Færslusöfn

Eitt og annað um sambúð heimspeki og skáldskapar

eftir Björn Þorsteinsson*

I

Allir heimspekinemar sem lesið hafa fornaldarheimspeki – og aðrir vel menntaðir menn – kannast við þverstæður Zenons. Frægust þeirra er áreiðanlega sagan um monthanann Akkilles sem bauð skjaldböku í spretthlaup og taldi sér sigurinn vísan, en var svo vitlaus að gefa skjald­bökunni forskot. Allir vita hvernig þetta fór: Akkilles náði aldrei skjaldbökunni og varð að athlægi samborgara sinna. Skjaldbakan hefur sjálfsagt fagnað sigri nokkra hríð, hún hefur verið hafin á loft og krýnd lárviðarsveig og að síðustu hefur hún líklega verið höfð í súpu.
      Í glósum mínum úr tíma í fornaldarheimspeki 5. október 1990 segir frá þverstæðum Zenons. Þar af er einni svona lýst:

Maður þarf að fara úr vinnu (V) og heim (H). Til að fara alla leiðina þarf hann fyrst að fara hálfa leið, og til þess þarf hann fyrst að fara fjórðung leiðarinnar, og þá þarf hann fyrst að fara einn áttunda hluta leiðarinnar, og svo framvegis. Hann fer aldrei neitt.

      Þetta er þverstæða af því að allir heilbrigðir menn sjá að þetta er út í hött: menn komast alltaf heim til sín úr vinnu ef þeir vilja það á annað borð. Rökfræði Zenons hefur ekkert að segja í því efni; það er óhagganleg staðreynd um mannlega tilvist að maðurinn er frjáls þegar hann er búinn í vinnunni.
      Hvað sem því líður hefur þessi þverstæða Zenons áreiðanlega eitthvert gildi. Hún er til dæmis ágæt sem dæmisaga. Þannig má heimfæra hana upp á mann sem sest vígreifur niður til að semja agnarlítið erindi um heimspekilegt efni. Fyrir liggur spurning, og verkefnið er að svara henni. Það virðist ekki mikið mál. En þegar manngreyið býst til að hripa svarið á blað klofnar spurningin óðar í tvær aðrar, og hin fyrri þeirra getur jafnharðan af sér tvær í viðbót þegar við henni er hróflað, og þannig áfram afskaplega lengi. Maðurinn kemst ekki úr sporunum.
      Svona leið mér lengi vel síðastliðið miðvikudagskvöld þegar ég ætlaði að gera alvöru úr því að semja þetta erindi hér á örskömmum tíma. Ótal spurningar steyptu sér yfir mig einsog fuglar úr háloftunum og ég gat lítið annað gert en berja þær frá mér. Svo fór ég að sofa og það hefur alltaf góð áhrif. Morguninn eftir var ég fullur af kommonsens og upp frá því rak mig aldrei í vörðu.

II

Við skulum byrja á því að velta fyrir okkur hvað er líkt með skáldskap og heimspeki. Þar verður fyrst fyrir atriði sem enginn getur dregið í efa: bæði heimspeki og skáldskapur notast við orð, hvort tveggja er orðræða. En þetta samkenni nær ekki langt: heimspeki og skáldskapur eru ekki samskonar orðræða. Orðin eru aðeins tæki, og heimspekin beitir þeim á nokkuð annan hátt en skáldskapurinn. Þennan mun má kannski orða svo að heimspekin tortryggi orðin en skáld­skapurinn beri virðingu fyrir þeim. Þetta skal ég skýra nánar. Heimspekin tortryggir orðin vegna þess að hún verður ætíð að vara sig á að þau leiði hana ekki afvega. Tungumálið er fremur illa til þess fallið að tjá heimspekilega hugsun, en annað tæki hafa heimspekingarnir ekki. Íslenskan hefur til dæmis allt frá dögum Ingólfs verið til lítils annars brúkleg en tjá sig um mannvíg, sjóróðra, tíðarfar, tröll og álfa. Á síðari árum hefur markvisst verið unnið að því að bæta úr þessari örbirgð íslenskunnar, og þar hefur Háskólinn okkar lagt margt af mörkum. Með nýjustu mennta­stefnunni, þeirri sem miðast við velferð peninganna, eru hins vegar horfur á að þessari þróun verði snúið við vegna þess að það kostar eiginlega alltof mikinn pening að hugsa á íslensku. Aðrar þjóðir eru blessunarlega betur á vegi staddar en við að þessu leyti; tungumál þeirra eru vanari hugsuninni, en að vísu er ekkert þeirra beinlínis sniðið að þörfum hugsuðanna. Heimspekilegri hugsun verður því oft og óumflýjanlega orða vant, og þá verður hún að fara í kringum hlutina, búa til ný hugtök og skrítnar setningar sem ósjaldan verða afskaplega ljótar að sjá. Orð eru misjafnlega falleg, en þau eru líka misvel til þess fallin að tjá hugsun. Skáld­skapurinn sker sig frá heimspekinni í því að hann setur fegurð orðanna ofar öllu og skeytir minna um merkingu þeirra eða hugsunina sem þau tjá.
      Nú er engu líkara en ég sé kominn að einhverjum tiltölulega einföldum niðurstöðum. Og þá er rétt að staldra við og rifja upp vegna þess að einfaldar niðurstöður eru stórar fréttir; þær eru annaðhvort afskaplega nálægt hinu sanna eða víðsfjarri því, allt eftir því hvaða heimspekistefnu miðað er við. – Niðurstöðurnar eru þessar: hvort tveggja heimspeki og skáldskapur notast við orð. Skáldskapurinn sækist eftir fegurð orðanna og setur merkingu eða sannleika þeirra í annað sætið. Á hinn bóginn leggur heimspekin höfuðáherslu á sannleikann en fegurðin er ekki eins mikilvæg. Þetta má taka saman með þeim orðum að skáldskapurinn hafi orðin sjálf að markmiði en heimspekin ekki. Að vísu sé það skáldskapnum heldur til bóta ef orðin eru ekki bara falleg heldur líka sönn, og á sama hátt sé það síður en svo lýti á heimspekitexta að hann sé fallega orðaður.

III

Nú er auðvitað alveg ljóst að ef orð mín hingað til hafa með einhverjum yfirskilvitlegum hætti borist til þeirrar grísku moldar sem einu sinni var Platon má ætla að moldarkögglarnir hringsnúist með ógnarhraða, vegfarendum eflaust til mikillar undrunar. En ef Platon væri enn á meðal vor myndi hann eflaust senda á vettvang málpípu sína, Sókrates, þennan með stóra nefið, og milli okkar gæti spunnist samræða eitthvað á þessa leið:

      Sókrates tekur fyrstur til máls og segir: „Það sver ég við hundinn, heillaljúfur, að ég undrast visku þína sem sjálfur Hómer hefði verið fullsæmdur af.“
      „Þakka þér fyrir, Sókrates,“ segi ég og roðna kannski ofurlítið af einskæru monti.
      „En heyrðu samt, elskulegur,“ segir Sókrates. „Sagðirðu ekki að skáldskapurinn beindist að fegurðinni í fyrsta lagi, og í öðru lagi að sannleikanum?“
      „Jú,“ segi ég.
      „Og um heimspekina gildi hið gagnstæða, að hún beinist fyrst og fremst að sannleikanum en fegurðin komi þar á eftir?“
      „Öldungis rétt.“
      „Segðu mér þá, ástarpungurinn minn, hvort er meiri veruleiki, hinir mörgu fögru hlutir eða fegurðin sjálf? Eða hefurðu kannski ekki lesið Ríkið?“
      „Jú, jú,“ flýti ég mér að segja, „ég las það fyrir skömmu.“
      „Þú veist þá líklega að fegurðin sjálf er æðri en hinir mörgu fögru hlutir?“
      „Vissulega,“ segi ég.
      „Hvort skyldi nú skáldskapurinn beinast að fegurðinni sjálfri eða hinum mörgu fögru hlutum? Hvort fjalla verk skáldanna um hina æðstu veru eða hina síbreytilegu verðandi?“
      „Það fer nú eftir því hvert skáldið er,“ segi ég.
      „Við skulum láta Einar Ben liggja milli hluta,“ segir Sókrates. „Svaraðu heldur spurningu minni, elsku kallinn minn, og veittu mér af visku þinni, því sjálfur veit ég ekkert um þetta mál.“
      Til að þóknast Sókratesi segi ég: „Skáldin fjalla um hinn mennska veruleika, sem þú nefnir verðandina.“
      „Er það svo, lambið mitt,“ segir Sókrates. „En sagðirðu ekki áðan að skáldskapurinn beindist að fegurðinni sjálfri? Nú höfum við komist að hinu gagnstæða, semsé því að skáldskapurinn lýsi ekki öðru en hinum fögru hlutum, sem eru ekki annað en eftirlíkingar fegurðarinnar sjálfrar. Skáldskapurinn er þannig eftirlíking af eftirlíkingu, í þriðja sæti frá hinum sanna veruleika. Skáld­skapurinn er áróður, hann höfðar til tilfinninga en ekki skynsemi, og hann blekkir jafnvel hina bestu menn. Svölunin sem hann veitir er fölsk, og hann er léttúðugur eins og daðurdrós: honum er ekki alvara með neinu.“
      „Já, ég kannast við þessar hugmyndir,“ segi ég, „og vildi gjarnan ræða þær við þig.“
      „Nú, já,“ segir Sókrates og fer allur að ókyrrast. „Ég er nú reyndar frekar tímabundinn, það er partí hjá Adeimantosi og ég má ekki missa af fordrykknum. Við ljúkum bara samræðunni síðar, endilega hreint, ég hef mikinn áhuga á þessu efni.“
      Svo er Sókrates rokinn.

      Þessi málsvörn Sókratesar var óneitanlega klénni en maður á að venjast. Það er ekki góður siður að leggja látnum mönnum orð í munn, og ég geri það voðalega sjaldan. En Sókrates fékk þó að koma að kjarnanum í gagnrýni Platons á skáldskapinn, og nú skulum við sjá hvað ég hef á móti henni.

IV

Í hnotskurn eru andmæli mín á þá leið að Platon geri sig sekan um fullmikla einföldun og alhæfingu þegar hann heldur fram að allur skáldskapur beinist að sýndinni og sé þess vegna blekking og ekki til annars en svala löngunum. Mér sýnist alls ekki útilokað að skáldskapur geti beinst að veruleikanum sjálfum – platonskum eða öðrum – og að skáldskapurinn geti því aug­ljóslega sagt ýmislegt satt engu síður en heimspekin. Til dæmis er ég ekki í nokkrum vafa um að mikill sannleikur sé fólginn í verkum Dostojevskís, Kafkas og James Joyce. Ég er ekki eins viss um Sigge Stark, Louis Masterson og Snjólaugu Bragadóttur: í verkum slíkra höfunda er líklega ekki eftir miklu öðru að slægjast en svölun frumstæðra hvata, og gagnrýni Platons gæti sem best átt við allan skáldskap af þessu tagi. En svo er náttúrunni fyrir að þakka að ekki eru öll skáld einsog Snjólaug og ekki allar bækur á borð við Gefðu þig fram, Gabríel (1984) og Lokast inni í lyftu (1977). Sumur skáldskapur er góður og annar vondur, það er einfalt og allir vita það. Við skulum segja að góður skáldskapur sé sá sem lætur einhvern sannleika í ljós, en vondur sá sem reynir ekkert í þá átt. Og mér sýnist góður skáldskapur vera ónæmur fyrir ákærum Platons, enda stefnir hann í einhverjum skilningi að sama marki og heimspekin.
      Ein af ákærunum er reyndar sýnu erfiðust viðureignar. Það er sú sem snýst um að jafnt góður sem slæmur skáldskapur höfði til tilfinninga en ekki skynsemi og sé þess vegna ekki annað en áróður. Nánar skoðað snýst þessi aðfinnsla um það að aðferðir heimspekinnar séu aðrar og vandaðri en skáldskaparins, og niðurstöðurnar því margfalt tryggari: heimspekin beiti rökum, hún haldi engu fram nema hún hafi fyrir því gildar ástæður og segi þess vegna alltaf satt. Á hinn bóginn leyfi skáldskapurinn sér að slá fram hugmyndum út og suður og hipsumhaps, og það sé ekki annað en guðslukka ef einhverjar þeirra eru sannar. Megnið af staðhæfingum skáldanna hljóti þá óhjákvæmilega að vera stórhættuleg og skaðleg lygi.
      Þessi ákæra er óneitanlega býsna máttug við fyrstu sýn – en þegar grannt er skoðað má finna að minnsta kosti eitt svar við henni.
      Heimspekin beitir rökum, gott og vel. En heimspekirit eru aldrei hreinræktaðar rökfærslur í einhverjum strangrökfræðilegum skilningi: rökin eru aldrei alveg skotheld þegar öllu er á botninn hvolft. Engin heimspekibók hefur hingað til birt sannleikann á blaðsíðum sínum; heimspekingar gefa sér forsendur, og rökfærslur þeirra orka alltaf tvímælis að einhverju leyti; öll verk heim­spekinga má gagnrýna. Lesandi heimspekirits, rétt eins og sá sem les skáldsögu, ræður því sjálfur hvort hann les með gagnrýnum huga eða gefur orðum höfundarins frið. Enginn heim­spekingur hefur rök sem standast alla gagnrýni, og þess vegna ráðast örlög verka hans að endingu á því hvort lesandinn lætur sannfærast. Það gerir hann ef orðin eru nægilega sann­færandi – og sannfæringin býr í fegurð orðanna.
      Heimspekin þarf semsé að beita sömu aðferðum og skáldskapurinn; hún verður að einhverju leyti að höfða til annars en blákaldrar rökfestu. Vafalaust hefði Platon átt erfitt með að sætta sig við þessa niðurstöðu – en jafnframt er sú kaldhæðni augljós að margar samræður Platons eru án nokkurs vafa í hópi fegurstu heimspekirita sögunnar. Og sannfæringarmáttur þeirra hefur reyndar verið slíkur að í gjörvallri heimspekisögunni er leitun að textum sem svo mikið sem jaðra við að vera sómasamlega skrifaðir.
      Heimspekin tekur sjálfa sig of alvarlega þegar hún fullyrðir að allt sem hún segi sé satt. Á sama hátt er fráleitt að fullyrða að allur skáldskapur sé lygi. Munurinn á heimspeki og skáldskap er ekki ýkja mikill. Um hvor tveggju gildir að þegar best lætur fer sannleikurinn saman við fegurð­ina. Að sönnu hættir skáldskapnum fremur en heimspekinni til að segja ósatt; en grandvörum og sómakærum lesanda sem leitar sannleikans af einurð er fyllilega treystandi til að sjá í gegnum rangfærslur af hvaða tagi sem vera skal. Heimspeki og skáldskapur eru ekki ólíkar dýrategundir: þau eru systkini. Og sálfræðingar segja að það sé eðlilegt og sjálfsagt, gott ef ekki báðum fyrir bestu, að systkini rífist og sláist endrum og eins.

Aftanmálsgrein

*  Erindi á samdrykkju á vegum Soffíu, félags heimspekinema við HÍ, 10. apríl 1992.

Hugsað um aðra í plágunni miðri

Camus og hugsjónin

eftir Björn Þorsteinsson

I

 
Plágan eftir Albert Camus1 er að mörgu leyti einföld bók, jafnvel of einföld – að minnsta kosti á yfirborðinu. Sögusviðið er skýrt afmarkað, framvindan línuleg, sögupersónurnar vissulega nokkuð margar en að henda reiður á þeim er þó barnaleikur fyrir hvern þann sem lesið hefur Dostojevskí eða Márquez. Stíllinn er hreinn og beinn og undir merkjum hlutlægninnar – að vísu setur höfundurinn þann lágmarks-snúning á textann að gera hlutlægnina sjálfa að umfjöllunarefni. Textinn er nefnilega skýrsla sem ein aðalpersónan, eða kannski helsta aðalpersónan, færir til bókar. En í sjálfu sér er ekkert vafamál að allt sem hann segir er „satt og rétt“ (269) – meira um það á eftir. Hvert er svo innihald bókarinnar, um hvað snýst málið? Titillinn fer langt með að skýra frá því: Plágan er sagan af því þegar sú skæða farsótt, sem í almannarómi nefnist plágan, stingur sér niður í borg einni á strönd Norður-Afríku. Þarna er á ferðinni sjúkdómur sem er alræmdur úr sögunni og hefur á ýmsum tímum lagt heilu borgirnar í eyði, eða svo gott sem; og úr Íslands­sögunni er hún þekkt undir því myrka heiti svartidauði sem er órofa tengt ártalinu 1402 í hugum þeirra sem lesið hafa sögu íslensku þjóðarinnar.2 Þetta er bakteríusjúkdómur og er fyrst og fremst bundinn við nagdýr, segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir í svari við spurningu á Vísinda­vefnum, en fyrir kemur að hann berst í menn, þökk sé flóm sem þrífast á nagdýrunum og eiga það til að bíta menn líka. Og þegar sjúkdómurinn er á annað borð kominn í menn smitast hann eins og hvert annað kvef eða flensa: með úðasmiti.
      Strax í upphafi Plágunnar, þ.e. bókar Camus og þeirrar plágu sem bókin segir frá, er sagt frá rottu sem skríður út úr myrku skoti í anddyri húss, „reikul í spori og vot um feldinn“, að aðalsögu­hetjunni, Rieux lækni, ásjáandi. Það er engu líkara en að rottan vilji leita ásjár hjá lækninum:

Hún nam staðar, virtist reyna að ná jafnvæginu, hélt síðan af stað í áttina til læknisins, nam enn staðar, snerist um sjálfa sig, rak upp lágt vein og koll­steyptist að lokum um leið og blóð spýttist út um hálfopinn hvoftinn. Læknirinn leit á hana rétt í svip, hélt síðan upp til sín. (9)

Skemmst er frá því að segja að þetta sviplega andlát rottunnar er fyrirboði mikilla ótíðinda. Rotturnar streyma fram, upp og út, og drepast síðan, og jafnframt tekur mannfólkið að kenna sér meins. Framrás plágunnar reynist óstöðvandi, enda eru mótefnin máttlaus og af skornum skammti, og læknirinn verður að láta sér nægja að stinga á kýlum og hleypa greftrinum út í stað þess að ráðast að rótum vandans.
      Látum þetta nægja um söguþráðinn, að minnsta kosti í bili; sagan fjallar í fáum orðum sagt um baráttu Rieux læknis og ýmissa félaga hans við óværuna. Þannig verður plágan tákn fyrir hið illa í heiminum, það sem kvelur menn og pínir, sviptir þá lífskraftinum, lífslönguninni eða hrein­lega lífinu sjálfu – eða ástvinum sínum. Rieux læknir og önnur persóna bókarinnar, Raymond Rambert blaðamaður frá París, eiga einmitt báðir við það að stríða í bókinni að konurnar sem þeir elska eru utan seilingar, þ.e. utan marka borgarinnar sem enginn má yfirgefa eftir að hún var sett í sóttkví. Þeir taka þessu hlutskipti sínu á ólíkan hátt: Rieux með þeirri stóísku ró og botn­lausu skyldurækni sem gegnsýrir hann, en Rambert með áköfum tilraunum til að sleppa úr prísundinni sem útheimtir fjárútlát og samskipti við ýmsa skuggalega náunga. Svo fer þó að tilraunir Ramberts fara fyrir lítið og hann sættir sig við að lifa með plágunni eins og allir aðrir.
      Þannig er Rambert fulltrúi einstaklingshyggju, þeirrar skoðunar að einstaklingurinn eigi að leita eigin hamingju hvað sem það kostar og burtséð frá aðstæðum samferðamanna sinna, þeirra sem standa honum næst hverju sinni í líkamlegum skilningi. Rieux er aftur á móti fulltrúi þeirrar skoðunar – eða hugsjónar – að það verði að hjálpa bágstöddum eftir því sem kostur er, eins þótt það kosti persónulegar fórnir. En hann fer vel með þessa skoðun, hann treður henni til dæmis ekki upp á Rambert heldur ræðir við hann í mesta bróðerni um þessi mál og hvetur raunar Rambert til að flýja. Því verður þó ekki á móti mælt að hann er því feginn er Rambert afræður að lokum að vera um kyrrt, og er greinilega sammála Rambert er hann lýsir því yfir að „það kann að vera skammarlegt að sitja einn að hamingjunni.“ (187)

II

 
Fyrr í bókinni lætur Rambert þau orð falla, andspænis Rieux og ósveigjanlegri skyldurækni hans, að sá síðarnefndi skilji ekki tilfinningar fólks, að hann tali máli skynseminnar og líti á málin frá fræðilegu sjónarmiði. Í framhaldinu sakar hann Rieux um að hafa ekki „hugsað um neinn“ (78). Lítum nánar á þetta.
      Orðið sem Jón Óskar velur að þýða sem „hið fræðilega“ eða „hið fræðilega sjónarmið“ er franska orðið abstraction. „Vous êtes dans l’abstraction“ (84) segir Rambert við Rieux, og Jón Óskar hefur þar „þér lítið á þetta frá fræðilegu sjónarmiði“, en ef til vill væri ekki síðra að þýða þessa setningu á ögn beinni hátt og segja „þér lifið og hrærist á sviði hins óhlutbundna“. (Ég veit að „óhlutbundinn“ er ekki fallegt orð út af fyrir sig, en eigum við ekki að sættast á að fræðileg nákvæmni þarf stundum að syndga gagnvart fegurðarhugmyndum af kyni hreinleikans.) Gott og vel, en hvað felst þá í þessari ásökun? Að læknirinn, vísindamaðurinn sem reynir að sjá til þess að fólk fái bót meina sinna, sé af einhvers konar eðlislægum ástæðum dæmdur til að líta á, og meðhöndla, manneskjurnar sem leita á náðir hans fyrst og fremst sem sjúklinga, tilvik, dæmi um tiltekin almenn fyrirbæri, þ.e. sjúkdóma. Þannig fórnar læknirninn hinu einstaka á altari hins almenna. Hann sér ekki manneskjuna á bak við sjúklinginn, mannveruna af holdi og blóði, með fortíð, langanir og áform – þegar öllu er á botninn hvolft er sýn hans bundin við sjúkdóminn, farsóttina sem ber að stöðva og kveða niður. Og staðreyndin er sú að hið óhlutbundna eða fræðilega sjónarhorn er nauðsynlegt vegna þess að sjúkdómurinn sjálfur er ekkert tilfinningamál – hann er sjálfur „fræðilegur“ í þeim skilningi að hann fer ekki í manngreinarálit. Hann sér ekki heldur hið einstaka, einstaklingurinn er honum hjóm eitt, hann sér ekkert annað en líkama sem hann getur tekið sér bólfestu í. Bakterían er blind á annað en eigin afkomu, í henni líkamnast, með leyfi að segja, sú togstreita milli lífsmagns og dauðahvatar sem Freud lýsti svo eftirminni­lega. Lífið í öllum sínum myndum er ein allsherjar viðleitni til að viðhalda sjálfu sér gegn því sem mun alltaf reynast ofurefli dauðans – lífið er útúrdúr í sögu hins dauða efnis. Það er í þessum skilningi sem lífið er alltaf öðrum þræði dauði, að lifa er að vera á leið til dauðans. Eða, svo gripið sé til orðalags í anda Heideggers: „sá sem kemur er alltaf jafnframt á förum“, eða, með öðrum orðum og í þetta skiptið í anda Derrida: „við birtumst til þess eins að hverfa aftur“.
      Þannig verður plágan að myndhverfingu fyrir lífið sjálft: „En hvað er plágan? Hún er lífið og hana nú“ (274, þýðingu breytt) segir ein sögupersónan undir lok bókarinnar. Eða öllu heldur: plágan, og/eða bakterían sem ber hana, er fulltrúi fyrir það eyðingarafl sem býr í lífinu sjálfu – það afl sem veldur því að við erum ekki eilíf. Lífið er aldrei algjört, það er aldrei ómengað líf – það ber alltaf frjókorn dauðleikans í sér. Þessa staðreynd, sem kenna má við tilvistarstefnu ef menn vilja, má reyndar allt eins víkka út þannig að hún nái til alls sem er: raunar er það svo, eins og við vitum, að hvaðeina í heiminum er í stöðugri verðandi, hvort sem það telst lifandi eða dautt. Tímans tönn vinnur á öllu sem er. Eða, orðað í hina áttina: væri enginn tími, ef tímans tönn væri ekki til, þá væri Veran algild, óbifanleg og óhaggandi – og þá væri engin saga og engin framvinda, engin fæðing og enginn dauði. Ekkert líf – og engin plága heldur.

III

 
En við vorum að tala um hið óhlutbundna eða hið fræðilega eins og Jón Óskar vill kalla það. Plágan sjálf er óhlutbundin í þeim skilningi að hún er fulltrúi fyrir, eða dæmi um, einhvers konar innra lögmál lífsins sem býr að baki þeim hversdagslega og kunnuglega veruleika sem við lifum og hrærumst í. Sjúkdómurinn sjálfur er hið almenna sem tekur sér bólfestu í hinu einstaka – bakteríu eða hýsli (þ.e., þegar um menn er að ræða, sjúklingi). Og í víðari merkingu er sjúk­dómurinn lífið sjálft í eilífri baráttu þess við dauðann, eða ætti maður kannski að tala um eilíft faðmlag lífs og dauða hér? En hver er merking alls þessa? Hver er tilgangurinn? Hvað ber að gera, hvernig eigum við, mannverurnar (sem spyrjum svona spurninga), að bregðast við plágunni – úr því að við vitum að hún snýr alltaf aftur og verður í reynd aldrei kveðin að fullu niður? Ein höfuðpersóna bókarinnar er presturinn Paneloux. Eins og guðsmanni sæmir heldur hann mikla predikun yfir íbúum borgarinnar þegar plágan stendur sem hæst, og rekur hana í fæstum orðum sagt til forsjónar Guðs, sem sé ofvaxin skilningi dauðlegra manna. Þannig ljær hann þjáningunni merkingu, sem að vísu er ekki þessa heims, þ.e. í raun ekki á manna færi – og talar þá t.d. um „þann girnilega eilífðarljóma sem er á bakvið allar þjáningar“ (88). Eins og nærri má geta sættir Rieux læknir sig ekki við þessar skýringar – „til dauðadags neita ég að elska það sköpunarverk, er lætur börn kveljast“, segir hann (196). Engu að síður er það ekki svo að Rieux trúi ekki á neitt í þeim skilningi að hann finni enga merkingu í plágunni og baráttunni gegn henni. Um það bera störf hans órækt vitni, en þegar á reynir er hann einnig fær um að klæða þessa lífsskoðun sína, eða hugsjón, í orð. Á einum stað segir hann t.d. að það að venjast örvæntingunni sé verra en örvæntingin sjálf (163). Og í samtali við aðra mikla hetju bókarinnar, aðkomumanninn Jean Tarrou, lætur hann þau orð falla að „[h]ið sama [gildi] um pláguna og allt illt í þessum heimi. Hún kann að geta stækkað einstaka menn.“ (112-113) Í þessu felst þó ekki afdráttarlaus yfirlýsing um að drepsóttin sé að einhverju leyti, þ.e. fyrir þessa einstaka – eða einstöku? – menn, af hinu góða. Máli skiptir, segir Rieux, „að vinna bug á eymdinni“ en ekki „að sýna fram á ágæti hennar“. Að þessu leyti greinir læknirinn sig frá prestinum. Hann neitar að sættast við eymdina og gefst ekki upp þó að baráttan virðist vonlaus – baráttan gegn „sköpuninni eins og hún birtist“ (114), hvorki meira né minna.
      Þannig rís maðurinn upp gegn fjarstæðunni og skapar sér merkingu – með því að leita hennar. Dygðin er fólgin í leitinni, í viðleitninni. Aftur á móti er „hörmulegasti lösturinn“, að sögn sögumanns, fólginn í þeirri „fávísi að þykjast allt vita og þar af leiðandi hafa vald til að deyða“ (118). Gegn drambi fullvissunnar tefla Rieux og félagar hans dygð sem þeir nefna heiðarleika, og Tarrou skilgreinir sem svo: „Heiðarlegur er sá, sem fæsta sýkir og sjaldnast gerir sig sekan um hugsunarleysi. Og til þess að vera aldrei viðutan þarf vilja og áreynslu.“ (227) Við berum öll sýkilinn í okkur, hann er lögmálið, hann er „[þ]að sem er eðlilegt“, og þó að það sé slítandi að vera „pláguberi“ (eins og Tarrou orðar það) kostar það enn meira þrek að vera það ekki. „Þess vegna eru allir þreytulegir, því að nú á dögum eru allir meira og minna sýktir.“ (227)

IV

 
„Til þess að berjast gegn einhverju fræðilegu þarf maðurinn að líkjast því dálítið“ (82) segir sögumaðurinn á einum stað og hefur þar lækninn Rieux í huga. Og þetta má augljóslega til sanns vegar færa. Til að geta unnið gegn plágunni verður læknirinn að viðhafa hið kalda augna­ráð hlutlægninnar – að vissu marki að minnsta kosti. Hann má ekki týna sér í hinum einstöku atriðum. Þar með er hann fulltrúi réttlætisins, þess réttlætis sem dreifir sér jafnt á alla. En slíkt er einmitt réttlæti plágunnar sjálfrar, hið „algera réttlæti“, eins og Camus orðar það hreint út, sem leggst jafnt á alla, hvort heldur fangelsisstjórann eða „hinn illræmdasta fanga“ (152; sbr. 166) svo dæmi sé tekið. En þegar að er gáð er þetta ekki alveg svona einfalt. Enda þótt gagnvart dauðanum ríki „óaðfinnanlegt jafnrétti“ (212) var málum í reynd öðruvísi háttað, er plágan geisaði, meðal þeirra sem enn lifðu. Misskiptingin jókst: „Fátækar fjölskyldur komust […] í hinar mestu kröggur, en ríkisfólkið hafði allt til alls.“ (212) Og raunar var það svo að plágan náði fyrst útbreiðslu í úthverfum borgarinnar, þar sem hinir efnaminni bjuggu (11) – þó að hún hafi að vísu ekki látið þar við sitja og barið fljótlega að dyrum hjá góðborgurum (23). Þannig lætur sú skoðun á sér kræla í sögunni að í reynd standi ekki allir jafnt að vígi þegar pláguna ber að garði – þá eru tilvistaraðstæður allra einmitt ekki jafngildar. Og í beinu framhaldi má benda á að augnaráð sögumannsins, og líklega verður ekki lengur komist hjá því að nefna að sögumaðurinn er Rieux sjálfur, beri vott um svo mikla fjarlægð á viðfangsefnið að á köflum er vandséð hvort um væntumþykju eða vanvirðingu er að ræða. Þannig er Rieux augljóslega ekki laus við það yfirlæti sem oft fylgir þeim sem verja ævinni í að hjálpa öðrum. Svona lýsir hann borgarbúum í upphafi bókarinnar:

Borgarbúar vinna mjög mikið en æ og ævinlega í þeim tilgangi að verða ríkir. Þeir hafa einkum áhuga á verzlun og una sér öllum stundum við gróðabrallið. Að sjálfsögðu kunna þeir einnig að meta óbrotnar skemmtanir, þeir elska konur, kvikmyndir og sjóböð. En þeir hafa næg hyggindi til að geyma sér þessar skemmtanir þar til á laugardagskvöldum og sunnudögum, en reyna hina daga vikunnar að græða mikla peninga. (5-6)

      Hugum nánar að konunum á eftir – og spyrjum okkur fyrst að því, hvernig þessum óbrotnu en skemmtanagjörnu aurasálum reiðir af í plágunni. Camus lýsir því hvernig hóglífinu vex fiskur um hrygg, fólk verður til dæmis ófeimnara við að haldast í hendur á götum úti, og jafnframt vex lífslöngunin, eins og „ávallt [gerist] í brjósti ógæfunnar“ (108; 176). Kjarninn er sá að engin róttæk breyting verður á háttum þeirra, og undir lok bókarinnar veltir Tarrou fyrir sér þeirri spurningu hvort plágan hafi breytt einhverju og kemst að þeirri ögn mótsagnakenndu niðurstöðu

að drepsóttin mundi breyta borginni og ekki breyta henni, að heitasta ósk borgarbúa væri auðvitað að haga sér eins og ekkert hefði breytzt og þar af leiðandi mundi, í vissum skilningi, ekkert vera breytt, en hinsvegar gætu menn ekki gleymt öllu, þótt þeir væru allir af vilja gerðir og plágan mundi því skilja eftir sig spor, að minnsta kosti í hjörtum manna. (249)

      Undir lok bókarinnar kemst Rieux engu að síður að þeirri niðurstöðu, þar sem hann þvælist um götur borgarinnar innan um múginn, að hann sé „einn af þeim“. Og ástæða þess að hann ákveður að skrifa „annál“ sinn er einmitt sú að hann vill ekki „vera […] einn þeirra sem þegja“, hann vill „vitna með þeim, sem drepsóttin hrjáði, til að skilja eftir þótt ekki sé annað en minningu um ranglæti það og ofbeldi, er þeir höfðu verið beittir, og til þess að segja frá þeim einföldu sannindum, sem menn læra á drepsóttartímum, að það er fleira aðdáunarvert en fyrirlitlegt í fari mannanna.“ (275) Engu að síður er Rieux einmitt ekki „einn af þeim“ – eins og kemur fram strax í framhaldinu – því að hann einn veit, hann veit að „drepsóttarsýkillinn hvorki deyr né hverfur nokkurn tíma“, og að hann getur gosið upp aftur hvenær sem er.

V

 
Plágan nær til allra jafnt, segir sögumaður, en í Plágunni eru engu að síður undarlegar fjarvistir. Þegar blaðamaðurinn Rambert er kynntur til sögu snemma í bókinni kemur fram að hann sé kominn til borgarinnar til að „rannsaka lifnaðarhætti Araba fyrir eitt af stórblöðum Parísar og vildi fá upplýsingar um heilbrigðisástand þeirra“. Rieux verður fyrir svörum og segir að ástand Arab­anna sé „ekki gott“ – en víkur svo talinu að öðru, nánar tiltekið skyldum blaðamanna við sann­leikann. Arabar koma ekki meira við sögu í bókinni – sem má heita merkileg staðreynd. Sagan gerist í borginni Oran, sem er lýst á mjög raunsannan hátt, og þó að frásögnin sé ekki tímasett nákvæmlega bendir allt til að hún gerist í samtíma Camus, þ.e. á fimmta áratug tuttugustu aldar, en þá voru „Arabar“, þ.e. íbúar af norðurafrískum ættum en ekki evrópskum, um helmingur íbúa borgarinnar. (Í bókinni kemur fram á einum stað að íbúarnir séu 200.000 talsins. (70))
      En meiri athygli vekur þó e.t.v. nær algjör fjarvera kvenna úr sögunni. Plágan er sagan af glímu hvítra karlmanna við farsótt. Konur í sögunni eru teljandi á fingrum annarrar handar, og engin þeirra er nafngreind fullum fetum; eina konan sem hefur eitthvert nafn yfirhöfuð er móðir Rieux læknis, sem heitir – frú Rieux. Hlutverk kvenna í sögunni er fólgið í tvennu: endalausum fjarvistum (eins og eiginkona Rieux og kærasta Ramberts) eða kyrrlátri heimasetu (eins og móðir Rieux læknis). Sú síðastnefnda sér um húsverkin hjá Rieux lækni eftir að kona hans hverfur af heimilinu (hann getur auðvitað ekki séð um sig sjálfur – til þess er hann líklega einmitt „of fræðilegur“ í hugsun og háttum) og hjúkrar Tarrou eftir að hann veikist. Við það tækifæri skrifar Tarrou hjá sér lofsyrði um hjartagæsku hennar og hlédrægni, sem er dygð sem móðir hans hafði líka til að bera í ríkum mæli og hann kann því sérlega vel að meta. Eiginkona Rieux kemur lítillega við sögu í upphafi bókarinnar, þar sem hún er orðin veik af ótilgreindum sjúkdómi – sem ekki er þó plágan – og hafði fallist á að fara „til dvalar á heilsuhæli uppi til fjalla“. Hún liggur í rúminu og „[býr] sig þannig undir erfiða ferð“. Rieux horfir á hana: „Enda þótt hún væri þrítug að aldri og veikindin hefðu markað svip hennar, var andlit hennar síungt í augum [hans].“ (9) Litlu síðar kveður Rieux hana á brautarstöðinni með þeim orðum að „hann hefði átt að gæta hennar, en hann hefði hrapallega vanrækt það.“ (11) Hún vill ekki við það kannast.
      Í þessu sambandi er líka athyglisvert að þegar borgarbúum er lýst í upphafi bókarinnar, eins og áður kom fram, er tekið svo til orða að helsta skemmtun þeirra sé fólgin í þrennu: konum, kvik­myndum og sjóböðum. Með fullri virðingu fyrir kvikmyndum og sjóböðum þykir mér undarlegt að ljá þeim sama sess og helmingi mannkyns. En það er engu líkara en konur séu ekkert annað en þetta í augum sögumannsins (að minnsta kosti): þær eru viðföng – skemmtunar, þ.e.a.s. skemmtunar karlmanna –, nú eða hlédrægar þjónustustúlkur sem þó fá ekki að leggja minnsta skerf til baráttunnar gegn óværunni sem allt vill lifandi drepa.
      Þannig virðist mér að hið fræðilega, óhlutbundna augnaráð endi kannski með því að snúast gegn sögumanninum sjálfum, og/eða höfundinum, í fleiri en einum skilningi. Allt hans tal um að plágan hitti alla fyrir jafnt reynist þegar að er gáð vera eins konar yfirbreiðsla yfir þá skoðun að baráttan gegn plágunni, sem „stækkar einstaka menn“, sé einmitt ekki eitthvað fyrir alla (konur og kalla). Plágan, sem sjúkdómur og myndhverfing, virðist vera alfarið á verksviði karlmanna af evrópskum ættum. Sumir þeirra eru áreiðanlega pláguberar, en aðrir – einstakir, einstaka menn – verða læknar. Konur (og Arabar) eru aftur á móti einvörðungu fórnarlömb. Hið óhlutbundna réttlæti plágunnar nær vissulega til þeirra, en hið óhlutbundna, fræðilega viðhorf sem dugar gegn plágunni, og stækkar menn og gefur þeim eitthvað í líkingu við raunverulegan tilgang í fjarstæðu­kenndum heimi, er þeim greinilega ofvaxið.

VI

 
Ljúkum þessu svona: Eitt fallegasta atriðið í Plágunni er frásögn af sjóbaði. Þegar plágan er byrjuð að láta undan síga fá Rieux og Tarrou leyfi til að fara út fyrir borgarmörkin og niður að sjó:

Rieux stakk sér fyrst. Þótt honum fyndist sjórinn kaldur íkomu, var hann ekki fyrr kominn úr kafinu, en honum þótti hann hlýr. […] Hann heyrði þungt skvamp og vissi, að nú hafði Tarrou stungið sér. Rieux velti sér á bakið […]. Hann dró djúpt andann. Nú heyrði hann gjálfur. Það varð æ greinilegra, kynlega skýrt í þögn og einmanaleik næturinnar. Tarrou var á leiðinni, og brátt heyrði hann andardrátt hans. Rieux sneri sér við, synti upp að hlið vinar síns og stillti sundtök sín við hans. […] Í nokkrar mínútur syntu þeir jafnhliða […], tveir einir langt frá öðrum mönnum, að síðustu lausir úr viðjum borgarinnar og plágunnar. (231)

Hvað sem segja má um þær útilokanir sem hið fræðilega augnaráð sagnamanns og höfundar hafa í för með sér má ekki gleyma því – og skilja – að Plágan er mögnuð táknsaga um þann „veika mátt“ sem felst í samstöðu mannanna andspænis blindri einstaklingshyggju og græðgi dauðahvatarinnar.

Tilvísanir

1. Albert Camus, Plágan, Jón Óskar þýddi, Reykjavík, Heimskringla 1952 [1947].

2. Haraldur Briem. „Er svartidauði enn þá til og eru til lækningar við honum?“. Vísindavefurinn 20.3.2000. http://visindavefur.is/?id=263. (Skoðað 9.12.2010).

Erindið var flutt á málþinginu „Fjögur högg á dyr ógæfunnar“ í Þjóðminjasafninu 10. des. 2010

Ritdómur um ritdóm um greiningu á greiningu

Um Réttlætið og Derrida eftir Björn Þorsteinsson

eftir Tryggva Örn Úlfsson

Fyrir þremur árum síðan, árið 2007, kom út á frönsku bókin La question de la justice chez Jacques Derrida (Réttlætið og Derrida) eftir Björn Þorsteinsson, byggð á doktorsritgerð hans. Bókin inniheldur greiningu á hugmynd Derrida um afbyggingu sem réttlæti en tilefnið er einföld en óvænt orð sem hann lét falla í fyrirlestri árið 1989: „Afbyggingin er réttlætið.“ Ekki er hægt að segja að bókin hafi vakið mikla athygli hér á landi. Höfundur þessarar greinar veit aðeins um eina grein sem fjallar um meginhugmyndir bókarinnar, „Samhengið í hugsun Jacques Derrida“1, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins eftir Björn sjálfan. Nýlega birtist svo um bókina ritdómur eftir Alexöndru Popovici í tímaritinu International Journal for the Semiotics of Law2 og er hugmyndin með þessari grein að nota hann til að kynna í örstuttu máli téðar meginhugmyndir.
          Áður en lengra er haldið er rétt að beina athygli að þeim erfiðleikum sem Björn stendur frammi fyrir við að skrifa doktorsritgerð um heimspekinginn sem hafnaði helstu verkfærum heimspekinnar, gagnrýni og greiningu, án þess að vanvirða arfleifð hans með því að gagnrýna og greina. Björn er vel meðvitaður um þessa erfiðleika og byrjar verkið á viðeigandi hátt með því að vitna í Jean Luc-Nancy: „Að skrifa um Derrida virðist mér vera ofbeldi“ (bls. 9). Ef trúa má Derrida sjálfum þarf það þó ekki að vera neitt slæmt að beita arfleifð hans ofbeldi. Eins og Björn bendir á felst trúnaður ekki einfaldlega í því að endurtaka eitthvað sem aðrir hafa sagt (þá er betra að þegja). Í bókinni hefur Björn þetta eftir Derrida: „Maður getur ekki óskað eftir erfingja sem finnur ekki upp það sem hann erfir, sem fer ekki með það á annan stað í trúnaði sínum. Trúnaðar­lausum trúnaði“ (bls. 10). Hér er reyndar strax snert á lykilatriði í verkinu, nefnilega því að skrif að hætti Derrida eru ekki og eiga ekki að vera hlutlaus, heldur miða þau að því að breyta þeim merkingarbundna veruleika sem þau spretta úr. Þess vegna getur bókin ekki einfaldlega miðað að því að útskýra hvað afbygging sem réttlæti í rauninni er. Slík útskýring myndi einmitt ekki vera í anda Derrida sem gagnrýndi hefðbundnar skilgreiningar heimspekinnar fyrir að þykjast geta flutt það sem skilgreint er í heild sinni fyrir vitund þess sem ætlað er að skilja skilgreininguna. Það sem ritgerðin býður frekar upp á er afbygging sem réttlæti í framkvæmd. Björn sýnir afbygginguna í verki með því að beita henni á texta Derrida í trúnaðarlausum trúnaði.
          Hvernig skyldi hann svo sýna afbygginguna í framkvæmd? Björn segir verkefnið krefjast rannsóknar á meginhugtökum Derrida, skilafrestinum (la différance) sem er tekinn fyrir í fyrsta hluta verksins), afbyggingunni (í öðrum hlutanum), sambandi Derrida við heimspekina (efni þriðja hlutans) áður en réttlætið sjálft birtist loksins „í eigin persónu“ í fjórða og síðasta hlutanum.
          Björn nálgast skilafrestinn með því að skrifa um hann „einhvers konar sifjafræðilega sögu“ (bls. 23). Þannig sýnir hann hvernig hugtakið fæðist í grein um skáldið og leikhúsfræðinginn Antonin Artaud, áður en hann sýnir skýrari birtingarmynd þess í túlkun Derrida á málvísinda­manninum og strúktúralistanum Ferdinand de Saussure og loks í greiningu á fyrirbærafræði Husserls. Þó að Björn sýni okkur ekki uppruna eða gefi okkur skilgreiningu á skilafrestinum – hugtakið sjálft hafnar bæði hreinum uppruna og einföldum skilgreiningum á hugtökum yfir höfuð – erum við þó einhvers vísari um hann eftir yfirferð Björns.
          Við skulum taka eitt dæmi hér um það hvernig skilafresturinn birtist í verkum Derrida í gegnum bók Björns. Derrida skýrir skilafrestinn með samanburði við klassíska hugmynd um tákn sem kemur skýrt fram í táknfræði Saussures. Samkvæmt þessari hugmynd felst virkni táknsins í því að leysa af hólmi upprunalega nærveru einhvers hlutar, nefnilega hlutarins sem það táknar. „Táknið stendur fyrir hið nálæga í fjarveru sinni“ (bls. 119, tilvitnun í bók Derrida Marges – de la philosophie, 9). Þegar orðið ljón hefur orðið til í tungumálinu þurfum við til dæmis ekki á nærveru raunverulegs ljóns að halda til að kalla fram hugmyndina um það; táknið nægir. Framlag eða frammígrip Derrida felst í að benda á að hér stangast Saussure á við sjálfan sig: þessi hugmynd um táknið er í andstöðu við kenningu Saussures um tungumálið sem „kerfi mismuna“. Það þýðir að einstök tákn í málkerfinu sækja ekki merkingu sína til einhverrar upprunalegrar nálægðar utan kerfisins, heldur til þess hvernig þau greina sig frá öðrum táknum kerfisins. Svo við höldum áfram að notast við táknið „ljón“ felst merking þess í að vera ekki hlébarði, tígrisdýr, köttur, maríubjalla, hagvöxtur o.s.frv. þangað til öll önnur tákn málkerfisins hafa verið talin upp. Merking táknsins býr þannig ekki í því sjálfu heldur í öllum hinum táknunum. Eða eins og Derrida segir: Táknið er einungis ummerki hinna táknanna án þess að nokkuð sé til sem það er upprunalega merki um. Skilafresturinn (différance) nefnir meðal annars þetta samspil tákna í tungumáli. Hann er ekki hugtak heldur uppruni og undirstaða hugtakleikans (þ.e. lýsir því hvað það er að vera hugtak), undirstaða allra stöku og venjulegu mismunanna (différences) í tungumálinu – án þess að vera hvorki undirstaða né uppruni eins og bent hefur verið á.
          Réttlæting Björns fyrir því að eyða svona miklu púðri í þetta hugtak sem ekki er hugtak er að það er nauðsynlegt til að útskýra annað slíkt lykilhugtak (sem ekki er hugtak), nefnilega afbyggingu Derrida. Það gildir nákvæmlega það sama um afbygginguna og gildir um skila­frestinn: þar sem hún er tæki Derrida í uppreisn hans gegn heimspekihefðinni er ekki hægt að fella hana undir eina skilgreiningu – ótvíræðar skilgreiningar eru sjúkdómseinkenni hefð­bundinnar heimspeki. En eins og Björn sýnir fram á er ekki þar með sagt að ekkert sé um hana að segja eða að enga þekkingu sé á henni að hafa. Einmitt í því skyni að auðvelda skilning á afbygginguni reynir hann að útskýra rökvísi og kerfi afbyggingarinnar. Þessu kerfi lýsir hann sem keðju þar sem hver hlekkur er hugtak sem verður til í afbyggingarferlinu. En þar sem ekkert þessara hugtaka (það gildir þó sama um þau og afbygginguna og skilafrestinn: þau eru eiginlega ekki hugtök) getur lýst afbyggingunni í eitt skipti fyrir öll verður aldrei hægt að loka keðjunni eða ljúka henni. Keðjan verður alltaf að vera opin. Möguleikinn til þess að bæta við einum hlekk í viðbót verður alltaf að vera til staðar.
          Við skulum gera grein fyrir einum þessara hlekkja. Hugtakið „tvöfaldar hömlur“ (úr ensku: „double bind“) notaði Derrida sjálfur þegar hann stóð frammi fyrir því að útskýra virkni (eða óvirkni) afbyggingarinnar. Það á upptök sín í viðleitni mannfræðingsins Gregorys Bateson til að skýra uppruna geðklofa og þýðir í hans fræðum tvöfaldar skipanir sem skarast á og er þess vegna enginn leið að hlýða. Maurice Blanchot sem Derrida las mikið og lærði af gefur gott dæmi um það sem hér er á ferðinni þegar hann lætur eina persónu sína skipa: „Ef þér drepið mig ekki, eruð þér morðingi.“ Í textum Derrida er orðið notað yfir það sem gerist þegar maður reynir að nálgast það sem er fjarlægt eða öðruvísi: því meir sem maður nálgast það því fjarlægari er maður. Eins og við höfum séð er ekki til nein nálægð sem vísar ekki á eitthvað annað sem er fjarlægt – ummerkin (um eitthvað annað) eru upprunaleg. Hlutskipti okkar svipar til hlutskiptis K., persónu Franz Kafka úr Höllinni, sem sekkur dýpra og dýpra ofan í þorpið eftir því sem hann reynir meira að nálgast höllina. Af þessari ástæðu getur afbyggingin ekki verið greining. Derrida útskýrir að greining snýst um að taka hluti í sundur svo við blasi upprunalegt byggingarefni þeirra – við færum fyrir vitundina það sem hlutirnir eru raunverulega úr. Afbyggingin verður frekar að felast í tvöföldum hömlum þar sem greining í átt að upprunalegri nálægð færir okkur fjær hlutunum en ella.
          Þegar afbyggingin verður í meðförum Björns (næstum því) skýr og rökleg vaknar sú spurning hvað það er sem greini hana frá heimspekihefðinni sem hún er í uppreisn gegn. Í næsta hluta, „Heimspekinni“, upplýsir Björn lesendur sína um að afbygging Derrida beinist fyrst og fremst gegn díalektík Hegels. Eins og Popovici bendir á snýst málið aftur um trúnað við arfleifð: er Derrida afkvæmi heimspekihefðarinnar eða er hann útlagi hennar? Vandi Derrida í uppreisn sinni gegn heimspekihefðinni felst fyrst meðal annars í því að með því að beina afbyggingunni gegn díalektíkinni á Derrida á hættu að díalektíkin gleypi hana eins og díalektíkin er vön að gleypa aðra andstæðinga sína – afbyggingin væri eins og hver önnur antitesa sem biði eftir að vera hafinn upp (hoben auf) í næsta hugtaki. Lausn Derrida er að staðsetja sig við afganginn sem kerfi Hegels skilur eftir.
          Hvernig? Í greiningu Björns birtist svarið í samanburði á Hegel og skáldinu Jean Genet sem er úthlutað sínum hvorum dálknum í bók Derrida, Glas. Í öðrum dálknum er nákvæm greining Derrida á kerfi Hegels þar sem fjölskyldan gegnir lykilhlutverki: menn geta ekki yfirstigið dýrslegt eðli sitt, orðið raunverulegir menn, verur andans, án þess að tilheyra fjölskyldu. Í hinum dálknum er Genet í aðalhlutverki. Ólíkt venjulegum mönnum fæddist hann ekki inn í fjölskyldu; hann átti ekki foreldra (móðir hans yfirgaf hann við fæðingu og ekkert er vitað um föðurinn). Að sama skapi gat hann ekki stofnað hefðbundna fjölskyldu þegar hann óx úr grasi þar sem hann var samkynhneigður. Þess vegna getur hann ekki, samkvæmt nákvæmri greiningu Derrida á Hegel, talist eiginlegur maður. Derrida bendir raunar á að hann er nær því að teljast vera planta. Þannig sýnir Derrida afganginn af alltumlykjandi kerfi Hegels, því sem díalektíkin nær ekki utan um, hefur ekki upp, heldur vísar út fyrir sig. Munurinn á Hegel og Derrida liggur í þessum afgangi sem hér ber nafnið Genet en hefur áður verið kallað skilafrestur.
          Samband Derrida við hegelismann verður þó ekki afgreitt nema spurningunni um réttlætið verði svarað. Síðasti hlutinn, þar sem réttlætið birtist „í eigin persónu“ skiptist í þrennt. Fyrst er rannsókn á birtingarmyndum réttlætisins í höfundarverki Derrida og greining á lykiltextanum, Afl laganna (Force de loi) þar sem kemur fram að réttlætið er reynslan af hinu ómögulega. Síðan nákvæm greining á texta Heideggers, Mál Anaximanders (La parole d’Anaximander). Og loks eru ólíkir þræðir verksins tengdir saman í túlkun á bók Derrida Vofu Marx (Spectre de Marx) sem snýst um hugtakið arfleifð. Björn nær að tengja saman Derrida og Heidegger með því að sýna fram á að tímahugtakið sem gegnir lykilhlutverki í Vofu Marx, tíminn sem ósamræmi, eitthvað sem fer út af sporinu (the time is out of joint Hamlets) á sér samsvörun í Un-fug Heideggers. Derrida er sumsé trúr arfleifð Heideggers. Afbyggingin sem réttlæti er þetta ósamræmi tímans, þegar eðlilegur gangur hlutanna er truflaður, þegar bátnum er ruggað, til dæmis þegar höfundur fer með texta annars höfundar eitthvert annað í trúnaðarlausum trúnaði.
          Niðurstaða Popovici er sú að Björn nær að sýna þennan trúnaðarlausa trúnað. Þannig tekst honum hið ómögulega: að skrifa um Derrida án þess að vanvirða arfleifð hans.

Tilvísanir

1. Til á Heimspekivefnum: http://heimspeki.hi.is/?page_id=532

2. Dómurinn er aðgengilegur á netinu: http://www.springerlink.com/content/t3401l14272j81h5/

Samfélagssáttmálinn

eftir Jean-Jacques Rousseau

Samfélagssáttmálinn

3. bók, 15. kafli: Um þingmenn eða fulltrúa

Um leið og málefni ríkisins hætta að vera helsta hugðarefni borgaranna, og þeir taka upp þann sið að sinna þessum málefnum með pyngjunni frekar en með persónu sinni, þá er ríkið að hruni komið. Á að ganga til orrustu? Þeir borga hermönnunum og bíða heima. Á að koma saman til fundar? Þeir skipa sér fulltrúa og sitja heima. Þannig koma þeir sér upp, fyrir leti og fjármuna sakir, hermönnum til að undiroka föðurlandið og fulltrúum til að selja það.

Hamagangur í viðskiptum og listum, sjúkleg gróðafíkn, linkind og ást á munaðarvöru valda því að þjónustan við málefni ríkisins lætur í minni pokann fyrir peningum. Menn gefa eftir hluta af hagnaði sínum í því skyni að geta aukið hann eftir hentugleikum. Gefið peninga og bráðlega verðið þið lögð í járn. Orðið viðskiptitilheyrir þrælum; það er óþekkt í borgríkinu. Í ríki sem er frjálst í raun nota borgararnir hendurnar til allra verka, en peninga til engra. Þeim dettur ekki í hug að reiða fé af höndum til þess að losna undan skyldum sínum, heldur borga þeir fyrir að fá að gegna þeim. Hér er ég ekki að halda fram viðteknum skoðunum; ég tel þegnskylduvinnu leggja minni kvaðir á frelsið en skattar.

Eftir því sem málum í ríkinu er betur fyrir komið standa opinber málefni betur í baráttunni við einkahagsmuni í hugum borgaranna. Umsvif einstaklinga verða líka miklu minni, því þegar heildarmagn sameiginlegrar farsældar leggur meira af mörkum til farsældar hvers og eins, þá þarf síður að leita hennar í hugðarefnum einstaklinga. Í vel stjórnuðu borgríki koma allir á harðahlaupum til þings, en þar sem léleg stjórnskipun er við lýði hreyfir enginn legg eða lið til að koma sér þangað. Enginn hefur áhuga á því sem þar fer fram og menn fullyrða að almannaviljinn fái engu ráðið og að allt sé lagt undir hugðarefni einstaklinga. Góð lög leiða til þess að enn betri lög eru sett, en vond lög kalla á önnur ennþá verri. Um leið og einhver segir um málefni ríkisins: Hvað koma þau mér við? – þá má reikna með því að ríkið sé glatað.

Hálfvelgja föðurlandsástar, athafnir sem stjórnast af einkahagsmunum, óhófleg stærð ríkja, landvinningar og misnotkun stjórnvalds gátu af sér þá hugmynd að fela þingmönnum eða fulltrúum þjóðarinnar að sitja á þjóðþingum. Í sumum löndum dirfast menn að nefna þessa fulltrúa þriðju stéttina. Þannig atvikast það að upp eru komnir tveir hópar sem sitja með einkahagsmuni sína í fyrsta og öðru sæti, en opinberir hagsmunir mega dúsa í þriðja sæti.

Fullveldi getur ekki átt sér fulltrúa af sömu ástæðu og það verður ekki gefið eftir. Það býr fyrst og fremst í almannaviljanum og enginn getur verið fulltrúi hans. Hann er sá sem hann er eða eitthvað allt annað; ekkert er þar á milli. Þingmenn þjóðarinnar eru því ekki fulltrúar hans, né heldur geta þeir verið það; þeir eru ekki annað en sendiboðar og mega ekki ganga endanlega frá neinu. Lög sem þjóðin hefur ekki staðfest í eigin persónu hafa ekkert gildi; þau eru hreinlega ekki lög. Enska þjóðin telur sig vera frjálsa, en henni skjátlast hrapallega. Hún er aðeins frjáls á meðan hún er að kjósa sér þingmenn, því um leið og kjöri þeirra er lokið er hún þræll; hún er alls ekki neitt. Þau fáu andartök sem hún er frjáls beitir hún frelsinu á þann hátt að hún á fyllilega skilið að glata því.

Sú hugmynd að skipa fulltrúa er ný af nálinni. Hún á rætur í lénskerfinu, þeirri voðalegu og fáránlegu stjórnskipun sem lítillækkar mannskepnuna og er sjálfu heitinu „maður“ til minnkunar. Í lýðveldum fornaldar og jafnvel einveldisríkjum notaðist þjóðin aldrei við fulltrúa. Orðið sjálft var óþekkt. Það sætir furðu að í Róm, þar sem svo mikill helgiblær hvíldi yfir alþýðustjórunum, hvarflaði ekki að nokkrum manni að þeir gætu hrifsað til sín þau hlutverk sem þjóðin hafði með höndum, eða að þeir gætu átt það til að sleppa svo sem einni þjóðaratkvæðagreiðslu í krafti valds síns og í skjóli hins gríðarlega mannfjölda. Til mótvægis má leiða hugann að þeim neyðarlegu aðstæðum sem sköpuðust stundum af athöfnum múgsins, til dæmis að því sem átti sér stað á tímum Grakkusar þegar hluti borgaranna greiddi atkvæði sitt af húsþökum.

Þar sem réttur og frelsi eru í fyrirrúmi eru óþægilegar aðstæður ekki fyrir hendi. Hjá þessari vísu þjóð var öllu vel fyrir komið. Hún leyfði vandsveinum sínum að gera það sem alþýðustjórar hefðu ekki þorað að gera, og óttaðist ekki að vandsveinarnir myndu freista þess að gerast fulltrúar hennar.

Til að útskýra hvernig alþýðustjórar voru stundum fulltrúar þjóðarinnar nægir að gefa því gaum hvernig stjórnvaldið er fulltrúi fullveldisins. Lögin eru aldrei annað en yfirlýsing almannaviljans og fyrir vikið má ljóst vera að þjóðin getur ekki átt sér fulltrúa hvað löggjafarvaldið áhrærir, en hins vegar geta fulltrúar komið við sögu, og verða raunar að koma við sögu, hvað framkvæmdavaldið snertir, sem er ekki annað en máttur sem bætt er við lögin. Þetta leiðir í ljós að þegar grannt er skoðað eiga ákaflega fáar þjóðir sér lög. Hvað sem því líður er hafið yfir vafa að úr því að alþýðustjórarnir áttu enga hlutdeild í framkvæmdavaldinu gátu þeir aldrei leikið hlutverk fulltrúa rómverskrar alþýðu í krafti þeirra réttinda sem fylgdu embættum þeirra, heldur aðeins með því að slá eign sinni á réttindi öldungaráðsins.

Meðal Grikkja sá alþýðan sjálf um að gera allt sem hún þurfti að gera. Hún var öllum stundum samankomin á torginu. Hún bjó við milt loftslag og var alveg laus við græðgi; þrælar unnu erfiðisverkin og helsta hugðarefni hennar var frelsið. Þegar sömu forréttindi eru ekki lengur til staðar, hvernig á þá að varðveita sömu réttindi? Loftslagið sem þið búið við er óblíðara og þar af leiðir að þarfirnar eru meiri.1 Ekki er hægt að standa úti á torgum nema hálft árið, þunglamalegt tungumál ykkar er ekki skiljanlegt undir berum himni, þið leggið meiri áherslu á eigin gróða en frelsi ykkar og þið óttist örbirgð miklu meira en þrældóm.

Hvað er að heyra þetta? Er ekki hægt að varðveita frelsið nema styðjast við þrælahald? Ef til vill. Öfgarnar mætast. Allt sem ekki er að finna í náttúrunni hefur einhver óþægindi í för með sér, og þetta á öðru fremur við um ríki siðmenningarinnar. Menn geta lent í þeirri hryggilegu aðstöðu að frelsi þeirra verði aðeins tryggt með því að ganga á frelsi annarra, þannig að borgarinn geti ekki verið fullkomlega frjáls nema þrællinn sé í algjörri ánauð. Þannig var málum háttað í Spörtu. Hvað ykkur snertir, nútímafólk, þá haldið þið ekki þræla, heldur eruð þið það sjálf. Þið greiðið fyrir frelsi þeirra með frelsi ykkar. Hversu mjög sem þið reynið að fegra þessa afstöðu ykkar tel ég að hún beri fremur vott um hugleysi en mannúð.

Með þessu á ég ekki við að halda eigi þræla eða að réttur til þrælahalds sé lögmætur, enda hef ég þegar sannað hið gagnstæða. Ég er eingöngu að skýra ástæður þess að nútímafólk, sem telur sig frjálst, eigi sér fulltrúa og hvers vegna þjóðir til forna höfðu enga slíka. Hvernig sem allt veltist, þá er það svo að um leið og þjóðin skipar sér fulltrúa er hún ekki lengur frjáls; hún er ekki lengur til.

Að vandlega athuguðu máli sé ég ekki að héðan í frá geti fullveldið viðhaldið á meðal okkar eðlilegri framkvæmd réttinda sinna nema borgríkið sé afar smátt að vöxtum. En ef það er afar lítið hlýtur einhver að leggja það undir sig! Nei, alls ekki. Ég mun sýna hér á eftir2 hvernig hægt er að sameina ytri styrk mikillar þjóðar við fyrirhafnarlitla stjórnun og góða reglu í litlu ríki.

Már Jónsson og Björn Þorsteinsson þýddu

 

Tilvísanir

1. Að tileinka sér íburð og leti Austurlandabúa í köldum löndum jafngildir því að vilja leggja sig í hlekki þeirra og láta kúga sig enn frekar en þeir gera.

2. Þetta er það sem ég ætlaði mér að gera í framhaldinu af þessu riti, þar sem ég hugðist fjalla um utanríkistengsl og þar á meðal sambandsríki. Það er algjörlega nýtt viðfangsefni sem eftir er að leggja grundvöll að.

 

« Til baka

Samhengið í hugsun Jacques Derrida

Björn Þorsteinsson:

Samhengið í hugsun Jacques Derrida

 

Höfundarverkið sem Jacques Derrida lætur eftir sig er mikið að vöxtum og margslungið. Fræðilegir erfingjar hans eiga að sama skapi mikið verk fyrir höndum við túlkun og aflestur þeirra rituðu og töluðu tákna sem hann náði að koma frá sér áður en yfir lauk. „Arfleifð er aldrei gefin, hún er alltaf verkefni“ skrifar hann í bók sinni Vofur Marx. „Arfleifðin safnast aldrei saman, myndar aldrei samstæða heild. […] Það sem maður erfir er ætíð leyndarmál – sem segir „lestu mig – en verðurðu nokkurn tíma fær um það?““ Sá sem gerir ekki annað en endurtaka arfinn, orð fyrir orð, staf fyrir staf – hann er ekki erfingi í raun. Að erfa krefst umritunar, úrvinnslu sem felur í sér í senn að hin eftirlátnu skrif ganga aftur og að þau víkja fyrir nýbreytninni. Slíkra erfingja óskaði hann sér sjálfur: erfingja sem sýna arfleifðinni „trúnaðarlausan trúnað“.

Möguleikarnir mega heita ótæmandi. Textinn situr þarna og bíður, allir hillumetrarnir sem bera höfundarnafn hans, að ógleymdum öllum skjölunum sem komið hefur verið fyrir í skjalasafni Kaliforníuháskóla í Irvine og eflaust einhverjum textabrotum og ófrágengnum ritsmíðum sem enn liggja á víð og dreif á heimili hans í Ris-Orangis sunnan Parísar. Monsieur Texte: það var nafnbótin sem bandaríski bókmenntafræðingurinn Geoffrey Hartman, einn helsti forkólfur „afbyggingarhyggjunnar“ í Bandaríkjunum, gaf honum. Derrida var maður sem skrifaði, hann var maður skriftarinnar, en hann var einnig, og ekki síður, lesandi í sérflokki. Einstakur í sinni röð: yfirborðsmerking nægði honum sjaldnast, hann varð að kafa í textann og takast á við hinstu rök hans; að hætti franskra menntamanna trúði hann ekki á skýran og afdráttarlausan greinarmun hins meðvitaða og hins ómeðvitaða og skirrtist því ekki við að ganga lengra, og kafa dýpra, en höfundurinn sjálfur gerði (að því er best verður séð). Við slíkan lestur vex textinn en hjaðnar ekki – og hin svokallaða „afbygging“ sem Derrida telst hafa stundað felst aldrei í öðru en því að opna textann sem til athugunar er, setja hina einstöku þætti hans í nýtt samhengi og bjóða þannig hinu óvænta, atburðinum – sannleikanum – heim.

Dauðinn lætur víða á sér kræla í skrifum Derrida. Í kynngimögnuðum „bókmenntatextum“ Maurice Blanchot fann hann efnivið í lýsingu á hlutskipti okkar, okkar sem eftir lifum: dauðinn er að verki í okkur, við syrgjum hvert annað frá því að fundum okkar ber saman. Og við rætur hinnar kerfisbundnu og (of) metnaðarfullu fyrirbærafræði Husserls fann hann lögmálið um skilafrest (différance) sem liggur tilveru okkar, og alls sem er, til grundvallar: að vera, það er að vera ólíkt og að slá sér á frest, það er að vera ekki í sama skilningi og eilífðin eða Guð. Að vera er að vera endanlegur. Takmarkaður. Dauðinn er hinsta takmarkið, hinsti ómögulegi möguleikinn eins og Heidegger orðaði það.

Er heimspeki Derrida þá af tagi handanhyggjunnar eins og sú kristni sem Nietzsche og Spinoza gagnrýndu af svo miklum þrótti? Er hún ekkert annað en afturgenginn Platonismi? Er sannleikurinn ekki á okkar færi og veröldin tómur skuggaleikur hins sanna heims sem bíður fyrir handan? Ekkert gæti verið fjær sanni. Heimspeki Derrida er hvorki handanhyggja af þessum toga né kreddufesta sem telur sig geta fært sannleikann í spennitreyju mannlegs máls og stillt honum upp á leiksviði eins og trúði í sirkus. Með öðrum orðum er heimspeki Derrida ekki frumspeki í hefðbundnum skilningi heldur er hún tilraun til að móta hugsun um raunveruleikann, hvorki meira né minna, sem þó væri alltaf eitthvað annað og meira (eða minna) en einföld hluthyggja (realismi) sem gerir ekki annað en að endurtaka það sem allir sjá, og stærir sig af því. Það sem Derrida sóttist eftir varhýper-realismi. Það erfiðasta við hugsun Derrida er ef til vill þetta: að hann er stöðugt á mörkunum, að hann hafnar einfeldningslegum forsendum tvenndahugsunarinnar (með eða á móti, satt eða ekki satt) og leitast við að finna sér stað utan rökfræði andstæðnanna. Hin algjöra andstæða er einfaldasta bragð hefðbundinnar frumspeki. The oldest trick in the book. Málið snýst um að skapa nýja hugsun sem streitist í sífellu gegn freistingum tvenndaspekinnar – gegn falsinu, gegn yfirbreiðslunni, gegn lyginni, gegn „pakkalausninni“ – og heldur í staðinn á lofti ósmættanlegri helgi hins einstaka í endalausri leit að nýjum leiðum: nýjum flóttaleiðum, svo notað sé hugtak sem Deleuze mótaði en hefði allt eins getað átt rætur hjá fyrrverandi aðstoðarmanni hans Derrida.

Helgi hins einstaka: það er að segja, með öðrum orðum, mikilvægi samhengisins sem er í stöðugri verðandi en jafnframt samt við sig. Hugmynd Hegels um samsemd samsemdarinnar og mismunarins á sér beina samsvörun í hugsun Derrida. Hver er munurinn á mér sem er í dag, og mér sem var fyrir tíu árum? Ég er í senn sá sami og ég var þá og annar en ég var þá. Flóknari er þessi hugsun ekki: í senn sá sami og ólíkur, samsemd hins sama og hins ólíka, samsemdarins og mismunarins. Þannig vinnur tíminn – á okkur og á öllu öðru sem er. Laufblað fellur af hlyninum utan við gluggann minn. Það hefur gerst áður, þetta er ekkert nýtt, en samt hefur það aldrei gerst áður. Fyrsta skiptið er líka það síðasta. Þannig er því líka farið með orðin: hvert orð fyrir sig hefur aldrei áður komið fyrir í nákvæmlega þessu samhengi – en þó er ekkert nýtt við þessi orð. Annars gætum við ekki lesið þau. Samhengið er gamalt og nýtt; við erum í senn gömul og ný.

Hvers er sú hugsun megnug sem velur sér þessar leiðir í Svartaskógi og/eða aldingarði hugsunarinnar? Hún getur til dæmis mótað réttlætishugtak sem beitir sér án afláts gegn því að ríkjandi ástand, hér og nú, slái eign sinni á hið ókomna. Postular sáttarinnar og framfarahyggjunnar sem þreytast ekki á að fylla eyru okkar með yfirlýsingum um að allt sé á besta veg, að allt sé eins og best verði á kosið – og bæta síðan við: og fyrir alla muni, ekki rugga bátnum, ekki raska stöðugleikanum, ekki bjóða hættunni heim – þessir postular finna sér ekki jábræður í hugsun Jacques Derrida. Réttlætið er ekki hér og nú – en það er heldur ekki fyrirfram dæmt til að dveljast handan við sjóndeildarhringinn. Hver gæti svo sem verið þess umkominn að vísa því yfir í handanheima? Slík athöfn væri, þegar öllu er á botninn hvolft, sú sama og sú yfirlýsing að réttlætið sé hér og nú, sögunni sé lokið, ekkert sé eftir annað en að njóta sjónvarpsdagskrárinnar og fylgjast með HM í knattspyrnu á fjögurra ára fresti þangað til maður hrekkur uppaf. Er öllu fórnandi fyrir sáttina? Auðvitað ekki! Eigum við að forðast að bjóða hættunni heim? Engan veginn. Opnum gáttina, tökum á móti hinu ókomna. Skilyrðislaus gestrisni sem segir „komdu“ við aðkomumanninn og ætlast til einskis af honum. Skilyrðislaus: ómöguleg, ef til vill, hið ómögulega sjálft: en annars bíður okkar ekkert. Annað en óréttlætið.

« Til baka

Siðferði og sannfæringar

eftir Philippu Foot*

I

Þegar spurt er að merkasta framfaraskrefi í siðfræði undanfarna hálfa öld nefna margir til að eðlishyggjan hafi verið hrakin; og hinir sömu furða sig dálítið á því að hún skuli enn vera tekin til umræðu um þessar mundir. Auðvelt er að skilja afstöðu þeirra: sé fallist á ákveðnar forsendur, sem virðast hafnar yfir vafa, er ekki annað að sjá en álíka vonlaust sé að blása nýju lífi í eðlis­hyggjuna og bera vatn í hripi. Þeir sem sjá málið í þessu ljósi hafa sannfært sig um að sérhver eðlishyggjukenning hljóti að vera gölluð og hafa engan áhuga á að eyða meiri tíma í að kveða niður drauginn. Ritgerð þessi er tilraun til að telja slíka menn á að huga betur að forsendunum sem þeir byggja rökfærslur sínar á.

Ekki er ofmælt að siðfræðin, eins og hún er nú víða kennd, hvíli gjörvöll á greinarmun á gildisdómum og staðhæfingum um staðreyndir. Þessum greinarmun má lýsa á þessa leið: „Sanngildi fullyrðinga um staðreyndir er leitt í ljós með rökum; og það, hvað telja má rök, er látið ráðast af merkingu orðanna sem fullyrðingarnar eru settar saman úr. (Til dæmis réði merking orðanna ,hnöttóttur‘ og ,flatur‘ því að siglingar Magellans eru rök fyrir því að jörðin sé hnöttótt en ekki flöt; sá sem fellst ekki á það og dregur í efa að þessi rök komi málinu við verður að lokum uppvís að rangri málnotkun af einhverju tagi.) Af þessu leiðir að tveir menn geta aldrei fullyrt það sama með alveg ólíkum rökum; þegar allt er talið hlýtur ætíð að koma í ljós að annar þeirra, eða báðir, hafi gerst sekur um ranga beitingu tungumálsins. Af þessu leiðir líka að ef manni eru látin í té fullnægjandi rök fyrir tiltekinni niðurstöðu um staðreyndir getur hann með engu móti hafnað niðurstöðunni á þeirri forsendu að frá sínum bæjardyrum séð séu umrædd rök alls engin rök. Öðru gegnir um gildisdóma: þeir eru ekki í röklegum tengslum við þær staðhæfingar um stað­reyndir sem þeir byggja á. Maður einn getur sagt að hlutur sé góður vegna einhverrar staðreyndar um hann, en annar getur rétt eins neitað því að sú staðreynd sé rök fyrir því að hluturinn sé góður og sagt sem svo að ekkert í merkingu orðsins ,góður‘ tengi það einum ,rökum‘ fremur en öðrum. Í þessu felst þá að sérvitringur um siðferði getur komist að siðlegum niðurstöðum út frá afar sérkennilegum forsendum; hann gæti til dæmis dæmt mann góðan á grundvelli þess að hann ætti til að núa hendur sínar á sérstakan hátt eða að hann sneri sér aldrei í norðnorðaustur eftir að hafa horft í suðsuðvestur. Hann gæti líka hafnað annars manns gildisdómi einfaldlega með því að neita að fallast á að rökin, sem sá reisi dóminn á, séu réttnefnd rök.

Ástæða þess að sérvitringurinn getur notað hugtakið ,góður‘ með einhverri merkingu er að það er ,leiðbeinandi um breytni‘, það hefur ,verklegt‘ hlutverk. Þessu hlutverki gegnir hugtakið í öllum tilvikum; um sérvitringinn eins og aðra gildir að hann sækist fremur eftir því sem hann telur ,gott‘ en ,slæmt‘. Eins og aðrir menn notar hann hugtakið ,góður‘ ætíð í tengslum við ,jákvæða afstöðu‘; munurinn er einvörðungu sá að hjá sérvitringnum er þessi afstaða á skjön við það sem vant er.“

Hér eru fólgnar tvær forsendur um „gildisdóma“ sem ég mun nefna forsendu (1) og forsendu (2).

Forsenda (1) er sú að maður geti, án þess að gerast sekur um rökvillu, reist gildisdóma sína að öllu leyti á forsendum sem enginn annar myndi telja að væru gild rök. Forsenda (2) er sú að maður geti hafnað því að fella tiltekinn gildisdóm á grunni staðhæfinga sem aðrir teldu fullgild rök fyrir dómnum með þeim orðum að í hans augum séu þessar staðhæfingar ekki gild rök.

Lítum á forsendu (1). Segja má að hún velti á því hvort hægt sé að halda merkingu orðsins „góður“ fastri þegar hugað er að öllum tilbrigðum í mögulegum rökum fyrir því að eitthvað sé gott. (Ég á að sjálfsögðu ekki við að maður geti tínt til ný tilbrigði eins ört og honum sýnist, heldur aðeins að ekkert af því sem valið er megi dæma úr leik.) En til er betri framsetning á forsendunni sem tekur fyrir fáfengilegar deilur um hinar ýmsu merkingar sem orðið „góður“ kann að hafa. Við skulum því orða forsenduna upp á nýtt og segja að hún sé sú að það hlutverk orðsins „góður“ sem kemur við sögu í gildisdómi geti haldist fast þó að breytingar verði á reglunum sem gildisdómurinn miðast við; eftir þessu má þá segja að enda þótt enginn geti kallað mann góðan á grundvelli þess að hann núi hendur sínar megi samt hrósa honum eða láta í ljós jákvæða afstöðu til hans, og, ef nauðsyn krefur, finna upp nýtt tungutak um siðferði til að lýsa hinu óvenjulega siðamati mannsins.

Þeir sem aðhyllast kenningu í þessum dúr bæta sjálfsagt ýmsum skilyrðum við. Í fyrsta lagi tekur þorri fólks nú orðið undir með Hare í deilu hans við Stevenson og segir að orð eins og „góður“ hafi merkingu í einstökum tilvikum vegna þess að almenn lögmál búi að baki; þannig verði allir, líka verstu sérvitringar, að fallast á að það að hrósa hlíti vissum reglum. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að „það að hrósa“,„að hafa jákvæða afstöðu“ o.s.frv. tengist breytni og vali, þannig að til dæmis sé óleyfilegt að segja mann því aðeins góðan að hann hafi lifað í þúsund ár. Gert er ráð fyrir að gildisdómar eigi aðeins við um mögulega breytni og mögulegt val. Hér er ég ekki að draga í efa þessar skorður sem gert er ráð fyrir um gildishugtök, heldur vil ég halda fram að fleira þurfi til.

Spurningin sem allt veltur á er þessi: Er fært að draga út úr merkingu orða á borð við „góður“ einhvern þátt sem nefna mætti „gildismerkingu“ þeirra og mætti hugsa sér að standi í ytri tengslum við viðföng sín? Slíkur þáttur kæmi til dæmis fram í þeirri reglu að sá sem dæmir tiltekna breytni lofsamlega hljóti að telja sig bundinn boðorðinu „ég vil breyta á þessa leið“. Þetta boðorð er í ytri tengslum við viðfang sitt vegna þess að ef við einskorðum okkur eins og áður við athafnir sem á annað borð eru mögulegar er fullt vit í því að segja að hvaða athöfn sem er geti orðið tilefni til lofs af þessu tagi. Samkvæmt þessari tilgátu gætum við leyft okkur að segja um sérvitringinn að honum þætti sú athöfn að núa saman höndum lofsamleg og hæfa góðum manni, án þess að við þyrftum að bægslast við að leita að vitrænum forsendum fyrir yrðingunni. Það er að segja: samkvæmt þessari tilgátu gæti það að núa saman höndum talist lofsamlegt án frekari skýringar; það gæti verið „undirstöðusiðaregla“ svo gripið sé til orðalags sem fylgismenn slíkra kenninga nota.

Ég vil halda fram að þessi tilgáta standist ekki, og að ekki sé hægt að lýsa gildisþættinum í merkingu hugtaksins „góður“, gildisdómum, lofsemdardómum, eða nokkru af því tagi, nema það sem dómurinn á við liggi fyrir. Ef við ákvörðum ekki strax í upphafi viðfang gildisdóms, eða annars af svipuðu tagi, fáum við eitthvað allt annað í netið en til stóð, til dæmis það að fara að fyrirmælum eða taka ákvörðun, eða bara alls ekki neitt.

Áður en ég tek þetta til athugunar ætla ég að ræða ýmis önnur huglæg viðhorf og skoðanir sem eru í innri tengslum við viðfang sitt með hliðstæðum hætti. Með þessu vonast ég til að geta skýrt þessa hugmynd um innri tengsl við viðfang, og ef til vill, í því tilviki að dæmi mín veki andóf en séu þó tekin gild að lokum, að sýna fram á hversu auðvelt er að sjást yfir innri tengsl þar sem þau eru til staðar.

Lítum til dæmis á stolt.

Margir furða sig á þeirri hugmynd að takmörk séu fyrir því sem maður geti verið stoltur af, þ.e.a.s. því sem geti fyllt mann stolti. Ég veit ekki alveg hvað þeir sem eru á þessu máli vilja segja um stolt; kannski að það sé eitthvað í þá átt að brosa og ganga sperrtur um, eða hampa grip í allra augsýn; eða kannski halda þeir að stolt sé einhvers konar innri skynjun af því tagi að manni væri eðlilegt að berja á brjóst sér og segja „stolt er nokkuð sem ég finn fyrir hér“. Tormerkin á þessu síðara viðhorfi eru vel þekkt; það sem er einkalegt í rökfræðilegum skilningi getur ekki svarað til þess sem orð í almennu máli vísar til.1 Fyrra viðhorfið er því öllu trúverðugra, og það virðist skynsamlegt að segja að ef maður hegðar sér á tiltekinn hátt megi segja hann stoltan af einhverju, hvað sem það nú annars er. Að einu leyti er þetta rétt, að öðru leyti ekki. Um sérhverja lýsingu á hlut, athöfn, skapgerð o.s.frv. má segja að hún geti verið uppspretta stolts. Til að geta fækkað möguleikunum verðum við að vita hvað maðurinn, sem á að vera stoltur af því sem lýsingin kveður á um, myndi sjálfur segja um stoltið; hafi hann ekki réttar skoðanir á því er ljóst að það sem hann finnur til er áreiðanlega ekki stolt. Leiðum hugann að því hvort einhver geti verið stoltur af himninum eða hafinu: hann beini augum að himni eða hafi og finni til stolts, eða hann sperri fram brjóstið og bendi með stolti á himin eða haf. Í þessu er ekkert vit nema með fylgi sérstakar athugasemdir um skoðanir mannsins, til dæmis í þá veru að hann trúi því fyrir einhverja sturlun að hann hafi forðað himninum frá að falla eða hafinu frá að þorna upp. Dæmigert viðfang stolts telst vera (a) með einhverjum hætti manns eigið, (b) einhvers konar afrek eða ávinningur; án þessa viðfangs er ekki hægt að lýsa stolti. Til skýringar á seinna skilyrðinu er hægt að ímynda sér að svo vilji til að maður finni til stolts vegna þess að hann hefur lagt aðra hönd sína ofan á hina þrisvar á einni klukkustund. Eins og áður er hægt að réttlæta stolt hans fullkomlega með því að lýsa skilyrðunum nánar. Ef til vill er maðurinn lasinn og það er honum afrek að geta hreyft hendur sínar með þessum hætti; ef til vill hefur þessi hreyfing trúarlega eða pólitíska merkingu þannig að maðurinn sýni með henni það hugrekki að breyta á skjön við guði eða ráðamenn. En án sérstakra skilyrða af þessu tagi er tómt mál að tala um stolt, ekki vegna þess að það stangist á við sálfræðileg lögmál heldur rökfræðileg. Vitaskuld getur fólk talið hinar furðulegustu athafnir til afreka, en þó ekki hvað sem er; fólki getur dottið í hug að telja sig sína eigin fjarlægu forfeður, skyldmenni eða nágranna eða jafnvel sjálft Mannkynið. Ég ætla ekki að neita því að til eru mörg langsótt og spaugileg dæmi um stolt.

Við hefðum eins getað valið ýmis önnur dæmi um huglæg viðhorf sem eru í innri tengslum við viðfang sitt á hliðstæðan hátt. Til dæmis er ótti annað og meira en að skjálfa, hlaupa og fölna upp; einu gildir af hve mikilli innlifun þetta er gert, það er enginn ótti nema til komi tilhugsun um skelfilegt böl. Né heldur er unnt að segja um nokkurn mann að hann skelfist eitthvað sem honum þykir ekki slæmt; þyki honum það harla gott þegar allt kemur til alls getur hann ekki sagt að svo skrítið sem það nú sé finni hann reyndar til skelfingar gagnvart því. „Mikill er andskotinn, ég er skelfingu lostinn en ætti að vera kátur“ segir maðurinn og fer svo að leita að því illa í hlutnum sem hann ímyndar sér að liggi í leyni undir snotru yfirborði. Einhver kynni hér að andmæla og benda á að stolt og ótti og skelfing séu kenndir eða hughrif og af þeim sökum óhæfar hliðstæður við „lofsemd“; betra sé að huga að annars konar dæmum. Til dæmis gætum við beint sjónum að þeirri skoðun að tiltekinn hlutur sé hættulegur, og spurt hvort rökfræðin leyfi að segja það um hvaða hlut sem er. „Þetta er hættulegt“, rétt eins og „þetta er gott“, er staðhæfing sem við ættum eðli málsins samkvæmt að fallast á eða hafna eftir því hvort þær eru sannar eða ósannar; svo virðist sem við styðjum staðhæfingar af þessu tagi með rökum, og svo má líka tína til að litið geti út fyrir að orðið „hættulegur“ hafi einhvers konar „viðvörunarhlutverk“ á sama hátt og gert er ráð fyrir að orðið „góður“ hafi „lofsemdarhlutverk“. Gerum ráð fyrir að heimspekingar sem velta vöngum yfir eiginleikum þess sem er hættulegt komi sér saman um að orðið eigi alls ekki við neinn eiginleika heldur sé í eðli sínu verklegt hugtak sem sé leiðbeinandi um breytni og notað til viðvörunar. Orðið „hættulegur“ væri notað til að vara við hættu, nema þegar það væri haft innan gæsalappa, og í þessu fælist að sá sem notaði orðið með þessum hætti hlyti þá að helga sig því að forðast þá hluti sem hann nefndi hættulega, hindra aðra í að koma nærri þeim, og ef til vill flýja undan þeim. Ef horft er framhjá því hve þessi niðurstaða er fráleit gætum við hæglega dregið af henni þá ályktun að maður sem notaði hugtakið á annan hátt en við í öllum tilvikum gæti sagt hina undarlegustu hluti hættulega án þess að við gætum hrakið það; hugmyndin væri þá sú að um manninn mætti segja að hann „teldi hlutina hættulega“ eða a.m.k. „viðsjárverða“ ef viðhorf hans og breytni væri í samræmi við þau skilyrði sem við miðum slíkt að öðru jöfnu við. Þetta er vitleysa vegna þess að það er tómt mál að tala um viðsjá eða að telja eitthvað hættulegt nema viðfangið sé haft með. Af röklegum ástæðum er ókleift að vara við því sem ekki er talið bjóða heim böli, og við tölum ekki um háska nema þegar við sérstaklega alvarlegu böli er búið, svo sem skaða eða dauða.

Hvað sem því líður er ýmislegt ólíkt með því að telja eitthvað hættulegt og því að vera stoltur, hræddur eða kvíðinn. Þegar maður segir að eitthvað sé hættulegt verður hann að styðja þá staðhæfingu sérstökum rökum; en þegar hann segist stoltur, hræddur eða kvíðinn stendur viðfang stoltsins, hræðslunnar eða kvíðans ekki alveg í sömu tengslum við staðhæfinguna. Ef uppvíst verður að maðurinn var að hreykja sér af einhverju sem hann átti ekkert með, eða þá að tilefni stoltsins reynist ekki ýkja merkilegt, þarf hann að vísu að fallast á að stolt hans hafi verið tilefnislaust en engu að síður er hann á engan hátt knúinn til að éta ofan í sig að hann hafi verið stoltur. Á hinn bóginn verður sá sem segir að hlutur sé hættulegur, en skilur síðar að honum skjátlaðist í því að telja að af hlutnum gæti hlotist mein, að endurskoða fullyrðingu sína og viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér. En í hvorugu tilfellinu getur mælandinn haldið uppteknum hætti. Bóndi sem kemst að því að það var ekki hrúturinn hans sem vann fyrstu verðlaun, heldur hrútur bóndans á næsta bæ, getur því aðeins sagst vera jafnstoltur eftir sem áður að hann réttlæti stoltið með öðrum hætti. Í þessum efnum geta staðreyndirnar meira að segja gert tilfinningum rökfræðilegar skráveifur.

Líklega verður þeim andmælum hreyft við þessum dæmum að þau gefi sér að nokkru leyti það sem sanna eigi. Sagt verður að vissulega geti maður einungis verið stoltur af því sem hann telur góða athöfn, afrek eða merki um göfugan uppruna; á sama hátt geti hann aðeins kviðið því sem hann telur slæmt, eða hræðst það sem geti orðið til meins; ennfremur, svo dæmi sé tekið, geti hann aðeins varað við háska ef hann telur til dæmis að hætt sé við sköddun. En í þessu mun því aðeins felast takmörkun á mögulegum viðföngum þessara viðhorfa og skoðana að merkingar­svið sjálfra hugtakanna sé einnig takmarkað. Til svars við þessum andmælum læt ég nægja að ræða merkingu orðsins „sköddun“, því að það er einfaldasta dæmið. Sá sem vill segja að hvaðeina geti talist afrek, eða mein sem fólk óttast eða ber kvíða fyrir, ætti að reyna þetta. Ég ætla að athuga þá staðhæfingu að hvaðeina geti talist hættulegt, úr því að það sem veldur sköddun sé hættulegt, og hvað sem er megi telja sköddun. Ég beini sjónum að líkamlegri sköddun – það er að segja meiðslum – vegna þess að slík sköddun er tengd hættu; ekkert vit er í því að setja upp vegaskilti sem varar við hættu þegar aðeins er um það að tefla að runnar í vegkantinum geti rispað bíla. Né heldur er hægt að telja tiltekna efnablöndu „hættulega“ af þeim sökum einum að hún geti valdið sköddun á fíngerðum vefnaði; við getum að vísu talað um að hætta sé á að blandan valdi slíkri sköddun, en þá er orðið notað á annan hátt en þann sem ég er hér að velta fyrir mér.

Þegar líkami verður fyrir sköddun breytist hann til hins verra á tiltekinn hátt. Við viljum vita hvers kyns breytingar geti talist sköddun. Í fyrsta lagi skiptir máli hvernig sköddunin verður; til dæmis getur náttúruleg hrörnun ekki talist sköddun. Einnig virðist ljóst að ekki kemur hvað sem er til greina, til dæmis er ekki hægt að telja með öll torkennileg för á líkamanum, og þá gildir einu hversu mikið menn gætu lagt á sig til að fá þau fjarlægð. Sú sköddun sem skiptir langmestu máli er sköddun á líkamshluta sem skerða hæfni hans til að gegna hlutverki sínu; sköddun á fótlegg, auga, eyra, hönd, vöðva, hjarta, heila, mænu. Sköddun á auga spillir sjóninni eða telst líkleg til þess; meiðsl á hendi valda því að höndin er vanhæfari til að hreyfast og grípa um hluti og gera annað af því tagi. Fótleggur getur verið skaddaður vegna þess að hreyfingar hans og burðargeta sé skert; lunga vegna þess að það sé of veikburða til að draga inn nægilegt magn af lofti. Okkur er eðlilegast að tala um sköddun þegar um er að ræða líkamshluta sem hafa tiltekið hlutverk sem einkennir þá, eins og í þessum dæmum. Líklega segjum við ekki hiklaust að höfuðkúpa geti orðið fyrir sköddun, heldur frekar að hún laskist, með því að höfuðkúpan hefur að vísu hlutverk (að hlífa heilanum), en í þessu hlutverki felst engin virkni. Ef við höfum hlífðarhlutverk höfuðkúpunnar í huga getum við að vísu kosið að tala um sköddun í þessu sambandi. Að því leyti sem hugtakið sköddun veltur á hugtakinu hlutverk eru því afar þröngar skorður settar úr því að hægt er að nota líkamshluta á fleiri vegu en þá sem felast beinlínis í hlutverki þeirra. Hvernig stendur á því að okkur finnst það engin sköddun að rétta úr bakinu á krypplingi eða taka fyrir skeggvöxt skeggjuðu konunnar í fjölleikahúsi, eins þótt við séum þar með að svipta þau lífsbjörginni? Nú er freistandi að segja að kryppa og skegg á konu séu lýti, en það kemur málinu ekki við; ef við gerum ráð fyrir að til sé maður sem starfi sem hirðfífl og hafi þann sérstaka hæfileika að geta blakað eyrunum fyrir tilstilli ósýnilegs aukavöðva, myndum við ekki segja að eyrun hefðu orðið fyrir sköddun þótt vöðvinn væri fjarlægður. Væri mönnum eðlilegt að skiptast á merkjum með því að blaka eyrunum hefðu eyrun það hlutverk að senda slík merki (við eigum ekkert orð fyrir þess háttar „tal“) og þá væri það sköddun að skerða þessa hæfni þeirra; en málum er ekki hagað á þennan hátt. Hirðfíflið myndi nota eyrun til að skemmta fólki, en það er ekki hlutverk eyrna.

Án efa fyllast margir óþoli þegar staðreyndir af þessu tagi eru dregnar fram, vegna þess að þeim þykir það koma málinu lítið við að þetta eða hitt sé á einn eða annan hátt vaxið fyrir hendingu eina, og þeim virðist geðþótti ráða því að missir skeggsins, kryppunnar eða eyrnavöðvans fær ekki að heita sköddun. Er ekki býsna hræðilegt að glata því sem maður hefur viðurværi sitt af? Engu að síður virðist alveg eðlilegt að telja þennan missi eitthvað annað en sköddun ef maður leiðir hugann að skilyrðum mannlegs lífs og ber saman annars vegar það að glata hæfileikanum að koma fólki til að gapa eða hlæja og hins vegar það að geta ekki lengur séð, heyrt, gengið eða tekið hluti upp. Hið fyrrnefnda er aðeins nauðsynlegt við afar sérstök skilyrði, en hitt í allri fyrirsjáanlegri framtíð sérhvers manns. Þegar rætt er um hættu er heldur ekki alltaf um að ræða hættu á sköddun: um dauðann getur verið að tefla eða skerðingu á starfsemi hugans. Rafstuð sem leiddi til brigðlyndis eða minnistaps myndi teljast hættulegt, enda þarf maðurinn á greind, minni og einbeitingarhæfni að halda rétt eins og sjón, heyrn eða beitingu handanna. Í þessu myndum við ekki tala um meiðsl nema mögulegt sé að tengja fötlunina við einhverja breytingu á líkamanum, en við tölum á hinn bóginn um hættu vegna þess að um er að ræða hæfileika sem allir menn þarfnast.

Til eru fleiri tilbrigði af sköddun en þau sem við höfum skoðað hér, því í sumum tilfellum má segja um mann að hann hafi orðið fyrir sköddun enda þótt líkamshlutar hans geti eftir sem áður starfað eðlilega. Almennt tel ég að sköddun verði fyrir hvers kyns áfall sem setji líkamann úr skorðum með þeim hætti að því fylgi langvarandi sársauki, eins þótt ekkert annað illt hljótist af, en ég veit ekki af öðrum mikilvægum hliðarmerkingum hugtaksins.

Úr því að það virðist býsna skýrt afmarkað hvað geti kallast sköddun lítur út fyrir að orðið „hættulegur“ sé líka afmarkað að svo miklu leyti sem það tengist sköddun. Okkur leyfist að fullyrða að maður geti ekki ákveðið að nefna hvað sem er hættulegt, og þá gildir einu hversu mjög hann hristir höfuðið.

Ég hef hér fært rök fyrir því að fyrirbrigði á borð við stolt, ótta, kvíða og það að telja eitthvað hættulegt hafi innri tengsl við viðfang sitt, og vona að það sé að koma upp úr dúrnum hvað ég á við með þessu. Nú þurfum við að velta fyrir okkur hvort þau viðhorf og skoðanir sem siðfræðingar fást við séu svipaðrar ættar, eða hvort fyrirbrigði á borð við „gildisdóm“, „að telja eitthvað gott“ og „hrós“ geti rökfræðinnar vegna átt við hvaða viðfang sem vera skal. Hér verð ég að láta nægja að taka dæmi sem kann að varpa rýrð á þessa skoðun, og andmæla síðan nokkrum forsendum hennar. Dæmið er af fáfengilegri og marklausri athöfn á borð við þá sem við höfum þegar rætt, að núa hendur sínar þrisvar á einni klukkustund. Við getum bent á að eitthvað sé bogið við að telja slíka athöfn góða. Þessi gáta krefst þess að við stillum okkur um að bæta við dæmið einhverjum sérstökum skilyrðum, og enn einu sinni skal tekið fram að spurningin snýst um það hvaða rök megi færa fyrir því að athöfn sé góð eða slæm (eða maður góður eða slæmur), en ekki um það hvað geti verið eða megi telja gott eða slæmt við sérstök skilyrði. Ég held að viðhorfið sem ég er að gagnrýna virðist oft sennilegt einungis í krafti þess að hin sérstöku skilyrði eru laumulega dregin inn í dæmin.

Sá sem segði það góða athöfn að núa hendur sínar þrisvar á einni klukkustund yrði fyrst að svara spurningunni „Á hvaða hátt?“, því að hjá honum hefur setningin „þetta er góð athöfn“ ekki skýra merkingu. Úr því að við erum að velta siðfræði fyrir okkur má útiloka að setningin merki „þetta var gott hjá þér“, því að þetta mætti segja um hvern þann sem gerir eitthvað skynsamlegt í eftirsókn sinni eftir hverju sem vera skal; við verðum að einskorða okkur við „siðferðilega notkun orðsins ,góður‘“. Ég er ekki viss um að vit sé í að tala um „siðferðilega notkun orðsins góður‘“, en hvað sem því líður getum við tínt til ýmis dæmi sem vekja upp siðferðileg álitaefni. Dæmin eru ólík, og setningin „þetta er góð athöfn“ dugar ekki til að gera upp á milli þeirra, og þess vegna verðum við að spyrja „Á hvaða hátt?“ Til dæmis eru sumar athafnir sprottnar af skyldu, til dæmis skyldu foreldra við börn sín eða barna við foreldra sína. Ég geri ráð fyrir að heimspekingar teldu slíkar athafnir til góðra athafna. Sumar athafnir falla undir tilteknar dygðir, svo sem góðvild, og teljast þá líka góðar. Aðrar athafnir krefjast dygða á borð við hugrekki eða hófsemi, og þá er siðferðisgildið fólgið í að breytt er í trássi við hræðslu eða freistandi nautn; slíkar athafnir geta raunar allt eins miðað að ímynduðum gæðum eins og raunverulegum, og þar með ekki nauðsynlega að því sem heimspekingar myndu nefna siðferðisgæði. Hugrekki snýst ekki sérstaklega um það að bjarga fólki úr lífsháska, né heldur hófsemi um það að gefa öðrum kost á sínum skerf af mat og drykk. Það sem ræður því að það sem gert er telst gott getur hér verið ýmiskonar nytsemi. Vegna þess að um öll þessi ólíku dæmi má hafa orðin „góð athöfn“ (geri ég ráð fyrir) ættum við að hafna þeim möguleika að nota þau án þess að spyrja fyrst hvað átt er við, og við ættum þá að spyrja hvað sé á seyði þegar einhver segir það góða athöfn að núa hendur sínar þrisvar á klukkustund. Er átt við að þessi athöfn uppfylli skyldu? Ef svo er, hvaðan kemur manninum þessi skylda, og við hvern á hann hana? Við höfum heitið því að lauma ekki að sérstökum skilyrðum, en alveg er útilokað að það sé skylda mannsins að núa hendur sínar ef einhver slík skilyrði eru ekki til staðar. Athöfnin gæti ekki heldur verið sprottin af góðvild, því að hún telst ekki gera neinum gott, og engu fremur getur hún verið merki um hógværð nema einhverju því sé bætt við sem breyti dæminu á þann veg. Athöfnin gæti verið merki um hugrekki, en þá aðeins ef hún er gerð í trássi við hræðslu og miðar að einhverjum gæðum; og okkur leyfist ekki að lýsa sérstökum skilyrðum sem gætu gert raunina þessa.

Nú þykist ég vita að hreyft verði svofelldum andmælum: „Auðvitað er ekki hægt að bendla þá athöfn að núa hendur sínar þrisvar á einni klukkustund við einhverja af þeim dygðum sem við viðurkennum, en það helgast einvörðungu af því að í ríkjandi siðferði telst athöfnin ekki til góðra athafna. Í gerólíku siðferði er rökfræðilega mögulegt að miðað sé við allt aðrar dygðir, sem við eigum ekki einu sinni hugtök um.“ Ég get ekki svarað þessum andmælum til fullnustu, því að til þess þyrfti fyrst að gera bærilega grein fyrir dygðahugtakinu. En sá sem telur það hægan vanda að lýsa nýrri dygð sem tengist því að núa hendur sínar þrisvar á klukkustund ætti að reyna sig við það verk. Ég held hann kæmist að því að hann yrði að svindla og gera ráð fyrir samfélagi þar sem það að þrýsta saman höndunum hefur eitthvert sérstakt hlutverk, eða telst hafa einhverjar sérstakar afleiðingar. Erfiðleikarnir eiga greinilega rætur í því að án þess að tiltaka sérstök skilyrði er engin leið að svara spurningunni „Að hverju miðar athöfnin?“ Engan veginn dugar að segja að athöfnin hafi tilgang vegna þess að hún sé siðferðilega góð: málið snýst um það hvort lýsa megi athöfninni á slíkan hátt ef ekki er unnt að tiltaka fyrst einhvern tilgang. Alveg jafn fráleitt er að gera ráð fyrir að nefna megi hvað sem er tilgang athafnar en láta ósagt hver sé þá einmitt tilgangur þess. Þegar maður þrýstir saman höndunum heyrist ef til vill dálítið soghljóð, en hver er tilgangur þess? Það hlýtur að vera ljóst að siðferðilegar dygðir hljóta að tengjast því sem er mönnum gott og illt, og að það er alveg fráleitt að nota orðin „gott“ og „illt“ eftir geðþótta. Gerum ráð fyrir að maður segist hafa skaddast af því að einni fötu af vatni hafi verið ausið úr hafinu. Eins og endranær má ímynda sér aðstæður sem koma viti í þessi orð; til dæmis má vísa til yfirnáttúrulegra fyrirbæra; en þá ætti sköddunin upptök hjá illum öndum, en ekki í því einu að vatni var ausið úr hafinu. Þetta er álíka skrítið og það ef maður segðist hafa skaðast af því að hárunum á höfði hans hafi fækkað þannig að fjöldi þeirra sé ekki lengur oddatala heldur slétt.2

Niðurstaða mín er sú að forsenda (1) sé afar tortryggileg, og að engum sé leyfilegt að láta eins og við skiljum hugtökin „gildisdómur“,„lofsemd“ eða „jákvæð afstaða“ óháð því hvaða athafnir er um að ræða.

II

Nú hyggst ég taka til athugunar það sem nefnt var forsenda (2) og kvað á um að hver sem er geti alltaf neitað því að fallast á niðurstöðu af rökfærslu um verðmæti á þeirri forsendu að það sem teljist rök fyrir öðru fólki þurfi ekki endilega að vera rök í hans augum. Forsenda (2) gæti verið sönn þó að forsenda (1) sé ósönn því að hugsast getur að þegar komist hafi verið að niðurstöðu í álitamáli um verðmæti – til dæmis siðferðilegu álitamáli – séu allir þeir sem velta málinu fyrir sér neyddir til að telja sömu atriði til raka og allir aðrir, en samt geti hver sem er hafnað því að draga af þeim nokkrar siðferðilegar niðurstöður eða taka yfirleitt til umræðu álitamál sem fela í sér siðferðilega þætti. Við ætlum ekki heldur að skilja orðin „hann gæti hafnað niðurstöðunni“ þeim augljósa skilningi að ætíð megi hafna hvaða niðurstöðu sem vera skal; kjarninn er sá að stað­hæfingar um verðmæti virðast ætíð ganga lengra en staðhæfingar um staðreyndir, og því geti maður með fullum rétti fallist á forsendur gildisdóms en jafnframt hafnað sjálfum dómnum. Þeim sem halda fram þessari skoðun virðist hún leiða af þeirri vísun til breytni sem í gildisdómi felst. Þegar maður notar orð eins og „góður“ í hinni „gildishlöðnu“ merkingu þess, en ekki „óeiginlegri merkingu“, er gert ráð fyrir að hann láti í ljós vilja sinn. Af þessu virðist óhjákvæmilega leiða að rökfræðileg gjá sé á milli staðreynda og gilda: er það ekki eitt að segja að málum sé háttað á einn eða annan veg, en annað að hafa tiltekna afstöðu til þess; eitt að sjá að vissar afleiðingar verði af tiltekinni athöfn, en annað að kæra sig um þær? Einu gildi hvernig kjarna gildisdóms er lýst – hvort hann er kenndur við geðshræringar, viðhorf, viðurkenningu á siðaboðum eða eitthvað annað – staðreyndin sé alltaf sú að í gildisdómi felist ný vídd sem ekki sé hægt að réttlæta með vísun til staðreynda.

Ég mun færa rök fyrir því að þessi skoðun sé röng, og að hún setji vísun siðferðilegra hugtaka til breytni á skakkan stað; en ef þessari vísun sé lýst á réttan hátt muni hin röklega gjá milli stað­reynda sem hafðar eru að forsendu og siðferðilegra niðurstaðna hverfa.

Í þessari rökfærslu er gott að hafa fyrir sér hvernig orðið „sköddun“ hefur verklegan blæ sem er „leiðbeinandi um breytni“, og er þannig að sumu leyti, en þó ekki öllu, hliðstætt við siðferðileg hugtök. Það er ljóst að mínu viti að sköddun er nauðsynlega slæm og þar með er alltaf ástæða til að forðast hana, og heimspekingum mun af þeim sökum þykja freistandi að halda fram að sá sem noti hugtakið „sköddun“ í hinni hreinu „leiðbeinandi“ merkingu þess reyni þá líka að forðast hvaðeina sem hann kallar sköddun. Þeir munu þá lenda í hinum gamalkunnu erfiðleikum um manninn sem segist vita að hann ætti að breyta á tiltekinn hátt en hefur það samt alls ekki í hyggju; hér gæti líka vaknað vandinn um breyskleikann. Við skulum heldur athuga af hvaða toga það er sem telja má sköddun, og reyna að sjá hvort tengslin við viljann eigi rætur þar. Eins og við höfum sýnt verður maður fyrir líkamlegri sköddun þegar einhver hluti líkama hans skemmist á þann hátt að hann verður vanhæfari til að gegna venjulegu hlutverki sínu. Af því leiðir að maðurinn verður fyrir einhverri fötlun, eða á það a.m.k. á hættu; ef hann hefur skaddast á hendi felur það í sér skerðingu á hæfni hans að lyfta hlutum, halda á þeim, binda þá saman eða höggva þá sundur, og svo framvegis. Hafi augu hans skaddast verður hann ófær um að gera óteljandi aðra hluti, og í báðum tilvikum ætti okkur að vera eðlilegt að segja að hann verði oft ófær um að öðlast það sem hann vill öðlast eða forðast það sem hann vill forðast.

Heimspekingar munu án efa henda orðið „vill“ á lofti og segja að ef við gerum ráð fyrir að svo vilji til að maður vilji öðlast einhverja hluti sem hann getur ekki öðlast af þeim sökum að hann hafi orðið fyrir einhverri sköddun, höfum við þar með lætt að tilteknum fyrirframskilyrðum; og að hver sá sem hafi ekki sömu langanir geti þá samt sem áður hafnað því að nota orðið „sköddun“ í hinni vísandi eða „leiðbeinandi“ merkingu þess. Þá getur svo virst sem eina leiðin að koma á nauðsynlegum tengslum milli hugtaksins „sköddun“ og hluta sem ber að forðast sé að segja að hugtakið sé notað í „merkingu sem er leiðbeinandi um breytni“ einungis þegar það er haft um eitthvað sem mælandinn vill forðast. En við skulum gaumgæfa lykilatriðið í þeirri rökfærslu og draga í efa þá hugmynd að verið geti að maður vilji ekki öðlast neitt af því sem hann þarf að nota hendur og augu til. Hendur og augu, rétt eins og eyru og fótleggir, koma við sögu í svo mörgum athöfnum að engin leið er að segja um mann að hann þurfi ekki á þeim að halda, nema þá að maðurinn hafi alls engar þarfir. Einu gildir hvort slíkt fólk kunni að vera til á geðsjúkrahúsum; vilji maður eitthvað á annað borð hlýtur það að geta notað útlimina með eðlilegum hætti að vera þar á meðal.

Ég veit ekki hvað sá sem neitar þessari staðhæfingu gæti haft í huga. Kannski vill hann breyta staðreyndum um mannlega tilveru þannig að lækna mætti öll heimsins mein með því einu að óska sér eða hefja upp raust sína. Þó er líklegra að hann vilji gera ráð fyrir að hægt sé setja lífi tiltekins manns skorður innan vébanda hins venjulega heims, til dæmis með því að gera ráð fyrir að hann sé prins og þjónn hans sái fræinu og skeri kornið og sitji og standi fyrir hann og noti hendur sínar og augu í þjónustu hans með þeim hætti að hann þurfi ekki á sínum eigin að halda. Gerum ráð fyrir að slíka sögu megi segja um einhvern mann; hún er feikilega ósennileg, en lítum framhjá því. Ljóst er að engu að síður gætum við fullyrt að sérhver maður hafi ástæðu til að forðast skaða; því að jafnvel þótt segja megi um deyjandi mann að hann hafi aldrei í lífi sínu þurft á höndum sínum eða augum að halda, var heldur engin leið að sjá það fyrir. Slíkri spá væri ekki hægt að treysta nema staðreyndir um mannlega tilvist væru aðrar en þær eru og hægt væri að sjá fyrir öll hugsanleg tilbrigði í þessari tilvist.

Þar með er ekki tekið fyrir að af sköddun geti af tilviljun hlotist meiri ávinningur en ógagn; í því efni nægir að hugsa til þess þegar hraustir menn eru settir undir vopn og falla síðan á vígvellinum. Við óvenjuleg skilyrði mætti jafnvel sjá slíkan ávinning fyrir með vissu, þannig að maður gæti haft betri ástæðu til að sækjast eftir sköddun heldur en forðast hana. Að þessu leyti er orðið „sköddun“ frábrugðið hugtökum á borð við „óréttlæti“; vísun orðsins „sköddun“ til breytni felur ekki annað í sér en það að allir hafa einhverja ástæðu til að forðast skaða, en ekki að sú ástæða sé alltaf þyngst á metum.

Menn munu taka eftir því að þessi greinargerð fyrir þeim þætti orðsins „sköddun“ sem er leiðbeinandi um breytni tengir það við ástæður fyrir breytni fremur en sjálfa breytnina. En ég fellst ekki á að þetta dragi úr gildi þess að skoða leiðbeinandi þátt siðferðishugtaka með þessum hætti. Heimspekingar sem hafa gert ráð fyrir að athöfn þurfi að fylgja þegar orðið „góður“ er notað í einlægum gildisdómi hafa ratað í erfiðleika með breyskleikahugtakið, og þeir hljóta að fallast á að nægilegt sé að sýna fram á að allir menn hafi ástæðu til að stefna að dygðugri breytni en forðast lesti. En er þetta alveg ókleift ef við veltum fyrir okkur hvað það er sem telst til dygða og lasta? Lítum til dæmis á höfuðdygðirnar, skynsemi, hófsemi, hugrekki og réttlæti. Augljóst er að sérhverjum manni er skynsemin nauðsynleg, en þarf hann ekki líka að standast þá freistingu að veita sér einhverja ánægju þegar henni fylgir skaði? Og hvernig er hægt að halda fram að hann þurfi aldrei að takast á við eitthvað skelfilegt á leið sinni að góðu marki? Ekki er augljóst hvað sá ætti við sem segði að hófsemi eða hugrekki væru ekki kostir á manni, ekki vegna þess lofs sem liggur í merkingu orðanna, heldur vegna þess, hvað hugrekki og hófsemi eru.

Fyrir mér vakir að nota þessi dæmi til að sýna fram á tómahljóðið í hugtökunum um „hrós“ og „jákvæða afstöðu“ eins og þau eru iðulega notuð. Heimspekingar sem ræða um þessi mál munu segja að eftir að fallist hefur verið á staðreyndirnar – til dæmis að X sé maður af því tagi sem klífur hættuleg fjöll, býður uppstökkum vinnuveitanda byrginn með því að óska eftir launahækkun, og, almennt talað, tekst á við það sem er skelfilegt þegar það stendur í vegi fyrir því sem hann sækist eftir – þá sé eftir að athuga „hrós“ eða „gildismat“. Ef orðið „hugrekki“ er notað munu þeir spyrja hvort sá sem talar um að annar sé hugrakkur sé þar með að hrósa honum. Ef við svörum því játandi munu þeir fullyrða að það að fella þennan dóm um hugrekki feli í sér meira en felst í staðreyndunum, og á þeirri forsendu megi hafna honum; ef við svörum því neitandi munu þeir halda fram að við notum „hugrekki“ í hreinni lýsandi merkingu, eins og við hefðum það innan gæsalappa, dæmið sé ekki af því tagi þegar tungumálið er notað til að fella gildisdóma, og það sé því utan við hið sérstaka verksvið siðfræðingsins. Hvaða vit er á hinn bóginn hægt að fá í spurninguna „Er sá sem mælir að hrósa hinum hugrakka?“ Hvað er það sem sagt er hafa bæst við, eða fallið út, eftir að staðreyndirnar hafa verið negldar niður? Málið snýst ekki um að sá hugrakki falli manni í geð, eða að maður telji hann algóðan, heldur um það að maður „hrósar honum fyrir hugrekki sitt“. Hvernig er ætlast til að við gerum það? Því verður svarað á þá leið að þegar við tölum um að maður sé hugrakkur séum við því aðeins að hrósa honum að við föllumst sjálf á að hlíta boðorðinu „ég vil vera hugrakkur“. En þetta er alveg óþarft. Ég get talað um að einhver annar búi yfir dygðinni hugrekki, og að sjálfsögðu viðurkennt að það sé dygð í réttum skilningi þess orðs, en vitað jafnframt að sjálf er ég algjör og óforbetranlegur hugleysingi. Ég veit þá að mér væri hollt að vera hugrökk og hef því ástæðu til að rækta með mér hugrekki, en ef til vill veit ég líka að ég muni láta það alveg eiga sig.

Ef einhver segir að hugrekki sé ekki dygð verður hann jafnframt að segja að það sé ekki eiginleiki sem leiði til réttrar breytni. Ef til vill væri hann að hugsa um að til væru menn sem hefðu orðið fyrir skaða hugrekkis síns vegna, sem er alveg satt, en það er þá bara vegna þess að skaði getur orðið fyrir hendingu. Til dæmis gæti sá hugrakki hafa vanmetið tiltekna áhættu og lent þannig í slysi sem heigullinn hefði komist hjá vegna þess að hann hefði ekki viljað hætta á neitt. Og hugrekki, eins og allar aðrar dygðir, gæti valdið skaða með því að vekja einhverskonar ógæfulegt stolt.3 Á sama hátt eru þeir sem draga hófsemisdygðina í efa að öllum líkindum ekki að hugsa um dygðina sjálfa heldur um menn sem hafa látið hófsemina bægja frá sér nautnum fyrir sýndargæða sakir, eða um menn sem hafa gert þessa dygð að helsta stolti sínu.

Einnig verður spurt að réttlætinu, því að skynsemi, hugrekki og hófsemi eru eiginleikar sem virðast koma þeim til góða sem hefur eiginleikana, en réttlæti virðist á hinn bóginn fremur vera hinum réttláta í óhag og öðrum til góða. Þegar fjallað er um réttlæti á þennan hátt, það er að segja sem eina af höfuðdygðunum, nær það til alls þess sem annað fólk á heimtingu á: morð, þjófnaður og lygar falla undir óréttlæti, og líka það þegar foreldrar vanrækja börn sín eða börnin foreldrana, svo og þær athafnir sem nefndar eru óréttlátar í hversdagslegu máli. Þannig að þegar sá sem forðast óréttlæti þarf á einhverjum gripum að halda sem hann er búinn að skila til eiganda síns, og má ekki nýta sér það að svíkja og ljúga, lendir hann í öllum þeim erfiðleikum sem Þrasýmakkos lýsir í fyrstu bók Ríkisins og kveður sýna fram á að óréttlæti sé til meiri hagsbóta en réttlæti fyrir þann sem er sterkur og kænn. Við verðum spurð að því hvernig réttlæti geti verið dygð og óréttlæti löstur samkvæmt kenningu okkar, því það sé augljóslega erfitt að sýna að sérhver maður þarfnist þess að vera réttlátur á sama hátt og hann þarfnast handa sinna eða augna, eða á sama hátt og hann þarfnast skynsemi, hugrekkis og hófsemi.

Áður en ég svara þessari spurningu vil ég færa rök fyrir því að ef ekki sé unnt að svara henni sé einnig ófært að halda fram eins og ekkert hafi í skorist að réttlæti sé dygð í raun og veru. Tilgangurinn með þessu er ekki að sýna fram á að spurningunni megi svara úr því að réttlætið er dygð, heldur öllu fremur að leggja til að við ættum að minnsta kosti að velta fyrir okkur þeim möguleika að réttlæti sé ekki dygð. Sókrates tók þessa tillögu alvarlega í Ríkinu, og þar gerðu allir ráð fyrir að ef Þrasýmakkos gæti fært sönnur á forsendu sína – að óréttlæti sé ábatasamara en réttlæti – fylgdi niðurstaða hans með: að sá sem hefði þann styrk er þyrfti til að komast upp með óréttlæti hefði góða ástæðu til að helga líf sitt óréttlætinu. Í siðfræði nútímans er áberandi að enginn sér nein tormerki á því að fallast á forsendu Þrasýmakkosar en hafna niðurstöðunni, og afstaða Nietzsches er í þessu efni fjarri siðfræðingum nútímans vegna þess að hún er miklu nær skoðun Platons.

Í Ríkinu er gert ráð fyrir því, að sé réttlæti ekki gæði hins réttláta manns þá séu siðvitringar sem telji réttlætið dygð sekir um pretti. Ég fellst á þetta og verð þá eflaust spurð hvaðan þessir prettir séu sprottnir; með hvaða orðalagi séu þau ósannindi tjáð að réttlæti sé einstaklingnum til hagsbóta. Til bráðabirgða má spyrja á móti hversu margir myndu í raun fullyrða að óréttlæti sé ábatasamara en réttlæti. Við skulum láta trúarskoðanir sem flækja málið liggja á milli hluta, eins og endranær í þessari ritgerð, og ímynda okkur að harðsnúinn trúleysingi spyrji okkur „Hvers vegna ætti ég að vera réttlátur?“ (Þeir sem telja að eitthvað sé bogið við þessa spurningu mega hafa sínar aðferðir við að sía út „gildisþáttinn“ í henni, og geta svo gert ráð fyrir að spurningin sé „Hvers vegna ætti ég að vera ,réttlátur‘?“) Erum við reiðubúin að svara á þessa leið: „Hvað sjálfan þig varðar kæmi sér betur að þú værir óréttlátur, en það er okkur hinum til hagsbóta að þú sért réttlátur, og því ætlum við að reyna að fá þig til að vera réttlátur“? Hann myndi vísast gaumgæfa hvernig við bærum okkur að í eftirliti með réttlætinu og gæta þess síðan að ekki kæmist upp um sig, og ég held að margir þeir sem telja að ekki sé nauðsynlegt að sýna að réttlæti sé hinum réttláta til hagsbóta myndu hæglega fallast á að meira gætu þeir ekki sagt.

Lykilspurningin er þessi: „Getum við gefið hverjum sem er, hvort sem hann er sterkur eða veikburða, gilda ástæðu til að vera réttlátur?“ – og það stoðar ekkert að segja að orðin „réttlátur“ og „óréttlátur“ séu „leiðbeinandi um breytni“ og því megi ekki einu sinni spyrja „Hvers vegna ætti ég að vera réttlátur?“ Ef mið er tekið af þeim rökum þarf maðurinn sem vill geta gert það sem honum sýnist einungis að forðast að nota orðið, og þá hefur hann ekki neina ástæðu til þess að láta það ógert sem annað fólk nefnir „óréttlátt“. Líklega verður þeim rökum hreyft að manninum hafi verið fengin ástæða að svo miklu leyti sem menn geti yfirhöfuð haft ástæðu til að gera eða gera ekki nokkurn skapaðan hlut, úr því að einhvers staðar hljóti ástæðukeðjan að enda, og svo geti virst sem maður geti alltaf hafnað ástæðu sem annar maður telur gilda. En þarna er villa; til eru svör við spurningu af taginu „Hvers vegna ætti ég að gera þetta?“ sem vísa til endanlega margra ástæðna, og önnur sem gera það ekki. Hume sýndi fram á þetta í eftirfarandi orðum:

Spyrjið mann að því, hvers vegna hann stundi líkamsþjálfun; hann mun svara því til að hann vilji halda heilsu sinni. Ef þið spyrjið þá, hvers vegna hann vilji vera heilbrigður, þá mun hann svara um hæl, vegna þess að sjúkdómar valda sársauka. Ef þið spyrjið enn í þaula, og krefjist ástæðu þess að hann hafi óbeit á sársauka, þá er útilokað að hann geti gefið nokkurt svar. Hér er komið endanlegt markmið sem er aldrei tengt við annan hlut. (Rannsókn á undirstöðum siðferðisins, viðbætur I, V. hluti.)

Hume hefði rétt eins getað endað þessa ástæðukeðju með því að nefna leiðindi til: sjúkdómum fylgja iðulega leiðindi, og enginn þarf að tilgreina ástæðu þess að hann vilji forðast þau, engu fremur en hann þarf að tilgreina ástæðu þess að hann vilji öðlast það sem vekur áhuga hans. Almennt má segja að maður fái ástæðu til að aðhafast þegar honum opnast leið til að öðlast eitthvað sem hann sækist eftir; en um sumar langanir er hægt að spyrja með fullu viti „Hvers vegna sækist þú eftir þessu?“, um aðrar er ekki hægt að spyrja þannig.4 Það virðist ljóst að í þessari tvískiptingu lendi réttlæti öfugum megin við ánægju og áhuga og annað af því tagi. Spurningunni „Af hverju ætti ég að láta þetta ógert?“ er ekki svarað með orðunum „af því að það er óréttlátt“, en samsvarandi orð eru á hinn bóginn notuð þegar átt er við að athöfnin muni leiða til leiðinda, einsemdar, sársauka, óþæginda eða tiltekinnar vanhæfni, og af þessum sökum er ekki satt að segja að staðhæfingin „það er óréttlátt“ láti í té ástæðu ef ástæður verða þá látnar í té á annað borð. Staðhæfingin „Það er óréttlátt“ lætur einungis ástæðu í té ef sýnt verður að eðli réttlætis sé með því lagi að það sé nauðsynlega tengt því sem maður sækist eftir.

Af þessu sést að býsna margt veltur á þeirri spurningu hvort réttlæti sé gott fyrir hinn réttláta eða ekki, og hvers vegna það er vafasamt að fallast á forsendu Þrasýmakkosar en hafna samt niðurstöðu hans. Þeir sem gera þetta mæla með réttlætinu við hvern sem er, og segja hann hafa góða ástæðu til að vera réttlátur, en þegar þeir eru krafðir um rök fyrir þessu geta þeir ekki alltaf fært þau fram. Þessi síðasta staðhæfing hvílir ekki á neinni heimspekilegri „eigingirniskenningu um manneðlið“. Oft er kleift að láta manni í té ástæðu fyrir tiltekinni breytni með því að benda honum á að ella muni annar maður þjást; vel getur verið að velferð annars manns skipti hann meira máli en velferð hans sjálfs. En ást móður á barni sínu eða gagnkvæm ást elskenda eða vina verður okkur að litlu gagni þegar við erum beðin um ástæðu fyrir því að maður eigi að vera réttlátur; að hluta til vegna þess að það hrekkur ekki til, og að hluta til vegna þess að sú breytni sem hlýst af góðvild er ekki alltaf sú sama og sú sem hlýst af réttlæti. Setjum svo að ég skuldi einhverjum fé:

  .  .  .  en ef hann er óvinur minn og hefur gefið mér góða ástæðu til að hata hann? Ef hann er grimmdarseggur sem verðskuldar hatur alls mannkyns? Ef hann er nirfilshró sem getur ekki notið þess sem ég myndi svipta hann? Ef hann er siðspilltur nautnaseggur sem myndi fremur hljóta skaða en hag af miklum eignum?“5

Jafnvel þótt hægt væri að rekja alla ástundun réttlætisins til góðvildar í garð mannkynsins – til þeirrar afstöðu að óska sem flestum mönnum sem mestrar hamingju – er augljóst að margir hafa ekki þá afstöðu. Þannig að ef aðeins á að mæla með réttlætinu á þeim forsendum geta þúsund hörkutól eftir sem áður haldið fram að þeir hafi enga gilda ástæðu fengið fyrir því að vera réttlátir, og margir fleiri tækju undir það ef þeir hefðu döngun og vit til að efast um þær hefðir í samskiptum sem þeir hafa alist upp við. Það er því ljóst að ef forsenda Þrasýmakkosar er tekin gild er fullt vit í sjónarmiði hans; við höfum enga sérstaka ástæðu til að dást að þeim sem eru réttlátir af hugleysi eða heimsku.

Mér virðist því að ef fallist er á tilgátu Þrasýmakkosar geti skipan mála ekki haldist í fyrra horfi; þá verðum við að viðurkenna að sú skoðun sé röng að réttlætið sé dygð, og ef við viljum samt sem áður fá fólk til að vera réttlátt verðum við að finna nýja leið til að gera réttlætið að aðlaðandi kosti.6 Við verðum þá að viðurkenna að óréttlæti sé affarasælla en réttlæti, í það minnsta fyrir hina sterku, og reyna svo allt hvað við getum til að tryggja að enginn komist upp með óréttlæti. Okkur býðst vitaskuld líka sá kostur að þegja og vona að fólk muni upp til hópa breyta rétt af vana, og að það spyrji ekki óþægilegra spurninga, en þessi stefna gæti vikið fyrir óljósri efahyggju, jafnvel hjá þeim sem vita ekki alveg hvað á vantar; við ættum ennfremur stöðugt á hættu að einhver kæmi upp um svikamyllu okkar.

En er það annars satt að til sé sá maður sem þurfi ekki á réttlæti að halda í samskiptum sínum við annað fólk vegna þess eins að hann er sterkur? Þá, sem telja að hann geti lifað ágætu lífi án þess að vera réttlátur, ætti að biðja um að lýsa því nákvæmlega hvernig líf þessa manns á að vera. Við vitum að hann breytir ætíð í anda óréttlætis þegar það er honum í hag; en hvað á hann sjálfur að segja? Fellst hann á hann að hann viðurkenni ekki rétt annars fólks, eða þykist hann kannski gera það? Í fyrra tilvikinu myndu meira að segja þeir sem tengjast honum vita að þegar gæfan snýst við eða vináttan hjaðnar mun hann snúast gegn þeim og ræna þá og rupla, og hann hlýtur að vita af svikráðum þeirra eins og þeir af hans. Líklega er gert ráð fyrir að hinn hamingju­sami og óréttláti maður sé í stíl við þann sem lýst er í II. bók Ríkisins, semsé afar útsmoginn lygari og blekkingameistari sem er fullkomlega óréttlátur en lítur samt út fyrir að vera réttlátur: hann skirrist ekki við að níðast á öðrum en lætur þó líta út fyrir að ekkert sé vilja hans fjær. Heimspekingar virðast oft gera ráð fyrir að maður geti með slíkum hætti falið sig fyrir þeim sem eru í kringum hann, en sú forsenda er vafasöm, og hvað sem öðru liði yrði slíkur maður að vera einstaklega árvakur. Láti hann skína í sitt rétta eðli í hópi manna verður hann að hafa gát á þeim öllum upp frá því; og ef hann leyfir engum að vita leyndarmál sitt verður hann stöðugt að gæta þess að gefa ekkert til kynna. Þessar staðreyndir eru mikilvægar vegna þess að þörfin sem menn hafa fyrir réttlæti í samskiptum sínum við aðra er sprottin úr því að þeir eru menn en ekki dauðir hlutir eða dýr. Þyrfti maður ekki á öðrum mönnum að halda nema á sama hátt og maður hefur þörf fyrir búsáhöld, og ef hægt væri að fara með menn eins og búsáhöld, eða berja þá til hlýðni eins og asna, væri þessu öðruvísi farið. En eins og málum er háttað er sú skoðun að óréttlæti sé ábatasamara en réttlæti afar vafasöm, enda þótt vera megi að það geti verið ábatasamt í undantekningartilvikum á sama hátt og hugleysi og óhóf.

Ástæða þess að sumum virðist með öllu ókleift að sýna fram á að réttlæti komi sér betur en óréttlæti er að þeir beina sjónum einungis að tilteknum réttlátum athöfnum, slitnum úr öllu samhengi. Það er hafið yfir vafa að ef maður er réttlátur felst í því að þegar hann kemst í mikla þröng er hann reiðubúinn að ganga í dauðann fremur en brjóta gegn réttlætinu – til dæmis með því að láta dæma saklausan mann fyrir glæp. Hann sér að réttlætið muni leiða hann í glötun, en samt hefur hann, eins og hver annar, góða ástæðu til að vera réttlátur en ekki óréttlátur. Hann gæti ekki verið hvort tveggja, það er að segja búið yfir réttlætisdygðinni en jafnframt látið eftir sér að brjóta gegn réttlætinu þegar það kemur sér sérstaklega vel fyrir hann. Sá sem býr yfir dygð réttlætisins lætur ekki vissar athafnir eftir sér, en ef hann fellur of hæglega í freistni munum við taka svo til orða að þegar allt komi til alls hafi hann verið sjálfum sér eftirlátur.

Aftanmálsgreinar

*  „Moral Beliefs“ birtist upphaflega í Proceedings of the Aristotelian Society, 59, 1958-1959. Greinin birtist í íslenskri þýðingu Björn Þorsteinssonar í Heimspeki á tuttugustu öld. Safn merkra ritgerða úr heimspeki aldarinnar, ritstjórar Einar Logi Vignisson og Ólafur Páll Jónsson (Reykjavík: Mál og menning (Heimskringla), 1994). Þýðandi, ritstjórar og útgefandi gáfu Heimspekivefnum góðfúslegt leyfi til að birta þýðinguna til að minnast Philippu Foot sem lést 3. október 2010.

1. Sjá Rannsóknir í heimspeki eftir Wittgenstein, einkum § 243–315.

2. Margir heimspekingar leita skjóls í laufþykkni fagurfræðinnar þegar þeir standa andspænis dæmi af þessum toga. Gaman væri að vita hvort þeir teldu vænlegt að láta málflutning sinn standa og falla með möguleikanum á því að til séu fagurfræðileg andmæli við athöfninni.

3. Sbr. Tómas frá Akvínó, Ágrip af guðfræði (Summa Theologica), I-II, spurning 55, grein 4.

4. Sjá afburðagóða umræðu um ástæður athafna hjá G.E.M. Anscombe, Ætlun (Intention), § 34–40.

5. Hume, Tilraun um manneðlið, III. bók, II. hluti, 1. grein.

6. Ég átti í þessum erfiðleikum vegna þess að ég hafði tekið undir með andmælendum mínum í því að tilhugsun um góða athöfn hlyti að tengjast valkostum einstaklingsins með afar sérstæðum hætti. Þá hafði ekki hvarflað að mér að draga í efa þá margnotuðu röksemd að siðferðisdómar láti mönnum í té ástæður fyrir breytni. Nú virðist mér þetta vera misskilningur. Almennt séð vísar ástæða þess að sá, sem hyggst velja úr flokki möguleika, „sé líklegur“ að velja góðan kost fremur en slæman, til þess að viðmiðanir okkar um gæði tiltekinna hluta tengjast tilteknum hagsmunum sem einn eða annar maður á eða telur sig eiga með tilliti til þessara hluta. Þeir sem eiga hlut að þessum hagsmunum hafa ástæðu til að velja góðu kostina, en ekki hinir. Þegar um athafnir er að tefla getum við greint á milli góðs og ills með vísun til þeirra hagsmuna sem við tengjum við það sem er öllum almenningi til góðs, og af þeim sökum getur sá sem er andskotans sama um almenning spurt hvers vegna hann ætti að vera réttlátur, og við verðum að taka þessa spurningu fyllilega alvarlega eins og Platon á undan okkur. Við þurfum heldur ekki að hræðast þá hugmynd að ekki þurfi nauðsynlega að veita svar, og að ekki sé unnt að reiða sig á skynsamlega þátttöku annarra í siðferðilegri breytni. Málin gætu mjakast til betri vegar, en ekki verri, ef við féllumst á að ástæðurnar sem menn hafa fyrir því að breyta af réttlæti og góðvild velta á hverfulum viðhorfum manna og samjöfnuði eins manns við annan í samfélaginu. Þá sæjum við að það er verkefni okkar að sinna þessum málum, og (umfram allt) að það er ekki til góðs að koma fram við fólk af vanvirðingu og sundurgerð og láta síðan framandleg boðorð um að krefja það um siðlega breytni. [Þessa grein var ekki að finna í upphaflegri gerð greinarinnar, heldur bætti Foot henni við þegar greinin var endurprentuð í Virtue and Vices. (Þýð.)]