Færslusöfn

Draugar og hugir

eftir Michael LaBossiere

Draugar og hugir1

En líkamsefnið hljótum við, vinur minn, að telja þungt sem farg, jarðneskt og sýnilegt. Og sálin, sem ber það með sér, sligast undir því og dregst niður til hins sýnilega heims af ótta við hinn ósýnilega, sem við köllum Hades. Þar byltir hún sér kringum legsteina og grafir, að því er sagt er: vofurnar, sem menn sjá þar, eru skuggamyndir þeirra sálna, sem hafa ekki verið leystar til fulls frá hinu sýnilega, heldur bera enn með sér einhvern hluta þess og eru einmitt þess vegna sýnilegar.2

Allir hafa heyrt um drauga. Margir trúa á þá. Engu að síður hefur ekki verið mikið um alvarlegar heimspekilegar vangaveltur um drauga. Það þýðir þó ekki að ekkert hafi verið fjallað um þá enda var fyrst rætt um drauga sem heimspekilegt viðfangsefni í Faídoni Platons. Tilgangur þessarar ritgerðar er að velta fyrir sér tilvist drauga innan ramma hugarheimspeki nútímans.

Áður en hægt er að skera úr um hvort draugar geti verið til eða ekki verður að vera ljóst hvað það er að vera draugur. Í þessari ritgerð merkir draugur hug sem hefur aflíkamnast vegna dauða upprunalegs líkama síns en getur samt enn haft áhrif á efnisheiminn með einhverjum hætti. Þessi áhrif gætu verið fólgin í því að aðrir geti skynjað drauginn, hann ráðskast að einhverju leyti með efnislegt umhverfi sitt eða kannski verið fólgin í einhverri annarri getu til að hafa áhrif.

Það ætti að taka það fram að enn hefur ekki verið gert ráð fyrir því að draugur hljóti að vera óefnisleg vera. Ástæðan er sú að ef gengið er út frá því að draugur hljóti að vera óefnislegur í eðli sínu þá væri það talið sannað sem stóð upphaflega til að velta fyrir sér. Það verður því að halda þeim möguleika opnum að draugar gætu verið efnislegar verur (af sérstakri gerð).

Til eru margs konar heimspekikenningar sem reyna að skýra eðli hugans. Meðal hinna algengari og frægari eru samsemdarkenning (identity theory), verundartvíhyggja (substance dualism), eiginleikatvíhyggja (property dualism) og hlutverkahyggja (functionalism) um hugann. Verður nú hugað að því hvernig þessar kenningar gætu gert grein fyrir tilvist drauga.

Samsemdarkenningin er efnishyggjukenning um hugann sem þýðir að hún er skoðun sem lítur svo á að hugurinn sé settur saman úr efni. Nánar tiltekið, þeir sem fallast á samsemdarkenninguna halda því fram að sérhvert hugarástand sé það sama og ástand miðtaugakerfisins. Hugurinn er því jafngildur miðtaugakerfinu og ástandi þess. Að því gefnu að samsemdarkenningin sé rétt þá eru engir draugar til. Þetta stafar af því að dauði miðtaugakerfisins væri dauði og endalok hugans af því að þau eru eitt og hið sama.

Samkvæmt verundartvíhyggju hefur veruleikinn að geyma að minnsta kosti tvær grunngerðir hluta: efnislega og óefnislega hluti. Samkvæmt þessari skoðun, sem frægust hefur orðið í framsetningu Descartes, er hugurinn óefnisleg verund sem er í sérstöku orsakasambandi við líkama sinn. Þetta frekar dularfulla samband gerir huganum kleift að stjórna líkamanum og taka á móti upplýsingum frá honum og leyfir líkamanum að hafa áhrif á hugann að einhverju leyti. Það kemur ekki á óvart að samkvæmt þessari skoðun geta draugar verið til. Þar sem hugurinn er talinn vera sérstök verund þarf dauði líkamans ekki að hafa í för með sér dauða hugans. Þar sem hugurinn er sérstök verund og verundir sem geta verið til óháð öðrum, gæti hugurinn, fræðilega séð, haldið áfram að vera til. Ennfremur er það líka mögulegt, vegna þess að gengið er út frá því að hugurinn geti átt samneyti við sinn upprunalega líkama, að hugurinn haldi áfram að hafa áhrif á efnisheiminn, jafnvel í líkamslausu ástandi sínu. Gera má ráð fyrir að líkamsleysið takmarkaði það sem hugurinn var fær um, sem kynni að skýra hvers vegna draugar eru oft taldir hafa takmarkaða getu. Til að mynda er því að jafnaði trúað að geta drauga takmarkist við að gefa frá sér dauf hljóð, hreyfa litla hluti eða að trufla með dynkjum og höggum.

Önnur tegund tvíhyggju er stundum kölluð eiginleikatvíhyggja. Samkvæmt þessari skoðun eru hugur og líkami ekki aðgreindar verundir. Í stað þess er hugurinn samsettur (alltént að hluta) úr andlegum eiginleikum sem eru ekki það sama og efnislegir eiginleikar. Til dæmis væri ekki hægt að smætta eiginleikann sársaukafull tilfinning niður í ákveðinn efnislegan eiginleika heilans, á borð við ástand tiltekinna taugafrumna. Hugur og líkami eru því aðgreindir en eru ekki ólíkar verundir.

Eiginleikatvíhyggja á sér langa sögu og kemur ekki á óvart að það séu til mörg afbrigði af þessari skoðun og verður hugað að tveimur þeirra hér. Annað þeirra gefur kost á að draugar séu til en hitt ekki.

Eiginleikatvíhyggja skiptist í grófum dráttum í tvær megindeildir, fylgifyrirbærahyggju (epiphenomenalism) og víxlverkunarhyggju (interactionism).

Fylgifyrirbærahyggja er sú skoðun að það sé einstefnusamband milli andlegra og efnislegra eiginleika. Samkvæmt þessari skoðun orsakast hinir óefnislegu andlegu eiginleikar af efnislegum eiginleikum líkamans en hafa sjálfir engin áhrif á þá síðarnefndu. Samkvæmt þessari skoðun hefur hugurinn engan áhrifamátt og er, hreint út sagt, aukaafurð efnislegra ferla líkamans. Vegna þess að andlegu eiginleikarnir ráðast af efnislegu eiginleikunum hefur dauði líkamans í för með sér að andlegu eiginleikarnir hverfa. Þar af leiðir að sé fylgifyrirbærahyggja rétt eru engir draugar til.

Víxlverkunarhyggja er, í þessu samhengi, sú skoðun að andlegir eiginleikar hugans og efnislegir eiginleikar líkamans orki hverjir á aðra. Samkvæmt þessari skoðun geta andlegir eiginleikar valdið breytingum á efnislegum eiginleikum líkamans og öfugt. Gagnstætt fylgifyrirbærahyggju krefst víxlverkunarhyggja þess ekki að andlegu eiginleikarnir ráðist að öllu leyti af efnislegum eiginleikum líkamans. Af þessum sökum gætu andlegu eiginleikarnir sem mynda hugann hugsanlega lifað af dauða upprunalega líkamans. Þessir andlegu eiginleikar kynnu að geta verið til sem knippi eiginleika. Þá væri draugur knippi andlegra eiginleika sem myndar hug án efnislíkama. Andlegu eiginleikarnir kynnu að þarfnast einhvers efnis eða líkama til að halda þeim uppi. Þá væri draugur hugur sem samanstendur af andlegum eiginleikum sem er haldið uppi af einhverju öðru en upprunalegum líkama hans. Til að mynda kynnu andlegu eiginleikarnir að vera óaðskiljanlega tengdir hlut eða stað. Þetta gæti verið skýringin á þeirri staðreynd að reimt sé á ákveðnum stöðum. Ef hugir drauga eru óaðskiljanlega tengdir þessum stöðum mundi það skýra hvers vegna draugar ferðast sjaldan ef þá nokkurn tíma um heiminn. Annar möguleiki er að andlegir eiginleikar kynnu að ná stjórn á nýjum líkama. Þetta gæti skýrt tilfelli þar sem talið er að einhver sé andsetinn. Allavega væri mögulegt að hugurinn héldi áfram að vera í víxláhrifatengslum við efnisheiminn þrátt fyrir dauða upprunalegs líkama hans, þar sem talið er að andlegir eiginleikar geti orkað á efnislega eiginleika og öfugt.

Að lokum verður fjallað um hlutverkahyggju. Til eru mörg afbrigði af henni en þau eiga öll sameiginlegan grundvöll. Hann er sá að hugarástand er skilgreint út frá hlutverki. Orðað í grófum dráttum lýsir hlutverkaskilgreining á hugarástandi því með tilliti til hlutverks þess í andlegu kerfi áreita og viðbragða. Orðað á nákvæmari hátt er hugarástand, eins og til dæmis að finna til sársauka, skilgreint út frá orsakatengslum þess við ytri áhrif á líkamann, annað hugarástand og atferli líkamans.

Venjulega er litið á hlutverkahyggju sem efnishyggjuskoðun á huganum. Þetta stafar af því að kerfin þar sem hugarástandið á sér stað eru talin vera af efnislegum toga. Þótt samsemdarkenningin og hlutverkahyggjan séu báðar efnishyggjukenningar um hugann eru þær ólíkar að einu leyti sem skiptir sköpum. Samkvæmt samsemdarfræðingunum er ákveðið hugarástand, eins og til dæmis að finna til sársauka, það sama og ákveðið líkamlegt ástand, á borð við ástand taugafrumna í tilteknum hluta heilans. Sem sagt, til þess að eitt hugarástand sé það sama og annað verður eitt líkamsástand að vera eins og annað. Sé hugarástand því ákveðið ástand taugafrumna í ákveðnum hluta taugakerfis mannsins þá getur hvaðeina sem hefur ekki þá tegund taugakerfis ekki búið yfir hug. Samkvæmt hlutverkasinnanum er ákveðið hugarástand, eins og til dæmis að finna til sársauka, ekki skilgreint út frá ákveðnu líkamsástandi. Í staðinn er því haldið fram að til þess að eitt hugarástand sé eins og annað þurfi þau einungis að gegna sama hlutverki, ekki að vera efnislega eins, þótt hlutverkasinninn telji engu að síður að sérhvert hugarástand sé efnislegt ástand af einhverri gerð. Sé hugarástand því skilgreint með tilliti til hlutverks getur hvaðeina sem getur sýnt þetta hlutverk haft hug.

Þótt það kunni að láta undarlega í eyrum þá er samt hugsanlegt að draugar séu til ef hlutverkahyggja er rétta kenningin. Þetta er tilfellið jafnvel þótt gengið sé út frá því að hlutverkahyggja hljóti að vera efnishyggjukenning um hugann. Eins og kom fram hér að ofan hvílir hlutverkahyggja á þeirri skoðun að hvert það kerfi sem leysir af hendi viðeigandi hlutverk sé hugur, án tillits til þess hvernig þetta kerfi er myndað. Að þessu gefnu virðist mögulegt að hugur gæti orðið fyrir því að missa upprunalegt efniskerfi sitt en samt haldið sömu eða nægilega svipuðum hlutverkum eftir missinn. Úr því að hugurinn er efnislegt kerfi samkvæmt hlutverkahyggjunni, væri samspil hans við efnisheiminn ekkert sérstakt vandamál, jafnvel eftir að hann hefur nýtt efniskerfi. Nýja efniskerfið gæti verið bygging, staður eða nýr líkami. Til dæmis kynni einstaklingur að deyja í húsi og, eins og segir í mörgum draugasögum, kynni hugur einstaklingsins að lifa áfram í húsinu. Orðað á máli hlutverkahyggjunnar væri hugurinn, sem var einu sinni mengi hlutverka sem áttu sér stað í mannslíkama, nú mengi hlutverka sem eiga sér stað í húsi eða hlutum húss. Á meðan hlutverkin varðveitast héldi hugurinn áfram að vera til sem draugur. Þar sem draugar eru venjulega sagðir bundnir við ákveðna staði, jafnvel ákveðin herbergi, þá hefur greinargerð hlutverkahyggjunnar um drauga vissan trúverðugleika.

Hvort draugar eru til eða ekki er enn óútkljáð mál, en þessi ritgerð hefur fjallað um það innan ramma nútíma hugarheimspeki. Ef verundartvíhyggja, eiginleikatvíhyggja eða hlutverkahyggja er rétt þá geta draugar verið til. Sé hinsvegar samsemdarkenningin rétt geta engir draugar verið til.

Ábending um lesefni

Theories of the Mind, Stephen Priest (Penguin)

The Mind’s I, ed. Douglas R. Hofstadter and Daniel C. Dennett (Penguin)

Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísanir

1. Fengið úr greinasafni The Philosophers’ Magazine á vefsíðu tímaritsins. – Höfundur kennir heimspeki við háskóla í Florida í Bandaríkjunum.

2. Platon. Faídon (Þorsteinn Gylfason þýddi), í: Síðustu dagar Sókratesar. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags, Reykjavík 1983, bls. 142.

« Til baka