Færslusöfn

Fagurfræðilegt gildi íslenskrar náttúru

eftir Guðbjörgu R. Jóhannesdóttur

Í Hugleiðingum við Öskju fjallar Páll Skúlason um þá mögnuðu reynslu sem ferðalangar geta orðið fyrir þegar þeir komast í kynni við landslag Öskju: „Þegar maður kynnist slíkri veröld er maður kominn á leiðarenda. Kominn í snertingu við veruleikann sjálfan. Hugurinn opnast fyrir fullkominni fegurð og maður sér loksins um hvað lífið snýst.“1 Þessi tegund náttúruupplifunar, sem kalla má fagurfræðilega upplifun2, er viðfangsefni doktorsverkefnisins Íslenskt landslag: fagurfræði og verndargildi. Fræðilegur bakgrunnur verkefnisins er í náttúru- og umhverfis­fagurfræði (e. aesthetics of nature / environmental aesthetics)3 og náttúrufyrirbærafræði (e. eco-phenomenology)4. Einnig koma landslagsfræði við sögu, en þau hafa einkum verið stunduð innan mannvistarlandfræði, fornleifafræði og mannfræði. Landslagshugtakið leikur lykilhlutverk í verkefninu, en skortur hefur verið á umfjöllun um landslagshugtakið innan heimspekinnar og því er leitað í smiðju þessara fræðigreina sem hafa rannsakað hugtakið og túlkað það m.a. út frá kenningum heimspekinga. Kenningar franska heimspekingsins Maurice Merleau-Ponty hafa t.d. orðið mannfræðingnum Tim Ingold5 og fornleifafræðingnum Christopher Tilley6 að innblæstri í túlkunum þeirra á landslagshugtakinu.

          Sú grunnskilgreining á landslagi sem gengið er út frá er að „landslag“ sé náttúrulegt umhverfi sem er upplifað fagurfræðilega.7 Slík skilgreining gerir ráð fyrir bæði hinu hlutbundna „náttúrulega umhverfi“ og huglægri skynjun, en innan landslagsfræða hefur ákveðin gjá myndast á milli hlutlægra og huglægra skilgreininga á landslagi. Í þessari stuttu grein verður í stórum dráttum sagt frá efnistökum verkefnisins og því er vert að byrja á byrjuninni, íslensku landslagi.

Íslenskt landslag

Íslenskt landslag er þekkt fyrir einstaka og óvenjulega fegurð. Samt sem áður hefur vantað fræðilega og almenna umræðu um þau verðmæti og gildi sem fólk tengir við fagurfræðilegar upplifanir eins og þá sem Páll Skúlason lýsir í Hugleiðingum við Öskju. Heimspekileg hugleiðing Páls og fleiri íslensk rit- og skáldverk fást við að fanga þessa reynslu, lýsa henni í orðum og greina þau áhrif sem hún hefur á hugsun okkar, hvað hún kennir okkur. Slík verk hafa eflaust haft áhrif á marga lesendur, og þannig hafa bókmenntir, heimspeki og listir haft áhrif á náttúrusýn Íslendinga um aldir. En það sem hefur skort er umræða á öðru stigi sem snýr að því að meta gildi þess að eiga möguleikann á slíkum upplifunum og hvort og hvernig taka eigi slíkt gildi til greina þegar ákvarðanir eru teknar um náttúruvernd- og nýtingu.

          Í almennri umræðu eru fagurfræðileg gildi, einmitt af því að þau eru tengd við fegurð, talin samsvara persónulegum og huglægum tilfinningum sem ekki er hægt að mæla og meta á hlutlægan hátt og þess vegna er talið erfitt og jafnvel ómögulegt að taka þessi gildi inn í mat á náttúruverðmætum. En áður en við setjum þessi huglægu og persónulegu gildi til hliðar verðum við að gera okkur grein fyrir því að þegar ákvarðanir um landnýtingu eru teknar þurfum við að vera upplýst um öll þau gildi sem landið býr yfir. Fáir myndu neita því að það sé eitthvað til sem heitir fagurfræðileg reynsla af náttúrunni og að slík reynsla sé mikils metin. Þrátt fyrir það hefur gildi slíkrar reynslu, fagurfræðilegt gildi, ekki verið tekið til greina við ákvarðanatöku. Áður en við tökum ákvarðanir metum við og greinum hagfræðilegt gildi lands, samfélagsleg gildi, líffræðileg gildi, og út frá þeim upplýsingum getum við tekið upplýstar ákvarðanir um hvernig best sé að nýta eða vernda landið. En upptalning á þessum gildum er ekki nóg, við verðum líka að hafa ákveðin grundvallargildi sem segja okkur hvert þessara gilda er mikilvægast.

          Eitt er víst: ekkert gildi verður nokkurn tímann talið mikilvægast ef ekki hefur verið minnst á það í upptalningunni á gildum sem þarf að meta og greina áður en ákvarðanir eru teknar. Við verðum að hafa upplýsingarnar um þau fagurfræðilegu gildi sem við tengjum við ákveðna staði, ákveðið landslag. Aðeins þá getum við ákveðið hvort við ætlum að nota þessar upplýsingar til að byggja ákvarðanir á og hvar þessi gildi eiga sér stað í grundvallargildismati okkar, í stað þess að horfa bara framhjá upplýsingunum og útiloka þar með fagurfræðileg gildi frá ákvarðanatöku áður en við vitum hvers virði þau eru okkur.

          Eins og sést best á vali á viðfangsefnum í íslenskum bókmenntum og listum, eigum við nægan orðaforða, liti og tóna til þess að lýsa náttúruupplifun. En það sem skortir er orðaforði sem felur í sér viðurkenningu á gildi þessarar reynslu og þeim verðmætum sem hún skapar: að hún sé ekki bara einhver persónuleg og listræn rómantík heldur grundvallarþáttur í lífsgæðum okkar og sjálfsmynd. Þessi skortur á orðaforða endurspeglast svo í skorti á aðferðafræði til þess að meta fagurfræðilegt gildi landslags.

          Landslag hefur verið þáttur í umhverfismati víða um Bandaríkin og Evrópu síðustu áratugi, og með tilkomu Evrópska landslagssáttmálans8 hefur áhersla á mikilvægi landslagsverndar aukist í Evrópu. Ísland er eitt fárra ríkja í Evrópu, og eina Norðurlandaþjóðin sem hefur ekki undirritað sáttmálann.9 Landslagshugtakið hefur reynst íslenskri stjórnsýslu erfitt, einkum vegna þess að óvissa ríkir um hvernig skuli túlka og skilgreina hugtakið.10 Í greininni „Performing Expertise: Landscape, Governmentality and Conservation Planning in Iceland“ lýsa Edda R. H. Waage og Karl Benediktsson niðurstöðum viðtalsrannsóknar þar sem tekin voru viðtöl við þátttakendur í undirbúningsvinnu fyrir Náttúruverndaráætlun 2004-2008.11 Þar kemur fram að viðmælendurnir áttu erfitt með að staðsetja landslagshugtakið og merkingu þess nákvæmlega, en eitt viðhorf var mest áberandi: að hugtökin landslag og fegurð voru oft lögð að jöfnu og þess vegna var landslagshugtakið talið lýsa huglægu fyrirbæri. En á sama tíma kom fram það viðhorf að til væru staðir, ákveðið landslag, sem allir telja fallegt, en þetta viðhorf gefur til kynna hlutlægan skilning á landslagi.12

          Bæði hversdagslegur og fræðilegur skilningur fólks á orðinu landslag leggur áherslu á sjónrænar hliðar, landslag er jú eitthvað sem við sjáum.13 Í ensku og íslensku máli er landslag oftast skilgreint á sjónrænan og fagurfræðilegan hátt sem landsvæði sem við sjáum og skynjum á vissan hátt og fellum fagurfræðilega dóma um.14 Innan landslagsfræða hafa þó á síðustu árum verið gerðar tilraunir til þess að snúa baki við þeirri ofuráherslu á hið sjónræna sem þeir landslagsfræðingar sem skilgreina landslag á hlutlægan hátt, sem samansafn sjónrænna, hlut­bundinna eiginleika, hafa gerst sekir um. Gagnrýnendur hlutlægu nálgunarinnar telja að ofur­áhersla á hið sjónræna valdi því að aðrir þættir skynjunar; hljóð, lykt, snerting og hreyfingar líkamans, gleymist. Að þeirra mati ætti ekki að skilgreina landslag út frá sjónrænum eiginleikum heldur út frá skynjun þess sem dvelur í landslaginu.

          Skiptingin á milli hlutlægra og huglægra nálgana í landslagsfræðum á rætur sínar í heimspekilegri fagurfræði frá Platoni til Kants15; frá Platoni og fram á 17. öld voru fagurfræðilegir eiginleikar skilgreindir sem hlutlægir eiginleikar, en á 18. öld kom fram sú hugmynd að fagur­fræðilegir eiginleikar væru aðeins í auga þess sem skynjar. Það er því sterkur hugmynda­fræðilegur og sögulegur hlekkur á milli landslagshugtaksins og fagurfræði. Þrátt fyrir þetta hefur verið viss tregða til þess að viðurkenna þessa tengingu. Þeir sem hafa gert tilraunir til þess að komast handan huglægni og hlutlægni með því að skilgreina landslag sem sambandið á milli vitundar og viðfangs, þess sem skynjar og þess sem skynjað er, hafa forðast fagurfræðilega hlið landslagshugtaksins.16 Fagurfræðilegur skilningur á landslagi er þá talinn vera of takmarkaður við hið sjónræna og slík takmörkun staðfestir aðskilnað vitundar og viðfangs, þar sem vitundin horfir á viðfangið úr fjarlægð. Á sama hátt gefa náttúrufagurfræðingar, sem fást við fagurfræðilega reynslu af náttúrunni, lítinn gaum að landslagshugtakinu sjálfu, þeir tala um fagurfræðilegt gildi náttúru eða umhverfis án þess að fjalla um að slíkt gildi sé þungamiðjan í skilningi fólks á landslagi.

Rannsóknin

Það er sterkt samband á milli fagurfræði og landslags og það þarf að færa þessi tvö sjónarhorn nær hvort öðru. Landslag er einmitt sambandið á milli vitundar og viðfangs, en þetta sérstaka samband sem skilgreinir hvað landslag er, er fagurfræðilegt samband. Það getur ekki verið hrein tilviljun að landslag sé svo oft tengt við fegurð og aðra fagurfræðilega eiginleika í hugum fólks, og það væri undarlegt að horfa fram hjá þeim skilningi á landslagshugtakinu sem er hvað algengastur í hversdagslegu máli. Í íslensku hefur landslag verið tengt við fegurð allt frá dögum Íslendingasagnanna.17 Það virðist því skynsamlegt að nota þennan hversdagslega skilning á landslagi sem á sér svo djúpar rætur í tungumálinu.

          Til þess að skapa þessa tengingu á milli landslagsfræða og náttúrufagurfræði má skoða hvernig bæði landslagshugtakið og fegurðarhugtakið hafa verið túlkuð út frá fyrirbærafræði Maurice Merleau-Ponty.18 Bæði hugtökin varpa ljósi á ákveðið svið veruleikans þar sem skilin á milli vitundar og viðfangs, huglægni og hlutlægni, verða óljós. Fegurðarhugtakið er eitt af fáum hugtökum sem býður upp á möguleikann til þess að hugsa handan við tvíhyggju vitundar og viðfangs. Ástæðan er sú að upplifunin af fegurð býr yfir þeim eiginleika að vera hvorki fullkomlega huglæg né fullkomlega hlutlæg, og það sama gildir um landslagshugtakið. Til þess að varpa skýrara ljósi á þetta „millibilsástand“ fegurðar og landslags geri ég reynsluna af ákveðnum landslagsgerðum að upphafspunkti rannsóknar minnar á fagurfræði íslenskrar náttúru. Reynslan er þetta „millibil“ í hnotskurn, þar mætast vitund og viðfang, og því ætti náin skoðun á þessum fundi að varpa ljósi á merkingu og gildi fagurfræðilegrar upplifunar af landslagi. Náttúrufagurfræði fæst við ákveðna tegund mannlegrar reynslu og þess vegna er mikilvægt að rannsóknir í náttúru­fagurfræði byggi á fagurfræðilegri reynslu. Í inngangi að greinasafninu The Aesthetics of Natural Environments, benda Allen Carlson og Arnold Berleant á að framtíðarrannsóknir í náttúru­fagurfræði:

þurfi að snúast um meira en heimspekilega greiningu og fræðilegar úttektir. Við verðum að fást við spurningar eins og: Hvernig getum við lýst raunverulegum fagurfræðilegum upplifunum sem við verðum fyrir? […] Hvaða eiginleika náttúrulegs umhverfis teljum við verðmæta? Hvers konar stíga, útsýni, og nálganir upplifum við sem aðlaðandi? […] Hvers konar skynrænir eiginleikar og hvers konar rými, magn, og áferðir hafa fagurfræðilegt aðdráttarafl?19

Raunverulegar upplifanir fólks af ákveðnu landslagi geta veitt okkur svör við mörgum af þessum spurningum sem Berleant og Carlson telja upp, en það sem er mikilvægara er að svörin við þessum spurningum munu veita okkur upplýsingar um hvers konar gildi við tengjum við slíkar upplifanir og hvaða merkingu þær gefa lífi okkar.

          Það er m.a. með þessar spurningar í huga sem ég byggi rannsókn mína á fagurfræðilegu gildi íslensks landslags á fyrirbærafræðilegum og eigindlegum rannsóknum á upplifunum af tveimur landslagsgerðum sem einkenna Ísland. Fyrirbærafræðileg rannsóknarnálgun byggir á þeirri hugmynd að upphafspunktur þekkingarleitar eigi alltaf að vera bein reynsla okkar af veru­leikanum. Þær eigindlegu rannsóknaraðferðir sem ég hef notað hafa verið þróaðar á grundvelli þessarar fyrirbærafræðilegu nálgunar, en þær felast einmitt í því að skoða upplifun og reynslu fólks af veruleikanum með því að nota t.d. opin viðtöl20 og þátttökuathuganir.21 Aðferðirnar geta verið margvíslegar en það sem einkennir eigindlega rannsóknaraðferð er að markmið hennar er alltaf að bera kennsl á persónulega sýn og upplifun fólks af rannsóknar­efninu.22

          Eigindlegu rannsóknirnar felast í þátttökuathugunum í hópferðum um háhitasvæði og jökla og opnum viðtölum við nokkra þátttakendur í ferðunum. Jöklar og háhitasvæði urðu fyrir valinu sem rannsóknarsvæði því að þessar landslagsgerðir eru einkennandi fyrir Ísland. Þær finnast mjög víða á Íslandi en eru frekar sjaldgæfar á heimsvísu. Rannsókn á fagurfræði jökla og háhitasvæða er nýnæmi vegna þess að mjög takmarkað hefur verið fjallað um merkingu slíkra landslagsgerða innan náttúrufagurfræði. Nokkrar erlendar fagurfræðikenningar hafa fjallað um þá fagurfræðilegu eiginleika sem einkenna þessar landslagsgerðir samkvæmt niðurstöðum rannsóknanna (t.d. undrun, hið háleita, hlutverk ímyndunaraflsins), en þar sem íslenskt landslag hefur ekki verið skoðað sérstaklega innan náttúrufagurfræðinnar hafa þessir þættir heldur ekki verið greindir út frá íslensku samhengi og með hliðsjón af hver öðrum. Það virðist því ljóst að kenningagrunnur náttúrufagurfræðinnar dugar ekki til þess að greina fagurfræði jökla og háhitasvæða, en slík fagurfræði getur aftur á móti varpað nýju ljósi á þær kenningar náttúru­fagurfræðinnar sem fást við að greina og túlka upplifanir af villtu, ómanngerðu landslagi þar sem kraftar náttúrunnar koma sterkt fram.

          Þessar aðferðir gera þannig kleift að skoða og greina fagurfræðilega upplifun af jöklum og háhitasvæðum og nota svo þá greiningu til þess að skoða nánar hið almenna samband manns og náttúru sem skapast út frá upplifunum af slíkum landslagsgerðum. Það er sannfæring mín að það sé þörf á slíkum empirískum grundvelli innan náttúrufagurfræði og landslagsfræða; empirískur grundvöllur sem felst í að skoða ákveðnar landslagsgerðir og upplifanir af þeim til þess að öðlast skilning á þeirri fagurfræðilegu merkingu og gildum sem eru tengdar slíkum upplifunum.

          Auk þess að leggja fram nýjar nálganir innan landslagsfræða og náttúrufagurfræði þar sem áhersla er lögð á að rannsaka reynsluna af ákveðnum landslagsgerðum sem eru sjaldgæfar á heimsvísu, þarf að auka þekkingu á fagurfræðilegu gildi íslenskrar náttúru og skapa þannig grundvöll fyrir nýjan farveg í umræðu um náttúruvernd á Íslandi. Öll umræða um þann hluta landslagsmats sem snýr að fagurfræðilegu gildi er mjög stutt á veg komin hér á landi og sú umræða hefur verið föst í viðjum tvíhyggju í vissum skilningi þar sem fagurfræðilegt gildi hefur verið flokkað sem huglægt, afstætt, persónulegt, jafnvel kvenlegt og annars flokks. Til þess að skapa nýjan farveg þarf þess vegna að dýpka umræðuna um fagurfræðilegt gildi með því að skoða íslenska náttúrufegurð og upplifun af henni með hliðsjón af þeim fræðilegu kenningum sem hafa fengist við þetta viðfangsefni á erlendum vettvangi í áratugi. Vonandi tekst þannig að skapa grundvöll til þess að ræða fagurfræðilegt gildi af alvöru og til þess að Íslendingar geti betur gert sér grein fyrir og skilið mikilvægi náttúrufegurðar og upplifunar okkar af henni.

Tilvísanir

1. Páll Skúlason. 2005. Hugleiðingar við Öskju. Reykjavík: Háskóli Íslands, Háskólaútgáfan. Bls. 7.

2. Sú reynsla sem hér er kölluð fagurfræðileg upplifun getur verið af mjög ólíkum toga. Náttúru­fagurfræðingurinn Ronald W. Hepburn hefur bent á að slík upplifun geti birst á mismunandi skala frá því að vera einföld aðdáun að lit eða formi yfir í dýpri upplifun þar sem fegurð eða aðrir eiginleikar sem erfitt er að lýsa í orðum kalla fram svokallað frumspekilegt ímyndunarafl. Hið frumspekilega ímyndunarafl getur m.a. falist í því að sjá hlutina í stærra samhengi og skynja sjálfan sig sem hluta af heild. Sú upplifun sem Páll Skúlason lýsir í hugleiðingum sínum myndi þannig teljast til fagurfræðilegrar upplifunar á dýpri enda skalans. Sjá: Hepburn, Ronald. 1996. ,,Landscape and the Metaphysical Imagination”, Environmental Values 5 : 191-204.

3. Páll Skúlason. 2005. Hugleiðingar við Öskju. Reykjavík: Háskóli Íslands, Háskólaútgáfan. Bls. 7.

1. Gott yfirlit má m.a. finna í: Allen Carlson og Arnold Berleant (ritstj.). 2004. The Aesthetics of Natural Environments. Broadview Press.

4. Gott yfirlit má m.a. finna í: Charles S. Brown og Ted Toadvine (ritstj.). 2003. Eco-Phenomenology: Back to the Earth Itself. New York: State University of New York Press.

5. Tim Ingold. 2000. The Perception of the Environment: Essays on livelihood, dwelling and skill. London & New York: Routledge.

6. Christopher Tilley. 1997. A Phenomenology of Landscape: places, paths and monuments. Berg Publishers.

7. Joachim Ritter. 1989. ,,Landschaft. Zur Funktion des Ästhetischen in der modernen Gesellschaft“ í J. Ritter, Subjektivität. Frankfurt: Suhrkamp. Bls. 141-163.

8. Council of Europe. 2000. European Landscape Convention. Text+Explanatory Report. European Treaty Series No. 176 [http://conventions.coe.int/Treaty/en/Treaties/Html/176.htm] Florence: Council of Europe.

9. Umhverfisstofnun. 2003. Náttúruverndaráætlun 2004-2008 – Aðferðafræði. Tillögur Umhverfisstofnunar um friðlýsingar. Reykjavík: Umhverfisstofnun. 4.kafli: Landslag og landslagsvernd. Bls. 32.

10. Sama rit. Bls. 33.

11. Edda R.H. Waage og Karl Benediktsson. 2009. ,,Performing Expertise: Landscape, Governmentality and Conservation Planning in Iceland“. Journal of Environmental Policy and Planning 9(1): 1-22.

12. Sama rit. Bls. 17.

13. Sjá t.d. Emily Brady. 2003. Aesthetics of the Natural Environment. Edinburgh: Edinburgh University Press; Karl Benediktsson. 2007. ‘Scenophobia’ and the Aesthetic Politics of Landscape. Geografiska Annaler B:Human Geography.

14. Þorvarður Árnason, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Hlynur Bárðarson og Karen Pálsdóttir. 2010. ,,Íslenskt landslag: sjónræn einkenni, flokkun og mat á fjölbreytni”. Bls. 15. Á vefnum: http://www.rammaaaetlun.is/media/gogn/Landslagskyrsla-jan2010.pdf Reykjavík: Háskóli Íslands, Háskólaútgáfan. Bls. 7.

15. Lothian, A. 1999. ,,Landscape and the Philosophy of Aesthetics: Is Landscape Quality Inherent in the Landscape or in the Eye of the Beholder?” Landscape and Urban Planning 44: 177-198.

16. Karl Benediktsson. 2007. ,,‘Scenophobia’ and the Aesthetic Politics of Landscape”. Geografiska Annaler B:Human Geography.

17. Edda R. H. Waage. 2008. „Landslag – Landsleg – Landskapur: The concept of ‘landscape’ in the Icelandic language“ (óútgefin).

18. Hér má nefna áðurnefndar túlkanir Ingold og Tilley á landslagshugtakinu og túlkun Galen A. Johnson á fegurðarhugtakinu: Galen A. Johnson. 2010. The Retrieval of the Beautiful: Thinking Through Merleau-Ponty’s Aesthetics. Evanston, Illinois: Northwestern University Press.

19. Arnold Berleant og Allen Carlson, A. 2004. Introduction to The Aesthetics of Natural Environments. Broadview Press. Bls. 26-27.

20. Opið viðtal fer þannig fram að rannsakandinn kemur til viðtalsins með nokkrar meginspurningar í huga, en leiðir ekki samtalið í gegnum stífan og nákvæman spurningalista. Markmiðið er frekar að leyfa viðmælandanum að ráða för með því að spyrja mjög opinna spurninga.

21. Þátttökuathugun (e. participation observation) felst í því að rannsakandinn kemur inn í þær aðstæður sem á að rannsaka (t.d. inn á heimili, vinnustað, fund eða önnur mannamót), fylgist nákvæmlega með atburðarrásinni, hegðun og viðbrögðum fólks innan frá, og skrifar svo nákvæma skýrslu af atburðarrásinni.

22. Steven J. Taylor og Robert Bogdan. 1998. Introduction to Qualitative Research Methods. A Guidebook and Resource. John Wiley & Sons, Inc.