandamál heimspekinnar í ritinu og kaus samkvæmt því að snúa sér að öðrum viðfangsefnum. Hann flutti á ný til Austurríkis, starfaði um hríð sem barnakennari í Ölpunum og lagði stund á arkítektúr.

Það var ekki fyrr en árið 1929, eftir meira en tíu ára hlé frá heimspekistörfum, að Wittgenstein fluttist á ný til Cambridge og hóf þar kennslu og rannsóknir. Afrakstur starfs hans þar kom út að honum látnum, í bókinni Philosophical Investigations, en Wittgenstein lést árið 1951. Í þeirri bók kveður við nokkuð annan tón en í Tractatus Logico-Philosophicus, en skoðanir eru skiptar um hvort viðhorfin sem þar birtast séu mjög eðlisólík fyrri hugmyndum hans. Í Philosophical Investigations leggur Wittgenstein áherslu á að tungumálið fylgi í raun ekki (rökfræðilegum) reglum nema að svo miklu leyti sem þær eru settar af samfélagi þeirra sem nota það. Merking orða snúist einvörðungu um rétta notkun þeirra eins og hefðin skilgreinir hana.1

Þær greinar sem hér birtast eru allar góðar til að nálgast þennan merka heimspeking en grein Þorsteins Gylfasonar, „Ludwig Wittgenstein“ veitir e.t.v. besta heildarsýn á kenningar hans. Grein Ólafs Páls Jónssonar, „Efahyggja um merkingu“, fjallar sérstaklega um túlkun heimspekingsins Saul Kripke á Wittgenstein hvað varðar vandann um einkamál, (e. private language) þ.e. hugsanlegt tungumál sem skilgreinir merkingu sína án tillits til málsamfélags. Greinin „Var Wittgenstein atferlishyggjumaður?“ eftir Karl Ægi Karlsson svarar spurningunni sem titillinn vísar til. Síðastnefndu greinarnar tvær taka mið af umræðu sem tengist frekar skrifum „seinni Wittgensteins“.

Ludwig Wittgenstein er heimspekingur sem hefur vakið athygli langt út fyrir raðir heimspekinga. Það skýrist nokkuð af því hversu óvenjulegur maður hann var í öllu atgervi. Hann var frábærlega greindur, skýr og agaður í hugsun en um leið svo tilfinningasamur, siðvandur og krefjandi í samskiptum að vinir hans áttu oft fullt í fangi með hann. Hann hafði mikil áhrif á alla sem kynntust honum og vinir hans héldu merki hans á lofti með því að halda áfram að gefa út skrif hans að honum látnum.

Eftirfarandi kann að vera áhugavert fyrir þá sem vilja lesa eða fræðast um Wittgenstein:
* Kvikmyndin Wittgenstein eftir Derek Jarman. Þar er fjallað um ævi Wittgensteins út frá vináttusamböndum hans við Bertrand Russell, John Maynard Keynes o.fl. í bland við heimspekilegar vangaveltur.
* „Heimspekiævisaga“ Wittgensteins, The Duty of Genius eftir Ray Monk, er frekar nýleg og þykir góð. Monk hefur einnig skrifað ævisögu Bertrands Russell.
The Internet Encyclopedia of Philosophy er með greinargóðan, hæfilega langan og þægilegan texta um Wittgenstein hér.

Helstu rit Wittgensteins eru þau tvö sem nefnd voru hér að ofan. Auk þeirra má nefna nokkrar bækur sem fyrrverandi nemendur hans hafa tekið saman og gefið út:
On Certainty
Philosophical Remarks
Bláa bókin í þýðingu Þorbergs Þórssonar með inngangi eftir Þorstein Gylfason.

Karl Ægir Karlsson:
Var Wittgenstein atferlishyggjumaður?
Greinin birtist í Hugi 10.-11. árg., 1998/1999.

Oswald Hanfling:
Wittgenstein og vandamálið um meðvitundina
Grein þessi birtist í heimspekitímaritinu Think (3. tölubl., vorhefti 2003) Gunnar Ragnarsson þýddi.

Ólafur Páll Jónsson:
Efahyggja um merkingu
Greinin birtist í Hugi 10.-11. árg., 1998/1999.

Ludwig Wittgenstein:
Fyrirlestur um siðfræði
Ásamt inngangi þýðanda, Þorsteins Gylfasonar.

Bryan Magee:
Fyrri og seinni heimspeki Wittgensteins. Bryan Magee og Anthony Quinton ræðast við
Samræðan birtist upphaflega í Men of Ideas. Gunnar Ragnarsson þýddi.

 

Tilvísanir

1. Til að greina á milli þess munar sem er á hugmyndum Wittgensteins í Tractatus Logico-Philosophicus og Philosophical Investigations er stundum rætt um „fyrri“ og „seinni“ Wittgenstein.

« Til baka

Søren Kierkegaard

Søren Kierkegaard fæddist í Kaupmannahöfn árið 1813. Hann nam heimspeki við Kaupmanna­hafnarháskóla og fékk áhuga annars vegar á guðfræði og hins vegar á íróníunni, hinni heim­spekilegu aðferð Sókratesar. Ástin hafði mikil áhrif á heimspeki og lífshlaup Kierkagaards, en hann sleit trúlofun sinni við unga stúlku öllum að óvörum til að sinna trú og fræðum. Sönn trú var í huga Kierkegaards hafin yfir iðkun skipulagðra trúarbragða og er leitin að hinum sanna „riddara trúarinnar“ mikilvægt stef í verkum hans. Íróníunni beitti hann síðan til að hafa samtíðarmenn sína að háði og spotti, ekki síst kirkjunnar menn, sem hann taldi meiri trúmenn í orði en á borði.

Kierkegaard vildi heldur skoða heiminn eins og hann snýr að einstaklingnum en að leita að tæm­andi, hlutlægu, heimspekikerfi í anda Hegels. Kierkegaard er oft nefndur faðir tilvistarstefnunnar (existensíalismans), enda hafði hann mikil áhrif á helstu postula hennar, þ.á.m. Jean-Paul Sartre. Skyldleika Kierkegaards við Friedrich Nietzsche er einnig vert að nefna. Søren Kierkagaard lést árið 1855.

Greinarnar sem hér birtast eru úr fjórða tölublaði Tímarits Máls og menningar árið 2000 sem helgað var Kierkegaard. Greinarnar „Sjálfsþekking og sjálfsval“ eftir Kristján Árnason og „Að velja sjálfan sig“ eftir Vilhjálm Árnason taka báðar fyrir hugmyndir Kierkegaards um sjálfið og valið. Siðferðið og kærleikurinn eru einnig mikilvæg stef í grein Vilhjálms. Jóhanna Þráinsdóttir, þýðandi bókar Kierkegaards Uggur og ótti fjallar um skiptar skoðanir hans og íslensks guðfræðings, Magnúsar Eiríksssonar, um fjarstæður og þversagnir í sannri trú. Birna Bjarnadóttir lýkur um­fjölluninni með grein sinni „Hvers vegna er dauðinn besta gjöfinn, Kierkegaard“, þar sem hún tekur m.a. fyrir skrif Jacques Derrida um dauðann í verkum Kierkegaards.

Allar þessar greinar eru ágætis kynning á verkum Kierkegaards, en Kierkegaard-hefti TMM stendur í samhengi við útgáfu Hins íslenzka bókmenntafélags á tveimur merkum ritum hans. Lesendur eru því hvattir til að láta þau verk ekki fram hjá sér fara: Uggur og ótti er í þýðingu Jóhönnu Þráinsdóttur en Endurtekningin í þýðingu Þorsteins Gylfasonar.

Vilhjálmur Árnason:
Að velja sjálfan sig. Tilraunir Kierkegaards um mannlífið

Birna Bjarnadóttir:
Hvers vegna er dauðinn besta gjöfin?

Jóhanna Þráinsdóttir:
Er trúin þverstæða? Gagnrýni Magnúsar Eiríkssonar á trúarskoðunum Kierkegaards í Ugg og ótta

Kristján Árnason:
Sjálfsþekking og sjálfsval

Greinarnar eru birtar með leyfi Tímarits Máls og menningar.

« Til baka

Willard V. Quine

Willard Van Orman Quine (1908–2000) var í hópi fremstu rökgreiningarheimspekinga tuttugustu aldar. Bakgrunnur Quines var í rökfræðilegri raunhyggju (e. logical positivism) Vínarhringsins og taldi hann Rudolf Carnap (1891–1970) sinn helsta lærimeistara. Helstu rit Quines eru From a Logical Point of View (1953), Word and Object (1960) og Ontological Relativity and Other Essays(1969).

Í grein Árna Finnssonar „Kenningar um merkingu“ sem hér birtist má finna ágætt yfirlit um heimspeki Quines. Greinin „Tvær kreddur raunhyggjunnar“ í þýðingu Þorsteins Hilmarssonar er úr áðurnefndu höfuðriti Quines From a Logical Point of View. Hér birtist einnig greinin „Um það sem er“ úr sama riti en hún er í þýðingu Árna Finnssonar.

Quine heimsótti Ísland árið 1980 og tók þá Mikael M. Karlsson viðtal við hann sem hér er birt og nefnist „Skilningur er eftirsóknarverður í sjálfum sér“. Viðtalið er góður upphafsreitur fyrir þá sem ekki þekkja Quine, sem og inngangurinn að grein Árna Finnssonar.

Mikael M. Karlsson:
„Skilningur er eftirsóknarverður í sjálfum sér“
Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. júní 1980.

Willard van Orman Quine:
Um það sem er
Í inngangi fjallar þýðandinn Árni Finnsson um Quine. Greinin birtist fyrst á íslensku í safnritinu Hvað er heimspeki? Tíu greinar á tuttugustu öld.

Willard van Orman Quine:
Tvær kreddur raunhyggjumanna

Árni Finnsson
Kenningar um merkingu
Ofantöldu greinarnar tvær birtust í Hug 1990/1991.

Willard van Orman Quine:
Hvar greinir okkur á?
Greinin birtist í Hug 1995.

« Til baka