Færslusöfn

Má kenna heimspekinni um hrunið?

eftir Róbert Haraldsson

Ofangreind spurning kann að hafa tvær forsendur. Sú fyrri er þessi:  Frjálshyggja er (ekkert annað en) heimspeki. Hin síðari: Kenna má frjálshyggju (að verulegu leyti) um hrunið. Niðurstöðuna leiðir af þessum tveimur forsendum: Kenna má heimspeki (að verulegu leyti) um hrunið. Efast má um hvora forsenduna fyrir sig. Um hina fyrri má hafa a.m.k. tvenns konar efasemdir. Í fyrsta lagi mætti leiða rök að því að frjálshyggja sé ekki heimspeki heldur trú. Þessu er ekki síst haldið á lofti af gagnrýnendum frjálshyggjunnar og er þá orðið trú haft í afar neikvæðri merkingu. En öll heimspeki getur fengið á sig trúarblæ þegar rökræðum lýkur og framkvæmdir hefjast. Þá kemur innræting og áróður til sögunnar. En í eiginlegri merkingu orðins er frjálshyggja ekki trú. Hún býr ekki að hugmyndum um ósýnilegan veruleika sem svara dýpstu ráðgátum hins sýnilega heims, um framhaldslífið eða siðfræði þess, en siðfræði hins eilífa lífs er t.d. uppistaða í siðfræði Krists sem er þögul um mörg veraldleg málefni, ekki síst þau er snerta opinbert líf.

          Í öðru lagi mætti halda því fram að frjálshyggjan sé ekki heimspeki heldur vísindi. Rétt er að margir frjálshyggjumenn koma úr röðum stjórnmálafræðinga og hagfræðinga og til þjóðfélagsfræða sækja þeir ýmis rök. En hið sama má segja um aðra heimspeki. Allir spekingar sem láta eitthvað að sér kveða sækja rök sín jöfnum höndum til vísinda og heimspeki. En vísindi eru, eða eiga að vera, hlutlaus um verðmæti. Þau skera ekki úr um hver sé hin besta lífsstefna; til þess þarf að virkja fleiri sálargáfur en fræðilega skynsemi. Samfélagsvísindin geta ekki fært endanleg rök fyrir því að frjálshyggja sé skárri þjóðfélagsstefna en sósíalismi. Samfélögum sem leggja jöfnuð til grundvallar virðist raunar farnast betur að flestu leyti en þeim sem láta sig jöfnuð litlu varða. Engu að síður gætu réttlætis- og siðferðisrök stutt einstaklingsfrelsi og markaðsbúskap. Endingarbestu rök frjálshyggjumanna eru af heimspekilegum toga. Þrjóska frjálshyggjumannsins er þrjóska heimspekingsins.

          Færa má beinni rök fyrir því að frjálshyggjan sé fyrst og fremst heimspeki. Hún byggist ekki síst á rök- og hugtakagreiningu. Þegar Friedman birti fræga grein sína gegn samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja árið 1970 vísaði hann t.d. ekki á reynslurök máli sínu til stuðnings heldur greindi hugtök á borð við ábyrgð, skylda og réttur, og komst að þeirri niðurstöðu að félagsleg ábyrgð fyrirtækja væri óréttlát. Gegn rökum Friedmans stoðar lítt að benda á að samfélagsleg ábyrgð eða siðferðileg breytni kunni að vera ábatasöm. Slíkt sýnir einungis, að dómi Friedmans, að þeir sem boða félagslega ábyrgð séu hræsnarar; þeir hugsi þrátt fyrir allt bara um eigin hag.  Til grundvallar frjálshyggju liggur hugmynd um réttlæti  (um vernd einkaeignar og vægi frjálsra viðskipta), um eðli siðferðis (fórnfúst siðferði virðist ímynd alls siðferðis og siðferði á því ekki að móta hegðun stjórnanda fyrirtækis), um manneðlið (velvild mannsins er afar takmörkuð) og um það hvernig hinn samfélagslegi veruleiki virkar eða öllu heldur virkar ekki án samkeppni. Allt hnígur hér að sama svari. Frjálshyggja er ein tegund heimspeki og þangað sækir hún slagkraft sinn.

          Erfiðara er að skera úr um réttmæti síðari forsendunnar, að hrunið sé frjálshyggju að kenna. Í andrúmsloftinu sem nú ríkir gæti þó reynst létt verk að sannfæra Íslendinga um að svo sé. Frjálshyggjusinnaður flokkur stjórnaði landinu á annan áratug fyrir hrun og í öldurótinu undir lokin hafði hann fengið annan markaðshyggjuflokk til samstarfs við sig. Markaðshyggja virtist alls staðar hafa hlotið hljómgrunn (nema kannski hjá VG). Þeir sem settu sig upp á móti frjálsum markaði og samkeppni virtust einfaldlega ekki vera með á nótunum.  Ekki þurfti annað en flagga orðinu frelsi, sem frjálshyggjumenn virtust hafa einkarétt á, til að gera andstæðingana kjaftstopp. Slíkt var ægivald frjálshyggjunnar að þeir ósigrar sem hún beið eru sjálfstætt undrunar- og rannsóknarefni. Hvers vegna tókst frjálshyggjumönnum ekki að koma áfengi í matvöruverslanir, fíkniefnum löglega í almenna dreifingu og sinfóníunni fyrir kattarnef, svo nefnd séu hjartkærustu baráttumál þeirra? En meira en líkindi þarf til að sýna að frjálshyggjan beri ábyrgð á hruninu. Án frjálshyggju hefði að vísu ekki orðið neitt hrun en hið sama má raunar segja um dugnað og eljusemi. Til að skera úr um þátt frjálshyggju í hruninu þarf að meta að hve miklu leyti frjálshyggjumenn notuðu frelsis- og markaðsrök þar sem þau eiga ekki við, hvernig þrotlaus áróður þeirra gegn sköttum og ríkisafskiptum var skaðlegur, svo ekki sé minnst á botnlausan rógburð þeirra um ríkisstofnanir, hvernig hugmyndafræði þeirra sló menn blindu, gerði þá ófæra um að bera kennsl á augljósar hættur og meta einfaldar staðreyndir. Framar öðru þarf að meta þátt frjálshyggju í því að grafa undan almennri tiltrú manna á því að þeir beri saman ábyrgð á eigin framtíð, þróun eigin samfélags og vernd náttúrunnar.

          Þegar tiltekin heimspeki verður ráðandi sem hugmyndafræði eignar hún sér mörg óskyld stef og einokar vinsæl hugtök. Þegar hugmyndafræðin er síðan afhjúpuð og henni hafnað er hætt við að ýmsar góðar hugmyndir lendi um leið í glatkistunni. Þetta virðist einmitt vera að gerast nú um stundir. Frelsið hefur fengið á sig slæmt orð og ég hef heyrt samstarfsfólk staðhæfa að frjálslynd einstaklingshyggja hafi beðið skipbrot um leið og frjálshyggjan. Þó eru engin eðlistengsl milli frjálshyggju og frjálslyndrar einstaklingshyggju. Fremstu talsmenn frjálslyndrar einstaklingshyggju á nítjándu og tuttugustu öld voru sósíalistar og nægir þar að nefna John Stuart Mill og George Orwell. Við fyrstu sýn virðist frelsishugsjón Mills skyld frjálshyggju – sbr. áhersluna á frelsi og ábyrgð einstaklingsins, andúðina á frelsiskerðingu o.s.frv. – en heimspeki hans og frjálshyggjan eru að endingu gagnólíkar. Þar sem frjálshyggjan boðar óheft einstakingsfrelsi á öllum sviðum mannlífsins gerði hinn frjálslyndi Mill t.d. skarpan greinarmun á einstaklingsfrelsi og verslunarfrelsi; skerðing verslunarfrelsis samrýmdist vel frelsisreglunni. Í stað oftrúar frjálshyggjunnar á samkeppni og hinn frjálsa markað vildi Mill að lagt yrði siðferðilegt mat á störf markaðarins, í stað goðsagnarinnar um upplýsta eigingirni sem komi öllum að endingu vel benti Mill á mikilvægi velvildar og að glæða þyrfi áhuga einstaklingsins á hag heildarinnar, í stað áherslunnar á fórnfúst siðferði lagði Mill áherslu á hamingju og veraldlegar dygðir, og í stað þrotlauss áróðurs gegn sköttum var Mill tíðrætt um samfélagslegt mikilvægi þeirra. Nú þegar frjálshyggjutilraun hinna síðari ára er lokið er ástæða til að rifja upp að menn geta verið hlynntir sköttum, borið hag heildarinnar fyrir brjósti, gagnrýnt markaðinn OG verið róttækir frjálslyndir einstaklingshyggjumenn.

          Þótt sumum þyki ósennilegt að vönduð heimspeki skipti máli fyrir viðgang þjóðfélagsins, er hitt víst að ekki er hægt að ýkja skaðlegar afleiðingar lélegrar heimspeki. Því er full ástæða til að halda titilspurningu þessa pistils á lofti.

Greinin birtist í Stúdentablaðinu 2. tbl 2010, og er birt hér með leyfi þess.