Framdi Sókrates sjálfsmorð?

Ýmis sjónarmið reifuð

 

eftir Jóhann Björnsson1

Dauðadómur Sókratesar

 

Gríski heimspekingurinn Sókrates sem fæddist í Aþenuborg 469 árum fyrir okkar tímatal stundaði heimspeki sína á meðal almennings. Í huga hans var það sannleikurinn og réttlætið sem mest var um vert og varði hann ævi sinni í að reyna að komast að því hvernig best og réttast væri að lifa. Fræg eru þau orð sem höfð hafa verið eftir honum að það eina sem hann vissi væri að hann vissi ekki neitt:

…það er hvorttveggja um mig, að ég veit ekkert, enda þykist ég ekki vita neitt. Þess vegna virðist ég vera ofurlitla ögn vitrari en hann að þessu einu leyti, að það sem ég veit ekki, þykist ég ekki heldur vita.2

En sannleiksleit Sókratesar varð honum æði dýrkeypt. Var hann talinn fara með hégóma og gera verri málstað að betri, spilla æskunni og að trúa ekki á guðina.

Sókrates er brotlegur og fer með hégóma, er hann brýtur heilann um þá hluti, sem eru undir jörðinni og í loftinu, gerir verra málstað að betra og kennir öðrum að gera slíkt hið sama.3

Fyrir þetta var hann dæmdur til dauða og skyldi dómnum framfylgt með því að hann drykki eitur. Taldi hann sig saklausan af ákærum en ekki hvarflaði það að honum að gera minnstu tilraun til þess að víkja sér undan dómnum þegar hann hafði verið kveðinn upp. Sókrates áleit sig heiðar­legan borgara sem ekki geldur rangt með röngu og taldi því skyldu sína að hlýða lögunum þó ranglát væru.

Með því að vera dæmdur til að drekka eitur má með öðrum orðum segja að Sókrates hafi verið dæmdur til þess að fyrirfara sér. Hér vaknar sú spurning hvort hægt sé að fullnægja slíkum dauðadómi án þess að hinn dæmdi sé samvinnufús og drekki það sem fyrir hann er lagt. Jafn­framt er það álitamál hvort viðkomandi fremji sjálfsmorð þegar hann framfylgir dómnum og drekkur eitrið sem fyrir hann er lagt mótþróalaust.

Afstaða Sókratesar til sjálfsmorðs

 

Sókrates taldi sjálfsmorð fráleitt vegna eignarhalds guða á mönnum. Í samræðum við vini sína skömmu fyrir andlát sitt er Sókrates spurður af Kebesi hvort það sé ekki óhæfuverk að ráða sjálfum sér bana:

Hvað hafa menn eiginlega fyrir sér, Sókrates, er þeir segja það óhæfuverk að ráða sjálfum sér bana? Því þegar Fílalaos var meðal okkar, þá heyrði ég reyndar, eins og þú inntir eftir, bæði hann og suma aðra halda því fram, að menn megi ekki stytta sér aldur. En ég hef engan heyrt færa að þessu tvímælalaus rök.4

Sókrates svaraði og færði rök fyrir máli sínu:

…þá þykir mér það vel mælt, að til séu guðir, sem gæti okkar, og mannkynið sé ein af eignum guðanna….Og ef nú….einhver af eignum þínum stytti sér aldur, án þess þú hefðir gefið til kynna, að það væri þinn vilji, brygðist þú þá ekki reiður við og refsaðir henni, ef þú ættir ráð á einhverri refsingu?5

Að mati Sókratesar er það alveg klárt að óhæfuverk telst að taka eigið líf þar sem guðirnir eiga líf mannanna. Það þykir ekki til eftirbreytni að taka ófrjálsri hendi það sem maður ekki á. Ætla mætti af þessum orðum að Sókratesi fyndist það ekki við hæfi að taka sitt eigið líf með því að drekka sjálfur eitrið sem hann var dæmdur til að drekka. Svo er þó reyndar ekki og kveður við nokkuð annan tón síðast í samræðunni þar sem Sókrates segir:

Frá þessu sjónarmiði er það þá ef til vill ekki fráleitt, að menn megi ekki svipta sig lífi, fyrr en guðinn knýr þá til þess, svo sem nú er komið fyrir mér.6

Hér fer ekkert á milli mála að Sókrates gerir sér ljóst að dómur hans felur í sér sjálfsvíg7 en ekki aftöku og það sem meira er það er guðinn sem knýr hann til þess. Með því að vísa til þess að guðinn knýi hann til þess að taka eigið líf hefur Sókrates réttlætt fyrir sjálfum sér og öðrum það óhæfuverk sem sjálfsvíg er.

Í lok samræðunnar segir hann við Kríton:

Kríton, láttu koma með eiturdrykkinn, ef hann er tilbúinn, en sé það ekki, verður maðurinn að byrla hann.8

Hér hótar Sókrates því að hafna dómnum fái hann ekki að taka hann strax út og lætur eftirfarandi orð fylgja:

Ég held, að ég græði ekkert annað á því að drekka eitrið dálitlu seinna, en að vera hlægilegur í augum sjálfs mín, þar sem ég gerist svo fastheldinn á lífið og treini það, sem er á förum hvort sem er.9

Lífið er á förum að mati Sókratesar og því ekki um neitt annað að ræða en að gera það sem yfirvöld hafa farið fram á, að drekka eitrið og deyja.

Án þess að reyna að gera tilraun til þess að komast undan dómi yfirvalda drakk Sókrates eitrið vitandi um afleiðingarnar og dó. Framdi hann sjálfsmorð?

Sókrates framdi ekki sjálfsmorð

 

Robert Campell og Diane Collison eru á þeirri skoðun að þrátt fyrir að Sókrates hafi sjálfur drukkið eitrið og haft ákveðin áhrif á hvenær hann drakk það þá væri nær að segja hann heiðarlegan borgara sem skýtur sér ekki undan dómum yfirvalda, heldur en að segja hann hafa framið sjálfsmorð.10 Röksemd þeirra er sú að þar sem Sókrates valdi ekki sjálfur að taka eigið líf þá sé ekki um sjálfsmorð að ræða. Til þess að flokka megi umræddan verknað sem sjálfsmorð hefði Sókrates þurft að taka þá ákvörðun sjálfur að svipta sig lífi óháð dómi yfirvalda.

Taka þau síðan til umfjöllunar sjónarmið R.F. Holland um dauða Sókratesar en hann er sammála þeim Campell og Collison um að ekki sé hægt að flokka dánarorsök Sókratesar sem sjálfsmorð þar sem hann ákvað það ekki sjálfur að taka líf sitt heldur voru það yfirvöld í Aþenu sem það gerðu. Holland heldur því ennfremur fram að hér sé ekki um sjálfsmorð að ræða frekar en þegar dauðadæmdur maður gengur að aftökupallinum. En eins og Campell og Collison benda réttilega á þá er veigamikill munur á því að ganga að aftökupallinum og að svipta sig lífi. Gangur dauðadæmds manns hefur í sjálfu sér ekkert að gera með dauða viðkomandi, hann er ekki byrjaður að deyja þegar hann gengur. Öðru máli gegnir hinsvegar um Sókrates þar sem eiturdrykkjan er raunverulega sú breytni sem verður honum að bana.

Nær væri að líkja breytni Sókratesar, segja þau Campell og Collison við það þegar dæmdur maður ýtir á þann rofa á rafmagnsstól sem kemur þeirri aðgerð í gang sem veldur honum dauða. Ekki fallast þau þó á að kalla slíkt sjálfsmorð, nær væri að tala um sjálfsaftöku í þessu sambandi. Hér er gera þau greinarmun á sjálfsaftöku annarsvegar og sjálfsmorði hinsvegar.

Sókrates framdi sjálfsmorð

 

R.G. Frey er hinsvegar á öðru máli og telur ólíkt Campell og Collison að Sókrates hafi framið sjálfsmorð.11 Röksemd hans er sú að þar sem Sókrates vissi vel hverjar afleiðingar eiturdrykkjunnar voru og sýndi ekki mótþróa við að uppfylla dóm yfirvalda verður breytni hans að teljast sjálfsmorð. Vitneskja Sókratesar um afleiðingar gjörða sinna er hér lykilatriði þegar meta skal hvort breytni hans telst vera sjálfsmorð eða ekki. Sókrates hafði tök á því að mati Frey að neita að drekka eitrið og láta þvinga sig til að innibyrða það og ef hann hefði kosið þá leið hefði ekki verið um sjálfsmorð að ræða heldur aftöku. Sókrates ætlaði sér aldrei að óhlýðnast dómi yfirvalda, hann ætlaði sér með öðrum orðum að deyja af völdum eiturdrykkju í þeim tilgangi að gjalda ekki rangt með röngu. Heiðarleiki hans og löghlýðni kostaði hann það að mati Frey að hann varð að fremja sjálfsmorð.

Ýmsum mótbárum hefur Frey þurft að svara og er ein sú að Sókrates hafi ekki framið sjálfsmorð þar sem hann fékk ekki sjálfur að ráða þeim tíma nákvæmlega hvenær hann skyldi deyja. Ekki er hægt að binda sjálfsmorðsskilgreininguna við tímasetningar að mati Frey og nefnir hann dæmi máli sínu til stuðnings:

Gerum ráð fyrir að Sir Percy ákveði að fremja sjálfsmorð en hafi ekki kjark til þess að skera sig á púls eða skjóta sig í gagnaugað. Í stað þess kemur hann fyrir miklu magni af sprengiefni undir húsi sínu og tengir sprengiþráðinn við símann, þannig að ef síminn hringir springur húsið í loft upp. Síðan sest hann niður og bíður átekta. Percy mun deyja þegar síminn hringir, en hann veit ekki hvenær síminn mun hringja, né heldur getur hann ákveðið tímasetninguna….12

Það leikur enginn vafi á að mati Frey að Sir Percy fremur sjálfsmorð þó hann viti ekki nákvæmlega hvenær það gerist. Sir Percy kom málum þannig fyrir að hann myndi deyja þegar síminn hringdi. Þegar dánarorsök er skilgreind sem sjálfsmorð að mati Frey skiptir það höfuðmáli að vera með­vitaður um afleiðingar gjörða sinna.

Ómögulegt er að fullyrða nokkuð um sjálfsmorð

 

Gavin J. Fairbirn13 bendir á til mótvægis við sjónarmið Frey að mögulegt er að gera eitthvað vitandi um afleiðingarnar en án þess að vilja þær. Nefnir hann dæmi af þeim sem borða of mikið, drekka, reykja eða stunda óábyrgt kynlíf. Margir þurfa að takast á við þessi vandamál, vita vel hverjar afleiðingar gjörða sinna kunna að vera en eiga í erfiðleikum með að breyta hegðun sinni. Þannig kann Sókrates að mati Fairbirn að hafa drukkið eitrið vitandi um afleiðingarnar en ekki viljað þær í raun.

Eftir að hafa skoðað ýmis sjónarmið sem fram hafa komið um hvort Sókrates hafi framið sjálfs­morð eða ekki þá verðum við á endanum að mati Fairbirn að horfast í augu við að ef Sókrates vildi af einhverjum ástæðum deyja, hverjar svo sem ástæðurnar eru, þá framdi hann sjálfsmorð en ef hann vildi ekki deyja og breytti gegn raunverulegum vilja sínum þá framdi hann ekki sjálfsmorð.

Ekki verður með neinu móti vitað hvað í raun fór fram í huga Sókratesar. Það eina sem heimspekingar geta gert er að túlka texta Platons á ýmsa vegu. Síðan er að gera það upp við sig hver séu nauðsynleg skilyrði sjálfsmorðs: tímasetningar, hver tekur ákvörðun, vilji, vitneskja um afleiðingar gjörða sinna eða ónýttar undankomuleiðir.

 

Tilvísanir

1. MA í heimspeki frá Katholieke Universiteit Leuven.

2. Platón: „Málsvörn Sókratesar“ í Síðustu dagar Sókratesar, í íslenzkum búningi eftir Sigurð Nordal. Hið íslenzka bókmenntafélag 1983. Bls. 37.

3. Sama rit, bls. 32-33.

4. Platón: „Faídon“ í Síðustu dagar Sókratesar, bls 105.

5. Sama rit, bls. 106.

6. Sama rit, bls. 106.

7. Ýmist nota ég orðið sjálfsvíg eða sjálfsmorð og er það að yfirlögðu ráði þar sem nokkur munur er á þessu tvennu sem ekki verður ræddur hér.

8. Faídon, bls. 200.

9. Sama rit, bls. 201.

10. Campell, Robert og Diane Collison: Ending Lives. Oxford, Basil Blackwell 1988.

11. R.G. Frey: „Did Socrates commit suicide“ í Suicide. The philosophical issues. Ritstjórar M. Pabst og David J. Mayo. 1980.

12. Sama rit, bls. 37-38.

13. Gavin J. Fairbirn: Contemplating Suicide. The Language and Ethics of Self Harm. Routledge 1995. Bls. 147-151.

 

« Til baka

Related Entries