Færslusöfn

Kenningar um merkingu

eftir Árna Finnsson

(Hugur 3.–4. ár. 1990/1991, s. 57–77)

Inngangur

Hér á eftir er ætlunin að fara nokkrum orðum um kenningar bandaríska heimspekingsins Willards Van Orman Quine um merkingu eða kannski öllu heldur um kenningar um merkingu. Quine er án efa í hópi kunnustu heimspekinga seinni tíma, og áhrif hans hafa náð víða. Hann er órjúfanlega tengdur raunhyggjuheimspeki tuttugustu aldar, og hefur jafnvel haft meiri áhrif á þeim vettvangi en nokkur einn heimspekingur annar. Meðal kunnustu rita Quines má nefna ritgerðasöfnin From a Logical Point of View (1953) og Ontological Relativity and Other Essays (1969) og bókina Word and Object (1960). Í From a Logical Point of View er að finna tvær af kunnari ritgerðum Quines, en það eru ritgerðirnar „On what there is“ og „Two dogmas of empiricism“, sem birt er í þessu hefti í þýðingu Þorsteins Hilmarssonar. Í Ontological Relativity and Other Essays er að finna meðal annarra ritgerðirnar „Ontological relativity“ og „Speaking of objects“, en sú síðarnefnda, sem skrifuð er um 1957, leggur grunninn að skrifum Quines í Word and Object, og töluverðir hlutar ritgerðarinnar birtast að meira eða minna leyti aftur í þeirri bók. Í öllum þessum ritgerðum fjallar Quine um þau efni sem rakin verða hér á eftir. Í Word and Object er síðan að finna ítarlega og viðamikla greinargerð Quines fyrir heimspeki tungumálsins, og þeim vandamálum sem þar er við að glíma.

Ef draga á saman verk Quines í stuttu máli, þá má segja að helsta viðfangsefni hans hafi verið að gagnrýna og skerpa raunhyggju seinni tíma á ýmsa vegu. Líta má á verk hans sem andsvar við þeirri raunhyggju sem spratt upp á fyrrihluta aldarinnar, og má þá helst horfa til kenninga Rudolfs Carnap og annarra meðlima Vínarhringsins svokallaða. Kenningar Quines um ýmis þau efni er varða raunhyggju, verða því sennilega að skoðast í ljósi þeirra hugmynda til að skiljast til fullnustu. Hér er þó ekki ætlunin að gera með neinum hætti grein fyrir hugmyndum Carnaps eða annarra sem Quine gagnrýnir, heldur verður einungis fjallað um helstu vandamálin sem við blasa í hugmyndum Quines um kenningar um tungumál og merkingu, og hugsanleg svör við þeim vandamálum. Hér verður ekki reynt að leysa þessi vandamál á einn eða annan hátt, né heldur að gera grein fyrir því hvernig heimspekingar almennt og yfirleitt hafa tekið á þeim.

Fjölmargir hafa tekið sér fyrir hendur að bregðast við þeim vandamálum sem Quine bendir á að upp komi þegar gera á grein fyrir merkingu í tungumáli, og mætti eyða löngu máli í að lýsa þeim leiðum sem reyndar hafa verið. Hér verður þó einungis litið lítillega til kenninga annars bandarísks heimspekings, Donalds Davidson. Davidson var um tíma nemandi Quines, og hefur líkt og hann glímt talsvert við þau vandamál sem tengjast kenningum um merkingu. Helstu kenningar og hugmyndir Davidsons í þessum efnum má finna í ritgerðasafninu Inquries into Truth and Interpretation sem inniheldur 18 ritgerðir um heimspeki tungumálsins, frá árunum 1964–82.

Tungumál og merking

Þegar einhver segir eitthvað satt, hvað er það þá sem gerir fullyrðingu hans sanna. Okkur finnst gjarnan sem þar komi til tveir þættir: merking og staðreynd. Þjóðverji mælir fram fullyrðinguna: „Der Schnee ist weiss“. Í þeim töluðum orðum hefur hann sagt satt, og svo er fyrir að þakka ánægjulegri samleitni tveggja þátta: setningin sem hann mælti merkir að snjór er hvítur, og staðreyndin er einnig sú að snjór er hvítur. Hefði merkingin verið önnur, ef til að mynda „weiss“ hefði merkt grænn, þá hefði hann ekki sagt satt. Ef staðreyndirnar hefðu verið á annan veg, ef snjór hefði verið rauður, þá hefði hann á sama máta ekki sagt satt.1

Með þessum orðum hefur Quine bók sína Philosophy of Logic, og vísast myndu margir fallast umyrðalaust á þessa lýsingu hans á því hvernig tungumálið virkar. Tungumálið er óneitanlega eitthvert öflugasta tólið sem maðurinn hefur á valdi sínu, og máttur þess virðist fyrst og fremst felast í þeim eiginleika þess að geta flutt boðskap um heiminn manna á milli, eða tjáð heiminn á einhvern hátt. Þetta á sér stað á þann hátt að tungumálið ber merkingu, og boðskapurinn sem þannig er fluttur, það sem sagt er, er satt ef merking þessi er í samræmi við það sem er í heiminum. Í þessari lýsingu verður í fljótu bragði ekki séð neitt sem ekki kemur heim og saman við daglega reynslu okkar af tungumálinu og almennar hugmyndir um það.

En hvað er það nákvæmlega sem felst í þessari lýsingu? Hvað má af henni ráða um það hvernig merking á sér stað í tungumálinu? Hvernig er aðgangi okkar að þessari merkingu háttað? Hvernig er hægt að gera grein fyrir samsvörun á milli merkingar og staðreynda? Ef okkur á að takast að gera grein fyrir því hvernig tungumálið virkar, eða að móta kenningu um merkingu, þá virðumst við þarfnast svara við spurningum sem þessum. Af lýsingunni hér að framan verður hins vegar fátt ráðið um þessi atriði. Heimspekingar hafa um langan aldur verið ólatir við að reyna að ráða bót á þessu, og hafa margir þeirra reynt að auka við þessa lýsingu eða betrumbæta hana á annan veg, og móta þannig kenningu um merkingu.

Segja má að kenning Quines, sem hér verður rakin, snúist að mestu leyti um að vefengja hversdagslegar hugmyndir manna um tungumálið. Þá fá kenningar fyrirrennara hans í þessum fræðum einnig sinn skerf af gagnrýni. Þó svo að ekki séu allir á einu máli um gildi kenninga hans er sennilega óhætt að segja að honum takist býsna vel að varpa rýrð á þessar hugmyndir – honum tekst í það minnsta að sýna fram á að hugmyndir þessar eru fjarri því að vera eins einfaldar og auðveldar viðureignar og ætla mætti. Framlag Davidsons í þessum efnum er með nokkrum öðrum hætti en Quines, þar sem hann reynir að gera grein fyrir þeim skilyrðum sem setja verður kenningu um merkingu í tungumáli og síðan leitar hann leiða til að móta kenningu sem uppfyllir þau skilyrði. Hann glímir við mörg af þeim vandamálum sem Quine bendir á og telur siga leysa úr ýmsum þeirra, eða í það minnsta komast fram hjá þeim þannig að þau standi merkingu ekki fyrir þrifum. Á endanum kann jafnvel að mega sjá í kenningum hans mynd af tungumáli og merkingu, sem ekki er ýkja frábrugðin hversdagslegum hugmyndum manna í þessum efnum, þótt hún sé sett fram á nokkuð annan veg. Því má segja að kenning Davidsons sé að nokkru leyti framhald á kenningum Quines og að nokkru leyti svar við þeim. Davidson neitar því þó alfarið að hann sé í einu eða neinu að andmæla Quine.

Merking

Það fyrsta sem okkur kemur í hug þegar gera á grein fyrir merkingu er að segja orðin merkja eða standa á einhvern hátt fyrir hlutina í umhverfi okkar, eiginleika þessara hluta og tengsl þeirra innbyrðis og við okkur. Merking setninganna er síðan sett saman úr merkingu orðanna og skilningur á setningu er undir því kominn að okkur takist að tengja hvert orð þessu fyrirbæri sem nefnt er merking. Hlutirnir og eiginleikar þeirra eru þannig nefndir í ákveðnum tengslum hver við annan, og tengsl þessi endurspegla raunveruleg tengsl hlutanna í umhverfi okkar. Þannig mætti ætla að setningar tungumálsins virkuðu líkt og myndir af veruleikanum eða aðstæðum í veruleikanum. Setning er síðan sönn ef myndin sem hún dregur upp er mynd af raunverulegum aðstæðum.

Fjöldi kenninga dregur upp mynd af merkingu sem svipar til þessarar. Þar mætti sem dæmi nefna kenningu Wittgensteins í Tractatus Logico-Philosophicus.2 Þar segir hann hreint út að staðhæfingar séu myndir af veruleikanum (4.01, 4.021). Það að skilja slíka staðhæfingu segir hann síðan felast í því að vita hvað það þýðir fyrir veruleikann ef staðhæfingin er sönn (4.024), eða með öðrum orðum að vita hvaða aðstæður það eru sem staðhæfingin er mynd af (4.021). Það að vita hvortsú mynd er sönn eða ekki er hins vegar annað, og til að komast að því þarf að bera hana saman við veruleikann. Líkt og rakið var hér að framan, þá telur Wittgenstein myndirnar virka þannig að þær séu settar saman úr hlutum eða einingum sem svari til hlutanna í þeim aðstæðum sem myndin er af (2.13, 2.131). Hlutar myndarinnar standa í ákveðnum tengslum hver við annan og tengsl þessi endurspegla tengsl hlutanna í veruleikanum (2.15). Hinir einstöku hlutar myndarinnar eru okkur kunnuglegir af viðureignum okkar við aðrar slíkar myndir, eða vegna þess að hlutverk þeirra hefur verið skýrt fyrir okkur. Með þessu móti er hægt að gera grein fyrir því hvernig við skiljum slíkar myndir þrátt fyrir að við höfum aldrei rekist á þær fyrr, og eins þó að við höfum ekki reynt þær aðstæður sem myndin er af. Síðan segir Wittgenstein að þegar eitt tungumál er þýtt yfir á annað, felist þýðingin ekki í því að þýða sérhverja setningu með annarri setningu, heldur því að þýða hina einstöku hluta setninganna (4.025). Fljótt á litið verður ekki annað séð en slík lýsing á tungumálinu sé í flestum atriðum samhljóða hversdagslegum hugmyndum okkar í þessum efnum.

Quine andmælir slíkri lýsingu á tungumálinu, sem hann segir vera „goðsögn um safn þar sem sýningargripirnir eru merkingar, sem auðkenndar eru með orðunum.“3 Væri þetta hin rétta lýsing á tungumálinu, þá væri það að þýða af einu tungumáli á annað fólgið í því að skipta hreinlega um merkispjöld á sýningargripunum. Myndin sem upp er dregin með orðunum verður þannig hin saman, aðeins dregin með nýjum línum. En Quine segir þessa lýsingu ranga. Í stað þess að leita einhverra slíkra huglægra fyrirbæra sem nefna mætti merkingar orðanna, og sem standa á einhvern máta utan og ofan við tungumálið og beitingu þess, þá verðum við að líta beint til málhegðunar manna. „Merking er fyrst og fremst eiginleiki hegðunar.“4 Afstöðu þessa kennir Quine við náttúruhyggju, og rekur hana til Johns Dewey. En af henni sprettur að handan þess sem ráða má beint af málhneigðum manna og breytni er ekki unnt að tala um að orð eða setningar séu sömu merkingar. „Frammi fyrir náttúruhyggjunni er ekkert óbrigðult svar, þekkt eða óþekkt, til við þeirri spurningu hvort tvær setningar eru sömu eða ólíkrar merkingar, nema að því marki sem það svar er ráðið af málhneigðum manna, þekktum eða óþekktum.“5 Ef við föllumst á þetta verður strax ljóst að goðsögnin sem lýst var hér að framan færir okkur litlu nær merkingu í tungumáli, þar sem safnið sem þar var lýst er ekki til, eða í það minnsta stendur ekkert slíkt safn okkur opið á þessari stundu.

Það að taka tungumálið slíkum tökum hefur víðtækar afleiðingar fyrir öll málvísindi, og stundum virðist Quine jafnvel ganga svo langt að segja að fyrirbæri eins og merking og tilvísun varði alvarleg málvísindi næsta lítið. Á einum stað segir hann:

[…] Merkingar reynast hins vegar vera fyrirbæri einstakrar gerðar: merking setningar er hugmynd sú sem látin er í ljós. Nú er það svo að á meðal málspekinga samtímans er eftirtektarverður einhugur um að hugmyndin um hugmynd, hugmyndin um andlega samsvörun eininga málsins, sé minna en einskis nýt fyrir málvísindin. Mér sýnist sem atferlissinnar hafi rétt fyrir sér í því að tal um hugmyndir sé jafnvel fánýti eitt fyrir sálfræði. Gallinn við hugmyndina „hugmynd“ er að notkun hennar, líkt og vísunin til svæfingarmáttarins hjá Molière, býður heim þeirri blekkingu að eitthvað hafi verið útskýrt.6

Það var sagt hér að ekki væri hægt að ganga að því vísu að setningar væru sömu merkingar nema því aðeins að ráða mætti það af málhneigðum manna og breytni, en það er þó ekki eini vandinn. Sé tungumálið tekið þessum tökum verður erfitt að gera grein fyrir því einu hvernig ólík orð eða setningar geta verið sömu merkingar, eða því að setningar geti á einhvern veg verið sjálfljósar, sannar af sjálfum sér. Quine hefur raunar höggvið að greinarmuninum á rökhæfingum og raunhæfingum í ritgerðinni „Tvær kreddur raunhyggjumanna“. Enn eitt sem er ljóst er að ef farið er að ráðum Quines verður það fjarri því að vera áhlaupaverk að grafast fyrir um merkingu orða og setninga í tungumáli á vísindalegan máta, þar sem við hvert einasta skref þarf að festa kenninguna í sessi með vísun í breytni manna og hneigðir. Í kenningasmíð sinni notar Quine þá aðferð meðal annars að skoða slíka rannsókn eða þýðingu, sem hann kallar róttæka þýðingu (radical translation), til að komast að því hvar merkingu sé að finna í tungumáli og þá hvernig megi finna hana.

Róttæk þýðing

Kunnasta framlag Quines til umfjöllunar um merkingu er án efa kenning um það sem nefnt hefur verið þýðingabrigði. Sennilegast er best að ráða hvað í þeirri kenningu felst og hvað af henni sprettur, af tali Quines um róttæka þýðingu. Við skulum nú fallast á það með Quine, í það minnsta um stund, að sá efniviður sem alvarlegum málvísindamönnum ber að vinna með séu málhneigðir manna og breytni, og róttæk þýðing er þýðing á fjarlægu, áður óþekktu tungumáli, í anda þessa og þá án nokkurra þeirra hjálpartækja sem venjulega standa mönnum til boða við þýðingar. Það eina sem þýðingin er reist á er athugun á málhneigðum manna og breytni. Slík þýðing stendur að líkindum víðs fjarri öllu því sem ætla má að menn hafi lent í, en að breytir því ekki að ef okkur tekst að gera okkur hana í hugarlund þá ætti hún að sýna næsta vel hvernig merking verður aðgengileg í gegnum breytni manna.

Hugsum okkur nú málvísindamann meðal óþekkts ættbálks og setjum honum það verkefni að þýða tungu ættbálksins á grundvelli reynsluathugunar einnar saman. Það fyrsta sem honum tekst sennilega að þýða eða tengja einhver konar merkingu, eru setningar um einfalda hluti sem fyrir augu ber í umhverfinu. Ef hann þannig veitir því athygli að þegar kanína birtist innan sjónsviðsins segir einn frumbygginn „Gavagai“, gerir hann ráð fyrir að tengja megi setninguna kanínum, eða jafnvel þýða hana með orðinu „kanína“. Tilgátuna getur hann síðan prófað með frekari athugunum. Með tíð og tíma kemst hann að því hvað beri að líta á sem játun og hvað neitun í máli frumbyggjanna og þegar þar er komið getur hann prófað að leita eftir viðbrögðum þeirra við setningum sem hann hefur lært, í ólíkum aðstæðum; t.a.m. ýmist þegar kanínur eru sjáanlegar eða ekki. Hann getur jafnvel reynt að setja aðstæðurnar upp á þann veg sem honum hentar best í rannsókninni. Þótt ýmis vandamál komi upp strax á þessu frumstigi rannsóknarinnar fer þó svo á endanum að málvísindamaðurinn getur verið næsta viss um að setningunni „Gavagai“ er samsinnt ef kanína er sjáanleg en annars ekki . Tilgátan sem hann setti fram í upphafi er því sennilega rétt.7

Setningar eins og „Gavagai“ nefnir Quine atvikssetningar (occasion sentences), en það eru setningar sem eru þannig að þeim er einungis samsinnt að gefnu ákveðnu áreiti og þá því aðeins að þetta áreiti sé til staðar á því augnabliki. Andstætt þessum setningum eru síðan viðvarandi setningar (standing sentences), sem eru þannig að að því gefnu að viðkomandi hafi á einhverjum tíma orðið fyrir ákveðnu áreiti, þá samsinnir hann slíkum setningum óháð aðstæðum hverju sinni. Áreiti þau sem kalla fram samþykki við ákveðnum setningum, kallar Quine síðan áreitismerkingu (stimulus meaning) þeirra setninga.

Við skulum nú gefa okkur að með stöðugum athugunum og prófunum takist málvísindamanninum að koma sér upp talsverðu safni atvikssetninga eins og „Gavagai“ sem eru þannig að hann fari nokkuð nærri um áreitismerkingu þeirra; það er að hann geti á næsta áreiðanlegan hátt tengt þessar setningar ákveðnu áreiti líkt og hann tengdi setninguna „Gavagai“ því að kanína væri nálægt. Við getum jafnvel gefið okkur að málvísindamaðurinn geti með tíð og tíma farið að spyrja einfaldra spurninga til að renna stoðum undir þær niðurstöður sem hann hefur komist að. Til þessa þyrfti hann þó að koma sér upp einhvers konar grunni að málfræði fyrir tungumálið sem glímt er við og til að það mætti takast yrði hann að líkindum að vera kominn vel á veg í þýðingunni. Ótal önnur vandamál spretta einnig á þessari leið, svo sem í tengslum við aðrar setningar en einfaldar atvikssetningar og ýmis atriði önnur í framkvæmd athugananna. Við getum þó horft framhjá slíkum vandamálum hér án þess að það breyti á endanum miklu um niðurstöðurnar.

Þýðingabrigði og verufræðilegt afstæði

En hversu langt höfum við þá komist í átt að þýðingu á tungumáli frumbyggjanna? Við höfum þarna ákveðið safn setninga sem eru þannig að vitum undir hvaða kringumstæðum frumbyggjarnir hneigðust til að samsinna þeim og hverjum ekki. Hugsanlega gætum við síðan reynt að tiltaka setningar sem samsinnt yrði undir sömu kringumstæðum í okkar eigin tungu. Það er hins vegar augljóst að því fer fjarri að þetta dugi okkur sem þýðing á tungumáli frumbyggjanna. Við þurfum meira en aðferð til að para einhvern tiltekinn fjölda setninga á máli þeirra við setningar á okkar eigin máli. Enn eru til setningar sem eru annarrar gerðar en þær sem rannsóknin náði til, og eins er að hversu margar setningar sem við kunnum að hafa rekist á þá munu alltaf vera til aðrar setningar sem við höfum enn ekki heyrt. Þetta á í það minnsta við um öll þau tungumál sem við þekkjum. Ef þýðingin á að vera til einhvers nýt verður hún að gera okkur kleift að þýða slíkar setningar þrátt fyrir að við höfum aldrei heyrt þær fyrr. Þýðingin, eða þessi forskrift að þýðingu, þyrfti jafnvel að gera okkur kleift að mynda nýjar setningar á tungumálinu, það er setningar sem við ekki þekktum fyrir. Fyrr gætum við ekki fallist á að verkefni okkar væri að fullu lokið. Eina leiðin sem við blasir til að þetta megi takast, er í líkingu við hugmyndir Wittgensteins í Tractatusi sem nefndar voru hér að framan. Við komumst ekki af með að þýða heilar setningar með öðrum setningum, heldur verðum við með einhverjum hætti að hluta setningarnar upp í einingar og þýða síðan þessar einingar eða para við einingar á okkar eigin tungu. En ef þetta á að takast virðist ljóst að málvísindamaðurinn okkar verður að segja skilið við vettvangsathugun sína og grípa til annarra aðferða. Hann verður að setja saman einhverja tilgátu um hvernig hluta eigi setningar tungumálsins niður og hvernig fara skuli með hvern setningarhluta. Hann verður þannig að setja saman einhvers konar orðalista og reglur sem kveða á um notkun listans. Af listanum verður síðan að vera hægt að ráða hlutverk hvers einstaks setningarhluta og hvernig fara skuli með hann í þýðingunni.

Þegar að þessum hluta verkefnisins kemur er það sem þýðingabrigðin birtast. Málvísindamaðurinn hefur verk sitt með tiltekið safn setninga sem hann parar við eða þýðir með setningum á sinni eigin tungu. Verkinu heldur hann síðan áfram á þann veg að hann hlutar setningarnar upp á einhvern máta sem samræmist þessum þýðingum sem þegar eru til og gerir grein fyrir hlutverki hvers hluta fyrir sig. Tilgáturnar má síðan prófa að einhverju marki með athugunum, en eftir því sem kerfið verður viðameira og flóknara því fjarlægari verða tilgáturnar þeim athugunum sem gerðar voru, og að sama skapi verður erfiðara að ganga úr skugga um gildi þeirra. Að endingu fer svo að kerfið, eða þýðingartilgátan, stendur sem slíkt en verður ekki stutt með neinni beinni vísun til athugananna. Quine segir síðan að unnt væri að setja saman fleiri en eina slíka tilgátu, sem tengdu sömu setningar eða setningarhluta við ólíkar þýðingar á okkar tungu, en sem samræmdust þó allar jafn vel öllum þeim upplýsingum sem voru aðgengilegar í athugun okkar á tungumálinu. Þannig yrðu til tvær eða fleiri forskriftir að þýðingu, sem væru ósamrýmanlegar eða jafnvel í mótsögn hver við aðra. Og vandamálin rísa jafnvel fyrr en ætla mætti af lýsingunni hér að framan. Einföldustu atvikssetningar, sem voru það fyrsta sem málvísindamanninum tókst að henda reiður á, geta nú orðið til vandræða. Þannig verður til að mynda setningin „Gavagai“, sem í upphafi virtist næsta auðveld viðureignar, nú vandmeðfarin. Okkur er ekki nóg að vita um hana að hún standi í einhvers konar sambandi við kanínur. Við verðum að tiltaka orð eða setningarhluta sem komið gæti í hennar stað í öllum tilfellum, og gegndi þar sama hlutverki. Og þegar að þessu kemur, kemur í ljós að í hegðun frumbyggjanna og málhneigðum virðist ekkert vera að finna sem skorið gæti úr um hvort þýða ætti setninguna sem til að mynda „kanína“, „kanínuhluti“, „kanínuskeið“ (tímanlegt) eða „kanínuleiki“. Vandinn sem hér um ræðir er sá, í stuttu máli, að við höfum ekkert fyrir okkur sem skorið getur úr um hvort frumbyggjarnir hafa sama hátt og við á að tiltaka og aðgreina hluti í veruleikanum. Þannig verður jafnvel merking einföldustu atvikssetninga illnálganleg eftir leiðum beinnar reynsluathugunar, í það minnsta svo lengi sem við reynum að staðfesta merkinguna með tilvísun eða einhverju sem kemur í hennar stað. Quine segir um þetta á einum stað:

Það er eins líklegt og hvað annað, að munur á tungumálum liggi í því að þeir sem tunguna tala hafi mismunandi hátt á að skipa heiminum sjálfum í hluti og eiginleika, tíma og rúm, frumefni, krafta, anda o.s.frv. Það er engan veginn ljóst að vitlegt sé að líta svo á að orð og setningaskipan séu breytileg frá einni tungu til annarrar en að innihald þeirra sé óbreytt; þó er einmitt slíkur tilbúningur að verki þegar talað er um að setningar séu sömu merkingar, í það minnsta ef um mjög ólík mál er að ræða.8

Í sem stystu máli má segja að ef okkur á að takast að koma saman orðalistanum fyrir tungumál frumbyggjanna, þá verðum við að þröngva ákveðinni verufræði, eða ákveðnum hætti á að tiltaka hlutina og greina einn hlut frá öðrum, upp á tungumál þeirra án þess að nokkuð í hegðan þeirra eða málhneigðum gefi tilefni til. Slík verufræði er ekki aðgengileg eða opinber í tungumálinu, og því er vel mögulegt að búa til fleiri en einn orðalista sem hafa þarna mismunandi hátt á, og gefa þannig ólíkar þýðingar. – Á endanum felst vandinn sem hér um ræðir í því að hér er um tvenns konar merkingu að ræða. Annarsvegar getum við sagt að sú merking sem hægt er að tala um að birtist í málhneigðum manna og breytni, sé einskonarumtaksmerking setninga. Ef okkur á hins vegar að takast að setja saman þýðingartilgátu sem fullnægir öllum okkar þörfum, þá þurfum við að geta gert grein fyrir inntaki setninga eða setningahluta í tungumálinu. Slíkt inntak segir Quine hins vegar ekki aðgengilegt með neinum hætti í málhneigðum manna og breytni.

En nú höfum við ákveðinn hátt á að greina hlutina í okkar eigin tungumáli, sem þá er væntanlega sá háttur sem flytjum yfir á tungumál frumbyggjanna. Ennfremur þá höfum við að því er virðist, komist yfir þessa verufræði tungumálsins á meira eða minna sama máta og málvísindamaðurinn „lærði“ tungumál frumbyggjanna. Við virðumst fyrst og fremst læra tungumálið með því að upplifa beitingu annarra á því, án þess að nota til þess nokkuð annað en það sem málvísindamanninum okkar er aðgengilegt. Við getum vart ætlað annað en honum sé kleift að læra tungumálið á sama máta og barn lærir að tala. Og má þá ekki ætla að með tíð og tíma læri hann þannig þann hátt sem hafður er á aðgreiningu hlutanna í tungumálinu, sem þá væntanlega má aftur gera grein fyrir í okkar eigin tungumáli? Og ef þetta tekst, erum við þá ekki komin með það sem kalla mætti rétta eða óbrigðula þýðingu?

Slík svör duga þó ekki hér, því jafnvel í okkar eigin tungumáli er enginn slíkur gefinn háttur á að aðgreina hlutina eða fyrirbærin sem tungumálið vísar til, í þessari mynd, eiga engu síður við um okkar eigið tungumál en hvaða tungumál annað. Hér gildir það sama og áður að bein reynsluathugun á okkar eigin tungumáli getur ekki staðfest neins konar verufræði tungumálsins. Þetta þýðir þó ekki að tungumál okkar sé óskiljanlegt eða merkingarlaust. Þetta þýðir einungis að verufræði, „heimsskoðun“ eða vísindaleg kenning um náttúru fyrirbæranna, er ekki eiginlegur hluti af merkingu í tungumáli.

Þannig verður þessi merking sem við leitum eftir, afstæð gagnvart heildarskoðun okkar á heiminum. Við getum ekki gert grein fyrir merkingu í tungumáli, eftir þeim leiðum sem hér hafa verið farnar, án þess að gera grein fyrir verufræði tungumálsins. Verufræði þessi er samvaxin heildarskoðun okkar á heiminum og verður ekki fundin eða staðfest með reynsluathugun, sem fyrir Quine er sú eina aðferð sem talist getur vísindaleg í þessum efnum. Þetta verður kannski ljósara ef við lítum til þess sem Quine segir um sannreynslukenningu um skilning á tungumáli, í ritgerð sinni „Tvær kreddur raunhyggjumanna“. Sannreynslukenning um skilning er á þá leið að það að skilja setningu eða staðhæfingu, sé fólgið í því að vita hvað það þýðir fyrir veruleikann í kringum okkur ef staðhæfingin er sönn. Með öðrum orðum þá skiljum við setninguna ef við vitum hvernig við getum staðfest hana eða hnekkt. Quine víkur að þessari kenningu, þegar hann gagnrýnir smættarhyggjukredduna, sem hann kallar svo, og segir meðal annars:

Smættarhyggjukreddan helst við lýði þegar gert er ráð fyrir að með einhverju móti sé hægt að staðfesta sérhverja staðhæfingu eða hnekkja henni í einangrun frá öðrum. Gagntillaga mín sem einkum á rætur í kenningu Carnaps um efnisheiminn í Rökgerð heimsins, er að staðhæfingar okkar um heiminn þurfi ekki að standast dóm skynreynslunnar hver í sínu lagi, heldur einungis sem samstæð heild. […] Hugmyndin um að skilgreina tákn í samhengi var, eins og að var vikið, framför frá hinni vonlausu raunhyggju Lockes og Humes sem bundin var við að staðfesta einstök heiti. Frá og með Bentham var farið að líta á staðhæfingar fremur en heiti, sem þær einingar sem gagnrýni raunhyggjumanna beindist að. En það sem ég held nú fram er að jafnvel með því að gera staðhæfingar að grunneiningum höfum við riðið netið of þétt. Á endanum eru það ekki einstakar staðhæfingar, heldur vísindin í heild sem þurfa að koma heim og saman við reynsluna.9

Afstaða þessi hefur verið kennd við heildarhyggju, sem raunar er titill sem hugmyndir Davidsons hafa einnig verið felldar undir. En af öllu þessu sprettur að ef sníða á áreiðanlega reynslukenningu um merkingu, verðum við að sættast á að handan áreitismerkingar setninga og þess sem leiða má beint af henni, er ekkert það að finna sem kalla má áreiðanlega merkingu. Þennan vanda leysum við með tilgátum, sem vissulega eru ekki alveg úr lausu lofti gripnar, og með því að setja upp einhvern ramma fyrir tilvísun í tungumálinu. En eftir stendur að tilvísunarrammi þessi er og verður aldrei meira en tilgáta og ef marka má Quine er ekkert sem útilokar að til sé önnur slík tilgáta jafn góð en þó ólík okkar. Í þessum efnum erum við þess ekki umkomin að finna eitt né neitt sem skorið getur úr um hvort tilgáturnar eru réttar eða rangar. Eða eins og Quine segir:

Hinn endanlegi orðalisti er augljóslega dæmi um ex pade Herculem. En þó er þar munur á. Er við kennum Hercules af fætinum eigum við á hættu að okkur skjátlist, en við getum huggað okkur við þá staðreynd að til er eitthvað sem okkur getur skjátlast um. Hvað orðalistann varðar […] er ekki um neitt slíkt að ræða; það er ekkert að finna sem höfundur orðalistans getur haft á réttu eða röngu að standa um.10

Sannkjarakenning um merkingu

Hvert erum við þá komin í þessari viðureign okkar við merkingu í tungumáli? Ég sagði hér að framan að tungumálið væri máttugasta tólið sem maðurinn hefði á valdi sínu og að svo virtist sem máttur þess fælist fyrst og fremst í þeim eiginleika þess að geta flutt boðskap um heiminn manna á milli. Kenning um merkingu verður með einhverjum hætti að gera grein fyrir því hvernig við nálgumst þennan boðskap eða skiljum hann. Til þessa hefur hins vegar næsta fátt komið fram sem leyst gæti úr slíkum vanda. Áreitismerking setninga virðist illa til þess fallin og það sem kom í framhaldi af henni virðist litlu betra. Raunar má segja að flest sem hér hefur verið rakið hafi snúist fyrst og fremst um að sýna fram á hvar kenningu um merkingu sleppi; hvar hún komi að þeirri hindrun sem hún á endanum kemst ekki yfir.

En er þá engin von til að okkur takist að gera grein fyrir því á annan veg hvernig merkingu í tungumáli er háttað. Donald Davidson gerir tilraun í þá átt og við skulum nú líta til þess sem hann hefur fram að færa. Davidson, líkt og Quine, vill móta kenningu um merkingu í anda raunhyggju, og af því leiðir, í samræmi við það sem rakið hefur verið hér að framan, að sú merking sem horfa verður til er umtaksmerking setninga. Annað skilyrði sem Davidson setur kenningu um merkingu höfum við einnig rekist á hér áður, en það er að kenningin verður að gera grein fyrir því hvernig við getum með tiltekinn orðaforða og takmarkað safn af reglum, skilið hverja og eina af ótölulegum fjölda merkingarbærra setninga í tungumáli. Kenningin verður, með öðrum orðum, að gera grein fyrir því hvernig merking setninga veltur á merkingu orða eða setningarhluta.11

Sú kenning sem við fyrstu sýn virðist vænlegust til að uppfylla þetta skilyrði, er án efa sú sem húr að framan var kennd við goðsögn. Það er sú kenning að orðin merktu eða stæðu fyrir hluti, eiginleika þeirra og tengsl þeirra innbyrðis, og að merking setninga væri síðan sett saman úr merkingum orðanna. Þannig yrði tungumálið nokkurs konar formlegt kerfi, sem drægi upp myndir af aðstæðum í veruleikanum eftir ákveðnum reglum. Það virkaði þannig líkt og stafrófið, sem segja má að dragi á skipulegan hátt upp myndir af málhljóðum eða orðum.

Við höfum þegar séð hverja útreið slík kenning fékk hjá Quine, og Davidson kemst að svipuðum niðurstöðum um þau efni; að okkur dugi ekki að leita einhvers konar huglægra fyrirbæra sem tiltaka mætti sem merkingu (inntak) orða og setningarhluta og skeyta síðan saman í merkingu setninga. Því leitar hann annarra leiða.

Það sem fyri honum verður er sanngildi setninga í tungumáli: það að vita hvað það er fyrir setninguna að vera sönn, er að skilja hana og þar með vita hvað hún merkir. Þessu svipar til þess sem Wittgenstein hafði fram að færa í myndakenningunni sem getið var hér að framan. Í myndakenningunni urðu hinir einstöku hlutar myndanna skiljanlegir sökum þess að við þekktum notkun þeirra af öðrum myndum, og myndirnar sem slíkar virtust einungis verða skiljanlegar af því að ákveðnar venjur giltu um beitingu hinn einstöku hluta þeirra. Í þessa sömu veru segir Davidson á einum stað:

Við afréðum hér að framan að gera ekki ráð fyrir að hinir einstöku hlutar setningar hafi merkingu, nema í þeim verufræðilega hlutlausa skilningi að þeir auki á skipulegan hátt við merkingu þeirra setninga sem þeir birtast í. […] Eitt af því sem af þessu kann að spretta er ákveðin heildarhyggja um merkingu. Ef merking setninga veltur á byggingu þeirra, og við skiljum merkingu sérhvers hluta þeirrar byggingar einungis sem sértekningu frá heild þeirra setninga sem hann birtist í, þá getum við einungis gefið merkingu setningar (eða orðs) með því að gefa merkingu allra setninga (og orða) í tungumálinu. Frege sagði að einungis innan samhengis setningar hafi orð merkingu; á sama veg gæti hann hafa bætt við að einungis innan samhengis tungumáls hafi setning (og þar af leiðandi orð) merkingu.12

Ef við nú stöndum nánast í sömu sporum og í upphafi þessarar umfjöllunar, hvar getum við þá leitað leiða til að nálgast merkingu frekar? Ég hef þegar nefnt að Davidson lítur til sanngildis setninga í tungumáli í leit að merkingu og hann leitar enn á þau mið eftir lausn á þessum vanda. Hann segir: „Kenning um merkingu í tungumáli L sýnir hvernig merking setninga veltur á merkingu orða ef hún inniheldur skilgreiningu á sannleika-í-L.“13 Síðan segir hann:

Kenningin afhjúpar ekkert nýtt um skilyrði þau sem afhjúpa þarf ef einstök setning á að vera sönn; hún gerir þau skilyrði engu ljósari en setningin gerir sjálf. Virkni kenningarinnar liggur í því að tengja kunn sannkjör sérhverrar setningar við þá hluta („orð“) setningarinnar sem birast í öðrum setningum, og eigna má sambærilegt hlutverk í öðrum setningum.14

Þessi hugmynd er sem slík alls ekki svo flókin. Það er næsta auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig tengja má sannkjör setningar og merkingu, eða kenningu um sannleika og kenningu um merkingu. Ef við til að mynda lítum enn og aftur til þýðinga, og nú í ljósi sannkjara, þá blasir við að ef merkingin er á einhvern máta bundin sannkjörum, þá blasir við að ef merkingin er á einhvern máta bundin sannkjörum, og unnt er að tiltaka sannkjör setninga á einu tungumáli, ætti að vera unnt án verulegra vandræða að tiltaka fyrir hverja setningu tungumálsins setningu á öðru máli sem hefði sömu sannkjör. Það má vera að sú þýðing sem þannig fengist væri kannski ekki sú eina rétta, en hún væri hins vegar eins rétt og nokkur þýðing gæti orðið. Af því leiðir hins vegar ekki að við værum þar með aftur komin með þýðingabrigði inn í myndina, heldur gæti þar verið um að ræða nokkuð sem okkur er öllum kunnugt, sem sé að oftar en ekki er unnt að þýða setningar á ólíka vegu án þess að við sjáum að innihald þeirra skolist á nokkurn hátt til.

Á hinn bóginn er ekki eins ljóst hvernig ætla má að í kenningu um sannleika sé unnt að tiltaka sannkjör setninga þannig að kenningin skýri hvernig þessi sannkjör hvíla á byggingu setninganna.15 Davidson telur þó með því að taka tungumálið þessum tökum, geti hann skýrt hvernig við getum með tilteknum orðaforða og tilteknu safni af reglum, skilið hverja og eina af ótölulegum fjölda setninga í tungumáli. Og þetta reynir hann að gera án þess að fjalla að nokkru marki um tilvísun einstakra orða og jafnvel án þess að fara mörgum orðum um merkingu sem slíka. Þó má draga þá ályktun að merking setninga felist í því að tengja megi þær ákveðnum staðhæfingum sem gera mætti grein fyrir eða setja fram í ákveðnu formlegu, nákvæmlega skilgreindu tungumáli, nokkurs konar yfirtungumáli. Það sem til þarf í kenningu um merkingu er því einhvers konar formlegt kerfi fyrir sannkjör í tungumálinu, sem þá dugar til að gera grein fyrir því hvað það er fyrir hverja setningu að vera sönn. Kerfið sem slíkt kveður ekki á um það hvernig við göngum úr skugga um hvort setning er í samræmi við veruleikann eða ekki. Það bætir engu við þekkingu okkar á því sem til þarf ef setning á að vera sönn. Þess í stað kveður kerfið á um byggingu setninga í tungumálinu og hvernig má ráða af þeirri byggingu ákveðin skilyrði þess að setning sé sönn. Þá er kerfi þetta ekki heldur á neinn hátt skilyrði þess að við skiljum tungumálið, það er við þurfum ekki að þekkja neitt slíkt kerfi til að skilja tungumálið, enda er það svo að enginn hefur yfir nokru slíku kerfi að ráða.

Einn vandinn sem blasir við ef við reynum að gera grein fyrir merkingu í tungumáli á þennan veg er sá að ekki nema tiltölulega lítill hluti setninga í tungumáli er þannig að unnt sé að tiltaka sannkjör þeirra. Fjöldi setninga hefur ekkert sanngildi og því engin sannkjör. Þetta er vandi sem raunar má segja að birtist bæði í myndakenningunni sem nefnd var hér að framan og í rannsóknum málvísindamannsins hjá Quine. Davidson vill leysa þennan vanda með því að við gerum fyrst grein fyrir þeim setningum sem hafa sanngildi, og skilgreinum sannkjör þeirra. Síðan eru aðrar setningar paraðar við þessar setningar í ljósi hinna einstöku setningarhluta sem þá hafa öðlast hlutverk sitt í greiningu okkar á sannkjörum. En jafnvel þó að við næðum þetta langt í því að smíða slíka kenningu um merkingu, verður í fljótu bragði ekki séð að við séum komin ýkja langt frá hugmynd þeirri sem Quine réðist á hér í upphafi. Við verðum á einhvern máta að þekkja tungumálið í heild sinni áður en við getum vænst þess að geta gert grein fyrir því hvernig hinir einstöku hlutar þess virka, og því er engan veginn augljóst að við séum komin fram hjá þeim aðfinnslum sem Quine hafði fram að færa gegn hversdagslegum skilningi okkar á tungumálinu; við getum enn ekki sagt að fullu skilið við þýðingabrigði í einhverri mynd.

Davidson talar um þrenns konar brigði sem birtast í kenningu Quines og sem ætla mætti að spryttu í kenningu um merkingu:

Í fyrsta lagi gæti verið um sannleiksbrigði að ræða; til gæti verið þýðingartilgáta (eða kenning um merkingu) fyrir tungumál, sem samræmdist öllu sem af reynsluathugn á málinu sprytti, sem telur ákveðna setningu sanna, og síðan önnur jafn aðgengileg kenning sem ekki telur þessa sömu setningu sanna. […]
Í öðru lagi gæti rökform verið óákvarðað; munur gæti verið á því hvað tvær fullnægjandi kenningar teldu vera einnefni, magnara eða umsagnir, eða jafnvel á sjálfri rökfræðinni sem byggt væri á.
Í þriðja lagi er mögulegt, jafnvel þó rökform og sanngildi væru óbrigðul, að tvær jafn aðgengilegar kenningar væru ólíkar hvað varðar tilvísun þá sem þær eignuðu sömu orðum eða setningarhlutum.16

Davidson vísar engum af þessum brigðum á bug. Af ýmsum ástæðum vill hann þó draga nokkuð úr umfangi þeirra tveggja fyrri. Til að mynda vill hann líta til fleiri þátta en áreitismerkingar setninga í glímu sinni við tungumálið, svo sem ákveðinna skoðana, langana, ætlana eða óska sem við komumst vart hjá að eigna þeim sem tala málið sem rannsaka á. Þá setur yfirtungumálið eða kerfið fyrir sannkjör, ákveðinn ramma fyrir túlkun á rökformi setninga, þannig að rökform yfirtungumálsins er á vissan máta lesið inn í tungumálið sem túlka á. Það eru hins vegar fyrst og fremst þriðju og síðustu brigðin sem varða okkur hér. Quine telur tilvísunina sem lesin er inn í tungumál, afstæða gagnvart þýðingartilgátu, eða jafnvel gagnvart verufræði sem síðan er afstæð gagnvart einhverju utan hennar – verufræðin sem Quine nefnir hér til sögunnar er sprottin af heild vísinda og heimsskoðunar og þýðingabrigðin spretta að endingu af því að þessi heild vísindanna er ekki og verður aldrei ákvörðuð í öllum atriðum.

Þarna vill Davidson fara nokkuð aðra leið. Hann er að vísu sammála því að tilvísun einstakra orða sé sem slík órannsakanleg, en lítur hins vegar ekki á það sem nokkra lausn á þeim vanda að gera hana afstæða gagnvart vali á verufræði, eða skýra hana á annan veg með verufræðilegu afstæði. Því segir hann:

Þegar hann [Quine] segir að við getum á merkingarbæran og ákvarðandi máta talað um kanínur og kanínuhluta, en þó einungis afstætt gagnvart tilvísunarramma, þá segir slíkt í raun engu meira en að þegar við tölum á þennan hátt þá hljótum við að vera að tala tungumál sem við kunnum. Það er hins vegar fulljóst að það eitt býður hvorki heim né leggur grunninn að því að við getum tiltekið nákvæmlega gagnvart hverju tal okkar er afstætt. Við getum eins og Quine segir, gert grein fyrir þessu afstæði ef við hörfum yfir í annað tungumál, en ef slíkt er nauðsynlegt einu sinni þá verður það alltaf svo, sem leiðir til vítarunu. Sé svo þá er verufræði ekki einasta „endanlega órannsakanleg“, heldur verður allt tal um tilvísun, hversu afstæð sem hún kann að vera, viðlíka merkingarsnautt og „Sókrates er hærri en“.17

En eigum við þá engra kosta völ til að gera grein fyrir tilvísun í tungumáli? Ef svo er hvernig má þá ætla að okkur takist að móta kenningu um merkingu? Ef við þannig vísum því frá að það dugi okkur að festa tilvísun með hreinum tilgátum (um orðalista) eða með því að hengja hana utaná hugmyndaheim manna eða verufræði, getum við þá leitað eitthvað annað? Sú lausn sem Davidson hefur hér fram að færa, hefur þegar verið nefnd. Hún er fólgin í því að gera ekki ráð fyrir að orð hafi merkingu (eða tilvísun) nema í þeim verufræðilega hlutlausa skilningi að þau auki á skipulegan hátt við merkingu setninga sem þau birtast í. Þannig verða hvort heldur er sanngildi setninga eða tilvísun einstakra setningarhluta afstæð gagnvart tungumálinu í heild.18 Þannig telur Davidson að greinargerð fyrir tilvísun sé ekki nauðsynlegur þáttur í kenningu um sannleika-í-tungumáli; hann telur unnt að móta merkingarfræðilega skilgreiningu á sannleika í tungumáli, sem sýni hvernig merking setninga velti á merkingu orða, án þess að í þeirri skilgreiningu sé að finna greinargerð fyrir tilvísun. Því er það að við leitum ekki í reynslunni staðfestingar á því að tilvísun orðs sé ein fremur en önnur, heldur reynum við að koma reynslunni í heild sinni heim og saman við merkingarkenning (sannleikskenningu) fyrir tungumálið. Þannig getum við ef við viljum tala um eitthvert afstæði í þessum efnum, sagt að merking sé afstæð gagnvart tungumálinu, við getum ekki, eins og kom fram hér að framan, gert grein fyrir merkingu hinna einstöku hluta tungumáls nema með því að gera grein fyrir merkingu tungumálsins alls. Tal um slíkt afstæði segir hins vegar næsta lítið sem ekki hefur alltaf blasað við. Davidson segir síðan:

Þessi hugmynd um það hvernig móta skuli merkingarkenningu er í grundvallaratriðum sprottin frá Quine. Það sem ég hef aukið við grunnhugmyndir Quines, er sú hugmynd að kenningin skuli taka sig mynd sannleikskenningar. Geri hún það, getum við á ný litið svo á að bygging setninga samanstandi af einnefnum, umsögnum og mögnurum, sem gegna venjulegu verufræðilegu hlutverki. Tilvísun fellur hins vegar fyrir borð. Hún gegnir engu nauðsynlegu hlutverki í að skýra tengslin milli tungumáls og veruleika.19

Lokaorð

Því fer fjarri að einhugur ríki um gildi kenninga þeirra Quines og Davidsons um merkingu. Menn eru jafnvel ekki á eitt sáttir um hvaða þýðingu þær myndu hafa ef þær stæðust, það er hvaða ályktanir bæri að draga af þeim. Af þeim kenningum sem hér hafa verið nefndar, má segja að einna meistur einhugur ríki um myndakenninguna og þá um það að sú kenning dugi okkur ekki til að gera grein fyrir merkingu í tungumáli.20

Við sáum hér að framan hverja útreið myndakenningin, sem ég leyfði mér að segja að svipaði til hversdagslegs skilnings á tungumáli og merkingu, fékk hjá Quine þegar við urðum vitni að því hvernig vandræði málvísindamanns Quines byrjuðu fyrir alvöru um leið og hann þurfti að grípa til einhvers sem svipaði til þessarar kenningar. Um leið var þó ljóst að málvísindamaðurinn hafði ekkert annað að grípa til. Eina leiðin sem honum virtist fær til að setja saman þýðingartilgátu sem dygði til að þýða allar setningar tungumálsins sem glímt var við, var að opna með einhverjum hætti leið að merkingu eða inntaki orða eða setningarhluta, og greina síðan hvernig merking setninga yrði til úr þessum smærri merkingareiningum. Þetta skref, sem segja má að sé á milli umtaksmerkingar setninga og inntaks orða og setningahluta, reyndist hins vegar ekki hægt að staðfesta með neinum áreiðanlegum hætti.

Ef við síðan lítum til þess sem Davidson segir, þá virðist jafnvel sem eitthvað svipað sé uppi á teningnum þar. Davidson reynir að gera grein fyrir því hvernig móta má merkingarkenningu sem við getum staðfest að einhverju marki, án þess að við þekkjum nákvæmlega ætlanir manna með orðum sínum, eða hvað þeim býr í hug. Þetta gerir hann með því að reyna að sýna fram á hvernig orðin öðlast merkingu sína af málinu sjálfu, málinu í heild sinni og notkun þess. Með því móti kemst hann hjá því að tala um tilvísun eða inntak einstakra orða, en við getum tæpast gert ráð fyrir öðru en að málið, í heild sinni, vísi á einhvern veg til heimsins. Og sannkjör setninga hljóta einnig að vera að einhverju leyti undir heiminum komin. Þannig er ósennilegt að okkur takist að gera grein fyrir sannkjörum allra setninga sem innihalda orðið „snjór“ án þess að nefna snjó til sögunnar. Tilvísunin sem hér er á ferðinni hefur vissulega tekið á sig nýjan búning, en að hún sé fallin fyrir borð er ekki eins ljóst. Ýmis önnur atriði valda því síðan að kenningu Davidsons virðist svipa til myndakenningarinnar. Hún þarfnast einhvers konar kerfis sem kveður á um hvernig raða má setningunum saman, eða hvernig ráða má í byggingu þeirra, og ef slíkt kerfi á að finnast getum við ekki leitað annað en til tungumálsins sjálfs og beitingar þess. Við verðum að reisa þetta kerfi á þeim venjum sem við þykjumst sjá að verki í tungumálinu.

Á endanum kann svo að fara að við getum sagt um myndakenninguna að til að við gætum gert endanlega grein fyrir hlutverki einstakra hluta myndanna, það er orðanna, yrðum við að þekkja tungumálið í heild sinni eða gera grein fyrir merkingu tungumálsins alls. Þegar þar er komið er stutt yfir í það að segja að orðin öðlist merkingu sína, ekki af því að þau vísi einmitt til þessa eða hins heldur af því að þetta sé einmitt það hlutverk sem þeim var ætlað að gegna í heild tungumálsins. Þar með værum við komin með kenningu sem í flestum atriðum væri samhljóða myndakenningunni – nema hvað hún gerði ekki grein fyrir tilvísun að neinu marki.

Hér er ég ekki að reyna að halda fram að kenningar þeirra Quines og Davidsons séu rangar, eða að þeir endi í sömu sporum og þeir hófu ferð sína. Að líkindum stendur það sem þeir halda fram, að myndakenningin eins og hún birtist hjá Wittgenstein, eða í hversdagslegum skilningi manna á því hvernig tungumálið virkar, sé fallin sem vísindaleg reynslukenning um tungumál og merkingu – það er næsta ljóst að ef takast á að setja fram kenningu um merkingu, sem uppfyllir kröfur þeirra, þá verðum við að losna við allt úr henni sem nefna má tilvísun eða inntak. En hugmyndin að baki myndakenningunni er fjarri því að vera fráleit – hún er fremur næsta augljós – og á endanum kann svo að fara að við komumst ekki ýkja langt frá henni hvað sem við reynum.

 

Tilvísanir

1. W.V. Quine, Philosophy of Logic, 2. útg. (Harvard University Press, Cambridge 1985 [1. útg. 1970]), s. 1.

2. Ensk þýðing Pears & McGuinnes (Routhledge & Kegan Paul, London 1981 [fyrst gefin út á þýsku 1921]). Háttur tilvísana fylgir hér málsgreinamerkingu Wittgensteins, eins og venja er.

3. W.V. Quine: „Ontological Relativity“ í Ontological Relativity and Other Essays (Columbia University Press, New York 1969), s. 27.

4. Sama rit, s. 27.

5. Sama rit, s. 29.

6. „The Problem of Meaning in Linguistics“ í From a Logical Point of View, 2. útg. (Harvard University Press, Cambridge 1980 [1. útg. 1953]), s. 47–8.

7. Nákvæma greinargerð fyrir því hvernig þessi rannsókn eða þýðing fer fram, er að finna í 2. kafla bókar Quines Word and Object. Það gerir hann einnig nákvæmari grein fyrir flokkun setninga eftir gerð þeirra og fleiri atriðum sem horft er framhjá hér.

8. „The Problem of Meaning in Linguistics“, s. 61.

9. Tvær kreddur raunhyggjumanna“, s. 50 og 51 í þessu hefti.

10. „The Problem of Meaning in Linguistics“, s. 63.

11. Davidson hefur skrifað fjölda ritgerða um merkingarkenningu sína, eða um það hvernig ætla mætti að hún yrði til. Tvær þessara ritgerða gefa nokkuð gott yfirlit yfir kenninguna, en það eru ritgerðirnar „Truth and Meaning“ og „Radical Interpretation“. Þessar ritgerðir er að finna í ritgerðasafni Davidsons Inquiries into Truth and Interpretation, og þar eru einnig aðrar ritgerðir sem taka nánar á stökum þáttum kenningarinnar.

12. Donald Davidson: „Truth and Meaning“ í Inquiries into Truth and Interpretation, s. 22.

13. Sama rit, s. 23.

14. Sama rit, s. 25.

15. Davidson byggir í þessum efnum á grunni sem hann sækir til Alfreds Tarskis og kenninga hans um sannleikann. Verkið sem vinna þarf er að tiltaka fyrir hverja setningu p í tungumáli, samsvarandi setningu á forminu: ‘setningin p er sönn þá og því aðeins að s,’ þar sem s kveður á um sannkjör setningarinnar. Þetta er bersýnilega óvinnandi verk, þar sem fjöldi setninga í tungumáli, jafnvel þó aðeins séu teknar staðhæfingar sem hafa sanngildi, er ótakmarkaður. Því þarf að þrengja hringinn frekar og reyna að finna í málinu grunneiningar, orð og setningar, sem ætla má að séu takmarkaður að fjölda, og setja síðan saman kerfi sem gerir grein fyrir því hvernig má raða þeim grunneiningum saman þannig að útkoman verði sönn setning. – Greinargerð fyrir kenningu Tarskis má finna víða, t.a.m. í ritgerð hans „The Semantic Conception of Truth“ (Philosophy and Phenomenological Research, 4 (1944), s. 341–75); ritgerðin er endurprentuð m.a. í Semantics and the Philosophy of Language, ritstj. Leonard Linski). Útleggingar Davidsons má einnig finna í ýmsum ritgerðum hans, t.a.m. „In Defense of Convention T“ í Inquiries into Truth and Interpretation.

16. „Inscrutability of Reference“ í Inquiries into Truth and Interpretation, s. 228.

17. Sama rit, s. 233–4.

18. Sama rit, s. 240.

19. „Reality without Reference“ í Inquiries into Truth and Interpretation, s. 225.

20. Vert er að nefna það hér að Wittgenstein, sem hér var nefndur til sögunnar sem málsvari myndakenningarinnar, hafnar kenningunni sjálfur í öllum síðari verkum sínum.

 

« Til baka

Um það sem er

eftir Willard Van Orman Quine

Inngangur um Quine e. Árna Finnsson

Quine er án efa meðal kunnustu heimspekinga þessarar aldar. Stærstum hluta starfsævinnar eyddi hann við Harvardháskóla, fyrst í framhaldsnámi en síðar sem kennari uns hann hætti störfum um miðjan áttunda áratuginn. Quine hefur verið afkastamikill á langri starfsævi, gefið út á annan tug bóka og birt fjölda ritgerða. Í fyrstu fékkst hann aðallega við rökfræði en í kringum 1950 beindi hann sjónum í auknum mæli að öðrum viðfangsefnum. Hann gagnrýndi raunhyggju tuttugustu aldar, ekki síst kenningar Carnaps kennara síns, en hélt um leið staðfastlega fram eigin raunhyggju. Þá skrifaði Quine fjölda ritgerða um málspeki sem um margt eru sprottnar af sömu rótum. Kunnastar ritgerða Quines frá þessum tíma eru sú ritgerð sem hér birtist „Um það sem er“ og „Tvær kreddur raunhyggjumanna“ sem hefur birst í íslenskri þýðingu Þorsteins Hilmarssonar í Hug, 3.-4. árg. 1991, en þar vegur Quine meðal annars að hefðbundnum greinarmuni á rökhæfingum og raunhæfingum. Báðar þessar ritgerðir birtust í greina­safninu From a Logical Point of View (1953). Árið 1960 kom út bókin Word and Object sem líta má á sem meginrit Quines um málspeki. Þar kafar hann dýpra í mörg fyrri viðfangsefni sín og setur fram einskonar atferliskenningu um tungumál. Hann athugar hvaða skilyrðum slík kenning yrði að fullnægja og hvaða mynd hún yrði að taka, og á þeirri leið verður til þekktasta og um­deildasta framlag Quines til málspekinnar, nefnilega þýðingabrigðakenningin. Kenningin er í stuttu máli sú að til geti verið tvær tilgátur um þýðingu af einu máli á annað sem séu ósamrýman­legar, en samt sé ekki hægt að gera upp á milli þeirra með neinni beinni skynreynslu.

Síðan Word and Object kom út hefur Quine birt fjölda greina sem skýra hugmyndir úr fyrri skrifum hans. Meðal þeirra kunnustu eru greinarnar „Speaking of Objects“ og „Ontological Relativity“ sem báðar birtust í greinasafninu Ontological Relativity and Other Essays (1969). Þá má finna gott yfirlit yfir ýmsa þætti raunhyggju og málspeki Quines í ritgerðasafninu Theories and Things sem út kom 1981.

Í greininni sem hér fer á eftir fæst Quine við verufræði, það er spurninguna „hvað er til?“ Hann svarar hanni þó ekki en reynir þess í stað að festa hendur á því hvernig við gætum eða hvenær við höfum svarað henni og hvað skuldbindi okkur til að fallast á eina kenningu um verufræði frekar en aðra. Greinin snýst reyndar að verulegu leyti um tungumál og merkingu en að stofni til er þó umfjöllunarefnið verufræði. Í henni má finna ýmis þeirra atriða sem spretta fram í seinni kenningum Quines um tungumál. Niðurstaða Quines um verufræði er á endanum sú að hún sé, líkt og hann síðar hélt fram um merkingu eða þýðingar, afstæð við heildarsamhengi þeirra kenninga sem við aðhyllumst. Quine telur þó ekki allar kenningar um verufræði jafngildar og hefur greinina á að hrekja ýmsar kunnar kenningar. En eftir stendur að þegar hismið hefur verið skilið frá kjarnanum, þá verði ekki með áreiðanlegum hætti skorið úr um gildi verufræðilegra kenninga eða staðhæfinga nema innan þess kenninga- og hugtakaramma sem við setjum okkur. Þessa hugmynd um afstæði kenninga við kenninga- eða hugtakaramma má finna víða í skrifum Quines, og segja má að hún sé nokkurskonar grunnhugmynd í ýmsum kenningum hans. Umfjöllunar­efnið er því nánast heildarsamhengi heimspeki og vísinda og nauðsynleg samfella þessa tvenns.

Of langt mál yrði að gera grein fyrir öðrum kenningum Quines en hvað sem um þær verður sagt þá er víst að erfitt mun reynast að glíma við stóra hluta heimspeki tuttugustu aldar án þess að þær komi við sögu í einhverri mynd. Kunnastur þeirra heimspekinga sem byggt hafa á kenningum Quines er væntanlega nemandi hans, Donald Davidson. Eins og Quine hefur Davidson heildarhyggju um tungumálið en er þó á gjörsamlega öndverðum meiði þegar kemur að atferliskenningunni. Saman hafa kenningar þessara tveggja heimspekinga verið eitt helsta umfjöllunar- og viðfangsefni þeirra sem fjallað hafa um málspeki síðustu áratugina, og munu væntanlega verða áfram.

„Um það sem er“ (On What There Is) birtist fyrst í Review of Metaphysics árið 1948. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Um það sem er

I

Eitt hið forvitnilegasta við hinn verufræðilega vanda er hversu einfaldur hann er. Setja má hann fram í þremur einsatkvæðisorðum: „Hvað er til?“ Honum má síðan svara í einu orði – „allt“ – og allir munu fallast á að svarið sé satt. Þetta jafngildir ekki öðru en að segja að það er sem er. Eftir stendur nægt rúm fyrir ágreining um einstök tilvik, og því hefur vandinn haldið velli í gegnum aldirnar.

Gerum nú ráð fyrir að tvo heimspekinga, McX og mig, greini á um verufræði. Gerum ráð fyrir að McX haldi því fram að til sé eitthvað sem ég segi ekki vera. McX getur, í fullu samræmi við eigin sjónarmið, lýst ágreiningi okkar með því að segja að ég neiti að kannast við tiltekin fyrirbæri. Ég segði hins vegar, að sjálfsögðu, að hann færi með rangt mál í lýsingu sinni á ágreiningi okkar, því ég held því fram að ekki séu til nein fyrirbæri þeirrar tegundar sem hann staðhæfir, sem ég gæti þá kannast við; það að ég telji hann hafa rangt fyrir sér í framsetningu sinni á ágreiningsefni okkar er hins vegar léttvægt þar sem ég myndi telja verufræði hans ranga hvort sem er.

Þegar ég reyni hins vegar að gera grein fyrir skoðanamun okkar virðist ég í vanda. Ég get ekki fallist á að til séu fyrirbæri sem McX heldur fram en ég ekki, því féllist ég á að slík fyrirbæri fyndust væri ég um leið kominn í mótsögn við eigin afneitun þeirra.

Sé rökleiðsla þessi réttmæt virðist því sem í sérhverri slíkri verufræðilegri deilu verði sá sem heldur fram hinu neikvæða að líða fyrir að geta ekki fallist á að andmælandann greini á við hann.

Hér er á ferðinni hin forna gáta Platons um það sem ekki er. Það sem ekki er hlýtur að vera með einhverjum hætti, því hvað væri það annars sem ekki er? Þessa snúnu kennisetningu mætti kalla skegg Platons; hún hefur reynst lífseig í gegnum söguna og iðulega slævt bitið í rakhníf Ockhams.

Það er þankagangur þessum líkur sem leiðir heimspekinga á borð við McX til að halda fram tilvist þar sem þeir féllust annars fúslega á að ekkert væri. Tökum sem dæmi Pegasus. Ef Pegasus væri ekki, segir McX, værum við ekki að tala um neitt þegar við notuðum orðið; þar af leiðandi væri jafnvel hrein merkingarleysa að segja að Pegasus sé ekki. Í þeirri trú að þar með sé sýnt að afneitun Pegasusar verði ekki haldið fram á samkvæman hátt, kemst hann að þeirri niðurstöðu að Pegasus sé.

McX getur þó raunar ekki fyllilega sannfært sjálfan sig um að einhver staður í tíma og rúmi, nær eða fjær, innihaldi fljúgandi hest af holdi og blóði. Sé hann krafinn frekari skýringar á Pegasusi segir hann Pegasus vera ímynd í hugum manna. Hér fer hins vegar að bera á ruglingi. Rökræðunnar vegna getum við fallist á að til sé fyrirbæri, jafnvel einstakt fyrirbæri (þó svo sú hugmynd sé næsta óaðgengileg), sem sé hin huglæga ímynd Pegasusar, en þetta huglæga fyrirbæri er hins vegar ekki það sem fólk er að tala um þegar það hafnar Pegasusi.

McX ruglar aldrei saman Meyjarhofinu og ímyndum manna af því. Meyjarhofið er efnislegt, ímynd þess er huglæg (í það minnsta samkvæmt hugmyndum McX um ímyndir og ég hef ekki aðrar betri). Meyjarhofið er sýnilegt, ímynd þess er ósýnileg. Við getum ekki með hægu móti hugsað okkur neitt ólíkara og ólíklegra til að valda ruglingi en Meyjarhofið og ímyndir manna af því. En þegar við hverfum frá Meyjarhofinu til Pegasusar þá sækir ruglingurinn að – fyrir þær sakir einar að McX lætur fremur glepjast af grófri og óljósri eftirmynd en fallast á að Pegasus sé ekki til.

Sú hugmynd að Pegasus hljóti að vera, því ella væri það merkingarleysa að segja jafnvel að Pegasus sé ekki, leiðir því McX út í grundvallarrugling. Gleggri hugsuðir, sem leggja upp frá sama stað og McX, komast að kenningum sem ekki eru eins ljóslega á misskilningi byggðar, og því að sama skapi erfiðara að uppræta. Við skulum segja að einn þessara gleggri hugsuða nefnist Wyman. Wyman heldur því fram að Pegasus eigi tilvist sína í óframgengnum möguleika. Þegar við segjum um Pegasus að enginn slíkur hlutur sé til, þá erum við nánar tiltekið að segja að Pegasus búi ekki yfir þeim sérstaka eiginleika sem raunveruleiki er. Að segja að Pegasus sé ekki raunverulegur jafngildir því, röklega, að segja að Meyjarhofið sé ekki rautt; í báðum tilvikum höldum við fram einhverju um fyrirbæri sem ekki verður efast um að sé til.

Svona til áréttingar, þá er Wyman einn þeirra heimspekinga sem tekið hafa höndum saman um að eyðileggja hið gamalgróna orð „tilvist“. Þótt hann aðhyllist óframgengna möguleika takmarkar hann orðið „tilvist“ við raunveruleikann – og viðheldur þannig þeirri blekkingu að sammæli sé með honum og okkur hinum sem vísum frá öðrum hlutum hins ofsetna heims hans. Við höfum hneigst til að segja, miðað við hversdagslegan skilning okkar á orðunum „er til“, að Pegasus sé ekki til, og eigum þá einfaldlega við að ekkert slíkt fyrirbæri sé. Væri Pegasus til væri hann vissulega í tíma og rúmi, en einungis vegna þess að orðið „Pegasus“ hefur í sér fólginn rúm- og tímalegan hljóm, en ekki vegna þess að orðið „tilvist“ feli í sér slíkan hljóm. Ef rúm- eða tímaleg tilvísun er fjarri þegar við höldum því fram að til sé kvaðratrótin af 27, þá er það einfaldlega vegna þess að kvaðratrót er ekki rúm- eða tímalegur hlutur og ekki vegna þess að við gerumst sek um tvíræðni í notkun okkar á „tilvist“.1 Í lítt ígrundaðri tilraun til að virðast aðgengilegur gefur Wyman okkur hins vegar eftir af rausn að Pegasus eigi sér enga tilvist en heldur síðan fram, þvert á það sem við áttum við með tilvistarleysi Pegasusar, að Pegasus sé. Tilvist er eitt, segir hann, og vera annað. Eina leiðin sem ég þekki til að glíma við þennan rugling er að gefa Wyman eftir orðið „tilvist“. Ég mun reyna að nota það ekki aftur; enn hef ég þó „er“. Nú er nóg komið af orðfræði, snúum okkur aftur að verufræði Wymans.

Hinn ofsetni heimur Wymans er um margt lítt þekkilegur. Hann særir fegurðarskyn okkar sem höfum smekk fyrir eyðilegu landslagi, en það er þó ekki það versta. Haugabyggð Wymans af möguleikum er gróðrarstía fyrir ósköpuleg fyrirbæri. Tökum sem dæmi mögulega feita manninn þarna í dyrunum; og svo að auki mögulega sköllótta manninn þarna í dyrunum. Eru þeir einn og sami mögulegi maðurinn eða tveir mögulegir menn? Hvernig komust við að niðurstöðu? Hversu margir mögulegir menn eru þarna í dyrunum? Eru fleiri grannvaxnir en feitir? Hversu margir þeirra eru hver öðrum líkir? Eða myndi líking þeirra gera þá að einum? Eru engir tveir mögulegir hlutir eins? Jafngildir þetta því að segja að ómögulegt sé fyrir tvo hluti að vera eins? Eða að endingu, er hugtakið sérkenni hreinlega ónothæft um óframgengna möguleika? En hvaða vit má finna í tali um hluti sem ekki verður sagt um á merkingarbæran hátt að séu sjálfum sér líkir en frábrugðnir hver öðrum? Þessi fyrirbæri eru því næst óbetranleg. Kannski mætti freista þess að endurvekja einstaklingshugtök að hætti Freges,2 en mér segir svo hugur að heilladrýgra sé að ryðja haugabyggð Wymans og fjalla ekki um hana frekar.

Möguleiki, ásamt öðrum háttum nauðsynjar og ómöguleika og samkvæmni, vekur spurningar sem ég ætla mér alls ekki að gefa í skyn að við skyldum snúa við baki. En við getum þó í það minnsta takmarkað hætti þessa við heilar staðhæfingar. Við getum notað atviksorðið „mögulega“ um staðhæfingu sem slíka, og við getum hæglega velt vöngum yfir málfræðilegri greiningu slíkrar notkunar, en það er lítilla raunverulegra framfara að vænta af því að víkka veruleikann út svo hann innihaldi einnig svokölluð möguleg fyrirbæri. Mig grunar að helsti hvati þess að grípa til slíkrar útvíkkunar sé einfaldlega hin forna hugmynd að Pegasus, svo dæmi sé tekið, hljóti að vera, því ella væri það merkingarleysa að segja jafnvel að hann sé ekki.

Ennfremur virðist sem óhófleg frjósemi möguleikaheims Wymans verði að svo til engu ef við breytum dæminu lítillega og tölum ekki um Pegasus heldur um hringlaga ferhyrndu þak­hvelfinguna á Berkeleyháskóla. Ef það væri merkingarleysa að segja að Pegasus sé ekki, nema því aðeins að hann sé, þá myndi með sama hætti vera merkingarlaust að segja hringlaga fer­hyrndu hvelfinguna á Berkeleyháskóla ekki vera, nema því aðeins að hún væri. En ólíkt Pegasusi, þá er ekki hægt að fallast á hringlaga ferhyrndu hvelfinguna á Berkeleyháskóla, jafnvel ekki sem óframgenginn möguleika. Getum við nú knúið Wyman til að fallast einnig á ríki óframkominna ómöguleika? Sé svo, vaknar sægur hjákátlegra spurninga. Við kynnum jafnvel að geta leitt Wyman í mótsagnir með því að fá hann til að fallast á að sum þessara fyrirbæra séu í senn hring­laga og ferhyrnd. Hinn slægi Wyman kýs þó að taka vandann öðrum tökum og viðurkennir að það sé merkingarleysa að segja að hin hringlaga ferhyrnda hvelfing á Berkeleyháskóla sé ekki. Hann segir að orðin „hringlaga ferhyrnd hvelfing“ séu merkingarlaus.

Wyman var ekki fyrstur til að grípa þennan kost. Kennisetningin um merkingarleysi mótsagna á sér langa sögu. Hefðin heldur jafnvel velli hjá höfundum sem hallast að þessari skoðun af allt öðrum ástæðum en Wyman. Þó velti ég vöngum yfir því hvort fyrsta freistingin til slíkrar kenningar kunni ekki, þegar öllu er á botninn hvolft, að hafa verið sú hin sama og við sáum hjá Wyman. Víst er að kennisetningin sjálf býr ekki yfir neinu augljósu aðdráttarafli; hún hefur leitt fylgjendur sína til jafnóraunhæfra öfga og þeirra að ráðast gegn sönnunarmætti niðursöllunar í fáránleika (reductio ad absurdum) – sú aðför sýnist mér nánast salla kenninguna sjálfa niður í fáránleika.

Ennfremur er sá alvarlegi aðferðafræðilegi galli á kenningunni um merkingarleysi mótsagna að hún gerir í grundvallaratriðum ókleift að setja saman áhrifaríka aðferð til að kanna hvað hafi merkingu og hvað ekki. Þá væri með öllu ómögulegt fyrir okkur að finna upp kerfisbundna aðferð til að ganga úr skugga um hvort táknruna þýddi eitthvað – jafnvel fyrir okkur sjálfum, hvað þá öðrum. Það leiðir af uppgötvunum á sviði stærðfræðilegrar rökfræði, fyrir tilverknað Church,3 að ekkert almennt nothæft próf fyrir mótsagnir getur hugsast.

Ég hef hér talað heldur óvirðulega um skegg Platons, og jafnvel gefið í skyn að það sé flókið. Ég hef dvalið lengi við að sýna hversu óhentugt sé að umbera það. Nú er tími til kominn að halda lengra.

Russell hefur sýnt ljóslega fram á, í kenningu sinni um ákveðnar lýsingar, hvernig við gætum notað sýndarheiti á merkingarbæran hátt án þess að gera ráð fyrir að þau nefni neitt. Heitin sem kenning Russells á beint við um eru samsett ákveðin lýsandi heiti líkt og „höfundurinn sem skrifaði Waverley“, „núverandi konungur Frakka“ og „hringlaga ferhyrnda hvelfingin á Berkeley­háskóla“. Russell greinir þessi orðasambönd kerfisbundið sem hluta þeirra setninga sem þau koma fyrir í. Setningin „höfundurinn sem skrifaði Waverley var skáld“ er skýrð í heild þannig að hún merki: „Einhver (betra: eitthvað) skrifaði Waverley og var skáld, og ekkert annað skrifaði Waverley.“ (Það sem sagt er í viðbótinni er til að staðfesta hið einstaka sem felst í notkun ákveðins greinis í „höfundurinn sem skrifaði Waverley“.) Setningin „hringlaga ferhyrnda hvelfingin á Berkeleyháskóla er bleik“ er útskýrð sem: „Eitthvað er hringlaga og ferhyrnt og er hvelfing á Berkeleyháskóla og er bleikt, og ekkert annað er hringlaga og ferhyrnt og hvelfing á Berkeley­háskóla“.4

Helsti kostur þessarar greiningar felst í því að sýndarheitið, lýsingin, er umorðuð í samhengi sem svokallað ófullkomið tákn. Engin einstök segð er sett fram sem greining á lýsingunni, en stað­hæfingin í heild sinni, sem var samhengi lýsingarinnar, fær þó allan þann hlut í merkingunni sem henni ber – hvort heldur hún er sönn eða ósönn.

Ósundurgreinda staðhæfingin „höfundurinn sem skrifaði Waverley var skáld“ inniheldur hluta sem þeir McX og Wyman gerðu ranglega ráð fyrir að krefðist hlutlægrar tilvísunar til að hann gæti borið nokkra merkingu. En í þýðingu Russells, „Eitthvað skrifaði Waverley og var skáld og ekkert annað skrifaði Waverley“, er byrðinni af hlutlægri tilvísun létt af lýsingunni og hún flutt yfir á orð þeirrar tegundar sem rökfræðingar kalla bundnar breytur, magnbreytur, nefnilega orð eins og „eitthvað“, „ekkert“ og „allt“. Þessi orð, sem fráleitt þykjast vera heiti sem sérstaklega eigi við um höfund Waverley, þykjast ekki vera heiti á neinn hátt; þau vísa almennt til einda, með nokkurs konar lærðri óræðni sem er einkennandi fyrir þau sjálf.5 Þessi magnorð eða bundnu breytur eru sannarlega einn grunnþáttur tungumáls, og ekki verður efast um að þau beri merkingu, í það minnsta í samhengi. En það að þessi orð beri merkingu krefst þess engan veginn að höfundur Waverley sé, né hinar hringlaga ferhyrndu hvelfingar á Berkeleyháskóla, né nokkrir aðrir fyrirfram tilteknir hlutir.

Þar sem lýsingar eiga hlut að máli er því vandalaust að játa eða neita að eitthvað sé. „Höfundur­inn sem skrifaði Waverley er“ útskýrir Russell þannig að það merki: „Einhver (eða nánar tiltekið, eitthvað) skrifaði Waverley og ekkert annað skrifaðiWaverley“. „Höfundur Waverley er ekki“ skýrir hann á sama hátt þannig að það merki: „Annaðhvort skrifaði sérhver hlutur ekki Waverley eða tveir eða fleiri hlutir skrifuðu Waverley“. Þessi eða-setning er röng en merkingarbær, og hún inni­heldur ekkert sem þykist nefna höfund Waverley. Staðhæfingin „hin hringlaga ferhyrnda hvelfing Berkeleyháskóla er ekki“ er sundurgreind með svipuðum hætti. Þannig fellur fyrir borð sú aldna hugmynd að staðhæfingar um tilvistarleysi afneiti sjálfum sér. Sé staðhæfing um veru eða ekki-veru greind samkvæmt kenningu Russells um lýsingar, hættir hún að innihalda nokkuð sem svo mikið sem þykist nefna þann hlut sem efast er um að sé, og því felur krafan um merkingu alls ekki í sér að gert sé ráð fyrir slíkum hlut.

II

En hvað þá um „Pegasus“? Þar sem þetta er orð fremur en setning blasir ekki undir eins við að rökfærsla Russells eigi hér við. Hins vegar er hægur vandi að láta hana eiga við. Við þurfum einungis að umorða „Pegasus“ sem lýsingu á hvern þann hátt sem virðist einangra hugmynd okkar; til að mynda „Vængjaði hesturinn sem Bellerófon fangaði“. Sé skipt á þessari setningu og „Pegasus“ getum við sem hægast snúið okkur að því að greina staðhæfinguna „Pegasus er“ eða „Pegasus er ekki“ í fullu samræmi við greiningu Russells á „höfundur Waverley er“ og „höfund­ur Waverley er ekki“.

Til þess þá að heimfæra eins orðs heiti eða sýndarheiti eins og „Pegasus“ undir kenningu Russells um lýsingar, verðum við vitanlega fyrst að geta þýtt heitið yfir í lýsingu. Þetta eru þó engar raunverulegar hömlur. Ef hugmyndin um Pegasus væri óljós eða svo augljós að engin slík hiklaus þýðing yfir í lýsingu hefði verið ljós eftir kunnuglegum leiðum, hefðum við þó enn getað útbúið okkur eftirfarandi og að því er virðist lítilvæga tól: við hefðum getað gripið til hins frumlæga, ógreinanlega og ósmættanlega eiginleika að vera Pegasus, og tekið upp til að tjá hann sögnina „er-Pegasus“ eða „pegasusar“. Sjálft nafnorðið „Pegasus“ gætum við síðan litið á sem afleitt og á endanum jafngilt lýsingu: „hluturinn sem er-Pegasus“, „hluturinn sem pegasusar“.6

Ef það að innleiða umsögn eins og „pegasusar“ virðist leiða okkur til að viðurkenna tilsvarandi eiginleika, pegasusleika, á himnum Platons eða í hugum manna, þá það. Hvorki við né McX eða Wyman höfum glímt við veru eða óveru slíkra almennra hugtaka, heldur veru eða óveru Pegasusar. Ef við getum með stoð pegasusleika túlkað nafnorðið „Pegasus“ í lýsingu sem fellur að kenningu Russells um lýsingar, þá höfum við rutt úr vegi þeirri fornu hugmynd að við getum ekki sagt um Pegasus að hann sé ekki, án þess að gera ráð fyrir að hann sé með einhverjum hætti.

Þessi rökfærsla er býsna almenn. McX og Wyman gerðu ráð fyrir að við gætum ekki á merkingar­bæran hátt fallist á staðhæfingu á forminu „þetta eða hitt er ekki“, þar sem þetta eða hitt stendur fyrir einfaldan eða lýsandi nafnlið, nema því aðeins að þetta eða hitt sé. Nú hefur það sýnt sig að þessi skoðun stendur almennt á brauðfótum, því að nafnliðnum sem um ræðir má ævinlega breyta í ákveðna lýsingu, á einn eða annan hátt, og hana má síðan sundurgreina að hætti Russells.

Við göngumst við verufræði þar sem finna má tölur, þegar við segjum að til séu prímtölur stærri en milljón; við göngumst við verufræði þar sem finna má kentára, þegar við segjum að til séu kentárar; og við göngumst við verufræði þar sem finna má Pegasus, þegar við segjum að Pegasus sé. En við göngumst ekki við verufræði þar sem eru Pegasus, höfundur Waverley eða hringlaga ferhyrnda þakhvelfingin á Berkeleyháskóla, þegar við segjum að Pegasus, höfund­ur Waverley eða þakhvelfingin séu ekki. Við þurfum ekki framar að gangast við þeirri villu að merkingarbærni staðhæfingar sem inniheldur lýsandi hugtak sé undir því komin að hugtakið nefni hlut eða fyrirbæri. Slík lýsandi hugtök þurfa ekki að vísa til neins til að bera merkingu.

Ávæningur þessa kynni að hafa sótt að Wyman og McX, jafnvel án stuðnings Russells, hefðu þeir aðeins veitt því athygli – sem svo fá okkar hafa – að milli þess að merkja og nefna eru víðáttur, jafnvel þegar talað er um lýsandi hugtök sem sannarlega nefna hluti. Eftirfarandi dæmi sem fengið er frá Frege7 er hér við hæfi. Heitið „Kvöldstjarnan“ nefnir tiltekinn stóran, efnislegan, hnöttóttan hlut sem geysist um himinhvolfin í einhverra milljóna kílómetra fjarlægð héðan. Heitið „Morgunstjarnan“ nefnir þennan sama hlut, líkt og glöggur athugandi í Babýloníu var líkast til fyrstur að uppgötva. En heitin tvö geta þó ekki talist hafa sömu merkingu, því þá hefði Babyloníumaðurinn komist af án athugana sinna með því einu að líta til merkingar orðanna. Merkingarnar, sem eru ólíkar, hljóta því að vera annað en hluturinn sem nefndur var, þar sem hann er einn og hinn sami í báðum tilfellum.

Ruglingur þess að merkja og nefna leiddi McX ekki einasta til að halda að ekki væri á merkingarbæran hátt hægt að hafna Pegasusi heldur átti áframhaldandi ruglingur merkingar og nefningar án efa sinn þátt í að geta af sér þá fráleitu hugmynd hans að Pegasus væri ímynd, huglægt fyrirbæri. Ruglingi hans má lýsa á eftirfarandi hátt. Hann ruglaði meintum nefndum hlut, Pegasusi, saman viðmerkingu orðsins „Pegasus“, og leiddi af því þá niðurstöðu að Pegasus hlyti að vera, ætti orðið að geta borið merkingu. En hvers kyns hlutir eru merkingar? Hér erum við á vafasömum slóðum, en þó kynni að vera hægt að skýra merkingar sem ímyndir hugans, sé gert ráð fyrir því að í framhaldinu megi skýra ljóslega þessa hugmynd um ímyndir hugans. Þannig atvikast það að Pegasus, sem upphaflega er ruglað saman við merkingu, verður á endanum ímynd hugans. Enn eftirtektarverðara er þó að Wyman, sem í upphafi var rekinn áfram af sömu hvötum og McX, skyldi sveigja hjá þessum tilteknu hættum og sitja í þess stað uppi með óframgengna möguleika.

Snúum okkur nú að þeim verufræðilega vanda sem sprettur af almennum hugtökum: spurningunni um það hvort til séu fyrirbæri eins og eiginleikar, tengsl, tegundir, tölur og hlutverk. McX telur að svo sé, og engan skyldi undra það. Þegar eiginleika ber á góma segir hann: „Til eru rauð hús, rauðar rósir, rauð sólarlög; svo mikið er ljóst af hugvitinu einu saman sem við öll munum fallast á. Þessi hús, rósir og sólarlög eiga því eitthvað sameiginlegt og það er þetta sem þeim er sammerkt sem ég á við þegar ég tala um eiginleikann að vera rautt.“ Að til séu eiginleikar er því í augum McX enn ljósara og sjálfsagðara en þau augljósu og sjálfsögðu sannindi að til eru rauð hús, rósir og sólarlög. Þetta tel ég einkennandi fyrir frumspeki, eða í það minnsta fyrir þann þátt frumspeki sem kallast verufræði: sá sem fellst á annað borð á staðhæfingu um þessi efni, verður að líta á hana sem augljós sannindi. Verufræði manns liggur til grundvallar því hugtakakerfi sem hann síðan notar til að túlka samanlagða reynslu sína, jafnvel hina hversdags­legustu. Séu verufræðilegar staðhæfingar metnar innan tiltekins hugtakakerfis – og hvernig ætti að meta þær annars? – þá standast þær án þess að nokkuð verði frekar um þær sagt, þær kalla ekki á neina staðfestingu aðra. Verufræðilegar staðhæfingar spretta sjálfkrafa af þeim hætti sem hafður er á staðhæfingum um hversdagsleg sannindi, rétt eins og „til er eiginleiki“ leiðir sjálfkrafa af „til eru rauð hús, rauðar rósir, rautt sólarlag“ – í það minnsta séð af sjónarhóli McX.

Séu þessar verufræðilegu staðhæfingar metnar innan annars hugtakakerfis þá kynnu þær sem eru frumsetningar í huga McX að vera taldar rangar á jafnaugljósan og sjálfsagðan máta. Þannig getur maður fallist á að til séu rauð hús, rósir og sólarlög en hins vegar hafnað því að þau eigi nokkuð sammerkt, nema sem útbreiddum og misvísandi talsmáta. Orðin „hús“, „rósir“ og „sólarlög“ eru sönn um fjölskrúðuga flóru einstakra fyrirbæra sem eru hús, rósir og sólarlög, og orðin „rautt“ eða „rautt fyrirbæri“ eru sönn um margvísleg einstök fyrirbæri sem eru rauð hús, rauðar rósir og rautt sólarlag; en hins vegar er ekki neins konar fyrirbæri þessu til viðbótar, einstakt eða almennt, sem nefnt er með orðinu „roði“, né ef því er að skipta, með orðunum „húsleiki“, „rósleiki“ eða „sólarlagsleiki“. Að húsin, rósirnar og sólarlagið séu öll rauð má líta á sem endanlegt og ósmættanlegt, og sé horft til raunverulegra skýringa McX, megi því halda fram að hann sé engu bættari með öll þau sérstæðu fyrirbæri sem hann færir undir heiti eins og „roði“.

Einni þeirra leiða sem kynnu að hafa blasað við McX, hefði hann reynt að þröngva upp á okkur verufræði sinni um almenn hugtök, hafði þegar verið lokað áður en við komum að vandanum um almenn hugtök. McX getur ekki haldið því fram að umsagnir eins og „rauður“ eða „er-rauður“, sem við öll notum, verði að skoðast sem heiti á tilteknu almennu fyrirbæri eigi þau að merkja eitthvað yfirleitt. Því við höfum séð að það að nefna eitthvað er miklum mun sérstæðari eiginleiki en það að vera merkingarbær. Hann getur jafnvel ekki sakað okkur – í það minnsta ekki meðþessum rökum – um að hafa gert ráð fyrir eiginleikanum pegasusleika þegar við gripum til umsagnar­innar „pegasusar“.

McX grípur hins vegar til annarra baráttuaðferða. „Við skulum fallast á þennan greinarmun á að merkja og nefna sem þú metur svo mikils,“ segir hann. „Við skulum jafnvel fallast á að „er rautt“, „pegasusar“ og svo framvegis séu ekki heiti á eiginleikum. Þó samþykkir þú að þau hafi merkingu. En þessar merkingar, hvort sem þær eru nefndar eða ekki, eru eftir sem áður almennar, og ég freistast jafnvel til að segja að sumar þeirra kynnu að vera einmitt það sem ég vil kalla eiginleika eða í það minnsta eitthvað sem á endanum gegnir í stórum dráttum sama hlutverki.“

Þetta er óvenju ásækin ræða af McX að vera, og eina leiðin sem ég þekki til að svara henni er að neita að viðurkenna merkingar. Ég sé hins vegar enga eftirsjá í merkingum, sé þeim hafnað, því að þar með hafna ég ekki því að orð og staðhæfingar hafi merkingu. McX og ég gætum orðið sammála í öllum atriðum í greiningu okkar á einingum tungumálsins í merkingarbærar og merkingarlausar einingar, jafnvel þótt McX líti svo á, ólíkt mér, að það að bera merkingu sé að búa yfir (í einhverjum skilningi þess „að búa yfir“) einhvers konar óhlutbundnu fyrirbæri sem hann kallar merkingu. Mér er enn frjálst að halda því fram að sú staðreynd að tiltekin segð beri merkingu (eða sé skiljanleg, eins og ég kýs að segja, til að fyrirbyggja að litið sé á merkingu sem fyrirbæri) sé endanleg og ósmættanleg sjálfgefin sannindi. Og ég gæti hafist handa við að gera grein fyrir þessu beint í ljósi þess sem fólk aðhefst í nálægð segðarinnar sem um er fjallað og annarra henni líkum.

Svo virðist sem fólk tali að gagni um merkingu einungis á tvo vegu: það að hafamerkingu, sem er að vera skiljanlegt, og samsemd merkingar, eða samheiti. Það sem kallað er að gefa merkingu einhverrar segðar er einfaldlega að mæla fram samheiti, venjulega sett fram á skýrara máli en hið upphaflega. Ef við höfum ofnæmi fyrir merkingum sem slíkum getum við talað beint um segðirnar sem skiljanlegar eða óskiljanlegar, og sem jafngildar eða ekki jafngildar hver annarri. Vandinn við að útskýra lýsingarorðin „skiljanlegt“ og „jafngilt“, svo vel og ljóst sé, og helst í ljósi hegðunar að mínu mati, er jafnerfiður og hann er mikilvægur.8 En skýringargildi tiltekinna ósmættanlegra fyrirbæra sem þarna komi til og kallist merkingar er svo sannarlega blekking.

Til þessa hef ég haldið því fram að við getum notast við ákveðin heiti á skiljanlegan hátt í setningum, án þess að gera fyrirfram ráð fyrir að til séu fyrirbæri sem þessi heiti þykist nefna. Ég hef síðan haldið því fram að við getum notað almenn hugtök, til að mynda umsagnir, án þess að líta á þau sem heiti á óhlutbundnum fyrirbærum. Þá hef ég einnig haldið því fram að við getum litið á segðir sem skiljanlegar, og sem jafngildar eða ójafngildar hver annarri, án þess að fallast á ríki fyrirbæra sem kallast merkingar. Þegar hér er komið sögu leitar sú hugsun á McX hvort verufræðilegu ónæmi okkar séu nokkur takmörk sett. Mun ekkert sem við kynnum að segja leiða okkur að þeirri ályktun að til séu almenn fyrirbæri eða önnur fyrirbæri sem okkur kann að þykja óvelkomin?

Ég hef nú þegar vikið að því að við getum svarað þessari spurningu neitandi, þegar ég fjallaði um bundnar breytur eða magnbreytur í tengslum við kenningu Russells um ákveðnar lýsingar. Við getum sem hægast gengist undir verufræðilegar skuldbindingar með því að segja, til að mynda, að til sé eitthvað(bundin breyta) sem rauð hús og sólarlag eigi sameiginlegt, eða að til sé eitthvaðsem sé prímtala stærri en milljón. Þetta er í eðli sínu eina leiðin sem getur leitt okkur til verufræðilegra skuldbindinga, það er notkun okkar á bundnum breytum. Notkun sýndarheita kemur hér ekki til álita, því við getum í sviphendingu vísað því frá að þau nefni nokkurn hlut, nema því aðeins að notkun okkar á bundnum breytum þvingi okkur til að gera ráð fyrir tilsvarandi fyrirbærum. Heiti eru reyndar algjörlega óviðkomandi verufræðilegum vandamálum, því eins og ég hef sýnt fram á, í tengslum við „Pegasus“ og „pegasusar“, má umbreyta heitum í lýsingar, og Russell hefur sýnt hvernig eyða má lýsingum. Hvaðeina sem við segjum með aðstoð heita má segja á máli sem sneiðir algerlega hjá þeim. Það að vera fyrirbæri er hreint og beint að vera viðurkennt sem gildi breytu. Sé gripið til hugtaka hefðbundinnar málfræði má orða þetta þannig að það að vera sé að vera innan umtaks fornafna. Fornöfn eru sá miðill sem liggur tilvísun til grundvallar; nafnorð hefðu betur verið nefnd forfornöfn. Magnbreyturnar „eitthvað“, „ekkert“ og „allt“ ná yfir alla verufræði okkar, hver sem hún kann að vera; við erum þá og því aðeins ofurseld tilteknum verufræðilegum forsendum, að það sem þær kveða á um verði að teljast til þeirra fyrirbæra sem breytur okkar ná yfir, eigi einhver staðhæfinga okkar að vera sönn.

Við getum til dæmis sagt að sumir hundar séu hvítir, án þess að við höfum þar með viðurkennt að það að vera hundur eða að vera hvítur sé fyrirbæri. „Sumir hundar eru hvítir“ segir að sumir hlutir sem eru hundar séu hvítir; til að staðhæfingin sé sönn verða einhverjir hvítir hundar að vera á meðal þeirra hluta sem breytan „sumir“ nær til, en á meðal þeirra þurfa ekki að vera hundleiki eða hvítleiki. Þegar við segjum hins vegar að sumar tegundir dýra geti afkvæmi með öðrum tegundum, þá erum við um leið að fallast á að tegundirnar sem slíkar séu fyrirbæri, þótt þær séu óhlutbundnar. Og við verðum að fallast á þetta í það minnsta þar til við finnum leið til að umorða staðhæfinguna þannig að komist verði hjá þeirri vísun til tegunda sem virtist ljós af breytunni.9

III

Sígild stærðfræði er margskuldbundin verufræði óhlutbundinna fyrirbæra, eins og dæmið um prímtölu stærri en milljón sýndi. Því er það að hin mikla deila miðalda um almenn hugtök hefur fengið endurnýjaða lífdaga í stærðfræðilegri heimspeki nútímans. Deiluefnið er ljósara nú en fyrr, því við búum nú yfir ljósari stöðlum sem gripið er til þegar ráðið er hvaða verufræði tiltekin kenning eða samræðuform verður að gangast undir; kenning verður að gangast við þeim og aðeins þeim fyrirbærum sem bundnar breytur hennar verða að geta vísað til ef staðhæfingar kenningarinnar eiga að vera sannar.

Þar sem þessir staðlar um verufræðilegar forsendur urðu ekki ljósir í heimspekihefðinni, þá hafa heimspekilegir stærðfræðingar nútímans ekki allir fallist á að þeir séu að deila um sama forna vandann um almenn hugtök á nýjan og skýrari máta. Þó er það svo að helsti klofningurinn meðal nútímasjónarmiða um grundvöll stærðfræðinnar snýst næsta ljóslega upp í ágreining um það til hvaða mengis fyrirbæra bundnar breytur skuli geta tekið.

Þrjú helstu sjónarmið miðalda um almenn hugtök hafa sagnfræðingar nefnt hlut­hyggjuhughyggju og nafnhyggju. Í grundvallaratriðum birtast þessar þrjár kennisetningar aftur á tuttugustu öld í umfjöllun um heimspeki stærðfræðinnar undir nöfnun­um rökhyggjainnsæishyggja og formhyggja.

Hluthyggja, eins og orðið er notað í sambandi við deilur miðalda um altæk hugtök, er hin platónska kennisetning að altæk hugtök eða óhlutbundin fyrirbæri eigi sér tilvist óháða huganum; hugurinn getur uppgötvað þau en hann getur ekki skapað þau. Rökhyggja, sem Frege, Russell, Whitehead, Church og Carnap héldu fram, leyfir notkun bundinna breytna um óhlutbundin fyrirbæri, þekkt og óþekkt, skilgreinanleg og óskilgreinanleg, án nokkurra skilyrða.

Hughyggja hélt því fram að til væru altæk hugtök, en þau væru hugsmíð.Innsæishyggja, sem haldið hefur verið fram í samtímanum í einni mynd eða annarri af Poincaré, Brouwer, Weyl og fleirum, heimilar einungis notkun bundinna breytna um altæk hugtök þegar hægt er að sjóða þessi fyrirbæri saman hvert fyrir sig, úr hráefni sem tiltekið er fyrirfram. Eða eins og Fraenkel hefur lýst því, þá telur rökhyggjan að tegundir séu uppgötvaðar en innsæishyggja telur þær vera fundnar upp – svo sannarlega ágæt lýsing á hinum fornu andstæðum hluthyggju og hughyggju. Þessar andstæður eru fráleitt hártoganir og þær ráða í grundvallaratriðum miklu um hversu stóran hlut af sígildri stærðfræði viðkomandi er reiðubúinn til að viðurkenna. Rökhyggjumenn, eða hluthyggju­menn, geta á grundvelli ályktana sinna fallist á vaxandi óendanleikatölur Cantors; innsæis­hyggjumenn eru neyddir til að láta sér nægja hinn fyrsta óendanleika, sem veldur því óbeint að þeir verða að gefa eftir sum af hefðbundnum lögmálum rauntalna.10 Þessi ágreiningur nútímans milli rökhyggju og innsæishyggju spratt raunar af ósamkomulagi um óendanleika.

Formhyggja, sem tengd hefur verið nafni Hilberts, fylgir innsæishyggjunni í því að harma óheft athvarf rökhyggjumanna í almennum hugtökum. En formhyggjunni þykir þó innsæishyggjan ófullnægjandi. Til þess gætu legið tvær andstæðar ástæður. Formhyggjumaðurinn gæti, líkt og rökhyggjumaðurinn, risið öndverður gegn spjöllum á sígildri stærðfræði, eða líkt og nafnhyggju­maðurinn fyrr á tímum, andmælt því að yfirleitt skuli fallist á nokkur óhlutbundin fyrirbæri, jafnvel þótt takmörkuð séu við afurðir hugans. Niðurstaðan verður sú sama: formhyggjumaðurinn heldur í sígilda stærðfræði sem leik með ómerkingarbært táknkerfi. Þessi leikur með táknkerfi getur þó komið að notum – sem þegar hafa komið í ljós sem stoð fyrir eðlisfræðinga og tæknifræðinga. En notagildi þarf ekki að benda til merkingar, í neinum bókstaflegum málfræðilegum skilningi. Árangur stærðfræðinga við að spinna upp kennisetningar og við að koma á hlutlægum grunni fyrir samkomulag um niðurstöður hvers annars þarf ekki heldur endilega að benda til merkingar. Fullnægjandi grunn fyrir samkomulag má einfaldlega finna í reglunum sem ráða því hvernig farið er með táknkerfið – þessar setningafræðilegu reglur eru, ólíkt táknunum sjálfum, sannarlega merkingarbærar og vitrænar.11

Ég hef hér haldið því fram að sú verufræði sem við aðhyllumst gæti verið afdrifarík – þetta er augljóst í tengslum við stærðfræði, þótt hún sé einungis dæmi. En hvernig eigum við þá að gera upp á milli andstæðra verufræðikenninga? Svarið er sannarlega ekki að finna í merkingarfræði­reglunni: „Að vera er að vera gildi breytu.“ Þvert á móti gagnast sú regla við að ganga úr skugga um samkvæmni setningar eða kennisetningar við gefna verufræðilega afstöðu. Við lítum til bundinna breytna í tengslum við verufræði, ekki í því augnamiði að komast að því hvað er, heldur til að vita hvað tiltekin umsögn eða kennisetning, okkar eigin eða annarra, segir að sé; og svo langt sem þetta nær er þetta réttilega vandamál sem snýst um tungumál. Það hvað er, er önnur spurning.

Þegar rætt er um hvað er, er enn full ástæða til að heyja glímuna á velli tungumálsins, meðal annars til að komast hjá þeim vanda sem bent var á í upphafi greinarinnar; þeim vanda mínum að geta ekki fallist á að til séu hlutir, sem McX segir að séu til en ég ekki. Svo lengi sem ég held tryggð við eigin verufræði, í andstöðu við verufræði McX, þá get ég ekki leyft breytum mínum að vísa til fyrirbæra sem heyra til verufræði McX en ekki minni. Ég get hins vegar af fullri samkvæmni lýst ágreiningi okkar með því að greina staðhæfingarnar sem McX fellst á. Að því einu gefnu að verufræði mín heimili málfræðileg form, eða í það minnsta efnislegar áletranir og mælt mál, get ég talað um setningar McX.

Önnur ástæða fyrir því að hörfa yfir á völl tungumálsins er sú að þar er sameiginlegur grunnur til að heyja deiluna á. Ágreiningur um verufræði felur í sér grundvallarágreining um hugtakakerfi, en þó komumst við McX að því, þrátt fyrir þennan ágreining, að hugtakakerfi okkar hafa nægan samhljóm í afleiddum greinum sínum til að við getum á árangursríkan hátt talað saman um efni eins og stjórnmál, veður og einkanlega um tungumál. Að svo miklu leyti sem hægt er að þýða grundvallarágreining okkar um verufræði yfir á málfræðilegan ágreining um orð og notkun þeirra, má komast hjá því að ágreininginn dagi uppi sem óleysta spurningu.

Því er ekki að undra að ágreiningur um verufræði hafi tilhneigingu til að enda í ágreiningi um tungumál. Við megum þó ekki hrapa að þeirri ályktun að það hvað er velti á orðum. Að unnt sé að þýða spurningu yfir á málfræðileg hugtök þarf alls ekki að benda til þess að spurningin sé málfræðileg. Að sjá Napólí er að bera nafn sem getur af sér sanna setningu, sé því skeytt fyrir framan orðin „sá Napólí“; þó er ekkert málfræðilegt við það að sjá Napólí.

Að fallast á verufræði er, að mínum dómi, í eðli sínu svipað því að fallast á vísindalega kenningu, eðlisfræðikerfi svo dæmi sé tekið. Svo fremi að sanngirni sé gætt, þá grípum við til einfaldasta hugtakakerfisins sem við getum fellt óregluleg brot reynslunnar að. Verufræði okkar er ráðin þegar við höfum fundið alla þá hugtakaramma sem eiga að hýsa vísindin í sínum víðasta skilningi, og þau sjónarmið sem ákvarða réttmæta samsetningu einhvers hluta hugtakakerfisins, til dæmis líffræðihlutann eða efnishlutann, eru ekki frábrugðin þeim sem ákvarða réttmæta samsetningu kerfisins í heild. Að svo miklu leyti sem sagt verður um upptöku einhvers vísindalegs kerfis að hún velti á tungumáli, verður hið sama sagt – en ekki meira – um upptöku verufræði.

En hugmyndin um einfaldleika sem leiðarljós við smíði hugtakakerfis er ekki skýr eða ótvíræð. Hún gæti sem hægast birt okkur tvöfalda eða margfalda afstöðu. Ímyndum okkur til að mynda að við höfum sett saman sérlega hagkvæmt kerfi hugtaka til að lýsa af vettvangi beinni skynreynslu okkar. Við skulum gera ráð fyrir að fyrirbærin sem liggja kerfinu til grundvallar – gildi bundinna breytna – séu einstök huglæg fyrirbæri skynreynslu eða athugunar. Án efa kæmumst við þó að því að eðlisfræðilegt hugtakakerfi, sem gefur sig út fyrir að tala um efnislega hluti, gefur kost á fjölmörgu sem einfaldað gæti lýsingar okkar. Með því að draga saman sundraða viðburði reynslunnar og fara með þá sem skynmyndir eins og sama hlutar, smættum við fjölbreytileika samanlagðrar reynslu okkar í meðfærileg, einföld hugtök. Reglan um einfaldleika er sannarlega hið leiðandi lögmál þegar við heimfærum viðburði skynreynslunnar upp á hluti: við tengjum fyrri og síðari hringlaga skynmynd sömu svokölluðu krónunni, eða tveimur ólíkum svokölluðum krónum, af hlýðni við kröfuna um sem mestan einfaldleika í samanlagðri veraldarmynd okkar.

Hér höfum við þá tvö andstæð hugtakakerfi, annað af toga fyrirbærafræði en hitt eðlisfræðilegt. Hvort skyldi fá að ráða? Hvort um sig hefur sína kosti og bæði búa þau yfir einfaldleika hvort á sinn hátt. Og mér virðist bæði eiga skilið að við þau sé lögð rækt. Reyndar má segja um hvort kerfið um sig að einmitt það sé hið frumlægara, þótt í ólíkum skilningi sé: annað þekkingarfræði­lega, hitt efnislega.

Hið hlutbundna eða efnislega hugtakakerfi einfaldar lýsingu okkar á reynslunni, vegna þess hvernig ókjör aðskiljanlegra viðburða reynslunnar tengjast einum og sama svokölluðum hlut; þó eru engar líkur til þess að sérhverja setningu um efnislega hluti megi þýða yfir í tungumál fyrirbærafræði, hvaða ráða sem gripið yrði til. Efnislegir hlutir eru afleidd fyrirbæri sem sníða til og einfalda lýsingu okkar á flæði reynslunnar, rétt eins og innleiðsla óræðra talna einfaldar lögmál talnafræðinnar. Séð af sjónarhóli talnafræði ræðra talna einna væri hin víðari talnafræði ræðra sem óræðra talna eins konar hentug goðsögn, einfaldari en sannleikurinn sjálfur (nefnilega talnafræði ræðra talna) en innihéldi þó þennan sama sannleika í sundruðum brotum. Á svipaðan hátt væri hugtakakerfi efnislegra hluta hentug goðsögn séð af sjónarhóli hugtakakerfis fyrirbærafræðinnar, einfaldari en sannleikurinn sjálfur en innihéldi þó þennan sannleika sem sundruð brot.12

En hvað nú um tegundir eða eiginleika efnislegra hluta? Frá sjónarhóli hins eðlisfræðilega hugtakakerfis verður platonsk verufræði af slíkum toga rétt eins mikil goðsögn og hið eðlisfræði­lega kerfi er í augum fyrirbærafræðinnar. Þessi afleidda goðsögn er hins vegar góð og gagnleg að svo miklu leyti sem hún einfaldar greinargerð okkar fyrir eðlisfræði. Þar sem stærðfræði er innbyggður hluti þessarar afleiddu goðsagnar er notagildi hennar fyrir eðlisfræði nógu ljóst. En þegar ég hef hér talað um kerfið sem goðsögn, þá enduróma ég þá heimspeki stærðfræðinnar sem ég vék að áður undir nafninu formhyggja. En þetta viðhorf formhyggjunnar geta þeir sem aðhyllast hreina fagur- eða fyrirbærafræði tekið upp með sama rétti um hið eðlisfræðilega hugtakakerfi.

Líkingin milli goðsagnar stærðfræðinnar og goðsagnar eðlisfræðinnar er ótrúlega mikil, á nokkuð annan hátt. Lítum til dæmis til þeirrar kreppu sem varð um grundvöll stærðfræðinnar í upphafi aldarinnar með uppgötvun þverstæðu Russells og annarra þverstæðna mengjafræðinnar. Þessum mótsögnum varð að ryðja úr vegi með því að grípa til tiltekinna torskiljanlegra og handa­hófskenndra tækja;13 stærðfræðileg goðsagnagerð okkar varð meðvituð og öllum ljós. En hvað um eðlisfræði? Mótsögn varð ljós milli bylgjufræðilegrar og eindafræðilegrar greiningar á ljósi; og þótt hún væri ekki eins augljós og afgerandi mótsögn og þverstæða Russells, þá grunar mig að ástæða þess sé að eðlisfræði er ekki jafnaugljós og afgerandi og stærðfræði. Önnur alvarleg kreppa samtímans um grundvöll stærðfræðinnar – sem hrundið var af stað 1931 með sönnun Gödels14 á því að til væru óákvarðanlegar setningar í talnafræði – á sér hliðstæðu í eðlisfræði í brigðhyggju Heisenbergs.

Hér að framan réðist ég í að sýna fram á að nokkur algeng rök fyrir tiltekinni verufræði væru skeikul. Þá setti ég fram ljósan staðal sem nota mætti til að ákvarða hvaða verufræðilegu skuldbindingar tiltekin kenning setti okkur. En spurningunni um það hvaða verufræði við skyldum á endanum aðhyllast er enn ósvarað, og ljósasta ráðleggingin er þolinmæði, umburðarlyndi og tilraunaandi. Við skulum fyrir alla muni grafast fyrir um hversu mikið af hugtakakerfi eðlisfræð­innar megi smætta í fyrirbærafræði; eftir sem áður kallar eðlisfræði vitanlega á rannsókn, þótt hún kynni í heild sinni að vera ósmættanleg. Við skulum athuga hvernig, eða að hve miklu marki, náttúruvísindin reynast óháð platónskri stærðfræði, en um leið skyldum við glíma við stærðfræði og kafa í platónskan grundvöll hennar.

Af þeim fjölbreytilegu hugtakakerfum sem best henta þessum ólíku athugunum er eitt – hið fyrirbærafræðilega – sem krefst þekkingarfræðilegs forgangs. Sé horft af sjónarhóli fyrirbæra­fræðinnar er verufræði efnislegra hluta og verufræði stærðfræðilegra fyrirbæra goðsagnir. Ágæti goðsagnarinnar er hins vegar afstætt; í þessu tilviki afstætt við hið þekkingarfræðilega sjónar­horn. Þetta sjónarhorn er eitt af mörgum og svarar til eins af margvíslegum áhugamálum okkar og ætlunarverkum.

Árni Finnsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Sú tilhneiging að greina hugtakalega á milli tilvistar sem eignuð er hlutum sem í raun eru í tíma og rúmi og tilvistar (eða tilveru eða veru) sem eignuð er öðrum fyrirbærum, kann að eiga einhverjar rætur að rekja til þeirrar hugmyndar að athugun á náttúrunni eigi einungis við þegar spurt er um hina fyrrnefndu tegund tilvistar. En þessa hugmynd má jafnharðan hrekja með dæmum um hið andstæða, svo sem „hlutfallinu milli fjölda kentára og fjölda einhyrninga“. Væri til slíkt hlutfall, væri það óhlutstætt fyrirbæri, nefnilega tala. Þó er það einungis með athugun á náttúrunni sem við komust að þeirri niðurstöðu að fjöldi bæði kentára og einhyrninga sé 0 og þar af leiðandi sé ekkert slíkt hlutfall til.

2. Sjá From a Logical Point of View, 152.

3. Sjá Alonso Church: „A note on the Entscheidungsproblem“, Journal of Symbolic Logic 1 (1936).

4. Nánari greinargerð fyrir kenningunni um ákveðnar lýsingar má sjá í From a Logical Point of View, 85 og áfram og 166 og áfram.

5. Nánari umfjöllun um hinar bundnu breytur má lesa í From a Logical Point of View, 82, 102 og áfram.

6. Frekari umfjöllun um slíka aðlögun allra einkvæðra heita að ákveðnum lýsingum má sjá í From a Logical Point of View, 167; einnig í W.V. Quine: Methods of Logic, N.Y. 1950, 218-224.

2. Sjá Gottlob Frege: „On Sense and Nomination“, í Feigt & Sellars: Reasoning in Philosophical Analysis, N.Y. 1949.

3. Sjá ritgerðirnar „Two Dogmas of Empiricism“ og „The Problem of Meaning in Linguistics“ í From a Logical Point of View.

9. Frekari umfjöllun um þetta efni er að finna í ritgerðinni „Logic and the Reification of Universals“ í From a Logical Point of View.

10. Sjá From a Logical Point of View, 125 og áfram.

11. Sjá um þetta efni Goodman og Quine: „Steps toward a constructive nominalism“, Journal of Symbolic Logic 12 (1947), 105-122. Frekari umfjöllun um efnin sem fjallað hefur verið um á síðustu tveimur blaðsíðum má finna hjá Paul Bernays: „Sur le platonisme dans les mathématiques“, L’Enseignement mathématique 34 (1935-36), A.A. Fraenkel: „Sur la notion d’existence dans les mathématiques“, L’Enseignement mathématique 34 (1935-36) og Max Black: The Nature of Mathematics, London 1933.

12. Reiknifræðilega samlíkingin er fengin frá Philipp Frank: Modern Science and its Philosophy, Cambridge 1949, 108 og áfram.

13. Sjá From a Logical Point of View, 90 og áfram, 96 og áfram og 122 og áfram.

14. Sjá Kurt Gödel: „Über formal unentscheidbare Sätze der Principia Mathematica und verwandter Systeme“, Monatshefte für Mathematik und Physik 38, 1936.

 

« Til baka