Færslusöfn

Náttúran sem siðfræðilegt viðfangsefni

eftir Þorvarð Árnason

Siðfræði er með allra elstu fræðigreinum. Tilurð hennar má rekja aftur til Aristótelesar sem uppi var u.þ.b. 500 árum fyrir fæðingu Krists. Samkvæmt nútímaskilningi er algengast að skilgreina siðfræði (ethics, moral philosophy) sem þá fræðigrein sem hefur siðferðið (morality) að rannsóknarefni, þ.e hvernig fyrirbæri eins og ábyrgð og skyldur, dygðir og lestir, siðaboð og –bönn, svo og siðgæði (siðferðileg verðmæti) eins og réttlæti, jöfnuður, umhyggja, vinátta og frelsi raungerast í samfélaginu.1 Óþarfi ætti að vera að taka fram þótt ofangreind fyrirbæri séu e.t.v. ekki mjög áþreifanleg, þá er tilvist þeirra engu að síður staðreynd og mikilvægi þeirra augljóst, ekki síst kannski þeim sem búa við skort á umræddum gæðum – þurfa að lifa í skugga óréttlætis, ójöfnuðar, ófrelsis eða ofbeldis. Auk lýsandi (descriptive) hliðar (að lýsa siðferðinu og skýra það) hefur siðfræðin líka boðandi (normative) hlið – siðfræðingar leitast jafnan við að setja fram hugmyndir eða kenningar um það hvernig hægt sé að bæta siðferðið. Segja má að þetta liggi í hlutarins eðli: Sá (eða sú) sem rannsakar fyrirbæri á boð við réttlæti og jöfnuð – eða andstæður þeirra – getur ekki með góðu móti látið sér lýsingarnar einar nægja; alvarlegir brestir sem slíkur einstaklingur kemur auga á hljóta að kalla á einhverjar mótaðgerðir.

En hvað hefur siðfræðin með náttúruna að gera – telst náttúran á einhvern hátt til siðfræðilegra viðfangsefna? Hafa hugtök eins og virðing, ábyrgð, réttlæti og umhyggja einhverja merkingu þegar náttúran á í hlut? Vafalaust munu einhverjir hneigjast til að svara þessu strax neitandi – náttúran og siðfræðin eigi alls enga samleið, siðferðið sé alfarið mannlegt fyrirbæri, bundið við siðvitund einstakra manna og birtingarmyndir hennar í mannlegum samskiptum og samfélagi. Náttúran er án allrar siðferðisvitundar og við hana er ekki hægt að stunda eiginleg samskipti; hún þekkist engar skuldbindingar né þiggur, heyrir hvorki né svarar, skeytir ekkert um rétt eða rangt, gott eða illt, fagurt eða ljótt. Náttúran liggur líka – nánast samkvæmt orðanna hljóðan – alfarið utan hins mannlega samfélags þar sem meginvettvang siðferðisins er að finna: Náttúran er það sem menningin og mannlífið er ekki – og öfugt. Samkvæmt þessum svörum er náttúran einfaldlega handan (eða neðan) við alla siðfræðilega rökræðu – hún getur sjálf ekki verið eiginlegt viðfang siðferðilegrar íhugunar – siðferðið (og þar með siðfræðin, fræðigreinin sem rannsakar siðferðið) snýst eingöngu um manneskjur.

Í ofangreindu svari er óneitanlega viss sannleikskjarni sem erfitt er að horfa framhjá – það að maðurinn búi yfir siðvitund (siðferðilegri dómgreind), einn allra lífvera sem fyrirfinnast á jörðunni. Náttúran er siðlaus (amoral) – hún er algjörlega laus við alla siði, slæma jafnt sem góða – og því geta „samskipti“ manna við hana aldrei verið með sama hætti og ef tvær siðferðisverur (þ.e. manneskjur) ættu í hlut. Siðvitundin er sá eiginleiki sem fyrst og fremst gerir mannveruna sérstaka og merkilega – hún gerir sérhverja manneskju einstaka í sinni röð og óendanlega verðmæta, vegna þess að hvert okkar getur hugsað um og metið eigin breytni (og annarra) og hefur jafnframt alla burði til að breyta samkvæmt bestu vitund. Þetta má líka orða á þá veru að hver manneskja búi yfir eigingildi – hafi markmið og gildi í sjálfri sér – vegna þess að hún býr yfir vitund, skynsemi og vilja og getur sjálf tekið allar ákvarðanir sem máli skipta í siðferðilegum efnum. Af ofangreindu leiðir að það má ekki að umgangast manneskju sem tæki eða hlut, heldur verður að koma fram við hana af virðingu og tillitssemi.

Ekki ætti að þurfa að fjölyrða mikið um það að sú hugsun sem rakin var hér að ofan um eigingildi manneskjunnar er einmitt kjarni húmanismans og hornsteinn kenninga um algild mannréttindi – réttindi sem eru óháð kyni, aldri, litarhætti, þjóðerni, trúarskoðunum eða öðru sem greinir mennina að. Það að vera maður (þ.e. kona eða karl) jafngildir kröfu um að fá að njóta slíkra réttinda, af sama toga og í sama mæli og allir aðrir menn. Þessi hugsun kemur m.a. skýrt fram í umhverfismálum – fyrsta grundvallarregla Ríó-yfirlýsingarinnar hljóðar t.d. þannig: „Sú viðleitni að koma á sjálfbærri þróun varðar sjálft mannkynið. Því ber réttur til að lifa heilbrigðu og auðgandi lífi í sátt við náttúruna“ (Umhverfisráðuneytið 1992).2Samkvæmt því sem hér að ofan hefur verið rakið er það því siðvitundin sem í senn greinir manninn frá náttúrunni og gerir hann sérstakan og virðingarverðan. Á þessari „tvíþættu“ sérstöðu mannsins eru síðan reistar kröfur um algild réttindi honum til handa, m.a. til að lifa „heilbrigðu og auðgandi lífi“ – en þó „í sátt við náttúruna“.

En verður nokkurn tímann hægt að sætta þetta tvennt – mannveru sem hefur eða telur sig hafa algjöra sérstöðu og klýfur sig þar með frá náttúrunni, og svo allt hitt sem eftir stendur, öll fyrirbæri sem eru náttúrunnar en ekki mannsins? Hverskonar „sátt“ er hægt að bjóða náttúrunni sem kærir sig ekki hætishót um manninn heldur æðir áfram á valdi blindra, stjórnlausra krafta? Eða m.ö.o. verðum við ekki alltaf að fórna öðru hvoru – manninum eða náttúrunni? Ef slíkt val er óumflýjanlegt, þá förum við varla að fórna manninum, er það? Slíkt virðist stríða gegn allri viðleitni til að standa vörð um virðingu og réttindi manneskjunnar, hluti sem byggja jú á því að hver mannvera sé einstök og dýrmæt.

Ein leið til að bregðast við ofangreindri klemmu er að afneita henni – segja að málið liggi algerlega ljóst fyrir, menn þurfi ekki að velkjast í neinum vafa, engjast í neinni klemmu: náttúran tilheyri ekki ríki siðferðisins og geti því ekki krafist siðferðilegrar yfirvegunar af hálfu mannsins, slíkt sé algjör rökleysa: Maðurinn hafi eingöngu skyldur við aðra menn. Þeir sem vildu „bæta um betur“ gætu í framhaldinu sagt að vandamálin sem menn glíma við varðandi náttúruna séu miklu fremur úrlausnarefni verkfræðinga eða viðskiptafræðinga en siðfræðinga – vandamálin eru fyrst og fremst tæknilegs eða praktísks eðlis og allar vænlegar lausnir því sama marki brenndar – siðferðileg yfirvegun þurfi hvergi að koma hér nærri, enda er hennar ekki þörf. Af ofangreindu leiðir einnig að umhverfisvandamál – ef þau eru þá á annað borð til – koma náttúrunni sjálfri ekkert við, sá vandi sem við er að etja steðjar eingöngu að mönnum.

Þótt vissulega sé hægt að færa rök fyrir svo afgerandi fullyrðingum hljóma niðurstöður þeirra býsna einkennilega – a.m.k. í mínum eyrum – ekki síst í ljósi þess hve náttúran á víða og á mörgum, ólíkum vígsstöðvum undir högg að sækja af völdum mannsins. Náttúran, sem til skamms tíma var margfaldur ofjarl mannsins, er nú mikið til umsetin af honum – náttúrleg svæði og vistkerfi hverfa eitt af öðru undir ræktun eða framkvæmdir, lífverur deyja út með ógnvænlegum hraða, ónáttúrlegum og mengandi efnasamböndum er dreift um gjörvallt lífhvolfið, jafnvel gangverki jarðar sem heild er breytt eða spillt vegna loftlagshlýnunar og þynningar ósónlagsins. Það virðist blasa við að mannkynið hefur verið og er á hraðri leið með að valda víðfeðmri eyðileggingu á náttúrunni – lífverum hennar, fyrirbærum og ferlum – og sú staðreynd hlýtur að lágmarki að kalla á það að gerendurnir staldri sem snöggvast við og spyrji: Fær það virkilega staðist að slík breytni sé á engan hátt röng – er eyðilegging af þessum toga ekki ósiðleg í neinum skilningi – megum við gera hvað sem okkur sýnist við náttúruna?!

Hliðstæðar efasemdir um „náttúruleysi“ siðfræðinnar má einnig leiða fram með því að huga að jákvæðari þáttum í samskiptum manns og náttúru. Maðurinn er náttúrleg vera, því verður varla neitað – hann er fæddur af náttúrunni, hefur lífskraft sinn frá henni og er henni háður um flestar lífsnauðsynjar sinar. Maðurinn er jafnframt aðeins lítill hluti náttúrunnar – ein þeirra hundruð milljóna lífverutegunda sem komið hafa fram á jörðu, eitt fyrirbæri af óteljandi mörgum (lifandi og lífvana) sem náttúran hefur skapað. Náttúran er upphaflegur, sjálfstæður veruleiki sem umlykur okkur mennina og myndar grunn að tilveru okkar, bæði í efnislegum og andlegum skilningi, en lýtur í engu löngunum okkar eða hugmyndum – náttúran fer sínu fram án nokkurs tillits til þess sem maðurinn kann að vilja. Og því fer víðsfjarri að maðurinn hafi náð nokkurri stjórn á kröftum hennar til sköpunar eða eyðileggingar. Af ofansögðu vakna því spurningar eins og þessar: Ber okkur ekki að taka tillit til þeirra krafta sem gáfu okkur líf og leyfa okkur að viðhalda því – eiga aðrar náttúrlegar verur og fyrirbæri sér ekki einhvern tilverurétt – berum við mennirnir í raun og veru enga ábyrgð á þeirri eyðileggingu sem athafnir okkar valda úti í náttúrunni?!

Ef við getum fallist á það að ljá efasemdum sem þessum eyra, þá opnast þar með líka sá möguleiki að veita náttúrunni „beina hlutdeild“ í siðfræðilegri umræðu. Á hvaða forsendum sú hlutdeild væri veitt eða upp að hvaða marki er þó engan veginn ljóst, enda um það mjög skiptar skoðanir eins og nánar verður greint frá hér á eftir.

Náttúrusiðfræðin (environmental ethics) er tiltölulega ung fræðigrein sem fyrst tók verulega að kveða að fyrir u.þ.b. þremur áratugum.3 Eftir á að hyggja er það vissulega umhugsunarvert að fram til þess tíma þótti siðfræðingum almennt ekki ástæða til að beina sjónum sínum að náttúrunni – viðfangsefni þeirra snerust nánast alfarið um samskipti manna á meðal, helstu undantekningarnar vörðuðu álitamál um mannúðlega meðferð á dýrum. Þótt tíminn frá tilurð náttúrusiðfræðinnar sé ekki langur er óhætt að segja að hún hafi sprungið út af miklum krafti – svo miklum raunar að það er talsvert mál að henda reiður á öllum þeim ólíku kenningum og sjónarmiðum sem sprottið hafa fram. Til einföldunar má þó skipta náttúrusiðfræðingum í þrjár meginfylkingar m.t.t. þess hvort þeir aðhyllist mannhverfa, lífhverfa eða visthverfa afstöðu til náttúrunnar.4

Þeir sem taka mannhverfa (anthropocentric) afstöðu til náttúrunnar setja, eins og nafnið bendir til, manninn í öndvegi sinna kenninga. Hugmyndir þeirra um umhverfis- og náttúruvernd hverfast um manninn – maðurinn er í miðju slíkra kenninga, bæði sérstaða hans í heiminum en þó kannski umfram allt nauðsyn þess að tryggja öryggi hans, heilsu og velferð. Í hnotskurn líta flestir mannhverfir umhverfisverndarsinnar svo á að velferð manns og náttúru sé samantvinnuð; maðurinn lifi á náttúrunnar gæðum og þau gæði verði að varðveita, annars sé tilveru mannkyns stefnt í voða. Hina mannhverfu greinir þó innbyrðis talsvert á um það hvort – og þá hversu langt – hægt er að hleypa náttúrunni inn í ríki siðferðisins. Hinir „sterk-mannhverfu“ hneigjast almennt að því að náttúran sem slík komi siðfræðinni ekkert við, það eina sem máli skiptir séu þau áhrif sem tilteknar framkvæmdir eða athafnir hafi á menn, góð eða slæm eftir atvikum. Í sinni sterkustu mynd þýðir þetta að öllum siðferðislegum hömmlum er aflétt í umgengni manna við náttúruna – menn geta gert hvað sem er úti í náttúrunni, svo framarlega sem þeir skaði ekki með því aðra menn. Rökin eru þá þau sem ég rakti hér á undan – náttúran hefur ekki siðferðisvitund og verðskuldar því enga virðingu af hálfu okkar mannanna. Hún býr aukinheldur hvorki yfir vitund né vilja og getur því ekki sjálf orðið fyrir neinum „skaða“ sem merkingarbær getur talist (sjá t.d. Þorstein Hilmarsson 1994).

Afstaða hinna „veik-mannhverfu“ er ekki svona afdráttarlaus; þeir benda á að slæm umgengni við náttúruna, jafnvel þótt hún skaði engan mann, sé eins og hver annar slóðaskapur eða niðurrifsháttur – náttúran sé merkilegt fyrirbæri og það að skemma hana að óþörfu eða eingöngu til að svala skammtímalöngunum örfárra manna sé engan veginn réttlætanlegt. Menn komist ekki hjá því að setja sér einhverjar hömlur í umgengi sinni við náttúruna. Slíkar hömlur geti t.d. átt sér fyrirmynd í því hvernig menn umgangast ýmis manngerð fyrirbæri eins og listaverk og önnur menningarverðmæti. Hinir veik-mannhverfu gætu líka bent á að náttúran búi yfir margvíslegum verðmætum og notum sem okkur eru enn ekki kunn – það sé því varasamt að eyðileggja lífverur hennar og fyrirbæri nema brýn lífsþörf liggi við. Af svipuðum meiði væru röksemdir þess efnis að þekking okkar á gangverki náttúrunnar væri það ófullkomin að við gætum ekki séð fyrir allar afleiðingar þess að breyta henni – slíkar ófyrirséðar afleiðingar eyðileggingarinnar gætu hæglega komið manninum í koll síðar.5

Í hnotskurn má segja að hin veikmannhverfa afstaða til náttúrunnar felist í þeirri skoðun að hagur manns og náttúru sé svo samofinn að allar meiriháttar breytingar á gangverki náttúrunnar muni fyrr eða síðar koma manninum sjálfum í koll. Það sé því manninum fyrir bestu að varðveita náttúrlega ferla og fjölbreytileika í því sem næst upprunalegu ástandi því þannig geti mannkynið best tryggt sína eigin afkomu þegar til lengri tíma er litið. Forgangsröðunin er samt sem áður skýr – þótt hinum veik-mannhverfu standi alls ekki á sama um velferð náttúrunnar sem slíkrar, þá er það samt velferð manna sem höfuðmáli skiptir; náttúran er í öðru sæti, hún nýtur góðs af viðleitni manna til að tryggja eigin tilveru. Náttúran hefur sjálf enga siðferðisstöðu.

Gegn hinni mannhverfu hugsun rísa náttúruhverfu (non-anthropocentric) fylkingarnar tvær; þ.e. þeir sem aðhyllast lífhverfa (biocentric) eða visthverfa (ecocentric) afstöðu til náttúrunnar. Það sem sameinar þessar tvær ólíku fylkingar er einkum andstaða við hugmyndina um algjöra sérstöðu mannsins í heiminum, ásamt andstöðu við hina mannhverfu sýn á náttúruna sem af henni leiðir. Hinir náttúruhverfu telja þessa mannhverfu sýn sem ríkt hefur á Vesturlöndum a.m.k. frá tímum iðnbyltingarinnar vera undirrót allra helstu umhverfisvandamála samtímans, hvort sem slík vandamál snúa að vítaverðri meðferð á dýrum og öðrum lífverum (meginviðfangsefni hinna lífhverfu) eða að tegundaútdauða og eyðileggingu vistkerfa (viðfangsefni hinna visthverfu). Með töluverðri einföldun má segja að náttúruhverfar hugmyndir byggist á harðri gagnrýni á þá sýn sem klýfur manninn frá náttúrunni og setur hann því næst í drottnunarstöðu gagnvart henni – í hásæti þar sem maðurinn er yfir náttúruna hafinn og telur sig mega ráðskast með hana að vild. Afleiðingarnar gefur að líta allsstaðar í kringum okkur í formi ótal vandamála sem óbeisluð drottnunargirnin hefur skapað. Eina leiðin út úr þessum vanda er að snúa algjörlega við blaðinu – hætta að líta á umhverfis- og náttúruvernd út frá hagsmunum eða löngunum mannsins og reyna í staðinn að hugsa um hana fyrst og fremst út frá velferð náttúrunnar og/eða þeirra lífvera sem í henni búa.

Þrátt fyrir ofangreind samkenni lífhverfu og visthverfu fylkinganna er fjölmargt – og jafnvel miklu fleira – sem skilur þær að. Hvor fylking um sig er raunar mjög fjölbreytt að „innri gerð“ – þar finnast fjölmargir, ólíkir armar eða flokkar sem ekki eru endilega sammála um þau atriði sem mestu máli skipta í þeirri viðleitni að færa samskipti manns og náttúru til betri vegar.

Hinir lífhverfu leggja megináherslu á velferð einstakra dýra eða jafnvel alls sem lífsanda dregur. Þeir benda á það að allt tal um „sérstöðu“ mannsins leiði menn á siðferðilegar villigötur. Maðurinn búi sem tegund vissulega yfir ýmsum sérstökum eiginleikum, svo sem siðferðilegri dómgreind, rökhugsun eða hæfileika til táknbundinna tjáskipta, en slíkir eiginleikar séu á engan hátt merkilegri en séreiginleikar annarra dýra, til að mynda sjónskyn arnarins, þefskyn laxfiska eða „radarflug“ leðurblökunnar. Ef grannt er skoðað, þá búa allar tegundir lífvera yfir einhverjum eiginleikum sem aðra lífverur hafa ekki og sem skapa þeim því „sérstöðu í heiminum“. Þess vegna er viðleitni hinna mannhverfu til að aðgreina manninn frá náttúrunni á forsendum einhvers slíks eiginleika eingöngu til marks um „tegundahyggju“ þeirra (specieism) sem líkt og kynþáttahyggja (racism) eða kynjamismunun (sexism) leitast við að upphefja einn tiltekinn hóp á kostnað annarra. Tegundahyggjan leiðir menn síðan út í „mannrembu“ (human chauvinism), þá hugmynd að maðurinn megi ráðkast með dýrin og náttúruna að vild vegna þess að hann sé svo miklu merkilegri en þau. Í hnotskurn má segja að meginviðleitni hinna lífhverfu sé að skilgreina hugtakið „siðferðisvera“ uppá nýtt, þannig að það byggist á forsendum sem hvorki eru lituð af tegundahyggju né mannrembu. Forsendurnar sem þeir leggja til grundvallar eru töluvert ólíkar og læt ég hér nægja að geta þess að þær feli almennt í sér útvíkkun á ríki siðferðisins þannig að dýrum og jafnvel öllum lífverum sé gert kleift að komast þar inn fyrir dyr.6

Ólíkt hinum lífhverfu, sem aðallega beina sjónum sínum að því hvernig tryggja megi velferð einstakra dýra eða lífvera, horfa visthverfir fyrst og fremst til varðveislu náttúrulegra heilda á borð við vistkerfi og tegundir. Þeir benda á að vistkerfin – eða hið margslungna samspil lifandi og lífvana náttúru sem þau eru til marks um – myndi undirstöðu og jafnframt umgjörð alls lífs á jörðinni. Að mati visthverfra er heildin sem slík mikilvægari en þær einstöku lífverur eða náttúrufyrirbæri sem undir hana falla og því er dauði eins einstaklings ekki mikið tiltökumál svo framarlega sem stofninn, tegundin, líffélagið eða vistkerfið beri ekki skaða af. Visthverfir náttúrusiðfræðingar líta jafnframt svo á að maðurinn sé aðeins einn hluti náttúrunnar og hafi sem slíkur enga siðferðilega sérstöðu umfram aðra hluta hennar. Maðurinn er einungis ein fjölmargra tegunda sem eigi lífshagsmuna að gæta í því líffélagi/vistkerfi sem þessar tegundir í sameiningu mynda og því sé engan veginn gefið að hagsmunir manna eigi að hafa þar nokkurn forgang fram yfir hagsmuni annarra lífvera.

Ennfremur líta hinir visthverfu svo á að ef hagsmunir mannsins og velferð heildarinnar rekast á, til dæmis ef sókn manna eftir lífsgæðum ógnar heilsu eða stöðugleika vistkerfisins, þá sé eðlilegra að maðurinn láti sérhagsmuni sína víkja fremur en að valda óbætanlegum skaða á þeirri heild sem líf hans, sem og annarra lífvera, byggist á. Þessu mætti á einfaldan hátt lýsa þannig að vistkerfið – sem samnefnari allra lífvera og fyrirbæri sem í því finnast – beri í sér öll þau verðmæti sem hver einstakur hluti þess hefur í sér fólginn og því hljóti hagur vistkerfisins ávallt að vega þyngra en hagsmunir einstaklinga eða einstakra stofna sem því tilheyra. Raunar mætti hér ganga heldur lengra og segja að vistkerfið – sem undirstaða og umgjörð alls lífs og einnig sem vettvangur og drifkraftur þróunar – búi yfir ákveðnum verðmætum sem ekki verða rakin til einstakra lífvera eða fyrirbæra innan þess og að slík verðmæti „bætist ofaná“ önnur, einstaklingsbundin verðmæti sem til staðar eru í viðkomandi vistkerfi.7

Að lokum er rétt að minnast á það að visthverfir hugsuðir líta flestir svo á að náttúran búi yfir gildi sem er óháð hagsmunum eða löngunum mannsins. Þetta er raunar eitt stærsta ágreiningsefnið milli visthverfu og mannhverfu fylkinganna því hinir síðartöldu telja fráleitt að náttúran geti búið yfir nokkru öðrum verðmætum en því sem maðurinn eignar henni. Gildi náttúrunnar er því ávallt og einvörðungu einhvers konar nytjagildi í augum mannhverfra – náttúran nýtist manninum á einhvern hátt og verður fyrir vikið verðmæt. Nytjarnar geta verið margvíslegar – maðurinn notar orku fallvatna til að knýja túrbínur í raforkuverum (hagrænt gildi) en hann dáist hugsanlega einnig að fossunum sem kunna að vera í þessum sömu fallvötnum eða gljúfrunum sem þau hafa grafið (fagurfræðilegt gildi). Hann fyllist undrun yfir fyrirbærum náttúrunnar og reynir að öðlast skilning á þeim (vísindalegt gildi) – stundum sér til hagsbóta, stundum fyrir hreinar forvitnissakir.8 Þannig mætti lengi telja. Í allri þessari verðmætasköpun er náttúran þó fullkomlega óvirk, hún á sjálf engan hlut að máli – verðmæti geta ekki orðið til nema einhver leggi mat á þau og maðurinn er eina veran sem býr yfir þeim hæfileika. Maðurinn er þar með metandi og mælikvarði alls; allt sem á annað borð er verðmætt í náttúrunni, er verðmætt fyrir tilstuðlan hans.

Hinir visthverfu líta verðmætasköpunina – sem og samskipti manns og náttúru þaraðlútandi – allt öðrum augum. Þeir benda á að grunnur allra verðmæta, hvort sem þau nýtast manninum eða öðrum lífverum, er að finna í náttúrlegum ferlum. Það er náttúran sem sískapandi og sjálfstæður veruleiki sem leggur öll þessi verðmæti til og það er síðan algerlega undir hælinn lagt hvort maðurinn hefur vit eða kunnáttu til að nýta þau og meta sem skyldi. Án náttúrunnar væru engin slík verðmæti til staðar. Hyrfi maðurinn af yfirborði jarðar væri náttúran eftir sem áður uppfull af verðmætum, t.a.m. þau sem felast í nytjum einnar „ómennskrar“ lífveru fyrir aðra eða í því gildi sem hver lífvera, hver tegund og hvert vistkerfi býr yfir sem slík. Vissulega myndu sumar gerðir verðmæta (hagrænt gildi, vísindalegt gildi) hverfa með manninum – en þau verðmæti eru þó aðeins lítill hluti „gæðalitrófsins“ og aukinheldur lítið brot þeirra verðmæta sem náttúran er stöðugt að skapa. Sá sem heldur hinu gagnstæða fram, segja hinir visthverfu, er í raun að segja að náttúran sjálf sé einskis virði – hvers konar náttúruverndarstefnu er hægt að byggja á slíkum grunni?

Hér verður ekki reynt að leysa úr ofangreindu eða öðrum deilumálum milli náttúrusiðfræðinga af ólíkum toga. Það sem fyrir mér vakir er fyrst og fremst að benda á tilvist þessa litrófs, þessara ólíku hugmyndakerfa sem takast á innan náttúrusiðfræðinnar, í þeirri von að vitneskja um þá fræðilegu vinnu sem unnin hefur verið á þessu sviði geti auðveldað lesandanum að átta sig á eigin hugmyndum um samskipti manns og náttúru.9 Umhverfismálin eru alla jafnan álitamál þar sem manneskjur með ólíkar skoðanir takast á – stundum æði hatrammlega eins og dæmin sanna. Ein helsta forsenda þess að lausn geti mögulega fundist er að deiluaðilar skýri mál sitt, þannig að öllum geti verið ljóst hvaða (og hvers konar) rökum er verið að etja saman og hvaða (og hvers konar) verðmæti eru talin í húfi. Oft hef ég haft það á tilfinningunni að deiluaðilar í umhverfismálum tali „á skjön“ hvor við annan; þeir noti hugtök á ólíkan hátt, rugli saman verðmætum af ólíkum toga og hoppi frá einni tegund raka yfir í þá næstu, án þess að hugsa málið á neinu stigi til enda.

Náttúrusiðfræðin býður auðvitað ekki upp á neina allsherjarlausn á slíkum vandamálum (!) en getur samt – eða svo vona ég – lagt til ákveðinn ramma fyrir þessa umræðu, m.a. með því að skýra hugtök, greina verðmæti og reyna að kanna einstakar rökfærslur ofan í kjölinn. Jafnframt tel ég mikilvægt að fræðimenn innan ólíkra fylkinga haldi áfram þeirri vinnu sem hófst fyrir aðeins þremur áratugum eða svo, jafnvel þótt þeir vinni hver í sínu horni – umhverfismálin hafa fært siðfræðinni ný viðfangsefni, nýtt land sem hún er rétt byrjuð að fóta sig á. Hvert sú fræðilega vinna mun að endingu leiða er erfitt að spá en fyrir mína parta tel ég þó sýnt að þörf sé á kenningagrunni sem í senn stendur vörð um öryggi, heilsu og lífsafkomu manna; leitast við að draga sem mest úr óþarfa þjáningu dýra og sýnir náttúrunni og verðmætum hennar tilhlýðilega virðingu. Sem stendur er engin slík kenning í sjónmáli en ég tel samt sem áður ljóst að ágreiningurinn milli flestra náttúrusiðfræðinga snýst ekki um það hvort náttúran og samskipti manna við hana verðskuldi siðferðilega yfirvegun heldur hvaða forsendur menn ættu að leggja slíkri yfirvegun til grundvallar.

Að lokum, ein stutt tilvitnun sem ég eftirlæt lesendum til umhugsunar:

Only the human species contains moral agents, but perhaps conscience on such an earth ought not to be used to exempt every other form of life from consideration, with the resulting paradox that the sole moral species acts only in its collective self-interest towards the rest.10

 

Tilvísanir

1. Nokkur inngangsrit um siðfræði eru til á íslensku, t.a.m. Páll Skúlason (1990b).

2. Á ensku hljóðar þessi regla þannig: „Human beings are at the centre of concerns for sustainable development. They are entitled to a healthy and productive life in harmony with nature“ (sjá t.d. UNEP 1992). Samkvæmt fyrri setningunni í tilvitnuninni hér að ofan mætti raunar ætla að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar byggði klárlega á mannhverfum grunni – en umfjöllun um það efni verður að bíða betri tíma.

3. Upphaf fræðastarfs á þessu sviði hérlendis má rekja til greinar Páls Skúlasonar „Siðfræði náttúrunnar“ sem birtist í Dýralæknaritinu í maí 1990. Páll hefur birt ýmsar greinar um náttúrusiðfræði í bókum sínum en ítarlegustu umfjöllun hans er að finna í ritinu Umhverfing.

4. Rétt er að taka fram að þessar fylkingar þrjár eru alls ekki bundnar við fræðaheiminn, þær eiga sér sterka samsvörun í starfsemi og hugmyndafræði ólíkra umhverfis- og náttúruverndarsamtaka (ekki síst erlendis) og einnig í hugmyndum hins almenna borgara um náttúruna, eðli hennar og verðmæti.

5. Meðal veik-mannhverfra náttúrusiðfræðinga má nefna John Passmore og Bryan G. Norton.

6. Þekkustu fulltrúar lífhverfu fylkingarinnar eru án efa dýraverndunarsinnarnir Peter Singer og Tom Regan en um kenningar þeirra hvors um sig hafa myndast hópar sem kenna sig, annars vegar, við dýrfrelsun (animal liberation) og, hins vegar, við dýrréttindi (animal rights). Singer og Regan eru útvíkkunarsinnar í þeim skilningi að þeir benda báðir á ákveðna grunneiginleika (hæfileika til að skynja sársauka og ánægju eða vitund um eigin tilvist) sem eru sameiginlegir með mönnum og a.m.k. vissum hópi annarra dýra; ef slíkir eiginleikar skapi mönnum siðferðisstöðu þá hljóti hið sama að gilda um öll dýr sem búa yfir samskonar eiginleikum. Sumir lífhverfir hugsuðir ganga þó mun lengra en Singer og Regan, t.a.m. Paul Taylor sem telur að okkur sé skylt að auðsýna öllum lífverum virðingu vegna þess að allt sem lifir hafi ákveðinn tilgang eða markmið í sér fólgið –að viðhalda því lífi sem í því býr.

7. Visthverfa fylkingin skiptist – eins og hinar tvær – í nokkra ólíka flokka. Munurinn á milli flokkanna er að mestu leyti áherslumunur: J. Baird Callicott (sem byggir kenningar sínar að verulegu leyti á skrifum bandaríska líffræðingsins Aldo Leopold) leggur mesta áherslu á manninn sem hluta (eða þegn) hins lífræna samfélags; Holmes Rolston III leggur megináherslu á tilvist og mikilvægi eigingildis í náttúrunni (þ.e. verðmæta sem náttúran sjálf skapar og sem eru óháð mati eða löngunum mannsins), en kjarninn í kenningum Arne Næss er hugmyndin um samsömun (identification) með náttúrunni sem leið til að yfirstíga hið afmarkaða sjálf einstaklingsins og sameinast (eða komast í snertingu við) hið stærra, altumlykjandi Sjálf sem hver einstakur maður – og hver einstök lífvera eða náttúrufyrirbæri – er hluti af. Flestir visthverfir hugsuðir telja jafnframt að siðferðið geti – og hafi – þróast með þeirri afleiðingu að ríki siðferðisins er stöðugt að stækka; sífellt fleiri aðilar hafi fengið þar inngöngu í gegnum tímans rás. Slíkar hugmyndir eru náskyldar þeim sem Róbert H. Haraldsson (1994) hefur sett fram um „útfærslu á landamærum hluttekningar“.

8. Raunar er afar hæpið að telja fegurðarreynslu til „nytja“ í sama skilningi og þau afnot sem maðurinn hefur af náttúrunni til að knýja rafmagnstúrbínur. Sama gildir um vísindarannsóknir, þótt niðurstöður þeirra geti skilað hagrænum ávinningi. Vissulega er hægt að selja aðgang að fagurri náttúru en nytjarnar sem slíku fylgja eru ekki af náttúrunni sjálfri heldur af náttúruskoðandanum (t.d. erlendum ferðamanni) sem er tilbúinn að greiða fyrir það að eiga kost á fegurðarupplifun úti í náttúrunni. Það sem náttúruskoðandinn síðan upplifir – ekki síst ef náttúran fæst til „að brosa við honum“, sýna honum sínar bestu hliðar – er vissulega verðmætt en gildi þeirrar upplifunar sem slíkrar er ekki hagrænt á nokkurn hátt, það er fagurfræðilegt. Sambandið milli þess sem nýtur og þess sem notið er er einnig allt annars eðlis (og alla jafnan mun nánara) en sambandið milli þess sem nýtir og þess sem verið er að nýta.

9. Taka skal skýrt fram að það flokkunarkerfi sem hér er kynnt til sögunnar er fyrst og fremst hugsað sem greiningartæki – það er einskonar „áttaviti“ sem lesendur geta notað til að átta sig á þeirri ólíku orðræðu um umhverfismál sem fyrir þá ber (ekki síst í opinberri umræðu eða „daglegu tali“) og einnig eins og getið var í meginmáli, til að setja sínar eigin hugmyndir um samskipti manns og náttúru í stærra, skipulegra samhengi. Varast ber að nota hugtökin mannhverf(ur), lífhverf(ur) eða visthverf(ur) til að „brennimerkja“ skoðanir (eða einstaklinga) sem eru greinandanum ekki að skapi (!) – slík beiting greiningartækisins (áttavitans) eyðileggur leiðsagnargildi þess.

10. Rolston 1993, 135.

 

HEIMILDIR

Páll Skúlason 1990a: Siðfræði náttúrunnar. Dýralæknaritið, 13–20.

Páll Skúlason 1990b: Siðfræði. Um erfiðleika í siðferði og forsendur ákvarðana. Reykjavík: Rannsóknarstofnun í siðfræði.

Páll Skúlason 1998: Umhverfing. Um siðfræði umhverfis og náttúru. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Rolston III, Holmes 1993 [1991]: Challenges in Environmental Ethics. Í: M.E. Zimmerman og J.B. Callicott (ritstj.), Environmental Philosophy. From Animal Rights to Radical Ecology. Englewood Cliffs: Prentice Hall. Bls. 135–157.

Róbert H. Haraldsson 1994: Náttúrusýn, hluttekning og siðferði. Í: Róbert H. Haraldsson og Þorvarður Árnason (ritstj.), Náttúrusýn. Safn greina um siðfræði og náttúru. Reykjavík: Rannsóknarstofnun í siðfræði. Bls. 105–110.

Umhverfisráðuneytið 1992: Heimsráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, Rio de Janeiro 13.-14. júní 1992. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.

United Nations Environment Programme 1992: Rio Declaration on Environment and Development. http://www.unep.org/unep/rio.htm.

Þorsteinn Hilmarsson 1994: Þekking og siðferði í umgengni við náttúruna. Í: Róbert H. Haraldsson og Þorvarður Árnason (ritstj.), Náttúrusýn. Safn greina um siðfræði og náttúru. Reykjavík: Rannsóknarstofnun í siðfræði. Bls. 105–110.

Greinin birtist áður í Landabréfinu, Tímariti Félags landafræðinga, árið 2002

 

« Til baka

Tengsl við aðra, tengsl við náttúruna

eftir Gabriel Malenfant

I. Grundvallarspurningarnar

Vaxandi áhyggjur af umhverfismálum, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar í heiminum, gera það að verkum að sígild gildi hvað varðar tengsl okkar við náttúruna, siðferðileg og/eða fagurfræðileg, verða mörgum hugleikin og þar með hluti af samskiptum fólks. Slík áhrifatengsl við ómanngert umhverfi, þ.e.a.s. það umhverfi sem hefur engin manngerð sérkenni til að bera, hafa hins vegar lítið að segja þegar ákvarðanir sem varða framtíð og stjórnun umhverfisins eru teknar á sviðum iðnvæðingar og stjórnmála. Að mínu áliti kristallast þetta misræmi í tveimur spurningum. Annars vegar er það spurningin hvers konar gildi við eignum náttúrunni. Hins vegar er það spurningin hvernig við getum mælt og borið saman þessi gildi við stefnumörkun og í þær sameiginlegu aðgerðir sem valda breytingum á ómanngerðu umhverfi. Þrátt fyrir að þessar tvær hliðar á vandamálinu séu óumdeilanlega jafn mikilvægar, þá fer ekki heldur á milli mála að fyrri spurningunni verður að gera fullnægjandi skil til þess að þeirri síðari verði svarað. Þess vegna mun ég hér fyrst bjóða upp á stutta samantekt um þau gildi sem fólk telur sig sjá í náttúrunni og sambandið á milli þessara gilda.

Rannsóknir mínar á því sem hefur verið skrifað um umhverfissiðfræði hafa leitt mikilvægt atriði í ljós. Reynslan kennir að varla er hægt að koma böndum á þá ofgnótt umhverfisgilda sem blasir við í þessum ritum. Hagnýt og óhagnýt gildi virðast til dæmis gjarnan ósamanburðarhæf og eins og staðan er í dag hefur umhverfissiðfræðinni mistekist að koma böndum á það vandamál. Ég hef því reynt að þróa í heimspeki minni gagnrýnið viðhorf til helstu skiptingarinnar innan umhverfissiðfræðinnar, þ.e.a.s. á milli mannhverfs viðhorfs og hins sem hafnar allri mann­hverfingu. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að bregðast við þessari aðgreiningu þar sem hún oftar en ekki leiðir mann á villigötur.

II. Að forðast ákveðna tvíhyggju

Þeir sem gagnrýna mannhverf viðhorf geta verið mjög sannfærandi í gagnrýni sinni þegar þeir benda á að mannhverfingin geti ekki gert grein fyrir margs konar gildum sem með réttu er hægt að gera ráð fyrir í náttúrunni vegna hefða eða vegna heimspekilegra, andlegra eða siðferðilegra rannsókna. Mér sýnist þetta vera augljóst. Gagnrýni þeirra gleymir hins vegar oft að taka tillit til manngerðs eðlis þeirra eigin viðhorfs. Það er stutt heildrænni heimssýn sem gerir annað hvort ráð fyrir að náttúran hafi gildi í sjálfri sér (við getum nefnt visthverfar kenningar Naess og Leopolds sem dæmi) eða byggir á hæpinni færslu frá því sem er og þess sem manni ber að gera (eins og sjá má dæmi um í lífhverfri heimspeki Taylors og vistfemínisma Cheneys). Hins vegar er engum blöðum um það að fletta að niðurstaðan af þessum kenningum er sú að þær bjóða sjaldan upp á beitingu verklegrar skynsemi, sem svo aftur hindrar að við getum svarað seinni spurningunni sem varpað var fram í upphafi þessarar greinargerðar. Ef þær gera það hins vegar (sem nokkrar ómannhverfar kenningar gera vissulega) þá bregðast þær engu að síður hvað varðar ótvíræðar rökfærslur fyrir þeim grunni sínum sem á að renna stoðum undir gildi ómanngerðrar náttúru. Það getur því verið erfitt að velja á milli þeirra ómannhverfu kenninga sem standa til boða. Til dæmis virðist ekki mega vísa til neins sem hefur sprottið af mannlegum athöfnum eða skoðunum sem einhvers konar fyrirmyndar til þess að skera úr um hvaða kenning hefur mest fram að færa þegar kemur að samanburði gilda. Að sama skapi virðist það hafa lítið hagnýtt gildi að gera ráð fyrir að náttúran hafi til að bera gildi í sjálfri sér.

Þetta breytir þó ekki því að mannhverft gildismat í umhverfismálum býður einungis upp á mjög takmarkað svar við fyrri spurningunni að ofan. Í dag er svara helst leitað á sviði umhverfisfræði, en hún byggir á hinum frjálsa markaði, umhverfishagfræði eða visthagfræði. Ég er sannfærður um að þrátt fyrir að þessar kenningar reyni að leggja til gildi sem eru ekki hagnýt í strangasta skilningi þá geti þær ekki tengt sig við fjölmörg mikilvæg gildi. Þar eru siðferðileg gildi auðvitað mikilvægust. Að mínu áliti er ástæðan sú að ólíkt þeim heimspekingum sem eru andsnúnir mannhverfu viðhorfi, þá tengjast þeir sem hallast að hinu mannhverfa viðhorfi þeirri skoðun nánum böndum (skoðun sem er svo aftur nátengd Hobbes) að maðurinn stjórnist af sérhags­munagæslu. Það er ekki nóg með að þessi skoðun geri ekki ráð fyrir að gildi geti átt sér aðra forsendu en þá sem tengist persónulegum vilja (þá á ég við hagsýnt gildismat), hún gerir heldur ekki ráð fyrir að þessi vilji skoðist í siðferðilegu ljósi. Við þurfum því annars vegar að taka tillit til ómannhverfs viðhorfs, sem oftar en ekki byggist á mjög vafasömum trúarsetningum, og sem varla gerir ráð fyrir verklegri skynsemi (og sem þar af leiðandi snertir ekki á áhugaverðum spurningum), og hins vegar stöndum við andspænis takmörkuðu mannhverfu viðhorfi sem getur ekki tekist á við öll þau margvíslegu svið gilda sem menn tengja náttúrunni.

Þessi stutta samantekt hér að ofan er sett fram til þess að koma því mikilvæga atriði á framfæri að aðgreiningin milli mannhverfs og ómannhverfs viðhorfs í umhverfissiðfræði truflar fræði­greinina fremur en að gera gagn. Þessi togstreita getur þó varpað ljósi á hvernig hin siðferðilega hlið umhverfismála á það til að gleymast. En hvernig væri þá að velta fyrir sér gildum ómanngerðs umhverfis útfrá því gildi sem þetta umhverfi getur haft fyrir annað fólk fremur en útfrá eigin hagsmunum eða þeim gildum sem þetta umhverfi á að hafa í sjálfu sér? Væri ekki til nokkurs unnið að geta haldið eftir (sam)mannlegu siðferðismati og vangaveltum án þess að þurfa að fallast á meginstef mannhverfingarinnar; sérstaklega ef það tækist án þess að nauðsynlegt sé að fallast á skylduboð eða nytjastefnu? Hvernig væri að við reyndum að þróa einhvers konar viðhorf sem miðast fyrst og fremst við aðra, umhverfissiðfræði sem snýst um aðrar mannlegar verur?

Þessi hugmynd hefur ekki verið orðuð á þennan hátt innan fræðigreinarinnar (ég hef sjálfur nýtt mér og mótað heimspekilega hugtakið „allocentrism“ [sem má þýða sem „hin-hverfa“ andstætt „sjálf-hverfu“]), en hún stendur hins vegar ekki í neinni andstöðu við kenningar Bryans G. Norton, Avners de-Shalit, Jannas Thompson eða Andrews Light svo dæmi séu tekin. Ætlun mín er að setja gildi þess að reynsla af náttúrunni breytir hugmyndum okkar um okkar sjálf og heiminn (Norton) og gildi náttúru sem menningar og arfleifðar (de-Shalit og Thompson) í annars konar samhengi. Ég tel nauðsynlegt að komast eins langt og mögulegt er frá öllu því sem snertir ágreiningin um mannhverfinguna, jafnvel enn lengra en Light kemst með verkhyggju sinni. Til þess að geta haldið því fram að umhverfismál séu siðferðileg í eðli sínu fremur en spurning um hagsýni (jafnvel þegar ómanngert landslag er til umræðu) þá verð ég að veikja grundvöll þeirra kennisetningar Hobbes að hinn siðferðilegi gerandi stjórnist aðeins af sérhagsmunum. Enn í dag sér maður ekki betur en þessi kennisetning lifi góðu lífi í stjórnmálum og hagfræði. Með öðrum orðum: Ég verð að sýna fram á að kennisetningin byggi á röngum forsendum um manninn. Við verðum að sjá siðfræðina fyrir okkur sem hina fyrstu heimspeki.

III. Levinas og gildismat fyrir tilstilli annarra

Heimspekingurinn Emmanuel Levinas býður upp á öll nauðsynleg úrræði til þess að bregðast við Hobbes. Ég ætla honum þó hvorki að vera andstæðingur Hobbes né einhvers konar verndar­engill yfir öllu sem ég vil segja. Það væri einfaldlega rangt að halda því fram að heimspeki hans væri fullkomlega andsnúin kenningum Hobbes. Þeir eru sammála um allt nema tvö mikilvæg atriði: Þá greinir á um uppruna siðfræðinnar og samband siðfræði og stjórnmála.

Hobbes hefur auðvitað rétt fyrir sér með því að styðja einhvers konar samvinnu sem lausn þess vandamáls að öllum mönnum stafi ógn hver af öðrum. Það sem Levinas gerir er að hann spyr hvernig raunveruleg samvinna eigi að vera möguleg þar sem áhersla á sérhagsmuni sé óumflýjanleg. Hann stingur því upp á að siðferðið sé skilyrði samvinnu og því komi siðfræðin á undan stjórnmálunum (og jafnvel verufræðinni). Samkvæmt Levinas á siðfræðin sér uppruna í ósamhverfu þess siðfræðilega ójöfnuðar þegar einum manni finnst hann þurfa að breyta í þágu einhvers annars. Í stað þess að gera eins og Hobbes og smella saman siðfræði og stjórnmála­heimspeki í eina heildstæða kenningu, þá er Levinas umhugað um að benda á þau grundvallar­skil sem eru á milli þessara sviða. Ósamhverfa siðferðisins kemur því á undan stríði allra gegn öllum, á undan samvinnu, jafnrétti og jafnvel sérhagsmunum. Maður fæðist ekki sem rökleg og útsmogin vera. Það að aðrir eru til er forsenda þess að ég á mér huglæga tilveru.

Ég get með engu móti gert heimspeki Levinas almennileg skil í svo stuttu máli og því óþarfi að dvelja um of við þetta atriði. Ég vil einfaldlega koma þremur atriðum á framfæri. Í fyrsta lagi er þessi hugsun hans ein leið til að hafna þeirri skoðun Hobbes að gagnkvæmni sé grunnur alls siðferðis. Um leið get ég þó stutt þá greiningu Hobbes að jafnræði og samvinna sé grundvöllur stjórnmálalífsins. Þessi atriði skapa saman algjörlega nýjan grundvöll til þess að nálgast siðfræði og gildismat umhverfsins. Í öðru lagi er hugsun Levinas þeim kostum gædd að hún krefst ekki þeirrar „heildrænu sundrunar“ milli hins huglæga viðhorfs og gildismats sem oft má finna innan kenninga þeirra sem boða ómannhverf viðhorf til náttúrunnar. Þessi hugsun er þó ekki þess eðlis að hún dragi neinn í átt að þeirri heimsmynd eiginhagsmuna sem margir heimspekingar og hagfræðingar aðhyllast. Í þriðja og síðasta lagi þá opnar þessi hugsun leið að umhverfissiðfræði sem gerir ráð fyrir að samband einstaklings við aðra menn sé grundvallar­atriði, án þess þó að falla í þá gildru hins mannhverfa viðhorfs sem byggir mest gildismat á væntingum og löngunum einstaklinga.

Þessi nálgun sem miðast fyrst og fremst við hina býður ekki upp á altæka reglu eða viðmið um hvernig við eigum að haga okkur. Hins vegar býður hún upp á mælikvarða sem gerir okkur betur kleift að meta væntingar okkar og annarra. Kenning mín er sú að hin mannveran eigi að vera siðferðilegt markmið breytni minnar þegar kemur að umhverfismálum. Þegar þetta er haft í huga þá virðast hvort sem er duttlungar og þrár einstaklingsins eða gildi náttúrunnar í sjálfri sér, sem svo erfitt er að henda reiður á (en bæði þessi vafasömu atriði eiga að duga sem réttlæting á gerðum okkar sem snerta umhverfi og annað fólk), vart krefjast mikillar greiningar (enda þótt þau geti vel verið ruglingsleg í mörgum tilvikum). Sú áhersla sem lögð er á einhliða réttlætingu á gerðum manns (hvort a eða b verður fyrir valinu) ætti frekar að skoðast í því ljósi hvort slík hugleiðing snerti ekki hluti sem koma siðferðinu varla við. En þá geri ég ráð fyrir að siðfræði og siðferði geti einungis skoðast út frá sambandi mínu við aðra mannlega veru. Siðferðilegum hugleiðingum er nefnilega stundum bætt við rannsóknir sem hafa ekkert með siðferði að gera til þess eins að réttlæta þær siðferðilega, en eins og komið hefur fram er það mín skoðun að þessi röð sé aldrei forsvaranleg. Margs konar gildi sem hafa ekki hagnýt markmið (eins og þau sem snerta umbreytingu, arfleifð og fagurfræði) verða að verða hluti af öllu okkar gildismati á ómann­gerðu umhverfi. Ástæðan fyrir því er ekki sú að þau hafi altæk gildi eða hafi gildi í sjálfu sér heldur miklu fremur sú að ég get gert mér grein fyrir mikilvægi gildanna fyrir aðra, jafnvel þegar þau hafa ekkert að segja fyrir mig persónulega.

Eftirskrift
Ég vil þakka Heimspekivefnum kærlega fyrir að sýna áhuga á verkefnum framhaldsnema og hafa frumkvæði að birtingu greinarinnar. Sérstakar þakkir fær Henry Alexander Henrysson fyrir að hafa þýtt hana á íslensku. Ástæðan fyrir birtingunni er sú að ég hlaut nýlega viðurkenningu CINS (Canadian Institute for Nordic Studies). Þeir sem vilja kynna sér stofnunina geta gert það á heimasíðu hennar: http://www.ualberta.ca/~cins/. Þeir sem hafa áhuga á að spyrja mig nánar út í efni greinarinnar mega gjarnan skrifa mér á ensku eða frönsku á netfang mitt: gam2 (hjá) hi.is.