Færslusöfn

Brynjólfur Bjarnason um frelsi viljans

Eyjólfur Kjalar Emilsson

Brynjólfur Bjarnason um frelsi viljans1

Við minnumst í dag 100 ára ártíðar Brynjólfs Bjarnasonar, stjórnmálamanns og heimspekings. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um manninn Brynjólf Bjarnason, og um stjórnmálamanninn og stjórnmálahugmyndafræðinginn Brynjólf Bjarnason ætla ég alls ekki að ræða. Mig langar eigi að síður að segja þessari samkomu frá því að ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að kynnast Brynjólfi nokkuð vel. Sem forvitin unglingssál rakst ég á Forn og ný vandamál Brynjólfs og varð hugfanginn. Ekki endilega af neinu sérstöku sem þar stóð heldur af spurningunum sem varpað var fram og því hvernig höfundurinn tók á þeim. Ég hafði aldrei fyrr séð neitt þessu líkt. Þó hafði ég um svipað leyti, ef ég man rétt, verið að glugga í fleira, svo sem Sögu mannsandans eftir Ágúst H. Bjarnason, ágætt verk raunar sé ég nú, en þá fannst mér það það einhvern veginn átakalaust í samanburði. Ég held að það sem ég hafi fundið hjá Brynjólfi, án þess náttúrlega að gera mér neina ljósa grein fyrir því, sé hvað honum fannst heimspeki erfið, erfitt að hugsa um gáturnar sem tóku hug hans og erfitt að segja það sem honum fannst hann hafa komist að. Þetta fer hann raunar ekki dult með í bókum sínum. Að þessu leyti eru þær einhver bestu kynningarrit heimspekinnar sem ég get hugsað mér, því svona er öll sönn heimspeki, þótt hún þurfi ekki þar með að vera torskilin. Ég er að minnsta kosti afskaplega feginn að hendingin réði því að það voru bækur Brynjólfs sem ég féll fyrir sem unglingur fremur en til dæmis Nietzsche eða Sartre, sem eiga vanda til að heltaka leitandi unglingssálir. Ég varð mér úti um fleiri bækur Brynjólfs og las þær líka. Mörg atriði stóðu í mér, og að lokum mannaði ég mig upp í að hringja í karlinn, sem bauð mér heim til sín að bragði. Þar sátum við og rökræddum drjúgan part úr degi. Og slíkar stundir urðu ansi margar allt fram á síðusta æviár Brynjólfs, en hann var andlega hress alveg til loka og líkamlega nema síðustu tvö árin eða svo. Ég þarf varla að taka það fram að Brynjólfur reyndist mér hinn besti vinur. Hann var blátt áfram, einlægur og vandaður í öllum samskiptum. Hann var geislandi hlýr þegar vel lá honum, sem var nú sem betur fer oftast. Þótt ekki væri honum rétt lýst sem neinum brandarakarli, átti hann til að vera bráðfyndinn og segja skemmtilega frá. En það henti að hann eins og hyrfi inn í sig og maður vissi ekki hvað hann var að hugsa. Væri honum eitthvað ekki að skapi, fór ekki á milli mála að maður stóð frammi fyrir manni með ákveðnar skoðanir og sterkan vilja. Nóg um þetta.

Ein höfuðgáta heimspekinnar og jafnframt sú sem Brynjólfi var ábyggilega hugstæðust er gátan um frelsi viljans. Hann kemur inn á hana í öllum bókum sínum og ein þeirra, Lögmál og frelsi, snýst beinlínis um hana. Brynjólfur hugsar fram lausn á þessum vanda. Þessi lausn var eitt af því sem ég var aldrei viss um að ég skildi í gamla daga, ekki heldur eftir að hafa rökrætt málið við höfundinn. Ég ætla nú að freista þess að gera atlögu að þessari gátu enn einu sinni, eða þó öllu heldur gera atlögu að máli Brynjólfs um hana. Á þessari frelsisgátu allri eru með ólíkindum margar hliðar. Það er auðvitað enginn vegur að gera þeim öllum skil í þessu spjalli. Stefnan sem ég tek er sú að gera grein fyrir vandanum eins og ég held að hann hafi horft við Brynjólfi, með áherslu á þær hliðar sem honum voru hugstæðastar. Aðrar hliðar málsins læt ég liggja á milli hluta. Því næst reyni ég að gera grein fyrir því sem Brynjólfur leggur fram sem lausn vandans, og að endingu rökræði ég nokkuð hversu vel þessi lausn dugi að meginforsendum Brynjólfs gefnum.

Vandinn er í stuttu máli þessi: ef allir atburðir eru lögbundin afleiðing ástands og atburða sem á undan þeim fara, þannig að við hverjar aðstæður getur aðeins eitt gerst, hvernig geta þá mannlegar athafnir, sem vissulega eru að minnsta kosti að hluta til efnislegir atburðir, verið frjálsar? Tal um frelsi hefur þá aðeins merkingu að um fleiri en einn kost sé að ræða. Löggengi efnisheimsins virðist aðeins heimila einn kost.

Þessi gáta eða tilbrigði við hana er alls ekki ný, og hefur heimspekingunum sýnst sitt hvað svo sem af þeim er við að búast. Þeim sem telja, og það held ég að sé yfirgnæfandi meirihluti, að frelsi viljans sé raunverulegt og ekki einskær blekking, má skipa í tvær höfuðfylkingar: Til eru þeir sem álíta að veröldin sé ekki fullkomlega löggeng heldur brigðgeng, að miðað við öll lögmál náttúrunnar geti raunar fleira en eitt gerst, að þetta sé nauðsynlegt skilyrði raunverulegs frelsis og skilyrðinu sé í rauninni fullnægt. Þessir fríhyggjumenn, ef svo má kalla þá, neita sem sagt forsendunni um löggengið sem talin er valda vandanum. Hins vegar eru þeir sem telja að löggengi og frelsi séu fyllilega samrýmanleg. Án þess að ég hafi svo sem gert neina skipulega könnun á því, held ég að þetta sé stærri hópurinn. Að minnsta kosti er einhver slík sáttarhyggja yfirgnæfandi meirihlutaskoðun hjá hinum klassísku heimspekingum sem taka á þessum vanda, og má í því sambandi nefna gervallan skóla Stóumanna, Ágústínus, Bóethíus, Spinoza, Leibniz, Hume og Kant. Brynjólfur skipar sér í þennan flokk.

En hér með er ekki öll sagan sögð. Sáttarhyggja löggengis og frelsis tekur á sig hinar ólíkustu myndir. Lítum á eitt algengt afbrigði: Mannlegar athafnir eiga sér orsakir eins og aðrir atburðir; þó að við hverjar aðstæður gerist aðeins eitt og jafnvel þó að það sem gerist, gerist með fullkominni vissu, gerist það ekki afnauðsyn, að minnsta kosti ekki af neinni röknauðsyn; það er ekkert í aðstæðunum sem knýr það sem gerist til að gerast. Sé svo, og ég geri það sem ég vil, þá er athöfn mín frjáls. Ég gerði það sem ég vildi gera og ég var á engan hátt neyddur til þess hvorki af innri né ytri nauðung. Hvaða frekari kröfur getum við gert til frelsis? Hér kynni einhver að vilja svara að eigi að síður sé það fyrirfram ráðið hvað við gerum og þar með sé allt tal um raunverulega kosti sem ég hafði tóm blekking: Ég hefði ekki getað breytt öðruvísi en ég gerði. Sáttarhyggjumaðurinn svarar þessu með því að benda á að vissulega hefði ég getað breytt öðruvísi, ef ég hefði viljað; en ég vildi það ekki og hafði svo sem ágætar ástæður til þess.

Sáttarhyggja Brynjólfs er af þessum toga, en eigi að síður bæði svolítið öðruvísi en hér var sagt og felur í sér fleira sem enn hefur ekki komið fram. Tökum fyrst fyrir það sem er öðruvísi.

Þessi klassíska sáttarhyggja, sem til dæmis Krýsippos stóumaður, Bóethíus, Leibniz og Moritz Schlick gætu skrifað undir,2 leggur áherslu á að atburðir gerist ekki af nauðsyn, þó þeir gerist með lögbundnum hætti. Það sem átt er við er að atburðir séu engin röknauðsyn sem leiði röklega af lögmálum sem hingað til hafa gilt og lýsingu á aðstæðum sem fyrir eru þegar atburðurinn á sér stað. Að öllum slíkum upplýsingum um það sem fyrir er og hingað til hefur gilt gefnum, er engin mótsögn fólgin í að neita því að tiltekinn atburður muni gerast. Brynjólfur talar hins vegar gjarnan um að það sem gerist sé nauðsynlegt þannig að svo gæti virst sem hann sé hér á öðru máli en þessir sáttarhyggjumenn sem ég hef nefnt. Ég held þó að þetta sé öðru fremur orðalagsmunur. Það má ráða af máli Brynjólfs að hann lítur ekki á atburðina sem röknauðsyn,3 þó svo hann tali um nauðsyn atburðanna. Hann á við að við sömu heildarskilyrði gerist ævinlega hið sama.4 Þetta er kennisetning sem við höfum að hans dómi gildar ástæður til að trúa, þótt ekki verði hún sönnuð í ströngum skilningi.5 Í þessu sambandi er líka rétt að geta þess að Brynjólfur neitar eindregið að tengja kennisetninguna um löggengið við okkur mennina og kost okkar á að segja fyrir um atburðina. Hann leggur áherslu á að atburður kunni vel að vera ófyrirsegjanlegur út frá öllum þekktum og jafnvel öllum mannlega þekkjanlegum lögmálum, en löggengur í þessum skilningi eigi að síður.6

Ennfremur er rétt að spyrja hvort Brynjólfur taki undir með Leibniz og Schlick þegar þeir svara andmælunum um að sáttarhyggjan geti ekki gert grein fyrir því hvernig við eigum raunverulegra kosta völ, hvernig við getum með fullum rétti sagt að við hefðum getað gert annað. Leibniz og Schlick segja: „Þú hefðir vissulega getað gert annað hefðirðu viljað,“ og bæta við að þessi staðhæfing sé ekki í neinni mótsögn við kennisetninguna um löggengið. Mér virðist að Brynjólfur sé raunar á sama máli og Leibniz og Schlick. Að minnsta kosti túlka ég svofelldar línur íLögmálum og frelsi á þá leið:

Þegar vér segjum, að vér getum annað, „ef vér viljum,“ höfum vér allt annað í huga. Vér getum gert annað, enda þótt vér viljum það ekki. Hér ræðir aðeins um getu vora, hvað sem viljanum líður. Og geta vor felst í því, að engin öfl eða aðstæður óháðar eða andsnúnar vilja vorum standa í vegi fyrir því, að vér gerum það, sem vér eigum völ á. Skilyrðingin merkir það eitt, að enda þótt athöfnin sé á valdi voru, þarf viljinn að koma til, svo að hún gerist. (bls. 139)

Í þriðja lagi er þess að geta að Brynjólfur lætur sér ekki nægja að halda því fram að löggengi og frelsi séu samrýmanleg, hann vill ganga lengra og segja að löggengi sé forsenda frelsis. Því það? Jú, í fyrsta lagi, ef heilastarfsemi okkar og samband hennar við líkamlegar athafnir væri brigðul, væru athafnir okkar hendingu háðar; en hending í þeirri orskakeðju sem athafnir okkar eru hluti af getur á engan hátt skýrt hvernig vilji okkar er frjáls; þvert á mót myndi slík hending girða fyrir frelsi okkar, því athafnir sem við köllum frjálsar eru allt annað en hending, segir hann.7 Ég kem aftur að þessu atriði á eftir.

Í fjórða lagi skal bent á að öll rökræða Brynjólfs um löggengi og frelsi fer fram innan ramma tvíhyggju sálar og líkama, eða anda og efnis. Mál hans um frelsið er sett fram á forsendum slíkrar tvíhyggju, en felur á endanum í sér einhvers konar tilraun til að yfirstíga hana. Hér er töluverðrar útlistunar þörf. Til að gera þetta eins einfalt og hægt er, getum við sagt að tvíhyggjan sé sú skoðun að efnisheimurinn, þar með talin öll líkamsstarfsemi okkar, sé eitt; og sálarlíf okkar og hugarstarf, fyrirbæri á borð við hugsun, tilfinningar og vilja, sé annað. Hugtökin um þessi tvö svið skarast ekki. Þegar ég segi að Brynjólfur gangi út frá forsendum slíkrar tvíhyggju, hef ég meðal annars í huga að þegar hann talar um löggengi sem skapi vanda fyrir mannlegt frelsi, er hann alltaf fyrst og fremst að hugsa um löggengi efnisheimsins, til dæmis það sem gerist í heila okkar. Hann gengur meira að segja svo langt í tvíhyggjunni að segja að ekki geti verið um andlegar orsakir athafna okkar að ræða, þ.e.a.s. andlegar orsakir sem séu ekki jafnframt efnislegar: M.ö.o. þar sem sjálfar athafnir okkar eru efnislegir atburðir, hljóta þær að eiga sér efnislegar orsakir.8 Hin löggenga orsakakeðja sem kann að virðast ógna frelsi okkar er sem sagt orsakakeðja efnislegra atburða. Þessir efnislegu atburðir og lögmál þeirra, t.d. það sem gerist heilanum, eru framandi okkur sem hugsandi athafnaverum; þessi fyrirbæri eru ekki, eða öllu heldur, eins og við sjáum von bráðar, virðast ekki vera af sama heimi og það sem við upplifum hið innra þegar við hugsum, viljum og tökum ákvarðanir, og þær virðast hafa allan sinn gang án þess að vitund okkar breyti þar nokkru um. Þessi aðkoma Brynjólfs að vandanum gerir að verkum að glíma hans við gátuna um frelsið er öðrum þræði glíma við gátuna um samband anda og efnis. Að sýna fram á að viljinn geti verið frjáls jafngildir því fyrir Brynjólfi að sýna fram á að vitund okkar og vilji sé eitthvað sem máli skiptir í gangi heimsins. En bara það að orða þetta svona, sem er að vísu ekki orðalag beint frá Brynjólfi, en að ég held í fullri trúmennsku við hann, sýnir hvern þátt tvíhyggjan á í skilningi hans á vandanum sem við honum blasir.

En hér er ekki öll sagan sögð. Brynjólfur hóf feril sinn sem heimspekingur í Fornum og nýjum vandamálum sem eindreginn efnishyggjumaður að hætti marxista, en þokaðist frá þeirri skoðun með tímanum. Í Lögmálum og frelsi segir hann hins vegar að andi og efni (eða hlutvera og sjálfsvera eins og hann kallar það oft) séu eitt eða séu eining.9 Efnishyggjumenn taka oft svo til orða að andinn og efnið séu í rauninni eitt, og eiga þá við að hvort tveggja sé í rauninni efni. Hughyggjumenn segja það sama, að andi og efni séu eitt, en bæta svo við að hvort tveggja sé í rauninni andi. Þeir eru víst fáir á okkar dögum. Þó hitti ég einn fyrir skömmu, indverskan heimspeking af þarlendum skóla fornum.

Það er ljóst að þegar Brynjólfur segir að andi og efni séu eitt, hugsar hann sér það hvorki sem efnishyggju né hughyggju. Hann útlistar þessa einhyggju á þá leið að veruleikinn sjálfur sé einn og ekki klofinn í tvennt, anda og efni. Slík tvískipting heimsins sé afurð mannlegrar hugarstarfsemi. Stundum orðar hann þetta sem svo að efnisheimur og vitund séu sértök mannlegrar hugsunar og á þá við að þau séu hliðar eins og sama veruleika sem við drögum fram og gerum sjálfstæðar í hugsun okkar með því að búa til um þær sjálfstæð hugtakakerfi.10 Þessi tvö hugtakakerfi mætast ekki í þeim skilningi að hægt sé að feta sig mjúklega frá öðru yfir á hitt. En þau kunna að rekast á í þeim skilningi að þau veita gerólíka og að því er virðist ósamrýmanlega mynd af því sem hlýtur að vera eitt og hið sama, nefnilega mannleg athöfn sem annars vegar efnislegur atburður, hins vegar sem vitað og viljað verk. En í rauninni, segir Brynjólfur, er veruleikinn einn og óskiptur.

Í ljósi þessa skulum við nú líta á lausn Brynjólfs á gátunni um frelsi viljans. Ég ætla að lesa hérna upp svolítinn kafla sem ég held að hafi að geyma flest af því sem máli skiptir:

Samkvæmt þessum skilningi [þ.e. einhyggjuskilningnum] er ekki unnt að tala annars vegar um ákvörðun, er leiðir til athafnar, og hins vegar um efnislega orsök, sem leiðir til hinnar sömu athafnar, nema í vísindalegu sértaki, er skoðar einn og sama veruleikann frá tveimur horfum. Maðurinn verður að samsama sjálfsveru sína hvorutveggja, hinni vísvituðu ákvörðun og hinni hlutverulegu orsök. Ákvörðunin, sem hefur vísvitaða viljaathöfn í för með sér, er jafnframt hin ákvarðandi orsök þessarar athafnar, sem er af heimi hlutveruleikans. Það er einn og sami veruleikinn skoðaður í ljósi tveggja hugtakakerfa, er hvort um sig hefur sín takmörk. Að öðrum þræði er ákvörðunin jafnan efnisleg, að öðrum kosti gæti hún ekki látið til sín taka sem efnisleg orsök og birzt sem ferli í efninu, athöfn.
Hér er engin mótsögn milli algers og óskoraðs löggengis og orsakatengsla í efninu annars vegar og frjálsrar ávörðunar hinsvegar, vegna þess að hér er sjálfsveran eitt með hinu ákvarðandi efnisferli. (Lögmál og frelsi, bls. 99)

Brynjólfi er þetta þó ekki alveg nóg. Hann segir að ef við viðurkennum einingu sálar og líkama aðeins á stund ákvörðunarinnar og athafnarinnar, en lítum að öðru leyti á heiminn frá hinu hefðbundna sjónarmiði efnisvísindanna og heimspeki þeirra, sé okkur enn sami vandinn á höndum og mótsögnin milli löggengis og frelsis standi óhögguð. Það sem hann hefur í huga hér er sú staðreynd að það sem ég ákveð í hvert sinn ræðst af því hvernig ég er; en það hvernig ég er, er nokkuð sem ég hef ekki ráðið, nema kannski að litlu leyti. Hvernig ég er ræðst til dæmis að sumu, kannski miklu leyti af erfðastofnum mínum. Ef ég er sjálfur útkoman úr samspili alls kyns afla sem horfa við mér sem framandi og eitthvað annað en ég sjálfur (og þannig hlýtur öll sú líffræðisaga sem ég er þessa stundina endapunkturinn á að horfa við mér), þá virðist líka úti um frelsið.11 Svo ég orði þetta nú á einfaldan hátt: Það er ekki nóg að sál mín og líkami séu eitt í sjálfri ákvörðuninni, ef þeir lögbundnu þættir í mér sem ákvörðuninni valda, eru mér sem hugsandi og vitandi veru gersamlega framandi.

Hugleiðingar af þessu tagi verða til þess að Brynjólfur fer að velta fyrir sér tímanum. Þetta er efni sem hann tekur sérstaklega fyrir í síðustu bók sinni, Heimi rúms og tíma frá 1980. Meginhugmyndin þar, sem felur líka í sér túlkun Brynjólfs á almennu afstæðiskenningunni, er sú að í rauninni sé framvindan órofa veruleiki, að það sem við köllum fortíð eða framtíð sé alveg jafn mikill raunveruleiki og nútíðin. Það sem mun gerast í framtíðinni eða gerðist í fortíðinni er til allar stundir í einhvers konar tímalausum skilningi sagnarinnar „að vera til.“ Ég ætla ekki að fara nánar út í þessar hugmyndir um tímann að öðru leyti en því sem nauðsynlegt er fyrir mál Brynjólfs um frelsið. Hann segir:

Hið takmarkaða tímaskyn mannsins veldur því, að honum finnst það vera nauðung, sem ákvarðað er af löggengi hins liðna. Til þess að skilja sjálfan sig og stöðu sína í tilverunni, verður hugsun hans að sigrast á þessum takmörkunum. Ef honum tekst að losa sig við hið þrönga, huglæga sjónarmið og tímaskyn, lýkst það upp fyrir honum, að hið liðna, sem ákvarðar veru hans á þessari stundu, erhann sjálfur, eigi síður en vera hans á þessari stundu, sem vitund hans er stödd í, ef svo mætti að orði kveða. Að því leyti er hann eilíf vera. (Lögmál og frelsi, bls. 117.)

Brynjólfur reynir líka að gera grein fyrir því hvernig frjáls ákvörðun, þar sem okkur finnst við eiga nokkurra kosta völ, lítur út frá þessu sjónarmiði. Innan takmarka þeirra almennu lögmála náttúrunnar, sem við sjálf og veröldin í kringum okkur lúta, geta verið til margir kostir og meðal þeirra getum við komið fram vilja okkar. Úr þessum kostum veljum við og í því felst viljafrelsið. Ég gef nú Brynjólfi aftur orðið:

En einnig í þessu vali er heimurinn löggengur, veruleika, sem í rauninni er allar stundir, vindur fram. Sá er aðeins munurinn, að í þessu vali og hinum löggenga veruleika þess erum vér sjálf, vitandi vits, hinn löggengi veruleiki þess stendur ekki andspænis oss, heldur er hann eitt með vilja vorum. Enginn annarlegur, utanaðkomandi veruleiki getur aftrað frá því, sem vér kjósum, hinn ókomni veruleiki birtist oss í kostinum, er vér veljum, og í þeirri veru samsamast hann vilja vorum í kostinum. Sjálfur kosturinn verður ekki skilinn frá þeim veruleika, sem er allar stundir. Ef vér viljum orða þetta með hinu skilorðsbundna hugtakakerfi voru, getum vér sagt: Veruleikinn, sem er á valdi vilja vors, er, af því vér kjósum hann, annars væri hann ekki, og vér kjósum hann, af því hann er, annars kysum vér hann ekki. (Lögmál og frelsi, bls. 135)

Ég hef nú farið yfir helstu þættina í máli Brynjólfs um frelsið. Þar sem þetta er nú efni þar sem afskaplega auðvelt er að tapa áttum, er kannski ekki úr vegi að draga meginatriðin saman:

Mannlegt frelsi er staðreynd

Ef það er staðreynd, verðum við að eiga kosta völ.

Löggengi heimsins er staðreynd: við hverjar aðstæður getur aðeins eitt gerst.

Brigðgengi heimsins, ef það væri raunin, myndi ekki skýra hvernig frelsi er hugsanlegt; þvert á móti, brigðgengi myndi gera ákvarðanir okkar að tilviljunum, og frjáls ákvörðun getur ekki verið tilviljun.

Það að við eigum kosta völ, merkir að ef við viljum x, verði x, ef við viljum y, verði y, þar sem x og y eru ólíkar athafnir/atburðir sem eru mögulegir í aðstæðunum.

En sé bent á að það, að við viljum til dæmis x, ræðst af orsökum sem við ráðum engu um, er því til að svara að við sem hugsandi athafnaverur erum eitt og hið sama og þessar orsakir. Hið efnislega ferli sem leiðir til afhafnar okkar og virðist ekkert rúm veita fyrir frelsi viljans er eitt og hið sama og það sem við upplifum innra sem frjálsa ákvörðun.

Hið efnislega og hið meðvitaða virðist tvennt ólíkt og ósamrýmanlegt vegna ófullkominna hugtakakerfa okkar.

Það sem gerist, gerist ekki nema við viljum það, og við viljum það vegna þess að það er.

Hvað skal nú um allt þetta segja? Brynjólfur Bjarnason var að miklu leyti sjálfmenntaður heimspekingur. Þó svo að margir samtímaheimspekingar hafi fengist við sömu gátur og hann og sumt af því hafi Brynjólfur lesið, eru efnistök hans eigi að síður töluvert önnur en almennt tíðkast meðal atvinnuheimspekinga á okkar dögum. Sumpart stafar þetta af því að Brynjólfur sýnir tiltölulega lítinn áhuga hliðum frelsisvandans sem margir samtímaheimspekingar eru mest uppteknir af, greiningu á hinu hversdagslega hugtakakerfi um athafnalífið, hugtökum á borð við manngerð, ástæðu, ætlun, skoðun, löngun, vilja, yfirvegun og innbyrðis tenglsum þeirra. Hann kemur að vísu inn á þetta, en ljóst er að honum finnst ekki meginvandinn liggja í þessu, og virðist ef til vill fyrir vikið afgreiða full skjótlega mikilvægar hliðar málsins. Þetta er kannski veikasti hlekkurinn í öllu máli hans. En hér alveg sömu sögu að segja um flesta klassíska heimspekinga sem fengist hafa við þessa gátu, allt frá Ágústínusi og Boethíusi fram á okkar öld. Það er undantekning (Aristóteles er dæmi um slíka undantekningu) að að þeir fjalli að neinu ráði um þessi atriði, þótt vitaskuld megi finna athyglisverðar athugasemdir um þetta inn á milli. Að þessu leyti og raunar ýmsu öðru er áþekkt að lesa Brynjólf og fyrri tíðar menn.

Eins og ég gat um áðan má sjá ýmis höfuðeinkenni klassískrar sáttarhyggju um löggengi og frelsi í máli Brynjólfs. Hér má búast við sams konar andmælum og oft hafa verið fram sett gegn slíkri sáttarhyggju. Menn munu segja að sáttarhyggju Brynjólfs takist ekki fremur en annarri sáttarhyggju af sama toga að gera grein fyrir því hvernig við eigum í rauninni einhverra kosta völ. Ekki sé nóg að segja, að við gætum gert annað en við gerum ef við viljum; við verðum líka að geta viljað annað en það sem við viljum. Og sáttarhyggjumennirnir telja sig eiga ýmis svör við þessu, sem hinir væntanlega fallast ekki á, og svo framvegis. Ég ætla ekki að fara nánar út í þessa sálma. Þetta er ekki atriði sem Brynjólfur sekkur sér djúpt í, og væri nær að leita fanga annars staðar um það.12 Annað atriði vil ég nefna, þar sem ég er ekki sammála Brynjólfi eða finnst að minnsta kosti að sterkari rök þurfi að koma til en hann hefur fram að færa. Þetta er sú staðhæfing hans að sé atburðarásin í taugakerfi okkar brigðgeng, þannig að þar eigi tilviljanir sér stað, þá hljóti vilji okkar og ákvarðanir að birtast sjálfum okkur sem tilviljanir, sem útiloki fremur en styðji frelsi okkar.13 Ég er í sjálfu sér sammála þessu síðasta, en mér finnst það alls ekki blasa við að forsendan sé rétt: að tilviljanir í heilanum hljóti að birtast sem tilviljanir í vilja okkar. Brynjólfur eyðir nokkru máli í þetta atriði og segja má að það skipti nokkru í framvindu röksemdafærslu hans. En látum þetta líka liggja á milli hluta.

Ég kýs heldur að beina augum að því sem fyrir Brynjólfi sjálfum var ábyggilega kjarni málsins, nefnilega þeirri einingu vitundar og veruleika sem hann heldur fram að sé raunin og sé nauðsynlegt að átta sig á til að skilja hvernig frelsi sé hugsanlegt. Á vissu plani er rökfærsla Brynjólfs hér augljós og auðskilin. Eins og svo mörgum öðrum heimspekingum sem hafa fjallað um frelsi viljans, finnst honum einsætt að eitt af nauðsynlegum skilyrðum þess að við megm kallast frjáls, sé að við sjálf séum gerendur, við sjálf séum í raun og sannleika orsakir þess sem gerist. Að öðrum kosti getum við ekki sagt: „Þetta er mitt verk, verk sem ég lét af mér leiða.“ Að við séum orsakir þess sem gerist er nauðsynlegt skilyrði frelsis okkar, eins og ég sagði, en auðvitað ekki þar með sagt nægjanlegt. Tunglið er orsök sólmyrkvans, en er ekki þar með frjáls gerandi. En sem sagt, það er nauðsynlegt skilyrði frelsis okkar að við sjálf séum orsakir þess sem gerist. Auk þessa er næsta ljóst að til að um frjálsa athöfn sé að ræða verður athöfnin að vera vituð og viljuð, orsökin verður, ef svo má að orði komast, hafa afleiðingar sínar vitandi og viljandi. Göngum út frá þessu, og minnumst svo þess að auki að Brynjólfur telur atburði og ástand í efninu orsakir þess sem við gerum. Þess vegna hljótum við, ef við erum sjálf gerendur, – orsakir sem vita og vilja það sem gerist, – að vera eitt og hið sama og þær efnislegu orsakir sem við gerum ráð fyrir að valdi því sem gerist. Þess vegna kemst Brynjólfur svo að orði að það sé eins og hin blinda náttúra fái vit og sýn mannsins í frjálsri athöfn.14 Þetta virðist mér sem sagt næsta auðskilin röksemdafærsla fyrir samsemd vitundar og efnisveruleika. Ég hamra enn á henni í einföldustu mynd:

Ef við erum frjáls, erum við gerendur, höfundar þess sem gerist.

Sérhver gerandi er orsök þess sem gerist.

Sérhver gerandi veit og vill það sem gerist.

Orsök þess sem gerist er ástand og atburðir í heila gerandans.

Af þessu leiðir að við sjálf sem vitandi og viljandi gerendur erum ástand og atburðir í heila okkar.

Þó að röksemdafærslan sé formlega ljós og gild og forsendur hennar ekki óskynsamlegar, er niðurstaðan eigi að síður framandleg. Maður spyr sig hvað það geti merkt að segja að við sjálf sem vitandi og viljandi verur séum eitt og hið sama og eitthvert efnasamsull með rafstraumi í. Brynjólfur væri fyrstur til að fallast á að það sé allt annað en auðskilið hvernig svo megi vera.

Eigi að síður er slíkt tal um einingu eða samsemd líkama og sálar, vitundar og veruleika, alþekkt í heimspeki okkar aldar og raunar allar götur frá því í fornöld. Þegar sagt er að sál og líkami, eða sálarlífsfyrirbæri og efnisleg fyrirbæri, séu eitt og hið sama, er oftast verið að láta í ljósi efnishyggju, sem ég gat um áðan. Ef til vill er ekki úr vegi að greina örlítið nánar frá nútíma efnishyggju, sem vissulega er kostur sem Brynjólfur hugaði að og glímdi við. Efnishyggja birtist í tveimur höfuðmyndum: Menn segja að andi sé í rauninni efni og eiga við með því að hægt sé að smætta eða þýða sálarlífshugtök yfir á tungumál efnisvísindanna.15 Þetta er líkt því og þegar sagt er að eldingar séu í raun og veru rafstraumur sem skýst úr skýi niður í jörð. Með þessu er ekki verið að segja að eldingar séu ekki til, heldur skýra hvað þær eiginlega eru. Margir efnishyggjumenn hafa haldið að eins mætti fara með sálina og sálarlífið, og hafa sætt áköfum og að mínu viti oft sannfærandi andmælum frá kollegum sínum fyrir.16 Hin mynd efnishyggjunnar vill einfaldlega segja að sálarlífsfyrirbæri séu ekki til. Fyrir þeim muni fara eins og draugum, galdranornum, flogistoni, og eter. Þessir hlutir eru ekki og hafa aldrei verið til, þótt menn hafi að vísu haldið það.17 Óþarft er að eyða fleiri orðum að efnishyggju hér í hvorri myndinni sem er: Það er alveg ljóst að þegar Brynjólfur segir að andi og efni séu eitt, á hann við hvoruga þeirra. Hvað á hann þá við?

Önnur hugmynd um samband sálar og líkama er að þetta séu tveir sjálfstæðir en samstilltir veruleikar: „Parallelismi“ er þetta kallað. Brynjólfur hafnar slíkri skoðun berum orðum í Lögmálum og frelsi,18 og tal hans um einingu og einn veruleika kemur líka illa heim og saman við þetta. Einn kostur enn er það sem kallað er „epiphenomenalismi“, „fylgifyrirbæristrú“ væri skiljanlegt en ekki sérlega fallegt íslenskt orð yfir þetta: Vitundin er þá einhvers konar afurð efnisins sem í rauninni breytir engu um gang mála. Orsakakeðjan sem máli skiptir fer öll fram í efninu, en vitundarfyrirbæri verða til sem óvirk fylgifyrirbæri. Brynjólfi er líka í mun að hafna slíkri skoðun: Vitundin skiptir vissulega máli, segir hann.19 En eins ég kem að á eftir, telur hann jafnframt eins og fylgifyrirbærissinnar að hin efnislegu ferli hafi að geyma fullnægjandi ástæður alls sem gerist, þannig að sú spurning hlýtur að vakna um skoðun Brynjólfs sjálfs hvaða hlutverki viljinn og vitundin geti gegnt.

Til eru ýmsir fleiri kostir og afbrigði. Einhyggja af því tagi sem Spinoza boðaði á ýmislegt sammerkt með skoðun Brynjólfs. Þessi hugmynd er á þá leið að veruleikinn sé í rauninni einn, en á honum séu ótal hliðar og þar af séu hugur og efni tvær.20 Hver þessara hliða segir sömu sögu, ef svo má að orði komast, veitir sömu upplýsingar, en með ólíkum hætti. Brynjólfur og Spinoza eru á sömu braut að því leyti að báðum er tamt að tala um ólíkar hliðar eða horf eins og hins sama. Þetta er raunar skyldleiki sem Brynjólfur vildi vel kannast við, þó hann hafi sagt og er ábyggilega alveg rétt, að hann hafi á engan hátt hugsað sína einhyggju út frá Spinoza. En hvað um það, Spinoza vekur ekki minni túlkunarvanda en Brynjólfur, og því lítil von til að ætla sér að skýra einhyggju Brynjólfs í ljósi einhyggju Spinoza.

En sem sagt, sál og líkami eru eitt, ekki tvennt, án þess þó að reynt sé að segja um annað hvort þeirra að í sínu innsta og hinsta eðli sé það í raun og veru hitt. Eins freistandi og skoðanir í þessa átt hljóta að hljóma, ekki síst þegar aðrir kostir eru skoðaðir, er ekki hægt að mæla með þeim fyrr en þær hafa verið gerðar ljósari. Hugsar Brynjólfur sér þetta til dæmis þannig að andi og efni séu hlutlægar hliðar eða horf eins og sama veruleika, sem sé að vísu einn en hafi einhvers konar tvíeðli líkt og jing og jang? Sumt sem hann segir virðist mér benda í þá átt, til dæmis rökin sem hann færir í Á mörkum mannlegrar þekkingar fyrir því að efnishyggja hrökkvi ekki til, til að gera grein fyrir veröldinni; að sjálft efnishugtakið, grannt skoðað, standist ekki nema líka sér gert ráð fyrir einhverri vitund, og öfugt um vitundina.21 En tal Brynjólfs um efni og anda sem sértök og ólík hugtakakerfi sem séu afrakstur mannlegrar lífsbaráttu og viðleitni til að ná tökum á ákveðnum sviðum umhverfis síns, gæti á hinn bóginn bent til að hann telji að „andi“ og „efni“ séu ekki hlutlægir þættir eða horf veruleikans sjálfs, eins og hann er óháður öllum mannlegum sjónarmiðum (eða a.m.k. óháður þeim mannlegu sjónarmiðum sem hafa getið af sér hugtökin efni og anda). Veruleikinn eins og hann er í sjálfum sér myndi þá ekki vera klofinn í anda og efni, en ef til vill væri hann einhvern veginn með þeim hætti að við gætum séð hvernig og hvers vegna hann birtist okkur sem tvíklofinn á þennan hátt. Ég veit ekki. Það er erfitt að gera sér slíkan veruleika í hugarlund og maður spyr sig líka hvaða merkingu tal um hann hafi. Kannski var það hyggilegt af Brynjólfi að hætta sér ekki langt út í þá sálma. Á hinn bóginn virðist mér sem Brynjólfur hefði mátt vera ljósari um hvernig hann hugsar sér megindrættina hér, jafnvel þótt hann léti vera að reyna að lýsa einhverju sem kannski verður ekki með orðum lýst.

Sumt af því sem vikið var að nú síðast, og sama máli gegnir raunar um hugleiðingar Brynjólfs um tímann, bendir til að hann hafi a.m.k. á stundum gælt við dulhyggju: Að hinn endanlegi sannleikur um veröldina og vitundina verði ekki hugsaður eða tjáður með neinum hefðbundnum hætti, og að svo miklu leyti sem okkur getur auðnast að höndla hann, sé það, a.m.k. á núverandi þekkingarstigi, fyrir tilstilli hugboða og hugsýna sem séu af öðrum toga en venjuleg greinandi hugsun. Í þessu sver Brynjólfur sig í ætt við dulhyggjuhefð Vesturlanda allar götur frá Platoni og Plótinosi í fornöld, dulhyggjuhefð sem er ekki í eðli sínu trúarleg í venjulegum skilningi, þótt hún geti komið bærilega heim við guðstrú. En Brynjólfur stígur aldrei þetta dulhyggjuskref til fulls. Að minnsta kosti er líka ljóst að hann reynir að gera grein fyrir frelsisgátunni á forsendum „venjulegrar,“ röklegrar hugsunar, þótt vera megi að hann telji hana ekki hrökkva alveg til.

Tvær hugmyndir eða kannski öllu heldur tvenns konar hugmyndir um samband sálar og líkama komu fram um svipað leyti og Brynjólfur var að fást við Lögmál og frelsi, og ég er viss um að hann vissi af hvorugri. (Hann sagði mér raunar að hann læsi minna en hann kysi vegna þess að sér fyndist tími sinn vera orðinn það naumur að hann yrði velja á milli þess að leggjast í lestur og koma einhverju af eigin hugsunum frá sér.) Hér er annars vegar um að ræða það sem kallað er verkhyggja (e. functionalism) og hins vegar ólögbundna einhyggja (e. anomalous monism), sem einkum er kennd við ameríska heimspekinginn Donald Davidson sem fyrstur setti hana skilmerkilega fram, þótt aðrir hafi áður ýjað að einhverju svipuðu.22 Báðar þessar kenningar eiga það sammerkt að hafna efnishyggju í báðum þeim myndum sem ég gat um áðan, en vilja þó teljast einhyggja: sál og líkami eru eitt en ekki tvennt. Stendur þó funksjonalisminn efnishyggjunni nær. Ég ætla ekki að fjölyrða um hann hér, enda virðist mér einsýnt að hann sé annarrar ættar en einhyggja Brynjólfs. Aftur á móti virðist mér freistandi að bera hugmyndir Brynjólfs saman við hugmyndir Davidsons. Davidson hefur mál sitt með því að setja fram þrjár kennisetningar sem allar eru trúverðugar en virðast ósamrýmanlegar:

(1) Að minnsta kosti sumir sálrænir atburðir eru í gagnvirkum orsakatengslum við efnislega atburði.

(2) Þar sem orsakatengsl eru, eru líka lögmál.

(3) Það eru ekki til nein ströng lögmál sem gera kleift að segja fyrir andlega atburði eða útskýra þá.

Þessar þrjár kennisetningar virðast vera ósamrýmanlegar eins og ég sagði, þar sem (1) og (2) saman virðast fela í sér að til séu lögmál sem geri kleift að segja fyrir og skýra andlega atburði. Eigi að síður telur Davidson að sætta megi allar þrjár kennisetningarnar og að það geri þessi kenning sem hann kallar ólögbundna einhyggju. Hún er í sem skemmstu máli sú að einstakir sálrænir atburðir og einstakir efnislegir atburðir séu eitt og hið sama; til dæmis getur vel verið að tiltekin hugsun mín um ólögbundna einhyggju núna á þessari stundu sé sami atburðurinn og tiltekin rafboð í hausnum á mér. Á hinn bóginn eru engin ströng, almenn lögmál af þessu tagi; við getum til dæmis ekki fullyrt almennt að hugsanir um ólögbundna einhyggju séu eitt og hið sama og efnislegir atburðir af tilteknu tagi. Sama gildir um orsakatengslin hér: Vel má vera að þessi hugsun mín áðan eigi sér efnislega orsök, t.d. einhvern efnislegan atburð í heilanum á mér. En af þessu leiðir ekki að til séu almenn lögmál sem tengja svona heilaferli við svona hugsanir. Hvernig myndi Brynjólfur nú bregðast við þessu?

Á yfirborðinu að minnsta kosti er eftirfarandi áþekkt hjá Brynjólfi og Davidson: Það sem við köllum sálrænt og það sem við köllum efnislegt er eitt og hið sama, en ólíkar lýsingar á því. Og sem meira er, hvor tveggja er með hugmynd um einhvers konar sjálfstæði hvors sviðs fyrir sig. Þótt lýsa megi sömu hlutunum frá sjónarhorni hvors þeirra um sig er bæði hjá Davidson og Brynjólfi gjá á milli þeirra þannig að sálarlífslýsing á atburði verður ekki þýdd yfir á tungumál náttúruvísindanna með neinum einföldum hætti. Með orðalagi Brynjólfs er hér um tvö ólík hugtakakerfi að ræða. Davidson er hins vegar með slípaðar kenningar um þetta, þar sem hann reynir í fyrsta lagi að afmarka hið sálræna eða huglæga svið. Kennimark þess er íbyggni, eða á útlensku „intentionalitet,“ það einkenni (flestra) sálarlífsfyrirbæra að þau beinast jafnan að einhverju, jafnvel einhverju sem þarf ekki að vera til. Maður er hræddur við eða um eitthvað (sem þarf ekki að vera til); þegar við höldum eitthvað, er það eitthvað tiltekið sem við höldum að sé raunin (en þarf ekki að vera það), o.s.frv. Slíkt innra viðfang býr í sálarlífsfyrirbærunum sjálfum. Ekkert slíkt er hins vegar að finna í vitundarlausri náttúru: Dropinn holar steininn og sólin bræðir snjóinn án nokkurs innra viðfangs, eftir því sem við best vitum. Davidson hefur svo sérstök rök fyrir því að sviðið sem hefur slíka íbyggni sem kennimark sitt geti ekki verið í neinum ströngum, lögmálsbundnum tengslum við svið sem hefur það ekki. Það er ekkert af þessu tagi hjá Brynjólfi, ekki vegna þess að þar sé neitt sem hnígur gegn þessu, heldur fremur vegna þess að hann segir næsta fátt um hver séu kennimörk hvors hugtakakerfis um sig.23 Eftir því sem ég fæ best séð, hafnar Brynjólfur ekki berum orðum þeirri hugmynd að til séu ströng lögmál sem tengja hið andlega og efnislega eins og Davidson gerir. Hins vegar er athyglisvert að þessarar hugmyndar sér ekki stað hjá Brynjólfi. Að minnsta kosti get ég ekki fundið neitt slíkt í Lögmálum og frelsi. Þó er þetta, að ég held, algeng skoðun: Margir gefa sér sem sjálfsögð sannindi að slík lögmál hljóti að vera til. Ég ætla þó ekki að reyna að halda því fram hér að í Lögmálum og frelsi megi finna ólögbundna einhyggju að hætti Davidsons. En ég er ekki frá því að þar megi sjá hugboð í sömu veru. Og alla vega virðist mér að Brynjólfur gæti, án þess að breyta nokkru hjá sér, notað atriði úr máli Davidsons til að styðja eigin kenningu betur. Hyggjum svolítið nánar að þessu í beinu sambandi við spurninguna um frelsi viljans.

Ég vék að því rétt áðan að Brynjólfi væri í mun að hafna þeirri skoðun að vitund okkar og vilji séu einungis óvirk fylgifyrirbæri hinnar efnislegu orsakakeðju, tannhjól sem snúast með en breyta engu um gang mála. Það er alveg ábyggilegt að Brynjólfur hafnaði ekki aðeins þessari skoðun, heldur var það óttinn við hana, það hugboð að hugmyndir hans sjálfs um veröldina sem hann hafði talið góðar og gildar leiddu til hennar, sem var kveikjan að allri glímu hans við gátuna um frelsi viljans. Á hinn bóginn hlýtur lesandi Brynjólfs að spyrja sig hvort honum hafi takist að víkja sér undan slíkri niðurstöðu, hvort hin endanlega afstaða hans sjálfs rúmi eitthvert raunverulegt hlutverk fyrir vilja okkar og vitund í gangi veraldarinnar. Það sem einkum kann að valda efasemdum um þetta er sú skoðun sem víða kemur fram hjá Brynjólfi að andi (sál, hugvera, vitund) geti sem slíkur ekki orkað á efni; þar sem athafnir okkar eru efnislegir atburðir eiga þær sér efnislegar orsakir. Vilji okkar sem slíkur virðist ekki vera orsök í heimsmynd Brynjólfs. Maður spyr sig þá hvort þessi efnislega orsakakeðja hafi ekki allan sinn gang hvað sem viljanum líður. Hins vegar margítrekar Brynjólfur að í frjálsum athöfnum gerist hlutirnir vegna þess að við viljum þá. Hvernig fær þetta samrýmst? Svarið sem blasir við er það sem Brynjólfur líka margendurtekur: Þessi vilji okkar sem lætur hlutina verða er eitt og hið sama og hinar efnislegu orsakir. En þar sem svo er að skilja að hin efnislega orskakeðja ein og sér veiti fullnægjandi skýringu á því sem gerist, blasir enn við að spyrja hvort viljinn og vitundin gegni nokkru raunverulegu hlutverki hér. Ég er ekki viss um hvernig Brynjólfur brygðist við þessu. Hugsanlega gæti hann sagt sem svo: „Það er að vísu rétt að sérhver efnislegur atburður á sér efnislega orsök, það er alltaf eitthvað efnislegt sem togar eða ýtir; þetta eru orsakir þess sem gerist og í vissum skilningi nægjanlegar orsakir. En aðeins í vissum skilningi. Því einu gildir hversu vandlega við lýstum því hvað ýtir á hvað og með hvaða afleiðingum í líkömum okkar, slík taugalíffræðileg lýsing á atburðunum segði okkur ekkert um hið mannlega sjónarmið. Það er að segja, hún segði okkur ekkert um vitund, vilja, ástæður, og tilgang gerandans. Þar erum við komin yfir í annað hugtakakerfi sem verður ekki ráðið af hinu efnislega. Það að lýsa því sem gerist í ljósi þvílíkra mannlegra hugtaka er alveg jafn gild, alveg jafn raunveruleg og sönn lýsing og hin raunvísindalega. Og sem meira er, að segja að það sem gerðist hafi gerst vegna þess að ég vildi það, er alveg jafn satt og að segja að það hafi gerst vegna einhvers sem átti sér stað inni í hausnum á mér. Þetta eru ólíkar en jafn sannar lýsingar á því sama.“ En myndi þetta ekki hafa gerst hvort sem ég vildi það eða ekki? Nei, síður en svo. Við hljótum að gera ráð fyrir að heilaferli sem jafnframt er tiltekinn vilji eða tiltekin ákvörðun væri öðruvísi, sem efnislegt ferli, ef það væri ekki jafnframt þessi tiltekni vilji eða ákvörðun.

Tilvísanir

1. Flutt á málþingi Félags áhugamanna um heimspeki í tilefni af aldarafmæli Brynjólfs Bjarnasonar í hátíðasal Háskóla Íslands 24. október 1998.

2. Sjá (um Krýsippos) Cícero De fato (Um forlögin)13–16, 20–21, 39–44; Bóethíus, De consolatione philosophiae (Huggun heimspekinnar) 5. bók; Leibniz, „Primae veritates“ („Frumsannindi“) og „Discours de métaphysique“ („Orðræða um frumspeki“) gr. 30; hvort tveggja í enskri þýð. L. Loemakers í Gottfried Wilhelm Leibniz, Philosophical Papers and Letters (Chicago: University of Chicago Press 1956); Moritz Schlick, „When is a Man Responsible?“, hjá B. Berofsky (ritstj.), Free Will and Determinism (New York og Lundúnum: Harper & Row 1966, s. 54–62. Ritgerð Schlicks birtist upphaflega í bók hans Fragen der Ethik (Vandamál siðfræðinnar) (Vínarborg 1939).

3. Sjá Lögmál og frelsi (Reykjavík: Mál og menning 1970), bls. 109.

4. Lögmál og frelsi, bls. 28–29.

5. Lögmál og frelsi, bls. 49–50.

6. Lögmál og frelsi, bls. 29 og 109.

7. Sjá einkum Lögmál og frelsi, 83–88.

8. Lögmál og frelsi, bls. 71 og 93.

9. Lögmál og frelsi, einkum bls. 94–111 og 132–140.

10. Lögmál og frelsi, einkum bls. 97–98.

11. Lögmál og frelsi, bls. 112–113.

12. Sjá t.d. J.L. Austin, „Ifs and Cans“ í ritgerðasafninu Philosphical Papers (London: Oxford University Press 1961), bls. 153–180, og D.Davidson, „Actions, Reasons and Causes“, Journal of Philosophy 60 (1963), bls. 685–700.

13. Sjá einkum Lögmál og frelsi, bls. 84–88.

14. Sjá t.d. Lögmál og frelsi, bls. 110.

15. Klassísk ritgerð sem heldur fram slíkri efnishyggju er „Sensations and Brain Processes“ eftir J.J.C. Smart, upphaflega í The Philosophical Review 68 (1959), bls. 141–156. Birtist endurskoðuð hjá D. M. Rosenthal (ritstj.), Materialism and the Mind-Body Problem (Englewood Cliffs, N.J.: Prentice Hall 1971).

16. Sjá t.d. Thomas Nagel, „What Is it Like to Be a Bat?“ í ritgerðasafninu Mortal Questions (Cambridge: Cambridge University Press 1979), bls.165–180 og Saul Kripke, Naming and Necessity (Cambridge, Mass.: Harvard University Press 1980). Upphaflega hjá D. Davidson og G. Harman, The Semantics of Natural Language (Dordrecht: Kluwer 2. útg. 1977).

17. Sjá t.d. Richard Rorty, „Mind-Body Identity, Privacy, and Categories“ og „In Defense of Eliminative Materialism“, hjá D. Rosenthal, sama verk, bls. 174–199 og 223–231, og Paul M. Churchland, Matter and Consciousness, endursk. útg. (Cambridge, Mass: MIT Press, 1988). Skarpa gagnrýni á kenningar af þessari gerð má sjá hjá Lynn Rudder Baker, Saving Belief: A Critique of Physicalism (Princeton, N.J.: Princeton University Press 1987).

18. Lögmál og frelsi, bls. 104.

19. Lögmál og frelsi, bls. 94–95.

20. Sjá Spinoza, Ethica II, einkum gr. skilgr., forsendur og setningar 1–7.

21. Á mörkum mannlegrar þekkingar (Reykjavík: Mál og menning 1965).

22. Sjá ritgerðina „Mental Events“, sem birt er í ritgerðasafni D. Davidson, Essays on Actions and Events (Oxford: Clarendon Press: 1980). Upphaflega í L. Foster og J.W. Swanson (ritstj.), Experience and Theory (1970).

23. Hann segir að vísu að efnisveruleikinn í víðtækasta skilningi sé allt það sem orkar á vitund okkar, og vitund okkar allt það sem eitthvað getur birst í (sjá Á mörkum mannlegrar þekkingar, bls.xxx, sbr. Lögmál og frelsi, bls. 127–128. Þessar skilgreiningar þarfnast bersýnilega lagfæringar. Til dæmis er næsta ljóst að ýmsar hugmyndir okkar sem „birtast í“ vitund okkar – svo sem um morgundaginn, kvaðratrótina af 2 og Guð – stafa ekki af efnisveruleika sem orkar á okkur og hugmyndirnar svara til. Á hinn bóginn má vera að í tali Brynjólfs um vitund sem það sem veruleikinn birtist í megi sjá vísi að hugmynd um íbyggni sem kennimark hins andlega. En það er þá varla meira en vísir.

« Til baka

Hvað hafði Platón á móti skáldskap? Árásir Platóns á skáldskapinn í Ríkinu

eftir Eyjólf Kjalar Emilsson

Í frægasta og metnaðarfyllsta verki sínu, Ríkinu, lætur Platón hetju sína Sókrates og viðmælendur hans hugsa upp fyrirmyndarríki, hið besta ríki allra hugsanlegra ríkja.1 Svo er að sjá að ekkert rúm sé fyrir skáld í þessu ríki, og virðist Platón álíta að þau séu aðeins til óþurftar og skuli gerð útlæg úr ríkinu nema þau fallist á stranga og að ég hygg óaðgengilega skilmála.2 Sá helsti þeirra er að þau hætti að blekkja fólk.

Margir aðdáendur Platóns sem jafnframt eru unnendur skáldskapar hafa átt erfitt með að una þessum málalokum og varla fengist til að trúa því að hinn mikli hugsuður hafi í raun og veru verið svo skammsýnn eða blindur að hann hafi ekki komið auga á hið augljósa gildi skáldskaparins (og raunar annarra lista). Bent er á þá óumdeilanlegu staðreynd að Platón var sjálfur mikill listamaður og mikið skáld, sem gat brugðið fyrir sig hvers konar stíl og sett fram hugsun sína með stórfenglegum líkingum sem hvert skáld gæti verið stolt af. Hvernig má það vera að slíkur maður hafi ekki kunnað að meta skáldskap? Hér á eftir verður leitast við að gera örlitla grein fyrir þeim hugmyndum um skáldskap og listir sem birtast í þessu höfuðverki heimspekinnar, og því sem að baki þeim býr.

Áður en lengra er haldið er rétt að ryðja úr vegi yfirborðslegum skýringum á þessari fjandsamlegu afstöðu Platóns í garð skáldanna í Ríkinu. Sú skýring hefur heyrst að Platón hafi einkum haft í huga slæman skáldskap, að hann hafi verið að skjóta á vond skáld í samtíma sínum, en ekki á góðu skáldin sem voru uppi fyrir hans dag. Þetta er langsótt kenning sem stenst ekki snefil af gagnrýni. Því flestöll dæmi sem Platón tekur eru einmitt frá öndvegisskáldum á borð við Hómer, Pindar og Aískýlos. Og sem meira er, í hinum bráðskemmtilega hluta Ríkisins, þar sem Platón gerist ritskoðari og hyggst sníða burt þá kafla hjá Hómer og fleiri skáldum sem eiga ekki að fá að heyrast í fyrirmyndarríkinu, er að finna margar perlur frá skáldskaparlegu sjónarmiði. Ummæli Platóns um skáldskapinn verða heldur ekki skýrð sem orð sem látin eru falla gáleysislega í framhjáhlaupi, þar sem umræðan snýst aðallega um eitthvert annað efni. Þvert á móti: verkið hefði allt eins mátt kalla „Um skáldskap“ eins og „Ríkið“, því að a.m.k. eins stór hluti þess fjallar um skáldskap og um fyrirmyndarríkið. Þess ber þó að geta að Platón er ekki alltaf eins fjandsamlegur skáldum og skáldskap og hann er í Ríkinu. Í samræðunum Jóni ogFaídrosi birtist til dæmis mun jákvæðari afstaða. Þó má segja að flest heimspekilegu meginatriðin í máli Platóns um skáld og skáldskap í Ríkinu séu almennt einkenni á hugsun hans um þessi efni.

Ríkið er heilmikið verk. Það skiptist í tíu bækur, sem eru hver um sig svona 40-50 meðalsíður. Bróðurpartur verksins er samræða Sókratesar og kunningja hans, bræðranna Glákons og Adeimantosar. Efnið sem þeir eru að velta fyrir sér er réttlæti, hvað það eiginlega sé. Í upphafi eru þeir að hugsa um réttlæti einstaklinga, en verða ásáttir um að skoða fyrst réttlætið í ríkinu, því það sé stærra og því hægara að koma auga á það (367 E-369 C). Þannig reisa þeir ríki frá grunni, ríki þar sem öllu er komið fyrir á sem skynsamlegastan hátt, enda fara heimspekingar með stjórnina. Platón ræðir í löngu máli um uppeldi og menntun í fyrirmyndarríkinu, og það er í því sambandi sem spurningin um skáldskap vaknar. Platóni er í mun að þegnar hins nýja ríkis tileinki sér dygðirnar. Hann virðist hafa mikla trú á áhrifamætti skáldskapar og raunar lista almennt til að móta skapgerð fólks bæði til góðs og ills. Þess vegna telur hann hvort tveggja nauðsynlegt að ritskoða skáldskap þannig að hann spilli ekki æskunni í nýja ríkinu og eins að setja saman mikla námsskrá, þar sem kemur fram hvað hinum uppvaxandi fyrirmyndarmönnum sé nauðsynlegt að hlýða á og læra (376E-304 C). Stór hluti námsins er tónlist og er kveðskapur talinn til hennar. Platón álítur rétt tónlistar- og skáldskaparuppeldi æskunni bráðnauðsynlegt, eigi hún að komast til þroska.

En hugum nánar að því sem Platón vill ritskoða og ástæðum þess. Meginkvörtun hans er sú að í verkum sínum kenni skáldin fólki allt hið gagnstæða við dygðugt líferni: þau láta hetjur vera leiksoppa taumlausra ástríðna og tilfinninga og þau ljúga upp á guðina, þar sem þau sýna þá breyska, öfundsjúka, hégómlega og falska. Það er háskalegt að fólk alist upp við slíkar sögur, einkum þar sem hetjur og guðir eiga í hlut, en fyrir þeim eiga menn að vera virðingu. Sérstaklega er Platóni í nöp við skáldskap þar sem persónunum eru lögð orð í munn eins og í leikritum, en slíkt nefnir hann hermiskáldskap.3 Þegar hann segir að skáldin hljóti að vera gerð brottræk úr fyrirmyndarríkinu, þá er hann að tala um hermiskáldin fyrst og fremst.4

Það sem hér hefur verið greint kemur fram í annarri og þriðju bók Ríkisins, þegar verið er að koma fyrirmyndarríkinu á fót. En Platón telur sig bersýnilega ekki búinn að gera skáldskapnum fullnægjandi skil, því hann tekur málið aftur upp í tíundu og síðustu bókinni. Greinargerðin þar er með nokkuð öðrum hætti. Hún er, ef svo má segja, heimspekilegri. Platón byrjar á að rifja upp kenningu sína um að til sé veruleiki sem sé langtum fullkomnari og sannarri en sá sem við skynjum með skilningarvitunum. Þetta er heimur frummyndanna sem svo eru nefndar. Frummyndir einar eru sannur veruleiki að dómi hans, fullkomlega samar við sig og ævarandi. Í þeim falla saman sýnd og reynd. Hitt er allt eins konar endurómur frummyndanna, iðandi síbylja, óraunveruleg og ósönn á einhvern hliðstæðan hátt og skuggar eða óljósar spegilmyndir á vatni eru í samanburði við hlutina sjálfa. Platón tekur dæmi af rúmum, sem húsgagnasmiðir smíða, og af dýrum sem eru verk náttúrunnar. Húsgagnasmiðirnir smíða sín rúm með því að líkja eftir frummynd rúmsins og á einhvern hliðstæðan hátt vinnur náttúran. En svo eru til rúm sem finnast á myndum málara, eftirlíkingar af alvöru rúmum, og hliðstæð þeim eru skáldverkin, sem eru eftirlíkingar, einkum af athöfnum manna. Skáldverk og listaverk yfirleitt eru þannig eftirlíking eftirlíkingar. Skáldskapurinn er eidolopoieisis, skuggasköpun, sem er, ef svo má segja, það lægsta af öllu lágu í stigveldi veruleikans.

Í framhaldinu rekur Platón ennfremur hvernig öll hermilist miði ekki einu sinni að því að líkja eftir veruleikanum eins og hann sé, heldur aðeins ein sog hann sýnist vera. Hann segir

Hugaðu nú að þessu: að hvoru miðar málaralistin hverju sinni, að líkja eftir veruleikanum eins og hann er eða sýndinni eins og hún birtist? Hvort er hún eftirlíking sannleika eða skuggamyndar?
Skuggamyndar, svaraði hann.5

Sama gildir um þær myndir sem skáldin draga upp af fólki og ríkjum með orðum.

Næst kemur skot á harmleikjaskáldin og leiðtoga þeirra Hómer, sem Platón kallar svo. Þessi háðski kafli á að sýna að skáldin fari fjarri sannleikanum í verkum sínum (598 D-601 B). Platón bendir á að samtímamenn séu þakklátir ýmsum mætum fornmönnum svo sem lækninum Asklepíosi og löggjöfunum Lýkúrgosi og Sólóni vegna hinna mætu verka þeirra sem menn njóti enn góðs af. En enginn þakkar Hómer neitt, segir hann. Engin nýtileg uppgötvun eða nýmæli í ríkisbúskap, hernaði eða siðferði er honum eignuð. Þó var hann alltaf að tala um stjórnmál, styrjaldir og dygðir og lesti. En þetta er ekki nema von, segir Platón, því Hómer hafði ekki hundsvit á neinu af þessu, heldur var hann bara eftirherma sem tókst að búa til trúlega ásýnd sem þó var ekkert nema sýndin ein.

Í lokakaflanum um skáldskapinn viðurkenna þeir Sókrates og Glákon að mikil nautn sé að hlýða á skáldskap og að hann sé á einhvern hátt ómótstæðilegur. Þeir eru sammála um að eftirsjá sé að honum. En þetta er ekki nægileg vörn fyrir hann, nema síður sé: Platón setur fram kenningu, mjög í ætt við þá sem Freud og aðrir hafa síðar haldið á loft, að skáldskapurinn sé eins máttugur og raun ber vitni vegna þess að hann veiti útrás alls kyns niðurbældum tilfinningum og þrám. Sókrates segir:

Þegar hinir bestu menn meðal okkar hlýða á Hómer eða eitthvert annað harmleikjaskáld sem er að herma eftir einhverri hetju sem í angist flytur langa raunatölu eða syngur harmasöng berjandi á brjóst sér, þá veistu að við njótum þess og við gefum sjálfa okkur skáldskapnum á vald og þjáumst með hetjunni. Og við lofum af heilum hug snilld skáldsins sem hrærði okkur svo mjög.6

Og örlitlu síðar:

Ef þú hefur hugfast að þessi hluti sálarinnar sem hefur verið haldið niðri með valdi í okkar eigin raunum og þyrstir í tár, gnótt kveinstafa og svölun, enda liggur þrá eftir þvíumlíku í eðli hans, er sami hlutinn og skáldin veita nú fullnægju og gleði. En það í okkur sem í eðli sínu er best hefur ekki verið nægilega alið upp í röksemdum og háttsemi og slakar því á gæslunni á þessum harmþrungna hluta, enda eru það annars manns þjáningar sem það horfir upp á. Og þegar einhver annar maður sem kveðst vera góður barmar sér óhæfilega, skammast þessi hluti okkar sín ekkert fyrir að hrífast af honum og vorkenna honum. Hann telur sig þvert á móti hafa ávinning af þessu, það er að segja ánægju, og vildi ekki verða sviptur henni með því að hafna skáldverkinu í heild sinni með fyrirlitningu.7

Lokaorðin um skáldskapinn eru sérstaklega athyglisverð. Þeir Sókrates og viðmælendur hans telja hugsanlegt að skáldskapurinn geti komið með einhverjar málsbætur fyrir sig þannig að athugandi verði að hleypa honum aftur inn í ríkið. En hann varar eigi að síður enn við því að ekki megi gangast upp í skáldskapnum og taka hann mjög alvarlega. Platón lætur Sókrates segja:

Það verður okkur léttir ef [skáldskapurinn] reynist alsannur og algóður. En svo lengi sem hann getur enga málsvörn borið fram, syngjum við með sjálfum okkur þessar röksemdir okkar sem varnarseið á meðan við hlýðum á hann og gætum okkar á þessari barnalegu ást almennings. Við höfum alltént orðið þess áskynja að ekki má verða hugfanginn af þessum skáldskap eins og hann sé eitthvað sem höndlar sannleikann og sé full alvara.8

Heimspeki og skáldskapur í Aþenu á dögum Platóns

 

Látum þetta nægja sem endursögn á máli Platóns og snúum okkur að því að skoða hvað að baki býr. Það er athyglisvert hve Platón tekur skáldin alvarlega. Hann trúi því greinilega að fólki hætti til að leggja trúnað á sögur sem skáld segja og fá þannig alls kyns ranghugmyndir um hin mikilsverðustu efni. Hann finnur málverkum af iðnaðarmönnum það til foráttu að þau sýni villandi og yfirborðslega mynd af starfi þeirra og list, og hann áskar Hómer og önnur skáld fyrir að hafa ekki tekist að kenna mönnunum neitt nýtilegt. Okkur nútímamönnum kann að virðast allt þetta fullkomlega ósanngjarnt og byggt á misskilningi á eðli og tilgangi skáldskapar og lista. Það stóð aldrei til, segjum við, að læra skósmíðar af málverkum eða hernaðarlist af sagnaskáldi.

En Platón var uppi á tímum, þar sem skáldin voru sennilega tekin alvarlegar sem fræðarar, uppalendur og siðferðileg leiðarljós en nú á dögum. Meðal Grikkja á dögum Platóns þóttu það sjálfsögð sannindi að skáld væru vitur. Þetta viðhorf til skálda og verka þeirra virðist reyndar enn eiga marga formælendur, sem sést til dæmis af því hvernig okkur Íslendingum er tamt að nota Íslendingasögurnar og alls kyns kveðskap sem viskubrunn. Á dögum Platóns var þó trúlega enn nánara með skáldskapnum og viskunni, enda aðgreining skáldskapar, sagnfræði, heimspeki og fræða ekki fyrir löngu í garð gengin og hafði áreiðanlega ekki náð til alls almennings. Að minnsta kosti voru þær kröfur gerðar til skálda að þau færðu fólki í hendur einhverja bitastæða visku. Eitt af því sem fyrir Platóni vakir er að ráðast gegn þessari trú á skáldskapinn. Þetta gerir hann bæði með því að skora á menn að benda á dæmin um nýtilegan vísdóm, sem frá skáldunum sé kominn, og með því að hefja gagnsókn, þar sem hann heldur því ekki aðeins fram að skáldunum láist að vera vitur, heldur séu áhrif þeirra beinlínis háskaleg.

Inn í þetta fléttast svo tilkoma heimspekinnar og örlög Sókratesar. Platón var sjálfur heimspekingur og batt gífurlegar vonir grein sína. Hann trúði því til dæmis að heimspekin hefði lykilhlutverki að gegna í þjóðfélaginu. Hún átti meða annars að verða öguð vísindi um gott og illt, rétt og rangt, bæði hjá einstaklingum og ríki. Þannig ætlaði hann heimspekinni að vinna á sama vettvangi og skáldskapurinn. Hún átti að gera almennilega það sem skáldskapurinn gerði illa.

Nú verður varla sagt að Platóni hafi tekist það ætlunarverk sitt að setja fram vísindin um hið góða. Hann komst þó að ýmsum heimspekilegum niðurstöðum sem hafa staðist tímans tönn. Ein þeirra er sú að mikilsverður munur sé á sannfæringu og skoðun annars vegar, og þekkingu hins vegar. Munurinn liggur í því að sá sem þekkingu hefur á einhverju efni, getur fært rök fyrir máli sínu og ennfremur í því að þekking hlýtur að vera sannleikur (annars væri hún engin þekking), en við vitum öll að hægðarleikur er að vera sannfærður um eitthvað sem er ósatt, þó að maður haldi auðvitað að það sé satt ef maður er sannfærður um það. Platóni þótti einsýnt að skáldin hefðu ekki þekkingu í þessum skilningi á því sem þau töluðu um. Þetta kemur skýrt fram í Málsvörn Sókratesar þar sem Sókrates segir:

Ég varð þess brátt vísari um skáldin, að þau ortu ekki af visku, heldur af einhverri andagift og guðamóði, eins og innblásnir spámenn eða völur, er segja margt gott, en skilja það ekki sjálf. Mér þótti skáldunum vera nokkuð líkt farið. Jafnframt varð ég þess vísari, að vegna skáldskaparins hugðust þau einnig vera hinir vitrustu menn í öðrum greinum, en voru það ekki.9

Á móti þessari grein sem treystir á andagift og innblástur, sem eins og allir vita geta verið varasamir vegvísar að sannleikanum, vildi Platón tefla fram heimspekinni sem byggi yfir ígrundaðri þekkingu, þar sem allt var bundið fast með traustum rökum. Einnig má vera að hann hafi fundið til einhverrar öfundar í garð skáldanna sem fylltu leikhúsin og fundist að hin nýju vísindi nytu ekki þeirrar lýðhylli og virðingar sem þeim bæri. Sá heimspekingur sem mest var um vert var tekinn af lífi fyrir það eitt að þjóna heimspekinni af trúmennsku. Áður hafði hann verði sýndur sem ófyrirleitinn rökflækjumaður í gamanleik Aristófanesar, Skýjunum. Platóni kann að hafa fundist að heimspekin þyrfti að berjast fyrir lífi sínu, og því væri nauðsynlegt að gera upp sakirnar við skáldin.

Viskuást og siðandi endurómur síbyljunnar

 

Við skulum nú huga að máli Platóns um skáldskapinn frá svolítið almennara sjónarhorni og spyrja einfaldlega: Er eitthvert vit í þessu hjá honum?

Þegar hefur verið vikið að þeirri aðfinnslu Platóns, að með því að sýna okkur alls kyns ósóma og illvirki smiti skáldskapurinn okkur, þannig að hætt sé við að við sjálf förum að herma eftir söguhetjunum í hugsun og jafnvel í verki. Ekki er að sjá að þar vaki neitt dýpra fyrir Platóni en sú hversdagslega hugsun að það kunni að spilla fólki að heyra og sjá eitthvað ljótt. Þetta er spurningin um að hvort við förum að reyna að líkja eftir Agli Skallagrímssyni eða James Bond, ef við lesum sögur um þá eða sjáum þá á tjaldi. Um þetta má endalaust deila og er endalaust deilt. Ágætur íslenskur skáldsagnahöfundur sagði mér eitt sinn að hann hugsaði sig tvisvar um áður en hann léti fólk hoppa upp í rúm hvert hjá öðru í bókum sínum. Ástæðan sem hann gaf var sú að hann vildi síður ýkja um lauslæti, því lesendur kynnu að halda að svona geri fólk yfirleitt og þess vegna ekkert því til fyrirstöðu að taka upp sömu hætti. Þetta og margt annað sýnir að við erum ekki vaxin upp úr hugmyndum Platóns um þetta efni. Það virðist vissulega vera eitthvert vit í því sem hann segir um þetta, en hann miklar trúlega fyrir sér ill áhrif ljótu atriðanna. En mér virðist þessi aðfinnsla ekki vera sérstaklega áhugaverð og óþarft að eyða í hana mörgum orðum.

Þá er það kenningin um að skáldskapurinn sé eftirlíking eftirlíkingar, einber sýndarveruleiki og blekking. Við fyrstu sýn gæti manni virst sem þessi kenning sýni enn að Platón vanmeti og misskilji skáldskapinn fullkomlega. Skáldin reyna ekki einfaldlega að herma eftir fólki og atburðum, heldur leitast þau við að skapa nýjan veruleika. Þessi lýsing Platóns sniðgengur sköpunarhliðina á listinni, kynni einhver að segja.

Hér hygg ég að Platón gæti svarað því til, að þvert á móti taki hann fullt tillit til sköpunarinnar; hann geri sér vel ljóst að munur sé á hinum hversdagslega veruleika og listaverkinu og að sá munur sé m.a. til vitnis um að listamennirnir leggi listaverkunum eitthvað til. Hins vegar sé það staðreynd að listaverkin hafi hinn hversdagslega veruleika sem fyrirmynd og nærist á honum. Viðbótin, sem sumir kalla sköpun með sérstakri velþóknun og gerir veruleika skáldverksins annan en hinn hversdagslega veruleika, er öll í átt til enn meiri blekkingar og óraunveruleika.

Heimspekin reynir að öðlast algilda sýn á hlutina, skoða þá frá algildu sjónarhorni eftir því sem það er hægt. Listin reynir ekkert slíkt. Henni nægir að draga upp einhverja mynd sem getur hrifið fólk. Skáldskapur er því eins konar mælskulist, viss tegund af áróðri. Þessi skoðun kemur vel fram í svofelldum kafla úr tíundu bókRíkisins:

Á sama hátt munum við þá segja, býst ég við, að skáldið lifi hverja list með nöfnum og lýsingum. Það hefur engan sjálft á öðru en því að líkja eftir, svo að þeim sem eru eins og það sjálft og dæma eftir tungutakinu sýnist það tala mjög vel, þegar það fjallar í bundnu máli með hrynjandi og samhljómi hvort heldur um skósmíðar eða herstjórnarlist eða hvaðeina annað. Þetta skáldskaparmál býr sem sagt yfir einhverjum náttúrulegum töfrum. Því ég hygg þú vitir hvernig mál skáldanna lítur út þegar búið er að afklæða það skrautklæðum braglistarinnar, og það mælt fram eitt og óstutt. Þetta hefurðu ugglaust séð.
Reyndar hef ég séð það, svaraði hann.
Verður það ekki áþekkt útlits og ásjóna drengs, sagði ég, sem skartar engu öðru en æsku sinni og glatar æskuþokkanum?
Vissulega, sagði hann.

Með öðrum orðum, skáldskapurinn er umbúðirnar einar. Sköpunin svonefnda felst í að búa til þessar umbúðir. Þegar skáldskapurinn hefur verið sviptur þeim, stendur ekki bitastætt eftir.

Að dómi Platóns er skáldskapurinn líka blekking að því leyti að hann veitir okkur svölun, en sú svölun er fölsk. Þetta kemur m.a. fram í þeim orðum sem höfð voru eftir honum hér að ofan þar sem Sókrates lýsir því í hverju skáldskaparnautnin liggi. Við höfum í einkalífinu bælt tregann og haldið aftur af tárunum, reiðinni og girndinni. Þegar við meðtökum listaverk, sleppum við takinu á þessum niðurbældu tilfinningum og fáum á vissan hátt útrás fyrir þær. Þetta leyfum við okkur vegna þess að við erum að horfa upp á annað fólk, og enn auðveldara verður það vegna þess að skáldin hafa lag á því að láta persónur sínar vera góðar og glaðlegar að mörgu leyti. Þannig er það að þegar við sjáum góðan mann beittan órétti, þá glepst jafnvel skynsemi okkar sem á að hafa taumhald á ástríðunum og gefur reiðinni lausan tauminn. Þessi svölun ástríðnanna sem skáldskapurinn veitir er ekki síst varhugaverð vegna þess að hún er svo sterk. Hún sýnist jafnvel vera göfug. Þess vegna er hætta á því að jafnvel gott og hugsandi fólk týni sér í listnautninni og finnist hún svala dýpstu og sönnustu löngunum þess. En nei! Þetta er bara plat! Listnautnin er ekkert annað en fróun lægstu hvata og kennda með góðfúslegu samþykki skynseminnar sem lætur blekkjast af brögðum skáldanna.

Nútímamönnum sem á annað borð gefa sig að listum og skáldskap hættir til að taka sem sjálfsagðan hlut, að þessi efni séu óheyrilega mikilvæg og merkileg, jafnvel hornsteinn alls andlegs lífs. Mér virðist að slíkt viðhorf kunni að vera listinni til tjóns. Ég held að árás Platóns á hana sé a.m.k. nógu snarpleg og djúp til að krefja skáldin og unnendur skáldskaparins um svör. Ég ætla núna að endingu að reifa fáeina möguleika í þeim efnum.

Í gagnrýni sinni á listina og skáldskapinn gengur Platón að því vísu, að til sé annars konar verðugri iðja, þ.e.a.s. heimspekin, og að listin standi í vegi fyrir heimspekinni, bæði vegna þess að þessar greinar fáist að nokkru við sama efni og vegna þess að listnautnin geti orðið eins og fölsk svölun þeirrar hvatar, Erosar, ástarinnar, sem beinist að því sem er göfugt og satt.10 Hvað fyrra atriðið varðar álítur Platón bersýnilega, að skáldskapurinn keppi að því að miðla til okkar sannleikanum þannig að við látum sannfærast, en gallinn sé sá að honum farist þetta illa, því bæði sé hann óvandur að meðulum sínum og það sé hendingu háð hvort hann segir yfirleitt satt.

Nú kynnu einhverjir að vilja neita því að það sé yfirleitt tilgangur skáldskapar að reyna að sannfæra fólk um eitt eða annað. List er ekki predikun, segja menn stundum. Sumir draga líka í efa að til sé einhver algildur sannleikur, og því sé heimspekileg viðleitni af því tagi sem Platón boðar dæmd til að mistakast. Þvert á móti sé einstaklingsbundin upplifun eini kosturinn sem í boði sé og sé raunar alls ekki svo slæmur kostur. Það sem máli skipti fyrir okkur mennina sé að slík upplifun sé sem auðugust og dýpst, og í því efni gegni listirnar lykilhlutverki. Þessir tveir punktar, að listin keppi ekki að því að sannfæra fólk um sannleikann og að draumurinn um algilt sjónarhorn sé tálsýn, eru skyldir og styðja vel hvor annan.

Hin platónsku viðbrögð við þessu hygg ég að séu þau, að spyrja í hverju gildi skáldskaparins liggi þá, ef skáldin geri enga kröfu um að miðla neinum sannleika. Ég sé fyrir mér þrenns konar svör við þessu: Fyrst þetta: gildi skáldskaparins felst einfaldlega í því að hann er nautn, hann er skemmtilegur og spennandi. Ágætt, segði Platón þá, þá er allt í lagi með hann, ef við bara gætum okkar á því að týna okkur ekki í honum. En ef skáldskapurinn er bara heillandi skemmtun, kynni hann að bæta við, hvað er þá svona merkilegt við hann? Af hverju er hann merkilegri en rjúpnaveiðar, til dæmis, eða tölvuleikir? Hvað kemur ykkur til að halda að hann sé þungamiðja menningarinnar?

Í öðru lagi er líklegt að fram kæmi eitthvert svar skáldskapnum til varnar sem snerist um gildi hans fyrir tilfinningalífið (eða sjálfsvitundina eða undirvitundina eða hvaða fín orð önnur menn kjósa að hafa yfir það). Skáldskapur tjáir einstaklingsbundna skynjun og upplifun og talar því fyrst og fremst til tilfinninganna, ekki til kaldrar skynsemi og rökvísi. Þetta má svo útfæra á ýmsa vegu. Ein leið væri að líta á listina sem tæki til að ræsa fram bældar tilfinningar, eins konar leysandi lyf sem notist innvortis í sálinni. Slíkt viðhorf kemur fram hjá nemanda Platóns, Aristótelesi,11 og má raunar segja að það birtist þegar hjá Platóni sjálfum, þótt ekki vilji hann telja þessa verkan skáldskaparins honum til tekna (sjá hér að ofan). Með hinni miklu útbreiðslu kenninga Freuds á okkar öld hefur þvílík hugmynd um listina orðið næsta hversdagsleg að líkindum brygðist Platón við öllum hugmyndum af þessum toga með því að ítreka það sem við höfðum eftir honum núna síðast, að öll þessi tilfinningapæling, sjálfsrýni og upphafning hins röklausa, sem nú ber mikið á, glepti okkur frá verðugri hlutum og sé á endanum bara ein mynd nautnaviðhorfsins til listarinnar sem áður var nefnt. Þegar véfréttin í Delfum sagði „Þekktu sjálfan þig!“, átti hún síst af öllu við þetta.

Í þriðja lagi, býst ég við að skáld almennt uni því ekki að athuguðu máli að skáldskapur þeirra hafi ekkert með sannleikann og miðlun hans að gera, þótt mér virðist afstaða skálda og bókmenntamanna nú á dögum oft fremur óskýr og blendin að þessu leyti. En flest skáld munu líklega fallast á svofellda rökhendu – ekki bara tilneydd vegna ágengni heimspekinga, heldur hafa þau flest hugsað eitthvað svipað sjálf: Alvarlegur skáldskapur segir eitthvað sem skiptir máli; það sem skiptir máli hlýtur að vera satt; þess vegna segir alvarlegur skáldskapur satt. Eða þá þau vitnuðu í Keats og segðu: „Fegurð er sannleikur, sannleikur er fegurð“. En líklegt er að skáldin freistuðu þess að ætla skáldskapnum einhvern annan sannleika en þann sem hversdagshugsunin, heimspekin eða vísindin keppa að.12 Ef til vill munu þeir segja, að til séu sannindi sem ekki verði tjáð svo að vel sé nema með skáldskap; skáldamálið og allur búningurinn sé ekki eintómt skraut, heldur eina leiðin til að nálgast suma hluti. Ef til vill munu þau segja að sannleikur þeirra sé ekki algildur, heldur afstæður og persónubundinn sannleikur. Eitthvað sem er satt fyrir mér en þarf ekki að vera satt fyrir öllum.

Á dögum Platóns voru raunar uppi menn sem töluðu á þessa lund. Hinn rómaði fræðari Prótagóras sagði að maðurinn sé mælikvarði allra hluta og enginn algildur sannleikur til. Platón átti ágæt svör við þvílíkum kenningum, sem ekki er tóm til að rekja hér í smáatriðum – þau eru ítarlegast útfærð í samræðu hans Þeaítetosi – en meginhugmyndin er sú að alltaf sé hægt að sýna fram á að sá sem veifar afstæðum sannleika sé sjálfum sér ósamkvæmur og gangi í rauninni að algildum sannleika vísum. Þetta virðist mér sjálfum trúlegt og eiga við um afstæðishyggju á okkar tímum líka. En þeir eru furðulega margir sem halda nú á dögum að ef einhverjum sýnist eitthvað vera svo, þá sé það svo fyrir þeim, og að það sé eini sannleikurinn sem um sé vert.13 Í raun er þvílíkum hugmyndum oftast haldið fram í gáleysi, og þeir sem það gera ganga að algildi sannleikans vísu, ef ekki í kenningum sínum beinlínis, þá alla vega í verki.

En nú er ekki alveg öll sagan sögð. Vel má vera að skáldin hafi eitthvað til síns máls, þó að það væri óhyggilegt af þeim að reyna að bera við afstæðum sannleika. Þau gætu reynt að svara Platóni fullum hálsi án þess að hætta sér út í rökræður um eðli sannleikans eða um það hvort til séu verðugri umhugsunarefni en ástir, illdeilur og volæði sálarinnar. Vera má að eitthvert skáld teldi í sig kjark og stæði á fætur og talaði til Platóns með svofelldri ræðu:

„Ekki vitum við, Platón, hvort þér ferst nokkuð að vera að hnýta í okkur. Þú talar um heimspekina og hið algilda sjónarhorn hennar sem sé hafið yfir hverfulleik og duttlunga þessarar fáfengilegu tilveru okkar. Þetta hljómar svo sem nógu vel, en gaman væri að fá að sjá þó ekki væri nema brot af þessum algildu sannindum þínum. Hvar eru þau Platón? Sérstaklega virðist okkur að þér farist illa að vera með ónot við okkur, þar sem þú grípur einatt sjálfur til skáldlegra líkinga þegar þér finnst mest liggja við. Eða ætli heimspeki þín væri ekki flestum gleymd, ef þú hefðir ekki líkt okkur við fanga sem eyddu ævinni í að telja skugga? Og aldrei var sjálf frummynd hins góða svo skýr í huga þínum að þú þyrftir ekki að grípa til líkingar við sólina til að varpa ljósi á mál þitt. Er þetta ekki nóg? Er ekki alvel óþarft að nefna hestana og vagninn í Faídrosi, heimspekina í líki ástarguðsins Erosar íSamdrykkjunni og heimssmiðinn í Tímaíosi? Hefðirðu virkilega getað sagt allt sem þér lá á hjarta án þess að gerast skáld?“

Platón kynni að hafa svarað þessari ræðu með annarri, sem hefði getað hljóðað eitthvað á þessa leið:

„Þú misskilur mig alveg, minn kæri. Á endanum snýst málið ekki um búninginn sem menn íklæða hugsun sína, heldur um það hvað þeir eru að reyna að gera og hvernig þeir hugsa það. Ef skáldin hafa að leiðarljósi einhverja hugmynd um skáldskap sem sjálfstætt svið sem lýtur alveg sínum eigin leikreglum, þá hafa þau þar með skipað leitinni að hinu raunverulega og sanna í annað sæti eða þriðja sæti, ef ekki vísað henni á bug og gert hana útlæga úr sál sinni. Þar með hafa þau líka gengist blekkingunni á hönd. Góð list getur verið eins konar ímynd eða eftirlíking hins góða. Þess vegna blekkir hún jafnvel skynugasta fólk og fær það til að hætta að reyna að bæta sig. Það má kalla hana helgispjöll. Ef þú trúir á guðina, hvað sem þeir kunna nú að vera, þá veistu að krafa þeirra er hrein og skilyrðislaus. Hún er hið mesta í heimi. Þetta er líkt og þegar íþróttamaður á Leikunum neytir allrar orku sinnar, svo að hann hættir næstum lífi sínu. Listin mildar kröfu guðanna. Hún breiðir áferðarfallega blæju yfir þessa hræðilegu hinstu kröfu, þessa endanlegu ummyndun í hið góða, þetta lokaskref sem virðist næstum ómögulegt að stíga en allt mannlegt líf snýst þó í rauninni um.“14

 

Tilvísanir

1. Ritgerð þessi er að stofni til erindi sem var flutt hjá Félagi áhugamanna um bókmenntir 4. mars 1989. Ég hef þegið góðar ábendingar frá þeim kollegum mínum og vinum Gunnari Harðarsyni, Vilhjálmi Árnasyni og Þorsteini Gylfasyni. Kristjáni Árnasyni vil ég þakka leiðsögn um bókmenntaleg efni frá fornu fari og rökræður um þau og heimspeki fram á þennan dag. Ég sé, eftir að þetta er skrifað, að hann á talsverða hlutdeild í þessum hugleiðingum þótt skoðanir hans sjálfs séu ef til lítt bornar fram.

2. Sjá einkum 398 A-B, 595 A, 607 D-608 B.

3. Platón gerir greinarmun á þremur höfuðmyndum skáldskaparræðu: (1) hermiskáldskapur eða túlkun (mimesis), þar sem persónurnar tala í fyrstu persónu; leikrit, bæði harmleikir og skopleikir, eru dæmi um hreinan hermiskáldskap; (2) lýsing eða frásögn (diegesis), þar sem skáldið talar í eigin nafni eins og tíðast er í lýrískum skáldskap; (3) blanda af hermiskáldskap og lýsingu, en bestu dæmin um það eru söguljóð eins og kviður Hómers (392 C-398 B).

4. Erfitt er að túlka mál Platóns um þetta svo að það verði fyllilega sjálfu sér samkvæmt: annars vegar virðist hann leyfa í 3. bók vissan hermiskáldskap, þar sem góðum mönnum eru lögð orð beint í munn af skilningi; hins vegar segir hann í 10. bók, 595 A, að allur hermiskáldskapur hafi verið gerður útlægur, og er þar bersýnilega að vísa til þess sem kemur fram í 3. bók. Vera má að í 10. bók sé orðið „hermiskáldskapur“ notað í svolítið annarri merkingu en í 3. bók. Sjá R. Cross og A.D. Woozley, Plato’s Republic: A Philosophical Commentary, St. Martin’s Press: New York 1964, s. 270-288.

5. 598 B

6. 605 C-D.

7. 606 A-B.

8. 608 A.

9. 22 B-C.

10. Þetta er höfuðatriði í stórsnjöllu riti Iris Murdoch um skoðanir Platóns á skáldskap, The Fire an the Sun: Why Plato Banished the Artists, Clarendon Press: Oxford 1977.

11. Sjá Um skáldskaparlistina 1449b. Ritið hefur birst á íslensku í þýðingu Kristjáns Árnasonar (Hið íslenska bókmenntafélag: Reykjavík, 1976), sem einnig ritar inngang. Þar er fjallað um útrásarhugtak Aristótelesar og um fleiri efni sem hér eru á dagskrá.

12. Sjá áðurnefndan inngang Kristjáns Árnasonar að Um skáldskaparlistina, s. 26-7.

13. Afstæðishyggja af þessu tagi tekur á sig ýmsar myndir. Til dæmis má gera greinarmun á afstæðishyggju sem heldur fram að sannleikurinn (og þar með veruleikinn) sé afstæður miðað við einstaklinga og afstæðishyggju sem miðast við menningu eða svonefnda reynsluheima, t.d. kvenna, sjómanna, Selfyssinga eða vestrænna manna yfirleitt. Svo að dæmi sé tekið úr nýlegri bókmenntaumræðu á Íslandi, virðist mér Ástráður Eysteinsson fara nærri því að boða einhvers konar afstæðishyggju í „Er ekki nóg að lífið sé flókið?“, TMM 3/87 (sjá einkum s. 316-17). Afstæðishyggjan hér er að vísu milduð með því að gera ráð fyrir sjálfstæðum en óþekkjanlegum ytri og innri veruleika.

14. Þessi síðasta ræða Platóns er að talsverðu leyti byggð á máli hans hjá Iris Murdoch, Acastos: Two Platonic Dialogues, Penguin Books: Hammondsworth, Middlesex, England.

 

« Til baka

Sólin, hellirinn og hugsanir Guðs

Hugleiðingar um Platonisma og samtímaheimspeki

 

eftir Eyjólf Kjalar Emilsson

Hægast er að gera grein fyrir frummyndakenningu Platons með því að leggja út af hinu íslenska heiti hennar. Frummyndakenningin kveður svo á að hversdagslegir hlutir eigi sér frummyndir: annars vegar höfum við allt sem við nemum með skilningarvitum okkar, menn, dýr og jurtir, réttláta breytni, góð lög og fagrar myndir, þríhyrninga, hringi og fjölda. En að auki eru til ósýnilegar frummyndir hvers og eins þessa: frummynd mannsins eða maðurinn í sjálfum sér, hesturinn í sjálfum sér, rósin í sjálfri sér og svo framvegis.1 Í rauninni er allt það sem við sjáum í kringum okkur aðeins skuggamyndir hinna ósýnilegu frummynda. Þessa skuggamyndalíkingu ber að skilja næsta bókstaflega: frummyndirnar eru raunverulegar í samanbyrði við venjulega jarðneska hluti á einhvern áþekkan hátt og hestur af holdi og blóði er raunverulegur í samanburði við skugga sinn eða spegilmynd. Hesturinn sjálfur, frummynd hestsins, er ósýnilegur eins og áður er getið. En við getum eigi að siður þekkt hann með huganum, hinu innra auga sálarinnar. Raunar er hesturinn sjálfur eini hesturinn sem við getum þekkt, því meiningar okkar um skynjanlega hesta eru of óskýrar og fallvaltar til að kallast þekking. Við þetta er því að bæta að það er aðeins ein frummynd af hverju tagi: þannig eru allir hestar sem við sjáum eins og skuggar einnar og sömu frummyndar, hestsins sjálfs sem er aðeins einn, og eins er um allt annað. Af þessari skuggalíkingu leiðir ýmislegt athyglisvert. Í fyrsta lagi það að frummyndirnar eru í einhverjum skilningi orsakir hinna hversdagslegu eftirmynda sinna eins og venjulegur hestur er orsök eigin skugga. Og í öðru lagi, þá er frummynd hestsins hestur; satt að segja meiri og raunverulegri hestur en sá sem við ríðum út eða gefum brauð í girðingu. Maðurinn í speglinum er líka óraunverulegri en sá sem stendur fyrir framan spegilinn.

Hvað kom Platoni, þeim gagnrýna manni, til að halda fram öðru eins og þessari kenningu? Svarið við þessari spurningu er margþætt en ég held að Harold Cherniss komi nálægt kjarna málsins í frægri ritgerð sinni, „Heimspekileg hagkvæmni frummyndakenningarinnar“.2 Í þessari ritgerð dregur Cherniss fram hvernig fjölmargt í grískum hugmyndaheimi á dögum Platons hneig í þá átt að engir algildir mælikvarðar væru til hvort heldur á þekkingu, á siðferði eða jafnvel á það hvað er til. Varðveist hafa fleyg brot tveggja af heldri hugsuðum kynslóðarinnar á undan Platoni sem sýna vel þessi viðhorf. Hinn kunni fræðiar Prótagóras frá Abderu ritaði bók sem bar titilinn Sannleikurinn.3 Hún er því miður glötuð en upphafslínur hennar hafa þó geymst og hljóða svo: „Maðurinn er mælikvarði allra hluta, þeirra sem eru að þeir séu, þeirra sem eru ekki að þeir séu ekki“.4 Og eftir Gorgíasi frá Leontíni, öðrum áhrifamanni þessarar aldar er haft: Ekkert er til; en ef eitthvað væri til, þá gætum við ekki þekkt það; og ef við gætum þekkt það, gætum við ekki komið orðum að því. 5

Hér er því miður ekki tóm til þess að rekja ástæður þessarar efahyggju og afstæðishyggju að neinu ráði. Tvö almenn atriði skulu þó nefnd. Í fyrsta lagi er rétt að minnast þess að þegar Prótagóras, Gorgías, Sókrates og Platon voru uppi höfðu Grikkir lagt stund á heimspeki og vísindi af kappi í hartnær 200 ár. Árangurinn var glæsilegur en ekki að sama skapi einhlítur. Ekkert lát var á því að hugvitsamlegar en þó gerólíkar kenningar kæmu fram. Þetta hlaut að verða til þess að hugsandi menn stöldruðu við og spyrðu hvort ekki hefði eitthvað farið úrskeiðis, hvort ekki gæti hugsast að eitthvað væri bogið við sjálfa viðleitnina við að höndla algildan sannleika: ef til vill var verkefnið mönnunum ofviða, ef til vill var enginn algildur sannleikur til. Í öðru lagi hafði sú hugmynd komið fram, að siðferðisefni væru mannasetningar, samkomulagsatriði. Ýmislegt var ólíkt siðferði ólíkra ríkja og þjóða og eðlilegust skýring á þessu gat virst sú að venjur, siðir og samkomulag hefði þróast með ólíkum hætti á hverjum stað. Þessi afstaða birtist til dæmis í máli Þrasýmakkosar í fyrstu bók Ríkisins. Engin augljós leið blasti við upp á einhvern hlutlausan sjónarhól þaðan sem dæma mætti um gildi ólíks siðferðis án þess að ganga að einhverju tilteknu siðferði vísu. Því varð einhvers konar afstæðishyggja um siðferði næsta áitlegur kostur. Hugmyndin um að gott og illt, rétt og rangt væru samkomulagsatriði var jafnvel svo máttug og heillandi að sumir freistuðust til að yfirfæra hana á önnur svið. Gat ekki verið að flestar, kannski allar skoðanir okkar væru samkomulagsatriði með áþekkum hætti og siðferðið?

Frummyndakenningin er viðbrögð við þessari stöðu mála. Platon ætlar frummyndunum einmitt að vera slíkir algildir mælikvarðar sem geri okkur kleift að fella algilda dóma. Til að sjá hvernig hann hugsar sér að þær virki sem algildir mælikvarðar getum við fyrst hugsað okkur litaspjald eins og notuð eru í málningarbúðum. Segjum að ég hafi áhuga á að vita hvort tiltekinn litur sem ég er með sýnishorn af sé beinhvítt eða ekki. Ég fer út í byggingarvöruverslun og ber sýnið saman við litaspjald sem ég finn þar. Á spjaldinu sé ég margs konar liti og undir hverjum þeirra stendur hvað hann heitir. Liturinn sem ég sé á spjaldinu er mælikvarði minn eða viðmið: sé sýni mitt eins og liturinn sem merktur er „beinhvítt“ á spjaldinu eða mjög líkt honum, þá ætla ég að sýnið sé beinhvítt. Frummyndirnar virka að sumu leyti með áþekkum hætti. Ef ég vil vita hvað er það, þá horfi ég á frummyndirnar. Og frummynd hringsins til dæmis er hringurinn uppmálaðir eins og liturinn á spjaldinu er hið beinhvíta uppmálað. En hér er líka margvíslegur munur. Í fyrsta lagi sá augljósi munur að í tilviki frummyndanna horfi ég ekki með augunum heldur huganum. Frummyndirnar eru ekki efnislegir hlutir sem numdir varða með skilningarvitunum. Í öðru lagi eru frummyndirnar algildari mælikvarðar en jafnvel litaspjöldin. Beinhvítt frá Hörpu er til dæmis alls ekki það sama og beinhvítt frá Málningu h/f. Frummyndin er hins vegar aðeins ein. Í þriðja lagi má gera ráð fyrir að litir á litaspjaldi máist og breytist með tímanum. Þá er ekki lengur að marka þá. Mælikvarðar sem breytast dag frá degi eru ótækir algildir mælikvarðar. Frummyndirnar breytast hins vegar aldrei, þær eru ætíð samar við sig. Sérkennilegasti munurinn er þó líklega sá að óþarft er að merkja frummyndirnar: hver og ein ber með sér hver hún er. Og sem meira er, það er ekkert um að villast. Frummyndir birtast ekki á þennan hátt frá þessu sjónarhorni, á hinn háttinn frá hinu, eða sýnast á einn veg í samaburði við eitt, á annan veg í samanburði við annað, heldur alltaf eins og eru alltaf allar þar sem þær eru séðar ef svo má að orði komast. 6 Í tilviki frummyndanna eru sýnd og reynd eitt og hið sama.

Þegar í fornöld þótti ýmsum frummyndakenningin glöggt dæmi um loftkastala heimspekinga. Jafnvel nemandi Platons, Aristóteles, gagnrýnir hana harðlega og segir að með henni sé ekki annað gert en að tvöfalda veruleikann að óþörfu og að kenningin skýri ekkert. 7 Þrátt fyrir þetta mótlæti hefur frummyndakenningin reynst býsna lífseig og áhrif hennar á heimspekisöguna eru ótvíræð. Sem dæmi um þau má nefna greinarmun skynjunar og skynsemi og ólíkra viðfanga þeirra, en hann er einn þeirra þráða sem ganga í gegnum heimspekisöguna. Þessi greinarmunur er platonskrar ættar, þótt margir þeir sem nota hann séu að öðru leyti fjarri því að aðhyllast frummyndakenningu í þeim búningi sem frumkvöðullinn bjó henni. Það er ekki síst fyrir áhrif af þessu tagi sem hin fleygu orð Alfreds North Whitehead að öll heimspeki eftir daga Platons sé aðeins neðanmálsgreinar við verk hans hitta svo vel í mark. En þrátt fyrir andóf Aristótelesar og annarra hélt frummyndakenningin velli í fornöld þegar svokallaður nýplatonismi varð allsráðandi í heimspekinni frá því um 300 e.Kr. og hún gekk raunar í nokkuð breytti mynd inn í kristna guðfræði eins og ég mun síðar víkja að. Á síðari öldum aðhyllast hana hins vegar fáir. Helst eru það stærðfræðingar og heimspekingar á sviði stærðfræðinnar sem hafa haldið fram einhvers konar frummyndakenningu um fræði sín, til dæmis margir helstu frumkvöðlar stærðfræðilegrar rökfræði í lok 19. aldar og á fyrri hluta þeirrar 20. svo sem Gottlob Frege, Bertrand Russell og Kurt Gödel.8 Einnig má víða heyra óm frummyndakenningarinnar í máli skálda og listamanna, svo sem þegar Halldór Laxness talar um hinn eina sanna tón sem ekki verið með eyrum numinn.

En yfirgnæfandi meirihluti atvinnuheimspekinga á okkar dögum vísar frummyndakenningunni á bug. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Ein er ugglaust sú að mönnum virðist kenningin, a.m.k. í þeim búningi sem Platon bjó henni, of skáldleg og ekki nógu öguð fræði til að taka hana alvarlega. Í öðru lagi gengur allur andi kenningarinnar þvert á ríkjandi viðhorf sem kenna má við raunhyggju eða efa- og afstæðishyggju. Flestir álíta að ekki einungis sé mestöll þekking – trúi þeir því á annað borð að þekking sé til – tilkomin með skynjun og reynslu, heldur séu hugtökin sem við höfum yfir að ráða hugsmíðar okkar, búin til úr efniviði skynjunarinnar. En samkvæmt frummyndakenningunni er þessu einmitt öfugt farið. Algengasta viðhorfi heimspekinga á okkar dögum til þessarar kenningar má ef til vill lýsa eitthvað á þá leið að Platon hafi vissulega haft nokkuð til síns máls er hann benti á mikilvægi hugtakanna fyrir hugsun okkar og skilning, en hann hafi miklað fyrir sér hlutverk þeirra og eðli með því að gera þau að sjálfstæðum veruleika sem bæði hugsun okkar og efnisheimurinn lúti.

Ofsagt væri ef ég lýsti því yfir að í þessari ritgerð myndi ég freista þess að verja og endurreisa frummyndakenninguna í upphaflegri gerð. Raunar tek ég undir þá skoðun að hún sé á ýmsan hátt of óljós til að geta verið boðlegur kostur eins og hún stendur. Ég skal líka vera fyrstur manna til að viðurkenna að hún er ótrúleg. Á hinn bóginn virðist mér einnig að það sé eitthvað ekki bara heillandi heldur líka skynsamlegt við þessa kenningu. Þetta hefur verið skoðun mín lengi. Hún hefur eflst við að hugsa um ummæli sem ameríski heimspekingurinn Richard Rorty lét eitt sinn falla á þá leið að auðvitað sé Platon besti platonistinn og kenningar sem halda fram algildum sannleika án þess að gera ráð fyrir hlutum sem „bera merki sannleikans utan á sér“ séu dæmdar til að falla. Með þessu á Rorty við að hefðbundin heimspeki sem leitist við að sýna hvernig heimurinn sé skiljanlegur hljóti að leggja til grundvallar eitthvað sem sé skiljanlegt af sjálfu sér, eitthvað sem beri eðli sitt utan á sér; að öðrum kosti detti botninn úr henni.

Richard Rorty sá er ég nefndi er með kunnustu heimspekingum samtímans. Innan fræðanna er hann umdeildur, ekki síst vegna þess að hann hefur gert uppreisn gegn heimspeki eins og hún er stunduð við háskóla víða um heim. Raunar beinist þessi uppreisn ekki eingöngu og fyrst og fremst gegn heimspeki samtímans, heldur ekki síður gegn meginstraumi vestrænnar heimspekihefðar allt frá Platoni til þessa dags. Í stuttu máli er söguskoðun Rortys sú að vestræn heimspekihefð sé að sligast undan platonskri arfleifð, sé raunar tilbrigði við, ef ekki neðanmálsgreinar við, platonskar kreddur. Þetta vill Rorty allt eins feigt. „Látum Platonisma hvíla sig í fáeinar aldir“ er vígorð hans.9 Helstar hinna meintu platonsku meinloka eru þær að til sé veruleiki með ákveðið eðli akveg óháð hugmyndum okkar mannanna; að mannshugurinn sé eins konar spegill þessa veruleika og eðli hlutanna speglist eða geti að minnsta kosti speglast í huga okkar ef okkur auðnast að beita speglinum rétt; að sannleikur sé einhvers konar samsvörun hugsunar okkar og heimsins; og síðast en ekki síst að mannleg skynsemi geti öðlast skilning á „Hinu góða“ og „Hinu raunverulega“, sem á einhvern hátt geti þjónað sem undirstaða og réttlæting hversdagslegra sanninda um hvað sé gott eða satt. „Hið góða“ og „Hið raunverulega“ eru hér eins konar tákn fyrir almenn heimspekileg sannindi. Nú er ekki svo að þessar skoðanir séu einber sérviska Rortys. Þótt þeir séu ef til vil ekki ýkja margir sem eru tilbúnar að fylgja honum í einu og öllu, eiga áþekkar hugmyndir sem freista þess að kollvarpa uppistöðum hefðarinnar talsverðu fylgi að fagna. Sundrunarheimspeki („dekonstrúksjónismi“) Frakkans Jacques Derrida er til dæmis sömu ættar og hugmyndir Rortys og nýtur hún mikilla vinsælda í mörgum greinum mannlegra fræða og gott ef ekki í byggingarlist.10

Rorty lítur ekki á sig sem frumlegan hugsuð eða gerði að minnsta kosti ekki í upphafi. Í Heimspekin og spegill náttúrunnar frá 1979 leggur hann einmitt áherslu á að skoðanir sínar séu eins konar rökleg niðurstaða af heimspeki aldarinnar. Hann lítur raunar svo á að ýmsir hafi verið komnir að sömu meginniðurstöðum á undan sér svo sem John Dewey, Martin Heidegger og Ludwig Wittgenstein. Rorty sér hlutverk sitt í þessu fyrst og fremst sem hlutverk mannsins sem dregur saman og tengir það sem fyrir liggur, skoðar það allt í sögulegu ljósi, og setur svo punktinn yfir i-ið.

Ein af söguhetjum Rortys, sem hann nefnir svo, er landi hans Wilfrid Sellars. Sellars ræðir í mörgum rita sinna hugmynd sem hann kallar „goðsögnina um hið gefna“ og hefur Rorty sérstakt dálæti á þeim þætti í hugsun hans. Goðsögnin um hið gefna er sú hugmynd að til sé eitthvað sem við þekkjum eins og það er, beint og milliliðalaust, eitthvað sem sýnir sig okkur á þann hátt að það hlýtur að vera eins og það blasir við okkur.11 Þetta er hið gefna. Hið gefna er einatt ómengað af hugmyndum okkar. Því væri ásýnd þess lituð einhverju sem við leggjum henni til, þá gætum við ekki fullyrt að það sem blasir við okkur sé sjálft eins og það birtist okkur. Það kynni að líta svona út vegna sem við leggjum því til. Á líkingamáli Rortys hljóðar hugmyndin um hið gefna svo, að til séu hlutir sem birtast í hugarspeglinum nákvæmlega eins og þeir eru, og, sem meira er, að af ásýnd þeirra blasi við að svona séu þeir.12 Að dómi Sellars gengur slík hugmynd um eitthvað gefið í gegnum heimspekisöguna. Hún er nátengd annarri hugmynd sem lengi hefur loðað við vestræna heimspeki, nefnilega þeirri að þekkingin hljóti að hvíla á traustum grunni. Grunnurinn sjálfur er gefinn, eitthvað sjálfljóst, og önnur þekking sem við höfum er svo reist á honum. Þessi hugmynd setur mjög mark sitt á alla heimspeki Descartes, eins helsta frumkvöðuls nútímaheimspeki, og margra sporgöngumanna hans síðan. Hjá Descartes er hið gefna fólgið í vitum hans sjálfs og vissu hans um hana. Því telur hann sig geta fullyrt: „Ég hugsa, þess vegna er ég til“. Á þessum sannindum, sem Descartes hyggur alveg óyggjandi, vill hann svo reisa alla aðra þekkingu.13 Hugmydin um gefinn grunn gegnir líka veigamiklu hlutverki í allri raunhyggjuhefðinni frá Locke og fram til rökfræðilegraraunhyggjumanna 20. aldar. Raunhyggjumennirnir tefla beinni skynreynslu, skynreyndum, eða öðru af því tagi fram sem hinu gefna.

Nú kallar Sellars hugmundina um hið gefna goðsögu, og á með því að hún sé tilbúningur. Að hans dómi reynist það sem heimspekingarnir leggja til sem hið gefna einatt ekki vera eins gefið og þeir láta í veðri vaka. Sérstaklega rekur Sellars af miklum skarpleik hvers vegna tillögur raunhyggjumanna um hið gefna sýnist ganga upp en geri það þó ekki ef grannt er skoðað. Raunhyggjumenn ætla að hið gefna búi í skynjun okkar. Þó telja þeir fæstir að efnislegir hlutir sem við sjáum eða þreifum á séu hið gefna – það virðist alltaf hugsanlegt að okkur skjátlist um slíka hluti – heldur búi hið gefna í sjálfri skynreynslunni. Tökum dæmi: Ég tel mig sjá þroskaðan tómat. Hugsanlega skjátlast mér. Kannski er enginn tómatur þarna. Kannski er mig að dreyma eða þetta eru ofsjónir. En hvað sem tautar og raular sé ég fyrir mér eitthvað rautt. Það verður ekki vefengt og þetta er það sem er gefið. Við getum allað þetta rauða sem birtist mér rauða skynreynd. Það er athyglisvert við skynreyndir eins og raunhyggjumenn lýsa þeim að þær virðast að þær virðast vera í senn eins konar hlutir (þó ekki efnislegir hlutir) og þekking á eða vitneskja um þessa sömu hluti: skynreyndin er rauð og hún er jafnframt bein, milliliðalaus vitneskja um eitthvað rautt. Einmitt þess vegna virðist hún vera eitthvað gefið: skynreyndin bæði er og er vitneskja um það sem hún er. Þess vegna virðist enginn möguleiki á skynvillu í tilviki hennar. Það kemst ekkert upp á milli skynreyndarinnar og vitneskju minnar um hana, vitneskjan um hana felur ekki í sér neina túlkun, heldur er hún fólgin í skynreyndinni sjálfri án þess að hugur minn leggi þar nokkuð af mörkum. En þetta er blekking, segir Sellars: við getum ekki skynjað eitthvað sem rautt í þeim skilningi að við vitum að það er rautt án þess að hafa náð tökum á hugtakinu „rauður“. En hugtakið „rauður“ er ekki gefið milliliðalaust heldur lært. Því er vitneskjan um hinn rauða flöt sem rauðan ekki bein, forhugtakaleg vitneskja, heldur felur hún í sér virkt hugarstarf þar sem við beitum hugtaki sem við höfum numið með ærinni fyrirhöfn.

Skynreyndir eins og ég hef lýst þeim eiga ýmislegt sameiginlegt með frummyndum Platons. Hvorar tveggja hafa til dæmis þann sérkennilega eiginleika að bera með sér hverjar þær eru: á hliðstæðan hátt og rauðleikur hinnar rauðu skynreyndar blasir við af henni sjálfri, geislar hver frummynd af eðli sínu þannig að þar er ekkert um að villast. Meðal raunhyggjumanna gegna skynreyndir líka að nokkru leyti áþekku hlutverki og frummyndirnar hjá Platoni: í fullskapaðri raunhyggju eru þær í senn grunnur þekkingarinnar, það sem önnur þekking hvílir endanlega á. Og uppspretta og mælikvarði merkingar orða eða hugtaka sem við notum. Til að kveða upp dóma um merkingu hugtaka vísa ég á endanum til skynreynda sem ég þekki beint og milliliðalaust. „Orðið ´rautt´ merkir svona á litinn“, segi ég og bendi innra með mér á upplifun mína af tómatinum þroskaða eða einfaldlega á rauðan flöt sem ég bý til í huga mér.

Þessari hliðstæðu langar mig til að fylgja svolítið nánar eftir. En áður en ég tek til við það vildi ég nefna fleiri til sögunnar, nefnilega aðra hetju Rortys, austurríska heimspekinginn Ludwig Wittgenstein og einnig amerískan samtímaheimspeking að nafni Saul Kripke. Raunar kann það að hljóma sem vanvirðing við Wittgenstein að kynna hann sem söguhetju hjá Rorty, því Wittgenstein hafði auðvitað áunnið sér sæti sem einn merkasti heimspekingur aldarinnar löngu áður en Rorty kom til sögunnar.14 Wittgenstein hefur lag á því að töfra lesendur sína eins og hann mun hafa töfrað marga sem kynntust honum í lifanda lífi. Allt sem liggur eftir hann hefur mjög sérstakan svip, ber með sér frumleika, alvöru og andlega áreynslu. En ekki er auðvelt að skilja Wittgenstein. Sjálfur hef ég að miklu leyti hliðrað mér hjá því að lesa síðari verk hans með það fyrir augum að mynda mér sjálfstæðar skoðanir á því hvernig allt hangir það saman.15 Á hinn bóginn þykist ég hafa skilið bók eftir hinn manninn sem ég nefndi, Saul Kripke. Sú bók heitir Wittgenstein um reglur og einkamál og kom út árið 1982 – ekki ber að skilja „einkamál“ í titlinum í þeirri merkingu sem algengust er, heldur í merkingunni tungumál sem notandi þess sjálfur fær einn skilið.16 Nú skipta bækur um Wittgenstein tugum, en með nokkrum rétti má eigna bók Kripkes sérstöðu meðal þeirra. Hún þótti strax forvitnileg þótt ekki væri vegna annars en að með henni tók ein skærasta stjarna enskumælandi heimspeki til máls um þann mann sem margir innan sömu hefðar telja mesta hugsuð kynslóðarinnar á undan. Það varð líka fljótt ljóst að hvort sem mál Kripkes stæðist sem túlkun á Wittgenstein eða ekki, þá var hugsunin sem Kripke ætlar Wittgenstein í bókinni afar áhugaverð í sjálfri sér. Enda hefur ekki staðið á viðbrögðunum: komnar eru út að minnsta kosti tvær bækur sem eru viðbrögð við bók Kripkes og fjöldi tímaritsgreina að auki.17

Meginhugmyndin i rökfærslu Wittgenstein, eins og Kripke útleggur hana, er sú að mælikvarðar á merkingu séu engir til. Nánar sagt þá er ekkert við sjálfan mig, hvorki sál mína né líkama, sem sker úr um nákvæmlega hvað ég meina með orði sem ég nota og hvað ég meina ekki. Segjum að ég sé spurður hvað 58 + 67 sé mikið. Ég svara eftir svolitla umhugsun að það sé 125. Hjá mér er staddur útsmoginn efahyggjumaður. Hann innir mig eftir því hvernig ég geti verið viss um að þetta sé útkoman fremur en einhver önnur tala, t.d. milljón eða 5. Ég segi honum að ég viti hvað samlagning sé og hvað „plús“ merki og sú vitneskja geri mér kleift að útiloka slík svör. En efasemdamaðurinn lætur ekki segjast og spyr hvort það sé einhver partur af skilningi mínum á orðinu „samlagning“ eða plústákninu að útkoman úr þessu tiltekna dæmi sé einmitt 125 fremur er 5. Ef til vill verð ég að fallast á að svo sé ekki, ég hafi aldrei lagt einmitt þessar tvær tölur saman áður, og alltént sé hin almenna hugmynd mín um samlagningu ekki listi yfir útkomur úr öllum hugsanlegum samlagningardæmum. Eigi að síður kynni ég að reyna að segja: „Ég veit hvað ég hef meint með ´plús´ og ´samlagning´ hingað til og ég veit að ef ég fylgi sömu reglum og áður þá er 125 rétta svarið, en svörum 5 eða milljón á hinn bóginn útilokuð.“ „Gott og vel“, segir efasemdamaðurinn, „segjum að ef þú ert að leggja saman, þá sé 125 raunar eina rétta svarið. En nú getum við hugsað okkur aðra reikningsaðgerð, ´rammlagningu´ getum við kallað hana, sem er alveg eins og samlagning nema hvað útkoman þegar þessari aðgerð er beitt á 68 og 57 er 5. Hvernig veistu nema það hafi verið rammlagning fremur en samlagning sem þú hafðir í huga? Er eitthvað einhvers staðar við þig sem sýnir að það hafi í rauninni fremur verið samlagning sem þú meintir hingað til?“ Því miður – eða ætti ég heldur að segja sem betur fer? – er ekki tóm til að rekja þessi orðaskipti frekar. Látum nægja að segja að Kripkenstein – svo skulum við nefna Wittgenstein eins og Kripke útleggur hann – komist að þeirri niðurstöðu að engin augljós svör af því tagi sem við væntum finnist við mótbárum efasemdamannsins og svo ótrúlegt sem það kann að ljóma, þá sé sú niðurstaða býsna sannfærandi. Sérstaklega er vert að benda á að ekki tjóir að svara efasemdunum á þá leið að túlkun mín á reglunni sem ég hef beitt við samlagningu hingað til styðjist við aðrar reglur sem útiloka svör á borð við 5. Að skírskota til annarra reglna færir vandann aðeins eitt skref afturábak en eyðir honum ekki: sé hægt að vekja efasemdir um að svarið 125 sé í samræmi við regluna sem ég hef stuðst við hingað til í áþekkum tilvikum, þá má eins vekja þær um innihald allra stuðningsreglna sem ég kann að skírskota til til varnar skilningi mínum á upphaflegu reglunni. Ef vafi kann að leika á túlkun orðs sem ég nota á þann hátt sem efasemdamaðurinn gefur í skyn, þá leikur sams konar vafi á túlkun hvaða reglu sem ég reyni að styðjast við til að réttlæta túlkun mína á upphaflega orðinu.18

Rétt er að nefna að þessar efasemdir eru á engan hátt bundnar við stærðfræðileg dæmi, heldur eiga þær jafnt við um merkingu annarra orða í málinu. Efasemdamaðurinn hefði eins getað skorað á mig að sýna fram á að notkun mín á orðunum „gaffall“ eða „skeið“ nú sé í samræmi við það sem ég hef hingað til meint með þeim. Hver veit nema að með „gaffall“ hafi ég átt við gaffla, nema svo vilji til að ég sé staddur í Iðnó milli 2 og 4, 7. desember 1991, en þá merki „gaffall“ það sem ég annars kalla hárgreiður? Annað atriði sem vert er að benda á er að í rauninni snýst þetta mál ekki um hugsanlega vafa og efasemdir.19 Kripke setur það bara þannig fram. Efasemdamaðurinn er í rauninni ekki svo mjög í mun að fá mig til að efast um að ég hafi meint samlagningu fremur en rammlagningu, heldur er hann að skora á mig að benda á einhverja staðreynd eða staðreyndir sem skeri úr um að ég hafi meint þetta fremur en hitt.

Kripkenstein tekur því næst skipulega fyrir helstu kenningar heimspekinga um hvað ákvarði merkingu, hvaða staðreyndir um mig það séu sem geri að verkum að meina samlagningu þegar ég segi „plús“ fremur en til dæmis rammlagningu. Slíkar kenningar eru einkum af tvennum toga. Annars vega eru atferlis- og hneigðakenningar, sem ætla að til séu efnislegar staðreyndir um mig, og þá væntanlega einkum um taugakerfi mitt, sem valda því að ég svara spurningum á borð við „Hvað er 68+57 mikið?“ oftast rétt (og „rétt“ merkir hér það sem samlagning krefst). Í grundvallaratriðum eru þetta áþekkar staðreyndir og þær sem gera að verkum að vasatölva leysir svona dæmi yfirleitt rétt. Það væri fyrir utan meginefni okkar hér að rekja ástæður Kripkensteins fyrir að hafna svörum af þessum toga, áhugaverðar eins og þær þó eru í sjálfum sér.20 Hins vegar eru kenningar sem freista þess að svara efasemdamanninum í nafni einhvers konar upplifunar okkar. Í sinni einföldustu mynd hljóðar svar af þessum toga á þessa leið: því að meina plús fremur en rús, (þar sem rús svarar til rammlagningar) samsvarar alveg ákveðin tilfinning, „samlagningartilfinningin“ gætum við nefnt hana; til að vita að við meinum í rauninni plús þurfum við ekki annað en að aðgæta hvort þessi tilfinning er til staðar hjá okkur eða ekki. En svar efasemdamannsins við þessu blasir við: „Segjum að svona tilfinning sé ávallt til staðar þegar við leggjum saman (þótt hægðarleikur sé að efast um að svo sé í öllum tilvikum). En hvernig veistu að þetta er samlagningartilfinning fremur en til dæmis rammlagningartilfinning?“

Ég ræddi áðan um hugmyndir raunhyggjumanna um hið gefna. Við erum komin að þeim aftur hér. Í hefðbundinni raunhyggju eins og hjá Hume gegna tilfinningar veigamiklu hlutverki. Þær eru hið gefna. En gallinn við slíkar tilfinningar er að þær bara sýnast vera gefnar en eru það ekki. Fyrir þessu færir Sellars sannfærandi rök og einnig Wittgenstein í nafni hins síðarnefnda.

Mér hefur nú orðið helstil langrætt um hinn hvimleiða efahyggjumann Kripkensteins. Er ekki augljóst hvernig svo sem á því stendur að við getum öll lagt saman tölur, vitum hvað á að kalla gaffal og hvað hárgreiðu og svo framvegis? Vandi efasemdamannsins er í mesta lagi bara fræðilegur: sú staðreynd að við erum sjaldnast í nokkrum vafa og ber saman að mestu leyti um hvað sé hvað, sýnir að það er lausn á þessum vanda. Um það er heldur ekki deilt. Kripkenstein setur sjálfur fram lausn. En sú lausn felst ekki í því að svara efasemdamanninum, heldur er fallist á mál hans og borin fram lausn á vandanum sem á að skýra að við vitum vel hvað við meinum án þess að nokkur staðreynd útkljái málið. Með einhverjum hætti á það að vera félagslegt fyrirbæri að ég meina samlagning fremur en rammlagning. Hyggjum örlítið nánar að hvað í þessu felst.

Það virðast næsta augljós sannindi að tungumál er félagslegt fyrirbæri í ýmsum skilningi. Börn læra til dæmis móðurmál sitt af öðrum og til þess að tungumál sé nothæft í samskiptum manna verða notendurnir að vera nokkurn veginn sammála um hvernig ber að nota það: margvísleg vandræði hlytust til dæmis af því að ég, sem annars talaði venjulega íslensku, skildi og notaði orðasambandið „til vinstri“ eins og aðrir skilja og nota „í norðvestur“. Fáir munu neita því að tungumál sé félagslegt í þessum skilningi. Hugmynd Kripkensteins um félagslegt eðli merkingar gengur hins vegar miklu lengra en þetta. Samkvæmt henni ræðst merking einvörðungu af því hvað viðtekið er í samfélaginu af notendum tungumálsins og, sem meira er, notendurnir hafa ekkert í höndunum, hvorki sem einstaklingar né sem hópur, til að réttlæta notkun sína: „Svona förum við að“, er hið endanlega svar við spurningum um merkingu. Segjum að maður nokkur taki upp á því að leysa einföld samlagningardæmi á undarlegan hátt eins og lýst var áðan. Hann leggur yfirleitt saman eins og við hin nema hvað undrum og sinnum gefur hann furðuleg svör. Hann fullyrðir til dæmis að 67 plús 58 sé 5. Hvað er að þessum manni? Ekkert annað en það, segir Kripkenstein, að hann ber sig öðruvísi að en hæfa þykir. Málið er að maðurinn hafi ekki alveg skilið almenna reglu eða almennt hugtak um samlagningu sem allir hæfir samleggjendur varði að hafa á valdi sínu. Villa hans er fremur sambærileg við brot á mannasiðum eins og þegar maður rekur út úr sér tunguna þegar honum er heilsað. Endanlegt svar við því hvað athugavert sé við þvílíka framkomu er að svona geri maður ekki, þetta sé ekki siður hér hjá okkur. Það virðist skynsamlegt að skírskota til þess hvað er viðtekið og hvað ekki þegar um er að ræða einberar kurteisisreglur. En mér virðist það óviðunandi sem svar við því af hverju 5 sé ekki boðlegt svar við spurningunni „hvað er 67 plús 58 mikið?“ Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að sjá málið í þessu ljósi stendur eftir hjá mér einlæg sannfæring um að svarið „5“ sé ekki sambærilegt við sérvisku eða dónaskap, heldur rangt vegna þess að það samræmist ekki almennri hugmynd okkar um samlagningu. En þá er rökum Kripkensteins gegn gildi þvílíkra almennra hugmynda að mæta.

Það er athyglisvert og ætti raunar ekki að koma á óvart í ljósi þess sem þegar hefur verið sagt að finna má viss samkenni á tillögunum sem Kripkenstein skoðar um staðreyndir sem skeri úr um að við meinum gaffal með „gaffall“, samlagningu með „plús“ og svo framvegis. Það er ákveðin regla í því hvað bregst í tillögunum. Staðreynd um mig sem gæti ákvarðað að ég meina gaffal með „gaffall“ hlýtur að vera þeirrar náttúru að hún ber með sér hver hún er. Hver sem þessi staðreynd kann að vera, hlýtur hún að vera þess eðlis að af henni sjálfri sé ljóst að ég meina plús en ekki rús, gaffall en ekki hárgreiða ef ég er staddur í Iðnó milli 2 og 4, 7. desember 1991. Allar tillögurnar sem Kripkenstein skoðar bregðast vegna þess að staðreyndirnar sem um er að ræða skortir þennan eiginleika. Lítum samt aftur á tilgátuna um sérstaka „samlagningartilfinningu“. Örðugt er að ímynda sér að við slíka tilfinningu sé eitthvað sem gerir að verkum að einmitt þessi tilfinning gæti ekki verið annað en samlagningartilfinning. Til að gegna hlutverki sínu sem mælikvarði á merkingu verður slík tilfinning með einhverjum hætti að bera með sér að hún sé mælikvarði nákvæmlega á þessa merkingu fremur en hina og það er meira en hægt er að ætlast til af nokkurri venjulegri tilfinningu.

Með öðrum orðum: Kripkenstein er að leita að einhverju sem hefur sama eiginleika og frummyndir Platons: að bera með sér hvað það er. En hann finnur ekkert slíkt í þeim tillögum sem hann skoðar. Frummyndirnar áttu einmitt að hafa þennan eiginleika að vera sjálfar það sem þær eiga að skýra í öðrum hlutum og vera það með þeim hætti að það er sjálfljóst að þær eru það: að frummynd fegurðarinnar sé fögur er jafn ljóst af henni sjálfri og að vatn sé blautt. Í dæmi Kripkensteins af samlagningu myndi frummynd samlagningarinnar vera samlagningin sjálf, hvað sem það nú er, eitthvað sem ber með sér að það er samlagning fremur en til dæmis rammlagning. Ennfremur er ljóst að það sem Kripkenstein er að leita að en finnur ekki á það sammerkt með platonskum frummyndum að vera ópersónulegt. Ef við hefðum hvert um sig okkar einkaviðmið til að skera úr um hvað við meinum, þá væri auðvitað úti um allt samkomulag og úti um að einn hefði réttara fyrir sér en annar.

Ég gat áðan þeirra ummæla Richards Rorty að auðvitað hefði Platon verið besti platonistinn. Við höfum nú vonandi fengið hugboð um að talsvert virðist vera til í þessu hjá honum. Efasemdir Kripkensteins um merkingu kunna að virðast bæði afmarkaðar og akademískar. Eigi að síður hygg ég að þær séu í raun afar víðtækar. Mig grunar að þær séu alvarlegasta ógnunin við sjálfa forsendu heimspekilegrar ástundunar eins og hugmynd okkar um hana hefur mótast í hefð okkar allar götur frá Platoni og forverum hans meðal Grikkja. Hver er þessi forsenda? Ef til vill má koma mjög almennum orðum að henni á þá leið að veruleikinn sjálfur sé skiljanlegur, og að endanlegur skilningur, ef hann næst, sé innsæi einstaklings í það hvernig hlutirnir hljóti að vera. Hugmynd Kripkensteins um að meina eitt fremur en annað sé að tileinka sér viðtekinn lífsstíl sem óhugsandi sé að réttlæta frekar, gerir þessa hugsjón að engu: engin nauðsynleg bönd tengja saman hugsunina og málið annars vega og veruleikann hins vegar.

Það hefur sem sagt komið í ljós að ef við viljum forðast slíka niðurstöðu þurfum við á frummyndum eða einhverju sem líkist þeim mjög að halda. Er það vænlegur kostur? Því get ég ekki svarað afdráttarlaust. En ég ætla að endingu að víkja stuttlega að þremur atriðum sem skipta máli í þessu sambandi.

Sérhverri góðri rökfærslu má snúa á hvolf: ef góð rökfærsla leiðir til niðurstöðu sem mér finnst óviðunandi, er ég alls ekki neyddur til að sætta mig viðniðurstöðuna umsvifalaust. Ég get allt eins sagt sem svo: þetta er raunar rökrétt niðurstaða, en hún er bersýnilega fráleit, sem þýðir að það er eitthvað bogið við einhverja af forsendunum sem hún hvílir á. Segjum að við föllumst til dæmis á svofellda rökfærslu:

(1) (a) Skilningur er annað hvort hreint hugarstarf, innsæi einstaklings inn í það hvernig hlutirnir hljóti að vera, eða (b) skilningur er einber fylgni og jánkun við viðtekna siði í samfélaginu: að skilja er bara að vita hvað hinir myndu segja og játast því.
(2) Ef (a) er raunin, hljóta að vera til hlutir sem bera með sér hvað þeir eru.
(3) En engir slíkir hlutir eru til.
(4) Þá er (a) ekki raunin.
Svo að:
(5) (b) er raunin: að skilja er bara að vita hvað hinir myndu segja og játast því.

Mér er frjálst að neita að trúa þessari niðurstöðu og því neita ég raunar. Þá sný ég ályktuninni við svona:

(1) (a) Skilningur er annað hvort hreint hugarstarf, innsæi einstaklings inn í það hvernig hlutirnir hljóti að vera, eða (b) skilningur er einber fylgni og jánkun við viðtekna siði í samfélaginu: að skilja er bara að vita hvað hinir myndu segja og játast því.
(2) En skilningur getur ekki verið einber fylgni og jánkun við viðtekna siði í samfélaginu: að skilja er ekki bara að játast hinu viðtekna.
(3) (a) er raunin: það hljóta að vera til hlutir sem bera með sér hvað þeir eru.

Með öðrum orðum, ég er að gefa í skyn að niðurstaða Kripkensteins (og Rortys og allra hinna andplonistanna) kunni að vera fráleitari en trúin á frummyndir. Það kann að bera góð goðsögn sem við hljótum að trúa að í huga okkar búi ekki aðeins skuggar á vegg, heldur hafi hugsun okkar aðgang að hlutunum sjálfum böðuðum í ljósi sólar.

En ef við finnum engar frummyndir, er þá ekki trúin á þær næsta haldlaus? Kemur goðsögnin að gagni nema við getum að minnsta kosti talið okkur trú um að við sjáum þær? Þetta er satt að segja góð en jafnframt afskaplega erfið spurning sem krefst miklu ítarlegri umfjöllunar en hér er ráðrúm til. Eitt skal þó bent á. Þegar Platon lýsir frummyndunum er hann sífellt að brýna fyrir okkur að skynjun þeirra sé ólík skynjun skilningarvitanna. Eigi að síður styðst hann stöðugt við líkingamál ættað frá skynjuninni, einkum sjóninni, þegar hann er að lýsa þeim og hvernig við nemum þær.21 Sjálfur hef ég víða notað slíkt líkingamál hér framan. Þegar ég tók til dæmis þannig til orða að það blasi við af hverri frummynd hver hún er, er auðvitað um líkingamál að ræða. Þá er talað um frummyndirnar eins og eitthvað sem birtist sjónum okkar. Vera má að þetta sé villandi líking, þótt ekki sé auðséð hvernig á að útrýma henni og halda jafnframt öðrum einkennum frummyndanna til haga. Ekki er nóg með að það sé sjaldgæf reynsla að sjá frummyndir. Ef þekking okkar á frummyndum er eins og að sjá, þá virðumst við sitja uppi með sama vandann: hvernig getur eitthvað sem við eins og sjáum borið með sér hvað það er? Vera má að Platon hafi að minnsta kosti öðrum þræði gert sér grein fyrir þessum takmörkunum sjónlíkinganna. Alltént grípur hann stundum til annars konar líkinga til að lýsa æðstu og fullkomnustu þekkingu, nefnilega líkinga við samveru og snerting, sem á stundum jaðra við að vera kynferðislegar.22 Allt um það, gæti ekki hugsast að aðgangur huga okkar að frummyndum sé einhvern veginn með allt öðrum hætti en sjón? Gæti ekki hugsast að við nemum þær án þess að gera okkur nokkra mynd af þeim í huganum? Og ef svo er, er þá nokkuð að undra að örðugt reynist að benda á þær, að frummyndir virðast ekki vera meðal þeirra hluta sem við getum skoðað innra með okkur? En þær væru til eigi að síður og við myndum nota þær.

Þetta leiðir okkur að síðasta atriðinu sem ég vildi víkja að. Ég gat um það hér í upphafi að frummyndakenningin hefði haldið velli í breyttri mynd í síðfornöld. Hún var tekin upp af kristnum hugsuðum svo sem heilögum Ágústínusi og þá í þeirri mynd sem heiðnir fylgismenn Platons í síðfornöld bjuggu henni. Hjá þessum kristnu mönnum urðu frummyndirnar að hugsunum Guðs23 í stað þess að vera sjálfstæður veruleiki, hvorki huglægur né efnislegur, eins og þær virðast oftast vera hjá Platoni.24 Sá sem rekur smiðshöggið á hina kristnu frummyndakenningu var Plótínos sem uppi var á 3ju öld eftir Krist og er oft nefndur síðasti mikli heiðni heimspekingurinn. Samkvæmt Plótínosi eru frummyndirnar hugsanir ópersónulegs guðlegs huga. Hugar okkar mannanna eiga sér rætur í þessum guðlega huga, eru með einhverjum hætti eitt með honum. Ástæður þess að Plótínos bjó frummyndunum vist innan huga guðs fremur en utan eru einkar fróðlegar með hliðsjón af viðfangsefni þessarar ritgerðar. Svo virðist sem hann hafi haft áhyggjur af rökum efahyggjumanna gegn þekkingu hvort heldur á einhverju sem er utan við hugann sem þekkinguna hefur eða þekkingu hugans á sjálfum sér. Honum var í mun að sjá við þessum efahyggjurökum, ekki síst ef þeim var veitt gegn þekkingu hins guðlega huga, sem samkvæmt skilgreiningu hefur til að bera fullkomnustu þekkingu sem hugsast getur. Ef frummyndirnar eru utan huga guðs, þá hefur guð aðeins beinan aðgang að eftirmyndum þeirra sem þrykkjast á huga hans og þá er guðleg hugsun á sama báti og jafn blind og skynjun skilningarvitanna. Séu frummyndirnar aftur á móti innan huga guðs, en með þeim hætti að guð sér þær fyrir sér eins og við sjáum fyrir okkur t.d. beinhvítan lit í huganum, þá hlýtur guð að dæma að þetta sér beinhvítt með því að skírskota til einhvers annars en litarins sem hann sér fyrir sér – liturinn í ímyndun guðs ber ekki með sér hver hann er, hann segir ekki „hæ, hæ, ég er beinhvítt!“, og hann er heldur ekki með merkimiða. (Ef hann væri með merkimiða, þá vaknar spurningin hvort miðinn sé réttur; ef guð hefur ekkert í höndunum annað en ímyndaðan lit með merkimiða og hann getur ekki verið viss um að liturinn sé rétt merktur, hver getur það þá?) Þvílíkar vangaveltur leiða Plótínos að þeirri niðurstöðu að frummyndirnar sér sjálfar hugsanir guðs. Raunverulegur sannleikur, segir hann, sem eru hugsanir guðs, „er ekki samsvörun við eitthvað annað, heldur við sjálfan sig, og hann segir ekkert annað en sjálfan sig, en hann er það sem hann segir og hann segir það sem hann er.“25 Með þessu á Plótínos við að í hugsunum guðs séu vitneskja og veruleiki einn og sami hluturinn.26 Hér erum við auðvitað enn komin að vandanum um hið gefna og sú spurning blasir við hvort Plótínos og guð hans séu nokkuð betur staddir en raunhyggjumennirnir sem vildu láta skynjanir í senn hafa eiginleika til að bera og vera þekking á þessum eiginleikum. Líkingin leynir sér ekki. Á hinn bóginn er ekki víst að gagnrýni Sellars á hugmyndir raunhyggjumanna um hið gefna hríni á Plótínosi, því hann leggur áherslu á að hugsanir guðs séu ekki skynræn reynsla: guð sér ekki ímyndir í huga sér sem hann þarf að túlka eða sem eiga að vera sjálfgefnar. Guð notar ekki tákn í hugsunum sínum, heldur eru hugsanir hans hið vitræna inntak sjálft, merkingin, sem við mennirnir svo höfum ýmis tákn og ímyndir fyrir. Slík guðleg hugsun verður auðvitað næsta dularfull áður en lýkur. En gleymum því ekki að venjuleg mannleg hugsun er líka dularfull hvernig sem á málið er litið. Skyldi plótínsk dulhyggja vera álitlegasti kosturinn sem okkur stendur til boða, ef við höfnum efahyggju Wittgensteins Kripkes? Ef til vill. Sjálfum hugnast mér betur að hið dularfulla sé fyrir ofan okkur en mitt á meðal okkar.27

 

Tilvísanir

1. Frummyndakenningin kemur ljósast fram í eftirtöldum samræðum Platons: Samdrykkjunni, Kratýlosi, Faídoni, Ríkinu, Faídrosi og Tímaíosi. Kenningin er til umræðu í Parmenídesi, þar sem raunar kemur fram hörð gagnrýni á hana. Umdeilt er hvort Platon sjálfur fellst á þessa gagnrýni. Ítarlegustu umfjöllun um frummyndakenninguna á íslensku er að finna í inngangi mínum að Ríkinu eftir Platon, (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, Lærdómsrit 1991) og í „Frummyndakenning Platons“, B.A.-ritgerð Jóns Kalmanssonar, Háskóla Íslands 1992.

2. Harold Cherniss, „The Philosophical Economy of the Theory of Ideas“, The American Journal of Philology 57 (1936), 445-56.

3. Sbr. Þeætetos 166 C-170 A.

4. Protagoras frá Abderu, brot 1 = Díogenes Laírtíos, Heimspekingaævir 9, 50.

5. Sbr. Gorgías frá Leontíni, brot 3 = Sextos Empeirikos 7, 65 o.áfr., sbr. einnig Aristóteles, De Melisso, Xenophane, Gorgia 971 a 11 o.áfr.

6. Sjá til dæmis Faídon 74 B-C.

7. Aristóteles, Metafysika (Frumspekin) 990a 34 og 1078b 34.

8. Dæmigerður stærðfræðilegur Platonismi kemur fram í riti Godfreys Harolds Hardy, Málsvörn stærðfræðings, sem birtist í íslenskri þýðingu Reynis Axelssonar (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, Lærdómsrit, 1972). Um Platonisma Freges má fræðast af riti hans, Undirstöðum reikningslistarinnar (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, Lærdómsrit, 1989), íslensk þýðing Kristjáns Kristjánssonar, og af inngangi Guðmundar Heiðars Frímanssonar að þeirri útgáfu.

9. Þessar hugmyndir setur Rorty fyrst fram í Philosophy and the Mirror of Nature (Princeton, N.J.: Princeton University Press, 1979). Sjá einnig Consequences of Pragmatism (Minneapolis: University of Minnesota Press, 1982) og Objectivity, Relativism and Truth: Philsophical Papers (2 bindi) (Cambridge: Cambridge University Press, 1991).

10. Um þennan skyldleika sjá Rorty, „Philosophy as a Kind of Writing“ í Consequences of Pragmatism, bls. 101-109. ein ritgerð eftir Derrida hefur birst á íslensku: „Formgerð, tákn og leikur í orðræðu mannvísindanna“, þýðandi Garðar Baldvinsson, í ritsafninu Spor í bókmenntafræði 20. aldar, ritstj. Garðar Baldvisson, Kristrún Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991), bls. 129-152.

11. Sjá til dæmis Wilfrid Sellars, Science, Perception and Reality (London: Routledge and Kegan Paul, 1963), bls. 69-70, 129-34 og 156-61.

12. Sbr. Philosophy and the Mirror of Nature, bls 164.

13. Sjá til dæmis René Descartes, Orðfræða um aðferð (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, Lærdómsrit 1991), íslensk þýðing Magnúsar G. Jónssonar, einkum bls. 98-100, og inngang Þorsteins Gylfasonar bls. 49-54.

14. Yfirlit yfir heimspeki Wittgensteins er að finna hjá Þorsteini Gylfasyni, „Ludwig Wittgenstein“, Hugur (1989), bls. 5-22.

15. Þeirra þekktast er Philosophische Untersuchungen (Rannsóknir í heimspeki). Það er hluti þess verks, ## 138-242, sem er einkum til umræðu í bók Kripkes.

16. Saul A. Kripke, Wittgenstein on Rules and Private Language (Cambridge, Massachusetts: Harvard University Press, 1982).

17. G. P. Baker og P. M. S. Hacker, Scepticism, Rules, and Language (Oxford: Basil Blackwell, 1984) og Colin McGinn, Wittgenstein on Meaning: An Interpretation and Evaluation (Oxford: Basil Blackwell, 1984). Gagnlega umfjöllun um þetta efni og yfirlit yfir helstu skoðanir er að finna hjá Paul Boghossian, „The Rule-Following Considerations“, Mind 98, nr. 392 (1989), bls. 507-49. Sjá einnig Þorstein Gylfason, „Ludwig Wittgenstein“, bls. 18-20, þar sem kemur fram gagnrýni á túlkun Kripkes og önnur reifuð í staðinn.

18. Sjá Kripke, sama rit, bls. 17, sbr. Ludwig Wittgenstein, Philosophische Untersuchungen #198.

19. Sjá Crispin Wright, „Kripke’s Account of the Argument Against Private Language“, Journal of Philosophy 81, nr. 12 (1984), bls. 761-2 og Boghoassian, „The Rule-Following Considerations“, bls. 511-16.

20. Sjá Kripke, bls. 25-39.

21. Mál Platons um frummyndirnar er barmafullt af sjónrænum líkingum, sbr. tal hans um mannshugann, „auga sálarinnar“, sem „sér“ frummyndirnar. Glögg dæmi um þetta eru í hinum frægu líkingum af sólinni og hellinum í Ríkinu 506 B-519 C og í Faídrosi 249 E-50 C. Richard Hare reynir að leiða rök að því að Platon hafi hugsað sér að reynslan af „að sjá frummynd“ sé einmitt sú reynsla að sjá mynd af því sem frummyndin er frummynd af í huganum (sjá ritgerðina „A Question about Plato’s Theory of Ideas“ í ritsafni Hares, Essays on Philosophical Method (London: MacMillan, 1971), bls. 54-79; ritgerðin birtist upphaflega í The Critical Approach: Essays in Honor of Karf Popper, ritstj. Mario Bunge (Free Press of Glencoe, 1964)). En hæpið er að þetta standist meðal annars vegna þess að ógerningur virðist að búa til mynd í huga sér af helstu frummyndum svo sem frummynd hins góða.

22. Sbr. Ríkið 490 B: „[Heimspekingurinn] heldur ótrauður áfram án þess að ástareldur hans dofni allt þar til hann hefur þreifað á sjálfu eðli hvers hlutar með þeirri gáfu sálarinnar sem til þess er fallin, en það er sú sem er eðli hlutanna samkynja. Og þannig kemst hann í námunda við það og sameinast hinum sanna veruleika og getur af sér skilning og sannleika, og vaknar til vitundar og lifir að fullu og dafnar. Þá en ekki fyrr slotar fæðingarhríðunum.“

23. Sjá til dæmis heilagan Ágústínus, De libero arbitrio (Um frelsi viljans).

24. Þessi Platonismi kristinna kennimanna í fornöld tengdist oft túlkun þeirra á hinum frægu upphafsorðum Jóhannesarguðspjalls: „Í upphafi var orðið, orðið var hjá Guði og orðið var Guð.“ Gríska orðið fyrir „orð“ hér er logos, sem getur þýtt fjölmargt svo sem „skynsemi“, „hlutfall“, „setning“, „hugsun“ og var líka eitt þeirra orða sem fylgismenn Platons notuðu yfir frummyndir.

25. Plótínos, 5. Níund, 5. 2, 18-21, sbr. 5. 3. 5, 26.

26. Um þetta er ítarlega fjallað í ritgerð minni „Plotinus on the Objects of Thought“, sem mun birtast í Archiv für Geschichte der Philosophie á næstunni.

27. Ritgerð þessi er að stofni til fyrirlestur sem fluttur var á aðalfundi Hins íslenska bókmenntafélags, sem haldinn var í Iðnó 7. desember 1991. Við endanlegan frágang hef ég notið góðra ábendinga frá starfsbræðrum mínum Þorsteini Gylfasyni og Páli Skúlasyni og ennfremur frá ritstjórum Skírnis.

 

« Til baka

Um Plótínos og verk hans

eftir Eyjólf Kjalar Emilsson

Plótínos, höfundur ritgerðar þeirrar um fegurðina sem hér birtist, var uppi á þriðju öld e. Kr. Óvíst er um uppruna hans, þótt líkur bendi til þess að hann sé fæddur í Egyptalandi. Menntun sína hlaut hann alltént í Alexandríu, einhverri mestu menningarborg þessa tíma. Um fertugt fluttist Plótínos til Rómaborgar og stofnaði þar skóla. Ritgerðir þær sem hann skildi eftir sig og ritaðar eru á grísku virðast sprottnar beint úr málstofum sem hann hélt í skóla sínum.

Plótínos eftirlét nemanda sínum, Porfýríosi, að búa ritgerðirnar til útgáfu, og byggjast allar síðari tíma útgáfur á henni. Porfýríos flokkaði ritgerðirnar eftir efni og skipti þeim í sex hluta sem innihalda níu ritgerðir hver. Hver þessara sex hluta nefnist Níund (Enneas). Þannig höfum við sex Níundir með níu ritgerðum, fimmtíu og fjórum alls. Tölspekilegar ástæður lágu að baki þessari tölu – fimmtíu og fjórir eru þrír í þriðja veldi sinnum tveir, en tveir og þrír og veldi af þeim voru helgar tölur í grískri talnaspeki. Einatt er vísað til ritgerða Plótínosar eftir Níund í stað innan Níundar. Þannig er ritgerðin sem hér birtist I. 6., það er að segja furstaNíund, sjötta ritgerð.

Porfýríos skeytti framan við útgáfu sína Ævi Plótínosar, þar sem hann segir frá lífi læriföður síns, kennslu og ritstörfum, auk þess sem hann gerir grein fyrir útgáfu sinni. Þetta verk er ekki aðeins ómetanleg heimild um Plótínos, heldur almennt um heimspekinga og menntalíf á þessum tíma. Af Ævi Plótínosar má ráða að bæði kennsla hans og rit hafi þótt óvenjuleg. Grípum niður í frásögn Porfýríosar af kennslunni:

Eitt sinn spurði ég, Porfýríos, hann út úr í þrjá daga um hvernig sambandi sálarinnar við líkamann væri háttað, og hann hélt áfram að útskýra. Maður nokkur, Þámasíos að nafni, sem hafði áhuga á almennum fyrirlestri, kom þar að. Hann kvaðst óska að heyra Plótínos flytja efni til birtingar á bók og ekki þola að hlusta á svör og spurningar Porfýríosar. Plótínos svaraði: „Ef okkur tekst ekki að greiða úr ráðgátunum sem vakna við spurningar Porfýríosar, höfum við ekki nokkurn skapaðan hlut til að setja í bókina.“1

Og Porfýríos segir ennfremur:

Þegar Plótínos var búinn að skrifa eitthvað, gat hann ekki hugsað sér að fara tvisvar yfir það. Að lesa það og yfirfara einu sinni var honum jafnvel ofviða, því sjónin gagnaðist honum ekki til lestrar. […] Hann gaf sig óskiptan að hugsuninni, og okkur öllum til undrunar, hélst hann þannig til síðasta dags. Hann gekk frá viðfangsefni sínu frá upphafi til enda í huganum og þegar hann skrifaði það síðan niður, skrifaði hann án afláts það sem hann hafði skiptað niður innra með sér eins og hann væri að rita upp úr bók.2

Síðustu aldir fornaldar var allur þorri heimspekinga hallur undir hugmyndir Platons: hann var talinn hafa höndlað hin dýpstu og mestu sannindi og var höfuðverkefni heimspekinnar að útleggja hann rétt. Þessi platonismi síðfornaldar, sem raunar sótti margt til fleiri fornra heimspekinga en Platons og var í sumum greinum sjálfum frumleg stefna, er jafnan nefndur nýplatonismi og Plótínos talinn upphafsmaður hennar. Víst má deila um hvort Plótínos hafi markað nokkurt upphaf nýrrar stefnu, en ekki er um það deilt að hann var frumlegastur og mestur hugsuður þessara fylgismanna Platons og, ef til vill ásamt Próklosi, sá áhrifamesti.

Nýplatonisminn var hin viðtekna heimspeki í Rómaveldi þegar kristni var að breiðast út og margir fylgismanna hans heiðingjar sem tóku trú sína og heiðna arfleifð mjög alvarlega. Framan af veittu þeir kristindóminum viðnám, en heiðnin varð sem kunnugt er um síðir að játa sig sigraða. Eftir á að hyggja ættu þessir heiðnu heimspekingar þó að geta unað sæmilega við sinn hlut: þótt trú þeirra og margt annað sem þeim var kært hafi verið upprætt, gegnsýrði heimspeki þeirra hugmyndaheim andstæðinganna, hinna kristnu kirkjufeðra. Flestir helstu kenningasmiðir kristinnar guðfræði mega kallast kristnir platonistar og sumir þeirra, svo sem Ágústínus, Gregoríos frá Nyssa og Bóethíus, sækja beint í smiðju Plótínosar. Margir aðrir gera það óbeint, og raunar eru þræðirnir sem tengja heiðna platonista síðfornaldar við hugmyndaheim síðari alda ótrúlega margir og margslungnir. Richard Wallis ýkir varla að neinu ráði þegar hann skrifar: „Í yfirliti yfir áhrif nýplatonismans felst hótun um að skrifa næstum alla menningarsögu Evrópu og Miðausturlanda fram á endurreisnartíma, og í sumum greinum langtum lengra.“3

Rit Plótínosar voru óþekkt á Vesturlöndum á miðöldum, eins og flest önnur grísk heimspekirit, þótt margar hugmyndir hans væru löngu rótfastar. Bót var ráðin á þessu í lok 15. aldar þegar Marsilio Ficino þýddi Níundirnar á latínu og gaf út.4Þýðing þessi var endurútgefin mörgum sinnum á 16. og 17. öld. Ekki síst fyrir tilstilli Ficino þessa varð platonismi tískustefna um hríð, fyrst á Ítalíu og síðar í Frakklandi og á Englandi. Við túlkun sína á ritum Platons höfðu Ficino og fylgismenn hans hugmyndir Plótínosar og annarra heimspekinga síðfornaldar að leiðarljósi, enda virtu þeir þessa lærisveina til jafns við meistarann sjálfan. Til dæmis var eitt áhrifamesta verk Ficinos ný „samdrykkja“, þar sem gestir halda ræður um Samdrykkju Platons.5 Ritgerð Plótínosar um fegurðina, sem hér fylgir, er sjálf eins konar ritskýring eða útlegging á höfuðhluta Samdrykkjunnar, ræðu Díotímu, og þegar Ficino tekur við að útleggja Platon, sér hann verk hans í ljósi hugmynda Plótínosar um fegurð og ást. Þessi ritgerð Plótínosar ásamt annarri ritgerð hans um sama efni, „Um hina huglægu fegurð“ (V. 8.), hefur því sett varanlegt mark á hugmyndir vestrænna manna um eðli fegurðarinnar og stað hennar í tilverunni.

Platonismi að hætti Ficinos (eða Plótínosar) leið endanlega undir lok sem meginstraumur í heimspeki á 17. öld,6 en skildi eftir sig umtalsverð spor. Innan heimspekinnar sjálfrar má til dæmis víða finna slík spor hjá Descartes, Spinoza, Leibniz og Berkeley, en greinilegust og dýpst eru þau hjá þýskum náttúruspekingum og hughyggjumönnum 18. og 19. aldar, mönnum á borð við Goethe, Schelling og Hegel.7 Áhrifin hafa ekki verið minni í bókmenntum og listum, og þar hefur ritgerð Plótínosar vegið þyngst á metunum. Ýmsir helstu meistarar ítölsku endurreisnarinnar, með Michelangelo fremstan í flokki, aðhylltust til dæmis plótínsk-platonska fagurfræði og ástarspeki.8 Á Englandi var uppi maður að nafni Thomas Taylor (1758-1835). Hann var ötull talsmaður platonisma að hætti Plótínosar. Einkum fyrir tilstilli hans hafa nýplatonskar hugmyndir, þar á meðal hugmyndir Plótínosar um fegurðina, verið vel þekktar meðal enskumælandi skálda allt fram á þessa öld, og verið ýmsum þeirra kærar.9 Hugmyndir Plótínosar um þessi efni hafa ekki síst heillað skáld og listamenn, þótt líklegt megi telja að ýmsum sem nú eru uppi þyki þær nokkuð háfleygar.

 

Tilvísanir

1. Ævi Plótínosar 13.

2. Sama rit 8.

3. R.T. Wallis, Neoplatonism (Lundúnum, 1972), s. 160.

4. Marsilius Ficinus, Plotini Opera. Latina interpretatio (Flórens, 1492).

5. Marsilio Ficino, In Convivium Platonis De Amore Commentarius.

6. Sjá E. Tigerstedt, The Decline and Fall of the Neoplatonic Interpretation of Plato (Helsinki, 1974).

7. W. Beierwaltes, Platonismus und Idealismus (Frankfurt am Main, 1978) og J.-L. Vieillard-Baron, Platon et l’idéalisme allemand (1770-1830) (París, 1978).

8. Sjá E. Panofski, Iconology: Humanistic Themes in the Art of the Renaissance (Oxford, 1938) og A. Chastel, Art et humanisme à Florence au temps de Laurent le Magnifique (París, 1961).

9. Sjá til dæmis K. Raine, Blake and Tradition (Lundúnum, 1979) og F. Wilson, W.B. Yeats and Tradition (Lundúnum, 1958).

 

« Til baka