Færslusöfn

Husserl um samhuglægni

eftir Jóhann Helga Heiðdal

Fyrirbærafræði er ein áhrifamesta heimspekistefna 20. aldarinnar. Hún getur reynst flókin við fyrstu sýn og því auðvelt að misskilja hana. Ekki bætir það úr skák að helstu frumkvöðlar stefn­unnar voru ekki sammála um undirstöðuatriði hennar. Þannig er að vissu leyti skiljanlegt að fyrirbærafræðin hefur verið gagnrýnd, oft harkalega og hefur sú gagnrýni komið frá öllum greinum heimspekinnar eða vísindanna og beinst að mörgum ólíkum atriðum sem fyrirbærafræðin hefur lagt áherslu á. Ein háværasta gagnrýnin er á þá leið að fyrirbærafræðin, með því að leggja alfarið áherslu á sjálfsveruna og reynslu hennar, skeyti ekkert um samhuglægni (intersubjectivity).1 Það er að segja, fyrirbærafræðinni og upphafsmanni hennar Husserl sérstaklega, hafi alveg yfirsést, ýtt til hliðar eða ekki getað tekist á við upplifun okkar á hinum2 og sameiginlegri reynslu okkar af heiminum. Sem dæmi um þessa gagnrýni má nefna Daniel Dennet sem færir vafasöm rök fyrir því að fyrirbærafræðin sé föst í aðferðafræðilegum sólipsisma sem einbeiti sér einungis að lokuðu hugarlífi sjálfsins og sé þar með ófær um að rannsaka upplifun okkar á öðrum.3 Þessa gagnrýni þarf að taka alvarlega þar sem markmið fyrirbærafræðinnar bregðast ef hún gefur ekki greinargóða mynd af mikilvægi samhuglægni. En þessi gagnrýni er að miklu leyti byggð á alvarlegum misskilningi þar sem Husserl lagði einmitt mikla áherslu á að skýra þennan mikilvæga hluta mannlegrar reynslu. Efni þessarar greinar er því ágrip af samhuglægni hjá aðal­hugmyndasmiðum fyrirbærafræðinnar í þeim tilgangi að svara gagnrýnisröddum sem þegar betur er að gætt eru byggðar á misskilningi og/eða fáfræði.

Husserl og mikilvægi hins

Markmið Husserls með fyrirbærafræði sinni er að rannsaka mannlega reynslu eins og hún birtist í reynslunni sjálfri. Þannig ýtir hann til hliðar allri fræðilegri og vísindalegri þekkingu sem hann telur virka sem eins konar fordóma og byrgja okkur sýn. Þessa afstöðu, sem við erum alltaf í þótt við gerum okkur ekki endilega grein fyrir því, kallar hann náttúrulegu afstöðuna (the natural attitude). Til að sneiða framhjá þessum fordómum og „snúa aftur að hlutunum sjálfum“ setjum við í sviga (bracket) eða gleymum tímabundið ýmsum hugmyndum sem eru okkur eðlislægar. Husserl vill meina að þessi fyrirbærafræðilega aðferð opni fyrir okkur svið reynslunnar eins og hún birtist okkur í skynjuninni sjálfri. Aðferðin:

Skilur okkur þannig ekki eftir tómhent. Þvert á móti græðum við eitthvað á henni og það sem við (eða enn frekar, það sem ég, sá sem er að hugleiða) græðum er hrein upplifun með öllum hreinu huglægu ferlunum sem upplifunin saman­stendur af og allt sem er innifalið í þeim, eins og upplifunin er ætluð. Veröld „fyrirbæranna“ í (þröngum og víðum) fyrirbærafræðilegum skilningi.4

Með þessari aðferð dregur Husserl fram forskilvitlega eiginleika sjálfsins5. En þessi aðferð er augljóslega mjög sjálfsmiðuð, þ.e.a.s. einblínir alfarið á fyrstu persónu, huglægt sjónarhorn sjálfsins. Hvernig getur hann útskýrt upplifun okkar á hinum? Svarið við því er að Husserl fer mjög frumlega leið við að svara spurningunni hvernig við getum skilið aðra huga. Í stuttu máli sagt neitar hann að þetta sé vandamál yfirhöfuð. Hann bendir á að ef hinn væri gefinn í reynslu sjálfsins þá væri þetta í raun ekki hinn heldur aðeins hluti af reynslu sjálfsins. Það er að segja, skilyrðið fyrir því að hinn getur verið gefinn í reynslu sjálfsins sem hinn er að hann er að vissu leyti ekki gefinn að öllu leyti. Ef hinn væri gefinn að öllu leyti í reynslu sjálfsins væri hann alls ekki hinn, þá væri hann aðeins hluti af minni huglægri reynslu. Husserl áttaði sig á mikilvægi þess að skilja sjálfið og hinn að, því ef hinn væri ekki að einhverju leyti óaðlaganlegur að reynslu sjálfsins þá: „væri það aðeins hluti af mínu eigin eðli, og við værum á endanum hinn sami.“6

        Husserl vildi því viðhalda mismuninum á sjálfinu og hinum í staðinn fyrir að útrýma því eða líta á það sem vandamál. Að þessu leyti hefur þetta svokallaða vandamál oft verið misskilið af fyrri heimspekingum. Danski fyrirbærafræðingurinn Dan Zahavi kemst svo að orði:

Þegar ég upplifi sannarlega annað sjálf er ég nákvæmlega að upplifa að sjálfið, ólíkt hlutum, kemst undan upplifun minni. Að krefjast meira, að halda fram að ég upplifi aðeins hinn þegar ég hef aðgang að fyrstu-persónu reynslu hins er grundvallar misskilningur sem reynir að útrýma forskilvitleika hins, í stað þess að virða það eins og Husserl gerir.7

Husserl áttar sig mjög skýrt á mikilvægi annarleika hins og vill viðhalda því í staðinn fyrir að útrýma. En hvernig er hinn gefinn í reynslu sjálfsins að hans mati? Í fyrsta lagi leggur Husserl áherslu á líkamleika sjálfsins. Það er að segja, þegar við skynjum hinn skynjum við hann alltaf í líkama sínum. En þessi líkami er ekki skynjaður eins og aðrir hlutir í hinum efnislega heimi: „Líkamarnir sem að utan standa á móti mér eru skynjaðir af mér sem upprunaleg nærvera eins og aðrir hlutir, en innihald hugans er skynjað óbeint.“8

        Þegar við skynjum hinn er hann með-gefinn eða óbeint-ætlaður (e. appresented/co-intended). Það sem Husserl á við með þessu hugtaki er að hinn er aldrei gefinn í reynslu okkar. Hann bendir reyndar einnig á að þess konar óbein-ætlun á einnig við í tilfelli venjulegra hluta.9 Það er vegna þess að við skynjum aldrei allan hlutinn, sama hver hluturinn er. Ef við skynjum bók skynjum við aldrei alla bókina, við skynjum alltaf bara hluta af henni, frá vissu sjónarhorni. En þrátt fyrir takmarkað sjónarhorn okkar sjáum við hlutinn sem bók. Þannig er hún með-gefin og hluturinn sjálfur birtist okkur sem hlutur og nær út fyrir skynjunina sjálfa. Þannig er alltaf meira gefið í skynjun okkar en eintóm skynjunin sjálf.

        En með-gefni hins er af öðrum toga. Þrátt fyrir að hinn getur aldrei verið skynjaður að öllu leyti þá er hann gefinn í því sem Husserl kallar pörun (Parrung): „Nátengt fyrstu ráðgátunni er aðstæðan þegar sjálfið (ego) og hitt-sjálfið (alter-ego) eru alltaf og nauðsynlega gefin í uppruna­legri „pörun.“10 Það sem hann á við er að eftir að við höfum beitt hinni fyrirbærafræðilegu aðferð og ýtt til hliðar náttúrulegu afstöðunni þá birtist hinn samt ekki sem einhver ráðgáta sem við skiljum ekki til hlítar. Við tengjumst hinum á einhvern hátt. Þessi pörun á milli sjálfa er undir­liggjandi og frumstæð tenging, eitthvað sem gerist án neinnar hugrænnar áreynslu af hálfu sjálfins. Husserl lýsir þessu ferli frekar sem passífum samruna:

Í pörunar kynnum er eftirtektarverðasti eiginleikinn sá að, í frumstæðasta til­fellinu eru tvær gerðir af upplýsingum gefnar í gegnum innsæi og í heild með­vitundarinnar. Á þessum grundvelli birtast þessar upplýsingar fyrirfram, passíft sem mismunandi upplýsingar og þær mynda fyrirbærafræðilega heild mis­munar og samanstanda þannig alltaf af pari, hvort sem tekið er eftir því eður ei.11

Að þessu leyti er skynjun okkar á hinum og samskipti mismunandi sjálfa mjög frumstæð upplifun. En það er mikilvægt að undirstrika hér að pörun í skilningi Husserls er ekki á neinn hátt tilleiðsla eða getgáta eins og hann tekur skýrt fram.12 Við skynjum ekki hinn sem einhvers konar ráðgátu, eitthvað sem við höfum engan aðgang að og þurfum þannig að mynda okkur eigin kenningar um hvað gæti verið í gangi í huga hins.13 Við yfirfærum heldur ekki okkar eigin reynslu yfir á hinn. það sem Husserl er hér að halda fram er mun beinni upplifun sem kemur á undan allri íhugun (pre-reflective).14 Við skynjum hinn beint, og ómeðvitað í vissum skilningi, það krefst engrar hugrænnar leikfimi að komast að því hvað hinn er að gera, hugsa o.s.frv. En það er þó ekki þar með sagt að hinn sé gjörsamlega opinn heldur. Auðvitað getur hinn blekkt okkur á ýmsan hátt en það sem Husserl er að benda á er að þau tilfelli, þegar við misreiknum eða skiljum ekki hinn, eru undantekningartilfelli en ekki venjuleg upplifun. Það er aðeins þegar venjuleg samskipti okkar eru trufluð á einhvern hátt (t.d. ef hinn er vísvitandi að reyna að blekkja, þegar fólk er að leika o.s.frv.) sem upplifun okkar á hinum verður að vandamáli.

        Mikilvægt atriði sem Husserl dregur hér fram er að ég sem líkamleg vitund er alltaf á vissum stað á vissum tíma. Ég er alltaf „hér“, ég hef alltaf vissa staðsetningu og sjónarhorn. En hlutir í kringum mig eru staðsettir í kringum mig á öðrum stað, „þar“. En ég get skipt og breytt til staðsetningu minni í rýminu og farið „þangað“ og tileinkað mér það sjónarhorn. Þetta gefur mér allt aðra reynslu af hlutnum sem um ræðir. Husserl bendir á að þessi sjálfsögðu sannindi leiði í ljós mikilvægan þátt í samhuglægni og upplifun sjálfsins á hinum: „hinn er ekki með-gefinn mér sem einföld eftirmynd af mér sem hefur mitt reynslusvið eða svipað þvíumlíkt eftir allt.“15 Ég er alltaf „hér“ en sjónarhorn hins er ætlað og með-gefið af mér þegar hann er „þar“, á sama hátt og ég og mitt sjónarhorn er með-gefið hinum í reynslu hans.

        Annað lykilhugtak sem er mikilvægt að nefna í þessu samhengi er það sem Husserl kallar samkennd (Einfühlung). Með þessu hugtaki er Husserl að reyna að setja í orð þá tegund sem reynsla okkar af hinum er, hvernig hann er gefinn í huglægri reynslu okkar. Því er samkennd sérstök tegund af ætlun (intentionality), ólík öðrum tegundum svo sem þegar við upplifum venjulegan hlut, ímyndum okkur hluti sem eru ekki til, munum eftir atburðum sem eru liðnir o.s.frv. Allt eru þetta mismunandi aðferðir þar sem við ætlum mismunandi fyrirbæri en í gegnum samkennd upplifum við hinn beint. Husserl sjálfur skýrir þetta hugtak á einum stað þannig að: „hver einasta ego-vitund hefur sinn samkenndar sjóndeildarhring, sem nær utan um sam-vitundir hennar og getur verið opnuð í gegnum bein eða óbein samskipti við keðju annarra sem eru allir hinn fyrir hinum, með möguleikanum á öðrum og fleiri hinum, o.s.frv.“16 Því er samkennd grund­vallarstaðreynd reynslu okkar, eitthvað sem opnar fyrir okkur heiminn eins og við skiljum hann. Heim sem samanstendur af öðrum sjálfum sem einnig hafa reynslu og tilfinningar og skynja heiminn á svipaðan hátt og við gerum. Því er þetta lykilhugtak hjá Husserl.17

        Það sem Husserl hefur hér leitt í ljós hefur áhugaverðar afleiðingar. Sú staðreynd að hinn er ætlaður og með-gefinn á þennan hátt gefur góðan grunn fyrir þekkingu okkar á heiminum eins og við þekkjum hann, heiminum sem er deilt á milli ólíkra aðila. Einnig gefur þetta vísbendingu um sameiginlegan tímanleika þessara aðila. Sú grundvallarstaðreynd að tvö sjálf geta ætlað sama hlutinn á ólíkan hátt bendir til eins konar blöndun sjónarhorna og að lokum til samruna: „Öll blöndun sjónarhorna sem á sér stað, á sér stað fyrir tilstilli sameiginlegrar pörunar og er á sama tíma samruni og þar með, að svo miklu leyti sem erfiðleikar gera ekki vart við sig, tileinkun. Eignun skynjunar eins á skynjunar annars.“18 Jafnvel þó að tvö sjálf hafi einstakt sjónarhorn og geti aldrei öðlast aðgengi að skynjun hvors annars, styðja ætlanir þeirra hvort annað og gefa hvort öðru vægi. Í þessum skilningi er hlutlægni og tímanleiki byggð á samhuglægni að mati Husserl. Það er aðeins þegar við skiljum að aðrir eru í sama heimi og við og skynja sömu hlutina (á annan hátt þó) sem hlutirnir sem skynjaðir eru verða hlutlægir. Því byggist hlutlægni beint á sam­huglægni. Ef það væri ekki möguleiki á að hlutur gæti verið ætlaður af hinum yrðum við að íhuga hvort uplifun okkar væri ekki einhvers konar tálsýn eða ofskynjun. Husserl segir:

Á þennan hátt er sam-tilvera míns-sjálfs og hins-sjálfsins, heild míns sjálfs og hins, mínar skynjanir og hans, „raunveruleikar“ mínir og hans – í stuttu máli sameiginlegt tíma form okkar uppbyggt. Þannig öðlast allur grundvallar tíman­leiki sjálfkrafa það mikilvægi að vera upprunalegt form birtingar hlutlægs tíman­leika fyrir vissu sjálfi. Í þessu samhengi sjáum við að hið tímanlega samfélag hinna gefnu, innra tengdu mónaða er órjúfanlegt af því að það tengist á grund­vallar hátt gerð heims og heimstíma.19

Í þessu yfirliti hef ég hingað til einblínt á ritin sem Husserl skrifaði á miðjum ferli sínum en, eins og alkunna er var fyrirbærafræði hans í stöðugri þróun. En það er í síðasta, ókláraða riti sínu þar sem hann gerir hvað mest grein fyrir sameiginlegri upplifun okkar á heiminum og hvert öðru. Er því nauðsynlegt að gera lítillega grein fyrir þessu riti og hugtakinu sem Husserl innleiðir þar, líf-heiminum.

Líf-heimur Husserls

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir fullum titli ritsins sem hér er til umfjöllunar, í enskri þýðingu: The Crises of European Sciences and Transcendental Phenomenology: An Introduction to Phenomenological Philosophy. Það hlýtur að vera eilítið undarlegt að í þessu riti, sem Husserl skrifar undir lok ferils síns er hann enn að vinna í inngangi að fyrirbærafræði sinni, verkefni sem hann hafði margoft unnið í áður og eru mörg fyrri rit hans einnig titluð sem inngangur. Það sem þessi staðreynd hlýtur að gefa til kynna er að Husserl var í einhverjum skilningi ósáttur við fyrri tilraunir sínar og ætlar hér að bæta um betur eða gefa fyrirbærafræðinni einhvern annan fókus eða skilning.

        Eitt af fyrirferðamestu hugtökunum í þessu riti er það sem Husserl kallar „líf-heimur“. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta hugtak kemur fyrir hjá Husserl en hér hefur það sérstakt vægi. Það sem hann á við með þessu hugtaki er sá samhuglægi grunnur sem vísindin byggja á en þau sjálf afneita eða gera sér ekki grein fyrir. Vísindin hafa fjarlægst undirstöður sínar í raunverulegri reynslu með því að stunda rannsóknir á heiminum út frá (ímynduðu) þriðju-persónu, huglægu sjónarhorni. Með þessu missa vísindin viss tengsl við hinar raunverulegu undirstöður sínar. Er þetta krísan sem titill ritsins bendir til. Hann skrifar: „Hinn áþreifanlegi líf-heimur er því grunn­jarðvegur [der grundende Boden] hins ‚vísindalega sanna‘ heims og umlykur hann á sama tíma í sínum algilda áþrifanleika.“20 Því telur Husserl mikilvægt að afhjúpa þennan grundvallar jarðveg huglægrar reynslu og það er nákvæmlega fyrirbærafræði hans sem er fær um það.

        Líf-heimurinn er hinn samhuglægi reynsluheimur okkar sem kemur á undan allri íhugun, á undan allri vísindalegri, hlutlægri þekkingu. Husserl hafði tekist á við samhuglægni áður eins og ég hef gert grein fyrir en hér nálgast hann viðfangsefnið á annan hátt með því að leggja áherslu á sameiginlegan heim okkar sem saman stendur af menningu, náttúru, samfélagi o.s.frv. Þessi svið reynslunnar eru ekki afhjúpuð af vísindunum heldur eru þau alltaf nú þegar gefin í sam­huglægum skilningi okkar, í daglegu lífi og reynslu. En það er líka mikilvægt að átta sig á því að líf-heimurinn er ekki fast og óbreytanlegt svið reynslunnar. Skilningur okkar á vissum hlutum sem verða á vegi okkar í heiminum getur breyst og orðið fyrir áhrifum frá vísindalegum uppgötvunum þannig að skynjun okkar á þeim verður vísindaleg áður en virkileg vísindaleg, hlutlæg íhugun á sér stað af okkar hálfu. Eins og Dan Zahavi kemst að orði: „Eftir því sem tíminn líður eru fræði­legar forsendur aðlagaðar að daglegu lífi og verða hluti af líf-heiminum. Við gerum öll ráð fyrir að jörðin sé hnöttótt til dæmis jafnvel þótt fá okkar hafa séð þessa staðreynd, við notum ítrekað hjálparefni sem eru upprunnin frá vísindum svo sem vítamín og sólarvörn.“21

        Hér er auðvelt að misskilja Husserl og skilja hann sem svo að hann sé á einhvern hátt á móti vísindunum. En því fer fjarri. Husserl er ekki að ráðast á eða gagnrýna vísindin beint. Þvert á móti dáðist Husserl að vísindunum og þeirri þekkingunni sem þau hafa leitt af sér eins og hann undirstrikar oft í ritum sínum. Fyrirbærafræði hans er nákvæmlega tilraun til að gera heimspekina að vissri tegund af vísindum, fræðigrein sem leiðir af sér óvéfengjanleg, hlutlæg sannindi og gefur mannlegri þekkingu þannig fastan grunn. Að þessu leyti deilir fyrirbærafræðin, grundvöllur hinnar svokölluðu meginlandsheimspeki þessari hugsjón með upphafsmönnum analýtískrar heimspeki, einkum Frege og Russel eins og ýmsir hafa bent á, einna helst Richard Rorty í greiningu hans á heimspekisögunni.22

Hér sjáum við greinilega þróunina í hugsun Husserls. Í fyrri ritum sínum notfærði hann sér fyrirbærafræðilegar smættanir sínar til að afhjúpa sjálfið og hvernig það ætlar hluti, hvernig þeir eru gefnir í meðvitundinni. Þetta var fyrsta skrefið sem afhjúpaði einnig mikilvægi samhuglægni og upplifun okkar á hinum. Husserl gengur að lokum enn lengra með því að leggja áherslu á sameiginlegan líf-heim okkar sem kemur á undan allri fræðilegri- og vísindalegri íhugun. Við deilum öll þessum líf-heim og mótar hann reynslu okkar, vísindalega íhugun og rannsóknir einnig. Husserl hefur því lagt grunninn sem hærri stig tilvistarinnar byggjast á svo sem menning og samfélag. Því er það algengur misskilningur að Husserl sé oft að gefast upp og byrja upp á nýtt á heimspekiferli sínum. Vissulega eru breytingar á fyrirbærafræði hans og hvernig hann sér hana fyrir sér en þær eru þó ekki það miklar að þær koma í veg fyrir að við skiljum heimspeki Husserl sem þróun en ekki gjörólík tímabil með allt öðrum áherslum.

Þetta yfirlit ætti að duga til að hrekja þær gagnrýnisraddir sem telja að Husserl hafi á einhvern hátt verið sólipsisti sem skeytti ekkert um samskipti og upplifun okkar á hinum. Hér hefur verið gerð grein fyrir samhuglægni í meðförum Husserls og áttu hugmyndir hans um þetta viðfangsefni eftir að ná langt og hafa áhrif á marga. Af þeim er Heidegger einn af þeim mikilvægustu og kom hann með mikilvægt framlag til fyrirbærafræðilegs skilnings á samhuglægni.

Neðanmálsgreinar

1. Björn Þorsteinsson hefur þýtt „intersubjektivitet“ sem „samveruleika“ í Zahavi, D.: Fyrirbærafræði. Heim­spekistofnun og Háskólaútgáfan, 2008, sjá orðalista, bls. 125. Að mínu mati nær sú þýðing ekki merkingu orðsins almennilega, þar eð það undirstrikar ekki nóg að þetta sé huglægt fyrirbæri sjálfsverunnar. Í þessari grein styðst ég þó að ýmsu leyti við þýðingar Björns á fyrirbærafræðilegum hugtökum í riti Zahavis.

2. Hinn er íslensk þýðing á hinu algenga, enska hugtaki the other/Other. Hugtakið er ýmist notað með stórum upphafsstaf eða ekki eftir því hvaða heimspekingur um ræðir en ég kýs að halda mig við hefðbundna íslenska stafsetningu og þar með sleppa stórum staf.

3. Dennet, D.: The Intentional Stance. The MIT Press, Cambridge, 1987, bls. 153-154.

4. Husserl, E.: Cartesian Meditations: An Introduction to Phenomenology, D. Cairns (þýð.), Dordrecht: Kluwer Academic Publishers, 1999, bls. 20-21.

5. Hér er að sjálfsögðu átt við seinni skrif Husserls. Í fyrsta mikilvæga verki hans, sem á ensku er nefnt Logical Investigations eyðir hann miklum tíma í að neita hugmyndinni um sjálf (ego), og þau rök áttu seinna eftir að vera tekin upp og notuð af Sartre í Veru og neind. En ástæðan fyrir að hann skipti um skoðun frá Logical Investigations til seinni skrifa var nákvæmlega sú að annars gat hann ekki gert grein fyrir upplifun sjálfsins á hinum, sú reynsla gerir nauðsynlega ráð fyrir einhvers konar sjálfi sem er aðskilið frá öðru sjálfi.

6. Husserl, E.: The Essential Husserl: Basic Writings in Transcendental Phenomenology. Welton, D (ritstj.), Dorion Cairns (þýð.), Bloomington: Indiana University Press, 1999, bls. 146.

7. Zahavi, D.: Husserl‘s Phenomenology. Stanford, California: Stanford University Press, 2003, bls. 114.

8. Husserl, E: Ideas II, R. Rojcewicz & A. Schuwer (þýð.), Dordrecht: Kluwer Academic Publishers, 1989, bls. 172.

9. Husserl, E.: The Essential Husserl: Basic Writings in Transcendental Phenomenology. Welton, D (ritstj.), Dorion Cairns (þýð.), Bloomington: Indiana University Press, 1999, bls. 146.

10. Sama rit, bls. 148.

11. Sama rit, bls. 148.

12. Sama rit, bls. 147.

13. Að þessu leyti er Husserl að gagnrýna harkalega báðar háværustu kenningarnar í nútímafræðum sem fjalla um vandamálið um hinn, svokallaðar Theory-theory og Simulation Theory. Sú fyrri gengur í grófum dráttum út á að við myndum okkur grófar kenningar um hvernig hugurinn virkar og notum þær hugmyndir til að skilja aðra á meðan að sú seinni gengur út á að við nýtum okkur eigin reynslu til að skilja aðra, líkjum eftir atferli annarra í okkar eigin upplifun og skiljum þannig hinn. Þetta eru þó grófar skilgreiningar á þessum kenningum og margar útgáfur eru til ásamt ýmsum blöndum af báðum. En það sem er athyglisvert hér er að Husserl sneiddi fram hjá öllum erfiðleikunum sem þessar kenningar vekja upp, löngu áður en kenningarnar sjálfar komu til sögunnar!

14. Björn Þorsteinsson þýðir hugtakið „før-refleksiv“ sem „óyfirvegaður“ í Zahavi, D.: Fyrirbærafræði. Heim­spekistofnun og Háskólaútgáfan, 2008, sjá orðalista, bls. 125.

15. Husserl, E.: The Essential Husserl: Basic Writings in Transcendental Phenomenology. Welton, D (ritstj.), Dorion Cairns (þýð.), Bloomington: Indiana University Press, 1999, bls. 150.

16. Husserl, E.: The Crisis of European Sciences and Transcendental Phenomenology, D. Carr (þýð.), Evanston, Ill.: Northwestern University Press, 1970, bls. 255.

17. Mikilvægi Einfühlung hefur einnig náð langt út fyrir Husserl. Tildæmis skrifaði nemandi Husserls, Edith Stein, áhrifamikla doktorsritgerð um nákvæmlega þetta hugtak. Í nútímanum hefur það einnig verið tíðrætt meðal taugalíffræðinga í samhengi við uppgötvun svokallaðra speglatauga (mirror neurons).

18. Husserl, E.: The Essential Husserl: Basic Writings in Transcendental Phenomenology. Welton, D (ritstj.), Dorion Cairns (þýð.), Bloomington: Indiana University Press, 1999, bls. 151.

19. Sama rit, bls. 156.

20. Husserl, E.: The Crisis of European Sciences and Transcendental Phenomenology, D. Carr (þýð.), Evanston, Ill.: Northwestern University Press, 1970, bls. 131.

21. Zahavi, D.: Husserl‘s Phenomenology. Stanford, California: Stanford University Press, 2003, bls. 130.

22. Rorty gefur greinargóða umfjöllun um sameiginlega hugsjón meginlands- og analýtískrar heimspeki við upphaf beggja stefnanna, hjá Husserl annars vegar og Frege, Russell og fyrri Wittgenstein hins vegar. Að hans mati var þessari hugsjón, að uppgötva grunn þekkingarinnar, útrýmt af seinni heimspekingum beggja stefnanna, t.d. Heidegger og Derrida í meginlandsheimspeki og seinni Wittgenstein og Quine í rök­greiningarheimspeki.
Sjá einkum: Rorty, R.: Philosophy and the Mirror of Nature. Princeton University Press, Princeton, 2009.