eftir Gilbert Rylei
Frumlegur og áhrifamikill heimspekingur, Ludwig Wittgenstein, Austurríkismaður sem að lokum gerðist breskur ríkisborgari, kom til Englands skömmu fyrir heimsstyrjöldina fyrri til að leggja stund á verkfræði. Gagntekinn af rökfræðilegum og heimspekilegum vandamálum um eðli stærðfræðinnar, fluttist hann árið 1912 til Cambridge til að starfa með Bertrand Russell. Í heimsstyrjöldinni sem í hönd fór þjónaði hann í austurríska hernum og varð að lokum stríðsfangi. Á þessu tímabili skrifaði hann sína einu bók, hinn fræga Tractatus Logico-Philosophicus (Rökfræðileg ritgerð um heimspeki) sem kom út árið 1922 í heldur óáreiðanlegri enskri þýðingu. Hann kenndi í austurrískum þorpsskóla um nokkurt skeið og komst þá í nána heimspekilega snertingu við nokkra af leiðandi félögum í Vínarhringnum. Árið 1929 sneri hann til Cambridge þar sem mikilvægi hugmynda hans hafði fljótt hlotið viðurkenningu. Hann varð prófessor árið 1939. Hluta af seinni heimsstyrjöldinni var hann sjúkraliði við Guy’s Hospital (í Lundúnum). Árið 1947 sagði hann upp prófessorsstöðunni. Auk Tractatusar birti hann aðeins eina grein um ævina.
Síðustu tuttugu árin birti hann ekkert, að því er ég best veit; sótti engar ráðstefnur í heimspeki; hélt enga fyrirlestra fyrir utan Cambridge; átti ekki bréfaskipti við neinn um heimspekileg efni og var andvígur því að jafnvel glósur úr fyrirlestrum sínum og umræðum í Cambridge kæmust í umferð. Hann var engu að síður óþreytandi að ræða heimspekileg málefni við áhugasama nemendur og nokkra starfsfélaga, hagfræðinga, stærðfræðinga, eðlisfræðinga og heimspekinga. Þrátt fyrir þetta hafa öldur frá smátjörninni hans sem hann gætti af svo miklu kappi breiðst út um heimspekilega hugsun mikils hluta hins enskumælandi heims. Heyra má heimspekinga sem aldrei hittu hann – og fáir okkar gerðu það – tala á hans nótum um heimspeki; og nemendur sem kunna varla að stafa nafnið hans fitja nú upp á nefið út af hlutum sem honum líkaði illa lyktin af. Hvaða máli hefur hann þá skipt fyrir heimspekina?
Það er tilgangslaust að reyna að segja fyrir um dóm sögunnar yfir samtíðarmanni. Ég verð að reyna að gera þetta um mann sem hefur forðast alla birtingu á hugmyndum sínum síðastliðin þrjátíu ár. Það sem ég býð upp á er því mengi skoðana og túlkana á því sem er að hluta til ekki nema ómur af einberu bergmáli.
Frá tímum Lockes til Bradleys höfðu heimspekingar rökrætt viðfangsefni sín eins og um sálfræðileg efni væri að ræða. Vissulega voru vandamál þeirra oft ósvikin heimspekileg vandamál en þeir fjölluðu um þau á sálfræðilegum forsendum. Og þá sjaldan að þeir spurðu sig hvað þeir væru að rannsaka, áttu þeir vanda til að segja að þeir væru að rannsaka hvernig hugurinn starfar alveg eins og náttúruvísindamenn rannsaka efnishluti. Þau ‘hugvísindi’ sem þeir ræddu byggðust ýmist á raunhyggju eða hughyggju, eftir því hvort þeir voru, í grófum dráttum, meira undir áhrifum frá efnafræði en guðfræði eða öfugt.
Fyrir hálfri öld voru heimspekingar þó farnir að koma fótunum upp úr þessum sálfræðilegu stígvélum. Því nú var farið að stunda sálfræði í tilrauna- og lækningastofum, svo að stofusálfræði varð tortryggileg. Sú staðreynd skipti þó enn meira máli að rökfræðilegar ógöngur höfðu nýlega verið leiddar í ljós við sjálfar rætur hreinnar stærðfræði. Stærðfræðingar þörfnuðust líflína sem þeir gátu ekki útvegað sjálfir. Rökfræðingar urðu að ráða fram úr rökfræði stærðfræðinnar og þeir gátu ekki byggt hana á uppgötvunum raunvísinda, síst svo þokukenndra vísinda sem sálfræðinnar. Um hvað fjalla rökfræði og heimspeki ef þær byggjast ekki á sálfræðilegum rannsóknum?
Á fyrstu tuttugu árum þessarar aldar gáfu margir heimspekingar annað svar við þessari spurningu, platonskt svar. Heimspekin rannsakar ekki hugann og því síður efnishluti; hún rannsakar íbúa þriðja sviðs, þar sem búa sértekningar eða hugtök, möguleikar, eigindir, tímalausar alstæður, tölur, sannindi, ósannindi, gildi og merking. Þessi hugmynd gerði þeim sem hana aðhylltust kleift að halda til streitu að heimspekin væri vísindi um eitthvað en neita því að hún ætti sér eitthvert venjulegt viðfangsefni; að verja sjálfstæði hennar sem fræðigreinar en neita því að hún væri bara ein vísindagrein meðal annarra; að gefa henni stöðu vísindagreinar en viðurkenna að hún væri ólík vísindunum. Spurningin: „Um hvað fjalla heimspeki og rökfræði?“ fékk nýtt svar, en þó svar með uggvænlega draumkenndum blæ. Það var svar þeirra Freges og Russells.
Í Vín stóðu hugsuðir frammi fyrir svipaðri spurningu, en frá gagnstæðu sjónarhorni. Í hinum enskumælandi heimi hafði verið gengið út frá því að heimspekin væri hugvísindi og teldist því systir eðlisfræði, efnafræði, dýrafræði o.s.frv., en í hinum þýskumælandi heimi var aftur á móti almennt gengið út frá því að heimspekin væri ekki systir heldur móðir annarra vísindagreina − jafnvel kennslukona. Einhvern veginn höfðu heimspekiprófessorar þar slíkt kennivald að þeir gátu sagt jafnvel vísindamönnunum fyrir verkum. Að sjálfsögðu voru heimspekingar rétta fólkið til að skera úr um hvort kenningar Darwins, Freuds og Einsteins væru sannar.
Seint á nítjándu öld hafði Mach gert uppreisn gegn þessari skoðun að frumspekin væri kennslukonuvísindi. Upp úr 1920 varð þessi uppreisn að byltingu. Vínarhringurinn vísaði á bug þeirri goðsögn að frumspeki gæti leyst úr spurningum í eðlisfræði, líffræði, sálfræði eða stærðfræði. Frumspekin væri hvorki kennslukona vísindanna né systir þeirra; hún væri alls ekki vísindi. Afstæðislögmál Einsteins er dæmið sem sýnir þetta best. Tilkall prófessora í heimspeki til að hrekja þetta lögmál var tilhæfulaust. Vandamál í vísindum verða aðeins leyst með vísindalegum aðferðum og þær eru ekki aðferðir heimspekinga.
Í Englandi var spurningin því þessi: Hverjir eru þeir sérstöku eiginleikar sem raunvísindin skortir en rökfræði og heimspeki hafa til að bera þannig að skírskota verður til þeirra þegar hin fyrrnefndu lenda í ógöngum? Í Vín var spurningin þessi: Að því gefnu að heimspekingar geta ekki ráðið fram úr vísindalegum vandamálum, hverjir eru hinir röklegu kostir vísindalegra aðferða sem heimspekilegar aðferðir skortir? Andstæðan milli heimspeki og vísinda var dregin upp á báðum stöðum. Í Vín þar sem sjálfstæði vísindanna var vefengt var markmiðið að afhjúpa kröfur heimspekinnar sem kennslukonuvísindi. Í Englandi, þar sem sjálfstæði vísindanna var ekki að ráði dregið í efa, að undantekinni sálfræði, var andstæðan dregin upp til að fá fram hin jákvæðu einkenni rökfræði og heimspeki. Í Vín var litið á heimspekina sem sníkjudýr sem sygi blóð; í Englandi sem læknandi blóðsugu.
Spurningin kom í sinni ensku mynd til Wittgensteins. Og því væri ekki hægt að telja hann til rökfræðilegra raunhyggjumanna. Rökdeilur þeirra voru ekki hans, og leit hans að hinu jákvæða hlutverki rökfræði og heimspeki varð ekki þeirra fyrr en löngu seinna. Hann var undir áhrifum frá Frege og Russell, ekki frá Mach. Sjálfur hafði hann ekki fundið fyrir hinni dauðu hönd akademískrar heimspeki sem var dragbítur á jafnvel vísindalega hugsun í Þýskalandi og Austurríki og er það enn. Þvert á móti hjálpaði hann til við að festa hinar rökfræðilegu líflínur fyrir stærðfræðingana.
Ég vil sýna hvernig Wittgenstein umbreytti og svaraði því sem var ætíð meginspurning hans: „Hvað geta heimspekingar og rökfræðingar gert og hvernig ættu þeir að gera það?“
Ég hef sagt að eftir langa fangelsisvist í sálfræðilegu málfari hafi heimspekin um nokkurt skeið verið endurhýst í platonsku málfari. En það var aðeins skammtímahæli, því ekki leið á löngu þar til eitthvað vakti heimspekingana til vitundar um hið draumkennda eðli hins nýja hælis sem þeir höfðu reynt að láta sér standa á sama um. Russell komst að því í rannsóknum sínum á frumreglum stærðfræðinnar að hann gat ekki með góðu móti komist hjá að búa til staðhæfingar sem höfðu þann rökfræðilega óþægilega eiginleika að þær voru sannar einungis að því tilskildu að þær væru ósannar og ósannar einungis að því tilskildu að þær væru sannar. Sumar þessara staðhæfinga sem kollvörpuðu sjálfum sér virtust vera innbyggðar í sjálfan grunninn sem átti að gera stærðfræðina áreiðanlega. Það var meiriháttar leki í þurrkvínni sem þeir Frege og Russell höfðu smíðað fyrir stærðfræðina.
Russell fann bót fyrir lekann. Til grundvallar hinum þekkta greinarmuni á sannleik og ósannindum liggur róttækari greinarmunur á merkingu og merkingarleysi. Bæði sannar og ósannar staðhæfingar hafa merkingu, en sumar yrðingar, með orðum og byggingu staðhæfinga, eru hvorki sannar né ósannar heldur merkingarlausar – og ekki merkingarlausar vegna orðalags eða málfræði, heldur af röklegum ástæðum. Staðhæfingarnar sem kollvörpuðu sjálfum sér voru af þessari gerð, hvorki sannar né ósannar heldur merkingarleysur í mynd staðhæfinga. Takið eftir að það er aðeins um fyrirbæri eins og samsettar yrðingar sem hægt er að spyrja hvort hafi merkingu eða séu merkingarlausar. Þeirrar spurningar væri ekki hægt að spyrja um hugræn ferli eða um platonska hluti. Rökfræðin getur því ekki fengist við þetta, heldur fæst hún við það sem hægt er eða ekki hægt að segja á merkingarbæran hátt. Viðfangsefni hennar er tungumálið enda þótt verkefni hennar séu alls ekki verkefni í málvísindum.
Í Tractatusi Wittgensteins er þessi afmarkaða niðurstaða alhæfð. Öll heimspeki og öll rökfræði eru rannsóknir á því hvað ljær einhverju sem sagt er merkingu eða gerir það merkingarlaust. Vísindin miða að því að segja sannleikann um heiminn; heimspekin miðar að því að leiða aðeins í ljós rökgerð þess sem hægt er að segja satt eða jafnvel ósatt um heiminn. Þetta er ástæðan fyrir því að heimspekin er hvorki systir vísindanna né foreldri. Hlutverk hennar er ekki að fjölga vísindalegum staðhæfingum, heldur að leiða í ljós rökgerð þeirra.
Wittgenstein byrjar með því að athuga hvernig setning, kort, skýringarmynd eða líkan geta lýst eða jafnvel gefið talsvert villandi lýsingu á staðreyndunum. Orðin ‘London’ og ‘suður’ ein sér eru ekki sönn eða ósönn. Og ekki getur einstakur punktur á pappírsörk verið nákvæmt eða ónákvæmt kort. Setningin „London er fyrir norðan Brighton“ er sönn. Sömu orðin í annarri röð svo sem „Brighton er fyrir norðan London“ eru ósönn. Í röðinni „Suður er London fyrir Brighton“ eru þau hrærigrautur sem er hvorki sannur né ósannur heldur merkingarleysa. Eigi punktar á blaði að gefa rétta eða ranga lýsingu á því í hvaða átt Brighton er frá London þarf að vera punktur fyrir hvora borg um sig og það þarf að setja þá samkvæmt einhverri venju um áttastrikin á kompásnum. Eigi staðhæfing, kort eða skýringarmynd að vera rétt eða röng þarf fjölda orða eða merkja; en fleira þarf til, einingarnar verður að setja saman á ákveðna vegu. Og til grundvallar því að staðhæfingin eða kortið gefi sanna lýsingu að hluta vegna þess hvernig einingunum er raðað saman liggur sú staðreynd að það ræðst algerlega af þeim almenna hætti sem einingarnar eru settar saman á hvort útkoman getur talist merkingarbær staðhæfing eða kort. Sumir samsetningar eru útilokaðar. Hvaða reglur útiloka þær?
Í Tractatusi komst Wittgenstein að þeirri óþægilegu niðurstöðu að þessar samsetningarreglur er ekki hægt að setja fram á merkingarbæran hátt. Tilraun til að segja í hverju munurinn á merkingarbæru og merkingarlausu tali sé fólginn er að fara yfir skilin milli merkingarbærs og merkingarlauss tals. Heimspekilegar vangaveltur geta reyndar opnað augu okkar fyrir þessum formgerðarreglum en þær geta ekki endað með merkingarbærri framsetningu á þeim. Heimspekin er ekki vísindagrein; hún getur ekki gefið af sér vísindakenningar. Samt sem áður getur hún verið leikin eða klaufsk, vel heppnuð eða misheppnuð. Viðleitnin lætur okkur sjá það sem við þurfum að sjá. Líkt og gerist í námi í tónlist eða tennis leiðir nám í heimspeki ekki til þess að við getum sagt hvað við höfum lært, þó við getum, eins og í tónlist og tennis, sýnt hvað við höfum lært.
Nú er það rétt að heimspekilegum skýrleika er náð með því að leggja mat á rökfærslur frekar en með því að setja fram kenningar. En það er rangt að allt heimspekilegt tal sé merkingarlaust tal. Wittgenstein hafði sjálfur sagt mjög áhrifaríka hluti og að tala á áhrifaríkan hátt er ekki að bulla. Hvað hafði leitt hann til þessarar óþægilegu niðurstöðu? Þegar hann skrifaði Tractatus var hann, að ég hygg, undir of miklum áhrifum frá hliðstæðunum sem hann dró milli þess að segja hluti og búa til kort, skýringarmyndir og líkön. Vissulega er það svo að eigi merki á blaði að skrá sótthita eða töluð orð að mynda merkingarbæra staðhæfingu verður að raða merkjunum og orðunum samkvæmt reglum og venjum. Því aðeins að merkingarnar á grafpappír hjúkrunarkonunnar séu á kerfisbundinn hátt tengdar við aflestrana á hitamælinum sem teknir eru hver af öðrum daglega geta þær gefið rétta eða þess vegna ranga mynd af breytingunum á sótthita sjúklingsins. Því aðeins að orðum sé raðað samkvæmt ýmsum flóknum almennum reglum verður útkoman sönn eða ósönn staðhæfing.
Setjum nú svo að við bæðum hjúkrunarkonuna að sýna á annarri pappírsörk, ekki ganginn í sótthita sjúklingsins, heldur reglurnar um að tákna hitann í honum með merkjum á grafpappír, þá yrði hún ráðþrota. Og ekki heldur er hægt að kortleggja sjálfar reglurnar og venjurnar sem gilda um kortagerð. Wittgenstein hélt því fram á sambærilegan hátt í Tractatusi að heimspekingnum eða rökfræðingnum sé ómögulegt að segja hvað það er sem gerir sagða hluti merkingarbæra eða merkingarlausa. Hann getur sýnt það en ekki sagt það. Eftir Tractatus áttaði hann sig á því að enda þótt það að segja hluti líkist því að draga upp mynd eða kortleggja hluti, en það var í því samhengi sem hann dró líkinguna upphaflega, þá er það ekki að öllu leyti sambærilegt. Rétt eins og hjúkrunarkonan getur sagt, en þó ekki sýnt, hvernig sótthitakortið gefur rétta eða ranga mynd af hitanum í sjúklingnum þannig getur heimspekingurinn sagt hvers vegna, til dæmis, staðhæfing vísindamanns hefur merkingu eða er merkingarlaus. Það eitt sem væri fáránlegt mundi vera setning sem þættist gefa umsögn um eigin merkingu eða merkingarleysi.
Tractatus hefur tvö ólík en tengd markmið. Hið fyrra, sem ég hef lýst í grófum dráttum, er að sýna bæði hvað heimspekin er ekki, nefnilega einhver tegund vísinda, og hvað hún er, nefnilega starfsemi sem kannar rökgerð þess sem sagt er, til að mynda í einhverri vísindakenningu. Hið síðara, sem ég ætla ekki einusinni að reyna að lýsa, er að sýna hvers konar rannsókn formrökfræði er. Hér kem ég að almennu atriði um Tractatus. Megináhugi Wittgensteins hafði frá upphafi verið á rökfræði stærðfræðinnar og þar af leiðandi á hinum rökfræðilegu þverstæðum sem voru lekinn mikli í þurrkvínni sem Frege og Russell höfðu smíðað. Þess vegna hneigðist hann til og var til þess búinn að þröngva öllu sem hægt er að segja á merkingarbæran hátt inn í hin fáu staðhæfingamynstur sem rökfræði stærðfræðilegra staðhæfinga vinnur með. Hann notaði íðorðaforða hennar, táknmál og reikniaðgerðir við könnun sína á ýmsum heimspekilegum viðfangsefnum og, umfram allt, á meginviðfangsefni sínu, sjálfu eðli heimspekilegrar hugsunar. Þar af leiðandi er Tractatus í ríkum mæli lokuð bók fyrir þeim sem skortir þennan tæknilega búnað. Fáir geta lesið bókina án þess að skynja að eitthvað mikilvægt sé að gerast, en meira að segja fáir sérfræðingar geta sagt hvað það er.
En þetta eru ekki sögulok. Kannski er þetta aðeins formálinn. Því eftir að hafa verið óvirkur í nokkur ár sneri Wittgenstein sér aftur að heimspekinni. Kenning hans eftir það er áberandi ólík því sem hann kenndi í Tractatusi. Hún hafnar meira að segja hluta Tractatusar.
Í fyrsta lagi þröngvar hann ekki öllum yrðingum inn í hin fáu mót rökfræði stærðfræðinnar. Þessu fylgir uppreisn gegn mótum af öllum gerðum. Reglur rökfræðikerfa og sértekningar heimspekikenninga eru eins og skór kínverskra kvenna sem aflöguðu fætur þeirra og meinuðu þeim að ganga á þeim. Heimspekileg útlistun er eftir sem áður rannsókn á yrðingum en hún er ekki lengur rannsókn gegnum raufarnar á stensli rökfræðings eða dilkadráttur eftir flokkunarkerfi háskólanna. Málfar Wittgensteins er ekki lengur eins og Russells að ræða við stærðfræðinga um torskilin efni heldur eins og Sókratesar að ræða hversdagslegar hugmyndir við óuppfrædda unga menn. Hann einskorðar sig heldur ekki lengur við að útlista staðhæfingar vísindanna. Hann kannar nú rökgerð alls þess sem við öll segjum líkt og Moore.
Í öðru lagi telur hann ekki lengur að heimspekingar séu dæmdir til að reyna að segja hið ósegjanlega, þó ég telji að aðalviðfangsefni hans sé áfram vandamálið um eðli, verkefni og aðferðir heimspekinnar. En nú forðast hann að segja nokkuð almennt um eðli heimspekinnar, ekki vegna þess að það væri að segja hið ósegjanlega, heldur vegna þess að það væri að segja eitthvað að hætti háskólamanna og þess vegna eitthvað sem gerði hlutina óskýra. Í heimspeki gera alhæfingar hlutina óskýra. Það á að kenna eðli heimspekinnar með því að sýna raunveruleg dæmi um hana. Eins og læknisfræðinemi lærir skurðlækningar með því að fylgjast með og framkvæma aðgerðir á dauðum og lifandi viðföngum þannig lærir heimspekinemi hvað heimspeki er með því að fylgjast með og framkvæma aðgerðir á einstökum talsmátum sem leiða okkur í ógöngur. Þannig flakkaði Wittgenstein, að því er virðist stefnulaust, því að hann setti ekki fram nein markmið, frá einni áþreifanlegu ráðgátunni til bræðra hennar, frænda og frænkna, foreldra og félaga, og sýndi hvað gerir þær ruglandi og hvernig skuli leysa þær – sýndi en sagði ekki; fór gegnum lausnaskrefin en tók ekki saman handbók um þau; kenndi færni, en mælti ekki fyrir um kenningu.
Eina uppáhaldsaðferð hans mætti kalla ‘tesmökkunaraðferðina.’ Tesmakkarar slengja ekki sýnishornunum saman í tvo eða þrjá allsherjarflokka. Öllu heldur smakka þeir á hverju sýnishorni fyrir sig og reyna að staðsetja það við hliðina á næstu nágrönnum þess, og það er ekki aðeins með tilliti til eins aðgreinanlegs eiginleika heldur út frá margvíslegum ólíkum eiginleikum. Þannig sýndi Wittgenstein dæmigerða notkun tiltekinnar yrðingar með því að bera hana saman við aðrar sem stig af stigi víkja frá henni í ýmsu tilliti og í ýmsar áttir. Hann sýndi hvernig sláandi líkindi geta farið saman með mikilvægum mun sem venjulega er ekki tekið eftir og hvernig við freistumst til að reiða okkur um of á það sem er líkt með þeim og ruglumst því í ríminu vegna hins dulda munar á þeim.
Enda rannsaka heimspekingar yrðingar ekki af handahófi. Leitinni að rökgerð þeirra er þröngvað upp á okkur af þeirri staðreynd að við erum þegar lent í ófyrirséðum flækjum. Hvers vegna lendum við í ógöngum? Ég set hér fram upphugsað dæmi. Við stöndum okkur að því að tala að líkt og lest hægir á sér og nemur staðar þannig kynni tíminn sjálfur einn góðan veðurdag að hægja á sér og stöðvast. Við skiptum lestinni í vagna og vögnunum í klefa. Við skiptum mánuði í vikur og vikum í daga. Þegar lest fer fram hjá mér eru nokkrir vagnar komnir fram hjá, aðrir eru enn ókomnir og ákveðinn klefi í einum vagni er beint á móts við mig. Ég horfi á farþegana í honum gegnum gluggann. Svona hlýtur tíminn að vera. Síðasta vika er farin, næsta vika er enn ókomin en ég get horfst á við farþegana í Núinu. Þar sem lestir hægja alltaf á sér og stoppa einhvers staðar, hvað lætur þá tímann renna áfram svona linnulaust? Gæti ekki Núið verið síðasti klefinn í aftasta vagninum? En samt auðvitað ekki; það væri enn eitthvað fyrir aftan hann, þó það væri ekki annað en vindurinn. Þið sjáið að það er freistandi, en einnig að það hljómar eins og þvættingur, að tala um síðasta klefa tímans. Hvers vegna getum við sagt það um tímann sem líkist mjög því sem við segjum með réttu um lestir, þegar engar réttar ályktanir um tímann samsvara sumu sem leiðir réttilega af því sem við segjum um lestir? Til að svara þessari spurningu yrðum við að skoða fjölmörg afbrigði þess sem við segjum um lestir, ár og vinda; um skuggaspil, regnboga og speglanir; um sólskífur og dagatöl; um talnaröðina, daga vikunnar og mínútur dagsins. Og þá sjáum við kannski hvers vegna við hurfum smátt og smátt frá og höfum ekki lengur tilhneigingu til að hverfa frá réttum ályktunum af algengri orðnotkun um lestir til samsvarandi ályktana af nokkuð svipaðri orðnotkun um tímann. Við sjáum að við höfum lagt of mikið á tilteknar hliðstæður milli talsmáta, og að við vorum svo gagntekin af líkani sem við héldum upp á að við höfðum haldið áfram að nota það þar sem það átti ekki lengur við. Og nú vitum við að vissu leyti hvað tíminn er þó ekki sé til nein styttri eða betri leið til að segja / útlista það en að fara aftur í gegnum sams konar mállega tesmökkun.
Ég verð að ljúka máli mínu. Wittgenstein hefur vakið okkar kynslóð heimspekinga til umhugsunar um heimspekina sjálfa. Það er að sjálfsögðu mögulegt að manneskja verði afar íhugul um eðli og aðferðir einhverrar starfsemi án þess að verða neitt betri í að inna hana af hendi. Margfætlan í kvæðinu kunni vel að hlaupa þar til hún fór að velta því fyrir sér hvernig hún færi að því. Kannski erum við orðin dálítið óörugg um hlutverk okkar. En niðursöllun Wittgensteins á þeirri hugmynd að heimspekin sé eins konar vísindi hefur alltént gert okkur árvökul um verkfæri okkar. Við reynum ekki lengur að leysa vandamál okkar með rökfærsluaðferðum sem eiga við til að færa sönnur á kennisetningar eða staðfesta tilgátur. Nánar tiltekið höfum við lært að gaumgæfa vandlega hvað hægt er að segja og hvað er ekki hægt. Það sem G. E. Moore hafði iðkað frá árdögum tuttugustu aldar hlýtur stuðning frá Wittgenstein. Og ég býst við að þegar tjaldið lyftist þá munum við einnig komast að raun um að efnistök og aðferðir Wittgensteins hafa aukið afl, umfang og nákvæmni þeirra aðferða sem Moore hefur svo lengi beitt til að kanna í smáatriðum rökgerð þess sem við segjum.
Magdalen College, Oxford
Gunnar Ragnarsson þýddi
Tilvísun
i. Þessi ritgerð var upphaflega erindi sem enski heimspekingurinn Gilbert Ryle (1900–76) flutti í þættinum Third programme í breska ríkisútvarpinu 26. maí 1951, rúmum mánuði eftir andlát Wittgensteins (1889–1951). Það var prentað í heimspekitímaritinu Analysis, 12. árgangi, 1. hefti, í október sama ár.
Eins og fram kemur í erindi Ryles er Tractatus – fullt heiti Tractatus Logico-Philosophicus (Rökfræðileg ritgerð um heimspeki) – eina bók Wittgensteins sem kom út meðan hann lifði. Það var ekki fyrr en tveimur árum seinna (1953) sem Philosophical Investigations (Rannsóknir í heimspeki), höfuðritið í svokallaðri „seinni heimspeki“ Wittgensteins, kom út. Síðan hafa komið út margar bækur eftir Wittgenstein og skulu hér nefndar The Blue and Brown Books (1958), Remarks on the Foundations of Mathematics (1956; endurskoðuð útg. 1978), Philosophical Grammar (1969) og On Certainty (1969). Eftir að „tjaldið lyftist“, svo vísað sé til niðurlagsorða höfundar eftirfarandi ritgerðar, má með sanni segja að málspekin hafi blómstrað með Rannsóknir í heimspeki eftir Ludwig Wittgenstein að leiðarljósi.
Höfuðrit Ryles, The Concept of Mind (Hugtakið hugur) kom út 1949 og telja menn að þar gæti umtalsverðra áhrifa frá seinni heimspeki Wittgensteins. Ryle hefur verið vel kunnugur breyttri afstöðu Wittgensteins til heimspeki eins og ljóst er af erindi hans. The Blue and Brown Books höfðu lengi verið í umferð í vélritaðri „leynilegri“ útgáfu og má telja víst að Ryle hafi haft þessa texta undir höndum. Einnig þekkti hann Wittgenstein persónulega. Þessar bækur eru eiginlega drög eða uppkast að Rannsóknum í heimspeki.
Seinni heimspeki Wittgensteins hefur haft feikileg áhrif, einkum í hinum enskumælandi heimi þar sem segja má að málspeki (e. linguistic philosophy) í anda Wittgensteins hafi ráðið ríkjum. Hún hefur ekki aðeins haft áhrif á heimspeki heldur einnig á mannfræði, félagsvísindi og fleiri greinar. Mikið hefur verið og er enn skrifað um þennan áhrifamikla og umdeilda hugsuð, bæði til lofs og lasts. Þess skal getið að Bláa bókin kom út í Lærdómsritaflokki Hins íslenska bókmenntafélags árið 1998 í þýðingu Þorbergs Þórssonar, með ýtarlegum og fróðlegum inngangi eftir Þorstein Gylfason. Og árið 2000 kom út í sama ritaflokki bókin Ógöngur (Dilemmas) eftir Gilbert Ryle í þýðingu Garðars Á. Árnasonar. Á Heimspekivefnum er til nokkuð efni um Wittgenstein og heimspeki hans.