Færslusöfn

Fyrri og seinni heimspeki Wittgensteins

Fyrri og seinni heimspeki Wittgensteins1

Bryan Magee og Anthony Quinton ræðast við

INNGANGUR

Magee Ég held ekki að neinn geti fett fingur út í þá fullyrðingu að á þessari öld hafi tveir áhrifamestu heimspekingarnir í hinum enskumælandi heimi verið Bertrand Russell og Ludwig Wittgenstein. Auk þess að vera mikill heimspekingur var Russell mikil opinber persóna. Hann var á kafi í stjórnmálum og félagsmálum næstum því alla ævi og varð kunnur almenningi sem útvarpsmaður, blaðamaður og samfélagsgagnrýnandi. Fólk fór að tengja hann, og það með réttu, við tilteknar almennar hugmyndir og einnig við ákveðið viðhorf til félagsmála, jafnvel þótt það vissi ekki mikið um heimspeki hans, en það vandaðasta var ákaflega stærðfræðilegt og tæknilegt og þess vegna ekki við hæfi almennings. Wittgenstein var gjörólíkur Russell. Hann var tæknilegur heimspekingur og það eingöngu. Hann kom ekki fram á opinberum vettvangi, forðaðist sviðsljósið, jafnvel innan stéttarinnar, og lét mjög lítið frá sér fara á prenti. Afleiðingin var sú að um langt skeið takmörkuðust áhrif hans, þótt þau væru geysimikil, við heim faglegrar heimspeki. Það er ekki fyrr en tiltölulega nýlega sem áhrif hans hafa síast út í tengdar greinar og hafa áhrif á fólk á öðrum athafnasviðum. Staðan er því sú að fjöldi fólks er farinn að heyra um Wittgenstein en veit ekki enn sem komið er hvað hann gerði eða hvers vegna hann skiptir máli. Ég vona að umræðan sem fer hér á eftir bæti úr þessu með því að draga skýrt fram megindrættina í hugsun hans og segja einnig dálítið um hver áhrif hennar hafa verið. Sá sem ber hitann og þungann af þessu verkefni, sem er ekki auðvelt, er Anthony Quinton,2 rektor Þrenningargarðs í Oxford (en við hann háskóla hefur hann kennt heimspeki í rúm tuttugu ár).

En áður en ég býð Anthony Quinton að hefja talið um hugmyndir Wittgensteins langar mig til að kynna manninn Wittgenstein með nokkrum orðum. Hann fæddist í Vínarborg 1889 og dó í Cambridge 1951, og hafði gerst breskur borgari á miðjum aldri. Faðir hans var auðugasti og voldugasti stálkóngurinn í Austurríki. Sumpart eflaust vegna fjölskyldusögunnar, og vissulega fyrir þrýsting frá fjölskyldunni, fékk hann ástríðufullan áhuga á vélum og vélbúnaði sem átti eftir að verða ráðandi um alla menntun hans. Foreldrar hans sendu hann í skóla sem sérhæfði sig í stærðfræði og eðlisvísindum. Þaðan fór hann til framhaldsmáms í vélaverkfræði. Nítján ára að aldri fór hann til Bretlands, í háskólann í Manchester, sem rannsóknarnemi í flugverkfræði. Meðan hann dvaldi þar heillaðist hann af spurningum heimspekilegs eðlis um undirstöður stærðfræðinnar. Hann las hina merku bók Lögmál stærðfræðinnar eftir Bertrand Russell og hún virðist hafa orðið honum einskonar opinberun. Hann gaf verkfræðina upp á bátinn og hélt til Cambridge til að læra rökfræði hjá Russell. Ekki leið á löngu þangað til hann var farinn að semja frumleg verk sem margir hafa allt til þessa dags litið á sem snilldarverk. Út úr þessu kom eina bókin eftir hann sem var gefin út meðan hann lifði, Tractatus Logico-Philosophicus (Rökfræðileg ritgerð um heimspeki) sem venjulega er bara kölluð Tractatus. Hún kom út í Austurríki 1921 og Englandi 1922. Bókin er svo stutt að hún er nánast eins og ritgerð að lengd, en hún hefur án efa verið eitt af áhrifamestu heimspekiverkum sem komu út á tuttugustu öld. En meðan hún hafði sín geysimiklu áhrif á árunum eftir að hún birtist varð Wittgenstein sjálfur æ óánægðari með hana. Reyndar fór hann að líta svo á að sér hefði skjátlast í grundvallaratriðum, og hann bjó til heila nýja heimspeki og hafnaði hinni fyrri. Meðan hann lifði var þessari seinni heimspeki aðeins dreift til nemenda hans í Cambridge og um hendur þeirra, en að honum látnum var mikið af samansöfnuðum skrifum hans gefið út, þar á meðal seinni heimspekin. Mikilvægast af þessum skrifum er bók sem heitir Rannsóknir í heimspeki (Philosophical Investigations), gefin út 1953, sem fór síðan að hafa jafn mikil áhrif og Tractatussem hafði komið út um þrem áratugum fyrr.

Þetta er einstætt fyrirbæri, held ég, í sögu heimspekinnar: heimspekingur með snilligáfu sem kemur fram með tvær ólíkar og ósamrýmanlegar kenningar í heimspeki sem hvor um sig hafði afgerandi áhrif á heila kynslóð. Förum nú aftur til upphafs sögunnar – til Tractatusar sem var skrifaður á öðrum áratug tuttugustu aldar – og höldum áfram þaðan.

UMRÆÐA

Magee Tractatus er ákaflega stutt bók – innan við áttatíu síður í venjulegu útgáfunni. Hver voru aðalvandamálin sem Wittgenstein var að reyna að leysa í þessu verki?

Quinton Ég held að aðalvandamálið sé hægt að setja fram í örstuttu máli og það er þetta: Hvernig er tungumál mögulegt? Hvernig er mögulegt að nota tungumál til þess sem Wittgenstein taldi vera höfuðtilgang þess, nefnilega að lýsa heiminum, setja fram staðreyndir, segja okkur það sem er satt – eða, þegar það tekst ekki, ósatt?

Magee Margir sæju kannski ekki strax hvers vegna þetta er vandamál. Við höfum tilhneigingu til að líta á tungumálið sem sjálfsagðan hlut. Hvers vegna ætti tilvist tungumálsins sem slíks að vera heimspekilegt vandamál?

Quinton Jú, sjáðu til, líti maður á heiminn með meira eða minna tölfræðilegum hætti eru hlutir í orsakatengslum hver við annan víðast hvar. Grjót rekst á grjót; tungl hafa áhrif á sjávarföll, og þar fram eftir götunum. En bara hér og þar í heiminum er þetta óvenjulega fyrirbæri að sumir hlutir í heiminum spegla í sjálfum sér á vitrænan hátt aðra hluti í honum. Notkun tungumáls, skilningur á því, er það sem greinir mannverur frá einberum hlutum. Málið er samofið andlegu lífi okkar. Mestöll, þó ekki öll, samskipti okkar við annað fólk eiga sér stað með atbeina þess. Ég held að Wittgenstein sé að spyrja einnar af þessum spurningum sem virðast svo augljósar að fæstir hafa fyrir því að spyrja þeirra, eitthvað svipað því og þegar Newton spurði í alvöru hvers vegna reikistjörnurnar tvístruðust ekki og hvers vegna steinar dyttu niður þegar þeim væri sleppt úr hendi. Spurningar Wittgensteins hafa sama barnslega, ferska, djúpstæða eiginleikann.

Magee Er hægt að orða það svona? Við mannverur höfum hæfileika til að hugsa og eiga samskipti hvert við annað um hluti sem eru ekki við höndina og getum þess vegna fengist við þá með öllu mögulegu móti. Það er að hluta til mögulegt vegna þess að við eigum tungumálið. Þetta vekur tvær spurningar. Í fyrsta lagi: Hver eru tengsl tungumálsins við heiminn? Í öðru lagi. Hver eru tengsl tungumálsins við hugsunina? Mér skilst að þú mundir fallast á að báðar þessar spurningar séu miðlægar í því sem Wittgenstein er að reyna að gera í Tractatusi.

Quinton Já. Menn hafa spurt spurninga um þessa hluti á brotakenndan hátt áður. Það sem er svo heillandi við Tractatus er að þeirra er spurt á eins almennan hátt og hugsast getur. Wittgenstein hefur svör við báðum spurningunum sem þú nefndir. Svarið sem fljótt á litið virðist ekki koma að miklu gagni er að tungumálið lýsi heiminum með því að draga upp myndir af honum. Yrðingar eru myndir af staðreyndum, segir hann. Í annan stað eru yrðingar tjáningar hugsunar. Þær eru tæki hugsunar. Þær eru það sem við hugsum með.

Magee Það er önnur hlið á sama peningnum, er það ekki? Sú staðreynd að Wittgenstein var að fást við að ákvarða til hvers hægt er að nota tungumálið á skiljanlegan hátt og til hvers ekki fól í sér það ósagða áform að ákvarða og hafna óréttmætri notkun málsins. Hann var ekki aðeins að reyna að gera það ljóst hvað tungumálið getur gert. Hann var líka að reyna að gera það ljóst hvað málið getur ekki gert.

Quinton Það var ómissandi þáttur í allri aðgerðinni og kannski sá sem hefur haft mest áhrif. Hann var harður á því að hægt sé að setja takmörk málsins skýrt fram og þetta leiddi af þeirri hugmynd hans að málið sé í eðli sínu, og ég verð að endurtaka, bókstaflega myndrænt að gerð. Til er vel þekkt saga á þá leið að Wittgenstein hafi heyrt um notkun líkana (í frönskum réttarsal, held ég það hafi verið) til að lýsa því sem gerðist í umferðarslysi og að hann hafi þá upplifað eitthvað svipað og Arkimedes þegar hann hrópaði: „Ég hef fundið það!“. „Ég skil“, sagði hann víst. „Þetta er innsta eðli tungumálsins.“ Sú sannfæring setti tungumálinu verulegar skorður: tungumálið átti að spegla nákvæmlega ástand mála þar sem hlutir komu við sögu. Það setti mjög greinileg takmörk fyrir því sem hægt væri að segja. Einkum taldi hann að sjálft samband tungumálsins við heiminn væri ekki hægt að tákna eða ræða á merkingarbæran hátt á tungumálinu.

Magee Oft er talað um kenningu Wittgensteins sem „myndakenninguna um merkingu“ og þú leggur áherslu á að hann ætlaðist til að vera skilinn þannig að hann væri að segja að tungumálið væri bókstaflega myndrænt. Ég hygg að flestir eigi erfitt með að skilja í hvaða merkingu setning geti verið mynd af staðreynd, já, hvernig setning geti verið mynd af nokkrum sköpuðum hlut yfirleitt. Geturðu útskýrt þetta?

Quinton Ja, ég held hann eigi við að enda þótt setningar venjulegs máls líti ekki út eins og myndir verði að vera hægt, eigi þær að hafa einhverja merkingu, að sundurgreina þær eða rekja sundur í grunnsetningar sem eru í raun myndir – sem samanstanda eingöngu af nöfnum sem tengjast beint hlutunum sem verið er að tala um þar sem niðurröðun nafna speglar niðurröðun hlutanna.

Magee Við skulum hafa þessa lýsingu alveg á hreinu. Wittgenstein taldi að ef maður sundurgreindi yrðingu um heiminn gæti hann smættað hana niður í orð sem væru nöfn á hlutum og að tengslin milli orðanna í setningunni samsvöruðu tengslunum milli hlutanna í heiminum. Þannig gæti setningin speglað heiminn.

Quinton Þetta er rétt. Það var nokkuð sem hann ályktaði út frá frumforsendum. Hann hélt því fram að skilyrðið sem hann setti krefðist þess að sérhver fullgild yrðing verði að hafa ákveðna merkingu. Hann taldi að engin yrðing gæti haft ákveðna merkingu nema hún væri endanlega sett saman úr þessum grunnyrðingum sem væru myndrænar. Hann gefur engin dæmi um myndrænar yrðingar. Aðrir heimspekingar sem hann hafði áhrif á komu með dæmi um þær en hann lætur alveg vera að gefa slík dæmi. Hann segir bara að hægt sé að sanna að það hljóti að vera til yrðingar af þessari endanlegu myndrænu gerð.

Magee Fyrsta spurningin sem vaknar hjá manni er þessi: Fjölmargt af því sem við segjum er ónákvæmt eða ósatt sem þýðir að þegar svo er segjum við eitthvað sem samsvarar ekki hlutum í heiminum. Hvernig skýrir myndakenningin um merkingu þetta?

Quinton Nú, það verður einfaldlega ljóst af því sem þegar hefur komið fram. Hlutum er hægt að raða á mismunandi vegu og nöfnunum sem við höfum á þessum hlutum er líka hægt að raða á ýmsa ólíka vegu. Yrðing sem hefur merkingu raðar saman nöfnum í eina af mögulegum samsetningum sem þessi nöfn gera ráð fyrir og möguleikarnir á samröðun nafnanna samsvara beint möguleikunum á samröðun hlutanna. Þannig að merkingarbær yrðing, sem slík, dregur upp mynd af mögulegu ástandi mála. Ef niðurröðun hlutanna sem yrðingin vísar til er eins og niðurröðun nafnanna á hlutunum í yrðingunni þá er yrðingin sönn. Ef þessi tvö munstur eru mismunandi er yrðingin ósönn. Það er hægt að færa spilapeningana til, ef svo má segja, til að mynda ýmis munstur. Flest þeirra tákna einungis mögulegt ástand mála. Þegar þeim er raðað niður á sama hátt og hlutunum sem vísað er til er raðað þá er yrðingin sönn.

Magee Margt af því sem við segjum bæði í daglegu lífi og heimspeki er alls ekki um staðreyndir. Við fellum siðferðilega dóma, leggjum fagurfræðilegt mat á hluti og þar fram eftir götunum – hvernig á að útskýra þetta með myndakenningunni um merkingu?

Quinton Ja, hvað varðar siðferðilega og fagurfræðilega dóma þá eru þeir í rauninni ekki útskýrðir. Það er bara sagt að þeir séu ekki hluti af hinu eiginlega tungumáli.

Magee Það er furðulegt að nokkur maður skuli segja þetta.

Quinton Samkvæmt Wittgenstein snýst siðfræði ekki um það sem við getum skynjað. Hún fæst ekki við staðreyndir, og hann heldur því fast fram að hið raunverulega hlutverk tungumálsins sé að lýsa staðreyndum – sannlega ef þess er kostur en ef ekki þá ranglega, en samt á merkingarbæran hátt. Þetta er það sem tungumál er í grundvallaratriðum.

Magee Svo ég dragi aftur saman aðalatriðin: Þegar ég segi setningu um heiminn er ég að raða saman nöfnum þannig að þau samsvari mögulegri niðurröðun hluta í heiminum. Sé þessi niðurröðun til staðar í heiminum er setningin sönn. Sé hún það ekki er hún ósönn. Ef nöfnunum í setningunni er raðað á þann hátt að ekki sé mögulegt að hlutum í heiminum sé raðað þannig þá er setningin merkingarlaus. Við höfum því þríþætta greiningu: satt, ósatt, merkingarlaust.

Quinton Þetta er rétt.

Magee Öll þessi kenning um merkingu gengur út frá verufræði, gerir ráð fyrir því að það sem er til hljóti að vera af ákveðinni gerð. Samkvæmt henni hlýtur heimurinn, óháð okkur og tungumálinu, endanlega að samanstanda af einföldum hlutum sem geta tengst hver öðrum á tiltekna vegu.

Quinton Þetta er einmitt það sem hann segir strax í upphafi bókarinnar. Án þess að rökræða það segir hann að heimurinn samanstandi af staðreyndum; staðreyndirnar séu niðurröðun hluta, og hlutirnir hljóti að vera einfaldir (svo ég taki upp orðið sem þú notar). Við fyrstu sýn virðast þetta kreddukenndar fullyrðingar. En þær fá stuðning seinna frá þeirri kennisetningu að tungumálið verði að hafa ákveðna merkingu og að það geti aðeins haft ákveðna merkingu ef það er af ákveðinni gerð – og þess vegna verði heimurinn að vera af þeirri gerð til þess að tungumálið geti lýst honum.

Magee Hvað um hið ósegjanlega? Hvað segir kenning hans um tungumálið, eins og við höfum nú dregið hana fram í dagsljósið, um það sem ekki er hægt að segja?

Quinton Ég býst við að aðaleinkenni kenningarinnar um það sem ekki er hægt að segja – það einkenni sem skiptir mestu máli heimspekilega – sé að ekkert verður sagt um tengsl tungumálsins við heiminn. Þetta er hin afar mikilvæga þverstæðaTractatusar þar sem hann segir hreinlega rétt undir lokin: „Sá sem skilur yrðingar mínar mun að lokum átta sig á að þær eru merkingarlausar.“ Síðan reynir hann að draga úr þverstæðunni með því að segja að við verðum að hugsa okkur það sem hann segir eins og stiga sem við förum upp á ákveðið skilingsstig og sem við spörkum síðan burt. Kenning hans er að málið og heimurinn verði að hafa ákveðna formgerð sameiginlega til þess að mögulegt sé að málið geti lýst heiminum, og síðan segir hann að þetta sé ekki staðreynd sem hægt sé að tala um svo vit sé í. Þetta er eitthvað sem sýnir sig í tungumálinu en það er ekki hægt að nota málið til að greina frá því. Heimspekin grefur sem sagt undan sjálfri sér með þessum rökfærslumáta.

Magee Hann er þá að segja að til þess að setning spegli heiminn verði ekki aðeins að vera einkvæm samsvörum milli nafna í setningunni og hluta í heiminum heldur verði einnig að vera formgerð innbyggð í setninguna sem tengir nöfnin í henni saman með þeim hætti sem samsvarar því hvernig hlutir í heiminum eru tengdir saman með formgerð sem er innbyggð í heiminn. Það er samsvörun þessara tveggja formgerða sem gerir merkingu mögulega, sem reyndar er merking, með því að þessi samsvörunarpunktur er punkturinn þar sem tungumálið tengist heiminum.

Quinton Já.

Magee Í tilviki yrðingarinnar er þessi formgerð það sem hann kallar röklegt form hennar. Og eins og við höfum sagt speglar það formgerð sem mögulegt er að veruleikinn hafi. En þetta speglunarsamband sjálft er ekki hægt að spegla og þess vegna er ekki hægt að tjá það með tungumálinu. Svo að ekkert er hægt að segja um punktinn þar sem tengslunum milli málsins og veruleikans er í raun og veru komið á. Röklegt form yrðingar birtir formgerð sem gerir það mögulegt að yrðingin hafi merkingu, en samt er ekki hægt að setja þessa formgerð fram á tungumálinu. Það er hægt að sýna hvað hún er en ekki hægt að segja það.

Quinton Einmitt.

Magee Hvers vegna töldu menn þessa kenningu svo stórkostlega – hvers vegna hafði hún þau gífurlegu áhrif sem raun var á? Hún er svo furðuleg. Það sem meira máli skiptir er að mér virðist hún augljóslega gölluð, ekki síst að því leyti að hún skilur svo margt eftir. Til að mynda er tjáningarríkasta málnotkunin – bæði sú margbrotnasta og djúpsæjasta – vissulega málnotkun skapandi listar (ljóðagerðar, leikbókmennta, skáldsagna og þar fram eftir götunum), en samt gerir þessi kenning Wittgensteins alls ekki ráð fyrir neinu rými til að að útskýra þessa málnotkun. Mundirðu fallast á þessa gagnrýni?

Quinton Já, hún er takmörkuð. En ég hygg að hann mundi segja, væri hann beðinn að verja hana, að öll önnur málnotkun – að svo miklu leyti sem hægt er að taka hana alvarlega og hún er ekki einhvers konar orðaleikur – krefjist fyrst og fremst þessarar grundvallarnotkunar málsins sem er í því fólgin að lýsa staðreyndum eða heiminum. En hvað varðar ástæðurnar fyrir því að menn töldu að þessi kenning væri mikilvæg þá nefndir þú sem rök gegn því að hún væri furðuleg. Ég hefði haldið að hluti af hrifningunni yfir henni væri einmitt að hún var svo furðuleg. Það mætti segja að kenningin sé ekki mjög hógvær í framsetningu. Í forspjallinu segir hann blákalt: „Ég er sannfærður um að endanlega lausn allra heimspekilegra vandamála er hér að finna.“ Og í samræmi við það gaf hann auðvitað heimspekina upp á bátinn um alllangt skeið – tíu ár eða svo – strax og hann hafði lokið við Tractatus. Nei, það er hluti af aðdráttarafli kenningarinnar hve furðuleg hún er. En ekki bara það: Bókmenntalegur eiginleiki bókarinnar vekur sérstaka athygli. Það er eins og rödd tali út úr hvirfilvindi, með hinum stuttu, þrungnu setningum í orðskviðastíl. Fyrsta setningin í bókinni – „Heimurinn er allt sem er “ – er ein þeirra furðulegu yfirlýsinga sem maður veit ekki alveg hvernig á að taka. Og sú síðasta – „Það sem við getum ekki talað um verðum við að þegja um“ – lítur við fyrstu sýn út eins og augljós sannindi, en svo áttar maður sig á því að hún er ekki alveg augljós sannnindi. Aðalboðskapur allrar bókarinnar, segir hann, er að draga mörk þess sem hægt er að segja svo skiljanlegt sé.

Magee Það sem vekur eftirtekt allra við Tractatus þegar þeir opna bókina í fyrsta sinn er hvernig hún er skrifuð: alls ekki á samfelldu máli heldur í mjög stuttum efnisgreinum sem eru tölusettar samkvæmt flóknu kerfi skiptinga og undirskiptinga, jafnvel undir-undirskiptinga. (Þessa hlið Tractatusar hafa annars allmargar bækur stælt síðan og þær eru ekki allar um heimspeki.) Margar þessara efnisgreina eru einungis ein setning. Og eins og þú varst að gefa í skyn rétt áðan eru tengslin milli þeirra ekki alltaf augljós, og merking þeirra er ekki heldur alltaf augljós. Hvers vegna skrifaði hann bókina á þennan dularfulla og torskilda hátt?

Quinton Fyrir það fyrsta var hann ákaflega vandfýsinn maður – að öllu leyti, geri ég ráð fyrir, en vissulega eru vísbendingar fyrir hvaða lesanda sem er um það sem kalla mætti vitsmunalega vandfýsni hans. Hann hafði andstyggð á því sem ég held ég verði að kalla borgaralega akademíska heimspeki – hugmyndinni um heimspeki sem atvinnu, starf sem stundað er frá níu til fimm, sem maður innir af hendi með hluta af sjálfum sér og lifir síðan afganginn af lífinu án nokkurra tengsla við heimspekina. Hann var ákaflega siðavandur maður. Hann tók sjálfan sig og starf sitt mjög alvarlega. Þegar illa gekk hjá honum fylltist hann örvæntingu og angist. Þetta kemur fram í því hvernig hann skrifar. Maður finnur að öll sjálfsmynd hans er á bak við allt sem hann segir. Það þýðir líka að hann hefur tilhneigingu til að virða að vettugi eða fyrirlíta heimspeki sem sett var fram á afslappaðri, skilvirkari og faglegri hátt. Hann vill halda sér í fjarlægð frá þessu og vill ekki gera heimspekiskrifin of auðveld – hann vill ekki tjá sig þannig að fólk geti tileinkað sér textann með því einfaldlega að renna augunum yfir blaðsíðurnar. Heimspeki hans er tæki til að breyta öllu vitsmunalegu viðhorfi lesandans, og þess vegna er leiðin til hennar gerð torveld. Ég hygg að þetta gæti réttlætt aðferð hans, miðað við það sem hann ætlaði sér.

Magee Ég verð þó að segja að mér virðist textinn hafa óvenjulega eiginleika. Það er eins og setningarnar séu þrungnar spennu, þær geta setið lengi í huganum og maður stendur sig að því að fara með þær orðrétt mörgum árum eftir að hafa lesið bókina. Ég mundi líta á Wittgenstein sem einn þeirra fáu heimspekinga – á borð við Platon, Schopenhauer eða Nietzsche – sem eru líka miklir rithöfundar, miklir bókmenntalegir listamenn.

Quinton Ég held hann sé það. Hann er vissulega mjög meðvitaður listamaður. Hann hafði andlega reisn og var fágaður maður. Og hann lagði það besta af sjálfum sér í Tractatus. Það væri ekki hægt að kalla verk hans hrokafullt. Það ætlar sér mikla hluti og gerir miklar kröfur fyrir sig, en mér virðist hinn bókmenntalegi búningur hugsunar hans verðugur því hversu hugsanirnar sjálfar eru alvarlegar.

Magee Áður en við hverfum frá Tractatusi – eins og Wittgenstein sjálfur gerði – væri gagnlegt að þú auðkenndir þennan áfanga í umræðu okkar með því að endursegja aðalatriðin sem heildstæða kenningu.

Quinton Það fyrsta sem hann sagði, róttækasta kenningin sem hann setti fram íTractatusi, er að yrðingar séu myndir. Þetta er ekki sett fram sem myndhverf lýsing, aðferð til að segja á dálítið myndrænni hátt að yrðingar lýsi heiminum. Hann tók þá staðhæfingu mjög alvarlega að yrðingar væru myndir. Hann hélt því reyndar til streitu að þær væru bókstaflega myndir. Og þetta leiðir til annarrar kenningar sem er að myndir hafi frumþætti sem samsvari vettvanginum sem þær eru myndir af. Yrðingar eru í eðli sínu samsett fyrirbæri eins og sést á setningum sem eru myndaðar úr mismunandi orðum: yrðingin er mynduð úr orðum sem virka eins og nöfn og nöfnin samsvara beint hlutunum sem eru hluti af staðreyndinni – nöfnunum er raðað í setningunni eins og hlutirnir raðast í staðreyndinni. Tengt þessu er sú skoðun að heimurinn, ef á að vera hægt að lýsa honum á tungumáli, hljóti að vera munstur eða niðurröðun hluta sem hafa ýmsa möguleika til að tengjast hver öðrum. Það sem er í raun og veru er hvernig þessir hlutir raðast niður. Afleiðingin af þessu er að hið ómissandi, merkingarbæra innihald orðræðu – tungumáls sem er notað til þeirra raunverulega þýðingarmiklu hluta sem hægt er að nota tungumál til – er lýsing hennar á staðreyndunum sem heimurinn samanstendur af. Nú er það svo að margt af því sem við segjum er ekki þannig og það eru til ýmsar aðrar tegundir orðræðu sem Wittgenstein þurfti þess vegna að segja eitthvað um. Fyrsta kenningin sem hann setur fram til að laga þessa myndakenningu alltént að einhverjum hinna augljósu staðreynda um málnotkun okkar er sú hugmynd að allar yrðingar sem hafa fullgilda merkingu í málinu sem við notum, jafnvel þótt þær séu ekki sjálfar einfaldar myndir af hlutum, sé hægt að greina eða rekja sundur í safn yrðinga sem eru myndir af niðurröðun hluta. Þetta er kenning sem segir í raun að greining sé hin rétta aðferð heimspekinnar vegna þess að það sem hún gerir er að draga upp á yfirborðið það sem er hulið undir málvenjunum sem stytta málið. Þetta reyndist vitanlega vera mjög áhrifamikil kenning. Wittgenstein gefur aldrei nein dæmi um þessar myndrænu grunnyrðingar – kannski væru engar hversdagslegar yrðingar okkar slík dæmi. En sú krafa hans að eigi tungumálið að vera merkingarbært verði það að hafa ákveðna merkingu og að þessi ákveðna merking sé fólgin í því að málið gegni hlutverki sem er í eðli sínu myndrænt, útheimtir að sérhver fullgild yrðing, jafnvel þó hún sé ekki sjálf einstök mynd, hljóti að vera umfangsmikil myndasamstæða, eigi hún að vera merkingarbær. Annar hluti tungumálsins sem virðist ekki vera myndrænn – eða sé hann skilinn þannig þá er erfitt að sjá hvað það er sem hann er mynd af – er svið nauðsynlegra sanninda, yrðingar rökfræði og stærðfræði. Wittgenstein lagði stund á rökfræði undir leiðsögn Russells, eins og þú sagðir. Vinna hans með Russell við rökfræði var kveikjan að Tractatusi. Bókin heitir Tractatus LOGICO-Philosophicus (RÖKFRÆÐILEG ritgerð um heimspeki): það er heimspeki innblásin af hinum nýju framförum í rökfræði. Russell hafði sett rökfræðina í gríðarmikið kerfi. Í framhaldi af kenningum Freges ályktaði hann að rökfræði og stærðfræði mynduðu eitt samfellt, óskipt kerfi, og það er ljóst að þessi hugsun hafði djúp áhrif á Wittgenstein. Hann vildi kafa undir hana. Það virðist vera alger munur á stöðu yrðinga í rökfræði og stærðfræði annars vegar og venjulegra yrðinga sem lýsa staðreyndunum sem heimurinn samanstendur af hins vegar. Wittgenstein viðurkenndi þetta og var með þá skýringu á því að yrðingar rökfræði og stærðfræði séu klifanir og jöfnur þar sem jafnan staðhæfir einfaldlega að yrðingin öðrum megin í jöfnunni sé önnur leið til að miðla sömu merkingu og yrðingin hinum megin í jöfnunni. Þær veita engar efnislegar upplýsingar um heiminn: þær sýna aðeins þá staðreynd að hinar samsettu staðhæfingar sem við setjum í raun og veru fram séu oft tengdar þannig að frumþættir einnar séu innifaldir í frumþáttum annarrar. Þegar hin endanlega myndræna samsetning einnar yrðingar hefur að geyma frumþætti annarrar er síðari yrðingin rökleg afleiðing hinnar fyrri. Það gæti ekki verið skiljanlegt að sú fyrri væri sönn og hin síðari ósönn þegar allt sem felst í hinni síðari er innifalið í hinni fyrri. Wittgenstein útfærði þessa hugmynd með formlegum hætti á nokkrum stöðum í Tractatusi með tilliti til mjög mikilvægra rökfræðilegra meginreglna, þannig að það styrkti kenningu hans til muna. Þessi kenning var ekki fordæmislaus. Jafnvel hjá Hume má finna afbrigði af henni. En það sem máli skiptir um Wittgenstein er að hann gerði það ljóst hvernig hið sísanna, algera endurtekningareðli rökfræðilegrar ályktunar vinnur – og þess vegna hinna rökfræðilegu lögmála sem staðhæfa að slíkar ályktanir séu gildar. Það er eitt enn sem ætti að nefna og það er kenning hans um það sem ekki er hægt að segja. Hin afar ströngu skilyrði sem hann setur tungumálinu eigi það að gegna hlutverki sínu að vera raunverulega merkingarbært og lýsa heiminum leiða af sér að það eru ákveðnir hlutir sem það getur ekki gert. Það getur ekki talað um gildi – gildi eru ekki hluti af heiminum. Siðferðilegir og fagurfræðilegir dómar teljast því ekki fullgild, merkingarbær málnotkun. Hann gerir enga grein fyrir hvað þeir eru. Þá er sú tegund hefðbundinnar heimspeki sem reynir að tala um heiminn sem heild ekki möguleg. Það er aðeins hægt að tala um heiminn með því að lýsa þeim tilteknu staðreyndum sem hann er settur saman úr. Einkennilegust allra er sú kenning að tengslunum milli tungumálsins og heimsins sé ekki hægt að lýsa – en í þeim er í grundvallaratriðum um að ræða formlega samsvörun milli frumþátta málsins og frumþátta heimsins. Segja má að það sé byggt inn í yrðinguna sjálfa að hún sé mynd af heiminum. Tengslin milli yrðinga og heimsins eru ekki eitthvað sem við getum staðið utan við, þess vegna getum við ekki talað um þau. Þverstæðan er auðvitað sú að hann er stöðugt að gera einmitt það. Það var þverstæða sem hann var reiðubúinn að fallast á og hann gerir það skýrt og skorinort í bókarlok þar sem hann segir að allir sem skilja yrðingarnar viðurkenni að þær séu merkingarlausar – nokkuð ógnvekjandi athugasemd – og fer síðan að draga úr þessari furðulegu athugasemd með því að segja að sá sem hafi klifrað upp stigann sem hann hafi útvegað geti þá sparkað honum burt.

Magee Ég held að margir verði hissa að heyra þig segja að samkvæmt Wittgenstein spegli stærðfræði og rökfræði ekki heiminn á neinn hátt. Hafa ber í huga að við höfum gífurleg hagnýt not af stærðfræði: Við byggjum brýr, leggjum vegi og reisum skýjakljúfa, fljúgum flugvélum, gerum alls konar hluti sem stærðfræðin er ómissandi fyrir, og sem virka. Hvernig getur stærðfræði verið snar þáttur í þessum athöfnum og samt ekki átt við heiminn?

Quinton Stærðfræði á við heiminn í þeim skilningi að hún staðhæfir samsemd og mismun merkingar milli stærðartákna. Flókinni stærðfræðilegri rökleiðslu lýkur með því að endurtaka eitthvað sem þegar var staðhæft í forsendunum eða frumsetningunum sem hún byrjaði með, þó kannski sé það á dulinn hátt. Auðvitað er hún afar gagnleg vegna þess að það sem við vitum er ekki ætíð skýrt eða ljóst fyrir okkur. Hlutverk rökfræði og stærðfræði er að leggja okkur til aðferðir til að umbreyta hlutum sem við höfum sagt í annað form, en við erum samt, í hinni umbreyttu gerð þess sem rökfræði og stærðfræði hafa gert okkur kleift að komast að, að segja í grundvallaratriðum það sama eða hluta af því sama og við vorum að segja í staðhæfingunni sem við byrjuðum með. Tökum einfaldasta dæmið: 2+2 = 4. Ef ég læt tvö epli og önnur tvö epli í vasa minn þá hef ég látið í hann fjögur epli. Þetta eru bara tvær mismunandi leiðir til að segja hvað ég gerði. Og flóknasta stærðfræðilega ferlið er, að dómi Wittgensteins, í grunninn af þeirri gerð. En einmitt hversu flókið það er gerir að verkum að það liggur ekki í augum uppi og gerir skýra framsetningu rökfræðilegs og stærðfræðilegs sannleika í raun ómissandi.

Magee Þegar Wittgenstein fór að verða óánægður með alla heimspekina íTractatusi að hverju beindist þá óánægja hans?

Quinton Ég held maður ætti að segja hér dálítið um hvað Wittgenstein var að gera í millitíðinni. Þú talaðir hér á undan almennt um feril hans – verkfræðinámið í Manchester, að hann fékk áhuga á eðli stærðfræðinnar, að hann kynnti sér verk Russells, að hann fór til Cambridge til að vinna með Russell – og á þessu tímabili var hann ákaflega einangraður maður, kannski að mestu leyti lokaður inni í eigin hugsunum, talaði við eina eða tvær manneskjur (einkum Russell). Heimspekin íTractatusi endurspeglar þetta að vissu leyti með því að í henni er afar mikil einstaklingshyggja. Það er ekkert sem bendir til þess að tungumálið sé á nokkurn hátt samskiptatæki. Það er tæki til að segja sjálfum sér frá, til að lýsa. Það er engin áhersla á að það sé samskiptamiðill.

Magee Það er engin hugmynd um það sem félagslegt fyrirbæri.

Quinton Eins og ég sagði – og það samrýmist alveg kenningunum í Tractatusi – taldi hann sig vera með öll svörin rétt svo að hann gaf þá heimspekina upp á bátinn. Um nokkurra ára skeið á þriðja áratugnum var hann barnaskólakennari. Síðan starfaði hann sem garðyrkjumaður í munkaklaustri. Því næst hjálpaði hann til við hanna hús fyrir systur sína. Og það var ekki fyrr en undir lok þriðja áratugarins að hann fór aftur að stunda heimspeki. Hann fór að taka þátt í rökræðum við ýmsa framámenn í því sem átti eftir að verða Vínarhringurinn og þetta varð til þess að hann fékk aftur áhuga á heimspeki. Hin mjög svo ólíka seinni heimspeki Wittgensteins þróaðist frá þeim tíma. Svo virðist sem hann hafi til að byrja með verið nokkuð hlynntur þeirri sérstöku túlkun sem Vínarhringurinn var með á greinargerð hans um hverjir séu grunnþættir tungumáls, skoðun þeirra á þeim sem lýsingu á reynslu en ekki bara sem nöfnum á einföldum hlutum sem raðast saman á ákveðinn hátt án skýringar á því hvernig þessir hlutir tengjast vitund okkar. En hann hvarf frá þessu nokkuð fljótt, að ég tel. Höfum hugfast að hann sneri aftur til Cambridge árið 1929 og dvaldi þar í ýmsum hlutverkum þangað til hann flæktist inn í ýmiss konar störf tengd stríðinu í seinni heimsstyrjöldinni. Á þessu tímabili bjó hann til gerólíka heimspeki sem setur ekki fram skýrar, ákveðnar, sérteknar reglur um innsta eðli tungumálsins heldur nálgast málið sem náttúrlegt mannlegt fyrirbæri, eitthvað sem við finnum að gerist allt í kringum okkur, flókið safn mannlegra athafna sem skarast – líkjast hver annarri að sumu leyti, eru ólíkar að öðru leyti. Grundvallareinkenni þessarar seinni heimspeki er að litið er á tungumálið sem í eðli sínu opinbert eða félagslegt fyrirbæri, fyrirbæri sem því aðeins getur virkað að til séu reglur sem fleiri en einn einstaklingur fallast á svo að notkun eins einstaklings á reglunum sem hann fer eftir í máli sínu sé móttækileg fyrir leiðréttingu og lagfæringu af hálfu annars einstaklings.

Magee Ég held að auðveldasta leiðin inn í þessa seinni heimspeki Wittgensteins – og þess vegna til að sjá hvernig hún er ólík hinni fyrri – sé með hjálp mismunarins á tveimur myndlíkingum fyrir merkingu. Í fyrri heimspekinni er litið á merkingu sem myndræn tengsl. Í hinni seinni er litið á hana eins og verið sé að nota tæki: farið er að líta á merkingu orðs sem heildarsummu allrar mögulegrar notkunar þess. Þetta, eins og þú varst að segja rétt áðan, tengir hana við mannlegar athafnir og endanlega við lífshætti. Þessi breyting frá líkingunni við mynd til líkingarinnar við tæki eða verkfæri er algert grundvallaratriði. Aragrúa annarra breytinga leiðir af henni. Geturðu tekið upp þráðinn þaðan?

Quinton Já. Það sem við höfum hér verður, held ég, best látið í ljós með hjálp annarrar myndlíkingar. Hún er sprottin af stöðugum samanburði hans á notkun máls við að fara í leiki og er hér á ferðinni hugmyndin um „málleik“ sem verður mikilvægt fagorð í seinni heimspekinni.

Magee Má ég grípa fram í til að segja að ég tel að þessi myndlíking hafi verið ákaflega óheppileg. Af þeirri staðreynd að Wittgenstein er alltaf að tala um málleiki og um notkun máls sem einskonar leik hafa margir dregið þá ályktun að hann hafi einhvern veginn litið svo á að allt sem sagt er sé léttvægt. Það hefur verið notað til að staðfesta þá fordóma sem margir hafa um málspekina að hún sé „öll bara leikur að orðum“.

Quinton Þetta var nú vissulega ekki ætlun hans sem var aðeins að vekja athygli á tveimur einkennum leikja. Hið fyrra er einfaldlega að þeir eru athafnir sem stjórnast af reglum. Margt leiðir af þessu um það hvernig reglur leiks geta breyst og hvernig leikir geta líkst hver öðrum á alls konar ólíka vegu. Það vísar veginn til hins síðara einkennis leikja sem er að þeir hafa allir ekkert sameiginlegt einkenni. Leikir, segir hann, tengjast hver öðrum með skyldleikasvip. Þetta á svo aftur við um tungumálið, hinar margvíslegu athafnir sem við framkvæmum með málinu: að spyrja spurninga, blóta, heilsa, biðjast fyrir, svo gefin séu nokkur þeirra dæma sem hann telur upp. Ég er sammála því að leikjalíkingin gæti virst gefa í skyn að þetta sé aðeins gaman, dægradvöl eða þvíumlíkt. En hin myndlíkingin sem þú nefndir var líking milli tungumálsins og tækja sem notuð eru í ákveðnum tilgangi. Það er sem sagt þetta tvennt við tungumálið: Það er starfsemi sem hefur ákveðinn tilgang og samt er hún framkvæmd með sérstökum einingum sem stjórnast af venjubundnum og breytanlegum reglum.

Magee Þessi nýja hugmynd um merkingu hafði töluverð áhrif utan heimspekinnar, einkum í mannfræði og félagsfræði. Geturðu sagt eitthvað um hvernig aðrar fræðigreinar urðu fyrir áhrifum af henni?

Quinton Það þarf að hafa formála að svarinu með athugasemd um seinni skoðun hans á heimspekinni sjálfri. Það er órofið samhengi milli fyrri og seinni almennrar skoðunar hans á heimspeki, sem sé að hún sé í eðli sínu starfsemi en ekki kenning (svo notuð sé formúlan í Tractatusi). Heimspeki er eitthvað sem maður gerir. Hún er ekki kenningabálkur sem hægt er að koma orðum að. (Hann segir þetta alveg skýrt í Tractatusi en það er enn undirliggjandi ósögð forsenda í Rannsóknunum þar sem hann segir að ekki ætti að setja fram heimspekilegar kenningar þar sem þær auki einungis á rugling.) Það sem maður gerir sem heimspekingur er að safna minnispunktum um hvernig tungumálið er í raun og veru notað í margvíslegum myndum sínum, hinum margvíslegu aðgreindu en ekki óskyldu málleikjum sem það er notað í. Maður safnar minnispunktum um þetta til að koma í veg fyrir að fólk fari að bíta sig í villandi líkingar eða hliðstæður. Hin villandi líking sem var honum ef til vill efst í huga var sú tilhneiging að halda að vegna þess að við segjum „ég fann til sársauka“ eða „ég er með verk“ þess vegna sé sársauki eða verkur einhvers konar ákveðinn, þekkjanlegur innri hlutur, sem við ein vitum um og tökum eftir innra með okkur og segjum öðrum frá. Mikið af Rannsóknunum fæst við að losa um takið á þessari mynd af því hvernig við tölum um andlegt líf okkar eins og við værum að segja frá einkareynslu.

Magee Auðvitað er myndin sem hann er nú að hafna einmitt sú tegund myndar sem fyrri kenning hans um tungumálið mundi fá mann til að samþykkja. Ef við nú göngum út frá þessu heldurðu þá að einhver sannleikur sé í eftirfarandi lýsingu? Þegar Wittgenstein gaf Tractatus út var hann gagntekinn af tiltekinni kenningu um tungumálið, nefnilega myndakenningunni. Seinna gerði hann sér ljóst að hún var röng og hafði leitt til rangrar heimspeki. Af þessari reynslu ályktaði hann að áður en maður fer að hugsa heimspekilega ætti hann að rannsaka hina margvíslegu vegu sem tungumálið getur afvegaleitt okkur á, og gerir það í reynd. Og þetta varð svo heimspekileg aðferð hans: margþætt rannsókn á því með hve margvíslegum hætti rangar skoðanir á tungumálinu villa um fyrir okkur í hugsun okkar um heiminn.

Quinton Það er án efa rétt að mikill hluti Rannsóknanna er í formi gagnrýni á fyrri kenningar hans. Fyrsta fjórðungi þeirra er að miklu leyti beint að því að ráðast á þá hugmynd að orð séu í eðli sínu nöfn. Skoðun hans er að notkun nafna sé aðeins einn af þeim mörgu málleikjum sem við förum í, einn þáttur tungumálsins. Við verðum þegar að hafa mikinn málskilning, heldur hann fram, til að skilja athafnir manns sem er að reyna að segja okkur hvað eitthvað heitir. Hann vill sem sagt halda því fram að hugmyndin að gefa nafn hafi engan algeran forgang. Það er bara eitt af því sem málið gerir. Þaðan heldur hann áfram og ræðst á fyrri hugmynd sína að til séu endanlega einfaldir hlutir og endanlega einfaldar yrðingar. Hann heldur því fram að einfaldleiki miðist alltaf við einhverja sérstaka rannsókn. Af þessu leiddi að hann fór nú að hugsa um tungumálið sem opinberlega tiltækan félagslegan veruleika en ekki sem einhvers konar óbreytanlega frumverund og eðli hennar sé hægt að finna út í huganum með hreinni rökhugsun.

Magee Afstöðu Wittgensteins hefur oft verið líkt við sálgreiningu. Wittgenstein er að segja að í fyrsta lagi afbaki rangar gefnar forsendur sem eru tungumálinu að kenna skoðun okkar á einhverri sérstakri hlið veruleikans og að á því stigi verði það verkefni heimspekinnar að staðsetja hnútana og leysa þá. Þessari hálfgildings lækningaskoðun á heimspekilegri starfsemi hefur oft verið líkt við það sem Freud taldi að sálkönnuðurinn ætti að gera varðandi sálarflækjur af vissum öðrum tegundum. Heldurðu að þarna sé um að ræða eitthvað raunverulega líkt?

Quinton Já, ég held að það sé áreiðanlega eitthvað líkt með þessu tvennu. Það að Wittgenstein forðaðist kenningar í seinni heimspeki sinni er einmitt líkt því að hinn freudíski sálkönnuður neitar sér um að segja: „Það sem er að þér er að þú ert æðislega ástfanginn af móður þinni“ – sem hefur alls engin áhrif. Aðferðin verður að vera langtum óbeinni. Það verður að koma sjúklingnum á það stig þar sem eitthvað er að lokum dregið upp úr undirvitundinni – með því að endurlifa heilmikið af liðinni reynslu og með því að vera minntur á alls konar hugsanir og tilfinningar sem hann hefur haft. Hjá Wittgenstein er það sem er hulið ekki hulið á alveg sama hátt: Það sem verður að gera hinum heimspekilega ruglaða eða ráðvillta einstaklingi ljóst eru reglur málleiksins sem fólk notar í raun og veru. Það sem hefur komið fyrir hann er að hann hefur hrifist af líkingu eða hliðstæðu sem hann hefur séð milli þess hvernig orð haga sér í einum leik og hvernig þau haga sér í öðrum. Hann beitir reglum fyrri leiksins á seinni leikinn og kemst í vandræði. Hann heldur að vegna þess að í búð segi ég: „Þetta er reiðhjól, þetta er sjónvarpstæki og þetta er brauðrist “, þá sé ég að gera eitthvað hliðstætt þegar ég horfi inn í sjálfan mig og segi: „Ég er með sáran verk í vinstra hnénu, ákafa löngun í tebolla og ósk um að það væri föstudagur.“ Segja mætti að þetta séu gerólíkar aðgerðir. Í sjálfslýsingu er maður ekki bara að telja upp hluti sem hann finnur innra með sér. Leiðin til að gera sér þetta ljóst, heldur hann fram, er að gaumgæfa tungumálið í sínu náttúrlega umhverfi og taka tillit til allra kringumstæðna þar sem fólk segir tiltekna hluti og sérkennandi hegðunar sem fylgir því að það segir þá.

Magee Má ég nú spyrja þig aftur hvaða áhrif þessi heimspeki hefur haft utan heimspekinnar?

Quinton Mér láðist að taka þessa spurningu til umfjöllunar, alveg rétt hjá þér. Það eru allmörg áhrifasvið. Ég held það sé gagnlegt að aðgreina þrjú þeirra. Hið fyrsta er þvert ofan í skoðun hans sjálfs að heimspekin ætti ekki að setja fram kenningar, að hún ætti að takast á hendur að eyða stig af stigi ruglingi frekar en búa til almennar reglur til altækrar notkunar. Segja mætti að það sé ein almenn regla sem er nokkuð algeng og hann hefur fengið fjölda manna til að fallast á: Hún er sú að til þess að skilja tungumálið sem við notum til að tala um andlegt líf sjálfra okkar og annarra sé nauðsynlegt að gaumgæfa kringumstæður og hegðun fólksins sem þessar tilfinningar eða hugsanir eru eignaðar. Ég segi ekki að Wittgenstein sé atferlissinni eða að þeir sem hann hefur haft áhrif á séu, strangt tekið, atferlissinnar í hreinræktuðum skilningi. Ég er einungis að segja að það sé óaðskiljanlegur hluti skilnings okkar á því hvernig við tölum um andlegt líf að hegðun og kringumstæður eigi þátt í því. Þetta eru nokkuð almenn og, segja mætti, blátt áfram fræðileg áhrif sem hann hefur haft á heimspekinga. Nú er ekki lengur hægt að tala um þekkingu okkar á huganum – hvort heldur á hug sjálfra okkar eða annarra – á hinn gamla cartesíska hátt, á þeirri forsendu að heimurinn samanstandi af tveimur gerólíkum tegundum hluta: hinum skynjanlega heimi fastra, sýnilegra hluta í rúmi og tíma og innri heimi hugsana og tilfinninga. Heimarnir tveir skarast mjög náið. Reyndar er ekkert tal um innri hugsanir og tilfinningar mögulegt sem tengist ekki tjáningu hugsana og tilfinninga í þeim kringumstæðum sem þær eiga sér stað í. Þetta er nokkuð sem er viðurkennt af fjölda manna sem aðhyllast ekki Wittgenstein í neinum almennum skilningi. Til að aðhyllast Wittgenstein held ég að maður verði að tileinka sér þá aðferð og hugmynd um heimspeki sem Wittgenstein sjálfur setur fram í seinni verkum sínum, og um það eru fjölmörg dæmi. Ég er ekki sérstaklega hrifinn af því viðhorfi. Hér er það fortakslaus leikregla að forðast heimspekilega kenningasmíð. Hugmyndin er að viss tegund ráðgátu sem ruglar fólk í ríminu kalli óhjákvæmilega á heimspeki og það verði að ráða fram úr þessu með aðferðum sem eru meira eða minna bundnar hverju einstöku tilviki. Gaumgæfið hina sérstöku ráðgátu; veltið fyrir ykkur orðunum sem ráðgátan er sett fram með; skoðið þau alveg niður í kjölinn; heimspekingurinn minni ykkur á allar hinar ólíku málvenjur í daglegri notkun tungumálsins þar sem orðin sem valda ráðgátunni koma fyrir. Þetta er heimspekileg aðferð sem allmargir hafa tileinkað sér. En það er aðeins, að ég held, lítill hópur manna sem mundi í raun og veru viðurkenna forystu Wittgensteins sem heimspekings, sem líta á sig sem lærisveina hans í einhverjum skilningi. Flestir þeirra sem hann hefur haft áhrif á geta ekki stillt sig um að fara aftur út í það sem hann fordæmir opinberlega, það er að segja að búa til kenningar, að skáletra niðurstöður í heimspekilegu skrifi. Skilningsríkustu útskýrendum hans hættir til að vera brenndir með hinu gamla marki þeirrar heimspeki sem stundar kenningasmíð. Þeir vinna ekki yfirleitt á þennan brotakennda hátt, þó býst ég við að í vissum skilningi finnist þeim að þeir ættu að gera það. En, svo að ég víki að öðru atriðinu, þá er einnig um að ræða víðara áhrifasvið sem best verður lýst í stuttu máli sem stuðningi við menningarlega afstæðishyggju af ákveðinni gerð. Wittgenstein var harður á því að það væri ekki verkefni heimspekinnar að fikta við tungumálið, að leiðrétta málið sem er í raun og veru notað – þetta er vitanlega Wittgenstein í seinni heimspeki sinni – og þetta verður einskonar umburðarlyndisregla gagnvart næstum því hvaða ríkjandi málvenju sem er. Þetta hefur mannfræðilega þýðingu. Það er algerlega andstætt mannfræðilegu viðhorfi upplýsingar átjándu aldar þegar fólk í gerólíkum kringumstæðum var álitið skynsamt eða heimskt í ljósi þeirra meginreglna sem voru ríkjandi í samfélagi mannfræðinganna sjálfra. Wittgenstein mundi vera algerlega andsnúinn því. Fyrir honum eru allir lífshættir jafnir og maður getur ekki haldið því fram að hann skilji til fulls samfélag, eða einhverja hlið eða hluta samfélags, eða hóp sem er tengdur saman með tilteknum samskiptareglum, nema maður fari í raun og veru inn í þetta kerfi og þá mun hann skilja það innan frá. Þetta útilokar þá hugmynd að til sé altækur mælikvarði til að leggja mat á mismunandi lífshætti. Og því ætti að bæta við að allar félagslegar athafnir þeirra eru gegnsýrðar af tungumálinu og þar raungerast tengslin. Öll gagnrýni utan frá á þessar athafnir er útilokuð. Það verður bara að rannsaka þær og skilja innan frá. Þriðja og síðasta áhrifasviðið sem á rætur að rekja til Wittgensteins er sennilega víðtækast og mikilvægast þeirra allra. Í stórum dráttum er það greinargerð Wittgensteins um félagslegu hliðina á mennlegri tilvist. Einn hluti hennar er útgáfa hans af þeirri algengu skoðun að maðurinn sé í eðli sínu félagsvera. Samkvæmt Wittgenstein er það notkun tungumáls sem greinir mannkynið frá öðrum dýrategundum. En hann heldur því fram með rökum að tungumál sé ósmættanlega félagslegt fyrirbæri. Það er tjáningarvenja sem stjórnast af reglum, og að fara eftir og framfylgja reglum, heldur hann fram, er eitthvað sem einungis er að finna í samfélagshópi. Þetta er hin vel þekkta kennisetning hans um að einkamál sé ekki mögulegt – en því ætti að bæta við að þetta er mjög umdeild kenning. Tengd þessu er sú afstaða sem hann tekur til skýringar á mannlegri hegðun. Hið hefðbundna vandamál um frelsi viljans gekk að því sem gefnu að mestallt mannlegt atferli ætti sér orsakir. Vandamálið var þetta: Verður eitthvað af því sem menn gera að vera orsakalaust eigi að telja þá siðferðilega ábyrga fyrir því? Wittgenstein gróf undan þessu vandamáli með því að halda því fram að eiginlegur verknaður (andstætt við viðbragðshreyfingar eða fyrirbæri á borð við meltinguna) eigi sér alls ekki orsakir – að spurningar um hvað orsaki hann eigi einfaldlega ekki við og að einu viðeigandi beiðnir um skýringu varði ástæður fyrir verknaði. (Hér gefur hann sér að ástæður og orsakir útiloki hvor aðra, nokkuð sem margir mundu draga í efa.) Sé þetta rétt er allt áformið um vísindalega rannsókn á mannlegu samfélagi dregið í efa. Því áform sem þannig er hugsað hlýtur að snúast um orsakir. Kenning Wittgensteins um verknað virðist leiða af sér að það geti ekki verið nein félags- og mannvísindi sem nota aðferðir hliðstæðar aðferðum náttúruvísindanna. Í staðinn verður rannsókn manns og samfélags að vera túlkunareðlis líkt og þýðing yfir á manns eigið tungumál á einhverju sem er skrifað á öðru. Satt að segja er rannsókn samfélags yfirleitt slík þýðing frekar en að hún sé lík slíkri þýðingu. Segja mætti að form samfélagslífsins sem verið er að rannsaka sé gegnsýrt af tungumálinu. Wittgenstein hélt því fast fram að tungumál séu sjálf „lífsform“.

Magee Virði maður fyrri og seinni heimspeki Wittgensteins fyrir sér í sameiningu virðast þær vera metnar á að minnsta kosti þrjá mismunandi vegu af heimspekingum sem eru sjálfir mikilsvirtir. Margir, kannski flestir, líta á bæði fyrri og seinni heimspekina sem afurðir snilligáfu. Aðrir – Bertrand Russell til dæmis – líta á fyrri heimspekina sem afurð snilligáfu en seinni heimspekina sem léttvæga. Enn öðrum – Karl Popper er einn þeirra – finnst lítið til beggja koma. Hvernig metur þú þær?

Quinton Ég er nú kannski nógu þægur til að vera alveg sannfærður um að Wittgenstein sé snillingur og að bæði fyrri og seinni heimspeki hans séu snilldarverk. En eins og svo oft þegar heimspekileg verk eiga í hlut er þetta ekki vegna þess að allt sem í þeim stendur sé sannleikur. Hver mundi neita því, þegar öllu er á botninn hvolft, að Platon væri snillingur, en hver gæti samt trúað í alvöru skoðun hans á alheiminum – að það sem er til í raun og veru séu sérteknir tímalausir hlutir og heimur hluta í rúmi og tíma sé einhvers konar óraunveruleg sýnd? Hægt er að viðurkenna snilligáfu heimspekings án þess að fallast á mikið af því sem hann segir. Snilligáfan kynni að vera fólgin í því – eins og til að mynda er augljóst í tilviki Kants – að spyrja róttækari og magnaðri spurninga en menn höfðu spurt áður, draga í efa ósagðar forsendur sem hingað til hafði ekki verið hróflað við. Og ég tel að þetta eigi við um verk Wittgensteins í heild.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Enska heitið er ‘The Two Philosophies of Wittgenstein’. – Úr bókinni Men of Ideas sem er byggð á samræðum Magees við fjórtán þekkta heimspekinga og málvísindamanninn Noam Chomsky. Samræðunum var sjónvarpað hjá BBC fyrri hluta árs 1978. Bókin kom út sama ár.

2. Þess má geta að Anthony Quinton er viðmælandi Magee um heimspeki Spinoza og Leibniz í bókinni Miklir heimspekingar sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 2002. Þar er að finna rækilegri umfjöllun um seinni heimspeki Wittgensteins en í þessari samræðu.

 

« Til baka