Færslusöfn

Eitt og annað um sambúð heimspeki og skáldskapar

eftir Björn Þorsteinsson*

I

Allir heimspekinemar sem lesið hafa fornaldarheimspeki – og aðrir vel menntaðir menn – kannast við þverstæður Zenons. Frægust þeirra er áreiðanlega sagan um monthanann Akkilles sem bauð skjaldböku í spretthlaup og taldi sér sigurinn vísan, en var svo vitlaus að gefa skjald­bökunni forskot. Allir vita hvernig þetta fór: Akkilles náði aldrei skjaldbökunni og varð að athlægi samborgara sinna. Skjaldbakan hefur sjálfsagt fagnað sigri nokkra hríð, hún hefur verið hafin á loft og krýnd lárviðarsveig og að síðustu hefur hún líklega verið höfð í súpu.
      Í glósum mínum úr tíma í fornaldarheimspeki 5. október 1990 segir frá þverstæðum Zenons. Þar af er einni svona lýst:

Maður þarf að fara úr vinnu (V) og heim (H). Til að fara alla leiðina þarf hann fyrst að fara hálfa leið, og til þess þarf hann fyrst að fara fjórðung leiðarinnar, og þá þarf hann fyrst að fara einn áttunda hluta leiðarinnar, og svo framvegis. Hann fer aldrei neitt.

      Þetta er þverstæða af því að allir heilbrigðir menn sjá að þetta er út í hött: menn komast alltaf heim til sín úr vinnu ef þeir vilja það á annað borð. Rökfræði Zenons hefur ekkert að segja í því efni; það er óhagganleg staðreynd um mannlega tilvist að maðurinn er frjáls þegar hann er búinn í vinnunni.
      Hvað sem því líður hefur þessi þverstæða Zenons áreiðanlega eitthvert gildi. Hún er til dæmis ágæt sem dæmisaga. Þannig má heimfæra hana upp á mann sem sest vígreifur niður til að semja agnarlítið erindi um heimspekilegt efni. Fyrir liggur spurning, og verkefnið er að svara henni. Það virðist ekki mikið mál. En þegar manngreyið býst til að hripa svarið á blað klofnar spurningin óðar í tvær aðrar, og hin fyrri þeirra getur jafnharðan af sér tvær í viðbót þegar við henni er hróflað, og þannig áfram afskaplega lengi. Maðurinn kemst ekki úr sporunum.
      Svona leið mér lengi vel síðastliðið miðvikudagskvöld þegar ég ætlaði að gera alvöru úr því að semja þetta erindi hér á örskömmum tíma. Ótal spurningar steyptu sér yfir mig einsog fuglar úr háloftunum og ég gat lítið annað gert en berja þær frá mér. Svo fór ég að sofa og það hefur alltaf góð áhrif. Morguninn eftir var ég fullur af kommonsens og upp frá því rak mig aldrei í vörðu.

II

Við skulum byrja á því að velta fyrir okkur hvað er líkt með skáldskap og heimspeki. Þar verður fyrst fyrir atriði sem enginn getur dregið í efa: bæði heimspeki og skáldskapur notast við orð, hvort tveggja er orðræða. En þetta samkenni nær ekki langt: heimspeki og skáldskapur eru ekki samskonar orðræða. Orðin eru aðeins tæki, og heimspekin beitir þeim á nokkuð annan hátt en skáldskapurinn. Þennan mun má kannski orða svo að heimspekin tortryggi orðin en skáld­skapurinn beri virðingu fyrir þeim. Þetta skal ég skýra nánar. Heimspekin tortryggir orðin vegna þess að hún verður ætíð að vara sig á að þau leiði hana ekki afvega. Tungumálið er fremur illa til þess fallið að tjá heimspekilega hugsun, en annað tæki hafa heimspekingarnir ekki. Íslenskan hefur til dæmis allt frá dögum Ingólfs verið til lítils annars brúkleg en tjá sig um mannvíg, sjóróðra, tíðarfar, tröll og álfa. Á síðari árum hefur markvisst verið unnið að því að bæta úr þessari örbirgð íslenskunnar, og þar hefur Háskólinn okkar lagt margt af mörkum. Með nýjustu mennta­stefnunni, þeirri sem miðast við velferð peninganna, eru hins vegar horfur á að þessari þróun verði snúið við vegna þess að það kostar eiginlega alltof mikinn pening að hugsa á íslensku. Aðrar þjóðir eru blessunarlega betur á vegi staddar en við að þessu leyti; tungumál þeirra eru vanari hugsuninni, en að vísu er ekkert þeirra beinlínis sniðið að þörfum hugsuðanna. Heimspekilegri hugsun verður því oft og óumflýjanlega orða vant, og þá verður hún að fara í kringum hlutina, búa til ný hugtök og skrítnar setningar sem ósjaldan verða afskaplega ljótar að sjá. Orð eru misjafnlega falleg, en þau eru líka misvel til þess fallin að tjá hugsun. Skáld­skapurinn sker sig frá heimspekinni í því að hann setur fegurð orðanna ofar öllu og skeytir minna um merkingu þeirra eða hugsunina sem þau tjá.
      Nú er engu líkara en ég sé kominn að einhverjum tiltölulega einföldum niðurstöðum. Og þá er rétt að staldra við og rifja upp vegna þess að einfaldar niðurstöður eru stórar fréttir; þær eru annaðhvort afskaplega nálægt hinu sanna eða víðsfjarri því, allt eftir því hvaða heimspekistefnu miðað er við. – Niðurstöðurnar eru þessar: hvort tveggja heimspeki og skáldskapur notast við orð. Skáldskapurinn sækist eftir fegurð orðanna og setur merkingu eða sannleika þeirra í annað sætið. Á hinn bóginn leggur heimspekin höfuðáherslu á sannleikann en fegurðin er ekki eins mikilvæg. Þetta má taka saman með þeim orðum að skáldskapurinn hafi orðin sjálf að markmiði en heimspekin ekki. Að vísu sé það skáldskapnum heldur til bóta ef orðin eru ekki bara falleg heldur líka sönn, og á sama hátt sé það síður en svo lýti á heimspekitexta að hann sé fallega orðaður.

III

Nú er auðvitað alveg ljóst að ef orð mín hingað til hafa með einhverjum yfirskilvitlegum hætti borist til þeirrar grísku moldar sem einu sinni var Platon má ætla að moldarkögglarnir hringsnúist með ógnarhraða, vegfarendum eflaust til mikillar undrunar. En ef Platon væri enn á meðal vor myndi hann eflaust senda á vettvang málpípu sína, Sókrates, þennan með stóra nefið, og milli okkar gæti spunnist samræða eitthvað á þessa leið:

      Sókrates tekur fyrstur til máls og segir: „Það sver ég við hundinn, heillaljúfur, að ég undrast visku þína sem sjálfur Hómer hefði verið fullsæmdur af.“
      „Þakka þér fyrir, Sókrates,“ segi ég og roðna kannski ofurlítið af einskæru monti.
      „En heyrðu samt, elskulegur,“ segir Sókrates. „Sagðirðu ekki að skáldskapurinn beindist að fegurðinni í fyrsta lagi, og í öðru lagi að sannleikanum?“
      „Jú,“ segi ég.
      „Og um heimspekina gildi hið gagnstæða, að hún beinist fyrst og fremst að sannleikanum en fegurðin komi þar á eftir?“
      „Öldungis rétt.“
      „Segðu mér þá, ástarpungurinn minn, hvort er meiri veruleiki, hinir mörgu fögru hlutir eða fegurðin sjálf? Eða hefurðu kannski ekki lesið Ríkið?“
      „Jú, jú,“ flýti ég mér að segja, „ég las það fyrir skömmu.“
      „Þú veist þá líklega að fegurðin sjálf er æðri en hinir mörgu fögru hlutir?“
      „Vissulega,“ segi ég.
      „Hvort skyldi nú skáldskapurinn beinast að fegurðinni sjálfri eða hinum mörgu fögru hlutum? Hvort fjalla verk skáldanna um hina æðstu veru eða hina síbreytilegu verðandi?“
      „Það fer nú eftir því hvert skáldið er,“ segi ég.
      „Við skulum láta Einar Ben liggja milli hluta,“ segir Sókrates. „Svaraðu heldur spurningu minni, elsku kallinn minn, og veittu mér af visku þinni, því sjálfur veit ég ekkert um þetta mál.“
      Til að þóknast Sókratesi segi ég: „Skáldin fjalla um hinn mennska veruleika, sem þú nefnir verðandina.“
      „Er það svo, lambið mitt,“ segir Sókrates. „En sagðirðu ekki áðan að skáldskapurinn beindist að fegurðinni sjálfri? Nú höfum við komist að hinu gagnstæða, semsé því að skáldskapurinn lýsi ekki öðru en hinum fögru hlutum, sem eru ekki annað en eftirlíkingar fegurðarinnar sjálfrar. Skáldskapurinn er þannig eftirlíking af eftirlíkingu, í þriðja sæti frá hinum sanna veruleika. Skáld­skapurinn er áróður, hann höfðar til tilfinninga en ekki skynsemi, og hann blekkir jafnvel hina bestu menn. Svölunin sem hann veitir er fölsk, og hann er léttúðugur eins og daðurdrós: honum er ekki alvara með neinu.“
      „Já, ég kannast við þessar hugmyndir,“ segi ég, „og vildi gjarnan ræða þær við þig.“
      „Nú, já,“ segir Sókrates og fer allur að ókyrrast. „Ég er nú reyndar frekar tímabundinn, það er partí hjá Adeimantosi og ég má ekki missa af fordrykknum. Við ljúkum bara samræðunni síðar, endilega hreint, ég hef mikinn áhuga á þessu efni.“
      Svo er Sókrates rokinn.

      Þessi málsvörn Sókratesar var óneitanlega klénni en maður á að venjast. Það er ekki góður siður að leggja látnum mönnum orð í munn, og ég geri það voðalega sjaldan. En Sókrates fékk þó að koma að kjarnanum í gagnrýni Platons á skáldskapinn, og nú skulum við sjá hvað ég hef á móti henni.

IV

Í hnotskurn eru andmæli mín á þá leið að Platon geri sig sekan um fullmikla einföldun og alhæfingu þegar hann heldur fram að allur skáldskapur beinist að sýndinni og sé þess vegna blekking og ekki til annars en svala löngunum. Mér sýnist alls ekki útilokað að skáldskapur geti beinst að veruleikanum sjálfum – platonskum eða öðrum – og að skáldskapurinn geti því aug­ljóslega sagt ýmislegt satt engu síður en heimspekin. Til dæmis er ég ekki í nokkrum vafa um að mikill sannleikur sé fólginn í verkum Dostojevskís, Kafkas og James Joyce. Ég er ekki eins viss um Sigge Stark, Louis Masterson og Snjólaugu Bragadóttur: í verkum slíkra höfunda er líklega ekki eftir miklu öðru að slægjast en svölun frumstæðra hvata, og gagnrýni Platons gæti sem best átt við allan skáldskap af þessu tagi. En svo er náttúrunni fyrir að þakka að ekki eru öll skáld einsog Snjólaug og ekki allar bækur á borð við Gefðu þig fram, Gabríel (1984) og Lokast inni í lyftu (1977). Sumur skáldskapur er góður og annar vondur, það er einfalt og allir vita það. Við skulum segja að góður skáldskapur sé sá sem lætur einhvern sannleika í ljós, en vondur sá sem reynir ekkert í þá átt. Og mér sýnist góður skáldskapur vera ónæmur fyrir ákærum Platons, enda stefnir hann í einhverjum skilningi að sama marki og heimspekin.
      Ein af ákærunum er reyndar sýnu erfiðust viðureignar. Það er sú sem snýst um að jafnt góður sem slæmur skáldskapur höfði til tilfinninga en ekki skynsemi og sé þess vegna ekki annað en áróður. Nánar skoðað snýst þessi aðfinnsla um það að aðferðir heimspekinnar séu aðrar og vandaðri en skáldskaparins, og niðurstöðurnar því margfalt tryggari: heimspekin beiti rökum, hún haldi engu fram nema hún hafi fyrir því gildar ástæður og segi þess vegna alltaf satt. Á hinn bóginn leyfi skáldskapurinn sér að slá fram hugmyndum út og suður og hipsumhaps, og það sé ekki annað en guðslukka ef einhverjar þeirra eru sannar. Megnið af staðhæfingum skáldanna hljóti þá óhjákvæmilega að vera stórhættuleg og skaðleg lygi.
      Þessi ákæra er óneitanlega býsna máttug við fyrstu sýn – en þegar grannt er skoðað má finna að minnsta kosti eitt svar við henni.
      Heimspekin beitir rökum, gott og vel. En heimspekirit eru aldrei hreinræktaðar rökfærslur í einhverjum strangrökfræðilegum skilningi: rökin eru aldrei alveg skotheld þegar öllu er á botninn hvolft. Engin heimspekibók hefur hingað til birt sannleikann á blaðsíðum sínum; heimspekingar gefa sér forsendur, og rökfærslur þeirra orka alltaf tvímælis að einhverju leyti; öll verk heim­spekinga má gagnrýna. Lesandi heimspekirits, rétt eins og sá sem les skáldsögu, ræður því sjálfur hvort hann les með gagnrýnum huga eða gefur orðum höfundarins frið. Enginn heim­spekingur hefur rök sem standast alla gagnrýni, og þess vegna ráðast örlög verka hans að endingu á því hvort lesandinn lætur sannfærast. Það gerir hann ef orðin eru nægilega sann­færandi – og sannfæringin býr í fegurð orðanna.
      Heimspekin þarf semsé að beita sömu aðferðum og skáldskapurinn; hún verður að einhverju leyti að höfða til annars en blákaldrar rökfestu. Vafalaust hefði Platon átt erfitt með að sætta sig við þessa niðurstöðu – en jafnframt er sú kaldhæðni augljós að margar samræður Platons eru án nokkurs vafa í hópi fegurstu heimspekirita sögunnar. Og sannfæringarmáttur þeirra hefur reyndar verið slíkur að í gjörvallri heimspekisögunni er leitun að textum sem svo mikið sem jaðra við að vera sómasamlega skrifaðir.
      Heimspekin tekur sjálfa sig of alvarlega þegar hún fullyrðir að allt sem hún segi sé satt. Á sama hátt er fráleitt að fullyrða að allur skáldskapur sé lygi. Munurinn á heimspeki og skáldskap er ekki ýkja mikill. Um hvor tveggju gildir að þegar best lætur fer sannleikurinn saman við fegurð­ina. Að sönnu hættir skáldskapnum fremur en heimspekinni til að segja ósatt; en grandvörum og sómakærum lesanda sem leitar sannleikans af einurð er fyllilega treystandi til að sjá í gegnum rangfærslur af hvaða tagi sem vera skal. Heimspeki og skáldskapur eru ekki ólíkar dýrategundir: þau eru systkini. Og sálfræðingar segja að það sé eðlilegt og sjálfsagt, gott ef ekki báðum fyrir bestu, að systkini rífist og sláist endrum og eins.

Aftanmálsgrein

*  Erindi á samdrykkju á vegum Soffíu, félags heimspekinema við HÍ, 10. apríl 1992.

Vísindi og skáldskapur

eftir Peter Kemp1

Franski heimspekingurinn Gaston Bachelard lést árið 1962, 78 ára að aldri. Meðal ákafra aðdáenda hans má finna vísindamenn, marxíska hugmyndafræðinga, bókmenntamenn og guðfræðinga, svo ekki sé minnst á þá, sem vilja segja skilið við samfélagið og „koma ímyndunaraflinu til valda“, eins og það er kallað. Því fer þó fjarri, að það sé eitt og hið sama, sem hinir ýmsu aðdáendur hans hrífast af. Þess vegna er heimspeki hans enn rökrædd og bækur um hann koma út hver á fætur annarri.

Og hvað er það þá, sem gerir þessa heimspeki svo heillandi? Ef við spyrjum hver aðalhugsun heimspekingsins sé, eða hvað hann „í raun og veru“ eigi við, getum við ekki verið viss um að finna svar. Hann hélt fram ekki einungis einni heimspekikenningu, heldur að minnsta kosti tveimur og jafnvel fleirum. Annars vegar fjallaði hann um vísindin, en hins vegar um skáldskap og dagdrauma. Það sem mesta furðu vekur er þó það, að á síðustu árum sínum hneigðist hann að því, er hann í fyrstu hafði gagnrýnt.

Þannig réðst hann, í fyrstu bókum sínum, harðlega á bæði skáldlegar og frumstæðar hugmyndir. Þær voru að hans mati óvísindalegar, þar sem hin vísindalega hugsun hafði einmitt þróast í baráttunni gagn hreinum draumórakenndu hugmyndum, þ.e.a.s. í gagnrýni á hinni frumstæðu reynslu. Í bókinni La psychanalyse du feu (Sálgreining eldsins, 1938) skrifaði hann um þær skáldlegu hugmyndir, sem venjulega eru tengdar eldinum, til þess að vekja athygli á ákveðnu samsafni rangra og heimskulegra hugmynda, sem vísindaleg hugsun nútímans átti að geta útrýmt. En það kom í ljós að það var hættulegur leikur að fást við skáldskap og táknmál. Þegar í bók sinni L´eau et les rêves (Vatnið og draumarnir) sem kom út árið 1942, varð hann að viðurkenna, að honum hafði ekki tekist að leysa upp táknmál vatnsins eins rækilega og hann taldi, að sér hefði tekist með táknmál eldsins. Ljóðræna vatnsins angraði hann ennþá. Og á síðustu 20 árum ævi sinnar varð hann æ heillaðri af draumsýnum skáldskaparins.

Reyndar breytti hann alls ekki skoðunum sínum á vísindunum, en að lokum, eins og hann sagði sjálfur, skrifaði hann ekki aðeins með góðri samvisku um vísindi, heldur einnig um skáldskap. Síðasta bók hans La flamme d´une chandelle(Kertalog, 1961) ber vitni um breytinguna í hugsun hans: Ljóðræna vatnsins er nú ekki lengur hreinn hégómi, heldur djúp viska.

Hér er ekki ætlunin að gera grein fyrir meginþætti heimspeki Bachelards. Sá þáttur er ekki til. Aftur á móti væri hægt að lýsa mismunandi stigum í hugsun hans og sá háttur yrði efalaust bestur, en alltof umfangsmikill. Við verðum því að láta okkur nægja að athuga tvo þætti: hinn fyrri um vísindakenninguna og þann seinni um skáldskapinn.

Bókin La philosophie du non (Heimspeki neitunarinnar, 1940) er ef til vill mikilvægust þeirra mörgu bóka sem Bachelard skrifaði um það, sem hann kallaði hinn nýja vísindalega anda eða hina vísindalegu menningu. Þar gagnrýnir hann hinn algenga og gagnkvæma misskilning vísindamanna og heimspekinga. Vísindamaðurinn álítur gjarnan, að hin sanna heimspeki geti aðeis verið yfirlit yfir þær niðurstöður, sem vísindin hafa komist að; hann gerir sér ekki ljóst, að það er samhengið og einkenni vísindalegrar hugsunar sem slíkrar, sem er hið heimspekilega vandamál. Á hinn bóginn telur heimspekingurinn oft, að raunveruleg vísindi hvíli á ofur einföldum grundvallarlögmálum, sem hægt sé að skilja með fáeinum dæmum; hann uppgötvar ekki, að hann er á eftir tímanum, því að vísindin í dag eru ekki lengur í því fólgin að vísindamaðurinn sanni ákveðin fyrirframgefin lögmál, eins og margir töldu á tímum hinna sígildu vísinda; nú breyta menn lögmálunum sjálfum í samræmi við niðurstöður tilrauna og þær ályktanir, sem af þeim eru dregnar.

Ef vísindin væru aðeins staðfesting á eilífum skynsemislögmálum, þá væri nóg fyrir heimspekinginn að spyrja um niðurstöður vísindamannsins og einkenni þeirra. En vísindi nútímans verða ekki skilin út frá niðurstöðum þeirra, heldur tilurð niðurstaðnanna. Og þess vegna segir Bachelard við vísindamanninn: Segið mér ekki hvað þér hugsið, þegar þér gangið út úr rannsóknarstofunni, heldur hvað þér voruð að hugsa er þér genguð þangað inn; segið mér um fálm yðar, óljósar hugmyndir, óstaðfestar sannfæringar og tilgátur. Já, segið mér frá mistökum yðar, misheppnuðum tilraunum og vonbrigðum.

Saga visindanna síðustu 300 árin er ágætt dæmi um það fálm sem nútíma vísindaleg hugsun hefur þróast af, og þess vegna lýsir Bachelard þessari þróun. Til að mynda nefnir hann þær breytingar, sem orðið hafa á hugtakinu massi: Í frumstæðri hugsun merkir massi einfaldlega eitthvað sem tekur rúm. En smásamam varð mönnum ljóst, að það sem hefur ákveðna stærð er ekki endilega það sem hefur mest gildi. Þá fór hugtakið massi að táknað auð: það sem menn eiga er virði einhvers massa. Newton varð fyrstur manna til að gera massann að vísindalegu hugtaki; hann notaði massa við skilgreiningu á hugtökunum kraftur og hraðaaukning.2 Massinn var því ekki lengur hlutur, heldur táknaði hann aflfræðilegan þátt. Í afstæðiskenningu Einsteins breytist massahugtakið enn á ný: hugmyndin um að eitthvað sé í algerri hvíld hefur enga merkingu lengur, né heldur hugmyndin um hinn óbreytanlega massa. En samkvæmt afstæðiskenningunni getur massi breyst í orku og öfugt, og er því á vissan hátt ekki aðgreinanlegur frá orku.3 Síðasti þáttur þessarar þróunar gerist í aflfræði Diracs. Hann talar bæði um jákvæðan og neikvæðan massa; en hugmyndin um neikvæðan massa var fráleit talin, ekki eingöngu samkvæmt sígildri eðlisfræði, heldur einnig frá sjónarhóli afstæðiskenningarinnar. Nú hefur skammtafræðin staðfest hugmyndir Diracs.4

Þessi þróun massahugtaksins er dæmi um það, að fram hefur farið endurnýjun eða leiðrétting fyrri reynslu. Hin beina athugun á náttúrunni hefur orðið undir fyrir skipulegri gagnrýni. Hugsunin hefur þannig þróast við mótsögn; við afneitun einfaldrar þekkingar. Hin beina ferska athugun var vissulega upphaf vísindalegrar hugsunar og gildi þessa upphafs hefur einmitt verið það, að hægt var að brjóta niður og benda á mótsagnir. Niðurstaðan er sú, að í dag er ekkert eftir af hinni fyrstu mynd. Hið stærðfræðilega form hefur komið í stað beinnar skoðunar, sem tæki til þekkingar.

Á því leikur enginn vafi, að þessi skilningur á þróun nútíma vísinda, sem Bachelard hefur mótað og sett fram, táknar endalok vísindakenningar Immanúels Kants. Í bók sinni Kritik der reinen Vernunft (Gagnrýni hreinnar skynsemi) frá árinu 1781, setti Kant fram grundvallarlögmál sem fyrirfram áttu að gilda um öll vísindi. Þessi lögmál voru leidd af þeirri rökfræði, sem Kant hafði haft frá Aristótelesi. En eins og Bachelard bendir á, þá gildir þessi rökfræði ekki fyrir skammtafræðina. Samkvæmt rökfræði Kants og Aristótelesar, hlýtur hlutur að vera það, sem hann er; hann getur ekki líka verið eitthvað annað; að auki hlýtur hann að vera eins undir öllum kringumstæðum; einnig hlýtur hann að vera á einhverjum ákveðnum stað; og að lokum getur hann ekki verið á tveimur stöðum samtímis. En ekkert af þessu gildir um rafeindina; hún er öreind og þó er hún einnig alda; undir vissum kringumstæðum er ekki hægt að segja að hún sé rafeind, heldur aðeins ótiltekin alda, og öfugt; þá er aðeins hægt að staðsetja hana sem öreind, en ekki sem öldu, og þar að auki virðist hún geta verið á fleiri en einum stað samtímis.

Með öðrum orðum; sá heimur, sem er viðfang vísindanna, er ekki lengur sá heimur sem maðurinn reynir. Hinn vísindalegi raunveruleiki er ekki lengur útfærsla einfaldra grundvallarlögmála, heldur verður hann sífellt flóknari, en það stafar af því að við verðum að ímynda okkur ákveðin ferli samtímis, þrátt fyrir að slíkt sé eiginlega óhugsandi. Og þetta merkir, eins og Bachelard leggur áherslu á, að þekking á hinum hlutlæga eðlisfræðilega veruleika er orðin algjörlega stærðfræðileg, því að aðeins með stærðfræðilegum reglum er hægt að sameina „það sem stríðir hvað móti öðru“ í okkar hugmyndaheimi.

Upprunalega var að vísu um einhverja hugmynd að ræða, en tilrauninr hafa neytt vísindin til að ganga í berhögg við ýmsar kenningar þekkingarfræðinnar; það hefur m.a. haft þær afleiðingar, að ekki er hægt að skilja atóm með því að ímynda sér eitthvað ákveðið, heldur aðeins með innsýn í þær deilur er leitt hafa til skilgreiningar atómsins í skammtafræðinni. Átómið er nú ekki lengur annað en heildarniðurstaða þeirrar gagnrýni, sem hugmyndin um það hefur orðið fyrir. Bachelard dregur af þessu þá ályktun, að nútíma vísindi fjalli ekki lengur um aðeins það sem er eða er fyrir hendi, heldur um það sem verður. Áhuginn á því sem er hefur vikið fyrir áhuganum á því sem verður, og á sama hátt hafa sundurgreiningin og lýsingin þokað fyrir tilraunum og stærðfræðilegum reglum.

Í einu af sínum síðustu ritum um vísindakenningar, sem út kom árið 1951 undir heitinu L´activité rationaliste de la physique contemporaine (sem e.t.v. mætti nefna Rökhyggja í nútíma eðlisfræði) heldur Bachelard áfram að hugleiða nútíma skammtafræði. Hann bendir á að rökræðan um öldur og eindir á rætur sínar að rekja allt til Huyghens og Newtons. Það sem er nýtt, er að þessi rökræða er orðin algjörlega stærðfræðileg. Hann varar menn einnig við þeirri trú, að náðst hafi einhver skilningur á nútíma vísindum, þó að sagt sé, að þau séu samslungin. Því að nú er ekki lengur talað um tvenns konar hugmyndir, sem bæti upp eða komi hver í staðinn fyrir aðra. Í nútíma rannsóknum eru þessar tvær hugmyndir ekki annað en tvær sértekningar (abstraktionir) til þess að lýsa sama eðlisfræðilega veruleikanum. Hins vegar er engin ástæða til efahyggju; menn hafa sagt í glettni: á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum trúir vísindamaðurinn því að ljósið sé rafalda – á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum trúir hann hins vegar því, að það sé öreindir. Og á sunnudögum hvílir hann sig og trúir hvorugu. Hér er þó ekki um það að ræða, að menn séu neyddir til að trúa á einhverjar ákveðnar hugmyndir um veruleikann. Heldur einfaldlega, að þeir finni þær reglur, sem hægt er að nota í raunveruleikanum.

Nútíma vísindi eru þannig sjálfstæð rökleg hugsmíð. Þau eru tækni en ekki skoðun. Þau eru tilbúið táknmál en ekki eðlilegt mál. Í annan stað útheimta þau sérhæfingu, því að sérhæfðar rannsóknir eru eina leiðin til að öðlast nákvæma sönnun og staðfestingu á hinum vísindalegu reglum. En þessi sérhæfing merkir þó ekki nauðsynlega, að maðurinn sé þræll tækninnar. Þvert á móti, segir Bachelard: sérhæfing vísindanna hefur aðeins verið möguleg vegna snilligáfu mannsins, þ.e.a.s. skynsemisstarfs hans, sem hefur lýst sér í því að afneita fyrri reynslu, jafnframt því sem nýjar hugmyndir hafa byggt upp hina vísindalegu þekkingu.

En þvílíkt stökk er frá þessari vísindakenningu til bókanna La poétique de l´espace(Skáldskapur víðáttunnar) frá 1957 og La poétique de la rêverie (Skáldskapur draumóranna, 1960), sem Bachelard skrifaði á síðustu árum ævi sinnar. Frá vísindaheimspeki án mynda, fer Bachelard yfir í heimspeki hinna hreinu mynda án vísinda. Hann heldur því fram, að það sé heimskulegt að ætla sér að skilja skáldlega mynd á kuldalegan og raunsæjan hátt; hana sé einungis hægt að skilja með aðdáun. Og þess vegna tilheyra athuganir á einkalífi höfundar, píslarsögu, persónuleika og öðru slíku, ekki skilningi á ljóði hans. Ljóðið er ekki tjáning á sögulegri þróun, heldur aðeins á því augnabliki, sem það verður til og á þeirri beinu athöfn, sem fram kemur við sköpun þess.

En hvað sem öðru líður, þá er það ekki skáldskapurinn sem svo mjög vekur áhuga Bachelards, heldur hinir skáldlegum draumórar. Þegar hann les skáldskap, er það einmitt vegna þess, að til eru ljóð, sem geta haft andrík áhrif á dagdraumana. En hann gerir skarpan greinarmun á dagdraumum og draumum næturinnar. Næturdraumarnir eru ekki okkar, segir hann. Við getum hvorki hrifist af þeim né glaðst yfir þeim, né fundið okkur sjálf í þeim. Aðeins í dagdraumunum staðfesti ég tilveru mína: ég veit þegar ég ranka við mér, að mig er að dreyma. En þegar sofandann dreymir, hverfur hann sjálfum sér inn í nafnleysið, og sálkönnuðir halda því fram með réttu, að það sé ekki sjálfið heldur dulvitundin, sem hrærist í draumi hins sofandi manns.

En hvers vegna eru dagdraumarnir svona þýðingarmiklir fyrir okkur? Þeir eru það, svarar Bachelard, vegna þess að þeir eru fyrst og fremst draumórar um bernskuna – rêveries vers l´enfance. Slíkir dagdraumar felast ekki einungis í því, að menn minnist ákveðinnar reynslu úr bernsku. Þeir lýsa sér í því, að menn flétta þessa reynslu inní veröld bernskunnar, þar sem maðurinn er einn með heiminum. Og hin miðlæga ljóðræna mynd bernskunnar er hið lygna vatn, hið kyrra sofandi vatn í tjörn og brunni. Þetta vatn er ímynd hamingju mannsins. En veröld bernskunnar getur einnig verið húsið eða sá staður, þar sem maður á í raun og veru heima; það er hamingjunnar hús. Bachelard segir þar að auki, að vera hamingjunnar og kyrrðarinnar felist í tilveru hins kvenlega, en tilvera hins karllega sé ímynd þeirrar veru sem krefst, áætlar og hefur áhyggjur. Í raunverulegri tilveru sinni er þó sérhver manneskja bæði kvenleg og karlleg. Samt er manneskjan neydd til að útiloka hið kvenlega, þegar hún vill verða vísindamaður, og hið karllega, þegar um skáldskap og drauma er að ræða. Tilvera hins karllega kemur eigi að síður fram í margvíslegri athöfn, en hin kvenlega tilvera hefur aðeins eina ástríðu, sem er sú að sækja innblástur í dagdrauma. Draumóramaðurinn getur því aldrei lesið nóg af ljóðum, dagdraumar krefjast bóka og aftur bóka. Bachelard segir á einum stað: „Skyldi Paradís þarna uppi ekki vera eitt geysistórt bókasafn?“

En hver er það sem talar í ljóðum og dreymir um bernskunnar heim? Er það skáldið eða veröldin? Skáldið veit, að það er ekki það sjálft, því að þegar það vill tala við heiminn, þá talar heimurinn við það. Skáldið er aðeins sá sem hlustar og endurtekur, og rödd þess verður eitt með rödd heimsins. Veröldin talar gegnum list skáldsins. Það er hinum ljóðrænu draumórum að þakka, að það finnst athöfn sem staðfestir tilveru mannsins og heimsins, þar sem maðurinn á heima. Það er skáldskapnum að þakka, að maðurinn útvíkkar tilveru sína og ber traust til heimsins og finnur frið í sjálfum sér. Og þökk sé hugmyndafluginu, því að sakir þess þekkir maðurinn dýpt tilverunnar.

Ef til vill er það ekki alveg út í hött að segja, að heimspeki Bachelards sé háleit tjáning á sundrungu mannsins. Aðra stundina er maðurinn tæknifræðingur eða verkamaður, en hina, draumóramaður og listunnandi. Og þessi tvö hlutverk eru algjörlega óskyld. Á síðustu æviárum sínum renndi Bachelard samt grun í, að ákveðin hugmynd um manninn gæti hjálpað okkur til að sigrast á þessari sundrungu. Honum varð ljóst, að hvort sem maðurinn stendur við vinnuborðið eða situr við það (tilveruborðið, eins og hann kallar það), þá er hann vera sem skapar og endurnýjar heiminn. Og stærsti hæfileiki mannsins er ekki skilningurinn og skynsemin, heldur hugmyndaflugið, sem skapar ný ljóð í dagdraumum og nýjar hugmyndir í vísindum. Rithöfundaferli sínum lýkur Bachelard með hinni litlu heillandi bók um kertalogið, sem endar með þessum orðum: „Maðurinn er logi“.

Þýðandi: Hallur Páll Jónsson

Tilvísanir

1. Höfundur þessarar greinar, Peter Kemp, er kennari í heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla. Hann stundaði nám í guðfræði og heimspeki við danska háskóla, síðan í Þýskalandi og Frakklandi. Með ritgerðum, þýðingum, blaðagreinum og útgáfum hefur hann kynnt í Danmörku kenningar margra franska heimspekinga, en auk þess samið á frönsku doktorsritgerð sína um eðli mannlegrar þátttöku í heiminum (théorie de l’engagement). Eftirfarandi grein er þýðing á einu af sex sunnudagserindum, sem hann flutti í danska útvarpið um franska heimspekinga eftir 1940. Erindin birtust í bókinni Nye franske filosoffer, 1940-1970. Stjernebøgernes kulturbibliothek, J. Vintens Forlagsboghandel, Kaupmannahöfn, 1971. Önnur rit eftir Kemp eru: Det ulykkelige begær. Grundtanken i Jean-Paul Sartres filosofi, Gyldendal 1966. Bergson. Berlingske Filosofibibliotek, 1968. Sprogets dimensioner. Berlingske Leksikon Bibliotek, 1972. Ungdomsoprørets filosofi. Vintens 1972. Théorie de l’engagement I/II, Édition du Seuil, Paris/Vinten, 1973. Filosofiske portrætter. Stjernebøgernes kulturbibliothek, Vinten, 1973. Engagementets teori, et resumé, Vinten, 1973. – Páll Skúlason.

2. Lögmál Newtons er: F=ma; þar sem a er hraðaaukning og F er kraftur, sem venjulega má rekja til ákveðinna ytri áhrifa. Þessa jöfnu má taka sem skilgreiningu á tregðumassa; m lýsir tregðu hlutarins gagnvart ytri áhrifum. Í klassískri aflfræði er massi hlutar fasti (constans). Þýð.

3. í afstæðiskenningunni kemur fram að massinn er háður hraða ljóssins miðað við athugandann og stefnir á óendanlegt þegar hraðinn nálgast ljóshraðann. Og samkvæmt hinni frægu jöfnu Einsteins e=mc2, fæst orka með því að margfalda massann með tvíveldi ljóshraðans. Þar sem ljóshraðinn er mjög mikill (300 000 km/sek.) þarf mjög litla massabreytingu skv. Jöfnunni til að mikil orka myndist. Þýð.

4. Hér mun átt við kenningu Diracs um andeind (antiparticle) rafeindar, sem nefnd hefur verið jáeind (positron). Þýð.

« Til baka