Færslusöfn

Heimspekikaffihúsið

eftir Róbert Jack

Heimspekikaffihúsið

Heimspekikaffihúsið á uppruna sinn að rekja til dags eins í júlímánuði árið 1992 á Café des Phares á Bastillutorgi í París: það er sunnudagsmorgunn og heimspekingurinn Marc Sautet ræðir við nokkra vini sína um heimspekilega ráðgjafarstofu sem hann hefur nýlega opnað. Nokkrir einstaklingar hafa heyrt á öldum ljósvakans að þarna sé að finna heimspeking sem eigi í samræðu við fólk. Þeir leita hann uppi og finna. Einhver nefnir þá reynslu að vera nærri dáinn og þar með verður dauðinn fyrsta viðfangsefni heimspekikaffihússins.1 – Einhvern veginn þannig lýsir Marc Sautet upphafi heimspekikaffihússins sem hann stóð svo fyrir vikulega á sunnudagsmorgnum klukkan 11:00. Nú eru mjög margir viðburðir af þessu tagi í Parísarborg og þá má einnig finna víða í Evrópu, Norður-Ameríku og annars staðar.

Lýðræðisleg grunnhugmynd

Grunnhugmyndin hefur varla verið mjög mótuð fyrir fyrstu samkomuna, ef marka má lýsingu Sautets. Heimspekikaffihúsinu er þó ætlað að mynda einhvers konar torgstemningu (agora-stemningu) í líkingu við það sem Sókrates kann að hafa skapað í Aþenu til forna. Hér eru viðmælendurnir þó margir, allt upp í nokkur hundruð, og þróun umræðunnar ekki alveg sambærileg við það sem við eigum að venjast úr samræðum Platons þar sem Sókrates er í aðalhlutverki. Þar á Sókrates sér ekki ávallt aðeins einn viðmælanda, til dæmis í Ríkinu eru þeir nokkrir, en hann ræðir að jafnaði í nokkra stund við hvern og einn áður en hann beinir athyglinni að næsta viðmælanda.

Á heimspekikaffihúsinu er þessu öðruvísi farið. Þar er ætlast til að samræðan fari samtímis fram meðal allra viðstaddra og sé því afar lýðræðisleg. Hlutverk hins heimspekilega stjórnanda er vissulega að „stjórna“ en ekki í þeim sama skilningi og Sókrates heldur samræðunni gangandi með leiðandi spurningum. Þannig hafa menn séð heimspekikaffihúsið sem lið í lýðræðislegri umræðu, sem frjálsan vettvang óháðan félagslegum eða efnahagslegum þvingunum.2 Bandaríski heimspekingurinn Lou Marinoff sér heimspekikaffihúsið nánast sem eins konar byltingarstarfsemi þar sem ríkir andúð á fjöldamenningunni.3 Þarna komi saman fólk sem er reiðubúið að reyna á hugann og þróa hugmyndir sínar.

Umgjörð

Umgjörðin eins og Sautet leggur hana upp er ekki önnur en sú að fólk hittist á venjulegu kaffihúsi, en e.t.v. í bakherbergi þannig að ekki sé of mikill hávaði. Sautet hefur þó ekkert á móti því að það heyrist aðeins í kaffivélinni og það sé smá skvaldur í bakgrunni. Í Bandaríkjunum fara slíkar samkomur gjarnan fram í bókabúðum, en menn hafa einnig staðið fyrir þeim í félagsmiðstöðvum, fangelsum og öðrum stofnunum. Tímalengdin er að jafnaði ein og hálf til tvær klukkustundir, en oft er tekið hlé þegar samkoman er u.þ.b. hálfnuð.

Umræðuefni

Þegar á staðinn er komið þarf fyrst að ákveða umræðuefnið, þótt það sé stundum ákveðið fyrirfram. Bandaríkjamaðurinn Richard Shusterman stendur til dæmis fyrir mánaðarlegum uppákomum þar sem ávallt nýr „fyrirlesari“ kemur og kynnir ákveðið efni sem salurinn ræðir svo um, en þessi nálgun samræmist reyndar ekki því sem flestir kalla heimspekikaffihús.4 Á „hefðbundnu“ heimspekikaffihúsi er stjórnandinn oftast sá sami og ákveður efnið þar að auki sjaldnast fyrirfram. Það gerir Sautet til að mynda ekki, heldur biður salinn um að koma með tillögur að umræðuefni. Sjálfur velur hann svo það sem honum hugnast best.5 Ekki velja þó allir stjórnendur sjálfir út frá tillögum úr salnum heldur láta fólk kjósa á milli nokkurra tillagna.

Hvað efnislegt innihald viðfangsefnisins áhrærir getur það verið hvað sem hægt er að hugsa heimspekilega um. Sautet gerir sér far um að velja efni sem telst óvenjulegt heimspekilegt umræðuefni, eins og t.d. „fyrsta skiptið“. Dæmi um önnur efni sem hann hefur tekið til umræðu eru: „að vera háður“, „ofbeldi“, „seinkun“, „er jólasveinninn til?“ og „ákveður maður sjálfur eða er ákveðið fyrir mann?“. Bandaríkjamaðurinn Christopher Phillips, sem stendur fyrir svipuðum samkomum sem hann kalla Sókratesarkaffi, hefur, svo dæmi séu nefnd, fjallað um „hví að spyrja?“, „hvað er heimili?“, „hvað er vinur?“, „hvenær er lífið ekki þess virði að lifa því?“, „hvað er trú?“ og „er heimurinn einungis huglægur?“.6 Þá hvetur Phillips þátttakendur í salnum til að velja það efni sem þeir telja sig minnst vita um, því það leiði oft til skemmtilegustu umræðnanna og opni nýjar víddir hjá fólki.7

Að hlusta og spyrja

Sautet telur að eins og greina megi hjá Sókratesi séu heimspekingar betur til þess fallnir að spyrja en að tjá sig um hvernig hlutunum sé eða eigi að vera háttað. Raunar segir hann að ástundun heimspeki hefjist á því að hlusta.8 Til að fá samræðuna í gang biður hann því ávallt þann sem stakk upp á umræðuefninu að segja svolítið frá hugleiðingum sínum um það. Þannig fær heimspekingurinn hráefni til að bregðast við.9 Þetta tengist einnig mikilvægi spurninga almennt á heimspekikaffihúsinu, en Phillips nefnir að mikilvægt sé að fólk læri að spyrja spurninga og jafnvel má segja að heimspekikaffihúsið sé vel heppnað ef fólk fer með fleiri spurningar en það kom með.10 Stjórnandinn á sem sagt að hvetja til spurninga bæði um efnið almennt og um réttmæti þess sem sagt hefur verið.

Hlutverk stjórnanda og viðmiðunarreglur

Stjórnandi samræðunnar á ekki að ýta á neinn að tjá sig, en enginn þarf að tala frekar en hann vill. Hlutverk stjórnandans er fyrst og fremst að sjá til þess að samræðan gangi vel fyrir sig. Hann á sjálfur ekki endilega að koma með efnislegt innlegg eða spurningar nema samræðan hafi siglt í strand. Honum ber þó að inna fólk eftir rökum fyrir skoðunum sínum, biðja það um að nefna dæmi sem geta tengt umfjöllunarefnið við hversdagsleikann og skýrt viðhorf viðkomandi. Þá á hann að beina til fólks að hlusta á meðan aðrir tala og koma í veg fyrir að samræðan taki á sig fyrirlestrastíl (einn talar), ráðstefnustíl (nokkrir tala án tillits til þess sem aðrir segja), kennslustíl (einn kennir hinum) eða verði kaffistofusnakk (yfirborðsleg umræða þar sem ekkert er skoðað ofan í kjölinn).11 Loks skal hvorki stefna að samkomulagi né reyna í lokin að draga saman í eina niðurstöðu hvað sagt hefur verið.12

Marinoff segist einungis hafa eina aðalreglu, að sýna kurteisi, en vegna þeirrar reglu komi einnig fram aðrar dygðir eins og þolinmæði, hlustun og umburðarlyndi. Marinoff reynir einnig að draga úr því að vísað sé til frægra nafna, því hann telur það vinna gegn því markmiði að fólk hugsi eigin hugsanir og þrói hugmyndir sínar.13 Þessu tengt hafnar Phillips því að gengið sé út frá ákveðnu lesefni, því hann segir of mikla stjórnun felast í því og það „líkist um of annars konar hópum sem segjast ætla að færa heimspekina út úr skólastofunni en taka svo óvart skólastofuformið með sér“.14

Gagnlegt fyrir hversdagslífið

Þá talar Sautet um að heimspekikaffihúsið sé hvorki vettvangur fyrir innvígða heimspekinga (nema að þeir stilli fræðimáli sínu í hóf) né sé það meðferðarhópur.15Kanadíski heimspekingurinn Peter Raabe tekur upp þemað um meðferðarhópinn, en hann er þeirrar skoðunar að oftast sé óviðeigandi að ræða persónuleg vandamál sín á heimspekikaffihúsi eins og gert er til að mynda í heimspekilegri ráðgjöf.16 Vissulega sé gjarnan við hæfi, og jafnvel mjög æskilegt, að dæmi sem nefnd eru í umræðunni séu úr eigin reynsluheimi, en því má ekki rugla saman við það að bera persónuleg vandamál sín á torg. Fái fólk einhverja innsýn í persónulegan vanda sinn á heimspekikaffihúsi er það því frekar fyrir tilviljun en að það sé beinlínis ætlunin. Á heimspekikaffihúsinu getur einstaklingurinn hins vegar frekar gengið að því vísu að geta þroskað og þróað athyglisgáfuna, hæfileikann til að hlusta, hugsun sína og þær hugmyndir sem hann hefur. Þannig nýtist viðburðurinn í hversdagslífinu.

 

Tilvísanir

1. Marc Sautet, Ein Café für Sokrates, Siedler, Düsseldorf 1997 (1. útg. á frönsku 1995), bls. 24.

2. Sjá heimasíðu Gale Prawda (www.philodialogue.com/history.htm), sótt 4. ágúst 2004.

3. Marinoff, Plato, Not Prozac!, Quill 2000 (1. útg. 1999), bls. 258.

4. Sjá grein Roberts Strauss um Richard Shusterman: „His forum is making philosophy almost fun“ á vefslóðinni www.geocities.com/centersophon/press/Shusterman.html, sótt 10. júní 2004.

5. Sautet, Ein Café für Sokrates, bls. 29.

6. Sjá bók Christophers Phillips, Socratic Café: A Fresh Taste of Philosophy, Norton, New York 2001. Sbr. bókardóm eftir David Arnaud í Practical Philosophy, 4. árg. 2. tbl. (júlí 2001).

7. Sbr. „Starting a Socrates Café“ á heimasíðu SPI (The Society for Philosophical Inquiry) (www.philosopher.org/soccaf.html), sótt 24. janúar 2005, (bls. 2/9).

8. Sautet, Ein Café für Sokrates, bls. 45.

9. Sautet, Ein Café für Sokrates, bls. 46.

10. Sbr. „Starting a Socrates Café“, (bls. 6/9).

11. Sjá heimasíðu Gale Prawda.

12. Sbr. „Starting a Socrates Café“, (bls. 6/9).

13. Marinoff, Plato, Not Prozac!, bls. 259.

14. Sbr. „Starting a Socrates Café“, (bls. 7/9).

15. Sautet, Ein Café für Sokrates, bls. 36.

16. Peter Raabe, Issues in Philosophical Counseling, Praeger, Westport 2002, bls. 35-38.

 

« Til baka

Hlutdrægni vísindanna og veraldarinnar sjálfrar

eftir Ernst Bloch1

Mannleg hugsun er og hefur alla tíð verið hlutdræg. Því reynir enginn maður að andmæla á okkar dögum nema til komi annað tveggja: að hann vilji vísvitandi fela sinn rétta lit eða geri sér ekki grein fyrir honum. Hin borgaralegu vísindi2 voru heldur ekki laus við hlutdrægni, endaþótt þau hafi reyndar lengi vaðið í þeirri villu. Þar er ekki örðugt verk að lyfta hulunni ofanaf þeirri sjálfs­blekkingu.

Vísindamaðurinn barn síns tíma

 

Hversu einangraður sem vísindamaðurinn annars kann að vera kemst hann aldrei hjá því að vera barn síns tíma. Með stétt sinni deilir hann ákveðnum efnahagslegum skilyrðum, þessi sömu skilyrði ákvarða félagslega stöðu hans. Það samfélag sem hann lifir í setur honum jafnan vissar hugmyndafræðilegar skorður. Milli hugmyndafræði og efnahagsaðstæðna liggja margir þræðir. Öll sú hugmyndamiðlun sem á sér stað í samfélaginu verður fyrir áhrifum þeirra efnahagslegu og félagslegu aðstæðna sem ríkjandi eru á hverjum tíma. Vísindin hljóta alltaf að lúta samfélags­legum áhrifum. Þær hugmyndir sem uppi eru á hverjum tíma samsvara jafnan hugsunarhætti ráðandi stéttar. Jafnvel þótt slíkar hugmyndir kunni að brjóta í bág við hugsanagang ráðandi stéttar, taka þær þó leynt og ljóst mið af honum.

Hugmyndir manna um hin svonefndu hreinu vísindi eru því ekki annað en blekking. Þessi blekking er sprottin af því að menn gerðu sér ekki far um að brjóta til mergjar efnahags- og félagslegar forsendur þeirrar aðferðar sem vísindin beittu hverju sinni. Enda þótt slík krufning hafi ekki verið gerð, voru þessar forsendur og sú hlutdrægni sem þeim fylgdi blákaldur veruleiki. Lítum til dæmis á afstöðu vísindanna á dögum hins forna þrælaþjóðfélags til þekkingarinnar. Þar var litið svo á, að þekking yrði aðeins fengin með „óvirkri skoðun“ (empfangendes Schauen) áhorfandans, en aldrei með beinum verknaði. Þetta viðhorf átti sér ekki rætur í neinni hrein­vísindalegri afstöðu. Það var bein afleiðing þeirrar hlutdrægu afstöðu til vinnunnar sem ráðandi var á þessum tíma.3 Hér mætti tilfæra annað dæmi. Það er heldur ekki sprottið af hrein­vísindalegum rótum að vísindalegar athuganir á miðöldum skuli einkum hafa beinst að „grund­vallareðli hlutanna“ (substanziale Formen), en áhugi auðvaldþjóðfélags nútímans hinsvegar fyrst og fremst að svonefndum hreyfilögmálum (funktionale Gesetze). Allar hlutlausar vangaveltur um svokallaðan algildan sannleika bera og þjóðfélagslegum uppruna sínum glöggt vitni.

Sjálf trúin á að vera óhlutdrægur er sprottin af sérlega hlutdrægum rótum. Það er engin tilviljun, að það skuli einkum vera hin borgaralegu vísindi sem flíka þessari trú í mun ríkari mæli en vísindi fornaldarinnar og á mun afstæðari hátt en vísindi lénsþjóðfélags miðalda. Þessi ímyndaða óhlut­drægni þjónar reyndar dyggilega hagsmunum borgarastéttarinnar. Eitt af lævísum drottnunar­brögðum borgaralegs valds er að bregða yfir sig dulu óhlutdrægninnar. Borgarastéttin hefur aldrei viljað kannast við þá stéttabaráttu, sem hún hefur háð af sívaxandi afli, né heldur við stéttskiptinguna eða eigin kúgunaraðferðir, sem hún hefur reynt að dylja allt þar til þær hafa afhjúpað sig í hreinum fasisma. Ríkisvald borgaranna hefur tekið á sig gervi fulltrúa hlutlauss almannavilja, stofnunar sem sé hafin yfir flokkadrætti af öllu tæi. Í stað þess að leyfa sann­leikanum um eðli ríkisins sem valdatækis ráðandi stéttar að koma í ljós, var reynt að láta líta svo út sem þetta valdatæki væri hreinræktað réttarríki, sem ekki stýrðist af neinskonar sérhags­munum. Þetta er semsé eðli hinnar borgaralegu yfirborðshlutlægni auðvaldsins og hér er jafn­framt að finna forsendu þess, að sú hugmyndafræði, sem undir bjó, var ekki brotin til mergjar. Til samræmis við trúna á hið ímyndaða réttarríki, sem á að vera hafið yfir alla flokkadrætti, er sú vöntun á hugmyndafræðilegri meðvitund, sem einkennir velflesta borgaralega vísindamenn.

Þarmeð erum við komin að kviku þeirrar hlutdrægni sem er viðloðandi borgaralega hugsun. Oft er hér beitt djúphugsuðum aðferðum til að dylja hinn rétta lit. Reynt er að bægja frá hverskyns umræðu um raunverulegt innihald þessarar hugsunar og viðhalda þeirri formyrkvan vitundar­innar, sem auðvaldinu stafar beinn hagnaður af. Það væri reyndar ekki vel til fundið að nota hugtakið hlutdrægni, þegar um er að ræða beina meðvitaða mútuþægni við Wallstreet, sem mjög hefur færst í aukana á síðustu tímum. Þessháttar fyrirbrigði er ekki unnt að staðsetja undir sama hatt og falslausa hlutdrægni borgaralegrar hugsunar fyrri tíma. Það var einkenni þeirrar hugsun­ar, að hún var enn trúuð á, eða vildi vera trúuð á hlutlæga afstöðu sína. Það skilur hana frá öllum þeim sem vísvitandi sigla undir fölsku flaggi. Annað er það, að í borgaralegri hugsun fyrri tíma leyndist enn vaxtarbroddur hugmyndafræði og vísinda, sem ekki verður sagt um þankagang fals­spámanna okkar tíma. Þrátt fyrir, ef ekki einmitt vegna þessarar sannfæringar um algerlega hlutlæga afstöðu, kemur hlutdrægnin í garð eigin stéttar berlega í ljós hjá glæstustu riddurum hinna borgaralegu vísinda, meðan þau enn voru og hétu. Mommsen4 veittist, svo dæmi sé nefnt, að kirkjulegri sagnritun Martins Spahn, í nafni þess sem Mommsen vildi kalla „skilyrðislaus vísindi“ (voraussetzungslose Wissenschaft), en sjálfur skrifaði Mommsen síður en svo á „skilyrðislausan“ hátt. Skrif hans voru þvert á móti með pólitískum lit. Hann fjallaði um hið liðna á sama hátt og um samtímaatburði væri að ræða. Að hætti frjálslyndra manna, aðdáenda glæsilegra mikilmenna, tók hann fyrir hrifningar sakir afstöðu með Cesari. Annað dæmi um margbreytilega hlutdrægni hans var, að sem lýðræðissinni og fyrrum þátttakandi í uppreisninni 1848, sneiðir hann með öllu hjá rómverska keisaratímabilinu og lýsir því hvergi. Mommsen leit á Cesar sem flokksbróður sinn, rómverska herkonungavaldið var hinsvegar óvinur af andstæðum flokki. Það er því auðsætt, að til grundvallar sögulegum dómum Mommsens liggur pólitískt mat. Af stéttarlegum ástæðum auðnaðist Mommsen reyndar aldrei að komast að kviku rómverskrar sögu, en slík athugun hefði orðið að byggjast á úttekt á jarðeignaskipaninni. Hlutdræg afstaða hans kom og í veg fyrir það, að honum tækist að skila af sér því sem hann vildi sjálfur kalla „þungvæga lærdómshneigð“.

Svo við höldum okkur enn við sagnfræðina og látum jafn erkihlutdrægar greinar og borgaralega hagfræði, lögfræði og listskoðun 19. aldarinnar liggja á milli hluta, þá er ekki úr vegi að víkja stuttlega að Ranke.5 Víst er um það, að sem sagnfræðingi mætti líkja Ranke við „kyrrlátt veraldarauga“. Hjá honum verður hvergi vart andúðar eða velþóknunar í garð þeirra einstaklinga, sem hann dregur upp myndir af. Ranke var svo sannfærður um algera hlutlægni sína, að hann gat sagt sem svo: „ég dirfist ekki að setjast í neinn alheimsdómarastól“. Hann gerði sér ekki far um að lýsa með neinum sérstökum þunga þeim augnablikum sögunnar, sem fá hjartað til að berjast í brjósti manns, og hélt því fram, að öll söguskeið ættu það sammerkt, að þau stæðu „frammi fyrir augliti guðs“. Þessi alltof yfirdrifna málefnalega afstaða var þó aðeins hafin yfir hlutdrægni í einstaklingsbundnum skilningi. Hlutdrægni þessa nytsemislega viðhorfs Rankes er einmitt fólgin í því, að hann vék sér undan því að setjast í alheimsdómarastól. Fjallað er um söguna einsog hvert tímabil hafi náð takmarki sínu. En einmitt á þennan hátt afneitaði íhalds­sinninn framförum í sögunni. Hann lagði að jöfnu tímabil framfara, sem raunverulega skiptu sköpum í veraldarsögunni, og afturhaldssama tíma sem lifðu og nærðust á þeirri trú, að þeir stæðu frammi fyrir augliti guðs. Það var því ekki um að ræða neitt hlutleysi meðal vísindamanna hinna „hlutlægu“ 19. aldar. Hlutleysi var hvorki til í formi neinna skilyrðislausra né óháðra vísinda (sem Max Weber6 var enn trúaður á). Hlutleysi var ekki annað en vöntun á meðvitund og yfirvegun eigin hlutdrægni.

Hlutdrægni í náttúruvísindum

 

Í náttúruvísindunum rekumst við á hlutdræga hugsun af líku tæi. Ágreiningsatriði innan náttúruvísindanna sjálfra hafa aldrei verið jafn nátengd annarskonar ágreiningi einsog á okkar dögum. Þessi tengsl snerta sjálft starf náttúruvísindamannanna nánar en menn gera sér almennt grein fyrir, enda þótt þesskonar iðja virðist á ytra borði hafin yfir allan ágreining. Það sem hér um ræðir á einkum við um aðdraganda rannsókna, þann hátt sem hafður er á umfjöllunvandamála, og þó fyrst og fremst þær alhæfingar, sem fram eru settar á grundvelli ákveðinnar heimsmyndar. Hér breytir engu, þó unnt sé að gera ítarlega grein fyrir einstökum atriðum rannsóknanna. Það skiptir heldur engu meginmáli í þessu sambandi, að náttúrulega hluti er að sjálfsögðu unnt að skoða úr meiri fjarlægð en fyrirbrigði samfélagslegrar ættar. Heimur náttúrunnar stendur að mestu utanvið vitundarsvið mannsins. Þó gegnir hlutdrægur skilningur einnig mikilvægu hlutverki í þessum efnum, endaþótt nokkuð erfiðara geti verið að henda reiður á honum; nefnilega þegar til kemur bein þjónkun við síðborgaralega hagsmuni í formi vissra alhæfinga. Hlutdrægni kemur hér fram í því, að ekki er reynt að leiða í ljós allan sannleikann um ákveðið viðfangsefni. Þessi tegund hlutdrægni er með snöggtum sterkari áróðursbragð en áhangendur hennar væna andmælendur sína um. Weismann og Lýsenkó,7 annar málsvari kenningarinnar um umhverfisáhrif sem afgerandi þátt áunninna eiginleika, hinn talsmaður óskoraðs valds erfða í þessu sambandi, þessir tveir vísindamenn eru ekki einvörðungu fræðilegir andstæðingar. Það sem meira er: annar lýsir neikvæðu, hinn jákvæðu viðhorfi sínu til þróunarhugmyndarinnar. Kenning Weismanns um „samfellt kímfrymi“ (kontinuierliches Keimplasma), sem einungis getur tekið breytingum innanfrá og engar ytri aðstæður hafa áhrif á, er í eðli sínu íhaldssöm. Jafnvel þegar um er að ræða ágreining um meginatriði stærðfræði og eðlisfræði, lætur hlutdrægni af lakara tæinu víða á sér kræla, einkum þó og sérílagi þegar til koma grundvallaratriði þekkingarfræðilegs eðlis eða alhæfingar, sem taka mið af ákveðinni heimsmynd. M.ö.o. þegar um er að ræða hugmyndafræðileg atriði, sem ekki lúta hlutlægu mati, þrátt fyrir alla viðleitni til að komast að hlutlægri niðurstöðu. Alþekkt dæmi eru hin pósitívistíska afstaða jafn „hreinræktaðs“ stærðfræðings og Bertrands Russells eða dulspekilegt viðhorf hins „hreinræktaða“ eðlisfræðings, Eddingtons.8 Raunsæisleg afstaða Plancks9 kemst einna næst því að vera undantekning að þessu leyti. Afturámóti hefur rishá vísindamennska engu breytt um það, að frá síðustu aldamótum hefur átt sér stað sýnilegt fráhvarf frá raun­sæisstefnunni, sem verið hefur meir í ætt við „tíðarandann“ (Zeitströmung) en raunverulegt „skrið heimsins“ (Weltströmung). Hilbert10 leit á hið stærðfræðilega eingöngu sem samspil forsendna og niðurstaðna, þarsem unnt væri að setja inní og breyta um „frumhæfingar“ (axíóm) að vild. Í „innsæislegri“ (intúitívri) stærðfræði Brouwers11 er og gert ráð fyrir því að niðurstaðan sem slík lúti engum hlutlægum eða rökrænum innri lögmálum, heldur ákvarðist niðurstaðan á sama hátt og forsenda hennar af sjálfráðu vali. Þessir miklu stærðfræðingar slitu þarmeð stærðfræðina úr öllum tengslum við hina ytri veröld sem hún hafði fyrr meir sótt efnivið sinn í. Stærðfræðinni var eignaður sérstakur heimur. Þetta var í samræmi við þá óraunsæju hlutdrægni sem ráðandi var á þessum tíma. Sú hlutdrægni leiddi til þess að samfélagsleg vandamál voru færð á hlutlæg svið. Sem dæmi má nefna þá skoðun Mengers12 og fleiri að hugtakið efnahagslegt gildi mætti einfaldlega skýra sem breytilegt mat. Þessi tilhneiging til að hverfa frá hinni ytri veröld er ekki síst augljós í hinni vinsælu „sama sem afstöðu“ nútímaeðlisfræðinga, þarsem þó er um að ræða þá vísindagrein sem eðli sínu samkvæmt fæst við athuganir á hinni ytri veröld. Til að umflýja efnishyggjuna snerust menn af mikilli einurð gegn kenningum sem gerðu ráð fyrir afgerandi áhrifum hins ytri veruleika á vitund mannsins. Leiðandi öfl í þeirri baráttu voru Machisminn13 og Ný-Berkeleyanisminn.14 Í stað þess að efla skilning manna á heiminum í heild, er hér einungis reynt að tíunda einstök hughrif og afleiðingar þeirra. Í stað almennra frumhugtaka (Kategorien) koma nú einungis „leiðbeinandi“ hjálparhugtök (heuristische Hilfsbegriffe) og kenningar eru hér ekki annað en heimasmíðaðar skýringarreglur. Með þessu móti lánast vísindunum að losa sig við grundvallarhugtak sem ráðandi var í heimsmynd náttúruvísindanna á tímum hinnar framfara­sinnuðu borgaralegu hugmyndafræði. Þar er átt við „orsakarhugtakið“ svonefnda (Kausal­kategorie).15 En þarmeð víkur öll viðleitni til raunhæfrar hlutlægni yfirleitt. Vasklegust er þó fram­gangan á sviði þekkingarfræðinnar. Þar freista menn þess að afmá undirrót alls lögmálsbundins veruleika, efnið sjálft. Efnið er nú alltíeinu orðið „af öðrum heimi“ eða frumspekilegrar ættar og sett undir sama hatt og önnur svokölluð „yfirnáttúruleg fyrirbrigði“.16 Það ýtir enn undir hugmyndir manna um að manninum sé ekki unnt að komast fyrir hlutanna dýpsta eðli, að díalektíkin er nú álitin heilaspuni og ekki þess virði að eytt sé á hana orðum. Þekkingarfræðileg útþurrkun efnisins dregur þvínæst ákveðna fylgju á eftir sér í eðlisfræðinni. Þar gerist það að geisluninni er teflt fram gegn efninu. Hér sjáum við dæmi um berleg áhrif afturhaldssamrar náttúruheimspeki á ósvikna og stórbrotna uppgötvun hreineðlisfræðilegrar ættar. Geislunin sem efnið leysist upp í, á nú að ganga af efninu dauðu fyrir fullt og allt (hér sést mönnum yfir það að geislunin myndar aftur efni).17 Framfarasinnuð hlutdrægni hinnar borgaralegu náttúrukenningar opnaði mönnum eitt sinn leið til skilnings á því að hreyfingin væri eiginleiki sem ekki yrði skilinn frá efninu. Þessi skilningur birtist okkur t.a.m. í verkum þeirra Galíleís og Hobbes.18 Sú skoðun að hreyfing efnisins eigi upptök sín utan þess, gerir aðeins vart við sig hjá fáeinum minniháttar áhangendum vélhyggjunnar (Mechanismus).

 

Tilvísanir

1. Höfundur þessarar greinar er kunnur þýskur heimspekingur og marxisti. Hann er nú aldinn að árum en hefur á sínum langa ferli sett saman fjölda rita um heimspeki, bókmenntir og fleiri efni. Þekktasta rit hans er án efa „Vonarlögmálið“ (Das Prinzip Hoffnung) sem hann samdi í Bandaríkjunum á árunum 1938-’47. þar tekur hann til íhugunar upptök og eðli vonarinnar auk þess margbreytilega búnings sem hún hefur íklæðst í mannlegu samfélagi. Af öðrum ritum hans mætti nefna: Andi útópíunnar, Arfur vorra tíma, og Náttúruréttur og mannleg virðing. Eftirfarandi hugleiðing var skrifuð árið 1951. Enda þótt svo drjúgur tími sé liðinn frá samningu hennar á hún þó vísast engu minna erindi nú en þá sem marxískt innlegg í umræður manna um „hlutleysi“ vísindanna. Í greininni tæpir höfundur víða á nöfnum og hugmyndum fræðimanna án þess að gera þeim fyllri skil. Af þeim sökum var afráðið að skeyta nokkrum athugasemdum aftan við greinina í þeirri von að slíkt yrði til þess að færa efnið eilítið nær lesandanum. Aukreitis voru tveir menn, þeir Magnús Fjalldal háskólanemi og Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur, spurðir álits á umþenkingum Blochs. Athugasemdir þeirra eru birtar á eftir greininni. Páll Skúlason lektor las þýðinguna yfir og benti á ýmislegt sem betur mátti fara auk þess sem hann aðstoðaði við gerð skýringa. – Þýð.

2. Hugtakið borgari notar Bloch í þeirri merkingu sem hugtakið hefur í fræðikenningu marxismans. Marx greindi hið kapítalíska þjóðfélag í tvær meginstéttir: borgara og öreiga. Borgarastéttin er sú stétt sem fyrir tilverknað séreignar sinnar á framleiðslutækjunum arðrænir öreigastéttina. Að því er varðar ýtarlegri skilgreiningar á uppruna og eðli þessara andstæðu stétta, er réttast að vísa til orða Marx sjálfs um þessi efni, t.d. kaflans um borgara og öreiga í Kommúnistaávarpinu.

3. Til gleggri skilnings á þessu atriði skal hér tilfærður stuttur kafli úr riti Björns Franzsonar, Efnisheimurinn: „Hinir grísku fræðimenn voru þeirrar skoðunar – eins og svo margir af heimspekingum síðari alda – að unnt væri að leysa allar ráðgátur með tilstilli skynseminnar einnar og óstuddrar. Þess vegna gátu þeir að vísu grundvallað rökfræðina sem vísindagrein og komizt langt í stærðfræði, sem – eftir að frumatriðum sleppir – byggir ekki niðurstöður sínar á reynslunni nema mjög óbeinlínis, heldur á rökfræðilegum ályktunum. En í almennri náttúrufræði varð Grikkjum furðu lítið ágengt. Þetta stendur í nánu sambandi við þjóðskipulag fornaldarinnar og er að nokkru leyti afleiðing þeirrar óbeitar á líkamlegri vinnu, sem ríkjandi er jafnan innan þeirra þjóðfélaga, er byggjast á þrælahaldi. Leitin að sannleikanum er hins vegar erfið og þrotlaus vinna – líkamleg ekki síður en andleg oft og tíðum. Yfirstéttin gríska hafði ein tóm til og tök á að stunda vísindi, og verklegar tilraunir voru neðan við virðingu hennar.“ (Björn Franzson, Efnisheimurinn, bls. 12-13.)

4. Theodor Mommsen (1817-1903), þýskur lögvitringur og sagnfræðingur. Mommsen fékkst einkum og sérílagi við skrásetningu rómverskrar sögu. Hann var fyrsti Þjóðverjinn sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels (1902). Viðhorf Mommsens til sögunnar var í stuttu máli á þá leið að sagan lyti sinni eigin gangfræði (dynamik). Hún yrði því einungis skilin og skýrð innanfrá. Mommsen afneitaði öllum tilraunum sagnfræðinga til að leggja almennt siðferðilegt mat á viðgangsefni sitt. Hann var þeirrar skoðunar að mönnum væri unnt að draga margskonar lærdóm af sögunni. Einkum áleit hann rómverska sögu þess umkomna að þjálfa menn í pólitískri hugsun og verða þeim lifandi dæmi til eftirbreytni.

5. Leopold von Ranke (1795-1886), þýskur sagnfræðingur og brautryðjandi í nútímasagnfræði, einkum að því er laut að svonefndri heimildarýni. Ranke fylgdi því sjónarmiði að sagnfræðingnum bæri ekki að fella neina dóma um þann efnivið sem hann tæki til úrvinnslu. Leiðarljós sagnfræðingsins skyldi vera að greina frá liðnum atburðum „einsog þeir hefðu gerst í raun og veru“. Um viðhorf Rankes til sögunnar lék rómantískur trúarblær. Það var skýlaus sannfæring hans að allir tímar nytu nærveru guðdómsins sjálfs. Ríki og þjóðir nefndi hann t.a.m. „hugsanir guðs“.

6. Sjá ritgerð Max Webers, „Starf fræðimannsins“, í Mennt og máttur. Hið íslenzka bókmenntafélag, 1973.

7. Til eilítillar glöggvunar á þeim samanburði sem hér er gerður á erfðafræðikenningum þeirra Weismanns og Lýsenkós fer hér á eftir ívitnun í grein eftir Óskar B. Bjarnason sem prentuð var í Tímariti Máls og menningar árið 1950. Þar segir um kenningar Lýsenkós: „Lýsenkó heldur því fram, 1) að áunnir eiginleikar, þ.e. eiginleikar sem lífverurnar öðlast fyrir áhrif umhverfisins, geti við ákveðnar aðstæður orðið arfgengir. Lýsenkó er þannig í meginatriðum sammála franska vísindamanninum Lamarck, sem hélt því fram í byrjun 19. aldar að áunnir eiginleikar gengju í erfðir og hefði sköpun og þróun hinna ýmsu tegunda jurta og dýra orðið fyrir áhrif umhverfisins. Rétt er að taka fram að Darwin áleit einnig að áunnir eiginleikar væru erfanlegir. 2) Arfgengi sé ekki eingöngu bundið við frumukjarnann eða litningana, heldur hafi hver ögn líkamans sitt arfgengi. 3) Að mögulegt sé að breyta arfgengi jurta og dýra í ákveðnar áttir með vissum breytingum á lífsskilyrðum og umhverfi.“ (TMM, 1950, bls. 83). Um framlag Weismanns til erfðafræðinnar segir í sömu grein: „Hugmynd Weismanns er sú að skipta megi líkama allra lifandi vera í tvo hvorn öðrum óháða hluta, kímfrymi og líkamsfrymi. Frumurnar sem sjá um æxlunina, kímfrumurnar, séu óháðar öðrum frumum líkamans, óbreytanlegar, og á vissan hátt eilífar þar sem þær flytjast við æxlunina yfir í nýjan einstakling. Erfðaefnið eða erfðaeiginleikarnir er eingöngu háð kímfrumunum og hafa því verið óbreyttir frá upphafi“ (bls. 93).

8. Arthur Stanley Eddington (1882-1944), breskur eðlis- og stjörnufræðingur. Eddington reyndi að nota svonefnda „óvissukenningu“ í eðlisfræði til að sanna þá heimspekilegu tilgátu að maðurinn hefði frjálsan vilja. Þarmeð vildi hann vísa svonefndri nauðhyggju (determinism) á bug. Óvissukenningin byggðist á þeirri uppgötvun að hreyfingar frumeindanna lytu ekki að öllu leyti fastbundnum lögmálum. Í fyrirlestri sem Eddington flutti í enska stærðfræðingafélaginu 1932 og prentaður var í tímaritinu Skírni níu árum síðar, orðar hann meginatriði hugmynda sinna á þessa leið: „Ef allur efnisheimurinn er nauðbundinn, þá verða andlegar ákvarðanir (eða að minnsta kosti þær andlegar ákvarðanir, er til framkvæmda leiða) að vera nauðbundnar líka. Því að sé það einskorðað fyrirfram í efnisheiminum, sem líkami yðar telst til, að þér hafið pípu í munni 1. janúar, þá er niðurstaðan af hugarstríði yðar 31. desember um það, hvort þér ættuð að reykja á nýárinu, bersýnilega nauðbundin fyrirfram. Hin nýja eðlisfræði opnar því dyrnar fyrir ónauð andlegra fyrirbrigða, þar sem hin gamla eðlisfræði nauðhyggjunnar rammlæsti þeim… Ef frumeindin er ónauðbundin, þá er mannlegur andi engu síður ónauðbundinn; því vér getum varla fallizt á þá kenningu, að mannsandinn sé vélgengari en frumeindin.“ (Skírnir, 1941, bls. 206-207).

9. Max Planck (1858-1947) þýskur eðlisfræðingur. Hann lagði grundvöllinn að „skammtakenningunni“ (Quantum-Theorie) í nútímaeðlisfræði. Max Plack hlaut eðlisfræðiverðlaun Nóbels árið 1918.

10. David Hilbert (1862-1943), kunnur þýskur stærðfræðingur.

11. L.E.J. Brouwer (1880-1966), hollenskur stærðfræðingur, höfundur svonefndrar „innsæisstefnu“ (intuitionisma) í stærðfræði.

12. Karl Menger (1840-1921), austurrískur þjóðhagfræðingur, upphafsmaður hins svonefnda „austurríska skóla“ í þjóðhagfræði. Kenning Mengers um vörugildið sem hér er lauslega ýjað að var í stuttu máli þessi: Gildi vörunnar ræðst af því hversu nauðsynlega við álítum vera fyrir fullnægingu tiltekinnar þarfa. Menger veittist að þeirri skoðum Ricardós o.fl. að gildi vörunnar réðist af þeim tíma sem varið væri til framleiðslu hennar. Menger leit svo á, að enginn hirti um það í sínu dagslega lífi á hvern hátt varan hefði orðið til. Hver og einn legði mat á vöruna eftir þeim notum sem hann hefði af henni og því, hvers hann færi á mis ef hann þyrfti að vera án hennar.

13. Machismi er kenndur við austurríska eðlisfræðinginn og heimspekinginn Ernst Mach (1838-1916), sem m.a. hélt fram þeirri skoðun að þekkingin væri grundvölluð á einföldum skynhrifum og að í raun væri „heimurinn“ ekki annað en heild skynjana okkar.

14. Ný-Berkeleyanismi er kenndur við írska heimspekinginn George Berkeley (1685-1753), sem m.a. er frægur fyrir þá skoðun sína að rangt sé að tala um efnislega hluti sem séu óháðir meðvitund okkar og orki á hana: hlutirnir eru raunverulegir með því að þeir eru viðfang skynjunarinnar: esse est percipi. Mennirnir skynja að sjálfsögðu aðeins brot af heiminum, en heimurinn er eilíflega skynjaður af guði.

15. Um aðför Berkeleyanismans að orsakalögmálinu segir Björn Franzson m.a. í bók sinni Efnisheimurinn: „Vér skulum ekki eyða mörgum orðum að slíkri heimspeki, en láta oss nægja að spyrja fulltrúa hennar þessarar spurningar: ‘Af hvaða orsökum er orsakalögmálið úr gildi fallið?’ Og þeir svara: ‘Af þeim orsökum, að hin nýrri vísindi hafa komizt að niðurstöðum, sem við viljum leggja í þann skilning.’ Af þeim orsökum! Það er að segja: Til þess að nema úr gildi orsakalögmálið, þarf maður á orsakalögmálinu að halda. En orsakalögmálið er vitanlega ekki hægt að nema úr gildi. Án þess væru öll vísindi óhugsanleg, öll hugsun ómöguleg.“ (Bls. 163).

16. Um slíkar tilraunir heimspekinga til að afneita tilvist efnisins, segir Björn Franzson m.a. í áðurnefndu riti sínu um efnisheiminn: „Fulltrúar þessarar heimspekistefnu Platons og Berkeleys grípa fegins hendi við þeirri staðreynd, að uppgötvaður hefur verið nýr eiginleiki efnisins, sá, að það hagar sér stundum á þann hátt, að vér kunnum ekki að lýsa því betur með öðru en líkja því við ölduhreyfingu. Þetta túlka þeir þannig, að efnið sé horfið, vísindin hafi sannað, að það hafi aldrei verið annað en ímyndun. Það er eins og ef sagt væri, að ljósið hefði horfið, glatað raunveruleika sínum, þegar Huyghens sýndi fram á, að það hagaði sér eins og ölduhreyfing. Auðvitað er slík heimspeki sem þessi ekkert annað en fásinna og fjarstæða, sem á sér engan stað í niðurstöðum nútímavísinda, enda þótt lærðir prófessorar láti sér hana stundum um munn fara. Efnið er jafnraunverulegt og það hefur alltaf verið. Vér gætum jafnvel sagt, að það væri nú raunverulegra en áður, í þeim skilningi, að vér höfum nú öðlast réttari skilning á eðli þess. Uppgötvaður hefur verið nýr eiginleiki efnisins, sem áður var of lítill gaumur gefinn: hreyfingin. Efnishlutirnir, efniseindirnar eru ekki aðeins sjálfar á sífelldri hreyfingu, heldur felst hreyfingin með nokkrum hætti í þeim sjálfum sem djúptækari eðlisþáttur.“

17. Til glöggvunar á því bitbeini sem hér um ræðir er vert að tilfæra fáein orð úr grein eftir breska vísindamanninn J.D. Bernal, „Díalektísk efnishyggja“, sem prentuð var í Tímariti Máls og menningar, 2.-3. hefti, 1948: „Nútíma mynd manna af eðlisheiminum er full af andstæðum og mótsögnum og jafnframt ljóslifandi dæmi um, hversu eldri rökfræðin hefur brugðist. Eðli geislunar er eitt þessara umdeildu úrlausnarefna. Árum saman hefur verið deilt um það, hvort ljósið væri fremur efnisagna- og ölduhreyfing, hvort tveggja í senn, sama máli gegnir um frumeindir og rafeindir. Réttara mun að kveða svo á, að hér sé um að ræða eitthvað, er geti bæði verið öldur og efnisagnir. Sá er munur á þessum tveim hugtökum, að efnisögn er eitthvað, sem bundið er við ákveðinn stað á hverjum tíma, aldan lætur hins vegar til sín taka á ákveðnu svæði um ákveðinn tíma. Svo virðist frá sjónarmiði ‘heilbrigðrar skynsemi’, sem auðvelt ætti að vera að greina á milli þessa tvenns. Þó hafa menn nú komizt að raun um, að svo hagar til við geislun, að aldrei er hægt að ákveða nákvæmlega stöðu efniseindanna, en á hinn bóginn er kleift að staðsetja ölduhreyfinguna. Þessar tvær andstæður renna hér saman í eitt.“ (bls. 194-195).

18. Thomas Hobbes (1588-1679), breskur heimspekingur, sem hélt fram þeirri skoðun, að veröldina mætti skýra út frá hugtakinu um hreyfingu efnislegra frumeinda; vélræn lögbundin hreyfing efnislegra frumeinda gerði kleift að skýra jafnt fyrirbæri náttúrunnar sem sálarlíf manna. Hobbes er þekktastur fyrir rit sitt Leviathan, en í því færir hann rök fyrir nauðsyn einveldis til að tryggja frið og öryggi manna.

 

« Til baka

Hlutverk heimspekinnar í samfélaginu

eftir Max Horkheimer

[I.]

Þegar minnst er á eðlisfræði, efnafræði, læknisfræði eða sagnfræði, dettur mönnum yfirleitt eitthvað áþreifanlegt í hug. Komi upp skiptar skoðanir þá er hægt að slá upp í alfræðiritum eða viðurkenndum kennslubókum, ellegar leita álits sérfræðinga í viðkomandi greinum. Skilgreiningar á þessum vísindum er hægt að leiða beint af stöðu þeirra í nútímasamfélagi. Þótt þessar fræðigreinar muni að líkindum taka miklum framförum á ókomnum tímum og sumar þeirra, t.d. eðlisfræði og efnafræði, -eigi eftir að renna saman í eitt sér þó enginn ástæði til að skilgreina þær öðru vísi en í samræmi við þá vísindalegu starfsemi, sem nú fer fram undir áðurnefndum heitum.
Öðru máli gegnir um heimspeki. Setjum sem svo að við spyrjum háskólakennara í heimspeki hvað heimspeki sé. Ef við erum svo lánsöm að hitta á sérfræðing sem ekki er haldinn almennri andúð á skilgreiningum, mun hann láta okkur slíka skilgreiningu í té. Ef við síðan sættum okkur við þessa skilgreiningu, munum við þó að líkindum brátt komast að raun um að hún er hvorki viðtekin né viðurkennd af öllum. Nú getum við leitað til annarra sérfræðinga eða kynnt okkur eldri eða yngri fræðirit um þessi efni. Með því yrðum við einungis enn ruglaðri í ríminu. Margir hugsuðir, sem taka meið af Platoni og Kant, líta á heimspekina sem nákvæma og sjálfstæða vísindagrein sem hefur sitt eigið rannsóknarsvið og sín sérstöku viðfangsefni. Á seinni tímum hefur Edmund Husserl verið einn helsti málsvari þessa viðhorfs. Aðrir hugsuðir, svo sem Ernst Mach, líta á heimspekina sem gagnrýna framþróun og samþættingu einstakra vísindagreina í eina heild. Bertrand Russell er einnig þeirrar skoðunar að verkefni heimspekinnar sé „rökgreining og í kjölfar hennar rökræn samþætting“.1 Hann er í því tilliti fyllilega sammála L.T. Hobhouse, sem heldur því fram, að heimspekin miði að „samþættingu vísindanna í eina heild“.2 Þetta viðhorf má rekja til Augustes Comtes og Herberts Spencers, en þeir litu á heimspekina sem heildarniðurstöðu mannlegrar þekkingar. Þannig líta sumar á heimspekina sem sjálfstæða vísindagrein, en aðrir telja, að hún sé ekki annað en stoðgrein.
Þó að flestir höfundar heimspekirita undirstriki vísindaeðli heimspekinnar, hafa þó ýmsir merkir hugsuðir gersamlega hafnað þeirri skoðun. Í augum Schillers, sem hafði að líkindum meiri áhrif sem heimspekingur en leikritaskáld, var markmið heimspekinnar fólgið í því að samræma hugsanir manna og gerðir í anda fagurfræðinnar. Allt skyldi mælt á kvarða fegurðarinnar. Önnur skáld, svo sem Hölderlin og Novalis, halda fram líkri skoðun og jafnvel hreinræktaðir heimspekingar eins og Schelling nálgast oft slík sjónarmið í verkum sínu. Henri Bergson staðhæfir einnig fullum fetum að heimspekin sé náskyld listinni og alls engin vísindi.
En þarmeð er ekki öll sagan sögð. Ekki einungis eru deildar meiningar um hið almenna hlutverk heimspekinnar heldur einnig um inntak hennar. Enn eru til hugsuðir sem telja að heimspekin fáist eingöngu við æðstu lögmál og hugtök verunnar, og endanlega við þekkingu á guði. Þetta á við um lærisveina Aristótelesar og svokallaða ný-tómista. Þá má nefna þá skyldu hugmynd að heimspekin fjalli um hið frumtæka (Apriori). Alexander lýsir henni sem „reynsluathugun á því sem er óháð reynslunni eða fer á undan henni og á þeim vandamálum sem leiða af tengslum reynslunnar við það sem er gefið á undan henni“ (rúm, tími, guðdómur).3 Aðrir, sem eiga rætur að rekja til enskra skynhyggjumanna og fræða þeirra Fries og apelts, líta á heimspekina sem vísinda hinnar innri reynslu. Samkvæmt kenningu rökfræðilegra pósitívista eins og Carnaps, fæst heimspekin aðallega við vanda mannlegs máls. Windelband og Rickert, sem eiga sér einnig marga áhangendur í Ameríku, halda því á hinn bóginn fram að viðfangsefni heimspekinnar séu hin altæku gildi, fyrst og framst sannleikurinn, fegurðin, hið góða og hið heilaga.
Loks má nefna þann djúpstæða ágreining sem uppi er um aðferðir í heimspeki. Allir svonefndir ný-kantistar líta svo á að heimspekileg iðja sé í því fólgin að greina hugtök og rekja þau til þeirra frumþátta sem öll þekking byggist á. Bergson og Max Scheler líta á „innsæi í eðli hlutanna“ (Wesenschau) sem grundvallaratriði heimspekilegrar íhugunar. Sú aðferð sem beitt er í fyrirbærafræði Husserls og Heideggers er algjör andstæða gagnrýninnar reynsluspeki Machs og Avenariusar, og rökvísindi Russells, Whiteheads og fylgifiska þeirra eru í beinni andstöðu við díalektík Hegels. Að mati Williams James ræðst heimspekileg hugsun manna fyrst og fremst af skaphöfn þeirra og reynslu.
Hér hefur verið drepið á allar þessar skilgreiningar til að sýna að í heimspekinni horfa málin öðru vísi við en í öðrum menntagreinum. Þótt menn greini þar á um marga hluti, ríkir samt einhugur um meginatriði. Forvígismenn í einstökum greinum eru að mestu sammála um viðgangsefni og aðferðir. Í heimspekinni gildir hinsvegar hið gagnstæða. Þegar heimspekingar freista þess að afsanna kenningar annarra skóla, hafna þeir venjulega öllum undirstöðuatriðum viðkomandi kenninga sem alröngum. Auðvitað gildir þetta ekki um alla heimspekinga. Díalektísk heimspeki sem trú er meginforsendum sínum hlýtur að hneigjast til þess að viðurkenna ákveðinn sannleikskjarna einstakra kenninga og finna honum stað innan eigin kenningar. Aðrir heimspekiskólar, svo sem nútíma-pósitívismi, eru mun ósveigjanlegri að þessu leyti og neita því einfaldlega að mjög stór hluti heimspekinnar, sérstaklega hin háreistu heimspekikerfi fyrri tíðar, hafi nokkurt þekkingarlegt gildi. Af öllu þessu er ljóst að sá sem tekur sér orðið „heimspeki“ í munn, á varla annað sameiginlegt með þeim sem til heyra en fáeinar, óljósar hugmyndir um merkingu þessa orðs.

[II.]

Hinar einstöku vísindagreinar snúa sér að vandamálum sem verður að glíma við af því að þau eru sprottin úr lífi manna í nútímasamfélagi. Hin aðskiljanlegu viðfangsefni og umfjöllun þeirra í einstökum vísindagreinum eiga, þegar allt kemur til alls, rætur að rekja til þarfa mannlegs samfélags í nútíð og fortíð. Það þýðir á hinn bóginn ekki að sérhver vísindaleg rannsókn fullnægi beinlínis einhverri brýnni þörf. Margar vísindalegar athuganir hafa leitt til niðurstaðna sem mannkynið gat fyllilega verið án. Vísindin gjalda sinn toll þeirri almennu orkusóun sem blasir við á öllum menningarsviðum. En framvinda þeirra fræðigreina sem vafasamt er að hafi gildi fyrir samtímann umsvifalaust, er hluti þeirrar heildarvinnu sem er nauðsynleg forsenda vísinda- og tækniframfara. Minnumst þess að ákveðnar greinar stærðfræðinnar, sem í fyrstu virtust einungis leikur, reyndust síðar afa nytsamlegar. Þó að í ýmsum vísindarannsóknum felist ekki umsvifalaust notagildi búa þær samt yfir möguleikum á að koma að gagni, þótt það kunni um sinn að vera óljóst. Eðli sínu samkvæmt er starf vísindamannsins til þess fallið að auðga líf samtímans. Starfsvið hans er að mestu leyti fyrirfram ákvarðað. Tilraunir til að hnika mörkum milli einstakra vísindasviða, koma á fót nýjum greinum og gera þær sífellt sérhæfðari í senn, má allar rekja til samfélagslegra þarfa. Þessara þarfa gætir jafnframt í ríkum mæli, þó óbeint sé, í stofnunum og fyrirlestrasölum háskólanna, að ekki sé minnst á efnafræðitilraunastofur og tölfræðideildir stórra iðnfyrirtækja og heilbrigðisstofnana.
Heimspekin hefur ekkert slíkt haldreipi. Að sjálfsögðu er mörgum óskum til hennar beint. Hún á að leysa úr vandamálum sem vísindin leiða annað hvort hjá sér eða takast á við á ófullnægjandi hátt. En samfélagið þekkir enga mælistiku fyrir heimspekina: hún getur ekki bent á neinn áþreifanlegan árangur. Það sem einstakir heimspekingar afreka stöku sinnum í þessu tilliti byggist á því starfi sem ekki telst til heimspeki í þröngum skilningi. Við þekkjum t.d. stærðfræðilegar uppgötvanir Descartes og Leibniz, sálfræðirannsóknir Humes og eðlisfræðikenningar Ernst Machs. Andstæðingar heimspekinnar fullyrða líka að þegar heimspekin hafi eitthvert gildi sé hún í raun ekki heimspeki heldur vísindi. Allt annað í kerfum hennar sé einungis þvættingur; það sem þar er haldið fram sé stundum uppörvandi, oftast þó leiðinlegt og ævinlega gagnslaust. Heimspekingar sýna á hinn bóginn þóttafullt skeytingarleysi gagnvart áliti umheimsins. Allt frá réttarhöldunum yfir Sókratesi er bersýnilegt að samband þeirra við raunveruleikann eins og hann er, og sérstaklega við það mannfélag sem þeir lifa í, er spennu hlaðið. Þessi spenna leiðir oft til beinna ofsókna. Á öðrum tímum lýsir hún sér í því að menn skilja ekki málflutning þeirra. Þeir verða að lifa í leynum, hvort heldur í orðsins fyllstu merkingu eða í andlegum skilningi. Vísindamenn hafa líka lent í útistöðum við samfélagið. En hér verðum við að snúa við því sem áður var sagt um greinarmun heimspeki og vísinda: oftast voru ástæður fyrir ofsóknum á hendur slíkum hugsuðum ekki vísindalegar kenningar, heldur heimspekileg viðhorf þeirra. Hinir óbilgjörnu ofsækjendur Galíleís meðal jesúíta viðurkenndu að honum hefði verið frjálst að fylgja sólmiðjukenningu sinni eftir opinberlega, ef hann hefði markað henni hæfilegan heimspekilegan og guðfræðilegan ramma. Enda hafði Albertus Magnus fjallað um þessa kenningu í höfuðriti sínu Summa, án þess að verða fyrir nokkru aðkasti af þeim sökum. Þegar allt kemur til alls snúast átökin milli vísindamanna og samfélags, að minnsta kosti á síðari tímum, ekki um grundvallarhugtök, heldur um einstakar kenningar, sem ekki eru í náðinni hjá valdhöfum í tilteknu landi, þó að þær séu gjarnan umbornar og þeim jafnvel haldið hátt á loft af ráðamönnum annarra landa á sama tíma.

[III.]

Andóf heimspekinnar gegn raunveruleikanum á sér rætur í innri forsendum hennar sjálfrar. Heimspekin hvikar ekki frá því að athafnir og markmið manna þurfi ekki að lúta blindri nauðsyn. Hvorki vísindaleg hugtök né samfélagsgerðin, hvorki ríkjandi hugsunarháttur né ráðandi siðir, skulu viðurkennd fyrir sakir vanans eins, né skyldu menn láta stjórnast af þeim á gagnrýnislausan hátt. Broddur heimspekinnar beinist gegn hefðum og uppgjöf andspænis mikilvægustu vandamálum tilverunnar. Hún hefur jafnvel tekið að sér það vanþakkláta hlutverk að bregða ljósi hugsunarinnar á það hátterni og þau tengsl manna sem hafa skotið svo djúpum rótum að þau virðast eðlislæg, óumbreytanleg og eilíf. Hér mætti reyndar hreyfa þeirri mótbáru, að með uppgötvunum sínum og tækninýjungum komi vísindin líka í veg fyrir að menn festist í fari vanans. Ef við berum okkar tíma saman við líf manna fyrir þrjátíu, fimmtíu eða hundrað árum, getum við með sanni sagt að vísindin hafi skekið á grunni sínum gamla siði og venjur. Rökvæðingin (Rationalisierung) hefur ekki aðeins sett marki sitt á iðnaðar- og samgöngu tæki, heldur einnig á listina. Þar nægir að tilfæra eitt dæmi. Á fyrri tíð vann leikritaskáldið á sinn sérstæða hátt úr þeim mannlegu vandamálum sem á það leituðu, fjarri öllum heimsins glaumi. Ef verk þess kom fyrir almennings sjónir, atti skáldið þarmeð hugsun sinni til átaka í heimi raunveruleikans og stuðlaði þannig að andlegum framförum sjálfs síns og annarra. Á okkar dögum hafa fjölmiðlar og kvikmyndir leitt til nær fullkominnar rökvæðingar í framleiðslu og viðtöku listaverka. Þegar kvikmynd er framleidd, er fjöldi sérfræðinga kallaður til og frá upphafi er engin listræn hugmynd höfð að leiðarljósi, heldur eingöngu tekið mið af smekk fjöldans, sem fyrrnefndir sérfræðingar hafa áður kannað ítarlega og fara svo eftir. Þegar almenningsálitið tekur listrænni framleiðslu illa, þá er ástæðan yfirleitt ekki sú að hún sé í eðli sínu upp á kant við ríkjandi ástand, heldur er orsakanna að leita í röngu mati framleiðenda á viðbrögðum almennings og fjölmiðla. Svo mikið er víst að hvergi gætir fullkomins stöðugleika á nokkru sviði iðnaðarins, hvort heldur um er að ræða efnislega eða andlega framleiðslu. Siðir og venjur fá ekki nægan tíma til þess að festast í sessi. Undirstöður nútímasamfélags breytast í sífellu fyrir atbeina vísinda. Það er ekki til sú starfsemi í efnahags- og stjórnarkerfinu, sem ekki er stöðugt verið að einfalda og endurbæta.
Sé hinsvegar skyggnst eilítið dýpra kemur í ljós að þrátt fyrir öll þessi fyrirbrigði nútímans hefur hugsun manna og háttalag ekki tekið eins miklum framförum og halda mætti. Þvert á móti eru athafnir manna, að minnsta kosti í stórum hluta heimsins, snöggtum vélrænni en fyrr á tímum, þegar lifandi hugsun og sannfæring stýrði gerðum þeirra. Tækniframfarirnar hafa jafnvel átt þátt í að renna stoðum undir gamlar blekkingar og skapa nýjar, án þess að skynsemin fengi þar rönd við reist. Sú allsherjarútþynning og iðnvæðing, sem orðið hafa á menningarlegum sviðum, leiða til þess að mikilvægir andlegir vaxtarbroddar ná ekki að þroskast eða þeir koðna jafnvelniður. Ástæðan kann að vera rýrt innihald þess sem fyrir menn er borið, vanmáttur hugsunarinnar og eins hitt að ákveðnir skapandi hæfileikar einstaklinga séu að glatast. Jafnt rómantískir sem framsæknir höfundar hafa fjallað um hina tvíeinu sigurgöngu vísinda og tækni í verkum sínum. Paul Valéry reifaði þetta efni mjög skilmerkilega fyrir skömmu. Hann segir frá því þegar hann á barnsaldri var tekinn með í leikhús til að sjá ævintýraleikrit. Það var drengur ofsóttur af illum anda, sem ekki skirrðist við að beita öllum þeim djöfullegu klækjum sem hugsast gátu til að skelfa drenginn og ná á honum tangarhaldi. Þegar hann var háttaður sóttir andinn jafnvel að honum með vítislogum og árum. Herbergið virtist skyndilega umbreytast í úthaf og sængin í segl. Varla var einn árinn horfinn þegar annar birtist. Að lokum hættu þó þessar ógnir að hafa áhrif á unga áhorfandann og þegar þessi djöflagangur virtist ætla að upphefjast á nýjan leik, hrópaði hann: „Byrjar nú þessi asnaskapur aftur“. Valéry klikkir út með því að segja að einn daginn hæti mannkynið sýnt sömu viðbrögð við uppgötvunum vísindanna og furðuverkum tækninnar.
Ekki eru allir heimspekingar – og síst af öllu sá sem þetta ritar – sammála bölsýnislegu viðhorfi Valérys til vísindalegra framfara. En hitt er rétt að hvorki árangur vísindanna sem slíku né endurbætur á framleiðsluaðferðum iðnaðarins jafngilda raunverulegum framförum mannkynsins. Á því leikur enginn vafi að efnisleg, tilfinningaleg og andleg eymd manna getur vaxið þrátt fyrir framfarir í vísindum og iðnaði. Vísindi og tækni eru einungis hlutar af samfélagsheildinni og það er vel hugsanlegt að þrátt fyrir allar framfarir á þessum tilteknu sviðum, fari öðrum hlutum heildarinnar, jafnvel heildinni sjálfri, aftur: að mannfólkið eigi við sífellt meiri eymd og óhamingju að stríða, að einstaklingurinn þurrkist út sem slíkur og þjóðirnar stefni í glötun. Við eigum því láni að fagna að búa í landi [Bandaríkjunum] þar sem landamæri sem gætu orðið tilefni styrjalda hafa verið afnumin yfir hálfa heimsálfu. En í Evrópu hækkuðu tollmúrarnir í sífellu á sama tíma og samgöngutækin urðu hraðskreiðari og betri, fjarlægðirnar skruppu saman og lífsvenjur urðu líkari. Þjóðirnar vígbjuggust af kappi og samskipti ríkjanna sem og innanlandsaðstæður þróuðust sífellt nær styrjaldarástandi, þar til stríðið braust að lokum út. Þessar aðstæður urðu jafnframt alls ráðandi í öðrum heimshlutum og enginn veit hvort og hve lengi afgangurinn af heiminum er fær um að halda velli gegn afleiðingunum í öllu þeirra veldi. Það er ekkert því til fyrirstöðu að skynsemishyggja á afmörkuðum sviðum fari saman við almenna andskynsemishyggju. Athafnir einstaklinga sem með réttu eru taldar skynsamlegar og nytsamlegar í daglegu lífi geta reynst til óþurftar, já skaðlegar fyrir samfélagið. Þess vegna er rétt að minnast þess á tímum eins og nú eru, að hinn besti vilji til að skapa eitthvað nytsamlegt getur haft þveröfug áhrif – einfaldlega af því að þessi vilji er blindur gagnvart því sem er handan við mörk sérgreinar hans eða starfs, af því að hann einblínir á það sem liggur beinast við og misskilur þess rétta eðli, sem einungis er hægt að skýra í víðara samhengi. Orð Nýja testamentisins, „þeir vita ekki hvað þeir gjöra“ eiga einungis við illvirkja. Ef þessi orð eiga ekki að gilda fyrir mannkynið allt má ekki einskorða hugsunina við sérfræði og það að læra eitthvert nytsamlegt starf – slík hugsun lýtur þeim efnislegu og vitsmunalegu forsendum sem alla jafna teljast sjálfsagðar og sem þröngva mannlegum tilgangi inn í þau hversdagslegu tengsl sem verða til og er viðhaldið nánast í blindni.

[IV.]

Þess var áður getið að ávallt ríkti spenna milli heimspekinnar og veruleikans og að sú spenna væri ekki sambærileg við það andstreymi sem vísindin mæta stundum af hálfu samfélagsins. Ástæða þess er sú að heimspekileg hugsun er ekki endaslepp, heldur freistar hún þess að ná haldi á öllum þeim þáttum tilverunnar sem yfirleitt er litið á sem óviðráðanleg öfl eða eilífi lögmál. Í réttarhöldunum yfir Sókratesi var einmitt um þetta að tefla. Gegn þeirri kröfu að hlýðnast hinum guðlegum siðaboðum og laga sig skilyrðislaust að fornhelgum hefðum, hélt hann því fram að mennirnir ættu að gera sér ljósa grein fyrir forsendum breytni sinnar og ráða örlögum sínum sjálfir. Guð mannsins byggi í honum sjálfum, nefnilega í skynsemi hans og vilja. Nú á tímum er ekki lengur deilt um guði í heimspekinni, en heimsástandið er ekki síður alvarlegt en á dögum Sókratesar. Við féllumst á þetta ástand, ef við kysum að halda því fram að sættir hefðu tekist milli skynseminnar og veruleikans og sjálfræði manna væri tryggt í nútímasamfélagi. Heimspekinni er ekki síður færst að fella neinn slíkan dóm og einmitt þess vegna er hún ekki síður mikilvæg nú en fyrrum.
Af þessum ástæðum verða umræður í heimspeki, jafnvel þótt þær varði einungis sjálft heimspekihugtakið, svo miklu róttækari og miskunnlausari en í vísindunum. Andstætt öðrum fræðigreinum er starfssvið hennar ekki glöggt afmarkað í viðtekinni samfélagsskipan. Sú skipan mála sem þar ríkir og það gildismat, sem tengist ríkjandi ástandi, eru meðal viðfangsefna heimspekinnar sjálfrar. Vísindin eru fær um að byggja kenningar sínar á staðreyndum sem vísa þeim veginn. Heimspekin hefur hins vegar aldrei annað en sjálfa sig og sín eigin fræði til viðmiðunar. Það er sýnu meira mál fyrir heimspekina að ákvarða viðfang sitt en fyrir hinar einstöku vísindagreinar, jafnvel þótt þær á okkar tímum gefi snöggtum meiri gaum að aðferðafræðilegum vandamálum en áður var. Að framansögðu má ljóst vera hvers vegna heimspekin hefur leikið mun stærra hlutverk í lífi Evrópubúa en meðal Ameríkumanna. Landvinningar, að viðbættum sérstökum sögulegum aðstæðum, hafa haft það í för með sér að ákveðnar deilur og átök, sem hvað eftir annað blossuðu upp vegna ríkjandi samfélagshátta í Evrópu, gerðu minna vart við sig í Ameríku, enda fór mest orka manna þar í að nema land og sinna daglegum verkum. Öll hin helstu vandamál þar voru framan af leyst a hagnýtan hátt og sú spenna, sem við sérstakar sögulegar aðstæður hefur orðið driffjöður fræðilegrar hugsunar, skipti þar yfirleitt sáralitlu máli. Í samanburði við rannsóknir og uppsöfnun staðreynda, hefur fræðileg hugsun jafnan setið á hakanum í Ameríku. Hvort sem þessi iðja fullnægir þeim kröfum sem einnig hér eru með réttu gerðar til þekkingarinnar, er vandamál sem ekki er hægt að reifa að sinni.
Þær skilgreiningar ýmissa seinni tíma höfunda, svo sem þeirra sem vitnað var til hér að framan, leiða tæpast í ljós þær eigindir heimspekinnar sem skilja hana frá öllum sérgreinum vísinda. Ófáir heimspekingar hafa litið öfundaraugum til starfsbræðra sinna í öðrum fræðum, sem eru mun betur settir að því leyti að þeir hafa skýrt afmarkað starfssvið og sinna störfum sem enginn efast um að séu nytsamleg fyrir samfélagið. Þessir höfundar rembast við að „selja“ heimspekina sem sérstaka vísindagrein, eða alltént að sýna fram á að hún sé notadrjúg fyrir ýmsar aðrar greinar. Í þessu gervi er heimspekin ekki lengur gagnrýnandinn, heldur ambátt vísindanna og samfélagsins í heild. Þetta sjónarmið nærist á þeirri skoðun að sú hugsun sé ómöguleg sem ekki heldur sig innan þess fræðilega ramma sem ríkir í vísindum og freistar þess að skyggnast lengra en sjóndeildarhringur núverandi samfélags nær. Hugsuninni beri fremur að auðsýna lítillæti og þiggja með þökkum þau verkefni sem upp koma vegna síbreytilegra þarfa stjórnsýslu og iðnaðar og leysa þau eftir viðurkenndum reglum. Spurningar einsog þær hvort þessi verkefni séu – með tilliti til forms þeirra og innihalds – til nokkurrar þurftar á okkar tímum, hvort sú samfélagsgerð sem elur þau af sér sé mannkyninu samboðin – slíkar spurningar eru í augum þessara lítillátu heimspekinga hvorki vísindalegar né heimspekilegar, heldur hljóti hver og einn að svara þeim í samræmi við skoðanir sínar og gildismat. Svör við þeim séu smekksatriði og fari eftir skapgerð hvers og eins. Eina heimspekilega afstaðan sem felst í þessu sjónarmiði er það neikvæða viðhorf að engin raunveruleg heimspeki sé til, að fræðileg hugsun megi sín einskis gagnvart örlagaríkustu vandamálum mannlegrar tilveru, í stuttu máli: heimspekileg efahyggja og tómhyggja.

[V.]

Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að aðgreina umrædda afstöðu til heimspekinnar frá annarri sem finna má í verkum ýmissa félagsfræðinga nútímans. Þeir leggja heimspekina að jöfnu við hugmyndafræði og félagslegt hlutverk hennar.4 Samkvæmt þessari kenningu er heimspekileg hugsun, eða réttara sagt hugsunin sem slík, tjáning á ákveðnum félagslegum aðstæðum. Sérhver samfélagshópur, t.a.m. þýsku „júnkararnir“, skapi sitt eigið hugtakakerfi sem samræmist félagslegri stöðu þeirra, sem og ákveðnar aðferðir og hugsunarstíl. Öldum saman hafi líf „júnkaranna“ dregið dám af sérstökum erfðareglum. Tengsl þeirra við konungsvaldið, sem yfir þeim drottnaði, svo og við undirsáta þeirra, hafi borið sterkan svip af erfðaveldi. Af þessu leiddi að hin náttúrulegu og reglubundnu kynslóðaskipti, hið náttúrulega ferli, var allsráðandi í hugsun þeirra. Þeir hafi skoðað allt undir sjónarhorni hins lífræna og hinna náttúrulegu tengsla. Hin frjálslynda borgarastétt, sem átti allt sitt undir velgengni í viðskiptum og lært hafði af reynslunni að peningar væru samnefnari allra hluta, hafi á hinn bóginn tileinkað sér sértækari og vélrænni hugsunarhátt. Heimspeki hennar og þankagangur einkennist ekki af stigveldi heldur af flatri framsetningu. Sama gildi um aðra hópa bæði fyrr og síðar. Heimspeki Descartes verði t.a.m. að skoða með tilliti til þess, hvort hugtök hennar svari fremur til aristókratískra og jesúistískra hópa við hirðina, embættisaðalsins, eða til hugmynda hinnar lægri borgarastéttar og lágstéttanna. Sérhvert hugsunarform, öll verk heimspekinnar og annarra menningargreina, tilheyri ákveðnum samfélagshópi sem ali þau af sér og þau séu þarmeð órjúfanlega samtvinnuð tilveru hans. Hver einasta hugsun sé „hugmyndafræði“.
Þetta sjónarmið hefur tvímælalaust nokkuð til síns máls. Margar þær hugmyndir sem útbreiddar eru á okkar dögum reynast ekki annað en blekkingar þegar þær eru raktar til samfélagslegs uppruna síns. En það nægir hinsvegar ekki að eigna þær einhverjum tilteknum samfélagshópi, einsog fyrrnefnd félagsfræðikenning gerir. Menn verða að skyggnast dýpra og rekja þær til þeirrar sögulegu þróunar sem umræddir samfélagshópar eru sjálfir sprottnir úr. Við skulum taka dæmi. Í heimspeki Descartes gegnir hin vélræna, eða öllu heldur stærðfræðilega hugsun, mikilvægu hlutverki. Það er jafnvel unnt að halda því fram að öll þessi heimspeki byggist á alhæfingu stærðfræðilegrar hugsunar. Okkur er að sjálfsögðu í lófa lagið að leita uppi samfélagshóp sem í hugsun dregur dám af fyrrnefndum skoðunarhætti og eflaust myndum við líka finna slíkan hóp í samtíð Descartes. Erfiðara en um leið nær réttu lagi væri að kanna framleiðsluhætti þeirra tíma og sýna hvernig einstaklingur úr upprennandi borgarastétt var til þess knúinn vegna starfa sinna í verslun og handiðju að ástunda nákvæmt reikningshald, ef hann vildi treysta og efla samkeppnisstöðu sína á markaðnum. Hið sama gilti um þá sem voru eins konar umboðsmenn hans í vísindum og tækni, en uppgötvanir þeirra og önnur vísindastörf höfðu mikla þýðingu í þeirri linnulausu baráttu milli einstaklinga, borga og þjóða, sem setti mark sitt á nýöldina. Það var sjálfsagt mál fyrir alla þessa einstaklinga að skoða heiminn undir sjónarhorni stærðfræðinnar. Og vegna þess að umrædd stétt varð í tímans rás dæmigerð fyrir samfélagsheildina, breiddist þessi skoðunarháttur langt út fyrir raðir borgarastéttarinnar sjálfrar. Skýringar félagsfræðinnar eru ófullnægjandi. Við þörfnumst miklu fremur víðtækrar söguskoðunar. Að öðrum kosti er hætt við að við tengjum mikilsverðar heimspekikenningar við þýðingarlitla samfélagshópa eða þá sem ekki skipta sköpum, ellegar rangtúlkum mikilvægi ákveðins hóps og þar með heildarsamhengi viðkomandi menningar. En það er samt ekki sú mótbára sem þyngst er á metunum í þessu sambandi. Þegar hið staðlaða hugmyndafræðiúrtak er notað um alla hugsun þá hvílir það, þegar allt kemur til alls, á þeirri hugmynd að ekki sé til neinn heimspekilegur né yfirhöfuð nokkur sannleikur, að öll hugsun sé rígbundin þeim aðstæðum sem menn lifa við. Þannig séu ákveðnar hugsunaraðferðir og niðurstöður sérkenni hverrar stéttar og hafi einungis gildi fyrir viðkomandi stétt. Þesskonar viðhorf til heimspekilegra hugmynda gerir alls ekki ráð fyrir að unnt sé að rannsaka þær á hlutlægan hátt; það felur jafnframt í sér algert skeytingarleysi gagnvart hagnýtu gildi þeirra og takmarkast við meira eða minna flókna niðurröðun hugmyndanna eftir samfélagshópum. Þetta á svo að fullnægja kröfum heimspekinnar. Við sjáum hæglega að umrædd félagsfræðikenning, sem hefði það reyndar í för með sér, ef menn fylgdu henni eftir, að heimspekin legði upp laupana sem slík og rynni saman við félagsfræði, er ekkert annað en endurtekning þeirrar efahyggju sem gagnrýnd var hér að framan. Henni er ekki í mun að bregða birtu á samfélagslegt hlutverk heimspekinnar, heldur gegnir hún sjálf einfaldlega því hlutverki að draga allan mátt úr framsýnni hugsun og stemma stigu við áhrifum hennar.

[VI.]

Hið sanna samfélagshlutverk heimspekinnar er fólgið í gagnrýni á ríkjandi ástand. Það þýðir ekki neitt yfirborðskennt nöldur um einstaka hugmyndir eða aðstæður, líkt og heimspekingurinn væri ekki annað en skoplegur sérvitringur. Það þýðir ekki heldur að heimspekingurinn kvarti og kveini yfir einstökum misfellum og bendi á leiðir til úrbóta. Höfuðmarkmið slíkrar gagnrýni er að koma í veg fyrir að menn glati sér í þeim hugmyndum og þeirri breytni sem núverandi samfélagsskipan þröngvar upp á þá. Menn eiga að öðlast skilning á samhenginu milli starfsemi sinnar sem einstaklinga og þess sem hún leiðir af sér, milli sinnar eigin tilvistar og samfélagsins í heild, milli hversdagslegra fyrirætlana sinna og þeirra háleitu hugmynda sem þeir aðhyllast. Heimspekin afhjúpar þá mótsögn sem menn eru flæktir í, þar eð þeir eru neyddir til þess að styðjast við sundurlausar hugmyndir og hugtök í hversdagslífinu. Það sem hér er átt við skýrist af því sem nú fer á eftir. Markmið vestrænnar heimspeki í sinni fyrstu fullsköpuðu mynd hjá Platoni var að hafna einsýnum viðhorfum og upphefja þau í víðtækara og sveigjanlegra hugsanakerfi sem félli betur að veruleikanum. Í hverri samræðunni af annarri sýnir Sókrates hvernig viðmælendur hans flækja sig án afláts í mótsögnum þegar þeir halda of fast við sín einsýnu sjónarmið. Lærimeistarinn sýnir fram á að ein hugmynd leiðir óhjákvæmilega til annarrar, því að hver einstök hugmynd getur aðeins haft merkingu í heildarsamhengi hugmyndanna. Lítum t.d. á samtalið um eðli hugrekkisins í samræðunni Laches. Þegar viðmælandi meistarans hamrar á þeirri skilgreiningu að hugrekki felist í því að leggja ekki á flótta úr orustu, leiðir Sókrates honum fyrir sjónir að við ákveðnar aðstæður sé slíkt háttalag engin dygð, heldur fífldirfska – t.d. þegar allur herinn hörfar og einn maður ætlar sér að sigra óvinina. Hið sama gildir um það sem kallað er sófrosyne og gróflega væri hægt að þýða með „hófsemi“ eða „nægjusemi“. Sófrosyne er tvímælalaust dygð. En hún verður hinsvegar afar hæpin ef hún er gerð að einasta markmiði athafnanna og ekki byggð á þekkingu allra annarra dygða. Hana er einungis auðið að skilja sem einn lið í breytni sem í heild sinni er rétt. Svipuðu máli gegnir um réttlætið. Góður vilji, viljinn til að breyta réttlátlega, er í eðli sínu fagur. En þessi huglæga viðleitni hrekkur ekki til. Þær athafnir geta ekki kallast réttlátar sem sprottnar eru af góðum ásetningi en missa algerlega marks í framkvæmd. Þetta gildir jafnt um framtak einstaklinga og ríkisins. Sérhver aðgerð getur orðið til bölvunar, þrátt fyrir góðan ásetning frumkvöðuls hennar, ef hún er ekki byggð á víðtækri þekkingu og er í samræmi við aðstæður. Það sem er – strangt tekið – lagalega rétt, getur orðið argasta óréttlæti, segir Hegel í líku samhengi. Í framhaldi af því má minna á samlíkingu sem fyrir kemur í samræðunni Gorgías: iðnir bakarans, kokksins og skraddarans eru afar gagnlegar sem slíkar. En þær geta orðið skaðlegar einstaklingum og mannkyninu öllu, ef ekki er tekið tillit til heilbrigðissjónarmiða. Hafnir, skipasmíðastöðvar, borgarmúrar og skattar eru í sama skilningi nytsamleg fyrirbæri. Sé almannaheill hinsvegar ekki höfð að leiðarljósi, geta þessir nauðsynlegu þættir öryggis og velferðar orðið að eyðileggingaröflum.
Þesskonar fyrirbæri mátti reyndar greina á millistríðsárunum í Evrópu, þegar stjórnlaus ofvöxtur varð á einstökum sviðum samfélagsins: risavaxnar framkvæmdir, gífurleg skattabyrði, hrikalegur vöxtur herja og vígbúnaðar, kúgandi agi, einhliða ástundun náttúruvísinda o.s.frv. Í stað skynsamlegrar skipulagningar á innri og ytri málefnum ríkisins, kom til örrar útþenslu á einstökum sviðum siðmenningarinnar á kostnað heildarinnar. Andstæður mögnuðust og það varð mannkyninu örlagaríkt. Sú krafa Platons að heimspekingar stjórni ríkinu þýðir ekki að slíkir stjórnendur skuli valdir úr hópi þeirra sem semja kennslubækur í rökfræði. Faghugsun þekkir ekkert annað en gróðann í viðskiptalífinu, ekkert nema valdbeiting á hernaðarsviðinu og jafnvel í vísindum ekkert annað en árangur innan einstakra greina. Sé slíkri þröngsýni ekki haldið í skefjum, þá leiðir hún til allsherjarglundroða í samfélaginu. Í augum Platons jafngilti heimspekin þeirri viðleitni að sameina hin margvíslegu öfl og greinar þekkingar á þann veg að þessir þættir, sem einir og sér geta verið skaðlegir, bæru í sameiningu ríkulegan ávöxt. Að þessu miðaði krafa hans um að heimspekingar færu með völdin. Þess vegna hafði hann illan bifur á vinsælum skoðunum, sem einskorðast við tilteknar hugmyndir, þótt þær geti reyndar átt rétt á sér um stundarsakir. Skynsemi hrærist í kerfi hugmyndanna. Hún fer frá einni hugmynd til annarrar og þannig er hún fær um að skilja sanna þýðingu hverrar um sig og beita henni til samræmis við mikilvægi hennar fyrir þekkinguna í heild.
Þessum díalektíska skilningi beittu hinir miklu heimspekingar sögunnar í glímu sinni við brýnustu vandamál mannlífsins. Hugsun þeirra miðaði ævinlega að því að koma skynsamlegri skipan á mannlegt samfélag. Á blómaskeiði heimspekinnar að minnsta kosti jafngilti slíkt skipulag því að hugmynd hins góða yrði gerð að raunveruleika. Þessu markmiði skyldi náð með því að gera hugtök bæði hversdagsmálsins og vísindanna skýrari og hnitmiðaðri með hjálp svonefndrar díalektíkur, svo og með því að ala einstaklingana upp til réttrar hugsunar og breytni. Þótt Aristóteles líti svo á í Metafysika (Frumspeki) sinni að sjálfsrýni sálarinnar og fræðileg sýn á heiminn jafngildi hinni æðstu gæfu, segir hann þó afdráttarlaust að slík hamingja sé einungis hugsanleg við ákveðnar efnislega forsendur, og ákveðin samfélagsleg og efnahagsleg skilyrði. Platon og Aristóteles deildu ekki með Anisþenesi og Kýníkerum þeirri skoðun að skynsemin væri fær um að taka sífelldum framförum hjá mönnum sem lifðu hundalífi í orðsins fyllsta skilningi, né heldur að viska og veraldleg eymd gætu haldist í hendur. Réttlátt samfélag var í þeirra augum nauðsynleg forsenda fyrir þroska andlegra hæfileika manna og þessi hugmynd er undirstaða allrar vestrænnar mannúðarstefnu (húmanisma).

[VII.]

Sá sem leggur sig eftir að skilja seinni tíma heimspeki, ekki bara af yfirborðskenndum handbókum, heldur með því að sökkva sér sjálfur ofan í sögu hennar, mun komast að raun um að samfélagsvandinn er ein mikilvægasta driffjöður hennar. Í því sambandi nægir að minna á Hobbes og Spinoza. Tractatus theologico-politicus var eina höfuðritið sem út kom eftir Spinoza meðan hann lifði. Djúptæk greining á verkum annarra hugsuða, svosem Leibniz og Kants, leiðir í ljós að samfélagsleg og söguleg frumhugtök liggja einmitt til grundvallar sértækustu köflunum í verkum þeirra, köflum er heyma kenningar um frumspeki og forskilvitlega rökfræði. Án þessara frumhugtaka eru þau vandamál, sem umræddir höfundar reyndu að leysa, bæði óskiljanleg og óleysanleg. Ítarleg greining á því sem raunverulega dylst að baki hreinfræðilegum vandamálum heimspekinnar er þess vegna eitt af forvitnilegustu verkefnum nútímarannsókna á sögu hennar. Slík athugun á reyndar lítið skylt við þær yfirborðslegu tilraunir félagsfræðinnar til að skýra tengsl heimspeki og veruleika, sem áður var vikið að. Svipuð verkefni bíða reyndar jafnframt lausnar á sviði bókmennta- og listasögu.
Að frátöldu því mikilvægi sem rannsókn samfélagslegra vandamála gegnir bæði leynt og ljóst í heimspekinni, skal enn einu sinni undirstrikað að samfélagslegt hlutverk hennar er ekki fyrst og fremst fólgið í slíkum rannsóknum, heldur í því að efla gagnrýna og díalektíska hugsun. Heimspekin er skipuleg og þrjóskufull viðleitni til að greiða veg skynseminnar í heiminum. Þess vegna er staða hennar jafn tvísýn og umdeild og raun ber vitni. Hún er óþæg, óbilgjörn og kemur að engum beinum notum, hún er mönnum semsagt til skapraunar. Hún getur hvorki státað af viðurkenndri mælistiku á árangur sinn, né neinum óvéfengjanlegum sönnunum. Staðreyndarannsóknir eru vissulega krefjandi, en þar vita menn þó að minnsta kosti að hverju þeir ganga. Á hinn bóginn forðast menn yfirleitt í lengstu lög að takast á við flókin og ruglingsleg vandamál sjálfra sín vegna og annarra; slíkt vekur hjá mönnum kvíða og ugg. Í verkaskiptu samfélagi nútímans er slíkum vandamálum beint til heimspekinga eða guðfræðinga. Ellegar menn hugga sig við þá tilhugsun að örðugleikarnir líði hjá og þegar öll kurl komi til grafar, þá sé allt einsog það á að vera. Síðasta öld evrópskrar sögu hefur þó sýnt með óyggjandi hætti að hversu öruggir sem menn þykjast vera, eru þeir þó ófærir um að búa sér lífsskilyrði í samræmi við hugmyndir sínar um mennskuna (Humanität). Gljúfur er á milli þeirra hugmynda, sem þeir byggja á dóma sína um sjálfa sig og heiminn, og þess félagslega veruleika, sem þeir endurskapa með athöfnum sínum. Þess vegna eru hugmyndir manna og skoðanir bæði tvíræðar og rangsnúnar. Á okkar tímum ramba þeir á barmi ógæfunnar, eða eru þegar fallnir ofaní hyldýpið. Í mörgum löndum eru menn svo lamaðir vegna nálægðar villimennskunnar að þeir eru nærri óhæfir til að taka á sig rögg og gera eitthvað sjálfum sér til bjargar. Þeir eru einsog kanínur andspænis hungruðum merði. Kannski geta menn stundum komist af án gagnrýninnar heimspeki; vöntun á slíkri heimspeki niðurlægir hinsvegar mennina nú um stundir og gerir þá berskjaldaða gagnvart ofbeldinu. Sú staðreynd að ákveðin kenning getur orðið að blóðlausri og innantómri hughyggju eða afskræmst í þreytulegt og merkingarlaust slagorðagjálfur, þýðir ekki að þetta séu hennar sönnu myndir (hvað leiðindi og flatneskju varðar, þá finnu heimspekin slíkt mun oftar í svonefndum staðreyndarannsóknum). Á þeim tímum sem við nú lifum hefur framvinda sögunnar skipað heimspekinni í brennidepil samfélagsveruleikans og samfélagsveruleikanum sömuleiðis í brennidepil heimspekinnar.
Vert er að gefa sérstakan gaum þeim mikilvægu umskiptum sem orðið hafa í þessu efni frá tímum hinnar sígildu fornaldar. Platon hélt því fram á Eros (ástarhvötin) gerði hina vitru hæfa til að öðlast þekkingu á frummyndunum. Þannig tengdi hann þekkinguna ákveðnu siðferðilegu eða sálrænu ástandi, sem í grundvallaratriðum getur verið til staðar á hvaða sögulega tíma sem er. Þess vegna leit hann jafnframt svo á að ríkishugmynd sín væri ekki bundin við ákveðin söguleg skilyrði, heldur væri þar um að ræða eilífa skynsemishugsjón. Samræða Platons um lögin (Nomoi) var í raun málamiðlun, tímabundið millistig, sem á engan hátt hnikaði hinni eilífu skynsemishugsjón. Ríki Platons er staðleysa (útópía) í líkingu við þær sem útmálaðar hafa verið allt frá byrjun nýaldar og framá okkar daga. En útópían er ekki lengur það form sem hæfir heimspekilegri umfjöllun um samfélagsvandann. Menn hafa gert sér ljóst að mótsagnir hugsunarinnar verða ekki leystar með hreinni fræðilegri íhugun. Þar þarf að koma til ákveðin söguleg þróun sem við getum ekki hlaupið frá hugsuninni einni. Þekking á sér ekki einungis sálfræðilega og siðferðilegar forsendur, heldur jafnframt samfélagslegar. Það er hvorki skynsamlegt né fullnægjandi að lýsa fullkomnu stjórnarfari og byggja slíka lýsingu á hugmyndum einum.

[VIII.]

Í stað útópíunnar sem hátinds allra heimspekikerfa kemur því fræðileg lýsing á þeim raunverulegu aðstæðum og tilhneigingum sem geta leitt til betra mannlífs. Þetta hlýtur að hafa víðtæk áhrif á innviði og þýðingu heimspekinnar. Nútímaheimspeki tekur undir það háleita sjónarmið heimspekinga fornaldar að þroskamöguleikar mannkynsins séu miklir og bjartsýni sé réttlætanleg með tilliti til þeirra hæfileika sem mennirnir búa yfir. Mestu hugsuðir sögunnar vísa þeirri staðhæfingu alsskostar á bug að menn séu í eðli sínu óhæfir til að lifa góðu lífi og búa sér ákjósanlegustu samfélagsaðstæður. Í því sambandi nægir að minna á hin fleygu orð Kants um útópíu Platons: „Ríki Platons hefur löngum verið haft í flimtingum sem dæmigerðir draumórar um fullkomið samfélags, sem einungis geti þrifist í heilabúi hins veruleikafirrta hugsuðar. Brucker þótti skoplegt að heimspekingurinn héldi því fram að aldrei myndi þjóðhöfðingi vera góður stjórnandi nema hann hefði eignast hlutdeild í frummyndunum. Það væri þó fremur við hæfi að fylgja þessari hugsun eftir og freista þess (þarsem hinn ágæti hugsuður lætur staðar numið) að varpa á hana nýju ljósi en að ýta henni til hliðar undir því eymdarlega yfirskini að hún sé einfaldlega óframkvæmanleg . . . Því ekkert er skaðlegra og heimspekingi ósamboðnara heldur en hin lágkúrulega tilvísun til reynslu sem talin er ganga í berhögg við slíka hugsun, reynslu sem alls ekki væri til ef ráðstöfunum væri á réttum tíma hagað eftir frummyndunum en ekki hráum hugtökum sem – einmitt vegna þess að þau eru smíðuð úr reynslu – gera allan góðan ásetning að engu.“5
Allt frá dögum Platons hefur heimspekin verið þ´vi sjónarmiði hughyggjunnar trú að unnt sé að gera skynsemina heimakomna meðal manna og þjóða. Hún hefur einungis hafnað þeirri fölsku hughyggju sem lætur sér nægja að halda á loft hugmynd fullkomleikans án þess að skeyta nokkuð um það hvernig unnt sé að gera þessa hugmynd að veruleika. Í veröld nútímans er trúnaður við hinar æðstu hugsjónir, andspænis heimi sem forsmáir þær, órjúfanlega bundinn þeirri allsgáðu ósk að efla megi skilning manna á þeim forsendum sem nauðsynlegar eru til að gera fyrrnefndar hugsjónir að veruleika á jörðu.
Víkjum nú enn, áður en yfir lýkur, að ákveðnum misskilningi sem áður hefur verið minnst á. Ólíkt því sem tíðkast í stjórnmálum og viðskiptum, táknar gagnrýni í heimspekinni ekki fordæmingu þess sem gagnrýnt er, ekki skammir um hinar og þessar athafnir, né heldur eintóma höfnun og frávísun. Að vísu getur gagnrýnin verið mjög neikvæð við vissar aðstæður. Þess finnast dæmi á hellenskri tíð. Það sem hér er átt við með orðinu gagnrýni er sú sífellda viðleitni í hugsun og verki að gleypa ekki án íhugunar og af sljóum vana við ríkjandi hugmyndum, hegðunarmynstri og samfélagsaðstæðum. Það er sú viðleitni að koma á samræmi milli einstakra hliða mannlífsins og tengja þær almennum hugsjónum og markmiðum samtímans. Þessu fylgir að komast fyrir uppruna fyrrnefndra hugsjóna og markmiða, greina milli yfirborðsins og þess sem undir býr og rannsaka undirstöðurnar; í stuttu máli að öðlast raunverulegan skilning á veruleikanum. Þótt Hegel hafi kennt okkur margt var andúð á þeim sérstöku þjóðfélagsaðstæðum sem hann lifði svo fjarri honum, að Prússakonungur kallaði hann til Berlínar til að innræta stúdentum hlýðni við yfirvöld og gera þá ónæma fyrir pólitísku andófi. Hegel lagði sig allan fram að þessu leyti og lýsti því yfir að prússneska ríkið væri „veruleiki siðgæðishugsjónarinnar“. En vegir hugsunarinnar geta verið sérkennilegir. Til að kenna nemendum sínum að sigrast á einsýni og takmörkunum hversdagslegrar skynsemi og efla með þeim skilning á gagnkvæmum tengslum hugsunar og veruleika. Að auki varð hann að kenna þeim að skilja flókna og mótsagnakennda gerð sögunnar, grafast fyrir hugmyndir um frelsi og réttlæti í lífi þjóða og átta sig á að þjóðfélög líða undir lok þegar grundvallarlögmál þeirra eru úr sér gengin og skapast hefur frjór jarðvegur fyrir ný samfélagsform. Sú staðreynd að Hegel varð að skóla nemendur sína í heimspekilegri hugsun hafði þegar fram í sótti tvíbentar afleiðingar fyrir prússneska ríkið. Þegar til lengdar lét reyndist þessi tilsögn skaðlegri fyrir hið afturhaldssama ríki en sú gagnsemi sem hlaust af því formlega lofi sem á það var borið. Skynsemin er veikur bandamaður afturhaldsins. Ekki voru tíu ár liðin frá dauða Hegels (óskipað var í embætti hans þann tíma), þegar Prússakonungur kallaði til eftirmann til þess að uppræta „drekasæði hinnar hegelsku algyðistrúar“ og berjast gegn „uppvöðslusemi og ofstæki lærisveina hans“.
Því verður ekki haldið fram að þeir heimspekingar sögunnar hafi í raun verið framsæknastir sem gagnrýndu flest og glaðbeittastir veifuðu einhverskonar stefnuskrám. Svo einfalt er málið ekki. Heimspekikenningar eru jafnan marghliða og hver þessara hliða getur haft hin aðskiljanlegustu söguleg áhrif. Það gerist ekki nema á mjög óvenjulegum tímum, eins og á dögum frönsku upplýsingarinnar, að heimspekin verði beinlínis að pólitísku baráttutæki. Á því tímabili tengdu men orðið heimspeki ekki einkum við rökfræði og þekkingarfræði, heldir við árásir á klerkaveldi og ómannúðlegt réttarfar. Með útrýmingu ákveðinna fordóma opnaðist raunveruleg sýn á nýjan og betri heim. Hefð og trú voru tvö máttugustu varnarvirki hins gamla stjórnarfars (ancien régime) og atlögur heimspekinnar voru beinlínis sögulegar athafnir. Á okkar tímum skiptir það ekki lengur sköpum að veitast að trúnni. Í alræðisríkjunum, þar sem hetjuskap og háleitri lífsskoðun er freklegast haldið að mönnum, eru hvorki trú né nokkur lífsskoðun allsráðandi, heldur dapurleg meðalmensska og alger doði einstaklinga andspænis örlögum sínum og öllu því sem að ofan kemur. Mikilvægasta verkefnið á okkar tímum er að tryggja að hæfileikinn til fræðilegrar hugsunar og þeirrar breytni sem henni fylgir, glatist ekki framar, ekki heldur á friðartímum síðar meir þegar hlekkir vanans kunna að sljóvga menn og gera þá gleymna á þann stóra vanda sem samtíð okkar á við að etja. Við verðum að berjast fyrir því að geigvænlegir atburðir samtíðarinnar dragi ekki allan kjark úr mannkyninu, að trúin á mannsæmandi, friðsamlegt og hamingjuríkt samfélag framtíðarinnar hverfi ekki af jörðinni.
(1940)

Þýðendur Arthúr Björgvin Bollason
og Þröstur Ásmundsson

Tilvísanir

1. Bertrand Russell, „Logical Atomism“ í Contemporary British Philosophy, útg. J.H. Muirhead, I, 1925, bls. 379.
2. L.T. Hobhouse, „The Philosophy of Development“, sama rit, bls, 152.
3. S. Alexander, Space, Time, and Deity, 1. bd., London 1920, bls. 4.
4. Sjá Karl Mannheim, Ideologie und Utopie, Bonn 1929.
5. I. Kant, Kritik der reinen Vernunft, A 316 og áfr.; B 372 og áfr.

« Til baka

Inngangsfræði heimspeki og sögulegrar efnishyggju

eftir Antonio Gramsci1

Nokkur byrjunaratriði

 

Nauðsynlegt er að uppræta þá almennu hjátrú að heimspekin sé afarerfitt viðfangsefni sökum þess að hún sé andlegt starfssvið ákveðins flokks sérmenntaðra fræðimanna eða atvinnu­heimspekinga sem eigi sér heimspekikerfi. Umfram allt þarf að sýna fram á að allir menn séu heimspekingar og skilgreina takmarkanir og eðli þessarar „sjálfkvæmu heimspeki“ sem er eiginleg öllum almenningi, þeirrar heimspeki sem er fólgin: 1. í sjálfri tungunni sem er samsafn ákveðinna hugmynda og hugtaka, en vissulega ekki samsafn málfræðilega innihaldslausra orða einvörðungu; 2. í brjóstviti og heilbrigðri skynsemi; 3. í alþýðutrúarbrögðum, og þá einnig í öllu því kerfi átrúnaðar, hindurvitna, skoðana, skoðunarhátta og starfshátta sem er yfirleitt sópað saman í það safn sem kallað er „þjóðhættir“.

Þegar sýnt hefur verið fram á að allir séu heimspekingar, reyndar hver á sinn hátt og ómeðvitað, – því að jafnvel í óbrotnustu tjáningu hugarstarfs, svo sem í „tungunni“, er fólginn ákveðinn heims­skilningur, – þá er næst að víkja að gagnrýninni og vitundinni, það er að segja að þeirri spurningu hvort æskilegt sé að „hugsa“ án þess að beita gagnrýnni vitund við hugsunina, án þess að skeyta um einingu og eftir duttlungum kringumstæðnanna, með öðrum orðum að „eiga hlut að“ heims­skilningi sem umhverfið „neyðir“ ósjálfrátt upp á menn; en með umhverfi er átt við einhvern þeirra mörgu félagshópa sem hver maður verður sjálfkrafa aðili að um leið og heimur­inn verður honum meðvitaður (þar getur verið um að ræða þorpið eða héraðið þar sem hann á heima, ræturnar sem hann á í sókninni sinni og í „andlegu starfi“ prestsins eða ættarhöfðingjans sem ræður lögum og lofum með „vizku“ sinni, konunnar sem hefur erft kunnustu galdrakvennanna, eða þess minni háttar andans manns sem hefur súrnað í eigin heimsku og máttleysi); eða er æskilegra að smíða sinn eigin heimsskilning í fullri vitund með gagnrýnni aðferð og því í samræmi við eigið hugvit og hugarstarf, kjósa sér sitt eigið athafnasvið, taka fullan þátt í að framleiða sögu heims­ins, vera sjálfs sín leiðtogi í stað þess að taka með þolgæði við því móti sem umhverfið þvingar upp á persónuleikann.

Athugagrein 1. Að því er tekur til heimsskilningsins er maður alltaf áhangandi ákveðins hóps, og þessi hópur inniheldur félagslegar einingar sem hugsa og starfa á sama hátt. Menn eru alltaf konformistar einhvers konformisma, menn eru alltaf fjöldamenni eða félagsverur. Viðfangsefnið er þetta: til hvaða sögulegrar tegundar telst konformisminn, fjöldamennið sem einstaklingurinn hagar sér eftir? Þegar heimsskilningur hans er ekki gagnrýnn og sjálfum sér samkvæmur, heldur afsprengi hvers andartaks og af ýmsum toga, tilheyrir maðurinn samtímis mörgum hópum, persónuleiki hans er einkennilegur samtíningur: sækir sumt til hellabúanna og sumt til nýjustu vísinda, til fordóma allra söguskeiða og útkjálka og til þeirrar framtíðarheimspeki sem mannkynið eignast þegar það verður orðið ein heild. Að gagnrýna heimsskilning sjálfs sín þýðir þá það að ljá honum einingu og samkvæmni og hefja hann á það stig sem heimhugsunin hefur komizt lengst. Þá þýðir það einnig að gagnrýna alla heimspeki sem fram að þessu hefur orðið til, að svo miklu leyti sem hún hefur skilið eftir fastar myndanir í alþýðuspeki. Upphaf gagnrýnisstarfsins verður vitundin um það hvað maður er raunverulega, sjálfsrannsókn sem tekur til áhrifa hins sögulega ferlis sem hingað til hefur átt sér stað, og hefur skilið eftir í sérhverjum okkar ótal spor sem við höfum ekki neina skrá yfir. Slíka skrá þarf að semja á undan öllu öðru.

Athugagrein 2. Ekki er hægt að skilja í sundur heimspekina, menninguna og sögu menningar­innar. Í beinustum og raunhæfustum skilningi orðsins geta menn ekki verið heimspekingar, þ. e. a. s. haft gagnrýnan og samkvæman heimsskilning, nema þeir séu meðvitandi um sögulegt afstæði þess skilnings, það þróunarstig sem hann endurspeglar, og þá staðreynd að hann er í mótsögn við aðra skilningshætti. Heimsskilningur okkar svarar ákveðnum viðfangsefnum, sem eru afmörkuð og „upprunaleg“ og eiga heima í nútímanum. Hvernig er hægt að gera sér grein fyrir nútíðinni, mjög afmarkaðri nútíð, með hugsunarhætti sem mótazt hefur í viðureign við viðfangs­efni löngu liðinnar tíðar? Ef slíkt er gert, þá er það sökum þess að við erum „tímavilltir“ á okkar eigin tíma, steingervingar en ekki lifandi verur í heimi nútímans, eða að missta kosti einkennilega „samsettar“ verur. Og það ber reyndar við að félagshópar sem að sumu leyti eru fulltrúar nútímans í hinu þróaðasta formi eru að öðru leyti á eftir samtímanum vegna félagslegrar stöðu sinnar og geta því ekki öðlazt algert sögulegt sjálfræði.

Athugagrein 3. Ef rétt er að sérhvert tungumál geymi í sér frumþætti heimsskilnings og menningar, þá er einnig rétt að tungumál hvers og eins ber vitni um heimsskoðun hans, hvort hún er fjölhæf eða ósamsett. Þeir sem talal mállýzku eða skilja þjóðtunguna miður vel, hljóta að eiga aðild að heimsskilningi sem er takmarkaður og útkjálkalegur að meira eða minna leyti, stirðnaður, úreltur, andspænis þeim stórstraumum hugsunarinnar sem bera með sér sögu heimsins. Áhugaefni þeirra verða takmörkuð, varða að meira eða minna leyti þröng hagsmuna­mál og afkomumöguleika, en eru ekki almenn. Það er ekki alltaf hægt að nema margar erlendar tungur til þess að komast í snertingu við ýmislegar menningarheildir, en heild er hægt að túlka á tungumáli annarrar meiriháttar mennigarheildar, þ. e. a. s. þjóðtunga sem er auðug og fjölhæf af sögu sinni og arfi getur flutt hvaða meiriháttar menningu sem er, hún getur með öðrum orðum tjáð allan heiminn. En það getur mállýzka ekki gert.

Athugagrein 4. Að skapa nýja menningu er ekki aðeins í því fólgið að gera einstaklingsbundnar og „frumlegar“ uppgötvanir, það er líka og einkum fólgið í því að miðla með gagnrýni sannindum sem þegar hafa verið uppgötvuð, gera þau að félagseign, gera þau að grundvelli nauðsynlegra athafna, gera þau að samhæfingarþáttum, að andlegum og siðferðilegum hvötum. Þegar fjöldinn lærir að gera sér grein fyrir raunveruleik nútímans á sjálfum sér samkvæman og heillegar hátt, er sá „heimspekilegi“ ávinningur mun mikilvægari og frumlegri en uppgötvun nýs sannleika gerð af heimspeki„snillingi“, sem smáhópar menntamanna eignast aðgang að.

Tengsl milli brjóstvits, trúarbragða og heimspeki. Heimspekin er menntagrein, en það geta trúar­brögð og brjóstvit ekki verið. Athuga hvernig trúarbrögð og brjóstvit eru ekki heldur samhliða, hvernig trúarbrögðin eru einn þátturinn af mörgum í brjóstvitinu. Annars er „brjóstvit“ safnheiti engu síður en „trúarbrögð“: brjóstvit er ekki eitt og samt, því að það er einnig afurð sögunnar og söguleg verðandi. Heimspeki er gagnrýni og ofurlið trúarbragðanna og brjóstvitsins, og í þessum skilningi er hún samferða „skynsamlegu viti“ sem er ekki sama og brjóstvit.

Tengsl milli vísinda, trúarbragða og brjóstvits. Trúarbrögð og brjóstvit er ekki unnt að telja menntagrein, af því að ekki er hægt að skapa úr þeim einingu og samkvæmni, jafnvel ekki í vitund einstaklingsins, hvað þá heldur í vitund fjöldans; það er ekki hægt að skapa úr þeim einingu og samkvæmni „af sjálfu sér“, en það er hægt með gerræðislegum aðferðum, og hefur verið gert innan vissra takmarka áður fyrr. Trúarbrögðin eru ekki skilin hér kirkjulegum skilningi, heldur litið á þau frá sjónarmiði leikmannsins, þ. e. a. s. sem trúarlega einingu heimsskilnings og lífsreglna sem eru í samræmi við þann skilning: en hví ætti þá að kalla þessa trúareiningu „trúarbrögð“ fremur en „hugmyndafræði“ eða hreint og beint „pólitík“?

Heimspekin í almennum skilningi er reyndar ekki til: það eru til ýmsar heimspekistefnur eða heimsskoðanir og milli þeirra stendur valið. Hvernig fer þetta val fram? Er þetta val einfaldlega háð ákvörðunum skynseminnar eða eru flóknari öfl að verki? Og verður ekki oft vart mótsagnar milli ákvarðana skynseminnar og hegðunarforma mannsins? Hver verður þá hin raunverulega heimsskoðun: sú sem skynsemin heldur fram og styður með rökum, eða sú sem kemur í ljós í hátterni einstaklings, sú sem er óbeint fólgin í athöfn hans? Og úr því að athöfnin er ævinlega pólitísk athöfn, má þá ekki segja að raunveruleg heimspeki hvers og eins sé öll saman fólgin í pólitík hans? Þessi mótsögn milli hugsunarinnar og athafnarinnar, þ. e. a. s. sambúð tveggja heimsskoðana, annarrar játaðrar í orði, hinnar fólginnar í raunverulegum athöfnum, er ekki ævinlega að kenna óheilindum. Óheilindi geta verið fullnægjandi skýring, þegar um er að ræða einstaklinga eða jafnvel hópa, litla og stóra; en sú skýring nægir ekki þegar mótsögnin birtist í lífsháttum fjöldans: þá er hún óhjákvæmilega afurð djúptækari árekstra af sögulegum og félagslegum toga. Þetta þýðir að félagshópur (þó að hann eigi sjálfur heimsskilning, að vísu oft ófullburða, sem kemur fram í athöfn, og því um stundarsakir, þ. e. a. s. á þeim stundum þegar hópurinn hrærist sem lífræn heild) hefur, af andlegri auðmýkt og ósjálfstæði, fengið að láni hjá öðrum hóp skoðun sem er honum ekki eiginleg, og hann játar í orði og heldur sig fylgja, af því hann fylgir henni á venjulegum tímum, m. ö. o. á tímum þegar framferði hans er ekki sjálfstætt og sjálfrátt, heldur einmitt undirgefið og ósjálfstætt. Því er ekki hægt að losa heimspekina frá pólitíkinni, og það er jafnvel hægt að sýna fram á að val og gagnrýni heimsskilnings er einnig pólitísk athöfn.

Það þarf því að útskýra hvernig á því stendur að alltaf eru til samtímis mörg heimspekikerfi og heimspekistefnur, hvernig þau verða til, hvernig þau breiðast út, hvernig þau fylgja í útbreiðslu sinni ákveðnum brotalínum og fara í ákveðnar áttir o. s. frv. Þetta sýnir hverja nauðsyn ber til að safna saman í kerfisformi, með hjálp gagnrýnnar og sjálfri sér samkvæmrar aðferðar, þeim skoðunum sem maður hefur á heiminum og lífinu. Þó þarf að skilgreina nákvæmlega við hvað er átt með „kerfi“, svo að ekki verði lagður í það orð skilningur orðhenglanna og prófessoranna. En þessa upplýsingarstarfsemi verður að leysa af hendi og hún verður aðeins leyst af hendi með tilvísun til heimspekisögunnar sem sýnir hvaða breytingum hugsunin hefur tekið í rás aldanna, og hvaða sameiginlegs átaks hugsunaraðferð nútímans hefur krafizt. Sú hugsunaraðferð er útdráttur og samsafn allrar þessarar liðnu sögu, einnig mistaka hennar og óráðstiltækja. Ekki er heldur hægt að fullyrða að þessi mistök og óráðstiltæki kunni ekki að endurtaka sig nú á tímum og útheimta leiðréttingar, enda þótt þau heyri til liðnum tíma og hafi þegar verið leiðrétt.

Hvaða hugmynd gerir alþýða sér um heimspeki? Þá hugmynd má greina í algengum orðatil­tækjum. Mjög algengt er orðatiltækið „að taka hlutunum heimspekilega“, og við nánari aðgæzlu virðist ekki ástæða til að fordæma það orðatiltæki gjörsamlega. Að sönnu hvetur þetta orðatiltæki óbeinlínis til uppgjafar og þolinmæði, en samt sýnist höfuðboðskapur þess vera hvatning til íhugunar, til að gera sér þess grein að viðburðirnir eru í rauninni skiljanlegir með skynseminni og að þannig beri að líta á þá, með því að einbeita skynsemiskröftum sínum, en láta ekki ósjálfráðar og sterkar tilfinningar hrekja sig af leið. Unnt ætti að vera að flokka þessi alþýðlegu orðatiltæki með svipuðum orðatiltækjum alþýðlegra rithöfunda, með því að fletta upp á orðunum „heimspeki“ og „heimspekilegur“ í stórri orðabók, og þá mun koma í ljós að þessi orðatiltæki þýða einmitt það að menn vinni bug á dýrslegum og frumstæðum ástríðum í þágu þess skilnings á nauðsyninni sem fær athöfnum manna meðvitaða stefnu. Þetta er hinn heilbrigði kjarni brjóstvitsins, það sem mætti einmitt kalla „skynsamlegt vit“, og leggja þyrfti rækt við og gera heillegra og sjálfu sér samkvæmara. Það er því auðséð að af þessum sökum einnig er örðugt að greina svokallaða „vísindalega“ heimspeki frá þeirri heimspeki sem kölluð er „alþýðleg“ og er ekki annað en safn ósamstæðra hugmynda og skoðana.

Þá er komið að mjög mikilvægu viðfangsefni sem sérhver heimsskoðun eða heimspeki, sem orðin er menningarhreyfing, „trú“, „trúarbrögð“, verður að fást við. Hér er um það að ræða að varðveita hugmyndafræðilega einingu í allri félagsheildinni, sem sækir einmitt styrk og samstöðu í þessa hugmyndafræði. Þróttur trúarbragðanna og katólsku kirkjunnar sér í lagi hefur verið og er fólginn í því að gera sér fullkomna grein fyrir nauðsyn kenningalegrar einingar meðal hins „trúaða“ fjölda, og að berjast gegn því að æðri menntastéttir félagsheildarinnar slitni frá hinum lægri. Rómverska kirkjan hefur ævinlega barizt af þrautseigju gegn því að tvennskonar trúarbrögð mynduðust: trúarbrögð menntaðra manna á annan bóginn og trúarbrögð „einfaldra sálna“ á hinn bóginn.2

Praxis-heimspekin hlýtur í byrjun að koma fram í ádeilu- og gagnrýnisformi, sem reikningsskil við þann hugsunarhátt sem ríkir og þá hluttæku hugsun sem fyrir er (eða þann menningarheim sem fyrir er). Þessvegna framar öllu sem gagnrýni á „brjóstvitinu“ (eftir að hafa stuðzt við „brjóstvitið“ til að sanna að „allir“ menn séu heimspekingar, og að ekki er um það að ræða að smeygja spánýrri fræði inn í einstaklingslíf „allra manna“ heldur að endurnýja starfsemi sem fyrir var og gera hana gagnrýna), og ennfremur sem gagnrýni á heimspeki menntamanna sem hefur getið af sér sögu heimspekinnar, og getur að svo miklu leyti sem hún er einstaklingsbundin (og hún þróast einmitt aðallega fyrir starfsemi sérstaklega gáfaðra einstaklinga) verið skoðuð sem framfarabroddur brjóstvitsins, að minnsta kosti brjóstvits hinna bezt menntu og síðan einnig brjóstvits alþýðunnar. Því ætti undirbúningur að rannsókn heimspekinnar að vera fólginn í því að draga saman í eina heild þau vandamál sem þróunarferli menningarinnar getur af sér, – en það þróunarferli endur­speglast ekki nema að nokkru leyti í sögu heimspekinnar. Eigi að síður verður saga heim­spekinnar helzta heimildin (með því að saga brjóstvitsins verður ekki sögð sökum heimilda­skorts) fyrir þá sem taka sér fyrir hendur að kanna þessi vandamál, sýna hvaða raunverulegt gildi þau hafa, ef nokkurt, eða þá merkingu sem þau hafa haft, sem hlekkir í keðju, og skilgreina raunveruleg og ný vandamál, og þau form sem gömul vandamál taka nú á sig.

Sambandinu milli „æðri“ heimspeki og brjóstvits er komið á af pólitíkinni, á sama hátt og pólitíkin sér um að viðhalda sambandi milli katólsku lærðra manna og katólsku hinna „einföldu sálna“. Mismunurinn á þessum hliðstæðum skiptir þó höfuðmáli. Sú staðreynd að kirkjan þarf að kljást við „einfaldar sálir“ þýðir að klofningur hefur orðið í samfélagi trúaðra. Á þessum klofningi er ekki hægt að ráða bót með því að lyfta hinum „einföldu“ í hæð hinna lærðu (kirkjan setur sér ekki einusinni þetta markmið, bæði hugmyndlega og fjárhagslega er það henni mjög um megn nú), heldur með því að leggja agahömlur á hina lærðu til þess að þeir haldi klofningnum í vissum skefjum og geri hann ekki að óbætanlegri plágu. Áður fyrr var þessi „klofningur“ í samfélagi trúaðra bættur upp með voldugum fjöldahreyfingum sem gerðust aflvakar nýrra trúarreglna – og fundu samnefnara í myndun þeirra – kringum sterka einstaklinga (heilagan Dóminík, heilagan Frans).

En gagnsiðbótin dró máttinn úr þessari grósku alþýðukrafta: Jesúsamfélagið er síðasta mikils­háttar trúarreglan, það er að uppruna afturkippsstofnun og valdstjórnarstofnun, eðli þess var kúgun og „diplómatí“, og stofnun þess var merki um harðnandi afstöðu katólskunnar. Hinar nýju reglur sem risið hafa upp síðan hafa mjög takmarkaða „trúarlega“ þýðingu, en mikla þýðingu sem „ögunartæki“ gagnvart fjölda hinna trúuðu. Þetta eru greinar af Jesúfélaginu eða hafa orðið það, viðnámstæki til að halda við áunnum pólitískum ítökum en ekki öfl endurnýjunar og þróunar. Katólskan er orðin „jesúítismi“. Nútímastefnan hefur ekki skapað trúarreglur heldur stjórnmála­flokka, kristilega demókrata.

Afstaða praxis-heimspekinnar er gagnstæð afstöðu katólskunnar: praxis-heimspekin leitast ekki við að viðhalda frumstæðri brjóstvits-heimspeki hinna einföldu sálna, þvert á móti vill hún gera þær aðnjótandi æðri lífsskilnings. Þó að hún haldi fram nauðsyn þess að koma á skilningi milli lærðra manna og hinna einföldu sálna, er markmið hennar ekki að halda í við vísindalega starf­semi eða viðhalda einingu á lágu menningarstigi fjöldans, heldur að smíða menningarlega og siðferðilega samfylkingu sem skapi pólitíska möguleika á menningarlegum framförum fjöldans, ekki aðeins fárra og fámennra hópa menntamanna.

Starf alþýðumannsins er raunhæft, en hann gerir sér ekki skýra fræðilega grein fyrir starfi sínu, þó að það leiði til þekkingar á heiminum. Fræðileg vitund hans getur jafnvel verið í andstöðu við starf hans: segja má að hann hafi tvær fræðilegar vitundir (eða mótsagnakennda vitund): önnur er óbeint fólgin í starfi hans, og hún sameinar hann raunverulega öllum þeim sem leggjast á eitt með honum að breyta veruleikanum í raun; hin lýsir veruleikanum í orðum á yfirborðslegan hátt, hana hefur hann tekið gagnrýnislaust að erfðum frá fortíðinni. Þessi „orðaði“ skilningur hefur samt afleiðingar: hann tengir manninn við ákveðinn félagshóp, hefur áhrif á siðferðilegt hátterni, á stefnu viljans, – sterk eða veik áhrif –, og getur þetta gengið svo langt að mótsagnir vitundarinnar hindri allar athafnir, allar ákvarðanir, allt val, og geti af sér andlegt og pólitískt aðgerðaleysi. Gagnrýnn sjálfsskilningur myndast því í baráttu pólitískra forræðisstefna af andstæðum þáttum, fyrst á sviði siðfræðinnar, síðan á sviði stjórnmálanna, sú barátta leiðir til fullkomnari gerðar þeirrar vitundar sem maður hefur sjálfur um veruleikann. Vitundin um að vera þáttur af ákveðnu forræðisafli (þ. e. a. s. hin pólitíska vitund) er fyrsti áfanginn á leiðinni til stígandi sjálfsvitundar þar sem kenning og athöfn sameinast að lokum. Jafnvel eining kenningar og athafnar er ekki stað­reynd sem verður til sjálfkrafa, heldur söguleg verðandi, sem hefur átt sitt frumstæða byrjunar­skeið í hálfmeðvitaðri tilfinningu „fremdar“, „sérstöðu“, „sjálfstæðis“, og þróast upp í raunveruleg og fullkomin umráð yfir samkvæmum og heillegum heimsskilningi. Þessvegna ber að leggja áherzlu á hvernig pólitísk þróun forræðishugtaksins er til marks um mikinn heimspekilegan ávinning, svo ekki sé talað um hagnýta pólitíska hlið þess, af því að það fram­kallar og útheimtir andlega og siðfræðilega einingu í samræmi við raunveruleikaskilning sem hefur lagt brjóstvitið að baki og er orðinn gagnrýnn, þó innan þröngra marka.

Eigi að síður er það rétt að í nýjustu ritum praxisheimspekinnar er ekki rýnt djúpt í einingarhugtak kenningar og athafnar heldur er skilgreining þess aðeins á byrjunarstigi, leifar ólífrænnar hugsunar eru þar enn, úr því talað er um fræðikenninguna sem „viðbót“ og „anga“ athafnarinnar, um fræðikenninguna sem ambátt athafnarinnar. Réttmætt virðist að líta á þetta málefni sögulega, það er að segja sem þátt af pólitískri vitund menntamanna. Gagnrýn sjálfsvitund þýðir í sögu­legum og pólitískum skilningi sköpun „úrvalshóps“ menntamanna. Hópur manna ber ekki af og verður ekki sjálfstæður „af sjálfum sér“, án þess að skipuleggja sig (í víðum skilningi), og ekkert skipulagt félag er til án lærðra manna, þ. e. a. s. án skipuleggjenda og stjórnenda, – án þess að hinn fræðilegi þáttur samstæðunnar kenning-athöfn komi skýrt fram í hópi manna sem eru „sérhæfðir“ í andlegu og heimspekilegu starfi. En þessi mótun lærðra manna er seinlegt og erfitt verk og fullt af mótsögnum, þar skiptist á framsókn og undanhald, sundrung og samfylking, og „tryggð“ fjöldans verður stundum að þola örðuga raun (en tryggðin og aginn eru í upphafi það form sem þátttaka fjöldans og samvinna í þróun gervallrar menningarstarfseminnar tekur á sig). Þróunarferlið er tengt díalektískum samskiptum menntamanna og alþýðu; lag menntamanna þróast á breidd og dýpt, en sérhvert tilhlaup í áttina að nýju „víðfeðmi“ og nýrri fjölbreytni mennta­manna er tengt hliðstæðri hreyfingu hins óbreytta fjölda, sem rís til æðra menningarstigs og eykur um leið áhrifasvið sitt með framsókn einstaklinga eða jafnvel smárra eða stórra hópa í átt til lags hinna sérhæfðu menntamanna. En á þessu ferli koma æ ofan í æ þær stundir að sam­bandið rofnar milli fjöldans og menntamannanna (nokkurra þeirra eða einhvers hóps þeirra), og af því leiðir tilfinningu hins „aukalega“, tilfinningu uppbótarmannsins, undirtyllunnar. Þegar mikil áherzla er lögð á þáttinn „athöfn“ í samstæðunni „athöfn-kenning“, eftir að þættirnir tveir hafa verið skildir í tvennt og klofnir í sundur, en ekki aðeins greindir (algerlega sjálfgeng og venjubundin hugsunaraðferð) merkir það að menn eru staddir á tiltölulega frumstæðu söguskeiði, skeiði sem er ennþá efnahagslegt (ökónómískt) og fagfélagslegt (korpóratíft), þar sem hinn almenni rammi „byggingarinnar“ er að ummyndast að ytra búnaði og þar sem innra eðli yfirbyggingarinnar er að koma í ljós en hefur ekki enn myndazt á lífrænan hátt. Það þarf að gera grein fyrir því hve stjórn­málaflokkarnir eru mikilvægir aðilar nú á tímum að mótun og dreifingu heimsskoðana þar eð þeir smíða sér í lagi pólitískar og siðferðilegar meginreglur sem eru í samræmi við þessar heims­skoðanir og koma í stuttu máli sem sögulegir tilraunafrömuðir þessara skoðana. Flokkarnir velja einstaklingana sem mynda hinn starfandi fjölda, og valið fer fram jafnt á sviði starfsins og á sviði fræðikenningarinnar og tengt hvað öðru, með þeim mun nánara sambandi starfs og fræði­kenningar sem heimsskoðun flokks er róttækari og þróttmeiri og í algjörari andstöðu við gamla hugsunarhætti.

Í nýlegum umræðum um praxisheimspekina hefur mátt sjá hvernig algerlega vélgengur og yfir­borðslegur skilningur breytist í baráttuskilning sem nálgast töluvert réttan skilning á einingu fræðikenningar og athafnar. Auðvelt er að greina hvernig nauðhyggjan, örlagatrúin, hinn mekaníski þáttur hefur verið hugmyndafræðilegt „krydd“ praxisheimspekinnar, nokkurskonar trúarbrögð og örvunarlyf (sem verkaði þó eins og eiturlyf). Þessi örlagatrú var nauðsynleg og réttlættist sögulega af „undirtyllu“-eðli ákveðinna þjóðfélagshópa.

Þegar menn hafa ekki frumkvæði í baráttunni og sjálf baráttan verður að lokum röð af ósigrum, þá verður hin sjálfgenga örlagatrú geysiöflugt siðferðilegt mótstöðuafl, sameiningar- og þolgæðis­vaki. „Ég hef beðið ósigur um sinn, en þegar fram líða stundir verður þróunin mér hliðholl“ o. s. frv. Hinn raunverulegi vilji dulbýr sig sem trúræn heistrenging, örugg útskýring sögunnar, sem nokkurskonar empirískt og frumstætt form ástríðufullrar örlagatrúar, sem kemur í stað forákvörðunar og guðlegrar forsjár. Leggja verður áherzlu á það, að jafnvel þegar svo er ástatt er viljinn í rauninni síður en svo óvirkur, hann tekst beinlínis á við „vald hlutanna“, en reyndar eins og á laun, eins og hann blygðist sín, og af því leiðir mótsagnir þeirrar vitundar sem skortir gagnrýna einingu o. s. frv. En þegar „undirtyllan“ verður stjórnandi og ábyrgur fyrir efnahagsstarfi heildar­innar, kemur að því að þessi hugsanagangur verði bráð hætta, og þá fer fram endurskoðun alls hugmyndakerfisins vegna þess að orðin er breyting á lífsháttum þjóðfélagsins. Hversvegna herðir „vald hlutanna“ fjötra sína þá fastar? Það er vegna þess að þó að undirtyllan hafi áður verið hlutur, er hún ekki lengur hlutur, heldur sögulegur persónuleiki; í gær var hún ábyrgðarlaus af því hún var í andstöðu við annarlegan vilja, en í dag finnst henni að hún sé ábyrg af því hún er ekki lengur í andófi, heldur frumkvöðull, gerandi og framkvæmandi. En var hún áður aðeins „andóf“, aðeins „hlutur“, aðeins „ábyrgðarleysi“? Áreiðanlega ekki; það verður einmitt að leggja áherzlu á það að örlagahyggjan hefur aðeins það hlutverk að dylja veikleika starfandi og raunverulegs vilja. Þessvegna verður alltaf að sýna fram á einskisnýti hinnar vélgengu nauðhyggju, hún er að vísu auðskýrð sem einföld fjöldaheimspeki, og sem slík en aðeins sem slík er hún óbeinn styrkleiki. En þegar litið er á hana af menntamönnum sem yfirvegaða og sjálfri sér samkvæma heimspeki leiðir hún til aðgerðarleysis og bjánalegrar sjálfsánægju. Á þetta verðu að benda enda þótt undirtyllan sé orðin ábyrgur stjórnandi. Nokkur hluti fjöldans – enda þótt hann sé undirtyllur – er ævinlega ábyrgir stjórnendur, og heimspeki eins hluta kemur alltaf á undan heimspeki heildarinnar, ekki aðeins sem fræðileg spá heldur sem brýn nauðsyn.

 

Tilvísanir

1. Eftir Antonio Gramsci hafa áður birzt í Tímariti Máls og menningar fáein brot um bókmenntir og gagnrýni (2. hefti 1961, bls. 135-139), ásamt dálitlum formála um líf og starf Gramsci. Í bók Jóhanns Páls Árnasonar, Þættir úr sögu sósíalismans, er gerð nokkur grein fyrir pólitískri kenningu Gramsci, og í tímaritinu Kommúnistanum hafa verið þýddar eftir hann greinar. Brotin hér að framan eru úr fangelsisritum Gramsci, og virðast vera rituð 1932. Lesendur fangelsisritanna verða ævinlega að hafa í huga við hvaða kringumstæður þau rit urðu til, að Gramsci var ekki að skrifa til að gefa út, heldur fyrst og fremst að setja á pappírinn athugasemdir fyrir sjálfan sig eins og greinilega kemur fram í rithættinum; og stundum þurfti hann að gæta sín að skrifa ekki of bert, því alltaf var hætta á að fangaverðirnir færu að grúska í blöðin hans. Þannig er t. d. talið að sé tilkomin notkun hans á orðinu „praxis-heimspeki“, sem flestir álíta að þýði einfaldlega „marxismi“. – S. D.

2. Hér er sleppt úr hálfi annarri síðu þar sem Gramsci ræðir þessa spurningu nánar, með tilvísun til Benedetto Croce og fleiri ítalskra heimspekinga, reynslunnar af lýðháskólum o. s. frv. Hugleiðingum hans um þetta efni lýkur svo: „Vér komum aftur að sömu spurningunni: getur heimspekihreyfing því aðeins talizt gild að hún leitist við að móta sérhæfða menningu, sem sé ætluð afmörkuðum hópum menntamanna, eða er hún ekki nafnsins verð nema hún gæti þess ævinlega, – í viðleitni sinni að móta hugsun sem sé æðri brjóstvitinu og fræðilega samkvæm sjálfri sér, – að halda tengslum við hinar „einföldu sálir“, og sæki meira að segja í þessi tengsl þau vandamál sem ber að rannsaka og finna lausn á? Aðeins fyrir þessi tengsl verður heimspeki „söguleg“ og „lifandi“.

 

« Til baka

Íslensk heimspeki í Mexico

eftir Hrannar Baldursson

I. Að uppgötva heimspekina

Frá unga aldri hef ég haft mikinn áhuga á dularfullum spurningum sem leitað hafa á mig. Hvað er þetta og hvað er hitt? Til hvers er þetta og til hvers er hitt? Af hverju þetta og af hverju hitt? Hvers vegna þetta og hvers vegna hitt? Kannski hljóma þessar spurningar álíka við fyrstu sýn, en þegar viðfangsefni verða fyrir manni og maður spyr, verða þær fljótt áhugaverðar. Hugsum til dæmis um frelsi: Hvað er frelsi? Til hvers er frelsi? Af hverju hugsum við um frelsi? Hvers vegna er frelsi mikilvægt?

Sem barn velti ég mikið fyrir mér eðli hlutanna og tilgangi. Til að mynda pældi ég í hlutum eins og hvort að hver einasti hlutur og hver einasta vera og hvert einasta fyrirbæri í heiminum hefði sér einhvern einn ákveðinn tilgang, eða hugsanlega marga. Ég man eftir samræðum við vini mína þegar þeir bentu á að hitt og þetta væri óþolandi, eins og mýflugur að sumri við unglingavinnu. Alltaf þurfti ég að reyna að benda þeim á að viðkomandi hlutur væri á einhvern hátt ómissandi í tilverunni, sama hvort um væri að ræða flugur, óvini, slys, mykju eða dauða.

Einnig höfðu foreldrar mínir sett mér afar skýrar leikreglur í sambandi við sannleikann, og hafði ég ákveðið að fylgja þeirra ráðum: að segja alltaf satt. Það kom mér stundum í vandræði, eins og til að mynda þegar skólafélagi braut rúðu. Margir sáu atburðinn. Ég sagði skólastjóranum satt og rétt frá fyrir framan bekkjarfélaga mína. Ekki vinsælt það.

Þar að auki hafði ég gífurlega sterka réttlætiskennd og var mikill rómantíker. Mér fannst ég gegna hlutverki verndara, rétt eins og Don Kíkóte og að sjálfsögðu án þess að aðrir samþykktu það hlutverk. Ég skipti mér oft af slagsmálum milli krakka og reyndi að stoppa þau, sérstaklega ef mér sýndist sterkari einstaklingur væri að kvelja veikari, eða ef nokkrir réðust gegn einum. Reynslan við þetta var stundum sár, en mér fannst hún þó hafa meira gildi en að sitja aðgerðarlaus og horfa bara á. Ég fylgdi semsagt siðalögmálum riddaramennskunnar, og geri það sjálfsagt að miklu leyti enn í dag.

Því miður náði ég ekki að yfirfæra þessa göfugu lund á allar mínar gerðir. Ég var breyskt barn og varð nammifíkill. Ég einfaldlega gat ég hætt að háma í mig ‘Smarties’. Til að fjármagna fíkn mína fór ég að stela peningum, og það óx upp í að einu sinni stal ég tindátapoka úr kjörbúð og síðan teiknimyndasögum úr bókabúð. Það var á þessum tíma sem ég kynntist hversu mögnuð fíkn og ávani getur orðið. Ég missti algjörlega stjórn á þessu og stal eins miklu og ég komst upp með. Einn daginn var ég það heppinn að eigandi bókaverslunar stóð mig að þjófnaði bókar, og hótaði að hringja í foreldra mína. Ég skammaðist mín ógurlega og hætti að stela úr verslunum. Þá var ég tíu ára. Hef ekki stolið síðan.

Ég viðurkenndi allt sjálfur fyrir foreldrum mínum og var refsað með innilokun í herbergi mínu í einhverjar stundir, og fékk ekki að horfa á prúðuleikarana í sjónvarpinu þá vikuna, en það þótti mér skemmtilegasta sjónvarpsefnið. Mér þótti refsingin réttlát, en þetta varð til þess að ég fór að hugsa alvarlega um hvað hafði valdið þessu.

Ég komst að þeirri niðurstöðu að ávaninn varð sjálfum mér sterkari. Ég hét sjálfum mér að láta þetta aldrei koma fyrir aftur. Frá þessari stundu fylgdist ég með þegar rætt var um ávanabindandi efni, og forðaðist þau þá eins og heitan eldinn. Þetta varð til þess að ég hef aldrei prófað að reykja né drekka kaffi; og þar að auki smakkaði ég ekki áfengi fyrr en á 20. aldursári eins og lög gera ráð fyrir, og hafði alltaf í huga að drykkja gæti orðið fíkn, rétt eins og ‘Smarties’-átið. Reyndi ég því að finna meðalhófið og sá hversu mikilvægt það er. Þegar ég uppgötvaði löngu síðar að ég var í raun orðinn háður Diet-Coke gosdrykknum, lagði ég mig sérstaklega eftir því að hætta þeirri drykkju og taka upp sódavatns- og vatnsdrykkju í staðinn. Fíkn og ávani er nefnilega eitthvað sem gerist þegar við gerum hlutina í hugsunarleysi, að minnsta kosti er það þannig í mínu tilfelli.

Sem barn varð ég einnig var við hvernig félagsskapur hafði áhrif á fólk. Ég sá vini mína umbreytast þegar þeir byrjuðu að verja tíma sínum með ólíku fólki. Það var eins og persónuleiki og skoðanir annarra yfirfærðust á annað fólk, án þess að djúpar ástæður lægju nauðsynlega að baki. Til dæmis sá ég mjög friðsæla og góða stúlku umturnast með félagsskap sínum við vinkonu sem átti foreldra með mikil vandamál. Þessi stúlka fór að yfirfæra vandamál vinkonu sinnar yfir á eigið líf, og hafði þetta mikil áhrif á framtíð hennar. Það sama gerðist með marga vini mína – ég sá þá breytast með ólíkum félagsskap og taka upp ákveðna takta sem var ekki þeirra. Ég dró þá ályktun að þetta gæti komið fyrir mig rétt eins og alla aðra. Því reyni ég ávallt að velja vini mína vel. Samt veit ég að sama hvert valið verður, hefur valið sjálft áhrif á okkur, ásamt samneiti okkar við þá sem við ákveðum að kynnast betur.

Ég varði löngum stundum sem barn við lestur bóka, og var vanur að bíða eftir bókabílnum á hverjum mánudegi til að velja mér eitthvað nýtt lestrarefni. Þar að auki uppgötvaði ég spennandi áhugamál – eftir að hafa prófað nokkrar ólíkar íþróttir eins og knattspyrnu, körfubolta, handbolta og júdó – engin þeirra átti sérstaklega við mig: skák. Skákin heillaði og mér líkaði vel við félagsskapinn. Þetta var rólegt fólk, en samt fannst mér alltaf mikið krauma undir yfirborðinu. Þar að auki eru siðareglur skákmanna ekki ólíkar siðareglum miðaldariddara. Ég fann ákveðinn samhljóm með þeim.

Það var svo á nítjánda aldursári að ég kynntist námsgrein sem heillaði mig; heimspeki. Gunnar Hersveinn kenndi heimspeki með líflegum hætti, og mér fannst ég oft vera í tíma hjá skáldi sem sífellt fann nýjar leiðir til að vekja áhuga lesenda á viðfangsefninu. Honum tókst það í mínu tilfelli.

Síðustu daga Sókratesar las ég spjaldanna á milli, ekki sjaldnar en fimm sinnum yfir þessa önn. Mér fannst stórkostlegt hvernig nýjar hugmyndir lifnuðu í huganum, við lestur hverrar einustu blaðsíðu. Ég áttaði mig á að þessi bók var hvorki til að kunna né skilja, heldur til að læra; læra að vera meira manneskja. Þarna var sagt frá manni sem hafði allt sitt líf sagt satt og rétt frá og virt og farið eftir þeim siðareglum sem samfélag hans og hann sjálfur höfðu sett honum, í fullri einlægni.

Reyndar var hann tekinn af lífi og hlaut mikið vanþakklæti frá sínum samtímamönnum, en hann hafði líka lifað tvær stjórnarbyltingar og hugsanlega átt sinn þátt í sköpun hugmyndafræðinnar sem stóð þeim að baki. En það var eitthvað fagurt við þetta allt saman, hvernig Sókrates hafði trúað því að eina leiðin til að komast þangað sem sál hans fengi að njóta sín til fullnustu, væri við að losna undan líkamlegum nautnum og ávana, að losa sálina frá líkamanum sem hlekkjaði hana við jörðina. Þó að margir félagar mínir hafi bókað Sókrates sem rugludall var ég á öðru máli. Þessi maður hafði sýnt mikið hugrekki og staðið við það sem hann trúði á, og trú hans var byggð á mjög traustum rökum, í það minnsta rökum sem ég sá engan veikleika á. Hvaða rök fyrir eigin tilvist geta verið sterkari en þau sem haldið er fram af manni sem sífellt leitar sannleikans og er tilbúinn til að efast um gildi eigin raka, ef betri rök koma fram?

Þá gerðist nokkuð í mínu lífi. Það var kvöld eitt að framhaldsskólaskákmót var í gangi. Einhverjir af mínum nánustu vinum áttu að tefla, en höfðu ákveðið að fara frekar út að skemmta sér, enda hafði prófum lokið sama dag. Ég vildi ekki skrópa í skákina, enda fyrirliði liðsins, og fann aðra til að keppa í þeirra stað. Næsta morgun þegar ég opnaði Morgunblaðið, sá ég mynd af félaga mínum Kjartani, þar sem tilkynnt var um andlát hans. Bíll félaga minna hafði farið fram af Hafnarfjarðarbryggju í frosti.

Heimspekilegar spurningar tóku að leita á mig af miklum krafti. Ég skrifaði fjölmargar sögur, ljóð og pælingar til að velta fyrir mér öllum þessum málum og stakk þeim svo flestum ofan í tösku og hreyfði ekki við þeim aftur. Ég hafði til margra ára stefnt á að læra rafeindaverkfræði eða tölvunarfræði, eða jafnvel lögfræði. Þegar komið var að skráningu fylltist ég efasemdum. Ég spurði sjálfan mig hvernig manneskja ég vildi vera. Ég hafði þá skoðun að við veljum það sem við erum, en fylgjum ekki endilega einhverri einni ákveðinni köllun í lífinu. Hefði ég valið tölvunarfræði, hefði persónuleiki minn sjálfsagt mótast í samræmi við það val. Ég valdi heimspeki og bókmenntafræði.

Af heimspekitímum í háskólanum þótti mér samræðutímar með Páli Skúlasyni áhugaverðir, í áfanganum ‘Inngangur að Heimspeki’. Ástæðan var fyrst og fremst sú að öllum nemendum var raðað í hring og ætlast til að við ræddum saman um spurningar sem vöknuðu eftir lestur námsefnisins. Ég hafði ótal spurningar sem spruttu fram við lestur námsefnisins og fékk einhvern smá ávæning af því hvernig heimspekileg samræða gæti verið.

Flest fögin voru sett fram sem fyrirlestrar, en mestan áhuga hafði ég á samræðum. Þótti mér of lítið um samræður í kennslustundum, en aftur á móti fengu nemendur gífurlega góða og djúpa undirstöðu í vestrænni heimspeki. Eftirminnilegasti hluti heimspekinámsins var þegar hópur í áfanga hjá Þorsteini Gylfasyni ákvað að fara í Skálholt, þar sem skrifaðar yrðu ritgerðir og rætt saman um heimspeki í nokkra daga. Þorsteinn Gylfason kom með, og var það mér mikil ánægja að sitja með honum í bíl og spjalla um heimspekilegar hugmyndir – sérstaklega man ég eftir þegar við ræddum um nýyrði og hvaðan þau kæmu, hvernig ný orð yrðu til í málinu og hvernig þau festust. Þá var Þorsetinn að þýða texta úr óperu sem sýna átti nokkrum vikum síðar hjá Íslensku Óperunni. Þessi tími í Skálholti var stórfengleg reynsla, þó svo að ritgerð mín um órjúfanleg tengsl myndhverfinga og heimspekilegrar samræðu hafi þótt torskilin.

Þegar B.A.-prófi var lokið tók ég að velta fyrir mér framhaldsnámi. Hreinn Pálsson hafði komið í stofu til okkar einn daginn í Aðalbyggingu háskólans og kynnt okkur það sem hann kallaði „heimspeki fyrir börn“. Hann sagði okkur sögu um mýs og kött og reyndi að fá okkur til að ræða heimspekilega saman, sem reyndar var erfitt, því að við höfðum ekki verið þjálfuð til að ræða heimspekilega saman um eitt eða neitt. Þjálfun íslenskra heimspekinema fólst í því að gagnrýna heimspekilegar hugmyndir og skrifa um þær ritgerðir. Samræðan var oft skilin útundan. Þessu gerði ég mér óljósa grein fyrir þegar Hreinn minntist á að börn væru fljót til að stökkva á þær heimspekilegu hugmyndir sem fælust í sögunni, og að honum þætti undarlegt að háskólalærðir heimspekinemar gerðu ekki það sama. Ég fann fyrir ákveðinni samkennd með því sem Hreinn var að reyna.

Því mælti ég mér mót við hann og ákvað að leggja í framhaldsnám við Montclair State University í Bandaríkjunum, þar sem heimspeki fyrir börn, sem ég vil kalla hugfimi, var sprottin. Þegar ég lagði af stað hafði Hreinn tilkynnt mér að 99% líkur væru á því að ég fengi styrk sem borgaði öll skólagjöld mín, og þessi tilkynning hafði komið úr símtali við Matthew Lipman sjálfan, þeim sem fundið hafði Hugfiminni farveg.

Eftir að hafa verið í heimspekilegum samræðum með fólki víðs vegar að úr heiminum í kaþólsku klaustri í Mendham, New Jersey; samræðum sem ég hafði svo lengi þráð að komast í; samræðum þar sem hlustað var jafnt á hvern einstakling sem hafði eitthvað fram að færa, og allir hvattir til þátttöku, og allir hvattir til að huga betur að sérhverju málefni sem tekið var fyrir; var ég sannfærður um að þetta var eitthvað fyrir mig – þetta var námið og lífið sem ég vildi leggja fyrir mig.

Eftir þrjá daga í heimspekilegum samræðum fékk ég símhringingu frá Matthew Lipman, sem enn var ekki mættur í klaustrið. Hann hafði þá fréttir að færa að styrkur minn hafði ekki verið samþykktur. Þetta var áfall. Hvað átti ég að gera? Fara aftur til Íslands þar sem tæki við atvinnuleysi – en ég hafði verið atvinnulaus í einn og hálfan mánuð eftir að heimspekinámi lauk og loks fengið vinnu sem aðstoðarmaður í byggingarvinnu við að reisa íþróttahús í Kópavogi.

Eftir fimmtán mínútna umhugsun tók ég ákvörðun.

Hreinn Pálsson tók vel á móti mér við heimkomuna ári síðar og útvegaði mér strax nokkur góð verkefni. Ég hélt heimspekinámskeið fyrir atvinnulaus ungmenni við Iðnskólann í Reykjavík, og tók einnig að mér heimspekikennslu fyrir ung börn á sumarnámskeiði í Gerðubergi. Sama sumar var auglýst eftir heimspekikennara við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Ég sótti um og fékk starfið. Þetta var hlutastarf, og því sótti ég einnig um hlutastarf hjá Iðnskólanum í Reykjavík og fékk það líka.

II. Að upplifa heimspeki með börnum: Watchung Primary School, Montclair, New Jersey 1994

12 ára börn

Fyrsta reynsla mín sem kennari í hugfimi var í janúar árið 1994. Þá mætti ég einu sinni í viku í Watchung barnaskólann og fékk að vinna með hóp 11-12 ára barna í hálfa klukkustund í senn. Það voru um 20 börn í hópnum og var kennari þeirra viðstaddur. Hann hélt uppi ströngum aga, svo ströngum reyndar að mér þótti einum of. Til dæmis skammaði hann nemanda fyrir að leika sér með blýant milli fingranna, og annan fyrir að segja eitthvað óskylt efninu. Reyndar er heimspekin þannig að oft er erfitt að greina hvort samband sé á milli þess sem barn segir og hugsar, og þess sem hópurinn segir og hugsar.

Ég hafði komið með nógu mörg ljósrit af fyrsta kafla Lísu eftir Matthew Lipman til að allir gætu setið í hring og lesið upp úr henni. Fyrsti tíminn byrjaði vel. Börnin lásu, spurðu spurninga og völdu sér síðan hugmynd til að ræða um. Börnunum þótti áhugavert að ræða um dauðann, og hvað yrði eftir dauðann, en daginn áður hafði Oprah Winfrey verið með sjónvarpsþátt og umfjöllunarefnið hafði verið: líf eftir dauðann. Börnin tengdu fyrsta kafla Lísu saman við umfjöllun Oprah, og byrjuðu að ræða þessi mál. Eins og gengur og gerist reyna sumir að tala meira en aðrir, grípa fram í og gera lítið úr skoðunum annarra, en hluti verkefnis hugfimikennarans er að leysa þessi vandamál svo að úr verði sterkara samræðusamfélag meðal nemenda. Það tókst ágætlega í þetta sinn. Samræðan varð á tíma mjög spennandi, sérstaklega vegna þess að nemendur voru af ólíkum stigum samfélagsins, þarna voru börn efnaðs fólks, en það sendi börnin sín í þennan opinbera skóla þar sem hann hafði á sér mjög gott orðspor, þarna voru börn fátækra foreldra og börn úr millistétt.

Sumir töldu að líf væri eftir dauðann, en öðrum þótti þessi hugmynd fáránleg. Nemendur gáfu dæmi máli sínu til stuðning. Þegar minnst var á ljósið sem fólk sér þegar það er á mörkum þess að deyja, en getur svo sagt frá eftir að það hefur verið vakið aftur til lífsins var það útskýrt af þeim sem trúðu á líf eftir dauðann að þetta væri leiðin að öðrum heimi, en af hinum sem ekki trúðu því að hér væri líklegast um súrefnisskort að ræða. Þá var farið út í að ræða hvað yrði um líkamann, og sumir fullyrtu að líkaminn væri aðeins klæði sem sálin notaði á meðan manneskjan lifði, en aðrir að líkami og sál væri sami hluturinn. Einn drengur sagði að hann væri fullviss um að maður yrði bara maðkamatur og ekkert annað, á meðan aðrir héldu að maður kæmist á annað tilvistarstig. Nemendur héldu áfram að ræða saman um samband líkama og sálar, sú samræða var spennandi og var þátttaka lífleg.

Þannig fóru margar samræður fram, og alltaf var rætt um ólík hugtök – einfaldlega það sem vakti mestan áhuga nemenda á hverri stundu. Oftast reyni ég að tengja síðustu samræðu við þá næstu, en sama hvað ég reyni, alltaf tekst nemendum að finna spurningar og fleti sem ég hafði ekki reiknað með, en voru samt heimspekilega séð, mjög spennandi viðfangsefni.

Summer Honors 1994-2004

Eftir æfingakennsluna í Watchung og lok prófa við Montclair State University, var haft samband við kennara minn, Ann Margaret Sharp, og hún beðin um að mæla með kennara til að kenna rökfræði á námskeiði fyrir afburðargreinda nemendur í Nebraska á aldrinum 13-18. Þetta yrði tveggja vikna námskeið. Eugenio Echeveria hafði áður haldið þessi námskeið en komst ekki í þetta skiptið vegna mikilla anna. Hann aðstoðaði mig sérstaklega við undirbúning fyrir fyrsta námskeiðið sem ég hélt.

Það var svolítið spennandi að koma til Nebraska. Þar er endalaust flatlendi í allar áttir og landbúnaður aðal atvinnugreinin. Ég fékk gistingu í heimahúsi, og þannig hefur það verið á hverju sumri síðustu tíu árin. Á sunnudegi, áður en námskeiðið átti að hefjast var öllum kennurum boðið í mat á heimili nokkurra starfsmanna. Það eftirminnilegasta sem ég sá þetta kvöld var hvirfilvindur. Hann þeyttist um fyrir utan stofugluggann, reyndar í mikilli fjarlægð, og kippti sér enginn upp við hann nema ég, sem hafði aldrei augum litið slíkt náttúruundur.

Áður en kennsla hófst, daginn eftir, raðaði ég borðum og stólum í hring og skrifaði leiðbeiningar á töflur stofunnar um hvernig best væri að hegða sér í samræðusamfélagi. Þegar nemendur mættu var ég ekki einu sinni viss um að þau myndu skilja enskan framburð minn almennilega. Ég byrjaði á því að biðja nemendur að læra nöfn hvers annars sem fyrst, svo að enginn yrði neinum ókunnugur í stofunni. Þannig tókst mér líka að kynnast þeim betur. Með því að þekkja nöfn fólksins í kringum þig skapast ákveðið traust og trúnaður meðal viðkomandi. Næst lét ég þau taka könnun í rökleikni. Svo fórum við yfir hana og athuguðum saman hver réttu svörin voru. Spunnust áhugaverðar samræður um það.

Loks snérum við okkur að Lísu, eftir Matthew Lipman. Ég man enn hver fyrsta spurningin sem valin var af nemendunum var.

„Hvað gerist ef þú horfir í spegil og ljósin er slökkt.“

Þessi spurning hljómar ósköp sakleysislega, en hún varð til að umræðuefni næstu tveggja vikna varð hugtakið: „ekkert“. Ræddu nemendur mikið um eðli þessa hugtaks og þótti þeim mjög dularfullt að allir vissu einhvern veginn hvað „ekkert“ þýddi, en komust að því að „ekkert“ gæti samt ekki verið til. Þetta varð til þess að nemendur rannsökuðu hvernig „ekkert“ tengdist ólíkum fræðigreinum, eins og stærðfræði, list, tölvufræði, vísindum og fleiru. Í lok vikunnar tveggja var lokahönd lögð á rit sem nemendurnir kölluðu: „Nothing: The Book“ og sögðust þau ætla að gera kvikmynd að ári sem héti: „Nothing: The Movie“ en ekkert varð úr henni.

Á hverju ári síðan, í júnímánuði, hef ég fengið 14 nemendur í rökfræðihópinn og hefur hann náð miklum vinsældum. Ár eftir ár sækja flestir nemendur um að komast í rökfræðina. Um 500 afburðarnemendur sækja um að komast á námskeiðið, sem samanstendur nú af rökfræði, tölvufræði, samfélagsfræði, ritlist, myndlist (teiknimyndagerð), leiklist, vísindum, læknisfræði og tæknifræði. Af þessum 500 nemendum komast aðeins um 110 að. Á síðasta ári sóttu 99 nemendur um rökfræði sem fyrsta val.

Nemendur hafa rætt allt milli himins og jarðar á þessum námskeiðum. Eitt árið var meginþemað goðafræði, þar sem við leituðum að hinu sanna í sögum sem virtust ósannar, eitt árið rannsökuðum við skák og hvernig rökhugsun tengist skáknámi, enn eitt árið rannsökuðum við visku, og reyndum að átta okkur á hvort hægt væri að mæla visku á svipaðan hátt og hægt er að mæla þekkingu. En mikill fjöldi hugmynda og umræðuefna hafa sprottið fram sem hafa vakið áhuga allra sem þátt tóku, og minn líka að sjálfsögðu, en ég hef þá kenningu að nemendur muni varla fá áhuga á námsefninu nema kennarinn sýni að hann hafi svo brennandi áhuga að það sé nánast smitandi.

Um heimspekikennslu á Íslandi 1994-1998

Ég var ráðinn sem heimspekikennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti haustið 1994. Ég tók á heimspekikennslunni á svipaðan hátt og ég hafði gert með nemendum mínum í Nebraska. Megin munurinn var sá að ég samdi sjálfur og þýddi fjölmargar sögur og greinar sem ég vildi nota sem stökkbretti út í sundlaug heimspekinnar, til þess að finna áhugaverðar heimspekilegar hugmyndir meðal nemenda. Áhugi nemenda var gríðarlegur og hópur nemenda tók sig saman og unnu með mér að gerð fleiri áfanga, því þeim þótti mjög gott að ræða heimspeki nokkrum sinnum í viku með öðru námsefni. Urðu til áfangarnir Heimspeki 2024 og 3024, Rökfræði 1024 og Gagnrýnin hugsun 1024. Góður hópur sótti ávallt þessa tíma.

Nemendur sátu alltaf í hring í tímum hjá mér, og stundum fór ég með hópa út í Menningarmiðstöðina Gerðuberg þar sem við fengum að vera í sal, okkur að kostnaðarlausu, en þar gátu nemendur drukkið kaffi og gos í tímum, og verið á þægilegum stað á meðan samræður stóðu yfir. Einn daginn heimsótti Pétur Blöndal okkur, en þá var hann blaðamaður Morgunblaðsins og skrifaði skemmtilega grein um heimsóknina. Einnig fór hópur nemenda einn daginn í sjónvarpssal þar sem þeir spurðu spurninga um trúmál fyrir sjónvarpsþáttinn Ó.

Félagslega hafði þessi áfangi mjög góð áhrif á nemendur. Vináttusambönd urðu til sem lifa enn góðu lífi í dag. Stofnað var til árlegrar heimspekiferðar í fjallakofa þar sem nemendur og kennari áttu góða kvöldstund saman og sváfu síðan (misjafnlega mikið) á staðnum yfir nóttina. Nokkrir nemendur urðu til þess að láta mig vita að þeir hefðu komist yfir námsleiða og jafnvel þunglyndi við að sækja þessa tíma, því að allt í einu urðu hlutirnir svo áhugaverðir og spennandi. Móðir eins nemanda skrifaði mér fallegt bréf um hvernig sonur hennar hafði verið við það að flosna frá námi, en síðan hafi áhugi hans kviknað við að vera í hugfimitímunum.

Áður en ég fór til Mexíkó, árið 1998, kvöddu nemendur mig fallega um vorið og buðu mér í bátsferð eitt kvöldið. Þá var gott að ræða við marga nemendur í síðasta sinn fyrir ferðina löngu, og horfa á Reykjavík á siglingu úti á hafi. Þetta var fallegt kvöld og eftirminnilegt.

Árin 1995-1996 kenndi ég einnig áfanga í Iðnskólanum í Reykjavík sem kallaður var Hugfimi 102, en hann var settur saman eins og áfangarnir í FB. Ingvari Ásmundssyni, skólameistara Iðnskólans, þótti nafngiftin Heimspeki 102 ekki hljóma nógu spennandi, og því varð úr að ég fann upp á heitinu ‘Hugfimi’ sem síðan hefur loðað við þessa aðferð heimspekinnar.

Árið 1997 var ég svo fenginn til að þjálfa kennara við Selásskóla í Reykjavík til hugfimikennslu fyrir börn. Kennararnir sýndu náminu mikinn áhuga og hafa tjáð mér að námskeiðið hafi reynst þeim mjög gagnlegt. Því miður gat ég ekki fylgt námskeiðinu nógu vel eftir þar sem ég flutti af landi brott.

Um heimspekikennslu í CEFILNI – börn, unglingar, háskólanemendur, kennarar

Angeles, konu minni, hafði ávallt þótt mikið til borgarinnar Merida koma, enda er hún mjög merkileg og spennandi borg á Yucatanskaganum. Hún hafði áhuga á að reisa þar skóla. Við stofnuðum CEFILNI – eða Centro de Filosofia Para Ninos y Ninas del Sureste, A.C. Fyrsta árið gekk hægt, en þó vorum við fengin til að þjálfa kennara við kaþólskan einkaskóla, Educación y Patría (Menntun og föðurlandsást). Nokkrar nunnur voru með í hópunum sem við þjálfuðum og þótti þeim, jafnt sem nemendunum, námið vera mjög spennandi og áhugavert. Við eiginkona mín kenndum þetta saman; hún kenndi eina vikuna og ég þá næstu. Fyrsta árið notaði ég mikið túlk, en komst svo ótrúlega fljótt upp á lagið með að skilja og greina heimspekilegar hugmyndir sem nemendurnir tjáðu á spænska tungu. Varð ég brátt mjög fær í heimspekilegri samræðu á spænsku, en var nánast ósjálfbjarga í öllu öðru – vissi til dæmis ekki hvað hinir ólíku hlutir eldhússins eða matvörur hétu, en gat rætt um ólíkar myndir frelsis – hvort sem væri frelsi til gera eitthvað, eða frelsi frá einhverju.

Smám saman jukust verkefnin og við tókum að okkur námskeið í ólíkum fylkjum Mexíkó, og þar reyndist okkur vinur minn, Eugenio Echeveria vel enn og aftur, en hann bað okkur að koma sér til aðstoðar.

Við opnuðum námskeið fyrir börn í skólastofu sem við höfðum byggt úr viði og gleri, eins og heimski maðurinn í dæmisögunni gerði, en höfðum enga ástæðu til að trúa öðru en að hún dygði okkur í fjölda ára. Við fengum nemendur frá fjögurra ára aldri til átján ára, auk þess sem að nemendur úr háskólum, bæði kennarar, kennaranemar og sálfræðinemar sýndu mikinn áhuga á að taka námskeið hjá okkur. Það gekk vel. Spænskan mín var orðin mjög góð.

Angeles var boðið á ráðstefnu í Kólumbíu, þar sem hún átti að kynna hugfimina fyrir fólki víða úr Suður-Ameríku. Varð það til þess að okkur var boðið að þjálfa kennara í Kosta Ríka, sem við ferðuðumst fjórum sinnum til, og svo í Ekvadór, þar sem ég meðal annars hitti danska heimspekinginn Per Jespersen og kornungann nemanda hans, sem þá voru að gefa út bók saman, en Per skrifar meðal annars fyrir skólavefinn íslenska á http.//www.skolavefur.is.

Það væri of mikið verk að telja upp hvert við ferðuðumst innan Mexíkó og við hvaða stofnanir við störfuðum.

Ég tók að mér starf sem framhaldsskólakennari við hinn kaþólska Instituto Cumbres de Merida, en hann rekur ‘The Legion of Christ’ eða ‘Hersveit Krists’ þar sem ég kenndi samfélagsfræði, heimspeki, landafræði, aðferðarfræði vísinda, námstækni og tölvufræði. Starfsliðið var óaðfinnanlegt, miklir fagmenn, en nemendur voru erfiðir. Þegar ég reyndi að fá þá til samræðu gekk það engan veginn. Þessir nemendur voru vanir samkeppni sín á milli og því að spilla hverjir fyrir öðrum – þeir fáu sem sýndu námi mikinn áhuga fengu ekki tækifæri til að þroska sig í eðlulegu námsumhverfi. Árin mín tvö við þennan skóla voru því sorgleg reynsla – þar sem mér sýndist nemendur læra nánast ekkert. Reyndar voru þessir nemendur börn milljónamæringa, og var ekki óalgengt að þau fengju bíl í verðlaun fyrir góðar einkunnir en einhvers konar refsingu fyrir lægri einkunnir. Þessir nemendur virtust ekki finna fyrir neinni þörf til þess að læra. Þeir voru fátækasta fólk sem ég hef kynnst, þrátt fyrir að hafa meiri aðgang að fjármunum en flestir aðrir. Því hætti ég störfum þar eftir tveggja ára baráttu við að skapa betri námsaðstæður.

Haustið 2002 virtist allt vera á uppleið. Við höfðum lagt grunninn að menningarstofnum hjá Coca Cola fyrirtækinu í Merida, þar sem að börn starfsfólks í verksmiðjum fengu tækifæri til að ástunda hugfimi, læra tölvufræði, leiklist, og margt fleira. Höfðum við skapað heilt starf þar sem að ég átti að sjá um að dæmið gengi upp. Á sama tíma höfðum við haldið fjölda nemenda okkar í hugfimiskólanum, og mörg verkefni voru á döfinni. Frá árinu 2000 hafði ég unnið að uppbyggingu Vísindavefs Háskóla Íslands gegnum internetið undir ritstjórn Þorsteins Vilhjálmssonar, og var ég mjög ánægður með að vinna við vefinn.

En þá skall ógæfan yfir. Sunnudaginn 22. september árið 2002 reið yfir Merida fellibylurinn Ísídór. Hann var gríðarlega kraftmikill. Vindhraðinn fór upp í 250 km á klukkustund, sem eru 135 hnútar eða 69 metrar á sekúndu, en fárviðri samkvæmt venjulegum skala er allt yfir 118 km á klukkustund.

Þetta varð til þess að kennslustofan okkar, úr viði og gleri, gjöreyðilagðist. Borgin Merida varð fyrir mikilli eyðileggingu af völdum fellibylsins. Við vorum án rafmagns og síma í heilan mánuð. Mikið vatn hafði safnast saman í sundlaug sem við höfðum byggt úti í garði, þannig að við höfðum baðvatn. Einnig tókst okkur að kaupa drykkjarvatn í tönkum, en það var erfitt að fá þá. Einn daginn þurfti ég að bíða um 10 klukkustundir í röð fyrir utan ísverksmiðju, til að kaupa einn tíu lítra ísklump sem verði mat okkar gagnvart hitanum (en á þessum tíma var um 35 stiga hiti í skugga).

Menningarmiðstöðin sem var verið að byggja var jöfnuð við jörðu, og því yrði opnun hennar frestað í um eitt ár. Skólastofan okkar var gjörónýt og við gátum ekki lengur tekið á móti nemendum. Síma- og internetsamband lá niðri þannig að við gátum ekki haldið uppi samskiptum við viðskiptavini okkar. Þetta gerði okkur gjaldþrota og við fluttum til borgarinnar Puebla, en fjölskylda Angeles bjó þar að studdi okkur til að koma undir okkur fótunum á ný.

Við héldum áfram að kenna á námskeiðum víða um Mexíkó og ég fór til starfa við Instituto Andes de Puebla, sem einnig var rekinn af ‘Hersveit Krists’ og voru agavandamál þar nákvæmlega jafn slæm og í Merida. Einnig byrjaði ég að þjálfa unga krakka í skák, en okkur tókst ekki að verða okkur úti um húsnæði til að byrja hugfimiskólann aftur. Mér líkaði ekki ástandið í Puebla og ákvað að leita aftur heim til Íslands.

Ég kom heim í júní árið 2004, og hef fengið húsnæði til að hefja hugfiminámskeið fyrir börn í Skeifunni í Reykjavík. Einnig hef ég hug á að þróa námsefni fyrir fullorðna, fyrirtæki og stofnanir.

Þar að auki stunda ég kennslu við barnaskólann Salaskóla í Kópavogi, þar sem ég beiti meðal annars aðferðum hugfiminnar. Hugfimitímar með börnum þar hafa tekist vel, börnin hafa sýnt náminu mikinn áhuga. Gott að vera kominn heim.

Viskulind byrjar með námskeið í janúar árið 2005. Kennsla fyrir börn mun einungis fara fram á laugardögum. Námskeið fyrir leikskólakennara og grunnskólakennara eru skipulögð eftir samkomulagi.

« Til baka

Póststrúktúralismi, marxismi, femínismi: Að valda usla eða leita að höfuðmóthverfu?

eftir Ingólf Ásgeir Jóhannesson

Fyrirlestur fluttur á málstefnu Sagnfræðingafélags Íslands Póstmódernismi – hvað nú? þann 13. október 2000, sem haldin var í tengslum við hugvísindaþing 2000. Birtist einnig á Kistunni.

Af hverju póststrúktúralismi?

 

Ég ætla að byrja á því að segja ykkur af hverju erindið mitt hefur orðið póststrúktúralismi í titlinum. Það eru tvenns konar ástæður. Önnur er sú að ég hef kynnt mér nokkuð fræðileg viðhorf sem komu á eftir strúktúralismanum og má því kalla póststrúktúralisma, eitthvað sem kemur á eftir. Þetta eru einkum hugmyndir franskra fræðimanna eins og bandarískir fræðimenn, einkum femínistar, hafa túlkað þær. Í þessum hópi er hugmyndasagnfræðingurinn Michel Foucault efstur á blaði sem gúrú póststrúktúralískra femínista, þ.e. hann er efstur á blaði þeirra sem ég hef kynnt mér, að undanskildum þó félagsfræðingnum Pierre Bourdieu sem líka hefur skilgreint mikilvæg hugtök sín sem frábrugðin strúktúralisma þótt hæpið sé að telja þau póststrúktúralísk.

Hin ástæðan er sú að mér virðast flestir þeir sem hafa áhuga á því að nota póststrúktúralískar hugmyndir til að hafa pólítísk áhrif tala um hugmyndir sínar sem póststrúktúralískar en ekki póstmódernískar. Þetta má rökstyðja enn þá betur með því að benda á að við erum enn hluti af nútímanum, módernismanum, og því getur tæpast um neinn póstmódernisma verið að ræða ennþá. Aftur á móti eru til fræðileg og pólítísk viðhorf sem koma á eftir strúktúralismanum sem væru óhugsandi án þess að til hefði verið strúktúralismi. Þess vegna getur póststrúktúralismi verið til óháð hvort póstmódernisminn er til.

Muninn á póststrúktúralisma og póstmódernisma má e.t.v. undirstrika með þeirri tilhneigingu dólgamarxista og annarra módernista að falsa orð póststrúktúralískra femínista eða annarra, og kalla hugmyndir þeirra póstmódernískar þegar viðkomandi höfundur notaði beinlínis orðið „póststrúktúralískur“ og átti við það hugtak 1. Að vísu sagði Ástráður Eysteinsson 2 í fyrirlestri að póststrúktúralisminn hefði sogast inn í póstmódernismann í upphafi þessa áratugar en jafnframt breytt honum. En ég læt það kyrrt liggja og tala um póststrúktúralisma fremur en póstmódernisma í mörgum tilvikum sem aðrir myndu láta póstmódernisma nægja. Því að pólítískt séð hefur Ástráður ekki alls kostar rétt fyrir sér – eins og ég hef útlistað.

Póststrúktúralismi og pólítísk barátta

 

Í sjálfu sér veitir póststrúktúralismi, hvort sem hann er femínískur eða marxískur eða eitthvað annað, ekki hagnýtar leiðbeiningar um skynsamlega pólítíska baráttu. Það er ekki hlutverk hans, sbr. t.d. fyrirlestur Þorgerðar Þorvaldsdóttur 4. janúar sl. um póstmódernisma og femínisma 3. Hlutverk póststrúktúralismans hefur ekki síður verið gagnrýni, nauðsynleg gagnrýni á dólgahugsunarhátt flestra marxista sem neituðu að berjast nema þeir fyndu hárrétta höfuðmóthverfu og þeirra femínista sem halda að karlar og konur séu í eðli sínu svo ólík að kynin eigi tæpast samleið í pólítískri baráttu.

En sé leitað vel í smiðjum gúrúanna frönsku, þá finnst samt ýmislegt, því að margir þessara Frakka eru, eða voru, virkir í pólítískri baráttu. Foucault 4 setti eitt sinn fram, í viðtali, fimm tesur um hvernig róttæk pólítík ætti að vera í sjón til að teljast róttæk. Hann var spurður að því af ritstjórum tímaritsins Esprit árið 1968 hvort hugsun, sem byggðist á því leita að misfellum í sögulegri þróun og takmörkunum sem kerfi leiða af sér, þýddi ekki að möguleikar á framsæknu pólítísku inngripi væru takmarkaðir: Að við værum bundin við annað af tvennu: Viðurkenningu á kerfinu eða einhvers konar óskipulegu ofbeldi til að geta breytt kerfinu.

Foucault kaus að svara hinu síðara, því að hann vildi ekki viðurkenna að kerfið gæti ekki breyst. Hann setti fram fimm atriði sem róttæk pólítík þyrfti að uppfylla. Ég ætla að tæpa á þeim:

Í fyrsta lagi: Róttæk er sú pólítík sem viðurkennir sögulegar kringumstæður og séraðstæður. Annars konar pólítík lítur á almenn gildi og frjálsan leik einstaklingsfrumkvæðis.

Í öðru lagi: Róttæk er sú pólítík þar sem leitað er að möguleikum breytinga í hinum sögulegu kringumstæðum. Annars konar pólítík lítur á algild og óhlutstæð viðmið og bíður eftir snillingi til að breyta þeim.

Í þriðja lagi: Róttæk er sú pólítík þar sem litið er á einstaklinga og viðfangsefni í margs konar samhengi þar sem hvert svið hefur eigin reglur og lögmál. Annars konar pólítík lítur á sjálfstæða vitund einstaklinga sem meginhreyfiaflið.

Í fjórða lagi: Róttæk er sú pólítík sem lítur á samhengið sem iðja fer fram í, þ.e. hvaða þættir eru líklegir til þess að öðlast gildi á tilteknum vettvangi. Sama hversu smátt er og e.t.v. mjög ólíkt eftir aðstæðum. Annars konar pólítík lítur svo á að það þurfi vekja einstaklinga af blundi ef þeir hafa ekki „rétta“ skoðun.

Í fimmta lagi: Róttæk er sú pólítík sem lítur á vísindalega orðræðu sem skapandi orðræðu í valdakerfi. Annars konar pólítík á það til að kalla eftir einhvers konar hlutleysi.

Besta dæmi þessara haustmánaða um fimmta atriðið er deila Gísla Más Gíslasonar prófessors í vatnalíffræði við þá sem vilja búa til nýjar námur í Syðri-Flóa Mývatns til viðbótar þriggja ferkílómetra námu í Ytri-Flóa 5. Hann hefur ákveðið – „áttað sig á“ myndi ég segja ef ég væri ekki að þykjast vera póststrúktúralískur – að hlutleysi vísindamannsins dugi ekki til að bjarga Mývatni. Að hann sem vísindamaður verði að leitast við að setja eigin niðurstöður í pólítískt samhengi. Að það er alveg sama hversu rækilega hann og aðrir vísindamenn sanna háskann af námuvinnslunni í Mývatni, þá finnst aldrei slíkur sannleikur um háskann af námuvinnslunni að það verði ekki pólítík sem ræður því hvort henni verður haldið áfram.

Viðmið Foucaults merkja að engin viðmið eru algild. Auðvitað ekki heldur gildi Mývatns. Gildin eru sögulegs og pólítíks eðlis. 6

Strúktúr, samsæri, sannleikur, skilningur

 

Það er að sjálfsögðu ekki neitt nýtt fyrir íslenska eða aðra sagnfræðinga að leita að sögulegum viðmiðum en ekki algildum. En e.t.v. er hér samt ný merking þess að leita að sögulegum viðmiðunum, eins og Foucault gerði með sínum „fornleifa“- eða genealógísku rannsóknum þar sem hann rakti hugmyndir til baka til þess tíma er þær öðluðust nýtt samhengi. Og það geta menn e.t.v. lært best af honum, meira en um pólítík, hvernig á að rannsaka hugmyndir, hvernig á að rannsaka þau löggildingarlögmál sem gilda á hverjum tíma og á hverjum vettvangi.

Foucault leitar ekki að földum strúktúr eins og strúktúralistar gera. Þess vegna finnst mér eðlilegt, eins og ég sagði áðan, að tala um viðhorf hans og aðferðir sem póststrúktúralisma, fremur en póstmódernisma. Nema módernisminn væri sannanlega dauður. En strúktúralistar eru ekki einir um að leita að strúktúr. Leit að földum sannleika, földu samsæri, eða algildum skilningi á sögulegum fyrirbærum er sams konar leit. Við getum sem best kallað þetta S-in fjögur: strúktúr, sannleik, samsæri, skilning.

Við sagnfræðingar leitum vissulega mikið að þessum S-um, þótt við höfum aftur á móti þessa tengingu við fortíðina sem fræði okkar snúast um – en marga vísindamenn vantar. A.m.k. við leitum við að S-unum þremur sem ég íslenskaði: Samsæri – sannleik – skilning. Við leitum síður að strúktúrnum, „algildisvélinni“.

Samt leitaði Foucault sjálfsagt að þessu öllu – en með gagnrýnu hugarfari og gagnrýnum aðferðum. Hann leitaði líka að sögulegri samsetningu þessara fyrirbæra, einkum Sannleikans. Ef til vill er Sannleikurinn lykilþátturinn í þessum S-um. Og e.t.v. er til ein mjög einföld skýring á þessu fyrirbrigði, hvort sem við köllum það sannleika, samsæri, strúktúr eða skilning. Eða réttara sagt spurning sem við eigum að spyrja: Er til eitthvert augnablik sem er „pre-discursive“? Er til heimur utan orðræðunnar – veruleiki án þess að tákna neitt? 7. Þetta er skylt spurningunni um hvort til sé atburður þar sem við gætum komist að því „hvað raunverulega gerðist“.

Epistemic reflexivity og baráttan um Mývatn

 

Hér dreg ég líka sjónarmið Bourdieus inn í. Hann hefur skilgreint hugtakið „epistemic reflexivity“. 8

Epistemic reflexivity felst í því að vísindamaður reynir ekki að finna sinn innri mann, reynir ekki að finna hvað það er sem hann skilur ekki, heldur reynir að átta sig á þekkingarfræðilegum og pólítískum forsendum fræðigreinarinnar, þekkingarfræðilegum og pólítískum forsendum orðræðunnar, forsendum þess hvað hefur gildi á hverjum vettvangi 9.

Ég treysti mér ekki til að heimfæra epistemic reflexivity á deilur Gísla Más Gíslasonar við forstjóra Kísiliðjunnar og sveitarstjóra Skútustaðahrepps. Enda er það ekki sjálfskilningur Gísla sem skiptir máli, heldur orðræðugreining á vísindum og pólítík dagsins í dag: Hefur varúðarreglan um að fara ekki út í framkvæmdir nema skaðleysi þeirra hafi verið sannað eitthvert vægi, einhvert táknrænt kapítal, í íslensku samfélagi á borð við námuvinnslunýtingu. Það er heldur ekki sjálfskilningur minn eða annarra baráttumanna gegn námuvinnslunni sem ræður úrslitum – þótt aftur á móti felist í hugtakinu epistemic reflexivity að orðræðuskilningurinn skipti máli. Og ef ég vissi hvað réði úrslitum, þá væri ég sennilega einhvers staðar að beita mér nákvæmlega í þá átt. En kannski er það ekki gagnslaust að segja ykkur glefsur úr þessari baráttusögu. Sumir þeirra sem trúa á innra gildi hluta og fyrirbrigða, þar með talið náttúrufyrirbæra, segja að það sé tilfinningin, ástin fyrir landinu sem skipti máli. Hún hafi táknrænasta gildið. Þess vegna myndum við ALDREI, sem þjóð, sætta okkur við að þrír ferkílómetrar af hrauninu á Þingvöllum yrðu grafnir niður allt að fjóra metra til að nota hraunið í ofaníburð eða e.t.v. til þess að flytja það sem byggingarefni til Þýskalands.

Ég er kominn út á hálan ís. Í þann veginn að byrja að leita algilds sannleika um baráttuna gegn námuvinnslunni úr Mývatni og þar með hætta að tala á póststrúktúralískan máta – svo að ég skal stoppa, en bara í bili, að tala um Mývatn.

Og skal fara að tala aftur um sagnfræðinga og aðferðir þeirra. Tilhneiging sagnfræðinga til að skýra frá niðurstöðum sínum sem sögum er raunar mjög gott veganesti fyrir þann póststrúktúralíska hugsunarhátt að efast um gildi alhæfinga og leita að frumlegum tengingum.

Einþráða saga, margþráða saga, stórsaga og leitin að höfuðmóthverfu

 

Ég rakst á stutta greinargerð Páls Björnssonar síðan í fyrravetur 10 þar sem hann ræðir einsögu, fjölsögu, einþráða sögu, fjölþráða sögu, margþráða sögu. Kannski ágætis líking fyrir það sem við í menntunarfræðum og kannski fleiri fræðum höfum talað um – á ensku – sem muninn á „grand“ og „small narrative“. Sigríður Þorgeirsdóttir 11 nefnir grand narrative „stórsögu“.

Að segja sögu, eins og maður sé að segja sögu: þá þarf maður að vanda sig, góður sögumaður segir yfirleitt frá forsendum sínum (ef áheyrendur þekkja ekki forsendurnar) og menn verða að meðtaka sögu hans eða hennar eins og hún er sögð. En þótt oft megi draga lærdóm af sögu, hvort heldur það er saga af atburðum gærdagsins eða saga í sagnfræðilegum skilningi, þá er ekki þar með sagt að meðtaka eigi forspárgildi stórsögunnar.

Það viðhorf marxista að leita að höfuðmóthverfu er leit að slíkri einþráða sögu með forspárgildi, grand narrative, stórsögu; strúktúr, samsæri, sannleika, skilningi. Með póststrúktúralísku orðalagi, þá er verið að leita að uppsprettu valds á EINUM stað, ekki því valdi sem er eins og net. Valdi sem dreifist út um allt og hefur jafnvel ekki uppsprettu.

Ég er sennilega ekki nógu póststrúktúralískur samt til að trúa því að það séu hvergi staðir í þessu neti þar sem samþjöppun valds er meiri en annars staðar, t.d. hjá kolkrabbanum.

Reyndar er kolkrabbalíkingin stórgóð fyrir póststrúktúralíska túlkun á valdi. Kolkrabbinn teygir angana og umvefur, á líkan hátt og póststrúktúralísk valdslíking. Líkast til er þó einhvers staðar miðpunktur, einhvers konar samsæri í kolkrabbaorðræðunni. En kolkrabbi: Hann hefur ekki beinagrind, er það nokkuð? Og veit nokkur hvar er miðja hans? Og álítum við ekki yfirleitt að hann sé byggður á mafísku samsæri?

Er þá e.t.v. engin höfuðmóthverfa? Ég treysti mér ekki til að hafna því að sumar móthverfur séu mikilvægari en aðrar. Og það að vilja valda usla á þeim stað sem hann veldur andstæðingi sem mestum skaða eða maður hefur sjálfur mestan möguleika á að valda skaða er svo sem ekki andstætt því að það geti verið til höfuðmóthverfa. Það getur vel verið að þátttaka í réttindabaráttu homma og lesbía geri ekki bara hommum og lesbíum gagn, heldur líka hálendisbaráttunni eða baráttunni fyrir verndun Mývatns.

Ég ímynda mér að þetta gæti staðist af a.m.k. tveimur ástæðum: hommar, lesbíur og ég munu vinna betur hlið við hlið í Mývatnsbaráttunni ef við vinnum líka saman í réttindabaráttu þeirra og svo getur verið að tækist – fyrir báða aðila – að skapa fleiri bandamenn. Nú tek ég ekki þetta dæmi af því af því að ég geti stært mig af að hafa verið virkur í réttindabaráttu homma og lesbía, heldur til að velja að því er virðist nokkuð óskyld pólítísk markmið minnihlutahópa og minnihlutaskoðana.

En það getur líka verið að það sé þess vegna sem baráttan fyrir Mývatni er svo erfið að við sem fyrir því berjumst erum að berjast einangraðri baráttu sem of fáir virðast telja „mikilvægasta baráttumál“ ársins í ár. Því ef baráttan tapast í ár, þá er hún e.t.v. töpuð um aldur og eilífð. Sigur gæti valdið usla sem yrði gagnlegur margvíslegri annarri réttindabaráttu. En fyrir mér er samt sigur í þessu máli meira en usli en væri e.t.v. usli fyrir flestum öðrum.

Tap getur leitt til uppgjafar. A.m.k. leið mér þannig daginn í sumar sem úrskurður skipulagsstjóra féll þar sem gefin voru fyrirheit um námuvinnslu úr Syðri-Flóa. En það er ekki síst þannig sem það að setja eina baráttu í langfyrsta sæti getur verið svo varhugavert. Gildir einu hvort það er út frá marxískri greiningu á höfuðmóthverfu, ást á tilteknu náttúrufyrirbrigði og tilfinningatengslum við það eða þekkingu á vistfræði og náttúruvernd.

En er þetta, sem ég hef talað um hér, eitthvað frábrugðið samfylkingarpólítík Dimitrofs? Ekki að öllu leyti – en þó að einu leyti að því að það er enginn sjálfkrafa, sjálfskipaður forystusauður í samfylkingar- og fjölmenningarpólítík dagsins í dag. Sem þýðir þó ekki að öll baráttumál séu jafnmikilvæg eða að það sé engin móthverfa annarri skýrari. Ef þetta er „þýtt“ yfir í hvort til er algildur veruleiki, eitthvað „pre-discursive“, þá mætti spyrja um fimmta S-ið: Skipulag. Er allt tilviljunum undirorpið ef ekki er um að ræða algild lögmál, enga algilda túlkun á veruleikanum, enga stórsögu? Án þess að svara þessu, þá langar mig að spyrja: Er það e.t.v. höfuðmóthverfa dagsins í dag hvort það er fjölmenningarþjóðfélag eða ekki? Og ég svara: Pólítísk barátta ætti að miðast við að „magna“ en ekki sundra.

Ráðstefnan heitir Póstmódernismi – hvað nú? Þegar undirbúningur ráðstefnunnar hófst var ég spurður að því hvað væri eftir póst. Þá vaknar líka spurning um hvort til sé orðinn póst-póst-ismi. Svarið er skýrt og einfalt NEI. Við erum enn í nútímanum – og alheimsvæðing kapítalismans er í algleymingi, markaðsvæðing alls mannlífs, ógnarstjórn markaðsins, eins og Bourdieu 12 kallar það. Þannig að ég fæ nú ekki séð að módernisminn, og þar með ekki afsprengi hans, póstmódernismi og póststrúktúralismi, séu beinlínis að líða undir lok. Eða nauðsyn þess að nýta hvaða vopn sem er í pólítískri baráttu.

Þegar menningarlegur margbreytileiki á Íslandi eykst, þá er vert að gefa hinum bandarísku baráttuhefðum og hugmyndum byggðum á póststrúktúralisma aukinn gaum. Í titli eru nefndir póststrúktúralismi, marxismi og femínismi. Ekki af tilviljun. Heldur af því að nám mitt í póststrúktúralískum fræðum var hjá bandarískum femínismum og öðru áhugafólki um foucaultísk og gagnrýnin fræði. Sem ég varð sjálfur að sjá um að tengja evrópskum marxísma af maóísku gerðinni 13.

 

Tilvísanir

1. Giroux 1988, sjá líka Ingólf Ásgeir Jóhannesson 1992

2. 2000

3. Þorgerður Þorvaldsdóttir 2000

4. 1978, sjá ennfremur Ingólf Ásgeir Jóhannesson 1998

5. sjá t.d. Gísli Már Gíslason 2000, Gunnar Örn Gunnarsson 2000

6. Annars staðar hef ég fjallað um hugtökin framfarir og þroska út frá sögulegri tilurð þeirra, sjá Ingólfur Ásgeir Jóhannesson 1992/1998.

7. Sjá umfjöllun mína um „the discoursing of Eyjabakkar“ í rannsóknarskýrslunni Nature as Capital

8. Ég bið ykkur að fyrirgefa mér þótt ég sé ekki eins klókur í þýðingum eins og Geir Svansson þegar hann olli usla hér í nóvember í hitteðfyrra með bráðsnjöllum þýðingum á orðfæri Judithar Butler í fyrirlestri hjá Rannsóknarstofu í kvennafræðum.

9. sjá t.d. Bourdieu og Wacquant 1992

10. Páll Björnsson 2000

11. 1998

12. 1998

13. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson 1994

 

Heimildir

 

Ástráður Eysteinsson. 2000. „Hvað er í póstinum? Um eftirköst nútímans“. Fyrirlestur í fyrirlestraröðinni Hvað er póstmódernismi?. Síða lesin 21. ágúst 2000. [Ath. breytta slóð, t.d. http://www.kistan.is/greinar_fyrirlestrar.]

Bourdieu, Pierre. 1998. Acts of resistance. Against the tyranny of the market. New York, The New Press.

Bourdieu, Pierre og Loïc J. D. Wacquant. 1992. An invitation to reflexive sociology. Chicago, The University of Chicago Press.

Foucault, Michel. 1978. „Politics and the study of discourse“. Ideology and consciousness 6:5–21.

Giroux, Henry A. 1988. „Postmodernism and the discourse of educational criticism“. Journal of education 170,3:5–30.

Gísli Már Gíslason. 2000. „Kísiliðjan og Mývatn – Hvers vegna fer þetta tvennt ekki saman?“ Morgunblaðið 28. september, bls. 48–49.

Gunnar Örn Gunnarsson. 2000. „Vísindin og Mývatn“. Morgunblaðið 30. september, bls. 50.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. 1994. „Farm boy from the edge of the arctic and the seduction of feminist fedagogy in the American academia“. Gender and education6:293–306

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. 1992. „Capable of resisting and entitled to lead: on the historical conditions of the neo-Marxist educational discourse“. Educational policy 6:298–318.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. 1992/1998. „Framfarir og þroski: Sögulegar hugsmíðar, afsprengi orðræðu“. Litast um af Hjallhól – vefútgáfa greina og erinda, 1981–1998.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. 1998. „Genealogy and progressive politics: Reflections on the notion of usefulness“. Foucault’s challenge. Discourse, knowledge, and power in education (ritstj. Thomas S. Popkewitz og Marie Brennan), bls. 297–315. New York og London, Teachers College Press.

Páll Björnsson. 2000. „Hugleiðing um fyrirlestur Davíðs Ólafssonar“. Síða lesin 21. ágúst 2000. [Ath. breytta slóð, t.d. http://www.kistan.is/greinar_fyrirlestrar.]

Sigríður Þorgeirsdóttir. 1998. „Póstmódernismi sem heimspekilegt hugtak“. Tímarit Máls og menningar 59,3:128–140.

Þorgerður Þorvaldsdóttir. 2000. „Femínismi og póst-módernismi“. Fyrirlestur í Norræna húsinu í fyrirlestraröðinni Hvað er póstmódernismi?. Síða lesin 21. ágúst 2000. [Ath. breytta slóð, t.d. http://www.kistan.is/greinar_fyrirlestrar.]

Skylt efni: „Gjörningsuppeldisfræði og þekkingarfræðileg orðræðurýni – Rabbað um uppeldisfræði bandaríska prófessorsins Elizabeth Ellsworth í ljósi kenninga Pierres Bourdieus um þekkingarlega orðræðurýni.“ (Enskur titill: Pedagogy of the performative and epistemic reflexivity.) Rabb á vegum Rannsóknarstofu í kvennafræðum 22. febrúar 2001.

« Til baka