Færslusöfn

Skipulagsrökin

eftir Ben Dupré

Litist um í veröldinni: Skoðið heildina og alla hluta hennar, og þið munuð komast að raun um að hún er ekkert annað en risavaxin vél sem greinist í óendanlegan fjölda smærri véla sem aftur greinast á sama hátt, út fyrir mörk mannlegrar skynjunar og sálargáfna. Allar þessar margvíslegu vélar, og jafnvel smæstu hlutar þeirra, eru samstilltar með þvílíkri nákvæmni að allir, sem á annað borð hafa virt þær fyrir sér, hrífast til aðdáunar. Furðuleg samhæfing markmiða og leiða í gervallri náttúrunni líkist nákvæmlega mannaverkum sem sprottin eru af ásetningi, hugsun, visku og viti þótt hún taki þeim langt fram. Úr því afleiðingarnar líkjast hver annarri hljótum við að álykta eftir öllum líkingareglum að orsakirnar séu einnig svipaðar og höfundur náttúrunnar sé áþekkur manns­andanum, enda þótt hann sé gæddur langtum stórbrotnari sálargáfum í hlutfalli við mikilleika þess verks sem hann hefur unnið. Með þessum reynslurökum, og þeim einum saman, gerum við hvort tveggja: að sanna tilvist guðdóms og líkingu hans við mannsanda og mannvit.

Þessa gagnorðu framsetningu skipulagsrakanna fyrir tilvist Guðs leggur David Hume í munn formælanda þeirra Kleanþesar í bókinni Samræður um trúarbrögðin (Dialogues Concerning Natural Religion) sem kom út að honum látnum árið 1779.1 Ætlun Humes var að setja rökin fram í þeim tilgangi að hrekja þau – og flestir telja að honum hafi tekist með ágætum að rífa þau í tætlur. En það er til marks um varanleika og aðdráttarafl þessara raka að þau lifðu ekki aðeins af niðursöllun Humes heldur hafa þau haldið áfram að skjóta upp kollinum í breyttum búningi til þessa dags. Þótt áhrif þeirra hafi kannski verið í hámarki á 18. öld er hægt að rekja upphaf þeirra aftur til fornaldar og þau hafa reyndar aldrei farið úr tísku.

Hvernig rökin virka.

Ævarandi styrkur skipulagsrakanna byggist á því áhrifamikla og almenna innsæi að fegurð, skipulag, margslungin gerð og að því er virðist tilgangur í heiminum kringum okkur geti einfaldlega ekki verið afurðir tilviljunarkenndra og hugsunarlausra náttúruferla.2 Mönnum finnst að það hljóti að vera til einhver gerandi sem er gæddur óhugsanlega miklum vitsmunum og færni sem þarf til að skipuleggja og búa til öll dásamlegu fyrirbærin í náttúrunni. Þau eru svo afbragðsvel upphugsuð og hönnuð til að gegna hinum margvíslegu hlutverkum sínum. Tökum mannsaugað sem dæmi: Það er svo flókin smíð og furðulega vel lagað að tilgangi sínum að það hlýtur að hafa verið hannað til þess.

Rökfærslan byrjar með því að telja upp nokkur eftirlætisdæmi um slíka (að því er virðist) hugvitssemi í náttúrunni og heldur venjulega áfram með því að benda á hliðstæðu við smíðisgripi manna sem sýna greinilega merki uppruna síns. Þannig að rétt eins og úr, svo dæmi sé tekið, er listilega hannað og smíðað í ákveðnum tilgangi og fær okkur til að álykta um tilvist úrsmiðs, þannig fá hin óteljandi merki um, að því er virðist, ætlun og tilgang í náttúrunni okkur til að álykta að hér sé líka hönnuður að verki: arkitekt fær um að skipuleggja og hanna undur alheimsins. Og eini hönnuðurinn með afl til að ráða við slíkt verkefni er Guð.

Gallar á hönnun.

Þrátt fyrir varanlegt aðdráttarafl skipulagsrakanna hafa komið fram nokkrar alvarlegar mótbárur gegn þeim, frá Hume og öðrum. Eftirfarandi mótbárur eru meðal hinna skæðari.

Rökfærsla út frá hliðstæðu gengur út á að halda því fram að séu tveir hlutir nægilega líkir í ákveðnum þekktum atriðum þá sé réttlætanlegt að gera ráð fyrir að þeir líkist einnig í öðrum, óþekktum atriðum. Menn og sjimpansar eru nægilega líkir lífeðlis- og atferlislega svo að gera má ráð fyrir að þeir, líkt og við, finni til sársauka, svo dæmi sé tekið (þó við getum aldrei vitað það með vissu). Styrkur hliðstæðurökfærslu ræðst af því hve mikil líking sem máli skiptir er milli hlutanna sem bornir eru saman. En líkingaratriðin milli smíðisgripa manna (t.d. myndavéla) og náttúrlegra hluta (t.d. augna í spendýrum) eru í raun tiltölulega fá, svo að allar niðurstöður sem við komumst að með hliðstæðu­rökum eru haldlitlar í samræmi við það.

Skipulagsrökin virðast berskjölduð fyrir vítarunu. Ef hin undursamlega fegurð og skipulag alheimsins þarfnast hönnuðar, hve miklu frekar þarfnast hans þá ekki þessi undraheimur og arkitektinn á bak við þetta allt? Ef við þurfum hönnuð lítur út fyrir að við þurfum yfirhönnuð og síðan yfir-yfirhönnuð og svo koll af kolli.

Það sem helst mælir með skipulagsrökunum er að þau útskýra hvernig náttúruundur eins og manns­augað verða til og virka svo vel. En það eru einmitt slík undur og hæfni þeirra til að gegna ákveðnu hlutverki sem hægt er að útskýra með kenningu Darwins um þróun með náttúruvali, án nokkurra yfirnáttúrlegra afskipta vitiborins hönnuðar. Guðlegi úrsmiðurinn virðist hafa misst vinnu sína til blinda úrsmiðsins.

Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að skipulagsrökin hafi verið samþykkt þá eru takmörk fyrir því hve mikið hefur í raun og veru verið viðurkennt. Margir „smíðisgripir“ náttúrunnar kynnu að benda til þess að þeir hafi verið hannaðir af nefnd svo að við gætum þurft teymi guða, og við erum áreiðanlega ekki takmörkuð við eitt. Næstum því allir náttúrugripir, hversu mikilfenglegir sem þeir eru almennt, eru ekki alfullkomnir í einstökum atriðum. Bendir ekki gölluð hönnun til gallaðs (ekki-almáttugs) hönnuðar? Almennt séð gerir hið mikla böl í heiminum siðferði skapara hans tortryggilegt. Og vitaskuld er engin knýjandi ástæða til að ætla að hönnuðurinn, hversu gott verk sem hann vann, sé enn á lífi.

Guðlegi úrsmiðurinn og sá blindi.

Í bók sinni Náttúrleg guðfræði frá 1802 setti guðfræðingurinn William Paley fram eina frægustu út­listun á skipulagsrökunum. Ef svo vildi til að maður fyndi úti í óbyggðum armbands- eða vasaúr mundi hann óhjákvæmilega álykta af hinni flóknu gerð og nákvæmni smíðinnar að það hlyti að vera handaverk úrsmiðs. Á sama hátt er maður, þegar hann skoðar hin undursamlegu verk náttúrunnar, knúinn til að álykta að þau hljóti líka eiga sér skapara – Guð. Með vísun til hinnar myndrænu líkingar Paleys lýsir breski líffræðingurinn Richard Dawkins náttúruvalsferlinu sem „blindum úrsmið“ vegna þess að það mótar í blindni hinar flóknu formgerðir náttúrunnar án nokkurrar framsýni, tilgangs eða stefnu.3

Fínstilling í alheimi.

Sum nútímaafbrigði af skipulagsrökunum byggja á því hve afar ólíklegt er að öll skilyrðin í alheimi hafi verið nákvæmlega eins og þau urðu að vera til þess að líf gæti þróast og dafnað. Hefðu einhverjar af hinum mörgu breytum, svo sem þyngdarkrafturinn og upphaflegur hiti alheimsins sem var að þenjast út, verið örlítið öðruvísi mundi líf ekki hafa myndast. Í stuttu máli virðist vera vísbending um svo nákvæma fínstillingu alheimsins, að gera verði ráð fyrir að hún sé verk ákaflega máttugs fínstillara. En ólíklegir hlutir gerast. Það er ótrúlega ólíklegt að maður fái gríðarstóran happdrættisvinning en það er mögulegt, og fengi maður vinninginn mundi hann ekki telja að einhver hefði hagrætt útkomunni honum í hag – hann mundi þakka hana óvenjulegri heppni. Það kann vel að vera ólíklegt að líf þróaðist, en það er aðeins vegna þess að það gerðist að við erum hér til að hafa orð á því hve ólíklegt það var – og til að draga rangar ályktanir af hve ólíklegt var að það gerðist!4

Gunnar Ragnarsson þýddi

Neðanmálsgreinar

1. Þessi bók kom út í íslenskri þýðingu undirritaðs árið 1972 (önnur útg. 2002) sem Lærdómsrit hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Strangt tekið ætti hún að heita Samræður um náttúrleg trúarbrögð.

2. Skipulagsrökin (e. the argument from design) eru einnig þekkt undir heitinu tilgangsrökin (e. the teleological argument). ‘Teleological’ er leitt af gríska orðinu telos sem merkir ‘markmið’ eða ‘til­gangur’ vegna þess að hugmyndin sem liggur rökunum til grundvallar er að tilgangurinn sem við (að því er virðist) uppgötvum í starfsemi náttúrunnar sé vísbending um markvissan geranda sem ber ábyrgð á henni.

3. Bók Dawkins The Blind Watchmaker kom fyrst út 1986 og var endurprentuð með viðbæti 1991.

4. Þýtt úr bókinni 50 Philosophy Ideas You Really Need to Know eftir Ben Dupré sem kom út árið 2007. Heimspekivefurinn fékk góðfúslegt leyfi Quercus-útgáfunnar til þess að birta þessa þýðingu.