Færslusöfn

Bryan Magee ræðir við R. M. Hare um siðfræði

eftir Bryan Magee

INNGANGUR

„Mest hamingja sem flestra er undirstaða siðferðis og löggjafar.“ Þetta er meginstaðhæfing nytjastefnunnar sem mér virðist langáhrifamesta siðfræðin í bresku samfélagi nú á dögum. Alltaf þegar Englendingar sem hafa stjórnmál eða opinber störf að atvinnu, eða hvaða annað svið opinberrar stjórnsýslu sem er, koma saman til að ræða hvað skuli gert eru margar ef ekki flestar af þeim ósögðu forsendum sem liggja til grundvallar umræðunni forsendur grófrar – oft ekki þaulhugsaðrar – nytjastefnu. En samt er þessi heimspeki alls ekki ný af nálinni. Grunnregla hennar var sett fram af Francis Hutcheson1 fyrir tveimur og hálfri öld, og henni var sprautað inn í blóðrás félagslegrar hugsunar fyrir einni og hálfri öld af Jeremy Bentham.2 Bentham og fylgismenn hans – fyrst og fremst John Stuart Mill – höfðu áhrif á hugsun heillar valdastéttar í Bretlandi á öðrum helmingi nítjándu aldar, aðallega fyrir tilstilli menntakerfisins. Og þau hafa varað í stofnunum Bretlands til þessa dags. Hér höfum við ágætt dæmi um hvernig heimspeki, sem í fyrstu er sett fram og komið á framfæri af mönnum sem eru eingöngu hugmyndasmiðir, getur haft bein áhrif á daglegt líf milljóna manna. Hins vegar fer því fjarri að nytjastefnan njóti stuðnings alls staðar og hjá öllum. Í samfélagsmálum er hún dregin í efa bæði af hinum róttæka vinstri og hægri væng stjórnmála og einnig af mörgu trúuðu fólki. Í háskólum sætir hún æ oftar árásum atvinnuheimspekinga. Þessi deila verður skoðuð nánar hér á eftir, en fyrst vil ég setja hana í víðara samhengi siðfræðinnar sem slíkrar. Ég hef fengið hingað til mín prófessor í siðfræði við Oxford háskóla, R. M. Hare [1919–2002], til að ræða þessi mál.

SAMRÆÐA

Magee  Mig langar að fara aftur til undirstöðuatriða greinarinnar og byrja þar og ég geri það með því að spyrja djúptækustu spurningarinnar: Hvað er siðfræði?

Hare  Hvað við segjum að siðfræði sé mun ráðast af því hvað við teljum að heimspekin sjálf sé. Allt frá dögum Sókratesar hafa heimspekingar leitast við að varpa ljósi á vandamál af ýmsu tæi með því að gera sér ljósari grein fyrir hugtökunum sem vandamálin voru sett fram með. „Heim­spekilegt vandamál“ er einfaldlega vandamál sem talið er að hægt sé að fjalla um með þessum hætti. Siðfræði er engin undantekning: Vandamálin sem hún leitast við að varpa ljósi á eru raun­hæf mál um siðferði. Hvernig gætum við ákveðið hvað væri sanngjörn kauphækkun, svo dæmi sé tekið, ef við hefðum enga hugmynd um hvað „sanngjarn“ merkir og þess vegna enga hugmynd um hvað mundi gera út um slíkar spurningar?

Magee  Það er eitt sem ég held við verðum að gera ljóst en það er munurinn á siðfræðingi og siðapostula. Það er sérstaklega mikilvægt að gera þetta með tilliti til fullyrðingar þinnar (og minnar) að siðfræðingurinn geti lagt eitthvað raunhæft af mörkum til lausnar á raunverulegum siðrænum vandamálum – vegna þess að þeir gera það ekki, er ekki svo, með því að segja fólki hvað það eigi að gera en það gerir siðapostulinn?

Hare  Í stað þess að „segja fólki hvað það eigi að gera“ (sem hljómar svolítið eins og við værum öll í hernum) hefðirðu kannski átt að segja „að hugsa um hvað það, eða aðrir í tilteknum að­stæðum, ætti að gera“. Í þeim skilningi eru flest okkar siðapostular, sum vitrari en önnur. Siðfræðingurinn er öðruvísi sökum þess að hann nálgast þessi vandamál með sérstakri færni (þó það sé færni sem allar greindar manneskjur geta tileinkað sér ef þær reyna). Þetta er hæfnin til að skilja fullkomlega og skýrt orðin sem notuð eru til að setja fram siðferðilegar spurningar og vita þannig nákvæmlega hvers við erum að spyrja og þess vegna hvaða röksemdir eru okkur tiltækar þegar við svörum þeim og hverjar þeirra muni standast.

Magee  Hvaða siðferðishugtök er gagnlegast að rannaka á þennan hátt?

Hare  Heimspekingar hafa mismunandi skoðanir á þessu. Iris Murdoch skrifaði bók sem heitir The Sovereignty of Good sem gefur til kynna með titlinum, að ég hygg, að hún taldi að „góður“ væri mikilvægasta hugtakið. Aðrir hafa talið að „skylda“ væri það. Og enn aðrir vilja að við rannsökum afmarkaðri hugtök á borð við „góðvild“ og „réttlæti“. Ég sjálfur tel að það sé gagnlegt að rannsaka öll þessi hugtök en hef upp á undanfarið einbeitt mér að orðinu „ætti“ vegna þess að það er einfaldasta siðferðishugtakið og einnig það miðlægasta – því að þegar allt kemur til alls viljum við að lokum vita, er það ekki, hvað við ættum að gera?

Magee  Þú hefur lýst viðfangsefni siðfræðinnar eingöngu sem greiningu á siðferðilegum hug­tökum. Hvað um kenningar, líkön og forsendur athafna, ákvarðanir, valkosti? Greining á þessu er líka heimspekileg iðja og vissulega mikilvæg, eða hvað?

Hare  Það held ég; en það sem mikilvægast er að rannsaka á gagnrýninn hátt auk hugtaka, og með hugtökum, eru röksemdafærslur til að sjá hvort þær eru góðar eða vondar. Með því að öðlast skilning á hugtökunum getum við prófað röksemdafærslurnar og þess vegna kenningarnar sem þau eru notuð til að styðja. Að skilja hugtak er að skilja röklega eiginleika þess og þess vegna að vita hvaða ályktanir sem nota það ganga upp.

Magee  Hvað geta hugtakagreining og greining á siðferðilegum rökfærslum lagt af mörkum til að leysa raunhæf vandamál?

Hare  Ja, hvernig mundum við leysa raunhæf vandamál ef við vissum ekki hvað væru góð og hvað væru vond rök? Og hvernig vissum við það ef við skildum ekki hvað spurningarnar sem við værum að spyrja merkja?

Magee  Það sem ég hafði í huga þegar ég spurði þig síðustu spurningarinnar var þetta: Þú ert rökgreiningarheimspekingur og þú lítur á hlutverk þitt fyrst og fremst sem það að skýra hugtök og rökfærslur. En það eru til aðrar tegundir heimspekinga – marxistar, til dæmis, og nytjastefnu­menn – sem sjá heimspekina ekki í sama ljósi. Þeir eru vissir um að afstaða þeirra skipti máli í reynd – svo sannarlega, í tilviki marxista og nytjastefnumanna er augljóst að það skiptir máli í reynd, það sést greinilega að svo er. Hvaða máli skiptir afstaða þín í samanburði við afstöðu þeirra?

Hare  Ég er reyndar nytjastefnumaður í hefð Mills sem taldi rökfræði skipta svo miklu máli að hann skrifaði heilan doðrant um hana, og honum var vel ljóst hve mikilvægt er að rannsaka hugtök. Marxistar eru líka nytjastefnumenn, þó af mjög ólíkri gerð. Eins og hinir miklu bresku nytjastefnumenn, en ólíkt flestum marxistum, tel ég að siðferðilegar röksemdir þurfi á stuðningi að halda, ekki einungis með nákvæmri könnun staðreyndanna um siðferðilegar aðstæður okkar heldur og með nákvæmri rannsókn á röksemdafærslum okkar sem aðeins verður gert með því að gera sér skýra grein fyrir hugtökunum og hvernig þau virka.

Magee  Telurðu siðfræðina sem kemur frá marxistum vera á vitsmunalega lágu stigi?

Hare  Vitsmunalegt stig marxískrar hugsunar, sumt af henni, er hátt á sinn hátt. Þessir menn hafa lagt mjög mikið af mörkum til skilnings okkar á samfélaginu. Framlag Marx til félagsfræði og ef til vill hagfræði skiptir mjög miklu máli, þó betra hefði verið ef það hefði verið skýrara – ef það gæfi ekki tilefni til svo margra ólíkra túlkana sem lærisveinar hans slást um eins og guðfræðingar. En hvað heimspekina varðar var hann ekki í raun og veru með hugmyndina um hvað heimspekingur þarf að gera til að veita sína sérstöku aðstoð við að leysa raunhæf vandamál.

Magee  Eru ekki margir hinna yngri heimspekinga nú á dögum, líkt og marxistar og nytjastefnumenn gærdagsins, að hverfa frá „einberri” skýringu hugtaka til beinnar umfjöllunar um siðferðileg álitamál?

Hare  Mér virðist að hér sé um ranga andstæðu að ræða. Þeir heimspekingar sem halda sig geta komist hjá að skýra hugtök og horfast í augu við raunveruleg siðferðileg vandamál í lífinu sjálfu eru eins og pípulagningarmaðurinn sem þýtur út til vinnu og skilur öll verkfæri sín eftir og gleymir öllu sem hann vissi um pípulagningu. Hann er þá ekkert betur í stakk búinn en húsráðandinn til að stöðva lekann.

Magee  Þú ert með öðrum orðum að segja að atvinnutæki heimspekingsins séu greining hugtaka og rökgreining og að noti hann þau ekki meira en aðrir þá sé hann ekki að leggja það af mörkum sem hann er sérstaklega hæfur til.

Hare  Já. Hann kemur að minna gagni en fjöldi stjórnmálamanna og blaðamanna vegna þess að hann skortir reynslu þeirra.

Magee  Úr því að minnst er á stjórnmálamenn þá hefur alltaf verið talið að sérstakt samband væri milli siðfræði og stjórnmálafræði en í nálægri fortíð hafa þessi tengsl veikst töluvert. Hvað viltu segja um þetta?

Hare  Ég er ekki viss um hve nálæga fortíð þú átt við. Um þessar mundir skrifa heimspekingar áreiðanlega heilmikið um mál sem hafa pólitíska þýðingu, en það ætti ekki að gera of mikið úr hve ný þessi þróun er. Ég birti fyrstu grein mína á þessu sviði árið 1955 og geri ég meira af því nú þá er það vegna þess að ég tel mig vera betur í stakk búinn til að gera það eftir þær grunnrannsóknir sem ég hef verið að fást við síðan þá. Ég vildi vona að sama gæti átt við um rökgreiningarheimspekinga almennt enda þótt sumir þeirra telji sig verða, því miður og hörmulega, að skilja verkfæri sín eftir þegar þeir leyfa sér að skrifa um stjórnmál. Róttæklingar segja stundum að rökgreiningarheimspekingar skrifi ekkert „sem skiptir máli“, en það sem þeir eiga við með þessu er að þeir skrifi ekki nóg af því sem er róttæklingum að skapi pólitískt séð. Ef ég má vera á heimaslóðum andartak skulum við líta á ástandið í Oxford. Heimspeki-, stjórnmála- og hagfræðiskólinn hefur menntað fjölda færra stjórnmálafræðinga með heimspekilegan bakgrunn, sem sumir þeirra eru enn við kennslu þar, með því að flétta saman heimspeki og félagsvísindi. Á prófinu fyrir þessa háskólagráðu eru tvö verkefni sem kallast „siðfræði og stjórnmálaheimspeki“ og „stjórnmálakenningar“ en svið þeirra skarast svo mikið að séu nemendur að taka hið síðarnefnda mega þeir ekki svara pólitísku spurningunum í hinu fyrrnefnda því að þá fengju þeir tvöfalda einkunn fyrir einfalda vinnu. Prófverkefnið „stjórnmálakenningar“ er samið af stjórnmálafræðingunum og þeir gefa einkunn ásamt heimspekingunum, og samkvæmt minni reynslu eru einkunnirnar jafn samhljóða og einkunnir ólíkra prófenda innan sömu fræði­greinar eru venjulega. Og það eru önnur prófverkefni stjórnmálalegs eðlis sem heimspekingar hjálpa oft til við að fara yfir og meta. Hér er engin vísbending um klofning milli greinanna. Það er líka ákaflega fjörug umræða meðal kennara á þessum greinamörkum. Ég er í hópi sem kemur saman í Allrasálnagarði og ræðir málefni á því sviði sem hið víðlesna nýja bandaríska tímarit Philosophy and Public Affairs gerir ítarleg skil. Það vill svo skemmtilega til að þessi hópur stjórnmálafræðinga, lögfræðinga og heimspekinga sem byrjar með þeim ásetningi að ræða raunhæf málefni sem eru ofarlega á baugi hefur mjög fljótlega uppgötvað að rannsókn á þessum málefnum, sé farið djúpt í hana, leiðir beint til þeirra áríðandi vandamála í kennilegri siðfræði sem þú sagðir að við værum að hverfa frá. Svo við erum í raun að hverfa aftur til þeirra með nýjum skilningi á mikilvægi þeirra.

Magee  Það sem ég hef orðið áskynja bara á undanförnum fáum árum er vaxandi tilhneiging hjá siðfræðingum að fást við vandamál á félagslegum sviðum öðrum en þeim sem eru strangt tekið stjórnmálaleg – vandamál í hagfræðikenningum, til dæmis, eða í stefnu í fólksfjöldamálum.

Hare  En þetta er efniviður stjórnmála nú á dögum; heimspekingar eru að leggja til orrustu. Það sem þú segir er vissulega að gerast enda þótt það byrjaði fyrir nokkru. Derek Parfit, sem ásamt lögfræðingnum Ronald Dworkin stofnaði hópinn sem ég nefndi rétt áðan, er að skrifa um stefnu í fólksfjöldamálum sem ristir dýpra en nokkuð annað sem ég þekki, og hann ásamt nokkrum öðrum heimspekingum halda viðvarandi málstofu á þessu og skyldum sviðum sem er ein þeirra mest spennandi í Oxford. Tómstundaiðja mín hefur verið umhverfisskipulag og ég tók allvirkan þátt í því áður en ég gerðist atvinnuheimspekingur fyrir þrjátíu árum; og ég held satt að segja að heimspekin hafi hjálpað mér við þá tegund rannsókna. Ég geri ekki svo mikið af þessu nú orðið og ástæðan er kannski athyglisverð: Það er vegna þess að umhverfisskipulag (og sérstaklega skipulag flutninga sem ég hef mest fengist við, sökum þess að það er svo miðlægt í umhverfisvandamálum) er nú orðið svo miklu tæknilegra en það var. Þetta þýðir að þeir sem eru áhugamenn, eins og ég, geta í rauninni ekki gert mikið í því nú sem er ómaksins vert. Ég var vanur að skrifa greinar í Traffic Engineering and Control, en ég mundi ekki dirfast að gera það nú vegna þess að viðfangsefnið er orðið svo stærðfræðilegt og erfitt. Maður var vanur að geta gert umferðarspár sem tóku til heillar borgar eins og til dæmis Oxford, með erfiðismunum með blýanti og blaði, að íbúatölunni gefinni; og ég gerði nokkrar í tengslum við vegadeiluna í Oxord, en nú verður maður að nota tölvu og ég hef ekki lært það. Þetta er kennidæmi um það sem kemur fyrir heimspekinginn. Ef ég hefði hug á að sérhæfa mig í þessu efni yrði ég að gefa heimspekina upp á bátinn – ég hefði ekki tíma.

Magee  Þegar kemur að raunverulegum samfélagsmálum líkt og þessu neitarðu því samt að viðhorf í siðfræði sem eru opinskátt „pólitísk“ eins og til dæmis marxisminn (og jafnvel vissar tegundir tilvistarstefnu) hafi meira að segja?

Hare  Þeir sem aðhyllast þessi viðhorf hafa meira að segja í þeim skilningi að þeir nota fleiri orð: Bækur þeirra eru venjulega lengri. Enda þótt það séu nokkrir góðir heimspekingar sem aðhyllast þessar stefnur gerir algengari tegundin lítið annað en blása upp blöðrur af mismunandi lögun og lit, fullar af engu nema andardrætti þeirra sjálfra, sem svífa hingað yfir Ermarsundið eða Atlantshafið, og sé stungið í þær með oddhvassri nál er mjög erfitt að segja hvað var í þeim nema að það var sennilega eldfimt og áreiðanlega ölvandi. Ég held ekki að þetta fólk geri neitt til að leysa úr raunhæfum vandamálum. Það eykur kannski útblásturinn dálítið umfram það sem eðlileg árásarhneigð hópa framleiðir hvort eð er; en vegna gallaðrar pípulagningar lendir mest af honum á gleraugum fólks.

Magee  Með öðrum orðum álítur þú að þessum öndverðu heimspekilegu viðhorfum hætti til að vera skrautleg mælskulist en skorti bitastætt innihald. Og þetta stafar sumpart af því að þau skortir einnig röklega nákvæmni.

Hare  Nákvæmni er lykilorðið.

Magee  Mælskulist er einnig lykilorð.

Hare  Ég fordæmi ekki mælskulist þar sem hún á heima – ég sjálfur var nú rétt áðan að leyfa mér að viðhafa hana – að því tilskildu að nákvæmnin sé þar líka. Og mælskulist sumra þessara manna er mjög góð. Þeir hafa haft áhrif á söguna á þann hátt sem við rökgreiningar­heimspekingar höfum, því miður, ekki haft – enn þá – nema við teljum með fyrri tíma rökgreiningarheimspekinga eins og Locke og Mill. Ef við förum alveg aftur til Hegels og manna á borð við hann, rómantísku heimspekinganna eins og hin tegundin hefur verið kölluð, þá hafa þeir haft gífurleg áhrif á söguna – til hins verra, að mínum dómi.

Magee  Það er leitt fyrir rökgreiningarheimspeki að hún hefur ekki þessa hæfni til að hafa örvandi áhrif á fjöldann. En það felst kannski í eðli greinarinnar.

Hare  Ég er viss um að svo er vegna þess að til að miðla því sem læra má af rökgreiningarheimspeki verður maður að gera meira en að örva fólk: Maður verður að fá það til að hugsa, en það er langtum óþægilegra.

Magee  Ég held það hafi verið Whitehead sem sagði að við mundum gera næstum hvað sem væri til að komast hjá að hugsa.

Hare  Síðari tíma saga hugmyndaheimsins sýnir þetta mjög svo vel.

Magee  Rétt áðan varstu að tala um nokkur af þeim vandamálum í athafnaheiminum sem þú sjálfur hefur fengist við sem siðfræðingur. Af því sem þú segir mætti ætla að siðfræði sé í grundvallaratriðum blendingsgrein, sambland af viðfangsefnum sem sum varða staðreyndir eða eru reynslubundin og sum sem eru greinandi eða óháð reynslu. Er þetta í raun svona? Og ef svo er gerir það hana ólíka öðrum greinum heimspeki?

Hare  Það held ég ekki. Vissulega er mikilvægt að greina milli þessara tveggja tegunda viðfangsefna. Það sem þú segir minnir mig á hina frægu spurningu Kants í upphafi bókarinnar Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni: „Væri það ekki betra fyrir allan þennan lærða iðnað ef þeir sem eru vanir að útvega, í samræmi við smekk almennings, sambland af hinu reynslu­bundna og röklega í ýmsum hlutföllum sem þeir þekkja ekki einu sinni sjálfir – hinir sjálfskipuðu „skapandi hugsuðir“ andstætt „orðhenglunum“ sem sjá um þann hluta sem er eingöngu röklegur – ef þeir væru varaðir við því að inna af hendi samtímis tvö verk mjög ólík hvað aðferð snertir, og hvort um sig þarfnast kannski sérstaks hæfileika og sameining beggja í einni manneskju býr til eintóma klastrara?“

Magee  Ertu sammála Kant?

Hare  Mér fer að hitna í hamsi alveg eins og honum þegar ég hitti þessa klastrara. En þetta er ekki síðasta orðið hjá honum. Hann heldur áfram og lætur það liggja milli hluta hvort röklegi hlutinn „eigi að vera í höndum allra siðapostula (en til eru herskarar af þeim) eða einungis í höndum þeirra sem hafa köllun til verksins.“ Hann krefst þess aðeins að báðir hlutar sið­fræðinnar séu stranglega aðskildir, og í því efni er ég vissulega sammála honum. Maður verður að vita hvenær hann er að fjalla um annan og hvenær um hinn.

Magee  Þú átt við að maður verði að hafa það á hreinu hvenær hann er að fjalla um rökhæfingar og hvenær um staðreyndir.

Hare  Staðreyndir og efnislegar spurningar almennt, því að sumar efnislegar spurningar – til að mynda siðferðilegar spurningar – snúast ekki eingöngu um staðreyndir heldur um hvað við ættum að gera. En ég er sammála því að báðar verður að greina frá hugtakalegum spurningum eða rökhæfingum hvaða tegund heimspeki sem maður fæst við – þótt siðfræði sé kannski sérstaklega móttækileg fyrir ruglingi af þessu tæi.

Magee  Við skulum nú líta á núverandi ástand greinarinnar. Geturðu sagt eitthvað um hvað siðfræðingar hafa aðallega verið að fást við á undanförnum árum?

Hare  Í siðfræðikenningum hefur aðalspurningin á undanförnum árum snúist um hvort hægt sé að leiða matskenndar niðurstöður af forsendum sem byggjast á staðreyndum. Er hægt að leiða gildi af staðreyndum? Er hægt að fá „ætti“ út úr „er“? Þetta á ekki bara við um rökgreiningar­heimspeki; það liggur til grundvallar deilunum milli tilvistarstefnumanna og andstæðinga þeirra, svo dæmi sé tekið. Þeir setja þó hlutina öðruvísi fram, og vegna skorts á færni í rökgreiningu leyfa þeir sér heilmikla ástæðulausa angist til að losa sig úr vandræðum sínum sem krefst þess að gerður sé nokkur afar mikilvægur og frekar erfiður greinarmunur. En ég held ekki að hægt sé að gera mikið sem kemur að gagni í siðfræði nema maður hafi skilið til hlítar rökin báðum megin við þessa spurningu sem snýst um „er“ og „ætti“.

Magee  Þegar þú spyrð: „Er hægt að fá ‘ætti’ út úr ‘er’?“ þá er þetta svo snúin spurning, og samt svo mikið grundvallaratriði, að þú fyrirgefur mér kannski ef ég reyni að útskýra það dálítið. Viðtekna staðhæfingin er, er það ekki, að engan gildisdóm, siðadóm, stefnu eða ákvörðun leiði nauðsynlega af staðreyndum? Samkvæmt þessari skoðun eru staðreyndir og gildi röklega óháð hvort öðru. Og þetta sjálfstæði er tvíeggjað: Alveg eins og gildi eru óháð staðreyndum þannig eru staðreyndir óháðar gildum, til að mynda forgangskostum okkar. Ég skal koma með dæmi. Það væri gagnstætt því sem við báðir viljum geta trúað ef vísindamönnum tækist að sanna að einhverjir kynþættir séu erfðafræðilega verr gefnir vitsmunalega en aðrir. Það kæmi illa við okkur að uppgötva að þetta væri þannig. En þó, sé það staðreynd er það staðreynd og við verðum að viðurkenna það sem staðreynd og neita því ekki. Enn síður ættum við að reyna að þagga það niður með því til dæmis að koma í veg fyrir að vísindamenn skrifi um það eða haldi um það fyrirlestra. Í stuttu máli, staðreyndir eru óháðar óskum okkar. En samt sem áður mundi enga sérstaka stefnu í félagsmálum leiða nauðsynlega af þessari staðreynd. Sumir kynnu að segja: „Jæja, sé þessi hópur miður gefinn en hinn þarf samfélagið að verja minna af fjármunum sínum til að mennta hann.“ En aðrir gætu með sama rétti sagt: „Þvert á móti, sé þetta fólk fætt með minni greind þarf samfélagið að verja meira af fjármunum sínum til að mennta það.“ Það væri með öðrum orðum algerlega undir fólki komið að hvaða stefnuákvörðun það kæmist í ljósi sömu staðreyndar.

Þessi hugmynd að staðreyndir og gildi séu óháð hvort öðru er grundvallaratriði í menningu okkar sem byggist á vísindum, það mætti jafnvel segja menningu sem vísindin drottna yfir. Samfélagsvísindin hafa líka tekið hugmyndina upp í miklum mæli: Einkum eru félagsfræðingar að reyna að þróa það sem þeir kalla „gildisfrjálsa félagsfræði.“ Hugmyndin hefur jafnvel smitað bókmenntagagnrýni. En samt samþykkja hana ekki allir. Hvorum megin í deilunni ert þú?

Hare  Sömu megin og ég tel þig vera: Ég er þeirrar skoðunar að staðreyndir og gildi séu aðskilin. En auðvitað á ég ekki við með því, eins og sumir hafa skilið það, að staðreyndirnar skipti ekki máli fyrir spurningar um gildi. Þegar við reynum að svara spurningum um gildi, eða ef því er að skipta reyna að ákveða hvað gera skuli, þá erum við að gera upp á milli tveggja eða fleiri raunhæfra valkosta og hvað felst í valkostunum ræðst af staðreyndunum. Það sem ég á við er að, í dæminu sem þú nefnir, sé verið að ákveða hvort ætti að veita fólkinu sem talið er að hafi lakari vitsmunalega hæfileika meiri eða minni menntun þá mun það ráðast af því, er það ekki, hvað verið væri að gera ef þetta eða hitt væri gert, og það ræðst af afleiðingum þess að gera það, svo í raun og veru er verið að velja milli afleiðinganna. Ef ég þá spyr: „Ætti að veita þeim meiri eða ætti að veita þeim minni menntun?“ þá verður að greina orðtökin „veita þeim meira“ og „veita þeim minna“ með skírskotun til fjölmargra staðreynda um afleiðingarnar af því að gera þetta.

Magee  Ákvörðun eða stefna, sem merkir matskenndur forgangskostur, verður því að tengjast hinum raunverulegu aðstæðum eigi hún ekki að vera algerlega fráleit eða handahófskennd?

Hare  Það er rétt, já. Og enginn, mér vitanlega, sem heldur fast fram greinarmuni staðreynda og gilda vill halda því fram að ekki sé hægt að nota staðreyndir á þennan hátt í siðferðilegum röksemdafærslum.

Magee  En það eru til, er ekki svo, heimspekingar sem vilja halda því fram að jafnvel þegar öll kurl eru komin til grafar þá séu staðreyndir og gildi eftir sem áður einhvern veginn blönduð?

Hare  Þeir eru til. Ég held ekki að við höfum tíma til að ræða þetta en leyfist mér að segja að ég hef aldrei séð nein rök fyrir þessari skoðun sem byggðist ekki á hugtakaruglingi.

Magee  Eitt sem sannfærir mig um að það sé rangt er að þeim sem halda því fram að hægt sé að leiða staðhæfingar um gildi af staðhæfingum um staðreyndir hefur aldrei tekist það. Enginn þeirra hefur nokkurn tíma sýnt okkur eitt einasta sannfærandi dæmi.

Hare  Ekki um einfalda skilyrðislausa matskennda ályktun af forsendum um staðreyndir af þeirri gerð sem mundi hjálpa til við að leysa raunhæft vandamál á borð við það sem þú varst að lýsa. Það eru til ályktanir um gildi af staðreyndum eins og þessi: „Allir Grikkir eru menn, svo ef ekki ætti að éta menn þá ætti ekki að éta Grikki“; og þessi: „Jack gerði nákvæmlega það sem Bill gerði og kringumstæður þeirra, skapgerð o.s.frv. voru alveg eins, svo ef setja ætti Bill í fangelsi þá ætti að setja Jack í fangelsi“. Ég hef notað ályktanir af þessari gerð. Það eru einfaldar skilyrðislausar efnislegar ályktanir sem ekki er hægt að draga, þar sem engin ef og þess háttar eru.

Magee  Hverjir eru nokkrir hinna merkari heimspekinga sem eru þér ósammála í þessu efni?

Hare  Ég nefni nokkra sem líklegt er að séu vel þekkt nöfn enda þótt þeir séu reyndar ekki aðalverjendur ályktana um gildi af staðreyndum í fræðilegri heimspeki. Tökum til að mynda John Rawls í Harvard. Hann hefur skrifað bókina A Theory of Justice sem hefur hlotið mjög mikið lof og ég er þess fullviss að hann tilheyrir þeirri hlið þessarar deilu sem er andstæð okkur. Það er að segja hann telur að hægt sé að leiða gildisdóma af staðhæfingum um staðreyndir. En skoðirðu bók hans og spyrð: „Beitir hann nokkurn tíma gildri afleiðslurökfærslu út frá staðreyndum til gilda til að sýna að einhver siðferðileg ályktun sé sönn?“ Ég held ekki að hann geri það. Það sem hann gerir í staðinn er að skírskota til innsæishugmynda og setja fram staðhæfingar sem hann vonast til að við föllumst á; og hér hefur hann talsvert til síns máls því vegna þess hvernig við höfum verið alin upp þá hafa mörg okkar sömu innsæishugmyndir eða fordóma og Rawls. En sem röksemdafærsla hangir hún í rauninni ekki saman.

Magee  Geturðu komið með dæmi um þetta hjá honum?

Hare  Má ég setja málið í sitt víðara samhengi? Hann er aðallega að tala um skiptaréttlæti, og það hafa komið út nokkrar merkisbækur um það efni nýlega, sérstaklega bók Rawls, og einnig bók eftir Robert Nozick, Anarchy, State and Utopia. Hann starfar líka við Harvard og það er undarlegt að tveir menn með svona áþekkan bakgrunn skyldu skrifa bækur sem eru gjörólíkar í pólitísku tilliti. Það sýnir að við getum ekki treyst því að fólk fái sömu innsæishugmyndir. Báðir þessir höfundar höfða til innsæis – til þess sem þeir vona að lesendur þeirra muni fallast á, og samt komast þeir að næstum því andstæðum niðurstöðum – ekki alveg andstæðum af því að alger andstæða við afstöðu Nozicks er afstaða jafnréttissinna en Rawls er ekki alger jafnréttissinni. Jafnréttissinnar segja að gæðum í samfélaginu ætti að dreifa jafnt nema einhver knýjandi nauðsyn sé til þess víkja frá ströngum jöfnuði. Nozick er á þveröfugri skoðun. Hann telur að við eigum sem frjálsir menn rétt á því að skiptast á gæðum (að því tilskildu að við höfum aflað þeirra á réttlátan hátt og skiptin séu réttlát) þar til ef svo vill til að hin vaxandi áhrif allra þessara sanngjörnu skipta leiði af sér gríðarlegan ójöfnuð. Rawls er mitt á milli þessara tveggja viðhorfa; hann telur að réttlátt hagkerfi sé það sem gerir það besta fyrir þá sem eru verst settir. Sé staða þeirra sem eru verst settir eins góð og hún getur verið virðist Rawls vera nokkuð sama hvað verður um hina. Við höfum þá þessi þrjú viðhorf (og ég leyfi mér að segja að ég aðhyllist ekkert þeirra), og hið furðulega er að það virðast ekki vera nein rök af því tæi sem beitt er í bókum þeirra Rawls og Nozicks sem mundu gera út um málið, því allt sem þeir geta gert er að vísa til innsæishugmynda þeirra sjálfra og lesenda þeirra, sem eru breytilegar eftir því hvar maður stendur í stjórnmálum.

Magee  Þetta leiðir til einnar þeirra spurninga sem er mikilvægust allra. Hvernig dæmir maður milli gerólíkra viðhorfa eins og þessara?

Hare  Til að sýna Rawls sanngirni er siðferðilegur hugsunarháttur hans þess eðlis að hann gæti svarað spurningu þinni ef hann vildi beita honum og reiddi sig ekki alltaf á innsæi. Eins og Brian Barry sagði í bók sinni um Rawls er þessi aðferð hans mjög lík minni hvað röklega eiginleika snertir og hefði Rawls bara beitt rökfræðinni sem er undirskilin í aðferð hans og hafnað innsæi þá hefði hann getað gert miklu betur. Ástæðan fyrir því að hann gerði það ekki er sú að hefði hann gert það þá hefði hann endað sem einhvers konar nytjastefnumaður, og hann taldi það verri örlög en dauða. Innsæið sagði honum að hann mætti ekki vera nytjastefnumaður; hann treysti því ekki á rökfræðina, hann treysti á innsæið.

Magee  Þú hefur orðað það skýrt og skilmerkilega að það gengur ekki að byggja siðferðilegt viðhorf á innsæi af því að ólíkar manneskjur hafa ólíkt innsæi – en merkir það að þú hafnir innsæi? Telurðu að við ættum að ýta því til hliðar?

Hare  Nei, alls ekki. Innsæishugmyndir eru mjög mikilvægar en þær eru ekki það eina. Ástæðan fyrir því að þær eru mikilvægar er sú að í flestum siðferðilegum klípum höfum við ekki tíma til að hugsa, og stundum væri hættulegt að hugsa, eins og Hamlet komst að raun um. Þess vegna var það mjög viturlegt af þeim sem ólu okkur upp að innræta okkur vissar tilhneigingar sem gera flest okkar, svo dæmi sé tekið, ákaflega treg til að segja ósatt og mjög fús til að segja, ef einhver annar segir ósatt, að hann hafi gert rangt. Sama á við um grimmd. Standirðu einhvern að því, nú á dögum í þessu landi, að lúberja hund – hvað þá manneskju – segirðu strax að hann sé að gera rangt. Við höfum sem sé verið alin upp með innsæistilfinningu fyrir hvað sé rétt og hvað sé rangt og það er mjög æskilegt að við séum alin upp þannig. Værum við ekki alin upp á þann hátt mundum við hegða okkur miklu verr. Ég er því vissulega hlynntur innsæishugmyndum. En spurningin er: „Hvaða innsæishugmyndum?“ Setjum nú svo, þegar þú ert að ala börnin þín upp, þá spyrjirðu sjálfan þig: „Er rétt að innræta þeim þá innsæishugmynd að menn með sítt hár séu verri en menn með stutt hár?“ eða, á alvarlegri nótum, „Er rétt að innræta þeim að það sé rangt að halda fram hjá?“ Hvernig skerðu úr um þetta? Sértu að velta því fyrir þér hvort innsæishugmyndir þínar séu í raun og veru þær bestu, og ef börn þín eða aðrir vefengja þær, hvað þá? Innsæishyggja – sú skoðun að við vitum með innsæi að siðadómar séu sannir og verði ekki vefengdir – getur ekki svarað þessari spurningu. Við þurfum hærra stig siðferðilegrar hugsunar sem getur gagnrýnt innsæishugmyndir – gagnrýnið stig þar sem við getum tekið ýmsar andstæðar innsæishugmyndir, annaðhvort hjá sömu manneskju eða ólíkum manneskjum, og lagt mat á þær til að kanna hver sé best.

Magee  Hvernig á að framkvæma þessa hærra stigs hugsun? Hafni maður innsæi sem leið til að skera úr milli ósamrýmanlegra röksemda og telji ekki heldur að hægt sé að leiða siðadóma af staðreyndum, hvaða hlutverki gegna þá rökhugsun og skynsamlegar rökfærslur í málefnum sem eru sérstaklega siðferðileg?

Hare  Ég vildi gjarnan, ef ég má, taka þetta í áföngum. Ég held að rökfærsla geti komið að gagni hér – hún getur komið að miklu meira gagni en hún hefur gert hingað til – en við skulum taka fyrsta áfangann. Hann er, eins og ég sagði hér áðan, að rökfræðinni er beitt til að skýra hugtökin sem notuð eru í þessum deilum, eins og hugtakið sanngjarnt eða réttlátt, og til að varpa ljósi á röklega eiginleika þeirra. Annar áfanginn er þessi: Þegar búið er að skýra þessi hugtök verður hægt að greina eina tegund spurningar frá annarri. Allar þessar pólitísku og siðferðilegu spurningar koma til okkar eins og sambland eða blanda af nokkrum ólíkum tegundum spurninga. Í fyrsta lagi höfum við hversdagslegar staðreyndaspurningar um aðstæðurnar sem við erum í og afleiðingar þeirra athafna eða stefnumála sem við eigum kost á. Þar næst koma rökfræðilegu spurningarnar sem ég nefndi rétt áðan um eðli hugtakanna sem verið er að beita – merkingu orðanna – og fólk fer eflaust að tala í kross þegar það skilur þessar spurningar sem spurningar um staðreyndir en það eru þær ekki. Til að mynda í deilunni um fóstureyðingar heldur það að um sé að ræða spurningu um staðreynd á hvaða stigi fóstrið breytist í mannveru. En hér er reyndar um að ræða þrjár spurningar (eða flokka spurninga), ekki eina. Það eru spurningar um staðreyndir í þröngum skilningi – aðallega læknisfræðilegar spurningar um núverandi ástand fóstursins og móður þess og líklega framtíð þeirra sé fóstrinu ekki eytt; og það eru spurningar um hvernig við ætlum að nota orðið „mannvera“; og að lokum, þriðji flokkur spurninga sem ég hef ekki nefnt enn þá, eru spurningar um gildi á borð við „Hvernig ætti að fara með fóstur, sem þannig er lýst, eða mannverur, í hinni mismunandi merkingu orðanna?“ Með því að blanda saman þessum tegundum spurninga snýst fólk í hringi og fer aldrei að kljást við þriðju tegundina sem vitaskuld er sú mikilvægasta. Annað framlag heimspekingsins er að aðskilja allar þessar ólíku spurningar, og þá sjáum við að hægt er að gera út um staðreyndaspurningarnar með aðferðum reynslubundinna rannsókna og ráða fram úr rökfræðilegu og hugtakalegu spurningunum, með aðstoð heimspekilegra rökfræðinga ef þess gerist þörf, með því að ákveða merkingu orðanna, eða ef við viljum breyta merkingu þeirra hvað við ætlum þá að láta þau merkja. Og þá eru eftir spurningarnar um gildi sem kann að vera auðveldara að svara þegar við höfum losað okkur við hinar, vegna þess að við getum loksins séð þær skýrt og aðgreindar frá þessum öðrum tegundum spurninga.

Magee  Hvernig er hægt að beita rökfræði á spurningar sem eru einvörðungu um gildi?

Hare  Þetta er mikilvægasta málið í siðfræði um þessar mundir, eins og það hefur alltaf verið. Þú spyrð mig réttilega hvernig rökfræði geti komið að gagni við að svara hinum mikilvægu spurningum um gildi eftir að þær hafa verið greindar frá hinum, eins og ég hef verið að reyna að gera alla tíð. Fólk hefur snúist í hringi af því að það heldur að hér sé um að ræða ógöngur, en ég held að til sé leið áfram. Skoðanir mínar eru ögn áþekkar skoðunum Kants – þótt ég hiki við að segja þetta af því að ég er aldrei viss um hvað Kant er nákvæmlega að segja; hann er svo óskýr höfundur. En það sem ég vil segja um siðferðishugtökin er að þau hafa tvo eiginleika sem saman nægja til að láta í té rökfræði fyrir siðferðilega röksemdafærslu. Hinn fyrri er sá sem heimspekingar kalla „alhæfanleika“. Þetta þýðir í grófum dráttum að siðadóm sem ég felli um eitthvert mál verður líka að fella um öll mál sem eru nákvæmlega eins. Síðari eiginleikinn kallast „forskriftareðli“. Þetta merkir að hinir miðlægu siðadómar varða athafnir okkar (vitanlega eru aðrir ekki jafn miðlægir siðadómar sem hafa ekki þennan eiginleika.) Ef við trúum þeim þá munum við breyta í samræmi við þá ef við getum. Ég held því fram að þessir tveir formlegu eiginleikar, einir sér, nægi til að láta í té rökfræði sem getur í raun og veru hjálpað til við siðferðilegar röksemdafærslur.

Magee  Þú ert farinn að tala eins og siðfræði, alltént hvað eina hlið hennar varðar, sé grein af meiði rökfræðinnar.

Hare  Ég tel hana vera það. „Ætti“, svo dæmi sé tekið, er háttarhugtak alveg eins og „verða að“ og „geta“. Rökfræðingar eru með tegund rökfræði sem þeir kalla háttarökfræði og fjallar um hugtök á borð við nauðsyn og möguleika; og til er tegund háttarökfræði sem kallast skyldurökfræði og fjallar um það að vera skuldbundinn og það að vera leyfilegt (það er að segja um setningar sem byrja á „Ég ætti að“ og „Það er í lagi að“). Hinn formlegi hluti siðfræðinnar, sem allt annað verður að byggjast á, er einfaldlega skyldurökfræði. Ég er ekki sérfræðingur í formlegri rökfræði en ég lít svo á að ég leggi eitthvað af mörkum til greinarinnar óformlega á minn leikmannshátt.

Magee  Hér áðan lýstirðu þér sem einskonar nytjastefnumanni. Nú talarðu eins og þú sért einskonar kantisti. Eru kantistar og nytjastefnumenn ekki venjulega taldir vera á öndverðum meiði?

Hare  Fylgismenn þessara stefna nú á dögum segja þetta stundum. Það er almennt talið að Kant og Mill, svo dæmi sé tekið, eða Bentham, séu á öndverðum meiði í siðfræði. Það er alrangt. Kant var á móti þeirri tegund nytjastefnu sem hann taldi sig hafa fundið hjá Hume – tegund sem leitast við að byggja siðferði algjörlega á reynslubundnum rannsóknum á tilfinningum manna og gerir lítið úr því sem Kant kallar „hreina röklega hlutann“. Hins vegar taldi Mill að nytjareglan sín væri í samræmi við hið skilyrðislausa skylduboð Kants, túlkuð á þann eina hátt sem gefur henni einhverja merkingu; og það er erfitt að vera ekki sammála honum. Kant var að tala um form siðferðilegrar hugsunar, nytjastefnumennirnir um inntak hennar þar sem staðreyndir heimsins eins og þær birtast okkur hljóta að koma fram. Kannski komst Henry Sidgwick3, mestur hinna klassísku nytjastefnumanna, næst þeirri sameiningu Kants og nytjastefnunnar sem þörf er fyrir og er vissulega möguleg.

Magee  Hvað telurðu vera rétt og hvað telurðu vera rangt í hvoru þessara viðhorfa?

Hare  Ég skal segja þér hvað ég tel mig hafa lært af hvorri þessara hugmyndastefna um sig. Af Kant hef ég lært mikilvægi röklega þáttarins í siðferðilegri hugsun. Við getum ekki án hans verið; við þurfum að kanna rökfræðina. Ég er Kant ekki sammála þegar hann heldur því fram að þessi þáttur geti líka verið efnislegur. Tractatus Wittgensteins sannfærði mig um að efnisleg röksannindi séu hvorki til né nauðsynleg hugsun okkar. Það er að segja, við getum ekki með rökhugsun einni saman komist að efnislegum niðurstöðum, hvort heldur um staðreyndir eða gildi. Rökfræðin sannar þá eiginleika hugtaka sem eru eingöngu formlegir. Viljum við staðreyndir verðum við að rannsaka, og viljum við gildi verðum við að velja. (Hinn sjálfráði vilji Kants er langtum betri og réttari tjáning þessarar hugmyndar en tilfinningar Humes). En hvort heldur við rannsökum eða veljum, jafnskjótt og við reynum að segja hvað við sjáum eða veljum, setur rökgerð hugtakanna okkur skorður. Þetta er kantismi í hnotskurn, eða öllu heldur hógværari útgáfa mín af honum.

Frá nytjastefnumönnum tek ég þá hugmynd að siðferðileg hugsun okkar verði að fara fram í heiminum eins og hann er. Það skiptir máli að fólkið í honum er eins og það er og aðstæður þess eru eins og þær eru. Engar siðareglur sem eiga að vera raunhæfar er hægt að setja saman öðruvísi en með því að sjá hinar raunverulegu afleiðingar þess, í lífinu, að fara eftir þessum reglum.

Magee  Hvernig svararðu hinni venjulegu mótbáru gegn nytjastefnunni að vegna þess að mælikvarði hennar er meiri hamingja sem flestra þá sé hægt að gera skelfilega hluti í hennar nafni? Eftirfarandi ögrun við nytjastefnuna er orðin vel þekkt. Séu tveir sjúklingar á sjúkrahúsi að deyja vegna þess að þá vantar góð nýru og einn vegna þess að hann vantar góðan maga, og hægt væri að bjarga þeim öllum með ígræðslu líffæra, og ef inn í þetta sjúkrahús kæmi fullkomlega heilbrigður maður til að heimsækja einhvern annan veikan ættingja, þá ætti með nytjastefnurökum að sundurlima heilbrigða manninn og skipta líffærum hans milli sjúklinganna – af því að með því móti mundi aðeins einn maður deyja og þrír lifa, en að öðrum kosti mundu þrír deyja og aðeins einn lifa.

Hare  Ja hérna, heimspekingar eru alltaf að búa til falleg dæmi á borð við þetta, en siðareglur verður að finna upp fyrir heiminn eins og hann er. Hugsum okkur bara hverjar yrðu afleiðingarnar í hinum raunverulega heimi ef læknar og aðrir samþykktu þá reglu að það væri í lagi að taka gesti á sjúkrahúsum fasta og stela líffærum þeirra! Þessi fjarstæðukenndu dæmi koma í raun og veru vali á siðareglum ekkert við. Það sem nytjastefnumenn ættu að segja við dæmi af þessu tæi er að reglurnar sem við ættum að innræta okkur til raunhæfra nota – innsæið sem við ættum að leggja rækt við – eru þær sem hafa það sem þeir kalla „mestu viðurkenningar-nytsemi“. Þetta þýðir reglurnar sem er fyrir bestu að séu almennt viðurkenndar í samfélaginu. Þetta á bæði við það sem kallast athafna-nytjastefna og reglu-nytjastefna því að með athöfnum okkar – með því hvernig við lifum eftir reglum okkar – erum við að valda góðum eða vondum afleiðingum og þetta eru afleiðingarnar af því að samþykkja reglurnar sem við förum eftir. Að hafa eða trúa á reglu tengist, bæði röklega og sálrænt, staðföstum vilja til að fara eftir henni. Ég er samþykkur öllu þessu. Ég gæti orðað það með kantískari kenningu minni á þessa leið: „Hugsaðu þér að þú verðir að velja reglur til almennrar upptöku í samfélaginu – eða bara fyrir þig sjálfan – og þú megir ekki velja þær með tilliti til eigin hags; þú verður að velja eins og þú gætir verið þiggjandinn þegar þú og aðrir færu eftir þessum reglum. Hvaða reglur mundirðu þá velja?“ Ég hygg að ef við spyrðum okkur þessarar spurningar þá vissum við hvaða innsæishugmyndir við veldum – að svo miklu leyti sem það er sálrænt séð mögulegt að breyta inngrónum siðareglum manns. Alltént vissum við hvaða siðareglur við mundum reyna að innræta börnum okkar – ef til vill okkur sjálfum.

Magee  Mér skilst að þú sért að segja að við ættum að velja siðareglur okkar, og velja þær innsæishugmyndir sem við reynum að innræta börnum okkar, á grundvelli þess hverjar muni verða afleiðingarnar af því að taka þær upp; og að þannig sé heimur staðreyndanna samofinn vali okkar á siðareglum.

Hare  Það er alveg rétt. Bestu innsæishugmyndirnar eru þær sem best er að hafa og þær sem best er að hafa eru þær sem gera okkur kleift að lifa sem best í samfélagi hvert við annað. En ég skal útskýra fyrir þér hvernig við ættum að framkvæma valið. Séu siðadómar alhæfanlegir – sem sagt, verði maður að fella sömu dóma um tilvik sem eru nákvæmlega eins – þá hentar það reyndar ekki steggnum sem hentar gæsinni – því að þrátt fyrir lögin um mismunun kynjanna kann að vera munur sem skiptir máli á gæsum og steggjum (steggir geta ekki orpið eggjum, svo dæmi sé tekið) – en það sem hentar þessari gæs hlýtur að henta gæs sem er nákvæmlega eins, hver sem hún er, séu kringumstæðurnar eins. Ég verð því að segja við sjálfan mig: „Ef ég ætti að gera þér þetta þá ætti einhver annar að gera mér það í kringumstæðum sem eru nákvæmlega eins.“ Og því verð ég að spyrja sjálfan mig: „Er ég reiðubúinn að fyrirskipa að einhver annar ætti að gera mér það í svipuðum kringumstæðum? Segjum að það væri ég sem ætti að gera það við: vel ég samt að það sé gert?“ Mér virðist þetta vera mjög öflugt tæki í siðferðilegri rökfærslu og það tæki sem stöðugt er verið að nota með góðum árangri. Reyndar væri hægt að draga allar skoðanir mínar um siðferðilega rökfærslu saman í gullnu regluna: „Það sem þú vilt að aðrir geri þér skaltu líka gera þeim.“

Magee  Geturðu gefið okkur raunhæft dæmi?

Hare  Þú átt við dæmi um heimfærslu þeirrar tegundar hugsunar sem ég er að mæla með undir raunhæft málefni? Gott dæmi væri það sem kom sjálfum mér til að leggja stund á siðfræði: deilur friðarsinna og andstæðinga þeirra. Meginrökin með friðarstefnu eru hvernig það er fyrir fólk að verða að þola afleiðingar stríðs. Ein af ástæðunum gegn því, til að mynda, að Bandaríkjamenn háðu stríðið í Víetnam voru hinar skelfilegu þjáningar sem voru afleiðingar þess stríðs. Hafi ríkisstjórn Bandaríkjanna, eða hver annar sem er, búið við reglu sem krefðist þess að svona lagað væri gert þá væri það rök fyrir því að varpa reglunni fyrir róða. Og ég hygg að þeir hefðu horfið frá henni ef þeir hefðu þurft að spyrja sig spurningar eins og þeirrar sem ég spurði rétt áðan: „Er ég reiðubúinn að fyrirskipa slíka reglu hver svo sem staða mín verður á því sviði sem hún gildir?“

Í öðrum tilvikum kynnu að vera mótrök. Tökum dæmi: Enda þótt seinni heimsstyrjöldin hefði í för með sér gríðarlegar þjáningar hefði það sennilega orðið verra fyrir næstum alla, að Þjóðverjum meðtöldum, hefðum við ekki tekið þátt í henni. Alltént var það mín ástæða fyrir að berjast í henni. En maður verður að skoða staðreyndirnar til að ákveða hvaða reglum hann ætti að fylgja. Ég sjálfur mundi ekki taka upp algerlega ósveigjanlegar friðarsinnareglur því að ég tel að afleiðingar þess að allir í minni stöðu (þ.e. stöðu þar sem einhver á borð við Hitler hefur hafið árásarstríð) hefðu slíka reglu yrðu langtum verri en afleiðingar þess að fylgja þeirri reglu sem ég reyndar fylgi og leyfir mér að berjast í tilteknum styrjöldum.

Magee  Við höfum tekið fyrir heilmikið efni í umræðu okkar. Við höfum talað um hlutverk rökfræði í siðferðilegum rökfærslum og hlutverk staðreynda og innsæis og um það hvernig þetta tengist innbyrðis á fremur flókna vegu. Mig langar til að ljúka þessu með því að taka dæmi úr verkum þínum og skoða það í ljósi alls þessa. Í upphafi umræðu okkar vékst þú til að mynda að þeirri spurningu hvað væru „sanngjörn“ laun. Geturðu sagt eitthvað um hvernig þú sem heimspekingur mundir fara að því að rannsaka hugtak eins og þetta?

Hare  Þetta er í rauninni besta dæmið því að það er svo mikið í umræðunni núna og skiptir svo miklu máli og samfélag okkar er, ef til vill, á leiðinni að liðast í sundur vegna skorts á heimspekilegum skilningi á því. Ég tel að heimspekingar geti hjálpað til við þessi vandamál ef fólk hlustaði bara á þá. Við höfum námumennina sem álíta að það sé ósanngjarnt fái þeir ekki hærra kaup fyrir óþægilega vinnu sína. Og við höfum ellilífeyrisþegann sem telur það ósanngjarnt að hann deyi úr kulda vegna þess að verð á eldsneyti hefur hækkað svo mikið. Hvernig fer maður að því að leysa deilur eins og þessar? Að mínum dómi tekur maður til við það með því að spyrja: „Hverjar eru réttlætisreglurnar, reglurnar um sanngjarna skiptingu gæða í samfélaginu sem hefðu, væru þær viðurkenndar, bestu afleiðingarnar þegar á allt er litið fyrir fólkið í því samfélagi?“ Ef við gætum fundið reglur um sanngjörn skipti sem samfélagið almennt gæti fallist á og myndi skipta gæðum á sem bestan hátt fyrir fólkið í þessu samfélagi tekið sem heild, þá værum við laus úr vandræðunum. Ef maður skilur þetta þá er það ekki spurning um að bíta bara í sig einhverja hugmynd um sanngirni sem hann hefur lært, til dæmis, af félögum sínum eða eitthvað sem hann hefur séð í dagblöðunum. En þetta er það sem fólk gerir: það bítur í sig þessi órökstuddu réttindi, þessar hugmyndir um sanngirni sem það gagnrýnir ekki og þetta er ástæðan fyrir því að við lendum í slagsmálum hvert við annað. Ef við, í stað þess að gera það, gætum spurt okkur: „Hvaða hugmynd um sanngirni ættum við að hafa? Hvaða hugmynd væri best fyrir okkur að hafa í samfélagi okkar?“ þá er hugsanlegt að við gætum verið sammála.

Magee  Hvernig framkvæmir þú sem heimspekingur leitina? Hvernig ferðu að því að reyna að finna svarið við spurningum þínum?

Hare  Þegar hér er komið þarf ég kannski að kalla til aðrar fræðigreinar því að staðreyndirnar eru mikilvægar, eins og ég sagði, og ég hef enga sérfræðiþekkingu á þeim. Heimspekingurinn getur aðeins útskýrt spurninguna og sagt: „Þetta er spurningin sem við verðum að snúa okkur að.“ Ég hef kannski hjálpað til með því að setja spurninguna fram á skýrari hátt en hún var sett fram áður. Ég hef útskýrt hvað það er sem þarf að finna – að hverju maður er að leita, og það er verkefni hagfræðinganna, til dæmis, og félagsvísindamanna almennt, að framkvæma leitina að mögulegum lausnum – að reglum sem mundu í hinum raunverulega heimi okkar uppfylla skilyrðin sem ég hef sagt að þær verði að uppfylla. Jafnvel þessir ákaflega færu menn finna stundum ekki lausnirnar vegna þess að þeim er ekki alveg ljóst að hverju þeir eru að leita, og það er þar sem heimspekingurinn getur ef til vill lagt hönd á plóginn.

Magee  Finnst þér stundum sem heimspekingi að fólk á þessum öðrum sviðum – og ég mundi bæta stjórnmálamönnum við – veiti ekki nægilega athygli útskýringu hugtaka, röksemda og málefna sem þú og aðrir heimspekingar geta lagt til?

Hare  Sumir þeirra gera það og sumir ekki. Til eru heimspekilega menntaðir stjórnmálamenn, eins og þú sjálfur, og meðal hagfræðinga er, svo dæmi sé tekið, Amartya Sen sem er líka mjög góður heimspekingur. Heimspekingar (einkum nytjastefnumenn) geta mikið lært af hagfræðingum á borð við hann. Og það væri betra ef enn fleiri góðir heimspekingar tækjust á við þessi málefni og færri slæmir sem útbreiða meiri rugling en skýrleika. Í yfirstandandi umræðum um spurningar af þessu tæi finnur maður orð eins og sanngjarn, réttindi, réttlæti og þvíumlík notuð, jafnvel stundum af heimspekingum, eins og það lægi í augum uppi hvað væri sanngjarnt eða réttlátt – eins og við þyrftum ekki að spyrja okkur hvort innsæishugmyndir okkar sjálfra um sanngirni ætti að draga í efa. En ég held að ef fólk mundi gagnrýna innsæishugmyndir sínar (eða fordóma) um hvað sé sanngjarnt og hvað réttlátt og leitast við að skilja innsæishugmyndir og fordóma annarra þá væru meiri líkur til þess að við gætum orðið sammála.

Magee  Og kjarninn í viðhorfi þínu í heild er að þessi gagnkvæmi skilningur byggist ekki einungis á samhygð eða samkennd heldur einnig á beitingu rökhugsunar á siðferðileg úrlausnarefni.

Hare  Þetta er ágæt samantekt.

                                                                                                                     Gunnar Ragnarsson þýddi

Neðanmálsgreinar

1. Francis Hutcheson (1694–1746) var breskur siðfræðingur, stjórnspekingur og fagurfræðingur. Hafði mikil áhrif á heimspeki Humes, einkum hvað varðar tilfinningalífið.

2. Jeremy Bentham (1748–1832) var enskur lögspekingur og siðfræðingur. Hann var frumkvöðull nytja­stefnunnar og hélt fram svokölluðu „hámarkshamingjulögmáli”. Hann var áhrifamikill umbótasinni í stjórnmálum, félagsmálum og menntamálum og hafði mikil áhrif á John Stuart Mill.

3. Henry Sidgwick (1838–1900) var enskur heimspekingur. Mikilvægasta verk hans er The Methods of Ethics. Almennt er litið á þetta verk sem klassíska framsetningu á hinum ólíku tegundum röksemda í siðfræði.

Immanúel Kant: Heimspekingur upplýsingarinnar

Fyrirlestur til minningar um Kant á 150. ártíð hans1

eftir Karl Popper

Fyrir eitt hundrað og fimmtíu árum andaðist Immanúel Kant og hafði þá alið manninn alla sína ævi, áttatíu ár, í héraðsbænum Königsberg. Árum saman hafði hann verið horfinn heiminum og vinir hans hugðu á jarðarför í kyrrþey. En þessi sonur handverksmanns var jarðsettur eins og konungur. Þegar orðrómurinn um andlát hans breiddist út um bæinn þyrptist fólk að húsi hans og heimtaði að sjá hann. Á útfarardaginn lá lífið í bænum niðri. Líkkistunni fylgdu þúsundir manna meðan klukkur allra kirknanna hringdu. Ekkert svipað þessu hafði nokkru sinni áður gerst í Königsberg, segja annálsritarar.

Erfitt er að skýra þessa furðulegu tilfinningaólgu hjá fólkinu. Stafaði hún eingöngu af orðstír Kants sem mikils heimspekings og góðs manns? Mér virðist að meira hafi búið í henni en þetta, og ég sting upp á að árið 1804, undir einveldisstjórn Friðriks Vilhjálms, hafi þessar klukkur sem voru að hringja fyrir Kant flutt bergmál af amerísku og frönsku byltingunum – af hugmyndunum frá 1776 og 1789. Ég sting upp á að fyrir landa sína hafi Kant verið orðinn holdtekja þessara hugmynda. Þeir komu til að sýna þakklæti sitt málsvara mannréttinda, jafnréttis fyrir lögunum, heimsborgara­réttinda, friðar á jörðu og, það sem er kannski mikilvægast, lausnar úr ánauð með atbeina þekkingar.

I. Kant og upplýsingin

Flestar þessara hugmynda höfðu borist til meginlands Evrópu frá Englandi með bók sem kom út árið 1733, Bréf um ensku þjóðina eftir Voltaire. Í þessari bók ber Voltaire saman sem andstæður enska þingbundna ríkisstjórn og einveldisstjórn á meginlandinu; enskt umburðarlyndi í trúmálum og afstöðu rómversk-kaþólsku kirkjunnar; skýringarmátt heimsfræði Newtons og greinandi raun­hyggju Lockes og kreddufestu Descartes. Bók Voltaires var brennd, en útgáfa hennar markar upphaf heimspekihreyfingar – hreyfingar sem hafði á sér blæ vitsmunalegrar árásarhneigðar sem naut lítils skilnings í Englandi þar sem ekkert tilefni var til hennar.

Sextíu árum eftir dauða Kants var verið að kynna þessar sömu ensku hugmyndir fyrir Englendingum sem „yfirborðslega og hrokafulla vitsmunahyggju“. Og þótt kaldhæðnislegt megi virðast er enska orðið ‘Enlightenment’, sem þá var notað til að nefna hreyfinguna sem Voltaire átti frumkvæði að, enn hrjáð af þessari aukamerkingu grunnhyggni og hroka. Þetta er alltént það sem Oxford English Dictionary segir okkur. Ég þarf varla að bæta því við að engin slík auka­merking er höfð í huga þegar ég nota orðið ‘Enlightenment’.

Kant trúði á upplýsinguna. Hann var síðasti talsmaður hennar sem kvað að. Mér er ljóst að þetta er ekki hin venjulega skoðun. Þótt ég sjái Kant sem verjanda upplýsingarinnar er hann oftar álitinn vera höfundur stefnunnar sem gerði út af við hana – hinnar rómantísku stefnu Fichtes, Schellings og Hegels. Ég fullyrði að þessar tvær túlkanir séu ósamrýmanlegar.

Fichte, og seinna Hegel, reyndi að eigna sér Kant sem höfund stefnu þeirra. En Kant lifði nógu lengi til að vísa á bug linnulausum þreifingum Fichtes sem lýsti sjálfan sig eftirmann Kants og arftaka. Í Opinberri yfirlýsingu varðandi Fichte, sem er of lítið þekkt, skrifaði Kant: „Megi Guð vernda okkur fyrir vinum okkar …. Því til eru óheiðarlegir og svikulir meintir vinir sem eru með áform um að steypa okkur í glötun þótt þeir tali tungu góðs vilja.“ Það var ekki fyrr en að Kant látnum, þegar hann gat ekki lengur mótmælt, sem þessum heimsborgara var þröngvað til þjónustu við hina þjóðrembusinnuðu rómantísku stefnu þrátt fyrir öll varnaðarorð hans gegn rómantík, tilfinningaþrungnum eldmóði og Schwärmerei. En við skulum sjá hvernig Kant sjálfur lýsir upplýsingarhugmyndinni:

Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á . . . getuleysis til að nota eigin skynsemi án handleiðslu annarra. Slíkt ósjálfræði kalla ég ‘sjálfskapað’ ef það stafar ekki af skorti á skynsemi heldur af vöntun á hugrekki og einurð til að nota skynsemi sína án handleiðslu annarra. Sapere aude! Hafðu hugrekki til að nota eigin skynsemi! Þetta eru því kjörorð upplýsingar­innar.2

Kant er hér að segja eitthvað mjög persónulegt. Það er hluti af sögu hans sjálfs. Hann ólst nánast upp í örbirgð, í hinu þröngsýna viðhorfi heittrúarstefnunnar (píetismans) – strangri þýskri útgáfu af hreintrúarstefnu – og var ævi hans saga lausnar úr viðjum með atbeina þekkingar. Á efri árum var hann vanur að líta til baka með hryllingi til þess sem hann kallaði „ánauð bernskunnar“, tímabils ósjálfræðis hans. Vel mætti segja að baráttan fyrir andlegu frelsi væri ríkjandi stef í öllu lífi hans.

II. Hin Newtonska heimspeki Kants

Afgerandi þátt í þessari baráttu átti kenning Newtons sem Voltaire hafði kynnt á meginlandi Evrópu. Heimsfræði Kópenikusar og Newtons örvuðu vitsmunalíf Kants með öflugum og spennandi hætti. Fyrsta merkisrit hans, Kenningin um himnana, ber hinn athyglisverða undirtitil: Ritgerð um gerð og vélrænan uppruna alheimsins, útfært samkvæmt Newtonskum lögmálum. Kenningin er eitt mesta framlag allra tíma til heimsfræði og heimsmyndunarfræði. Hún hefur ekki aðeins að geyma fyrstu framsetninguna á því sem nú kallast ‘Kant–Laplace tilgátan’ um uppruna sólkerfisins heldur einnig, á undan Jeans3, heimfærslu þessarar hug­myndar upp á ‘Vetrarbrautina’ (sem Thomas Wright hafði túlkað sem stjörnukerfi fimm árum áður). En sú staðreynd að Kant auðkenndi stjörnuþokurnar sem ‘Vetrarbrautir’ – fjarlæg stjörnu­kerfi áþekkum okkar – tekur öllu þessu fram.

Það var heimsfræðilegi vandinn, eins og Kant útskýrir í einu af bréfum sínum, sem vísaði honum veginn til þekkingarfræði hans og til Gagnrýni hreinnar skynsemi. Hann var að fást við hið snúna vandamál (sem allir heimsfræðingar verða að glíma við) um endanleika eða óendanleika alheimsins, með tilliti til bæði rúms og tíma. Hvað snertir rúmið hefur Einstein stungið upp á hrífandi lausn í formi heims sem er bæði endanlegur og án takmarka. Þessi lausn heggur þvert í gegnum kantíska hnútinn en hún notar öflugri tæki en þau sem voru tiltæk Kant og samtíðar­mönnum hans. Hvað snertir tímann hefur engin jafn vænleg lausn á erfiðleikum Kants komið fram hingað til.

III. Gagnrýni hreinnar skynsemi og heimsfræðilegi vandinn

Kant segir okkur að hann hafi rekist á aðalvandamál Gagnrýni sinnar þegar hann var að hugleiða hvort alheimurinn ætti sér upphaf í tíma. Hann uppgötvaði sér til skelfingar að hann gat sett fram að því er virtist gildar sannanir fyrir báðum þessum möguleikum. Sannanirnar tvær eru athyglisverðar; það þarf að einbeita sér til að átta sig á þeim, en þær eru ekki langar og ekki torskildar.

Vegna fyrri sönnunarinnar byrjum við með því að greina hugmyndina um óendanlega röð ára (eða daga, eða hvaða annarra jafnra endanlegra tímabila). Slík óendanleg röð ára hlýtur að vera röð sem heldur áfram og áfram og lýkur aldrei. Henni getur aldrei verið lokið: óendanlega mörg ár sem eru liðin eða þeim lokið er augljóslega hugtakaleg mótsögn. Í fyrri sönnuninni leiðir Kant einfaldlega rök að því að heimurinn hljóti að eiga sér upphaf í tíma þar sem að öðrum kosti, á þessari stundu, hlyti óendanlegur fjöldi ára að hafa liðið, en það er ómögulegt. Hér lýkur fyrri sönnuninni.

Vegna síðari sönnunarinnar byrjum við með því að greina hugmyndina um algerlega tóman tíma – tímann áður en heimur var til. Slíkur tómur tími sem alls ekkert er í hlýtur að vera tími þar sem ekkert tímabil hans aðgreinist frá öðru með tímatengslum sínum við hluti eða atburði, úr því að hlutir og atburðir eru einfaldlega alls ekki til. Tökum nú síðasta tímabil hins tóma tíma – tímabilið strax áður en heimurinn byrjar. Ljóst er að þetta tímabil aðgreinist frá öllum fyrri tímabilum fyrst það einkennist af nánum tímatengslum sínum við atburð – upphaf heimsins. Samt er þetta sama tímabil talið vera tómt, sem er augljós hugtakaleg mótsögn. Í síðari sönnuninni leiðir Kant einfaldlega rök að því að heimurinn geti ekki átt sér upphaf í tíma úr því að annars væri tímabil – andartakið strax áður en heimurinn byrjaði – sem er tómt og einkennist samt af tafarlausum tímatengslum sínum við atburð í heiminum, en það er ómögulegt.

Við höfum hér árekstur milli tveggja sannana. Slíkan árekstur kallaði Kant ‘gagnkvæðu’. Ég ætla ekki að angra ykkur með hinum gagnkvæðunum sem Kant uppgötvaði að hann var flæktur í, svo sem um takmörk alheimsins í rúmi.

IV. Rúm og tími

Hvaða lærdóm dró Kant af þessum ruglandi mótsögnum? Hann ályktaði að hugmyndum okkar um rúm og tíma sé ekki unnt að beita á alheiminn sem heild. Við getum auðvitað notað hugmyndirnar um rúm og tíma um venjulega efnislega hluti og efnislega atburði. En rúm og tími sjálf eru hvorki hlutir né atburðir: það er ekki einusinni hægt að fylgjast með þeim, svo erfitt er að henda reiður á þeim. Þau eru einskonar umgjörð um hluti og atburði: eitthvað líkt geymsluhólfa- eða spjaldskrárkerfi fyrir athuganir. Rúm og tími eru ekki hluti af hinum raunverulega reynslu­heimi hluta og atburða heldur réttara sagt hluti af hugrænum búnaði okkar, tækjabúnaði okkar til að ná skilningstökum á þessum heimi. Rétt notkun þeirra er að nota þau sem athugunartæki: þegar við skoðum einhvern atburð staðsetjum við hann venjulega undireins og umhugsunarlaust í röð tíma og rúms. Rúmi og tíma má því lýsa sem viðmiðunarramma sem byggist ekki á reynslunni heldur er notaður beint í reynslunni og réttilega heimfæranlegur upp á reynsluna. Þetta er ástæðan fyrir því að við lendum í vandræðum ef við misbeitum hugmyndunum um rúm og tíma með því að nota þær á sviði sem engin möguleg reynsla nær til – eins og við gerðum í sönnununum tveimur um alheiminn sem heild.

Skoðuninni sem ég var nú að lýsa í stórum dráttum kaus Kant að gefa hið ljóta og tvöfalt villandi nafn ‘forskilvitleg hughyggja’ (‘Transcendental Idealism’). Hann sá brátt eftir þessu vali af því að það kom mönnum til að halda að hann væri hughyggjumaður í þeim skilningi að hann neitaði því að efnislegir hlutir væru raunverulegir: að hann héldi því fram að efnislegir hlutir væru einberar hugmyndir. Kant flýtti sér að útskýra að hann hefði aðeins neitað því að rúm og tími væru reynslubundin og raunveruleg – reynslubundin og raunveruleg í sama skilningi og efnislegir hlutir og atburðir eru reynslubundnir og raunverulegir. En mótmæli hans báru engan árangur. Hinn erfiði stíll hans gerði út um örlög hans: hann átti eftir að verða dáður sem faðir þýskrar hughyggju. Ég tel að það sé orðið tímabært að leiðrétta þetta. Kant hélt því alltaf fram að efnislegir hlutir í rúmi og tíma væru raunverulegir. Og hvað snertir hin taumlausu og torráðnu frumspekilegu heilabrot þýsku hughyggjumannanna var sjálft heitið á Gagnrýni Kants valið til að lýsa yfir gagnrýninni árás á allt slíkt frumspekilegt fimbulfamb. Því að það sem Gagnrýningagnrýnir er hreint rökvit; hún gagnrýnir og ræðst gegn allri rökhugsun um heiminn sem er ‘hrein’ í þeim skilningi að hún sé ósnortin af skynreynslu. Kant réðst gegn hreinu rökviti með því að sýna fram á að hrein rökhugsun um heiminn hljóti ætíð að flækja okkur í þverstæður. Undir örvandi áhrifum frá Hume skrifaði Kant Gagnrýni sína til þess að sanna að takmörk skynreynslunnar séu takmörk allrar skynsamlegrar rökhugsunar um heiminn.

V. Kóperníkusarbylting Kants

Kant styrktist í trúnni á kenningu sína um rúm og tíma sem viðmiðunarramma skynjunarinnar þegar hann fann í henni lykilinn að lausn á öðru vandamáli. Þetta var vandamálið um réttmæti kenningar Newtons, en ásamt öllum samtíma eðlisfræðingum taldi hann hana vera óumdeilanlega sanna og algilda. Honum þótti þó óhugsandi, að þessi nákvæma stærðfræði­kenning væri ekkert nema ályktun af athugunum sem teknar hefðu verið saman. En hvað annað gat verið grundvöllur hennar? Kant nálgaðist þetta vandamál með því að hugleiða fyrst stöðu rúmfræðinnar. Rúmfræði Evklíðs byggist ekki á athugun, sagði hann, heldur á beinni skynjun okkar á rúmtengslum. Newtonsk vísindi eru í svipaðri stöðu. Þótt reynsluathuganir staðfesti þau eru þau ekki ályktun af þessum athugunum heldur af hugsunarhætti okkar, af tilraunum okkar til að koma skipan á skynreyndir okkar, til að skilja þær og vinna vitsmunalega úr þeim. Það eru ekki þessar skynreyndir heldur okkar eigin vitsmunir, skipulag úrvinnslukerfis hugar okkar, sem leiða til kenninga okkar. Náttúran eins og við þekkjum hana, með skipan sinni og lögmálum, er því að miklu leyti afurð úrvinnslu- og skipulagsstarfsemi hugar okkar. Hin eftirtektarverða framsetning Kants á þessari skoðun hljóðar svo: „Vitsmunir okkar draga ekki lögmál sín úr náttúrunni heldur þröngva þeir lögmálum sínum upp á náttúruna.“

Þessi formúla dregur saman hugmynd sem Kant kallar með stolti ‘Kópernikusarbyltingu’ sína. Þegar Kópernikus, eins og Kant orðar það, uppgötvaði að ekki var um neinar framfarir að ræða með kenningunni um himnana sem snerust þá komst hann út úr sjálfheldunni með því að snúa við taflinu, ef svo má segja: Hann gaf sér að það séu ekki himnarnir sem snúist en við áhorfendur séum hins vegar hreyfingarlausir heldur að við áhorfendur snúumst á meðan himnarnir eru hreyfingarlausir. Á svipaðan hátt, segir Kant, ber að leysa vandamálið um vísindalega þekkingu – vandamálið hvernig nákvæm vísindi, eins og til dæmis kenning Newtons, séu möguleg og hvernig hafi eiginlega verið hægt að uppgötva þau. Við verðum að gefa upp á bátinn þá skoðun að við séum óvirkir áhorfendur sem bíðum eftir að náttúran þrykki reglufestu sinni á okkur. Í staðinn verðum við að taka upp þá skoðun að þegar við vinnum úr skynreyndum okkar þá þrykkjum við á virkan hátt skipulagi og lögmálum vitsmuna okkar á þær. Heimur okkar ber merki huga okkar.

Með því að leggja áherslu á hlutverk áhorfandans, rannsakandans, kenningasmiðsins, hafði Kant varanleg mótandi áhrif ekki aðeins á heimspeki heldur einnig á eðlisfræði og heimsfræði. Það er kantískt andrúmsloft hugsunar sem kenninga Einsteins og Bohrs eru vart hugsanlegar án; og segja mætti að Eddington4 væri kantískari, að sumu leyti, en Kant sjálfur. Jafnvel þeir sem, eins og ég sjálfur, geta ekki fylgt Kant alla leið geta fallist á þá skoðun hans að tilrauna­maðurinn megi ekki bíða þangað til náttúrunni þóknast að leiða leyndardóma sína í ljós heldur verði hann að spyrja hana. Hann verður að þaulspyrja náttúruna í ljósi efasemda sinna, ágiskana, kenninga, hugmynda og andríkis. Hér er, hygg ég, um að ræða dásamlega heimspeki­lega uppgötvun. Hún gerir kleift að líta á vísindin, hvort heldur kennileg vísindi eða tilraunavísindi, sem mannlegt sköpunarverk og að líta á sögu þeirra sem hluta af hugmyndasögunni, á borð við sögu listar eða bókmennta.

Það er önnur og enn áhugaverðari merking innbyggð í útgáfu Kants af Kópernikusarbyltingunni, merking sem kann ef til vill að benda til tvíbendni í afstöðu hans til hennar. Því að Kópernikusar­bylting Kants leysir mannlegt vandamál sem bylting Kópernikusar olli. Kópernikus svipti manninn þeirri miðlægu stöðu sem hann áður naut í efnisheiminum. Kópernikusarbylting Kants dregur broddinn úr þessu. Hann sýnir okkur ekki aðeins að staðsetning okkar í efnisheiminum skiptir ekki máli heldur einnig að í vissum skilningi megi vel segja að heimur okkar snúist um okkur, því það erum við sem búum til, alltént að hluta, skipulagið sem við finnum í honum; það erum við sem sköpum þekkingu okkar á honum. Við eru uppgötvarar: og uppgötvun er skapandi list.

VI. Sjálfræðiskenningin

Frá heimsfræðingnum, heimspekingi þekkingar og vísinda, sný ég mér nú að siðfræðingnum Kant. Ég veit ekki hvort því hefur verið veitt eftirtekt áður að grunnhugmyndin í siðfræði Kants jafngildir annarri Kópernikusarbyltingu, hliðstæðri að öllu leyti þeirri sem ég hef lýst. Því að Kant gerir manninn að löggjafa siðferðisins alveg eins og hann gerir hann að löggjafa náttúrunnar. Og með því að gera það gefur hann manninum aftur miðlæga stöðu hans bæði í siðferðisheimi hans og efnisheimi. Kant gerði siðfræðina mannlega eins og hann hafði gert vísindin mannleg.

Kópernikusarbylting Kants á sviði siðfræðinnar felst í kenningu hans um sjálfræði – þeirri kenningu að við getum ekki samþykkt skipun yfirvalds, hversu upphafið sem það er, sem hinn endanlega grundvöll siðfræðinnar. Því hvenær sem við stöndum frammi fyrir skipun frá yfirvaldi þá er það á okkar ábyrgð að dæma hvort þessi skipun er siðleg eða siðlaus. Yfirvaldið kann að hafa afl til að framfylgja skipunum sínum og okkur kann að skorta afl til veita viðnám. En nema því aðeins að okkur sé líkamlega aftrað að velja er ábyrgðin okkar. Það er ákvörðun okkar hvort við hlýðum skipun, hvort við viðurkennum ákveðið yfirvald.

Kant fer djarflega með þessa byltingu inn á svið trúarinnar. Hér er eftirtektarverður kafli:

Svo mjög sem orð mín kunna að gera ykkur bilt við megið þið ekki áfellast mig fyrir að segja: Hver maður skapar sinn Guð. Frá siðferðilegu sjónarmiði . . . verður þú jafnvel að skapa Guð þinn til þess að tilbiðja í honum skapara þinn. Því hvernig svo sem . . . Guð yrði kynntur fyrir þér og jafnvel . . . þótt hann opinberaðist þér: það ert þú . . . sem hlýtur að dæma hvort þér leyfist [af samvisku þinni] að trúa á hann og tilbiðja hann.5

Siðfræðikenning Kants einskorðast ekki við þá staðhæfingu að samviska manns sé siðferðilegt kennivald hans. Hann reynir einnig að segja okkur hvers samviska okkar kann að krefjast af okkur. Það, þ.e. siðalögmálið, setur hann fram á ýmsa vegu. Ein framsetningin er svona: „Lítið ætíð á hvern mann sem markmið í sjálfum sér og notið hann aldrei eingöngu sem tæki í ykkar þágu.“ Andann í siðfræði Kants má vel draga saman með þessum orðum: Þorið að vera frjáls og virðið frelsi annarra.

Á grundvelli þessarar siðfræði reisti Kant hina stórmerku kenningu sína um ríkið og kenningu sína um alþjóðalög. Hann krafðist þjóðabandalags eða ríkjasambands sem endanlega átti að lýsa yfir og viðhalda eilífum friði á jörðu.

Ég hef reynt að rissa upp í stórum dráttum heimspeki Kants um manninn og heim hans og tvö helstu innblástursöfl hennar – Newtonska heimsfræði og siðfræði frelsisins, innblástursöflin tvö sem Kant vísaði til þegar hann talaði um stjörnuhimnana uppi yfir okkur og siðalögmálið innra með okkur.

Ef við stígum lengra til baka til að fá enn fjarlægari sýn á sögulegt hlutverk Kants getum við borið hann saman við Sókrates. Báðir voru sakaðir um að rangfæra ríkistrúna og spilla hugum unga fólksins. Báðir neituðu ásökuninni, og báðir vörðu hugsunarfrelsið. Frelsi þýddi meira fyrir þá en það að vera laus við þvingun; fyrir þá báða var það lífsmáti.

Af varnarræðu Sókratesar og dauða hans spratt ný hugmynd um frjálsan mann: hugmyndin um mann sem býr yfir ósigrandi anda, um mann sem er frjáls af því að hann er sjálfum sér nógur, og sem þarf ekki að leggja hömlur á af því að hann er fær um að stjórna sér sjálfur og fallast af frjálsum vilja á stjórn laganna (réttarríkið).

Þessari sókratísku hugmynd um að vera sjálfum sér nógur, sem er hluti af hinum vestræna arfi okkar, hefur Kant gefið nýja merkingu bæði á sviði þekkingar og siðferðis. Og hann hefur ennfremur bætt við hana hugmyndinni um samfélag frjálsra manna – allra manna. Því hann hefur sýnt að hver maður er frjáls, ekki vegna þess að hann sé fæddur frjáls, heldur vegna þess að hann er fæddur með þá byrði að bera ábyrgð á frjálsri ákvörðun.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Upphaflega útvarpserindi. Textinn er prentaður í Conjectures and Refutations (7.kafli) og In Search of a Better World (9. kafli). – Öllum neðanmálsgreinum sleppt. – Þýð.

2. Kant skrifaði ritgerðina ‘Hvað er upplýsing?’ árið 1784. Hún er prentuð í Skírni (hausthefti 1993) í íslenskri þýðingu Elnu Katrínar Jónsdóttur og Önnu Þorsteinsdóttur. – Í þessari upphafsgrein ritgerðarinnar nota þýðendur einu sinni orðið ‘rökvit’ og þrisvar ‘hyggjuvit’ sem þýðingu á þýska orðinu ‘Verstand’. Ég nota hér ‘skynsemi’ og Popper, sem skrifar þetta á ensku,‘intelligence’. Seinna í ritg. notar Kant oftar ‘Vernunft’ en ‘Verstand’. – Þýð.

3. Sir James Hopwood Jeans (1877–1946), enskur eðlis- og stjörnufræðingur. – Þýð.

4. Sir Arthur Stanley Eddington (1882–1944), enskur stjörnu- og eðlisfræðingur. – Þýð.

5. Úr Religion within the Limits of Pure Reason (2. útg. 1794). – Þýð.

 

« Til baka

Kant og Rawls um þjóðarrétt

eftir Þorstein Gylfason

§1 Kant

Þjóðaréttur varðar ýmis efni: til dæmis mengun, mannréttindi, landhelgi og annan hafrétt, höfundarétt og annan einkaleyfarétt. Þjóðaréttur í okkar skilningi varð fyrst til á 17du öld í Evrópu, að hluta til upp úr margvíslegu erfðagóssi úr Rómaveldi, kaþólsku kirkjunni og keisaradæmi Karlamagnúsar, og birtist bæði í ritum lærdómsmanna eins og Hugos Grotius og sáttmálum konunga sem þeir gerðu með sér í Westfalen 1648. Þá og lengi síðan snerist þessi réttur mest um stríð og frið. Hann setti reglur um styrjaldir, og honum var ætlað að tryggja frið.

Sumir segja að hin gamla þjóðréttarhefð rísi hvergi hærra en í fáeinum smáritum Kants, einkum bæklingi hans Að eilífum friði frá 1795. 1 Um þær mundir var stríðsferill Napóleóns að hefjast svo að ekki báru skrif Kants mikinn ávöxt fyrst í stað. Kant trúði því að lýðveldi væru friðsamlegri en einveldi, og því þyrftu öll ríki að gerast lýðveldi (og þar með réttarríki) ef von ætti að vera um frið í heiminum. Eitt meinið er að Napóleón hófst til vegs í lýðveldi.

En ýmsir hrósa Kant fyrir að hafa séð lengra fram í tímann, og hafa þá í huga uppskrift hans að lýðveldum sem geri með sér þjóðabandalag sem aftur setji alþjóðalög. Þetta er uppskriftin sem þjóðir heims hafa reynt að matbúa á tuttugustu öld, einkum eftir 1945. Kant var síðasti talsmaður hinnar gömlu þjóðréttarhefðar 17du og 18du aldar. Hann var líka fyrsti hugmyndasmiður Þjóðabandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Hugmyndir hans lifa á þeim vettvangi ekki síður en í ritum Rawls. Þær lifa reyndar líka í ritum svonefndra heimsborgara sem eru andstæðingar Rawls á okkar dögum og hann þeirra.

Þess má geta að bæklingur Kants hét Að eilífum friði í höfuðið á hollenzkri krá sem hann hafði spurnir af: Zum ewigen Frieden hét hún. Á skiltinu úti yfir dyrunum, segir Kant, stóð nafnið ásamt málaðri mynd af kirkjugarði. Hann segist láta liggja á milli hluta hvort spaug veitingamannsins gildi fyrir mannkynið allt, stríðsglaða konunga, eða fyrir heimspekinga með hugsjónir.

§2 Rawls

Þjóðaréttur (The Law of Peoples) eftir John Rawls, sem út kom fyrir fimm árum hjá Harvard University Press,2 er í öllum meginatriðum sniðinn eftir Að eilífum friði.

Bækur þeirra Kants og Rawls eru býsna líkar um sum einstök atriði. Báðir leggja mikið kapp á skilgreiningar, stundum sérvizkulegar. Báðir trúa því að sómasamleg ríki–lýðveldi hjá Kant, „frjálslynd lýðræðisríki“ hjá Rawls–fari ekki í stríð hvert við annað. Kant rökstyður þetta á sinn hátt, út frá hugmyndaheimi frjálsra þegna í lýðveldum. Hjá Rawls verður þetta söguleg tilgáta sem hann sækir reyndar til annarra fræðimanna samtímans: „the democratic peace hypothesis“. Tilgátan kallar á að ýmis hernaður Bandaríkjamanna í rómönsku Ameríku (Chile, Guatemala) sé hafður til marks um að ríkin sem þar eigast við séu ekki réttnefnd lýðræðisríki. Kannski var fyrsta franska lýðveldið ekki alvörulýðveldi heldur. Hvað hefði Kant sagt um Napóleón?

Auðvitað er margvíslegur munur á bókunum. Til dæmis eru frumreglur alþjóðalaga átta hjá Rawls, en aðeins þrjár hjá Kant. (Ein af reglum Rawls kveður á um aðstoð við þjóðir í neyð. Hjá Kant er engin slík regla.) Kant bindur þjóðabandalagið við lýðveldi, eins og ég sagði, sem eru sjálfkrafa réttarríki.3 Rawls lætur bandalagið ná jafnt til „frjálslyndra lýðræðisríkja“ sem til „þokkalegra þjóðfélaga“ („decent societies“) og hefur þá einkum í huga ýmis þjóðfélög múslima á okkar dögum sem ekki búa við lýðræði. Fyrir tuttugu árum hefði hann kannski heldur tekið dæmi af ríkjunum austan tjalds. Þau voru ekki lýðræðisríki, en fullgildir aðiljar að samvinnu og sátt­málum þjóðanna, jafnvel mannréttindayfirlýsingum, svo að ekki sé nú minnzt á viðskipti. Þokkaleg þjóðfélög.

Ein breyting enn varðar réttlætingu frumreglnanna sem eiga að tryggja friðinn. Réttlæting Kants snýst einkum um lýðveldi sem hann kallar svo, og réttlæting lýðvelda styðst á endanum við siða­lögmál hans. Sá leikur þarf ekki að koma á óvart vegna þess að siðfræði Kants var að sumu leyti sniðin til að réttlæta þegnréttarkröfur frönsku byltingarinnar. Um þessa siðfræði og hlutverk hennar í stjórnarfarshugmyndum um lýðveldi og heimsborgaralegum hugmyndum um stríð og frið ætla ég ekki að segja neitt. Þess má geta að það er jafnvel umdeilanlegt hvort Kant tekst að réttlæta siðferðið á grundvelli siðalögmála sinna, og má þá nærri geta að vandinn verður ekki minni um lýðveldin og friðinn.4

Réttlæting Rawls er ekki siðfræðileg heldur stjórnfræðileg. Hún er sáttmálakenning af því tæi sem Rawls hafði áður sett fram, svo að frægt er, um þjóðfélagslegt réttlæti í einu samfélagi. Kant tilheyrði eins og Rawls sáttmálahefðinni í stjórnspeki Vesturlanda, og er einn af máttugustu höfundum hennar frá fyrri tíð. En þær hugmyndir hans koma ekki fyrir í Að eilífum friði nema rétt í svip í greinargerð hans fyrir lýðveldum.

Rýnum nú í hina stjórnfræðilegu réttlætingu Rawls á þjóðarétti. Hugmynd hans er sú að þjóða­réttur sé ekki aðeins reistur á sáttmála eða sáttmálum í þeim skilningi að sáttmála þurfi til að koma honum á, sem kann að vera óumdeilanlegt, heldur líka í hinum að þessi réttur réttlætist af sáttmála. „Rýnum í þetta,“ segi ég, en það eru raunar allt of stórt orð yfir það litla sem ég hef tóm til að segja. Kannski ætti ég heldur að segjast ætla að viðra ofurlítið hugboð um afarmikið efni.

Byrjum á dæmi frá líðandi stund, og segjum fáeina sjálfsagða hluti um það.

§3 Heimssakadómur

Nýlega tók til starfa Heimssakadómur (Hinn alþjóðlegi sakamáladómstóll), og munu um níutíu þjóðir hafa fullgilt sáttmálann um hann.5 (Það þurfti sextíu til að hann kæmist á laggirnar.) Honum er ætlað að taka við hlutverki einnota dómstóla eins og í Nürnberg og Tokyo eftir 1945, eða í Arusha og Haag á síðustu árum út af Rúanda og Júgóslavíu. Heimsdómurinn fjallar um glæpi gegn mannkyni, fjöldamorð og stríðsglæpi ef þeir verða ekki að sakamálum heima fyrir.

Það voru ekki sízt Bandaríkjamenn sem áttu upptökin að þessum dómstól, en þeir hafa ekki viljað staðfesta sáttmálann um hann í fjögur ár og eiga því ekki aðild að honum. Það hafa jafnvel heyrzt raddir vestra um að Bandaríkin ættu að réttu lagi að ná sér niðri á þeim þjóðum sem að honum standa.6 Beinasta tilefnið til að Bandaríkin misstu áhuga á dómstólnum var að þeim tókst ekki að fá því ráðið að fastafulltúar í öryggisráðinu–stórveldin–hefðu neitunarvald um málsóknir. Rökin gegn dómstólnum snúast þó mest um fullveldi ríkja–slíkur dómstóll dregur óneitanlega úr því–og síðan um hugsanlegar málsóknir af annarlegum hvötum. Bæði Kínverjar og Indverjar hafa neitað að fallast á Rómarsáttmálann um dóminn með svipuðum rökum.

Svona verða alþjóðlegir sáttmálar til. Auðvitað líka með hvers kyns málamiðlunum hér og þar ef út í það væri farið. Og jafnvel með uppgjöf á sumum sviðum. Heimssakadómur fjallar ekki um árásarstríð og ekki um hryðjuverk. Ástæðan er sögð vera sú að höfundum sáttmálans tókst ekki með neinu móti að koma sér saman um skilgreiningar á árásarstríði og hryðjuverki.

Sáttmáli um heimssakadóm er bæði skýring á því og réttlæting þess að við reynum að forðast þau verk sem hann mundi sakfella okkur fyrir, og virðum dóma hans hvort sem þeir varða okkur sjálf eða aðra. Hér kann endanlega réttlætingin að vera ósköp einfaldlega: þetta hefur orðið að samkomulagi. En Rawls er ekki að hugsa um þessi atvik, heldur um réttlætingu þjóðaréttar áður en hann er settur.

Einhver kynni að vísa til annars samkomulags sem búi að baki samkomulagi eins og því sem birtist í Rómarsáttmálanum um Heimssakadóm. Til dæmis er stundum sagt að Mannréttinda­dómstóll Evrópu hafi heppnazt jafn vel og raun ber vitni vegna þess að almennt samkomulag sé meðal þjóðanna sem að honum standa um frumatriði stjórnarfars og réttarfars. Gott og vel, þetta kann að vera skýring á því að Mannréttindadómstóllinn komst á, eða á hinu að dómar hans eru virtir í ríkjum Evrópu.

En þetta samkomulag að baki mannréttindasáttmálanum er að sjálfsögðu ekki réttlæting á ákvæðum hans. Pyndingar eða skoðanakúgun eru ekki glæpsamlegar vegna þess að þjóðir Evrópu hafa orðið ásáttar um að telja þær það. Þær eru bersýnilega glæpsamlegar af allt öðrum ástæðum: vegna þjáninga sem þær valda, eða ranglætis sem birtist í þeim. Eins liggur í augum uppi að slíkt samkomulag er ekki réttlæting fordæmingar okkar á þjóðamorðum, stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni.

Það breytir að sjálfsögðu engu um glæpsamlegt eðli árásarstríða og hryðjuverka að ekki tókst að ná samkomulagi um að telja þau til glæpa eftir Rómarsáttmálanum.

§4 Réttlæting af samkomulagi

Stundum virðist sáttmáli geta réttlætt ákvæði sín. Í Kenningu um réttlæti beitir Rawls sáttmála­hugmynd í því skyni að réttlæta jafnaðarreglu um lífskjör í einu þjóðfélagi. Hér er ágrip af henni.

Segjum að tveir hópar séu í samfélagi, hæfileikafólk og hæfileikalaust. Kjör þeirra verða óhjákvæmilega ójöfn. Þá getur virzt sanngjarnt að jafna þau í nafni þeirrar hversdagslegu hugsunar að munur á náttúrlegum hæfileikum, eða forréttindi sem fólk er fætt til, sé óverð­skuldaður mannamunur. Því sé sanngjarnt að bæta þeim það upp sem fara illa út úr því happ­drætti. Hér er ekki vísað til neins sáttmála.

En við getum líka nálgast efnið á annan hátt, og þá kemur sáttmáli við sögu. Skipuleg samvinna hópanna er bersýnilega skilyrði þess að hvor þeirra um sig, og báðir saman, lifi bærilegu lífi í einu samfélagi. Hvor um sig þarf á hinum að halda. En við getum ekki ætlast til að allir taki þátt í þessari samvinnu nema skilmálarnir séu sanngjarnir. Af þessum ástæðum ætti hæfileikafólkið, ef það er skynsamt, að sætta sig við að allt sem það ber úr býtum umfram hina afskiptu ráðist af einum saman hag hinna afskiptu af þeim ójöfnuði.7

Hvernig réttlætir þetta jafnaðarregluna? Mér virðist svarið velta á þeirri hugsun Rawls að hvor hópurinn um sig þarf á hinum að halda. Þörf er sjálfkrafa ástæða til breytni, og ástæða til breytni er réttlæting þeirrar breytni. Samkomulagið ræðst af þessari þörf og þess vegna getum við litið á það sem réttlætingu reglunnar.

§5 Þjóðréttarsáttmálinn

Eitt meinið við sáttmálann sem þjóðaréttur á að vera reistur á er að þar er engin hliðstæða við þá hugsun að þegnar samfélags þurfi hver á öðrum að halda. Þvert á móti gengur Rawls að því vísu í Þjóðarétti, eins og gert var í þjóðréttarhefðinni allt frá 17du öld, að aðilarnir að slíkum sáttmála séu fullvalda ríki og í höfuðatriðum sjálfum sér næg. (Margir heimsborgarar hafa talið þetta sýna að hugmyndir Rawls séu rammlega úreltar í ljósi svonefndrar hnattvæðingar.8) Sáttmálarnir tveir, hinn þjóðlegi og hinn alþjóðlegi, eru þá ekki sambærilegir.

Alþjóðlegi sáttmálinn hjá Rawls réttlætir ekkert. Það væri nær að líta á hann sem framsetningar­máta á viðteknum hugmyndum um þjóðarétt. Rawls virðist raunar leggja mikið upp úr því í athugunum sínum á alþjóðalögum, bæði í Kenningu um réttlæti og í Þjóðarétti, að kenningar sínar réttlæti viðtekinn þjóðarétt, og meira að segja viðtekinn lágmarksþjóðarétt, til að mynda lágmarksmannréttindi og lágmarksaðstoð við þjóðir í nauðum, öðrum þræði í nafni raunsæis. Sáttmálahugmyndin þjónar þá þeim tilgangi í framsetningunni að draga fram hlutleysi réttarins. Það verður höfuðprýði hans.

En Rawls tekst ekki að réttlæta þennan rétt. Mundi Kant farnast betur?

 

Tilvísanir

1. Immanuel Kant: Zum ewigen Frieden: Ein philosophischer Entwurf í Immanuel Kants Werke (Ernst Cassirer) VI (Schriften von 1790-1796), Verlegt bei Bruno Cassirer, Berlin 1914, 425-474.

2. John Rawls: The Law of Peopes with the Idea of Public Reason Revisited, Harvard University Press, Cam­bridge, Massachusetts 1999.

3. Fólk greinir á um hvort lýðveldi Kants séu jafngildi þess sem við köllum lýðræðisríki á okkar dögum. Ég held við vitum jafnvel minna um hvað við köllum lýðræðisríki á síðustu tímum en hvað Kant kallaði lýðveldi, þótt það hafi verið annað en það sem við köllum því nafni.

4. Ég vísa forvitnum á framúrskarandi rökræðu Loga Gunnarssonar um þessi efni í bókinni Making Moral Sense, Cambridge University Press, Cambridge 2000.

5. Að sögn skrifstofu Amnesty International í Reykjavík í síma 21sta október 2004. Sjá líka fróðleik á Netinu.

6. Um þetta og fleira í þessum kafla styðst ég við Chris Brown: Sovereignty, Rights and Justice: International Political Theory Today, Polity Press, Cambridge 2002. Sjá einkum 216-223.

7. John Rawls: A Theory of Justice, endurskoðuð útgáfa, Harvard University Press, Cambridge, Massa­chusetts 1999, §17, 86-89.

8. Sjá Alan Buchanan: „Rawls’s Law of Peoples: Rules for a Vanished Westphalian World“ í Ethics CX, 2000, 697-721.

 

« Til baka

Smíðisgripir Rawls og Kants

eftir Vilhjálm Árnason

Viðbragð við erindi Halldórs Guðjónssonar, „Gagnrýni opinberrar skynsemi“ á vegum Siðfræðistofnunar Háskóla íslands, Odda 101, 13. maí 1997.

Ég vil byrja á því að þakka Halldóri fyrir athyglisverðan fyrirlestur og Siðfræðistofnun fyrir að standa fyrir þessari samræðu.

Viðbrögð mín við fyrirlestrinum hnitast um einn meginpunkt sem Halldór nefndi í upphafi síns máls. Hann hefur þar eftir Rawls að kennisetningar þeirra Kants beggja séu smíðisgripir fremur en fundnir dýrgripir. Halldór gerir þetta réttilega að nokkru lykilatriði í sinni umfjöllun og í samanburði á þeim félögum Rawls og Kant. Mig langar til að leggja út af þessum punkti í viðbrögðum mínum hér og þá fremur til þess að hugsa áfram með Halldóri en gegn honum, þótt ég merki vissulega ákveðinn túlkunarágreining milli okkar um þetta efni.

Svo að ég hefji máls á þeim ágreiningi þá virðist mér hann liggja einkum í því að mér sýnist Halldór ganga of langt í því að telja þessa smíðisgripi „hugsmíðar einar og ekki neinn raunveruleika“, eins og hann kemst að orði á einum stað. Ég tek undir þessi orð Halldórs að því er varðar upphafsstöðuna og hið vel skipulagða samfélag í kenningu Rawls. Við finnum okkur aldrei í upphafsstöðunni né munum við ná að byggja hið vel skipulagða samfélag. Ágreiningurinn er fremur um stöðu kennisetninganna gagnvart raunveruleikanum ef svo má segja. Hér skiptir það meginmáli sem Halldór segir síðar í fyrirlestrinum að „kenningin öll er í huga Rawls vörn fyrir þá stjórnskipan og stjórnarhætti sem hann telur einkenna Vesturlönd og sögu þeirra á seinustu öldum“. Að mínu mati er þetta lykilatriði til skilnings á Rawls. En þá er það spurning hvaða skilning eigi að leggja í þau orð Halldórs að upphafsstaðan sé „uppspretta kennisetninganna“. Mér virðist að þessu sé eiginlega öfugt farið. Rawls hannar upphafsstöðuna sem leið til þess að gera skýra grein fyrir lykilhugmyndum þess siðferðilega og pólitíska veruleika sem vestrænt lýðræðissamfélag er. Þannig fer hann raunar að því „að verja og réttlæta“ – orð sem Halldór notar – þann stjórnmálaheim sem mótazt hefur sögulega í okkar heimshluta. En það mætti raunar líka orða þessa hugsun þannig að upphafsstaðan sé leið til að draga samkvæmar ályktanir af þeim hugmyndum sem stjórnmálaheimur okkar réttlætir sig með og hægt er að snúa gegn honum sjálfum. Þá eru þetta líka gagnrýnar viðmiðunarhugmyndir í skilningi Kants.

Höfuðatriðið í minni túlkun á Rawls, andspænis a.m.k. orðalagi Halldórs, er að ég lít ekki á kennisetningar hans sem smíðisgripi í þeim skilningi að þær séu einberar hugsmíðar sem hafa lítið með raunveruleikann að gera, heldur tel ég þær vera smíðisgripi í þeim skilningi að þær séu líkan sem draga fram þær hugmyndir um réttlæti sem liggja leynt og ljóst í lýðræðismenningunni eða því sem Rawls kallar „the public culture of a democratic society“.1 Í því samhengi segir hann orðrétt (í lauslegri þýðingu minni): „grundvallarinnsæið (fundamental intuitive idea) sem nær yfir allar mínar hugmyndir og þær eru kerfisbundið byggðar í kringum, er um samfélagið sem sanngjarna skipan á samvinnu milli frjálsra jafningja. Réttlæti sem sanngirni á rætur sínar í þessari hugmynd sem einum þeirra grunnþátta er felast í lýðræðismenningunni“.2 Efnið í smíðisgripinn er því fundinn dýrgripur í þeim skilningi að hann er sögulegur fjársjóður sem felst í sjálfum innviðum stjórnskipunar okkar. Upphafsstaðan og hið vel skipulagða samfélag eru síðan leiðir Rawls til að draga sjálfum sér samkvæmar og hugsanlega róttækar ályktanir af þessum hugmyndum.

Samkvæmt þessum lestri á Rawls eru innsæisrökin, ef svo má nefna þessa hugsun, meginrökin í kenningu hans og sáttmálarökin aðeins til útfærslu eða uppfyllingar á þeim.3 Þegar kenningin er skoðuð undir þessu sjónarhorni, þá dregur mjög úr frelsi þess eða þeirra sem eiga að hanna smíðisgripinn. Það gildir raunar um öll fræðileg líkön að þau eru endursmíð (rekonstruktion) þess sem leynist í veruleikanum sjálfum og draga það fram í hreinni mynd – ekki hugsmíðar (konstruktionir) sem hafa ekkert með raunveruleikann að gera. En nú kynnu menn að spyrja: Hvað verður um samningshugmyndina ef Rawls lætur sáttargjörðarmenn einungis sammælast um hugmyndir sem leynast þegar í lýðræðismenningunni? Til að svara því mætti rifja upp spurningu sem miðaldamenn veltu fyrir sér: Er athöfn rétt vegna þess að hún samrýmist vilja Guðs eða er hún Guði þóknanleg vegna þess að hún er rétt? Fyrri kosturinn leggur áherzlu á vilja Guðs sem hann hyggst fá framgengt meðal manna; síðari kosturinn leggur áherzlu á að rökin fyrir réttmæti athafna eru sjálfstæð gagnvart vilja Guðs en algóður vilji hans sé fólginn í því að lúta ávallt þeim rökum. Mér sýnist að þetta megi heimfæra á sáttargjörðarmenn undir fávísisfeldi. Lögmálin sem þeir komast að eru ekki réttlát vegna þess að þeir hafi ákveðið þau – þau séu þeirra smíðisgripir – heldur komast þeir að þessum niðurstöðum vegna þess að þeir sjá það óvenjuskýrt í hverju réttlætið er fólgið. Innsæi þeirra í þær hugmyndir sem búa í innviðum lýðræðislegrar stjórnskipanar er ótruflað af sérhagsmunagæzlu okkar dauðlegra manna. Þetta er því ekki sammæliskenning um réttlætið í þeim skilningi að réttlæti sé það sem sáttargjörðarmenn sammælast um; ég kýs frekar að segja að sammælið sé leið Rawls til að sýna fram á að það réttlæti sem lýðræðishefð hins borgaralega samfélags hefur borið fram – og felst öðru fremur í hugmyndinni um siðferðilegan jöfnuð og kröfunni um að skapa öllum jöfn tækifæri – sé sanngjörn, jafnframt því sem hún er leið til að sýna fram á hvaða ályktanir okkur ber að draga af þessum hugmyndum.

En nóg um Rawls í bili – hvað með kenningu Kants í þessu tilliti? Svo gripið sé aftur til hinnar upphaflegu líkingar: Eru grundvallarkennisetningar hans smíðisgripir fremur en fundnir dýrgripir? Sjálfur talar Kant reyndar um hinn góða vilja líkt og gimstein sem glói í mannsorpinu og mætti því segja að væri vandfundinn dýrgripur. En um þennan dýrgrip hverfist kenningasmíð Kants í siðfræðinni. Um hana komst Halldór svo að orði undir lok fyrirlestrarins: „Í Grundlegung finnur Kant hið æðsta siðaboð ef svo má segja á vettvangi mannlegra athafna og í reynslu manna. Hann skoðar nokkur mikilsverð og uppljómandi dæmi sem sýna siðaboðið að verki og dregur siðaboðið sem aðleiðsluniðurstöðu af þessum dæmum.“ Af þessum orðum mætti reyndar ráða að kenning Kants væri alls enginn smíðisgripur, heldur einungis fundið fé og það ekkert sérlega dýrmætt. Ég held þó að siðakenning hans – einkum og sér í lagi í Grundlegung – sé smíðisgripur í svipuðum skilningi og réttlætiskenning Rawls, það er að segja endursmíð á grunnforsendum siðferðilegra athafna. Leið Kants er sú – líkt og Halldór benti á – að líta á hversdagslegar hugmyndir okkar um siðferðilega breytni, en í stað þess að leiða siðaboðið með aðleiðslu af þessum dæmum, þá spyr hann hver séu skilyrði þess að slík breytni sé möguleg. Þetta er reyndar dæmigerð kantísk spurning. Siðfræðikenning hans íGrundlegung er skipuleg viðleitni til að draga fram og skýra þær forsendur sem við göngum leynt og ljóst út frá þegar við fellum dóma um siðferðisgildi athafna. Útkoman er hátimbruð kenningasmíð og þegar upp er staðið ber smíðisgripurinn lítinn svip af þeim raunveruleika sem efnað var til hans úr – en hann varpar engu að síður svo skýru ljósi á hann að það glittir í gimsteininn sjálfan.

En þótt þessi forsendugreining eigi sér útgangspunkt í hverdagslegum staðreyndum um siðferðislíf okkar – ekki sízt þeirri að við lofum þær athafnir sem virðast vera framkvæmdar af óeigingjörnum hvötum – þá er hún á engan hátt bundin þessum staðreyndum í þeim skilningi að hún verði felld með gagndæmum úr reynslu. Grundvallarkennisetningar í siðfræði Kants – lögmál frelsisins sem hann kallar svo – eru því ekki sambærilegar við náttúrufræðilegar staðhæfingar sem hægt er að sanna eða afsanna með vísun til reynslu heldur eru þær sambærilegar við grundvallarforsendur náttúruvísinda sem ekki verða sannaðar þótt við hljótum að ganga út frá gildi þeirra.

Mér virðist að tengsl smíðisgrips Kants og þess siðferðilega raunveruleika sem hann á rætur í séu mun flóknari en tengslin á milli kennisetninga Rawls og vestrænnar stjórnskipunar. Samanburður á þeim tengslum sem slíkum er heldur ekki vænlegasta leiðin til að bera saman kenningar þeirra Kants og Rawls. Því þótt þeir eigi vissulega margt sameiginlegt í aðferðafræðilegu tilliti, þá sameinast þeir ekki síður í efninu – eða ætti ég kannski að segja í andanum. Tvö örstutt atriði um þetta í lokin. Fyrra atriðið er að í réttlætiskenningu sinn dregur Rawls fram kjarnann í pólitískri hefð Vesturlanda og endursmíðar hann í hreinni mynd; í siðfræðikenningu sinni dregur Kant fram kjarna þeirrar siðferðishefðar sem mótazt hefur í kristinni menningu og skýrir þær forsendur sem hún gengur úfrá. Síðara atriðið sem ég vildi nefna er að í báðum kenningunum kristallast hugmyndin um siðferðilegan jöfnuð einstaklinganna og krafan um að fylgja lögmálum sem gilda jafnt fyrir alla. Þar með leggjast þeir á eitt við að fága þá gimsteina sem fólgnir eru í lýðræðismenningu okkar en oft er erfitt að koma auga á í mannsorpinu.

 

Tilvísanir

1. John Rawls, „Justice as Fairness: Political not Metaphysical“, Philosophy and Public Affairs 14/3, nmgr. 14.

2. Sama rit, s. 231.

3. Sbr. Will Kymlicka, Contemporary Political Philosophy. An Introduction (New York: Oxford University Press 1990), s. 69.

 

« Til baka

Stöðvið allar klukkurnar

Um ofríki tímans1

eftir Julian Baggini

Timburmenn eru kannski augljósustu og beinustu orsakir dapurra hugsana á nýársdag, en til er önnur, dýpri orsök. Jafnvel þótt við höfum átt gleðileg jól og okkur hafi vegnað vel á liðnu ári er breytingin á dagatalinu óþægileg áminning um að tímaþjófurinn er nýfarinn burt með enn eitt ár. Og hann er miskunnarlaus þjófur sem mun halda áfram að taka frá okkur hverja klukkustund, mínútu og sekúndu þangað til við eigum engan tíma eftir. Hvort heldur hann þrammar áfram eða tifar hjá virðist tíminn vera óvinur okkar á augnablikum sem þessum.

Hvað sem því líður, þegar til þess kemur að heyja stríð gegn honum erum við eins og krakkar sem kasta steinum í skriðdreka. Áramótaheitin geta verið ein örvæntingarfull leið til að reyna að hraða okkur og koma í verk öllu sem við höfum verið að fresta áður en tíminn rennur út. En það skiptir ekki máli hve fast við getum fylgt tímanum eftir, hann hleypur okkur alltaf af sér að lokum. Þegar Dickens ákvað að senda Scrooge drauga fortíðar, nútíðar og framtíðar valdi hann vofurnar þrjár sem sækja að okkur öllum.

Ef við getum ekki unnið sigur á tímanum getum við þá friðmælst? Það er ein af vanræktustu spurningum í lífsspekinni. Leiða má rök að því að eðli okkar sem tímavera sé ein af mikilvægustu staðreyndum tilveru okkar. Við getum ekki vænst þess að rekja sundur merkingu lífsins nema við skiljum merkingu tímans. Sem sagt, ef ekki er hægt að stöðva hraðan gang tímans er þá alltént hægt að beisla hann?

Ég mundi með fyrirvara stinga upp á að við gætum að minnsta kosti lært að ganga í takt við hann. Tíminn er fyrsta flokks dæmi um hvernig veruleikinn er sambland af hinu hlutlæga og huglæga – af þeim hlutum sem eru svona hvort sem okkur líkar það eða ekki og af þeim hlutum sem breytast eftir því hvernig við skynjum þá. Ef við eigum að friðmælast við tímann þurfum við, svo heilagur Frans frá Assísi sé misnotaður, hugarró til að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt um hann, hugrekki til að breyta því sem við getum og, umfram allt, skilning til að vita hvað er hvað.

*

Að hægt er að upplifa og skilja tímann á ólíka vegu er ljóst af því á hve margbreytilegan hátt menn hafa gert sér hugmyndir um hann í sögunni og þvert yfir menningarheima. Heimspekingurinn Sir Bernard Williams2 heitinn, svo dæmi sé tekið, hélt því fram að alltént í vestrænni menningu hefði sögulegur tími verið fundinn upp af Þúkýdídesi á fimmtu öld f. Kr. Fyrir daga Þúkýdídesar, hélt Williams fram, var fortíðin formlaust tímarými þar sem enginn greinarmunur var gerður á goð­sögu og sögu, og enginn skilningur þar sem fólk sá nútíðina eins og hún tilheyri sömu óslitnu tímaröðinni þannig að framtíð okkar verði fortíð kynslóða framtíðar.

Þetta virðist okkur nú á dögum óskiljanlegt vegna þess að við erum svo vön að sjá heiminn gegnum linsu sögulegs tíma að við getum varla ímyndað okkur neina aðra leið. En hægt er að fá einhverja hugmynd um hvernig væri að hafa þessa forsögulegu heimsskoðun. Við sæjum allar frásagnir af fortíðinni eins og börn sjá Ódysseifs- og Ilíonskviðu. Spurningin um hvort þær stæðu fyrir goðsögu eða sögu vaknaði ekki, sumpart sökum þess að skýr greinarmunur hefði ekki enn verið gerður. Við mundum skilja þær þannig að þær hefðu að geyma einhver atriði sem væru staðreyndir og önnur sem væru skreytni, og við hefðum engan sérstakan áhuga á að greiða úr hvað væri hvað. En, og það skiptir meira máli, við mundum ekki spyrja hvenær nákvæmlega þær gerðust. Það er engin tímasetning hjá Hómer eða í Biblíunni. Sú fáránlega hugmynd að heimurinn væri skapaður fyrir 6010 árum kviknar aðeins vegna þess að nútímamaður hefur þann skilning að sé Sköpunarsagan sönn þá hljóti að vera hægt að tímasetja fyrsta dag sköpunar­innar. Að höfundar Biblíunnar töldu slík smáatriði ekki mikilvæg segir okkur ekki að þeir hafi talið sig vera að skrifa ævintýri. Það sýnir bara á hve ólíkan hátt við komum skipan á fortíðina.

Sú hugmynd að setja öll ár á einn kvarða er í raun furðulega ný af nálinni. Tímatöl af einni eða annarri gerð hafa verið til í þúsundir ára. En að henda reiður á árunum með einni samfelldri röð er miklu nýlegar til komið. Til að mynda á kínverska tímatalið rætur sínar að rekja til 14. aldar f. Kr., en það telur árin í 60-ára hringrásum, ekki í endalausri röð, og hefur hvert ár nafn en ekki númer.

Jafnvel tímatalarunur sem teygjast þúsundir ára aftur í tímann voru upphugsaðar langtum nær okkur í tíma. Samkvæmt indverska kaliyuga tímatalinu erum við nú á árinu 5108. En, samkvæmt Amartya Sen3, er sennilegt að núllpunktur tímatalsins hafi ekki verið settur fyrr en á seinni hluta fimmtu aldar e. Kr. Á sama hátt er núllpunktur gregoríska tímatalsins fæðing Krists en það var ekki upphugsað fyrr en á 16. öld.

Jafnvel nú á dögum sjáum við hvernig ólíkir menningarheimar hafa ólíka sýn á líðandi tímans. Fulltrúi Maós Zedongs Chou En-lai komst prýðilega að orði um frönsku byltinguna þegar hann sagði að það væri of snemmt að dæma um þýðingu hennar. Þetta langtíma sjónarmið er í algerri mótsetningu við vaxandi skammtímahyggju hins vestræna sjónarhorns þar sem fréttir fluttar allan sólarhringinn dæma söguna um leið og hún gerist og þar sem fréttir sem talað er um eins og þær skiptu höfuðmáli einn daginn eru týndar og tröllum gefnar einungis nokkrum dögum seinna. Morðin í Ipswich, svo að dæmi sé tekið, virðast fjölmiðlaheiminum nú þegar eins og fornaldar­saga sem verður aðeins minnst aftur þegar réttarhöld færa okkur eitthvað nýtt til að tala um.

Þessi munur á skynjun er ekki bara fræðilegur: Hann snertir hvernig fólk breytir og lifir. Í ný­afstöðnu stríði við Ísrael, til dæmis, sagði Hizbollah stuðningsmaðurinn og klerkurinn Sayed Ali blaðamanninum Ghaith Abdul-Ahad: „Þolinmæði er okkar höfuðdygð, við getum beðið dögum, vikum og mánuðum saman áður en við gerum árás. Ísraelar eru alltaf óþolinmóðir í orustu og hernaðarlist.“ Í langdregnum átökum er hin vestræna tímahröðun veikleiki.

Þessi munur sýnir að nokkru leyti hvernig hugmyndir um tímann og tímaskynjun eru ekki alger­lega óhagganlegar. Samt getur verið að þessi djúpstæði menningarlegi munur virðist ekki koma þeim okkar að miklu gagni sem erum gegnsýrð af siðvenjum okkar eigin tíma. Við getum aldrei upplifað tímann eins og Grikkir fyrir daga Þúkýdídesar upplifðu hann. En það þýðir ekki að við getum ekki gert einhverjar breytingar á því hvernig við tengjumst líðandi daganna og áranna. Tíminn er ekki endalaust auðmótanlegur en einhvern sveigjanleika hefur hann.

*

Ef við lítum á heimspeki tímans finnum við þó oftar en ekki ráðgátur sem eru vitsmunalega örvandi en tilvistarlega ófrjóar. Hinar fornu þverstæður Zenons, svo dæmi sé tekið, eru heillandi ráðgátur sem hafa víðtæk áhrif á stærðfræðilegar hugmyndir svo sem óendanleika og markgildi, en þær koma alls ekkert við þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir á nýársdag þegar við heyrum lífsklukkuna telja niður.

Svipað er að segja um frægustu nútíma rannsókn á heimspeki tímans í hinum enskumælandi heimi sem kom út fyrir næstum því hundrað árum. Í Óraunveruleika tímans velti John McTaggart fyrir sér tveimur andstæðum skoðunum á tímanum. Samkvæmt ‘A raðar’ viðhorfinu er einungis nútíðin til. Fortíðin er ekki lengur til og framtíðin er enn ókomin. Á hinn bóginn, samkvæmt ‘B raðar’ viðhorfinu, eru allir atburðir til á kvarðanum fyrri og síðari. ‘Nú’ er bara sá hluti raðarinnar sem er til staðar hjá vitundinni, en það er ekkert meira eða minna raunverulegt en fyrir tveimur mínútum eða hundrað ókomin ár.

McTaggart hélt því fram að hvorug hugmyndin lýsti tímanum á fullnægjandi hátt og að þessvegna væri tíminn ekki raunverulegur. Þetta er heimspekilega heillandi efni en frá sjónarhóli þeirra sem eru að reyna að lifa lífinu í tíma gagnar það ekki mikið að vera sagt að hann sé blekking. Blekking sem ekki verður komist undan er raunveruleiki, um allt sem máli skiptir.

Sem betur fer er þó ekki öll heimspeki jafn gagnslaus fyrir þau okkar sem hafa áhyggjur af því að haldið er áfram að rýra gildi tímans. Immanuel Kant lofar góðu með yfirlýsingu sinni að besta leiðin til að skoða tíma og rúm sé ekki að líta á þau sem einkenni veruleikans sem hugurinn reynir að skilja heldur sem einkenni hugans sem við notum til að skilja veruleikann.

Hin snjalla hugmynd Kants, eins og svo mikið af heimspeki, virðist liggja alveg í augum uppi einungis eftir að hún hefur verið sett fram. Við getum aðeins upplifað eitthvað yfirleitt af því að hugurinn kemur skipulagi á reynsluna bæði í tíma og rúmi. Tíminn er ekki eitthvað sem við skynjum í reynslunni, hann er forsenda þess að hafa einhverja reynslu yfirhöfuð. Að halda að tíminn tilheyri veruleikanum fyrst og síðan reynslunni er eins rangsnúið og að halda að flöskur séu gerðar til að hæfa lögun vínsins.

*

Skrefið sem Kant steig var afgerandi þar sem það kom tímareynslunni fyrir í kjarna mannlegs eðlis. Í einum skilningi gerði þetta tímann huglægan vegna þess að það tengist meira því hvernig við upplifum heiminn en heiminum sjálfum. En í öðrum skilningi gerði það tímann hlutlægan vegna þess að án hans er ekki mögulegt að við upplifum neitt. Tíminn er fastur ás sem alla reynslu verður að teikna á.

Á meginlandi Evrópu voru hugmyndir Kants um síðir þróaðar á heimspekisviði sem er þekkt undir heitinu fyrirbærafræði. Í grófum dráttum skildu fyrirbærafræðingar á borð við Heidegger lexíu Kants þannig að eina leiðin til að rannsaka tilvist og ‘veruleika’ væri með því að kanna skynjun okkar. Það væri útilokað að rannsaka heiminn eins og hann er í sjálfum sér vegna þess að slíkur heimur er okkur óaðgengilegur.

Kannski var dýpsti hugsuðurinn um mikilvægi tímans fyrir mannlega tilvist danski tilvistar­spekingurinn Søren Kierkegaard sem sagði að lífið verði aðeins skilið afturábak en það verði að lifa því áfram. Hugsun hans fór samt langt út fyrir slík kröftug, áhrifamikil spakmæli. Það þurfti Kant til að benda á mikilvægi tímans fyrir mannlega reynslu, en það þurfti Kierkegaard til að benda á mótsagnirnar í kjarna tímanlegrar tilvistar.

Kierkegaard var mjög trúaður hugsuður og var grundvallarspurning hans sjálfs hvernig hann gæti verið kristinn. Sem betur fer fyrir heiðingjana meðal okkar leiddi leit hans hann samt til nokkurra altækari hugmynda. Kristni hans var engu að síður lykillinn að þessu því að það var í persónu Krists sem hann sá holdi klædda mótsögn mannlegrar tilvistar.

Jesús var rökleg vitleysa. Hann var sonur Guðs, allur mannlegur en samt allur guðlegur, endan­legur og óendanlegur í senn. Röklega séð er slík sameining fjarstæða. Eigi að síður sá Kierke­gaard merki um þessa fjarstæðu hjá okkur öllum.

Annars vegar tilheyra mannverur því sem hann kallaði listræna sviðið. Það tengist ekki list eða smekk heldur því hvernig við erum bundin við augnablikið. Tíminn er alltaf nú, aldrei fyrir mínútu eða klukkustund í framtíðinni. Við getum ekki sloppið við augnablikið sem er ástæðan fyrir því að margir hafa haldið því fram að eina leiðin til að lifa sé að grípa það. En Kierkegaard taldi þó að lífsspekin í carpe diem (gríptu daginn) ynni gegn sjálfri sér. Það er ekki hægt að grípa eitthvað sem er sífellt á hreyfingu. Fyrir þá manneskju sem lifir aðeins fyrir andartakið er hver nýr dagur, mínúta eða sekúnda óskrifað blað, og það sem hefur gerst í fortíðinni skiptir engu máli. Fagur­kerinn er sí og æ að reyna að drekka úr uppsprettulind lífsins með því að nota sigti.

Að lifa í augnablikinu gengur ekki vegna þess, hélt Kierkegaard fram, að við erum ekki aðeins listrænar verur heldur siðrænar. Aftur er fagorðið villandi því að grundvallareinkenni hins siðræna sviðs tilverunnar er ekki að það innleiði siðferðið (þótt það geri það) heldur að það nær út yfir augnablikið. Þó að það sé satt í einum skilningi að við séum bundin augnablikinu er það líka satt að við erum lifandi verur með fortíð og framtíð. Það er meginatriði í mennsku okkar að við höfum minni, gerum áætlanir og gefum loforð, tökumst á hendur verk og höfum skyldur. Manneskja sem gerir ekkert af þessu er ekki frjáls andi heldur er hún varla mennsk.

Á margan hátt hvetur nútímalíf á Vesturlöndum til slíkrar afmennskunar með því að neytenda­kapítalismi tekur ætíð óhjákvæmilega hið nýja fram yfir hið gamla. „Skiptið um, gerið ekki við“ á í síauknum mæli ekki eingöngu við neysluvörur heldur kringumstæður og sambönd. Nútíma sál­fræðiþvaðrið um að „gefa sér lausan tauminn“ og „skipta um vist“ er í takt við þetta virðingarleysi fyrir fortíðinni en samt er manneskjan sem getur gefið sér lausan tauminn og skipt um vist án mikillar fyrirhafnar vafalaust bara ímynd yfirborðsmennsku.

Hugsanlega tengist einstaklingshyggja nútímalífs einnig þessari áherslu á hið listræna. Þegar við beinum athygli að sjálfum okkur og útilokum aðra einbeitum við okkur æ fastar að nútíðinni. Að hugsa um sjálfan sig yfir lengra tímabil er óhjákvæmilega að staðsetja sig í einhverri menningu, í tengslum við líf annarra, og sem einstakling sem félagsleg samskipti móta og breyta. Siðræna sjálfið á sér djúpstæðar félagslegar og sögulegar rætur. Það grefur undan ein­staklingshyggju okkar, sem við metum svo mikils, að viðurkenna þetta og er þannig ein hlið á til­veru okkar sem við vanrækjum í vaxandi mæli.

Sú áskorun að vera fullkomlega mennskur er því að lifa þannig að við metum að verðleikum bæði hið listræna og siðræna eðli okkar sem lifandi vera sem eru hvort tveggja: fastar í líðandi stund en lifa samt út fyrir hana. Fyrir Kierkegaard var það þetta sem gerði kristnina svo aðlaðandi vegna þess að í Kristi fól það í sér hina mótsagnakenndu sameiningu beggja sviða í þriðja sviði – hinu trúarlega.

Fyrir þau okkar sem höfum ekki kristna sannfæringu – en það var út frá henni sem hann gekk, ekki þangað sem röksemdafærslur hans leiddu hann – er þessi lausn kannski ekki svo girnileg. Eru þá til aðrar leiðir að leysa þverstæðuna sem Kierkegaard lagði fyrir okkur?

Áskorunin sem við stöndum frammi fyrir sem einstaklingar sem reyna að lifa endanlegu lífi sínu er að staðsetja nútíðina rétt með tilliti til framtíðar og fortíðar á þann hátt að meta allar þrjár að verðleikum. Við þurfum að skilja fortíðina til að halda áfram í framtíðinni, persónulega og pólitískt. Við þurfum einnig að hafa framtíðarskyn til að gera nútíðina meira en bara röð af skammæjum upplifunum – þótt þær eigi líka sinn stað í fjölbreyttu mannlífi.

En til viðbótar við nútíðina eina sér þurfum við áform, metnað, drauma, sem og vitund um af­leiðingar athafna okkar. Samt sem áður megum við ekki einblína um of á framtíðina eða fortíðina, ella glötum við nútíðinni. Og þar sem öll augnablik, liðin og ókomin, eru upplifuð fyrst og fremst sem nútíð, glötum við öllu ef við glötum henni.

*

Hvernig getum við afrekað þetta? Ég er ekki sannfærður um að til sé eitt einfalt svar. Mörgum sem skrifa um þetta efni hættir til að fjalla um alla eins og við værum nákvæmlega eins. En að því gefnu að tímaskynjun er greinilega breytileg ættum við að gera ráð fyrir að til væru fleiri en ein leið til að lifa í sátt og samlyndi við tímann. Eins og samtímaheimspekingurinn Galen Strawson hefur bent á virðast sumir eðlilega lifa meira í augnablikinu, en aðrir hafa meiri áhuga á liðnum tíma og ókomnum. Það er eins og við höfum innri klukkur og dagatöl og að lifa í takt við þau krefjist þess að mismunandi líf gangi með mismunandi takti.

Það kynni einfaldlega að vera svo að það skipti ekki máli hvaða afstöðu maður tekur til líðandi tímans svo framarlega sem maður tekur hana með heilum hug og ábyrgðartilfinningu. Rokkarinn Lemmy lifir samkvæmt kjörorðinu „fæddur til að tapa, lifi til að vinna“, og hann lifir frá degi til dags með slíkri staðfastri samkvæmni að einhvern veginn gengur það hjá honum, þvert ofan í venjulegt siðferði og læknavísindi.

Andstætt við þetta eru flestir sem slá um sig með klisjunum um carpe diem – „Lífið er ekki hve oft þú dregur andann, það er hve mörg andartök gera þig orðlausan af hrifningu“ eða „Það eru ekki árin í lífi þínu, það er lífið í árum þínum“ – að selja rómantískan uppspuna. Þeir eru eins og Hómer Simpson í þættinum þar sem hann heldur sig eiga aðeins eftir einn dag ólifað sem af­leiðingu þess að borða eitrað sushi. Þegar hann að lokum áttar sig á að það hefur ekki verið eitrað fyrir honum í raun og veru hrópar hann: „Ég er á lífi! Upp frá þessum degi strengi ég þess heit að lifa lífinu út í ystu æsar!“ Og síðan sjáum við hann setjast í sófann og glápa á sjónvarpið, eins og venjulega. Líkt og Hómer sýna fæst okkar andartakinu bara ekki þá hollustu sem krafist er af lífi sem veðjar öllu á það.

Að grípa daginn er oft ruglað saman við að upplifa eins margt og mikið og mögulegt er. Bækur og sjónvarpsþættir telja upp hluti eins og kvikmyndirnar sem þú verður að sjá, golfholurnar sem þú verður að leika, bjórtegundir sem þú verður að prófa og náttúruundur sem þú verður að sjá, allt áður en þú deyrð. (Ég er ekki að búa neitt af þessu til.) En æ ofsalegri hraði við að safna upplifunum er á engan hátt að láta hvert augnablik skipta máli. Að grípa er kannski ekki rétta sögnin til að nota um augnablikið, að njóta kynni að vera betra. Til að njóta einhvers þarf vissa stillingu sem og ákafa löngun til að hafa ánægju af öllum þeim góðu hlutum sem lífið hefur að bjóða. Því miður lifum við í samfélagi skyndifullnægingar þar sem að njóta er alltof fátítt. Jafnvel það sem við erum hvött til að hafa nautn af er varla líklegt til að gera lífið þess virði að lifa því – við hljótum að sækjast eftir meira en að njóta bita af fjöldaframleiddu súkkulaði í baðinu.

Búddahugtakið ‘aðhygli’ útskýrir þetta kannski betur. Búddatrúarmenn iðka aðhygli í hugleiðslu en einnig í einhverjum mæli alltaf. Aðhygli snýst um að hyggja vel að upplifun augnabliksins en hún á ekkert skylt við óseðjandi græðgi neysluhyggjunnar í nýjar upplifanir. Ennfremur virðist iðkun Búddatrúarmanna þroska bæði nútíðarskyn og hugarró gagnvart líðandi tímans. Hlutir taka eins langan tíma og þeir taka og það er tilgangslaust að vera að flýta sér áður en tíminn rennur út. Hinsvegar kann þetta bara að vera ein leið til að sætta okkur við tímaeðli okkar sem er ekkert meira eða minna ‘rétt’ en sældarhyggja Lemmys sé henni fylgt af trúmennsku. Og það eru eflaust til aðrar leiðir líka.

En hvernig svo sem við reynum að komast í takt við líðandi tímans þá eru nokkur mistök sem við ættum virkilega að forðast. Hvorki Búddatrúarmaðurinn né rokkarinn snaróði eru tímasóarar en þeir eru ekki heldur hinir stórkostlegu tímaþjarkar sem eru með troðfulla dagbók en njóta þó sjaldan í raun og veru neinna þeirra hluta sem þeir troða inn í hvern dag. Nútíðin er háll fiskur sem við getum ekki fangað ef við gerum enga tilraun til að klófesta hann en sem gengur okkur úr greipum ef við hrifsum hann of harkalega.

Við ættum ekki heldur að blekkja okkur með því að, þvert á reynsluna, þá sé í raun og veru til óendanlega mikill tími þegar allt kemur til alls. Það getur verið erfitt að sætta sig við dauðleikann og er það ástæðan fyrir því að þegar hann kemur flatt upp á fólk þá er algengasta viðbragðið einskonar skelfing sem miðaldrakrísan er dæmi um. Jafnvel þótt til sé einhvers konar líf eftir dauðann er afar ósennilegt að það líkist nokkuð þessu lífi. Ef við tryðum því í alvöru þá væru þær ekkjur sem giftust aftur fjölveriskonur.

*

Til að friðmælast við tímann þurfum við að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt um hann. Hann er endanlegur. Við upplifum hann aðeins í eina átt, alltaf í nútíð en aldrei úr tengslum við fortíð eða framtíð lengur en nokkur hverful augnablik. Við fáum mest út úr honum ekki með því að bölsótast út í þessar óbreytanlegu staðreyndir heldur með því að lifa á viðeigandi hátt í samræmi við þær og í samræmi við einstaklingseðli okkar. Umfram allt þurfum við að sætta okkur við að einmitt það sem gerir okkur kleift að upplifa nokkuð yfirhöfuð er að tíminn heldur stöðugt áfram, og að kvarta yfir því að tíminn líði er þá að mótmæla einmitt því sem gerir hvaða tilveru sem er einhvers virði mögulega í fyrsta lagi.

Við ættum þessvegna að taka nýja árinu opnum örmum, sætta okkur við að það muni einnig líða og þetta er óhjákvæmileg afleiðing þess að lífið heldur áfram eins og það ætti að gera og hlýtur að gera. Að segja að við verðum að grípa daginn er aðeins einn þriðji af sannleikanum: Við verðum líka að grípa fortíðina og framtíðina einnig.

                                                                                                Gunnar Ragnarsson þýddi

Neðanmálsgreinar

1. Julian Baggini er breskur heimspekingur og rithöfundur. Hann er meðstofnandi og ritstjóri tímaritsins The Philosophers’ Magazine og hefur m.a. skrifað bækurnar What’s it All About? Philosophy and the Meaning of Life (2004), Atheism: A Very Short Introduction (2003) og Making Sense: Philosophy Behind the Headlines (2002).
Grein þessi birtist í breska blaðinu The Independent 1. janúar 2007. – Þýð.

2. Bernard Williams (1929–2003). Talinn einn af áhrifamestu breskum heimspekingum á seinni hluta 20. aldar, einkum á sviði siðfræði.

3. Amartya Sen (f. 1933) er indverskur hagfræðingur og heimspekingur. Hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði 1998.

Þekking og vissa: Hugleiðingar um tengsl þekkingar og listar

eftir Henry Alexander Henrysson

Fagurfræði átjándu aldar er ekki svið sem fagurfræðingar í samtímanum velta mikið fyrir sér.1 Þegar hún er borin saman við umbrot Endurreisnarinnar og fræðabyltingar seinni hluta nítjándu aldar verður sá hluti hennar sem snýr beint að listum nokkuð óspennandi. Fagurfræðingar vísa auðvitað til Alexanders Baumgarten, þess sem fyrstur setti heiti á fræðigreinina, einhverjir lesa David Hume, aðrir nota greiningu Immanuels Kant á smekksdómum sem upphafspunkt, en fáir gera þessa heimspekinga að höfuðpersónum í sínum rannsóknum. Lykilverk sem greina sögu þessa tímabils, s.s. Listkerfi nútímans eftir Paul Oskar Kristeller2, eru vissulega alltaf í umferð, en almennt má fullyrða að varla nokkur maður skrifi um sjónlistir, bókmenntir og tónlist í dag án þess að styðjast fyrst og fremst við kenningar sem voru settar fram að minnsta kosti hundrað og fimmtíu árum eftir að Baumgarten skrifaði sín helstu verk. Eftirfarandi hugleiðingar eru ekki greinargerð um fagurfræði átjándu aldar. Ég hef hins vegar oft reynt að svara áhugaverðum fagurfræðilegum spurningum með því að styðjast við þær hugmyndir sem flutu um í Upplýsing­unni, m.a. vegna þekkingarleysis á hugmyndastraumum seinni tímabila. Spurningin um tengsl þekkingar og listsköpunar er ein slík.

Þekkingarfræði er ekki grein sem auðvelt er að fara yfir á hundavaði – sérstaklega ekki sögulega. Helstu spurningarnar og vandamálin, þ.e. samanburðurinn á skynhæfi og hugsun sem byggir á hugtökum, spurningin hvort öll þekking sé skynþekking og þar með eins ótrygg og hún, að­greiningin á sjálfsveruhyggju og afstæðishyggju, athugunin á því hvort þekking sé „sönn full­yrðing“, rannsóknin hvernig þekking geti verið uppspretta rangra fullyrðinga, skoðunin á sam­bandi almennra hugtaka við hið einstaka, efasemdirnar um hvort hægt sé að vita eitthvað án fullrar vissu og upptalningin á frumforsendum hugsunarinnar, eiga það til að hlaupa í skjól undan rannsakandanum. Þekkingarfræðin er þó ekki beint full af leyndardómum – þvert á móti. Í henni má finna grunnatriði sem hvert barn skilur. Það fær mann oft til að trúa því að mörg kunn stef þekkingarfræði samtímans séu í raun óþarfur vandi tilkominn vegna pasturslítilla hugtaka. Til dæmis má efast – þetta á ekki að verða neitt aðalatriði í þessum hugleiðingum – um hvað hugtak eins og „þekkingarsköpun“ á að fyrirstilla. Margir sem vilja greina tengsl þekkingar og sköpunar í samtímanum gera það með því skeyta hugtökunum saman. Hvað varð þá um hina sígildu hjálparsagnir að öðlast, leita, afla? Hin fræðilega aðferð skapar ekki þekkingu; greining hugtaka, samanburður hugtaka og hugmynda, og rökfærslur fyrir túlkun, lestri eða kenningu er ekki sköpun. Jafnvel á nýöld gátu menn verið sammála um eitt: Þekkingin verður annað hvort til eða ekki. Í því ljósi eru það kannski í mesta lagi kennisetningar og tilgátur sem við sköpum. En þegar ég hef nefnt þetta við vini mína, m.a. úr listageiranum, hafa þeir frekar gefið í skyn að hér væri um takmarkanir mínar að ræða en ekki þekkingarsköpunar-hugtaksins.

Þegar maður hugleiðir fagurfræði af sjónarhóli átjándu aldar getur maður leyft sér að vera ein­faldur og talið samband þekkingar og lista laust við allan leyndardóm. Sambandið má orða á þann veg að listaverk sem eitthvað er spunnið í miðli þekkingu. Listaverkið miðlar vitnisburði um heiminn, veru mannsins, sjálfið og samband verunda. Slík þekking er stundum nefnd frum­spekileg þekking. Hvernig listamaðurinn öðlast þá þekkingu þarf hvorki að tengjast listinni sjálfri né þeirri vísindalegu aðferð sem sautjánda öldin gaf okkur. Þegar horft er til baka yfir hinar þekkingarfræðilegu deilur sem nýöld gaf vestrænni sögu má gera ráð fyrir að allt lífshlaupið sé undir, persónulegt og sameiginlegt. Mönnum hættir stundum til að gera annað hvort of mikið eða of lítið úr muninum á vísindum og listum. Í fyrra tilvikinu verður til ákveðin tvíhyggja um hið andlega svið. Slíkt getur ekki staðist. Þetta svið líkist mest litrófi. Milli skynjunar á einum endanum og hreinnar rökvísi á hinum má finna reynslu, geðshræringar, stemningar, viðhorf, afstöður og skoðanir. Þetta „róf“ skýrir einnig hvers vegna ekki má þröngva ólíkum sjónarhornum upp á hvort annað. Vísindi og listir eru sem sagt sitt hvor hluturinn og eiga sín svið. En það er einnig ljóst að þessi svið dekka ekki raunveruleikann. Ég fæ ekki séð að Endurreisnin, þrátt fyrir að þar megi oft finna fremstu vísindamennina og listamennina í sama manninum, sýni fram á neitt annað, eins og oft er reynt að nota sem dæmi.

Reyndar er það kunnuglegur undirtónn í margs konar hugvísindum að eitthvað hafi glatast við vísindabyltingu sautjándu aldar og svo enn frekar við Upplýsinguna sjálfa. Í sambandi við listir má kannski orða þetta sem svo að þær hafi fengið sinn stall, settar þangað af heimspekingum, sem sumir hverjir gerðu það í framhaldi af þekkingarfræðilegum og frumspekilegum greinargerðum, en um leið verið skildar eftir á þessum stalli. Flestir vita að „listin“, þ.e. hugtakið sjálft, var auðvitað lengi þekkingin sjálf. Hún var kunnátta (þekking), en varð tjáning (hæfileikar). Líklega má segja sem svo að eitt helsta framlag átjándu aldar til fagurfræði hafi verið að festa þá umbreytingu í sessi. En sú saga snýst mikið til um orðaskýringar. List sem tjáning hefur verið til mjög lengi, en það er hlutverk mannfræðinnar en ekki heimspekinnar að segja hversu lengi.

Þessar hugleiðingar voru að nálgast ákveðinn þráð að ofan: Hvað með listir sem miðlunartæki þekkingar? Hér verður ekki greint á milli listgreina; varla er hægt að tala um mismunandi listgreinar – hugtakið er galopið enda þótt mismunandi fullyrðingar geti átt við hverja listgrein fyrir sig. Í sjálfu sér er spurningin hvernig tæki listir eru ekki mest spennandi. Það hafa komið fram fá haldbær rök fyrir því að list færi okkur sérstaka þekkingu sem aðeins fæst með sköpun; en það er þó ekki þar með útilokað að slík þekking sé möguleg. Hér verður einungis litið á miðlun þekk­ingar í listum sem staðreynd – byggða á reynslu. Og þessi miðlun á sér tvenns konar sjónarhorn. Annars vegar tengist hún upplifunum listamannsins. Hvaða listamaður kannast ekki við að setja fram þekkingu eða skilning sem hann eða hún hafði enga tilfinningu af áður en vinna við verk hófst? Hvaða listamaður kannast ekki við að hafa varpað fram spurningum sem hafa aldrei leitað á hann eða hana áður en vinna við verk hófst? Svo er það hitt sjónarhornið. Viðtökur þessarar miðlunar eru meira spennandi því þær verða svo oft efniviður í þann hugarheim sem aftur skapar önnur verk.

Viðtökur byggja öðru fremur á því að verk fái hljómgrunn sem listaverk. Slíkur dómur, á átjándu öld var talað skammlaust um „smekksdóma“, verður í dag til við flókið samspil listasögu/hefðar, sýningastjóra/gagnrýnenda, og samspil listamanns við, a.m.k. suma, njótendur. Með öðrum orðum, þekking í listaverki kemst ekki til skila nema það sé þekkt sem listaverk. Annars fellur hún dauð niður. Þetta er ekki beint vegna þess að verkið þykir ljót list eða vond list. Slíkir merkimiðar eru ekki nákvæmir. Dómurinn sem listamenn óttast mest er að verkið þyki vitlaust. Helsti tilvistar­kvíðinn sem fylgir hverju sköpunarverki er í daglegu tali kallaður „að það hafi ekkert fram að færa“.

Til að fyrirbyggja misskilning og stilla af sjónarhorn þessara hugleiðinga má benda á að þegar talað er um vitið í verkinu þá er ekki verið að vísa í siðferðilegan eða pólitískan boðskap verka – eða tískuboðskap. List er ekki siðferðileg, pólitísk eða tískubundin. Hvorki réttlæti né axlapúðar er list. Verufræði þess er um eitthvað allt annað, eitthvað miklu einfaldara: Um heiminn, veru mannsins; eitthvað sem þekkist án langra útskýringa. Listunnandi annað hvort nær verkinu, eða nær því ekki. Það þurfa ekki allir að ná því, en einhver verður að gera það.

Fagurfræði byggir ekki (ekki frekar en viðfangsefni sitt) á tilfinningum einum saman. Huglægir – ekki endilega rökrænir – þættir spila inn í gerð lista og mat á list; þættir sem eru annars eðlis en það sem við kennum við tilfinningar. Hér á engin tvíhyggja við. Okkur hættir til að greina á vitlausan hátt á milli fræða um staðreyndir annars vegar og listheiminn hins vegar. Listamenn eiga það til dæmis til að renna stoðum undir harðasta pósitívisma: Það sem við getum ekki sett fram sem staðreyndir sé eingöngu viðfangsefni listarinnar. En slík raunhyggja var ekki til fyrr en á nítjándu öld og hún náði sér ekki á strik fyrr en á þeirri tuttugustu. Það er ekki hægt að skrifa algenga aðgreiningu lista og fræða á Upplýsinguna.

Að þekkja listaverk – og þar með þekkinguna sem í þeim býr – er eins huglægt ferli og nokkuð getur verið. Vandamálið er bara að „taka til“ í vitundarlífinu og gera sér grein fyrir hvaða þættir þess koma við sögu. Skoðanir geta til dæmis verið ákveðin gerð vitundarstarfs, sem þarf að greina frá geðshræringum og tilfinningum. Og jafnframt má greina að reynslu og skynjanir í meðvitundinni. En skoðanir eru ekki lausar við einhvers konar grundvöll. Francis Hutcheson spurði til dæmis í mikilvægu verki hvort skilyrðing sé möguleg: Er hægt að segja einhverjum að hafa skoðun á listaverki? Hann svaraði því neitandi þrátt fyrir að færa römm rök fyrir því að smekksdómar væru eingöngu huglægir.3

Hér þarf að draga fram fyrirbæri sem Hutcheson, og síðar landi hans David Hume, gerðu að aðalatriði en þykir kannski ekki endilega aktúelt í dag: Næmi.4 Hér er ekki átt við nýaldarskilning á geníus eða virtúós, heldur bara almennt hugtak sem útskýrir upp að vissu marki hvers vegna listheimurinn er mögulegur. Hann er mögulegur vegna þess að ákveðinn hluti fólks hefur til að bera milliliðalausan skilning, næmi, á því sem listin miðlar. Hér spilar líka margt annað en eðli þessa næmis inn í, ekki síst hagsmunaleysi, eins og Kant benti á.5 „Ábyrgð“ og „traust“ eru önnur hugtök sem skipta máli – líkt og í hvaða þekkingarumhverfi sem er. Þau eru reyndar sjaldan eins mikilvæg; loddaraskapur er hvergi eins mögulegur og í listheiminum.

Listheimurinn er ekki mögulegur nema vegna þess að sumir vita betur. Hann sprettur beinlínis upp úr þeirri staðreynd. Þetta er auðvitað elítismi, en það er erfitt að sjá hvernig hægt er að komast hjá þessari skoðun. Það er heldur ólíklegt að við fæðumst uppfull af fagurfræðilegu næmi; það þarf að þroska og þjálfa á annan hátt en nautnaseggurinn viðheldur sínu góða nefi og auðkitlandi bragðlaukum. Fagurfræðilegar skoðanir, smekksdómar, eru einhvers konar verkleg skynsemi. Listamaðurinn er ekki vísindamaður og listaverkið er ekki uppfinning, en það er ekki þar með sagt að listin sé þar með handan þekkingarfræðilegrar samræðu. Í grunninn setur bæði listamaðurinn og listnjótandinn fram sama hlutinn, þ.e. kröfu um að aðrir séu sammála. Sú krafa er hins vegar ekki sett fram af frekju, heldur af vissu.

Neðanmálsgreinar

1. Þessi grein er byggð á erindum um fagurfræði. sem ég hef haldið undanfarin ár við margs konar tækifæri. Má þar t.d. nefna ljómandi málfund sem haldin var í maí 2010 í Listasafni Árnesinga í tilefni sýningarinnar Að þekkjast þekkinguna. Ég þakka margs konar athugasemdir sem komu fram við það tilefni, en get þó ekki ábyrgst að allar hafi ratað í eftirfarandi hugleiðingar.

2. Verk Kristellers er til í íslenskri þýðingu Gunnars Harðarsonar; Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 2005.

3. Sjá verk Hutcheson frá árinu 1725 sem nefnist An Inquiry into the Original of our Ideas of Beauty and Virtue in Two Treatises.

4. Sjá ritgerðina „Um mælikvarðann á smekk“ í þýðingu Gunnars Ragnarssonar sem birtist í Hug 18, 2006, sérstaklega bls. 32–35. Ritgerðin birtist fyrst árið 1757.

5. Sjá til dæmis 4. grein í Gagnrýni dómgreindarinnar [Kritik der Urteilskraft] frá árinu 1790.