Færslusöfn

Brynjólfur Bjarnason

Brynjólfur Bjarnason (1898–1989) Stjórnmálamaður og heimspekingur.

Fæddur 24. maí 1898 að Hæli, Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, lauk stúdentsprófi 1918 og forprófi í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla 1919. Lagði þar stund á náttúrufræði en hætti námi 1922 og fór til Berlínar þar sem hann kynnti sér heimspeki. Var formaður Kommúnistaflokks Íslands 1930–1938 og um árabil einn helsti leiðtogi íslenskra kommúnista, þingmaður fyrir Kommúnistaflokkinn og síðar Sósíalistaflokkinn og ráðherra í Nýsköpunarstjórninni 1944–1947. Lést í Hróarskeldu 16. apríl 1989, hálfu ári fyrir fall Berlínarmúrsins.

Eftir að beinum stjórnmálaferli Brynjólfs Bjarnasonar lauk sneri hann sér aftur að heimspeki og ritaði allmargar bækur sem snúast að miklu leyti um frumspekilegar spurningar út frá sambandi lögmáls og frelsis. Hugmyndir hans eru settar fram í mörgum bókum: Forn og ný vandamál (1954), Gátan mikla (1956), Vitund og verund(1961), Á mörkum mannlegrar þekkingar (1965), Lögmál og frelsi (1970), Heimur rúms og tíma (1980), Samræður um heimspeki (1987). Aðgengilegasta yfirlit um heimspeki hans er „Svar við spurningu um lífsskoðun“ í Lögmál og frelsi.

Nokkur önnur rit: Sósíalistaflokkurinn: Stefna og starfshættir (1952), Með storminn í fangið: Greinar og ræður 1937–1972, I–II (1973), 1972–1982, III (1982). Þýddi auk þess rit eftir Karl Marx og Friedrich Engels, Maó tse-tung og Líú Sjaó-sí.

« Til baka

Brynjólfur Sveinsson

Brynjólfur Sveinsson (1605–1675), biskup í Skálholti, fornfræðingur og heimspekingur.

Fæddur að Holti í Önundarfirði 14. sept. 1605, sonur Sveins prófasts Símonarsonar og seinni konu hans, Ragnheiðar Pálsdóttur. Lauk stúdentspróf frá Skálholtsskóla 1624, sigldi til Kaupmannahafnar og lagði þar stund á fornfræði, heimspeki og læknisfræði. 1629 fór hann aftur til Íslands og las grísku í foreldrahúsum í 2 ár. Fór aftur utan 1631 til frekara náms og var skipaður konrektor latínuskólans í Hróarskeldu 1632 og gegndi því starfi í 6 ár. 28. nóvember 1633 hlaut hann meistaragráðu í heimspeki við Hafnarháskóla. Var biskup í Skálholti 1639–1674. Lést 5. ágúst 1675.

Merkasta framlag B.S. til íslenskrar heimspeki eru skýringar hans (á latínu) viðRökræðulist (Dialectica) Péturs Ramusar (1515–1672) sem hann las fyrir í Skálholtsskóla á árunum 1640–1643. Þar fjallar hann fyrst um eðli og skiptingu rökræðulistarinnar, síðan um orsakirnar fjórar, áhrifsorsök, formorsök, efnisorsök og tilgangsorsök, þá um afleiðingar og loks um frumlag (subjectum). Í ritinu, sem er ófullgert, leitast hann við að draga fram og skýra platónskar forsendur ramískrar heimspeki. Hlutverk rökræðulistarinnar er að laða fram náttúrulegan hæfileika mannsins til þess að beita skynseminni vel og þjálfa hann í því (sjá Hug1988).

Nokkur önnur rit: Historica de rebus islandicis narratio (1647), Maríukvæði og Krosskvæði (tileinkað Páli í Selárdal).

« Til baka