Færslusöfn

Descartes fyrir byrjendur

eftir Anthony Kenny1

Út allar miðaldir í Evrópu var Aristóteles hið óumdeilda kennivald í vísindum. Fyrir heilögum Tómasi frá Akvínó var hann heimspekingurinn; fyrir Dante var hann „meistari þeirra sem vita.“ Á fyrri helmingi sautjándu aldar breyttu verk franska heimspekingsins René Descartes þessu ástandi til frambúðar.

Descartes fæddist árið 1596, um það leyti sem Shakespeare var að skrifa Hamlet. Siðaskiptin höfðu skipt Evrópu í herbúðir mótmælenda og kaþólskra manna. Sjálfur tók hann þátt í trúarbragðastyrjöldunum. Þótt hann fæddist og dæi kaþólskur bjó hann mestalla ævi í Hollandi mótmælenda en ekki í heimalandi sínu, hinu kaþólska Frakklandi.

Descartes var að tvennu leyti ólíkur þeim heimspekingum sem voru uppi á öldunum á undan. Hann var leikmaður bæði í hinni klerklegu og faglegu merkingu. Allir hinir miklu heimspekingar miðalda höfðu verið kirkjunnar menn – prestar, biskupar, munkar – en Descartes var aftur á móti heimsmaður, ‘lausamaður’ sem lifði á eignum sínum. Og þótt allir heimspekingarnir á miðöldum hefðu verið háskólaprófessorar sem kenndu á fagmáli hélt Descartes aldrei á ævinni fyrirlestur en skrifaði oft fyrir hinn almenna lesanda. Frægasta verk hans, Orðræða um aðferð, var ekki skrifað á latínu hinna lærðu heldur á góðri látlausri frönsku svo að „jafnvel kvenfólk“, eins og hann komst að orði, gæti skilið það.

Descartes var mjög óvenjulegur snillingur. Nú á dögum eru það heimspekiverk hans sem eru mest lesin. Á hans dögum byggðist orðstír hans ekki síður á stærðfræði- og vísindaverkum hans. Hann lagði grundvöll að hnitarúmfræði og ‘cartesísku’ hnitin, sem hvert skólabarn lærir um, draga heitið af hinni latnesku mynd nafns hans, Cartesíus. Á fertugsaldri skrifaði hann ritgerð um ljósfræði sem var verulegt framlag til ljósfræðivísinda, árangur vandaðrar fræðilegrar vinnu og tilrauna með eðli augans og ljóssins. Hann samdi líka eina af fyrstu vísindalegu ritgerðunum um háloftafræði og á kröfu til að vera fyrstur til að uppgötva hið sanna eðli regnbogans.

Hápunkturinn á fyrsta vísindastarfi hans var ritgerð sem hét Heimurinn. Þar hugðist hann gera tæmandi vísindalega grein fyrir uppruna og eðli heimsins og starfsemi mannslíkamans. Þar tók hann upp tilgátu sem þá var óvenjuleg: að sólin en ekki jörðin væri miðpunktur heims okkar. Þegar hann var að ljúka þessu verki frétti hann að stjörnufræðingurinn Galilei hefði verið bannfærður af yfirvöldum kirkjunnar á Ítalíu fyrir að verja sama sólmiðjukerfi. Þetta varð til þess að hann tók þá ákvörðun að birta ekki ritgerðina. Hann geymdi hana hjá sér til dauðadags. Þegar hann var fertugur hafði hann áunnið sér nokkurt snillingsorð í vinahópi en hann hafði ekki enn gefið neitt út.

Árið 1637 ákvað hann að birta ljósfræðina, rúmfræðina og háloftafræðina, og var stutt Orðræða um aðferð formáli að þessum verkum. Vísindaritgerðirnar þrjár eru nú aðeins lesnar af sérfræðingum í sögu vísindanna, en formálinn er endurprentaður á hverju ári, hefur verið þýddur á meira en hundrað tungumál og er enn lesinn með ánægju af milljónum manna sem gætu ekki skilið verkin sem hann er inngangur að.

Formálinn er yndislegur sjálfsævisögulegur texti: fjörlegur, fágaður og hæðinn. Fáeinar tilvitnanir geta gefið keiminn af honum.

Ég lagði því bóknámið á hilluna jafnskjótt og ég varð nógu gamall til að losna undan yfirráðum kennara minna og afréð að leita ekki framar að öðrum vísindum en þeim sem ég fyndi í sjálfum mér eða í hinni miklu bók heimsins. Ég varði því sem eftir var æskuáranna til ferðalaga, til að sjá hirðir og heri, kynnast fólki, ólíku að hugarfari og kjörum, heyja mér ýmislega reynslu . . .
En ég var enn í menntaskóla þegar mér var kennt að ekkert gæti maður hugsað sér svo furðulegt né ósennilegt að ekki fyndust þess dæmi að einhver heimspekingur hefði haldið því fram. En á ferðum mínum síðar meir varð mér ljóst að allir þeir sem hafa allt aðrar skoðanir en við eru ekki þar fyrir siðleysingjar né villimenn, heldur hafa þeir margir hverjir skynsemina að leiðarljósi ekki síður en við og jafnvel fremur.
Fólk lætur miklu fremur stjórnast af hefð og fordæmi en óyggjandi þekkingu. En þó er ekkert mark að fylgi fjöldans við sannindi sem ekki liggja á yfirborðinu, því að miklu meiri líkindi eru til að einn maður finni þau en heil þjóð. Ég fékk því ekki séð að ég gæti tekið skoðanir eins manns fram yfir aðrar, og var þá nauðugur einn kostur að grípa til eigin ráða.2

Í Orðræðunni koma fram, í furðulega stuttu máli, aðalaatriðin í vísindalegum viðhorfum Descartes og heimspekilegri aðferð hans. Hann gat sett fram flóknar heimspekikenningar með svo miklum glæsibrag að þær virtust fullkomlega skiljanlegar við fyrsta lestur og láta samt enn í té efni til umhugsunar lærðustu sérfræðingum. Hann hældi sér af því að verk sín mætti lesa „alveg eins og skáldsögur.“ Meginhugmyndir hans má reyndar setja fram á svo gagnorðan hátt að þær kæmust fyrir aftan á póstkorti, og samt voru þær svo byltingarkenndar að þær breyttu gangi heimspekinnar um aldir.

Vildi maður skrifa meginhugmyndir Descartes aftan á póstkort þyrfti hann aðeins tvær setningar: Maðurinn er hugsandi andi. Efnið er rúmtak á hreyfingu. Allt í kerfi Descartes á að skýra út frá þessari tvískiptingu í anda og efni. Það er einmitt Descartes að þakka að við hugsum um anda og efni sem hinar tvær miklu deildir heimsins sem við búum í og sem útiloka hvor aðra og eru í sameiningu tæmandi.

Fyrir Descartes er maðurinn hugsandi veruleiki. Í heimspeki Aristótelesar er maðurinn í eðli sínu samsettur úr sál og líkama. Ef líkamslaus tilvera er möguleg yfirleitt er það lemstruð / bækluð og ófullkomin mannleg tilvera. Fyrir Descartes er allt eðli mannsins andi eða hugur. Í þessu lífi er náið samband milli hugar okkar og líkama, en það er ekki líkaminn sem gerir okkur að því sem við erum. Ennfremur er hugurinn hugsaður á nýjan hátt. Eðli hugarins er ekki skynsemi heldur meðvitund, vitund um eigin hugsanir og viðföng þeirra. Maðurinn er eina dýrið sem hefur meðvitund; öll önnur dýr, taldi Descartes, eru einungis flóknar en meðvitundarlausar vélar.

Fyrir Descartes er efnið rúmtak á hreyfingu. Með ‘rúmtaki’ er átt við það sem hefur rúmfræðilegu eiginleikana lögun, stærð, deilanleika og svo framvegis. Þetta erueinu eiginleikarnir sem Descartes eignaði efninu á grundvallarstigi. Hann bauðst til að skýra öll fyrirbæri hita, ljóss, litar og hljóðs út frá hreyfingu efnisagna með mismunandi stærð og lögun. Descartes er einn fyrsti skipulegi talsmaður hugmyndarinnar um vestræn nútímavísindi sem sameiningu stærðfræði­legra vinnubragða og tilraunaaðferða.

Báðar hinar miklu frumsetningar cartesískrar heimspeki voru – við vitum það nú – rangar. Meðan Descartes var á lífi voru fyrirbæri uppgötvuð sem ógerlegt var að skýra undanbragðalaust út frá efni á hreyfingu. Hringrás blóðsins og starfsemi hjartans, eins og Englendingurinn John Harvey uppgötvaði, útheimtu krafta sem ekkert rúm var fyrir í kerfi Descartes. Engu að síður var hin vísindalega skýring hans á uppruna og eðli heimsins í tísku um það bil eina öld eftir andlát hans; og hugmynd hans um dýr sem vélar var seinna útvíkkuð af nokkrum lærisveinum hans sem héldu því fram, samtíðarmönnum sínum til mikillar skelfingar, að mannverur væru líka einungis flóknar vélar.

Skoðun Descartes á eðli hugarins entist miklu lengur en skoðun hans á efninu. Hún er reyndar enn algengasta skoðun á huganum meðal menntaðra manna á Vesturlöndum sem eru ekki atvinnuheimspekingar. Á okkar öld hefur hún verið hrakin með ótvíræðum hætti af austurríska heimspekingnum Wittgenstein sem sýndi fram á að jafnvel þegar við hugsum leyndustu og andlegustu hugsanir okkar notum við sem tjáningarmiðil tungumál sem er í eðli sínu bundið við opinbera og líkamlega tjáningu sína. Við vitum nú, og það er Wittgenstein að þakka, að hin cartesíska tvískipting í hug og líkama stenst ekki. En það er mælikvarði á hin gífurlegu áhrif Descartes að jafnvel þeir sem dást mest að snilli Wittgensteins telja að mesta afrek hans hafi verið að kollvarpa hugarheimspeki Descartes.

Descartes sagði að þekkingin líktist tré og væru rætur þess heimspekin, stofninn eðlisfræðin og frjósamar greinarnar siðvísindin og nytjavísindin. Skrif hans sjálfs eftir Orðræðuna fylgdu röðinni sem þannig var gefin til kynna. Árið 1641 skrifaði hann Hugleiðingar um frumspeki, 1644 Lögmál heimspekinnar (endurskoðuð gerð afHeiminum) og 1649 Ritgerð um hræringar sálarinnar sem er að miklu leyti siðfræðileg ritgerð. Fimmti áratugur aldarinnar var síðasti, og heimspekilega séð frjóasti, áratugur ævi hans.

Eitt er það í afstöðu Descartes sem hafði djúp áhrif á heimspekina eftir hans dag: að krefjast þess að fyrsta verkefni heimspekings sé að losa sig við alla fordóma með því að draga í efa allt sem hægt er að efast um. Þetta setur þekkingarfræði, eða skipulega rannsókn á því sem við getum vitað, í öndvegi í heimspeki. Annað verkefni heimspekings, eftir að hann hefur komið fram með þessar efasemdir, er að koma í veg fyrir að þær leiði til efahyggju. Þetta kemur skýrt fram í HugleiðingumDescartes. Hér eru nokkur sýnishorn úr fyrstu hugleiðingu þar sem hinar róttæku efasemdir eru settar fram.

Það sem ég hef hingað til talið sannast hef ég fengið annaðhvort frá skilningarvitunum eða með atbeina þeirra. En ég hef stundum komist að raun um að skilningarvitin blekkja, og það er hyggilegt að bera aldrei fullt traust til þeirra sem hafa blekkt mann, þó ekki sé nema einu sinni.
En þótt skilningarvitin blekki okkur stundum um hluti sem eru örlitlir eða langt í burtu er margt annað sem alveg útilokað er að efast um, jafnvel þótt það eigi rætur að rekja til skilningarvitanna – til dæmis að ég er hérna, sit við arineldinn í vetrarslopp og held á þessari pappírsörk í höndunum og þar fram eftir götunum.
Bráðsnjöll rökleiðsla! Eins og ég væri ekki maður sem sefur á næturnar og upplifir reglulega í draumi það sama og vitfirringar í vöku – reyndar stundum enn ósennilegri hluti. Hversu oft er ég ekki, sofandi að nóttu til, sannfærður um að ég sitji hér við arininn í sloppnum mínum – þegar ég ligg í raun og veru nakinn í rúminu!
Setjum þá svo að mig sé að dreyma . . . Því hvort heldur ég er vakandi eða sofandi, tveir og þrír eru fimm og ferningur hefur ekki fleiri en fjórar hliðar. Það virðist útilokað að efast um svo augljós sannindi.
En rótgróin í huga mér er þó sú gamla skoðun að til sé almáttugur Guð sem skapaði mig og gerði mig eins og ég er. Hvernig veit ég að hann hafi ekki komið því til leiðar að ekki sé til nein jörð, neinn himinn, neinn þrívíður hlutur, nein lögum, nein stærð, neinn staður, en sjái um leið svo um að mér virðist allt þetta vera til eins og það er nú? Og ennfremur, úr því að ég tel stundum að öðrum skjátlist um það sem þeir halda sig vita með vissu, getur mér þá ekki á sama hátt skjátlast í hvert skipti sem ég legg saman tvo og þrjá eða tel hliðar fernings eða geri eitthvað enn einfaldara, ef hægt er að ímynda sér það? En kannski Guð hafi ekki viljað að mér skjátlaðist á þennan hátt, því sagt er að hann sé algóður.
Ég mun því ekki gera ráð fyrir að Guð, sem er algóður og uppspretta sannleikans, blekki mig, heldur að einhver ákaflega máttugur og slægvitur illur andi neyti allrar orku til að gabba mig. Ég mun hugsa mér að himinn, loft, jörð, litir, lögun hluta, hljóð og allir ytri hlutir séu einungis villandi draumsýnir sem andinn hefur fundið upp til að blekkja mig. Ég mun líta svo á að ég hafi engar hendur, engin augu, ekkert hold eða blóð, engin skilningarvit en ímyndi mér bara að ég hafi þetta allt. Ég mun halda mér fast við þessa hugleiðingu og gera allt sem í mínu valdi stendur til að fallast ekki á neinar rangar skoðanir, jafnvel þótt mér sé um megn að vita nokkur sannindi, svo að þessi illi andi geti alls ekki villt mér sýn hversu máttugur og slægvitur sem hann kann að vera.3

Endi er bundinn á þessar efasemdir með hinni frægu röksemdafærslu Descartes til hans eigin tilveru. Hversu mjög sem illi andinn kann að blekkja hann getur hann ekki villt svo um fyrir honum að hann hugsi að hann sé til ef hann er það ekki.4 „Ég hugsa, þess vegna er ég til,“ segir Descartes og fer síðan í afganginum af hugleiðingunni að svara spurningunni: „Hvað er ég, þessi ég sem ég veit að er til?“

Descartes varð frægur um alla Evrópu fyrir verk sín. Hann var í bréfasambandi og átti í ritdeilum við flesta lærdómsmenn síns tíma. Sumir vina hans fóru að leggja stund á skoðanir hans í háskólum, og ritið Lögmál heimspekinnar var hugsað sem kennslubók. Aðrir prófessorar réðust heiftarlega á kenninagr hans er þeir sáu hinu aristótelíska kerfi sínu ógnað. Jafnvel í hinu tiltölulega frjálslynda Hollandi fann Descartes fyrir gusti trúarofsókna.

En hann skorti þó ekki valdamikla vini og var því aldrei í alvarlegri hættu. Elísabet prinsessa af Pfalz, frænka Karls I Englandskonungs, hreifst af verkum hans og skrifaði honum mörg bréf. Hún var fullfær um að standa fyrir sínu í röksemdafærslu, og upp af bréfasambandi þeirra spratt síðasta verk Descartes sem hann lauk við,Hræringar sálarinnar. Þegar það kom út var það samt ekki tileinkað Elísabetu heldur annarri konunglegri frú sem hafði fengið áhuga á heimspeki, Kristínu Svíadrottningu. Gegn betri vitund féllst hann á að þiggja stöðu sem hirðheimspekingur Kristínar drottningar sem sendi aðmírál með herskip til að flytja hann frá Hollandi til Stokkhólms.

Descartes hafði feikilega mikla trú á hæfileikum sínum og enn meiri trú á aðferðinni sem hann hafði fundið. Hann hugði að lifði hann nokkrum árum lengur og fengi nægilegt fé til að gera tilraunir þá gæti hann leyst öll helstu vandamál lífeðlisfræði og þar með uppgötvað lækningu við öllum sjúkdómum. Kannski vissi hann aldrei hversu fjarstæðukennd þessi von var, því snöggur endi var bundinn á líf hans er hann tók þá óskynsamlegu ákvörðun að þiggja stöðu við sænsku hirðina. Kristín drottning heimtaði kennslutíma í heimspeki klukkan fimm á morgnana. Með þessu fyrirkomulagi fékk Descartes fljótt að kenna á hörku sænsks vetrar og lést árið 1650 úr einum þeirra sjúkdóma sem hann hafði til einskis vonað að lækning væri til við innan seilingar aðferða hans. Það var eitthvað undarlega og kaldhæðnislega viðeigandi við grafskriftina sem hann hafði valið sér að einkunnarorðum.

Dauðinn skaðar engan nema þann
sem skortir sjálfsþekkingu,
þótt allur heimurinn þekki hann of vel.

Illi mors gravis incubat
Qui, notus nimis omnibus
Ignotus moritur sibi.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Höfundur þessarar greinar, Anthony Kenny, er mikilvirkur og mikilsvirtur enskur heimspekingur. Hann hefur m.a. skrifað bókina Descartes: A Study of His Philosophy (1968) og tvær bækur um Wittgenstein. – Greinin er prentuð í The Heritage of Wisdom, safni ritgerða í sögu heimspekinnar eftir Kenny, en var upphaflega erindi flutt í Breska ríkisútvarpinu, BBC, (1978).

2. Úr þýðingu Magnúsar G. Jónssonar á Orðræðu um aðferð sem kom út í lærdómsritaflokki Hins íslenska bókmenntafélags 1991, með inngangi og skýringum eftir Þorstein Gylfason. – Kommusetningu er breytt.

3. Eftir enskri þýðingu Johns Cottinghams í The Philosophical Writings of Descartes, Volume II (Cambridge University Press, 1984). – Descartes skrifaði Hugleiðingarnar á latínu og voru þær þýddar á frönsku meðan hann lifði. Þýðing Cottinghams er gerð eftir latneska textanum. – Hugleiðingar um frumspeki komu út sem lærdómsrit hjá Bókmenntafélaginu árið 2001 í þýðingu Þorsteins Gylfasonar.

4. Í Annarri hugleiðingu segir Descartes: „ …ég er líka án efa til ef hann er að blekkja mig; og blekki hann mig eins og hann getur, hann mun aldrei koma því til leiðar að ég sé ekkert svo framarlega sem ég hugsa að ég sé eitthvað.“

 

« Til baka

Draugar og hugir

eftir Michael LaBossiere

Draugar og hugir1

En líkamsefnið hljótum við, vinur minn, að telja þungt sem farg, jarðneskt og sýnilegt. Og sálin, sem ber það með sér, sligast undir því og dregst niður til hins sýnilega heims af ótta við hinn ósýnilega, sem við köllum Hades. Þar byltir hún sér kringum legsteina og grafir, að því er sagt er: vofurnar, sem menn sjá þar, eru skuggamyndir þeirra sálna, sem hafa ekki verið leystar til fulls frá hinu sýnilega, heldur bera enn með sér einhvern hluta þess og eru einmitt þess vegna sýnilegar.2

Allir hafa heyrt um drauga. Margir trúa á þá. Engu að síður hefur ekki verið mikið um alvarlegar heimspekilegar vangaveltur um drauga. Það þýðir þó ekki að ekkert hafi verið fjallað um þá enda var fyrst rætt um drauga sem heimspekilegt viðfangsefni í Faídoni Platons. Tilgangur þessarar ritgerðar er að velta fyrir sér tilvist drauga innan ramma hugarheimspeki nútímans.

Áður en hægt er að skera úr um hvort draugar geti verið til eða ekki verður að vera ljóst hvað það er að vera draugur. Í þessari ritgerð merkir draugur hug sem hefur aflíkamnast vegna dauða upprunalegs líkama síns en getur samt enn haft áhrif á efnisheiminn með einhverjum hætti. Þessi áhrif gætu verið fólgin í því að aðrir geti skynjað drauginn, hann ráðskast að einhverju leyti með efnislegt umhverfi sitt eða kannski verið fólgin í einhverri annarri getu til að hafa áhrif.

Það ætti að taka það fram að enn hefur ekki verið gert ráð fyrir því að draugur hljóti að vera óefnisleg vera. Ástæðan er sú að ef gengið er út frá því að draugur hljóti að vera óefnislegur í eðli sínu þá væri það talið sannað sem stóð upphaflega til að velta fyrir sér. Það verður því að halda þeim möguleika opnum að draugar gætu verið efnislegar verur (af sérstakri gerð).

Til eru margs konar heimspekikenningar sem reyna að skýra eðli hugans. Meðal hinna algengari og frægari eru samsemdarkenning (identity theory), verundartvíhyggja (substance dualism), eiginleikatvíhyggja (property dualism) og hlutverkahyggja (functionalism) um hugann. Verður nú hugað að því hvernig þessar kenningar gætu gert grein fyrir tilvist drauga.

Samsemdarkenningin er efnishyggjukenning um hugann sem þýðir að hún er skoðun sem lítur svo á að hugurinn sé settur saman úr efni. Nánar tiltekið, þeir sem fallast á samsemdarkenninguna halda því fram að sérhvert hugarástand sé það sama og ástand miðtaugakerfisins. Hugurinn er því jafngildur miðtaugakerfinu og ástandi þess. Að því gefnu að samsemdarkenningin sé rétt þá eru engir draugar til. Þetta stafar af því að dauði miðtaugakerfisins væri dauði og endalok hugans af því að þau eru eitt og hið sama.

Samkvæmt verundartvíhyggju hefur veruleikinn að geyma að minnsta kosti tvær grunngerðir hluta: efnislega og óefnislega hluti. Samkvæmt þessari skoðun, sem frægust hefur orðið í framsetningu Descartes, er hugurinn óefnisleg verund sem er í sérstöku orsakasambandi við líkama sinn. Þetta frekar dularfulla samband gerir huganum kleift að stjórna líkamanum og taka á móti upplýsingum frá honum og leyfir líkamanum að hafa áhrif á hugann að einhverju leyti. Það kemur ekki á óvart að samkvæmt þessari skoðun geta draugar verið til. Þar sem hugurinn er talinn vera sérstök verund þarf dauði líkamans ekki að hafa í för með sér dauða hugans. Þar sem hugurinn er sérstök verund og verundir sem geta verið til óháð öðrum, gæti hugurinn, fræðilega séð, haldið áfram að vera til. Ennfremur er það líka mögulegt, vegna þess að gengið er út frá því að hugurinn geti átt samneyti við sinn upprunalega líkama, að hugurinn haldi áfram að hafa áhrif á efnisheiminn, jafnvel í líkamslausu ástandi sínu. Gera má ráð fyrir að líkamsleysið takmarkaði það sem hugurinn var fær um, sem kynni að skýra hvers vegna draugar eru oft taldir hafa takmarkaða getu. Til að mynda er því að jafnaði trúað að geta drauga takmarkist við að gefa frá sér dauf hljóð, hreyfa litla hluti eða að trufla með dynkjum og höggum.

Önnur tegund tvíhyggju er stundum kölluð eiginleikatvíhyggja. Samkvæmt þessari skoðun eru hugur og líkami ekki aðgreindar verundir. Í stað þess er hugurinn samsettur (alltént að hluta) úr andlegum eiginleikum sem eru ekki það sama og efnislegir eiginleikar. Til dæmis væri ekki hægt að smætta eiginleikann sársaukafull tilfinning niður í ákveðinn efnislegan eiginleika heilans, á borð við ástand tiltekinna taugafrumna. Hugur og líkami eru því aðgreindir en eru ekki ólíkar verundir.

Eiginleikatvíhyggja á sér langa sögu og kemur ekki á óvart að það séu til mörg afbrigði af þessari skoðun og verður hugað að tveimur þeirra hér. Annað þeirra gefur kost á að draugar séu til en hitt ekki.

Eiginleikatvíhyggja skiptist í grófum dráttum í tvær megindeildir, fylgifyrirbærahyggju (epiphenomenalism) og víxlverkunarhyggju (interactionism).

Fylgifyrirbærahyggja er sú skoðun að það sé einstefnusamband milli andlegra og efnislegra eiginleika. Samkvæmt þessari skoðun orsakast hinir óefnislegu andlegu eiginleikar af efnislegum eiginleikum líkamans en hafa sjálfir engin áhrif á þá síðarnefndu. Samkvæmt þessari skoðun hefur hugurinn engan áhrifamátt og er, hreint út sagt, aukaafurð efnislegra ferla líkamans. Vegna þess að andlegu eiginleikarnir ráðast af efnislegu eiginleikunum hefur dauði líkamans í för með sér að andlegu eiginleikarnir hverfa. Þar af leiðir að sé fylgifyrirbærahyggja rétt eru engir draugar til.

Víxlverkunarhyggja er, í þessu samhengi, sú skoðun að andlegir eiginleikar hugans og efnislegir eiginleikar líkamans orki hverjir á aðra. Samkvæmt þessari skoðun geta andlegir eiginleikar valdið breytingum á efnislegum eiginleikum líkamans og öfugt. Gagnstætt fylgifyrirbærahyggju krefst víxlverkunarhyggja þess ekki að andlegu eiginleikarnir ráðist að öllu leyti af efnislegum eiginleikum líkamans. Af þessum sökum gætu andlegu eiginleikarnir sem mynda hugann hugsanlega lifað af dauða upprunalega líkamans. Þessir andlegu eiginleikar kynnu að geta verið til sem knippi eiginleika. Þá væri draugur knippi andlegra eiginleika sem myndar hug án efnislíkama. Andlegu eiginleikarnir kynnu að þarfnast einhvers efnis eða líkama til að halda þeim uppi. Þá væri draugur hugur sem samanstendur af andlegum eiginleikum sem er haldið uppi af einhverju öðru en upprunalegum líkama hans. Til að mynda kynnu andlegu eiginleikarnir að vera óaðskiljanlega tengdir hlut eða stað. Þetta gæti verið skýringin á þeirri staðreynd að reimt sé á ákveðnum stöðum. Ef hugir drauga eru óaðskiljanlega tengdir þessum stöðum mundi það skýra hvers vegna draugar ferðast sjaldan ef þá nokkurn tíma um heiminn. Annar möguleiki er að andlegir eiginleikar kynnu að ná stjórn á nýjum líkama. Þetta gæti skýrt tilfelli þar sem talið er að einhver sé andsetinn. Allavega væri mögulegt að hugurinn héldi áfram að vera í víxláhrifatengslum við efnisheiminn þrátt fyrir dauða upprunalegs líkama hans, þar sem talið er að andlegir eiginleikar geti orkað á efnislega eiginleika og öfugt.

Að lokum verður fjallað um hlutverkahyggju. Til eru mörg afbrigði af henni en þau eiga öll sameiginlegan grundvöll. Hann er sá að hugarástand er skilgreint út frá hlutverki. Orðað í grófum dráttum lýsir hlutverkaskilgreining á hugarástandi því með tilliti til hlutverks þess í andlegu kerfi áreita og viðbragða. Orðað á nákvæmari hátt er hugarástand, eins og til dæmis að finna til sársauka, skilgreint út frá orsakatengslum þess við ytri áhrif á líkamann, annað hugarástand og atferli líkamans.

Venjulega er litið á hlutverkahyggju sem efnishyggjuskoðun á huganum. Þetta stafar af því að kerfin þar sem hugarástandið á sér stað eru talin vera af efnislegum toga. Þótt samsemdarkenningin og hlutverkahyggjan séu báðar efnishyggjukenningar um hugann eru þær ólíkar að einu leyti sem skiptir sköpum. Samkvæmt samsemdarfræðingunum er ákveðið hugarástand, eins og til dæmis að finna til sársauka, það sama og ákveðið líkamlegt ástand, á borð við ástand taugafrumna í tilteknum hluta heilans. Sem sagt, til þess að eitt hugarástand sé það sama og annað verður eitt líkamsástand að vera eins og annað. Sé hugarástand því ákveðið ástand taugafrumna í ákveðnum hluta taugakerfis mannsins þá getur hvaðeina sem hefur ekki þá tegund taugakerfis ekki búið yfir hug. Samkvæmt hlutverkasinnanum er ákveðið hugarástand, eins og til dæmis að finna til sársauka, ekki skilgreint út frá ákveðnu líkamsástandi. Í staðinn er því haldið fram að til þess að eitt hugarástand sé eins og annað þurfi þau einungis að gegna sama hlutverki, ekki að vera efnislega eins, þótt hlutverkasinninn telji engu að síður að sérhvert hugarástand sé efnislegt ástand af einhverri gerð. Sé hugarástand því skilgreint með tilliti til hlutverks getur hvaðeina sem getur sýnt þetta hlutverk haft hug.

Þótt það kunni að láta undarlega í eyrum þá er samt hugsanlegt að draugar séu til ef hlutverkahyggja er rétta kenningin. Þetta er tilfellið jafnvel þótt gengið sé út frá því að hlutverkahyggja hljóti að vera efnishyggjukenning um hugann. Eins og kom fram hér að ofan hvílir hlutverkahyggja á þeirri skoðun að hvert það kerfi sem leysir af hendi viðeigandi hlutverk sé hugur, án tillits til þess hvernig þetta kerfi er myndað. Að þessu gefnu virðist mögulegt að hugur gæti orðið fyrir því að missa upprunalegt efniskerfi sitt en samt haldið sömu eða nægilega svipuðum hlutverkum eftir missinn. Úr því að hugurinn er efnislegt kerfi samkvæmt hlutverkahyggjunni, væri samspil hans við efnisheiminn ekkert sérstakt vandamál, jafnvel eftir að hann hefur nýtt efniskerfi. Nýja efniskerfið gæti verið bygging, staður eða nýr líkami. Til dæmis kynni einstaklingur að deyja í húsi og, eins og segir í mörgum draugasögum, kynni hugur einstaklingsins að lifa áfram í húsinu. Orðað á máli hlutverkahyggjunnar væri hugurinn, sem var einu sinni mengi hlutverka sem áttu sér stað í mannslíkama, nú mengi hlutverka sem eiga sér stað í húsi eða hlutum húss. Á meðan hlutverkin varðveitast héldi hugurinn áfram að vera til sem draugur. Þar sem draugar eru venjulega sagðir bundnir við ákveðna staði, jafnvel ákveðin herbergi, þá hefur greinargerð hlutverkahyggjunnar um drauga vissan trúverðugleika.

Hvort draugar eru til eða ekki er enn óútkljáð mál, en þessi ritgerð hefur fjallað um það innan ramma nútíma hugarheimspeki. Ef verundartvíhyggja, eiginleikatvíhyggja eða hlutverkahyggja er rétt þá geta draugar verið til. Sé hinsvegar samsemdarkenningin rétt geta engir draugar verið til.

Ábending um lesefni

Theories of the Mind, Stephen Priest (Penguin)

The Mind’s I, ed. Douglas R. Hofstadter and Daniel C. Dennett (Penguin)

Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísanir

1. Fengið úr greinasafni The Philosophers’ Magazine á vefsíðu tímaritsins. – Höfundur kennir heimspeki við háskóla í Florida í Bandaríkjunum.

2. Platon. Faídon (Þorsteinn Gylfason þýddi), í: Síðustu dagar Sókratesar. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags, Reykjavík 1983, bls. 142.

« Til baka