Færslusöfn

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen (1820–1896), bókmenntafræðingur, skáld og áhugamaður um heimspeki.

Fæddur að Bessastöðum 1820, sonur Þorgríms gullsmiðs Tómassonar og konu hans. Stúdent 1837 frá Árna Helgasyni, tók 1. og 2. lærdómspróf við Hafnarháskóla 1837-1838 og lagði síðan stund á heimspeki og bókmenntir. Skrifaði verðlaunaritgerð um franskan samtímaskáldskap („Om den nyfranske Poesi“, 1843) og varð mag. art. 1845 með ritgerð um Byron („Om Lord Byron“); titlinum var breytt í dr. phil. 1854. Ferðaðist nokkuð um Evrópu, varð 1848 ritari í danska utanríkisráðuneytinu og skrifstofustjóri þar frá 1859. Fékk 1866 lausn frá störfum með biðlaunum og eftirlaunum og hvarf aftur til Íslands, keypti Bessastaði og bjó þar frá 1868, var m.a. þingmaður og ritstjóri. Lést að Bessastöðum 1896.

Grímur var á yngri árum hallur undir heimspeki Hegels, en hneigðist síðar æ meir til fornra fræða. Í ritgerðinni „Rúm og tími“, sem birtist í Tímariti Hins íslenska Bókmenntafélags, 1885, reynir hann að leiðrétta Kant og Hegel með Aristótelesi.

Nokkur önnur rit: „Platon og Aristoteles. Tveir kapítular úr sögu heimspekinnar“,Tímarit Hins íslenska Bókmenntafélags, 18 (1897), 1–27; 19 (1898), 1–66.,Ljóðmæli 1880, Rvk, (Kh 1895, Rvk. 1906), Íslenzkar bókmenntir og heimsskoðun, Andrés Björnsson þýddi og gaf út, Reykjavík, 1975.

« Til baka

Guðmundur Bergþórsson

Guðmundur Bergþórsson (1657–1705), skáld.

Fæddur að Stöpum á Vatnsnesi, Húnavatnssýslu, veiktist illa í æsku og varð krypplingur, hálflamaður og lítt til verka fallinn. Lærði að lesa upp á eigin spýtur og hafði ofan af fyrir sér með barnakennslu og rímnakveðskap.

Helsta framlag hans til íslenskrar heimspeki er kvæðið Heimspekingaskóli sem hann orti að mestu leyti út frá íslenskri þýðingu á dönsku riti, Collegium Philosophorum eftir Hans Hanssøn Skonning, sem kom út 1636. Á fáeinum stöðum bætir Guðmundur þó við efnið einhverju frá sjálfum sér.

« Til baka

Guðmundur Finnbogason

Guðmundur Finnbogason (1873–1944) heimspekingur og prófessor við H.Í.

Fæddur 6. júní 1873 að Arnarstapa í Ljósavatnsskarði, Þingeyjarsýslu, sonur Finnboga Finnbogasonar og Guðrúnar Jónsdóttur. Stúdent 1896, lauk forprófi í heimspeki í Kh. 1897 og meistaraprófi í heimspeki (mag. art.) 1901. Undirbjó fræðslulöggjöf á Íslandi 1901–1905. Hlaut styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar 1908 og dvaldist aðallega í París. Doktorspróf í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla 1911 með ritgerð um samúðarskilning. Prófessor í hagnýtri sálarfræði við H.Í. 1918–1924, Landsbókavörður 1924–1943. Lést 1944.

Samkvæmt Guðmundi á heimspekin að veita útsýn yfir tilveruna og getur fjallað um hvað sem er út frá því sjónarhorni. Persónuleg tök og greining heimspekingingsins á viðfangsefninu er þá það sem mestu skiptir. Guðmundur ritaði ókjör af greinum og bókum. Í meginriti sínu, Hugur og heimur, fjallar hann um samúðarskilning milli manna út frá andstæðu umheims og hugarheims, vísinda og vitundar og leitast við að sýna hvernig sálarlíf manna birtist í látæði þeirra. Guðmundur þýddi fjölmargar greinar um heimspeki, m.a. eftir Henri Bergson og William James.

Helstu rit: Lýðmenntun (1903), Den sympatiske forstaaelse (1911), L’intelligence sympatique (1913), Hugur og heimur (1912), Frá sjónarheimi (1918), Huganir(1943).

« Til baka