Færslusöfn

Ágískanir og afsannanir

eftir Karl R. Popper

Ágiskanir og afsannanir

Herra Turnbull hafði spáð fyrir um slæmar afleiðingar … og nú reyndi hann eftir megni að koma þeim í kring.

Anthony Trollope

I

Þegar mér barst í hendur listi yfir þátttakendur á þessu námskeiði, og ég áttaði mig á að mér væri ætlað að tala til félaga minna innan heimspekinnar, þótti mér, eftir augnabliks umhugsun og hik, líklegast að ykkur væri efst í huga að heyra mig fjalla um þau viðfangsefni sem ég hef sjálfur mestan áhuga á og um þær nýjungar sem ég þekki hvað best. Ég ákvað því að gera nokkuð sem ég hef aldrei gert áður: að gefa ykkur skýrslu um starf mitt í vísindaheimspeki allt frá árinu 1919 þegar ég hóf fyrst að kljást við spurninguna „Hvenær skyldi kenning teljast vísindaleg?“ eða „Er kostur á einhverju viðmiði sem ákvarðar gildi eða stöðu kenningar?

Spurningin sem ég glímdi við á þessum tíma var hvorki, „Hvenær er kenning sönn?“ né „Hvenær er kenning ásættanleg?“. Viðfangsefni mitt var af öðrum toga. Ég vildi greina vísindi frá gervivísindum; enda þótt ég gerði mér ljóst að vísindin væru oft á villigötum og að gervivísindi gætu rambað á sannleikann.

Vitanlega var mér kunnug vinsælasta lausnin á þessu viðfangsefni mínu: að hin empíríska aðferð skilji vísindi frá gervivísindum – eða „frumspeki“ –, sem er í eðli sínu aðleiðsla, þegar byggt er á athugun eða tilraun. En þetta þótti mér alls ekki fullnægjandi. Ég lagði viðfangsefni mitt gjarnan þannig fyrir að ég gerði greinarmun á réttnefndri empírískri aðferð og ó-empírískri aðferð eða gervi-empírískri aðferð – það er að segja, aðferð sem ekki stenst vísindaleg viðmið þótt hún styðjist við athuganir og tilraunir. Stjörnuspeki gæti verið dæmi um hið síðarnefnda. Hún býr yfir gríðarmiklu magni empírískra sannana sem byggja á athugunum – á stjörnuspákortum og ævisögum.

En úr því að það var ekki stjörnuspekin sem kveikti áhuga minn á viðfangsefninu, er kannski rétt að ég lýsi stuttlega andrúmsloftinu sem viðfangsefni mitt myndaðist í og þeim fordæmum sem hvöttu mig til að fást við það. Eftir hrun austuríska keisaradæmisins hafði átt sér stað bylting í Austurríki: byltingarkenndar hugmyndir og slagorð lágu í loftinu auk nýrra og oft á tíðum órakenndra kenninga. Afstæðiskenning Einsteins var líklega mikilvægust þeirra kenninga sem ég hafði mestan áhuga á. Auk hennar voru þrjár aðrar, sögukenning Marx, sálgreining Freuds og hin svokallaða „einstaklingssálarfræði“ Alfreds Adler.

Mikið var þvaðrað um þessar kenningar á meðal almennings, sérstaklega um afstæðishugtakið (eins og reyndar enn í dag), en ég var lánsamur í því hverjir kynntu þessar hugmyndir fyrir mér. Við vorum allir – þessi fámenni hópur stúdenta sem ég tilheyrði – uppveðraðir yfir niðurstöðum athugana Eddingtons á sólmyrkva, sem árið 1919 var fyrsta mikilvæga staðfestingin á sannleiksgildi afstæðiskenningar Einsteins. Þetta var stórkostleg reynsla fyrir okkur og hafði varanleg áhrif á þróun minnar eigin hugsunar.

Hinar þrjár kenningarnar sem ég nefndi voru einnig mikið ræddar á meðal stúdenta á þessum tíma. Ég komst raunar sjálfur í persónuleg kynni við Alfred Adler, og var honum raunar innan handar í þeim félagsstörfum sem hann ynnti af hendi á meðal barna og ungmenna í verkamannahverfum Vínar þar sem hann hafði komið á fót félagsráðgjafamiðstöðvum.

Það var að sumarlagi árið 1919 sem ég tók fyrst að finna til síaukinnar óánægju hjá sjálfum mér með þessar þrjár kenningar – sögukenningar Marx, sálgreininguna og einstaklingssálarfræðina, og ég fór að efast sífellt meir um réttmæti þess að flokka þær með vísindum. Í fyrstu var spurning mín einfaldlega á þessa leið, „hvað er athugavert við Marxisma, sálgreiningu og einstaklingssálarfræði? Í hverju eru þær svo frábrugðnar eðlisfræðikenningum, kenningum Newtons og einkum afstæðiskenningunni?“

Til að skerpa eilítið á þessum mun er rétt að ég nefni þá staðreynd að fáir okkar hefðu á þeim tíma sagst trúa því að afstæðiskenning Einsteins væri sönn. Þetta sýnir að það voru ekki efasemdir um hvort þessar þrjár kenningar væru sannarsem voru að angra mig, heldur eitthvað allt annað. Það var heldur ekki svo að ég teldi stærðfræðilega eðlisfræði nákvæmari en kenningar af félagsfræðilegum eða sálfræðilegum toga. Það voru því hvorki spurningar um sannleika né nákvæmni eða mælanleika sem leituðu á mig. Altént ekki þegar hér var komið sögu. Það var fremur að mér þóttu þessar þrjár kenningar eiga meira sammerkt með frumstæðum goðsögnum en vísindum þótt þær gæfu sig út fyrir að vera vísindalegar; að þær væru skyldari stjörnuspeki en stjörnufræði.

Ég komst að því að þeir vina minna sem dáðu Marx, Freud og Adler létu heillast af ákveðnum atriðum sem voru þessum þremur kenningum sameiginleg, einkum þeimútskýringarmætti sem þær virtust búa yfir. Þessar kenningar virtust geta skýrt nánast hvaðeina sem átti sér stað innan þess sviðs sem þær fengust við. Að fást við einhverja þessara kenninga virtist geta leitt til vitsmunalegra sinnaskipta eða opinberunar og opnað augu manns fyrir nýjum sannleika sem var hulinn þeim sem enn höfðu ekki verið innvígðir. En um leið og augu manns höfðu þannig verið opnuð blöstu hvarvetna við tilfelli sem staðfestu kenninguna: veröldin var full afstaðfestingum á kenningunni. Hvaðeina sem átti sér stað staðfesti hana. Sannleiksgildi hennar virtist því liggja í augum uppi, og þeir sem héldu á lofti efasemdum neituðu bersýnilega að sjá sannleikann sem hvarvetna blasti við þeim; þeir vildu ekki horfast í augu við hann vegna þess að það gekk gegn stéttarhagsmunum þeirra, eða vegna bælingar þeirra sjálfra sem hafði ekki verið „greind“ ennþá og kallaði á meðferð.

Sá þáttur sem mér sýndist einkenna þessa stöðu mála hvað mest var sá látlausi flaumur staðhæfinga og athugana sem áttu að „staðfesta“ viðkomandi kenningar, og lögðu talsmenn þeirra mikið upp úr þessu atriði. Marxistar opnuðu vart svo dagblað að ekki kæmu þeir á hverri síðu auga á sannanir fyrir mannkynssögutúlkunum sínum; ekki aðeins í fréttunum sjálfum, heldur einnig í framsetningu þeirra – sem gaf til kynna hvaða stétt blaðið var hliðhollt – og vitanlega fyrst og fremst í því sem það lét ósagt. Freudísku sálgreinendurnir lögðu ríka áherslu á að þeirra kenningar væru að jafnaði staðfestar í þeim „klínísku athugunum“ sem þeir stunduðu. Og það sem reið baggamuninn í tengslum við Adler var atvik sem ég varð sjálfur fyrir. Það var einhverju sinni árið 1919 að ég rakti fyrir honum tilfelli sem mér virtist ekki falla sérlega vel að hugmyndum hans. Það vafðist hins vegar ekki fyrir honum að greina það með hliðsjón af kenningu sinni um vanmetakenndina. Þetta gerði hann án þess að hafa svo mikið sem hitt barnið sem átti í hlut. Það kom nokkuð á mig og ég spurði hvernig hann gæti verið svona viss í sinni sök. „Þúsundföld reynsla mín segir mér það“, svaraði hann; og ég gat ekki annað en svarað á móti: „Sem að þessu nýja tilfelli meðtöldu er væntanlega þúsund-og-einföld.“

Það sem hvarflaði að mér var að fyrri uppgötvanir hans væru hugsanlega ekki betur ígrundaðar en þessi nýja; að hver og ein þeirra hefði verið túlkuð í ljósi „fyrri reynslu“, um leið og að vera álitin ný staðfesting. En á hverju er hún í raun staðfesting? spurði ég mig. Svar mitt var á þá lund að hún staðfesti eingöngu að sérhvert tilfelli mætti túlka í ljósi kenningarinnar. En þetta var lítils virði, þótti mér, þar eð öll hugsanleg tilvik mátti skýra með kenningum Adlers, ekki síður en með kenningum Freuds. Þetta má útskýra með tveimur ólíkum dæmum af mannlegri hegðan: annars vegar er dæmi um mann sem hrindir barni í sjóinn með það í huga að drekkja því; og hins vegar dæmi af manni sem fórnar lífi sínu til að bjarga því. Bæði dæmin verða jafn auðveldlega skýrð með hliðsjón af hugmyndum Freuds og Adlers. Samkvæmt Freud þjáðist maðurinn í fyrra dæminu af bælingu (á einhverjum þætti Ödípúsarkomplex síns, skulum við segja), en hinn síðari hafði öðlast göfgun. Samkvæmt Adler þjáðist fyrri maðurinn af vanmetakennd (sem kannski vakti hjá honum þörfina á að sanna með sjálfum sér að hann þyrði að drýgja glæp) og hið sama mætti segja um þann síðari (sem hafði þörf fyrir að sanna fyrir sjálfum sér að hann þyrði að bjarga barninu). Ég gat ekki ímyndað mér neitt dæmi um mannlega hegðun sem útilokað væri að túlka með hliðsjón af báðum þessum kenningum. Það var einmitt þessi staðreynd – að þær áttu ævinlega við, að þær voru alltaf staðfestar – sem í augum fylgjenda þessara kenninga myndaði helstu rökin fyrir þeim. Það hóf að renna upp fyrir mér að þessi meinti styrkleiki þeirra var í raun þeirra helsti veikleiki.

Allt öðru máli gegndi um kenningu Einsteins. Skoðum eitt dæmigert tilvik: forspá Einsteins, sem þá hafði nýlega verið staðfest með uppgötvunum úr leiðangri Eddingtons. Þyngdaraflskenning Einsteins hafði leitt til þeirrar niðurstöðu að ljós hlyti að dragast í átt að þungum efnismössum (eins og t.d. sólinni) á sama hátt og efnislegir hlutir. Af þessu mátti draga þá ályktun að ljós frá fjarlægri fastastjörnu sem sýndist staðsett nærri sólu myndi ná til jarðar úr átt sem gæfi til kynna að hún hefði fjarlægst sólina lítillega; eða, með öðrum orðum, að stjörnur sem staðsettar væru nærri sólinni myndu bæði sýnast hafa fjarlægst hana örlítið og hver aðra. Undir venjulegum kringumstæðum er ekki hægt að sjá þetta með berum augum því sterk birtan frá sólinni veldur því að við sjáum ekki þessar stjörnur að degi til; en það má ljósmynda þær í sólmyrkva. Ef síðan er tekin ljósmynd af sömu stjörnusamstæðu að nóttu til má bera saman fjarlægðarmælingar á báðum myndunum og sannreyna þannig kenninguna.

Þetta dæmi er glæsilegt vegna áhættunnar sem er fólgin í forspá af þessu tagi. Ef athugun leiðir í ljós að afleiðingin sem spáð hafði verið fyrir um lætur á sér standa hefur kenningin einfaldlega verið hrakin. Kenningin er þá ósamrýmanleg vissum mögulegum niðurstöðum athugana – niðurstöðum sem allir hefðu gengið að sem gefnum fyrir tíma Einsteins. Hér er um allt annars konar tilfelli að ræða en það sem ég lýsti áðan þegar viðkomandi kenningar reyndust samrýmanlegar allri hugsanlegri mannlegri breytni og því útilokað að ímynda sér nokkra mannlega athöfn sem ekki gæti talist staðfesting þeirra.

Þessar hugleiðingar leiddu til þess að veturinn 1919–20 komst ég að þeim niðurstöðum sem setja má fram með eftirfarandi hætti.

(1) Það er leikur einn að finna staðfestingar, eða sannanir, á hvaða kenningu sem vera skal – ef við leitum staðfestinga.

(2) Staðfestingar ber þá einungis að taka gildar að þær séu niðustöðuráhættusamrar forspár; það er að segja, að áður en við kynnumst kenningunni eigum við von á atburði sem er henni ósamrýmanlegur – atburði sem myndi hrekja kenninguna.

(3) Sérhver „góð“ vísindakenning felur í sér útilokun; hún leyfir ekki að ákveðnir hlutir gerist. Því meira sem kenning útilokar, þeim mun betri er hún.

(4) Kenning sem ekki er hægt að hrekja með neinum atburði er óvísindaleg. Óhrekjanleiki er ekki kostur á kenningu (eins og fólk heldur gjarnan) heldur löstur.

(5) Í hvert sinn sem kenning er prófuð er reynt að ógilda hana, eða hrekja hana. Að hægt sé að prófa kenningu þýðir að hægt sé að hrekja hana; sumar kenningar eru prófanlegri en aðrar, þær eru berskjaldaðri fyrir mótbárum; þær taka, svo að segja, meiri áhættu.

(6) Sannanir ber ekki að taka gildar nema þær séu niðurstöður ósvikinnar prófunar á kennnigunni; hér er átt við að um ákveðna en misheppnaða tilraun til að ógilda kenninguna sé að ræða. (Hér á ég við þau tilfelli þegar „sönnun er staðfesting“.)

(7) Sumum þeirra kenninga sem með réttu geta talist prófanlegar er haldið á lofti af aðdáendum þeirra þótt þær hafi verið afsannaðar –, til dæmis með því að draga inn einhverjar hjálparforsendur eftir á, eða með því að túlka kenninguna upp á nýtt þannig að afsönnunin bítur ekki á hana. Slíkt er ætíð mögulegt, en það bjargar kenningunni frá ógildingu einungis með því að eyðileggja eða draga úr vísindalegu gildi hennar. (Síðar nefndi ég slíkar björgunaraðgerðir vildarhyggju-viðsnúning eða vildarhyggjuherkænsku.)

Þetta má draga saman með því að segja að það sem ákvarði vísindalegt gildi kenningar sé hversu opin hún er fyrir ógildingu, það er að segja, hrekjanleiki hennar eða prófanleiki.

« Til baka

Frjálshyggjan verður aldrei fullsköpuð

eftir Hannes Hólmstein Gissurarson

„Frjálshyggjan verður aldrei fullsköpuð“ – viðtal við Sir Karl R. Popper

Hver er merkasti heimspekingur okkar daga? Margir kunna að svara: Sir Karl Raimund Popper, Austurríkismaður að ætt, en Englendingur að eigin vali, höfundur framúrskarandi fræðirita um stjórnmál eins og Opins skipulags og óvina þess (The Open Society and Its Enemies), en einnig ágætra verka um vísindi, svo semRökfræði vísindalegrar rannsóknar (The Logic of Scientific Discovery). Sir Karl er eins og Davíð Hume, Immanúel Kant og John Stuart Mill heimspekingur í þeim hefðbundna skilningi, að hann lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Hann skrifar ekki aðeins um stjórnmál, heldur reynir að skýra og skilja rök tilverunnar með hugtökum sínum. Tveir eða fleiri heimspekingar mega hvergi koma svo saman, að kenningar hans beri ekki á góma, hvort sem þeir eru sammála honum eða ekki.

Ég hafði heyrt, að Popper væri erfiður í umgengni og ómannblendinn, svo að ég hikaði við að hafa samband við hann, er ég settist fyrst að í Englandi. En í ársbyrjun 1985 herti ég upp hugann, hringdi í gamla manninn og sagði honum eins og satt var, að ég hefði lengi velt hugmyndum hans fyrir mér, gert um hann útvarpsþátt heima á Íslandi og vildi gjarnan skrifa eitthvað meira um hann. Hvort ég gæti hitt hann? Popper reyndist hinn ljúfasti. Já, hann hafði ekkert á móti því að hitta mig, þótt hann yrði að vara mig við því, að hann væri að verða heldur heyrnardaufur, sagði hann með þýskum hreimi. Gæti ég ekki komið í heimsókn til hans miðvikudaginn 3l. janúar klukkan þrjú? Ég hélt nú það.

Enginn flótti í augnaráðinu

Klukkan þrjú miðvikudaginn 31. janúar árið 1985 barði ég að dyrum á húsi Popper-hjónanna. Það heitir „Fallowfield“ og er í litlu, syfjulegu þorpi norðan af Lundúnum, Penn í Buckingham-skíri. Enid Blyton, barnabókahöfundurinn frægi, hafði búið í næsta þorpi, og allt er umhverfið eins og lýst er í mörgum bókum hennar og landa hennar, Agötu Christie: Gömul og virðuleg hús, umvafin trjágróðri, tíst í fuglum, friðsæld í lofti og feitlagnir lögregluþjónar. Ég þurfti að bíða nokkra stund við dyrnar. En að lokum kom aldraður maður, lágvaxinn og heldur lotinn í herðum, til dyra, grannur og hvíthærður með óskaplega stór eyru og hvelft nef og gyðinglegt. Þetta var Sir Karl Popper. Hann brosti blíðlega, bauð mér til stofu, og þar settumst við og tókum tal saman.

Margar sögur eru sagðar af því, hvernig Popper hafi leikið samkennara sína og nemendur í Hagfræðiskólanum í Lundúnum (London School of Economics), á meðan hann var þar prófessor. Hann hafi verið kröfuharður, deilugjarn og ekki gefið neinum grið. Stundum hafi hann jafnvel vísað nemendum á dyr, er honum hafi mislíkað við þá á málstofu. En ég varð alls ekki var við þessa hlið á honum. Hann sagði að vísu skoðun sína og hana afdráttarlausa á mönnum og málefnum, en tók því ekki illa, er ég nefndi við hann ýmsar þær veilur, sem menn hafa þóst sjá á kenningum hans sjálfs. Hann hefur falleg augu (þótt hið vinstra virðist nokkru sljórra en hið hægra) og horfir beint í augu viðmælanda síns. Það er enginn flótti í augnaráði þessa manns.

Ég hóf umræðurnar með því að spyrja Popper, hvernig honum litist á ýmis þau verk, sem unnin hefðu verið síðustu árin í heimspeki stjórnmálanna. Hann sagði, að hann hefði að vísu ekki fylgst vel með þeim, því að síðustu áratugi hefði hann einbeitt sér að heimspeki vísindanna. En sér sýndist því miður sem ýmsir yngri menntamennirnir þekktu ekki nægilega vel til sögu vestrænna þjóða og bókmennta þeirra; þessir ágætu menn virtust ekki hafa lesið sér nægilega vel til. Hann tók til dæmis grein, sem sér hefði borist þá um morguninn, um hina frægu ádeilu sína á kenningu Karls Marx í bókinni Opnu skipulagi og óvinum þess (en hún kom fyrst út árið 1945). Það leyndi sér ekki, að höfundur þessarar greinar þekkti lítt til tímabilsins frá 1900 til 1940, þegar flokkar marxista voru sem áhrifamestir í Norðurálfu.

„Karl Marx hafði umfram allt aðdráttarafl á þessum árum, af því að hann var spámaður. Hann taldi sig geta sagt með sömu vissu fyrir um byltingar og stjörnufræðingur um gang himintungla,“ sagði Popper. „Þeir, sem skilja þetta ekki, skilja ekki, hvers vegna svo öflug hreyfing spratt upp undir merki hans á þessum árum. Kjarni málsins er, að Marx taldi sig hvorki siðbótarmann né stjórnmálamann, heldur allt að því hlutlausan vísindamann, sem bryti fyrirbæri mannlegs samlífs til mergjar. Menn trúðu þessum boðskap og fylktu sér því um þá flokka, sem störfuðu í nafni hans; um þetta get ég borið af eigin reynslu. Það er ekki síst þessari trú þeirra – eða öllu heldur hjátrú – að kenna, að fyrri heimsstyrjöldin skall á, en hún er ein mesta ógæfa okkar aldar. Félagshyggjumenn, sem hefðu getað stöðvað hana, töldu þess ekki þurfa; sagan hlyti að ganga sinn gang.“

Popper bætti við: „Ungir fræðimenn lesa ekki nægilega margt, og þeir lesa ekki nægilega vandlega. Þeir eiga að lesa margt og hægt og vel. Um 1960 var hraðlestur mjög í tísku. Í Hagfræðiskólanum í Lundúnum, þar sem ég kenndi þá, var haldið hraðlestrarnámskeið. Ég skrifaði forstjóranum bréf og sagði, að mér fyndist nær að halda hæglestrarnámskeið. Ég er hræddur um, að forstjórinn hafi ekki tekið þessari hugmynd minni mjög vel!“

Kenning Marx óvísindaleg

Í tveimur bókum sínum, Opnu skipulagi og óvinum þess, sem þegar hefur verið getið, og Eymd söguhyggjunnar (The Poverty of Historicism), sem kom fyrst út í heild á ensku árið 1957, leiðir Sir Karl Popper rök að því, að kenning Marx og fylgismanna hans geti ekki talist vísindaleg. Hann bendir á það, að þessi kenning geti skýrt allt, en í því felist, að hún geti ekki skýrt neitt. Marxisti megi ekki opna svo dagblað, að hann sjái þar ekki einhverja staðfestingu blessaðrar stétta­baráttunnar; hver dagur sé honum ný opinberun kenningarinnar. Menn kunni að halda, að þetta sé styrkleiki kenningarinnar, en Popper segir, að þetta sé reyndar einmitt veikleiki hennar. Til þess að geta talist vísindaleg verði kenning að hafa í sér fólgna einhverja forskrift um, hvernig hana megi hugsanlega hrekja eða afsanna. Kenning Marx hafi ekki (að minnsta kosti ekki í þeim búningi, sem margir marxistar sníði henni) í sér fólgna neina slíka forskrift og geti því ekki talist vísindaleg.

Einhverjum kann að þykja þetta einkennilegt. Er kenning vísindaleg, af því að hana megi (hugsanlega) afsanna, en ekki af því að hana megi sanna? Popper segir, að hann hafi fyrst áttað sig á þessu skömmu eftir heimsstyrjöldina fyrri, þegar hann hafi verið ungur maður í Vínarborg, en þar hafi allt verið á hverfanda hveli og óskaplegt framboð af nýjum hugmyndum: Afstæðis­kenningu Einsteins, sálgreiningu Freuds, byltingarkenningu Marx, rökfræðilegri raunhyggju (e. logical positivism) Wittgensteins, Carnaps og Neuraths og ýmsum öðrum kenningum. Hann hafi komið auga á muninn á afstæðiskenningu Einsteins annars vegar og hugmyndum Freuds og Marx hins vegar: Í afstæðiskenningunni hafi verið fólgin forskrift um það, hvernig hana mætti afsanna, og það hafi verið reynt, en ekki tekist. En í hugmyndum Freuds og Marx hafi sjálfum verið fólgnar skýringar á öllum hugsanlegum frávikum frá þeim. (Hagfræðingur, sem hafnar vinnu­gildiskenningu Marx, er að sögn marxista aðeins „borgaralegur hagfræðingur“, svo að tekið sé einfalt dæmi.) Kenning Einsteins hafi verið opin og óvarin fyrir gagnrýni, þótt hún hafi staðist hana fram að þessu, en kenningar Freuds og Marx verið lokaðar fyrir allri slíkri gagnrýni.

Stendur sólin upp á morgun?

Popper gat, eftir að hann hafði komið auga á þetta, ungur maður í Vínarborg, lagt í glímu við gamlan vanda heimspekinnar, sem Davíð Hume hafði fyrstur komið skýrum orðum að. Hann er sá, hvernig við getum verið viss um, að regla, sem gilt hefur fram að þessu, að því er virðist, gildi áfram. Hvernig getum við verið viss um, að sólin standi upp á morgun, þótt hún hafi komið upp á hverjum degi svo lengi sem elstu menn muna? Vandinn liggur í því, að ekki nægir að telja upp einstök dæmi um eitthvert vísindalegt lögmál til þess að sanna það. Ekki nægir að segja sögur máli sínu til stuðnings, eins og fylgismenn Marx og Freuds gera gjarnan. Þetta má orða svo: Af einstökum dæmum, hversu mörg sem þau eru, má ekki draga ályktun um neina almenna reglu.

Popper leysti þennan vanda með því að benda á það, að við getum afsannað reglu, þótt við getum ekki sannað hana. Vísindamenn gátu hrakið kenningu Newtons með tilraunum sínum, þótt þeir gætu ekki „sannað“ kenningu Einsteins með sambærilegum tilraunum. Við verðum að sögn Poppers að sætta okkur við það, að við getum aldrei komist að neinum endanlegum sann­leika um umheiminn, eins og vísindamenn hafa reynt á öllum öldum. En við getum nálgast slíkan sannleika með því að reyna að ryðja úr vegi röngum kenningum – með því að reyna að hrekja hefðarspeki hvers tíma, ef svo má að orði komast. Við getum með öðrum orðum aðeins nálgast sannleikann með sífelldri samkeppni hugmynda. Þær vísindalegu kenningar, sem taldar eru sannar hverju sinni, eru aðeins tilgátur, sem hugsanlegt er að hrekja, þótt það hafi ekki tekist fram að þessu. Þær eru alltaf bráðabirgðatilgátur.

Taka má þetta mál svo saman, að meginkenningar Poppers um vísindi séu tvær: Önnur er um það, hvernig draga megi mörk vísinda og gervivísinda, og hún er sú, að kenningar gervivísinda séu óhrekjanlegar – þær geymi ekki í sér tilsögn um tilraunir, sem geti afsannað þær. Hin kenningin er sú, að við getum ekki sannað neitt um umheiminn, heldur aðeins afsannað eitthvað um hann. Við getum ekki treyst því, að sólin standi upp á morgun, af því að tekist hafi að sanna það, heldur af því að ekki hafi tekist að afsanna það. (Popper hafnar því efa Humes um það, að við getum komist að einhverri óyggjandi vitneskju um veruleikann, enda telur hann sig hafa leyst þann vanda, sem Hume hafi skilið eftir. Hann er alls ekki efahyggjumaður.)

Popper sagði mér, að sennilega hefði hann valdið einhverju sjálfur um það með gagnrýni sinni, að marxistar hefðu hörfað út af vettvangi vísindanna. Nú á dögum teldu þeir kenningu sína ekki vísindalega heldur „tiltekna túlkun veruleikans“ eða eitthvað þvíumlíkt. Marxistar hefðu fyrr á árum verið ótrúlega innblásnir af þeim Stórasannleika, sem þeir hefðu fundið, jafnvel ágætir vísindamenn. Þeir hefðu verið sannfærðir um það, að þeir væru að slást í för með Framtíðinni, hinni vísindalega sönnuðu sögu. Hann sagðist enn muna eftir því, þegar kunnur breskur vísindamaður hefði látið þau ummæli falla í Prag árið 1950, að Stalín væri „mesti vísindamaður okkar tíma“.

Ég spurði Popper, hvort hann hefði ekki verið of mildur í dómi sínum um Marx íOpnu skipulagi og óvinum þess, en þar segir hann, að Marx hafi verið mannvinur, þótt hann hafi að vísu haft rangt fyrir sér. Ég minnti Popper á, að Marx hefði verið kynþáttahatari eins og vinur hans Engels, hroka­fullur, stjórnlyndur menntamaður, eins og ráða mætti af ýmsum einkabréfum hans. (Íslendingar hljóta sumir að muna eftir ókvæðisorðum Engels um Íslendinga, en ég dró þau fram í dagsljósið í blaðagrein fyrir nokkrum árum.) „Ég skrifaði Opið skipulag og óvini þess til þess að reyna að telja marxistum eins og þeim, sem ég þekkti, hughvarf,“ svaraði Popper. „Þess vegna reyndi ég að ræða af fullri samúð um Marx. En þú hefur sennilega rétt fyrir þér um það, að fullt tilefni sé til þess að efast um góðgirni Marx, og ég bendi reyndar á það í eftirmála við eina síðari útgáfu bókarinnar.“

Tókst Popper að snúa einhverjum marxistum til betri vegar? „Það gleður mig mjög, ef ég hef haft áhrif á einhverja þeirra, eins og mér er sagt,“ sagði hann. Hann gerði smáhlé á máli sínu, brosti og sagði: „Ég man, að ég sagði einu sinni við kunnan breskan vísindamann, mjög róttækan, sem þú skalt ekki nafngreina, að hann gæti ekki verið þekktur fyrir að vera í Kommúnistaflokknum, á meðan Stalín leyfði lagsbróður sínum, Trófim Lýsenkó, að hundelta alla erfðafræðinga Ráð­stjórnarríkjanna fyrir þá sök eina, að erfðafræði þeirra félli ekki í einu og öllu að kenningum þeirra Marx og Leníns. Viku síðar birtu blöðin frétt um það, að hann hefði sagt sig úr Kommúnista­flokknum.“

Er vísindakenning Poppers sjálfri sér samkvæm?

Ýmsir heimspekingar gagnrýna Popper fyrir kenningu hans um vísindin. Þeir taka undir það með honum, að tilgátur vísindanna séu fremur afsannanlegar en sannanlegar, en segja, að Popper hafi ekki leyst þann vanda, sem Hume benti á, með þessu, heldur umorðað hann. Einn ágætasti heimspekingur Íslendinga, Arnór Hannibalsson, hefur komið orðum að slíkri gagnrýni í fyrir­lestrum um rætur mannlegrar þekkingar. (Þess má geta, að breski heimspekingurinn Anthony O’Hear reifar svipaða gagnrýni í nýlegri bók um Popper.) Arnór segir, að mótsögn sé í kenningu Poppers. Annars vegar haldi hann því fram, að ekki megi draga ályktanir um kenningar af stað­reyndum, heldur öfugt: Draga megi ályktanir um staðreyndir af kenningum. Hins vegar kenni hann, að kenningar verði að styðjast við staðreyndir. Eins og Arnór orðar það: „Popper neitar því, að menn hafi aðgang að veruleika utan hugarheims þeirra (eða tungumálsins), en hins vegar þarf hann á slíkum veruleika að halda til þess að geta sagt eitthvað um sannleiksgildi kenninga. Staðreyndir eru ekki til sem uppspretta kenninga, en þær eru til sem mælikvarði á sannleiksgildi kenninga.“

Ég spurði Popper, hvað hann hefði að segja um þessa gagnrýni. Hann svaraði, að hann kæmi ekki auga á neina mótsögn. Við prófuðum kenningar með því að gera sífelldar tilraunir til að hrekja þær. Hann minnti á, að við gætum ekki sagt til um, hvenær kenningar hefðu verið sannaðar, en við gætum hins vegar sagt til um, hvenær þær hefðu verið afsannaðar. Vísindalegar kenningar væru aldrei annað en bráðabirgðatilgátur, og við það yrðu menn við að sætta sig, en samkvæmt þessari gagnrýni yrðu þær að vera sannar til þess að vera vísindalegar. Popper sagði, að menn gætu ekki komist upp að veruleikanum, en þeir gætu þokast nær honum með aðstoð sumra kenninga og fjær honum með aðstoð annarra. Enginn vafi væri á því, að kenning Einsteins um þyngdarafl færði menn nær veruleikanum, samsvaraði staðreyndunum betur, heldur en kenning Newtons. Það væri síðan langt mál og flókið að skýra samsvörunarkenningu pólska rökfræðingsins Tarskis um sannleikann, sem Popper hefði gert að sinni.

Um Platón og Hegel

Árið 1938 var Popper kominn hinum megin á hnöttinn, til Nýja-Sjálands, en þangað hafði hann hrökklast undan hinni brúnu vofu, sem lék ljósum logum í Norðurálfu á fjórða áratugnum, þjóðernis-sósíalisma Hitlers. Daginn sem Hitler lagði undir sig heimaland hans, Austurríki, hét Popper því að skrifa bók þá, sem síðar varð Opið skipulag og óvinir þess. Hann hugðist koma á framfæri skýringum sínum á því, hvernig alræðisstefna tuttugustu aldar varð til. Bókin er umfram allt rækileg ádeila, mjög frumleg á köflum, á kenningar þriggja hugsuða, sem Popper taldi bera ábyrgð á alræðisstefnunni. Þeir voru auk Marx forngríski heimspekingurinn Platón og þýski prófessorinn G. W. F. Hegel. Ýmsum fræðimönnum finnst Popper hafa verið of harður í dómum um þessa tvo heimspekinga, einkum um Hegel, þótt hann hafi tekið Marx full-mjúklegum tökum. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, eftir að ég kynnti mér rit Hegels um stjórnmál, að Popper hafi að minnsta kosti ekki unnt Hegel sannmælis. Þessi þýski prófessor er þrátt fyrir allt merkilegur heimspekingur, þótt skynsamir menn hljóti að hafna mörgum kenningum hans. En þetta mál varðar nokkru uppi á Íslandi, því að árás Poppers á Hegel er tekin upp allt að því óbreytt í tveimur íslenskum ritum, í Tilraun um manninn eftir Þorstein Gylfason og Frjálshyggju og alræðishyggju eftir Ólaf Björnsson. Ég sneri talinu því að þessu.

„Ég er þeirrar skoðunar og segi það í bók minni, að Platón hafi verið einn mesti, ef ekki mesti, heimspekingur allra alda, svo að enginn getur sakað mig um ósanngirni í hans garð. Ég held þó, að ég geti enn staðið við gagnrýni mína á stjórnmálakenningar hans,“ sagði Popper. „Og ég var alls ekki of harður í dómum mínum um Hegel. Hann sinnti ekki fremur en forveri hans, Fichte, heimspeki í neinni alvöru, hann var ekki að leita að sannleikanum, hann hafði enga ábyrgðar­kennd. Hann var spámaður, postuli á palli, guðfræðingur í verstu merkingu þess orðs.“

Umsjónarkennari minn á Pembroke-garði í Oxford, dr. Zbigniew A. Pelczynski, sem er manna fróðastur um stjórnspeki Hegels, hefur sagt mér það, að Popper hafi tekið nærri sér gagnrýni Johns heitins Plamenatz, prófessors í stjórnspeki í Oxford, á frásögn Poppers frá kenningu Hegels. Plamenatz hafi látið þau orð falla í umsögn um aðra útgáfu Opins skipulags og óvina þess, að Popper hafi misskilið Hegel. Sannleikurinn væri sá, að hugmynd Poppers um stjórnmálatækni (e. social engineering) væri svipuð hugmynd Hegels um hóflega ríkisafskipta­stefnu til þess að berja í þá bresti, sem finna mætti á hinu borgaralega skipulagi. Popper hafi skrifað Plamenatz og óskað eftir fundi um málið. Hann hafi síðan, er á fundinn hafi komið, hvorki þegið vott né þurrt, heldur stikað um fundarherbergið og endurtekið: „Hvernig gátuð þér gert mér þetta, prófessor Plamenatz? Hvernig gátuð þér sagt þetta?“ Plamenatz hafi varla komist að til þess að skýra fyrir Popper, að þetta væri sér ekkert tilfinningamál. Hann væri að reyna að skilja fræðimenn fyrri alda, en ekki að draga þá til ábyrgðar fyrir dómstóli sögunnar.

Popper skrifar stundum fremur sem tilfinningamaður með mikla lífsreynslu að baki en hlutlaus fræðimaður uppi í fílabeinsturni. Það hefur sennilega mótað hann að verða vitni að því, ungur maður í Vínarborg, hvernig menn voru tilbúnir til þess að fórna öllu siðferði fyrir það, sem þeir héldu, að væri sannleikur sögunnar; hann taldi, réttilega eða ranglega, að Hegel bæri öðrum fremur ábyrgð á slíkri söguhyggju. Í Opnu skipulagi og óvinum þess ræðir hann því ekki um Hegel eins og dómari, heldur sem ákærandi.

Mont Pèlerin-samtökin

Ég vék að svo búnu talinu að Mont Pèlerin-samtökunum svonefndu, en Sir Karl Popper var einn af stofnendum þeirra ásamt ýmsum öðrum menntamönnum. Popper, sem er kvikur mjög í hreyfingum þrátt fyrir sín 83 ár, stóð þá upp og náði í bók, þar sem hann geymir ljósmyndir frá stofnfundinum, sem haldinn var í litlu þorpi í Svisslandi í apríl 1947, Mont Pèlerin, Pílagríms­fjallinu. Við skoðuðum þær drykklanga stund og spjölluðum saman um ýmsa þá hugsuði, lífs og liðna, sem þar gat að líta.

Þeir Popper og Friðrik von Hayek eru gamlir vinir, en Hayek útvegaði Popper útgefanda að Opnu skipulagi og óvinum þess, eftir að ýmis fyrirtæki höfðu hafnað bókinni af hugmyndafræðilegum ástæðum. Hayek útvegaði Popper einnig kennarastarf við Hagfræðiskólann í Lundúnum árið 1946. Popper lauk miklu lofsorði á Hayek, bæði sem stórkostlegan mann og mikinn hugsuð. „Mér þykir mjög vænt um hann,“ mælti Popper. Hann stóð aftur upp, náði í tvö helstu verk Hayeks,Frelsisskrána og Frelsi, lög og lagasetningu, lagði þau á borðið fyrir framan okkur og sagði með áherslu: „Ég held, að ég geti skrifað undir hvert orð, sem hér stendur.“

Ég spurði Popper um annan góðkunnan frjálshyggjumann, Milton Friedman, og sagði hann, að sér hefði alltaf fallið vel við hann; Friedman væri fjörugur og skemmtilegur. En Popper var þeirrar skoðunar, að Lúðvík von Mises – kennari Hayeks og einn helsti hugsuðurinn í hópi „austurrísku hagfræðinganna“ svonefndu – hefði verið betri hagfræðingur en vísindaspekingur. Það er að vonum, að Popper sé ekki hrifinn af kenningu Misess um aðferðir mannvísindanna, því að hún stangast á við kenningu hans sjálfs. Popper leggur mikla áherslu á það, að reyna verði þolrifin í vísindalegum kenningum, prófa þær með öllum hugsanlegum ráðum. En Mises taldi, að kenningar hagfræðinnar hvíldu á óyggjandi staðreyndum um eðli mannanna; þær þyrfti ekki að prófa, heldur væru þær í raun ekkert annað en rökréttar ályktanir af þessum staðreyndum. Popper sagði, að sér hefði hins vegar ekki líkað við Michael heitinn Polanyi, heimspeking, vísindamann og félaga í Mont Pèlerin-samtökunum, en Polanyi lagði mikla áherslu á þá hagnýtu þekkingu, sem falin væri í siðum manna og venjum. Popper bætti því við, að hann væri hættur að sækja fundi Mont Pèlerin-samtakanna, enda hefði hann á síðustu árum einbeitt sér að vísindaspeki, eins og hann hefði þegar tekið fram. Hann væri þessa stundina að skrifa um skammtafræði (e. quantum physics). Hann leit á mig, brosti og sagði: „Skammta-aflfræðin var æskuástin mín, og ég er aftur snúinn í fang hennar.“ Einn daginn hefði hann til dæmis unnið sleitulaust frá því klukkan hálfþrjú til miðnættis með grískum vini sínum, eðlisfræðingnum Tómasi Angelidis.

„Við finnum ekki sannleikann í valdinu“

Hvað hafði Popper að segja um þá kenningu, að samkeppni á markaði veldi úr þá siði, sem heppilegastir væru, en sumir frjálshyggjumenn hafa gælt við hana síðustu árin, þar á meðal vinur hans, Hayek? Popper kvaðst telja þessa kenningu varasama. Ekki mætti rugla saman lífsmætti einhvers siðar og sannleiksgildi hans eða siðferðisgildi. Það væri því miður rangt, sem margir frjálshyggjumenn héldu, að sannleikurinn hlyti alltaf að sigra að lokum. „Við finnum ekki sann­leikann í valdinu,“ sagði Popper. „Við finnum hann ekki heldur í sögunni. Það sannar að mínum dómi ekkert um einhvern sið, að hann sé langlífur. Ég veit ekki betur en Indverjar hafi búið við sína rígskorðaða stéttaskiptingu í þúsundir ára. Hún er hvorki betri né verri fyrir það. Enginn siður okkar mannanna er hafinn yfir gagnrýni, hvort sem hann er gamall eða nýr, og við hljótum að hafna einhverjum sið, ef okkur býðst annar betri. Hitt er auðvitað annað mál, að við verðum að hafa einhver sæmileg rök fyrir því að hafna honum. Sönnunarbyrðin hvílir á þeim, sem vilja hafna einhverjum sið.“

Popper hélt áfram: „Við frjálshyggjumenn megum aldrei gleyma því, að frjálshyggjan er sífelld barátta gegn því böli, sem er af manna völdum. Menn verða að kunna að gera greinarmun á staðreyndum og verðmætum. Við sönnum ekkert um verðmæti með því að vísa til staðreynda. Við sönnum ekkert um það, að stéttaskiptingin í Indlandi sé æskileg eða óæskileg, með því að vísa til þeirrar staðreyndar, að hún hefur verið mjög lífseig. Ég leyfi mér að segja, að slík stéttaskipting sé óæskileg, hvort sem hún hefur verið til í tíu ár, hundrað ár eða þúsund ár – og hvort sem hún á eftir að vera til í þúsund ár í viðbót eða ekki.“

Popper sagði mér, að von okkar mannanna lægi í vísindunum – í því að reyna í sífellu að ryðja úr vegi röngum hugmyndum, siðum, kenningum, mannlegum þjáningum, böli. Vísindin yrðu að vera samkeppni ólíkra hugmynda, svo að þar gæti verið um framþróun að ræða, og þess vegna væri frelsið eins nauðsynlegt vísindamönnum og andrúmsloftið öllu fólki. En hæpið væri að beita einhverjum þróunarkenningum á sviði stjórnmálanna, því að þar væri valdið alltaf fyrir og þar ættu rangar hugmyndir þess vegna auðveldara með að sigra en á sviði vísindanna. (Í raun er röksemd Poppers ekki mjög ólík þeirri, sem Milton Friedman kom orðum að í fyrirlestri sínum hérlendis haustið 1984, en hún er sú, að í stjórnmálunum gildi eitthvert tregðulögmál, sem ekki sé unnt að taka úr sambandi nema með því að breyta leikreglum stjórnmálanna.)

Popper sagði síðan, að honum fyndist sumir frjálshyggjumenn okkar daga vera heldur miklir draumóramenn. Þeir tryðu á fyrirmyndarríki frjálshyggjunnar, staðleysu eða útópíu, þar sem stjórnmál væru úr sögunni. Hann væri þeirrar skoðunar eins og aðrir frjálshyggjumenn, að brýnasta verkefnið væri að minnka ríkisafskipti. Ekkert væri eins hættulegt frelsinu og risastórt ríkisbákn, þunglamalegt kerfi. Einhver ríkisafskipti væru þó alltaf nauðsynleg. Hann sagði: „Það er innri spenna í frjálshyggjunni, sem við getum ekki lokað augunum fyrir. Annars vegar tortryggjum við frjálshyggjumenn allir valdið. Hins vegar þurfum við valdsins með til þess að tryggja frelsið. Við verðum að fylgja verndarstefnu, sem ég kalla svo – beita ríkisvaldinu til þess að vernda frelsið. Við höldum frelsinu ekki nema með sífelldri aðgát, gagnrýni, baráttu. Frjálshyggjan verður að leysa þessa spennu, og lausnirnar hljóta að vera ólíkar í ólíkum löndum og á ólíkum tímum. Frjálshyggjan verður þess vegna aldrei fullsköpuð. Hún er endalaus leit að lausnum, tilraun til að takmarka valdið, binda það, svo að það geti horft til heilla fyrir fólk.“

Sveigjanleg frjálshyggja og hörð

Frjálshyggja Poppers er „sveigjanleg“ fremur en „hörð“, ef svo má að orði komast, enda hafa ýmsir frjálslyndir stjórnmálamenn hrifist af henni, þótt þeir hafi talið sig á vinstrivæng stjórnmálanna: Jafnaðarmaðurinn Helmuth Schmidt, fyrrum kanslari Vestur-Þýskalands, skrifaði til dæmis formála að afmælisriti hans árið 1982. Hver er munurinn á sveigjanlegri og harðri frjálshyggju? Ég held, að þetta séu tvær hliðar á sama fyrirbæri: Harðir frjálshyggjumenn eins og Milton Friedman og Robert Nozick brýna það fyrir okkur að gleyma því aldrei, hvaða takmörk tilveran setji okkur. Þeir minna okkur á lögmál skortsins – á það, að lífsgæðin nægja ekki til þess að sinna öllum þörfum allra manna og að við verðum því að koma okkur saman um einhverja reglu um skiptingu þeirra og að skynsamlegasta reglan felist í séreignarréttinum. Sveigjanlegir frjálshyggjumenn eins og John Stuart Mill og Karl Popper hafa á hinn bóginn meiri áhuga á því fyrirheiti, sem frelsið ber í sér – á möguleikum vísindamanna og listamanna til sköpunar og möguleikum einstaklinga til þess að lifa fögru mannlífi. Það fer eftir efnum og ástæðum, hvorri hliðinni frjálshyggjan getur snúið að umheiminum. Stundum hljótum við mennirnir að rekast heldur harkalega á takmörk okkar, ef við ætlum okkur um of. En stundum getum við leyst úr læðingi þann mikla mátt, sem í mannsandanum býr.

Skýringin á því, að margir íslenskir menntamenn hafa ekki verið tilbúnir til að kalla sig frjáls­hyggjumenn, er sú, býst ég við, að þeir hafa lítinn áhuga á annarri hlið frjálshyggjunnar – á þeirri kenningu, að peningar vaxi ekki á trjánum, ekki megi eyða meira en aflað sé og mönnum beri að gera góðverk sín á eigin kostnað, en ekki annarra. Þeir hafna því harðri frjálshyggju. En geta þeir ekki tekið undir sveigjanlega frjálshyggju með Popper? Sjálfur held ég að vísu, að frjálshyggjan verði við núverandi aðstæður að snúa hinni hliðinni að umheiminum. Lögmál skortsins leggst á okkur af miklum þunga í velferðarríkjum Vesturlanda, þar sem við höfum eytt langt umfram efni. Við getum ekki, hvort sem okkur líkar betur eða verr, gleymt þessu lögmáli. En þetta mat á aðstæðum breytir því ekki, að þessir ágætu menntamenn eiga heima í hópi frjálshyggjumanna – ekki sem harðir frjálshyggjumenn, heldur sveigjanlegir.

Ummæli Poppers um Ísland

Popper spurði, hvaðan ég væri. Hann brosti vingjarnlega, þegar ég sagðist vera frá Íslandi, og spurði mig, hvort ég vissi af ummælum hans um Ísland. Ég kinkaði kolli: Í grein um sögu okkar daga, sem birtist í bókinni Tilgátum og tilraunum, segir Popper, að sér hafi ekki hugkvæmst nema eitt ríki, sem fullnægi öllum settum skilyrðum til þess að vera þjóðríki – en það sé Ísland. Annaðhvort sé það svo, að önnur ríki hafi gjarnan tvær þjóðir eða fleiri innan sinna vébanda, til dæmis Svissland, eða hitt, að ein og sama þjóðin byggi mörg ríki, til dæmis Engilsaxar, og síðan sé það til, að mörk á milli þjóða séu mjög óglögg með öðrum hætti. Popper bætir því við í greininni, að Norður-Atlantshafið skilji Íslendinga frá öðrum þjóðum, og ekki megi heldur gleyma því, að landið sé ekki varið af Íslendingum sjálfum, heldur af Norður-Atlantshafsbandalaginu. Hann dregur þess vegna þá ályktun, að landið sé ekki eins mikil undantekning og virðist við fyrstu sýn frá þeirri reglu sinni, að þjóðríki séu hvergi til.

Popper er eindreginn alþjóðahyggjumaður. Hann er andsnúinn þeirri kenningu, sem notuð var við uppskiptingu Norðurálfu að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni, að landamæri ríkja yrðu að falla saman við mörk á milli þjóða. Rök hans gegn henni eru einkum tvenn. Í fyrsta lagi sé þessi kenning óframkvæmanleg, þar sem ólíkar þjóðir búi alls staðar hver innan um aðra. Í öðru lagi sé þjóðernisstefna óheillavænleg eins og reynslan hafi margsýnt. Rétta ráðið sé ekki að stía þjóðum sundur, heldur að búa þeim skilyrði til þess að lifa friðsamlega saman – eins og tekist hafi að gera í Svisslandi. Popper benti þó á það í samtali okkar (eins og Friedman hafði gert uppi á Íslandi), að fámennar þjóðir og tiltölulega samleitar, ef svo má segja, ættu ekki í sömu vandræðum og fjölmennari þjóðir og sundurleitari. Um það gæti hann sjálfur borið af reynslu sinni á Nýja-Sjálandi, sem hefði verið friðsælt land og viðkunnanlegt.

„Þegar við hjónin vorum ung og bjuggum í Vínarborg, höfðum við einmitt mikinn áhuga á Íslandi,“ bætti Popper við. „Okkur fannst stórkostlegt, hvernig víkingarnir fóru um lönd og sigldu um sæ, fundu Grænland og Vínland. Konan mín flutti meira að segja fyrirlestur um Eirík rauða á málstofu í landafræði við Vínarháskóla, annaðhvort 1929 eða 1930. Við veltum því einnig fyrir okkur, hvað hefði orðið um víkingabyggðina á Grænlandi, en ekki hefur enn tekist að leysa þá gátu, eins og þú veist.“

Afskipti ríkisins af vísindum

Ég spurði Popper, hvernig hefði staðið á hinum furðulegu ummælum Rudolfs Carnaps í bréfi til hans snemma árs 1946, en Hayek hafði á sínum tíma sagt mér frá þeim. Carnap, – einn kunnasti heimspekingurinn í Vínarhringnum svonefnda – hafði haft spurnir af því, að Popper hefði farið lofsamlegum orðum um bók Hayeks,Leiðina til ánauðar, og spurt Popper í bréfi, hvort þetta væri satt: Hefði Popper hrósað þessu hræðilega afturhaldsriti, sem Carnap hefði að sjálfsögðu ekki lesið! Popper svaraði honum um hæl, varði bók Hayeks, en sagði honum einnig af öðru tilefni, að sér hefði gengið erfiðlega að finna bandarískan útgefanda að Opnu skipulagi og óvinum þess. Carnap skrifaði í svari við bréfi Poppers, að þetta væri auðvitað fullkomið hneyksli, svo góð bók sem Opið skipulag og óvinir þess væri, en bætti því við, að þetta sýndi það eitt, að bókaútgáfa ætti ekki að vera í höndum einkaaðila!

Popper svaraði, að Carnap hefði þrátt fyrir ýmsa kosti sína verið vísindatrúar, hann hefði ofmetið aðgang mannanna að sannleikanum. Carnap hefði talið, að allur sannleikurinn hlyti að lokum að koma í leitirnar – líklega einnig allur sannleikurinn um það, hverjir væru heppilegastir til að taka ákvarðanir um bókaútgáfu! „Hugsaðu þér: Í fyrstu bókinni sinni taldi Carnap, að staðhæfingar væru varla nothæfar, nema þær hefðu allar verið sannaðar!“ – sagði Popper. Carnap hefði sennilega ekki skilið hugmynd sína, Hayeks og annarra frjálshyggjumanna um samkeppni hugmynda. Miklu máli skipti að skilja, að sannleikurinn lægi ekki í augum uppi, hann væri okkur aldrei tiltækur allur í einu. Ég get ekki stillt mig um að bæta því við, að ummæli Carnaps má hafa til marks um það, hversu lítinn skilning margir ágætir menn hafa á þeim kostum, sem tilveran setur okkur. Ef bókaútgáfa er tekin úr höndum einstaklinga, sem keppa hverjir við aðra um gróða, þá lendir hún ekki í mjúkum lófa góðgjarnra og alviturra vísindamanna, heldur í klóm valdsmanna, sem hafa iðulega annarlega hagsmuni. Er ekki vænlegra, að útgáfa fræðirita ráðist af ákvörðunum óteljandi bókaútgefenda en af ákvörðunum einhvers eins embættismanns ríkisins?

Skömmu áður en ég hitti Popper, hafði ég átt í ritdeilu uppi á Íslandi við ungan og málgefinn matvælafræðing, sem hafði látið það út úr sér í einhverri fljótfærni, að ríkið yrði að hafa víðtæk afskipti af vísindum. Af því tilefni má spyrja: Er ekki vænlegra, að styrkir til vísindalegra rannsókna ráðist af ákvörðunum óteljandi einstaklinga og frjálsra samtaka þeirra en örfárra valdsmanna ríkisins? Jónas H. Haralz benti mér síðan á það, er við vorum að ræða um rök Poppers nokkrum dögum eftir heimsókn mína til hans, að hið alkunna deilumál nafna síns frá Hriflu við listamenn væri sennilega dæmi um þetta. Jónas Jónsson frá Hriflu hefði að vísu verið mikill styrktarmaður lista og vísinda á Íslandi, á meðan ríkisvaldið hefði verið í höndum hans á fjórða áratug. En böggull hefði fylgt skammrifi. Jónas hefði óspart skipt sér af því, sem vísindamenn og listamenn hefðu látið frá sér fara, og gegn því hefðu þeir auðvitað orðið að rísa undir forystu þeirra Sigurðar Nordals og Tómasar Guðmundssonar.

Iðnbyltingin og kjör almennings

Ég færði það að lokum í tal við Popper, hvort hann hefði ekki í Opnu skipulagi og óvinum þess gert meira úr slæmum afleiðingum iðnbyltingarinnar en efni stæðu til. Hefði markaðskerfið ekki reynst mikilvirkasta tækið, sem fundist hefði til þess að breyta fátæklingum í efnafólk? Margir sagnfræðingar héldu á sínum tíma, að kjör almennings hefðu versnað vegna iðnbyltingarinnar, og Karl Marx skrifaðiFjármagnið (þ. Das Kapital) í þeirri trú. En nýlegar rannsóknir ýmissa sagnfræðinga, svo sem T. S. Ashtons og Max Hartwells, sýna, að kjör almennings bötnuðu fremur en hitt vegna iðnbyltingarinnar. Popper gerði þá hlé á samtali okkar, stóð upp, seildist í bókaskápinn, náði í nokkrar skáldsögur frá nítjándu öldinni eftir lítt kunnan breskan rithöfund, frú Elizabeth C. Gaskell, og sýndi mér. Ein bókin hétNorðan og sunnan (North and South) og hafði fyrst komið út 1855, önnur Mary Barton og var frá 1847. En í báðum bókunum er mörgum orðum farið um sára fátækt almennings á árum iðnbyltingarinnar. Popper sagði mér, að hann hefði lesið þessar bækur ungur og orðið fyrir miklum áhrifum af þeim. Enginn vafi væri á því, að frú Gaskell hefði reynt að segja svo satt og rétt frá sem hún hefði getað.

Ég kastaði þeirri skýringu fram við Popper, að mönnum hefði orðið starsýnt á það böl, sem eftir var, af því að svo mikið annað böl hefði horfið vegna iðnbyltingarinnar. Mætti ekki segja, að menn tækju eftir fátækt, væri hún undantekning, en hirtu ekki um hana, væri hún regla? Ég spurði Popper því, hvort ýmsum tilfinninganæmum menntamönnum hefði ekki skjátlast um iðn­byltinguna; þeim hefði sýnst, að kjör launamanna hefðu versnað, af því að kjör sumra hefðu batnað miklu hraðar en annarra, þótt kjör langflestra eða allra hefðu í raun batnað. Popper sagði, að þetta kynni að vera rétt. En það breytti engu um það, að fátækt væri meinsemd, sem ekki mætti gefast upp fyrir. Hitt væri annað mál, eins og hann hefði áður sagt mér, að óhófleg aukning ríkisafskipta væri sú meinsemd, sem nú væri brýnast að reyna að lækna á Vesturlöndum.

Popper sagði mér síðan aðspurður, að Margrét Thatcher væri tvímælalaust hæfasti og besti núlifandi stjórnmálamaður Breta; hún væri mjög hugrökk. En Sir Winston Churchill væri eftirlætisstjórnmálamaður sinn; hann hefði verið vitur maður. „Þú ættir að lesa bók, sem Martin Gilbert tók saman um stjórnmálaskoðanir Churchills. Hún er mjög fróðleg aflestrar. Þessi sjálfmenntaði maður var ótrúlega skarpskyggn,“ sagði Popper.

Er hér var komið sögu, var degi tekið að halla í þessu litla og vinalega þorpi norðan af Lundúnum – heimili viðmælanda míns, lágvaxins og lotins öldungs, sem hafði fæðst árið 1902 í keisara­dæmi Habsborgarættarinnar, tekið út þroska sinn í austurríska lýðveldinu, orðið vitni að hruni stórkostlegrar menningar á Dónárbökkum, en að lokum komist til landa hinna engilsaxnesku þjóða, þar sem frjálshyggjuhefðin er sterkari en annars staðar, fyrst til Nýja Sjálands, síðan til Bretlands. Popper var að vísu hinn alúðlegasti og sagði mér að bera allt það upp við sig, er ég kærði mig um; hann væri síður en svo að flýta sér. En mér fannst ekki tilhlýðilegt að tefja þennan vinnusama mann lengur, stóð því upp og kvaddi.

« Til baka

Immanúel Kant: Heimspekingur upplýsingarinnar

Fyrirlestur til minningar um Kant á 150. ártíð hans1

eftir Karl Popper

Fyrir eitt hundrað og fimmtíu árum andaðist Immanúel Kant og hafði þá alið manninn alla sína ævi, áttatíu ár, í héraðsbænum Königsberg. Árum saman hafði hann verið horfinn heiminum og vinir hans hugðu á jarðarför í kyrrþey. En þessi sonur handverksmanns var jarðsettur eins og konungur. Þegar orðrómurinn um andlát hans breiddist út um bæinn þyrptist fólk að húsi hans og heimtaði að sjá hann. Á útfarardaginn lá lífið í bænum niðri. Líkkistunni fylgdu þúsundir manna meðan klukkur allra kirknanna hringdu. Ekkert svipað þessu hafði nokkru sinni áður gerst í Königsberg, segja annálsritarar.

Erfitt er að skýra þessa furðulegu tilfinningaólgu hjá fólkinu. Stafaði hún eingöngu af orðstír Kants sem mikils heimspekings og góðs manns? Mér virðist að meira hafi búið í henni en þetta, og ég sting upp á að árið 1804, undir einveldisstjórn Friðriks Vilhjálms, hafi þessar klukkur sem voru að hringja fyrir Kant flutt bergmál af amerísku og frönsku byltingunum – af hugmyndunum frá 1776 og 1789. Ég sting upp á að fyrir landa sína hafi Kant verið orðinn holdtekja þessara hugmynda. Þeir komu til að sýna þakklæti sitt málsvara mannréttinda, jafnréttis fyrir lögunum, heimsborgara­réttinda, friðar á jörðu og, það sem er kannski mikilvægast, lausnar úr ánauð með atbeina þekkingar.

I. Kant og upplýsingin

Flestar þessara hugmynda höfðu borist til meginlands Evrópu frá Englandi með bók sem kom út árið 1733, Bréf um ensku þjóðina eftir Voltaire. Í þessari bók ber Voltaire saman sem andstæður enska þingbundna ríkisstjórn og einveldisstjórn á meginlandinu; enskt umburðarlyndi í trúmálum og afstöðu rómversk-kaþólsku kirkjunnar; skýringarmátt heimsfræði Newtons og greinandi raun­hyggju Lockes og kreddufestu Descartes. Bók Voltaires var brennd, en útgáfa hennar markar upphaf heimspekihreyfingar – hreyfingar sem hafði á sér blæ vitsmunalegrar árásarhneigðar sem naut lítils skilnings í Englandi þar sem ekkert tilefni var til hennar.

Sextíu árum eftir dauða Kants var verið að kynna þessar sömu ensku hugmyndir fyrir Englendingum sem „yfirborðslega og hrokafulla vitsmunahyggju“. Og þótt kaldhæðnislegt megi virðast er enska orðið ‘Enlightenment’, sem þá var notað til að nefna hreyfinguna sem Voltaire átti frumkvæði að, enn hrjáð af þessari aukamerkingu grunnhyggni og hroka. Þetta er alltént það sem Oxford English Dictionary segir okkur. Ég þarf varla að bæta því við að engin slík auka­merking er höfð í huga þegar ég nota orðið ‘Enlightenment’.

Kant trúði á upplýsinguna. Hann var síðasti talsmaður hennar sem kvað að. Mér er ljóst að þetta er ekki hin venjulega skoðun. Þótt ég sjái Kant sem verjanda upplýsingarinnar er hann oftar álitinn vera höfundur stefnunnar sem gerði út af við hana – hinnar rómantísku stefnu Fichtes, Schellings og Hegels. Ég fullyrði að þessar tvær túlkanir séu ósamrýmanlegar.

Fichte, og seinna Hegel, reyndi að eigna sér Kant sem höfund stefnu þeirra. En Kant lifði nógu lengi til að vísa á bug linnulausum þreifingum Fichtes sem lýsti sjálfan sig eftirmann Kants og arftaka. Í Opinberri yfirlýsingu varðandi Fichte, sem er of lítið þekkt, skrifaði Kant: „Megi Guð vernda okkur fyrir vinum okkar …. Því til eru óheiðarlegir og svikulir meintir vinir sem eru með áform um að steypa okkur í glötun þótt þeir tali tungu góðs vilja.“ Það var ekki fyrr en að Kant látnum, þegar hann gat ekki lengur mótmælt, sem þessum heimsborgara var þröngvað til þjónustu við hina þjóðrembusinnuðu rómantísku stefnu þrátt fyrir öll varnaðarorð hans gegn rómantík, tilfinningaþrungnum eldmóði og Schwärmerei. En við skulum sjá hvernig Kant sjálfur lýsir upplýsingarhugmyndinni:

Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á . . . getuleysis til að nota eigin skynsemi án handleiðslu annarra. Slíkt ósjálfræði kalla ég ‘sjálfskapað’ ef það stafar ekki af skorti á skynsemi heldur af vöntun á hugrekki og einurð til að nota skynsemi sína án handleiðslu annarra. Sapere aude! Hafðu hugrekki til að nota eigin skynsemi! Þetta eru því kjörorð upplýsingar­innar.2

Kant er hér að segja eitthvað mjög persónulegt. Það er hluti af sögu hans sjálfs. Hann ólst nánast upp í örbirgð, í hinu þröngsýna viðhorfi heittrúarstefnunnar (píetismans) – strangri þýskri útgáfu af hreintrúarstefnu – og var ævi hans saga lausnar úr viðjum með atbeina þekkingar. Á efri árum var hann vanur að líta til baka með hryllingi til þess sem hann kallaði „ánauð bernskunnar“, tímabils ósjálfræðis hans. Vel mætti segja að baráttan fyrir andlegu frelsi væri ríkjandi stef í öllu lífi hans.

II. Hin Newtonska heimspeki Kants

Afgerandi þátt í þessari baráttu átti kenning Newtons sem Voltaire hafði kynnt á meginlandi Evrópu. Heimsfræði Kópenikusar og Newtons örvuðu vitsmunalíf Kants með öflugum og spennandi hætti. Fyrsta merkisrit hans, Kenningin um himnana, ber hinn athyglisverða undirtitil: Ritgerð um gerð og vélrænan uppruna alheimsins, útfært samkvæmt Newtonskum lögmálum. Kenningin er eitt mesta framlag allra tíma til heimsfræði og heimsmyndunarfræði. Hún hefur ekki aðeins að geyma fyrstu framsetninguna á því sem nú kallast ‘Kant–Laplace tilgátan’ um uppruna sólkerfisins heldur einnig, á undan Jeans3, heimfærslu þessarar hug­myndar upp á ‘Vetrarbrautina’ (sem Thomas Wright hafði túlkað sem stjörnukerfi fimm árum áður). En sú staðreynd að Kant auðkenndi stjörnuþokurnar sem ‘Vetrarbrautir’ – fjarlæg stjörnu­kerfi áþekkum okkar – tekur öllu þessu fram.

Það var heimsfræðilegi vandinn, eins og Kant útskýrir í einu af bréfum sínum, sem vísaði honum veginn til þekkingarfræði hans og til Gagnrýni hreinnar skynsemi. Hann var að fást við hið snúna vandamál (sem allir heimsfræðingar verða að glíma við) um endanleika eða óendanleika alheimsins, með tilliti til bæði rúms og tíma. Hvað snertir rúmið hefur Einstein stungið upp á hrífandi lausn í formi heims sem er bæði endanlegur og án takmarka. Þessi lausn heggur þvert í gegnum kantíska hnútinn en hún notar öflugri tæki en þau sem voru tiltæk Kant og samtíðar­mönnum hans. Hvað snertir tímann hefur engin jafn vænleg lausn á erfiðleikum Kants komið fram hingað til.

III. Gagnrýni hreinnar skynsemi og heimsfræðilegi vandinn

Kant segir okkur að hann hafi rekist á aðalvandamál Gagnrýni sinnar þegar hann var að hugleiða hvort alheimurinn ætti sér upphaf í tíma. Hann uppgötvaði sér til skelfingar að hann gat sett fram að því er virtist gildar sannanir fyrir báðum þessum möguleikum. Sannanirnar tvær eru athyglisverðar; það þarf að einbeita sér til að átta sig á þeim, en þær eru ekki langar og ekki torskildar.

Vegna fyrri sönnunarinnar byrjum við með því að greina hugmyndina um óendanlega röð ára (eða daga, eða hvaða annarra jafnra endanlegra tímabila). Slík óendanleg röð ára hlýtur að vera röð sem heldur áfram og áfram og lýkur aldrei. Henni getur aldrei verið lokið: óendanlega mörg ár sem eru liðin eða þeim lokið er augljóslega hugtakaleg mótsögn. Í fyrri sönnuninni leiðir Kant einfaldlega rök að því að heimurinn hljóti að eiga sér upphaf í tíma þar sem að öðrum kosti, á þessari stundu, hlyti óendanlegur fjöldi ára að hafa liðið, en það er ómögulegt. Hér lýkur fyrri sönnuninni.

Vegna síðari sönnunarinnar byrjum við með því að greina hugmyndina um algerlega tóman tíma – tímann áður en heimur var til. Slíkur tómur tími sem alls ekkert er í hlýtur að vera tími þar sem ekkert tímabil hans aðgreinist frá öðru með tímatengslum sínum við hluti eða atburði, úr því að hlutir og atburðir eru einfaldlega alls ekki til. Tökum nú síðasta tímabil hins tóma tíma – tímabilið strax áður en heimurinn byrjar. Ljóst er að þetta tímabil aðgreinist frá öllum fyrri tímabilum fyrst það einkennist af nánum tímatengslum sínum við atburð – upphaf heimsins. Samt er þetta sama tímabil talið vera tómt, sem er augljós hugtakaleg mótsögn. Í síðari sönnuninni leiðir Kant einfaldlega rök að því að heimurinn geti ekki átt sér upphaf í tíma úr því að annars væri tímabil – andartakið strax áður en heimurinn byrjaði – sem er tómt og einkennist samt af tafarlausum tímatengslum sínum við atburð í heiminum, en það er ómögulegt.

Við höfum hér árekstur milli tveggja sannana. Slíkan árekstur kallaði Kant ‘gagnkvæðu’. Ég ætla ekki að angra ykkur með hinum gagnkvæðunum sem Kant uppgötvaði að hann var flæktur í, svo sem um takmörk alheimsins í rúmi.

IV. Rúm og tími

Hvaða lærdóm dró Kant af þessum ruglandi mótsögnum? Hann ályktaði að hugmyndum okkar um rúm og tíma sé ekki unnt að beita á alheiminn sem heild. Við getum auðvitað notað hugmyndirnar um rúm og tíma um venjulega efnislega hluti og efnislega atburði. En rúm og tími sjálf eru hvorki hlutir né atburðir: það er ekki einusinni hægt að fylgjast með þeim, svo erfitt er að henda reiður á þeim. Þau eru einskonar umgjörð um hluti og atburði: eitthvað líkt geymsluhólfa- eða spjaldskrárkerfi fyrir athuganir. Rúm og tími eru ekki hluti af hinum raunverulega reynslu­heimi hluta og atburða heldur réttara sagt hluti af hugrænum búnaði okkar, tækjabúnaði okkar til að ná skilningstökum á þessum heimi. Rétt notkun þeirra er að nota þau sem athugunartæki: þegar við skoðum einhvern atburð staðsetjum við hann venjulega undireins og umhugsunarlaust í röð tíma og rúms. Rúmi og tíma má því lýsa sem viðmiðunarramma sem byggist ekki á reynslunni heldur er notaður beint í reynslunni og réttilega heimfæranlegur upp á reynsluna. Þetta er ástæðan fyrir því að við lendum í vandræðum ef við misbeitum hugmyndunum um rúm og tíma með því að nota þær á sviði sem engin möguleg reynsla nær til – eins og við gerðum í sönnununum tveimur um alheiminn sem heild.

Skoðuninni sem ég var nú að lýsa í stórum dráttum kaus Kant að gefa hið ljóta og tvöfalt villandi nafn ‘forskilvitleg hughyggja’ (‘Transcendental Idealism’). Hann sá brátt eftir þessu vali af því að það kom mönnum til að halda að hann væri hughyggjumaður í þeim skilningi að hann neitaði því að efnislegir hlutir væru raunverulegir: að hann héldi því fram að efnislegir hlutir væru einberar hugmyndir. Kant flýtti sér að útskýra að hann hefði aðeins neitað því að rúm og tími væru reynslubundin og raunveruleg – reynslubundin og raunveruleg í sama skilningi og efnislegir hlutir og atburðir eru reynslubundnir og raunverulegir. En mótmæli hans báru engan árangur. Hinn erfiði stíll hans gerði út um örlög hans: hann átti eftir að verða dáður sem faðir þýskrar hughyggju. Ég tel að það sé orðið tímabært að leiðrétta þetta. Kant hélt því alltaf fram að efnislegir hlutir í rúmi og tíma væru raunverulegir. Og hvað snertir hin taumlausu og torráðnu frumspekilegu heilabrot þýsku hughyggjumannanna var sjálft heitið á Gagnrýni Kants valið til að lýsa yfir gagnrýninni árás á allt slíkt frumspekilegt fimbulfamb. Því að það sem Gagnrýningagnrýnir er hreint rökvit; hún gagnrýnir og ræðst gegn allri rökhugsun um heiminn sem er ‘hrein’ í þeim skilningi að hún sé ósnortin af skynreynslu. Kant réðst gegn hreinu rökviti með því að sýna fram á að hrein rökhugsun um heiminn hljóti ætíð að flækja okkur í þverstæður. Undir örvandi áhrifum frá Hume skrifaði Kant Gagnrýni sína til þess að sanna að takmörk skynreynslunnar séu takmörk allrar skynsamlegrar rökhugsunar um heiminn.

V. Kóperníkusarbylting Kants

Kant styrktist í trúnni á kenningu sína um rúm og tíma sem viðmiðunarramma skynjunarinnar þegar hann fann í henni lykilinn að lausn á öðru vandamáli. Þetta var vandamálið um réttmæti kenningar Newtons, en ásamt öllum samtíma eðlisfræðingum taldi hann hana vera óumdeilanlega sanna og algilda. Honum þótti þó óhugsandi, að þessi nákvæma stærðfræði­kenning væri ekkert nema ályktun af athugunum sem teknar hefðu verið saman. En hvað annað gat verið grundvöllur hennar? Kant nálgaðist þetta vandamál með því að hugleiða fyrst stöðu rúmfræðinnar. Rúmfræði Evklíðs byggist ekki á athugun, sagði hann, heldur á beinni skynjun okkar á rúmtengslum. Newtonsk vísindi eru í svipaðri stöðu. Þótt reynsluathuganir staðfesti þau eru þau ekki ályktun af þessum athugunum heldur af hugsunarhætti okkar, af tilraunum okkar til að koma skipan á skynreyndir okkar, til að skilja þær og vinna vitsmunalega úr þeim. Það eru ekki þessar skynreyndir heldur okkar eigin vitsmunir, skipulag úrvinnslukerfis hugar okkar, sem leiða til kenninga okkar. Náttúran eins og við þekkjum hana, með skipan sinni og lögmálum, er því að miklu leyti afurð úrvinnslu- og skipulagsstarfsemi hugar okkar. Hin eftirtektarverða framsetning Kants á þessari skoðun hljóðar svo: „Vitsmunir okkar draga ekki lögmál sín úr náttúrunni heldur þröngva þeir lögmálum sínum upp á náttúruna.“

Þessi formúla dregur saman hugmynd sem Kant kallar með stolti ‘Kópernikusarbyltingu’ sína. Þegar Kópernikus, eins og Kant orðar það, uppgötvaði að ekki var um neinar framfarir að ræða með kenningunni um himnana sem snerust þá komst hann út úr sjálfheldunni með því að snúa við taflinu, ef svo má segja: Hann gaf sér að það séu ekki himnarnir sem snúist en við áhorfendur séum hins vegar hreyfingarlausir heldur að við áhorfendur snúumst á meðan himnarnir eru hreyfingarlausir. Á svipaðan hátt, segir Kant, ber að leysa vandamálið um vísindalega þekkingu – vandamálið hvernig nákvæm vísindi, eins og til dæmis kenning Newtons, séu möguleg og hvernig hafi eiginlega verið hægt að uppgötva þau. Við verðum að gefa upp á bátinn þá skoðun að við séum óvirkir áhorfendur sem bíðum eftir að náttúran þrykki reglufestu sinni á okkur. Í staðinn verðum við að taka upp þá skoðun að þegar við vinnum úr skynreyndum okkar þá þrykkjum við á virkan hátt skipulagi og lögmálum vitsmuna okkar á þær. Heimur okkar ber merki huga okkar.

Með því að leggja áherslu á hlutverk áhorfandans, rannsakandans, kenningasmiðsins, hafði Kant varanleg mótandi áhrif ekki aðeins á heimspeki heldur einnig á eðlisfræði og heimsfræði. Það er kantískt andrúmsloft hugsunar sem kenninga Einsteins og Bohrs eru vart hugsanlegar án; og segja mætti að Eddington4 væri kantískari, að sumu leyti, en Kant sjálfur. Jafnvel þeir sem, eins og ég sjálfur, geta ekki fylgt Kant alla leið geta fallist á þá skoðun hans að tilrauna­maðurinn megi ekki bíða þangað til náttúrunni þóknast að leiða leyndardóma sína í ljós heldur verði hann að spyrja hana. Hann verður að þaulspyrja náttúruna í ljósi efasemda sinna, ágiskana, kenninga, hugmynda og andríkis. Hér er, hygg ég, um að ræða dásamlega heimspeki­lega uppgötvun. Hún gerir kleift að líta á vísindin, hvort heldur kennileg vísindi eða tilraunavísindi, sem mannlegt sköpunarverk og að líta á sögu þeirra sem hluta af hugmyndasögunni, á borð við sögu listar eða bókmennta.

Það er önnur og enn áhugaverðari merking innbyggð í útgáfu Kants af Kópernikusarbyltingunni, merking sem kann ef til vill að benda til tvíbendni í afstöðu hans til hennar. Því að Kópernikusar­bylting Kants leysir mannlegt vandamál sem bylting Kópernikusar olli. Kópernikus svipti manninn þeirri miðlægu stöðu sem hann áður naut í efnisheiminum. Kópernikusarbylting Kants dregur broddinn úr þessu. Hann sýnir okkur ekki aðeins að staðsetning okkar í efnisheiminum skiptir ekki máli heldur einnig að í vissum skilningi megi vel segja að heimur okkar snúist um okkur, því það erum við sem búum til, alltént að hluta, skipulagið sem við finnum í honum; það erum við sem sköpum þekkingu okkar á honum. Við eru uppgötvarar: og uppgötvun er skapandi list.

VI. Sjálfræðiskenningin

Frá heimsfræðingnum, heimspekingi þekkingar og vísinda, sný ég mér nú að siðfræðingnum Kant. Ég veit ekki hvort því hefur verið veitt eftirtekt áður að grunnhugmyndin í siðfræði Kants jafngildir annarri Kópernikusarbyltingu, hliðstæðri að öllu leyti þeirri sem ég hef lýst. Því að Kant gerir manninn að löggjafa siðferðisins alveg eins og hann gerir hann að löggjafa náttúrunnar. Og með því að gera það gefur hann manninum aftur miðlæga stöðu hans bæði í siðferðisheimi hans og efnisheimi. Kant gerði siðfræðina mannlega eins og hann hafði gert vísindin mannleg.

Kópernikusarbylting Kants á sviði siðfræðinnar felst í kenningu hans um sjálfræði – þeirri kenningu að við getum ekki samþykkt skipun yfirvalds, hversu upphafið sem það er, sem hinn endanlega grundvöll siðfræðinnar. Því hvenær sem við stöndum frammi fyrir skipun frá yfirvaldi þá er það á okkar ábyrgð að dæma hvort þessi skipun er siðleg eða siðlaus. Yfirvaldið kann að hafa afl til að framfylgja skipunum sínum og okkur kann að skorta afl til veita viðnám. En nema því aðeins að okkur sé líkamlega aftrað að velja er ábyrgðin okkar. Það er ákvörðun okkar hvort við hlýðum skipun, hvort við viðurkennum ákveðið yfirvald.

Kant fer djarflega með þessa byltingu inn á svið trúarinnar. Hér er eftirtektarverður kafli:

Svo mjög sem orð mín kunna að gera ykkur bilt við megið þið ekki áfellast mig fyrir að segja: Hver maður skapar sinn Guð. Frá siðferðilegu sjónarmiði . . . verður þú jafnvel að skapa Guð þinn til þess að tilbiðja í honum skapara þinn. Því hvernig svo sem . . . Guð yrði kynntur fyrir þér og jafnvel . . . þótt hann opinberaðist þér: það ert þú . . . sem hlýtur að dæma hvort þér leyfist [af samvisku þinni] að trúa á hann og tilbiðja hann.5

Siðfræðikenning Kants einskorðast ekki við þá staðhæfingu að samviska manns sé siðferðilegt kennivald hans. Hann reynir einnig að segja okkur hvers samviska okkar kann að krefjast af okkur. Það, þ.e. siðalögmálið, setur hann fram á ýmsa vegu. Ein framsetningin er svona: „Lítið ætíð á hvern mann sem markmið í sjálfum sér og notið hann aldrei eingöngu sem tæki í ykkar þágu.“ Andann í siðfræði Kants má vel draga saman með þessum orðum: Þorið að vera frjáls og virðið frelsi annarra.

Á grundvelli þessarar siðfræði reisti Kant hina stórmerku kenningu sína um ríkið og kenningu sína um alþjóðalög. Hann krafðist þjóðabandalags eða ríkjasambands sem endanlega átti að lýsa yfir og viðhalda eilífum friði á jörðu.

Ég hef reynt að rissa upp í stórum dráttum heimspeki Kants um manninn og heim hans og tvö helstu innblástursöfl hennar – Newtonska heimsfræði og siðfræði frelsisins, innblástursöflin tvö sem Kant vísaði til þegar hann talaði um stjörnuhimnana uppi yfir okkur og siðalögmálið innra með okkur.

Ef við stígum lengra til baka til að fá enn fjarlægari sýn á sögulegt hlutverk Kants getum við borið hann saman við Sókrates. Báðir voru sakaðir um að rangfæra ríkistrúna og spilla hugum unga fólksins. Báðir neituðu ásökuninni, og báðir vörðu hugsunarfrelsið. Frelsi þýddi meira fyrir þá en það að vera laus við þvingun; fyrir þá báða var það lífsmáti.

Af varnarræðu Sókratesar og dauða hans spratt ný hugmynd um frjálsan mann: hugmyndin um mann sem býr yfir ósigrandi anda, um mann sem er frjáls af því að hann er sjálfum sér nógur, og sem þarf ekki að leggja hömlur á af því að hann er fær um að stjórna sér sjálfur og fallast af frjálsum vilja á stjórn laganna (réttarríkið).

Þessari sókratísku hugmynd um að vera sjálfum sér nógur, sem er hluti af hinum vestræna arfi okkar, hefur Kant gefið nýja merkingu bæði á sviði þekkingar og siðferðis. Og hann hefur ennfremur bætt við hana hugmyndinni um samfélag frjálsra manna – allra manna. Því hann hefur sýnt að hver maður er frjáls, ekki vegna þess að hann sé fæddur frjáls, heldur vegna þess að hann er fæddur með þá byrði að bera ábyrgð á frjálsri ákvörðun.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Upphaflega útvarpserindi. Textinn er prentaður í Conjectures and Refutations (7.kafli) og In Search of a Better World (9. kafli). – Öllum neðanmálsgreinum sleppt. – Þýð.

2. Kant skrifaði ritgerðina ‘Hvað er upplýsing?’ árið 1784. Hún er prentuð í Skírni (hausthefti 1993) í íslenskri þýðingu Elnu Katrínar Jónsdóttur og Önnu Þorsteinsdóttur. – Í þessari upphafsgrein ritgerðarinnar nota þýðendur einu sinni orðið ‘rökvit’ og þrisvar ‘hyggjuvit’ sem þýðingu á þýska orðinu ‘Verstand’. Ég nota hér ‘skynsemi’ og Popper, sem skrifar þetta á ensku,‘intelligence’. Seinna í ritg. notar Kant oftar ‘Vernunft’ en ‘Verstand’. – Þýð.

3. Sir James Hopwood Jeans (1877–1946), enskur eðlis- og stjörnufræðingur. – Þýð.

4. Sir Arthur Stanley Eddington (1882–1944), enskur stjörnu- og eðlisfræðingur. – Þýð.

5. Úr Religion within the Limits of Pure Reason (2. útg. 1794). – Þýð.

 

« Til baka

Karl R. Popper

Karl Raimund Popper fæddist í Vínarborg árið 1902 en dvaldist lengst af á Englandi, þar sem hann gegndi kennarastöðu við London School of Economics. Hann er þekktur fyrir heimspekilegt framlag sitt til bæði stjórnmála- og vísindaheimspeki. Karl Popper lést árið 1994. Gunnar Ragnarsson ritaði eftirfarandi inngangstexta með þýðingu sinni á viðtali Bryans Magee við Popper:

„Meðal almennings mun Popper þekktastur sem óvæginn gagnrýnandi marxismans og annarra kenninga sem þykjast hafa höndlað stórasannleik um mann og heim og má þar, auk marxismans, nefna sálgreiningu Freuds og þráttarhyggju Hegels. Það gefur að skilja að Popper á ekki upp á pallborðið hjá fylgismönnum slíkra kenninga.

Vínarhringurinn sem nefndur er í innganginum að samtalinu var samtök vísindalega sinnaðra heimspekinga í tengslum við háskólann í Vínarborg. Eru samtök þessi einkum tengd nafni Moritz Schlicks (1882–1936) sem var aðalhvatamaður að stofnum þeirra. Þau störfuðu á þriðja og fjórða áratug 20. aldar, gáfu út tímarit, bækur og héldu ráðstefnur, en leystust upp þegar nasistar náðu völdum í Austurríki. Sumir félaganna fluttu til Bandaríkjanna og höfðu mikil áhrif á þróun heimspeki þar í landi, t.d. Rudolf Carnap (1891–1970). Heimspekingarnir í Vínarhringnum héldu fram kenningu sem kallast á ensku logical positivism og hefur fengið á íslensku nafnið rökfræðileg raunhyggja. Meginhugmynd þessarar heimspeki er sú að allt sem hægt er að segja af viti og hefur merkingu sé annaðhvort raunvísindalegs eðlis, þ.e.a.s. staðhæfingar um sannreynanleg fyrirbæri, staðreyndir, ellegar staðhæfingar í rökfræði og stærðfræði. Samkvæmt þessari tegund raunhyggju eru því til að mynda frumspekilegar og siðfræðilegar staðhæfingar bókstaflega merkingarlausar, að ekki sé minnst á guðfræði. Popper var frá upphafi eindreginn andstæðingur og óvæginn gagnrýnandi þessarar kreddu og sýndi fram á að kenningin um merkingu og merkingarleysi fengi ekki staðist. – Í sjálfsævisögu sinni (Unended Quest) segist Popper hafa gengið af rökfræðilegri raunhyggju dauðri í bók sinni Rökfræði rannsóknar.

Sem vísindaheimspekingur er Popper frægastur fyrir kenningu sína um afmörkun raunvísinda og alræmdur fyrir þá skoðun að engin aðleiðsla sé til. Eins og fram kemur í samtalinu telur hann sig hafa fundið mælikvarða sem hægt sé að nota til að draga markalínu milli raunvísinda, frumspeki og annarra fræðigreina – án þess að halda því fram að staðhæfingar í öðrum greinum en þeim raunvísindalegu séu merkingarlausar! (Magee talar um mörkin milli vísinda og ekki–vísinda). Þetta er hrekjanleikaregla Poppers og er hún sett fram gegn sannreynslu- eða sannreynanleikareglu rökfræðilegra raunhyggjumanna sem átti m.a. að útiloka frumspeki frá merkingarbærri orðræðu. Hugmynd Poppers er að hugsanlegur hrekjanleiki kenningar sé mælikvarði á vísindalegt einkenni hennar.

Einn höfuðkostur Poppers sem heimspekings er sá hve skýr hann er í framsetningu. Hann felur ekki loðna eða óljósa hugsun á bak við tvírætt eða margrætt orðalag. Hann leggur sig allan fram við að orða skoðanir sínar þannig að unnt sé að koma höggi á þær, nefnilega að gagnrýna þær. Og hann er eflaust einn mesti rökfærslusnillingur í hópi heimspekinga. Heimspekilega afstöðu sína kallar Popper gagnrýna rökhyggju (critical rationalism). En nafngiftir út af fyrir sig skipta ekki máli að hans dómi, enda þótt hann telji að ekkert sé mikilvægara en tungumálið, eins og fram kemur í samtalinu.

Bestu kynningu á þekkingarfræði Poppers og þróunarhyggju er að finna í bók hansHlutlæg þekking (Objective Knowledge. – Oxford University Press, 1972) en besta inngang að hugsun hans almennt, fyrir utan bókina Popper eftir Magee, tel ég vera að fá í safni greina eftir Popper sem birtist í bók undir heitinu Tilgátur og afsannanir(Conjectures and Refutations. – Routledge & Kegan Paul, 1963).“

Í greininni „Ágiskanir og afsannanir“ skýrir Popper fræga hugmynd sína um svokallaðan „afsannanleika“ vísindakenninga, sem hann taldi góðan prófstein á þær. Viðtal Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við Popper snýst einkum um stjórnmálaheimspeki. Viðtal Poppers og Magees er greinargóður inngangur að öllum helstu hugmyndum Poppers.

Karl R. Popper:
Ágiskanir og afsannanir
Haukur Ástvaldsson þýddi.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson:
Frjálshyggjan verður aldrei fullsköpuð

Bryan Magee:
Samræða við Karl R. Popper
Samræðan birtist upphaflega í Modern British Philosophy. Gunnar Ragnarsson þýddi.

Karl Popper:
Immanúel Kant: Heimspekingur upplýsingarinnar. Fyrirlestur til minningar um Kant á 150. ártíð hans
Upphaflega útvarpserindi. Textinn er prentaður í Conjectures and Refutations (7.kafli) og In Search of a Better World (9. kafli). Gunnar Ragnarsson þýddi.

« Til baka

Samtal við Karl R. Popper

Karl Popper og Bryan Magee ræðast við1

Magee Karl Popper fæddist í Vínarborg árið 1902 og átti þar heima fram á fertugsaldur. Hann var aldrei í Vínarhringnum. Enda þótt áhugamál hans væru flest hin sömu og þeirra var hann ósammála kenningum þeirra. Það mætti næstum því segja að fyrsta bókin hans, Logik der Forschung – sem þýðir bókstaflegaRökfræði rannsóknar – hafi verið skrifuð gegn Vínarhringnum. Þótt hún kæmi út haustið 1934 birtist hún því miður ekki í enskri útgáfu fyrr en aldarfjórðungi síðar (undir heitinu The Logic of Scientific Discovery). Mér er nær að halda að heimspeki heillar kynslóðar í Englandi kynni að hafa orðið öðruvísi ef bókin hefði birst fyrr.

Popper fór frá Vínarborg árið 1937 og var styrjaldarárin á Nýja Sjálandi. Þar skrifaði hann, á ensku, tveggja binda verk sem gerði hann fyrst verulega frægan meðal enskumælandi fólks: Opna samfélagið og fjandmenn þess (The Open Society and its Enemies). Þetta er stórbrotin og kröftuglega rökrædd framsetning á málstað lýðræðis og gegn alræði – og einnig gegn helstu heimspekilegum andstæðingum lýðræðis, einkum Platoni og Marx. Minna rit, Örbirgð söguhyggjunnar(The Poverty of Historicism), sem fjallar um aðferðir fræðilegra félagsvísinda, var upphaflega gefið út sem greinaflokkur um leið og Opna samfélagið og má líta á þessi tvö rit sem samstæður. Á sama hátt má líta á ritiðTilgátur og afsannanir(Conjectures and Refutations) sem samstæðu við hina frjóu frumsmíð, Rökfræði rannsóknar. Síðan 1945 hefur Popper verið breskur þegn og starfað við Hagfræðiskóla Lundúna (London School of Economics), þar sem hann lét nýlega af störfum sem prófessor í rökfræði og vísindalegri aðferðafræði.

Sir Karl, ég veit það frá fyrri samtölum okkar að þú lítur svo á að það að vera heimspekingur sé eitthvað sem þurfi að biðjast afsökunar á. Hvers vegna?

Popper Já, ég get ekki sagt að ég sé stoltur af að vera kallaður heimspekingur.

Magee Það er undarlega að orði komist. Af hverju segirðu það?

Popper Í langri sögu heimspekinnar eru þær heimspekilegu röksemdafærslur miklu fleiri sem ég ber kinnroða fyrir en hinar sem ég er stoltur af.

Magee En augljóst er að þú telur að minnsta kosti einhvers virði að vera heimspekingur, jafnvel þótt það sé ekkert til að vera hreykinn af.

Popper Ég held ég geti borið fram afsökun – einhvers konar vörn fyrir tilvist heimspekinnar eða ástæðu fyrir því að þörf er á að hugsa um heimspeki.

Magee Og hver mundi hún vera?

Popper Hún er sú að allir hafa einhverja heimspeki: við öll, þú og ég, og hver sem er. Hvort sem við vitum það eða ekki tökum við fjölmargt sem sjálfsagðan hlut. Þessar ógagnrýnu hugmyndir sem við göngum út frá eru oft heimspekilegs eðlis. Stundum eru þær sannar eða réttar, en oftar eru þessar heimspekilegu skoðanir okkar rangar. Hvort við höfum rétt eða rangt fyrir okkur er aðeins hægt að uppgötva með gagnrýnni rannsókn á þessum heimspekilegu skoðunum sem við tökum sem gefnar án gagnrýni. Ég held því fram að þessi gagnrýna rannsókn sé verkefni heimspekinnar og réttlætingin fyrir tilvist hennar.

Magee Hvað mundir þú nefna úr samtímanum sem dæmi um ógagnrýna heimspekilega kreddu sem þarfnast gagnrýnnar rannsóknar?

Popper Mjög áhrifamikil heimspeki af því tæi sem ég hef í huga er sú skoðun að þegar eitthvað „slæmt“ gerist í samfélaginu, eitthvað sem okkur geðjast ekki að, svo sem stríð, fátækt og atvinnuleysi, þá hljóti það að stafa af einhverjum vondum ásetningi, einhverju skuggalegu ráðabruggi: Einhver hefur gert það „viljandi“, og auðvitað græðir einhver á því. Ég hef kallað þessa heimspekilegu kreddu samsæriskenninguna um samfélagið. Það er hægt að gagnrýna hana, og ég hygg að unnt sé að sýna fram á að hún er röng: Það er margt sem gerist í samfélaginu sem leiðir óviljandi og ófyrirséð af því sem við höfum gert.

Samsæriskenningin um samfélagið er ein af mörgum ógagnrýnum heimspekilegum skoðunum sem skapa þörf fyrir gagnrýna rannsókn. Þær eru að minni hyggju afsökun fyrir að vera heimspekingur. Þessar röngu heimspekikenningar hafa mikil áhrif og einhver ætti að fjalla um þær og gagnrýna.

Magee Geturðu nefnt einhver önnur dæmi?

Popper Fjölmörg. Mjög skaðlega heimspeki má orða á þessa lund: „Efnahagslegir og pólitískir hagsmunir manns ráða ætíð skoðunum hans.“ Ákaflega oft er þessu aðeins beitt gegn andstæðingnum í eftirfarandi formi: „Ef þú hefur ekki sömu skoðun og ég hlýtur þú að láta stjórnast af einhverjum skuggalegum efnahagslegum hvötum.“ Það sem er slæmt við þessa tegund heimspeki er að úti er um alvarlega umræðu sé fallist á hana. Og hún slævir áhuga á því að komast að sannleikanum um hlutina. Því að í staðinn fyrir að spyrja: „Hver er sannleikurinn í þessu máli?“ spyr fólk einungis: „Hvað kemur þér til að halda þessu fram.“ Og þetta er augljóslega spurning sem skiptir litlu máli.

Ámóta heimspeki, einnig háskalega, og um þessar mundir gífurlega áhrifaríka, má orða á þessa leið: „Rökleg umræða er aðeins möguleg milli manna sem eru sammála um grundvallaratriði.“ Þeir sem leggja trúnað á þetta halda því líka fram að útilokað sé að ræða af skynsamlegu viti um grundvallarspurningar. Stundum er þessi heimspeki varin með eftirfarandi staðhæfingu: „Með því einu móti að hvor fallist á annars grundvallarhugmyndir í upphafi getum við vænst þess að ná samkomulagi í röklegri umræðu.“ Þessi heimspeki lætur nokkuð líklega og skynsamlega í eyrum en hún hefur skelfilegar afleiðingar. Því hún sundrar mannkyninu í hópa – menningarhópa – sem geta ekki ræðst við af skynsamlegu viti heldur aðeins háð stríð. Þetta er ekki einungis léleg heimspeki, heldur, að minni hyggju, ósönn heimspeki – heimspeki sem hægt er að hrekja, þó ekki á þá lund að ég geti hrakið hana á fáeinum mínútum. En tilvist hennar og feiknaleg áhrif er, að minni hyggju, ein afsökunin fyrir því að vera heimspekingur.

Magee Þú heldur þá þessu fram: Við stundum öll heimspeki í þeim skilningi að við höfum öll heimspekilegar skoðanir og breytum eftir þeim. En venjulega er okkur ekki ljóst að það sem við erum að gera er að viðurkenna gagnrýnislaust að skoðun eða kenning sé sönn.

Popper Já.

Magee Og sumar af þessum kenningum eru réttar, segirðu, en aðrar eru ekki aðeins rangar heldur einnig skaðlegar. Og þú segir að hið raunverulega hlutverk heimspekinnar sé að kanna á gagnrýninn hátt heimspekilega fordóma okkar sem við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir og að leiðrétta þá sem þurfa leiðréttingar við.

Popper Einmitt. Annars held ég ekki að þörfin á að leiðrétta það sem atvinnuheimspekingar segja væri nægileg málsbót fyrir tilvist heimspekinnar.

Magee Það er þveröfugt við skoðun Moores.2 Hann sagði einu sinni að heimurinn sjálfur legði ekki til vandamál sem kæmu sér til að vilja hugsa heimspekilega – að hann hefði einungis orðið heimspekingur vegna þess hve fjarstæðar kenningar aðrir heimspekingar hefðu látið sér um munn fara.

Popper Að minni hyggju leiðir þetta til einskonar heimspekilegrar innræktar. Það mundi gera heimspekina of sérhæfða, að fyrirmynd nútíma raunvísinda. Ég hygg að sterk rök megi færa gegn þessari sérhæfingu í vísindunum sem er allt of mikið í tísku, og rökin gegn sérhæfingu í heimspeki eru enn sterkari.

Magee Þú nefnir nútíma raunvísindi – mér skilst þú hafir fengið einhverja þjálfun í þeim, er það ekki?

Popper Jú. Nám mitt hófst reyndar á sviði stærðfræði og eðlisfræði og fyrsta kennarastaða mín var við framhaldsskóla í þessum greinum. En ég var aldrei sérfræðingur og ég vann alltaf við það sem ég hafði mestan áhuga á. Í eðlisfræði var ég einungis áhugamaður, stundaði hana aldrei að atvinnu. Ritgerð sem ég skrifaði til að fá kennararéttindi í stærðfræði var um frumsetningar rúmfræðinnar og seinna vann ég að því að finna frumsetningar í líkindafræði.

Magee Var þetta þungamiðja rannsóknarsviðs þíns?

Popper Það er erfitt að segja. Ég gæti kannski sagt að rannsóknir mínar hafi snúist um aðferðir raunvísindanna, einkum nútíma eðlisfræði, eða svo ég noti nýtískulegra heiti, heimspeki vísindanna. Annars hef ég mörg önnur áhugamál.

Magee Hverjar voru meginhugmyndirnar í fyrstu bók þinni, Rökfræði rannsóknar?

Popper Meginhugmyndin var sú, hygg ég, að í ljósi hinnar nýju þyngdaraflskenningar Einsteins væru allar eldri skýringar á því hvernig raunvísindin ganga fyrir sig og á eðli vísindalegrar þekkingar rangar.

Magee Hvernig þá?

Popper Sú skoðun var almennt ríkjandi að vísindin, eða vísindaleg þekking, væru sérstaklega örugg eða mjög áreiðanleg tegund þekkingar; einnig að hún væri árangur af athugunum og tilraunum. Athugun og tilraun kæmu okkur til að setja fram tilgátu. Þegar hún væri athuguð og prófuð, aftur og aftur, yrði hún viðurkennd sem staðfest eða sönnuð vísindaleg kenning. Þetta var í stuttu máli hin viðtekna skoðun. Ég sá að hún var orðin óverjandi vegna véfengingar Einsteins á kenningu Newtons – árangursríkustu og mikilvægustu kenningu sem nokkru sinni hafði verið sett fram og viðurkennd.

Magee Hvers vegna telurðu kenningu Newtons svona einstæða?

Popper Newton lét okkur skiljast í fyrsta sinn eitthvað um heiminn sem við lifum í. Og í fyrsta sinn höfðum við góða og gilda ástæðu til að ætla að við hefðum kenningu sem væri rétt. Því kenning Newtons gerði okkur kleift að spá nákvæmlega um nýjar afleiðingar – svo sem um frávik frá lögmálum Keplers – og þessar spár stóðust hin rækilegustu próf. Mesti árangur kenningarinnar var vitaskuld uppgötvun reikistjörnunnar Neptúnusar. Sú uppgötvun snéri yfirvofandi ósigri upp í sigur.

Magee Geturðu farið svolítið nánar út í þetta?

Popper Athuganirnar á reikistjörnunni Úranusi sýndu smávegis misræmi við spárnar sem leiddar voru af kenningu Newtons. Þá bentu þeir Adams í Englandi og Leverrier í Frakklandi á að þetta sýndarmisræmi mætti skýra ef gert væri ráð fyrir að til væri reikistjarna utar í sólkerfinu sem hefði ekki enn sést. Báðir reiknuðu út stöðu þessarar óþekktu reikistjörnu og Galle í Berlín var ekki lengi að finna hana. Ég hygg að þetta hafi verið furðulegasti og mest sannfærandi árangur sem mannlegir vitsmunir hafa nokkurn tíma náð, enda þótt það verði að viðurkennast að svipaðar velheppnaðar spár hafa síðan orðið ekki ótíðar. Alltént efuðust fáir, eftir þennan mikla árangur, um að kenning Newtons væri rétt. Venjan var að líta svo á að kenningin hefði verið sönnuð með aðleiðslu3 sem byggðist á athugunum. En nú kom Einstein fram með kenningu sem stríddi gegn henni. Skoðanir um kosti þessarar nýju kenningar voru ákaflega skiptar, og þær eru enn skiptar. Sumir eðlisfræðingar ríghalda enn í kenningu Newtons af ýmsum ástæðum.

Magee Hvorri ert þú hlynntur?

Popper Ég tel kenningu Einsteins hafa yfirburði yfir kenningu Newtons, en það er reyndar ekki aðalatriðið hjá mér.

Magee Hvert er þá aðalatriðið?

Popper Það er að öll athugunargögnin sem færa má til stuðnings kenningu Newtons má einnig nota til að styðja afar ólíka kenningu Einsteins. Þetta sýnir ótvírætt að okkur skjátlaðist hreinlega þegar við töldum að segja mætti að kenning Newtons væri staðfest eða sönnuð með aðleiðslu, á grundvelli athugunargagnanna. Það sýnir ennfremur að því verður ekki haldið fram að neinkenning sé sönnuð með aðleiðslu. Því ekki gat verið um tilkomumeira samræmi milli kenningar og athugunargagna að ræða en þar sem kenning Newtons var. Ef þetta nægði ekki einusinni til að sanna kenninguna með aðleiðslu þá var ljóst að ekki nokkur skapaður hlutur entist til þess.

Magee Er þetta ástæðan til þess að þú hvarfst frá aðleiðslukenningunni?

Popper Já. Í grundvallaratriðum er rökstaðan ákaflega einföld. Ótaldar athuganir á hvítum svönum geta ekki sannað þá kenningu að allir svanir séu hvítir: Fyrsti svarti svanurinn sem sést getur hrakið hana. Stuðningur athugana við kenningu Newtons var vitanlega langtum tilkomumeiri vegna hinna hárfínu mælinga sem kenningin sagði mjög nákvæmlega fyrir um. En fyrsta raunverulega misræmið getur hrakið eða afsannað hana.

Magee Og vitaskuld kom slíkt misræmi fyrir – eitthvað varðandi reikistjörnuna Merkúr, ef mér skjátlast ekki.

Popper Já, en þetta misræmi var ákaflega lítið og kynni að vera hægt að skýra það (eins og Dicke benti á) innan ramma kenningar Newtons. Það sem ég á við er ekki aðallega það að kenning Newtons hafi verið hrakin ella þá að kenning Einsteins hafi afdráttarlaust leyst hana af hólmi. Ég á frekar við það að síðan Einstein kom fram með kenningu sína sem stríðir gegn kenningu Newtons, þá vitum við að jafnvel mesta forsagnargengi, jafnvel ströngustu prófanir, geta ekki sannað kenningu með aðleiðslu. Þetta hlýtur að valda gerbreytingu á viðhorfi okkar til raunvísinda. Það merkir að okkur skjátlaðist um vísindalega þekkingu, að vísindakenningar yrðu alltaf reistar á tilgátum, að það gat alltaf gerst að jafnvel best sannprófaða vísindakenningin yrði leyst af hólmi af betri kenningu. Allt sem við gátum sagt var að betri kenningin yrði að rúma einhvern af vel heppnuðum og vel prófuðum forverum sínum sem færi nærri því rétta. Á þennan hátt mundi hún einnig skýra hvers vegna forveri hennar hafði staðið sig vel.

Magee Geturðu þá tekið saman hina nýju vísindaskoðun sem þú komst að?

Popper Það er þá fyrst að aldrei má líta svo á að vísindakenning hafi verið endanlega sannreynd eða sönnuð. Í annan stað var eitthvað í grundvallaratriðum rangt við þá skoðun að vísindaleg vissa (eða líkindi) aukist eftir því sem endurteknum athugunum eða tilraunum fjölgar. Öllu heldur gegna athugun og tilraun einvörðungu hlutverki prófana. Þessar prófanir eru því mikilvægari þvistrangari sem þær eru. Til að mynda hafði uppgötvun Neptúnusar verið ákaflega ströng prófun. Samt sem áður sannaði hún ekki kenningu Newtons. Allt þetta kom mér til að lýsa vísindalegum prófunum á kenningu sem tilraunum til að hrekjahana. Kenning var góð og gild svo lengi sem hún stóðst prófanir – svo lengi sem hún stóðst tilraunir okkar til að hrekja hana eða afsanna. Og væri hún hrakin kom fram þörfin fyrir nýja skýringarkenningu sem átti að skýra bæði velgengni ogvankanta hinnar fyrri kenningar.

Magee Hvað gerist ef við getum ekki fundið viðunandi kenningu í staðinn fyrir þá kenningu sem hrakin hefur verið?

Popper Þá héldum við auðvitað áfram að nota gömlu afsönnuðu kenninguna þar til betri kenning fyndist, en við mundum nota hana með þeirri vitneskju að eitthvað væri bogið við hana. Það væri um að ræða óútkljáðan vanda og við vissum fyrirfram hvaða lágmarksskilyrðum ný kenning yrði að fullnægja til að teljast áhugaverð lausn á þessum óútkljáða vanda.

Magee Og auðvitað var það með vandalausnarökfræðinni (problem solving logic) sem þú sleist þig lausan frá hefðbundinni raunhyggju með miklum glæsibrag. Má ég nú taka saman í stuttu máli höfuðatriðin fram að þessu? Allt frá tímum Bacons4hefur hin hefðbundna skoðun á því hvernig þekkingu miðar áfram verið eitthvað á þesa leið: Vísindamenn safna gögnum með athugunum og tilraunum þar til þeir eru búnir að fá svo mikið að tiltekin almenn einkenni fara að koma í ljós. Þeir setja fram tilgátur sem byggðar eru á þessum almennu einkennum. Síðan freista þeir þess að styrkja tilgáturnar með frekari athugunum og tilraunum. Í þeim tilfellum þar sem tilraunir þeirra bera árangur er tilgátan staðfest sem lögmál – og viti menn! enn einum leyndardómi náttúrunnar hefur verið lokið upp. Þessi meinta aðferð við að komast að lögmálum með alhæfingu út frá athuguðum dæmum er það sem þekkt er undir nafninu aðleiðsla. En þín skoðun á málinu var allt önnur. Þú boðaðir þá furðulegu kenningu að engin aðleiðsla sé til. Hugmyndin, sagðirðu, lýsir ekki því sem vísindamenn gera í raun og veru og hún er ekki heldur rökgrundvöllur eða forsenda þess sem þeir gera.

Popper Já, ég var og er á annarri skoðun. Samkvæmt henni eru menn og dýr fædd með mikla eðlislæga þekkingu – ráð til að bregðast við aðstæðum, væntingar. Nýfætt barn væntir þess að fá næringu og umönnun. Vænting þess, meðfædd getgátuþekking, getur þó brugðist. Ef svo fer getur það dáið nema því takist einhvern veginn að leysa vandamál sín. Sú staðreynd að meðfædd þekking okkar getur brugðist sýnir að jafnvel hún er einungis getgátur. Ennfremur er það skoðun mín að við lærum ekki með því að athuga hluti, eða með því að tengja atriði saman í huganum, heldur með því að reyna að leysa vandamál. Vandamál kemur upp hvenær sem getgátur okkar eða væntingar bregðast. Við freistum þess að leysa vandamálin með því að breyta getgátum eða tilgátum. Þessar nýju bráðabirgðatilgátur eru könnunarloftbelgir okkar – reynslulausnir okkar. Brugðið getur til beggja vona um lausnir: nýtt atferli, ný tilgáta, ný kenning geta komið að gagni eða misst marks. Þannig lærum við með því að prófa okkur áfram (by trial and error), eða nánar tiltekið með bráðabirgðalausnum og með því að útrýma þeim ef þær reynast rangar. Eins og H. S. Jennings sýndi fram á árið 1910 notar meira að segja amaban þessa aðferð.

Magee En – eins og þú sjálfur hefur bent á einhvers staðar – aðferðin er ekki nákvæmlega sú sama þegar hún er notuð af amöbunni og þegar hún er notuð af Einstein.

Popper Alveg rétt, þar er mjög mikilvægur munur á. Hann er þessi: Á forvísindalegu stigi er okkur meinilla við að okkur kunni að skjátlast. Við ríghöldum því í getgátur okkar í lengstu lög. Á vísindalegu stigi leitum við skipulega að mistökum, að villum okkar. Þetta er stórkostlegast: Við erum vísvitandi gagnrýnin til þess að hafa upp á villunum. Því er það að á forvísindalegu stigi er okkur oft sjálfum tortímt, útrýmt, ásamt kenningum okkar; við förumst með þeim. Á vísindalegu stigi reynum við skipulega að útiloka rangar kenningar – við reynum að láta þær deyja í okkar stað. Þetta er hin gagnrýna útilokunaraðferð. Það er aðferð raunvísindanna. Hún gengur út frá því að við getum skoðað kenningar okkar á gagnrýninn hátt – eins og eitthvað utan við okkur sjálf. Þær eru ekki lengur huglægar skoðanir – heldur hlutlægar tilgátur.

Almenn mynd vísindanna er því svona: Við veljum eitthvert áhugavert viðfangsefni. Við stingum upp á djarfri kenningu sem bráðabirgðalausn. Við reynum eftir bestu getu að gagnrýna kenninguna, og þetta þýðir að við reynum að hrekja hana. Takist okkur að hrekja hana reynum við að koma fram með nýja kenningu sem við gagnrýnum svo aftur, og þar fram eftir götunum. Með þessu móti höfum við lært heilmikið jafnvel þótt okkur lánist ekki að koma fram með viðunandi kenningu: Við höfum lært eitthvað um viðfangsefnið. Við vitum hvar vandinn liggur. Allri aðferðinni má lýsa í stuttu máli með þessum orðum: djarfar tilgátur í taumi strangrar gagnrýni, þar með taldar strangar prófanir. Og gagnrýni og prófanir eru tilraunir til að hrekja eða afsanna.

Magee Og athugun og tilraun koma ekki til skjalanna fyrr en á öðru stigi?

Popper Samkvæmt skoðun minni eru athugun og tilraun í meginatriðum leiðir til að prófa kenningar. Það má því líta svo á að þær heyri til hinni gagnrýnu umræðu um kenningarnar.

Magee Af viðhorfi þínu leiðir að við vitum í raun og veru aldrei neitt – að einungis er um að ræða mismunandi óvissustig . . .

Popper Orðin „vitneskja“ eða „þekking“ og „vissa“ eru til í ýmsum merkingum. „Ég veit“ er til í mjög nákvæmri merkingu sem lýsa má svona: „Ég veit“ merkir „Ég trúi og ég hef fullnægjandi ástæðu til að trúa, þ.e.a.s. það er útilokað að mér skjátlist.“ Þú hefur á réttu að standa þegar þú segir að í þessari merkingu vitum við aldrei: Það er alltaf mögulegt að skjátlast. En ég tel að þetta sé léttvægt og minni háttar mál. Það sem máli skiptir er greinarmunurinn á vitneskju eða þekkingu í huglægri merkingu og vitneskju eða þekkingu í hlutlægri merkingu.

Magee Þú ættir kannski að útskýra þennan greinarmun.

Popper Þekking í huglægri merkingu er tilhneigingar til að aðhafast á tiltekna vegu eða trúa tilteknum hlutum eða segja tiltekna hluti. Þekking mín er tilhneigingarmínar, þekking þín er tilhneigingar þínar. Þekking í hlutlægri merkingu er talaðar eða skrifaðar eða prentaðar staðhæfingar – staðhæfingar eða kenningar sem koma fyrir í tilteknu samhengi, til að mynda í vísindatímaritum. Kenning Newtons eða kenning Einsteins eru dæmi um þekkingu í hlutlægri merkingu. Tilhneigingar Newtons til að setja kenningu sína á blað, eða ræða hana, eru dæmi um þekkingu í huglægri eða persónulegri merkingu. Um leið og hann setti fram hugmyndir sínar í orðum og skrifaði þær var líka komin þekking í hlutlægri merkingu. Báðar tegundir þekkingar eru óvissar eða getgátu- eða tilgátukenndar.

Magee En er í raun og veru þessi reginmunur hvað varðar röklega stöðu á þekkingunni sem ég hef í höfðinu og sömu þekkingu settri á blað?

Popper Já. Að koma hugmyndum okkar í orð, eða það sem betra er, að skrifa þær á blað, skiptir mjög miklu máli. Því með þessu móti verða þær gagnrýnanlegar. Áður voru þær hluti af okkur sjálfum. Við kunnum að hafa haft efasemdir. En við gátum ekki gagnrýnt þær á sama hátt og við gagnrýnum staðhæfingu sem sett er fram í orðum eða, það sem er enn betra, skriflega greinargerð. Orðið „þekking“ er því til í að minnsta kosti einni mikilvægri merkingu – merkingunni „kenningar settar fram í orðum og lagðar fram til gagnrýni.“ Þetta er það sem ég kalla „þekkingu í hlutlægri merkingu.“ Vísindaleg þekking telst til hennar. Það er þessi þekking sem er geymd í bókasöfnum frekar en í höfðinu á okkur.

Magee Og þú telur þekkinguna sem geymd er í bókasöfnum mikilvægari en þá sem geymd er í höfðinu á okkur.

Popper Langtum mikilvægari, frá öllum sjónarmiðum, jafnvel frá því mjög svo huglæga sjónarmiði sem er sú ánægja sem við höfum sjálf af þekkingunni. Því það sem við höfum ánægju af er kenningin sjálf. Segjum að annar hvor okkar komi fram með nýja hugmynd, en það er mjög ánægjuleg reynsla. Þá er að líta á hlutlæg tengsl hennar við hlutlægu gömlu hugmyndirnar og við vandamálin sem við leysum með nýju hugmyndinni; og þessi tengsl eru snar þáttur af ánægjunni. Og vitanlega hefðum við aldrei gert neina uppgötvun ef við hefðum ekki fyrst náð tökum á einhverjum þeirra hlutlægu kenninga sem fyrir eru og á hlutlægri stöðu vandamála – eða með öðrum orðum, ef við hefðum ekki lesið bækur og tímarit um vísindaleg efni. Og allt þetta merkir þekkingu í hlutlægum skilningi. Ennfremur er drjúgur hluti af ánægjunni einmitt fólginn í því að við „leggjum skerf til þekkingarinnar“ eins og frægt orðtak segir. Við erum eins og verkamenn sem hjálpa til við smíði byggingar, eins og verkamenn að smíða dómkirkju . Það skiptir reyndar máli fyrir ánægjuna að skerfurinn sem við leggjum fram er skerfur til vaxtareða þróunar þekkingar í hlutlægri merkingu.

Magee Mig langar til að hverfa aftur að spurningunni um vissu og óvissu. Er það rétt hjá mér að þegar þú talar um vöxt eða þróun þekkingar þá eigir þú í raun og veru aðeins við vöxt eða þróun tilgátukerfa – þó vafalaust vel gagnrýndra og strangt prófaðra tilgátna?

Popper Já. Allar kenningar okkar eru tilgátur.

Magee Og vöxturinn kemur til sem afleiðing af gagnrýni?

Popper Fyrir atbeina strangrar og hugvitsamrar gagnrýni sem hjálpar okkur að afhjúpa ný vandamál og fyrir atbeina djarfra og hugvitsamra ágiskana sem hjápa okkur að leggja fram nýjar og róttækar kenningar sem bráðabirgðalausnir á þessum vandamálum.

Magee En ef við vitum í rauninni aldrei neitt á hverju byggist þá gagnrýnin? Á hvaða forsendum föllumst við á sumar tilgátur og höfnum öðrum?

Popper Forsendurnar koma frá gagnrýninni umræðu um hinar ýmsu stríðandi kenningar. Í þessum gagnrýnu umræðum reynum við að meta kenningarnar frá því sjónarmiði hvort þær eru sannleikanum samkvæmar eða ekki. Eða með nákvæmara orðalagi, við reynum að bera þær saman með því að spyrja hver þeirra virðist komast næst sannleikanum.

Magee En ef engin vissa er til, engin þekking, hvað áttu þá við með „sannleikanum“?

Popper Samsvörun við staðreyndir. Við vitum hvað það merkir að kenning samsvari staðreyndum jafnvel þó við getum ekki skorið úr um hvort hún gerir það í raun og veru eða ekki.

Magee Þú notar orðið „sennileiki“ um það sem þú kallar nálægð eða nálgun við sannleikann, er það ekki?

Popper Jú. Í umræðunni um kenningarnar reynum við að komast að því hver þeirra sé sennilegust. Í henni er stundum að finna góðar og gildar ástæður fyrir því að taka sumar hinna stríðandi kenninga fram yfir aðrar frá þessu sjónarmiði. En þegar best lætur er aðeins um að ræða að verja með skynsamlegum rökum á þennan hátt val einnar kenningar frekar en annarrar. Og komi einhver fram með aðra kenningu á morgun þá getur verið að samkeppnisstaðan milli kenninganna breytist og þar með val okkar.

Magee Og þess vegna hefurðu sagt að við getum aldrei fært fullnægjandi rök fyrir því að tiltekin kenning sé sönn, þó að við getum stundum réttlætt eða rökstutt á fullnægjandi hátt að við tökum eina kenningu farm yfir aðra.

Popper Einmitt. Heimspekingar hafa venjulega reynt að réttlæta kenningu eða trú okkar á einhverja kenningu. Þetta er ekki hægt. En sé heppnin með okkur getum við réttlætt það að við höllumst að einni kenningu frekar en annarri. Ég hef til dæmis sýnt fram á hvers vegna við getum réttlætt það að hallast að þyngdaraflskenningu Einsteins, jafnvel þó við virðum að vettugi sönnunargögnin um hreyfingu Merkúrs.

Magee Kemur það málinu ekki við á þessu stigi að spyrja hvernig?

Popper Í fyrsta lagi getum við sýnt fram á að fyrir hvern vanda sem hægt er að leysa með kenningu Newtons er hægt að fá lausn hjá kenningu Einsteins sem er að minnsta kosti jafn nákvæm. Þetta má orða á þá leið að upplýsingainntak eða reyndarinntak kenningar Einsteins sé að minnsta kosti jafn mikið og kenningar Newtons. Síðan getum við haldið lengra og sýnt fram á að kenning Einsteins hefur meira inntak en kenning Newtons af því að hún leyfir okkur að bera upp og leysa vandamál um útgeislun og flutning ljóss í þyngdarsviðum sem eru kenningu Newtons um megn. Ég hef sýnt fram á að meira reyndarinntak kenningar Einsteins þýði að hún er betur prófanleg en kenning Newtons og þess vegna betur staðfestanleg. Og endanlega getum við sýnt að hún er í reynd betur staðfest, jafnvel þó við sleppum Merkúrsdæminu. En þar sem hinn gagnrýni samanburður var gerður með það fyrir augum að kanna hvor kenningin kæmist nær sannleikanum þá getum við sagt í stuttu máli að niðurstaðan bendi til þess að kenning Einsteins virðist nú sem stendur vera nær sannleikanum en kenning Newtons.

Magee Þegar þú segir „nú sem stendur“ skilst mér að þú eigir við „í ljósi þess hvernig umræðan stendur núna“?

Popper Já.

Magee Þessi hugmynd, hvernig umræðan stendur núna, innleiðir hún ekki afstæðishyggjuþátt?

Popper Nei. Að vísu kemur hún inn með sögulegan þátt, en ekki afstæðishyggjuþátt. Sérhver staðhæfing eða kenning sem er orðuð á ótvíræðan hátt er annaðhvort sönn eða ósönn; þriðji möguleikinn e r ekki til. En ein ósönn eða röng kenning getur verið nær sannnleikanum en önnur. Og það getur líka verið að ein sönn eða rétt kenning hafi meiri sannleik að geyma en önnur. Hún kann að hafa meira „sannleiksinntak“ eins og ég kalla það.

Magee Dæmi?

Popper Ef við segjum að klukkuna vanti nú þrjár mínútur í tólf, þá er sú staðhæfing blátt áfram ósönn að hana vanti fimm mínútur í tólf, en hún er nær sannnleikanum en staðhæfingin að annaðhvort vanti hana tíu mínútur í tólf eða eða hún sé tíu mínútur yfir tólf. Einnig hefur ósanna staðhæfingin að klukkuna vanti nú fimm mínútur í tólf meira sannleiksinntak en óljós sönn staðhæfing eins og „klukkan er nú milli ellefu og eitt“. Það er að segja, stærri flokk sannra staðhæfinga leiðir af henni.

Magee Hvernig stendur á því að þú hefur alla ævi aðallega fengist við raunvísindi og raunvísindalega þekkingu frekar en aðrar tegundir þekkingar?

Popper Miklir vísindamenn og byltingarkenndar kenningar þeirra vöktu aðdáun hjá mér. Auk þess eru raunvísindi einungis almenn skynsemi í öflugri mynd. Gagnrýni er hluti af almennri skynsemi. Það er hluti af almennri skynsemi að leggja skoðanir sem byggjast á almennri skynsemi fram til gagnrýni. Og raunvísindin eru einfaldlega árangurinn af þessari gagnrýni.

Magee Þú hefur spurt: „Hvað eru vísindi?“ Og aðferðin sem þú leggur til að notuð sé til að draga mörkin milli vísinda og ekki-vísinda (non– science) er eitt merkasta farmlag þitt til heimspeki.

Popper Tillaga mín er að telja kenningu til raunvísinda ef við getum sagt til um hvers konar atburður það væri sem við mundum fallast á að væri afsönnun á kenningunni. Eða með öðrum orðum, kenning telst til raunvísinda ef hún er fræðilega séð afsannanleg. Kenning sem getur ekki stangast á við neinn mögulegan eða hugsanlegan atburð er, samkvæmt þessari skoðun, utan við raunvísindi.

Magee Við skulum hafa þetta alveg á hreinu – þú segir ekki að það sem er utan við raunvísindi þurfi endilega að vera ósatt eða rangt. Enn síður merkingarlaust.

Popper Nei. Við getum ekki lagt raunvísindin og sannleikann að jöfnu því við álítum að kenningar Newtons og Einsteins teljist báðar til raunvísinda, en þær geta ekki báðar verið sannar og vel má vera að báðar séu ósannar. En þær eru báðar prófanlegar, og það þýðir að standist þær ekki prófanir eru þær afsannaðar eða hraktar. Ég tek því prófanleika, eða hrekjanleika, sem mælikvarða á vísindalegt einkenni kenningar.

Magee Þeir sem voru í Vínarhringnum, reyndar allir rökfræðilegir raunhyggjumenn (logical positivists), héldu því fram að sérhver staðhæfing utan við raunvísindin væri bókstaflega merkingarlaus, bókstaflega þvættingur. Þú samþykktir þetta aldrei.

Popper Nei, það gerði ég ekki. Að mínum dómi telst staðhæfing sem er óhrekjanleg ekki til raunvísinda, en það gerir hana ekki merkingarlausa. Margar vísindakenningar okkar hafa þróast upp úr óprófanlegum forvísindalegum kenningum. Rekja má sögu kenningar Newtons alla leið aftur til Anaximanders og Hesíóds, og hin forna frumeindakenning var óprófanleg þar til um 1905. Reyndar hafa flestar vísindakenningar sprottið upp úr forvísindalegum sögnum. Ég teldi það villandi að kalla þessar sagnir „merkingarlausar“ . . . En svo virðist sem gagnrýni mín á kenningar rökfræðilegra raunhyggjumanna um merkingarleysi hafi hlotið allvíðtæka viðurkenningu.

Magee Reyndar hefurðu aldrei fengist mikið við spurningar um merkingu yfirleitt, er ekki svo? Og þú hefur ekki heldur talið tungumálið sjálft skipta öllu máli. Þetta er því merkilegra sem það gerist á stað og tíma þar sem mestöll heimspeki beinist að tungumálinu á einn eða annan hátt. Hvað kemur þér til að taka þess afstöðu?

Popper Ég held þú hafir ekki skilið afstöðu mína rétt. Satt er það að ég hef ekki áhuga á merkingarleysisvandanum, og mér leiðast líka rökræður um merkingu orða. Og það er einnig rétt að þeir sem kalla sig stundum heimspekinga tungumálsins eða málspekinga hafa áhuga á þeim merkingarvandamálum sem ég hef hreint engan áhuga á. En ef þú ert að segja að ég telji tungumálið ekki mikilvægt þá er það alrangt. Mundu bara hvað ég sagði um hlutlæga þekkingu. Ég held að ekkert sé eins mikilvægt og tungumálið. Ég er með kenningu og samkvæmt henni er það málið sem gerir okkur mennsk og samkvæmt henni er mannleg vitund – sjálfsvitundin – afleiðing málsins. Ég hef ekki áhuga á að vera með heimspekilegar vangaveltur yfir merkingu orða, sumpart vegna þess að ég hygg að jafnvel dýr geti lært merkingu orða. En mannlegt mál byrjar með lýsandi notkun setninga, eða svo ekki sé eins þurrlega til orða tekið, það byrjar með því að segja frá.

Magee Ég hafði reyndar ekki misskilið þig þótt ég hafi kannski komist klaufalega að orði. Það sem ég vildi láta koma fram var að þú hefur ekki áhuga á að greina merkingu orða. Geturðu útskýrt hvers vegna?

Popper Já. Að hafa áhyggjur út af orðum og merkingu þeirra er einhver elsta dægrastytting í heimspeki. Platon víkur að því hvað eftir annað að fræðarinn Pródikos hafi haft áhuga á að greina milli ólíkra merkinga orða, og þörfin fyrir þessa greiningu hefur því verið kölluð (af Svend Ranulf) „Pródikosarreglan“. Þessi regla var ný og mikilvæg árið 420 f. Kr., en núna eru sum okkar kannski búin að læra þessa lexíu. Það eru til áhugaverðari viðfangsefni, jafnvel á þessu sviði.

Magee Eins og hver?

Popper Að gera sér grein fyrir því að orð ber að nota til þess að setja fram kenningar og að sérstakur áhugi á orðum og merkingu þeirra leiðir til innantóms orðagjálfurs. Ég hef lýst því yfir í þrjátíu ár að skilgreiningar séu innantómar og hef hrakið þá hjátrú að viljum við vera nákvæm þá megum við til að skilgreina orðin sem við notum. Ég reyndi að berjast gegn áhrifum þessarar hjátrúar sérstaklega á sviði félags- og stjórnmálaheimspeki, en árangurslaust. Stjórnmálaheimspekingar halda áfram að skrifa blaðsíðu eftir blaðsíðu þar sem þeir bera saman skilgreiningar. Til dæmis var nýlega gefin út bók um alræðisstefnuna þar sem bornar voru saman um það bil fjórtán skilgreiningar á „alræðisstefnu“, og var þar líka að finna eina sem mér var eignuð, enda þótt ég fengi þessar átölur neðanmáls: „af því að Popper kemur aldrei með skýra skilgreingu á alræðisstefnunni“. Höfundinum sást yfir að ég hafði, í sjálfri bókinni sem hann vitnar í, fært rök gegn því innantóma orðaskaki sem stafar af því að leita nákvæmni í skilgreiningum.

Magee Fólki sem veit ekkert um verk þín mætti fyrirgefast þó það haldi að stjórnmálaheimspeki þín komi vísindaheimspeki þinni lítið við. En það sem þú hefur í raun og veru gert er að færa út skoðun þína á náttúruvísindunum til félagsvísindanna – er það ekki rétt? Með öðrum orðum, heimspeki þín á þessum tveimur, að því er virðist ólíku sviðum, er öll af sama toga.

Popper Það má kannski segja að um sé að ræða ýmsar sameiginlegar hugmyndir. Til dæmis verða okkur alltaf á mistök, í stjórnmálum sem annars staðar, en við getum reynt að læra af mistökunum. Að vera reiðubúin að læra af mistökunum, og að vera á varðbergi gagnvart þeim, kalla ég skynsemisafstöðuna. Hún er ávallt andstæð valdboðsstefnu. Á stjórnmálasviðinu er sú aðferð að læra af mistökum aðferð sem byggist á frjálsri gagnrýni á aðgerðir ríkisstjórnar og umræðum um þær.

Magee Og þú hefur byggt skilgreiningu þína á lýðræði á þessu frekar en á hugmyndinni um stjórn meirihlutans.

Popper Ég vil alls ekki skilgreina lýðræði. Þar að auki er það ekki meirihlutinn sem stjórnar: Sama hvaða flokkur vinnur í kosningunum, þá stjórna hvorki þú né ég. En ég ætti að gera ljóst að ég greini á milli tvenns konar ríkisstjórna. Aðra tegundina getum við losnað við án blóðsúthellinga; hina getum við ekki losnað við án blóðsúthellinga og kannski alls ekki. Ég legg til að kalla fyrri tegundina lýðræði og þá síðari harðstjórn. En ekkert er undir orðum komið. Það sem hins vegar skiptir máli er þetta: Eigi eitthvert land til stofnanir sem gera kleift að skipta um stjórn án ofbeldis og hópur manna reynir að beita ofbeldi af því að þeim tókst ekki að ná völdum án þess, þá er þessi verknaður, hvað sem mennirnir kunna að hugsa eða hafa í hyggju, tilraun til að koma á stjórn sem er haldið uppi með ofbeldi og verður ekki losnað við án ofbeldis, eða með öðrum orðum, þeir eru að freista þess að koma á harðstjórn. Enda þótt þetta liggi í augum uppi hugsar fólk venjulega ekki svona langt.

Magee Hvers vegna hefur svona mikið af stjórnmálaheimspeki þinni verið í formi árásar á kenningar um fullkomið samfélag eða draumórastefnur?

Popper Það er margt í samfélagi okkar sem er grimmdarlegt, ljótt, heimskulegt og ranglátt. Það er alltaf mikið rúm fyrir umbætur. Fólk hefur ætíð dreymt um betri heim og sumir þessara drauma hafa verið aflvaki samfélagslegra umbóta. En eins og ég hef sýnt fram á í riti mínu Opna samfélaginu eru draumar um fullkomið samfélag háskalegir. Púritanar gerðu sér vonir um að koma á fullkomnu þjóðskipulagi, og það gerði Robespierre líka. Það sem hvor þeirra gerði að veruleika var ekki himnaríki á jörðu heldur helvíti ofbeldisfullrar harðstjórnar.

Magee Sumar af vanræktum uppgötvunum þínum í stjórnmálaheimspeki hafi aðrir enduruppgötvað á eigin spýtur. Til dæmis að taka er Djilas sem hafði verið einn af framámönnum í kommúnistaheiminum. Hann setti fram í riti sínu Hin nýja stétt,5sem nú er orðið klassískt, hugmyndir sem þú hafðir birt löngu áður í Opna samfélaginu. Og aftur útlistar síðasta bók hans Ófullkomna samfélagið í löngu og ítarlegu máli setninguna: „Það er sannfæring mín að samfélag geti ekki verið fullkomið“. Hann álítur nú að sú hugmynd að samfélag geti verið fullkomið sé kórvillan hjá kommúnistum.

Popper Ég hygg að þú hafir á réttu að standa um Djilas. Hann hefur á löngum þjáninga- og fangavistarárum komist að skoðunum sem aðrir komust að með gagnrýnni hugsun. Einhvern veginn finnast mér niðurstöður hans tilkomumeiri og dýrmætari.

Magee En við erum nú vitni að greinilegri endurvakningu áhuga meðal gáfaðs æskufólks einmitt á þeim höfundum og kenningum sem þú beindir spjótum þínum gegn: Hegel, Marx, sálgreiningu og tilvistarstefnu. Hver er skýring þín á þessu?

Popper Það hefur alltaf verið tilhneiging til að svipast um eftir viskusteininum – einhverri allrameinabót. Núverandi ástand telst tæplega til nýjunga – nema hvað skynsemi í umræðum hefur raunalega hrakað. Það stafar sumpart af því að fólki finnst að of mikið hafi verið talað og það hafi ekki leitt til neins. Það er því ekki lengur í tísku að rökræða við andstæðinginn. Menn reyna ekki lengur að komast að því hvað sé bogið við röksemdafærslu andstæðingsins. Menn kyngja einhverri tilkomumikilli kenningu í heilu lagi. Þetta er skiljanleg tilhneiging en hörmuleg ef hún verður sérkenni ungra menntamanna. Hún sýnir að vitsmunalegum gæðakröfum og vitsmunalegri ábyrgð hefur hrakað. Dæmi um hugsunarleysi þessarar tegundar andrökhyggju er núverandi stjórnleysistíska. Vissulega ættum við að standa gegn auknu skrifræði og vexti ríkisvaldsins. En mér er fyrirmunað að skilja að sama fólkið og hlýtur að gera sér grein fyrir að stjórnleysi á alþjóðavettvangi þýðir kjarnorkustríð geti trúað því að unnt sé að búa við stjórnleysi innanlands án þess að flækjast í kjarnorkustríð.

Magee Þó að þú hafir ekki gefið út bók í nokkur ár þá hefurðu stöðugt verið að skrifa greinar, ritgerðir, halda fyrirlestra og svo framvegis. Hvað hefurðu einkum verið að fást við nú í seinni tíð?

Popper Ég hef verið að vinna að mörgum efnum: að kenningunni um það sem ég kalla „heim 3“, en með því á ég við hinn hlutlæga heim þeirra verka sem mannshugurinn hefur búið til. Þessi heimur samanstendur af hlutlægri þekkingu – heimi vísindalegra viðfangsefna, kenninga og rökræðna – en einnig heimi hlutlægra listaverka. Annað áhugaefni mitt og skylt þessu er þróunarkenningin. Og tengsl milli þessara tveggja sviða er kenningin um mannlegt mál, sérstaklega frá líffræðilegu sjónarmiði. Þetta hefur ennfremur komið mér til að hugsa dálítið um spurninguna um samband líkama og hugar.

Magee Þetta er urmull viðfangsefna. Að hverju ertu að vinna þessa dagana, bókstaflega talað?

Popper Ég er að svara gagnrýnendum mínum.

Magee Fyrir næsta bindi í Bókasafni lifandi heimspekinga sem helgað er verkum þínum?6

Popper Já.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Samtalið milli vísindaheimspekingsins Karls Poppers og Bryans Magees, heimspekings og rithöfundar, sem hér birtist fór fram í Breska ríkisútvarpinu, BBC, veturinn 1970-71. Er það eitt af þeim samtölum sem Magee átti þennan vetur við tólf breska heimspekinga, auk Poppers, þar á meðal Anthony Quinton, Stuart Hampshire, David Pears, Alfred Ayer, Gilbert Ryle, Peter Strawson og Bernard Williams. Samtölin komu út í bók skömmu eftir að þau voru flutt undir heitinu Modern British Philosophy (Kom fyrst út hjá Secker & Warburg 1971 og Paladin 1973). Rétt er að geta þess að Bryan Magee hefur skrifað ágæta bók um heimspeki Poppers – Popper – sem kom fyrst út 1973 í bókaflokknum Modern Masters (Fontana Paperbacks) og hefur verið endurprentuð ótal sinnum. Þá hefur hann einnig átt samræður við fleiri himspekinga í hinum enskumælandi heimi. Veturinn 1978 var frimmtán samræðum sjónvarpað og jafnmörgum 1987. Úr þeim urðu síðan til bækurnar Men of Ideas (BBC, 1978) og The Great Philosophers (BBC, 1987). [Sú síðarnefnda kom út í íslenskri þýðingu árið 2002 undir heitinu Miklir heimspekingar]. Til skýringar á ávarpinu Sir skal þess getið að Bretadrottning sæmdi Popper þeirri nafnbót. Popper lést í London 17. september 1994, 92 ára að aldri.

2. George Edward Moore (1873–1958). Enskur heimspekingur. Einn af frumkvöðlum rökgreiningar­heimspeki.

3. Aðleiðsla er viðtekin þýðing á induction, en kennarar í heimspeki við Háskóla Íslands munu vera farnir að nota orðið tilleiðsla í staðinn – til betri aðgreiningar frá afleiðslu (deduction) í framburði, að mér skilst.

4. Francis Bacon (1561 – 1626). Enskur heimspekingur, rithöfundur og aðferðafræðingur í raunvísindum, m.m. Spámaður vísindabyltingarinnar.

5. Hin nýja stétt eftir Milovan Djilas kom út hjá Almenna bókafélaginu árið 1958 í þýðingu Magnúsar Þórðarsonar og Sigurðar Líndals.

6. Ritið sem helgað er verkum Poppers í The Library of Living Philosophers kom út 1974 í tveimur bindum. Er það stærsta ritið í þessum bókaflokki. Hluti þess er sjálfsævisaga þar sem Popper gerir rækilega grein fyrir hugmyndum sínum og þróun þeirra. Ævisagan sem ber heitið Leit sem ekki er lokið (Unended Quest) hefur verið sérprentuð. Undir lok samtalsins minnist Popper á kenningu sína sem hann kallar ‘heim 3’ eða þriðja heim. Um þessa kenningu fjallar hann m.a. í Hlutlægri þekkingu og í hinu mikla verki sem heitir Sjálfið og heili þess (The Self and Its Brain. – Springer International, 1977. Leiðrétt prentun 1981). Popper er höfundur fyrsta hluta þessa verks en taugalíffræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Sir John Eccles skrifar annan hluta. Þriðji hluti samanstendur af tólf samræðum milli höfundanna tveggja. Í þrískiptingu Poppers er ‘heimur 1’, eða fyrsti heimur, efnisheimurinn og ‘heimur 2’, eða annar heimur, öll huglæg reynsla okkar og hugsun, bæði meðvituð og ómeðvituð. Varla þarf að taka það fram að hér er um að ræða hugmyndir sem eru mjög umdeildar meðal heimspekinga.

 

« Til baka