Færslusöfn

Brynjólfur Sveinsson

Brynjólfur Sveinsson (1605–1675), biskup í Skálholti, fornfræðingur og heimspekingur.

Fæddur að Holti í Önundarfirði 14. sept. 1605, sonur Sveins prófasts Símonarsonar og seinni konu hans, Ragnheiðar Pálsdóttur. Lauk stúdentspróf frá Skálholtsskóla 1624, sigldi til Kaupmannahafnar og lagði þar stund á fornfræði, heimspeki og læknisfræði. 1629 fór hann aftur til Íslands og las grísku í foreldrahúsum í 2 ár. Fór aftur utan 1631 til frekara náms og var skipaður konrektor latínuskólans í Hróarskeldu 1632 og gegndi því starfi í 6 ár. 28. nóvember 1633 hlaut hann meistaragráðu í heimspeki við Hafnarháskóla. Var biskup í Skálholti 1639–1674. Lést 5. ágúst 1675.

Merkasta framlag B.S. til íslenskrar heimspeki eru skýringar hans (á latínu) viðRökræðulist (Dialectica) Péturs Ramusar (1515–1672) sem hann las fyrir í Skálholtsskóla á árunum 1640–1643. Þar fjallar hann fyrst um eðli og skiptingu rökræðulistarinnar, síðan um orsakirnar fjórar, áhrifsorsök, formorsök, efnisorsök og tilgangsorsök, þá um afleiðingar og loks um frumlag (subjectum). Í ritinu, sem er ófullgert, leitast hann við að draga fram og skýra platónskar forsendur ramískrar heimspeki. Hlutverk rökræðulistarinnar er að laða fram náttúrulegan hæfileika mannsins til þess að beita skynseminni vel og þjálfa hann í því (sjá Hug1988).

Nokkur önnur rit: Historica de rebus islandicis narratio (1647), Maríukvæði og Krosskvæði (tileinkað Páli í Selárdal).

« Til baka

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson (1838–1914) frá Minna-Núpi, fræðimaður og heimspekingur.

Fæddur 26. september 1838 að Minna-Núpi, Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, sonur Jóns bónda Brynjólfssonar og Margrétar Jónsdóttur. Hlaut litla formlega skólagöngu, en stundaði sveitastörf og sjóróðra, uns hann varð að hætta erfiðisvinnu vegna veikinda. Eftir það sinnti hann einkum kennslu- og ritstörfum, fornleifarannsóknum og þjóðsagnasöfnun. Hann lést á Eyrarbakka 16. maí 1914.

Merkasta framlag hans til íslenskrar heimspeki er Saga hugsunar minnar um sjálfan mig og tilveruna sem kom út árið 1912 en hafði verið lengi í smíðum. Þar lýsir hann þróun heimspekilegrar glímu sinnar við gátur tilverunnar allt frá æskuárum og setur fram frumspekilega eindakenningu um veruleikann.

Nokkur önnur rit: Skuggsjá og ráðgáta (1875). Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum.

« Til baka

Eiríkur Briem

Eiríkur Briem (1846–1929), prestur og stærðfræðingur, kennari við Prestaskólann í Reykjavík.

Fæddur 17. júlí 1846 að Melgraseyri við Ísafjarðardjúp, sonur Eggerts Briem sýslumanns og Ingibjargar Eiríksdóttur. Stúdent 1864, lauk námi frá Prestaskólanum 1867, varð fyrst biskupsritari, en síðar prestur og prófastur í Húnaþingi. Dvaldist í Kaupkmannahöfn við nám 1879–1880 og var frá 1880 kennari við Prestaskólann í Reykjavík og kenndi þar heimspekileg forspjallsvísindi til 1911 er Háskóli Íslands var stofnaður, hlaut þá lausn frá embætti og prófessorsnafnbót. Lést í Reykjavík 27. nóvember 1929.

Eiríkur var vel að sér í heimspeki Herberts Spencers og þýddi rit eftir hann um uppeldisfræði (1884). Sjálfur samdi hann og gaf út kennslubók í rökfræði sem var ætluð til nota í Prestaskólanum, Hugsunarfræði, 1897.

« Til baka

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen (1820–1896), bókmenntafræðingur, skáld og áhugamaður um heimspeki.

Fæddur að Bessastöðum 1820, sonur Þorgríms gullsmiðs Tómassonar og konu hans. Stúdent 1837 frá Árna Helgasyni, tók 1. og 2. lærdómspróf við Hafnarháskóla 1837-1838 og lagði síðan stund á heimspeki og bókmenntir. Skrifaði verðlaunaritgerð um franskan samtímaskáldskap („Om den nyfranske Poesi“, 1843) og varð mag. art. 1845 með ritgerð um Byron („Om Lord Byron“); titlinum var breytt í dr. phil. 1854. Ferðaðist nokkuð um Evrópu, varð 1848 ritari í danska utanríkisráðuneytinu og skrifstofustjóri þar frá 1859. Fékk 1866 lausn frá störfum með biðlaunum og eftirlaunum og hvarf aftur til Íslands, keypti Bessastaði og bjó þar frá 1868, var m.a. þingmaður og ritstjóri. Lést að Bessastöðum 1896.

Grímur var á yngri árum hallur undir heimspeki Hegels, en hneigðist síðar æ meir til fornra fræða. Í ritgerðinni „Rúm og tími“, sem birtist í Tímariti Hins íslenska Bókmenntafélags, 1885, reynir hann að leiðrétta Kant og Hegel með Aristótelesi.

Nokkur önnur rit: „Platon og Aristoteles. Tveir kapítular úr sögu heimspekinnar“,Tímarit Hins íslenska Bókmenntafélags, 18 (1897), 1–27; 19 (1898), 1–66.,Ljóðmæli 1880, Rvk, (Kh 1895, Rvk. 1906), Íslenzkar bókmenntir og heimsskoðun, Andrés Björnsson þýddi og gaf út, Reykjavík, 1975.

« Til baka

Guðmundur Bergþórsson

Guðmundur Bergþórsson (1657–1705), skáld.

Fæddur að Stöpum á Vatnsnesi, Húnavatnssýslu, veiktist illa í æsku og varð krypplingur, hálflamaður og lítt til verka fallinn. Lærði að lesa upp á eigin spýtur og hafði ofan af fyrir sér með barnakennslu og rímnakveðskap.

Helsta framlag hans til íslenskrar heimspeki er kvæðið Heimspekingaskóli sem hann orti að mestu leyti út frá íslenskri þýðingu á dönsku riti, Collegium Philosophorum eftir Hans Hanssøn Skonning, sem kom út 1636. Á fáeinum stöðum bætir Guðmundur þó við efnið einhverju frá sjálfum sér.

« Til baka

Guðmundur Finnbogason

Guðmundur Finnbogason (1873–1944) heimspekingur og prófessor við H.Í.

Fæddur 6. júní 1873 að Arnarstapa í Ljósavatnsskarði, Þingeyjarsýslu, sonur Finnboga Finnbogasonar og Guðrúnar Jónsdóttur. Stúdent 1896, lauk forprófi í heimspeki í Kh. 1897 og meistaraprófi í heimspeki (mag. art.) 1901. Undirbjó fræðslulöggjöf á Íslandi 1901–1905. Hlaut styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar 1908 og dvaldist aðallega í París. Doktorspróf í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla 1911 með ritgerð um samúðarskilning. Prófessor í hagnýtri sálarfræði við H.Í. 1918–1924, Landsbókavörður 1924–1943. Lést 1944.

Samkvæmt Guðmundi á heimspekin að veita útsýn yfir tilveruna og getur fjallað um hvað sem er út frá því sjónarhorni. Persónuleg tök og greining heimspekingingsins á viðfangsefninu er þá það sem mestu skiptir. Guðmundur ritaði ókjör af greinum og bókum. Í meginriti sínu, Hugur og heimur, fjallar hann um samúðarskilning milli manna út frá andstæðu umheims og hugarheims, vísinda og vitundar og leitast við að sýna hvernig sálarlíf manna birtist í látæði þeirra. Guðmundur þýddi fjölmargar greinar um heimspeki, m.a. eftir Henri Bergson og William James.

Helstu rit: Lýðmenntun (1903), Den sympatiske forstaaelse (1911), L’intelligence sympatique (1913), Hugur og heimur (1912), Frá sjónarheimi (1918), Huganir(1943).

« Til baka

Hálfdan Einarsson

Hálfdan Einarsson (1732–1785), guðfræðingur, fræðimaður, rektor Hólaskóla.

Fæddur að Prestbakka á Síðu 1732, sonur Einars Hálfdanarsonar og Guðrúnar Sigurðardóttur. Eftir nám í Skálholtsskóla innritaðist hann í Hafnarháskóla 1750, lauk lárviðarprófi 1753 og guðfræðiprófi 1755. Var þá skipaður skólameistari á Hólum. Var sæmdur meistaranafnbót í heimspeki 1763. Gegndi biskupsstarfi 1779 til 1784. Lést 1785.

Hálfdan sinnti heimspekikennslu við Hólaskóla og kenndi m.a. rökfræði, siðfræði og verufræði eftir kennslubókum sem lærisveinar Wolffs höfðu samið.

Hann samdi einnig íslenska bókmenntasögu, Sciagraphia (1777).

« Til baka

Hannes Árnason

Hannes Árnason (1812–1879), prestur og heimspekingur, kennari við Prestaskólann í Reykjavík.

Fæddur 11. október 1812 að Belgsholti í Melasveit, Borgarfjarðarsýslu. Stúdent frá Bessastaðaskóla 1837 og lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1847. Settur kennari í heimspekilegum forspjallsvísindum við Prestaskólann í Reykjavík 27. september 1848 og kenndi þar uns hann fékk lausn frá starfi, 26. september 1876. Lést þremur árum síðar, 1. desember 1879.

Hannes var fyrsti kennari í heimspekilegum forspjallsvísindum á Íslandi. Fyrirlestra sína byggði hann að nokkru leyti á ritum kennara síns, F. C. Sibbern, prófessors í heimspeki við háskólann í Kaupmannahöfn.

Auk þess er hans minnst fyrir hinn rausnarlega styrktarsjóð sinn sem hann stofnaði 15. ágúst 1878. Sjóðurinn var veittur sjötta hvert ár og stóð undir framfærslu styrkþegans í fjóra vetur, þrjá vetur við nám erlendis en fjórða árið átti styrkþegi að flytja fyrirlestra um efni sitt í Reykjavík. Mörg merkustu heimspekirit íslensk á fyrri hluta 20. aldar voru upphaflega til komin sem Hannesar Árnasonar fyrirlestrar (t.d. Saga mannsandans eftir Ágúst H. Bjarnason, Hugur og heimur eftur Guðmund Finnbogason og Einlyndi og marglyndi eftir Sigurð Nordal). Sjóðurinn brann upp á tímum óðaverðbólgu.

« Til baka

Hannes Finnsson

Hannes Finsson (1739–1796), guðfræðingur, fræðimaður og biskup í Skálholti.

Fæddur í Reykholti 1739, sonur Finns Jónssonar, síðar Skálholtsbiskups og Guðríðar Gísladóttur, innritaðist 16 ára gamall í Hafnarháskóla, tók lárviðarpróf í heimspeki 1757, lokapróf í guðfræði 1763. Stóð til boða prófessorsstaða í stærðfræði við Hafnarháskóla, en vígðist að beiðni föður síns 1776 til kirkjuprests í Skálholti og 1777 til biskups, tók þó ekki við embættinu fyrr en 1785. Lést í Skálholti 1796.

Hannes var undir miklum áhrifum frá heimspeki upplýsingarinnar, einkum Wolffs, og kenndi ýmsar greinar heimspekinnar við Skálholtsskóla út frá kennslubókum sem lærisveinar Wolffs höfðu samið.

Nokkur önnur rit: Um mannfækkun af hallærumGaman og alvara.

« Til baka

Helgi Pjeturss

Helgi Pjeturss (1872-1949) náttúrufræðingur og heimspekingur.

Fæddur 31. mars í Reykjavík, sonur Péturs bæjargjaldkera Péturssonar og Önnu Sigríðar Vigfúsdóttur. Stúdent 1891, meistarapróf (cand. mag.) í náttúrusögu og landafræði við Hafnarháskóla 1897 og doktorspróf 1905 fyrir rit um jarðfræði Íslands. Sinnti jarðfræðirannsóknum en er nú einkum þekkur fyrir heimssfræði sína sem kennd er við rit hans Nýal og fjallar um samband draumalífs við líf á öðrum hnöttum. Heimsfræði hans, sem byggist að hluta til á þýskri, rómantískri heimspeki, hefur oft gengið undir heitinu „íslensk heimspeki“ meðal fylgismanna hans (nýalssinnar).

Helgi ritaði áhugaverða grein um íslenska heimspeki til forna og telur að hugsun Íslendinga kristallist í málsháttum („Íslenzk heimspeki“, Skírnir, 1908)

Nokkur önnur rit: Nýall. Nokkur íslenzk drög til heimsfræði og líffræði (1919-1920)

« Til baka