Færslusöfn

Bryan Magee ræðir við R. M. Hare um siðfræði

eftir Bryan Magee

INNGANGUR

„Mest hamingja sem flestra er undirstaða siðferðis og löggjafar.“ Þetta er meginstaðhæfing nytjastefnunnar sem mér virðist langáhrifamesta siðfræðin í bresku samfélagi nú á dögum. Alltaf þegar Englendingar sem hafa stjórnmál eða opinber störf að atvinnu, eða hvaða annað svið opinberrar stjórnsýslu sem er, koma saman til að ræða hvað skuli gert eru margar ef ekki flestar af þeim ósögðu forsendum sem liggja til grundvallar umræðunni forsendur grófrar – oft ekki þaulhugsaðrar – nytjastefnu. En samt er þessi heimspeki alls ekki ný af nálinni. Grunnregla hennar var sett fram af Francis Hutcheson1 fyrir tveimur og hálfri öld, og henni var sprautað inn í blóðrás félagslegrar hugsunar fyrir einni og hálfri öld af Jeremy Bentham.2 Bentham og fylgismenn hans – fyrst og fremst John Stuart Mill – höfðu áhrif á hugsun heillar valdastéttar í Bretlandi á öðrum helmingi nítjándu aldar, aðallega fyrir tilstilli menntakerfisins. Og þau hafa varað í stofnunum Bretlands til þessa dags. Hér höfum við ágætt dæmi um hvernig heimspeki, sem í fyrstu er sett fram og komið á framfæri af mönnum sem eru eingöngu hugmyndasmiðir, getur haft bein áhrif á daglegt líf milljóna manna. Hins vegar fer því fjarri að nytjastefnan njóti stuðnings alls staðar og hjá öllum. Í samfélagsmálum er hún dregin í efa bæði af hinum róttæka vinstri og hægri væng stjórnmála og einnig af mörgu trúuðu fólki. Í háskólum sætir hún æ oftar árásum atvinnuheimspekinga. Þessi deila verður skoðuð nánar hér á eftir, en fyrst vil ég setja hana í víðara samhengi siðfræðinnar sem slíkrar. Ég hef fengið hingað til mín prófessor í siðfræði við Oxford háskóla, R. M. Hare [1919–2002], til að ræða þessi mál.

SAMRÆÐA

Magee  Mig langar að fara aftur til undirstöðuatriða greinarinnar og byrja þar og ég geri það með því að spyrja djúptækustu spurningarinnar: Hvað er siðfræði?

Hare  Hvað við segjum að siðfræði sé mun ráðast af því hvað við teljum að heimspekin sjálf sé. Allt frá dögum Sókratesar hafa heimspekingar leitast við að varpa ljósi á vandamál af ýmsu tæi með því að gera sér ljósari grein fyrir hugtökunum sem vandamálin voru sett fram með. „Heim­spekilegt vandamál“ er einfaldlega vandamál sem talið er að hægt sé að fjalla um með þessum hætti. Siðfræði er engin undantekning: Vandamálin sem hún leitast við að varpa ljósi á eru raun­hæf mál um siðferði. Hvernig gætum við ákveðið hvað væri sanngjörn kauphækkun, svo dæmi sé tekið, ef við hefðum enga hugmynd um hvað „sanngjarn“ merkir og þess vegna enga hugmynd um hvað mundi gera út um slíkar spurningar?

Magee  Það er eitt sem ég held við verðum að gera ljóst en það er munurinn á siðfræðingi og siðapostula. Það er sérstaklega mikilvægt að gera þetta með tilliti til fullyrðingar þinnar (og minnar) að siðfræðingurinn geti lagt eitthvað raunhæft af mörkum til lausnar á raunverulegum siðrænum vandamálum – vegna þess að þeir gera það ekki, er ekki svo, með því að segja fólki hvað það eigi að gera en það gerir siðapostulinn?

Hare  Í stað þess að „segja fólki hvað það eigi að gera“ (sem hljómar svolítið eins og við værum öll í hernum) hefðirðu kannski átt að segja „að hugsa um hvað það, eða aðrir í tilteknum að­stæðum, ætti að gera“. Í þeim skilningi eru flest okkar siðapostular, sum vitrari en önnur. Siðfræðingurinn er öðruvísi sökum þess að hann nálgast þessi vandamál með sérstakri færni (þó það sé færni sem allar greindar manneskjur geta tileinkað sér ef þær reyna). Þetta er hæfnin til að skilja fullkomlega og skýrt orðin sem notuð eru til að setja fram siðferðilegar spurningar og vita þannig nákvæmlega hvers við erum að spyrja og þess vegna hvaða röksemdir eru okkur tiltækar þegar við svörum þeim og hverjar þeirra muni standast.

Magee  Hvaða siðferðishugtök er gagnlegast að rannaka á þennan hátt?

Hare  Heimspekingar hafa mismunandi skoðanir á þessu. Iris Murdoch skrifaði bók sem heitir The Sovereignty of Good sem gefur til kynna með titlinum, að ég hygg, að hún taldi að „góður“ væri mikilvægasta hugtakið. Aðrir hafa talið að „skylda“ væri það. Og enn aðrir vilja að við rannsökum afmarkaðri hugtök á borð við „góðvild“ og „réttlæti“. Ég sjálfur tel að það sé gagnlegt að rannsaka öll þessi hugtök en hef upp á undanfarið einbeitt mér að orðinu „ætti“ vegna þess að það er einfaldasta siðferðishugtakið og einnig það miðlægasta – því að þegar allt kemur til alls viljum við að lokum vita, er það ekki, hvað við ættum að gera?

Magee  Þú hefur lýst viðfangsefni siðfræðinnar eingöngu sem greiningu á siðferðilegum hug­tökum. Hvað um kenningar, líkön og forsendur athafna, ákvarðanir, valkosti? Greining á þessu er líka heimspekileg iðja og vissulega mikilvæg, eða hvað?

Hare  Það held ég; en það sem mikilvægast er að rannsaka á gagnrýninn hátt auk hugtaka, og með hugtökum, eru röksemdafærslur til að sjá hvort þær eru góðar eða vondar. Með því að öðlast skilning á hugtökunum getum við prófað röksemdafærslurnar og þess vegna kenningarnar sem þau eru notuð til að styðja. Að skilja hugtak er að skilja röklega eiginleika þess og þess vegna að vita hvaða ályktanir sem nota það ganga upp.

Magee  Hvað geta hugtakagreining og greining á siðferðilegum rökfærslum lagt af mörkum til að leysa raunhæf vandamál?

Hare  Ja, hvernig mundum við leysa raunhæf vandamál ef við vissum ekki hvað væru góð og hvað væru vond rök? Og hvernig vissum við það ef við skildum ekki hvað spurningarnar sem við værum að spyrja merkja?

Magee  Það sem ég hafði í huga þegar ég spurði þig síðustu spurningarinnar var þetta: Þú ert rökgreiningarheimspekingur og þú lítur á hlutverk þitt fyrst og fremst sem það að skýra hugtök og rökfærslur. En það eru til aðrar tegundir heimspekinga – marxistar, til dæmis, og nytjastefnu­menn – sem sjá heimspekina ekki í sama ljósi. Þeir eru vissir um að afstaða þeirra skipti máli í reynd – svo sannarlega, í tilviki marxista og nytjastefnumanna er augljóst að það skiptir máli í reynd, það sést greinilega að svo er. Hvaða máli skiptir afstaða þín í samanburði við afstöðu þeirra?

Hare  Ég er reyndar nytjastefnumaður í hefð Mills sem taldi rökfræði skipta svo miklu máli að hann skrifaði heilan doðrant um hana, og honum var vel ljóst hve mikilvægt er að rannsaka hugtök. Marxistar eru líka nytjastefnumenn, þó af mjög ólíkri gerð. Eins og hinir miklu bresku nytjastefnumenn, en ólíkt flestum marxistum, tel ég að siðferðilegar röksemdir þurfi á stuðningi að halda, ekki einungis með nákvæmri könnun staðreyndanna um siðferðilegar aðstæður okkar heldur og með nákvæmri rannsókn á röksemdafærslum okkar sem aðeins verður gert með því að gera sér skýra grein fyrir hugtökunum og hvernig þau virka.

Magee  Telurðu siðfræðina sem kemur frá marxistum vera á vitsmunalega lágu stigi?

Hare  Vitsmunalegt stig marxískrar hugsunar, sumt af henni, er hátt á sinn hátt. Þessir menn hafa lagt mjög mikið af mörkum til skilnings okkar á samfélaginu. Framlag Marx til félagsfræði og ef til vill hagfræði skiptir mjög miklu máli, þó betra hefði verið ef það hefði verið skýrara – ef það gæfi ekki tilefni til svo margra ólíkra túlkana sem lærisveinar hans slást um eins og guðfræðingar. En hvað heimspekina varðar var hann ekki í raun og veru með hugmyndina um hvað heimspekingur þarf að gera til að veita sína sérstöku aðstoð við að leysa raunhæf vandamál.

Magee  Eru ekki margir hinna yngri heimspekinga nú á dögum, líkt og marxistar og nytjastefnumenn gærdagsins, að hverfa frá „einberri” skýringu hugtaka til beinnar umfjöllunar um siðferðileg álitamál?

Hare  Mér virðist að hér sé um ranga andstæðu að ræða. Þeir heimspekingar sem halda sig geta komist hjá að skýra hugtök og horfast í augu við raunveruleg siðferðileg vandamál í lífinu sjálfu eru eins og pípulagningarmaðurinn sem þýtur út til vinnu og skilur öll verkfæri sín eftir og gleymir öllu sem hann vissi um pípulagningu. Hann er þá ekkert betur í stakk búinn en húsráðandinn til að stöðva lekann.

Magee  Þú ert með öðrum orðum að segja að atvinnutæki heimspekingsins séu greining hugtaka og rökgreining og að noti hann þau ekki meira en aðrir þá sé hann ekki að leggja það af mörkum sem hann er sérstaklega hæfur til.

Hare  Já. Hann kemur að minna gagni en fjöldi stjórnmálamanna og blaðamanna vegna þess að hann skortir reynslu þeirra.

Magee  Úr því að minnst er á stjórnmálamenn þá hefur alltaf verið talið að sérstakt samband væri milli siðfræði og stjórnmálafræði en í nálægri fortíð hafa þessi tengsl veikst töluvert. Hvað viltu segja um þetta?

Hare  Ég er ekki viss um hve nálæga fortíð þú átt við. Um þessar mundir skrifa heimspekingar áreiðanlega heilmikið um mál sem hafa pólitíska þýðingu, en það ætti ekki að gera of mikið úr hve ný þessi þróun er. Ég birti fyrstu grein mína á þessu sviði árið 1955 og geri ég meira af því nú þá er það vegna þess að ég tel mig vera betur í stakk búinn til að gera það eftir þær grunnrannsóknir sem ég hef verið að fást við síðan þá. Ég vildi vona að sama gæti átt við um rökgreiningarheimspekinga almennt enda þótt sumir þeirra telji sig verða, því miður og hörmulega, að skilja verkfæri sín eftir þegar þeir leyfa sér að skrifa um stjórnmál. Róttæklingar segja stundum að rökgreiningarheimspekingar skrifi ekkert „sem skiptir máli“, en það sem þeir eiga við með þessu er að þeir skrifi ekki nóg af því sem er róttæklingum að skapi pólitískt séð. Ef ég má vera á heimaslóðum andartak skulum við líta á ástandið í Oxford. Heimspeki-, stjórnmála- og hagfræðiskólinn hefur menntað fjölda færra stjórnmálafræðinga með heimspekilegan bakgrunn, sem sumir þeirra eru enn við kennslu þar, með því að flétta saman heimspeki og félagsvísindi. Á prófinu fyrir þessa háskólagráðu eru tvö verkefni sem kallast „siðfræði og stjórnmálaheimspeki“ og „stjórnmálakenningar“ en svið þeirra skarast svo mikið að séu nemendur að taka hið síðarnefnda mega þeir ekki svara pólitísku spurningunum í hinu fyrrnefnda því að þá fengju þeir tvöfalda einkunn fyrir einfalda vinnu. Prófverkefnið „stjórnmálakenningar“ er samið af stjórnmálafræðingunum og þeir gefa einkunn ásamt heimspekingunum, og samkvæmt minni reynslu eru einkunnirnar jafn samhljóða og einkunnir ólíkra prófenda innan sömu fræði­greinar eru venjulega. Og það eru önnur prófverkefni stjórnmálalegs eðlis sem heimspekingar hjálpa oft til við að fara yfir og meta. Hér er engin vísbending um klofning milli greinanna. Það er líka ákaflega fjörug umræða meðal kennara á þessum greinamörkum. Ég er í hópi sem kemur saman í Allrasálnagarði og ræðir málefni á því sviði sem hið víðlesna nýja bandaríska tímarit Philosophy and Public Affairs gerir ítarleg skil. Það vill svo skemmtilega til að þessi hópur stjórnmálafræðinga, lögfræðinga og heimspekinga sem byrjar með þeim ásetningi að ræða raunhæf málefni sem eru ofarlega á baugi hefur mjög fljótlega uppgötvað að rannsókn á þessum málefnum, sé farið djúpt í hana, leiðir beint til þeirra áríðandi vandamála í kennilegri siðfræði sem þú sagðir að við værum að hverfa frá. Svo við erum í raun að hverfa aftur til þeirra með nýjum skilningi á mikilvægi þeirra.

Magee  Það sem ég hef orðið áskynja bara á undanförnum fáum árum er vaxandi tilhneiging hjá siðfræðingum að fást við vandamál á félagslegum sviðum öðrum en þeim sem eru strangt tekið stjórnmálaleg – vandamál í hagfræðikenningum, til dæmis, eða í stefnu í fólksfjöldamálum.

Hare  En þetta er efniviður stjórnmála nú á dögum; heimspekingar eru að leggja til orrustu. Það sem þú segir er vissulega að gerast enda þótt það byrjaði fyrir nokkru. Derek Parfit, sem ásamt lögfræðingnum Ronald Dworkin stofnaði hópinn sem ég nefndi rétt áðan, er að skrifa um stefnu í fólksfjöldamálum sem ristir dýpra en nokkuð annað sem ég þekki, og hann ásamt nokkrum öðrum heimspekingum halda viðvarandi málstofu á þessu og skyldum sviðum sem er ein þeirra mest spennandi í Oxford. Tómstundaiðja mín hefur verið umhverfisskipulag og ég tók allvirkan þátt í því áður en ég gerðist atvinnuheimspekingur fyrir þrjátíu árum; og ég held satt að segja að heimspekin hafi hjálpað mér við þá tegund rannsókna. Ég geri ekki svo mikið af þessu nú orðið og ástæðan er kannski athyglisverð: Það er vegna þess að umhverfisskipulag (og sérstaklega skipulag flutninga sem ég hef mest fengist við, sökum þess að það er svo miðlægt í umhverfisvandamálum) er nú orðið svo miklu tæknilegra en það var. Þetta þýðir að þeir sem eru áhugamenn, eins og ég, geta í rauninni ekki gert mikið í því nú sem er ómaksins vert. Ég var vanur að skrifa greinar í Traffic Engineering and Control, en ég mundi ekki dirfast að gera það nú vegna þess að viðfangsefnið er orðið svo stærðfræðilegt og erfitt. Maður var vanur að geta gert umferðarspár sem tóku til heillar borgar eins og til dæmis Oxford, með erfiðismunum með blýanti og blaði, að íbúatölunni gefinni; og ég gerði nokkrar í tengslum við vegadeiluna í Oxord, en nú verður maður að nota tölvu og ég hef ekki lært það. Þetta er kennidæmi um það sem kemur fyrir heimspekinginn. Ef ég hefði hug á að sérhæfa mig í þessu efni yrði ég að gefa heimspekina upp á bátinn – ég hefði ekki tíma.

Magee  Þegar kemur að raunverulegum samfélagsmálum líkt og þessu neitarðu því samt að viðhorf í siðfræði sem eru opinskátt „pólitísk“ eins og til dæmis marxisminn (og jafnvel vissar tegundir tilvistarstefnu) hafi meira að segja?

Hare  Þeir sem aðhyllast þessi viðhorf hafa meira að segja í þeim skilningi að þeir nota fleiri orð: Bækur þeirra eru venjulega lengri. Enda þótt það séu nokkrir góðir heimspekingar sem aðhyllast þessar stefnur gerir algengari tegundin lítið annað en blása upp blöðrur af mismunandi lögun og lit, fullar af engu nema andardrætti þeirra sjálfra, sem svífa hingað yfir Ermarsundið eða Atlantshafið, og sé stungið í þær með oddhvassri nál er mjög erfitt að segja hvað var í þeim nema að það var sennilega eldfimt og áreiðanlega ölvandi. Ég held ekki að þetta fólk geri neitt til að leysa úr raunhæfum vandamálum. Það eykur kannski útblásturinn dálítið umfram það sem eðlileg árásarhneigð hópa framleiðir hvort eð er; en vegna gallaðrar pípulagningar lendir mest af honum á gleraugum fólks.

Magee  Með öðrum orðum álítur þú að þessum öndverðu heimspekilegu viðhorfum hætti til að vera skrautleg mælskulist en skorti bitastætt innihald. Og þetta stafar sumpart af því að þau skortir einnig röklega nákvæmni.

Hare  Nákvæmni er lykilorðið.

Magee  Mælskulist er einnig lykilorð.

Hare  Ég fordæmi ekki mælskulist þar sem hún á heima – ég sjálfur var nú rétt áðan að leyfa mér að viðhafa hana – að því tilskildu að nákvæmnin sé þar líka. Og mælskulist sumra þessara manna er mjög góð. Þeir hafa haft áhrif á söguna á þann hátt sem við rökgreiningar­heimspekingar höfum, því miður, ekki haft – enn þá – nema við teljum með fyrri tíma rökgreiningarheimspekinga eins og Locke og Mill. Ef við förum alveg aftur til Hegels og manna á borð við hann, rómantísku heimspekinganna eins og hin tegundin hefur verið kölluð, þá hafa þeir haft gífurleg áhrif á söguna – til hins verra, að mínum dómi.

Magee  Það er leitt fyrir rökgreiningarheimspeki að hún hefur ekki þessa hæfni til að hafa örvandi áhrif á fjöldann. En það felst kannski í eðli greinarinnar.

Hare  Ég er viss um að svo er vegna þess að til að miðla því sem læra má af rökgreiningarheimspeki verður maður að gera meira en að örva fólk: Maður verður að fá það til að hugsa, en það er langtum óþægilegra.

Magee  Ég held það hafi verið Whitehead sem sagði að við mundum gera næstum hvað sem væri til að komast hjá að hugsa.

Hare  Síðari tíma saga hugmyndaheimsins sýnir þetta mjög svo vel.

Magee  Rétt áðan varstu að tala um nokkur af þeim vandamálum í athafnaheiminum sem þú sjálfur hefur fengist við sem siðfræðingur. Af því sem þú segir mætti ætla að siðfræði sé í grundvallaratriðum blendingsgrein, sambland af viðfangsefnum sem sum varða staðreyndir eða eru reynslubundin og sum sem eru greinandi eða óháð reynslu. Er þetta í raun svona? Og ef svo er gerir það hana ólíka öðrum greinum heimspeki?

Hare  Það held ég ekki. Vissulega er mikilvægt að greina milli þessara tveggja tegunda viðfangsefna. Það sem þú segir minnir mig á hina frægu spurningu Kants í upphafi bókarinnar Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni: „Væri það ekki betra fyrir allan þennan lærða iðnað ef þeir sem eru vanir að útvega, í samræmi við smekk almennings, sambland af hinu reynslu­bundna og röklega í ýmsum hlutföllum sem þeir þekkja ekki einu sinni sjálfir – hinir sjálfskipuðu „skapandi hugsuðir“ andstætt „orðhenglunum“ sem sjá um þann hluta sem er eingöngu röklegur – ef þeir væru varaðir við því að inna af hendi samtímis tvö verk mjög ólík hvað aðferð snertir, og hvort um sig þarfnast kannski sérstaks hæfileika og sameining beggja í einni manneskju býr til eintóma klastrara?“

Magee  Ertu sammála Kant?

Hare  Mér fer að hitna í hamsi alveg eins og honum þegar ég hitti þessa klastrara. En þetta er ekki síðasta orðið hjá honum. Hann heldur áfram og lætur það liggja milli hluta hvort röklegi hlutinn „eigi að vera í höndum allra siðapostula (en til eru herskarar af þeim) eða einungis í höndum þeirra sem hafa köllun til verksins.“ Hann krefst þess aðeins að báðir hlutar sið­fræðinnar séu stranglega aðskildir, og í því efni er ég vissulega sammála honum. Maður verður að vita hvenær hann er að fjalla um annan og hvenær um hinn.

Magee  Þú átt við að maður verði að hafa það á hreinu hvenær hann er að fjalla um rökhæfingar og hvenær um staðreyndir.

Hare  Staðreyndir og efnislegar spurningar almennt, því að sumar efnislegar spurningar – til að mynda siðferðilegar spurningar – snúast ekki eingöngu um staðreyndir heldur um hvað við ættum að gera. En ég er sammála því að báðar verður að greina frá hugtakalegum spurningum eða rökhæfingum hvaða tegund heimspeki sem maður fæst við – þótt siðfræði sé kannski sérstaklega móttækileg fyrir ruglingi af þessu tæi.

Magee  Við skulum nú líta á núverandi ástand greinarinnar. Geturðu sagt eitthvað um hvað siðfræðingar hafa aðallega verið að fást við á undanförnum árum?

Hare  Í siðfræðikenningum hefur aðalspurningin á undanförnum árum snúist um hvort hægt sé að leiða matskenndar niðurstöður af forsendum sem byggjast á staðreyndum. Er hægt að leiða gildi af staðreyndum? Er hægt að fá „ætti“ út úr „er“? Þetta á ekki bara við um rökgreiningar­heimspeki; það liggur til grundvallar deilunum milli tilvistarstefnumanna og andstæðinga þeirra, svo dæmi sé tekið. Þeir setja þó hlutina öðruvísi fram, og vegna skorts á færni í rökgreiningu leyfa þeir sér heilmikla ástæðulausa angist til að losa sig úr vandræðum sínum sem krefst þess að gerður sé nokkur afar mikilvægur og frekar erfiður greinarmunur. En ég held ekki að hægt sé að gera mikið sem kemur að gagni í siðfræði nema maður hafi skilið til hlítar rökin báðum megin við þessa spurningu sem snýst um „er“ og „ætti“.

Magee  Þegar þú spyrð: „Er hægt að fá ‘ætti’ út úr ‘er’?“ þá er þetta svo snúin spurning, og samt svo mikið grundvallaratriði, að þú fyrirgefur mér kannski ef ég reyni að útskýra það dálítið. Viðtekna staðhæfingin er, er það ekki, að engan gildisdóm, siðadóm, stefnu eða ákvörðun leiði nauðsynlega af staðreyndum? Samkvæmt þessari skoðun eru staðreyndir og gildi röklega óháð hvort öðru. Og þetta sjálfstæði er tvíeggjað: Alveg eins og gildi eru óháð staðreyndum þannig eru staðreyndir óháðar gildum, til að mynda forgangskostum okkar. Ég skal koma með dæmi. Það væri gagnstætt því sem við báðir viljum geta trúað ef vísindamönnum tækist að sanna að einhverjir kynþættir séu erfðafræðilega verr gefnir vitsmunalega en aðrir. Það kæmi illa við okkur að uppgötva að þetta væri þannig. En þó, sé það staðreynd er það staðreynd og við verðum að viðurkenna það sem staðreynd og neita því ekki. Enn síður ættum við að reyna að þagga það niður með því til dæmis að koma í veg fyrir að vísindamenn skrifi um það eða haldi um það fyrirlestra. Í stuttu máli, staðreyndir eru óháðar óskum okkar. En samt sem áður mundi enga sérstaka stefnu í félagsmálum leiða nauðsynlega af þessari staðreynd. Sumir kynnu að segja: „Jæja, sé þessi hópur miður gefinn en hinn þarf samfélagið að verja minna af fjármunum sínum til að mennta hann.“ En aðrir gætu með sama rétti sagt: „Þvert á móti, sé þetta fólk fætt með minni greind þarf samfélagið að verja meira af fjármunum sínum til að mennta það.“ Það væri með öðrum orðum algerlega undir fólki komið að hvaða stefnuákvörðun það kæmist í ljósi sömu staðreyndar.

Þessi hugmynd að staðreyndir og gildi séu óháð hvort öðru er grundvallaratriði í menningu okkar sem byggist á vísindum, það mætti jafnvel segja menningu sem vísindin drottna yfir. Samfélagsvísindin hafa líka tekið hugmyndina upp í miklum mæli: Einkum eru félagsfræðingar að reyna að þróa það sem þeir kalla „gildisfrjálsa félagsfræði.“ Hugmyndin hefur jafnvel smitað bókmenntagagnrýni. En samt samþykkja hana ekki allir. Hvorum megin í deilunni ert þú?

Hare  Sömu megin og ég tel þig vera: Ég er þeirrar skoðunar að staðreyndir og gildi séu aðskilin. En auðvitað á ég ekki við með því, eins og sumir hafa skilið það, að staðreyndirnar skipti ekki máli fyrir spurningar um gildi. Þegar við reynum að svara spurningum um gildi, eða ef því er að skipta reyna að ákveða hvað gera skuli, þá erum við að gera upp á milli tveggja eða fleiri raunhæfra valkosta og hvað felst í valkostunum ræðst af staðreyndunum. Það sem ég á við er að, í dæminu sem þú nefnir, sé verið að ákveða hvort ætti að veita fólkinu sem talið er að hafi lakari vitsmunalega hæfileika meiri eða minni menntun þá mun það ráðast af því, er það ekki, hvað verið væri að gera ef þetta eða hitt væri gert, og það ræðst af afleiðingum þess að gera það, svo í raun og veru er verið að velja milli afleiðinganna. Ef ég þá spyr: „Ætti að veita þeim meiri eða ætti að veita þeim minni menntun?“ þá verður að greina orðtökin „veita þeim meira“ og „veita þeim minna“ með skírskotun til fjölmargra staðreynda um afleiðingarnar af því að gera þetta.

Magee  Ákvörðun eða stefna, sem merkir matskenndur forgangskostur, verður því að tengjast hinum raunverulegu aðstæðum eigi hún ekki að vera algerlega fráleit eða handahófskennd?

Hare  Það er rétt, já. Og enginn, mér vitanlega, sem heldur fast fram greinarmuni staðreynda og gilda vill halda því fram að ekki sé hægt að nota staðreyndir á þennan hátt í siðferðilegum röksemdafærslum.

Magee  En það eru til, er ekki svo, heimspekingar sem vilja halda því fram að jafnvel þegar öll kurl eru komin til grafar þá séu staðreyndir og gildi eftir sem áður einhvern veginn blönduð?

Hare  Þeir eru til. Ég held ekki að við höfum tíma til að ræða þetta en leyfist mér að segja að ég hef aldrei séð nein rök fyrir þessari skoðun sem byggðist ekki á hugtakaruglingi.

Magee  Eitt sem sannfærir mig um að það sé rangt er að þeim sem halda því fram að hægt sé að leiða staðhæfingar um gildi af staðhæfingum um staðreyndir hefur aldrei tekist það. Enginn þeirra hefur nokkurn tíma sýnt okkur eitt einasta sannfærandi dæmi.

Hare  Ekki um einfalda skilyrðislausa matskennda ályktun af forsendum um staðreyndir af þeirri gerð sem mundi hjálpa til við að leysa raunhæft vandamál á borð við það sem þú varst að lýsa. Það eru til ályktanir um gildi af staðreyndum eins og þessi: „Allir Grikkir eru menn, svo ef ekki ætti að éta menn þá ætti ekki að éta Grikki“; og þessi: „Jack gerði nákvæmlega það sem Bill gerði og kringumstæður þeirra, skapgerð o.s.frv. voru alveg eins, svo ef setja ætti Bill í fangelsi þá ætti að setja Jack í fangelsi“. Ég hef notað ályktanir af þessari gerð. Það eru einfaldar skilyrðislausar efnislegar ályktanir sem ekki er hægt að draga, þar sem engin ef og þess háttar eru.

Magee  Hverjir eru nokkrir hinna merkari heimspekinga sem eru þér ósammála í þessu efni?

Hare  Ég nefni nokkra sem líklegt er að séu vel þekkt nöfn enda þótt þeir séu reyndar ekki aðalverjendur ályktana um gildi af staðreyndum í fræðilegri heimspeki. Tökum til að mynda John Rawls í Harvard. Hann hefur skrifað bókina A Theory of Justice sem hefur hlotið mjög mikið lof og ég er þess fullviss að hann tilheyrir þeirri hlið þessarar deilu sem er andstæð okkur. Það er að segja hann telur að hægt sé að leiða gildisdóma af staðhæfingum um staðreyndir. En skoðirðu bók hans og spyrð: „Beitir hann nokkurn tíma gildri afleiðslurökfærslu út frá staðreyndum til gilda til að sýna að einhver siðferðileg ályktun sé sönn?“ Ég held ekki að hann geri það. Það sem hann gerir í staðinn er að skírskota til innsæishugmynda og setja fram staðhæfingar sem hann vonast til að við föllumst á; og hér hefur hann talsvert til síns máls því vegna þess hvernig við höfum verið alin upp þá hafa mörg okkar sömu innsæishugmyndir eða fordóma og Rawls. En sem röksemdafærsla hangir hún í rauninni ekki saman.

Magee  Geturðu komið með dæmi um þetta hjá honum?

Hare  Má ég setja málið í sitt víðara samhengi? Hann er aðallega að tala um skiptaréttlæti, og það hafa komið út nokkrar merkisbækur um það efni nýlega, sérstaklega bók Rawls, og einnig bók eftir Robert Nozick, Anarchy, State and Utopia. Hann starfar líka við Harvard og það er undarlegt að tveir menn með svona áþekkan bakgrunn skyldu skrifa bækur sem eru gjörólíkar í pólitísku tilliti. Það sýnir að við getum ekki treyst því að fólk fái sömu innsæishugmyndir. Báðir þessir höfundar höfða til innsæis – til þess sem þeir vona að lesendur þeirra muni fallast á, og samt komast þeir að næstum því andstæðum niðurstöðum – ekki alveg andstæðum af því að alger andstæða við afstöðu Nozicks er afstaða jafnréttissinna en Rawls er ekki alger jafnréttissinni. Jafnréttissinnar segja að gæðum í samfélaginu ætti að dreifa jafnt nema einhver knýjandi nauðsyn sé til þess víkja frá ströngum jöfnuði. Nozick er á þveröfugri skoðun. Hann telur að við eigum sem frjálsir menn rétt á því að skiptast á gæðum (að því tilskildu að við höfum aflað þeirra á réttlátan hátt og skiptin séu réttlát) þar til ef svo vill til að hin vaxandi áhrif allra þessara sanngjörnu skipta leiði af sér gríðarlegan ójöfnuð. Rawls er mitt á milli þessara tveggja viðhorfa; hann telur að réttlátt hagkerfi sé það sem gerir það besta fyrir þá sem eru verst settir. Sé staða þeirra sem eru verst settir eins góð og hún getur verið virðist Rawls vera nokkuð sama hvað verður um hina. Við höfum þá þessi þrjú viðhorf (og ég leyfi mér að segja að ég aðhyllist ekkert þeirra), og hið furðulega er að það virðast ekki vera nein rök af því tæi sem beitt er í bókum þeirra Rawls og Nozicks sem mundu gera út um málið, því allt sem þeir geta gert er að vísa til innsæishugmynda þeirra sjálfra og lesenda þeirra, sem eru breytilegar eftir því hvar maður stendur í stjórnmálum.

Magee  Þetta leiðir til einnar þeirra spurninga sem er mikilvægust allra. Hvernig dæmir maður milli gerólíkra viðhorfa eins og þessara?

Hare  Til að sýna Rawls sanngirni er siðferðilegur hugsunarháttur hans þess eðlis að hann gæti svarað spurningu þinni ef hann vildi beita honum og reiddi sig ekki alltaf á innsæi. Eins og Brian Barry sagði í bók sinni um Rawls er þessi aðferð hans mjög lík minni hvað röklega eiginleika snertir og hefði Rawls bara beitt rökfræðinni sem er undirskilin í aðferð hans og hafnað innsæi þá hefði hann getað gert miklu betur. Ástæðan fyrir því að hann gerði það ekki er sú að hefði hann gert það þá hefði hann endað sem einhvers konar nytjastefnumaður, og hann taldi það verri örlög en dauða. Innsæið sagði honum að hann mætti ekki vera nytjastefnumaður; hann treysti því ekki á rökfræðina, hann treysti á innsæið.

Magee  Þú hefur orðað það skýrt og skilmerkilega að það gengur ekki að byggja siðferðilegt viðhorf á innsæi af því að ólíkar manneskjur hafa ólíkt innsæi – en merkir það að þú hafnir innsæi? Telurðu að við ættum að ýta því til hliðar?

Hare  Nei, alls ekki. Innsæishugmyndir eru mjög mikilvægar en þær eru ekki það eina. Ástæðan fyrir því að þær eru mikilvægar er sú að í flestum siðferðilegum klípum höfum við ekki tíma til að hugsa, og stundum væri hættulegt að hugsa, eins og Hamlet komst að raun um. Þess vegna var það mjög viturlegt af þeim sem ólu okkur upp að innræta okkur vissar tilhneigingar sem gera flest okkar, svo dæmi sé tekið, ákaflega treg til að segja ósatt og mjög fús til að segja, ef einhver annar segir ósatt, að hann hafi gert rangt. Sama á við um grimmd. Standirðu einhvern að því, nú á dögum í þessu landi, að lúberja hund – hvað þá manneskju – segirðu strax að hann sé að gera rangt. Við höfum sem sé verið alin upp með innsæistilfinningu fyrir hvað sé rétt og hvað sé rangt og það er mjög æskilegt að við séum alin upp þannig. Værum við ekki alin upp á þann hátt mundum við hegða okkur miklu verr. Ég er því vissulega hlynntur innsæishugmyndum. En spurningin er: „Hvaða innsæishugmyndum?“ Setjum nú svo, þegar þú ert að ala börnin þín upp, þá spyrjirðu sjálfan þig: „Er rétt að innræta þeim þá innsæishugmynd að menn með sítt hár séu verri en menn með stutt hár?“ eða, á alvarlegri nótum, „Er rétt að innræta þeim að það sé rangt að halda fram hjá?“ Hvernig skerðu úr um þetta? Sértu að velta því fyrir þér hvort innsæishugmyndir þínar séu í raun og veru þær bestu, og ef börn þín eða aðrir vefengja þær, hvað þá? Innsæishyggja – sú skoðun að við vitum með innsæi að siðadómar séu sannir og verði ekki vefengdir – getur ekki svarað þessari spurningu. Við þurfum hærra stig siðferðilegrar hugsunar sem getur gagnrýnt innsæishugmyndir – gagnrýnið stig þar sem við getum tekið ýmsar andstæðar innsæishugmyndir, annaðhvort hjá sömu manneskju eða ólíkum manneskjum, og lagt mat á þær til að kanna hver sé best.

Magee  Hvernig á að framkvæma þessa hærra stigs hugsun? Hafni maður innsæi sem leið til að skera úr milli ósamrýmanlegra röksemda og telji ekki heldur að hægt sé að leiða siðadóma af staðreyndum, hvaða hlutverki gegna þá rökhugsun og skynsamlegar rökfærslur í málefnum sem eru sérstaklega siðferðileg?

Hare  Ég vildi gjarnan, ef ég má, taka þetta í áföngum. Ég held að rökfærsla geti komið að gagni hér – hún getur komið að miklu meira gagni en hún hefur gert hingað til – en við skulum taka fyrsta áfangann. Hann er, eins og ég sagði hér áðan, að rökfræðinni er beitt til að skýra hugtökin sem notuð eru í þessum deilum, eins og hugtakið sanngjarnt eða réttlátt, og til að varpa ljósi á röklega eiginleika þeirra. Annar áfanginn er þessi: Þegar búið er að skýra þessi hugtök verður hægt að greina eina tegund spurningar frá annarri. Allar þessar pólitísku og siðferðilegu spurningar koma til okkar eins og sambland eða blanda af nokkrum ólíkum tegundum spurninga. Í fyrsta lagi höfum við hversdagslegar staðreyndaspurningar um aðstæðurnar sem við erum í og afleiðingar þeirra athafna eða stefnumála sem við eigum kost á. Þar næst koma rökfræðilegu spurningarnar sem ég nefndi rétt áðan um eðli hugtakanna sem verið er að beita – merkingu orðanna – og fólk fer eflaust að tala í kross þegar það skilur þessar spurningar sem spurningar um staðreyndir en það eru þær ekki. Til að mynda í deilunni um fóstureyðingar heldur það að um sé að ræða spurningu um staðreynd á hvaða stigi fóstrið breytist í mannveru. En hér er reyndar um að ræða þrjár spurningar (eða flokka spurninga), ekki eina. Það eru spurningar um staðreyndir í þröngum skilningi – aðallega læknisfræðilegar spurningar um núverandi ástand fóstursins og móður þess og líklega framtíð þeirra sé fóstrinu ekki eytt; og það eru spurningar um hvernig við ætlum að nota orðið „mannvera“; og að lokum, þriðji flokkur spurninga sem ég hef ekki nefnt enn þá, eru spurningar um gildi á borð við „Hvernig ætti að fara með fóstur, sem þannig er lýst, eða mannverur, í hinni mismunandi merkingu orðanna?“ Með því að blanda saman þessum tegundum spurninga snýst fólk í hringi og fer aldrei að kljást við þriðju tegundina sem vitaskuld er sú mikilvægasta. Annað framlag heimspekingsins er að aðskilja allar þessar ólíku spurningar, og þá sjáum við að hægt er að gera út um staðreyndaspurningarnar með aðferðum reynslubundinna rannsókna og ráða fram úr rökfræðilegu og hugtakalegu spurningunum, með aðstoð heimspekilegra rökfræðinga ef þess gerist þörf, með því að ákveða merkingu orðanna, eða ef við viljum breyta merkingu þeirra hvað við ætlum þá að láta þau merkja. Og þá eru eftir spurningarnar um gildi sem kann að vera auðveldara að svara þegar við höfum losað okkur við hinar, vegna þess að við getum loksins séð þær skýrt og aðgreindar frá þessum öðrum tegundum spurninga.

Magee  Hvernig er hægt að beita rökfræði á spurningar sem eru einvörðungu um gildi?

Hare  Þetta er mikilvægasta málið í siðfræði um þessar mundir, eins og það hefur alltaf verið. Þú spyrð mig réttilega hvernig rökfræði geti komið að gagni við að svara hinum mikilvægu spurningum um gildi eftir að þær hafa verið greindar frá hinum, eins og ég hef verið að reyna að gera alla tíð. Fólk hefur snúist í hringi af því að það heldur að hér sé um að ræða ógöngur, en ég held að til sé leið áfram. Skoðanir mínar eru ögn áþekkar skoðunum Kants – þótt ég hiki við að segja þetta af því að ég er aldrei viss um hvað Kant er nákvæmlega að segja; hann er svo óskýr höfundur. En það sem ég vil segja um siðferðishugtökin er að þau hafa tvo eiginleika sem saman nægja til að láta í té rökfræði fyrir siðferðilega röksemdafærslu. Hinn fyrri er sá sem heimspekingar kalla „alhæfanleika“. Þetta þýðir í grófum dráttum að siðadóm sem ég felli um eitthvert mál verður líka að fella um öll mál sem eru nákvæmlega eins. Síðari eiginleikinn kallast „forskriftareðli“. Þetta merkir að hinir miðlægu siðadómar varða athafnir okkar (vitanlega eru aðrir ekki jafn miðlægir siðadómar sem hafa ekki þennan eiginleika.) Ef við trúum þeim þá munum við breyta í samræmi við þá ef við getum. Ég held því fram að þessir tveir formlegu eiginleikar, einir sér, nægi til að láta í té rökfræði sem getur í raun og veru hjálpað til við siðferðilegar röksemdafærslur.

Magee  Þú ert farinn að tala eins og siðfræði, alltént hvað eina hlið hennar varðar, sé grein af meiði rökfræðinnar.

Hare  Ég tel hana vera það. „Ætti“, svo dæmi sé tekið, er háttarhugtak alveg eins og „verða að“ og „geta“. Rökfræðingar eru með tegund rökfræði sem þeir kalla háttarökfræði og fjallar um hugtök á borð við nauðsyn og möguleika; og til er tegund háttarökfræði sem kallast skyldurökfræði og fjallar um það að vera skuldbundinn og það að vera leyfilegt (það er að segja um setningar sem byrja á „Ég ætti að“ og „Það er í lagi að“). Hinn formlegi hluti siðfræðinnar, sem allt annað verður að byggjast á, er einfaldlega skyldurökfræði. Ég er ekki sérfræðingur í formlegri rökfræði en ég lít svo á að ég leggi eitthvað af mörkum til greinarinnar óformlega á minn leikmannshátt.

Magee  Hér áðan lýstirðu þér sem einskonar nytjastefnumanni. Nú talarðu eins og þú sért einskonar kantisti. Eru kantistar og nytjastefnumenn ekki venjulega taldir vera á öndverðum meiði?

Hare  Fylgismenn þessara stefna nú á dögum segja þetta stundum. Það er almennt talið að Kant og Mill, svo dæmi sé tekið, eða Bentham, séu á öndverðum meiði í siðfræði. Það er alrangt. Kant var á móti þeirri tegund nytjastefnu sem hann taldi sig hafa fundið hjá Hume – tegund sem leitast við að byggja siðferði algjörlega á reynslubundnum rannsóknum á tilfinningum manna og gerir lítið úr því sem Kant kallar „hreina röklega hlutann“. Hins vegar taldi Mill að nytjareglan sín væri í samræmi við hið skilyrðislausa skylduboð Kants, túlkuð á þann eina hátt sem gefur henni einhverja merkingu; og það er erfitt að vera ekki sammála honum. Kant var að tala um form siðferðilegrar hugsunar, nytjastefnumennirnir um inntak hennar þar sem staðreyndir heimsins eins og þær birtast okkur hljóta að koma fram. Kannski komst Henry Sidgwick3, mestur hinna klassísku nytjastefnumanna, næst þeirri sameiningu Kants og nytjastefnunnar sem þörf er fyrir og er vissulega möguleg.

Magee  Hvað telurðu vera rétt og hvað telurðu vera rangt í hvoru þessara viðhorfa?

Hare  Ég skal segja þér hvað ég tel mig hafa lært af hvorri þessara hugmyndastefna um sig. Af Kant hef ég lært mikilvægi röklega þáttarins í siðferðilegri hugsun. Við getum ekki án hans verið; við þurfum að kanna rökfræðina. Ég er Kant ekki sammála þegar hann heldur því fram að þessi þáttur geti líka verið efnislegur. Tractatus Wittgensteins sannfærði mig um að efnisleg röksannindi séu hvorki til né nauðsynleg hugsun okkar. Það er að segja, við getum ekki með rökhugsun einni saman komist að efnislegum niðurstöðum, hvort heldur um staðreyndir eða gildi. Rökfræðin sannar þá eiginleika hugtaka sem eru eingöngu formlegir. Viljum við staðreyndir verðum við að rannsaka, og viljum við gildi verðum við að velja. (Hinn sjálfráði vilji Kants er langtum betri og réttari tjáning þessarar hugmyndar en tilfinningar Humes). En hvort heldur við rannsökum eða veljum, jafnskjótt og við reynum að segja hvað við sjáum eða veljum, setur rökgerð hugtakanna okkur skorður. Þetta er kantismi í hnotskurn, eða öllu heldur hógværari útgáfa mín af honum.

Frá nytjastefnumönnum tek ég þá hugmynd að siðferðileg hugsun okkar verði að fara fram í heiminum eins og hann er. Það skiptir máli að fólkið í honum er eins og það er og aðstæður þess eru eins og þær eru. Engar siðareglur sem eiga að vera raunhæfar er hægt að setja saman öðruvísi en með því að sjá hinar raunverulegu afleiðingar þess, í lífinu, að fara eftir þessum reglum.

Magee  Hvernig svararðu hinni venjulegu mótbáru gegn nytjastefnunni að vegna þess að mælikvarði hennar er meiri hamingja sem flestra þá sé hægt að gera skelfilega hluti í hennar nafni? Eftirfarandi ögrun við nytjastefnuna er orðin vel þekkt. Séu tveir sjúklingar á sjúkrahúsi að deyja vegna þess að þá vantar góð nýru og einn vegna þess að hann vantar góðan maga, og hægt væri að bjarga þeim öllum með ígræðslu líffæra, og ef inn í þetta sjúkrahús kæmi fullkomlega heilbrigður maður til að heimsækja einhvern annan veikan ættingja, þá ætti með nytjastefnurökum að sundurlima heilbrigða manninn og skipta líffærum hans milli sjúklinganna – af því að með því móti mundi aðeins einn maður deyja og þrír lifa, en að öðrum kosti mundu þrír deyja og aðeins einn lifa.

Hare  Ja hérna, heimspekingar eru alltaf að búa til falleg dæmi á borð við þetta, en siðareglur verður að finna upp fyrir heiminn eins og hann er. Hugsum okkur bara hverjar yrðu afleiðingarnar í hinum raunverulega heimi ef læknar og aðrir samþykktu þá reglu að það væri í lagi að taka gesti á sjúkrahúsum fasta og stela líffærum þeirra! Þessi fjarstæðukenndu dæmi koma í raun og veru vali á siðareglum ekkert við. Það sem nytjastefnumenn ættu að segja við dæmi af þessu tæi er að reglurnar sem við ættum að innræta okkur til raunhæfra nota – innsæið sem við ættum að leggja rækt við – eru þær sem hafa það sem þeir kalla „mestu viðurkenningar-nytsemi“. Þetta þýðir reglurnar sem er fyrir bestu að séu almennt viðurkenndar í samfélaginu. Þetta á bæði við það sem kallast athafna-nytjastefna og reglu-nytjastefna því að með athöfnum okkar – með því hvernig við lifum eftir reglum okkar – erum við að valda góðum eða vondum afleiðingum og þetta eru afleiðingarnar af því að samþykkja reglurnar sem við förum eftir. Að hafa eða trúa á reglu tengist, bæði röklega og sálrænt, staðföstum vilja til að fara eftir henni. Ég er samþykkur öllu þessu. Ég gæti orðað það með kantískari kenningu minni á þessa leið: „Hugsaðu þér að þú verðir að velja reglur til almennrar upptöku í samfélaginu – eða bara fyrir þig sjálfan – og þú megir ekki velja þær með tilliti til eigin hags; þú verður að velja eins og þú gætir verið þiggjandinn þegar þú og aðrir færu eftir þessum reglum. Hvaða reglur mundirðu þá velja?“ Ég hygg að ef við spyrðum okkur þessarar spurningar þá vissum við hvaða innsæishugmyndir við veldum – að svo miklu leyti sem það er sálrænt séð mögulegt að breyta inngrónum siðareglum manns. Alltént vissum við hvaða siðareglur við mundum reyna að innræta börnum okkar – ef til vill okkur sjálfum.

Magee  Mér skilst að þú sért að segja að við ættum að velja siðareglur okkar, og velja þær innsæishugmyndir sem við reynum að innræta börnum okkar, á grundvelli þess hverjar muni verða afleiðingarnar af því að taka þær upp; og að þannig sé heimur staðreyndanna samofinn vali okkar á siðareglum.

Hare  Það er alveg rétt. Bestu innsæishugmyndirnar eru þær sem best er að hafa og þær sem best er að hafa eru þær sem gera okkur kleift að lifa sem best í samfélagi hvert við annað. En ég skal útskýra fyrir þér hvernig við ættum að framkvæma valið. Séu siðadómar alhæfanlegir – sem sagt, verði maður að fella sömu dóma um tilvik sem eru nákvæmlega eins – þá hentar það reyndar ekki steggnum sem hentar gæsinni – því að þrátt fyrir lögin um mismunun kynjanna kann að vera munur sem skiptir máli á gæsum og steggjum (steggir geta ekki orpið eggjum, svo dæmi sé tekið) – en það sem hentar þessari gæs hlýtur að henta gæs sem er nákvæmlega eins, hver sem hún er, séu kringumstæðurnar eins. Ég verð því að segja við sjálfan mig: „Ef ég ætti að gera þér þetta þá ætti einhver annar að gera mér það í kringumstæðum sem eru nákvæmlega eins.“ Og því verð ég að spyrja sjálfan mig: „Er ég reiðubúinn að fyrirskipa að einhver annar ætti að gera mér það í svipuðum kringumstæðum? Segjum að það væri ég sem ætti að gera það við: vel ég samt að það sé gert?“ Mér virðist þetta vera mjög öflugt tæki í siðferðilegri rökfærslu og það tæki sem stöðugt er verið að nota með góðum árangri. Reyndar væri hægt að draga allar skoðanir mínar um siðferðilega rökfærslu saman í gullnu regluna: „Það sem þú vilt að aðrir geri þér skaltu líka gera þeim.“

Magee  Geturðu gefið okkur raunhæft dæmi?

Hare  Þú átt við dæmi um heimfærslu þeirrar tegundar hugsunar sem ég er að mæla með undir raunhæft málefni? Gott dæmi væri það sem kom sjálfum mér til að leggja stund á siðfræði: deilur friðarsinna og andstæðinga þeirra. Meginrökin með friðarstefnu eru hvernig það er fyrir fólk að verða að þola afleiðingar stríðs. Ein af ástæðunum gegn því, til að mynda, að Bandaríkjamenn háðu stríðið í Víetnam voru hinar skelfilegu þjáningar sem voru afleiðingar þess stríðs. Hafi ríkisstjórn Bandaríkjanna, eða hver annar sem er, búið við reglu sem krefðist þess að svona lagað væri gert þá væri það rök fyrir því að varpa reglunni fyrir róða. Og ég hygg að þeir hefðu horfið frá henni ef þeir hefðu þurft að spyrja sig spurningar eins og þeirrar sem ég spurði rétt áðan: „Er ég reiðubúinn að fyrirskipa slíka reglu hver svo sem staða mín verður á því sviði sem hún gildir?“

Í öðrum tilvikum kynnu að vera mótrök. Tökum dæmi: Enda þótt seinni heimsstyrjöldin hefði í för með sér gríðarlegar þjáningar hefði það sennilega orðið verra fyrir næstum alla, að Þjóðverjum meðtöldum, hefðum við ekki tekið þátt í henni. Alltént var það mín ástæða fyrir að berjast í henni. En maður verður að skoða staðreyndirnar til að ákveða hvaða reglum hann ætti að fylgja. Ég sjálfur mundi ekki taka upp algerlega ósveigjanlegar friðarsinnareglur því að ég tel að afleiðingar þess að allir í minni stöðu (þ.e. stöðu þar sem einhver á borð við Hitler hefur hafið árásarstríð) hefðu slíka reglu yrðu langtum verri en afleiðingar þess að fylgja þeirri reglu sem ég reyndar fylgi og leyfir mér að berjast í tilteknum styrjöldum.

Magee  Við höfum tekið fyrir heilmikið efni í umræðu okkar. Við höfum talað um hlutverk rökfræði í siðferðilegum rökfærslum og hlutverk staðreynda og innsæis og um það hvernig þetta tengist innbyrðis á fremur flókna vegu. Mig langar til að ljúka þessu með því að taka dæmi úr verkum þínum og skoða það í ljósi alls þessa. Í upphafi umræðu okkar vékst þú til að mynda að þeirri spurningu hvað væru „sanngjörn“ laun. Geturðu sagt eitthvað um hvernig þú sem heimspekingur mundir fara að því að rannsaka hugtak eins og þetta?

Hare  Þetta er í rauninni besta dæmið því að það er svo mikið í umræðunni núna og skiptir svo miklu máli og samfélag okkar er, ef til vill, á leiðinni að liðast í sundur vegna skorts á heimspekilegum skilningi á því. Ég tel að heimspekingar geti hjálpað til við þessi vandamál ef fólk hlustaði bara á þá. Við höfum námumennina sem álíta að það sé ósanngjarnt fái þeir ekki hærra kaup fyrir óþægilega vinnu sína. Og við höfum ellilífeyrisþegann sem telur það ósanngjarnt að hann deyi úr kulda vegna þess að verð á eldsneyti hefur hækkað svo mikið. Hvernig fer maður að því að leysa deilur eins og þessar? Að mínum dómi tekur maður til við það með því að spyrja: „Hverjar eru réttlætisreglurnar, reglurnar um sanngjarna skiptingu gæða í samfélaginu sem hefðu, væru þær viðurkenndar, bestu afleiðingarnar þegar á allt er litið fyrir fólkið í því samfélagi?“ Ef við gætum fundið reglur um sanngjörn skipti sem samfélagið almennt gæti fallist á og myndi skipta gæðum á sem bestan hátt fyrir fólkið í þessu samfélagi tekið sem heild, þá værum við laus úr vandræðunum. Ef maður skilur þetta þá er það ekki spurning um að bíta bara í sig einhverja hugmynd um sanngirni sem hann hefur lært, til dæmis, af félögum sínum eða eitthvað sem hann hefur séð í dagblöðunum. En þetta er það sem fólk gerir: það bítur í sig þessi órökstuddu réttindi, þessar hugmyndir um sanngirni sem það gagnrýnir ekki og þetta er ástæðan fyrir því að við lendum í slagsmálum hvert við annað. Ef við, í stað þess að gera það, gætum spurt okkur: „Hvaða hugmynd um sanngirni ættum við að hafa? Hvaða hugmynd væri best fyrir okkur að hafa í samfélagi okkar?“ þá er hugsanlegt að við gætum verið sammála.

Magee  Hvernig framkvæmir þú sem heimspekingur leitina? Hvernig ferðu að því að reyna að finna svarið við spurningum þínum?

Hare  Þegar hér er komið þarf ég kannski að kalla til aðrar fræðigreinar því að staðreyndirnar eru mikilvægar, eins og ég sagði, og ég hef enga sérfræðiþekkingu á þeim. Heimspekingurinn getur aðeins útskýrt spurninguna og sagt: „Þetta er spurningin sem við verðum að snúa okkur að.“ Ég hef kannski hjálpað til með því að setja spurninguna fram á skýrari hátt en hún var sett fram áður. Ég hef útskýrt hvað það er sem þarf að finna – að hverju maður er að leita, og það er verkefni hagfræðinganna, til dæmis, og félagsvísindamanna almennt, að framkvæma leitina að mögulegum lausnum – að reglum sem mundu í hinum raunverulega heimi okkar uppfylla skilyrðin sem ég hef sagt að þær verði að uppfylla. Jafnvel þessir ákaflega færu menn finna stundum ekki lausnirnar vegna þess að þeim er ekki alveg ljóst að hverju þeir eru að leita, og það er þar sem heimspekingurinn getur ef til vill lagt hönd á plóginn.

Magee  Finnst þér stundum sem heimspekingi að fólk á þessum öðrum sviðum – og ég mundi bæta stjórnmálamönnum við – veiti ekki nægilega athygli útskýringu hugtaka, röksemda og málefna sem þú og aðrir heimspekingar geta lagt til?

Hare  Sumir þeirra gera það og sumir ekki. Til eru heimspekilega menntaðir stjórnmálamenn, eins og þú sjálfur, og meðal hagfræðinga er, svo dæmi sé tekið, Amartya Sen sem er líka mjög góður heimspekingur. Heimspekingar (einkum nytjastefnumenn) geta mikið lært af hagfræðingum á borð við hann. Og það væri betra ef enn fleiri góðir heimspekingar tækjust á við þessi málefni og færri slæmir sem útbreiða meiri rugling en skýrleika. Í yfirstandandi umræðum um spurningar af þessu tæi finnur maður orð eins og sanngjarn, réttindi, réttlæti og þvíumlík notuð, jafnvel stundum af heimspekingum, eins og það lægi í augum uppi hvað væri sanngjarnt eða réttlátt – eins og við þyrftum ekki að spyrja okkur hvort innsæishugmyndir okkar sjálfra um sanngirni ætti að draga í efa. En ég held að ef fólk mundi gagnrýna innsæishugmyndir sínar (eða fordóma) um hvað sé sanngjarnt og hvað réttlátt og leitast við að skilja innsæishugmyndir og fordóma annarra þá væru meiri líkur til þess að við gætum orðið sammála.

Magee  Og kjarninn í viðhorfi þínu í heild er að þessi gagnkvæmi skilningur byggist ekki einungis á samhygð eða samkennd heldur einnig á beitingu rökhugsunar á siðferðileg úrlausnarefni.

Hare  Þetta er ágæt samantekt.

                                                                                                                     Gunnar Ragnarsson þýddi

Neðanmálsgreinar

1. Francis Hutcheson (1694–1746) var breskur siðfræðingur, stjórnspekingur og fagurfræðingur. Hafði mikil áhrif á heimspeki Humes, einkum hvað varðar tilfinningalífið.

2. Jeremy Bentham (1748–1832) var enskur lögspekingur og siðfræðingur. Hann var frumkvöðull nytja­stefnunnar og hélt fram svokölluðu „hámarkshamingjulögmáli”. Hann var áhrifamikill umbótasinni í stjórnmálum, félagsmálum og menntamálum og hafði mikil áhrif á John Stuart Mill.

3. Henry Sidgwick (1838–1900) var enskur heimspekingur. Mikilvægasta verk hans er The Methods of Ethics. Almennt er litið á þetta verk sem klassíska framsetningu á hinum ólíku tegundum röksemda í siðfræði.

Fyrri og seinni heimspeki Wittgensteins

Fyrri og seinni heimspeki Wittgensteins1

Bryan Magee og Anthony Quinton ræðast við

INNGANGUR

Magee Ég held ekki að neinn geti fett fingur út í þá fullyrðingu að á þessari öld hafi tveir áhrifamestu heimspekingarnir í hinum enskumælandi heimi verið Bertrand Russell og Ludwig Wittgenstein. Auk þess að vera mikill heimspekingur var Russell mikil opinber persóna. Hann var á kafi í stjórnmálum og félagsmálum næstum því alla ævi og varð kunnur almenningi sem útvarpsmaður, blaðamaður og samfélagsgagnrýnandi. Fólk fór að tengja hann, og það með réttu, við tilteknar almennar hugmyndir og einnig við ákveðið viðhorf til félagsmála, jafnvel þótt það vissi ekki mikið um heimspeki hans, en það vandaðasta var ákaflega stærðfræðilegt og tæknilegt og þess vegna ekki við hæfi almennings. Wittgenstein var gjörólíkur Russell. Hann var tæknilegur heimspekingur og það eingöngu. Hann kom ekki fram á opinberum vettvangi, forðaðist sviðsljósið, jafnvel innan stéttarinnar, og lét mjög lítið frá sér fara á prenti. Afleiðingin var sú að um langt skeið takmörkuðust áhrif hans, þótt þau væru geysimikil, við heim faglegrar heimspeki. Það er ekki fyrr en tiltölulega nýlega sem áhrif hans hafa síast út í tengdar greinar og hafa áhrif á fólk á öðrum athafnasviðum. Staðan er því sú að fjöldi fólks er farinn að heyra um Wittgenstein en veit ekki enn sem komið er hvað hann gerði eða hvers vegna hann skiptir máli. Ég vona að umræðan sem fer hér á eftir bæti úr þessu með því að draga skýrt fram megindrættina í hugsun hans og segja einnig dálítið um hver áhrif hennar hafa verið. Sá sem ber hitann og þungann af þessu verkefni, sem er ekki auðvelt, er Anthony Quinton,2 rektor Þrenningargarðs í Oxford (en við hann háskóla hefur hann kennt heimspeki í rúm tuttugu ár).

En áður en ég býð Anthony Quinton að hefja talið um hugmyndir Wittgensteins langar mig til að kynna manninn Wittgenstein með nokkrum orðum. Hann fæddist í Vínarborg 1889 og dó í Cambridge 1951, og hafði gerst breskur borgari á miðjum aldri. Faðir hans var auðugasti og voldugasti stálkóngurinn í Austurríki. Sumpart eflaust vegna fjölskyldusögunnar, og vissulega fyrir þrýsting frá fjölskyldunni, fékk hann ástríðufullan áhuga á vélum og vélbúnaði sem átti eftir að verða ráðandi um alla menntun hans. Foreldrar hans sendu hann í skóla sem sérhæfði sig í stærðfræði og eðlisvísindum. Þaðan fór hann til framhaldsmáms í vélaverkfræði. Nítján ára að aldri fór hann til Bretlands, í háskólann í Manchester, sem rannsóknarnemi í flugverkfræði. Meðan hann dvaldi þar heillaðist hann af spurningum heimspekilegs eðlis um undirstöður stærðfræðinnar. Hann las hina merku bók Lögmál stærðfræðinnar eftir Bertrand Russell og hún virðist hafa orðið honum einskonar opinberun. Hann gaf verkfræðina upp á bátinn og hélt til Cambridge til að læra rökfræði hjá Russell. Ekki leið á löngu þangað til hann var farinn að semja frumleg verk sem margir hafa allt til þessa dags litið á sem snilldarverk. Út úr þessu kom eina bókin eftir hann sem var gefin út meðan hann lifði, Tractatus Logico-Philosophicus (Rökfræðileg ritgerð um heimspeki) sem venjulega er bara kölluð Tractatus. Hún kom út í Austurríki 1921 og Englandi 1922. Bókin er svo stutt að hún er nánast eins og ritgerð að lengd, en hún hefur án efa verið eitt af áhrifamestu heimspekiverkum sem komu út á tuttugustu öld. En meðan hún hafði sín geysimiklu áhrif á árunum eftir að hún birtist varð Wittgenstein sjálfur æ óánægðari með hana. Reyndar fór hann að líta svo á að sér hefði skjátlast í grundvallaratriðum, og hann bjó til heila nýja heimspeki og hafnaði hinni fyrri. Meðan hann lifði var þessari seinni heimspeki aðeins dreift til nemenda hans í Cambridge og um hendur þeirra, en að honum látnum var mikið af samansöfnuðum skrifum hans gefið út, þar á meðal seinni heimspekin. Mikilvægast af þessum skrifum er bók sem heitir Rannsóknir í heimspeki (Philosophical Investigations), gefin út 1953, sem fór síðan að hafa jafn mikil áhrif og Tractatussem hafði komið út um þrem áratugum fyrr.

Þetta er einstætt fyrirbæri, held ég, í sögu heimspekinnar: heimspekingur með snilligáfu sem kemur fram með tvær ólíkar og ósamrýmanlegar kenningar í heimspeki sem hvor um sig hafði afgerandi áhrif á heila kynslóð. Förum nú aftur til upphafs sögunnar – til Tractatusar sem var skrifaður á öðrum áratug tuttugustu aldar – og höldum áfram þaðan.

UMRÆÐA

Magee Tractatus er ákaflega stutt bók – innan við áttatíu síður í venjulegu útgáfunni. Hver voru aðalvandamálin sem Wittgenstein var að reyna að leysa í þessu verki?

Quinton Ég held að aðalvandamálið sé hægt að setja fram í örstuttu máli og það er þetta: Hvernig er tungumál mögulegt? Hvernig er mögulegt að nota tungumál til þess sem Wittgenstein taldi vera höfuðtilgang þess, nefnilega að lýsa heiminum, setja fram staðreyndir, segja okkur það sem er satt – eða, þegar það tekst ekki, ósatt?

Magee Margir sæju kannski ekki strax hvers vegna þetta er vandamál. Við höfum tilhneigingu til að líta á tungumálið sem sjálfsagðan hlut. Hvers vegna ætti tilvist tungumálsins sem slíks að vera heimspekilegt vandamál?

Quinton Jú, sjáðu til, líti maður á heiminn með meira eða minna tölfræðilegum hætti eru hlutir í orsakatengslum hver við annan víðast hvar. Grjót rekst á grjót; tungl hafa áhrif á sjávarföll, og þar fram eftir götunum. En bara hér og þar í heiminum er þetta óvenjulega fyrirbæri að sumir hlutir í heiminum spegla í sjálfum sér á vitrænan hátt aðra hluti í honum. Notkun tungumáls, skilningur á því, er það sem greinir mannverur frá einberum hlutum. Málið er samofið andlegu lífi okkar. Mestöll, þó ekki öll, samskipti okkar við annað fólk eiga sér stað með atbeina þess. Ég held að Wittgenstein sé að spyrja einnar af þessum spurningum sem virðast svo augljósar að fæstir hafa fyrir því að spyrja þeirra, eitthvað svipað því og þegar Newton spurði í alvöru hvers vegna reikistjörnurnar tvístruðust ekki og hvers vegna steinar dyttu niður þegar þeim væri sleppt úr hendi. Spurningar Wittgensteins hafa sama barnslega, ferska, djúpstæða eiginleikann.

Magee Er hægt að orða það svona? Við mannverur höfum hæfileika til að hugsa og eiga samskipti hvert við annað um hluti sem eru ekki við höndina og getum þess vegna fengist við þá með öllu mögulegu móti. Það er að hluta til mögulegt vegna þess að við eigum tungumálið. Þetta vekur tvær spurningar. Í fyrsta lagi: Hver eru tengsl tungumálsins við heiminn? Í öðru lagi. Hver eru tengsl tungumálsins við hugsunina? Mér skilst að þú mundir fallast á að báðar þessar spurningar séu miðlægar í því sem Wittgenstein er að reyna að gera í Tractatusi.

Quinton Já. Menn hafa spurt spurninga um þessa hluti á brotakenndan hátt áður. Það sem er svo heillandi við Tractatus er að þeirra er spurt á eins almennan hátt og hugsast getur. Wittgenstein hefur svör við báðum spurningunum sem þú nefndir. Svarið sem fljótt á litið virðist ekki koma að miklu gagni er að tungumálið lýsi heiminum með því að draga upp myndir af honum. Yrðingar eru myndir af staðreyndum, segir hann. Í annan stað eru yrðingar tjáningar hugsunar. Þær eru tæki hugsunar. Þær eru það sem við hugsum með.

Magee Það er önnur hlið á sama peningnum, er það ekki? Sú staðreynd að Wittgenstein var að fást við að ákvarða til hvers hægt er að nota tungumálið á skiljanlegan hátt og til hvers ekki fól í sér það ósagða áform að ákvarða og hafna óréttmætri notkun málsins. Hann var ekki aðeins að reyna að gera það ljóst hvað tungumálið getur gert. Hann var líka að reyna að gera það ljóst hvað málið getur ekki gert.

Quinton Það var ómissandi þáttur í allri aðgerðinni og kannski sá sem hefur haft mest áhrif. Hann var harður á því að hægt sé að setja takmörk málsins skýrt fram og þetta leiddi af þeirri hugmynd hans að málið sé í eðli sínu, og ég verð að endurtaka, bókstaflega myndrænt að gerð. Til er vel þekkt saga á þá leið að Wittgenstein hafi heyrt um notkun líkana (í frönskum réttarsal, held ég það hafi verið) til að lýsa því sem gerðist í umferðarslysi og að hann hafi þá upplifað eitthvað svipað og Arkimedes þegar hann hrópaði: „Ég hef fundið það!“. „Ég skil“, sagði hann víst. „Þetta er innsta eðli tungumálsins.“ Sú sannfæring setti tungumálinu verulegar skorður: tungumálið átti að spegla nákvæmlega ástand mála þar sem hlutir komu við sögu. Það setti mjög greinileg takmörk fyrir því sem hægt væri að segja. Einkum taldi hann að sjálft samband tungumálsins við heiminn væri ekki hægt að tákna eða ræða á merkingarbæran hátt á tungumálinu.

Magee Oft er talað um kenningu Wittgensteins sem „myndakenninguna um merkingu“ og þú leggur áherslu á að hann ætlaðist til að vera skilinn þannig að hann væri að segja að tungumálið væri bókstaflega myndrænt. Ég hygg að flestir eigi erfitt með að skilja í hvaða merkingu setning geti verið mynd af staðreynd, já, hvernig setning geti verið mynd af nokkrum sköpuðum hlut yfirleitt. Geturðu útskýrt þetta?

Quinton Ja, ég held hann eigi við að enda þótt setningar venjulegs máls líti ekki út eins og myndir verði að vera hægt, eigi þær að hafa einhverja merkingu, að sundurgreina þær eða rekja sundur í grunnsetningar sem eru í raun myndir – sem samanstanda eingöngu af nöfnum sem tengjast beint hlutunum sem verið er að tala um þar sem niðurröðun nafna speglar niðurröðun hlutanna.

Magee Við skulum hafa þessa lýsingu alveg á hreinu. Wittgenstein taldi að ef maður sundurgreindi yrðingu um heiminn gæti hann smættað hana niður í orð sem væru nöfn á hlutum og að tengslin milli orðanna í setningunni samsvöruðu tengslunum milli hlutanna í heiminum. Þannig gæti setningin speglað heiminn.

Quinton Þetta er rétt. Það var nokkuð sem hann ályktaði út frá frumforsendum. Hann hélt því fram að skilyrðið sem hann setti krefðist þess að sérhver fullgild yrðing verði að hafa ákveðna merkingu. Hann taldi að engin yrðing gæti haft ákveðna merkingu nema hún væri endanlega sett saman úr þessum grunnyrðingum sem væru myndrænar. Hann gefur engin dæmi um myndrænar yrðingar. Aðrir heimspekingar sem hann hafði áhrif á komu með dæmi um þær en hann lætur alveg vera að gefa slík dæmi. Hann segir bara að hægt sé að sanna að það hljóti að vera til yrðingar af þessari endanlegu myndrænu gerð.

Magee Fyrsta spurningin sem vaknar hjá manni er þessi: Fjölmargt af því sem við segjum er ónákvæmt eða ósatt sem þýðir að þegar svo er segjum við eitthvað sem samsvarar ekki hlutum í heiminum. Hvernig skýrir myndakenningin um merkingu þetta?

Quinton Nú, það verður einfaldlega ljóst af því sem þegar hefur komið fram. Hlutum er hægt að raða á mismunandi vegu og nöfnunum sem við höfum á þessum hlutum er líka hægt að raða á ýmsa ólíka vegu. Yrðing sem hefur merkingu raðar saman nöfnum í eina af mögulegum samsetningum sem þessi nöfn gera ráð fyrir og möguleikarnir á samröðun nafnanna samsvara beint möguleikunum á samröðun hlutanna. Þannig að merkingarbær yrðing, sem slík, dregur upp mynd af mögulegu ástandi mála. Ef niðurröðun hlutanna sem yrðingin vísar til er eins og niðurröðun nafnanna á hlutunum í yrðingunni þá er yrðingin sönn. Ef þessi tvö munstur eru mismunandi er yrðingin ósönn. Það er hægt að færa spilapeningana til, ef svo má segja, til að mynda ýmis munstur. Flest þeirra tákna einungis mögulegt ástand mála. Þegar þeim er raðað niður á sama hátt og hlutunum sem vísað er til er raðað þá er yrðingin sönn.

Magee Margt af því sem við segjum bæði í daglegu lífi og heimspeki er alls ekki um staðreyndir. Við fellum siðferðilega dóma, leggjum fagurfræðilegt mat á hluti og þar fram eftir götunum – hvernig á að útskýra þetta með myndakenningunni um merkingu?

Quinton Ja, hvað varðar siðferðilega og fagurfræðilega dóma þá eru þeir í rauninni ekki útskýrðir. Það er bara sagt að þeir séu ekki hluti af hinu eiginlega tungumáli.

Magee Það er furðulegt að nokkur maður skuli segja þetta.

Quinton Samkvæmt Wittgenstein snýst siðfræði ekki um það sem við getum skynjað. Hún fæst ekki við staðreyndir, og hann heldur því fast fram að hið raunverulega hlutverk tungumálsins sé að lýsa staðreyndum – sannlega ef þess er kostur en ef ekki þá ranglega, en samt á merkingarbæran hátt. Þetta er það sem tungumál er í grundvallaratriðum.

Magee Svo ég dragi aftur saman aðalatriðin: Þegar ég segi setningu um heiminn er ég að raða saman nöfnum þannig að þau samsvari mögulegri niðurröðun hluta í heiminum. Sé þessi niðurröðun til staðar í heiminum er setningin sönn. Sé hún það ekki er hún ósönn. Ef nöfnunum í setningunni er raðað á þann hátt að ekki sé mögulegt að hlutum í heiminum sé raðað þannig þá er setningin merkingarlaus. Við höfum því þríþætta greiningu: satt, ósatt, merkingarlaust.

Quinton Þetta er rétt.

Magee Öll þessi kenning um merkingu gengur út frá verufræði, gerir ráð fyrir því að það sem er til hljóti að vera af ákveðinni gerð. Samkvæmt henni hlýtur heimurinn, óháð okkur og tungumálinu, endanlega að samanstanda af einföldum hlutum sem geta tengst hver öðrum á tiltekna vegu.

Quinton Þetta er einmitt það sem hann segir strax í upphafi bókarinnar. Án þess að rökræða það segir hann að heimurinn samanstandi af staðreyndum; staðreyndirnar séu niðurröðun hluta, og hlutirnir hljóti að vera einfaldir (svo ég taki upp orðið sem þú notar). Við fyrstu sýn virðast þetta kreddukenndar fullyrðingar. En þær fá stuðning seinna frá þeirri kennisetningu að tungumálið verði að hafa ákveðna merkingu og að það geti aðeins haft ákveðna merkingu ef það er af ákveðinni gerð – og þess vegna verði heimurinn að vera af þeirri gerð til þess að tungumálið geti lýst honum.

Magee Hvað um hið ósegjanlega? Hvað segir kenning hans um tungumálið, eins og við höfum nú dregið hana fram í dagsljósið, um það sem ekki er hægt að segja?

Quinton Ég býst við að aðaleinkenni kenningarinnar um það sem ekki er hægt að segja – það einkenni sem skiptir mestu máli heimspekilega – sé að ekkert verður sagt um tengsl tungumálsins við heiminn. Þetta er hin afar mikilvæga þverstæðaTractatusar þar sem hann segir hreinlega rétt undir lokin: „Sá sem skilur yrðingar mínar mun að lokum átta sig á að þær eru merkingarlausar.“ Síðan reynir hann að draga úr þverstæðunni með því að segja að við verðum að hugsa okkur það sem hann segir eins og stiga sem við förum upp á ákveðið skilingsstig og sem við spörkum síðan burt. Kenning hans er að málið og heimurinn verði að hafa ákveðna formgerð sameiginlega til þess að mögulegt sé að málið geti lýst heiminum, og síðan segir hann að þetta sé ekki staðreynd sem hægt sé að tala um svo vit sé í. Þetta er eitthvað sem sýnir sig í tungumálinu en það er ekki hægt að nota málið til að greina frá því. Heimspekin grefur sem sagt undan sjálfri sér með þessum rökfærslumáta.

Magee Hann er þá að segja að til þess að setning spegli heiminn verði ekki aðeins að vera einkvæm samsvörum milli nafna í setningunni og hluta í heiminum heldur verði einnig að vera formgerð innbyggð í setninguna sem tengir nöfnin í henni saman með þeim hætti sem samsvarar því hvernig hlutir í heiminum eru tengdir saman með formgerð sem er innbyggð í heiminn. Það er samsvörun þessara tveggja formgerða sem gerir merkingu mögulega, sem reyndar er merking, með því að þessi samsvörunarpunktur er punkturinn þar sem tungumálið tengist heiminum.

Quinton Já.

Magee Í tilviki yrðingarinnar er þessi formgerð það sem hann kallar röklegt form hennar. Og eins og við höfum sagt speglar það formgerð sem mögulegt er að veruleikinn hafi. En þetta speglunarsamband sjálft er ekki hægt að spegla og þess vegna er ekki hægt að tjá það með tungumálinu. Svo að ekkert er hægt að segja um punktinn þar sem tengslunum milli málsins og veruleikans er í raun og veru komið á. Röklegt form yrðingar birtir formgerð sem gerir það mögulegt að yrðingin hafi merkingu, en samt er ekki hægt að setja þessa formgerð fram á tungumálinu. Það er hægt að sýna hvað hún er en ekki hægt að segja það.

Quinton Einmitt.

Magee Hvers vegna töldu menn þessa kenningu svo stórkostlega – hvers vegna hafði hún þau gífurlegu áhrif sem raun var á? Hún er svo furðuleg. Það sem meira máli skiptir er að mér virðist hún augljóslega gölluð, ekki síst að því leyti að hún skilur svo margt eftir. Til að mynda er tjáningarríkasta málnotkunin – bæði sú margbrotnasta og djúpsæjasta – vissulega málnotkun skapandi listar (ljóðagerðar, leikbókmennta, skáldsagna og þar fram eftir götunum), en samt gerir þessi kenning Wittgensteins alls ekki ráð fyrir neinu rými til að að útskýra þessa málnotkun. Mundirðu fallast á þessa gagnrýni?

Quinton Já, hún er takmörkuð. En ég hygg að hann mundi segja, væri hann beðinn að verja hana, að öll önnur málnotkun – að svo miklu leyti sem hægt er að taka hana alvarlega og hún er ekki einhvers konar orðaleikur – krefjist fyrst og fremst þessarar grundvallarnotkunar málsins sem er í því fólgin að lýsa staðreyndum eða heiminum. En hvað varðar ástæðurnar fyrir því að menn töldu að þessi kenning væri mikilvæg þá nefndir þú sem rök gegn því að hún væri furðuleg. Ég hefði haldið að hluti af hrifningunni yfir henni væri einmitt að hún var svo furðuleg. Það mætti segja að kenningin sé ekki mjög hógvær í framsetningu. Í forspjallinu segir hann blákalt: „Ég er sannfærður um að endanlega lausn allra heimspekilegra vandamála er hér að finna.“ Og í samræmi við það gaf hann auðvitað heimspekina upp á bátinn um alllangt skeið – tíu ár eða svo – strax og hann hafði lokið við Tractatus. Nei, það er hluti af aðdráttarafli kenningarinnar hve furðuleg hún er. En ekki bara það: Bókmenntalegur eiginleiki bókarinnar vekur sérstaka athygli. Það er eins og rödd tali út úr hvirfilvindi, með hinum stuttu, þrungnu setningum í orðskviðastíl. Fyrsta setningin í bókinni – „Heimurinn er allt sem er “ – er ein þeirra furðulegu yfirlýsinga sem maður veit ekki alveg hvernig á að taka. Og sú síðasta – „Það sem við getum ekki talað um verðum við að þegja um“ – lítur við fyrstu sýn út eins og augljós sannindi, en svo áttar maður sig á því að hún er ekki alveg augljós sannnindi. Aðalboðskapur allrar bókarinnar, segir hann, er að draga mörk þess sem hægt er að segja svo skiljanlegt sé.

Magee Það sem vekur eftirtekt allra við Tractatus þegar þeir opna bókina í fyrsta sinn er hvernig hún er skrifuð: alls ekki á samfelldu máli heldur í mjög stuttum efnisgreinum sem eru tölusettar samkvæmt flóknu kerfi skiptinga og undirskiptinga, jafnvel undir-undirskiptinga. (Þessa hlið Tractatusar hafa annars allmargar bækur stælt síðan og þær eru ekki allar um heimspeki.) Margar þessara efnisgreina eru einungis ein setning. Og eins og þú varst að gefa í skyn rétt áðan eru tengslin milli þeirra ekki alltaf augljós, og merking þeirra er ekki heldur alltaf augljós. Hvers vegna skrifaði hann bókina á þennan dularfulla og torskilda hátt?

Quinton Fyrir það fyrsta var hann ákaflega vandfýsinn maður – að öllu leyti, geri ég ráð fyrir, en vissulega eru vísbendingar fyrir hvaða lesanda sem er um það sem kalla mætti vitsmunalega vandfýsni hans. Hann hafði andstyggð á því sem ég held ég verði að kalla borgaralega akademíska heimspeki – hugmyndinni um heimspeki sem atvinnu, starf sem stundað er frá níu til fimm, sem maður innir af hendi með hluta af sjálfum sér og lifir síðan afganginn af lífinu án nokkurra tengsla við heimspekina. Hann var ákaflega siðavandur maður. Hann tók sjálfan sig og starf sitt mjög alvarlega. Þegar illa gekk hjá honum fylltist hann örvæntingu og angist. Þetta kemur fram í því hvernig hann skrifar. Maður finnur að öll sjálfsmynd hans er á bak við allt sem hann segir. Það þýðir líka að hann hefur tilhneigingu til að virða að vettugi eða fyrirlíta heimspeki sem sett var fram á afslappaðri, skilvirkari og faglegri hátt. Hann vill halda sér í fjarlægð frá þessu og vill ekki gera heimspekiskrifin of auðveld – hann vill ekki tjá sig þannig að fólk geti tileinkað sér textann með því einfaldlega að renna augunum yfir blaðsíðurnar. Heimspeki hans er tæki til að breyta öllu vitsmunalegu viðhorfi lesandans, og þess vegna er leiðin til hennar gerð torveld. Ég hygg að þetta gæti réttlætt aðferð hans, miðað við það sem hann ætlaði sér.

Magee Ég verð þó að segja að mér virðist textinn hafa óvenjulega eiginleika. Það er eins og setningarnar séu þrungnar spennu, þær geta setið lengi í huganum og maður stendur sig að því að fara með þær orðrétt mörgum árum eftir að hafa lesið bókina. Ég mundi líta á Wittgenstein sem einn þeirra fáu heimspekinga – á borð við Platon, Schopenhauer eða Nietzsche – sem eru líka miklir rithöfundar, miklir bókmenntalegir listamenn.

Quinton Ég held hann sé það. Hann er vissulega mjög meðvitaður listamaður. Hann hafði andlega reisn og var fágaður maður. Og hann lagði það besta af sjálfum sér í Tractatus. Það væri ekki hægt að kalla verk hans hrokafullt. Það ætlar sér mikla hluti og gerir miklar kröfur fyrir sig, en mér virðist hinn bókmenntalegi búningur hugsunar hans verðugur því hversu hugsanirnar sjálfar eru alvarlegar.

Magee Áður en við hverfum frá Tractatusi – eins og Wittgenstein sjálfur gerði – væri gagnlegt að þú auðkenndir þennan áfanga í umræðu okkar með því að endursegja aðalatriðin sem heildstæða kenningu.

Quinton Það fyrsta sem hann sagði, róttækasta kenningin sem hann setti fram íTractatusi, er að yrðingar séu myndir. Þetta er ekki sett fram sem myndhverf lýsing, aðferð til að segja á dálítið myndrænni hátt að yrðingar lýsi heiminum. Hann tók þá staðhæfingu mjög alvarlega að yrðingar væru myndir. Hann hélt því reyndar til streitu að þær væru bókstaflega myndir. Og þetta leiðir til annarrar kenningar sem er að myndir hafi frumþætti sem samsvari vettvanginum sem þær eru myndir af. Yrðingar eru í eðli sínu samsett fyrirbæri eins og sést á setningum sem eru myndaðar úr mismunandi orðum: yrðingin er mynduð úr orðum sem virka eins og nöfn og nöfnin samsvara beint hlutunum sem eru hluti af staðreyndinni – nöfnunum er raðað í setningunni eins og hlutirnir raðast í staðreyndinni. Tengt þessu er sú skoðun að heimurinn, ef á að vera hægt að lýsa honum á tungumáli, hljóti að vera munstur eða niðurröðun hluta sem hafa ýmsa möguleika til að tengjast hver öðrum. Það sem er í raun og veru er hvernig þessir hlutir raðast niður. Afleiðingin af þessu er að hið ómissandi, merkingarbæra innihald orðræðu – tungumáls sem er notað til þeirra raunverulega þýðingarmiklu hluta sem hægt er að nota tungumál til – er lýsing hennar á staðreyndunum sem heimurinn samanstendur af. Nú er það svo að margt af því sem við segjum er ekki þannig og það eru til ýmsar aðrar tegundir orðræðu sem Wittgenstein þurfti þess vegna að segja eitthvað um. Fyrsta kenningin sem hann setur fram til að laga þessa myndakenningu alltént að einhverjum hinna augljósu staðreynda um málnotkun okkar er sú hugmynd að allar yrðingar sem hafa fullgilda merkingu í málinu sem við notum, jafnvel þótt þær séu ekki sjálfar einfaldar myndir af hlutum, sé hægt að greina eða rekja sundur í safn yrðinga sem eru myndir af niðurröðun hluta. Þetta er kenning sem segir í raun að greining sé hin rétta aðferð heimspekinnar vegna þess að það sem hún gerir er að draga upp á yfirborðið það sem er hulið undir málvenjunum sem stytta málið. Þetta reyndist vitanlega vera mjög áhrifamikil kenning. Wittgenstein gefur aldrei nein dæmi um þessar myndrænu grunnyrðingar – kannski væru engar hversdagslegar yrðingar okkar slík dæmi. En sú krafa hans að eigi tungumálið að vera merkingarbært verði það að hafa ákveðna merkingu og að þessi ákveðna merking sé fólgin í því að málið gegni hlutverki sem er í eðli sínu myndrænt, útheimtir að sérhver fullgild yrðing, jafnvel þó hún sé ekki sjálf einstök mynd, hljóti að vera umfangsmikil myndasamstæða, eigi hún að vera merkingarbær. Annar hluti tungumálsins sem virðist ekki vera myndrænn – eða sé hann skilinn þannig þá er erfitt að sjá hvað það er sem hann er mynd af – er svið nauðsynlegra sanninda, yrðingar rökfræði og stærðfræði. Wittgenstein lagði stund á rökfræði undir leiðsögn Russells, eins og þú sagðir. Vinna hans með Russell við rökfræði var kveikjan að Tractatusi. Bókin heitir Tractatus LOGICO-Philosophicus (RÖKFRÆÐILEG ritgerð um heimspeki): það er heimspeki innblásin af hinum nýju framförum í rökfræði. Russell hafði sett rökfræðina í gríðarmikið kerfi. Í framhaldi af kenningum Freges ályktaði hann að rökfræði og stærðfræði mynduðu eitt samfellt, óskipt kerfi, og það er ljóst að þessi hugsun hafði djúp áhrif á Wittgenstein. Hann vildi kafa undir hana. Það virðist vera alger munur á stöðu yrðinga í rökfræði og stærðfræði annars vegar og venjulegra yrðinga sem lýsa staðreyndunum sem heimurinn samanstendur af hins vegar. Wittgenstein viðurkenndi þetta og var með þá skýringu á því að yrðingar rökfræði og stærðfræði séu klifanir og jöfnur þar sem jafnan staðhæfir einfaldlega að yrðingin öðrum megin í jöfnunni sé önnur leið til að miðla sömu merkingu og yrðingin hinum megin í jöfnunni. Þær veita engar efnislegar upplýsingar um heiminn: þær sýna aðeins þá staðreynd að hinar samsettu staðhæfingar sem við setjum í raun og veru fram séu oft tengdar þannig að frumþættir einnar séu innifaldir í frumþáttum annarrar. Þegar hin endanlega myndræna samsetning einnar yrðingar hefur að geyma frumþætti annarrar er síðari yrðingin rökleg afleiðing hinnar fyrri. Það gæti ekki verið skiljanlegt að sú fyrri væri sönn og hin síðari ósönn þegar allt sem felst í hinni síðari er innifalið í hinni fyrri. Wittgenstein útfærði þessa hugmynd með formlegum hætti á nokkrum stöðum í Tractatusi með tilliti til mjög mikilvægra rökfræðilegra meginreglna, þannig að það styrkti kenningu hans til muna. Þessi kenning var ekki fordæmislaus. Jafnvel hjá Hume má finna afbrigði af henni. En það sem máli skiptir um Wittgenstein er að hann gerði það ljóst hvernig hið sísanna, algera endurtekningareðli rökfræðilegrar ályktunar vinnur – og þess vegna hinna rökfræðilegu lögmála sem staðhæfa að slíkar ályktanir séu gildar. Það er eitt enn sem ætti að nefna og það er kenning hans um það sem ekki er hægt að segja. Hin afar ströngu skilyrði sem hann setur tungumálinu eigi það að gegna hlutverki sínu að vera raunverulega merkingarbært og lýsa heiminum leiða af sér að það eru ákveðnir hlutir sem það getur ekki gert. Það getur ekki talað um gildi – gildi eru ekki hluti af heiminum. Siðferðilegir og fagurfræðilegir dómar teljast því ekki fullgild, merkingarbær málnotkun. Hann gerir enga grein fyrir hvað þeir eru. Þá er sú tegund hefðbundinnar heimspeki sem reynir að tala um heiminn sem heild ekki möguleg. Það er aðeins hægt að tala um heiminn með því að lýsa þeim tilteknu staðreyndum sem hann er settur saman úr. Einkennilegust allra er sú kenning að tengslunum milli tungumálsins og heimsins sé ekki hægt að lýsa – en í þeim er í grundvallaratriðum um að ræða formlega samsvörun milli frumþátta málsins og frumþátta heimsins. Segja má að það sé byggt inn í yrðinguna sjálfa að hún sé mynd af heiminum. Tengslin milli yrðinga og heimsins eru ekki eitthvað sem við getum staðið utan við, þess vegna getum við ekki talað um þau. Þverstæðan er auðvitað sú að hann er stöðugt að gera einmitt það. Það var þverstæða sem hann var reiðubúinn að fallast á og hann gerir það skýrt og skorinort í bókarlok þar sem hann segir að allir sem skilja yrðingarnar viðurkenni að þær séu merkingarlausar – nokkuð ógnvekjandi athugasemd – og fer síðan að draga úr þessari furðulegu athugasemd með því að segja að sá sem hafi klifrað upp stigann sem hann hafi útvegað geti þá sparkað honum burt.

Magee Ég held að margir verði hissa að heyra þig segja að samkvæmt Wittgenstein spegli stærðfræði og rökfræði ekki heiminn á neinn hátt. Hafa ber í huga að við höfum gífurleg hagnýt not af stærðfræði: Við byggjum brýr, leggjum vegi og reisum skýjakljúfa, fljúgum flugvélum, gerum alls konar hluti sem stærðfræðin er ómissandi fyrir, og sem virka. Hvernig getur stærðfræði verið snar þáttur í þessum athöfnum og samt ekki átt við heiminn?

Quinton Stærðfræði á við heiminn í þeim skilningi að hún staðhæfir samsemd og mismun merkingar milli stærðartákna. Flókinni stærðfræðilegri rökleiðslu lýkur með því að endurtaka eitthvað sem þegar var staðhæft í forsendunum eða frumsetningunum sem hún byrjaði með, þó kannski sé það á dulinn hátt. Auðvitað er hún afar gagnleg vegna þess að það sem við vitum er ekki ætíð skýrt eða ljóst fyrir okkur. Hlutverk rökfræði og stærðfræði er að leggja okkur til aðferðir til að umbreyta hlutum sem við höfum sagt í annað form, en við erum samt, í hinni umbreyttu gerð þess sem rökfræði og stærðfræði hafa gert okkur kleift að komast að, að segja í grundvallaratriðum það sama eða hluta af því sama og við vorum að segja í staðhæfingunni sem við byrjuðum með. Tökum einfaldasta dæmið: 2+2 = 4. Ef ég læt tvö epli og önnur tvö epli í vasa minn þá hef ég látið í hann fjögur epli. Þetta eru bara tvær mismunandi leiðir til að segja hvað ég gerði. Og flóknasta stærðfræðilega ferlið er, að dómi Wittgensteins, í grunninn af þeirri gerð. En einmitt hversu flókið það er gerir að verkum að það liggur ekki í augum uppi og gerir skýra framsetningu rökfræðilegs og stærðfræðilegs sannleika í raun ómissandi.

Magee Þegar Wittgenstein fór að verða óánægður með alla heimspekina íTractatusi að hverju beindist þá óánægja hans?

Quinton Ég held maður ætti að segja hér dálítið um hvað Wittgenstein var að gera í millitíðinni. Þú talaðir hér á undan almennt um feril hans – verkfræðinámið í Manchester, að hann fékk áhuga á eðli stærðfræðinnar, að hann kynnti sér verk Russells, að hann fór til Cambridge til að vinna með Russell – og á þessu tímabili var hann ákaflega einangraður maður, kannski að mestu leyti lokaður inni í eigin hugsunum, talaði við eina eða tvær manneskjur (einkum Russell). Heimspekin íTractatusi endurspeglar þetta að vissu leyti með því að í henni er afar mikil einstaklingshyggja. Það er ekkert sem bendir til þess að tungumálið sé á nokkurn hátt samskiptatæki. Það er tæki til að segja sjálfum sér frá, til að lýsa. Það er engin áhersla á að það sé samskiptamiðill.

Magee Það er engin hugmynd um það sem félagslegt fyrirbæri.

Quinton Eins og ég sagði – og það samrýmist alveg kenningunum í Tractatusi – taldi hann sig vera með öll svörin rétt svo að hann gaf þá heimspekina upp á bátinn. Um nokkurra ára skeið á þriðja áratugnum var hann barnaskólakennari. Síðan starfaði hann sem garðyrkjumaður í munkaklaustri. Því næst hjálpaði hann til við hanna hús fyrir systur sína. Og það var ekki fyrr en undir lok þriðja áratugarins að hann fór aftur að stunda heimspeki. Hann fór að taka þátt í rökræðum við ýmsa framámenn í því sem átti eftir að verða Vínarhringurinn og þetta varð til þess að hann fékk aftur áhuga á heimspeki. Hin mjög svo ólíka seinni heimspeki Wittgensteins þróaðist frá þeim tíma. Svo virðist sem hann hafi til að byrja með verið nokkuð hlynntur þeirri sérstöku túlkun sem Vínarhringurinn var með á greinargerð hans um hverjir séu grunnþættir tungumáls, skoðun þeirra á þeim sem lýsingu á reynslu en ekki bara sem nöfnum á einföldum hlutum sem raðast saman á ákveðinn hátt án skýringar á því hvernig þessir hlutir tengjast vitund okkar. En hann hvarf frá þessu nokkuð fljótt, að ég tel. Höfum hugfast að hann sneri aftur til Cambridge árið 1929 og dvaldi þar í ýmsum hlutverkum þangað til hann flæktist inn í ýmiss konar störf tengd stríðinu í seinni heimsstyrjöldinni. Á þessu tímabili bjó hann til gerólíka heimspeki sem setur ekki fram skýrar, ákveðnar, sérteknar reglur um innsta eðli tungumálsins heldur nálgast málið sem náttúrlegt mannlegt fyrirbæri, eitthvað sem við finnum að gerist allt í kringum okkur, flókið safn mannlegra athafna sem skarast – líkjast hver annarri að sumu leyti, eru ólíkar að öðru leyti. Grundvallareinkenni þessarar seinni heimspeki er að litið er á tungumálið sem í eðli sínu opinbert eða félagslegt fyrirbæri, fyrirbæri sem því aðeins getur virkað að til séu reglur sem fleiri en einn einstaklingur fallast á svo að notkun eins einstaklings á reglunum sem hann fer eftir í máli sínu sé móttækileg fyrir leiðréttingu og lagfæringu af hálfu annars einstaklings.

Magee Ég held að auðveldasta leiðin inn í þessa seinni heimspeki Wittgensteins – og þess vegna til að sjá hvernig hún er ólík hinni fyrri – sé með hjálp mismunarins á tveimur myndlíkingum fyrir merkingu. Í fyrri heimspekinni er litið á merkingu sem myndræn tengsl. Í hinni seinni er litið á hana eins og verið sé að nota tæki: farið er að líta á merkingu orðs sem heildarsummu allrar mögulegrar notkunar þess. Þetta, eins og þú varst að segja rétt áðan, tengir hana við mannlegar athafnir og endanlega við lífshætti. Þessi breyting frá líkingunni við mynd til líkingarinnar við tæki eða verkfæri er algert grundvallaratriði. Aragrúa annarra breytinga leiðir af henni. Geturðu tekið upp þráðinn þaðan?

Quinton Já. Það sem við höfum hér verður, held ég, best látið í ljós með hjálp annarrar myndlíkingar. Hún er sprottin af stöðugum samanburði hans á notkun máls við að fara í leiki og er hér á ferðinni hugmyndin um „málleik“ sem verður mikilvægt fagorð í seinni heimspekinni.

Magee Má ég grípa fram í til að segja að ég tel að þessi myndlíking hafi verið ákaflega óheppileg. Af þeirri staðreynd að Wittgenstein er alltaf að tala um málleiki og um notkun máls sem einskonar leik hafa margir dregið þá ályktun að hann hafi einhvern veginn litið svo á að allt sem sagt er sé léttvægt. Það hefur verið notað til að staðfesta þá fordóma sem margir hafa um málspekina að hún sé „öll bara leikur að orðum“.

Quinton Þetta var nú vissulega ekki ætlun hans sem var aðeins að vekja athygli á tveimur einkennum leikja. Hið fyrra er einfaldlega að þeir eru athafnir sem stjórnast af reglum. Margt leiðir af þessu um það hvernig reglur leiks geta breyst og hvernig leikir geta líkst hver öðrum á alls konar ólíka vegu. Það vísar veginn til hins síðara einkennis leikja sem er að þeir hafa allir ekkert sameiginlegt einkenni. Leikir, segir hann, tengjast hver öðrum með skyldleikasvip. Þetta á svo aftur við um tungumálið, hinar margvíslegu athafnir sem við framkvæmum með málinu: að spyrja spurninga, blóta, heilsa, biðjast fyrir, svo gefin séu nokkur þeirra dæma sem hann telur upp. Ég er sammála því að leikjalíkingin gæti virst gefa í skyn að þetta sé aðeins gaman, dægradvöl eða þvíumlíkt. En hin myndlíkingin sem þú nefndir var líking milli tungumálsins og tækja sem notuð eru í ákveðnum tilgangi. Það er sem sagt þetta tvennt við tungumálið: Það er starfsemi sem hefur ákveðinn tilgang og samt er hún framkvæmd með sérstökum einingum sem stjórnast af venjubundnum og breytanlegum reglum.

Magee Þessi nýja hugmynd um merkingu hafði töluverð áhrif utan heimspekinnar, einkum í mannfræði og félagsfræði. Geturðu sagt eitthvað um hvernig aðrar fræðigreinar urðu fyrir áhrifum af henni?

Quinton Það þarf að hafa formála að svarinu með athugasemd um seinni skoðun hans á heimspekinni sjálfri. Það er órofið samhengi milli fyrri og seinni almennrar skoðunar hans á heimspeki, sem sé að hún sé í eðli sínu starfsemi en ekki kenning (svo notuð sé formúlan í Tractatusi). Heimspeki er eitthvað sem maður gerir. Hún er ekki kenningabálkur sem hægt er að koma orðum að. (Hann segir þetta alveg skýrt í Tractatusi en það er enn undirliggjandi ósögð forsenda í Rannsóknunum þar sem hann segir að ekki ætti að setja fram heimspekilegar kenningar þar sem þær auki einungis á rugling.) Það sem maður gerir sem heimspekingur er að safna minnispunktum um hvernig tungumálið er í raun og veru notað í margvíslegum myndum sínum, hinum margvíslegu aðgreindu en ekki óskyldu málleikjum sem það er notað í. Maður safnar minnispunktum um þetta til að koma í veg fyrir að fólk fari að bíta sig í villandi líkingar eða hliðstæður. Hin villandi líking sem var honum ef til vill efst í huga var sú tilhneiging að halda að vegna þess að við segjum „ég fann til sársauka“ eða „ég er með verk“ þess vegna sé sársauki eða verkur einhvers konar ákveðinn, þekkjanlegur innri hlutur, sem við ein vitum um og tökum eftir innra með okkur og segjum öðrum frá. Mikið af Rannsóknunum fæst við að losa um takið á þessari mynd af því hvernig við tölum um andlegt líf okkar eins og við værum að segja frá einkareynslu.

Magee Auðvitað er myndin sem hann er nú að hafna einmitt sú tegund myndar sem fyrri kenning hans um tungumálið mundi fá mann til að samþykkja. Ef við nú göngum út frá þessu heldurðu þá að einhver sannleikur sé í eftirfarandi lýsingu? Þegar Wittgenstein gaf Tractatus út var hann gagntekinn af tiltekinni kenningu um tungumálið, nefnilega myndakenningunni. Seinna gerði hann sér ljóst að hún var röng og hafði leitt til rangrar heimspeki. Af þessari reynslu ályktaði hann að áður en maður fer að hugsa heimspekilega ætti hann að rannsaka hina margvíslegu vegu sem tungumálið getur afvegaleitt okkur á, og gerir það í reynd. Og þetta varð svo heimspekileg aðferð hans: margþætt rannsókn á því með hve margvíslegum hætti rangar skoðanir á tungumálinu villa um fyrir okkur í hugsun okkar um heiminn.

Quinton Það er án efa rétt að mikill hluti Rannsóknanna er í formi gagnrýni á fyrri kenningar hans. Fyrsta fjórðungi þeirra er að miklu leyti beint að því að ráðast á þá hugmynd að orð séu í eðli sínu nöfn. Skoðun hans er að notkun nafna sé aðeins einn af þeim mörgu málleikjum sem við förum í, einn þáttur tungumálsins. Við verðum þegar að hafa mikinn málskilning, heldur hann fram, til að skilja athafnir manns sem er að reyna að segja okkur hvað eitthvað heitir. Hann vill sem sagt halda því fram að hugmyndin að gefa nafn hafi engan algeran forgang. Það er bara eitt af því sem málið gerir. Þaðan heldur hann áfram og ræðst á fyrri hugmynd sína að til séu endanlega einfaldir hlutir og endanlega einfaldar yrðingar. Hann heldur því fram að einfaldleiki miðist alltaf við einhverja sérstaka rannsókn. Af þessu leiddi að hann fór nú að hugsa um tungumálið sem opinberlega tiltækan félagslegan veruleika en ekki sem einhvers konar óbreytanlega frumverund og eðli hennar sé hægt að finna út í huganum með hreinni rökhugsun.

Magee Afstöðu Wittgensteins hefur oft verið líkt við sálgreiningu. Wittgenstein er að segja að í fyrsta lagi afbaki rangar gefnar forsendur sem eru tungumálinu að kenna skoðun okkar á einhverri sérstakri hlið veruleikans og að á því stigi verði það verkefni heimspekinnar að staðsetja hnútana og leysa þá. Þessari hálfgildings lækningaskoðun á heimspekilegri starfsemi hefur oft verið líkt við það sem Freud taldi að sálkönnuðurinn ætti að gera varðandi sálarflækjur af vissum öðrum tegundum. Heldurðu að þarna sé um að ræða eitthvað raunverulega líkt?

Quinton Já, ég held að það sé áreiðanlega eitthvað líkt með þessu tvennu. Það að Wittgenstein forðaðist kenningar í seinni heimspeki sinni er einmitt líkt því að hinn freudíski sálkönnuður neitar sér um að segja: „Það sem er að þér er að þú ert æðislega ástfanginn af móður þinni“ – sem hefur alls engin áhrif. Aðferðin verður að vera langtum óbeinni. Það verður að koma sjúklingnum á það stig þar sem eitthvað er að lokum dregið upp úr undirvitundinni – með því að endurlifa heilmikið af liðinni reynslu og með því að vera minntur á alls konar hugsanir og tilfinningar sem hann hefur haft. Hjá Wittgenstein er það sem er hulið ekki hulið á alveg sama hátt: Það sem verður að gera hinum heimspekilega ruglaða eða ráðvillta einstaklingi ljóst eru reglur málleiksins sem fólk notar í raun og veru. Það sem hefur komið fyrir hann er að hann hefur hrifist af líkingu eða hliðstæðu sem hann hefur séð milli þess hvernig orð haga sér í einum leik og hvernig þau haga sér í öðrum. Hann beitir reglum fyrri leiksins á seinni leikinn og kemst í vandræði. Hann heldur að vegna þess að í búð segi ég: „Þetta er reiðhjól, þetta er sjónvarpstæki og þetta er brauðrist “, þá sé ég að gera eitthvað hliðstætt þegar ég horfi inn í sjálfan mig og segi: „Ég er með sáran verk í vinstra hnénu, ákafa löngun í tebolla og ósk um að það væri föstudagur.“ Segja mætti að þetta séu gerólíkar aðgerðir. Í sjálfslýsingu er maður ekki bara að telja upp hluti sem hann finnur innra með sér. Leiðin til að gera sér þetta ljóst, heldur hann fram, er að gaumgæfa tungumálið í sínu náttúrlega umhverfi og taka tillit til allra kringumstæðna þar sem fólk segir tiltekna hluti og sérkennandi hegðunar sem fylgir því að það segir þá.

Magee Má ég nú spyrja þig aftur hvaða áhrif þessi heimspeki hefur haft utan heimspekinnar?

Quinton Mér láðist að taka þessa spurningu til umfjöllunar, alveg rétt hjá þér. Það eru allmörg áhrifasvið. Ég held það sé gagnlegt að aðgreina þrjú þeirra. Hið fyrsta er þvert ofan í skoðun hans sjálfs að heimspekin ætti ekki að setja fram kenningar, að hún ætti að takast á hendur að eyða stig af stigi ruglingi frekar en búa til almennar reglur til altækrar notkunar. Segja mætti að það sé ein almenn regla sem er nokkuð algeng og hann hefur fengið fjölda manna til að fallast á: Hún er sú að til þess að skilja tungumálið sem við notum til að tala um andlegt líf sjálfra okkar og annarra sé nauðsynlegt að gaumgæfa kringumstæður og hegðun fólksins sem þessar tilfinningar eða hugsanir eru eignaðar. Ég segi ekki að Wittgenstein sé atferlissinni eða að þeir sem hann hefur haft áhrif á séu, strangt tekið, atferlissinnar í hreinræktuðum skilningi. Ég er einungis að segja að það sé óaðskiljanlegur hluti skilnings okkar á því hvernig við tölum um andlegt líf að hegðun og kringumstæður eigi þátt í því. Þetta eru nokkuð almenn og, segja mætti, blátt áfram fræðileg áhrif sem hann hefur haft á heimspekinga. Nú er ekki lengur hægt að tala um þekkingu okkar á huganum – hvort heldur á hug sjálfra okkar eða annarra – á hinn gamla cartesíska hátt, á þeirri forsendu að heimurinn samanstandi af tveimur gerólíkum tegundum hluta: hinum skynjanlega heimi fastra, sýnilegra hluta í rúmi og tíma og innri heimi hugsana og tilfinninga. Heimarnir tveir skarast mjög náið. Reyndar er ekkert tal um innri hugsanir og tilfinningar mögulegt sem tengist ekki tjáningu hugsana og tilfinninga í þeim kringumstæðum sem þær eiga sér stað í. Þetta er nokkuð sem er viðurkennt af fjölda manna sem aðhyllast ekki Wittgenstein í neinum almennum skilningi. Til að aðhyllast Wittgenstein held ég að maður verði að tileinka sér þá aðferð og hugmynd um heimspeki sem Wittgenstein sjálfur setur fram í seinni verkum sínum, og um það eru fjölmörg dæmi. Ég er ekki sérstaklega hrifinn af því viðhorfi. Hér er það fortakslaus leikregla að forðast heimspekilega kenningasmíð. Hugmyndin er að viss tegund ráðgátu sem ruglar fólk í ríminu kalli óhjákvæmilega á heimspeki og það verði að ráða fram úr þessu með aðferðum sem eru meira eða minna bundnar hverju einstöku tilviki. Gaumgæfið hina sérstöku ráðgátu; veltið fyrir ykkur orðunum sem ráðgátan er sett fram með; skoðið þau alveg niður í kjölinn; heimspekingurinn minni ykkur á allar hinar ólíku málvenjur í daglegri notkun tungumálsins þar sem orðin sem valda ráðgátunni koma fyrir. Þetta er heimspekileg aðferð sem allmargir hafa tileinkað sér. En það er aðeins, að ég held, lítill hópur manna sem mundi í raun og veru viðurkenna forystu Wittgensteins sem heimspekings, sem líta á sig sem lærisveina hans í einhverjum skilningi. Flestir þeirra sem hann hefur haft áhrif á geta ekki stillt sig um að fara aftur út í það sem hann fordæmir opinberlega, það er að segja að búa til kenningar, að skáletra niðurstöður í heimspekilegu skrifi. Skilningsríkustu útskýrendum hans hættir til að vera brenndir með hinu gamla marki þeirrar heimspeki sem stundar kenningasmíð. Þeir vinna ekki yfirleitt á þennan brotakennda hátt, þó býst ég við að í vissum skilningi finnist þeim að þeir ættu að gera það. En, svo að ég víki að öðru atriðinu, þá er einnig um að ræða víðara áhrifasvið sem best verður lýst í stuttu máli sem stuðningi við menningarlega afstæðishyggju af ákveðinni gerð. Wittgenstein var harður á því að það væri ekki verkefni heimspekinnar að fikta við tungumálið, að leiðrétta málið sem er í raun og veru notað – þetta er vitanlega Wittgenstein í seinni heimspeki sinni – og þetta verður einskonar umburðarlyndisregla gagnvart næstum því hvaða ríkjandi málvenju sem er. Þetta hefur mannfræðilega þýðingu. Það er algerlega andstætt mannfræðilegu viðhorfi upplýsingar átjándu aldar þegar fólk í gerólíkum kringumstæðum var álitið skynsamt eða heimskt í ljósi þeirra meginreglna sem voru ríkjandi í samfélagi mannfræðinganna sjálfra. Wittgenstein mundi vera algerlega andsnúinn því. Fyrir honum eru allir lífshættir jafnir og maður getur ekki haldið því fram að hann skilji til fulls samfélag, eða einhverja hlið eða hluta samfélags, eða hóp sem er tengdur saman með tilteknum samskiptareglum, nema maður fari í raun og veru inn í þetta kerfi og þá mun hann skilja það innan frá. Þetta útilokar þá hugmynd að til sé altækur mælikvarði til að leggja mat á mismunandi lífshætti. Og því ætti að bæta við að allar félagslegar athafnir þeirra eru gegnsýrðar af tungumálinu og þar raungerast tengslin. Öll gagnrýni utan frá á þessar athafnir er útilokuð. Það verður bara að rannsaka þær og skilja innan frá. Þriðja og síðasta áhrifasviðið sem á rætur að rekja til Wittgensteins er sennilega víðtækast og mikilvægast þeirra allra. Í stórum dráttum er það greinargerð Wittgensteins um félagslegu hliðina á mennlegri tilvist. Einn hluti hennar er útgáfa hans af þeirri algengu skoðun að maðurinn sé í eðli sínu félagsvera. Samkvæmt Wittgenstein er það notkun tungumáls sem greinir mannkynið frá öðrum dýrategundum. En hann heldur því fram með rökum að tungumál sé ósmættanlega félagslegt fyrirbæri. Það er tjáningarvenja sem stjórnast af reglum, og að fara eftir og framfylgja reglum, heldur hann fram, er eitthvað sem einungis er að finna í samfélagshópi. Þetta er hin vel þekkta kennisetning hans um að einkamál sé ekki mögulegt – en því ætti að bæta við að þetta er mjög umdeild kenning. Tengd þessu er sú afstaða sem hann tekur til skýringar á mannlegri hegðun. Hið hefðbundna vandamál um frelsi viljans gekk að því sem gefnu að mestallt mannlegt atferli ætti sér orsakir. Vandamálið var þetta: Verður eitthvað af því sem menn gera að vera orsakalaust eigi að telja þá siðferðilega ábyrga fyrir því? Wittgenstein gróf undan þessu vandamáli með því að halda því fram að eiginlegur verknaður (andstætt við viðbragðshreyfingar eða fyrirbæri á borð við meltinguna) eigi sér alls ekki orsakir – að spurningar um hvað orsaki hann eigi einfaldlega ekki við og að einu viðeigandi beiðnir um skýringu varði ástæður fyrir verknaði. (Hér gefur hann sér að ástæður og orsakir útiloki hvor aðra, nokkuð sem margir mundu draga í efa.) Sé þetta rétt er allt áformið um vísindalega rannsókn á mannlegu samfélagi dregið í efa. Því áform sem þannig er hugsað hlýtur að snúast um orsakir. Kenning Wittgensteins um verknað virðist leiða af sér að það geti ekki verið nein félags- og mannvísindi sem nota aðferðir hliðstæðar aðferðum náttúruvísindanna. Í staðinn verður rannsókn manns og samfélags að vera túlkunareðlis líkt og þýðing yfir á manns eigið tungumál á einhverju sem er skrifað á öðru. Satt að segja er rannsókn samfélags yfirleitt slík þýðing frekar en að hún sé lík slíkri þýðingu. Segja mætti að form samfélagslífsins sem verið er að rannsaka sé gegnsýrt af tungumálinu. Wittgenstein hélt því fast fram að tungumál séu sjálf „lífsform“.

Magee Virði maður fyrri og seinni heimspeki Wittgensteins fyrir sér í sameiningu virðast þær vera metnar á að minnsta kosti þrjá mismunandi vegu af heimspekingum sem eru sjálfir mikilsvirtir. Margir, kannski flestir, líta á bæði fyrri og seinni heimspekina sem afurðir snilligáfu. Aðrir – Bertrand Russell til dæmis – líta á fyrri heimspekina sem afurð snilligáfu en seinni heimspekina sem léttvæga. Enn öðrum – Karl Popper er einn þeirra – finnst lítið til beggja koma. Hvernig metur þú þær?

Quinton Ég er nú kannski nógu þægur til að vera alveg sannfærður um að Wittgenstein sé snillingur og að bæði fyrri og seinni heimspeki hans séu snilldarverk. En eins og svo oft þegar heimspekileg verk eiga í hlut er þetta ekki vegna þess að allt sem í þeim stendur sé sannleikur. Hver mundi neita því, þegar öllu er á botninn hvolft, að Platon væri snillingur, en hver gæti samt trúað í alvöru skoðun hans á alheiminum – að það sem er til í raun og veru séu sérteknir tímalausir hlutir og heimur hluta í rúmi og tíma sé einhvers konar óraunveruleg sýnd? Hægt er að viðurkenna snilligáfu heimspekings án þess að fallast á mikið af því sem hann segir. Snilligáfan kynni að vera fólgin í því – eins og til að mynda er augljóst í tilviki Kants – að spyrja róttækari og magnaðri spurninga en menn höfðu spurt áður, draga í efa ósagðar forsendur sem hingað til hafði ekki verið hróflað við. Og ég tel að þetta eigi við um verk Wittgensteins í heild.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Enska heitið er ‘The Two Philosophies of Wittgenstein’. – Úr bókinni Men of Ideas sem er byggð á samræðum Magees við fjórtán þekkta heimspekinga og málvísindamanninn Noam Chomsky. Samræðunum var sjónvarpað hjá BBC fyrri hluta árs 1978. Bókin kom út sama ár.

2. Þess má geta að Anthony Quinton er viðmælandi Magee um heimspeki Spinoza og Leibniz í bókinni Miklir heimspekingar sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 2002. Þar er að finna rækilegri umfjöllun um seinni heimspeki Wittgensteins en í þessari samræðu.

 

« Til baka

Heidegger og nútíma tilvistarstefna

William Barrett og Bryan Magee ræða saman

INNGANGUR

Magee Við og við kemst alvarleg heimspeki skyndilega í tísku í hugmyndaheiminum eftir dúk og disk, venjulega sem afleiðing af einhverjum sérstökum sögulegum kringumstæðum. Milli heims­styrjaldanna tveggja gerðist þetta með marxismann, aðallega sem afleiðing af rússnesku byltingunni. Eftir heimsstyrjöldina síðari gerðist það með tilvistarstefnuna, en hún komst í tísku á meginlandi Evrópu aðallega sem svar við reynslunni af hernámi nasista. Þegar ég tala um að heimspeki sé í tísku hef ég í huga að hún verður vinsæl ekki aðeins hjá háskólafólki heldur hjá rithöfundum af öllu tæi – skáldsagnahöfundum, leikskáldum, ljóðskáldum og blaðamönnum – svo að hún fer að gegnsýra allt menningarlegt andrúmsloft einhvers tíma og staðar. Í París eftir­stríðsáranna, svo dæmi sé tekið, virtist látlaust vísað til tilvistarstefnunnar úr öllum áttum, ekki aðeins í samtölum, vissum tegundum lista og alvarlegri tegundum blaðamennsku, heldur í alþýðlegri blaðamennsku, jafnvel í skemmtanalífi almennings, einkum í kabarettum og nætur­klúbbum. Frægasta nafnið sem tengdist allri þessari hugmyndalegu og félagslegu þróun, bæði þá og nú, er nafn Jean-Paul Sartres. En tilvistarstefna þessarar aldar hófst í rauninni ekki í Frakk­landi heldur í Þýskalandi – og á tímabilinu eftir heimsstyrjöldina fyrri en ekki þá síðari. Með tilliti til hugmynda er mikilvægasti einstaklingur hreyfingarinnar ekki Sartre heldur Heidegger; það er að segja, þeir sem fjalla um nútíma tilvistarstefnu í alvöru eru næstum því einhuga um að Heidegger, sem er eldri en Sartre, sé dýpri og frumlegri hugsuður. Í þessari umræðu munum við því nálgast tilvistarstefnuna aðallega út frá verkum Heideggers – þótt við munum einnig segja eitthvað um Sartre og hvernig hann fellur inn í myndina.

Martin Heidegger fæddist í Suður-Þýskalandi árið 1889 og bjó á sama litla blettinum í Evrópu nánast alla ævi. Hann var nemandi Husserls áður en hann varð sjálfur kennari í heimspeki. Árið 1927, þrjátíu og átta ára að aldri, gaf hann út mikilvægustu bók sína, Veru og tíma. Hann lifði upp undir hálfa öld eftir það og skrifaði mikið meira, sumt mjög áhugavert, en ekkert annað sem kom frá honum átti nokkurn tíma eftir að verða jafn stórt, jafn gott eða jafn áhrifamikið og Vera og tími. Bókin er ekki auðveld aflestrar, en höfundur þess sem mér virðist vera best allra inngangsrita um tilvistarstefnuna fyrir hinn almenna lesanda ræðir hér um hana við mig. Það er William Barrett, prófessor í heimspeki við New York háskóla og höfundur hinnar ágætu bókar Irrational Man.1

UMRÆÐA

Magee Væri ég einhver sem vissi alls ekkert um heimspeki Martins Heideggers og þig langaði til að gefa mér grunnhugmynd um hana, hvernig mundirðu byrja?

Barrett Ég mundi byrja með því að reyna að staðsetja Heidegger innan sögulegs samhengis hans en það yrði stærra samhengi en það sem þú hefur gefið til kynna. Það yrði mælt í öldum frekar en áratugum. Samhengið sem ég veldi mundi reyndar vera tímabil nútíma heimspeki í heild sem byrjar með Descartes á sautjándu öld. Descartes var einn af upphafsmönnum hinna Nýju vísinda – þess sem við köllum nú nútíma vísindi – og fyrirætlun hans um að koma þeim af stað fól í sér undarlegan klofning milli vitundar og ytri heims. Hugurinn kerfisbindur náttúruna í megindlegum tilgangi – til mælinga og útreikninga, í þeim endanlega tilgangi að ráðskast með náttúruna – og um leið er vitundinni sem gerir allt þetta, hinni mannlegu hugveru, teflt gegn náttúrunni. Það sem kemur þá fram er mjög athyglisverð tvískipting milli hugar og ytri heims. Næstum því öll heimspeki á næstu tveimur og hálfri öld lagaði sig að þessari umgjörð. En í byrjun þessarar aldar sjáum við svo að farið er að brydda á uppreisn í ýmsum myndum og hjá ýmsum stefnum í heimspeki gegn þessari tvískiptingu sem rekja má til Descartes, vítt og breitt um heiminn – í Englandi, á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Heidegger er einn af uppreisnarmönnunum gegn Descartes. Reyndar höfum við í þessari uppreisn góðan lykil að hugsun hans. Það væri hvað sem öðru líður þarna sem ég mundi byrja fræðsluna um heimspeki hans.

Magee Upphafspunktur þinn er þá þessi: Með framgangi nútíma vísinda, en gullöld þeirra var sautjánda öldin, kom sú skoðun fram í menningu okkar að veruleikinn í heild skiptist milli skynjenda og hins skynjaða eða milli hugvera og hlutvera. Til eru mannverur (og kannski líka Guð) sem skynja heiminn og til er heimurinn sem þær skynja. Þessi tvíhyggja, þessi skoðun um tvískiptingu alls veruleikans, gegnsýrir orðið hugsun okkar, heimspeki okkar og vísindi. En samt, gagnstætt því sem flestir vestrænir karlar og konur halda sennilega, er þetta viðhorf til veruleikans sérkennandi fyrir Vesturlönd og, það sem meira er, sérkennandi fyrir þau aðeins síðustu þrjár eða fjórar aldir.

Barrett Það er óþægilegt viðhorf vegna þess að í einum skilningi lifum við ekki í raun og veru með því. Ég lít ekki á þig sem hug tengdan við líkama. Og ég lít ekki heldur svo á að tilvist þín eins og ég er að tala við þig núna sé á einhvern hátt vafasöm – að hún sé eitthvað sem ég álykta. Það er gagnstætt venjulegri tilfinningu okkar fyrir hlutunum að haga okkur eins og hugurinn og hinn ytri heimur séu andstæðir hvor öðrum á þennan hátt. Uppreisnin gegn tvíhyggjunni, sem eitt af sérkennum heimspeki tuttugustu aldar, er því auðskiljanleg. Heidegger hefur sína eigin uppreisnaraðferð. Hann byrjar út frá þeim aðstæðum sem við erum í raun og veru í. Þú og ég erum saman í sama heimi – við erum tvær mannverur innan sama heims. Ég mundi byrja að kynna heimspeki Heideggers með þessu grundvallarhugtaki „að vera í heiminum“. Orðið ‘vera’ kann að gera okkur bilt við, okkur finnst það kannski langsótt og hástemmt; en við verðum að skilja það í hversdagslegustu og algengustu merkingu. Hvernig venjulegar mannverur eru áþreifanlega í heiminum er upphafspunktur okkar. Og það er þar sem við byrjum að hugsa heimspekilega.

Magee Ég verð að segja að þessi upphafspunktur er mér að skapi. Sú hugmynd að veruleikinn sé klofinn milli tveggja eðlisóskyldra verunda er nokkuð sem mér hefur aldrei þótt eðlilegt: Það var eitthvað sem ég varð að læra í skóla eða sem nemandi, og til að byrja með fannst mér það furðuleg, jafnvel framandi hugmynd. Reynsla okkar sem einstaklinga er í miklu meira samræmi við það sem þú ert nú að segja: Við stígum upp úr meðvitundarleysi frumbernskunnar til vitundar um okkur sem verur í heiminum. Við bara erum hér. Og hér byrjum við.

Barrett Strax og okkur hefur verið komið kirfilega fyrir í heiminum verður aðalverkefni heimspekinnar að lýsa. Heimspekingurinn leitast við að kanna og lýsa hinum ýmsu tilvistarháttum okkar í þessum heimi. Hér eru efnistök Heideggers gerólík efnistökum uppreisnarmanns gegn tvíhyggju Descartes á borð við G. E. Moore sem er upptekinn af vanda­málum þekkingar og skynjunar. Tökum grein Moores „Sönnun á ytri heimi“, sem hlotið hefur frægð af verðleikum. Hún var upphaflega flutt frammi fyrir áheyrendum – Bresku akademíunni, ef ég man rétt. Ég ímynda mér að þessir áheyrendur hafi ekki talið að raunveruleg tilvist þeirra í salnum sem hlustaði á Moore værri komin undir því að hann gæfi vel heppnaða sönnun á þeirri tilvist. Staðreyndin er að þegar maður ber fram þekkingarfræðilega spurningu eins og þessa verður hann þá þegar að vera í heiminum til þess að bera hana fram. Að fá aðgöngumiðann að hinum venjulega heimi er ekki háð því að maður leysi þekkingarfræðilegar ráðgátur. Þekkingarfræði er vitsmunaleg starfsemi sem við, eða sum okkar, iðkum sem verur í heimi.

Magee Felur nafnið ‘tilvistarstefna’ í sér að tilvistarheimspekingar líti á tilvist okkar í þessum heimi sem mikilvægasta heimspekilega vandamálið?

Barrett Það er vandamál í þeim skilningi að við verðum að ráða fram úr því. En það er hið gefna: það er ekki ályktað. Vandinn er þá að gefa lýsingu á því. Vel á minnst, það er mikilvægt þegar Heidegger á í hlut að leggja áherslu á að markmið hans er að lýsa. Hann er ekki fræðilegur frumspekingur. Hann er ekki að setja saman óhlutbundna kenningu um hvað hinsti veruleiki sé.

Magee Mundirðu fallast á eftirfarandi samantekt á umfjöllun okkar fram að þessu? Vestræn vísindi, tækni, heimspeki og samfélagið sjálft hafa öll þróast á tiltekinn hátt á síðustu þremur eða fjórum öldum sumpart vegna þess að náin tengsl eru milli þróunar þeirra. Meginviðfangsefni hins vestræna manns hefur verið að sigrast á náttúrunni. Þetta hefur orðið til þess að hann lítur á náttúruna með tilteknum hætti, eins og hann sé húsbóndinn en hún þrællinn, hann frumlagið en náttúran andlagið. Þetta hefur leitt til klofnings í viðhorfi hins vestræna manns til veruleikans sem hefur orðið hluti af allri hugsun hans, þar með talin vísindi hans og heimspeki. Í heimspeki, að gefnu þessu viðhorfi til veruleikans, kemur þekkingarvandinn næstum óhjákvæmilega til með að verða fyrirferðarmestur. „Hvað vitum við? Hvernig getum við vitað að við vitum? Hvað er það að vita? Er það sama og að vera viss?“ Þetta eru meginspurningar allrar heimspekihefðar okkar frá dögum Descartes. En Heidegger er ekki aðallega að fást við þessar spurningar. Hann er ekki að fást við vandamálið um hvað það sé að vita heldur um hvað það sé að vera. Hvað er það að vera til? Hvað er þessi tilvist sem við einfaldlega erum stödd í eða sitjum uppi með?

Barrett Já, þetta er rétt.

Magee Hann byrjar þá, eins og rökrétt má kallast, rannsóknir sínar með greiningu á þeim tilvistarhætti sem við höfum beinasta og milliliðalausasta reynslu af, það er að segja okkar eigin reynslu. Fyrsti hluti Veru og tíma samanstendur af nákvæmri greiningu á meðvitaðri sjálfskennd, beinni þekkingu okkar á eigin tilvist í hennar frumlægustu mynd. Hann kallar þetta „tilvistarlega greiningarhlutann“. Maður kynni að hafa ætlað að þessi reynsla væri ógreinanleg, einmitt vegna þess að hún er milliliðalaus. En Heidegger hrekur þetta með því að tengja saman með góðum árangri tvær aðferðir. Önnur er hin fyrirbærafræðilega aðferð að einbeita sér til hins ýtrasta að fyrirbærunum eins og þau eru í raun og veru upplifuð. Hin er kantíska aðferðin að spyrja sig: „Hvað þarf að vera tilfellið til þess að þetta sé tilfellið, þ. e. hver eru nauðsynleg skilyrði þessarar reynslu þannig að væru þau ekki snar þáttur í henni þá gæti ég ekki haft hana?“ Með þessari aðferð tekur hann til við að rekja sundur innri gerð meðvitaðrar sjálfskenndar okkar í aðgreinda þætti. Í fyrsta lagi – þar sem það gæti ekki hugsanlega verið nein meðvituð sjálfskennd án einhverrar skynjunar um að eitt eða annað væri að gerast – þá verður að vera einhvers konar ‘atburðasvið’, einhver ‘veröld’: Veran er því óhugsandi án þess að hún sé ‘veraldleg’. Í öðru lagi, vitneskja okkar um hvað svo sem það er sem við höfum vitneskju um merkir að það verður að vera einhvers konar þátttaka vitundar okkar í því. Þessu gefur hann heitið Sorge sem venjulega er þýtt sem ‘áhyggja’ en væri kannski betra að þýða sem ‘umhyggja’ eða ‘þátttaka’. Í þriðja lagi, ekkert af þessu er hugsanlegt án einhvers konar atburðarásar: Allt verður að hafa tímavídd – veran hlýtur því að vera í tíma. Og þar fram eftir götunum. Sérhver rannsókn er, eðli sínu samkvæmt, erfið og langvarandi, en maður fær hjá Heidegger, eins og hjá Kant, þá spennandi tilfinningu að gera sér grein fyrir að það sem maður hafði alltaf talið vera jarðhæð vitundarinnar hefur undir sér heila öðruvísi hæð sem hægt er að komast inn á og rannsaka.

Einhver sem hefur fylgst með okkur hingað til kynni að segja: „Já, þetta er allt mjög áhugavert en það er sjálfsskoðunarsálfræði, ekki heimspeki, eða hvað?“ Stutta svarið við þessu er nei. Tilgangurinn með rannsókn Heideggers er ekki að uppgötva eitthvað um mannlega hegðun, eða hvernig hugur okkar starfar, heldur að byrja að útlista tilvistarhugtakið með því að reyna að ákvarða hvað sé ósmættanlegt í því, hvað svo sem það er, sem við erum að segja um okkur sjálf þegar við segjum að við séum til. Þetta er óumdeilanlega heimspekilegt viðfangsefni. Mér finnst það að sumu leyti mest heillandi af öllum heimspekilegum viðfangsefnum. En ég geri mér grein fyrir að sumum veitist erfitt að takast á við það, ef til vill vegna þess að það er ekki í samræmi við venjulega hugsunarhætti okkar. Fyrir heimspekinga er það oft erfitt viðureignar sökum þess að það er vandamál sem er allsendis ólíkt þekkingarvandanum sem er miðlægur í hefð okkar og er þess vegna svo óvenjulegt í samhengi þeirrar hefðar.

Barrett Það er óvenjulegt. En ég vil aftur leggja áherslu á að hið miðlæga hlutverk sem þekkingarvandinn hefur helgað sér er nokkuð sem aðeins hefur einkennt heimspekina í meiri eða minni mæli eftir Descartes. Þekkingarvandinn var ræddur af fyrri tíma heimspekingum, en hann hafði ekki þá algerlega miðlægu stöðu sem hann hafði eftir Descartes. Í einhverjum skilningi hugsar Heidegger því sem svo að hann sé að hverfa aftur til Grikkja, einkum til heimspekinga fyrir daga Sókratesar.

Magee Við höfum sagt að það sem Heidegger er að reyna að gera sé að gefa lýsingu á veruleikanum sem við erum stödd í, sem merkir lýsandi greiningu á veru okkar í heiminum. Leikmaður gæti spurt: „Hver er tilgangurinn með því? Við höfum þessa tilvist. Hér erum við. Við erum að lifa hana. Í vissum skilningi er hún allt sem við höfum. Hvernig getur lýsing á því sem okkur er þegar kunnugra en nokkuð annað gefið okkur eitthvað sem skiptir máli? Já, hvað getur hún sagt okkur sem við vitum ekki nú þegar?“

Barrett Það er hið kunnuga sem venjulega reynist okkur óskiljanlegt í lífinu. Það sem er fyrir framan nefið á okkur er það sem við sjáum síðast. Það er rétt að þau einkenni mannlegrar tilvistar sem Heidegger lýsir eru að mörgu leyti hversdagsleg, en þegar við erum búin að lesa greiningu hans sjáum við þau á þann hátt sem við höfum aldrei alveg séð þau fyrr.

Magee Mundirðu segja að það sem Heidegger er að gefa okkur sé eingöngu greining á hinu hversdagslega, hinu venjulega, hinu kunnuglega?

Barrett Til að byrja með, já. En það er þá einnig áhersla á hið afbrigðilega og hið óvenjulega – hinn óhugnanlega þátt í tilverunni sem alltaf skýtur upp kollinum. Ég vil bera Heidegger að þessu leyti saman við annan heimspeking hins hversdagslega (og nota þetta orð í almennustu merkingu þess), Wittgenstein í seinni heimspeki hans. Samanburðurinn er athyglisverður vegna þess að Wittgenstein sér fyrir sér verkefni heimspekinnar sem það að greiða úr flækjunum í hversdagsmálinu svo að við getum starfað áfram á sama stigi skilvirkra samskipta innan heimsins. Í þessum skilningi getum við næstum því gert okkur í hugarlund, með Wittgenstein, þann möguleika að ef við greiddum úr öllum flækjunum í tungumálinu þá hyrfu öll vandamálin eða spurningarnar sem urðu til þess að við fórum að stunda heimspeki og heimspekin sjálf mundi því hverfa. En með Heidegger rólum við í þessum hversdagsveruleika þegar allt í einu óvenjulegar gjár opnast undir fótum okkar.

Magee Hvað ertu að hugsa um – dauðann?

Barrett Dauðinn væri eitt dæmi.

Magee Hver væru önnur?

Barrett Angist. Samviska. En tökum dauðann. Þú spurðir mig: „Hvernig geta lýsingar hans gefið okkur nokkuð sem við vitum ekki fyrir?“ Lýsingin sem hann gefur á dauðanum er lýsing sem umbyltir venjulegum hugmyndum okkar. Því hinar venjulegu hugmyndir okkar reyna af öllum mætti að sneiða hjá veruleika dauðans. Venjulega hugsum við um dauðann sem staðreynd í heiminum – eitthvað sem við lesum um í andlátsfréttum. Hann kemur fyrir annað fólk. Vissulega kemur hann fyrir mig, en ekki strax, svo að hann er eitthvað þarna úti í heiminum, enn sem komið er utan við mig. Það furðulega er að staldri ég við til að hugsa um hann sem dauða minn geri ég mér ljóst að dauði minn verður aldrei staðreynd í heiminum fyrir mig. Ég mun aldrei vita að ég sjálfur hafi dáið.

Magee Wittgenstein segir þetta í Tractatusi: „Dauðinn er ekki atburður í lífinu: Við upplifum ekki dauðann.“

Barrett Einmitt. Dauði minn er eitthvað sem hefur afar mikla þýðingu fyrir mig en þó getur hann aldrei verið staðreynd í mínum heimi. Í mínum heimi getur hann aðeins verið möguleiki. Hann er samt alltaf nálægur veruleiki. Vera má að ég sé ekki til hvenær sem er. Og þessi möguleiki „gerir að engu alla aðra möguleika mína“, eins og hann orðar það. Í þessum skilningi er hann ýtrastur allra möguleika. Og aðalatriðið hjá Heidegger er að strax og þú gerir þér ljóst að þessi möguleiki gegnsýrir tilveru þína eins og hún leggur sig getur þú annaðhvort flúið óttasleginn frá þeirri staðreynd, brotnað niður eða horfst í augu við hana. Ef þú horfist í augu við hana spyrðu þig þessarar spurningar: „Frammi fyrir þessum möguleika, hvaða merkingu hefur líf mitt?“ Með öðrum orðum, á þessu stigi hugsunar sinnar mundi Heidegger vera sammála Tolstoj að grundvallarspurningin sem sérhver maður, og þess vegna sérhver heimspekingur, verður að leggja fyrir sjálfan sig er þessi: „Fyrst dauðinn er til hvaða merkingu / tilgang hefur líf mitt?” Þessi spurning er eðlileg afleiðing af því að horfast í augu við sannleikann um hvernig við stöndum í raun og veru gagnvart dauðanum, sannleika sem stangast á við það hvernig fólk hugsar og talar venjulega um hann. Og dauðinn hugsaður sem varanlegur innri möguleiki fær alveg nýja vídd í samanburði við dauðann skoðaðan sem atburð í heiminum.

Magee Ég verð að segja einu sinni enn að þetta er nokkuð sem höfðar sterkt til mín. Enda þótt ég væri þjálfaður í gerólíkri heimspekihefð finnst mér heilmikið vit í öllu sem þú segir. Ég hef þessa tilfinningu í ríkum mæli – ég býst við að fjöldi fólks hljóti að hafa hana – að hversdagslíf okkar sé í senn ómerkilegt, innantómt, ofurkunnuglegt en samt dularfullt, furðulegt. Ég hef í enn ríkari mæli þá tilfinningu að það að horfast í augu við dauðann fái mann til að leita að einhverri merkingu eða tilgangi í lífi sínu. Hvernig fer Heidegger að því, þegar hér er komið, að svara spurningum sínum?

Barrett Hann hefur ekkert svar. Hann er bara að benda á þá formgerð mannlegrar tilvistar sem umgjörðina sem spurningarnar verða að falla inn í. Hann er að sýna fram á að þetta er vídd mannlegrar tilvistar sem einfaldlega verður að horfast í augu við. Svarið við spurningunni: „Hvaða merkingu hefur líf mitt?“ er komið undir einstaklingnum. Í þessum skilningi hefur Heidegger enga siðfræði.

Magee Þrátt fyrir það kemur það fram með eðlilegum hætti að tiltekin umræðuefni eru miðlæg í hugsun hans, og hann útfærir þau í löngu máli – þú nefndir eitt eða tvö rétt áðan. Getum við tekið þau mikilvægustu til umfjöllunar? Til að mynda er eitt einkenni lífsins sem hann veitir mikla athygli sú staðreynd að við erum einfaldlega stödd hér án þess að okkur hafi verið boðið. Okkur er öllum bara varpað inn í heiminn – reyndar merkir orðið sem hann notar um þetta hugtak bókstaflega ‘það að vera varpað eða kastað’: Geworfenheit.

Barrett Við völdum ekki foreldra okkar. Við fæddumst af þessum foreldrum, á þessum sérstaka tíma, á okkar sérstaka sögulega tímaskeiði, í sérstöku samfélagi með þá arfgerð, hver svo sem hún er, sem okkur er gefin – og með þessu verðum við að móta líf okkar. Sjálft upphaf mannlegs lífs er því eins og teningi sé varpað. Hending þess á sér djúpar rætur í óhjákvæmilegum staðreyndum. Þær eru hið ‘gefna’ fyrir okkur – svo þessu þekkingarfræðilega hugtaki sé gefin tilvistarleg merking.

Magee Og þessari ‘vörpun inn í heiminn’ og þar af leiðandi hendingu sem gegnsýrir næstum því allt sem varðar líf okkar fylgir jafn óhjákvæmilegur endanleiki, er það ekki? Ævi manns varir ákaflega stuttan tíma. Það er ekki bara þannig að við vöknum í heiminum og erum einfaldlega stödd hér, heldur erum við varla orðin vön þessu þegar því lýkur öllu aftur. Og sú staðreynd að því lýkur er fyrir flest okkar skelfileg. Hvernig ráðleggur Heidegger okkur að sætta okkur við allt þetta?

Barrett Engar forskriftir. Kjarni málsins er að hvaða ákvörðun sem við tökum til að gefa lífi okkar merkingu eða mæta dauðanum verðum við að horfast í augu við aðstæður mannsins með einum eða öðrum hætti. Hann segir þetta ekki en gefið er í skyn að kannski sé öll heimspeki svar við spurningunni um dauðann. Sókrates hafði orð á að öll heimspeki væri hugleiðing um dauðann – sem við gætum túlkað frjálslega að merkti að maðurinn mundi ekki hugsa heimspekilega þyrfti hann ekki að horfast í augu við dauðann. Værum við allir Adam sem lifðum eilíflega í garðinum Eden mundum við bara rölta um og velta fyrir okkur hinu og þessu en ekki neinu alvarlegu heimspekilegu viðfangsefni.

Magee Eitt sem Heidegger og tilvistarheimspekingar horfast í augu við, og sem ég hygg að fyrri heimspekingar hafi ekki fyllilega gert, er sú staðreynd að vitund okkur um dauðann veldur angist. Reyndar er hún skelfileg. Þessi angist frammi fyrir okkar eigin endanleika er eitt af meginþemum tilvistarheimspekinnar, er það ekki?

Barrett Jú. Og vitundin skerpist af þeirri staðreynd að það að vera til yfirleitt felur í sér að fara inn í framtíð sem hefur að geyma óumflýjanlegan dauða okkar. Hér komum við að öðru meginþema Heideggers – þeirri staðreynd að vera okkar öll er gegnsýrð af tíma. Já, þess vegna er heiti bókar hans Vera og tími. Við byrjum tilvist okkar sem verkefni í þeim skilningi að hún er eitthvað sem lagt er á okkur og við síðan tökum á okkur. Mannleg tilvist er ferli, (svo ég umorði Pope) hún er aldrei en á alltaf eftir að vera. Við erum alltaf flækt í það verkefni að skapa okkur sjálf – og alltaf út frá raunverulegum upphafspunkti okkar sem hefði getað verið öðruvísi.

Magee Og allan tímann á ferð inn í opna framtíð.

Barrett Rétt. Framtíðin er aðaltíðin hjá Heidegger vegna þess að hann sér manninn í meginatriðum sem opna veru sem stefnir fram. Ástæðan fyrir því að við smíðum hugmyndina klukku-tími og búum til úr og aðra tímamæla er einmitt sú að við ætlum að nota tíma okkar. Við erum að varpa okkur inn í framtíðina. Nútíðin hefur aðeins merkingu fyrir okkur að svo miklu leyti sem hún opnast í átt til mögulegrar framtíðar.

Magee Við vorum ekki fyrr komnir að viðfangsefninu ‘angist’ rétt áðan en við hurfum frá því og fórum að tala um ‘tíma’. Getum við farið aftur til ‘angistarinnar’ – þangað sem þú samþykktir að hún væri eitt af meginþemum tilvistarstefnunnar?

Barrett Angistin hefur átt margvíslegan feril í nútíma menningu. Fyrir fáeinum áratugum, þegar Auden gaf út bók sína The Age of Anxiety, komst hún meira að segja í tísku. Hún var það sem var ‘inni’. Fólk ræktaði angist sína – sem er heimskulegt að gera vegna þess að (minnugir umræðu okkar um dauðann) angistin er innbyggð í aðstæður okkar. Angistin er einfaldlega okkar mannlega tilvist, í óvissuástandi sínu, að koma upp á meðvitundarstig – hið einskæra óvissu­ástand mannlegrar tilvistar að titra gegnum okkur. Önnur nútíma afstaða – sumpart afleiðing þess að við erum tæknisamfélag sem ræður yfir vissum tækjum, lyfjum, úrræðum af ýmsu tæi – er að við ímyndum okkur að það hljóti að vera til eitthvert tæki eða ráð sem er þannig að við getum ýtt á hnapp og losnað við angistina. Hér er blekkingin sú að hún sé ekki eitthvað sem verður að horfast í augu við og lifa gegnum. Báðar öfgarnar eru óheppilegar. Angist er einfaldlega hluti þess að vera mannlegur. Á einum stað segir Heidegger reyndar: „Það eru til alls konar afbrigði af angist: í sumum myndum hefur hún friðsæld skapandi löngunar.“ Með öðrum orðum ef við værum ekki angistarfull sköpuðum við aldrei neitt.

Magee Tilraun mannsins til að flýja frá eigin angist, að komast undan raunveruleika eigin dauðleika, leiðir til einhvers sem er annað stórt þema tilvistarstefnunnar: firring. Við lokum augunum fyrir skelfilegum staðreyndum eigin tilvistar og leitumst raunar við að komast hjá að lifa með tilliti til þessara staðreynda. Það er eins og við séum utan við raunveruleika eigin lífs. Firring er líkt og angist nokkuð sem tilvistarstefnuheimspekingar hafa haft mikið að segja um – og bæði hugtökin hafa verið stórlega misskilin og misnotuð af nýtískulegum höfundum.

Barrett Já, reyndar hefur ‘firring’ verið svo mikið í umferð að sé orðið notað nú segir fólk: „Ó, þetta leiðinlega umræðuefni.“ Engu að síður vill svo til að þetta er eitt djúptækasta þema nútíma menningar: Hegel og Marx voru uppteknir af því og það hefur verið eitt aðaleinkenni bókmennta tuttugustu aldar. Bara sú staðreynd að siðmenning okkar hefur svo margar upplýsingaleiðir til umráða – svo að fólk veit hvað er ‘inni’ og hvað er ‘úti’ og orð eins og ‘firring’ ganga manna á milli þangað til þau verða ekkert annað en innantómar klisjur – eykur á firringu okkar, er eitt þeirra afla sem gera það. Blaður okkar um firringu gerir okkur einungis firrtari.

Magee Vitanlega, að fara með þessa hluti eins og tískufyrirbæri er að taka þá ekki alvarlega og þess vegna leið til að sneiða hjá þeim.

Barrett Já, en sjáðu til, firring kemur fyrir á nokkrum stigum. Eitt er það stig þar sem við getum týnt sjálfi okkar í hinu ópersónulega félagslega sjálfi – maður felur sig í félagslegu hlutverki sínu.

Magee Eins og Wordsworth orðaði það:

          „Veraldarvafstrið ríður okkur á slig:
          Sýknt og heilagt að afla og eyða slítur okkur út.
          Náttúran er orðin okkur fjarlæg og framandi.
          Við höfum svikið hjörtu okkar . . .“

Barrett En það er til annars konar firring. Og hún er raunverulegt vandamál, í þessum skilningi – ég orða þetta á svolítið gamansaman hátt, en ég held þú skiljir það. Hér er ég, stiginn af himnum ofan niður í London. Ég er ekki alveg búinn að finna sjálfan mig. Það virðist allt frekar framandlegt.

Magee Þér finnst þú ekki vera í sambandi við veruleikann.

Barrett Já. Þegar ég geng um göturnar er þetta framandi fólk. Eftir fáeina daga finnst mér sennilega að ég sé ‘heima’. Grunnmerking orðsins ‘firring’ er að vera framandi.

Magee Þetta finnst okkur öllum í framandi borgum. En sumum finnst þeir vera eins og framandi menn í heiminum sem slíkum.

Barrett Þeir búa í eigin skinni sem framandi menn.

Magee Við höfum nefnt helstu viðfangsefnin í Veru og tíma: þau tvö sem koma fyrir í titlinum sjálfum, og einnig dauðann, angist og firringu. Það er heilmikið annað í bókinni, mikið af því of tæknilegt, eða að minnsta kosti of erfitt, til að fjalla um í þessari stuttu samræðu. Dýrmætast af öllu er, að því er mér virðist, hin fyrirbærafræðilega greining á meðvitundinni – óvanalega djúp, hugvitssamleg og frumleg rannsókn, í raun afreksverk snillings. Í heild fjallar bókin um raunverulega djúpstæð efni. Og jafnvel þar sem hún gefur engin svör er sú staðreynd afar mikils virði að hún varpar ljósi á spurningarnar, eins og hún vissulega gerir.

Hins vegar, líkt og svo margir aðrir heimspekingar, eftir að Heidegger hafði útfært ‘stóra’ heimspeki sem ungur maður, hélt hann áfram og í einhverjum skilningi burt frá fyrri viðfangsefnum sínum. Enda þótt Vera og tími væri kynnt sem fyrra bindi þess sem átti að vera tveggja binda verk, kom annað bindið aldrei út, svo að við fengum bara hálfa bók. Hvers vegna lauk hann ekki verkinu sem hann hafði áformað?

Barrett Þetta er efni sem menn bæði rökræða og velta vöngum yfir. Heidegger reyndist hafa skilið eftir sig handritið að seinni hlutanum. Það verður gefið út sem eins konar Nachlass. En sjálfur held ég ekki að það breyti miklu fyrir skilninginn á honum. Ég held ég viti hvað hann ætlaði að segja í seinni hlutanum: Hann sagði sumt af því í fyrstu bók sinni um Kant. En þá gerist þetta – einhvers staðar í kringum 1936 – sem Heidegger fræðimenn kalla ‘vendinguna’. Honum fannst, í einhverjum skilningi, að hann hefði í Veru og tíma einskorðað athyglina um of við manninn. Hann sá að heimspeki sín var öflug gerð mannhyggju en líka að hún skildi eftir óljósa þá spurningu hverjar væru rætur mannverunnar.

Magee Þú átt við heim náttúrunnar, efnisheiminn?

Barrett Alheiminn. Í vissum skilningi, sjáðu til, mundi Heidegger kalla sig fylgismann Parmenídasar. Hann hefur skrifað um Parmenídas, gríska spekinginn sem fékk hina spennandi hugmynd: ‘alheimurinn er eitt’. Í fyrsta sinn í sögu mannsins kemur hér fram hugmyndin um alla tilveruna sem eitthvað sem við verðum að tengja okkur við í hugsun okkar. Heidegger álítur að það sem hefur gerst með nútíma menningu sé einmitt að við höfum glatað þessum alheimsrótum, orðið viðskila við tilfinninguna fyrir tengslum við heildina.

Magee Hvers vegna ætti að eigna þetta nútíma menningu sérstaklega? Er það ekki hluti af aðstæðum mannsins?

Barrett Það er það í þeim skilningi að maðurinn er vera sem flýr frá sannleikanum jafnvel þegar hann sækist eftir honum – og Parmenídes andmælti þessari ‘firringu’ hjá samtíðarmönnum sínum. En ég tel að ein af ástæðunum fyrir því að það gerist sérstaklega í menningu samtímans sé að við höfum byggt upp miklu tæknilegra samfélag. Við erum umloknari einskærum manngerðum ramma hluta en fólk var áður fyrr. Ég get ekki varist þeirri hugsun, þegar ég kem til London, að hún sé nú mjög ólík þessari borg á dögum Shakespeares sem þá var miklu nær sveitinni – maður gat hreint og beint gengið út í sveit.

Magee Að setja firringu í sögulegt samhengi og þar af leiðandi með tilliti til þess sem er sérstakt við aðstæður mannsins á tuttugustu öld, er þá eitthvað sem Heidegger fór að verða upptekinn af eftir að hann hafði lokið við Veru og tíma?

Barrett Já. En seinni Heidegger er ekki kerfisbundinn, ekki einusinni kerfisbundinn á þann hátt sem hann leitast við að vera í Veru og tíma. Seinni Heidegger er aðallega að fást við vandamál skáldskapar og vandamál tækni. Hann telur að eitt af verkefnum heimspekinga á okkar tímum sé að reyna að hugsa til enda hvað tæknin felur í sér. Nútíma hugsun er of yfirborðsleg, of óekta hvað varðar viðfangsefnið tækni. Til er fólk með mjög hálfkæringslega afstöðu: Það er á móti vélum eða það er með tækni. Það er ekkert vit í því, sagði Heidegger, að maður á þessum sérstöku tímamótum í sögunni sé með eða á móti tækni. Við erum háð tækninni. Væri hún fjarlægð mundi öll siðmenningin hrynja. Þetta er áhættufé tilvistar okkar, hluti af hættuspili okkar. Á hinn bóginn er sú staðreynd sem kjarnorkusprengjan hefur gert mannlegri vitund ljósa almennt að tækninni fylgja róttækir möguleikar. Hingað til hefur fólk mótmælt tækninni sem orsök staðbundinna vandræða – atvinnuleysis, mengunar og þar fram eftir götunum – en sú hugmynd að maðurinn gæti tortímt sjálfum sér sýndi okkur hina skelfilegu möguleika innan tækniheimsins. Seinni Heidegger var að hugsa það til enda hvar í sögu mannsins rætur tæknilegrar tilveru hans liggja og hvert hún kynni að fara með hann.

Magee Hvernig tengist áhugi hans á skáldskap áhuga hans á tækni – nema hann sjái þetta tvennt sem gagnstæðar hliðar á sömu mynt?

Barrett Skáldskapur og tækni eru það. Eins og þér er vel kunnugt úr öðrum greinum heimspeki samtímans er viss tilhneiging hjá sumum heimspekingum að fara með tungumálið eins og formlegan reikning, tæki sem hægt er að ráðskast með og stjórna. Nú er það svo með ljóð, að dómi Heideggers, að það lætur ekki að kröfum vilja okkar. Skáldið getur ekki viljað yrkja ljóð, það bara kemur. Og við sem lesendur þess getum ekki heldur viljað viðbrögð okkar: Við verðum að gefa okkur ljóðinu á vald og leyfa því að orka á okkur. Heidegger tengir tæknilegar framfarir þessarar siðmenningar við fástískan vilja hennar sem verður að lokum viljinn til valds. Lykiltilvitnunin hér væri í Francis Bacon: „Við verðum að leggja náttúruna á píslarbekkinn til að knýja hana til að svara spurningum okkar“; áhrifamikil leið til að láta í ljós fylgi við tilraunaaðferðina. En staldri maður við til að hugsa, jafnvel þótt við leggjum veslings kvalda náttúruna á píslarbekkinn, verðum við samt að hlusta á viðbrögð hennar. Við verðum í einhverjum skilningi að gefa okkur sjálf, vera móttækileg. Það kemur að því að þvingunarstarf okkar verður að víkja fyrir því sem er þarna til að hlustað sé á það, hvað svo sem það er.

Magee Þetta minnir mig sterklega á upphafsatriðið hjá þér sem var viðskilnaður Heideggers við meginhefð vestrænnar heimspeki. Jafnvel byltingarkennd heimspeki innan þeirrar hefðar, eins og marxisminn, gengur að því sem vísu að það að sigrast á náttúrunni sé viðvarandi viðfangsefni mannkyns og það með réttu. En ein meginhugmynd Heideggers er andstæð þessu á róttækan hátt. Það er sú hugmynd að viljum við í raun og veru skilja aðstæður okkar – eða (orðað á annan hátt) viljum við í raun og veru skilja veruleikann – þá verðum við að reyna að þröngva okkur ekki upp á hann heldur frekar að gefa okkur honum á vald. Heldurðu að þetta tengist á einhvern alvarlegan hátt austrænum hugmyndum – hugmyndum sem maður er vanur að setja í samband við búddhatrú og hindúatrú eða austræna heimspeki almennt?

Barrett Ég held það geri það. Það eru vísbendingar um þetta í sumum seinni skrifum Heideggers þar sem stuttlega er vísað til taóisma og, á einum stað, til Zen búddhatrúar. Að sumu leyti virðist Heidegger að öll Vesturlönd séu fyrir rétti á þessum stað í sögunni. Möguleikar kjarnorkusprengjunnar leiddu honum þetta fyrir sjónir og við verðum að íhuga þá heimspekilega. Siðmenning sem sækist eindregið eftir yfirráðum og valdi kann líka á einhverjum tímapunkti að ganga af göflunum. Það kann því að koma að tímamótum þar sem við ættum að hætta að sýna vald okkar og bara láta hlutina í friði. Og, ef þú vilt, þá er hér að finna skynjun einhvers sem líkist hinum austræna anda.

Magee Ég hef fundið svo mikla ósvikna innsýn og dýpt hjá Heidegger að mér er fyrirmunað að skilja hvernig svo margir aðrir heimspekingar sem eru augljóslega gáfaðir – ég hef í huga menn eins og Rudolf Carnap, Karl Popper og A. J. Ayer – hafa getað fjallað um hann með slíku háði og fyrirlitningu sem raun ber vitni. Ekki aðeins í samtölum heldur einnig í útgefnum skrifum sínum hafa þeir hafnað verkum hans sem vitleysu í bókstaflegri merkingu, innantómri mælgi, eintómum orðaflaumi. En samt virðist mér að maður þurfi aðeins að lesa fyrsta innganginn að Veru og tíma til að sjá að fjarri því að vera einungis orðaflaumur þá er hún bæði merkileg og djúphugsuð. Hvers vegna hafa svo margir hæfir menn hafnað honum með svo mikilli fyrirlitningu?

Barrett Ja, ég vil ekki viðhafa móðgandi ummæli um ástand heimspekinnar en það er til viss tegund fagmannlegrar bjögunar. Maður hefur ákveðna sýn og henni fylgir blinda á sýn einhvers annars. Ég hygg að ein fyrirstaðan sé orðaforði Heideggers sem í byrjun fer í taugarnar á manni. En sé hann lesinn á þýsku kemst maður að raun um að hann skrifar sæmilega skýra þýsku. Ef prósi hans er borinn saman við prósa Hegels, til dæmis, þá er Heidegger skýrleikinn sjálfur. En ég er hræddur um að við finnum það alltaf í heimspeki að menn hafa dálæti á tilteknum völdum orðaforða. Þú nefndir Carnap. Ég var nemandi Carnaps í nokkur ár og ég fékk áhuga á Heidegger sumpart til að komast að því hvað væri hér á ferðinni: Gæti hann verið eins slæmur og þeir segja?

Magee Er það virkilega svo að árásir Carnaps á Heidegger komu þér í kynni við hann og þú lítir nú á hann sem að öllu leyti meiri heimspeking en Carnap?

Barrett Það er rétt . . .

Magee Áður en við hættum að fjalla um Heidegger held ég það skipti máli að leggja áherslu á að sú mynd af verkum hans sem flestir rökgreiningarheimspekingar virðast hafa og láta ganga áfram til nemenda sinna sem síðan endurtaka hana án þess að vita betur, er blátt áfram ósönn. Þeir ímynda sér að þau séu alls ekki heimspeki enda þótt ljóst sé að þau eru það. Þeir virðast gera ráð fyrir að honum sé mikið í mun að segja okkur hvernig við ættum að lifa – en eins og þú hefur lagt áherslu á forðast hann það sérstaklega. Þeir telja því að hann sé að setja reglur þegar hann er í raun að lýsa. Þeir virðast líka álíta að þetta sé allt eitt stórt sjónarspil – rómantískt, uppskrúfað og óagað – en mestur hluti Veru og tíma, að minnsta kosti, samanstendur hins vegar af frekar hægfara og mjög nákvæmri lýsandi greiningu sem væri þurrlega akademísk ef ekki væri vegna þess hve viðfangsefnið er frumlegt, spennandi og mikilvægt. Þar sem þessu er svona varið eru háðsglósur eða svívirðingar um Heidegger og heimspeki hans sem maður er vanur að heyra frá rökgreiningarheimspekingum svo fjarri sanni að þær leiða í ljós svo ekki verður um villst vanþekkingu þeirra. Bara persónulega held ég að honum hljóti að hafa virst þetta smánarlegt með öllu, ef ekki ófyrirgefanlegt. En vitanlega er hann ekki eini stóri hugsuðurinn í sögu heimspekinnar sem hefur verið ófrægður. Í sumum kringumstæðum virðist það vera hluti af gjaldinu sem hver sá þarf að greiða sem er frumlegur á róttækan hátt.

En við skulum halda áfram. Ég vil koma með annan mann inn í umræðuna. Í innganginum lofaði ég að við mundum segja eitthvað um Sartre. Ég sagði að enda þótt Sartre hafi orðið frægasti tilvistarspekingurinn, reyndar eina nafnið sem flestir setja í samband við tilvistarstefnuna, þá sé hann ekki eins frumlegur hugsuður og Heidegger. Engu að síður hefur hann lagt eitthvað af mörkum. Hvernig mundirðu lýsa helsta framlagi Sartres?

Barrett Sjálfur tel ég að sumar skáldsögur Sartres og sum leikrit hans séu mikilvægari en nokkur heimspekiskrif hans, en samt sem áður fellst ég á að hann sé töluvert snjall heimspekingur. Aðalheimspekirit hans kallast Vera og neind. Þetta er hrikalegt rangnefni. Bókin er ekki um veru og hún er ekki um neind. Sartre hefur ekki mikla tilfinningu fyrir verunni. Hverju svo sem maður kann að andmæla hjá Heidegger þá verður hann að viðurkenna að maðurinn er gegnsýrður af tilfinningu fyrir verunni. Bók Sartres er í raun og veru melódrama tveggja vitunda eins og Descartes hugsar sér þær. Auðvitað eru þær cartesískar vegna þess að hann er franskur – sérhver Frakki er hallur undir Descartes þegar gengið er nógu hart að honum. Þessar tvær vitundir skilja aldrei hvor aðra. Þær eru tveir sjálfsveruhugir sem rangtúlka hvor annan: Ég, sem sjálfsvera, þröngva mér upp á þig og breyti þér í hlutveru; þú svarar í sömu mynt. Og svo heldur þessi djöfullega samræða rangtúlkunar og misskilnings áfram. Að lokum verður ógerlegt fyrir okkur að eiga samskipti í einlægni. Þessi doðrantur Sartres er því í rauninni bók um vandamálið einlægni eða heilindi – sem er, að ég hygg, grundvallarvandamál franskra bókmennta frá Montaigne, um Molière til Prousts.

Frægasta og jákvæðasta kenning Sartres er hugmynd hans um frelsi. Það er kenningin sem náði mestri hylli almennings af því að hún gefur okkur víðfeðmustu möguleika frelsisins. Sem mannverur er frelsi okkar algert og ótakmarkað. Ekkert aftrar okkur frá að gera óteljandi fljótfærnislega og hættulega hluti hvenær sem er.

Magee Mér skilst þú eigir til að mynda við, að ég sé nú frjáls til að taka upp þennan þunga öskubakka og lemja þig í höfuðið með honum, eða stökkva ofan af þaki þessarar byggingar, eða taka næstu flugvél frá London og koma aldrei aftur það sem eftir er ævinnar. Ég get bókstaflega, ef ég vil, gert þetta allt og enginn gæti stöðvað mig. Það eru óteljandi aðrar slíkar athafnir sem ég er frjáls til að framkvæma hvenær sem er – hvaða hugsanleg athöfn sem er, hversu öfgakennd eða ofsafengin eða duttlungafull eða óvenjuleg sem hún er, sem enginn er í raun og veru í aðstöðu til aftra mér með valdi frá að gera. Og það sem Sartre leggur stöðugt áherslu á er að við horfumst ekki í augu við þessa hlið á raunveruleika aðstæðna okkar. Í staðinn látum við eins og við séum langtum takmarkaðri, langtum ófrjálsari en við erum. Þess vegna látum við stjórnast af siðvenju og því sem aðrir hugsa miklu meira en nauðsynlegt er. Við gefum ímyndunaraflinu langtum minna svigrúm í lífi okkar – og því langtum minna frelsi – en við gætum notað með skapandi hætti.

Barrett Dæmin hjá þér eru ljómandi góð – þau leggja áherslu á það sem er vafasamast í skoðun Sartres. Hvenær verður þetta algera og ótakmarkaða frelsi sjúklegt? Eyðileggjandi og sjálfseyðileggjandi? Samkvæmt hefð hefur frelsi ætíð verið tengt hugmyndinni um ábyrgð og ég mundi vilja varðveita þau tengsl. Án efa er siðvenja of þungur baggi á sumum og takmarkar möguleika þeirra til frelsis. En ég velti því fyrir mér hvort við höfum ekki ýkt hugmyndina um hamlandi hlutverk siðvenju þegar hér er komið sögu. Þeir sem eru heftir af siðvenju hafa yfirleitt ekki bein í nefinu hvort eð er. Og dágóður fjöldi þeirra sem brjóta gegn siðvenju eiga ekkert sjálfir til að brjóta gegn henni með. Á árunum milli nítján hundruð og sextíu og sjötíu sá ég dágóðan fjölda ungs fólks bjóða siðvenju byrginn og jafnvel slá um sig með tilvistarorðunum ‘ekta’ og ‘óekta’, og í flestum tilvikum var árangurinn ákaflega rýr og satt að segja óekta. Þeir hefðu verið meira ekta einstaklingar ef þeir hefðu fylgt einhverjum siðvenjum; og sumir þeirra tortímdu reyndar sjálfum sér. Það er jákvætt gildi í vissum siðvenjum: Þegar allt kemur til alls er tungumálið sjálft siðvenja og þú og ég gætum ekki verið að tala saman án þess. Fylgi maður siðvenjunum, og hafi einhvern frumleika til að bera, endar hann með því að vera óhefðbundinn hvort eð er – en án þess að leggja sig fram um það. Þetta snýst um að fara meðalveg – en Sartre kýs heldur að leggja áherslu á öfgarnar. Og sé orðræða hans skoðuð sést að tortímingarmöguleikar þessa frelsis sem hann mælir með sækja að henni, í trássi við hann sjálfan. Þannig segir hann okkur að mann sundli við tilhugsunina um þetta algera frelsi: Það er eins og að standa á hengiflugi sem ég get hvenær sem er fleygt mér fram af út í loftið. Ekkert aftrar mér. Hér er ímynd frelsisins ímynd sjálfstortímingar.

Magee En það er þó rétt hjá Sartre að ýkja þá staðreynd að veruleiki vals og frelsis sem við höfum í raun og veru í lífinu er langtum meiri en við sjálf viljum horfast í augu við lengst af, er það ekki?

Barrett Ýkjurnar eru ágætar. Spurningin er hvort hann ýkir ekki um of eina hliðina á málinu í heild. Og hér tel ég að skilningur Heideggers sé langtum dýpri en skilningur Sartres. Eigi maður að finna frelsi sitt einhvers staðar verður það að lokum að vera innan hins venjulega daglega veruleika lífsins. Eftir hið glæsilega og tilkomumikla frelsisstökk sem maður tekur einn (og ég held annars að það sé rangt að þrengja frelsisvandann í spurninguna um hina einstöku athöfn) verður hann að koma til jarðar í hversdagsheiminum aftur. Þú skellir þér með flugvél til Tahiti til að byrja nýtt líf – og þú berð sama gamla sjálfið með þér. Einstaklingurinn sem æðir út í eitthvað að vanhugsuðu máli er kannski að þjóta í ranga átt, ranga fyrir þann einstakling sem hann er. Í því tilfelli verður hann áfram, þrátt fyrir allt sýndarfrelsið, jafn blindur og þegar hann lagði af stað – og þess vegna jafn ófrjáls.

Grundvallarfrelsið, að dómi Heideggers, er frelsi okkar til að vera opin fyrir sannleikanum og kemur athafnafrelsið á eftir því. Hver er tilgangur athafnar okkar ef við sjálf erum ekki upplýst? Að vera opin fyrir sannleikanum er ekki auðvelt mál, eins og allir sálkönnuðir geta sagt manni. Sálkönnunarsjúklingurinn getur ekki séð sannleikann í aðstæðum sínum af því að hann sjálfur setur hindranir fyrir sýn sína á þær. Okkur er öllum trúandi til að sýna yfirþyrmandi þvermóðsku í því að afskræma þær mannlegu aðstæður sem við stöndum andspænis daglega. Það er erfitt að stíga skref til baka og láta vera, láta hluti sjást í réttu ljósi. Við verðum að gefa upp á bátinn, alltént um sinn, hina hamslausu frekju okkar, með allri þeirri afskræmingu sem af henni leiðir. Öll seinni skrif Heideggers eru í raun langvarandi árás á viljann til valds sem sýkir vestræna siðmenningu jafnvel þar sem um persónuleg tengsl er að ræða.

Magee Kjarni málsins er þó sá að maður getur aðeins í raun og veru skilið veruleikann, eða náttúruna, ef hann í einhverjum skilningi gefur sig henni á vald.

Barrett Já, og mundu að náttúran felur einnig í sér okkar mannlegu náttúru. Við verðum að hætta að reyna að drottna yfir ekki aðeins efnisheiminum heldur einnig fólki, og ekki aðeins öðru fólki heldur okkur sjálfum: Við verðum að hætta að reyna að drottna yfir persónulegu lífi okkar. Eins og sálkönnunin sýnir getur fólk verið í stríði við sjálft sig, meðvitað gegn ómeðvituðu. Það kann að vera að við komumst á ákveðið stig þar sem við verðum að hætta að reyna að kúga til hlýðni þann hluta náttúrunnar sem er við sjálf, stig þar sem við verðum að gefa okkur henni á vald. Hið eina sem Heidegger hefur að bjóða er viss tegund hugsunar sem er (segir hann) í ætt við skáldskap að því leyti að hún íhugar veruna frekar en hluti sem hún getur ráðskast með. Þetta kann ef til vill að opna okkur fyrir einhverjum víddum í tilverunni sem eru ekki tæknilegar.

Magee En ef við viljum halda áfram að lifa í heimi sem hefur brýr og sjúkrahús og heilauppskurði þá verðum við að lifa í heimi sem er á háu tæknistigi, og þess vegna munum við verða að hugsa tæknilega, samhliða annars konar hugsun.

Barrett Hárrétt. En þetta er einmitt kjarni málsins hjá Heidegger. Fólk sem er ‘á móti tækninni’ er algerlega óekta. Það hefur ekki ígrundaða og skynsamlega söguskoðun vegna þess að tæknin er hluti af örlögum okkar. Við getum ekki lifað án hennar. Hún er vera okkar í vissum skilningi: Það sem við erum sem nútíma mannverur er að hluta það sem við erum með atbeina tækni. Svo það er einfaldlega ekki hægt að hafna henni. Allar slíkar skoðanir bera í rauninni ekki vott um neina djúpa hugsun. Samt sem áður veldur tæknin vandamálum. Ef við, til að mynda, sprengjum okkur ekki í loft upp þá verður tæknin sem við höfum nú úrelt og agnarsmá að hundrað árum liðnum – alveg eins og það er mikið af nútíma tækni sem nítjándu aldar mótmæli gegn sýnast nú úrelt. En það þýðir gerbreyting á lífi okkar sem við erum ekki undirbúin hvað hugsun okkar varðar. Hugleiðum spurninguna um erfðastjórnun, erfðatækni: Erum við tilbúin að segja hvers konar arfgerðir við viljum hanna? Sjáðu til, við öflum okkur kannski tækjanna til þess arna án þess að hafa öðlast mannlega visku til að nota þau okkur til endanlegs góðs.

Magee En ég sé ekki hvernig Heidegger kemur inn í þetta. Hvernig ætlar hann hjálpa okkur að framkvæma þess konar val?

Barrett Með því að vekja okkur til vitundar um þá staðreynd að samhliða tæknilegum hugsunarhætti okkar verðum við að tileinka okkur annars konar hugsun sem er gerólík. Ég fer í gönguferðir í skóginum í grennd við staðinn þar sem ég á heima, og fari ég í gönguferð í þessum skógi síðdegis er ég að hugsa allan tímann. En spyrji einhver þegar ég kem aftur: „Hvaða vandamál leystirðu?“ yrði ég að svara: „Ég var ekki að hugsa þess konar hugsun. Ég var að velta hinu og þessu fyrir mér, átta mig á sjálfum mér og náttúrunni.“ Ég er miklu heilbrigðari og heilli þegar ég kem til baka eftir þess konar hugleiðingar. En það má ímynda sér að spyrjandinn hugsi með sjálfum sér: „Þetta er mjög furðulegt. Hann segist hafa verið að hugsa, en hann var samt ekki að íhuga neitt vandamál og hann reiknaði ekkert út.“

Magee Ég ver miklum tíma niðursokkinn í þess konar sjálfsáttun svo það þarf ekki að sannfæra mig um gildi hennar. Samt sem áður er það í sjálfu sér ekki nóg. Þrátt fyrir allt sem þú hefur sagt sé ég það samt sem takmörkun að það vantar jákvæða kenningu hjá Heidegger, en þó takmörkun heimspekinnar sem slíkrar, viðurkenni ég. Á aukinn skilningur á aðstæðum okkar sem við öðlumst með því að kynna okkur heimspeki hans að vera óvirkur einvörðungu? Eigum við alls ekki á neinn hátt að hegða okkur öðruvísi eða lifa öðruvísi? Ef hann ætti eftir að halda áfram – eins og þeir guðfræðingar sem hann hefur haft áhrif á gera og eins og hinn vestræni maður var vanur að gera samkvæmt hefð – og segja að endanleg skýring á heiminum sé að hann hafi verið skapaður af Guði, að þessi Guð hefði ákveðnar fyrirætlanir með því að skapa heiminn og okkur, að réttur lífsmáti fyrir okkur sé að lifa í samræmi við þessar fyrirætlanir, og að Guð hafi gert ráðstafanir til að láta okkur vita hverjar þessar fyrirætlanir eru – ef Heidegger héldi áfram og segði allt þetta þá væri það eitt. En hann gerir það ekki. Hann skilur okkur enn eftir án leiðsagnar um hvernig halda skuli áfram. Hin trúarlega skoðun á heiminum gaf hinum vestræna manni bæði alheimslega skýringu og gildakerfi og þar af leiðandi markmið. Fyrir marga hefur missir trúar á Guð tekið allt þetta burt. Mörgum okkar finnst nú að við lifum í heimi án merkingar, án tilgangs, án gildis. Ég get vel ímyndað mér að einhver horfi til tilvistarspekinnar til að fá einhvern skilning á þessum hlutum. En mér virðist Heidegger ekki láta hann í té.

Barrett Nei, hann útvegar ekki það sem þú biður um. En það er ekki lítið sem þú biður um og ég velti því fyrir mér hvort heimspeki, nokkur heimspeki, geti látið í té svörin sem þú leitar. Um nokkurt skeið hefur heimspekin spurt hvort hún hafi nokkra ‘jákvæða kenningu’ – í merkingunni samhangandi kerfi staðhæfinga – upp á að bjóða. Á það er lögð áhersla aftur og aftur, og það kemur frá ýmsum stefnum í heimspeki, að heimspeki sé aðallega útskýringastarf. Minnumst hinnar afar einföldu en yfirþyrmandi setningar Wittgensteins: „Heimspekin skilur við heiminn eins og hann er.“ Hún færir okkur enga nýja vitneskju eða kenningu um heiminn. Allt þetta er arfleifðin frá Kant: Að frumspekin samanstandi einungis af stýrihugmyndum sem hafi ekkert hlutlægt inntak. Við getum áreiðanlega ekki vænst þess að heimspekin láti í té nokkuð jafn mikilvægt fyrir þorra manna og trúin var einu sinni.

Nú, Heidegger er uppi á sama tímabili í sögunni og hinir heimspekingarnir og honum eru vel ljósar takmarkanirnar sem það setur. Heimspekin á þessu tímabili kann að verða að takast á hendur hógværara hlutverk. Hjá Heidegger er þessi fallega setning einhvers staðar: „Heimspekin verður að læra að lækka flugið enn einu sinni og horfast í augu við vanmátt sinn.“ Til hvers að flýta sér að setja saman eitthvert nýtt heimspekikerfi áður en við höfum lært að lifa með spurningunum sjálfum? Við förum bara frá einni sýndarlausninni til annarrar – kerfum sem eru allsráðandi í áratug og er síðan horfið frá. Á heimspekiferli mínum, frá námsárunum til þessa dags, hef ég komist í kynni við sex ólíkar almennt viðteknar rétttrúnaðarkreddur. Og ég sé nú þegar að sú síðasta er á leið út. Hvað trúarbrögðin varðar verðum við kannski að byrja þar einnig á byrjuninni. Heidegger mundi krefjast þess að heimspekingurinn legði mat á tíðarandann og gerði sér grein fyrir því sérstaka myrkri sem grúfir yfir okkar tímaskeiði. Ég held það hafi verið Matthew Arnold sem sagði, og það mjög spámannlega, að við værum milli tveggja heima, annars sem er dauður og hins sem er ófær um að fæðast. Þetta er líka hugsun Heideggers, en skáldið sem hann vitnar í er Hölderlin: Við erum í dimmunni milli guðanna sem eru horfnir og guðsins sem enn er ókominn. Heidegger sjálfur ólst upp sem kaþólikki og var í kaþólskum prestaskóla að læra til prests þegar hann las fyrst Gagnrýni hreinnar skynsemi eftir Kant og sannfærðist af rökum Kants um að sannanirnar fyrir tilvist Guðs stæðust ekki. Hann færði sig í háskólann og nam náttúruvísindi um nokkurt skeið, síðan heimspeki. Hann er, eftir allt saman, án sérstakrar guðstrúar. Hann hefur talað um sig sem ‘guðlausan’ – eins og hann meinti þetta sem persónuleg örlög sem hann hefði orðið fyrir. En í ritgerð sem er skrifuð seint hefur hann sagt: „En samt er guðleysi mitt kannski nær Guði en heimspekileg guðstrú.“ Hann varðveitir þannig frá Kant þá sannfæringu að leiðin til Guðs sé ekki gegnum röksemdafærslur eða sannanir. Vera-okkar-til-Guðs hlýtur að vera eitthvað afar ólíkt vitsmunalegri sannfæringu eingöngu. Hann er hvorki guðleysingi né guðstrúarmaður heldur hugsuður sem undirbýr leiðina fyrir nýjan skilning á því hvað það merkir að vera trúaður.

Magee Ég er ekki trúaður í venjulegum skilningi en mér virðist grundvallarvandamálin enn vera til staðar eftir að við höfum pælt gegnum Heidegger. Hann varpar heilmiklu ljósi á allt sem við höfum verið að tala um en hann skilur samt við okkur frammi fyrir þeirri óumflýjanlegu staðreynd að við munum deyja, sem svo aftur veldur hjá okkur ákafri tilfinningalegri þörf til að finna einhverja merkingu í þessu lífi okkar og hann hefur samt ekki gefið okkur minnstu vísbendingu um hver hún kynni að vera eða jafnvel gæti verið. Það er þörf fyrir næsta skref. Hvert höldum við héðan . . . ? Mér virðist heimspeki Heideggers ekki vera möguleg endastöð. Hún er næstum því forleikur að annars konar heimspeki frekar en hún sé sjálf heimspeki.

Barrett Hún er undirbúningur undir heimspeki en ekki í þeim skilningi sem handbók í rökfræði kynni að vera talin slíkur undirbúningur. Og sú endanlegu heimspeki sem hugsun hans ryður brautina fyrir, segir Heidegger okkur, kynni að vera svo ólík því sem við höfum nú að hún yrði kannski alls ekki kölluð ‘heimspeki’. Hún kynni að vera jafn ólík þeirri heimspeki sem við höfum nú og grísk heimspeki var ólík þeirri tegund vitundar sem var á undan henni. Er Heidegger hér hinn óraunsæi draumóramaður? Ja, hugleiðum þennan einfalda en tilkomumikla sögulega bakgrunn: Heimspekin gat af sér vísindin; nú eru raunvísindin og tæknin komin og hafa gerbreytt öllu lífi mannkynsins á þessum hnetti. Hefur heimspekin nokkra nýja sýn sem svarar til þessa einstæða stigs sögulegrar tilvistar sem mannkynið hefur komist á? Kannski þetta sé ástæðan fyrir því að svo mikið af akademískri heimspeki okkar fangar ekki athygli fólks utan greinarinnar sjálfrar. Að svo miklu leyti sem við hugsum heimspekilega innan gamla hugtakarammans getum við aðeins skreytt hann með nýjum tæknilegum smáatriðum sem verða að lokum léttvæg. Viðleitnin til að finna nýja leið fyrir hugsun hlýtur óhjákvæmilega að vera tilraunakennd og hikandi. Eins og ég sagði rétt áðan talar Heidegger gjarnan um sig sem hugsuð á leiðinni. Kannski virðist hann fara of hægt á stundum, en mér líkar frekar vel við þennan hægagang Heideggers í seinni verkum hans. Sjálfur getur hann ekki skýrt frá því hver áfangastaður hans er. Til þess að geta það hefði hann nú þegar orðið að vera kominn, hingað til er hann bara á leiðinni. Eflaust hlýtur þetta ástand fálmandi leitar og biðar að reyna á þolinmæði þeirra sem mundu fagna stóru kerfi eða vildu æða út í trúarleg sinnaskipti. En hvað annað eigum við að gera?

Magee Í sumri nútíma list er sá skilningur á manninum að hann lifi í heimi án Guðs skelfilegur – til að mynda í leikritum Samuels Becketts. Beðið eftir Godot lætur í ljós á næstum því óbærilegan hátt þá einangrunartilfinningu, sem og tilfinningu um merkingarleysi, sem sá einstaklingur skynjar sem upplifir sig í heimi án tilgangs. Mér virðist vanta í verk Heideggers þá skelfingu sem gerir það að horfa á Beðið eftir Godot næstum því sársaukafullt.

Barrett Það er athyglisvert að þú skyldir nefna Beðið eftir Godot. Ég hef heyrt að Heidegger hafi séð leikritið flutt í Þýskalandi og sagt að lokinni sýningu: „Þessi maður hlýtur að hafa lesið Heidegger.“ Vel á minnst, áherslan í titlinum er á ‘beðið’ – og Heidegger segir að öll hugsun sín sé einhvers konar bið. En að halda samt fast við þessa bið felur í sér vissa yfirlýsingu: Það er eins konar könnun, eins konar leit. Heidegger fór ekki inn í fyrirheitna landið. En hann kynni að gera öðrum kleift að fara þangað.

Magee Þegar öllu er á botninn hvolft virðist mér tilvistarstefnan vera for-trúarleg. Það er að segja, fari maður gegnum þessa heimspeki skilur hún að lokum við hann á þröskuldi trúarinnar – eða kannski ætti ég frekar að segja, hún skilur við mann frammi fyrir endanlegu vali sem felur í sér trú. Að lokum, annaðhvort merkir sú staðreynd eitthvað að það sem er til skuli vera til eða að öðrum kosti er allt merkingarlaust.

Barrett Já, að svo miklu leyti sem heimspeki fæst við grundvallarviðhorf bendir hún okkur til hins trúarlega sviðs tilverunnar, hvernig svo sem við kunnum að bregðast við á því sviði.
                   
Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísun

1. William Barrett (1913–1992). – Auk bókarinnar sem Magee nefnir hefur Barrett m.a. skrifað The Illusion of Technique: A Search for Meaning in a Technological Civilization (1979) og Death of the Soul: From Descartes to the Computer (1986). Irrational Man kom fyrst út 1958 og var endurútgefin 1977; hafði reyndar verið prentuð í kiljuformi áður. Talsvert ólíka umfjöllun um Heidegger er að finna í samræðu sem Magee átti við bandaríska heimspekinginn Hubert Dreyfus í BBC 1987 undir heitinu „Husserl, Heidegger og nútíma tilvistarstefna“. Þýðingu á þeirri samræðu má lesa í bókinni Miklir heimspekingar sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi 2002. – Þýð.

Heimspeki í félagslegu og sögulegu samhengi

Bryan Magee og Ernest Gellner ræða saman1

INNGANGUR

Í þessari samræðu ætlum við að draga saman í eina heilsteypta mynd hinar ýmsu hræringar og stefnur í samtíma heimspeki. Þetta þýðir að við skoðum nútíma vestræna heimspeki í samhengi nútíma vestræns samfélags. Það þýðir líka að við skoðum hana í samhengi sögu hennar til að sjá nákvæmlega hvers vegna og hvernig meginviðfangsefnin þróuðust eins og raun varð á – og þar af leiðandi hver megineinkenni núverandi stöðu okkar eru.
     Þegar heimspekingar nota heitið „nútíma heimspeki“ eiga þeir við heimspeki eftir daga Descartes sem starfaði á fyrri hluta sautjándu aldar. Þróun vestrænnar heimspeki síðan hefur verið ein óslitin hefð, þó margslungin sé – sem þýðir að heimspekina á okkar dögum þarf að skoða með þann bakgrunn í huga. Í nokkur hundruð ár fyrir daga Descartes hafði ástandið verið gerólíkt. Þá hafði aðeins verið ein heimsskoðun, byggð á kristinni trú og haldið uppi af pólitískum yfirvöldum. Allar opinberar efasemdir um hana voru bannaðar og venjulega refsað með lífláti. Í samanburði við okkar tíma er freistandi að segja að þekking fólks hafi næstum því verið kyrrstæð eða alltént mjög lengi að breytast. Í öllu falli fylgdi þekkingunni mikil vissa, enda byggðist hún á engu minna kennivaldi en Guði eða kirkju hans á jörðinni. Það er ekki fyrr en með endurreisninni og siðaskiptunum sem hin nýju vísindi verða til og vaxa með tilkomumiklum hætti, en þetta veldur því meðal annars að hugmyndir taka nýja stefnu. Grafið er undan því sem áður voru talin bjargföst sannindi og með þeim riða til falls hin gömlu kennivöld – og þetta vekur í nýrri og alvarlegri mynd spurninguna: Hvernig er hægt að staðfesta fullyrðingar okkar um þekkingu? Það er vandamál sem enn er óleyst. Lengi töldu menn að vísindunum mundi fylgja alger vissa, en nú vitum við að svo mun ekki verða.
     Til að ræða samtíma heimspeki með þennan sögulega og félagslega bakgrunn í huga hef ég boðið Ernest Gellner sem er bæði heimspekingur og félagsfræðingur að atvinnu – opinber titill hans er „prófessor í heimspeki með sérstöku tilliti til félagsfræði“ við London School of Economics.

UMRÆÐA

Magee Mér virðist það liggja í augum uppi að samtíma heimspeki verður aðeins rétt skilin með einhverja slíka sögulega og félagslega heildarsýn í huga sem ég var nú að reifa mjög lauslega, en samt virðast of margir starfsbræðra þinna í hópi atvinnuheimspekinga hálfblindir á þessa sögulegu og félagslegu vídd. Ertu sammála?

Gellner Ég er mjög sammála báðum aðalatriðunum hjá þér. Ég kann að hafa efasemdir um einhverjar af hliðarathugasemdum þínum, en tvö aðalatriðin hjá þér sýnast mér öldungis rétt. Í fyrsta lagi, það sem þú skilgreindir sem nútíma heimspeki er í grundvallaratriðum, þó ekki ætíð á meðvitaðan hátt, einskonar skýring á þeirri félagslegu og vitsmunalegu breytingu sem hefur átt sér stað síðan á sextándu og sautjándu öld og verður einungis rétt skilin í því ljósi. Í öðru lagi er ljóst að fólk gerir sér ekki grein fyrir þessu.

Magee Maður þarf aðeins að skoða nútíma heimspeki á þennan hátt til að sjá alveg skýrt hvernig á því stendur að aðalvandamálið allt frá dögum Descartes hefur verið þekkingarfræðilegt. Hvað vitum við? Já, vitum við í raun og veru nokkuð – í þeim skilningi að vera algerlega viss? Ef við vitum, hvernig getum við vitað að við vitum?

Gellner Yrði maður að skilgreina nútíma heimspeki út frá aðeins einu einkenni þá er það þetta: hin miðlæga staða þekkingar. Fyrir þennan tíma er þekking eitt fyrirbæri meðal annarra, mikilvægt, en það eru til önnur vandamál; þekking er því eitthvað í heiminum. Það sem einkennir hugsun nútímans er að heimurinn verður eitthvað í þekkingunni. Þarna er búið að snúa hlutunum við.

Magee Ertu mér líka sammála um að þetta stafar, þótt óbeint sé, af niðurbroti hefðgróins kenni­valds í vitsmunalegum efnum? Áður höfðu menn verið vissir um hvað þeir vissu af því að Guð hafði sagt að það væri þannig eða af því að kirkja hans hafði sagt það. En þegar búið var að grafa undan þessum kennivöldum hvernig áttu menn að vita hvað væri satt?

Gellner Já, ég er sammála; en það sem skipti virkilega máli hvað varðar undanfarandi skipulag var ekki hið trúarlega einkenni þess heldur stöðugleiki. Samfélagið gat treyst því að hugmyndirnar hefðu fast land undir fótum. Jæja, stöðugleikinn er horfinn. Nú höfum við það sem er sennilega eina samfélagið sem nokkurn tíma hefur lifað við látlausan vöxt þekkingar. Fólk er upptekið af hagvexti, en hagvöxtur er nátengdur þeirri staðreynd að þekkingin vex. Þetta getur svo aftur verið mjög ónotalegt á ýmsa lund.

Magee Hvernig þá helst?

Gellner Til samanburðar við velgengnisöguna, söguna um góðan árangur, þar sem eru í grófum dráttum náttúruvísindin, er saga um lélegan árangur á öðrum sviðum. Þar sem fólk var áður öruggt með sig er því nú öfugt farið. Miðað við það sem áður var er það eins og samdráttur þekkingar.

Magee Þegar þú talar um samdrátt þekkingar skilst mér að þú sért að vísa til þess að fólk hefur glatað vissu í siðferðis- og trúarskoðunum sínum, er það ekki?

Gellner Fólk er ekki lengur visst á sama hátt og áður um siðferðilegar, félagslegar og margar aðrar tegundir skoðana, og alger andstæða þessa við glæsilegan árangur náttúruvísindanna undirstrikar þetta. Náttúruvísindin eru ekki aðeins óstöðug, þau eru óstöðug með góðum árangri. Það er þokkalegt samkomulag um breytingar innan þeirra og yfirleitt er hið næsta betra en hið síðasta. Enginn veit alveg hvernig þetta virkar, en yfirleitt virkar það og virkar til hins betra. Á öðrum sviðum er þessu alls ekki þannig farið.

Magee Fyrir daga Descartes vissi fólk ekki mikið en í samanburði við viðhorf nú á dögum var það visst um það sem það taldi sig vita, þar sem hins vegar eftir daga Descartes vissi fólk miklu meira en var miklu óvissara um það.

Gellner Kort þekkingarinnar brenglast afskaplega. Sum svið eru augljóslega að vaxa, önnur eru alls ekki að vaxa eða þau dragast saman. Tengt þessu er þriðja einkenni: það er ekki hægt að nota sviðin sem eru að þenjast út til að styðja hin. Ástæðan er ekki einungis sú að vitað er að þau eru óstöðug þar sem þau eru á hreyfingu. Árangursrík þekking verður sérhæfð. Hún er sett fram á sérhæfðu máli, ekki lengur á því máli sem við notum venjulega til að tala um mannleg málefni. Þetta veldur því að það er ekki tiltækt sem forsenda fyrir sýn manns á heiminn, eða fyrir samfélagslíf manns.

Magee Lengi eftir að búið var að grafa undan trúnni á hinar stöðugu guðshyggjuforsendur voru menn að leita að einhverju í staðinn. Það er að segja, það hafði svo lengi verið eitt frumhugtak sem allt átti endanlega að skýrast út frá, nefnilega Guð, að menn héldu lengi áfram að leita að einhverju öðru slíku einstöku frumhugtaki sem allt átti endanlega að útskýrast með. Í fyrstu töldu þeir sig hafa fundið það í vísindunum. Síðan, með ný-kantistum, verður sagan frumhugtakið sem á að útskýra allt. Svo fáum við marxismann sem reynir að fella sögu og vísindi inn í einn ramma endanlegrar skýringar. Það er ekki fyrr en við komum að greinilega nútímalegri hugsun – að Nietzsche, til dæmis – að menn fara að segja: „Kannski það sé ekkert eitt frumhugtak til sem allt á endanlega að útskýra með. Kannski veruleikinn sé, allt til enda, fjölræður. Kannski hann samanstandi bara af mörgum ólíkum, aðskildum hlutum, og eina leiðin til að skilja hann sé að rannsaka þá hvern fyrir sig. Sé svo verður einhver ein, alltumlykjandi skýringarkenning blekking, draumur, og mun koma í veg fyrir að við sjáum veruleikann eins og hann er.“ Bertrand Russell, svo bara eitt dæmi sé tekið, hélt þessu viðhorfi mjög fast fram. Það gegnsýrir mjög alla nútíma raunhyggju.

Gellner Ég samþykki þessa mynd. En ég held að ég mundi lýsa henni dálítið öðruvísi en þú. Það eru ekki svo mjög vísindin sem slík sem koma í staðinn fyrir fyrri vissu, heldur er það aðferðin sem notuð er til að afla vísindalegrar þekkingar. Sé sýn manns á heiminn ekki lengur stöðug þá getur alltént aðferðin sem hann uppgötvar eitthvað um heiminn með verið stöðug. Þetta verður annað af tveimur meginþemum nútíma heimspeki: áherslan á að þekkingarfræði láti í té prófstein á hvað sé góð þekking og hvað ekki og þar með á hvernig heimurinn sé. Sé heimurinn ekki stöðugur geta alltént tækin sem við fræðumst um hann með verið stöðug. Þannig fær heimurinn óbeint eins konar stöðugleika. Þetta leiðir til óhóflegs áhuga á þessum tækjum. Hitt meginþema nútíma heimspeki – marxisminn væri til að mynda dæmi – er leit að einhverri nýrri tegund frumspeki sem er ekki greinargerð um yfirskilvitlegan veruleika heldur frekar það sem kalla mætti mannlega-félagslega frumspeki, nánar tiltekið lýsingu á hinum almennu einkennum hinna mannlegu eða félags-sögulegu aðstæðna. Þessir tveir þræðir ganga í gegnum mest af því sem hefur gerst á undanförnum þrjú hundruð árum, og samtvinnun þeirra er í raun saga nútíma hugsunar.

Magee Þú nefndir marxismann – hversu árangursríkur heldurðu að hann hafi verið í hugmynda­legu tilliti?

Gellner Ja, í grundvallaratriðum hefur hann ekki verið það. Hann fær góða einkunn fyrir að reyna að skoða hið félagslega samhengi vandræða okkar og fyrir að spyrja sumra hinna réttu spurninga, en í grunninn skjátlast honum.

Magee Geturðu skýrt með einhverjum dæmum á hvern hátt spurningar hans eru réttar en svörin röng?

Gellner Ja, þetta er mikið mál. Það er rétt að spyrja spurninga sem grafast fyrir um forsendur þess að nútíminn kemur fram. En hvað varðar röngu atriðin sem mér virðast skipta sköpum þá er fyrst að nefna væntingu um fullkomið samfélag. Sú hugmynd að einhvers konar heildarfullnæging sé til: þegar búið sé að fjarlægja vissa galla og ókosti núverandi samfélagsskipunar þá verði til kerfi sem stillir sig sjálfkrafa þar sem vandamál koma ekki lengur upp. Þar til þessari fullkomnun hefur verið náð verða hlutir að skoðast sem rangir í grundvallaratriðum. Þessi almenna staðleysutrú eða endurlausnaratrú er oft rakin aftur til trúarlegra uppsprettna eða til hinnar algildu hughyggju þýskrar rómantíkur sem ríkti rétt á undan Karli Marx og hafði áhrif á hann. Nánar tiltekið eru ranghugmyndir um eðli stjórnmála sem skipta alveg sköpum. Til að mynda sú kenning að stjórnmál, í merkingunni þvingun, að stjórna fólki, séu einfaldlega aukaafleiðing vissrar tegundar stéttasamsetningar – og að jafnskjótt og þessi stéttasamsetning hverfi verði stjórnmál ekki lengur nauðsynleg – sú kenning gerir hverjum þeim sem trúir henni ókleift að spyrja réttrar spurningar, sem er: „Þvert á móti, að því gefnu að stjórnun á fólki af fólki og stjórnun ríkisins á hagkerfinu sé alltaf til staðar hjá okkur, hvers konar stjórnskipulag eigum við að hafa sem bæði útvegar hin efnahagslegu gæði og kemur í veg fyrir harðstjórn?“

Magee Mig langar til að biðja þig að segja eitthvað um aðra heimspeki sem við erum nú í aðstöðu til að sjá í samhengi, nefnilega afstæðishyggju. Auðvelt er að sjá, í ljósi þess sem ég var að segja hér á undan, hvernig fólk sem veit ekki lengur hvar það á að leita staðfestingar á skoðunum sínum getur endað með því að segja: „Jæja, kannski er ekki hægt að staðfesta skoðanir – þær eru allar jafn gildar eða jafn ógildar.“ Og þetta hefur reyndar gerst hjá mörgum nú á tímum – það hafa verið tímar þegar afstæðishyggja var næstum því í tísku. Hver er skoðun þín á stöðu hennar í nútíma hugsun?

Gellner Afstæðishyggja, sú skoðun að sérhvert samfélag geti lifað samkvæmt eigin viðmiðum og að engin þörf sé á að leita sameiginlegs mælikvarða, er einfaldlega alls ekki tiltækur kostur. Sem uppskrift til að ráða við niðurbrot kennivalds gæti hún einungis virkað ef til væri eitthvað í líkingu við eyjasamfélög, hvert með sína eigin sýn, þar sem maður gæti búið. Það hafa verið aðstæður í veraldarsögunni sem uppfylltu þessi skilyrði að einhverju leyti, þótt þær uppfylltu þau ekki fullkomlega. Til er fræg saga um manninn sem spurði véfréttina í Delfí hvaða siðum hann ætti að fylgja. Svarið var: „Í hverri borg fylgdu siðum þeirrar borgar.“ Þetta var allt sjálfsagt í Grikklandi til forna. Áður en Alexander kom til sögunnar voru til afmörkuð borgríki og maður sem var sagt að fylgja siðum borgarinnar sem hann bjó í gat gert það. En séu engar afmarkaðar borgir þá veit maður þegar honum er sagt að gera í Róm eins og Rómverjar gera einfaldlega ekki hvað verið er að segja honum að gera. Hinar félagslegu einingar eru svo fljótandi, óstöðugar, samtvinnaðar og skarast.

Magee Afstæðishyggjumaður gæti vel sagt við þig: „Ætlirðu að afneita afstæðishyggju minni verðurðu að sýna mér einhverja leið til að staðfesta yfirburði einnar skoðunar fram yfir aðrar.“

Gellner Meginhefð nútíma heimspeki hefur ekki brugðist að þessu leyti. Þekkingarfræðin sem leitast við að kerfisbinda kennimörk gildrar þekkingar, þótt hún sé ekki alger sigurganga, hefur þegar á allt er litið verið nokkuð farsæl. Það er furðulega víðtækt samkomulag um siðferði þekkingar: á sviði þekkingaröflunar er mjög víðtækt samkomulag um reglurnar og þær eru jafnvel felldar í kerfi. Þetta hefur raunar afleiðingu sem við höfum ekki nefnt en mér virðist ákaflega mikilvæg, og þetta mætti kalla „afmennskun sem framfarir í þekkingu kosta.“ Ein hliðin á þekkingarferlinu er heimfærsla atburða og fyrirbæra, þar með talið mannlegt atferli, undir alhæfingar sem settar eru fram á hlutlausu máli, aðgengilegu öðrum. Í vissum skilningi sviptir þetta fyrirbærin sem lýst er einstaklingseinkennum sínum. Ef persónuleg hegðun þín, og persónuleg viðhorf þín, eru útskýrð á þennan hátt gerir það að engu, ef svo má segja, sérstöðu þína sem einstaklings. Hugsanlega eyðileggur það líka þá blekkingu þína að þú sért frjáls (ef það er blekking). Þessi afmennskunaráhrif – það sem félagsfræðingar kalla stundum, undir áhrifum frá Max Weber, aftöfrun heimsins – þessi heimfærsla mannlegra málefna undir ómannleg, óhlutbundin frumhugtök kemur afar ónotalega við mann.
     Ef ég ætti að gefa nafn hinni meginframvindunni í nútíma heimspeki yrði það ‘mannverndarhreyfingin’ – baráttan fyrir því að halda hinni mannlegu ímynd sem vörn gegn því að hún sé útskýrð af vísindunum. Þetta er rómantík! Fyrsta meginþemað er vitanlega efling þekkingarfræðinnar sem þessi vísindi eru sjálf hluti af. Þú nefndir marxismann. Athyglisvert við marxismann er að hann reynir bæði að sleppa og halda. Annars vegar höfðar hann til þess sem í niðrandi merkingu er kallað ‘vísindahyggja’ með sinni svokölluðu vísindalegu sögukenningu, en á hinn bóginn er rómantísk hlið á marxismanum sem segir okkur að við fáum mennsku okkar til baka að fullu: við verðum ósérhæfð, frjáls og óþvinguð. Mannleg þjáning er útskýrð í sögu sem er áhrifamikil, hefur farsælan endi og viðhefur samt líka einhvern veginn sama tungutak og vísindin, eða alltént vísindin á dögum Marx. Marx gerir hvort tveggja að sleppa og halda. Sumir aðrir heimspekingar gera það auðvitað líka.

Magee Það sem þú segir er mjög mikilvægt. Sjáum til hvort ég get endursagt það í aðalatriðum á einfaldan hátt. Þekking okkar er orðin svo víðtæk, svo margslungin, svo tæknileg og svo sérhæfð að það verður að setja hana fram á máli sem í minnkandi mæli tengist máli daglegs lífs og samskiptum manna í milli. Þetta gerir þekkinguna aftur æ fjarlægari okkur og síður færa um að grundvalla skoðun á heiminum sem við getum í raun og veru lifað með, í hversdagslegum skilningi. Útkoman úr þessu er sú að við förum mjög sterklega að finna til þess að það er eitthvað við afleiðingarnar af vexti okkar eigin þekkingar sem sviptir okkur mennskunni. Og niðurstaðan af þessu er – samhliða vexti þekkingarinnar og í beinum tengslum við hann – vaxandi tilfinning fyrir að þörf sé á einhverju sem kalla mætti heimspeki mannsins, einhvers konar fræðilegri hugmynd um okkur sjálf sem hjálpar okkur til að varðveita vitund okkar um eigin mennsku og tengja okkur við félagslegar og þekkingarlegar aðstæður okkar. Þannig fáum við meginstraumana tvo í þróun nútíma hugsunar.
     Eftir að hafa aðgreint þá á þennan hátt langar mig samt til að hverfa aftur að umræðu okkar um þekkingarfræðina áður en við förum að fjalla um samfélagsheimspeki vegna þess að það eru enn tvær eða þrjár áhugaverðar og mikilvægar hliðar á henni sem við höfum ekki vikið að. Til að mynda höfum við ekki í raun og veru farið út í óstöðugleika nútíma þekkingar, þá staðreynd að hún vex svo hratt að engar mögulegar forsendur sem hægt væri að byggja samhangandi skoðun á heiminum á virðast stöðugar í tvo áratugi samfellt.

Gellner Svona er þetta. Sumar heimspekikenningar um þekkingu reyna að taka þetta einkenni með og halda því fram að það sé ekki vandamál. Á mismunandi vegu fullvissa heimspekingar á borð við Quine og Popper okkur um að við getum lifað við óstöðugleika í þekkingu, og verðum að gera það. Ég held það sé hægt að gera of mikið úr þessu atriði – og þeim hættir til að gera það. Það er vitanlega bæði satt og æskilegt að hið sérstaka inntak vísindakenninga breytist, en hin almennu ef svo má segja formlegu einkenni heimsins sem gera hann viðráðanlegan fyrir vísindin breytast ekki. Þetta eru þau einkenni sem gera að verkum að vísindin eru prófanleg og vísindaleg þekking getur vaxið. Í vissum skilningi eru þau alls ekki einkenni heimsins. Í raun og veru eru þau einkenni hugarástands rannsakandans eða samfélags rannsakenda. Þau komu fram með vísindabyltingunni. Það sem máli skiptir að gera sér ljóst hér er að þessi einkenni hafa ekki alltaf verið til staðar hjá okkur. Og það sem ég er ósammála í heimspekikenningum sem eru aðeins of ánægðar með eilífa breytingu er að þær gera ráð fyrir að rétt hegðun í þekkingarefnum, undir heitinu líffræðileg aðlögun eða einfaldlega happa- og glappaaðferð, hafi reyndar ætíð verið til staðar, ekki einungis í sögu mannsins heldur jafnvel í sögu lífsins. Þetta er sú skoðun að vöxtur þekkingar hafi verið ein samfelld saga frá amöbunni til Einsteins, með sama grunnstefið frá upphafi til enda. Þetta mætti kalla samfellukenninguna. Ég tel að hún sé röng. Það sem skiptir máli um hegðun okkar í þekkingarefnum er ekki hvað hún á sameiginlegt með amöbunni eða hinum myrku miðöldum heldur hvað er sérkennandi fyrir hana. Hinir mikilvægu leyndardómar felast í mismuninum.

Magee Ég held það sé vert að leggja áherslu á að sumar afleiðingar óstöðugleika hafa verið til góðs en ekki til ills. Til að mynda hefur missir trúar á kennivald sameinast hinum hraða vexti þekkingar til að valda jákvæðri efahyggju um næstum því allar gerðir valds sem slíkar, og þetta tengist aftur beint tilkomu frjálslyndra hugmynda – hugmynda um frelsi, umburðarlyndi, jafnrétti og þar fram eftir götunum. Þetta virðist mér hafa ómetanlegt gildi.

Gellner Ég fellst á þetta, já.

Magee Annað atriði sem mig langar til að bera upp við þig er þetta: Fyrir daga Descartes var mikilvægasta viðfangsefni heimspekinnar yfirnáttúrlegt: samband mannsins við Guð. Eftir Descartes færist miðdepill athyglinnar að mannlegri starfsemi einvörðungu: vísindum, stjórn­málum, siðferði, hagfræði, sögu, menningu, sálarfræði, félagslegum málefnum af öllu tæi, og það verður gríðarleg þróun í vísindalegum, eða hálf-vísindalegum, rannsóknum á þessum sviðum og einnig í heimspeki þeirra.

Gellner Ég er sammála þessu þó mér virðist að setja megi eitthvað út á hvernig þú setur það fram. Þú talar um heimspeki og vísindi eins og þau væru aðgreind á þessum tíma, en í raun urðu þau ekki skýrt aðgreind fyrr en á átjándu öld. Jafnvel þá þýddi heitið ‘náttúruheimspeki’ eðlisfræði. Prófessorar í eðlisfræði í skoskum háskólum eru enn kallaðir prófessorar í náttúruheimspeki. Aðgreiningin, sem kom nokkuð seint, endurspeglar að nokkru leyti það sem við erum að tala um, það er að segja greinarmuninn á rannsóknarefninu og rannsókninni á þekkingaraðferðum. En ég fellst samt að mestu leyti alveg á aðalatriðið hjá þér.

Magee Ef við förum lengra með það sem þú ert að segja þá er það athyglisvert að sumir allra­bestu núlifandi heimspekinga sjá heimspekina sem framlengingu raunvísindanna. Til dæmis Quine. Og Chomsky, að vissu leyti. Jafnvel mætti segja að Popper gerði það, í vissum mjög sérstökum skilningi.

Gellner Quine, vissulega. Það er svolítið vafasamara með Popper.

Magee Mig langar til að líta á eina eða tvær mikilvægustu stefnurnar í samtíma heimspeki með þennan bakgrunn í huga sem við höfum verið að rissa upp. Við erum þegar búnir að því með marxismann og afstæðishyggjuna. Hvað til að mynda um tilvistarstefnuna? Hvernig sérðu hana falla inn í mynd okkar?

Gellner Ja, hún fellur inn í hana. Tilvistarstefnan er sérkennileg heimspeki að því leyti að hún er, eins og cartesíska hefðin, mjög einstaklingshyggjuleg, en ólíkt henni er hún ekki fyrst og fremst upptekin af þekkingarvandanum. Það er sérkennandi fyrir hana að hún hefur yfirleitt ekki mikinn áhuga á náttúruvísindunum. Hún er aðallega upptekin af hinum mannlegu aðstæðum.

Magee Jæja, með þessu erum við í raun komnir að hinu af þeim tveimur grundvallarþemum nútíma hugsunar sem við aðgreindum rétt áðan. Kannski það sé best að þú útfærir lýsingu þína á tilvistarstefnunni á bakgrunni þeirrar hefðar.

Gellner Nú jæja, hið kaldhæðnislega við tilvistarstefnuna stafar af því að hún er upptekin af hinum mannlegu aðstæðum. Hún gefur í skyn að hún sé lýsing á hinum mannlegu aðstæðum sem slíkum. En kaldhæðnin er að þetta er með sérstökum hætti lýsing á hinum mannlegu aðstæðum í heiminum eftir Descartes, jafnvel heiminum eftir átjándu öld. Hún einbeitir sér að einstaklingnum sem verður að bera ábyrgð á heimsskoðun sinni og siðferðilegri skuldbindingu og getur ekki vísað ábyrgðinni frá sér. En mér virðist það einkennandi fyrir hinar mannlegu aðstæður í flestum samfélögum sem eru samfélög með stöðug skoðanakerfi að kennivald er öruggt með sig, og að nema því aðeins að einstaklingurinn sé í virkri uppreisn geti hann alltaf gripið til þess. Tilvistarstefnan er því í raun lýsing á mjög sérstöku afbrigði af hinum mannlegu aðstæðum þótt hún haldi því fram að hún sé almenn lýsing á þeim.

Magee Engu að síður er hún, eins og þú varst nú að setja hana fram, nákvæm lýsing á okkar aðstæðum.

Gellner Svo langt sem það nær hefur hún áhugaverða hluti að segja um aðstæður okkar. En eitt af því sem er merkilegt við hana er að hún er vinsælust á tímum bráðrar kreppu og lægðar í andlegum efnum – í Þýskalandi eftir heimsstyrjöldina fyrri, í Frakklandi eftir þá síðari. Með tilkomu allsnægta og tiltölulega góðs samkomulags – tímabilið sem kennt er við „endalok hugmynda­fræði“ – dró úr vinsældum hennar. Hún hefur alvarlega annmarka sem háskólagrein: Það er eitthvað undarlegt við að breyta hinum mannlegu aðstæðum í fræðigrein – hinar mannlegu aðstæður eru eitthvað sem maður þekkir án þess að skrifa um þær fræðiritgerðir, og maður þarf ekki að lesa doðranta til þess að kynnast þeim. Þetta er dálítið skoplegt, sérstaklega þar sem tilvistarstefnan á vanda til að vera sett fram á yfirlætisfullu máli – sem er, að ég hygg, hluti af hinum hegelska arfi hennar.
Annað einkenni hennar, áberandi hjá hugsuði eins og Sartre, er að tilvistarstefnan er einskonar fyrirfram sálarfræði. Hún fræðir okkur um hvernig við finnum til og hvernig við hugsum, ekki með því að spyrja okkur eða athuga okkur, heldur með því að álykta það út frá vissum almennum einkennum aðstæðna okkar – þeirri staðreynd að við munum deyja og vitum það, að við verðum að taka siðferðilegar ákvarðanir án þess að hafa tryggingu fyrir þeim, að annað fólk sé hlutir fyrir okkur en við hins vegar hlutir fyrir öðru fólki. Af þessu og þvílíku ályktar hún hvernig við finnum til í raun og veru. Hún segir samt virkilega athyglisverða hluti um þetta. En ein andmælin gegn henni eru að það er reyndar þó nokkuð gagnlegt að komast að því hvernig fólk finnur til í raun og veru án tillits til þess hvað felst í líkani okkar af hinum mannlegu aðstæðum. Og fólk finnur ekki endilega til eins og það ætti að finna til samkvæmt þessari kenningu eða einhverri annarri. Hjá mjög áhugaverðum hugsuði eins og Sartre, sem reynir svo að samræma tilvistarstefnuna og marxismann, blandast fyrirframhyggja tilvistarstefnu hans og hinir áþreifanlegu, reynslubundnu þættir marxisma hans engan veginn auðveldlega.

Magee Í hefð félagsheimspeki, til aðgreiningar frá þekkingarfræði, eru nokkrar aðrar samtíma stefnur í hugsun sem þér virðast sérstaklega áhugaverðar eða efnilegar – nokkrir aðrir hlutar af því sem þú kallaðir hér áðan ‘mannverndarhreyfinguna’?

Gellner Ég held ekki að við getum vænst þess að vernda of mikið af mennsku okkar á of auðveldan hátt. Boðnar eru uppskriftir, næstum því ótakmarkaðar uppskriftir, til að færa sönnur á að við séum í raun og veru eins og við höldum að við séum, að hægt sé að varðveita hvaða sjálfsmynd eða heimsmynd sem menn óska sér, og að okkur þurfi ekki að finnast að okkur sé ógnað. Ég tel að okkur þurfi að finnast að okkur sé ógnað. Það er gjald sem við verðum að greiða. Því meira sem við getum útskýrt heiminn því meira erum við sjálf útskýrð. Það er ekki hægt að hafa annað án hins. Ég er ekki óskaplega hlynntur Félaginu fyrir verndun mennskunnar. Ég tel við ættum að vernda mennskuna, en ekki of mikið, og umfram allt ekki með of litlum tilkostnaði. Fyrirmynd mín á þessu sviði er nokkuð gamaldags heimspekingur – Immanúel Kant, sem var mjög umhugað um að vernda lágmarksmennsku, nefnilega frjálsan vilja, siðferðilega ábyrgð og sjálfstætt hugarstarf, en að öðru leyti féllst hann á að hluti af gjaldinu fyrir framfarir í þekkingu sé að við verðum líka viðföng þekkingar. Hvað þekkingu varðar endum við með því að gera okkur sjálfum það sem við gerum heiminum.

Magee Hvað segirðu um engilsaxnesku hefðina í heimspeki sem við ólumst báðir upp í – og sem við höfum bæði kennt og lært. Hvernig fellur hún inn í myndina?

Gellner Áhrifamesta heimspekin á því tímabili sem við vorum viðriðnir hana, bæði sem nemendur og kennarar, var svokölluð málspeki, sú heimspeki sem á sér aðaluppsprettu í seinni verkum Ludwigs Wittgensteins. Ég er afar gagnrýninn á þessa heimspeki, eins og þú veist. En til að ræða hana verð ég að brjóta regluna sem þú settir mér um að aðgreina þekkingarfræðihefðina frá hefðinni fyrir verndun mennskunnar.

Magee Þér er frjálst að brjóta regluna.

Gellner Wittgenstein endaði með því að klofa yfir aðgreininguna. Hann byrjaði með dálítið óvenjulegt afbrigði innan hefðarinnar í þekkingarfræði, þ.e.a.s. að takast á hendur að afmarka ekki svo mjög hvað hægt væri að vita eins og hvað hægt væri að hugsa og hvað hægt væri að segja: að afmarka merkingu. Þetta var nýbreytni, ákaflega sérkennandi fyrir þessa öld. Það er mjög hentugt ráð. Eins og þegar um er að ræða að takmarka hvað hægt er að vita, ef aðeins er mjög takmarkaður fjöldi hluta sem hægt er að segja eða meina þá sér þetta manni fyrir þægilega endanlegu mengi forsendna. Sé aðeins hægt að setja fram takmarkaðan fjölda hugmynda er þetta einskonar grundvöllur. Það er einskonar staðgengill fyrir gamla stöðugleikann. Nú, þessi hugmynd var í fyrri heimspeki Wittgensteins og hana er líka að finna hjá Bertrand Russell. En Wittgenstein snerist fljótt gegn henni – fór reyndar út í öfgar og fordæmdi hana sem hina dæmigerðu heimspekilegu villu. Hið raunverulega eðli tungumálsins, sagði hann seinna, felst ekki í því að það sé skjól fyrir takmarkaðan fjölda hluta; hið raunverulega eðli tungumálsins felist í þeirri staðreynd að við notum það í óendanlega margvíslegum tilgangi, í óendanlega marg­víslegu félagslegu samhengi, og að þetta sé fullkomlega í lagi. Strax og við gerum okkur grein fyrir þessu hverfur vandamálið. Kórvillan, samkvæmt seinni skoðun hans, er að leita einhvers konar ytri staðfestara – en það hafði hann gert á æskuárum sínum með því að leitast við að afhjúpa leyndardóma táknkerfis.
     Ég tel nú að hann hafi haft algerlega rangt fyrir sér í því að sjá sína eigin fyrri villu sem hina dæmigerðu og almennu heimspekilegu villu. Það sem örvaði eftirsókn nútímans í viðmið var ekki misskilin löngun í hið eina sanna táknkerfi hugsunarinnar. Viðmiðunarskilmálarnir voru ekki settir af heimspekinni – sem allavega var ekki til sem sérstök fræðigrein þá – heldur af sameiginlegum mannlegum félagsaðstæðum okkar: þeirri staðreynd að við vissum of mikið á einu sviði og of lítið á öðru, að mynd okkar af okkur sjálfum var að afmennskast, að þau svið þar sem við vitum mikið og höldum áfram að vita mikið koma ekki að gagni sem mjög góðar forsendur til að ákveða, segjum, hvers konar félags-pólitískt skipulag við höfum. Þetta er hin raunverulega vandamálsstaða og þegar fólk bregst við henni hugsar það oft heimspekilega. En hún stafar af hlutlægum aðstæðum. Hún hefur ekkert að gera með að vera í álögum tungumálsins eða að sækjast eftir fullkomnu táknkerfi.

Magee Ég hef boðið þér að segja eitthvað um nokkrar stefnur í samtíma heimspeki – þá sem tengist seinni heimspeki Wittgensteins, tilvistarstefnuna, marxismann, afstæðishyggjuna. Hverjar þessara stefna heldurðu að hafi mestan lífsþrótt í sér fólginn, í þeim skilningi að vera líklegastar til að bera ávöxt í framtíðinni?

Gellner Ég held ekki að ég mundi velja einhverja hreyfingu með nafni. Báðir meginstraumarnir – annars vegar kerfisbinding þekkingarferlisins og viðleitnin til að setja skipulega fram mæli­kvarðana á þekkingu; hins vegar linnulaus rannsókn á hinum mannlegu félagslegu aðstæðum okkar – eru mjög lofsverðir. Leiðin áfram virðist mér vera fólgin í einskonar samruna þeirra á háþróaðra stigi. Kjarni málsins hvað varðar hefðina sem rannsakar þekkingu eða hugsun, eða í seinna afbrigði hennar tungumálið, virðist mér vera eftirfarandi: Hún er í grundvallaratriðum iðkun í að setja staðla eða viðmið. Hún er iðkun í að reyna að kerfisbinda viðmiðin fyrir gildar full­yrðingar um þekkingu. Hún er viðleitni til að koma á, ef svo má segja, föstum ákvæðum stjórnskipunar þekkingarsamfélagsins. Mér virðist þetta vera aðdáunarverð starfsemi sem mun hafa gagn af að vera séð sem slík. Í fortíðinni var oft litið á hana sem lýsandi eða skýrandi greinargerð um hvernig einstaklingsbundin þekking virkar í raun – og þannig séð hefur hún ekki svo mikið gildi

Magee Þetta hljómar eins og þú lítir á heimspeki aðallega sem verkfæri, það er að segja sem tæki til að afla þekkingar.

Gellner Ég skal nálgast þetta svona. Einn af gildu þáttunum í seinni heimspeki Wittgensteins, sem ég að öðru leyti hafna, er þessi. Hann lagði áherslu á eitthvað sem menn vissu en tóku ekki nógu alvarlega, nefnilega að sú greinargerð sem gegnsýrir raunhyggjuhefðina um hvernig tungumálið virkar í raun er fáránleg. Tungumálið snýst ekki um að máta setningar við skynjanir eða við litlar athuganir og byggja síðan upp mynd út frá því. Mynd okkar af hlutum er ekki byggð upp á þennan sandkastalahátt, úr litlum kornum að viðbættu mati sem líkt og flaggi er stungið efst á kastalann. Það virkar ekki þannig. Raunveruleg málnotkun okkar er byggð inn í stofnanir, siðvenjur og svo framvegis. Wittgenstein í seinni heimspeki sinni hafði hárrétt fyrir sér í því. Sem niðurrif lýsandi greinargerðar um tungumálið – hafi þess þurft – stenst það. Á sama hátt felst mikilvægi verka Chomskys í málvísindum að mínum dómi í endanlegri sönnun þess að sem skýrandi greinargerð um hvernig við tileinkum okkur mállega færni (og það á einnig við um þekkingarlega færni) var gamla þekkingarfræðihefðin ákaflega fátækleg.
     En jafnvel þótt maður fagni þessum neikvæðu niðurrifsstörfum á vettvangi hugmyndanna upp á síðkastið skyldar það mann ekki til, eða öllu heldur leyfir manni ekki, að varpa fyrir róða þekkingarfræðinni sem viðleitni til að kerfisbinda viðmiðin fyrir þekkingarstarfsemina. Og hún, ég endurtek, verður að tengjast langtum raunsærri greinargerð um hinar félagslegu og sögulegu aðstæður okkar. Þetta mun velta á því sem er sérkennilegt við það sem er lauslega kallað ‘iðnaðarsamfélag’, samfélag sem byggist á árangursríkri stjórn á náttúrunni sem fer vaxandi, hagnýttri tæknifræði, allsherjarlæsi og skipulagningu í stórum stíl. Þótt kaldhæðnislegt megi virðast er ég að segja að heimspekin þurfi að vera bæði óhlutbundnari og gera meira af að setja viðmið annars vegar og félagsfræðilega hlutbundnari hins vegar. Og ég held ekki að það felist mótsögn í að leggja þetta tvennt til. Marx var hlutbundinn og félagsfræðilegur. Honum bara skjátlaðist, því miður. En ég vildi gjarnan sjá einhvern annan skilja þetta rétt – og, vel að merkja, skilja það rétt án væntinga um fullkomið samfélag. Þetta virðist mér vera leiðin fram á við. Hin nánu tengsl sem við þörfnumst eru tengsl milli raunhæfs skilnings á því sem er sérkennilegt við iðnaðarmenningu, á skilyrðum hennar og því sem felst í henni annars vegar, og þess forskriftar­starfs að nota þekkingarviðmið sem eina grundvöllinn fyrir öryggi sem við getum hugsanlega fengið hins vegar.

Magee Eins og málum er háttað sérðu almennan áhuga á tungumálinu sem sameinandi þátt meðal allra hinna augljóslega ólíku greina samtíma heimspeki?

Gellner Nei. Í inngangi þínum sagðirðu að saga heimspekinnar eftir daga Descartes hefði einn samfelldan söguþráð. Ja, hún hefur það, og í umræðu okkar höfum við verið sammála um hver hafa verið hin sameiginlegu þemu og viðfangsefni sem liggja henni til grundvallar. Tungumálið, þótt undarlegt sé, virðist ekki hafa verið eitt þeirra. Á yfirborðinu lítur út eins og svo hafi verið og mér detta í hug þrjár meiriháttar hreyfingar á þessari öld sem gera mikið veður út af tungumálinu, en mér virðist að hvernig þær skírskota til tungumálsins sé svo mismunandi að samlíkingin sé yfirborðsleg. Hin raunverulega mikla andstæða er milli ofuráhuga Wittgensteins og fylgismanna hans á tungumálinu í hinni enskumælandi heimspekiveröld og Chomskys. Báðir láta mikið með tungumálið en eru næstum því alveg á öndverðum meiði hvað varðar framsetningu sjálfs vandans. Aðalatriðið hvað varðar viðhorfið til tungumálsins samkvæmt seinni heimspeki Wittgensteins er notkun þess sem einskonar lausnar. Tungumálið er endastöðin. Hin raunverulega notkun málsins lætur í té einu viðmiðin sem við getum haft, eða höfum, eða þurfum að hafa. Hún réttlætir sig sjálf og skýrir sig sjálf. Hugmyndin er að eftirsóknin í almennari, ytri staðfestingar er sögð vera blekking og mælt er með raunverulegri málvenju sem endastöð okkar. Hins vegar er meginhugmynd Chomskys, sem gerir hann mikilvægan, hversu mikið vandamál tungumálið er. Sú tegund færni sem þarf til að búa til og skilja setningar, sem við tökum sem sjálfsagðan hlut, er nokkuð sem einfaldlega má ekki taka sem sjálfsagðan hlut. Chomsky uppgötvaði hve mikið vandamál þessi færni er. Wittgenstein reyndi að nota hana sem lausn. Ég get varla hugsað mér tvö hugsunarkerfi andstæðari hvort öðru í grundvallaratriðum, hvort sem einstakir fylgismenn þeirra viðurkenna það eða ekki. Ennfremur er einnig mjög umtalsverð andstæða milli seinni Wittgensteins og hinna rökfræðilegu raunhyggjumanna. Rökfræðilegu raunhyggjumennirnir reyndu að nota takmörk tungumálsins til að afmarka heiminn. Þeir voru að láta okkur í té grundvöll til að koma aftur á almennu samkomulagi, heila nýja sýn á heiminn. En Wittgenstein notaði tungumálið sem sönnun þess að við þurfum alls ekki slíkan grundvöll, að við höfum aldrei þurft hann og það sé engin þörf á að leita að honum. Nei, áhugi á tungumálinu virðist mér ekki vera sameinandi þáttur, og hann sameinar ekki í raun hugsun tuttugustu aldar.
     Ef í nauðir rekur gæti maður sagt að raunhyggjumenn og áhangendur seinni Wittgensteins gefi gersamlega andstæð svör við nánast sömu spurningunni, en Chomsky sér gerólíkt vandamál og svar hans er ekki sambærilegt við svör þeirra.
     Nei, hin raunverulega eining sem liggur til grundvallar er leitin að skilningi á bæði hinum þekkingarlegu og félagslegu hömlum sem takmarka valkosti okkar og hjálpa okkur að velja. Verkefnið framundan er að tengja saman skilning okkar á þessum tvenns konar hömlum.

                   
Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísanir

1. Þessi þýðing Gunnars Ragnarssonar birtist fyrst árið 2006 í bók til heiðurs Arnóri Hannibalssyni á 70 ára afmæli hans, Þekking engin blekking, í ritstjórn Erlends Jónssonar, Guðmundar Heiðars Frímannssonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Heimspekivefurinn birtir hana hér með góðfúslegu leyfi Háskólaútgáfunnar. Samræðan er sú síðasta í bókinni Men of Ideas, með undirtitlinum Some Creators of Contemporary Philosophy, eftir Bryan Magee og viðmælendur hans. Hún kom út 1978 og er byggð á fimmtán samræðum sem var sjónvarpað hjá BBC fyrri hluta sama árs.
     Bryan Magee (f. 1930) er víðkunnur enskur heimspekingur, rithöfundur og fjölmiðlamaður. Hann hefur getið sér góðan orðstír fyrir samræður sínar við heimspekinga um vestræna heimspeki þar sem lögð er áhersla á einfalda og skýra framsetningu. Fyrir utan Men of Ideas hafa komið út tvær bækur byggðar á samræðum Magees. Þær eru Modern British Philosophy (1971) og The Great Philosophers (1987). Sú síðarnefnda kom út í íslenskri þýðingu hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 2002 undir heitinu Miklir heimspekingar.
     Ernest Gellner (1925–95) olli miklu fjaðrafoki í röðum Oxfordheimspekinga með bókinni Words and Things (1959) sem er hörð árás á málspeki þeirra og Wittgensteins. Gellner er fjölhæfur og mikilvirkur rithöfundur og þykir merkur fræðimaður, einkum á sviði heimspeki og félagslegrar mannfræði. Hann lauk starfsferli sínum sem prófessor í félagslegri mannfræði við Cambridgeháskóla. Af fjölmörgum öðrum bókum Gellners skulu þessar nefndar: Thought and Change (1964), Nations and Nationalism (1983), Reason and Culture (1992) og Conditions of Liberty (1994).

Heimspeki og bókmenntir

Bryan Magee og Iris Murdoch ræða saman

Inngangur

Magee Sumir miklir heimspekingar hafa líka verið miklir rithöfundar, það er að segja ritsnillingar – ég býst við að bestu dæmin séu Platon, heilagur Ágústínus, Schopenhauer og Nietzsche. Aðrir voru vissulega mjög góðir rithöfundar þótt þeir komist ekki alveg í þeirra flokk: Descartes, Pascal, Berkeley, Hume og Rousseau koma í hugann. Á okkar tímum hafa Bertrand Russell og Jean-Paul Sartre báðir hlotið Nóbelsverðlaun í bókmenntum. Samt hafa verið til miklir heimspekingar sem voru vondir rithöfundar og eru tveir hinna mestu – Kant og Aristóteles – á meðal hinna verstu. Aðrir voru bara eins og gengur og gerist – til dæmis Tómas frá Akvínó og Locke. Hvað Hegel viðvíkur þá eru verk hans alræmd fyrir óskýrleika, næstum því brandari hvað það snertir. Ég held hann hljóti að vera erfiðastur aflestrar af öllum heimsfrægum höfundum.

Þessi dæmi sýna að heimspekin er sem slík ekki bókmenntagrein: Gæði hennar og mikilvægi grundvallast á allt öðrum atriðum en bókmenntalegum og fagurfræðilegum gildum. Ef heimspekingur skrifar vel er það góð viðbót – gerir hann girnilegri til fróðleiks, það liggur í augum uppi, en hann verður ekkert betri heimspekingur þess vegna. Ég lýsi þessu eindregið yfir í upphafi vegna þess að í eftirfarandi umræðu ætla ég að fjalla um nokkur atriði þar sem heimspeki og bókmenntir skarast, með manneskju sem hefur reynslu af báðum heimum. Iris Murdoch er nú skáldsagnahöfundur sem hefur getið sér alþjóðlegan orðstír, en í mörg ár áður en hún varð frægur skáldsagnahöfundur – og reyndar í nokkur ár eftir það, eða fimmtán ár alls – var hún kennari í heimspeki við Oxfordháskóla.

UMRÆÐA

Magee Þegar þú skrifar skáldsögu annars vegar og heimspeki hins vegar ertu þér þá meðvitandi um að þetta séu tvær gerólíkar tegundir skrifa?

Murdoch Já, það er ég. Markmið heimspekinnar er að skýra og útlista, hún staðhæfir og leitast við að leysa mjög erfið og afar tæknileg vandamál og skrifin verða að þjóna þessu markmiði. Það mætti segja að vond heimspeki sé ekki heimspeki, en aftur á móti sé vond list samt list. Okkur hættir til að afsaka bókmenntirnar á ýmsan hátt, en við afsökum heimspekina ekki. Bókmenntir eru lesnar af mörgu og mismunandi fólki, heimspeki af sárafáum. Alvarlegir listamenn / Alvörulistamenn í bókmenntum eru sínir eigin gagnrýnendur og vinna ekki að jafnaði fyrir lesendur sem eru ‘sérfræðingar’. Þar að auki er listin skemmtun og til skemmtunar, hún hefur óteljandi tilætlanir og töfra. Bókmenntir vekja áhuga okkar og forvitni á ólíkum stigum og með mismunandi hætti. Þær eru fullar af töfrabrögðum og galdri og úthugsaðri dulúð. Bókmenntir skemmta, þær gera margt, en heimspeki gerir eitt.

Magee Ég hef lesið nokkrar af bókum þínum, þar með taldar bækur þínar um heimspeki, og mér finnst að sjálfar setningarnar séu ólíkar. Í skáldsögunum eru setningarnar ógegnsæjar, í þeim skilningi að þær eru auðugar af aukamerkingum, vísunum, margræðni, en setningarnar í heimspekilegum ritsmíðum þínum eru hins vegar gegnsæjar af því að þær segja aðeins eitt í einu.

Murdoch Já. Bókmenntaskrif eru list, ein gerð listformsins. Þau kunna að vera yfirlætislaus eða mjög metnaðarfull, en ef þau eru bókmenntir hafa þau listilegan tilgang, málið er notað á margbrotinn hátt með tilliti til ‘verksins’ sem þau eru hluti af, hvort sem það er langt eða stutt. Það er því enginn einn bókmenntastíll eða fullkominn bókmenntastíll til, þótt vitanlega skrifi höfundar misjafnlega vel; og það eru til einstakir miklir hugsuðir sem eru miklir rithöfundar, sem ég mundi ekki kalla heimspekinga, eins og til dæmis Kierkegaard og Nietzsche. Auðvitað eru heimspekingar mismunandi og sumir eru ‘bókmenntalegri’ en aðrir, en ég freistast til að segja að til sé fullkominn heimspekistíll sem er blátt áfram og harður með sérstökum ótvíræðum hætti, íburðarlaus, óeigingjarn og opinskár stíll. Heimspekingur verður að reyna að útskýra nákvæmlega hvað hann á við og forðast málskrúð og fánýtt skraut. Vitanlega þarf þetta ekki að útiloka fyndni og millispil við og við. En þegar heimspekingurinn er ef svo má segja í fremstu víglínu hvað snertir viðfangsefni sitt hygg ég að hann tali með vissri kaldri, skýrri og þekkjanlegri rödd.

Magee Þeir hljóta að vera sárafáir sem hafa fengist við bæði heimspeki og bókmenntir sem fagmenn. Þú ert í hópi hinna örfáu sem geta lýst því af eigin raun hver munurinn er. Geturðu sagt meira um það?

Murdoch Heimspekileg ritverk eru ekki sjálfstjáning, þau fela í sér að hin persónulega rödd sé fjarlægð með öguðum hætti. Sumir heimspekingar halda eins konar persónulegri nálægð í verkum sínum. Hume og Wittgenstein gera það til dæmis hvor með sínum hætti. En heimspekin er engu að síður blátt áfram og hörð. Vitanlega fela bókmenntir það líka í sér að hin persónulega rödd sé hamin og ummynduð. Það mætti jafnvel líkja saman heimspeki og ljóðlist sem er erfiðasta tegund bókmennta. Báðar fela í sér ákveðna og erfiða hreinsun staðhæfinga, hugsunar sem birtist í máli. En það er eins konar sjálfstjáning sem helst í bókmenntum, ásamt öllum gáska og allri dulúð listarinnar. Höfundur bókmenntaverks skilur vísvitandi eftir leikrými fyrir lesandann. Heimspekingurinn má ekki skilja eftir neitt rými.

Magee Þú sagðir rétt áðan að markmið heimspekinnar væri að skýra en markmið bókmenntanna væri hins vegar mjög oft að sveipa dulúð. Ég býst við að það sé meginatriði í því sem skáldsagnahöfundurinn eða leikritahöfundurinn gerir að hann reynir að skapa blekkingu, en hins vegar reynir heimspekingurinn öðru fremur að eyða blekkingu.

Murdoch Heimspekin stefnir ekki að neins konar formlegri fullkomnun sjálfrar sín vegna. Bókmenntirnar glíma við flókin vandamál listræns forms, þær reyna að skapa eins konar fullkomna heild. Í hverju listformi er skynrænn, áþreifanlegur þáttur. Jafnvel brotakennd bókmenntaskrif sýna einhvern skilning á fullkominni heild. Bókmenntir eru (oftast nær) ‘listaverk’. Heimspekiverk eru eitthvað allt annað. Það getur komið fyrir að heimspekiverk sé líka listaverk, eins og til dæmisSamdrykkjan, en það heyrir til undantekninga, og það er í ljósi annarra heimspekiverka Platons sem við lesum Samdrykkjuna sem heimspekilegan texta. Mestöll heimspeki, í samanburði við bókmenntir, virðist orðmörg / langdregin og formlaus, jafnvel þegar heimspekingurinn er að úskýra eitthvað sem er mjög flókið formlega séð. Heimspeki snýst um að ná taki á vandamáli og sleppa ekki takinu og vera reiðubúinn að halda áfram að endurtaka sig eftir því sem mismunandi framsetningar og lausnir eru prófaðar. Þessi hæfileiki, sem útheimtir þrautseigju og vægðarleysi, til að halda sér við vandamál er einkenni heimspekingsins, en viss löngun til nýbreytni er hins vegar venjulega einkenni listamannsins.

Magee Með þennan samanburð í huga, hvernig mundirðu auðkenna bókmenntir til aðgreiningar frá heimspeki?

Murdoch Það kynni að taka langan tíma að ‘skilgreina’ bókmenntir þótt við vitum öll í grófum dráttum hvað þær eru. Þær eru listformið sem notar orð. Blaðamennska getur verið bókmenntir ef hún er líka list og fræðileg ritsmíð getur verið bókmenntir. Bókmenntir eru margs konar og afar víðfeðmar en heimspekin er hins vegar mjög afmörkuð. Vandamálin sem sett voru fram í upphafi eru að mestu leyti þau sömu og við erum upptekin af nú á dögum, og enda þótt vandamálin séu víðtæk þá eru þau í vissum skilningi ekki svo mörg. Heimspekin hefur haft gífurleg áhrif en þeir heimspekingar sem hafa haft þessi áhrif hafa verið tiltölulega fáir. Ástæðan er sú að heimspekin er svo erfið.

Magee Þegar Whitehead sagði að öll vestræn heimspeki væri einungis neðanmálsgreinar við Platon náði hann sérstaklega vel því sem þú segir um órofið samhengi í heimspekilegum vandamálum frá upphafi.

Murdoch Já, svo sannarlega. Platon er ekki aðeins faðir heimspeki okkar, hann er besti heimspekingurinn. Vitanlega breytast aðferðir heimspekinnar en við höfum ekki sagt skilið við Platon, en þar með er ég líka að segja að það verða ekki framfarir í heimspeki á sama hátt og í vísindum. Auðvitað verða ekki framfarir í bókmenntum heldur. Enginn er betri en Hómer. En bókmenntir hafa ekkert samfellt verkefni, þær eru ekki í þeirri merkingu einhvers konar ‘vinna’. Þær eru reyndar eitthvað sem við leyfum okkur af sjálfsdáðum og gætu því virst nær leik, og það hinni gríðarmiklu óábyrgu tegund leiks. Bókmenntalegar tjáningarleiðir eru okkur mjög eðlilegar, mjög nálægt venjulegu lífi og því hvernig við lifum sem hugsandi verur. Ekki eru allar bókmenntir beinlínis skáldskapur en meirihluti þeirra er eða felur í sér skáldskap, tilbúning, það að setja upp grímu, að leika hlutverk, að þykjast, að ímynda sér og að segja sögu. Þegar við komum heim og ‘segjum tíðindi dagsins’ þá erum við kænlega að móta efni í söguform. (Þessar sögur eru annars mjög oft skondnar.) Við lifum því öll sem orðnotendur að vissu leyti í bókmenntalegu andrúmslofti, við lifum og hrærumst í bókmenntum, við erum öll bókmenntalegir listamenn, við erum stöðugt að nota málið til að búa til skemmtileg form úr reynslu sem virtist kannski upphaflega leiðinleg eða sundurlaus. Að hve miklu leyti endurgerðin felur í sér að brotið sé gegn sannleikanum er vandamál sem allir listamenn verða að horfast í augu við. Djúpstæð hvöt til að búa til bókmenntir eða list af ýmsu tæi er löngun til að sigrast á formleysi heimsins og lyfta sér upp með því að búa til form úr því sem annars kynni að virðast samsafn merkingarlausra mola.

Magee Það sem þú segir um að lyfta sér upp vekur athygli á þeirri staðreynd að eitt meginmarkmið bókmennta hefur ætíð verið að skemmta, og ég held ekki að það sé markmið sem komi heimspeki neitt við.

Murdoch Heimspekin er ekki beinlínis skemmtileg en hún getur verið hughreystandi vegna þess að hún er líka í því fólgin að koma skipulagi óskapnað. Heimspekingar setja oft saman gríðarmikil kerfi sem fela í sér mikið af flóknu myndmáli. Margar gerðir heimspekilegra röksemdafærslna byggjast meira eða minna opinskátt á myndmáli. Líklegt er að heimspekingur sé tortrygginn gagnvart listrænum hvötum hjá sér og gagnrýninn á hina eðlislægu hlið ímyndunarafls síns. En hins vegar hlýtur listamaður alltént að hafa nokkrar mætur á dulvitund sinni sem þegar öllu er á botninn hvolft leggur til hreyfiaflið og sér um mikið af vinnunni. Vitanlega hafa heimspekingar dulvitund eins og aðrir og heimspekin getur dregið úr ótta okkar. Það er oft afhjúpandi að spyrja um heimspeking: ‘Hvað óttast hann?’. Heimspekingurinn verður að streitast á móti listamanninum í sér sem leitar hughreystingar. Hann verður alltaf að vera að ónýta eigin verk í þágu sannleikans til þess að geta haldið áfram að ná tökum á viðfangsefninu. Það er hætt við að þetta sé ósamrýmanlegt bókmenntalegri list. Heimspekin er full af endurtekningum, hún fer aftur yfir sama sviðið og er sífellt að sundra þeim formum sem hún hefur búið til.

Magee Þú hefur nú sagt margt um bókmenntir sem óbeint stillir þeim upp sem andstæðu við heimspeki, en ég vil gjarnan draga mismuninn skýrar fram. Þú segir til að mynda að það sé náttúrlegt að segja sögur – við gerum það öll í daglegu lífi og okkur þykir öllum gaman að heyra sögur. Gagnstætt þessu býst ég við að heimspekin sé andnáttúrleg. Í heimspekinni tökum við þátt í gagnrýninni greiningu á skoðunum okkar og forsendum þeirra, og það er afar athyglisverð staðreynd að flestum hvorki líkar að gera þetta né láta gera það við sig. Séu hinar ósögðu forsendur sem skoðanir þeirra byggjast á dregnar í efa finna þeir til öryggisleysis og veita harða mótspyrnu.

Murdoch Já. Ég held að heimspekin sé mjög andnáttúrleg. Hún er afar furðuleg ónáttúrleg starfsemi. Allir heimspekikennarar hljóta að finna þetta. Heimspekin raskar hávaðanum af þeim hálflistrænu hugtakavenjum sem við treystum venjulega á. Hume segir að jafnvel heimspekingurinn hverfi aftur að venjubundnum skoðunum sínum þegar hann fer úr vinnustofu sinni. Og heimspekin er ekki tegund (raun)vísindalegrar iðju, og sá sem fer að fást við (raun)vísindi dettur beint út úr heimspekinni. Hún er tilraun til að skilja og rekja sundur í huganum djúpstæðustu og almennustu hugtök okkar. Það er ekki auðvelt að fá fólk til að líta upp þangað sem heimspekin er að verki.

Magee Bertrand Russell sagði einu sinni að heimspekin samanstæði af þeim spurningum sem við vitum ekki hvernig á að svara. Isaiah Berlin er líka þessarar skoðunar.

Murdoch Já, sem við vitum ekki hvernig á að svara eða kannski ekki alveg hvernig á að spyrja. Það er fullt af spurningum sem við getum ekki svarað en við vitum hvernig væri hægt að svara þeim. Heimspekin felur í sér að sjá hið venjulega sem eitthvað algerlega furðulegt og reyna að setja fram virkilega skarplegar spurningar um það.

Magee Þú sagðir rétt áðan að heimspeki væri ekki vísindi og ég er sammála. En heimspekin og vísindin eiga viss grundvallaratriði sameiginleg. Eitt þeirra er það að bæði eru tilraunir til að skilja heiminn og að gera það þannig að það feli ekki í sér að láta í ljós persónulega afstöðu. Með öðrum orðum, í báðum þessum greinum gengst maður undir viðmið sem eru utan við hann sjálfan; maður reynir að segja eitthvað sem er ópersónulega satt. Þetta tengist öðrum mikilvægum mun á heimspeki og bókmenntum. Áðan sagðirðu nokkuð sem virtist gefa í skyn að enda þótt skáldsagnaskrif þín leiði í ljós ákveðinn bókmenntalegan persónuleika þá væri þér á hinn bóginn sama þótt heimspekiskrif þín gerðu það ekki. Mér virðist að það sem skiptir einna mestu máli um skapandi rithöfund sé að hann hafi persónuleika í þessari merkingu. Hafi hann ekki persónuleika höfum við ekki áhuga á að lesa hann. En þegar um heimspekinga er að ræða er þetta hins vegar ekki tilfellið. Maður gæti lesið öll verk Kants með ástríðuþrungnum áhuga og að því loknu haft afar litla hugmynd um innri mann Kants.

Murdoch Þú átt við að það sem við höfum áhuga á sé persónuleikinn sem kemur fram í verkinu? Höfundurinn sjálfur er svo aftur eitthvað annað; hann gæti verið leiðinlegur þó verk hans væri það ekki, eða öfugt. Ég er ekki viss um ‘bókmenntalegan persónuleika’. Við viljum að höfundur skrifi vel og hafi eitthvað skemmtilegt og áhugavert að segja. Við ættum kannski að greina þekkjanlegan stíl frá persónulegri nálægð. Shakespeare hefur þekkjanlegan stíl en enga nálægð, en höfundur eins og D. H. Lawrence hefur aftur á móti ekki eins augljósan stíl en sterka nálægð. Þó að mörg ljóðskáld og sumir skáldsagnahöfundar tali til okkar á afar persónulegan hátt hefur mikið af bestu bókmenntunum enga sterklega skynjaða nálægð höfundarins í verkinu. Ef nálægð höfundar er of ráðrík, eins og nálægð Lawrence, kann það að vera skaðlegt: þegar til dæmis ein uppáhaldspersónan er málpípa höfundar. Vondar bókmenntir eru næstum alltaf fullar af persónulegum æsingi. Hér er erfitt að setja reglur. Löngunin til að tjá sig, til að útskýra og sanna sig, er sterk hvöt til að stunda list, en það er hvöt sem verður að meðhöndla á gagnrýninn hátt. Ég hef ekki á móti því að eiga persónulegan stíl en ég vil ekki hafa augljósa nálægð í verkum mínum. Vitanlega verður rithöfundur að opinbera siðferði sitt og hæfileika. Þessi tegund sjálfsopinberunar á sér einnig stað í heimspeki, en þar spyrjum við hvort niðurstaðan sé sönn, hvort röksemdafærslan sé gild.

Magee Þegar ég tala við vini mína sem eru kannski mjög greindir og vel menntaðir án þess að vita mikið um heimspeki þá kemst ég að raun um að þeir ganga oft út frá því að heimspeki sé ein grein bókmennta – að heimspekingur sé einhvern veginn að láta í ljós persónulega skoðun á heiminum á sama hátt og ritgerðahöfundur kynni að gera, eða skáldsagnahöfundur, og það er ekki alltaf auðvelt að skýra hvers vegna þetta er ekki þannig. Ég held að ástæðan sé að hluta til sú að heimspekileg vandamál eiga sér sögu og hver heimspekingur kemur fram á sviðið á ákveðnu stigi í þeirri söguþróun. Og eigi hann að leggja eitthvað til málanna á annað borð verður hann að gera það þá, annars er einfaldlega ekki um það að ræða að leggja neitt til málanna. Að þessu leyti líkist hann vísindamanni.

Murdoch Já, þetta er rétt. Og kannski er þetta nokkuð sem greinir hinn ‘sanna heimspeking’ frá öðrum hugsuðum og siðapostulum. Heimspekingurinn tengist heimspekisviðinu eins og það er þegar hann kemur fram. Það er ákveðið kenningasafn sem hann verður að bregðast við og hann gengur inn í það sem er að sumu leyti fremur takmörkuð samræða við fortíðina. Listamaðurinn virðist aftur á móti vera óábyrgur einstaklingur. Tengslin við samtímann og sögu listar hans kunna að vera djúpstæð, en hann hefur engin ákveðin vandamál að leysa. Hann verður að finna upp sín eigin vandamál.

Magee Það er kannski sumpart af þessari ástæðu sem listræn skrif – leikrit, skáldsögur og ljóð – ganga langtum nær persónuleika bæði höfundar og lesanda en heimspekin gerir. Heimspekin er vitsmunaleg starfsemi í þrengri merkingu. Bókmenntir, ef þær eiga nafnið skilið á annað borð, verða að snerta mann tilfinningalega, en aftur á móti reynir heimspekingurinn – líkt og vísindamaðurinn – eindregið að útiloka tilfinningalega skírskotun í verkum sínum.

Murdoch Já. Ég held það sé meira gaman að vera listamaður en heimspekingur. Það mætti kalla bókmenntir agaða aðferð til að vekja vissar tilfinningar. (Auðvitað eru til aðrar slíkar aðferðir.) Ég mundi taka það með í skilgreiningu á list að vekja tilfinningar, enda þótt það sé ekki alltaf tilfinningalegur viðburður að upplifa list. Hér kemur við sögu hið skynræna eðli listarinnar, sú staðreynd að hún fæst við sjón- og heyrnarskynjun og líkamlega skynjun. Sé ekkert skynrænt fyrir hendi þá er ekki um neina list að ræða. Þetta eitt gerir listina gerólíka ‘fræðilegri’ starfsemi. Ennfremur tengist mikið af list, kannski mestöll list, kannski öll list, kynlífi í einhverri ákaflega almennri merkingu. (Þetta kann að vera frumspekileg staðhæfing.) Listin er tvísýnn, hættulegur leikur með dulvituð öfl. Við njótum listar, jafnvel einfaldrar listar, vegna þess að hún raskar ró okkar með djúptækum, oft óskiljanlegum hætti; og þetta er ein ástæða þess að hún er góð fyrir okkur þegar hún er góð og vond fyrir okkur þegar hún vond.

Magee Hingað til höfum við talað um muninn á heimspeki og bókmenntum og ég held það skipti máli að við skyldum leggja áherslu á hann, en það er líka ýmislegt mikilvægt sameiginlegt með þeim, er það ekki? Ég veit af fyrri samtölum við þig, til dæmis, að þú telur hugmyndir um sannleik vera nokkuð miðlægar í hvorutveggja.

Murdoch Já, vissulega, ég held að þótt heimspeki og bókmenntir séu svona ólíkar þá fáist báðar við að leita sannleiks og leiða sannleik í ljós. Þær eru vitræn starfsemi, vitrænar útlistanir. Bókmenntir, líkt og aðrar listir, fela í sér könnun, flokkun, sundurgreiningu og skipulagða sjón. Vitanlega líta góðar bókmenntir ekki út eins og ‘rökgreining’ vegna þess að það sem ímyndunaraflið skapar er skynrænt, samrunnið, hlutgert, dularfullt, margrætt og sérstakt. Listin er vitsmunastarf í öðrum dúr. Hugsaðu þér hve mikla hugsun, hve mikinn sannleik, leikrit eftir Shakespeare hefur að geyma, eða mikil skáldsaga. Það er upplýsandi þegar um er að ræða hugverk að sjá hvers konar gagnrýnum orðaforða er beint gegn því. Bókmenntir má gagnrýna á formlegan hátt einvörðungu. En oftar eru þær gagnrýndar fyrir að vera í einhverjum skilningi ósannar. Orð eins og ‘væmnar’, ‘hrokafullar’, ‘sjálfsdekrandi’, ‘ómerkilegar’ og svo framvegis væna um einhvers konar ósannindi, einhvern réttlætisbrest, einhverja brenglun eða vöntun á skilningi eða tjáningu. Orðið ‘ímyndun’ í vondri merkingu nær yfir marga af þessum dæmigerðu göllum. Það kann að vera gagnlegt að bera ‘ímyndun’ sem eitthvað vont saman við ‘hugmyndaflug’ sem eitthvað gott. Auðvitað er heimspekin líka hugmyndarík starfsemi en staðhæfingarnar sem hún miðar að eru gerólíkar hinum ‘hluttæku staðhæfingum’ listarinnar, og aðferðir hennar og andrúm, eins og vísindanna, hindra freistingar persónulegrar ímyndunar. En aftur á móti geta skapandi hugmyndaflug og þráhyggjuleg ímyndun verið nálæg og næstum óaðgreinanleg öfl í huga rithöfundar. Alvörurithöfundur verður að ‘leika sér að eldi’. Í vondri list tekur ímyndunin einfaldlega völdin, eins og í ástarsögunni eða spennusögunni þar sem hetjan (öðru nafni höfundurinn) er hugrökk, göfuglynd, ósigrandi, elskuleg (hún hefur auðvitað sína galla) og lýkur sögunni hlaðin gjöfum örlaganna. Taumlaus ímyndun er hinn sterki, lævísi óvinur hins glögga, greinda ímyndunarafls sem spinnur meira í samræmi við sannleikann, og þegar listin er fordæmd fyrir að vera ‘fjarstæðukennd’ er verið að fordæma hana fyrir að vera ósönn.

Magee En sú sannleikshugmynd er mjög frábrugðin því sem heimspekingurinn reynir að komast að, er það ekki?

Murdoch Ég vildi sagt hafa að bókmenntir séu eins og heimspeki að þessu leyti vegna þess að ég vil leggja áherslu á að bókmenntir eru líka sannleiksleitandi starfsemi. En vitanlega er heimspekin sértekin, rökfærslubundin og afdráttarlaus. Bókmenntamál getur verið vísvitandi myrkt og jafnvel það sem hljómar líkt og blátt áfram orðræða er hluti af einhverri dulinni, formlegri hugarsmíð. Í sagnaskáldskap er jafnvel einfaldasta saga listileg og óbein þótt við tökum kannski ekki eftir þessu vegna þess að við erum svo vön hinum viðteknu reglum sem í hlut eiga og við erum öll að einhverju marki bókmenntalegir listamenn í daglegu lífi. Hér mætti segja að það væri afdráttarleysi heimspekinnar sem okkur finnst óeðlilegt en krókaleið sögunnar eðlileg. Það er ekki auðvelt að lýsa því hvernig heimspekilegar villur eru. Stundum er röklegur eða hálfröklegur annmarki á röksemdafærslu, en oftar bregst heimspekin vegna þess sem kalla mætti órakenndar eða þráhyggjulegar hugtakavillur, falskar ósagðar forsendur eða upphafsatriði sem leiða rannsóknina eins og hún leggur sig á villigötur. Það má halda því fram með rökum að hugmyndin um ‘skynreyndina’ eða greinarmuninn á matsorðum og lýsandi orðum sé dæmi um slíkar villur. Erfitt er að finna prófsteininn á sannleik í heimspeki vegna þess að allt viðfangsefnið er svo erfitt og svo sértekið. Það kann að vera óljóst hvað eigi að sannreyna hvað vegna þess að kenningin verður líka að lýsa fyrirbærunum sem réttlæta kenninguna. Heimspekingurinn hlýtur að óttast klifun og verður stöðugt að líta til baka á ‘hinn venjulega heim’ sem er ekki eins strangt mótaður í hugtök. Hliðstæður vandi er í listinni en hann er öðruvísi og oft ósýnilegur vegna náttúrlegrar nálægðar listarinnar við heiminn. Erfitt er að finna prófsteininn á sannleik í heimspeki vegna þess að viðfangsefnið er erfitt. Það kann að vera erfitt að finna prófsteininn á sannleik í bókmenntum vegna þess að viðfangsefnið er að vissu leyti auðvelt. Okkur finnst öllum að við skiljum listina eða alltént mikið af henni. Og sé hún mjög myrk getur hún deyft hina gagnrýnu hæfileika; við erum reiðubúin að verða frá okkur numin. Eins og ég sagði, heimspekin gerir eitt, bókmenntirnar gera margt og snerta margar ólíkar hvatir hjá höfundi og lesanda. Þær veita okkur ánægju, til dæmis. Þær sýna okkur heiminn, og mikið af ánægju af list er ánægja að bera kennsl á það sem við vissum óljóst að væri þarna en höfðum aldrei séð áður. List er mimesis, eftirlíking, og góð list er, svo að notað sé annað platonskt orð, anamnesis, ‘endurminning’ um það sem við vissum ekki að við vissum. Listin ‘heldur uppi speglinum fyrir náttúruna’. Vitanlega þýðir þessi speglun eða ‘eftirlíking’ ekki þrælbundin eða nákvæm stæling. En það er mikilvægt að halda fast við þá hugmynd að listin sé um heiminn, hún sé til fyrir okkur og blasi við á bakgrunni venjulegrar þekkingar okkar. Listin kann að útvíkka þessa þekkingu en hún er líka prófuð með henni. Við beitum slíkum prófum ósjálfrátt, og stundum auðvitað ranglega, eins og þegar við vísum sögu á bug sem ótrúlegri þó að við höfum ekki í raun og veru skilið hvers konar saga hún er.

Magee Nú skulum við huga að heimspekilegum hugmyndum um bókmenntir. Þú varst núna áðan að tala um ímyndun í hinni vondu merkingu orðsins – sem mér skilst að sé eins konar sjálfsdekur, sem venjulega felur í sér fölsk gildi svo sem dýrkun á valdi, metorðum og auðæfum, og sé því nátengt lágkúru í list. Þetta er nátengt ástæðunni fyrir því að sumir heimspekingar hafa í rauninni verið andsnúnir list, er það ekki? Og reyndar var nýjasta bókin þín, Eldurinn og sólin, um andstöðu Platons við listina. Það væri forvitnilegt að heyra þig segja eitthvað um hvers vegna mikill heimspekingur eins og Platon skyldi hafa verið andsnúinn listinni – hann sem sjálfur notaði listræn form eins og samræðuna: það er auðsjáanlega mikið um skáldskap hjá Platoni.

Murdoch Eins og alkunna er var Platon andsnúinn listinni. Sem stjórnmálahugsuður óttaðist hann hinn órökvíslega / órökræna tilfinningamátt listanna, mátt þeirra til að segja girnilegar lygar eða niðurrifssannindi. Hann var hlynntur strangri ritskoðun og vildi gera leikskáldin útlæg úr fyrirmyndarríkinu. Einnig óttaðist hann listamanninn í sjálfum sér. Hann var mjög trúhneigður maður og fann að listin var fjandsamleg trúnni jafnt sem heimspekinni: Listin var eins konar eigingjarn staðgengill trúaragans. Þverstæðan er að verk Platons eru stórfengleg list í merkingu sem hann viðurkennir ekki fræðilega. Hann segir að það sé gömul deila milli heimspeki og skáldskapar, og við verðum að muna að á tímum Platons var heimspekin eins og við þekkjum hana einmitt að koma fram upp úr alls konar skáldlegum og guðfræðilegum vangaveltum. Heimspekin tekur framförum með því að skilgreina sig þannig að hún sé ekki eitthvað annað. Á tímum Platons aðskildi hún sig frá bókmenntum, á sautjándu og átjándu öld frá náttúruvísindum, á tuttugustu öld frá sálarfræði. Platon taldi list vera eftirlíkingu, en hann taldi hana vera vonda eftirlíkingu. Og það er rétt að alltaf er meira til af vondri list hjá okkur en góðri, og fleira fólk er hrifið af vondri list en góðri. Platon taldi að listin væri í eðli sínu persónulegur hugarburður, vegsömun ósæmilegra hluta eða skrumskæling góðra hluta. Hann sá hana sem ómerkilega stælingu á ákveðnum hlutum og hún hefði ekkert almennt gildi, og auðvitað á þetta við um mikið af list. Ímyndum okkur hvað Platoni hefði fundist um sjónvarpið. Maður ætti að horfa á hinn raunverulega heim og hugsa um hann en gera sig ekki ánægðan með ómerkilegar eftirlíkingar og ókræsilega drauma. Þetta er ekki með öllu ólíkt skoðun Freuds á listinni sem staðgengli valds og ‘raunverulegrar’ lífsfyllingar. Freud gefur stundum í skyn að listin sé draumóravitund listamannsins að tala beint við draumóravitund viðtakandans. Listin er persónuleg hugfróun. Ég held þetta sé djúpstæð hugmynd og alvarleg ásökun. Maður sér hvernig spennusagan eða hin væmna kvikmynd kann einfaldlega að vera örvun fyrir persónulega hugaróra lesandans eða áhorfandans. Klám er öfgafyllsta dæmið um þessa persónulegu notkun ‘listar’.

Magee En vissulega eiga þessar aðfinnslur einungis við vonda list. Að vísu er mestöll list, eins og þú segir, vond list. En þær eiga ekki við góða list – sem er í raun og veru sú list sem endist, vonar maður.

Murdoch Ég býst við að viðtakandi geti alltaf reynt að nota list eins og honum sýnist, einungis góð list kann að standast betur vondar fyrirætlanir. Ég á við að einhver kynni að fara á Listasafn ríkisins bara til að leita að klámmyndum. Það sem við köllum vonda list biður um að vera notað á vondan hátt og það er ekki hægt að skilja hana á annan veg. Almenn listiðkun sem skapar hið góða hlýtur líka að skapa hið vonda, og það þarf ekki að vera svo slæmt. Gagnrýnendur geta verið of strangir og siðavandir. Ég er mjög andsnúin klámi, ég tel að það sé virkilega skaðlegt og niðurlægjandi. En að njóta venjulegrar miðlungslistar er tilltölulega meinlaust. Væmin skáldsaga getur verið þokkaleg hvíld frá áhyggjum manns, þótt hann kynni að vera betur settur með Stríð og frið.

Magee Það er útbreidd skoðun nú á dögum, er það ekki, að góð list sé góð fyrir mann í annarri merkingu: að hún skerpi tilfinningarnar, að hún auki skilningshæfni manns og þess vegna hæfni til samúðar með öðrum.

Murdoch Ég held að góð list sé góð fyrir fólk einmitt vegna þess að hún er ekki hugarburður heldur hugmyndaflug. Hún losar um tökin á hinu dauflega hugmyndalífi okkar og fær okkur til að reyna að sjá hlutina í réttu ljósi. Oftast nær sjáum við alls ekki hina stóru, víðu og raunverulegu veröld vegna þess að við erum blinduð af þráhyggju, kvíða, öfund, gremju og ótta. Við búum okkur til lítinn persónulegan heim þar sem við lokumst inni. Mikil list er frelsandi, hún gerir okkur kleift að sjá og njóta þess sem er ekki við sjálf. Bókmenntir vekja og svala forvitni okkar, þær vekja áhuga okkar á öðru fólki og stöðum og hjálpa okkur til að vera umburðarlynd og veglynd. List er fræðandi. Og jafnvel miðlungslist getur frætt okkur um eitthvað, til að mynda um það hvernig annað fólk lifir. En að segja þetta er ekki að hafa nytsemis- eða fræðsluskoðun á list. Listin er stærri en svo þröngar hugmyndir. Platon sá að minnsta kosti hve gífurlega mikilvæg listin er og hann kom fram með athyglisverðar spurningar um hana. Heimspekingar yfirleitt hafa ekki skrifað mjög vel um listina, sumpart vegna þess að þeir hafa litið á hana sem minni háttar mál sem verður að falla inn í hina almennu kenningu þeirra um frumspeki eða siðferði.

Magee Þetta er yfir höfuð rétt, en það er einn heimspekingur sem ég mundi leysa undan þessari ásökun, nefnilega Schopenhauer. Ólíkt næstum öllum öðrum heimspekingum taldi hann listina meginþátt í lífi mannsins og hafði ýmislegt virkilega spaklegt um hana að segja.

Murdoch Já, vissulega. Schopenhauer var ósammála Platoni, reyndar sneri hann skoðun Platons við. Platon leit svo á að listin veitti hinum sjálfselska, heimska hluta sálarinnar andlega ánægju. En aftur á móti leitaði hinn göfugri hluti sálarinnar þekkingar á veruleikanum með atbeina þess sem Platon kallaði frummyndir, sem voru altæk rökleg hugtök eða uppsprettur þekkingar og andstæðar óskiljanlegum einstökum hlutum. Samkvæmt Platoni var listin því lítilmótlega einstök en þekkingin rökvíslega almenn. Á hinn bóginn segir Schopenhauer að listin leiti í raun og veru frummyndanna og geti miðlað þeim. En frummyndunum lýsir hann sem skiljanlegum formum sem koma að einhverju leyti fram sem veruleiki í náttúrunni og hugmyndaflug listamannsins reynir að draga fram. Schopenhauer segir að listin eyði hulu eða móðu huglægninnar og stöðvi flæði lífsins og láti okkur sjá hinn raunverulega heim og þetta ‘áfall’ sé upplifun fegurðar. Þetta er geðfelld og háleit skoðun á list vegna þess að hún lýsir henni sem siðferðilegri og vitrænni viðleitni og svipaðri heimspekinni að því leyti að hún leitast við að útskýra heiminn. Hún gefur einnig til kynna á hvern hátt góð list er bæði mjög almenn og mjög einstök. Í austrænum trúarbrögðum koma fram skoðanir sem eru að sumu leyti svipaðar. Ég get þó ekki fallist á þessar ‘frummyndir’, jafnvel sem líkingamál um það hvernig listamaðurinn vinnur. Auðvitað má segja að hugur okkar ‘komi formi á’ heiminn og heimspekingar hafa ætíð leitað að innbyggðum skyldleika milli okkar og náttúrunnar. Ég hef enga almenna heimspekilega skoðun á þessu efni og ég held að hér gæti samlíking heimspeki og listar gengið of langt. Hinn starfandi listamaður stendur frammi fyrir, og kann að gleðjast yfir, miklu, óskiljanlegu, tilviljunarkenndu efni, og kannski virðast miklir listamenn aðeins ‘útskýra heiminn’, enda þótt þeir útskýri hluta af honum. Hin óskýrari, síður upphafna, mynd Kants af listinni sem Schopenhauer ‘leiðréttir’ er að sumu leyti raunsærri. Listin er ekki svo ‘skiljanleg’. En mér finnst skoðun Schopenhauers geðfelld að því leyti að hún lýsir listinni sem háleitri beitingu vitrænna og siðrænna hæfileika og sem viðleitni til að sigrast á sjálfinu og sjá heiminn.

Schopenhauer er þó nokkur undantekning meðal heimspekinga að því leyti að hann hefur miklar mætur á listinni. Mikið af heimspekilegri kenningasmíð um efnið er ekki eins hugmyndaríkt, fæst við að stilla einni fremur takmarkaðri skoðun upp á móti annarri, eins og til dæmis: Er listin vegna listarinnar eða vegna samfélagsins?

Magee Einn gallinn á allri listheimspeki er sá að hún útilokar. Þegar maður heldur að öll list verði að vera af tiltekinni gerð til að hæfa sérstakri kenningu leiðir af því að allt sem er ekki í samræmi við kenninguna er ekki list.

Murdoch Sem betur fer taka listamenn ekki of mikið mark á heimspekingum. En stundum getur heimspekin skaðað listina, hún getur gert fólk blint á sumar tegundir listar eða bara fært um skapa sumar tegundir.

Magee Eitt áberandi dæmi í nútímanum um heimspeki sem hefur skaðað listina er marxisminn. Samkvæmt marxískri kenningu hefur listin sérstöku hlutverki að gegna, en það er að vera verkfæri samfélagsbyltingar. Það er heilmikið til af marxískri list af öllu tæi – skáldsögur, leikrit, málverk, höggmyndir og svo framvegis – og ég verð að segja að ég lít á mest af þessu sem rusl. Það er rusl vegna þess að hvötin sem skapaði það hefur alls ekki verið ósvikin listræn hvöt. Þetta er hluti af áróðri.

Murdoch Vissulega held ég ekki að það sé verkefni listamannnsins að þjóna samfélaginu. Marxistar halda þetta, býst ég við, þótt það hafi staðið frægar deilur um hvernig eigi að gera það. Sumir marxistar mundu telja að listin ætti eiginlega að vera bæklingar eða veggspjöld í þágu ástands byltingarinnar á hverjum tíma, að skáldsagnahöfundar og málarar ættu að ráðast á ‘óvini samfélagsins’ og upphefja þá manngerð sem samfélagið þarfnast á hverjum tíma. Nútíma sovéskar myndir af göfugum landbúnaðarverkamönnum eða vísindastúlkum eru dæmi um þessa virkilega væmnu tegund listar. Það er til skynsamlegri og frjálslyndari marxísk skoðun á bókmenntum sem djúphugsuð greining á samfélaginu. Georg Lukács aðhylltist þess háttar skoðun áður en hann var neyddur til að viðurkenna að sér hefði ‘skjátlast’. Hann gerði greinarmun á ‘raunsæi’, sem var hugvitssamleg könnun á samfélagsgerðinni, og ‘natúralisma’ sem var ómerkileg eða tilfinningaleg stæling; og hann lýsti hinum miklu nítjándu aldar skáldsagnahöfundum sem raunsæismönnum með því að þeir sögðu okkur djúp mikilvæg sannindi um samfélagið. Ég hygg það sé rétt hjá honum að hrósa þessum rithöfundum á þennan hátt. En greining á samfélaginu með þeim hætti sem væri áhugaverð fyrir marxista var ekki aðalmarkmið þessara rithöfunda né heldur hið eina sem þeir voru að gera. Jafnskjótt og rithöfundur segir við sjálfan sig: ‘Ég verð að reyna að breyta samfélaginu á þennan og þennan hátt með skrifum mínum’, er líklegt að hann skaði verk sitt.

Magee En hvernig getum við látið Dickens falla inn í þessa lýsingu? Hann virðist hafa haft raunverulega félagsleg markmið – meðal annarra markmiða, eflaust – og hann virðist hafa haft töluverð félagsleg áhrif.

Murdoch Já, Dickens tekst að gera allt, að vera mikið sagnaskáld og staðfastur og opinskár þjóðfélagsgagnrýnandi. Ég hygg að hneykslin í samfélagi hans hafi verið nátengd þeirri ólgu og þeim samfélagsbreytingum sem höfðu dýpst áhrif á ímyndunarafl hans. Snilligáfa hans getur innbyrt allt þetta og manni finnst sjaldan að hann sé að ‘hræra í’ manni með einhverju framandi samfélagslegu efni. En það mætti samt sem áður vekja athygli á því að ‘óhlutbundnasta’ skáldsaga hans Hard Times er ein hinna miður vel heppnuðu og að áhrifaríkasta gagnrýni hans á samfélagið kemur fram með atbeina lifandi og hjartnæmra persóna eins og til dæmis sótaradrengsins Joe í Bleak House. Dickens er mikill rithöfundur vegna hæfileikans til persónusköpunar og líka vegna djúpra ógnvekjandi hugsýna sem koma lítið þjóðfélagslegum umbótum við. Edwin Drood er betri skáldsaga en Hard Times. Úthugsuð eða í senn kvíðablandin og laumuleg tilraun til að sannfæra mann gerir verk venjulega yfirborðslegra. Manni finnst þetta stundum hjá George Eliot sem ‘kemst ekki upp með það’ eins vel og Dickens.

Magee Í slíkum tilfellum er listaverkið ekki aðeins hætt að vera markmið í sjálfu sér, það er verið að gera það að tæki til að þjóna óæðra markmiði.

Murdoch Já. Eins og ég sagði, ég held ekki að listamaðurinn, sem listamaður, hafi skyldu við samfélagið. Borgari hefur skyldu við samfélagið og rithöfundi gæti stundum fundist að hann ætti að skrifa sannfærandi blaðagreinar eða bæklinga, en þetta væri annars konar starfsemi. Skylda listamannsins er við listina, við sannleikssögn í sínum eigin miðli, skylda rithöfundarins er að skapa besta bókmenntaverkið sem er á hans færi, og hann verður að finna út hvernig hægt er að gera þetta. Þetta kann að virðast óeðlilegur greinarmunur á listamanni og borgara en ég held það sé þess virði að hugsa svona. Áróðursleikrit sem stendur á sama um list verður sennilega villandi lýsing jafnvel þótt kveikjan að því sé góðar grunnhugmyndir. Sé alvarleg list meginmarkmið þá er einhvers konar réttlæti meginmarkmið. Gera má ráð fyrir að samfélagslegt þema sem sett er fram sem list verði skýrara en ella jafnvel þótt það sé ekki eins sannfærandi á stundinni. Og hvaða listamaður sem er getur þjónað samfélagi sínu óbeint með því að leiða í ljós hluti sem fólk hefur ekki veitt eftirtekt eða skilið. Ímyndunaraflið afhjúpar, það útskýrir. Þetta er hluti af því sem átt er við með því að segja að listin sé eftirlíking. Í öllum samfélögum er áróður en það skiptir máli að greina hann frá list og að varðveita hreinleika og sjálfstæði listiðkunar. Í góðu samfélagi eru margir ólíkir listamenn sem gera marga ólíka hluti. Vont samfélag þvingar listamenn vegna þess að það veit að þeir geta opinberað alls konar sannindi.

Magee Við ræddum fyrst greinarmuninn á heimspeki og bókmenntum, og síðan heimspekilegar hugmyndir um bókmenntir. Nú skulum við snúa okkur að heimspeki í bókmenntum. Með þessu á ég við fleira en eitt. Tökum skáldsögur sem dæmi. Í fyrsta lagi hafa verið nokkrir frægir heimspekingar – eða hugsuðir mjög svipaðir heimspekingum, svo sem Voltaire – sem voru sjálfir skáldsagnahöfundar: Rousseau, til dæmis, eða á okkar tímum Jean-Paul Sartre. Svo eru í hópi annarra skáldsagnahöfunda nokkrir sem hafa orðið fyrir áhrifum frá heimspekilegum hugmyndum. Tolstoy skrifar eftirmála við Stríð og frið þar sem hann útskýrir að hann hafi í þessari skáldsögu verið að reyna að láta í ljós ákveðna söguheimspeki. Tilvistarspekingar lýsa Dostojevskí alloft sem mestum allra tilvistarlegra rithöfunda. Proust er í Leit að glötuðum tíma mjög upptekinn af vandamálum um eðli tímans, sem er líka eitt hinna sígildu viðfangsefna heimspekinga. Geturðu sagt eitthvað um hvers konar hlutverki heimspekin geti gegnt í skáldsögum?

Murdoch Ég sé ekkert ‘almennt hlutverk’ heimspekinnar í bókmenntum. Talað er um ‘heimspeki’ Tolstoys en það er í rauninni bara ‘tekið svona til orða’. Og Bernard Shaw er skelfilegt dæmi um rithöfund sem ranglega ímyndar sér að hann hafi ‘heimspeki’. Sem betur fer skaða ‘hugmyndir’ hans leikritin ekki um of. Þegar T. S. Eliot segir að það sé ekki verkefni skáldsins að hugsa og að hvorki Dante né Shakespeare hafi getað það, skil ég hann þótt ég mundi ekki orða það svona. Vitanlega verða rithöfundar fyrir áhrifum frá hugmyndum síns tíma og kunna að hafa áhuga á breytingum í heimspeki en sennilega fer lítið fyrir heimspekinni sem þeim tekst að tjá. Ég hygg að jafnskjótt og heimspeki kemst inn í bókmenntaverk verði hún leiksoppur höfundarins og það með réttu. Þar er engin ströng nákvæmni um hugmyndir og röksemdir, reglurnar eru aðrar og sannleika er öðruvísi miðlað. Ef svokölluð ‘hugmyndaskáldsaga’ er vond list hefði verið betra að setja hugmyndirnar, ef einhverjar eru, fram annars staðar. Ef það er góð list er hugmyndunum annaðhvort breytt eða þær birtast sem litlir hugleiðingabútar (eins og hjá Tolstoy) sem lesandinn umber með glöðu geði vegna afgangsins af verkinu. Miklir nítjándu aldar skáldsagnahöfundar komast upp með mikinn ‘hugmyndaleik’ í verkum sínum en maður gæti ekki litið á hann sem heimspeki. Auðvitað getur verið að listamenn sem skrifa sem gagnrýnendur og velta fyrir sér list sinni séu ekki mjög ‘heimspekilegir’ en þeir geta verið forvitnilegri og skemmtilegri en heimspekingarnir! Bók Tolstoys Hvað er list? er full af sérvisku en hún lætur í ljós eina djúpstæða meginhugmynd: að góð list sé trúarleg, að hún feli í sér háleitustu trúarhugmyndir síns tíma. Segja mætti að besta listin geti einhvern veginn útskýrttrúarhugtakið fyrir hverri kynslóð. Ég er mjög hlynnt þessari hugmynd þótt hún sé ekki heimspekilega sett fram.

Magee Ég er ekki viss um að ég sé þér alveg sammála. Í Stríði og friði segir Tolstoy að eitt af því sem skáldsagan eigi að gera sé að setja fram sérstaka söguheimspeki. Eða tökum merka enska skáldsögu eins og Tristram Shandy eftir Laurence Sterne. Hún var ekki aðeins undir beinum áhrifum frá kenningum Lockes um hugmyndatengslin: Þetta er í raun og veru nefnt í sögunni og með orðum sem greinilega vísa til sögunnar sjálfrar. Sterne var með öðrum orðum vísvitandi að gera eitthvað sem hann sjálfur tengdi kenningu Lockes um hugmyndatengslin. Það eru því í raun og veru til miklar skáldsögur þar sem notkun heimspekilegra hugmynda er hluti af byggingunni.

Murdoch Kannski það sé sumpart vegna þess að mér sjálfri hryllir svo við að koma kenningum eða ‘heimspekilegum hugmyndum’ sem slíkum að í skáldsögum mínum. Ég gæti skotið inn einhverju um heimspeki af því að svo vill til að ég veit eitthvað um heimspeki. Ef ég vissi eitthvað um seglskip mundi ég koma seglskipum að, og að vissu leyti, sem skáldsagnahöfundur, vildi ég fremur vita eitthvað um seglskip en heimspeki. Auðvitað hugsa skáldsagnahöfundar og ljóðskáld, og miklir höfundar og mikil skáld hugsa ákaflega vel (og T. S. Eliot hefur ekki bókstaflega á réttu að standa), en það er annað mál. Tolstoy eða einhver kann að segja að hann skrifi til að ‘setja fram heimspeki’ en hvers vegna ættum við að halda að honum hafi tekist það. Skáldsögur Rousseaus og Voltaires eru vissulega kröftug dæmi um ‘hugmyndaskáldsögur’ og hafa verið mjög áhrifamiklar bækur á sínum tíma. Nú virðast þær gamaldags og frekar úreltar, og þar er forminu um að kenna. Mér dettur í hug ein góð heimspekileg skáldsaga sem ég dáist mjög að en það erÓgleðin (La Nausée) eftir Sartre. Þeirri sögu tekst að setja fram nokkrar athyglisverðar hugmyndir um hendingu og meðvitund og vera eftir sem áður listaverk sem þarf ekki að lesa í ljósi kenninga sem höfundurinn hefur sett fram annars staðar. Þetta er fágætur gripur. Auðvitað er hún enn heimspekilega ‘fersk’.

Magee Gott og vel, við skulum taka Ógleðina eftir Jean-Paul Sartre. Ég er þér sammála, ég tel að hún sé stórbrotin skáldsaga. Hún setur einnig fram heimspekikenningu, er það ekki? Það kann að vera einstætt afrek að setja fram heimspekikenningu á svo árangursríkan hátt í formi skáldverks, en sú staðreynd að það hefur verið gert sýnir að það er hægt að gera það. Ég held það sé mikilvægur skoðanaágreiningur milli okkar sem við getum kannski ekki leyst í þessari umræðu. Mér virðist að þú sért að reyna að segja að heimspekin sem slík eigi ekki heima í skáldverkum nema að svo miklu leyti sem hún getur verið efniviður eins og hvaðeina annað getur verið það. En ég vil hins vegar segja að sumar miklar skáldsögur noti heimspekilegar hugmyndir ekki aðeins sem efnivið í þeim skilningi heldur þannig að þær séu snar þáttur af byggingu verksins.

Murdoch Tilfelli Sartres kann að vera sérstakt. Það er bókmenntalegt ‘andrúmsloft’ í fyrri heimspeki hans. Veran og neindin (L’Etre et le Néant) er full af ‘myndum og samtölum’. Sartre leggur áherslu á dramatískari hliðarnar á heimspeki Hegels sem er full að sögulegum dæmum og þar sem hreyfing hugsunarinnar sjálfrar er skoðuð með hliðsjón af formlegum andstæðum og árekstrum. ‘Hugmyndir’ virðast eiga betur heima í leikhúsinu þótt (eins og hjá Shaw) hér kunni að vera fólgin blekking. Ég er ekki viss um að hve miklu leyti leikrit Sartres skaðast, eða skaðast ekki, af því að kveikjan að þeim er fræðileg. Vissulega sést það af öðrum skáldsögum Sartres, og skáldsögum Simone de Beauvoir, og ég hef miklar mætur á þeim öllum, hvernig listaverkið stirðnar um leið og kveikt er á hinni ’tilvistarlegu rödd’. Almennt er ég treg til að segja að djúpgerð nokkurs góðs bókmenntaverks gæti verið heimspekileg. Ég held ekki að þetta snúist bara um orð. Dulvitundin er ekki heimspekingur. Hvort sem manni líkar betur eða verr ristir listin dýpra en heimspekin. Hugmyndir í list verða að þola róttæka breytingu. Hugsaðu þér hve mikið er af frumlegri hugsun í Shakespeare og hve guðdómlega lítt áberandi hún er. Auðvitað er hugsun sumra rithöfunda miklu augljósari, en eins og hjá Dickens eru hugleiðingar þeirra fagurfræðilega mikilvægar að svo miklu leyti sem þær tengjast, gegnum sögupersónu til dæmis, hlutbundnum undirstöðum. Þegar við spyrjum um hvað skáldsaga sé erum við að spyrja um eitthvað djúpstætt. Um hvað eru verk Prousts, og hvers vegna ekki bara að lesa verk Bergsons? Það er alltaf eitthvað siðrænt sem nær dýpra en hugmyndirnar: innviðir góðra bókmenntaverka varða erótíska leyndardóma og djúpstæð, myrk átök milli góðs og ills.

Magee Sé sagnaskáld að fást við ‘eitthvað siðrænt sem nær dýpra en hugmyndirnar’ hlýtur þetta að þýða að skáldskapur flæki höfundinn óhjákvæmilega í forsendur sem eru ekki aðeins af siðrænum-heimspekilegum toga heldur jafnvel af siðrænni-frumspekilegri gerð. Eitt af því sem ég hef í huga er þetta. Saga af hvaða tæi sem er, og lýsing af hvaða tæi sem er, hlýtur að fela í sér gildisdóma, ekki bara í orðunum sem notuð eru heldur í því sem valið er til að segja frá eða lýsa yfirleitt. Það er því einfaldlega ekki um það að ræða að gildisdómar geti ekkiverið snar þáttur af byggingu verksins. Könnun á því hvað þessir gildisdómar eru er heimspekilegt viðfangsefni, alltént að hluta til, og það á líka við alla alvarlega gagnrýna umfjöllun um þá. Ef sagan er alvörusaga um fólk og samband milli fólks er engin leið að komast hjá að afhjúpa siðrænar forsendur af mörgum, flóknum og djústæðum gerðum.

Murdoch Ég er sammála, það er ekki hægt að komast hjá gildisdómum. Gildismat sést, og það sést greinilega, í bókmenntum. Það eru mikilvægar siðrænar forsendur, til dæmis um trúarbrögð og samfélag, sem tilheyra breytilegu ‘andrúmslofti skoðana’. Brotthvarf almenns trausts á trúarbrögðum og félagslegu stigveldi hefur haft djúptæk áhrif á bókmenntir. Vitund okkar breytist og breytingin getur komið fram í listinni áður en farið er að útlista hana í fræðikenningu, enda þótt fræðikenningin geti líka seinna meir haft áhrif á listina. Hér gætum við nefnt samtímaskóla gagnrýnenda sem hafa sérstaklega áhuga á nýlegum vitundarbreytingum. Ég á við formstefnumennina í bókmenntum sem hafa reynt að þróa bókmenntagagnrýni upp úr formgerðarstefnuheimspeki. ‘Formgerðarstefna’ er heiti á mjög almennri heimspekilegri afstöðu sem á rætur að rekja til málvísinda og mannfræði hjá hugsuðum eins og Saussure og Lévi-Strauss.

Magee Einmitt, eins og þú segir, hún átti upptök sín í málvísindum. Við gætum skýrt þetta þannig með dæmi: Þú og ég erum að skiptast á skoðunum með því að segja setningar sem hver um sig inniheldur tiltölulega fá orð. En til þess að einhver skilji okkur er ekki nóg fyrir hann að þekkja bara orðin sem við erum að nota: Hann verður að þekkja heilt málkerfi, í þessu tilviki enska tungu. Hér er um að ræða andóf gegn hugmynd sem kom upp á nítjándu öld sem afleiðing af þróuninni í raunvísindum, þeirri hugmynd að til að skilja eitthvað ætti maður að einangra fyrirbærið og skoða það gegnum smásjá, ef svo má að orði komast. Grunnhugmynd formgerðarstefnunnar er andóf gegn þessu sem segir: ‘Nei, eina leiðin til að geta raunverulega skilið fyrirbæri er að tengja þau við stærri formgerðir eða heildir. Reyndar felur sjálf hugmyndin um skiljanleika það í sér að tengja hluti við heildir’. Heimfærsla þessarar skoðunar á bókmenntir hefur leitt til þess að sérhver ritsmíð er fyrst og fremst skoðuð sem bygging úr orðum.

Murdoch Já. Í þessari skoðun kemur fram einskonar kvíðablandin sjálfsvitund um tungumálið sem hefur verið greinileg í bókmenntum að minnsta kosti síðan á dögum Mallarmés. Hún hefur líka komið fram í málheimspekinni. Það mætti segja að Wittgenstein væri ‘formgerðarsinni’. ‘Það sem tákn geta ekki tjáð sýnir beiting þeirra’, segir hann í Rökfræðilegri ritgerð um heimspeki (Tractatus, 3.262). Margar hliðar á kenningunni eru ekki nýjar; hún á misleita bókmenntalega og heimspekilega forfeður svo sem fyrirbærafræðingana, súrrealistana og Sartre. Hún er ekki nákvæmlega samræmd kenning. ‘Vitundarbreytingin’ sem formstefnumenn hafa áhuga á er afleiðing þess að við verðum vitandi um sjálf okkur sem dýr sem nota tákn og ‘mótum’ heiminn og okkur sjálf með þeirri starfsemi okkar að gefa hlutum merkingu. Hér er um að ræða heimspekilega eða hálfheimspekilega ósagða forsendu sem getur haft áhrif á bókmenntirnar alveg eins og marxískar forsendur geta haft áhrif á þær. Það er einskonar bókmenntaleg hughyggja eða bókmenntaleg einhyggja. Formstefnumenn vilja lækna okkur af því sem mætti kalla ‘raunsæisvilluna’ en samkvæmt henni ímyndum við okkur að við getum horft gegnum tungumálið á sérstakan heim handan þess. Ef málið ‘mótar’ heiminn getur það ekki vísað til hans. Rithöfundurinn verður að gera sér grein fyrir því að hann lifir og hrærist innan ‘merkingarheims’ og má ekki halda að hann geti farið gegnum hann eða skriðið undir táknanetið. Þessi kenning kemur mörgum formstefnumönnum upp á kant við raunsæisskáldsöguna og hinar gamalkunnu hefðir aðgengilegra bókmennta sem þykjast nota málið eins og einfaldan gegnsæjan miðil. Hin klassíska saga, hinn klassíski hlutur, hið klassíska sjálf með öllum sínum traustu hvötum eru ‘gerviheildir’ myndaðar af misskilningi á tungumálinu. Þá hugmynd að sjálfið sé ekki ein heild má rekja aftur til Humes og sá grunur að málið sjálft sé eins konar frumgalli nær aftur til Platons. Fjöldi rithöfunda frá því á tíma rómantísku stefnunnar hefur smám saman fengið áhuga á þessum hugmyndum og leikið sér með þær. Formstefnan er nýjasta kerfisbundna tilraunin til að lýsa og útskýra það sem nú er orðið nokkuð langt og misleitt ferli. Slík tilraun hlýtur að vera mikilvæg og áhugaverð en mér sjálfri finnst andrúmsloftið í henni og fagorðaforði hennar of hamlandi. Ég tel að breytingar í bókmenntum séu dularfyllri og ekki svona einhlítar og að bókmenntaform séu fjölþætt í dýpri merkingu en slíkir gagnrýnendur virðast gefa í skyn. Í öfgafyllri birtingarmyndum sínum getur formstefnan orðið frumspekileg kenning sem neitar, eins og slíkar kenningar gera oft, gagnlegum og nauðsynlegum greinarmuni, í þessu tilfelli greinarmuninum á sjálfinu og heiminum og á meira og minna tilvísandi (eða ‘gegnsærri’) notkun tungumálsins. Listamaður veit hvað það er að horfa á heiminn en fjarlægð hans og annarleiki er aðalvandi hans. Þegar doktor Johnson ‘afsannaði’ efnisleysiskenningu Berkeleys með því að sparka í stein var hann réttilega að mótmæla frumspekilegri tilraun til að eyða nauðsynlegum greinarmuni. Rithöfundurinn mun alltaf velja sjálfur og nota málið eins og honum þóknast og eins og hann getur og hann má ekki láta neyða sig með fræðikenningu til að ímynda sér að hann geti nú ekki sagt venjulega sögu heldur verði að búa til sjálfhverfa orðasmíð sem brýtur í bága við hvernig skilningi fólks er venjulega háttað. Sem hluta af forskriftarkenningu sinni hafa sumir formstefnumenn reynt að móta ‘skáldskaparfræði’, hlutlausa hálfvísindalega kenningu sem tengist bókmenntum eins og málvísindi tengjast náttúrlegu tungumáli. En slíkt ‘hjálparmál’ mundi vera háð einhverri hlutlausri aðferð til að bera kennsl á frumþætti í efniviðnum sem á að sundurgreina, og ekki er ljóst hvað menn gætu verið sammála um að væru ‘frumþættir’ í bókmenntum. Mér virðist að allur áhugaverður og mikilvægur skoðanamunur mundi sennilega brjótast út á fyrsta stiginu og þannig ‘smita’ hjálparmálið með gildisdómum. Þannig að nema því aðeins að slík kenning væri ákaflega sértekin og einföld (og því ófullnægjandi) mundi hún einungis reynast vera bókmenntagagnrýni með öðrum aðferðum. Við höfum svo margar tegundir tengsla við listaverk. Bókmenntaverk er ákaflega fjölþætt fyrirbæri sem útheimtir fordómalausa fjölþætta svörun. Ennfremur sameinar fagurfræðileg gagnrýni visst almennt gildi og ‘yfirlýst’ samband við ákveðinn hlut sem hlustandinn horfir á meðan gagnrýnandinn talar. Vitanlega vilja nemendur oft fá einhverja hughreystingu með ‘kenningu um gagnrýni’, og einfaldanir létta erfiði frumlegrar hugsunar. En gagnrýnendur eru betur settir án samanreyrðrar, kerfisbundinnar bakgrunnskenningar, vísindalegrar eða heimspekilegrar. Góður gagnrýnandi er afslappaður fjölfræðingur. Og ég mundi ekki heldur fallast á þá háskalegu röksemd að það að hafa enga sérstaka kenningu þýði að maður hafi ‘borgaralega’ kenningu. Auðvitað lifum við, eins og við hljótum að gera, innan sögulegra takmarkana. En sem gagnrýnendur og hugsuðir og siðferðisverur getum við reynt að skilja hvatir okkar og viðhorf og að greina sönn gildi frá staðbundnum hleypidómum og þröngsýnum siðvenjum. ‘Hið borgaralega tímabil’ hefur fært okkur tilteknar siðgæðishugmyndir svo sem hugmyndina um réttindi og einstakilingsfrelsi sem við getum metið til varanlegs gildis. Á þessu tímabili urðu líka til miklar bókmenntir sem láta í ljós úreltar hugmyndir en lofsyngja líka gildi sem enn eru okkar gildi. Hér má skírskota til skilnings á manneðlinu sem á rætur að rekja til Grikkja. Það er mikilvæg staðreynd að við getum skilið Hómer og Æskýlos. Bókmenntir eru reyndar helsti miðlari og skapari þessa víðtæka skilnings. Kenning sem útilokar fólk frá hinum miklu bókmenntum fortíðarinnar sviptir það sögulegri og siðferðilegri fræðslu og líka mikilli ánægju.

Magee Í reynd eiga bókmenntir sem skrifaðar eru undir áhrifum formstefnukenninga vanda til að vera bókmenntir handa hópi kunnáttumanna, ekki bókmenntir sem geta haft mjög víðtæka skírskotun. Mér virðist hin gefna forsenda heilbrigðrar / almennrar skynsemi að tungumálið tengist heimi hluta og fólks vera nauðsynlegt grundvallaratriði fyrir bókmenntir sem ætla að hafa breiðan lesendahóp – og það er vissulega staðreynd að flestir mestu höfundarnir, frá Shakespeare og áfram, hafa víða notið skilnings og verið mikils metnir. Ég verð að játa að ég hallast mjög á eina sveif í þessari deilu. Ég er ekki sérlega hrifinn af því, hvorki í heimspeki né bókmenntum, að sjá að orðin sjálf séu gerð að aðalatriði. Ég tel það ætti að líta á þau, í báðum greinum, sem miðil sem kemur manni í samband við heiminn, hvort sem það er heimur fólks eða hluta eða náttúru, vandamála eða hugmynda eða listaverka.

Murdoch Já, en ég tel það sé listamannsins að ákveða hvernig hann á að nota orð. Rithöfundar sem hafa aldrei heyrt um formstefnu geta skrifað þannig að það veki athygli formstefnumanna. Skáldverkin Tristram Shandy og Finnegans Wake eru réttlætt sem list án neinnar/nokkurrar fræðikenningar til stuðnings. Við dæmum kenningar með réttu eftir getu þeirra til að útskýra ástand mála sem við erum þegar vel heima í og við verðum að taka afstöðu ráðist kenningin á það sem við höfum fyrir satt eða teljum rétt. Ég veit hverjir eru miklir höfundar á liðinni tíð og ég gef þá ekki upp á bátinn vegna kenningar en íhuga frekar kenninguna í ljósi þeirra. Vitanlega eru bókmenntir list og, ef mér leyfist að grípa hér til orðsins ‘form’, þá eru þær sköpun formlegra hluta sem í vissum skilningi mynda sjálfstæða heild. Kvæði, leikrit eða skáldsaga birtist venjulega sem lokað mynstur. En það er líka opið að svo miklu leyti sem það vísar til veruleika handan við sjálft sig og slík vísun vekur spurningarnar um sannleik sem ég hef þegar minnst á. Listin er sannleikur jafnt sem form, hún lýsir einhverju raunverulegu jafnframt því að hún lýtur eigin lögmálum. Auðvitað getur miðlunin verið óbein en margræðni mikils höfundar skapar rými sem við getum kannað og notið vegna þess að þau opna sýn út í hinn raunverulega heim og eru ekki formlegir málleikir eða gluggaborur persónulegra hugaróra. Og við verðum ekki þreytt á miklum höfundum vegna þess að það sem er satt er áhugavert. Hugmynd Tolstoys að listin sé trúarlegs eðlis á heima einhvers staðar hér. Eins og ég sagði skynja allir alvarlegir listamenn fjarlægð milli sín og einhvers alls annars sem þeir finna til auðmýktar gagnvart af því að þeir vita að það er langtum flóknara og undursamlegra og ægilegra og furðulegra en nokkuð sem þeir geta nokkru sinni tjáð. Þetta ‘annað’ er eðlilegast að kalla ‘veruleika’ eða ‘náttúru’ eða ‘heiminn’ og þetta er talsmáti sem ekki má leggja niður. Fegurð í list er hin formlega, hugvitssamlega tjáning á einhverju sönnu og gagnrýni verður að hafa frelsi til að geta dæmt um sannleik í list. Bæði listamaður og gagnrýnandi horfa á tvennt: ‘lýsingu’ eða ‘mynd’ og eitthvað ‘annað’ eða ‘veruleika’. Vitanlega er þetta ‘áhorf’ ekki einfalt. Þjálfun í list er að miklu leyti þjálfun í því hvernig á að finna prófstein á sannleik, og það er til hliðstæð þjálfun í gagnrýni.

Magee Síðasta atriðið hjá mér var um vissar gerðir sjálfsvitundar um beitingu tungumálsins. Nú vildi ég gjarnan koma fram með spurningu um annað atriði. Áberandi einkenni heimspekinnar á tuttugustu öld, einkanlega í hinum engilsaxneska heimi, hefur verið algerlega ný tegund áhuga á tungumálinu og þar af leiðandi ný sjálfsvitund um notkun málsins sem getur leitt til afar fágaðrar og nákvæmrar notkunar orða. Hefur þetta á nokkurn hátt smitað skáldsöguna? Þú sjálf sem hlaust fyrst menntum sem heimspekingur og gerðist síðan skáldsagnahöfundur – hefur það haft áhrif á hvernig þú skrifar skáldsögur þínar?

Murdoch Það er rétt að það hefur orðið einskonar kreppa í sambandi okkar við tungumálið, við erum miklu meðvitaðri um það og þetta hefur áhrif á rithöfunda.

Magee Ein óhjákvæmileg afleiðing af þessu er að ekki er lengur hægt að skrifa eins og skáldsagnahöfundar nítjándu aldar.

Murdoch Auðvitað erum við ekki nándar nærri eins góð og nítjándu aldar höfundarnir, en við skrifum líka öðruvísi.

Magee Þetta er ákaflega áhugavert umræðuefni. Geturðu sagt meira um hvers vegna við getum ekki skrifað eins og þeir?

Murdoch Það er mjög erfitt að svara þessari spurningu. Það er augljós munur sem varðar sjónarmið höfundarins og samband hans við persónur sínar. Samband höfundar við persónur sínar leiðir heilmikið í ljós um siðferðilega afstöðu hans, og þessi tæknilegi munur á okkur og rithöfundum nítjándu aldar er siðferðileg breyting en breyting sem erfitt er að brjóta til mergjar. Almennt eru sögur okkar kaldhæðnislegri og ekki eins öruggar með sig. Við erum ekki eins djörf, hrædd um að virðast einföld eða barnaleg. Sagan tengist með takmarkaðri hætti vitund höfundarins sem segir frá gegnum vitund einhverrar sögupersónu eða persóna. Venjulega er enginn beinn dómur eða lýsing frá hendi höfundar sem talar eins og opinber skynsemi sem stendur fyrir utan. Að skrifa líkt og nítjándu aldar skáldsagnahöfundur að þessu leyti nú virðist eins og stílbragð og er stundum notað sem slíkt. Eins og ég sagði hér áðan tel ég að bókmenntir séu um baráttuna milli góðs og ills, en þetta kemur ekki skýrt fram í nútímaverkum þar sem er andrúmsloft siðferðilegs öryggisleysis og þar sem persónurnar er venjulega miðlungsfólk. Margt veldur breytingum í bókmenntum og sjálfsvitund um tungumálið kann að vera frekar einkenni en orsök. Brotthvarf eða veiklun skipulagðrar trúar er ef til vill það mikilvægasta sem hefur gerst hjá okkur á síðustu hundrað árum. Skáldsagnahöfundar nítjándu aldar tóku trúna sem sjálfsagðan hlut. Þegar samfélagslegt stigveldi er úr sögunni og trúin er fyrir bí verða menn varkárari í mati sínu og dómum, og áhugi á sálgreiningu gerir þetta að sumu leyti flóknara. Allar þessar breytingar eru svo merkilegar og svo ögrandi að það hljómar eins og við ættum að vera betri en fyrirrennarar okkar en við erum það ekki!

Magee Þessari umræðu fer nú senn að ljúka en áður en við ljúkum henni vildi ég gjarnan fara dálítið rækilegar en okkur hefur tekist hingað til út í þá spurningu hvað samband höfundar við persónur hans leiðir í ljós um siðferðilega afstöðu hans.

Murdoch Það er mikilvægt að hafa hugfast að tungumálið sjálft er siðrænn miðill, næstum því öll málnotkun miðlar gildum. Þetta er ein ástæðan fyrir því að við erum sívirk siðferðilega. Lífið er gegnsýrt af siðferði, bókmenntirnar eru gegnsýrðar af siðferði. Ef við reyndum að lýsa þessu herbergi mundu lýsingar okkar eðlilega bera með sér alls konar gildi. Það er einungis með erfiðismunum sem menn útrýma gildum úr málinu til vísindalegra þarfa. Skáldsagnahöfundur opinberar því gildismat sitt með öllu sem hann kann að skrifa. Sérstaklega hlýtur hann að fella siðadóma að svo miklu leyti sem viðfangsefni hans er hegðun mannvera. Ég gaf í skyn hér á undan að listaverk sé bæði eftirlíking á einhverju og formlegt og vitanlega rekst þetta tvennt stundum á. Í skáldsögunni getur þessi árekstur birst sem átök milli persóna og sögufléttu. Setur höfundurinn persónum sínum skorður til að henta sögufléttunni eða til að henta eigin skoðunum og þema? Eða stendur hann álengdar og leyfir persónunum að þróast óháð sér og hver annarri án tillits til sögufléttu eða einhvers almenns ‘tóns’ sem vegur meira. Og alveg sérstaklega: Hvernig gefur höfundurinn til kynna siðferðilega velþóknun eða vanþóknun á persónum sínum. Hann verður að gera þetta, meðvitað eða ómeðvitað. Hvernig réttlætir hann góða manninn, hvernig kynnir hann hann eða jafnvel ýjar að tilvist hans? Siðgæðismat höfundarins er loftið sem lesandinn andar að sér. Hér sést mjög greinilega andstæðan milli blindra hugaróra og ímyndunaraflsins sem fram kemur í hugarsýn okkar. Vondur rithöfundur lætur undan persónulegri þráhyggju og upphefur sumar persónur en lítillækkar aðrar án nokkurs tillits til sannleiks eða réttlætis, það er að segja án nokkurrar viðeigandi fagurfræðilegrar ‘skýringar’. Hér er ljóst hvernig veruleikahugmyndin kemur inn í bókmenntamat. Góður höfundur er hinn réttláti, skynsami dómari. Hann réttlætir stöðu persóna sinna með einhvers konar vinnu sem hann innir af hendi í bókinni. Bókmenntalegur galli eins og til dæmis væmni stafar af upphafningu án vinnu. Þessi vinna getur vitanlega verið af mismunandi tæi og alls konar aðferðir við að skapa sögupersónum stöðu í verkinu, eða alls konar samband persóna og sögufléttu eða þema, kann að skapa góða list. Gagnrýni er mjög upptekin af aðferðunum við að gera þetta. Mikill höfundur getur sameinað form og persónur á heppilegan hátt (hugleiddu hvernig Shakespeare gerir það) til þess að búa til stórt rými þar sem persónurnar geta verið frjálsar og samt um leið þjónað markmiðum sögunnar. Mikið listaverk gefur manni tilfinningu um rými, eins og honum hefði verið boðið inn í einhvern stóran speglasal.

Magee Þýðir þetta sem þú varst að segja að, þegar allt kemur til alls, verði skáldskapur, enda þótt hann sé skáldskapur, að eiga sér rætur í einhvers konar viðurkenningu á hlutunum eins og þeir eru og jafnvel virðingu fyrir hlutunum eins og þeir eru?

Murdoch Ja, listamenn eru oft byltingarsinnaðir í einum eða öðrum skilningi. En góður listamaður hefur, held ég, veruleikaskyn og mætti segja að hann skildi ‘hvernig hlutirnir eru’ og hvers vegna þeir eru. Vitanlega er orðið ‘veruleiki’ frægt að endemum í heimspeki fyrir margræðni og ég hef notað það til að gefa hvort tveggja í skyn að alvarlegur listamaður horfi á heiminn og sjái meira af honum. Mikill listamaður sér undrin sem eigingjarn kvíði dylur fyrir okkur hinum. En það sem listamaðurinn sér er ekki eitthvað aðskilið og sérstakt, eitthvert frumspekilega einangrað ævintýraland. Listamaðurinn leggur mjög mikið af sjálfum sér í verk sitt, og hann starfar í heimi almennrar skynsemi og sættir sig venjulega við hann. List er náttúrlega miðlun (aðeins öfugsnúin hugvitssemi getur reynt að neita þeim augljósa sannleik) og þetta felur í sér að tengja fjarlægasta veruleikann því sem er nær, eins og sannsögull könnuður verður að gera. Þetta er eitthvað sem gagnrýnandinn verður líka að horfa á. Hvenær er óhlutbundið málverk vond list, hvenær er það alls ekki list? Óhlutbundið málverk er ekki bara vísvitandi hugarburður eða ögrun, það tengist eðli rúms og litar. Hinn óhlutbundni málari lifir og myndir hans sjást í heimi þar sem litir eru álitnir vera yfirborð hluta og vitund hans um þetta er hluti af viðfangsefni hans. Slík spenna milli listrænnar sjónar og ‘venjulegs’ veruleika kann að gefa tilefni til mjög fágaðra og erfiðra dóma. Bókmenntir tengjast því hvernig við lifum. Sumir heimspekingar segja að sjálfið sé ósamfellt og sumir rithöfundar kanna þessa hugmynd, en skrifin (og heimspekin) eiga sér stað í heimi þar sem við höfum góðar og gildar ástæður til að ætla að sjálfið sé samfellt. Auðvitað er þetta ekki málsvörn fyrir ‘raunsæis-‘ skrif. Með þessu er sagt að listamaðurinn geti ekki komist hjá kröfunum um sannleik, og að ákvörðun hans um hvernig skuli segja sannleik í listinni sé mikilvægasta ákvörðun hans.

Magee Heldurðu að þessi viðurkenning á veruleikanum feli í sér eitthvað ‘íhaldssamt’ með litlum staf? Það sem ég hef í huga er sú tegund viðurkenningar á hlutum og fólki eins og þau eru sem getur sprottið af mjög miklum áhuga og tengist líka ást. Hvað snertir fólk, að minnsta kosti, mundi ‘umburðarlyndur’ ef til vill vera betra orð en ‘íhaldssamur’.

Murdoch Ég mundi vilja segja að allir miklir listamenn séu umburðarlyndir í list sinni, en kannski er ekki hægt að halda þessu fram með rökum. Var Dante umburðarlyndur? Ég held að flestir miklir rithöfundar hafi einskonar rólega, milda sýn vegna þess að þeir sjá hve fólk er ólíkt og hvers vegna það er ólíkt. Umburðarlyndi tengist því að geta ímyndað sér miðstöðvar veruleika sem eru fjarlægar manni sjálfum. Frá Hómer og Shakespeare og skáldsagnahöfundunum miklu stafar andblæ umburðarlyndis og drenglyndis og gáfulegrar góðvildar. Mikill listamaður sér hið gríðarstóra áhugaverða safn þess sem er annað en hann sjálfur og lýsir ekki heiminum í sinni mynd. Ég tel að þessi sérstaka tegund mildrar hlutlægni sé dygð, og það er þetta sem alræðisríkið er að reyna að eyðileggja þegar það ofsækir listina.

Gunnar Ragnarsson þýddi

Úr Men of Ideas, some creators of contemporary philosophy, eftir Bryan Magee og viðmælendur hans. – BBC 1978.

Birt á Heimspekivefnum 18. maí 2004

 

« Til baka

Inngangur að heimspeki

Bryan Magee og Isaiah Berlin ræða saman

Inngangur

Magee Í upphafssamræðunni í þessari þáttaröð er ætlunin að glíma við nokkrar grundvallar­spurningar. Hvers vegna skyldi maður hafa áhuga á heimspeki yfirleitt? Hvers vegna skiptir hún máli? Hvað er hún, nákvæmlega?

Heimspekingurinn sem ég hef boðið til að ræða þessar spurningar hefur getið sér alþjóðlegan orðstír. Hann er Sir Isaiah Berlin, félagi í Allra sálna garði í Oxford, ævisöguritari Karls Marx og sérstaklega nafntogaður fyrir þekkingu á hugmyndasögunni.1

UMRÆÐA

Magee Hvaða ástæðu getur þú gefið manni til að fá áhuga á heimspeki ef hann hefur ekki þegar fengið hann af sjálfsdáðum eða með atbeina skólakerfisins?

Berlin Ja, í fyrsta lagi eru heimspekilegar spurningar áhugaverðar í sjálfum sér. Þær fjalla oft um ósagðar forsendur sem margar venjulegar skoðanir byggjast á. Fólk vill ekki að forsendur þess séu rannsakaðar um of – því fer að líða illa þegar það er látið kanna á hverju skoðanir þess byggjast í raun og veru – en í reynd eru forsendur margra venjulegra skoðana sem teljast til almennrar skynsemi efni í heimspekilega greiningu. Þegar þær eru kannaðar á gagnrýninn hátt reynast þær stundum langtum ótraustari og merking þeirra og það sem í þeim felst miklu óljósara en virtist við fyrstu sýn. Með því að rannsaka þær auka heimspekingar sjálfsþekkingu manna.

Magee Okkur finnst öllum óþægilegt að láta kanna forsendur okkar út fyrir viss mörk og handan þeirra marka streitumst við öll á móti því. Hvers vegna erum við svona?

Berlin Ég býst við að það sé sumpart af því að fólki finnst ekki gott að láta rekja sig sundur um of – að láta afhjúpa rætur sínar og skoða þær nákvæmlega – og sumpart vegna þess að athafnaþörfin sjálf útilokar svona lagað. Sé maður virkur þátttakandi í einhverju samfélagi er það hamlandi og kannski að lokum lamandi ef stöðugt er verið að spyrja: „Hvers vegna gerirðu þetta? Ertu viss um að markmiðin sem þú stefnir að séu sönn markmið? Ertu viss um að það sem þú ert að gera brjóti ekki á einhvern hátt í bága við siðareglur eða lífsreglur eða hugsjónir sem þú mundir segja að þú tryðir á? Ertu viss um að sum af gildum þínum rekist ekki hvert á annars horn og að þú viðurkennir það ekki fyrir sjálfum þér? Þegar þú ert flæktur í einhvers konar vandræði ertu þá ekki stundum svo hræddur við að horfast í augu við þau að þú lítur undan og reynir að koma ábyrgðinni af þér yfir á eitthvert breiðara bak – ríki, kirkju eða stétt eða einhvern annan félagsskap sem þú tilheyrir – kannski yfir á hinar almennu siðareglur venjulegs, heiðvirðs fólks – en ættirðu ekki sjálfur að hugsa vandræðin til enda?“ Of mikið af þessu dregur kjark úr fólki eða pirrar það, grefur undan sjálfstrausti þess og skapar auðvitað mótspyrnu.

Platon lætur Sókrates segja að órannsakað líf sé ekki þess virði að lifa því. En væru allir þjóðfélagsþegnar efagjarnir menntamenn sem sífellt væru að rannsaka forsendur skoðana sinna yrði yfirleitt ekkert úr framkvæmdum. Séu forsendur samt ekki kannaðar, og látnar eiga sig, geta samfélög steinrunnið: skoðanir verða að kreddum, ímyndunaraflið brenglast, hugsunin verður ófrjó. Samfélögum getur hnignað sem afleiðing þess að leggjast til svefns í þægilegu rúmi einhverrar kreddu sem ekki hefur verið dregin í efa. Eigi að hreyfa við ímyndunaraflinu, eigi vitsmunirnir að starfa, eigi andlegt líf ekki að fjara út og eftirsókn eftir sannleik (eða réttlæti eða lífsfyllingu) ekki að stöðvast, verður að draga ósagðar forsendur í efa og véfengja það sem tekið er sem gefið fyrirfram – alltént nægilega mikið til að halda samfélaginu á hreyfingu. Menn og hugmyndir þokast að nokkru leyti áfram með föðurmorði þar sem börnin drepa, ef ekki feður sína, þá að minnsta kosti skoðanir feðra sinna og mynda sér nýjar skoðanir. Á þessu byggist þróun, framför. Og í þessu ferli hafa þeir algeru lykilhlutverki að gegna sem spyrja þessara truflandi spurninga og eru gífurlega forvitnir um svörin. Yfirleitt eru ekki margir slíkir einstaklingar í nokkru samfélagi. Þegar þeir stunda þessa iðju skipulega og markvisst og beita röklegum aðferðum sem eru sjálfar opnar fyrir gagnrýninni rannsókn eru þeir kallaðir heimspekingar.

Magee Geturðu gefið einhver dæmi um forsendur sem þörf er á að véfengja?

Berlin Samræður Platons eru elsta og frjóasta heimildin um umræðu um grundvallargildi, viðleitni til að draga í efa hefðbundna visku. Allir góðir heimspekingar hafa gert þetta. Og maður finnur dæmi um þetta í skáldsögum eða leikritum eftir höfunda sem fjalla um slík efni – hugsaðu til aðalpersónanna í leikritum Ibsens, Við upphafið (On the Eve) eftir Turgenjev eða Lengstu ferðinni(The Longest Journey) eftir E. M. Forster. En ef til vill er þekktustu dæmin að finna í stjórnmálaheimspeki eða siðfræði nútímans. Tökum til að mynda tal um frelsi eða tal um jafnrétti (sem heimurinn er um þessar mundir fullur af). Tökum formálsorðin að Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna. Ég man þau ekki orðrétt …

Magee „Við teljum þessi sannindi vera augljós að allir menn séu skapaðir jafnir, að þeir séu frá skaparans hendi gæddir tilteknum óafsalanlegum réttindum, að meðal þessara réttinda séu líf, frelsi og hamingjuleit . . .“

Berlin Þakka þér fyrir. Réttindi, gott og vel. Hvað eru réttindi? Spyrjirðu venjulegan borgara hvað réttindi séu nákvæmlega vefst honum tunga um tönn, hann getur ekki gefið skýrt svar. Hann kann að vita hvað það er að traðka á réttindum einhvers eða að réttur hans sjálfs til einhvers sé virtur að vettugi, en hvað er það nákvæmlega sem verið er að traðka á eða virða ranglega að vettugi? Er það eitthvað sem maður ávinnur sér eða hlotnast við fæðingu? Er það eitthvað sem er stimplað á mann? Er það eitthvert eðliseinkenni mannveru? Er það eitthvað sem einhver hefur gefið manni? Ef svo er, hver? Og hvernig? Er hægt að veita réttindi? Verða þau afnumin? Af hverjum? Með hvaða rétti? Eru til réttindi til að veita eða ógilda önnur réttindi? Hvað merkir það? Getur maður misst réttindi? Eru til réttindi sem eru snar þáttur af eðli manns á sama hátt og hugsun er, eða það að geta andað eða valið milli þessa eða hins? Er það þetta sem átt er við með náttúrlegum réttindum? Sé svo, hvað er átt við með ‘náttúru’ í þessu sambandi? Og hvernig veit maður hver slík réttindi eru?

Menn hafa verið mjög ósammála um hvað réttindi séu. Tökum til dæmis sautjándu öldina þegar mikið var talað um réttindi. Þess ber að minnast að það var borgarastríð í Englandi þar sem eitt aðaldeilumálið snerist um það hvort guðlegur réttur konunga væri til. Við erum mjög vantrúuð á þetta nú á dögum en auðsætt er að til voru menn sem trúðu á þennan rétt. Þeir trúðu því að konungar væru sérstakar verur sem Guð hefði gætt sérstökum réttindum. Það voru til aðrir menn sem trúðu því að engin slík réttindi væru til, að þau væru einber uppspuni guðfræðinga eða skálda. Hvernig rökræddu þeir? Hvers konar röksemdir kom hvor deiluaðilinn um sig með? Hvers konar röksemdir sannfærðu fólk? Undir lok sautjándu aldar var franskur rithöfundur sem velti þessu fyrir sér: Ef Frakklandskonungur hefði hug á að framselja einhverja þegna sína til Englandskonungs hvað mundu þessir þegnar hugsa um framsalið. Og svar hans var í raun að þeir hefðu engan rétt til að hugsa; þeir ættu bara að hlýða; þeir væru þegnar; konungurinn hefði fullkominn rétt til að gera við þegna sína það sem honum þóknaðist. Sjálf hugmyndin að hægt væri að leyfa þeim að hugsa um, eða jafnvel draga í efa, ákvarðanir hans jaðraði við guðlast. Jæja, við vísum þessu á bug, en þetta var samt nokkuð sem var viðurkennt af fjölda fólks sem trúði á stigveldi – að hinn andlegi heimur, jafnt sem efnisheimurinn, væri lagskipt bygging. Hver mannvera ætti sína réttu stöðu í þessari stigveldisheild og ætti að gegna þeim hlutverkum sem staða hennar í hinum mikla samfélagspýramída krafðist. Þetta er nokkuð sem fólk trúði á öldum saman. Síðan komu hugsuðir sem neituðu þessu og sögðu að ekkert slíkt stigveldi væri til, að menn væru jafnir, þeir líktust hver öðrum við fæðingu og væru allir gæddir tilteknum náttúrlegum þörfum, hæfileikum og löngunum, og allir hefðu tiltekin óhagganleg náttúrleg réttindi. Hvað snerti þessi réttindi væru þeir jafnir. Kjarni málsins hjá mér er að þær tegundir röksemda sem hægt er að færa fram fyrir báða málsaðila í deilu af þessu tæi eru tilhlýðilegt heimspekilegt viðfangsefni. Hvaða önnur fræðigrein en heimspekin gæti fjallað um þær? Og þetta eru grundvallarmál sem hafa valdið mönnum miklum áhyggjum lengi, mál sem blóðugar styrjaldir hafa verið háðar út af og byltingar hafa verið gerðar í nafni þeirra.

Magee Ég er viss um að margir mundu segja: „Nú já, það sem þú segir er satt en samt sem áður er það allt í rauninni bara orðaskak. Það er allt saman sértekningar. Maður þarf ekki að íþyngja höfðinu með öllu þessu til þess að lifa lífinu – það kemur raunverulegu lífi, daglegu lífi, ekkert við – og því meir sem maður flækist í svona nokkuð því óhamingjusamari verður hann.“

Berlin Já, það kann að gera mann óhamingjusamari en samt sem áður er til fólk sem vill í raun og veru pæla í þessum hlutum. Það langar til að vita hvers vegna það lifir eins og það lifir og hvers vegna það ætti að gera það. Þetta er öldungis náttúrleg mannleg löngun sem sumar hugmyndaríkustu, greindustu og gáfuðustu manneskjurnar skynja dýpst. Vissulega er það orða­skak – en þá er þess auðvitað að gæta að orð eru ekki bara orð, spilapeningar í einhverjum textafræðilegum leik. Orð tjá hugmyndir. Málið vísar til reynslu og tjáir hana og umbreytir henni.

Magee Þú hefur gefið mér dæmi um heimspekilegar spurningar um stjórnmál með því sem þú sagðir um réttindi. Geturðu nú gefið einfalt dæmi um heimspekilega spurningu sem er siðferðileg til aðgreiningar frá spurningu um stjórnmál?

Berlin Jæja, ég skal segja þér sögu sem maður nokkur sagði mér um reynslu sína í seinni heimsstyrjöldinni. Hann var breskur leyniþjónustufulltrúi í Frakklandi sem undir styrjaldarlok þurfti að yfirheyra franskan svikara sem franska andspyrnuhreyfingin hafði handsamað. Svikarinn hafði unnið fyrir Gestapó og andspyrnuhópurinn var í þann veginn að taka hann af lífi. Breski leyniþjónustufulltrúinn bað um leyfi til að yfirheyra hann fyrst af því að hann hafði ástæðu til að halda að maðurinn kynni að búa yfir upplýsingum sem gætu hjálpað til við að bjarga saklausu fólki frá dauða eða pyndingu. Nú, hann fór að hitta þennan Gestapónjósnara, kornungan mann, sem sagði við hann: „Hvers vegna ætti ég að svara spurningum þínum? Ef þú getur lofað mér að ég haldi lífi, skal ég svara. En ég veit að þessir menn ætla að drepa mig á morgun og ef þú getur ekki lofað mér að ég haldi lífi hví í ósköpunum ætti ég þá yfirleitt að tala?“ Hvað hefði breski fulltrúinn átt að gera í þessum kringumstæðum? Skylda hans sem fulltrúi leyniþjónustunnar var að toga út eins miklar upplýsingar og hann gat – líf margra einstaklinga kunni að vera undir því komið – en hann gat þó aðeins gert þetta með því að ljúga. Það hefði ekkert gagnað að segja: „Ég skal gera það sem ég get til að fá þá til að þyrma lífi þínu“, eða eitthvað í þeim dúr. Hann vissi að hann gat ekkert gert til að forða manninum frá aftöku og maðurinn hefði séð í gegnum alla viðleitni til að komast hjá að gefa afdráttarlaust loforð. Hefði fulltrúinn sagt hiklaust: „Ef þú talar við mig skal ég bjarga lífi þínu“, þá hefði ungi maðurinn bölvað honum í sand og ösku þegar hann uppgötvaði að hann hafði verið blekktur.

Þetta virðist mér vera dæmi um siðferðilegt vandamál, þess háttar mál sem siðferði snýst um. Nytjahyggjumaður kynni að segja: „Auðvitað verðurðu að segja ósatt ef líkur eru til að það auki mannlega hamingju eða dragi úr mannlegri óhamingju.“ Sömu niðurstöðu kæmust þeir að sem telja hermannaskyldu eða skyldu við föðurlandið til æðstu gilda, einkum á ófriðartíma. En önnur atriði kunna að koma til: skilyrðislaus trúarleg boðorð; rödd samviskunnar; samband manns við mann: Hvernig er hægt að segja manni sem er dæmdur til dauða voðalega lygi? Hefur hegðun hans svipt hann öllum rétti til að farið sé með hann eins og mannveru? Er ekki til eitthvað sem maðurinn á skilyrðislausan rétt á að krefjast? Ein af söguhetjum Dostojevskís segir að væri hann spurður hvort hann væri reiðubúinn að kaupa hamingju milljóna manna því verði að eitt saklaust barn væri pyndað mundi hann hafna því. Var svar hans augljóslega rangt? Nytjahyggjumaður mundi neyðast til að segja: „Já, það var augljóslega rangt – tilfinningasamt og rangt.“ En vitan­lega erum við ekki öll sama sinnis. Sum okkar telja að maður hafi fullkominn rétt til að segja: „Ég mun ekki pynda saklaust barn. Ég veit ekki hvað gerist næst, en það eru vissir hlutir sem enginn má gera, sama hvað það kostar.“

Nú, hér stangast á tvö heimspekileg viðhorf. Annað er kannski, í göfugustu merkingu, nytjahyggjulegt (eða þjóðræknislegt), hitt byggist á viðurkenningu á algildum, altækum reglum. Það er ekki í verkahring siðfræðingsins að fyrirskipa manni hvort þessara grundvallarviðhorfa hann eigi að tileinka sér: en honum ber að útskýra fyrir honum um hvaða málefni og gildi er að ræða, að kanna og leggja mat á rökin með og móti ýmsum niðurstöðum, að gera ljósa þá lífshætti sem hafa rekist á, þau lífsmarkmið sem hann verður að velja milli, og ef til vill hvað það kostar. Að lokum verður maðurinn auðvitað að taka á sig persónulega ábyrgð og gera það sem hann telur vera rétt. Val hans verður skynsamlegt ef hann gerir sér grein fyrir forsendunum sem það byggist á og frjálst ef hann hefði getað valið öðruvísi. Að velja þannig getur verið mikil kvöl. Að hlýða skipunum hugsunarlaust er auðveldara.

Magee Eitt gott við dæmin um siðferðileg og pólitísk vandamál sem þú varst að gefa er að það er öldungis ekkert málvísindalegt við þau. Ég vildi að því væri oftar þannig háttað um vandamálin sem siðfræðingar rökræða á prenti – alltént þar til nú fyrir stuttu. Eitt sem vekur furðu margra leikmanna sem reyna að lesa heimspeki og gerir marga afhuga henni er sú uppgötvun að svo mikið af heimspekilegri umræðu snýst um orð, um tungumálið. Geturðu útskýrt, með orðalagi sem mundi réttlæta það fyrir leikmanni, hvers vegna þessu er svona farið?

Berlin Ég skal gera mitt besta. Nútímaheimspekingar, sumir þeirra, hafa gert sjálfum sér óleik, að því er almenning áhrærir, með því að halda því fram að þeir fáist aðallega við tungumálið. Fólk heldur að þá hljóti að vera eitthvað ómerkilegt við það sem þeir gera – að þeir fáist við málið í sama skilningi sem orðabókahöfundar eða málfræðingar eða málvísindamenn, og ef svo er, séu orðabókahöfundarnir og málfræðingarnir betri í því. Samt eru þeir að fást við málið vegna þess að þeir álíta að við hugsum í orðum, að orð séu stundum sjálf athafnir og að þess vegna sé rann­sókn á málinu rannsókn á hugsuninni, reyndar á lífsviðhorfum, lífsháttum. Þegar maður stendur andspænis þessum erfiðu heimspekilegu spurningum sem ekkert augljóst svar er við getur hann byrjað með því að spyrja sig: „Hvers konar spurning er þetta? Hvers konar svari erum við að leita að? Líkist hún þessari tegund spurningar eða líkist hún hinni? Er það spurning um staðreynd? Er það spurning um rökfræði, um vensl milli hugtaka? Eða sambland af þessu? Eða líkist hún engu af þessu? Þessi flokkun á hugtökum er allerfið, en allir góðir heimspekingar hafa gert þetta og eru að gera það, hvað svo sem þeir kunna að kalla það. Það er ekkert rangt við að kalla þetta að skýra málfarslegan rugling – nema hvað það hefur villt um fyrir hinum óvarkáru eða illviljuðu. Ruglingur af þessu tæi getur leitt til óskýrleika í hugsun – sem getur svo aftur leitt til villimennsku í verki.

Magee Skoðanir nasista á kynstofnum byggðust á margs konar ruglingi, þar með töldum ruglingi af þessu tæi, var það ekki?

Berlin Jú – þessi ruglingur var sumpart byggður á reynslu, sumpart ekki. Sjálf hugmyndin um óæðri mann – sú hugmynd að til séu tilteknar óæðri mannverur – gyðingar, sígaunar, slavar eða svertingjar, eða hver sem væri, og að samfélaginu stafi ógurleg hætta af þeim og þess vegna ætti að útrýma þeim – þessi hryllilega sannfæring byggðist án efa að hluta til á ósönnum skoðunum á því hvers eðlis atferli þessa fólks er. En hugmyndin um óæðra mannkyn, um hvað það merkir að vera af óæðra kyni og, í sambandi við þetta, hvað við eigum við með orðinu ‘mannlegur’, hvað mannlegt eðli er, hvað gerir mannveru að mannveru, hvað það er að vera óæðri og æðri, og vitanlega hvað leiðir af því, hvað réttlætir að pynda eða drepa hina ‘óæðri’ – þetta eru heimspekilegar spurningar, ekki reynsluspurningar. Þeir sem kvarta yfir því að þær séu léttvægar, einber könnun á máli og málnotkun, ættu að íhuga að líf fólks var – og er enn – undir þeim komið.

Magee Sumir málspekingar hafa haldið því fram að með því að sundurgreina málnotkun okkar séu þeir að leysa okkur úr álögum málsins. Með öðrum orðum séu það ekki þeir sem eru í álögum þess, heldur við.

Berlin Vissulega. Ég mundi segja að þetta væri eitt af því gagnlegasta sem þeir gera fyrir mannkynið. Þetta er ástæða þess að þeir eru álitnir hættulegir menn af þeim sem vilja að upprunalegri notkun málsins sé haldið og óttast að sundurgreining á málinu dragi úr áhrifamætti þess. Það var þýska skáldið Heine sem sagði okkur að virða ekki að vettugi hinn hægláta heimspeking í vinnustofu sinni vegna þess að hann getur verið áhrifamikil og ógnvekjandi persóna. Og að telja hann ekkert annað en meinlausan lærdómsfausk sem fæst við mörg ómerkileg verkefni sé að vanmeta mátt hans. Hefði Kant til að mynda ekki dregið guð rökhyggjuguðfræðinganna í efa gæti verið að Robespierre hefði ekki látið hálshöggva konunginn. Heine varaði Frakka, sem hann átti þá heima hjá, við því að þýsku hughyggjufrumspekingarnir – fylgismenn Fichte, Schellings og þeirra líka – væru ofstækistrúarmenn sem létu hvorki ótta né nautnalöngun aftra sér og mundu einn góðan veðurdag rísa upp í hamslausri heift og leggja vestræna siðmenningu í rúst. Hann lýsti því yfir að þegar þetta mikla frumspekilega áhlaup steypti Evrópu út í styrjöld og eyðileggingu mundi franska byltingin virðast barnaleikur einn. Heine var ekki í neinum vafa, því hann hafði upplifað það sjálfur, um að máttur heimspekilegra eða frumspekilegra hugmynda (til dæmis hugmynda Hegels sem hann sótti fyrirlestra hjá) getur verið mjög mikill – óbeinn en víðtækur, að heimspekingar væru ekki meinlausir froðusnakkar heldur mikið afl til góðs og ills, meðal ægilegustu óviðurkenndu löggjafa mannkyns.

Magee Og allt vegna orða sem þeir skrifa á pappír eða láta út úr sér í fyrirlestrum. Hvernig tungumál og veruleiki tengjast í og gegnum heimspekilega iðju er mikil ráðgáta. Jafnvel þegar um er að ræða spurningar sem virðast vera blátt áfram eins og „Hvað er réttur?“ sem þú notaðir áðan sem dæmi: Er maður að spyrja út í merkingu orðs eða er maður að spyrja út í eðli óhlutbundins fyrirbæris sem er til á einhvern hátt jafnvel þótt það sé óhlutbundið? Hvers konar spurning er spurningin „Hvað er réttur?“

Berlin Það sem þú ert að segja, held ég, er þetta: „Hvernig komumst við að því hvers konar röksemdir mundu fá mann til að fallast á þá staðhæfingu að hann hafi tiltekinn rétt – segjum, rétt á hamingju – eða á hinn bóginn að hann hafi hann ekki?“ Mig rámar í að hafa lesið einhvers staðar að þegar maður nokkur sagði við Lúter að menn ættu rétt á hamingju, eða að markmið lífsins væri hamingja, hafi hann sagt: „Hamingja? Nei! LeidenLeidenKreuz! Kreuz!“ („Þjáning, þjáning; krossinn, krossinn“.) Þetta er kjarni vissra tegunda kristinnar trúar, ein dýpsta sannfæringin, veruleikasýn, sem mikill fjöldi fólks með fullu viti hefur byggt líf sitt á. Þetta er vissulega ekki ómerkilegt. Maður getur sagt að verið sé að fást við orð – lykilorð, en orð engu að síður. Maður getur sagt að við séum aðeins að spyrja „Hvað merkir orðið ‘kross’? Hvað merkir orðið ‘þjáning’?“ En það er ekki málið. Við erum ekki málfræðingar, við erum ekki orðabókahöfundar. Til þess að komast að raun um hvað þessi orð merktu fyrir Lúter eða aðra honum líka, hvað þau merkja íþessari merkingu orðsins ‘merkja’, er gagnslaust að fletta þeim upp í orðabók.

Magee En spurningin er ekki enn alveg ljós. Sé maður ekki að reyna að komast að merkingu þeirra í þeirri merkingu, hvert nákvæmlega er þá eðli þess, hvað svo sem það er, sem hann er að reyna að komast að? Þegar allt kemur til alls hafa sumir mestu snillingar mannkynssögunnar verið að pæla í spurningum af þessu tæi í tvö eða þrjú þúsund ár, en samt án þess að komast að neinum almennt viðteknum niðurstöðum. Þetta bendir alltént til þess að spurningarnar séu eitthvað sérstakar, svo ekki sé meira sagt. Kannski er ekki hægt að svara þeim. Kannski er það ekki til sem maður er að leita að.

Berlin Ja, við skulum spyrja okkur: „Hvers konar spurningum er hægt að svara?“ Með nokkurri ofureinföldun mætti segja að það séu tveir stórir málaflokkar sem hægt er að segja nokkuð ákveðið um að hægt sé að gera út um – að minnsta kosti fræðilega séð ef ekki alltaf í reynd. Annar flokkurinn er flokkur venjulegra reynsluspurninga, spurninga um hvað sé til í heiminum, hluti af því tæi sem venjuleg athugun eða raunvísindi fást við. „Eru til svartir svanir í Ástralíu?“ Já, þeir eru til; þeir hafa sést þar. „Úr hverju er vatn myndað?“ „Það er myndað úr ákveðnum tegundum sameinda.“ „Og sameindirnar?“ „Þær eru myndaðar úr frumeindum.“ Hér erum við í ríki sannreynanlegra, eða alltént afsannanlegra, fullyrðinga. Almenn skynsemi fer líka svona að: „Hvar er osturinn?“ „Hann er í skápnum.“ „Hvernig veistu það?“ „Ég hef gáð.“ Þetta telst fullkom­lega nægilegt svar við spurningunni. Í venjulegum kringumstæðum mundi ég ekki efast um þetta, og þú ekki heldur. Þetta eru kallaðar reynsluspurningar, spurningar um staðreyndir sem er gert út um annaðhvort með venjulegri almennri skynsemi eða, í flóknum tilvikum, með haminni athugun, með tilraun, með því að staðfesta tilgátur og svo framvegis. Þetta er ein tegund spurninga.

Svo er önnur tegund spurninga – sú tegund sem stærðfræðingar eða rökfræðingar spyrja. Þar samþykkir maður tilteknar skilgreiningar, tilteknar ummyndunarreglur um hvernig eigi að leiða út setningar af öðrum setningum, og reglur um afleiðslu sem gera manni kleift að leiða niðurstöður af forsendum. Og það er líka mengi reglna sem hægt er að prófa rökvensl setninga með. Þetta gefur manni alls engar upplýsingar um heiminn. Ég á við formlegar greinar sem virðast algerlega aðskildar frá spurningum um staðreyndir: stærðfræði, rökfræði, leikjafræði, skjaldarmerkjafræði. Maður finnur ekki svarið með því að líta út um gluggann eða á skífu, horfa í sjónauka eða gá í skápinn. Ef ég segi þér að kóngurinn í skák gangi bara einn reit í einu þýðir ekkert fyrir þig að segja: „Jæja, þú segir að hann gangi bara einn reit í einu en kvöld eitt var ég að horfa á taflborð og sá kónginn ganga tvo reiti.“ Þetta teldist ekki afsönnun á staðhæfingu minni vegna þess að það sem ég er í raun og veru að segja er að það sé regla í skák að kóngnum sé aðeins leyft að ganga einn reit í einu, að öðrum kosti sé reglan brotin. Og hvernig veistu að reglan er sönn? Reglur eru ekki yrðingar af því tæi sem geta verið sannar eða ósannar, ekki frekar en skipanir eða spurningar. Þær eru einfaldlega reglur: Annaðhvort viðurkennir maður þessar reglur eða hann viðurkennir einhverjar aðrar. Hvort slíkt val er frjálst eða ekki, og hver sé staða þessara reglna, eru heimspekilegar spurningar, hvorki háðar reynslu né formlegar. Ég skal reyna að útskýra hvað ég á við eftir andartak.

Eitt aðaleinkenni þeirra tveggja tegunda spurninga sem ég hef nú nefnt er að til séu afgerandi og skýrar aðferðir til að finna svörin. Það getur verið að maður viti ekki svarið við reyndarspurningu en hann veit hvers konar svar hæfir spurningu af þessari gerð, hvar hugsanleg svör er að finna. Ef ég spyr: „Hve lengi lifði Sesar?“ getur verið að þú vitir ekki hve mörg ár hann lifði en þú veist hvernig á að fara að til að komast að því. Þú veist hvers konar bókum á að fletta upp í. Þú veist hvers konar heimild væri heimild fyrir svarinu. Ef ég spyr: „Eru ófleygir fuglar í Thailandi?“ veistu kannski ekki svarið en þú mundir vita hvað þyrfti að gera til að komast að því. Sama á við um stjörnufræði. Þú veist ekki hvernig hin hliðin á einhverri fjarlægri plánetu lítur út af því að þú hefur aldrei séð hana en þú veist að gætirðu flogið þangað, eins og nú er hægt að fljúga til tunglsins, mundirðu kannski sjá það. Í formlegum fræðigreinum eru líka óleyst vandamál, en þar eru líka viðteknar aðferðir til að leysa þau. Maður veit að ekki er hægt að leysa stærðfræðiþraut með því að horfa, snerta eða hlusta. Sömuleiðis gefur algebrurökleiðsla ein og sér ekki svör á reynslusviðinu. Mörkin sem ég hef dregið milli þessara sviða eru of skörp: Tengslin milli lýsandi staðhæfinga og formlegra eru í raun töluvert flóknari, en að orða þau á þennan afdráttarlausan hátt dregur fram það atriði sem ég vil leggja áherslu á. Það er þetta: Milli þessara tveggja flokka spurninga eru aðrar spurningar sem ekki er hægt að svara á annan hvorn veginn. Það eru margar slíkar spurningar og þar á meðal eru heimspekilegar spurningar. Fljótt á litið virðist mér eitt af aðalsmerkjum heimspekilegrar spurningar vera þetta: maður veit ekki hvar skal leita að svarinu. Einhver segir við þig: „Hvað er réttlæti?“ eða „Ræðst sérhver atburður af undanfarandi atburðum?“ eða „Hver eru markmið mannlífsins? Ættum við að sækjast eftir hamingju eða stuðla að félagslegum jöfnuði, réttlæti, guðsdýrkun eða þekkingu – jafnvel þótt þetta leiði ekki til hanmingju?“ Nákvæmlega hvernig fer maður að því að svara þessum spurningum? Eða gerum ráð fyrir að einhver sem hneigist til að hugsa um hugmyndir segi við mann: „Hvað áttu við með ‘raunverulegur’? Hvernig greinirðu milli raunveruleika og sýndar?“ Eða spyr: „Hvað er þekking? Hvað vitum við? Getum við vitað nokkuð með vissu?“ Hvað gerir maður til að finna svör við svona spurningum, þar sem skortir vísinda- eða fræðigrein sem hægt er að vísa til og segja: „Sjáðu nú til, það eru til sérfræðingar. Þeir geta sagt manni hvað gott og rétt er, þeir geta sagt manni hvort allt ræðst af orsökum og líka hvort hamingjan er hið rétta markmið fyrir manneskjur og hvað réttindi og skyldur, þekking, veruleiki og sannleikur eru, og allt slíkt. Hlustaðu bara á þá.“ Stærðfræðingur getur vitanlega svarað stærðfræðilegum spurningum. En þú heldur ekki, er það, að til séu óskeikulir siðapostular eða frumspekingar sem geta gefið algerlega skýr svör sem allar manneskjur sem gætu skilið rökfærslu þeirra hljóta að fallast á? Þessar spurningar virðast leiða af sér ráðgátur strax í upphafi, vandamál um það hvar skuli leita svara. Enginn veit gjörla hvernig á að gera út um þessar spurningar. Venjulegu fólki sem spyr sig þessara spurninga þráfaldlega hættir til að komast í andlegt krampaástand sem varir þar til það hættir að spyrja þeirra og fer að hugsa um aðra hluti.

Magee Nú ertu kominn að því sem er svo mikið grundvallaratriði að ég vildi gjarnan styrkja stöðu okkar áður en við höldum lengra. Þú ert að segja að í leit sinni að þekkingu hafi menn yfirleitt spurt tvenns konar spurninga. Fyrst eru það spurningar um heiminn – maðurinn er alltaf að reyna að afla sér þekkingar á umhverfi sínu og ná tökum á því, eða kannski bara að komast af. Þessum spurningum um heiminn verður einungis svarað, þegar til kastanna kemur, með því að skoða hann: með rannsókn, athugun, prófun, tilraun og svo framvegis. Slíkar spurningar varða staðreyndir – eða, eins og heimspekingar komast að orði, þær eru spurningar um reynslu. Önnur tegund spurninga er af óhlutbundnari eða formlegri gerð – til að mynda spurningar í stærðfræði eða rökfræði, eða, eins og þú varst að nefna, leikjafræði eða skjaldarmerkjafræði. Spurningar af þessari gerð snerta tengsl milli hluta í formlegum kerfum og þess vegna getum við ekki fengið svörin við þeim með því að skoða heiminn. Að segja þetta er þó alls ekki að segja að þær séu fjarri venjulegum viðfangsefnum okkar. Eitt formlegt kerfi sem við notum jafnan í daglegu lífi er talnareikningur – já, við notum það bókstaflega á hverjum degi þegar við teljum hluti, segjum hvað klukkan er, fáum peninga til baka og þar fram eftir götunum. Óhlutbundið kerfi getur verið gríðarlega gagnlegt og mikilvægt í daglegu lífi okkar.

Það eru því tveir stórir flokkar spurninga sem við kunnum að fást við með árangri: reyndar­spurningar, sem fela það í sér að skoða staðreyndirnar, og formlegar spurningar sem fela það í sér að tengja saman hluti innan formlegs kerfis. Næstum allar spurningar, og þess vegna næstum öll þekking, lenda í annarri af þessum tveimur körfum. En heimspekilegar spurningar gera það ekki: Það er nánast aðalsmerki heimspekilegrar spurningar að hún lendir í hvorugri körfunni. Spurningu eins og „Hvað er réttur?“ er hvorki hægt að svara með því að líta út um gluggann né með því að kanna innra samhengi formlegs kerfis. Sem sagt, maður veit ekki hvernig á að fara að því að finna svarið. Þú ert að segja að heimspekin byrji þar sem maður er með áleitna spurningu án þess að hafa skýran skilning á hvernig skuli leita að svarinu.

Berlin Þú hefur orðað það miklu betur en ég. Miklu skýrar.

Magee En ekki fyrr en þú hafðir sagt það – ég hafði þína framsetningu til að ganga út frá.

Berlin Ég samþykki endurframsetningu þína – hún er mikil bragarbót.

Magee En spurningin heldur samt áfram að sækja á mann. Hvað getum við gert varðandi spurningar sem við vitum ekki hvernig skuli svara?

Berlin Nú, við verðum að spyrja: „Hvers vegna ættum við að dást að einhverjum þeirra hugsuða sem hafa fjallað um þær? Við dáumst að þeim, held ég, vegna þess að þeim hefur tekist að umorða þær á þann hátt að tiltekin svör virðast alltént sennileg. Þegar ekki er til nein viðurkennd aðferð til að gera eitthvað þá gerum við það sem við getum. Við einfaldlega prófum okkur áfram. Við segjum: „Þegar ég spyr spurningar eins og ‘Hafa allir hlutir tilgang?’ hvers konar spurning er það? Hvers konar svörum er ég að leita að? Hvers konar röksemdafærsla mundi fá mig til að halda að ákveðið svar væri rétt eða rangt eða jafnvel þess virði að velta því fyrir sér?“ Þetta er það sem heimspekin snýst um. E. M. Forster sagði einu sinni, held ég (ég játa að ég man ekki hvar): „Allt líkist einhverju; hverju líkist þetta?“ Þetta er það sem maður hefur tilhneigingu til að byrja með að spyrja þegar um er að ræða heimspekilegar spurningar. Sögulega séð virðist þetta hafa gerst: Vissar mikilvægar, reyndar afar þýðingarmiklar, spurningar virðast eiga heima í þessu tvíbenta ástandi. Menn hafa haft djúpar áhyggjur af þeim – sem er ekki nema eðlilegt þar sem þeir voru mjög mikið að fást við grundvallargildi. Kreddumenn, eða menn sem hreinlega féllust efasemdalaust á yfirlýsingar helgra bóka eða innblásinna kennara, höfðu ekki áhyggjur. En það hefur líklega alltaf verið til fólk sem hafði efasemdir um þetta og spurði sig: „Hvers vegna ættum við að fallast á þessi svör? Þeir segja þetta eða hitt en erum við viss um að þeir viti það? Hvernig getum við verið viss um að þeir viti? Þeir segja að Guð (eða stundum Náttúran) segi þeim það – en Guð (líkt og Náttúran) virðist gefa ólíku fólki ólík svör. Hver þeirra eru rétt?“

Sumar spurninganna hafa verið umorðaðar þannig að þær lenda þá í annarri hvorri körfunni okkar (sögulega talað). Ég skal útskýra hvað ég á við. Tökum stjörnufræði. Á fjórtándu öld var skynsamlegt að líta á stjörnufræði sem heimspekilega grein því að staðhæfingar hennar voru ekki eingöngu reynslustaðhæfingar og þær voru ekki formlegar. Til dæmis var álitið að plánetur­nar hlytu að hreyfast á hringlaga brautum af því að hringurinn var hin fullkomna flatarmynd. Hver svo sem er staða þeirrar fullyrðingar að hringurinn sé hin fullkomna flatarmynd – ég býst við að hún kynni að teljast formleg á einhvern hátt – þá virðist hin lengra komna fullyrðing, að plánetur sem voru hugsaðar á fullkominni hreyfingu hlytu að hreyfast í hringi og gætu ekki annað, hvorki vera reynslustaðhæfing né formleg staðhæfing. Ekki er hægt að sanna hana – eða nein nauðsynleg sannindi – með athugun eða tilraun. Það er ekki heldur hægt að sanna alhæfingu sem byggist á staðreyndum um hvað plánetur eru eða gera eingöngu með rökfræðilegri eða stærðfræðilegri sönnun. Svo framarlega sem menn vissu að stjörnur hlytu að hegða sér á ákveðinn hátt, og engan annan, en plánetur yrðu hins vegar að fara eftir ákveðnum öðrum brautum – svo framarlega sem menn töldu sig vita þetta, vita það á frumspekilegum eða guðfræðilegum forsendum – þá var öldungis rétt að líta á þessa fræðigrein sem heimspekilega. Og þetta átti ekki síður við um hið náskylda svið, stjörnuspekina. Síðan varð stjörnufræðin, eins og allir vita, smám saman ágæt athugunarvísindi. Hún losaði sig við frumspekilegar forsendur sínar og er nú eðlilegt svið náttúruvísindanna sem beita aðferðum tilgátu og afleiðslu og eru háð reynsluprófunum. Þannig hætti hún, eins og vera ber, að vera heimspekileg.

Eitt af því sem er athyglisvert við feril heimspekinnar er að hún er stöðugt að losa sig við tiltekna hluta sína í aðra af körfunum tveim, reyndarkörfuna og þá formlegu. Ég held að það hafi verið Austin heitinn, starfsbróðir minn, sem einu sinni orðaði þetta með því að segja að sól heimspek­innar gefi smátt og smátt frá sér mikið magn brennandi lofttegunda og þær verði sjálfar plánetur og öðlist sjálfstætt líf. Í sögu heimspekinnar er að finna meiriháttar dæmi um þetta ferli. Þannig var til að mynda hagfræðin hluti af heimspekinni þegar hún var flækt í margar frumspekilegar forsendur, en svo varð hún smám saman, eða er að verða, sjálfstætt rannsóknarsvið.

Magee En jafnvel þegar hin ýmsu rannsóknarsvið hafa klofið sig út úr af eigin rammleik – líkt og, eins og þú segir, hagfræði eða stjörnufræði (sálfræði í gær, málvísindi í dag) – stendur eftir heimspeki þessara ólíku vísindagreina. Það væri ekki rétt að segja að strax og þær hafa klofið sig út úr hafi þær engin frekari tengsl við heimspeki.

Á öllum starfssviðum eru ákveðin lykilorð – eða ég kýs heldur að segja undirstöðuhugtök – sem fólk notar. Eðlisfræðingar eru sífellt að tala um ljós, massa, orku, hraða, þyngd, hreyfingu, mælingu, tíma. Stjórnmálamenn eru stöðugt að nota orð eins og ‘frelsi’, ‘jafnrétti’, ‘félagslegt réttlæti’. Lögfræðingar eru látlaust að nota orð eins og ‘sekt’, ‘sakleysi’ – og ‘réttlæti’ líka, þó þeir meini eitthvað annað með því. Venjulega ver fólkið sem starfar á þessum sviðum mjög litlum tíma í að rökræða um orðin eða hugtökin sem það notar – ég mundi veðja um að flestir eðlisfræðingar rökræða aldrei á ævinni sín á milli um hvað ljós sé eða hvað þeir eiga við með orðinu ‘orka’. En nú kemur einhver náungi og segir: „Já, en hvað nákvæmlega meinum við með orðinu ‘ljós’? Hvað meinum við með orðinu ‘orka’? Hvað meinum við með orðinu ‘mæling’? Jafnvel enn meira viðeigandi væri að spyrja, hvað erum við að gera þegar við mælum eitthvað?“ Við köllum þennan mann vísindaheimspeking og umræðan um slíkar spurningar kallast vísindaheimspeki. Sömuleiðis höfum við mann sem kallast stjórnmálaheimspekingur sem spyr: „Hvað nákvæmlega meinum við með ‘frelsi’? Hvað meinum við með ‘jafnrétti’?“ Og það er jafnvel til réttarheimspekingur sem spyr: „Hvað nákvæmlega meinum við með ‘réttlæti’?“ Í rauninni er til heimspeki hverrar fræðigreinar eða starfsemi og hún felst ekki einungis í útlistun á þeim hugtökum og líkönum sem einkenna hana heldur einnig í gagnrýninni umræðu um markmið hennar og aðferðir og þau sérstöku form röksemdafærslu, sönnunargagna og aðferða sem hæfa hverri þeirra. Heimspekin getur með öðrum orðum leitast við að útlista hvaða hugtök sem er eða rökgreina hvaða starfsemi sem vera skal. Þetta er það sem Wittgenstein átti við þegar hann hélt því fram að heimspekin væri starfsemi en ekki kenningabálkur. Af þessu leiðir vitanlega að starfsemi heimspekinnar er sjálf undirorpin heimspekilegri rannsókn og það er reyndar svo að gífurlegur fjöldi slíkra rannsókna á sér látlaust stað meðal heimspekinga. Í verki er auðvitað áhugaverðast að íhuga þá starfsemi fyrir utan heimspekina sem er á einhvern hátt grundvallar­atriði í mannlífinu – þótt ég telji að heimspekingar hafi í gegnum söguna haft of þrönga skoðun á því hver þessi starfsemi sé. Ennfremur er það svo í verki að áhugaverðustu hugtökin til að rann­saka eru grundvallarhugtök, hvort heldur það eru hugtök í hversdagslegri notkun eða sérstaklega notuð á einhverju sérstöku sviði mannlegrar hugsunar eða starfsemi. Það sem heimspekingar reyna að gera í slíkum rannsóknum er að grafast fyrir um það sem við göngum út frá í hugsun okkar: að kanna, og draga fram í dagsljósið og gera okkur ljóst, hverjar eru hinar huldu forsendur sem leynast í grunnhugtökum okkar, og einnig í því hvernig við notum þessi grunnhugtök, og sem er þar með smyglað inn í niðurstöður okkar – og það þýðir inn í skoðanir okkar og athafnir.

Berlin Ég hygg að þetta sé rétt. Sumir sundmenn lamast ef þeir byrja að hugsa um hvernig þeir synda. Eðlisfræðingar framkvæma hið raunverulega sund. Spurningin um hvað þarf til að synda, eða hvað það merkir að synda, þær spurningar eru auðveldari viðfangs fyrir utanaðkomandi athugendur. Vísindamenn sem eru góðir í að rökgreina hugtökin sem þeir nota eru ákaflega sjaldgæfir fuglar, en þeir eru þó til: Einstein og Planck, til dæmis, vissu muninn á orðum um orð og orðum um hluti, eða á hugtökum og reynslugögnum. Og mér detta fleiri í hug, sem betur fer enn meðal okkar, sem vita þetta og tala af heimspekilegu viti. En venjulega hættir jafnvel hinum gáfuðustu í þeirra hópi til að vera of niðursokknir í starf sitt til að geta staðið álengdar og kannað hinar ósögðu forsendur sem starf þeirra og skoðanir eru reistar á.

Magee Hefur þér nokkurn tíma dottið í hug að spurningar eins og „Hvað er ljós? Hvað er gott? Hvað er tími?“ eru furðulega líkar spurningum barna?

Berlin Já, mér hefur vissulega oft dottið einmitt þetta í hug. Börn eiga ekki vanda til að spyrja „Hvað er tími?“ Ég held að barn kynni að segja: „Mig langar til að hitta Napóleon.“ (Þetta virðist eðlilegt að til að mynda áhugasamt barn sögukennara vilji.) Faðirinn segir við barnið: „Þú getur það ekki. Hann er dáinn.“ Þá segir barnið: „Nú, hvers vegna ætti það að koma í veg fyrir það?“ Sé faðirinn nógu glúrinn mun hann útskýra fyrir barninu að dauði Napóleons hafi orðið til þess að líkami hans leystist upp niðri í jörðinni, að upphaflegir efnispartar hans tvístruðust og að ekki sé hægt að vekja þá sem grafnir eru upp frá dauðum. En sé barnið líka glúrið gæti það spurt: „Hvers vegna er ekki hægt að safna öllum pörtunum saman aftur?“ Kennslustund í eðlisfræði eða líffræði fylgir kannski í kjölfarið. Að henni lokinni segir barnið kannski: „Nei. Þetta er ekki það sem ég var að biðja um. Mig langar ekki til að sjá Napóleoni safnað saman núna: Mig langar til að fara til baka og sjá hann eins og hann var í orustunni við Austerlitz. Það mundi ég vilja.“ „Jæja, þú getur það ekki,“ segir faðirinn. „Hvers vegna ekki?“ „Vegna þess að þú getur ekki farið til baka í tíma.“ „Hvers vegna get ég það ekki?“ Nú höfum við fengið heimspekilegt vandamál. Hvað er hér átt við með ‘getur ekki’? Er að geta ekki farið til baka í tíma tjáð með sams konar ‘getur ekki’ og þegar sagt er „Tvisvar tveir getur ekki verið sjö“ eða þeirri tegund ‘getur ekki’ sem felst í „Þú getur ekki keypt sígarettur klukkan tvö eftir miðnætti af því að það er bannað með lögum“? Eða er það líkara ‘getur ekki’ í „Ég get ekki munað“ eða í „Ég get ekki gert mig níu feta háan með því einungis að óska þess“? Hvers konar ‘getur ekki’ svarar „Viltu leyfa mér að sjá orustuna við Austerlitz“? Við erum undir eins komin á kaf í heimspeki. Einhver kann að segja barninu „Þú getur það ekki vegna eðlis tímans“. En þá segja einhverjir heimspekilega sinnaðir einstaklingar: „Nei, nei, hlutir eins og tími og eðli hans eru ekki til. Staðhæfingar um tíma er hægt að þýða yfir í staðhæfingar um það sem gerist ‘áður’ og ‘eftir’ og ‘samtímis’. Að tala um tíma eins og hann væri einhvers konar hlutur er frumspekileg gildra.“ Við erum nú komin á fulla ferð. Fæstir feður vilja svara spurningum ágengra barna sinna á þennan hátt. Þeir segja þeim bara að þegja, að spyrja ekki kjánalegra spurninga, að fara burt og hætta að vera til vandræða. En þetta er sú tegund spurninga sem kemur stöðugt aftur. Og heimspekingar eru menn sem leiðast þær ekki eða eru hræddir við þær. Þær fara ekki í taugarnar á þeim og þeir eru reiðubúnir að fást við þær. Börn eru vitanlega að lokum vanin á bæla þessar spurningar niður. Því er nú verr. Börnin sem eru ekki algerlega skilyrt þannig verða stundum heimspekingar.

Magee Heldurðu að það sé kannski af þessari ástæðu eitthvað barnslegt við heimspekinga?

Berlin Ekki endilega. En sumar spurningarnar sem þeir spyrja eru að því er virðist einfaldar, frekar líkar sumum spurninganna sem Sókrates spyr í samræðum Platons, spurningum af því tæi sem venjulegt fólk getur ekki svarað og vísar því á bug, stundum með nokkurri óþolinmæði. Hins vegar eru, að sjálfsögðu, ekki allar spurningarnar sem heimspekingar spyrja einfaldar. Vísindaheimspekingur nú á dögum mun líka eiga vanda til að spyrja spurninga á borð við „Hvað er kvarki?“ ‘Kvarki’ er mjög dularfullt hugtak í eðlisfræði. Er kvarki eitthvað sem á sér sjálfstæða tilveru? Hlutur? Hreyfing? Samband milli hluta? Hvað er svarthol? Rými, gat? Eru kvarkar svart­hol? (Hvað eru göt af þessari gerð?) Eða kannski þau séu stærðfræðiformúlur – rökfræðileg tæki á borð við ‘og’ eða ‘nokkur’ eða ‘hver’ sem getur ekki svarað til neins í hinum svokallaða raunverulega heimi? Eða er kvarki sambland af hinu raunverulega og rökfræðilega? Hvernig er orðið notað? Er nóg að segja „Við notum orðið ‘kvarki’ í eftirfarandi vísindalegum formúlum eða röksemdafærslum“? Það virðist ekki alveg nóg. Sameindir eru sennilega raunverulegir hlutir. Frumeindir líka. Rafeindir, róteindir, gammageislar og nifteindir eru öllu vafasamari. Eða hvað með skammta? Þeir rugla fólk í ríminu. Manni er sagt frá einhverju – rafeind – sem stekkur frá einni braut til annarrar án þess að fara óslitið gegnum millibilið, ef okkur leyfist að tala þannig. Hverju líkist þetta? Getur venjuleg hugsun ímyndað sér slíkt? Hér er eitthvað prima facie óskiljanlegt. Það er eins og að segja: „Ég er með svolítinn verk í ökklanum – og nú er hann í hnénu – en auðvitað þarf hann ekki að hafa farið óslitið upp eftir fætinum vegna þess að það er engin ‘hann’: fyrst einn verkur á einum stað, svo annar, eins og sá fyrri, á öðrum stað?“ Er þetta svarið? Maður gæti sagt: „Þessi verkur er farinn úr fætinum á mér og er kominn í handlegginn“, og er þá gefið í skyn að hann hafi einhvern veginn farið upp; en maður meinar þetta ekki bókstaflega. Fyrst var verkur hérna, svo var verkur þarna: ekkert á milli. Er það svona? Er þetta gagnleg líking? Eða er það allt öðruvísi? Leiða svör af þessu tæi til fáránlegra, afar villandi myndlíkinga? Lýsir vísindamál nokkru? Eða er það einungis, líkt og stærðfræði og rökfræði, beinagrind, ekki hold, lýsandi eða skýrandi máls? Eða er þetta líka rangt? Gott og vel – hvernig fer maður að því að svara? Eðlisfræðingar geta sjaldan hjálpað manni? Þeir segja manni hvað þeir gera og síðan er það heimspekingsins að segja: „Nú, það er svona sem þeir nota þetta orð. Þeir nota það á x-hátt, ekki á y-hátt. Þegar þeir segja ‘kvarki’, þegar þeir segja ‘róteind’, þegar þeir segja ‘skammtastökk’ er notkun þeirra á orðinu líkari því hvernig við hin notum þetta orð eða hitt – og alls ekki líkt því hvernig við notum þetta orð hérna eða þetta þarna. Við skulum því ekki gera það glappaskot að gefa okkur að það sé einhver einföld líking milli þess sem þeir segja og þess hvernig málið er notað í daglegu lífi, annars munum við komast að rangri eða fáránlegri niðurstöðu eða byggja upp ónauðsynlegt frumspekikerfi.“

Magee Sumir heimspekingar skilja það sem þú ert nú að tala um sem hina dæmigerðu heimspekilegu iðju. Við gerum öll það sem kallast ‘kvíavillur’ – það er að segja okkur hættir til að nota hugtak eins og það sé af allt annarri gerð en það í raun og veru er. Og vegna þess að við gerum okkur ekki grein fyrir þessu leiðir það okkur út í alls konar villur og rugling. Og verkefnið sem er sérkennandi fyrir heimspekinginn, telja sumir, er að ráða fram úr þessum ruglingi og sýna okkur hvar og hvernig við lentum á villigötum. Einn nútímaheimspekingur sem hélt þessari skoðun skörulega fram var Gilbert Ryle. Í frægustu bók sinni hélt hann því fram að okkur hætti til að gera mjög alvarlega kvíavillu í sambandi við hugtakið hug. Okkur hættir til að hugsa um hugann eins og ósýnilegan hlut sem býr í líkamanum líkt og draugur í vél, stjórnaði henni innan frá, sæti þarna inni og hefði leyndan aðgang að flæði líkamslausrar reynslu upp á eigin spýtur. Þetta er, heldur Ryle fram, algerlega rangt líkan og það leiðir okkur út í endalausan rugling og villur. Hann reyndi að sýna fram á þetta með allítarlegri hugtakagreiningu og bókin er helguð þessari greiningu – þess vegna heitir hún Hugtakið hugur. Vildi maður færa fram rök gegn honum væri hægt að gera það á tvo höfuðvegu, og það er nokkuð dæmigert. Annaðhvort gætum við neitað að við notuðum hugtakið á þann hátt sem hann segir að við gerum eða við gætum fallist á að við gerðum það en neitað að það hefði hinar villandi afleiðingar sem hann segir það hafa. Margar rökræður milli heimspekinga, um önnur hugtök, eru af þessari gerð.

Berlin Ryle hefur tilhneigingu til að vera of atferlissinnaður fyrir minn smekk – en ég er sammála, útlistun hugtaka er vissulega eitt af verkefnum heimspekinnar og kannski eitt af aðalverkefnum hennar. En heimspekingar reyna líka að vekja athygli fólks á hinum raunverulegu málefnum sem tengjast því að bera fram spurningarnar sem þeir skýra.

Magee Ég held þú verðir að segja dálítið meira um þetta. Eitt af því sem leikmaður á erfiðast með að skilja er hvernig raunverulega hjálp er hægt að fá frá því að reyna að svara spurningum sem ekki er hægt að gera út um. Hvernig getur manni miðað áfram?

Berlin Gott og vel, það er hægt að komast eitthvað áleiðis í átt til svars. Með því að skýra hugtökin upppgötvar maður stundum að spurningin hefur ekki verið rétt orðuð – maður kemst til dæmis að því, eins og ég var að reyna að segja hérna áðan, að efnislegri spurningu eða reynsluspurningu er ruglað saman við formlega spurningu. Ég skal gefa þér annars konar dæmi úr siðfræði – sviði sem gott er að taka dæmi af vegna þess að flestir verða að fást við siðferðileg vandamál í lífi sínu. Segjum að við spyrjum spurningar sem er sumpart siðferðileg og sumpart pólitísk, venjulegt vandamál á sjúkrahúsi. Það eru til nýrnavélar. Þær eru dýrar. Ekki eru margar til. Allmargt fólk þjáist af nýrnasjúkdómi sem þessi vél mundi skipta sköpum fyir. Ættum við að nota þær fáu vélar sem til eru einungis fyrir hæfileikaríkt og mikilsháttar fólk sem að okkar dómi gerir samfélaginu mikið gagn? Ef mikill vísindamaður þjáist af nýrnasjúkdómi, ætti eina vélin sem við eigum að vera tekin frá handa honum einum? Sé barn að deyja sem vélin gæti bjargað, hvernig gerum við upp á milli þeirra? Hvað eigum við að gera? Ættum við að spyrja okkur spurninga á borð við þessa: „Hvor þessara einstaklinga á eftir að gera samfélaginu meira gagn?“ Þetta er kveljandi spurning um raunhæft val. Það er ekki hlutverk siðfræðingsins að svara spurningunni og segja: „Bjargið hinum mikla vísindamanni“ eða „Bjargið barninu“. Hann kann að gera það sem manneskja, en sé hann þar að auki góður siðfræðingur er hann í aðstöðu til að útskýra fyrir okkur þau atriði sem hér er um að ræða. Hann mun segja: „Hvert er markmið ykkar? Að hverju leitið þið? Látið þið ykkur eingöngu varða hamingju mannkynsins? Er hún hið eina sem þið takið tillit til? Sé svo þá er líklega rétt að bjarga vísindamanninum vegna þess að hann mun sennilega gera meira gagn en þetta grandalausa barn. Eða trúið þið líka að allar manneskjur hafi viss grundvallarréttindi og að allir eigi sömu kröfu til að vera bjargað og að ekki megi einusinni spyrja hvor af tveimur manneskjum sé ‘mikilvægari’? Er þetta hugsun ykkar? „Jæja þá,“ gæti hann haldið áfram, „hér er togstreita milli gilda. Annars vegar trúið þið á að auka mannlega hamingju en á hinn bóginn trúið þið einnig að eitthvað sé rangt við að flokka kröfur til lífs – og önnur grundvallarréttindi – og búa þannig til stigveldi af kröfum þar sem ætti að vera jöfnuður. Þið getið ekki bæði sleppt og haldið. Þessi markmið stangast á.“

William Goldwin, tengdafaðir Shelleys, hafði engar slíkar efasemdir. Hann segir sögu þar sem hinn frægi, háheilagi franski erkibiskup Fénelon, sem var uppi undir lok sautjándu aldar, er látinn horfast í augu við það vandamál að stökkva inn í logana til að bjarga einkaþjóni og stofna eigin lífi í hættu. Godwin hélt því fram að þar sem Fénelon væri greinilega langtum mikilvægari fyrir þróun mannkynsins en þjónninn hefði það verið ‘réttlátt’ hjá þjóninum sjálfum að kjósa heldur að Fénelon lifði en hann sjálfur. Af þessu hlýtur að leiða að það væri ekki aðeins, ef svo má segja, leyfilegt fyrir Fénelon að bjarga ekki þjóninum, það væri hreint og beint rangt fyrir hann að reyna að gera það. Og ef þú segir: „Hvað! Þú fordæmir hetjuskap? Vissulega ber að dást að öllum fyrir að fórna lífi sínu fyrir líf annarrar manneskju, eða hvað?“ Godwin er nauðbeygður til að svara: „Vissulega ekki. Það er óskynsamlegt val.“ En gerum ráð fyrir að það sé konan þín eða móðir þín sem eru í lífshættu? Svar Godwins er skýrt (ég vitna í hann eftir minni): „Kona mín eða móðir eru kannski fábjánar, skækjur, illgjarnar, lygnar, svikular. Séu þær það, hvaða máli skiptir að þær eru mínar? Hvaða töfrar eru fólgnir í eignarfornafninu „mín“ sem kollvarpar ákvörðunum eilífs sannleika?“ – eða etthvað þess háttar. Þetta er ofstækisfull, rökrétt nytjahyggja sem við vísum kannski skiljanlega á bug, en enginn vafi leikur á því að þetta er heimspekilegt ágreiningsefni. Og Godwin var ekki heldur í neinum vafa um svarið sem hver rökrétt hugsandi maður mundi hiklaust gefa. Þetta hjálpar alltént til að gera málið ljóst. Ef við höfnum svari Godwins vitum við hverju við erum að hafna og við erum að minnsta kosti á leiðinni að komast að því hvers vegna við gerum það.

Magee Þegar þú sagðir í dæminu um nýrnavélina að góður siðfræðingur segði okkur ekki hvað við ættum að gera, þá sagðirðu eitthvað sem skiptir afar miklu máli fyrir þessa umræðu. Fjöldi fólks kemur til heimspekinnar og vill að því sé sagt hvernig það á að lifa – eða vill fá greinargerð um heiminn og með henni greinargerð um lífið – en mér virðist að það að vilja alltént hið fyrra sé að vilja afsala sér persónulegri ábyrgð. Maður ætti ekki að vilja að manni sé sagt hvernig á að lifa. Og þess vegna ætti maður ekki að koma til heimspekinnar í leit að endanlegum svörum. Það er allt annað mál að leita skýringar á lífi sínu eða skýringar á hvað felst í sérstökum vandamálum sem við stöndum frammi fyrir svo að við getum á áhrifaríkari hátt tekið ábyrgð á okkur sjálfum og tekið ákvarðanir með fyllri, skýrari skilningi á því sem er í húfi.

Berlin Það sem þú segir er sorglegt – en ólíkt flestum siðapostulum er ég þér sammála. Flestir vilja að þeim séu gefin svör. Turgenjev sagði einu sinni að einn vandinn við skáldsögur sínar – ein ástæðan fyrir því að þær færu í taugarnar á sumum lesenda þeirra – væri að rússneskur lesandi á hans tíma (og reyndar til dagsins í dag, getum við bætt við) vildi að sér væri sagt hvernig hann ætti að lifa. Hann vildi hafa það alveg á hreinu hverjar væru hetjurnar og hverjir þorpararnir. Turgenjev vildi ekki segja honum þetta. Tolstoy lætur ekkert fara milli mála um þetta, Dostojevskí ekki heldur, og allmargir aðrir rithöfundar gefa þetta mjög skýrt til kynna. Hjá Dickens er ekkert vafamál hver er hver – hver er góður og hver ekki. Í verkum George Eliot er ekki heldur mikill vafi. Ljóst er hverjum Ibsen dáist að og hvern hann fyrirlítur eða hverjum hann vorkennir. En Turgenjev sagði að allt sem hann gerði væri að lýsa manneskjum eins og hann sæi þær. Hann vildi ekki veita lesandanum leiðsögn. Hann sagði lesandanum ekki hvorum megin hann, höfundurinn, stóð. Og þetta, hélt Turgenjev fram, gerði almenning ráðvilltan, það pirraði fólk, léti lesendum eftir að ráða sjálfir fram úr málum, en það er fólki meinilla við. Tsjekov hermdi þetta eftir en ólíkt Turgenjev kvartaði hann ekki. Vissulega höfðu þeir rétt fyrir sér. Það er ekki hlutverk siðfræðingsins, frekar en það er hlutverk skáldsagnahöfundarins, að veita fólki leiðsögn í lífinu. Hlutverk hans er að láta það horfast í augu við málin, við svið mögulegra athafnleiða, að útskýra fyrir því hvað það gæti valið og hvers vegna. Hann ætti að leitast við að varpa ljósi á þá þætti sem um er að ræða, leiða í ljós eins marga möguleika og unnt er og hvað í þeim felst, sýna hvers eðlis hver möguleiki er, ekki út af fyrir sig heldur sem þáttur í víðara samhengi, kannski í heilum lífsmáta. Ennfremur ætti hann að sýna hvernig það að opna einar dyr kann að leiða til þess að opna eða loka öðrum dyrum – með öðrum orðum að leiða í ljós að sum gildi eru óhjákvæmilega ósamrýmanleg og stangast á – að þau eru oft ósammælanleg. Eða, til að orða það lítið eitt öðruvísi, að benda á tap og ávinning sem felst í einhverjum verknaði, heilum lífsmáta, oft ekki með tilliti til þess sem er mælanlegt heldur með tilliti til algildra reglna eða gilda sem ekki er ætíð hægt að samræma. Þegar siðfræðingur hefur á þennan hátt sett einhverja athafnaleið í siðferðilegt samhengi, staðsett hana á siðferðilegu landakorti, tengt eðli hennar, ástæðu og markmið við gildaklasann sem hún tilheyrir, dregið fram sennilegar afleiðingar hennar og það sem í henni felst og skiptir máli, komið með rök með henni eða móti, eða bæði með henni og móti, með allri þeirri þekkingu, skilningi, rökleikni og siðferðilegu skynbragði sem hann hefur til að bera – þá hefur hann unnið sitt starf sem heimspekilegur ráðgjafi. Það er ekki hlutverk hans að prédika eða hvetja, hrósa eða fordæma, einungis að útlista og upplýsa. Á þann hátt getur hann hjálpað, en þá er það hvers einstaklings eða hóps að taka sjálfstæða ákvörðun, í ljósi þess sem hann trúir og sækist eftir (en af því ljósi getur aldrei verið nóg). Heimspekingurinn getur ekki gert meira en að gera eins ljóst og honum er unnt hvað er í húfi. En það er að gera heilmikið.

Þessu má andmæla með því að flestir siðfræðingar og stjórnmálaheimspekimgar, frá Platóni og Aristótelesi til Kants og Mills og Moores, og virtustu hugsuðir okkar daga, hafi gert hið gagnstæða – það er að segja sagt mönnum hvernig á að greina gott frá vondu, rétt frá röngu og mælt með réttum formum mannlegrar breytni, og að þetta virðist einfaldlega ósamrýmanlegt skoðun minni að aðalhlutverk heimspekinga sé að meta rök með og móti og gera ljóst hvað felst í mögulegum valkostum, ekki að gefa til kynna hvað sé rétt. En þessu er ekki þannig háttað, því sé það sem ég segi hér að framan rétt hefur heimspekin tvíþættu hlutverki að gegna: að rannsaka og sérstaklega að gagnrýna forsendur gildisdóma sem menn fella eða sem felast í athöfnum þeirra. En hún fæst líka við aðrar, oft fyrsta stigs spurningar, nánar tiltekið spurningar sem fara hvorki í reyndarkörfuna né hina formlegu og gera það kannski aldrei. Þar sem mér virðast gildisspurningar tilheyra þessum milliflokki vil ég ekki að sá skilningur verði lagður í orð mín að gagnrýni á hinar almennu reglur slíkra fyrsta stigs spurninga eða dóma sé utan við svið heimspekinnar – því fer fjarri. Ég er aðeins að segja að heimspekingar séu ekki endilega betri í að leysa tiltekin hegðunarvandamál en aðrir menn, að því tilskildu að hinir síðarnefndu hafi nægilega skýran skilning á rökunum með og móti þeim afleiðingum eða meginreglum sem hið tiltekna vandamál vekur til umhugsunar um. Þetta jafngildir því í raun og veru að segja að hver sá sem reynir að finna almenn svör við vandamálum sem viðurkenndar raun- og rökvísindagreinar og aðferðir hafa ekki með að gera er að stunda heimspekilega iðju, hvort sem hann veit það eða ekki, og að tilraunir til að finna svör við spurningum um grundvallaratriði sem varða gildi eru sérstaklega gott dæmi um þetta.

Magee Löngu fyrr í samræðunni notaðirðu orðalagið ‘markmið lífsins’ og ég vísa til þess aftur vegna þess að það skiptir máli þegar hér er komið sögu. Ég er nokkuð viss um að flestir telja að heimspekin snúist einmitt um markmið lífsins og að heimspekingar séu menn, kannski óvenjulega vitrir eða gáfaðir menn, sem hugsa djúpt – og ræða látlaust hver við annan – um hver sé merking lífsins eða hver tilgangur þess ætti að vera. Að hvaða marki mundir þú segja að heimspekingar geri þetta í raun og veru?

Berlin Sumir gera það, að sjálfsögðu. Merkustu heimspekingarnir hafa alltaf gert það. En sjálfar spurningarnar eru fremur óljósar. Ef þú segir: „Hver er merking lífsins?“ vaknar næst sú spurning eða ætti að vakna (þetta hljómar eins og smásmygli eða undanbrögð en þarf ekki að vera það: maður getur ekki og ætti ekki að forðast hana): „Hvað áttu hér við með ‘merkingu’?“ Ég veit hver merking þessarar setningar er vegna þess að það eru reglur sem stjórna notkun orða í því skyni að tjá hugmyndir, vitneskju, leiðbeiningar eða hvað sem vera skal. Ég held að ‘merking lífsins’ í slíkum setningum merki í raun og veru ‘tilgangur lífsins’. Til voru grískir hugsuðir, undir áhrifum frá Aristótelesi, og miðalda- og endurreisnarhugsuðir, kristnir menn eða menn undir áhrifum frá kristninni – eða, ef út í það er farið, undir áhrifum frá gyðingdómi – sem voru alveg sannfærðir um að allt í heiminum hefði tilgang. Hver hlutur og hver skepna höfðu verið sköpuð með tilgang annaðhvort af Guði (eins og guðstrúarmenn töldu) eða af Náttúrunni (eins og grískir heimspekingar og lærisveinar þeirra töldu). Að skilja eitthvað var að skilja til hvers það var. Þú gast kannski ekki fundið svarið af þvi að þú varst ekki Guð (eða Náttúran) og ekki alvitur. En einhverja hluti vissirðu vegna þess að þeir voru veittir mönnum sem opinberuð sannindi eða vegna þess að þú varst gæddur einhvers konar frumspekilegri innsýn í markmiðin sem náttúrulegt var fyrir hluti eða skepnur að stefna að. Væri þessu þannig háttað var vit í spurningunni um merkingu eða tilgang. Þá sagðirðu: „Menn eru skapaðir, skulum við segja, til að tilbiðja Guð og þjóna honum“, eða: „Þeir eru skapaðir til að þroska alla hæfileika sína“ eða „til að öðlast hamingju“, eða hvert svo sem markmiðið var samkvæmt heimspeki þinni. Þú lýstir yfir einni kenningu um tilgang skapaðra og óskapaðra hluta eða manna, aðrir höfðu aðra skoðun á þessu, og um þetta var rökrætt í tvö þúsund ár. Á sautjándu öld rofnaði þessi hefð: Spinoza, til að mynda, neitaði að það væri vit í að spyrja hvort hlutir almennt hefðu nokkurn tilgang. Hlutir hafa tilgang ef við setjum þeim tilgang. Klukka hafði tilgang vegna þess að við bjuggum hana til í ákveðnum tilgangi – til að sýna tímann eða, væri hún gömul og ekki lengur nothæf en falleg, þá hafði hún tilgang af því að ég notaði hana til að skreyta vegginn minn: það var tilgangur hennar, settur henni af mér, og væri nákvæmara að lýsa honum sem mínum tilgangi. Og tæki einhver annar hana og notaði í einhverjum öðrum tilgangi þá breyttist tilgangur ‘hennar’ í samræmi við það. En ef þú spyrðir: „Hver er tilgangur kletts? Hver er tilgangur grasblaðs?“ er svarið kannski: „Enginn, þau eru bara þarna.“ Þú gætir lýst þeim, þú gætir fundið lögmálin sem stjórna þeim, en sú hugmynd að allt hefði tilgang var einfaldlega ekki sönn. Spurningin hvort allt hafi tilgang eða ekki er dæmigert heimspekilegt viðfangsefni sem heilmikið hefur verið rökrætt um frá báðum hliðum.

Ég held að flestir sem spyrðir væru nú á dögum um hvort þeir teldu allt sem er til hafa tilgang kynnu að efast um það. Ég held að flestir trúaðir kristnir menn, gyðingar eða múslimar kynnu að fallast á þá skoðun að jurtir og dýr, skulum við segja, hafi verið sköpuð til að þjóna mönnum og allir hlutir í heiminum til að þjóna Guði og því um líkt. En þessi skoðun er engan veginn skoðun allra. Hún er guðfræðilegt viðfangsefni, en hún er líka heimspekilegt viðfangsefni. Hvað gæti hugsanlega talist rök til stuðnings þeirri staðhæfingu að allt hafi tilgang? Hvað mundi vera rök gegn henni? Eða öllu heldur, er jafnvel nokkurt vit í að segja að allt hafi tilgang? Ef allt hefur tilgang ertu þá viss um að þú skiljir hvað orðið ‘tilgangur’ merkir? Venjulega er hægt að skilgreina eiginleika með tilliti til einhvers af sömu tegund sem skortir hann. Þú veist hvað blátt er vegna þess að þú berð það saman við eitthvað sem er öðruvísi á litinn – grænt, gult. Þú skilur hvað það er að hafa tilgang vegna þess að þú skilur líka hvað það merkir að hafa hann ekki. En hljótiallt sjálfkrafa að hafa tilgang vegna þess að þetta er hluti af því að það er það sem það er, vegna þess að ekki er hægt að hugsa sér að nokkuð, raunverulegt eða ímyndað, geti skort sinn sérstaka tilgang – hefur þá orðið ‘tilgangur’ nokkra skýra merkingu eða notkun, fyrst það gerir engan greinarmun á hlutum? Og sé tilgangur ekki altækur eiginleiki hvernig komumst við að því hvað hefur hann og hvað ekki? Þetta er nokkuð sem snertir mannlífið mjög djúpt – og er, vel á minnst, gott dæmi um mjög óakademísk rök sem skipta meginmáli fyrir mannlega hegðun. Því hafi allt tilgang fylgir margt mikilvægt í kjölfarið: svo sem raunveruleiki náttúrlegra réttinda, eðli mannlegra markmiða, hvað fólki leyfist og leyfist ekki að gera, hvað er mannlegt og ómannlegt, hvað er náttúrlegt og hvað ónáttúrlegt. Þegar til að mynda fólk talar um ónáttúrlegt barn – siðferðilega ófreskju – eða ónáttúrlegan löst, gefur það í raun og veru í skyn, með réttu eða röngu, að mannverur hafi verið skapaðar í ákveðnum tilgangi og þessi frábrigði gangi með einhverjum hætti gegn honum.

Magee Þú talar eins og fólk af þessari gerð sé að gefa í skyn að til sé fyrirbæri eins og náttúrlegur löstur.

Berlin Ég held það geri það. Það mundi halda að til væri fyrirbæri eins og náttúrlegur löstur. Ákveðnir lestir væru hugsaðir sem venjulegir, meiri eða minni háttar, lestir af því tæi sem allir hafa tilhneigingu til, en aðrir lestir væru afskræmdir, rangsnúningur á náttúruskipaninni sem hinn rétti tilgangur hluta er að halda uppi. Í vissum skilningi er þetta umræða um merkingu orða – en fáránlegt væri að segja að það snerist eingöngu um orðnotkun.

Magee Til er vel þekkt heimspeki í nútímanum – kannski sú áhrifamesta og sú sem víðast er rædd – sem gefur fólki öll svörin, leggur því til fullkomna skýringu á heiminum, sögunni og lífinu almennt, úthlutar öllu og öllum tilgang: nefnilega marxisminn. Heldurðu að þetta greini hann frá öðrum tegundum heimspeki?

Berlin Nei, ekki þetta, held ég, eða ekki þetta eitt sér. Höfundar mikilla frumspekikerfa reyndu líka að gera þetta: Platon, Aristóteles, stóumenn, Tómas frá Akvínó. Meðal seinni tíma hugsuða reyndu Hegel og Auguste Comte að fjalla um alla reynsluna. Munurinn er sá að marxisminn, þegar hreyfingin er tekin sem heild, vill afnema heimspeki í eldri merkingunni í þágu vísindanna um samfélagið sem hann gerir tilkall til að vera. Marxisminn gerir kröfu til að vera nákvæm vísindaleg kenning um söguna, um hvernig menn hafa þróast frá fyrstu tímum. Þessi þróun er sögð ráðast af vexti hæfileika mannsins til að framleiða efnisleg gæði. Framleiðsla – hver stjórnar framleiðslutækjunum – hráefni, verkfæri, menn, hvernig þetta er notað, hvað gert er við framleiðsluvöruna – þetta ákvarðar allt annað: dreifingu valds – hverjir eru hinir ríku og hinir snauðu, hver er herra og hver er þræll eða ánauðugur, hver er húsbóndi og hver þjónn eða bóndi eða verkamaður í verksmiðju, eða slátrari eða bakari eða kertastjakaframleiðandi – í raun og veru alla samfélagsgerðina. Efnahagsgerð samfélags er talin ákvarða lög þess, stjórnmál, listir, vísindi, ríkjandi viðhorf. Hvort sem fólk gerir sér grein fyrir þessu eða ekki hlýtur, samkvæmt þessari skoðun, allt sem menn hugsa, ímynda sér og vilja að endurspegla hagsmuni ráðandi stéttar. Þess vegna er hið fyrsta sem spyrja skal um hugmyndir, gildi og hugsjónir, sem vitanlega fela í sér og láta í ljós heil viðhorf, ekki, til að mynda, ‘eru þau sönn’? eða ‘eru þau góð í sjálfum sér’? heldur ‘hvaða hagsmunum eru þau til framdráttar’? Hvaða atvinnustétt koma þau að gagni? Sagan er eins og sjónleikur þar sem aðalpersónurnar eru atvinnustéttir sem eiga í sífelldu stríði. Allar hugmyndir, þar með taldar heimspekikenningar, eru vopn í þessu stríði. Fræðilega séð getur ekki verið nein hlutlægni, engin staða hafin yfir baráttuna sem leyfði manni að mynda sér yfirvegaða, óhlutdræga skoðun. Marxisminn er í grundvallaratriðum félagsfræðileg kenning, kenning um félagslega þróun mannskynsins, saga framfara sem hefur óhjákvæmilega í för með sér styrjaldir og byltingar og ósegjanlega grimmd og eymd, en leikrit sem endar vel. Sannleikur og lygi, rétt og rangt, fegurð og ljótleiki, ráðast af stéttarhagsmunum.

Af þessu leiðir að heimspeki sem sjálfstæð fræðigrein hlýtur að renna saman við vísindalega félagsfræði hugmynda – heimspekikenningar ber að skoða og meta með tilliti til hins almenna viðhorfs (hugmyndafræði) sem þær eru kjarninn í og þetta viðhorf ræðst svo aftur af þörfum þeirrar stéttar sem hefur þetta viðhorf. Heimspekingar á borð við Kant og Russell kunna að halda að þeir séu að leita hlutlægra svara – og jafnvel veita þau – við spurningum um eðli efnislegra hluta, orsakalögmálsins eða mannlegrar þekkingar og að þessi svör, ef þau eru sönn, séu eilíflega sönn og að leitin að þeim sé óhlutdræg. En haldi þeir þetta hafa þeir rangt fyrir sér. Slík vandamál koma upp sem hugsunarafurðir sérstaks ástands tækninnar á hverjum tíma og eignaréttartengsla, og þess vegna félagslegra tengsla, sem stafa af því. Þau leika sitt hlutverk í stéttastríðinu og ættu að skoðast í ljósi þessa stríðs. Heimspekileg vandamál er því á endanum ætíð hægt að afhjúpa sem vandamál verklegrar starfsemi. Að vera upptekinn af hreinni kenningu kann stundum að reynast einbert dulargervi, leið til að sneiða hjá félagslegum vandamálum af hálfu þeirra sem eru ekki reiðubúnir að horfast í augu við þau og kann þess vegna að reynast eins konar þegjandi samþykki til að varðveita óbreytt ástand – samfélag sem er stjórnað af léns- eða auðvaldsstofnunum. Strax og maður skilur þessa grundvallarstaðreynd, sem hefur ummyndandi áhrif, þarf hann ekki framar að vera fórnarlamb óþekktra afla sem hjá einföldum sálum valda hjátrú og skelfingu og hjá þeim veraldarvanari trúarlegum, frumspekilegum og heimspekilegum blekkingum. Nú hefur maður eignast vísindi – eins áreiðanleg, alltént fræðilega séð, og eðlisfræði, efnafræði eða líffræði: og þetta gerir manni kleift að skipuleggja líf sitt skynsamlega í ljósi þekkingar á félagslegu eðli mannsins og tengslum þess við hinn ytri heim.

Þetta er hin yfirgripsmikla krafa sem marxistar af öllum skoðanagerðum gera. Þeir líta á heimspekikerfi fortíðarinnar sem visst mörg viðhorf sem hafa komið fram í tímans rás – svokallaða ‘hugmyndafræði’ – sem rísa og hníga með þeim félagslegu skilyrðum sem geta þau af sér. Í þessum skilningi vilja marxistar losna við heimspekina og breyta henni í félagsvísindi, sem í staðinn fyrir að það leysi heimspekileg vandamál leysir þau upp í vandamál verklegrar starfsemi – umfram allt félagslegrar og pólitískrar starfsemi sem marxisminn þykist hafa fundið vísindaleg svör við. Fyrir mér er þetta minnst sannfærandi hluti allrar stefnuskrárinnar. Ég mundi segja að það kunni vel að vera rétt hjá marxistum að tískur í hugsun eigi sér rætur í félagslegri starfsemi, en ekki að vandamálin sem koma upp á meðan starfsemin varir hverfi með henni, enn síður að hún leysi þau. Rúmfræði kann að hafa sprottið af þörfum arkitekta í fornöld – pýramídasmiða eða fyrirrennara þeirra; efnafræði kann að eiga sér upphaf í göldrum. En vandamál um grannfræði og erfðalykla, eða vandamál á borð við „hvers konar yrðing er ‘ekki er hægt að finna ferning með sama flatarmál og hringur’?“ verða ekki leyst með verklegri starfsemi. Aðeins rökhugsun getur leyst fræðileg grundvallarvandamál – stærðfræðileg, heimspekileg, lagaleg, málvísindaleg, líffræðileg, eðlisfræðileg, efnafræðileg – og vinnur oft á háu sértekningarstigi, eftir því sem hvert mál krefst. Kreddan um einingu fræðilegrar kenningar og verklegrar starfsemi er án efa meiriháttar framlag til vissra þekkingarsviða – til að mynda félagslegra fræða – og kann að hafa róttækar afleiðingar fyrir siðfræði og fagurfræði; en hún er ekki (svo orð Marx sjálfs séu notuð) höfuðlykill að hinu fræðilega sviði eins og það leggur sig, jafnvel sem rannsóknaraðferð. Það kann að vera að Marx, sem skrifaði ekkert kerfisbundið verk í heimspeki, hafi ekki gert neitt tilkall til að hafa skapað allsherjarvísindi, ólíkt þekktustu lærisveinum hans, en fyrir þeim er marxisminn höfuðvísindi sem á lykilinn að öllum mannlegum rannsóknum þar sem aðferð díalektískrar efnishyggju er altæk og algild. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta ekki trúverðugt í neinni hinna óteljandi túlkana orðsins ‘díalektískur’ hjá málsvörum marxismans.

Magee Geta marxismans til víðtækrar skírskotunar – sem fer nú kannski dvínandi en var einu sinni sterk – stafaði sumpart af því að hann bauð fram nokkur skýr og auðskilin líkön: sögulíkan og samfélagslíkan og þess vegna líkan af sambandi manns við mann. Án tillits til heimspekilegrar stöðu marxismans kem ég hér að spurningu sem mig langar til að bera upp við þig, spurningunni um hlutverk líkana í hugsun – og mikilvægi þess að við gagnrýnum þau, en það er heimspekileg iðja. Ég talaði hér áðan um hvernig eitt af verkefnum heimspeki og heimspekinga sé að útlista hugtök; en það er reyndar aðeins eitt verkefnið. Hugtök eru, ef svo má að orði kveða, byggingareiningar hugsunar okkar og vitanlega notum við ekki aðeins byggingareiningar í hugsun okkar heldur einnig byggingar. Þær eru oft kallaðar ‘líkön’. Til dæmis þegar talað er um samfélagið hugsa sumir um það eins og einhvers konar vél sem er sett saman af mönnum til að vinna tiltekin verk, þar sem allir hinir mismunandi hlutar sem hreyfast tengjast hver öðrum á tiltekna vegu. En aðrir hugsa um það sem einhvers konar lífveru, eitthvað sem vex líkt og lifandi hlutur, með sama hætti og eikartré vex upp af akarni. Hvort sem maður nú hugsar um samfélagið sem einhvers konar vél eða sem einhvers konar lífveru getur það haft gífurlegar hagnýtar afleiðingar vegna þess að maður fær þá – eftir því hvort þessara líkana er ráðandi í hugsun hans – umtalsvert ólíkar niðurstöður og viðhorf hvað snertir ríkisvald, stjórnmál og félagsleg vandamál yfirleitt, ekki síst hvað snertir tengsl einstaklings og samfélags. Maður hefur þá einnig ólíkt viðhorf til fortíðarinnar og til þess með hve margvíslegum hætti breytingar geta átt sér stað.

Það er vafasamt hvort við getum hugsað yfirleitt án þess að nota líkön, en hvað sem því líður hafa þau áhrif á, móta og takmarka hugsanir okkar á alls konar vegu sem við gerum okkur yfirleitt ekki grein fyrir. Eitt af hlutverkum heimspekinnar er, er það ekki, að afhjúpa líkönin sem leggja til hina (oft) duldu byggingu hugsana okkar og að gagnrýna þau?

Berlin Já, mér virðist þetta vera rétt. Marxisminn sjálfur er ágætt dæmi um það sem þú átt við. Marxisminn byggir líkön sín á einhverju sem líkist nokkuð þróunarkenningu sem hann beitir á alla hugsun og veruleika.

Ég hef lengi talið að saga stjórnmálaheimspekinnar sé að miklu leyti saga breytilegra líkana og að rannsókn þessara líkana sé mikilvægt heimspekilegt verkefni. Alloft er besta leiðin til að útskýra hluti fyrir fólki að nota einskonar hliðstæðu, fara frá hinu þekkta til hins óþekkta. Maður finnur að hann stendur frammi fyrir ráðgátukenndum spurningum: „Hvað er maðurinn?“, „Hvað er mannlegt eðli?“ Maður gæti byrjað með því að svipast um eftir hliðstæðum. Mannlegt eðli líkist nokkuð – hverju? Segjum að við lítum á dýrafræði, við vitum heimikið um hana; eða grasafræði, við vitum heilmikið um hana líka. Hvers vegna skyldi ekki tekið á spurningum um mannlegt eðli með sama hætti? Við erum á leið að grundvalla almenn vísindi um allar skepnur í náttúrunni – vísindi um lífið í öllum myndum þess – eða það var allútbreidd skoðun, að minnsta kosti þegar á átjándu öld – hvers vegna ættum við þá að gera ráð fyrir að mannverur séu öðruvísi? Dýrafræðingar hafa þróað aðferðir til að kanna, til dæmis, samfélög bjóra eða býflugna. Með tímanum, lýsti Condorcet yfir, munum við hafa vísindi um manninn byggð á sömu traustu náttúrufræðilegu lögmálunum.

Það var Whitehead, held ég, sem sagði að heimspekin væri einungis neðanmálsgreinar við Platon, vegna þess að það var Platon sem bar upp flestar stóru spurningarnar sem við höfum verið að fást við æ síðan. Kannski hafði Russell rétt fyrir sér í því að veita Pýþagorasi viðurkenningu fyrir sumt af þessu. Þessir grísku heimspekingar hugsuðu sér stærðfræðina sem dæmi um þekkingu í sinni tærustu mynd eða þekkingarviðmið og töldu þess vegna að hægt væri að útskýra alheiminn rétt með stærðfræðinni einvörðungu. Veruleikinn var stærðfræðilega skipulögð bygging þar sem allt passaði nákvæmlega, eins og til að mynda í rúmfræðinni. Aristóteles kaus heldur líffræðilegt líkan af þróun og fullkomnun. Stóumenn hölluðust að eðlisfræðilegum líkingum eða hliðstæðum. Hin gyðing-kristilega hefð notar hugmyndina um skyldleika – um fjölskylduna: um samband föður við börn sín og samband þeirra við hann og hvert annað – til að varpa ljósi á samband Guðs við manninn og samband manns við mann. Á sautjándu öld reyndu menn að útskýra eðli samfélagsins út frá lagalegum líkönum – þar á hugmyndin um samfélagssáttmálann sem hin félagslegu grunntengsl rætur sínar. Nýtt líkan er tekið upp vegna þess að það er talið varpa nýju ljósi á eitthvað sem hingað til var hulið. Mönnum finnst gamla líkanið ekki hæfa reynslu okkar í raun og veru, til að mynda stigveldislíkan miðalda þar sem hin eilífa skipan alheimsins var hugsuð sem pýramídi með Guð efst og lægri stéttir sköpunarinnar neðst, þar sem allar skepnur og dauðir hlutir hafa sitt eigið ákveðna hlutverk sem þeim er úthlutað af Guði – og volæði er einskonar misgengi, til marks um að maður misskilji stöðu sína í hinni guðlegu skipan. Erum við í raun sannfærð um að það eitthvað eiginlega frábært við konunga, eða hina miklu foringja, eða lénsherra, sem aðra menn skorti um aldur og eilífð? Er þetta í samræmi við það sem við vitum um eðli manna og tengsl þeirra? Hvað réttlætir þá stjórnmálaskipan sem við föllumst á sem skynsamlega – með öðrum orðum, hvert er svarið við spurningunni hvers vegna einn maður ætti að hlýða öðrum? Vissulega er samþykki – látið í ljós með hugmyndinni um samfélagssáttmálann – eini réttmæti grundvöllur félagslegs og pólitísks fyrirkomulags, eða hvað? Þannig frelsar nýja líkanið mann frá áþján hins gamla.

En þá er þess að gæta að þetta nýja líkan skyggir svo aftur á sannleik sem gamla líkanið afhjúpaði – starfsskyldu einstaklinga og hópa: gilda, starfsgreina, fagsviða og stétta – til að leggja sitt af mörkum í almannaþágu, samfélagskenndina, tilfinninguna fyrir friðsamlegri samvinnu í þjónustu sameiginlegra markmiða – andstætt við sókn í persónulegan ávinning sem býsna oft var hugsaður á efnishyggjulegum nótum, sem kenningin um samfélagssáttmálann virtist hafa smættað félagsleg bönd, hollustu í stjórnmálum og persónulegt siðferði, niður í. Þess vegna er samfélagssáttmálalíkanið svo aftur leyst af hólmi af enn öðru líkani byggðu á hliðstæðu við líf jurta og dýra sem frelsar menn frá hinum vélgengishyggjulega forvera sínum. Og á eftir þessu kemur enn annað byggt á hugmyndinni um frjálsan og sjálfkrafa listrænan sköpunarmátt sem fyllir eldmóði menn og samfélög sem mótuð eru af afburðaleiðtogum eins og listaverk eru sköpuð af ljóðskáldum, málurum og tónskáldum. Stundum er líkanið samsett úr nokkrum slíkum hugmyndum – erfða-mannfræðilegum eða lífrænum-sálfræðilegum og svo framvegis. Hver er skýringin á þessari runu viðmiða eða líkana, hvert með sitt samsvarandi tungutak, ímyndir og hugmyndir sem eru í senn merki um og þættir ekki aðeins í fræðilegri kenningu heldur einnig í verklegri starfsemi og umbreyta hvoru tveggja stundum á byltingarkenndan hátt? Hluta af svarinu við þessari mikilvægu en óljósu spurningu er að finna í þeirri staðreynd að á ýmsum tímum í sögunni verða til mismunandi þarfir og vandamál sem geta vissulega valdið vandræðum: mönnum finnast gömlu skoðanirnar hvorki útskýra það né leggja fram lausnir á því sem þeim hluta samfélagsins sem er næmastur og virkastur í siðferðilegum og pólitískum efnum þykir sérstaklega þjakandi. Orsakir þessa ferlis kunna oft að vera efnahagslegar, jafnvel þótt það sé ekki öll skýringin eins og marxistar álíta. En hverjar svo sem þær eru birtist ferlið á meðvituðu stigi í því að breyta siðferðilegum og pólitískum kenningum og hugsjónum sem til grundvallar liggja hin breytilegu ‘höfuðlíkön’ af mönnum og samfélögum sem menn hafa meðvitað og ómeðvitað hliðsjón af í hugsun og athöfn.

Magee Það virðist furðulegt að svo margir sem vilja líta á sig sem venjulega, raunsæja, hagsýna menn skuli vísa á bug gagnrýninni rannsókn á líkönum sem óhagnýtri iðju. Dragi maður ekki fram í dagsljósið forsendur hugsunar sinnar verður maður einfaldlega fangi ríkjandi rétttrúnaðar í öllum málum. Þannig verður líkan kynslóðar manns eða líkan líðandi stundar fangelsi manns án þess að hann geri sér einu sinni grein fyrir því.

Berlin Vissulega.

Magee Í öllu falli, hvað gæti hugsanlega verið hagnýtara en áhrif sumra þeirra hugmynda sem við höfum þegar talað um? Þær hafa haft bein og augljós áhrif á amerísku byltinguna, frönsku byltinguna og rússnesku byltinguna, svo dæmi séu nefnd. Öll trúarbrögð heimsins og allar marxísku ríkisstjórnirnar, svo aðrar séu ekki nefndar, eru dæmi um hvernig heimspekilegar hugmyndir geta haft og hafa bein hagnýt áhrif á mannverur. Því er sú skoðun að heimspekilegar hugmyndir séu einhvern veginn úr tengslum við raunverulegt líf sjálf úr tengslum við það. Hún er með öllu óraunsæ.

Berlin Ég er alveg sammála. Haldi venjulegt fólk annað þá er það vegna þess að sumir heimspekingar hafa stundum notað óþarflega torskilið mál í umfjöllun sinni um þessi efni. En auðvitað má ekki kenna þeim alfarið um þetta. Verði maður virkilega niðursokkinn í einhverja grein kemst maður ekki hjá því að verða einnig niðursokkinn í smáatriðin. Enda þótt hinir miklu heimspekingar hafi ætíð talað þannig að þeir gátu náð til venjulegs fólks – svo að það hefur alltént í einhverri einfaldaðri útgáfu skilið kjarna máls þeirra – þá hefur minni háttar heimspekingum stundum hætt til að verða of uppteknir af smáatriðum greinarinnar. Russell sagði einu sinni eitthvað sem mér virtist mjög skarplega athugað – og kom mér nokkuð á óvart að það skyldi koma frá honum: að aðalhugmyndir hinna miklu heimspekinga séu í meginatriðum einfaldar. Útfærsluna í smáatriðum er ekki að finna í því sem ég hef kallað, kannski með því að einfalda um of, líkön þeirra af heiminum, ekki í grunnmynstrunum sem þeir skyggndu eðli og líf manns og heims með, heldur í vörn þeirra fyrir þessum hugmyndum gegn raunverulegum eða ímynduðum mótbárum. Þar koma vitanlega heilmikil hugkvæmni og mikið tæknilegt orðfæri til skjalanna. En þetta er aðeins hinn flókni vopnabúnaður, stríðsvélarnar á brjóstvirkjunum, til að bægja frá öllum hugsanlegum andstæðingum. Virkið sjálft er ekki flókið: rökleiðsla, máttur röksemda, snýst að jafnaði um árás og vörn, en er ekki hluti af sjálfri aðalhugmyndinni – sem er skýr, auðskilin og tiltölulega einföld. Enginn sem les þá með athygli getur verið í miklum vafa um hver sé kjarninn í hugmyndum Platons eða Ágústínusar, Descartes eða Lockes, Spinoza eða Kants um heiminn. Og þetta á alveg eins við um flesta heimspekinga samtímans sem njóta einhverrar virðingar: á grundvallarsannfæringu þeirra leikur sjaldan vafi og hún er skiljanleg venjulegu fólki. Hún er ekki torskilin eða einungis aðgengileg sérfræðingum.

Gunnar Ragnarsson þýddi

Birt á Heimspekivefnum 21. maí 2004.

 

Tilvísanir

1. Viðbótarfróðleikur um viðmælanda Magees: – Auk þess að njóta mikillar virðingar fyrir víðtæka þekkingu í hugmyndasögu er Isaiah Berlin (1909–1997) í umtalsverðu áliti sem stjórnmálaheimspekingur. Í þeirri grein heimspekinnar mun hann vera best þekktur fyrir greinarmuninn sem hann gerði á neikvæðu og jákvæðu frelsi í ritgerðinni Two Concepts of Liberty (Tvö hugtök um frelsi) sem kom út 1959 og birtist á íslensku árið 1994 í ritinu Heimspeki á 20. öld (Ritstj. Ólafur Páll Jónsson og Einar Logi Vignisson, Heimskringla gaf út). Einnig er fræg ritgerð hans Historical Inevitability (Sögulegur óumflýjanleiki) frá 1954. [þýð.]

 

« Til baka

Samtal við Karl R. Popper

Karl Popper og Bryan Magee ræðast við1

Magee Karl Popper fæddist í Vínarborg árið 1902 og átti þar heima fram á fertugsaldur. Hann var aldrei í Vínarhringnum. Enda þótt áhugamál hans væru flest hin sömu og þeirra var hann ósammála kenningum þeirra. Það mætti næstum því segja að fyrsta bókin hans, Logik der Forschung – sem þýðir bókstaflegaRökfræði rannsóknar – hafi verið skrifuð gegn Vínarhringnum. Þótt hún kæmi út haustið 1934 birtist hún því miður ekki í enskri útgáfu fyrr en aldarfjórðungi síðar (undir heitinu The Logic of Scientific Discovery). Mér er nær að halda að heimspeki heillar kynslóðar í Englandi kynni að hafa orðið öðruvísi ef bókin hefði birst fyrr.

Popper fór frá Vínarborg árið 1937 og var styrjaldarárin á Nýja Sjálandi. Þar skrifaði hann, á ensku, tveggja binda verk sem gerði hann fyrst verulega frægan meðal enskumælandi fólks: Opna samfélagið og fjandmenn þess (The Open Society and its Enemies). Þetta er stórbrotin og kröftuglega rökrædd framsetning á málstað lýðræðis og gegn alræði – og einnig gegn helstu heimspekilegum andstæðingum lýðræðis, einkum Platoni og Marx. Minna rit, Örbirgð söguhyggjunnar(The Poverty of Historicism), sem fjallar um aðferðir fræðilegra félagsvísinda, var upphaflega gefið út sem greinaflokkur um leið og Opna samfélagið og má líta á þessi tvö rit sem samstæður. Á sama hátt má líta á ritiðTilgátur og afsannanir(Conjectures and Refutations) sem samstæðu við hina frjóu frumsmíð, Rökfræði rannsóknar. Síðan 1945 hefur Popper verið breskur þegn og starfað við Hagfræðiskóla Lundúna (London School of Economics), þar sem hann lét nýlega af störfum sem prófessor í rökfræði og vísindalegri aðferðafræði.

Sir Karl, ég veit það frá fyrri samtölum okkar að þú lítur svo á að það að vera heimspekingur sé eitthvað sem þurfi að biðjast afsökunar á. Hvers vegna?

Popper Já, ég get ekki sagt að ég sé stoltur af að vera kallaður heimspekingur.

Magee Það er undarlega að orði komist. Af hverju segirðu það?

Popper Í langri sögu heimspekinnar eru þær heimspekilegu röksemdafærslur miklu fleiri sem ég ber kinnroða fyrir en hinar sem ég er stoltur af.

Magee En augljóst er að þú telur að minnsta kosti einhvers virði að vera heimspekingur, jafnvel þótt það sé ekkert til að vera hreykinn af.

Popper Ég held ég geti borið fram afsökun – einhvers konar vörn fyrir tilvist heimspekinnar eða ástæðu fyrir því að þörf er á að hugsa um heimspeki.

Magee Og hver mundi hún vera?

Popper Hún er sú að allir hafa einhverja heimspeki: við öll, þú og ég, og hver sem er. Hvort sem við vitum það eða ekki tökum við fjölmargt sem sjálfsagðan hlut. Þessar ógagnrýnu hugmyndir sem við göngum út frá eru oft heimspekilegs eðlis. Stundum eru þær sannar eða réttar, en oftar eru þessar heimspekilegu skoðanir okkar rangar. Hvort við höfum rétt eða rangt fyrir okkur er aðeins hægt að uppgötva með gagnrýnni rannsókn á þessum heimspekilegu skoðunum sem við tökum sem gefnar án gagnrýni. Ég held því fram að þessi gagnrýna rannsókn sé verkefni heimspekinnar og réttlætingin fyrir tilvist hennar.

Magee Hvað mundir þú nefna úr samtímanum sem dæmi um ógagnrýna heimspekilega kreddu sem þarfnast gagnrýnnar rannsóknar?

Popper Mjög áhrifamikil heimspeki af því tæi sem ég hef í huga er sú skoðun að þegar eitthvað „slæmt“ gerist í samfélaginu, eitthvað sem okkur geðjast ekki að, svo sem stríð, fátækt og atvinnuleysi, þá hljóti það að stafa af einhverjum vondum ásetningi, einhverju skuggalegu ráðabruggi: Einhver hefur gert það „viljandi“, og auðvitað græðir einhver á því. Ég hef kallað þessa heimspekilegu kreddu samsæriskenninguna um samfélagið. Það er hægt að gagnrýna hana, og ég hygg að unnt sé að sýna fram á að hún er röng: Það er margt sem gerist í samfélaginu sem leiðir óviljandi og ófyrirséð af því sem við höfum gert.

Samsæriskenningin um samfélagið er ein af mörgum ógagnrýnum heimspekilegum skoðunum sem skapa þörf fyrir gagnrýna rannsókn. Þær eru að minni hyggju afsökun fyrir að vera heimspekingur. Þessar röngu heimspekikenningar hafa mikil áhrif og einhver ætti að fjalla um þær og gagnrýna.

Magee Geturðu nefnt einhver önnur dæmi?

Popper Fjölmörg. Mjög skaðlega heimspeki má orða á þessa lund: „Efnahagslegir og pólitískir hagsmunir manns ráða ætíð skoðunum hans.“ Ákaflega oft er þessu aðeins beitt gegn andstæðingnum í eftirfarandi formi: „Ef þú hefur ekki sömu skoðun og ég hlýtur þú að láta stjórnast af einhverjum skuggalegum efnahagslegum hvötum.“ Það sem er slæmt við þessa tegund heimspeki er að úti er um alvarlega umræðu sé fallist á hana. Og hún slævir áhuga á því að komast að sannleikanum um hlutina. Því að í staðinn fyrir að spyrja: „Hver er sannleikurinn í þessu máli?“ spyr fólk einungis: „Hvað kemur þér til að halda þessu fram.“ Og þetta er augljóslega spurning sem skiptir litlu máli.

Ámóta heimspeki, einnig háskalega, og um þessar mundir gífurlega áhrifaríka, má orða á þessa leið: „Rökleg umræða er aðeins möguleg milli manna sem eru sammála um grundvallaratriði.“ Þeir sem leggja trúnað á þetta halda því líka fram að útilokað sé að ræða af skynsamlegu viti um grundvallarspurningar. Stundum er þessi heimspeki varin með eftirfarandi staðhæfingu: „Með því einu móti að hvor fallist á annars grundvallarhugmyndir í upphafi getum við vænst þess að ná samkomulagi í röklegri umræðu.“ Þessi heimspeki lætur nokkuð líklega og skynsamlega í eyrum en hún hefur skelfilegar afleiðingar. Því hún sundrar mannkyninu í hópa – menningarhópa – sem geta ekki ræðst við af skynsamlegu viti heldur aðeins háð stríð. Þetta er ekki einungis léleg heimspeki, heldur, að minni hyggju, ósönn heimspeki – heimspeki sem hægt er að hrekja, þó ekki á þá lund að ég geti hrakið hana á fáeinum mínútum. En tilvist hennar og feiknaleg áhrif er, að minni hyggju, ein afsökunin fyrir því að vera heimspekingur.

Magee Þú heldur þá þessu fram: Við stundum öll heimspeki í þeim skilningi að við höfum öll heimspekilegar skoðanir og breytum eftir þeim. En venjulega er okkur ekki ljóst að það sem við erum að gera er að viðurkenna gagnrýnislaust að skoðun eða kenning sé sönn.

Popper Já.

Magee Og sumar af þessum kenningum eru réttar, segirðu, en aðrar eru ekki aðeins rangar heldur einnig skaðlegar. Og þú segir að hið raunverulega hlutverk heimspekinnar sé að kanna á gagnrýninn hátt heimspekilega fordóma okkar sem við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir og að leiðrétta þá sem þurfa leiðréttingar við.

Popper Einmitt. Annars held ég ekki að þörfin á að leiðrétta það sem atvinnuheimspekingar segja væri nægileg málsbót fyrir tilvist heimspekinnar.

Magee Það er þveröfugt við skoðun Moores.2 Hann sagði einu sinni að heimurinn sjálfur legði ekki til vandamál sem kæmu sér til að vilja hugsa heimspekilega – að hann hefði einungis orðið heimspekingur vegna þess hve fjarstæðar kenningar aðrir heimspekingar hefðu látið sér um munn fara.

Popper Að minni hyggju leiðir þetta til einskonar heimspekilegrar innræktar. Það mundi gera heimspekina of sérhæfða, að fyrirmynd nútíma raunvísinda. Ég hygg að sterk rök megi færa gegn þessari sérhæfingu í vísindunum sem er allt of mikið í tísku, og rökin gegn sérhæfingu í heimspeki eru enn sterkari.

Magee Þú nefnir nútíma raunvísindi – mér skilst þú hafir fengið einhverja þjálfun í þeim, er það ekki?

Popper Jú. Nám mitt hófst reyndar á sviði stærðfræði og eðlisfræði og fyrsta kennarastaða mín var við framhaldsskóla í þessum greinum. En ég var aldrei sérfræðingur og ég vann alltaf við það sem ég hafði mestan áhuga á. Í eðlisfræði var ég einungis áhugamaður, stundaði hana aldrei að atvinnu. Ritgerð sem ég skrifaði til að fá kennararéttindi í stærðfræði var um frumsetningar rúmfræðinnar og seinna vann ég að því að finna frumsetningar í líkindafræði.

Magee Var þetta þungamiðja rannsóknarsviðs þíns?

Popper Það er erfitt að segja. Ég gæti kannski sagt að rannsóknir mínar hafi snúist um aðferðir raunvísindanna, einkum nútíma eðlisfræði, eða svo ég noti nýtískulegra heiti, heimspeki vísindanna. Annars hef ég mörg önnur áhugamál.

Magee Hverjar voru meginhugmyndirnar í fyrstu bók þinni, Rökfræði rannsóknar?

Popper Meginhugmyndin var sú, hygg ég, að í ljósi hinnar nýju þyngdaraflskenningar Einsteins væru allar eldri skýringar á því hvernig raunvísindin ganga fyrir sig og á eðli vísindalegrar þekkingar rangar.

Magee Hvernig þá?

Popper Sú skoðun var almennt ríkjandi að vísindin, eða vísindaleg þekking, væru sérstaklega örugg eða mjög áreiðanleg tegund þekkingar; einnig að hún væri árangur af athugunum og tilraunum. Athugun og tilraun kæmu okkur til að setja fram tilgátu. Þegar hún væri athuguð og prófuð, aftur og aftur, yrði hún viðurkennd sem staðfest eða sönnuð vísindaleg kenning. Þetta var í stuttu máli hin viðtekna skoðun. Ég sá að hún var orðin óverjandi vegna véfengingar Einsteins á kenningu Newtons – árangursríkustu og mikilvægustu kenningu sem nokkru sinni hafði verið sett fram og viðurkennd.

Magee Hvers vegna telurðu kenningu Newtons svona einstæða?

Popper Newton lét okkur skiljast í fyrsta sinn eitthvað um heiminn sem við lifum í. Og í fyrsta sinn höfðum við góða og gilda ástæðu til að ætla að við hefðum kenningu sem væri rétt. Því kenning Newtons gerði okkur kleift að spá nákvæmlega um nýjar afleiðingar – svo sem um frávik frá lögmálum Keplers – og þessar spár stóðust hin rækilegustu próf. Mesti árangur kenningarinnar var vitaskuld uppgötvun reikistjörnunnar Neptúnusar. Sú uppgötvun snéri yfirvofandi ósigri upp í sigur.

Magee Geturðu farið svolítið nánar út í þetta?

Popper Athuganirnar á reikistjörnunni Úranusi sýndu smávegis misræmi við spárnar sem leiddar voru af kenningu Newtons. Þá bentu þeir Adams í Englandi og Leverrier í Frakklandi á að þetta sýndarmisræmi mætti skýra ef gert væri ráð fyrir að til væri reikistjarna utar í sólkerfinu sem hefði ekki enn sést. Báðir reiknuðu út stöðu þessarar óþekktu reikistjörnu og Galle í Berlín var ekki lengi að finna hana. Ég hygg að þetta hafi verið furðulegasti og mest sannfærandi árangur sem mannlegir vitsmunir hafa nokkurn tíma náð, enda þótt það verði að viðurkennast að svipaðar velheppnaðar spár hafa síðan orðið ekki ótíðar. Alltént efuðust fáir, eftir þennan mikla árangur, um að kenning Newtons væri rétt. Venjan var að líta svo á að kenningin hefði verið sönnuð með aðleiðslu3 sem byggðist á athugunum. En nú kom Einstein fram með kenningu sem stríddi gegn henni. Skoðanir um kosti þessarar nýju kenningar voru ákaflega skiptar, og þær eru enn skiptar. Sumir eðlisfræðingar ríghalda enn í kenningu Newtons af ýmsum ástæðum.

Magee Hvorri ert þú hlynntur?

Popper Ég tel kenningu Einsteins hafa yfirburði yfir kenningu Newtons, en það er reyndar ekki aðalatriðið hjá mér.

Magee Hvert er þá aðalatriðið?

Popper Það er að öll athugunargögnin sem færa má til stuðnings kenningu Newtons má einnig nota til að styðja afar ólíka kenningu Einsteins. Þetta sýnir ótvírætt að okkur skjátlaðist hreinlega þegar við töldum að segja mætti að kenning Newtons væri staðfest eða sönnuð með aðleiðslu, á grundvelli athugunargagnanna. Það sýnir ennfremur að því verður ekki haldið fram að neinkenning sé sönnuð með aðleiðslu. Því ekki gat verið um tilkomumeira samræmi milli kenningar og athugunargagna að ræða en þar sem kenning Newtons var. Ef þetta nægði ekki einusinni til að sanna kenninguna með aðleiðslu þá var ljóst að ekki nokkur skapaður hlutur entist til þess.

Magee Er þetta ástæðan til þess að þú hvarfst frá aðleiðslukenningunni?

Popper Já. Í grundvallaratriðum er rökstaðan ákaflega einföld. Ótaldar athuganir á hvítum svönum geta ekki sannað þá kenningu að allir svanir séu hvítir: Fyrsti svarti svanurinn sem sést getur hrakið hana. Stuðningur athugana við kenningu Newtons var vitanlega langtum tilkomumeiri vegna hinna hárfínu mælinga sem kenningin sagði mjög nákvæmlega fyrir um. En fyrsta raunverulega misræmið getur hrakið eða afsannað hana.

Magee Og vitaskuld kom slíkt misræmi fyrir – eitthvað varðandi reikistjörnuna Merkúr, ef mér skjátlast ekki.

Popper Já, en þetta misræmi var ákaflega lítið og kynni að vera hægt að skýra það (eins og Dicke benti á) innan ramma kenningar Newtons. Það sem ég á við er ekki aðallega það að kenning Newtons hafi verið hrakin ella þá að kenning Einsteins hafi afdráttarlaust leyst hana af hólmi. Ég á frekar við það að síðan Einstein kom fram með kenningu sína sem stríðir gegn kenningu Newtons, þá vitum við að jafnvel mesta forsagnargengi, jafnvel ströngustu prófanir, geta ekki sannað kenningu með aðleiðslu. Þetta hlýtur að valda gerbreytingu á viðhorfi okkar til raunvísinda. Það merkir að okkur skjátlaðist um vísindalega þekkingu, að vísindakenningar yrðu alltaf reistar á tilgátum, að það gat alltaf gerst að jafnvel best sannprófaða vísindakenningin yrði leyst af hólmi af betri kenningu. Allt sem við gátum sagt var að betri kenningin yrði að rúma einhvern af vel heppnuðum og vel prófuðum forverum sínum sem færi nærri því rétta. Á þennan hátt mundi hún einnig skýra hvers vegna forveri hennar hafði staðið sig vel.

Magee Geturðu þá tekið saman hina nýju vísindaskoðun sem þú komst að?

Popper Það er þá fyrst að aldrei má líta svo á að vísindakenning hafi verið endanlega sannreynd eða sönnuð. Í annan stað var eitthvað í grundvallaratriðum rangt við þá skoðun að vísindaleg vissa (eða líkindi) aukist eftir því sem endurteknum athugunum eða tilraunum fjölgar. Öllu heldur gegna athugun og tilraun einvörðungu hlutverki prófana. Þessar prófanir eru því mikilvægari þvistrangari sem þær eru. Til að mynda hafði uppgötvun Neptúnusar verið ákaflega ströng prófun. Samt sem áður sannaði hún ekki kenningu Newtons. Allt þetta kom mér til að lýsa vísindalegum prófunum á kenningu sem tilraunum til að hrekjahana. Kenning var góð og gild svo lengi sem hún stóðst prófanir – svo lengi sem hún stóðst tilraunir okkar til að hrekja hana eða afsanna. Og væri hún hrakin kom fram þörfin fyrir nýja skýringarkenningu sem átti að skýra bæði velgengni ogvankanta hinnar fyrri kenningar.

Magee Hvað gerist ef við getum ekki fundið viðunandi kenningu í staðinn fyrir þá kenningu sem hrakin hefur verið?

Popper Þá héldum við auðvitað áfram að nota gömlu afsönnuðu kenninguna þar til betri kenning fyndist, en við mundum nota hana með þeirri vitneskju að eitthvað væri bogið við hana. Það væri um að ræða óútkljáðan vanda og við vissum fyrirfram hvaða lágmarksskilyrðum ný kenning yrði að fullnægja til að teljast áhugaverð lausn á þessum óútkljáða vanda.

Magee Og auðvitað var það með vandalausnarökfræðinni (problem solving logic) sem þú sleist þig lausan frá hefðbundinni raunhyggju með miklum glæsibrag. Má ég nú taka saman í stuttu máli höfuðatriðin fram að þessu? Allt frá tímum Bacons4hefur hin hefðbundna skoðun á því hvernig þekkingu miðar áfram verið eitthvað á þesa leið: Vísindamenn safna gögnum með athugunum og tilraunum þar til þeir eru búnir að fá svo mikið að tiltekin almenn einkenni fara að koma í ljós. Þeir setja fram tilgátur sem byggðar eru á þessum almennu einkennum. Síðan freista þeir þess að styrkja tilgáturnar með frekari athugunum og tilraunum. Í þeim tilfellum þar sem tilraunir þeirra bera árangur er tilgátan staðfest sem lögmál – og viti menn! enn einum leyndardómi náttúrunnar hefur verið lokið upp. Þessi meinta aðferð við að komast að lögmálum með alhæfingu út frá athuguðum dæmum er það sem þekkt er undir nafninu aðleiðsla. En þín skoðun á málinu var allt önnur. Þú boðaðir þá furðulegu kenningu að engin aðleiðsla sé til. Hugmyndin, sagðirðu, lýsir ekki því sem vísindamenn gera í raun og veru og hún er ekki heldur rökgrundvöllur eða forsenda þess sem þeir gera.

Popper Já, ég var og er á annarri skoðun. Samkvæmt henni eru menn og dýr fædd með mikla eðlislæga þekkingu – ráð til að bregðast við aðstæðum, væntingar. Nýfætt barn væntir þess að fá næringu og umönnun. Vænting þess, meðfædd getgátuþekking, getur þó brugðist. Ef svo fer getur það dáið nema því takist einhvern veginn að leysa vandamál sín. Sú staðreynd að meðfædd þekking okkar getur brugðist sýnir að jafnvel hún er einungis getgátur. Ennfremur er það skoðun mín að við lærum ekki með því að athuga hluti, eða með því að tengja atriði saman í huganum, heldur með því að reyna að leysa vandamál. Vandamál kemur upp hvenær sem getgátur okkar eða væntingar bregðast. Við freistum þess að leysa vandamálin með því að breyta getgátum eða tilgátum. Þessar nýju bráðabirgðatilgátur eru könnunarloftbelgir okkar – reynslulausnir okkar. Brugðið getur til beggja vona um lausnir: nýtt atferli, ný tilgáta, ný kenning geta komið að gagni eða misst marks. Þannig lærum við með því að prófa okkur áfram (by trial and error), eða nánar tiltekið með bráðabirgðalausnum og með því að útrýma þeim ef þær reynast rangar. Eins og H. S. Jennings sýndi fram á árið 1910 notar meira að segja amaban þessa aðferð.

Magee En – eins og þú sjálfur hefur bent á einhvers staðar – aðferðin er ekki nákvæmlega sú sama þegar hún er notuð af amöbunni og þegar hún er notuð af Einstein.

Popper Alveg rétt, þar er mjög mikilvægur munur á. Hann er þessi: Á forvísindalegu stigi er okkur meinilla við að okkur kunni að skjátlast. Við ríghöldum því í getgátur okkar í lengstu lög. Á vísindalegu stigi leitum við skipulega að mistökum, að villum okkar. Þetta er stórkostlegast: Við erum vísvitandi gagnrýnin til þess að hafa upp á villunum. Því er það að á forvísindalegu stigi er okkur oft sjálfum tortímt, útrýmt, ásamt kenningum okkar; við förumst með þeim. Á vísindalegu stigi reynum við skipulega að útiloka rangar kenningar – við reynum að láta þær deyja í okkar stað. Þetta er hin gagnrýna útilokunaraðferð. Það er aðferð raunvísindanna. Hún gengur út frá því að við getum skoðað kenningar okkar á gagnrýninn hátt – eins og eitthvað utan við okkur sjálf. Þær eru ekki lengur huglægar skoðanir – heldur hlutlægar tilgátur.

Almenn mynd vísindanna er því svona: Við veljum eitthvert áhugavert viðfangsefni. Við stingum upp á djarfri kenningu sem bráðabirgðalausn. Við reynum eftir bestu getu að gagnrýna kenninguna, og þetta þýðir að við reynum að hrekja hana. Takist okkur að hrekja hana reynum við að koma fram með nýja kenningu sem við gagnrýnum svo aftur, og þar fram eftir götunum. Með þessu móti höfum við lært heilmikið jafnvel þótt okkur lánist ekki að koma fram með viðunandi kenningu: Við höfum lært eitthvað um viðfangsefnið. Við vitum hvar vandinn liggur. Allri aðferðinni má lýsa í stuttu máli með þessum orðum: djarfar tilgátur í taumi strangrar gagnrýni, þar með taldar strangar prófanir. Og gagnrýni og prófanir eru tilraunir til að hrekja eða afsanna.

Magee Og athugun og tilraun koma ekki til skjalanna fyrr en á öðru stigi?

Popper Samkvæmt skoðun minni eru athugun og tilraun í meginatriðum leiðir til að prófa kenningar. Það má því líta svo á að þær heyri til hinni gagnrýnu umræðu um kenningarnar.

Magee Af viðhorfi þínu leiðir að við vitum í raun og veru aldrei neitt – að einungis er um að ræða mismunandi óvissustig . . .

Popper Orðin „vitneskja“ eða „þekking“ og „vissa“ eru til í ýmsum merkingum. „Ég veit“ er til í mjög nákvæmri merkingu sem lýsa má svona: „Ég veit“ merkir „Ég trúi og ég hef fullnægjandi ástæðu til að trúa, þ.e.a.s. það er útilokað að mér skjátlist.“ Þú hefur á réttu að standa þegar þú segir að í þessari merkingu vitum við aldrei: Það er alltaf mögulegt að skjátlast. En ég tel að þetta sé léttvægt og minni háttar mál. Það sem máli skiptir er greinarmunurinn á vitneskju eða þekkingu í huglægri merkingu og vitneskju eða þekkingu í hlutlægri merkingu.

Magee Þú ættir kannski að útskýra þennan greinarmun.

Popper Þekking í huglægri merkingu er tilhneigingar til að aðhafast á tiltekna vegu eða trúa tilteknum hlutum eða segja tiltekna hluti. Þekking mín er tilhneigingarmínar, þekking þín er tilhneigingar þínar. Þekking í hlutlægri merkingu er talaðar eða skrifaðar eða prentaðar staðhæfingar – staðhæfingar eða kenningar sem koma fyrir í tilteknu samhengi, til að mynda í vísindatímaritum. Kenning Newtons eða kenning Einsteins eru dæmi um þekkingu í hlutlægri merkingu. Tilhneigingar Newtons til að setja kenningu sína á blað, eða ræða hana, eru dæmi um þekkingu í huglægri eða persónulegri merkingu. Um leið og hann setti fram hugmyndir sínar í orðum og skrifaði þær var líka komin þekking í hlutlægri merkingu. Báðar tegundir þekkingar eru óvissar eða getgátu- eða tilgátukenndar.

Magee En er í raun og veru þessi reginmunur hvað varðar röklega stöðu á þekkingunni sem ég hef í höfðinu og sömu þekkingu settri á blað?

Popper Já. Að koma hugmyndum okkar í orð, eða það sem betra er, að skrifa þær á blað, skiptir mjög miklu máli. Því með þessu móti verða þær gagnrýnanlegar. Áður voru þær hluti af okkur sjálfum. Við kunnum að hafa haft efasemdir. En við gátum ekki gagnrýnt þær á sama hátt og við gagnrýnum staðhæfingu sem sett er fram í orðum eða, það sem er enn betra, skriflega greinargerð. Orðið „þekking“ er því til í að minnsta kosti einni mikilvægri merkingu – merkingunni „kenningar settar fram í orðum og lagðar fram til gagnrýni.“ Þetta er það sem ég kalla „þekkingu í hlutlægri merkingu.“ Vísindaleg þekking telst til hennar. Það er þessi þekking sem er geymd í bókasöfnum frekar en í höfðinu á okkur.

Magee Og þú telur þekkinguna sem geymd er í bókasöfnum mikilvægari en þá sem geymd er í höfðinu á okkur.

Popper Langtum mikilvægari, frá öllum sjónarmiðum, jafnvel frá því mjög svo huglæga sjónarmiði sem er sú ánægja sem við höfum sjálf af þekkingunni. Því það sem við höfum ánægju af er kenningin sjálf. Segjum að annar hvor okkar komi fram með nýja hugmynd, en það er mjög ánægjuleg reynsla. Þá er að líta á hlutlæg tengsl hennar við hlutlægu gömlu hugmyndirnar og við vandamálin sem við leysum með nýju hugmyndinni; og þessi tengsl eru snar þáttur af ánægjunni. Og vitanlega hefðum við aldrei gert neina uppgötvun ef við hefðum ekki fyrst náð tökum á einhverjum þeirra hlutlægu kenninga sem fyrir eru og á hlutlægri stöðu vandamála – eða með öðrum orðum, ef við hefðum ekki lesið bækur og tímarit um vísindaleg efni. Og allt þetta merkir þekkingu í hlutlægum skilningi. Ennfremur er drjúgur hluti af ánægjunni einmitt fólginn í því að við „leggjum skerf til þekkingarinnar“ eins og frægt orðtak segir. Við erum eins og verkamenn sem hjálpa til við smíði byggingar, eins og verkamenn að smíða dómkirkju . Það skiptir reyndar máli fyrir ánægjuna að skerfurinn sem við leggjum fram er skerfur til vaxtareða þróunar þekkingar í hlutlægri merkingu.

Magee Mig langar til að hverfa aftur að spurningunni um vissu og óvissu. Er það rétt hjá mér að þegar þú talar um vöxt eða þróun þekkingar þá eigir þú í raun og veru aðeins við vöxt eða þróun tilgátukerfa – þó vafalaust vel gagnrýndra og strangt prófaðra tilgátna?

Popper Já. Allar kenningar okkar eru tilgátur.

Magee Og vöxturinn kemur til sem afleiðing af gagnrýni?

Popper Fyrir atbeina strangrar og hugvitsamrar gagnrýni sem hjálpar okkur að afhjúpa ný vandamál og fyrir atbeina djarfra og hugvitsamra ágiskana sem hjápa okkur að leggja fram nýjar og róttækar kenningar sem bráðabirgðalausnir á þessum vandamálum.

Magee En ef við vitum í rauninni aldrei neitt á hverju byggist þá gagnrýnin? Á hvaða forsendum föllumst við á sumar tilgátur og höfnum öðrum?

Popper Forsendurnar koma frá gagnrýninni umræðu um hinar ýmsu stríðandi kenningar. Í þessum gagnrýnu umræðum reynum við að meta kenningarnar frá því sjónarmiði hvort þær eru sannleikanum samkvæmar eða ekki. Eða með nákvæmara orðalagi, við reynum að bera þær saman með því að spyrja hver þeirra virðist komast næst sannleikanum.

Magee En ef engin vissa er til, engin þekking, hvað áttu þá við með „sannleikanum“?

Popper Samsvörun við staðreyndir. Við vitum hvað það merkir að kenning samsvari staðreyndum jafnvel þó við getum ekki skorið úr um hvort hún gerir það í raun og veru eða ekki.

Magee Þú notar orðið „sennileiki“ um það sem þú kallar nálægð eða nálgun við sannleikann, er það ekki?

Popper Jú. Í umræðunni um kenningarnar reynum við að komast að því hver þeirra sé sennilegust. Í henni er stundum að finna góðar og gildar ástæður fyrir því að taka sumar hinna stríðandi kenninga fram yfir aðrar frá þessu sjónarmiði. En þegar best lætur er aðeins um að ræða að verja með skynsamlegum rökum á þennan hátt val einnar kenningar frekar en annarrar. Og komi einhver fram með aðra kenningu á morgun þá getur verið að samkeppnisstaðan milli kenninganna breytist og þar með val okkar.

Magee Og þess vegna hefurðu sagt að við getum aldrei fært fullnægjandi rök fyrir því að tiltekin kenning sé sönn, þó að við getum stundum réttlætt eða rökstutt á fullnægjandi hátt að við tökum eina kenningu farm yfir aðra.

Popper Einmitt. Heimspekingar hafa venjulega reynt að réttlæta kenningu eða trú okkar á einhverja kenningu. Þetta er ekki hægt. En sé heppnin með okkur getum við réttlætt það að við höllumst að einni kenningu frekar en annarri. Ég hef til dæmis sýnt fram á hvers vegna við getum réttlætt það að hallast að þyngdaraflskenningu Einsteins, jafnvel þó við virðum að vettugi sönnunargögnin um hreyfingu Merkúrs.

Magee Kemur það málinu ekki við á þessu stigi að spyrja hvernig?

Popper Í fyrsta lagi getum við sýnt fram á að fyrir hvern vanda sem hægt er að leysa með kenningu Newtons er hægt að fá lausn hjá kenningu Einsteins sem er að minnsta kosti jafn nákvæm. Þetta má orða á þá leið að upplýsingainntak eða reyndarinntak kenningar Einsteins sé að minnsta kosti jafn mikið og kenningar Newtons. Síðan getum við haldið lengra og sýnt fram á að kenning Einsteins hefur meira inntak en kenning Newtons af því að hún leyfir okkur að bera upp og leysa vandamál um útgeislun og flutning ljóss í þyngdarsviðum sem eru kenningu Newtons um megn. Ég hef sýnt fram á að meira reyndarinntak kenningar Einsteins þýði að hún er betur prófanleg en kenning Newtons og þess vegna betur staðfestanleg. Og endanlega getum við sýnt að hún er í reynd betur staðfest, jafnvel þó við sleppum Merkúrsdæminu. En þar sem hinn gagnrýni samanburður var gerður með það fyrir augum að kanna hvor kenningin kæmist nær sannleikanum þá getum við sagt í stuttu máli að niðurstaðan bendi til þess að kenning Einsteins virðist nú sem stendur vera nær sannleikanum en kenning Newtons.

Magee Þegar þú segir „nú sem stendur“ skilst mér að þú eigir við „í ljósi þess hvernig umræðan stendur núna“?

Popper Já.

Magee Þessi hugmynd, hvernig umræðan stendur núna, innleiðir hún ekki afstæðishyggjuþátt?

Popper Nei. Að vísu kemur hún inn með sögulegan þátt, en ekki afstæðishyggjuþátt. Sérhver staðhæfing eða kenning sem er orðuð á ótvíræðan hátt er annaðhvort sönn eða ósönn; þriðji möguleikinn e r ekki til. En ein ósönn eða röng kenning getur verið nær sannnleikanum en önnur. Og það getur líka verið að ein sönn eða rétt kenning hafi meiri sannleik að geyma en önnur. Hún kann að hafa meira „sannleiksinntak“ eins og ég kalla það.

Magee Dæmi?

Popper Ef við segjum að klukkuna vanti nú þrjár mínútur í tólf, þá er sú staðhæfing blátt áfram ósönn að hana vanti fimm mínútur í tólf, en hún er nær sannnleikanum en staðhæfingin að annaðhvort vanti hana tíu mínútur í tólf eða eða hún sé tíu mínútur yfir tólf. Einnig hefur ósanna staðhæfingin að klukkuna vanti nú fimm mínútur í tólf meira sannleiksinntak en óljós sönn staðhæfing eins og „klukkan er nú milli ellefu og eitt“. Það er að segja, stærri flokk sannra staðhæfinga leiðir af henni.

Magee Hvernig stendur á því að þú hefur alla ævi aðallega fengist við raunvísindi og raunvísindalega þekkingu frekar en aðrar tegundir þekkingar?

Popper Miklir vísindamenn og byltingarkenndar kenningar þeirra vöktu aðdáun hjá mér. Auk þess eru raunvísindi einungis almenn skynsemi í öflugri mynd. Gagnrýni er hluti af almennri skynsemi. Það er hluti af almennri skynsemi að leggja skoðanir sem byggjast á almennri skynsemi fram til gagnrýni. Og raunvísindin eru einfaldlega árangurinn af þessari gagnrýni.

Magee Þú hefur spurt: „Hvað eru vísindi?“ Og aðferðin sem þú leggur til að notuð sé til að draga mörkin milli vísinda og ekki-vísinda (non– science) er eitt merkasta farmlag þitt til heimspeki.

Popper Tillaga mín er að telja kenningu til raunvísinda ef við getum sagt til um hvers konar atburður það væri sem við mundum fallast á að væri afsönnun á kenningunni. Eða með öðrum orðum, kenning telst til raunvísinda ef hún er fræðilega séð afsannanleg. Kenning sem getur ekki stangast á við neinn mögulegan eða hugsanlegan atburð er, samkvæmt þessari skoðun, utan við raunvísindi.

Magee Við skulum hafa þetta alveg á hreinu – þú segir ekki að það sem er utan við raunvísindi þurfi endilega að vera ósatt eða rangt. Enn síður merkingarlaust.

Popper Nei. Við getum ekki lagt raunvísindin og sannleikann að jöfnu því við álítum að kenningar Newtons og Einsteins teljist báðar til raunvísinda, en þær geta ekki báðar verið sannar og vel má vera að báðar séu ósannar. En þær eru báðar prófanlegar, og það þýðir að standist þær ekki prófanir eru þær afsannaðar eða hraktar. Ég tek því prófanleika, eða hrekjanleika, sem mælikvarða á vísindalegt einkenni kenningar.

Magee Þeir sem voru í Vínarhringnum, reyndar allir rökfræðilegir raunhyggjumenn (logical positivists), héldu því fram að sérhver staðhæfing utan við raunvísindin væri bókstaflega merkingarlaus, bókstaflega þvættingur. Þú samþykktir þetta aldrei.

Popper Nei, það gerði ég ekki. Að mínum dómi telst staðhæfing sem er óhrekjanleg ekki til raunvísinda, en það gerir hana ekki merkingarlausa. Margar vísindakenningar okkar hafa þróast upp úr óprófanlegum forvísindalegum kenningum. Rekja má sögu kenningar Newtons alla leið aftur til Anaximanders og Hesíóds, og hin forna frumeindakenning var óprófanleg þar til um 1905. Reyndar hafa flestar vísindakenningar sprottið upp úr forvísindalegum sögnum. Ég teldi það villandi að kalla þessar sagnir „merkingarlausar“ . . . En svo virðist sem gagnrýni mín á kenningar rökfræðilegra raunhyggjumanna um merkingarleysi hafi hlotið allvíðtæka viðurkenningu.

Magee Reyndar hefurðu aldrei fengist mikið við spurningar um merkingu yfirleitt, er ekki svo? Og þú hefur ekki heldur talið tungumálið sjálft skipta öllu máli. Þetta er því merkilegra sem það gerist á stað og tíma þar sem mestöll heimspeki beinist að tungumálinu á einn eða annan hátt. Hvað kemur þér til að taka þess afstöðu?

Popper Ég held þú hafir ekki skilið afstöðu mína rétt. Satt er það að ég hef ekki áhuga á merkingarleysisvandanum, og mér leiðast líka rökræður um merkingu orða. Og það er einnig rétt að þeir sem kalla sig stundum heimspekinga tungumálsins eða málspekinga hafa áhuga á þeim merkingarvandamálum sem ég hef hreint engan áhuga á. En ef þú ert að segja að ég telji tungumálið ekki mikilvægt þá er það alrangt. Mundu bara hvað ég sagði um hlutlæga þekkingu. Ég held að ekkert sé eins mikilvægt og tungumálið. Ég er með kenningu og samkvæmt henni er það málið sem gerir okkur mennsk og samkvæmt henni er mannleg vitund – sjálfsvitundin – afleiðing málsins. Ég hef ekki áhuga á að vera með heimspekilegar vangaveltur yfir merkingu orða, sumpart vegna þess að ég hygg að jafnvel dýr geti lært merkingu orða. En mannlegt mál byrjar með lýsandi notkun setninga, eða svo ekki sé eins þurrlega til orða tekið, það byrjar með því að segja frá.

Magee Ég hafði reyndar ekki misskilið þig þótt ég hafi kannski komist klaufalega að orði. Það sem ég vildi láta koma fram var að þú hefur ekki áhuga á að greina merkingu orða. Geturðu útskýrt hvers vegna?

Popper Já. Að hafa áhyggjur út af orðum og merkingu þeirra er einhver elsta dægrastytting í heimspeki. Platon víkur að því hvað eftir annað að fræðarinn Pródikos hafi haft áhuga á að greina milli ólíkra merkinga orða, og þörfin fyrir þessa greiningu hefur því verið kölluð (af Svend Ranulf) „Pródikosarreglan“. Þessi regla var ný og mikilvæg árið 420 f. Kr., en núna eru sum okkar kannski búin að læra þessa lexíu. Það eru til áhugaverðari viðfangsefni, jafnvel á þessu sviði.

Magee Eins og hver?

Popper Að gera sér grein fyrir því að orð ber að nota til þess að setja fram kenningar og að sérstakur áhugi á orðum og merkingu þeirra leiðir til innantóms orðagjálfurs. Ég hef lýst því yfir í þrjátíu ár að skilgreiningar séu innantómar og hef hrakið þá hjátrú að viljum við vera nákvæm þá megum við til að skilgreina orðin sem við notum. Ég reyndi að berjast gegn áhrifum þessarar hjátrúar sérstaklega á sviði félags- og stjórnmálaheimspeki, en árangurslaust. Stjórnmálaheimspekingar halda áfram að skrifa blaðsíðu eftir blaðsíðu þar sem þeir bera saman skilgreiningar. Til dæmis var nýlega gefin út bók um alræðisstefnuna þar sem bornar voru saman um það bil fjórtán skilgreiningar á „alræðisstefnu“, og var þar líka að finna eina sem mér var eignuð, enda þótt ég fengi þessar átölur neðanmáls: „af því að Popper kemur aldrei með skýra skilgreingu á alræðisstefnunni“. Höfundinum sást yfir að ég hafði, í sjálfri bókinni sem hann vitnar í, fært rök gegn því innantóma orðaskaki sem stafar af því að leita nákvæmni í skilgreiningum.

Magee Fólki sem veit ekkert um verk þín mætti fyrirgefast þó það haldi að stjórnmálaheimspeki þín komi vísindaheimspeki þinni lítið við. En það sem þú hefur í raun og veru gert er að færa út skoðun þína á náttúruvísindunum til félagsvísindanna – er það ekki rétt? Með öðrum orðum, heimspeki þín á þessum tveimur, að því er virðist ólíku sviðum, er öll af sama toga.

Popper Það má kannski segja að um sé að ræða ýmsar sameiginlegar hugmyndir. Til dæmis verða okkur alltaf á mistök, í stjórnmálum sem annars staðar, en við getum reynt að læra af mistökunum. Að vera reiðubúin að læra af mistökunum, og að vera á varðbergi gagnvart þeim, kalla ég skynsemisafstöðuna. Hún er ávallt andstæð valdboðsstefnu. Á stjórnmálasviðinu er sú aðferð að læra af mistökum aðferð sem byggist á frjálsri gagnrýni á aðgerðir ríkisstjórnar og umræðum um þær.

Magee Og þú hefur byggt skilgreiningu þína á lýðræði á þessu frekar en á hugmyndinni um stjórn meirihlutans.

Popper Ég vil alls ekki skilgreina lýðræði. Þar að auki er það ekki meirihlutinn sem stjórnar: Sama hvaða flokkur vinnur í kosningunum, þá stjórna hvorki þú né ég. En ég ætti að gera ljóst að ég greini á milli tvenns konar ríkisstjórna. Aðra tegundina getum við losnað við án blóðsúthellinga; hina getum við ekki losnað við án blóðsúthellinga og kannski alls ekki. Ég legg til að kalla fyrri tegundina lýðræði og þá síðari harðstjórn. En ekkert er undir orðum komið. Það sem hins vegar skiptir máli er þetta: Eigi eitthvert land til stofnanir sem gera kleift að skipta um stjórn án ofbeldis og hópur manna reynir að beita ofbeldi af því að þeim tókst ekki að ná völdum án þess, þá er þessi verknaður, hvað sem mennirnir kunna að hugsa eða hafa í hyggju, tilraun til að koma á stjórn sem er haldið uppi með ofbeldi og verður ekki losnað við án ofbeldis, eða með öðrum orðum, þeir eru að freista þess að koma á harðstjórn. Enda þótt þetta liggi í augum uppi hugsar fólk venjulega ekki svona langt.

Magee Hvers vegna hefur svona mikið af stjórnmálaheimspeki þinni verið í formi árásar á kenningar um fullkomið samfélag eða draumórastefnur?

Popper Það er margt í samfélagi okkar sem er grimmdarlegt, ljótt, heimskulegt og ranglátt. Það er alltaf mikið rúm fyrir umbætur. Fólk hefur ætíð dreymt um betri heim og sumir þessara drauma hafa verið aflvaki samfélagslegra umbóta. En eins og ég hef sýnt fram á í riti mínu Opna samfélaginu eru draumar um fullkomið samfélag háskalegir. Púritanar gerðu sér vonir um að koma á fullkomnu þjóðskipulagi, og það gerði Robespierre líka. Það sem hvor þeirra gerði að veruleika var ekki himnaríki á jörðu heldur helvíti ofbeldisfullrar harðstjórnar.

Magee Sumar af vanræktum uppgötvunum þínum í stjórnmálaheimspeki hafi aðrir enduruppgötvað á eigin spýtur. Til dæmis að taka er Djilas sem hafði verið einn af framámönnum í kommúnistaheiminum. Hann setti fram í riti sínu Hin nýja stétt,5sem nú er orðið klassískt, hugmyndir sem þú hafðir birt löngu áður í Opna samfélaginu. Og aftur útlistar síðasta bók hans Ófullkomna samfélagið í löngu og ítarlegu máli setninguna: „Það er sannfæring mín að samfélag geti ekki verið fullkomið“. Hann álítur nú að sú hugmynd að samfélag geti verið fullkomið sé kórvillan hjá kommúnistum.

Popper Ég hygg að þú hafir á réttu að standa um Djilas. Hann hefur á löngum þjáninga- og fangavistarárum komist að skoðunum sem aðrir komust að með gagnrýnni hugsun. Einhvern veginn finnast mér niðurstöður hans tilkomumeiri og dýrmætari.

Magee En við erum nú vitni að greinilegri endurvakningu áhuga meðal gáfaðs æskufólks einmitt á þeim höfundum og kenningum sem þú beindir spjótum þínum gegn: Hegel, Marx, sálgreiningu og tilvistarstefnu. Hver er skýring þín á þessu?

Popper Það hefur alltaf verið tilhneiging til að svipast um eftir viskusteininum – einhverri allrameinabót. Núverandi ástand telst tæplega til nýjunga – nema hvað skynsemi í umræðum hefur raunalega hrakað. Það stafar sumpart af því að fólki finnst að of mikið hafi verið talað og það hafi ekki leitt til neins. Það er því ekki lengur í tísku að rökræða við andstæðinginn. Menn reyna ekki lengur að komast að því hvað sé bogið við röksemdafærslu andstæðingsins. Menn kyngja einhverri tilkomumikilli kenningu í heilu lagi. Þetta er skiljanleg tilhneiging en hörmuleg ef hún verður sérkenni ungra menntamanna. Hún sýnir að vitsmunalegum gæðakröfum og vitsmunalegri ábyrgð hefur hrakað. Dæmi um hugsunarleysi þessarar tegundar andrökhyggju er núverandi stjórnleysistíska. Vissulega ættum við að standa gegn auknu skrifræði og vexti ríkisvaldsins. En mér er fyrirmunað að skilja að sama fólkið og hlýtur að gera sér grein fyrir að stjórnleysi á alþjóðavettvangi þýðir kjarnorkustríð geti trúað því að unnt sé að búa við stjórnleysi innanlands án þess að flækjast í kjarnorkustríð.

Magee Þó að þú hafir ekki gefið út bók í nokkur ár þá hefurðu stöðugt verið að skrifa greinar, ritgerðir, halda fyrirlestra og svo framvegis. Hvað hefurðu einkum verið að fást við nú í seinni tíð?

Popper Ég hef verið að vinna að mörgum efnum: að kenningunni um það sem ég kalla „heim 3“, en með því á ég við hinn hlutlæga heim þeirra verka sem mannshugurinn hefur búið til. Þessi heimur samanstendur af hlutlægri þekkingu – heimi vísindalegra viðfangsefna, kenninga og rökræðna – en einnig heimi hlutlægra listaverka. Annað áhugaefni mitt og skylt þessu er þróunarkenningin. Og tengsl milli þessara tveggja sviða er kenningin um mannlegt mál, sérstaklega frá líffræðilegu sjónarmiði. Þetta hefur ennfremur komið mér til að hugsa dálítið um spurninguna um samband líkama og hugar.

Magee Þetta er urmull viðfangsefna. Að hverju ertu að vinna þessa dagana, bókstaflega talað?

Popper Ég er að svara gagnrýnendum mínum.

Magee Fyrir næsta bindi í Bókasafni lifandi heimspekinga sem helgað er verkum þínum?6

Popper Já.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Samtalið milli vísindaheimspekingsins Karls Poppers og Bryans Magees, heimspekings og rithöfundar, sem hér birtist fór fram í Breska ríkisútvarpinu, BBC, veturinn 1970-71. Er það eitt af þeim samtölum sem Magee átti þennan vetur við tólf breska heimspekinga, auk Poppers, þar á meðal Anthony Quinton, Stuart Hampshire, David Pears, Alfred Ayer, Gilbert Ryle, Peter Strawson og Bernard Williams. Samtölin komu út í bók skömmu eftir að þau voru flutt undir heitinu Modern British Philosophy (Kom fyrst út hjá Secker & Warburg 1971 og Paladin 1973). Rétt er að geta þess að Bryan Magee hefur skrifað ágæta bók um heimspeki Poppers – Popper – sem kom fyrst út 1973 í bókaflokknum Modern Masters (Fontana Paperbacks) og hefur verið endurprentuð ótal sinnum. Þá hefur hann einnig átt samræður við fleiri himspekinga í hinum enskumælandi heimi. Veturinn 1978 var frimmtán samræðum sjónvarpað og jafnmörgum 1987. Úr þeim urðu síðan til bækurnar Men of Ideas (BBC, 1978) og The Great Philosophers (BBC, 1987). [Sú síðarnefnda kom út í íslenskri þýðingu árið 2002 undir heitinu Miklir heimspekingar]. Til skýringar á ávarpinu Sir skal þess getið að Bretadrottning sæmdi Popper þeirri nafnbót. Popper lést í London 17. september 1994, 92 ára að aldri.

2. George Edward Moore (1873–1958). Enskur heimspekingur. Einn af frumkvöðlum rökgreiningar­heimspeki.

3. Aðleiðsla er viðtekin þýðing á induction, en kennarar í heimspeki við Háskóla Íslands munu vera farnir að nota orðið tilleiðsla í staðinn – til betri aðgreiningar frá afleiðslu (deduction) í framburði, að mér skilst.

4. Francis Bacon (1561 – 1626). Enskur heimspekingur, rithöfundur og aðferðafræðingur í raunvísindum, m.m. Spámaður vísindabyltingarinnar.

5. Hin nýja stétt eftir Milovan Djilas kom út hjá Almenna bókafélaginu árið 1958 í þýðingu Magnúsar Þórðarsonar og Sigurðar Líndals.

6. Ritið sem helgað er verkum Poppers í The Library of Living Philosophers kom út 1974 í tveimur bindum. Er það stærsta ritið í þessum bókaflokki. Hluti þess er sjálfsævisaga þar sem Popper gerir rækilega grein fyrir hugmyndum sínum og þróun þeirra. Ævisagan sem ber heitið Leit sem ekki er lokið (Unended Quest) hefur verið sérprentuð. Undir lok samtalsins minnist Popper á kenningu sína sem hann kallar ‘heim 3’ eða þriðja heim. Um þessa kenningu fjallar hann m.a. í Hlutlægri þekkingu og í hinu mikla verki sem heitir Sjálfið og heili þess (The Self and Its Brain. – Springer International, 1977. Leiðrétt prentun 1981). Popper er höfundur fyrsta hluta þessa verks en taugalíffræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Sir John Eccles skrifar annan hluta. Þriðji hluti samanstendur af tólf samræðum milli höfundanna tveggja. Í þrískiptingu Poppers er ‘heimur 1’, eða fyrsti heimur, efnisheimurinn og ‘heimur 2’, eða annar heimur, öll huglæg reynsla okkar og hugsun, bæði meðvituð og ómeðvituð. Varla þarf að taka það fram að hér er um að ræða hugmyndir sem eru mjög umdeildar meðal heimspekinga.

 

« Til baka

Töfrar málspekinnar

Bernard Williams og Bryan Mage ræða saman

INNGANGUR

Heitin tvö ‘málspeki’ (‘linguistic philosophy’) og ‘málgreining’ (‘linguistic analysis’) eru notuð til að tákna sama fyrirbærið: aðferð í heimspeki sem þróaðist aðallega í hinum engilsaxneska heimi og náði fullum þroska á fimmta og sjötta áratug þessarar aldar. Ég hygg að það sé sanngjarnt að segja að aðferð nánast allra sem síðan hafa fengist við heimspeki hafi orðið fyrir áhrifum frá henni. Hinar tvær miklu miðstöðvar þessarar heimspeki voru Oxford og Cambridge. Í Oxford var áhrifamesti einstaklingurinn J. L. Austin1 og í minna mæli Gilbert Ryle. Í Cambridge var það tvímælalaust Wittgenstein. Þessir og aðrir einstaklingar sem áttu hlut að máli voru, eins og gefur að skilja, ólíkir innbyrðis, en þeir áttu tilteknar grundvallarkennisetningar sameiginlegar. Kannski má orða þær helstu á eftirfarandi hátt:

Allt frá dögum Sókratesar hafa heimspekingar haft tilhneigingu til að spyrja spurninga á borð við „Hvað er sannleikur? . . . Hvað er fegurð? . . . Hvað er réttlæti?“ á þeirri forsendu að því er virðist að hvert þessara orða standi fyrireitthvað – kannski eitthvað ósýnilegt eða óhlutbundið en í öllu falli eitthvað sem á sér eigin tilvist óháð því hvernig orðin eru notuð. Það var eins og heimspekingarnir væru að reyna að brjótast gegnum spurninguna, brjótast gegnum tungumálið, til einhvers ekki-mállegs veruleika sem stæði bak við orðin. Jæja, málspekingarnir komu til skjalanna og sögðu að þetta væri kórvilla – og það sem meira er, villa sem flækir okkur í alls konar öðrum alvarlegum villum í hugsun okkar. Það eru, sögðu þeir, engir sjálfstæðir hlutir sem þessi orð tengjast. Tungumálið er mannaverk: við fundum upp orðin og við ákveðum notkun þeirra. Að skilja hvað orð merkir er ekkert meira eða minna en að kunna að nota það. Tökum til dæmis hugmynd eins og ‘sannleika’: þegar maður skilur til fulls hvernig á að nota orðið ‘sannleikur’ rétt – og skyld orð eins og ‘sannur’, ‘sannsögli’ og svo framvegis – þá skilur maður til fulls merkingu þess. Þessi merking er einfaldlega heildarsumma mögulegrar notkunar orðsins, ekki einhver sjálfstæður hlutur sem er til í einhverjum ekki-mállegum heimi.

Í framhaldi af þessu sögðu málspekingar að eina fullnægjandi leiðin til að rökgreina frumhugtök mannlegrar hugsunar – eða hugtökin sem við reynum að ná tökum á heiminum með eða eiga samskipti hvert við annað með – sé að rannsaka hvernig þau eru í raun og veru notuð. Og að iðka málspeki felst í því að framkvæma slíkar rannsóknir. Reyndar er frægasta bókin í málspeki kölluðRannsóknir í heimspeki (eftir Wittgenstein). Venjulega var slík rannsókn gerð á einu hugtaki í einu – það gat til dæmis verið hugtakið hugur (sem er heiti á því sem er sennilega önnur frægasta bók í málspeki, eftir Gilbert Ryle). Nokkrum árum eftir útgáfu þessara tveggja bóka – bókar Ryles 1949 og Wittgensteins 1953 – hafði málgreining gífurleg áhrif á heimspekina. Á þessum árum fór hún alltént að hafa áhrif á það hvernig greinin var iðkuð af næstum öllum í hinum enskumælandi heimi. Maður sem hefur dvalið mörg ár í Oxford og Cambridge, Bernard Williams2, ræðir þetta við mig. Hann er prófessor í heimspeki í Cambridge og mun innan skamms segja þeirri stöðu lausri og taka við rektorsstöðu í King’s College. Hann var á fyrstu námsárum sínum í Oxford þegar málspekin stóð þar með mestum blóma.

UMRÆÐA

Magee Málspekin táknaði brotthvarf frá því sem hafði tíðkast áður. Og það sem hafði tíðkast áður var fyrst og fremst rökfræðileg staðreyndahyggja3 ( Logical Positivism). Með öðrum orðum var rökfræðileg staðreyndahyggja ríkjandi rétttrúnaður einnar kynslóðar, málspeki annarrar. Ein leið fyrir okkur til að lýsa málspekinni er þá að tala um muninn á henni og rökfræðilegri staðreyndahyggju.

Williams Ég held við höfum verið mjög meðvituð um mismuninn, kannski meðvitaðri um hann en þeir sem skoða þetta allt saman seinna. Aðalmunurinn, held ég, var þessi: Staðreyndahyggjan taldi að mælikvarðinn á merkingarbæra orðræðu og þekkingu væri raunvísindin. Hún viðurkenndi að til væru einnig aðrar tegundir orðræðu, en samkvæmt henni var mælikvarðinn á hvort önnur orðræða væri merkingarbær mælikvarði raunvísindanna. Fyrir staðreyndahyggjunni var heimspeki heimspeki raunvísinda en málgreiningin, eða málspekin, gerði sér aftur á móti fulla grein fyrir að orðræða er af margvíslegu tæi. Það væru til margir ólíkir talsmátar, margar ólíkar tegundir merkingar auk vísindalegrar merkingar og verkefnið var að reyna að uppgötva hvernig þessar margvíslegu aðrar tegundir, sem og hinar vísindalegu, virkuðu en ekki að mæla allt með mælikvörðum raunvísinda og dæma hinar tegundirnar merkingarlausar.

Magee Rökfræðilegir staðreyndasinnar sögðu skýrt og skorinort, var það ekki, að staðhæfingar sem ekki væri hægt að sannprófa með reynslu væru merkingarlausar?

Williams Jú, að undanskildum staðhæfingum í stærðfræði eða rökfræði sem voru taldar sannar einungis í krafti merkingar orða. En vissulega voru allar staðhæfingar í siðfræði eða fagurfræði eða trúarbrögðum og reyndar margar hversdagslegar sálfræðilegar staðhæfingar merkingarlausar samkvæmt mælikvarða staðreyndahyggjunnar.

Magee Og uppgangur málspekinnar hafði þau áhrif að mörg orðræðusvið sem rökfræðilegir staðreyndasinnar höfðu látið róa voru tekin inn aftur.

Williams Já, auðvitað. Að vissu leyti hafði hún mjög umburðarlynda afstöðu. Það sem hún var reiðubúin að segja var þetta: „Heimspeki snýst um að gera sér grein fyrir hvernig við notum orð, um tegundir merkinga sem þau hafa, um lífshættina sem þær eru hluti af. Ef þessir orðræðuhættir eru til þá eru þessir lífshættir til og það þarf að skilja þá.“

Magee Þannig að þegar rökfræðilegir staðreyndasinnar hefðu sagt að sérstaklega trúarlegt tal væri merkingarlaust vegna þess að engin leið væri til að sannprófa neitt af því kynnu málgreiningarsinnar hins vegar að hafa sagt: „Nú jæja, áður en við dæmum þetta merkingarlaust skulum við skoða vandlega hvað nákvæmlega hugtökin sem verið er að nota eru og hvernig þau eru notuð – hvernig þau virka innan þessa sérstaka orðræðuheims.“

Williams Já. Vitanlega er frekar kaldhæðnisleg hlið á þessu öllu af þeirri ástæðu að enda þótt málspekin væri, eins og þú segir, vingjarnlegri í garð trúarlegrar orðræðu en staðreyndahyggjan hafði verið, þá sýndi staðreyndahyggjan henni þá virðingu, í vissum skilningi, að sýna fram á að hún væri merkingarlaus út frá forsendum hennar, reynsluforsendunum. Málgreiningarsinnum hætti dálítið til að segja: „Nú jæja, hér höfum við þennan orðræðuhátt sem er einn lífsmáti líkt og hver annar“ – og þetta var þegar óbeint að túlka trúna á róttækan húmanískan hátt. Málgreiningin hafði tilhneigingu til að líta á trú, og trúarsannfæringu, bara sem mannlífsform, sem tjáningu á mannlegum þörfum. Og þó það séu margir, þar með taldir nú margir í klerkastétt, sem væru sammála þessu, var það ekki hin hefðbundna hugmynd allra um trúarsannfæringu.

Magee Þegar við höfum nú greint málspeki frá rökfræðilegri staðreyndahyggju er annar greinarmunur sem við ættum að gera í upphafi umræðu okkar og það er greinarmunurinn á málspeki (linguistic philosophy) og heimspeki málsins (philosophy of language). Þessi tvö heiti eru svo lík að þeim sem þekkir ekki til heimspeki mætti fúslega fyrirgefast að blanda þeim saman eða að telja að þau væru heiti á sama fyrirbærinu.

Williams Hér er um mikilvægan greinarmun að ræða. Heimspeki málsins, eins og ég skil hana, er ein grein heimspeki, eitt svið heimspekinnar. Hún er sá hluti heimspekinnar sem fæst einkum við spurningar sem tungumálið sjálft vekur. Þetta er nú blómstrandi og á margan hátt tæknileg grein og vitanlega stendur hún mjög nálægt fræðilegum málvísindum. Á hinn bóginn er málspeki, eða málgreining, ekki ein grein heimspeki heldur heimspekileg aðferð, aðferð sem hægt væri að beita við heimspekilegar spurningar sem koma upp í öllum greinum. Hún býður upp á leið til að fást við spurningar, hvort heldur í frumspeki, siðfræði eða hverju sem er, og leggur einkum áherslu á að vera meðvitaður um málið sem þessar spurningar eru settar fram á.

Magee Málspekin gaf visst fyrirheit, var það ekki? Hugmyndin var að það væri ekkert innihald í neinum hluta hugtakakerfis okkar sem við sjálf hefðum ekki sett og þess vegna væri enginn afgangur, ekkert eftir, jafnskjótt og búið væri að framkvæma rækilega greiningu á því hvernig hugtak virkaði. Þetta þýddi að heimspekileg rannsókn gæti leitt til þess að vandamálið væri endanlega leyst.

Williams Já. Frasinn sem svo oft var notaður, og ég held að heyrist stundum enn, er ‘ekki leyst heldur leyst upp’. Hugmyndin var að mörg hinna hefðbundnu vandamála hefðu byggst á misskilningi, á óhóflega einföldum hugmyndum um hvernig tungumál okkar virkaði og þegar maður gerði sér grein fyrir hvernig málið virkaði í raun og veru – þegar við færum að skilja merkinguna sem við höfðum í raun og veru gefið orðum okkar – þá sæjum við að það væri ekki hægt að setja bara tiltekin orð saman og vona að þau fyndu sinn eigin áfangastað, ef ég má orða það þannig. Hugsunin gæti ekki bara þotið gegnum orðin og komist til veruleikans. Það væri einungis það sem við gerðum sem ákvæði merkingu spurninganna. Þessu tengist að margar af spurningum heimspekinnar reyndust alls ekki vera, hver þeirra um sig, nein ein spurning. Þær voru oft safn ólíkra vandamála, ólíkra ráðgátna, sem höfðu verið settar undir einn hatt til einföldunar. Og þegar maður sá í gegnum þetta og hafði sundurgreint vandamálin uppgötvaði hann að mörg hinna hefðbundnu vandamála heimspekinnar höfðu ekki verið leyst heldur horfið. Það þurfti ekki lengur að spyrja þeirra. Og fyrirheitið sem þetta gaf var stórkostlegt – og ákaflega spennandi. Það voru í raun og veru menn sem sögðu að allri heimspeki yrði lokið eftir fimmtíu ár. Hún myndi öll heyra sögunni til.

Magee Vegna þess að þegar búið er að rökgreina öll grunnhugtökin út í hörgul verður ekkert eftir til að gera.

Williams Eða við munum alltént hafa losnað við þau hugtök sem voru tilefni hinna djúpstæðu heimspekilegu vandamála.

Magee Samt er þetta í ósamræmi við annað fyrirheit sem málspekin gaf. Rökfræðilegir staðreyndasinnar héldu heimspekinni undir yfirráðum raunvísindanna, en eins og þú útskýrðir áðan voru málspekingarnir reiðubúnir að íhuga hvað sem er. Ein afleiðing af þessu var að litið var svo á að heimspekilegum aðferðum mætti beita við bókstaflega öll orðræðusvið. Það er engin ástæða til þess að við ættum ekki, á þeirri forsendu, að hafa heimspeki læknisfræði, heimspeki hagfræði, heimspeki fólksfjöldakenningar, heimspeki íþrótta – heimspeki alls afdráttarlaust (en einungis ‘alls’ í merkingunni ‘hvers sem er’). Tökum læknisfræði til dæmis. Nokkur sérkennandi hugtök hennar og aðalhugtök eru ‘heilbrigði’, ‘sjúkdómur’ og ‘lækning’ sem öll verða mjög ráðgátukennd strax og farið er að hugleiða þau í alvöru. Hægt væri að beita heimspekilegum greiningaraðferðum við þau og útlista með því orðræðu á sviði læknisfræði. Nú, einmitt sú staðreynd að hægt væri að gera þetta á bókstaflega öllum orðræðusviðum býður upp á endalaust verkefni.

Williams Já. Ég held ekki að neinn hafi nokkurn tíma álitið að unnt væri að útlista öll hugtök. Þeir álitu að unnt væri að leysa helstu vandamálin upp. Og það stafar af því að til var skoðun á því hvaðan helstu vandamálin kæmu. Auðvitað eru heimspekilegar spurningar um hugtök sem þarf að svara um læknisfræði – til að mynda þegar um andlegt heilbrigði er að ræða hefur sumum þótt sjálft hugtakið geðveiki ráðgátukennt – og heimspekileg rannsókn hefur farið fram á þeim grunni. En hvað snertir viðfangsefni málspekinnar reyndust aðalvandamálin koma upp með tvennu móti. Í fyrra lagi með ákaflega almennum hugtökum – ekki hugtökum sem eru eins sérstök og heilbrigði heldur hugtökum sem koma upp alls staðar eins og hugmyndin um að eitthvað sé það sama og eitthvað annað, eða hugmyndin um að eitthvað orsaki eitthvað annað, eða hugtökin um tíma og rúm. Þetta eru hugmyndir sem við notum á öllum orðræðusviðum og hið afar almenna einkenni þeirra verður tilefni meginbálks heimspekilegra vandamála. Síðari mikilvægi flokkur grundvallarvandamála var þau sem talin voru koma upp á mörkunum milli ólíkra tegunda orðræðu, til dæmis á mörkunum milli þess að tala um efnislega hluti og tala um sálræna hluti. Bókin eftir Ryle sem þú nefndir, Hugtakið hugur, var umfram allt tilraun til að beita aðferðum málgreiningar við spurningar á borð við: „Hvernig vitum við að annað fólk hafi reynslu? Hvað er það fyrir lifandi hlut að hafa hugsanir?“ Nú voru þetta vissulega ekki ný vandamál – sett þannig fram voru þau mjög gömul vandamál í heimspeki. Aðalatriðið var að maður tæki eitthvert svið þar sem vandamálin voru mjög knýjandi og notaði þessar nýju aðferðir. Þá myndu vandamálin ekki líta út eins og áður. Þau myndu leysast upp í flokk aðgreindra hugtakalegra viðfangsefna sem við gætum kannski ráðið við.

Magee Hvert var – fyrir utan fyrirheitið um að leysa öll vandamál upp sem er augljóslega aðlaðandi – hið sérstaka aðdráttarafl máspekinnar fyrir svona margt og svona vel gefið fólk? Því hún hafði, þegar öllu er á botninn hvolft, gífurlegt aðdráttarafl. Fólk smitaðist af henni næstum því eins og sjúkdómi.

Williams Fyrir því voru ástæður á ýmsum stigum. Ein þeirra var að þessi heimspeki sýndi, í svo til öllum sínum myndum, einhverja andstæðu milli þess að vera sprottin af djúpum og alvarlegum hvötum og þess að nota hversdagslegan stíl. Dæmin voru hversdagsleg. Það var vísvitandi tilraun til að forðast allt uppblásið heimspekilegt fagmál. Það var ekki háfleygt, og vegna þess að manni fannst um leið að hann væri í raun og veru að gera eitthvað mikilvægt, þó það liti ekki endilega þannig út, þá veitti þetta sérstaka tegund af því sem mætti kalla sókratíska ánægju, þar sem hið hversdagslega efni þjónaði því sem við vissum öll að væri dýpri tilgangur. Útkoman var nokkuð ólík eftir því hvort um Wittgenstein-stíl eða Oxford-stíl var að ræða, en hinn síðarnefndi var oft vísvitandi og háðslega þurr og gerði um leið í því að eltast við greinarmun vegna þess hvað það var gaman. Til er athugasemd höfð eftir Austin sem var fræg á sínum tíma. Hann hélt málstofur þar sem rökræddur var munurinn á að gera eitthvað í ógáti (inadvertently), fyrir mistök (by mistake), af slysni (accidentally) og svo framvegis, og á einhverju stigi spurði einhver þátttakandinn iðulega: „Prófessor Austin, hvaða stór heimspekivandamál varpa þessar rannsóknir ljósi á?“ Og Austin var vanur að svara: „ Í grófum dráttum: á þau öll.“

Magee Margir létu blekkjast af því hve dæmin voru léttvæg. Enda þótt málspekingar, eins og þú segir, tækju vísvitandi upp úrdráttarstíl og notuðu dæmi sem virtust léttvæg höfðu þeir gilda ástæðu til að nota dæmi af því tæi. Hún var sú að þeir vildu ekki að neitt í því sem þeir sögðu ylti á dæmunum.

Williams Það er rétt. Ég hygg að hluti hugmyndarinnar hafi verið að tæki maður eitthvert augljóslega stórbrotið eða áhrifamikið eða að því er virtist djúpt hugsað dæmi þá stæði hann frammi fyrir tveim valkostum: annaðhvort var það í raun og veru djúpt hugsað og þá væri það næstum því áreiðanlega of flókið og erfitt til að byrja með – við hefðum átt að komast þangað með því að taka eitthvert hversdagslegra málefni fyrst – eða það væri ekki djúpt hugsað og aðdráttarafl þess væri bara falskt. Af þessari afar mikilvægu ástæðu setti málspekin til hliðar hefðbundið orðfæri heimspekinnar. Bæði Oxford- og Wittgenstein-gerðin drógu í efa hefðbundna hugmynd um djúphygli eða dýpt. Þær höfðu auðvitað ólíkan stíl, eins og ég vék að. Þar sem Oxford-stíllinn beitti háði og hugvitssemi og forðaðist hátíðleika þá arfleiddi Wittgenstein hins vegar fylgismenn sína að háleitum kröfum um heilindi og alvöru og trúarlegri óbeit á hugvitssemi. Heimspekingur nokkur sagði einu sinni við mig að það hefðu alltaf verið tvær ólíkar ástæður fyrir því að iðka heimspeki – forvitni og sáluhjálp, og þær samsvara nokkurn veginn þessum tvenns konar stíl og ólíku aðdráttarafli þeirra. En báðar þessar stíltegundir leituðu skilnings í hinu hversdagslega og með atbeina þess, og báðar vöktu gremju með því að gera að engu venjubundnar væntingar til heimspekinnar að hún væri djúpt hugsuð en veitti samt huggun.

Má ég bæta einu við um ódramatísku eða hversdagslegu dæmin? Sjálfur tel ég að notkun þeirra hafi verið langtum skynsamlegra fyrirtæki þegar talað var um skynjun eða þekkingarfræði en hún var þegar talað var um siðfræði eða stjórnmál. Það er athyglisvert að í rauninni þreifst stjórnmálaheimspeki alls ekki þegar málspekin réð ríkjum. Hugtökin um hið dramatíska og alvarlega eru sjálf stjórnmálaleg og siðferðileg hugtök, en það á ekki við um að sjá, vita, telja og önnur slík hugtök.

Magee Ég geri ráð fyrir að enn önnur hlið á aðdráttarafli málspekinnar hafi verið innræting hollrar sjálfsvitundar um notkun málsins, innræting næstum því nýrrar tegundar ábyrgðar – viðurkenning þess að það skiptir í raun og veru máli að maður tjái sig óaðfinnanlega skýrt.

Williams Ég held það skipti máli hvers eðlis þessi sjálfsvitund var. Það er athyglisvert að enda þótt sumir hafi gagnrýnt málspekina fyrir að vera smásmuguleg eða bara orðabókarleg eða léttvæg að þessu leyti, eða fyrir að hafa of miklar áhyggjur af smáatriðum í framsetningu, þá er þetta í rauninni sama krafan og iðulega er gerð af skáldum – til að mynda af Auden í mörgum verka hans og af Yeats – sem fannst að einhvern veginn sé heiðarleiki hvað varðar merkingu, að segja hvorki meira né minna en maður meinar, og að gera sér grein fyrir hvað þetta er, vörn gegn upplausn, ótta og sýndarmennsku.

Magee Það er lítið um skrif þar sem þetta sjónarmið er sett fram, er það ekki: Karl Kraus, George Orwell. . . .

Williams Jú – andstaðan gegn spillingu hugans með óskýru málfari. Við verðum að hafa hugfast að Wittgenstein kom frá Vín þar sem þetta hafði lengi verið mikið áhyggjuefni. Í Oxford hefði það ekki verið orðað þannig vegna þess að það hefði hljómað frekar hástemmt, en í raun var þetta án efa hluti af ástæðunni og að mínum dómi mikilvægur hluti.

Magee Ég hygg að í Oxford, þar sem við báðir stunduðum nám í greininni, hafi þessi áhersla á skýrleika, á ábyrgð, á að gaumgæfa rækilega smávægilegan merkingarmun, verið ágæt þjálfun hugans alveg burtséð frá heimspekilegri þýðingu hennar.

Williams Já. Hún hafði vissulega mjög jákvæðar hliðar. Ég held það verði að segjast að hún hafði einnig einhverjar neikvæðar hliðar hvað þetta varðar.

Magee Ég vil koma að þeim seinna, ekki alveg strax. Við höfum talað um hollustuna við skýrleika en þetta vekur undireins eina eða tvær aðrar spurningar. Flestir myndu vera sammála því að Wittgenstein í seinni heimspeki sinni væri nafntogaðastur allra málspekinga, en enginn gæti sagt að hann væri skýr. Þvert á móti. Og ég vil tengja þetta við annað atriði sem þú vilt kannski heldur taka sér. Ég veit það ekki; ég ætla hvort eð er að segja þetta núna. Vegna ástríðufullrar hollustu við skýrleika höfðu málspekingar djúpa (og ég meina djúpa) fyrirlitningu á sumum heimspekingum sem eru ekki skýrir vegna þess að þeir eru ekki skýrir. Þar sker Hegel sig úr. Á fyrstu námsárum okkar í Oxford-háskóla var Hegel vísað á bug með algerri fyrirlitningu af flestum atvinnuheimspekingum, aðallega vegna þess að hann er svo óskýr. Það var skopast að verkum hans og þau kölluð ‘rusl’, ‘þvættingur’, ‘ekki verð alvarlegrar vitrænnar umhugsunar’. En þetta var samt augljóslega – alltént er okkur það ljóst nú – misskilningur. Með öðrum orðum, skýrleika var gefið gildi í heimspeki sem nú er hægt að sjá greinilega að hann hafði ekki.

Williams Ég hygg að skýrleiki reynist vera flóknara hugtak en menn, eða sumir menn, töldu á þeim tíma. Ég hygg að dæmið um Hegel sé margslungið. Ég held ekki að það hafi bara verið af því að hann var erfiður; það var vegna þess að hann var erfiður á tiltekinn hátt. Til dæmis held ég ekki að Kant hafi nokkurn tíma orðið fyrir annarri eins höfnun og þú talar um, en ég held ekki að neinn gæti sagt að Kant, eða mál Kants, væri framúrskarandi auðvelt. Ég held það verði líka að bæta því við að það voru vissar sögulegar ástæður fyrir því að Hegel var hugmyndafræðilega tortryggilegur. Hann var talinn tengjast alræðisbrenglunum í þýskri vitund. Þetta hefur sennilega verið villa, en algeng tegund villu. Það var sögulegt samhengi. En það er rétt hjá þér að skoðunin á sögu heimspekinnar var afar takmörkuð og stjórnaðist að vissu leyti af einhverju hugtaki um skýrleika. Ef við snúum okkur frá þessu að muninum sem við höfum vikið að á stíl Wittgensteins og til að mynda stíl Austins og orðum þennan mun með því að segja að stíll Austins sé skýr á þann hátt sem stíll Wittgensteins er það ekki, þá held ég að við hljótum að meina að Austin sé einhvern veginn þurrari eða bókstaflegri en Wittgenstein. Það eru mjög fáar setningar í Rannsóknum í heimspeki eftir Wittgenstein sem eru ekki fullkomlega blátt áfram setningar. Í þeim er ekki vafasöm málfræði eða torskilin nafnorð.

Magee Það sem er erfitt að skilja er hvers vegna hann hefur skrifað þær. Maður skilur það sem hann segir en ekki hvers vegna hann segir það.

Williams Það er rétt. Það eru setningar eins og: „Ef ljón skyldi tala mundum við ekki skilja það.“ Spurningin er: „Hvers vegna stendur þetta þarna?“ Og ég held að ein ástæða fyrir því að erfitt er að skilja það sé óvissa, mjög djúpstæð óvissa, um að hvaða marki það tengist röksemdafærslu. Hjá Austin, eða mörgum öðrum málspekingum sem við gætum nefnt, eru skilmerkilegar röksemdafærslur. Það er mikið af ‘þess vegna’ og ‘úr því að’ og ‘af því að’ og ‘það verður nú sannað á tiltekinn hátt’. Hjá Wittgenstein eru ákaflega fáar röksemdafærslur. Verkið samanstendur af undarlegum samtölum hans við sjálfan sig og spakmælum, áminningum, hlutum af þessu tæi, og þetta tengist mjög róttækri skoðun sem hann hafði á heimspeki að hún hefði alls ekkert að gera með sönnun eða röksemdafærslu. Við ættum að nálgast heimspekina, segir hann á einum stað, með því að safna áminningum um hvernig við tölum venjulega, nokkuð sem heimspekinni hættir til að fá okkur til að gleyma.

Magee Það er ekki ólíkt því að reyna að fá fólk til að sjá hluti á tiltekinn hátt – en það gera listaverk almennt, einkum leikrit og skáldsögur.

Williams Ásamt þeirri hugmynd að þegar við sjáum hlutina á þennan hátt sjáum við þá samt á þann hátt sem er óspilltur af fræðilegum ofureinföldunum heimspekinnar. Ekkert annað afbrigði málspekinnar var eins róttækt og Wittgenstein hvað varðar sönnun. En það var þessi tilhneiging sem þau deildu öll með honum að endurheimta margslungna gerð venjulegrar reynslu. Hugmyndin um skýrleika er hér tengd því að setja margslungna gerð í staðinn fyirir óskýrleika. Heimspekinni leyfist að vera flókin af því að lífið er flókið. Og ein hinna miklu ásakana á hendur fyrri heimspekingum er að enda þótt þeir hafi verið óskýrir, erfiðir og hátíðlegir, það sem þeir hafi í raun og veru gert sé að einfalda hlutina allt of mikið. Þeir gerðu til að mynda mikið úr andstæðunni milli sýndar og veruleika, en hugmyndin er að hugsi maður í raun og veru um á hve margvíslega vegu hlutir geta virst vera eitt eða raunverulega verið annað og þar fram eftir götunum – eða hvað mætti ætla að ‘veruleikinn’ væri – þá kemst hann að raun um að öll hugsanatengsl okkar um þetta eru langtum flóknari en þeir eða við höfðum upphaflega gert ráð fyrir.

Magee Fyrir fáeinum mínútum vorum við að tala um hvernig, við skulum segja fyrir tuttugu árum, í hinni nýju dögun málspekinnar menn hneigðust til að halda að með því að nota hinar nýju aðferðir yrði búið að leysa grundvallarvandamál heimspekinnar eftir svo sem tuttugu ár. Jæja, þessi tuttugu ár eru nú liðin og grundvallarvandamál heimspekinnar eru enn hjá okkur. Sem sagt, enda þótt málspekin hefði þá umtalsverðu kosti sem við höfum verið að tala um þá var greinilega eitthvað í grundvallaratriðum rangt í væntingum hennar til sjálfrar sín, og kannski þess vegna í hugmynd hennar um sjálfa sig. Við skulum nú tala um gallana á henni.

Williams Heimspekingar hafa oft séð dögun af annarri öld. Við getum undireins skráð um það bil fimm byltingar í heimspeki, þar sem menn hafa sagt: „Hvers vegna hefur heimspekin verið á villigötum? Nú er hún komin á rétta braut.“ Þeim hættir öllum til að rekast á vandamál sinna eigin aðferða áður en mjög langt um líður og málspekin var ekki ein um það. Ég tel að aðaltakmörkun hennar hafi verið að hún vanmat mikilvægi kenninga. Umfram allt vanmat hún mikilvægi kenninga innan heimspekinnar (þó hjá Wittgenstein væri varla hægt að kalla þetta vanmat – öllu heldur algera höfnun). Hún hafði þar að auki þá tilhneigingu að vanmeta einnig mikilvægi kenninga í öðrum greinum. Ég held ekki að hún hafi haft mjög skýra hugmynd um mikilvægi kenninga meira að segja í vísindunum.

Magee Leyfðu mér að ganga úr skugga um að mér sé ljóst hvað þú átt við þegar þú talar um að vanmeta mikilvægi kenninga. Málgreiningarsinnum hætti til að taka upp eitt hugtak í einu með flísatöngum sínum og láta það undirgangast rækilega greiningu – stundum, til að mynda hjá Austin, nánast í einangrun frá öllu öðru, það er að segja án nokkurrar vísunar til skýringarkenningar sem bakgrunns. Er það þetta sem þú átt við?

Williams Það er hluti af því. En það snýst ekki aðeins um umfang rannsóknarinnar (Austin og aðrir lögðu áherslu á mikilvægi þess að skoða skyld hugtök eða hugtakaflokka) heldur einnig um ástæðuna fyrir henni. Ég held að það sem okkur hætti til að gera hafi verið að taka fyrir einhvern greinarmun eða andstæðu og fara vandlega í saumana á þessu og á hinum ýmsu blæbrigðum sem kynnu að tengjast því og koma skipan á þau eða setja þau fram, án þess að íhuga nægilega vel hvaða bakgrunnur gerði þennan greinarmun frekar en einhvern annan áhugaverðan eða mikilvægan.

Magee Þið stunduðuð greinina í smáskömmtum og reyndar var ‘í smáskömmtum’ orðasamband sem þið sjálfir notuðuð oft til að lýsa starfsemi ykkar, var það ekki?

Williams Iðulega. ‘Í smáskömmtum’ var lofsyrði. Austin notaði afhjúpandi hliðstæðu. Þegar kvartað var um margföldun greinarmunar benti hann á að til væru þúsundir tegunda af einhverri gerð skordýra og spurði: „Hversvegna getum við ekki bara fundið sambærilegan greinarmun í tungumálinu?“ Ja, svarið er vitanlega að ástæður okkar fyrir því að greina tegundir bjallna hverja frá annarri eiga sér rætur í tilteknum fræðilegum skilningi á því sem aðgreinir tegundir, skilningi sem þróunarkenningin lætur í té. En hafi maður ekki einhvern fræðilegan skilning að bakgrunni er hvað sem er jafn ólíkt hverju öðru sem er og manni sýnist.

Magee Með öðrum orðum, maður verður að hafa viðmið. Og þetta viðmið er kenning.

Williams Ég held það verði að segjast, og það var ekki nægilega viðurkennt. Það var misjafnt hjá mönnum að hve miklu leyti þeir sögðu að hægt væri að iðka heimspeki í smáskömmtum en ég hygg að viðurkenning þess að vandamálin væru einungis ákveðin, greinarmunurinn einungis látinn í té, af bakgrunni einhvers fræðilegri eða kerfisbundnari skilnings – þetta atriði hygg ég að mönnum hafi oftar sést yfir.

Magee Hér áðan var ég að tala um hvernig málspekingar voru reiðubúnir að beita verkfærunum á hvert sem er af ýmsum orðræðusviðum. Þegar hér er komið í umræðu okkar má tengja þessa staðreynd við einn hinna alvarlegu galla á málspekinni. Málspekingum hætti of mikið til að líta á heimspeki sem aðgreinda frá öllum viðfangsefnum, eða alltént aðgreinanlega frá þeim. Ég minnist þess að einn af virtustu heimspekingum landsins sagði við mig fyrir um fimmtán árum: „Maður þarf ekki að vita neitt til að vera góður heimspekingur. Maður þarf bara að vera greindur og hafa áhuga á faginu.“

Williams Jæja, hann var vissulega heiðarlegri en sumir. Ég held að margir hafi hugsað þetta en hafi ekki verið svo ósvífnir að segja það. Kannski þetta sé nokkuð athyglisverð söguleg athugasemd um hvernig hlutirnir litu út, eins og þú gefur í skyn. Þetta er að vissu leyti önnur hlið á því sem við sögðum hér á undan um hinn byltingarkennda skilning þessarar heimspeki. Hann virkaði að hluta með því að láta manni finnast að eðli heimspekinnar hefði verið misskilið, að menn hefðu iðkað heimspeki rétt eins og þeir væru að kortleggja hið heimspekilega svið eða fást við sérstaka tegund yfirvísinda, og nú hefðum við nýja vitund um heimspeki sem þýddi að við gætum ekki gefið okkur að hún væri þannig. Og eins og ég hef þegar sagt var Wittgenstein haldinn djúpstæðum efasemdum um að heimspeki gæti verið til nema sem andlegar truflanir sem eiga sér stað þegar hugmyndir okkar um okkur sjálf lenda á villigötum. Þessi byltingarkennda tilfinning hvað varðar heimspeki gerði einnig marga djúpt – og óhóflega – meðvitaða um hvað heimspeki væri og ýtti undir þá tilfinningu að hún væri gerólík öllu öðru. Þetta hvatti svo aftur fólk til að álíta að vísindin, til dæmis, gætu ekki verið heimspekileg í sjálfum sér, gætu ekki haft neitt heimspekilegt við sig. Hérna var heimspekin og þarna voru hinar eiginlegu vísindagreinar. Ég held að menn geri sér nú enn einu sinni mjög ljósa grein fyrir að einhverjir hlutar vísinda eru sjálfir heimspeki vísinda, einhverjir hlutar málvísinda eru heimspeki málvísinda, mikið af sálarfræði er heimspeki sálarfræði. Það eru til svið þar sem þörf er fyrir bæði heimspekilega færni og þekkingu í vísindum eða öðrum greinum sem máli skipta. Tvískiptingin milli heimspeki og alls annars fær á endanum ekki staðist.

Magee Að rjúfa þannig tengsl heimspekinnar við aðrar greinar gerði aðferðina líka gallaða með öðrum hætti: það leiddi til skorts á sögulegum skilningi. Það var mjög lítill skilningur hjá málspekingum á því að hugtökin sem þeir rökgreindu ættu sér sögu. Þeir gáfu furðulega lítinn gaum að áformum þeirra málnotenda sem þeir voru að rökræða málnotkun hjá þegar þetta voru fyrri tíðar menn. Það sem gerir allt þetta enn furðulegra er að þeir settu sjálfir notkun í fyrsta sæti sem mælikvarða á merkingu en leiddu aftur á móti alltaf hjá sér þá einföldu staðreynd að notkun orða er sífelldum breytingum undirorpin.

Williams Ég held að þarna sé um tvö ólík atriði að ræða. Annað gengur út á það að öll hugtök eigi sér sögu. Hvaða hugtak sem vera skal á sér einhverja sögu, og hvað það snertir tel ég að þeir hafi haft verjanlega afstöðu þó hún væri dálítið þröngsýn, en hún var þessi: „Við skulum líta á það núna sem kerfi sem gegnir ákveðnu hlutverki.“ Þetta var að vissu leyti eins og ákveðin tegund mannfræði.

Magee En þegar þeir fjölluðu um hugmyndir Lockes eða Descartes eða einhvers annars látins heimspekings þá hætti þeim til að rökræða við hann eins og hann væri starfsbróðir á sömu kennarastofu.

Williams Þegar komið er að sögu heimspekinnar þá vaknar vitanlega öðruvísi spurning og á því leikur alls enginn vafi að afstaðan til mikils af heimspeki fortíðar hafði það sem kalla mætti sterk einkenni tímaskekkju. Þá athugasemd að meðhöndla heimspeki fortíðar eins og hún væri skrifuð í heimspekitímarit í þessum mánuði gerði einhver til að hrósa þessari aðferð. Ég held ekki að við viljum fara út í kenninguna um sögu heimspekinnar og um þessa frekar furðulegu leið til að fást við hana, en það er sanngjarnt að segja að reyndar er hún nokkuð frjó og örvandi og hefur reyndar fengið þróttmeiri arf en sumar tegundir heimspekisögunnar sem láta sér óhóflega annt um að vera ekki bendlaðar við tímaskekkju.

Magee Við höfum verið að tala um gallana á málspekinni og ég held að sérhver þeirra sem við höfum fjallað um sé raunverulegur. Nú langar mig til að vekja máls á einum sem þú telur kannski ekki vera raunverulegan. Hann er engu að síður algengastur af öllum aðfinnslum. Þeir sem eru ekki heimspekingar hafa ætíð haft, og hafa enn, tilhneigingu til að líta á málspekina sem ómerkilega. Málspekingar, hafa þeir alltaf sagt , eru ‘bara að leika sér með orð’, þeir eru ‘léttúðugir’ og svo framvegis. Hvað mundir þú vilja segja um þetta?

Williams Ja, svarið við þessu er að sumt af henni var vitanlega svona. Sumt af henni var smásmugulegt, léttvægt og leiðinlegt. En alltaf og á öllum tímabilum, og hver sem stundar heimspekina, þá eru að minnsta kosti níutíu prósent hennar, samkvæmt ríflegu mati, frekar léleg og munu aldrei vekja áhuga neins síðar meir nema sagnfræðinga. Þetta á við um margar greinar en það á kannski sérstaklega við um heimspeki. Það er því ekki að undra að mikið af málspekinni sé heldur lélegt – af því að mikið af heimspeki af öllu tæi er heldur lélegt. Málspekin var léleg með sérstökum hætti, sem sé þeim að hún var léttvæg, léttúðug og smásmuguleg í stað þess að vera hástemmd, innantóm og leiðinleg eins og mikið af annarri heimspeki er. Heimspeki getur verið léleg með tvennu móti: Hún getur annaðhvort verið smásmuguleg eða hún getur verið húmbúkk. Málspekin sérhæfði sig í að vera léleg með því að vera smásmuguleg. Það er að minnsta kosti satt yfirleitt, og það er algerlega satt um Oxford afbrigðið sem gagnrýninni sem þú nefndir var sennilega beint gegn. Það ætti að koma fram að sumir sem skrifuðu í anda Wittgensteins hafa verið lélegir í hina áttina. Eins og segja mætti að Wittgenstein hafi leitað dýptar í heimspekinni en Austin hins vegar nákvæmni þá skiptust skrif lélegri fylgismanna þeirra annaðhvort í torrætt húmbúkk eða leiðinlega smásmygli. Nú jæja, verði heimspeki manns léleg þá er smásmyglin að sumu leyti virðingarverðari en húmbúkkið, einkum þegar heimspekingurinn verður að láta sér lynda að vera kennari í faginu. En að þessu frátöldu, sé farið út fyrir lélegu dæmin þá er ásökunin ekki rétt. Það sem er túlkað sem eitthvað léttúðugt: að hafa áhyggjur af hvað setningarnar merkja í raun og veru var nauðsynlegur og ómissandi hluti þeirrar tegundar sjálfskilnings hvað varðar tungumálið – láta það hljóma til að heyra nákvæmlega hvaða tón setningin myndar – sem við töluðum um hér á undan.

Magee Ég veit af fyrri rökræðum við þig að þú ert mjög andsnúinn hugmyndinni, svo vinsælli af því að hún er þægileg fyrir mann, sem kemur fram í orðum eins og þessum: „Hafðu ekki áhyggjur af því sem ég segi, það sem ég meina er það sem skiptir máli.“

Williams Það er rétt. Það var þetta sem málspeki af öllum gerðum var góð í að stoppa fólk í að segja og, það sem skiptir enn meira máli, stoppa það í að finnast. Þetta og sú hugmynd að einhvern veginn hafi ég merkinguna hérna – litla setningin mín mun reyna að tjá þér hana – en ef hún tjáir þér hana ekki þá er það vegna einhvers skorts á ímyndunarafli hjá þér. Við berum ábyrgð gagnvart orðum okkar vegna þess að við höfum ekki, að lokum, þessar merkingar bara innra með okkur, óháð því sem við höfum tilhneigingu til að segja. Setningarnar eru það sem við meinum.

Magee Þú hefur gert góð reikningsskil – hvað stendur eftir að lokum? Hver er arfurinn? Ég skal byrja og svara eigin spurningu með því að nefna eitt einfalt atriði: Arfurinn er mikill. Málspekin hefur haft áhrif á hvernig allir iðka heimspeki nú. En að því sögðu, hvað annað stendur eftir að lokum?

Williams Ja, ég held að atriðið sem við drápum á síðast, atriðið sem snertir ábyrgð okkar gagnvart því sem við segjum, standi eftir hjá okkur; einnig sú hugmynd að heimspekileg vandamál muni ekki endilega hafa það form sem hefðin gaf þeim – sú hugsun að það sem var kallað heimspekilegt vandamál er oft óróasvið sem verður að kanna með þeim næmleika sem málspekin hvatti til. Þetta er vissulega mjög jákvæð arfleifð. Þegar hún er tengd endurheimtum áhuga á kenningum sem heimspekin sýnir nú ljóslega, þá fær maður óvenjulega frjóa samsetningu. Það er þó nokkuð athyglisverð skammtíma söguleg staðreynd að, enda þótt heimspekin sé nú mjög frábrugðin því sem hún var jafnvel fyrir aldarfjórðungi, þá hefur í okkar hefð verið miklu minna um að hafna þessari leið til að iðka heimspeki en iðulega á sér stað við slíka breytingu.

Magee Sú hlið málspekiarfsins sem ég met mest er útvíkkun heimspekilegrar rannsóknar til nýrra efnissviða. Sú hugmynd að hægt sé að beita aðferðum málgreiningar við hugtök á öllum sviðum hefur leitt til þess að til hefur orðið það sem nánast má líta á sem nýjar greinar.

Williams Sú hugmynd að heimspekin fengist við að íhuga tungumálið og um leið að hún hefði ekkert sérstakt eigin viðfangsefni auðveldaði þessa framvindu. Sú staðreynd að hin ströngu mörk milli heimspeki og hinna eiginlegu vísinda hafa leyst upp að miklu leyti (þetta kom fram hér á undan) hefur nú enn frekar auðveldað hana. Málspekin stuðlaði vissulega að tilkomu þessara greina. En takmörkun þessarar heimspeki, umfram allt í Oxford-gerðinni sem var í almennari mæli umtalsverður annmarki, viss tegund bókstafshyggju, hafði samt neikvæð áhrif á hvernig þær voru stundaðar. Hún skildi ekki þá mikilvægu staðreynd að í sögu vísindanna – eða sögu heimspekinnar, ef hún er til umræðu – skipar bókstafleg nákvæmni venjulega annað sæti. Einhver hafði eitthvað nýtt að segja og vegna þess að það var ný innrás í heiminn gat varla hjá því farið að það væri óskýrt, af því að það hlaut nánast að passa illa við þá hugtakanotkun sem fyrir var. Nú, Austin neitaði þessu ekki alfarið. Hann sagði að það sem við yrðum að gera væri að útlista það allt, koma á það röð og reglu, og þá sæjum við hvar við værum stödd hver svo sem kenningin var. Þetta virðist mér núna, og ég held mér hafi virst það þá, vera ósönn mynd. Tökum til að mynda kenningu á borð við kenningu Freuds: Hún gerði nokkuð stóra innrás inn í hversdagsmál okkar. Við neyddumst til að segja hluti sem við sögðum ekki oft – gátum tæplega sagt – áður. Við urðum að segja að fólk tryði einhverju sem það vissi ekki að það tryði, að til væru ómeðvitaðar óskir og annað sem syndgaði að einhverju marki gegn mæltu máli. Mér virðist það nú alröng og ófrjó hugmynd að halda að það sem maður gerir sé að skoða hin málfarslegu tengsl, reyna að koma á þau röð og reglu og vega síðan og meta framlag Freuds. Sé framlag Freuds það sem talið er að það hafi verið þá mun það búa sér til eigið rými. Það er líkt og lifandi jurt sem breiðir úr sér – hún breytir lögun hlutanna í kringum sig. Hún býr sér til eigið rými. Málspekin vanmat í hve mikilvægum skilningi nýjar vísindalegar uppgötvanir búa sér til eigið hugtakarými – að þær, ef svo má að orði kveða, beinlínis rífa niður hluta af máli og hugsun í kringum sig með óvæntum hætti sem kann að virðast í fyrstu stjórnlaus, naumast skiljanlegur. Sú staðreynd að mikið af frjóustu hugsun okkar á einhverri tiltekinni stundu gæti varla annað en verið fálmkennd, lélega ígrunduð og óskýr, er mikilvæg hugmynd sem málspekin, að minnsta kosti í Oxford-gerðinni, hafði ekki nægilegt rúm fyrir.

Magee Það sem ég mundi vilja segja að lokum um málspekina er að hún heldur áfram að hafa, notuð sem aðferð, gífurlegt og varanlegt gildi, og að hún er einungis stórgölluð ef litið er á hana sem heildarhugmynd um heimspeki frekar en tæki. Það var reyndar tímabil á fimmta og sjötta áratugnum þegar margir heimspekingar töldu að heimspeki fælist í að gera þetta. Það var nú bara rangt. En að því tilskildu að henni sé haldið á sínum stað, sem hjálparaðferð, held ég að erfitt sé að gera of mikið úr gildi hennar.

Williams Já – svo framarlega sem fallist er á það mikilvæga atriði (ef ég má orða það þannig) að tækin sjálf og taskan sem þau koma í hafi tiltekið vitsmunalegt sköpulag sem þýðir að þau verði ekki notuð af hvaða heimspekilegum handverksmanni sem er. Sum tækjanna frá sjötta áratugnum getum við í rauninni ekki lengur notað vegna þess að hugmyndirnar sem mótuðu þau virðast nú ósannfærandi. Hins vegar verða öll tækin yfirleitt aðeins notuð af þeim sem fellst á mótandi hugmyndir þeirra – hugmyndir sem ég tel að hafi breytt á djúpstæðan hátt, og haldi áfram að breyta, hugmyndum okkar um heimspekina, tungumálið og hugann.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. John L. Austin (1911-60) var aðalmaður í hreyfingunni sem er þekkt undir heitunum málspeki, Oxford heimspeki eða heimspeki venjulegs máls. Helstu verk hans, gefin út að honum látnum, eru Sense and Sensibilia (1962) og How to Do Things with Words (1962).

2. Bernard Williams dó í júní 2003 á sjötugasta og fjórða aldursári. Þessari samræðu var sjónvarpað hjá BBC á útmánuðum 1978. – B. W. er talinn einn af merkustu og áhrifamestu breskum heimspekingum á seinni hluta 20. aldar. Af bókum hans skulu hér nefndar Descartes: The Project of Pure Enquiry (1978), Ethics and the Limits of Philosophy (1985), Making Sense of Humanity (1995) og síðasta bók hans Truth and Truthfulness (2002). – Þess má geta að Williams er viðmælandi Magees í samræðunni um Descartes í bókinni The Great Philosophers (1987) sem kom út á íslensku 2002 undir heitinu Miklir heimspekingar.

3. Logical Positivism er venjulega þýtt rökfræðileg raunhyggja en þýðandi telur að ‘staðreyndahyggja’ nái betur merkingu þessa afbrigðis raunhyggjunnar (empiricism), því samkvæmt L. P. snýst öll merkingarbær orðræða, fyrir utan stærðfræði og rökfræði, um staðreyndir!

 

« Til baka