Færslusöfn

Var Wittgenstein atferlishyggjumaður?

eftir Karl Ægi Karlsson

Hvað greinir Wittgenstein frá atferlissinnum? Hvernig er best að svara spurningu sem þessari? Og er þessi spurning athyglisverð? Svarið, já eða nei, er í sjálfu sér ekki ýkja merkilegt, heldur það sem hyggja þarf að til þess að svarið fáist.

Til að kynnast afstöðu manns til einhvers efnis er kannski nóg að spyrja hann. Hver er afstað þín til þessa? Eða: Ert þú einn af … ? Með þessu móti hefði mátt ávarpa Wittenstein um afstöðu hans til atferlishyggju; Wittgenstein ert þú atferlissinni? Í grein §307 í Rannsóknum í heimspeki er það borið uppá hann af viðmælanda sínum að hann sé dulbúinn atferlissinni, að fyrir honum sé allt nema atferli manna uppspuni (e. fiction).1 Svar hans var að ef hann talaði um uppspuna væri það málfræðilegur uppspuni. Svarið við spurningunni sem varpað var fram í upphafi gæti falist í þessu, þó að hann svari spurningunni ekki beint; nei Wittgenstein er ekki atferlissinni af því að hann segist ekki vera það.

Hér verður farin lengri leið að markinu en að varpa fram einfaldri spurningu. Fyrst verður reynt að skýra atferlishyggjuhugtakið. Þó að fara megi ítarlegar í saumana á tilgangi og tilurð atferlishyggju verður reynt að sýna hve fjölbreytt flóra hún er og hvar hún stendur í dag. Þetta er nauðsyn til að mögulegt sé að ákveða hvað Wittgenstein átti við með atferlisstefnu. Hverju hann var í raun að hafna í grein §307; er hann kannski að vísa til einhverrar almennrar hugmyndar um atferlishyggju? Er atferlishyggja til sem almenn hugmynd? Hvaða grunnþættir tengja saman hinar ólíku nálganir innan þess sem nefnt hefur verið atferlishyggja. Að þessu loknu verður hægt að fella einstaka þætti úr verkum hans að ólíkum skilgreiningum á atferlishyggju: Sá dómur verður notaður til þess að finna svarið við upphaflegu spurningunni.

Atferlishyggja

Þegar blaðað er í uppsláttarritum í sálfræði og heimspeki til þess að glöggva sig á eðli og inntaki atferlishyggju kemst maður fljótt að raun um það að inntakið fer eftir því hver skrifar (og jafnvel hvenær); og eðlið er ekkert! Nefna má til sögunnar eftirfarandi afbrigði atferlishyggju: „sálfræðilega, málvísindalega, frumspekilega, rökfræðilega, aðferðafræðilega, útrýmingarsinna, rökgreiningarlega, vísindalega og áhvílandi.“2 Þessi upptalning er ekki tæmandi, en afar lítið greinir sum þessara afbrigða í sundir. Næst okkur í tíma eru svo verkhyggjuútgáfur af atferlishyggju, sem reyndar er einnig eðlilegt að skipta upp í flokka (allavega þrjá).

Í bók sinni A History of Psychology kemst T. H. Leahey þannig að orði um atferlishyggju: „ … „atferlishyggja,“ eins og orðið er yfirleitt notað, er að verða ótækt til þess að lýsa flokk og ónothæft yfir sögulegt fyrirbæri.“3 Þetta segir hann vegna þeirra fjölmörgu ólíku hópa manna sem töldu sig atferlissinna; þrátt fyrir deilur um margvísleg og mikilvæg efni. Því má segja að þegar komið er fram á miðja öldina er orðið marklaust að kalla einhvern atferlissinna, það innihélt of marga lausa enda. Þetta er ekki neitt einkaálit Leaheys, því strax árið 1967 kemur fram hjá heimspekingnum A. S. Kaufman að ef atferlissinnar eru þeir sem telja atferli þungamiðju rannsókna um manninn, þá þurfa tveir atferlissinnar ekki að deila neinum skoðunum um mikilvægustu efni. Þeir þurfa til að mynda ekki að vera sammála um skilgreiningu á atferli.4 Hann telur að ef fjalla eigi um atferlishyggju verði að gera það með umfjöllun um ákveðna flokka eða tegundir hennar.

Hefð er fyrir því að skipta atferlissinnum í tvær fylkingar eftir afstöðu þeirra til tilvistar þess sem hugræn hugtök eiga að vísa til. Aðferðafræðilegir atferlissinnar voru þeir sem töldu engu breyta hvort hugræn ferli væru raunveruleg eða ekki, rannsóknaraðferðin yrði sú sama. Frumspekilegir atferlissinnar neituðu hinsvegar alfarið að hugrænt ástand eða hugræn ferli væru raunveruleg. Jafnvel þessi hefðbundna, einfalda tvískipting er hlaðin vandkvæðum.

Aðferðafræðilegir atferlissinnar töldu vísindalega aðferð krefjast þess að skýringar yrðu að vera á sviði hins skoðanlega, þ.e. atferlis, hvort sem sjálfsvitund eða hugur væru raunveruleg fyrirbæri eða ekki. Frumspekilegir atferlissinnar töldu hugann – þó ekki sjálfsvitund – vera goðsögn sem ætti að særa úr öllum vísindalegum kenningum. Aðferðafræðilegir atfelissinnar smíðuðu kenningar með millibreytum, hugsmíðum, óskoðanlegum fyrirbærum og ferlum innra með lífveru sem framkallað gæti atferli, þrátt fyrir að hafna sjálfsvitund sem óvísindalegri. Þeir, ásamt hugræðingum, nota oft stór kerfi óvitaðra ferla innan verundar til þess að skýra hegðun án þess að kalla kerfin hugræn. Frumspekilegir atferlissinnar sem hafna tilvist hugans, nota samt sem áður einkafyrirbæri í sjálfsvitund, t.d. tannpínu, sem hluta af skýringum á atferli. Á hinn bóginn eru þeir ófáanlegir til að ræða óvituð og óskoðanleg ferli sem hluta af skýringum. Þegar þessi flokkun er notuð er átt við einhverskonar hreint form af þeirri stefnu sem um ræðir; að staðsetja einstaka menn í þessa flokka er loðið. Skinner er, t.a.m., mjög erfitt að staðsetja og jafnvel Watson einnig þó að þau hugtök sem hann beiti hafi á margan hátt verið frumstæð. Skoðanir þeirra beggja á mörgum mikilvægum efnum, eins og útrýmingu hugrænna hugtaka, mikilvægi þeirra og því hvort hægt sé að þýða öll hugræn hugtök á mál efnislegra hreyfinga, eru óljósar.

Ein skýring á því hve atferlishyggja er sundurlaust kraðak er hversu ólíkar ástæður menn höfðu til að aðhyllast hana.5 Sem dæmi um þetta mætti nefna heimspekingana Gilbert Ryle og Willard van Orman Quine. Sem fyrr mun ekki staldrað við þá staðreynd að þeir voru báðir yfirlýstir atferlissinnar (af einhverjum toga), heldur fundinn staður staður í verkum þeirra sem réttlætir þá yfirlýsingu.

Gilbert Ryle má flokka sem atferlissinna vegna greiningar hans á tvíhyggju. Hann hafnar því að til séu tveir „heimar“ (efnislegur og andlegur) og heldur því jafnframt fram að allt hugrænt sé einkalegt. Þetta tvennt leiðir til sjálfsveruhyggju og þegar Ryle gefur sér, til að bregðast við þessu, að allt sé úr „einum heimi“ og þýða megi hugræn hugtök á mál atferlis, er hann búinn að skilgreina sig sem atferlissinna (Kaufmann, 1967). Af þessu er að sjálfsögðu ekki hægt að ráða hvort þessi kenning sé afurð atferlishyggju hans eða hvort að kenningin geri hann að atferlissinna; kenningunni er alltént ekki hægt að halda fram án þess að vera atferlissinni. Þó að báðir séu atferlissinnar er Quine af öðrum meiði en Ryle. Hann er útýmingaratferlissinni; samkvæmt Byrne má greina tvær ástæður sem réttlæta flokkun hans með atferlissinnum.6 Í fyrsta lagi er sú skoðun hans að allt tal um langanir sé ekki rökgreinanlegt7 og í öðru lagi vísar hann til kenningar sinnar um þýðingarbrigði þar sem engin staðreynd8 segir hvað tungumál merki, sé hliðstætt því að engin staðreynd um mann segi hvað hann langar.9 Það má segja um Quine að þessar ástæður sem hér eru gefnar fyrir því að flokka hann með atferlissinnum, séu að hans mati til marks um efnishyggju en atferlishyggja sé forsenda þeirra. Quine tengdist vínarhringnum sem hafði það að meginmarkmiði sínu að finna leiðir til sameiningar vísindanna og tungumáls þeirra. Fyrir liðsmönnum vínarhringsins var atferlishyggja – (frumspekileg atferlishyggja) – fyrst og fremst kenning um merkingu hugrænna hugtaka, og atferlishyggja sem kenning um menn afleiða af henni.

Vísindalega atferlishyggju aðhylltust einna helst fræðimenn með sálfræðilegan bakgrunn. Helst má kenna þessa gerð atferlishyggju við Skinner, C. L. Hull og E. C. Tolman, og má lýsa henni í nokkrum skrefum; á því formi virðist atferlisstefna mest í takt við það sem Skinner segir árið 1974: „Atferlishyggja er ekki vísindi sem fæst við atferli manna, heldur heimspeki þeirra vísinda.“10 Skrefin eru eftirfarandi: i) kennimörk fyrir góðri kenningu um manninn felast í stjórn og forspá hegðunar; ii) til að fylgjast með því atferli sem spáð var þarf að takmarka gagnasöfnun við skoðanlega hreyfingu eða viðburði; iii) slíkir hlutir eru allir atferli er kemur að mönnum; iv) því er öll forspá er kemur að mönnum bundin við afmarkað atferli (eða afurðir þess; v) forspá vísindanna er hámörkuð við þær aðstæður þegar næst að tengja með lögbundnum hætti ytri aðstæður (óháð breyta) og atferli; þessi „lögmál“ eru tölfræðileg; vi) ef slíkar óháðar breytur eru hluti af mönnum verða þær að vera atferli; vii) af þessu leiðir að helsta markmið vísindalegra rannsókna um manninn ætti að vera að finna lögmál sem tengja ytri, skoðanlegar aðstæður við það atferli sem þeim fylgir. Þessi dæmi um frumspekilega og vísindalega atferlissinna sýna hvernig atferlishyggja sem forsenda stýrir áhangendum sínum á ólíka stigu; hvernig hinar ýmsu kenningar leiða kenningasmiðinn að atferlishyggju.

Þessi skýra sundurliðun á forsendum vísindalegrar atferlishyggju vekur óneitanlega vonir til þess að hægt sé að segja með vissu hverjir aðhylltust hana og hverjir ekki. Það kann til að mynda sýnast kyndugt að telja Toman og Hull til fylgismanna þessarar stefnu en báðir notuðu „óskoðanlega atburði“ sem hluta af skýringum. Hull með því að færa langar keðjur áreita og svörunar11 inní huga viðfangsins og Tolman til dæmis með tilraunum sínum á hugkortum rotta. Í þessum tilraunum, sem fólust í því að fylgjast með hvernig rottur gátu ratað um völundarhús í ætisleit, taldi Tolman sig geta dregið ályktanir um tilvist korts af völundarhúsinu sem rottan lærði smám að beita (Leahey, 1992). Segja má með nokkurri vissu að báðir aðhylltust þessa útgáfu atferlisstefnu einhverntíma á ferlinum.

Það eru fáir sem aðhyllast atferlishyggju á því formi sem hér hafa verið nefnd sem dæmi nú á dögum. Atferlishugtakið hefur fengið meiri athygli en áður og það skilgreint nákvæmar. Það skapar aftur á móti ný vandamál fyrir atferlissinnna til þess að taka afstöðu til; eftir því sem þetta lykilhugtak er skilgreint þrengra því erfiðara er að vera atferlissinni.

Atferlishyggju í samtímanum, sem er orðin það samdauna verkhyggju að vart má greina í sundur, má skipta í þrennt. Fyrst má nefna það að telja atferli nægilegt fyrir hugræna virkni. Það er: allt það sem hefur engar tilhneigingar til atferlis hefur enga hugræna virkni. Þessa útgáfu af atferlisstefnu má með nokkurri vissu telja runna undan rifjum Wittgensteins (Byrne, 1994; Wittgenstein, 1994/1953) úr greinum §281 til §284 í Rannsóknum í heimspeki. Þegar hann talar um sársauka og það að upplifa hann, í grein §281, kemur fram afstaða hans til manngerfingar hluta. Aðeins er hægt að segja að verund hafi ástand eins og að sjá, finna til, hafa meðvitund, ef hún er lifandi maður eða líkist (hagar sér eins og) lifandi manni. Hægt er að ímynda sér að Wittgenstein sé tilbúinn að manngera þær verundir sem hagi sér sem lifandi menn: vélmenni, tölvuforrit. Líklegra er þó að Wittgenstein meini að málfræði setninganna verði markleysa ef hún beinist ekki að þeim verundum sem hafa mannlega eiginleika. Sterkara formi af verkhyggjuættaðri atferlisstefnu má lýsa með eftirfarandi forsendu: Allt það sem hefir tilhneigingar til atferlis, að undanskildum einföldum kerfum, hefur nauðsynlega hugræna virkni. Þessi krafa um að kerfin sem um ræðir verði að vera flókin að innri gerð birtist einnig nær samhljóma hjá Wittgenstein.12 Bandaríski heimspekingurinn Daniel Dennett er einn helsti fylgismaður þessarar stefnu. Dennett, sem Ryle hafði mikil áhrif á, er svarinn andstæðingur þess að það þurfi ákveðna innri gerð til að búa yfir vitsmunalífi. Því er í hans skilningi engin munur á verund sem hagar sér á ákveðinn hátt, til dæmis í samræmi við einhverja löngun eða kerfi af löngunum og vél sem hagar sér eins (Byrne, 1994; Gazzaniga, 1997). Þessi tvö nútímaafbrigði eru ekki sterk form af atferlishyggju, til að mynda felst ekki í þeim að tvær verundir með „sömu“ tilhneigingar að atferli hafi sama ástand í heila eða huga. Þriðja og seinasta afbrigðið af samtímaatferlishyggju felst í því að líta svo á að sálrænar eigindir fylgi í kjölfar tilhneiginga til atferlis. Því ef ástand x er ólíkt hjá tveim verum er atferli y einnig ólíkt milli þeirra. Þessi afstaða er ekki verjandi án þess að gefa sér að hægt verði að samsama sálrænum eigindum við efnisleg ferli í heila; eða í það minnsta að þau hvíli á þeim.

Þessi stutta og óhnitmiðaða ferð í afkima atferlishyggjunnar gefur til kynna að vandasamt sé að greina í milli þeirra sem eru atferlissinnar og þeirra sem eru það ekki; ekki síður en að flokka þá sem segjast vera atferlissinnar.

Heimspekingurinn Warner Fite skrifaði, árið 1913, um þessa nýju tísku sálfræðinganna að líta framhjá því sem hann taldi vera það sem greindi menn frá dýrum öðru fremur, sjálfsvitund. Og hugsaði með hryllingi til þess hvernig menn ætluðu að stunda sálfræði án tilvísunar til hugræns ástands. Hann skrifar:

Góð sálfræðileg greining lítur framhjá persónulegri reynslu af hinu andlega. Vísindaleg sálfræði er þá lokaafurð þess sem kalla má samsæri náttúruhyggjunnar, í henni felst að rannsóknarmaðurinn sver sérkennilegan eið þess að öll hans þekking komi af athugun á hátterni annarra … og aldrei lítur hann þá í ljósi eigin reynslu.13

Þessi orð Fite taldi Leahey ná yfir grunnstef atferlissinna; nýtti hann þau sem skilgreiningu og gaf þeim sem undir hana féllu sæmdarheitið „behavioralists14 til aðgreiningar frá eldra hugtakinu „behaviorists.“ Nýja hugtakið er mun víðara en engu að síður gagnlegt. Undir það falla allar þær undirtegundir sem fyrr voru nefndar ásamt hugfræðikenningum samtímans! Mun ég gera að minni þessa snjöllu tilraun og nota orðið atferlissinni í merkingunni „behavioralisti“ hér eftir. Atferlissinnar reyna að spá fyrir um, stjórna og skýra hegðun án tilvísana í sjálfsvitund. Markmiðið er að spá fyrir um, stjórna og skýra atferli – ekki sjálfsvitund.

Nú þegar gert hefur verið grein fyrir þeim erfiðleikum sem felst í því að skilgreina og flokka atferlishyggjumenn og reynt að bregðast við því með að beita skilgreiningu Leaheys á atferlissinnum, er hægt að víkja að Wittgenstein í tegnslum við atferlishyggju.

Wittgenstein og atferlishyggja

Endanleikahyggja og atferlishyggja eru um margt áþekkar. … Hvor tveggja neitar tilvist einhvers, hvor tveggja með það að markmiði að forðast rugling.15

Þessi tilvitnun í Wittgenstein varpar ljósi á afstöðu hans til atferlishyggju. Í henni felst, samkvæmt honum, höfnun á einhverju (huga, qualia!) til þess að forðast rugling. Þetta er greinilega eitt afsprengi þess sem kallað hefur verið atferlishyggja, en klárlega ekki allt umfang hennar. Það var viturlegt hjá Wittgenstein að segja höfnun á einhverju. Dennett hafnar qualiu sem skýringarefni (explanans) en neitar ekki tilvist hennar. Skinner hafnar frjálsum vilja og óskoðanlegum fyrirbærum í skýringum. Tilvist hvers efast Tolman um? Eða Hull? Hafna þeir einhverju? Auðveldara er að átta sig á orðum Wittgensteins ef þau eru skilin sem takmörkun eða þrenging fræðasviðsins við það sem talið er skipta máli við rannsóknir eða skýringar. Atferlissinnar skera sig ekki úr við það að þurfa að beina sjónum að ákveðnum hlutum veruleikans við kenningasmíð og verður það ekki talið þeim til vansa. Hvað sem því líður þá vill Wittgenstein ekki taka þátt í þessari höfnun,16 hann vill ráðast að rótum þess misskilnings (málfræðilega misskilnings) sem hann telur grunn atferlishyggju. Í grein §308 gerir Wittgenstein því skóna að eðlilegt talmál formi spurningar um vitsmunalíf á þann hátt að við förum að leita að hugrænum ferlum og ástandi. Við höfum einnig mótaðar hugmyndir um það hvað það er að læra, þekkja ferli og ástand betur. Við það hrynur myndlíkingin og af þeim grunni sprettur atferlishyggja (og fleira). Undir lok greinarinnar segir Wittgenstein: „Og nú virðist sem við höfum hafnað hugarferlum. Og auðvitað viljum við ekki hafna þeim.“17 Þessi orð Wittgensteins tengjast beint tilvitnuninni sem kaflinn hófst á. Það að hafna einhverju, að þrengja fræðasviðið eins og stærðfræðilegir endanleikahyggjumenn og atferlissinnar. Samkvæmt þessum skilningi Wittgensteins, dregur úr andstöðunni við efnið sem hafna á. Með því að hafna t.a.m. reiði sem hugarástandi, er einnig verið að viðurkenna á sama tíma að slík notkun orðanna „reiði sem hugarástand“ eigi rétt á sér (Fogelin, 1995). Wittgenstein vildi meiri fjarlægð frá þessum málfræðilega misskilningi en afneitun leyfði. Með þessum hætti skapar Wittgenstein sér sérstöðu sem erfitt er að finna samhljóm í meðal atferlissinna.

Þess ber að gæta að svo virðist sem Wittgenstein hafi ekki verið vel lesinn í fræðum atferlissinna (ekki fremur en í heimspekihefðinni almennt). Vitað er að hann las The Analysis of Mind eftir Bertrand Russell (gefin út 1921) og er skilningur hans á atferlishyggju æði lýkur því sem þar kemur fram.18 Russell skilgreinir ekki atferlishyggju í bók sinni en víkur margoft að henni í tengslum við til dæmis minni, orð og merkingu þeirra, sannleika og ósannindi, skoðanir og langanir. Oft birtist umræða Russells um atferlishyggju nútímalesendum sem öfgadæmi, notuð til að sýna hvað sé á öðrum endanum í orðræðu; þrátt fyrir að Russell sé yfirlýstur atferlissinni þegar hann skrifar bókina. Til að mynda segir hann í umræðu um minni að hann telji rannsóknir á því ekki fýsilegar með einungis ytri skoðun líkt og atferlissinnar vilji gera. Russell er á þessum fyrstu dögum atferlishyggju að fága og vinna með hugmyndir sem flestar eru ómótaðar og grófar. Hugsast getur að þegar Wittgenstein er að hafna atferlishyggju, með sínum torræða hætti, hafi hann í huga öfgadæmi Russells. Russell getur Wittgensteins einu sinni í bók sinni þar sem hann þakkar honum fyrir að veita sér nýja sýn á trú og samband hennar við það sem satt er. (Russell, 1921/1951; bls. 272). Þetta efni, trú, er samt þess eðlis að fyrirfram hefði mátt ætla að rökgreining þess greindi sundur atferlissinna og aðra. Í Bláu bókinni gagnrýnir Wittgenstein greiningu Russells á ósk. Russell gerir þau mistök að líkja óskinni við spennu sem byggist upp hjá lífverunni við löngun í eitthvað ákveðið sem er fullnægt með því og aðeins því. Wittgenstein bendir á að þetta gerir setninguna „ég óskaði mér peru en epli saddi mig“ að markleysu. Mikilvægt er að átta sig á að þessi athugasemd Wittgensteins er ekki gangrýni á atferlishyggju heldur á Russell. Skinner og fleir seinni tíma atferlissinnar skilgreindu atferli með þeim áhrifum sem það hafði á umhverfið – ekki af löngun í eitthvað. Með slíkri skilgreiningu á atferli, þ.e.a.s. virkni, verða þeir ónæmir á gagnrýni á borð við þá sem Russell er veikur fyrir.

Víða í seinni tíma fræðiritum má finna einfaldaða mynd af atferlishyggju eins og hún birtist í bók Russells. Bandaríski heimspekingurinn Anthony Kenny segir til að mynda að Wittgenstein hafni atferlishyggju með því að viðurkenna að hugrænir atburðir geti átt sér stað án nokkurs atferlis; hann virðist ekki taka eftir að það gera nær allir atferlissinnar líka.19 Kenny reynir ekki að gera grein fyrir hvað átt er við með atferli, en skilgreiningin á hugtakinu atferli er aðalatriði, ef það á að vera eitt af lykilhugtökum í kennimörkum á milli atferlissinna og annarra. Skinner taldi að það að hugsa væri atferli, en samkvæmt skilgreiningu, óskoðanlegt og án staðsetningar. Wittgenstein og erkiatferlissinninn Skinner standa í þessum skilningi hver öðrum nærri. Á blaðsíðu 16 í Bláu bókinni talar Wittgenstein um staðsetningu hugsunar, að ekki sé rangt að segja að hugsunin sé virkni í hönd, barka, höfði eða huga, svo fremi sem við áttum okkur á málfræði þessara setninga. Málfræði þeirra bjóði heim misskilningi um raunverulega staðsetningu hugsunar. (Sjá einnig Rannsóknir í heimspeki, §308.)

Wittgenstein og skinner eru sammála um það að ekkert sé athugavert við notkun setningarinnar „við hugsum í huganum“ í daglegu máli. Fyrir Wittgenstein er hún hættuleg vegna málfræðilegt misskilnings en fyrir Skinner er hún afsprengi lélegrar myndlíkingar milli „ytra“20 atferlis og „innra“ eða hugsunar. Enginn eðlismunur er á þessu ytra og innra hjá Skinner, hann felst í skoðanleikanum. Fyrir Skinner er hugsun atferli og ef hún skýrir ekki ytra atferli er hún bara meira atferli sem þarf að skýra (Skinner, 1974/1993). Mismunur á afstöðu Wittgensteins og Skinners er ekki mikill er kemur að staðsetningu hugsunar, báðir telja hana staðsetningarlausa í einum skilningi og bundna við menn í öðrum. Báðir nefna ástæður fyrir því að fólki sé tamt að staðsetja hugsun í huga, en það er málfræðilegur misskilningur og óheppileg myndlíking.21 Munurinn er fyrst og fremst fólginn í því að hve miklu leyti þeir telja skýringar mikilvægar og að hve miklu leyti mögulegar. Wittgenstein, líkt og Skinner, gerir lítið úr muninum á ytra og innra. Hann segir sjálfur að greining sín á skilningi sé að miklu leyti í anda atferlishyggju vegna þess að hann geri ekki þennan greinarmun.22 Það sem er ekki í anda atferlishyggju er að hann neitar að samsama skilninginn og það atferli sem hann skilgreinist af. Afstaða Skinners er áþekk. Hann segir að skilningur felist í þekkingu á þeim kringumstæðum sem stjórna réttu svari við áreitum. Hann samsamar skilningi alls ekki við atferlið sem hann þekkist af og telur að einhver sem skilur geti framið óviðeigandi atferli. Ennfremur nefnir hann að skilningur geti þýtt ólíka hluti svo sem að geta endurtekið, að þekkja ástæður (e. reasons), að þekkja aðstæður og að skilningur geti dýpkað. Notkun Skinners á setningunum „ég skil“ og „hann skilur“ er ekki í andstöðu við það notkunarsvið sem Wittgenstein ætlar þeim.

Kennimörk23 Wittgensteins fyrir notkun hugtaka eins og sársauka (eða skilnings) hafa verið mikið rædd. Hann telur ákveðið atferli ásamt skilningi okkar á orðinu sársauki réttlæta notkun þess í málsamfélagi. Afstaða hans er hvorki samhljóða þeim atferlissinnum sem samsama sársauka-atferli við sársauka né heldur þeim sem telja atferlið aðeins vera einkenni fyrir eitthvað innra sem orsakar það. Í bók sinni Wittgenstein kallar Grayling þessa tvo póla afleiðslu- og aðleiðsluaðferðir við notkun hugtaka.24 Grayling gerir því skóna að fyrri hugmyndin sé beintengd atferlishygju en sú seinni ekki. Það er að sjálfsögðu einföldun, en Grayling hefur sér til málsbóta að í inngangi bókarinnar segir að henni sé ætlað að skýra afstöðu Wittgensteins fyrir þeim er engan grunn hafa í heimspeki. Einfaldanir hljóta að henta til þess. Hugmynd Wittgensteins um hvernig og hvenær það er rétt að eigna einhverjum sársauka er mitt á milli þessara tveggja póla. Það að eigna einhverjum sársauka er hluti af tungumáli því sem menn nota. Við að læra að nota orðið sársauki, nota menn það ennfremur til að bera kennsl á, upplifa og tala um sársauka (Grayling, 1996; Wittgenstein, 1953/1994, §300–§304). Í grein §304 segir Wittgenstein um skynhrifin af sársauka (sársauki er dæmi, þetta gildir um sálræn hugtök): „Þau eru ekki eitthvað, en þau eru ekki ekkert heldur.“25 Enn á ný til að reyna að verjast málfræðilegum misskilningi sem leiðir af sér leit að hinu ófinnanlega.

Í þessum hugleiðingum liggur svarið við upphaflegu spurningunni; er Wittgenstein atferlissinni? Það að nota upplifun við skýringu á fyrirbæri um manninn er í beinni andstöðu við skilgreiningu Leaheys á atferlissinnum sem skýrð var hér að ofan. Kennimörk fyrir því að eigna öðrum innra ástand er þó ekki eina aðferðin sem Wittgenstein nefnir. Með því að vísa til ættarmóts hugtaka er einnig hægt að eigna einhverjum innra ástand. Wittgenstein nefnir sem dæmi um þetta atferli sem fylgir orðræðu, til dæmis við að segja „ég trúi.“ Ef þessari setningu fylgja ekki ákveðin svipbrigði, látbragð og rómur er hún merkingarlaus. Þeir heimspekingar sem hvað nákvæmast hafa krufið texta Wittgensteins, Baker og Hacker (1980), nefna afar merkilegt atriði hvað þetta snertir. Eru þessar tvær aðferðir til að eigna verundum hugarástand, kennimörk og ættarmót samræmanlegar? Því Wittgenstein virðist beita þeim samtímis, t.d. í grein §164 í Rannsóknunum og bls. 144 í Brúnu bókinni. Kennimörkin eru hrekjanleg, þ.e. ekki er hægt að samsama þau innra ástandi og því víkur notkun sálfræðilegra hugtaka á grunni þeirra frá atferlishyggju. Þetta er skoðun Bakers og Hackers, og þeir eigna Wittgenstein hana líka; en hún er eins og komið hefur fram, ekki í samræmi við þann skilning sem lagður hefur verið í atferlishyggju hér.

Greining Bakers og Hackers á því hvernig Wittgenstein notar ættarmót hugtaka til þess að eigna verundum hugarástand skilur heldur ekki skýrt milli hans og atferlissina. Upptalning á þeim ættarmótseinkennum sem fylgja orðræðu sem notuð eru til þess að eigna eða eigna ekki mælandanum það innra ástand sem orðin gefa til kynna, er atferlislýsing. Og sem slík vel samræmanleg rannsóknum og orðfæri atferlissinna.

Niðurstaða

Grayling, Kenny, Fogelin, Baker og Hacker eru allir sammála um það að Wittgenstin sé ekki atferlissinni. Undirritaður (og Leahey) verðum að taka undir það, en ekki af sömu ástæðu og þeir ofantöldu. Það sem greinir Wittgenstein frá atferlissinnum er vilji hans til þess að nota eigin reynslu (upplifun) og annarra til þess að smíða kenningar um menn og skýra atferli þeirra. Það er í andstöðu við skilgreiningu Fites; samkvæmt því er hann alls ekki atferlissinni.

Á blaðsíðum 47–48 í Bláu bókinni í umræðu sem sprettur úr hugleiðingu um eðli efnis og anda ræðir Wittgenstein persónulega upplifun. Erfitt er að grípa nákvæmlega um það sem hann segir og ég gæti haldið áfram að stilla orðum hans upp á móti orðum atferlissinna. Til hvers? Atferlishyggja er ekki ein heilsteypt stefna, hún er samansafn af litlum rannsóknarhefðum, mótmælum og þægilegum einföldunum; ættarmótseinkennin halda henni saman. Það eru hinar þægilegu einfaldanir sem Wittgenstein á helst ekki heima í. Með því að bera saman Wittgenstein og atferlissinnana má finna stað og stað sem þeir eru ekki sammála en það er vafasamt hvort það dugi til þess að greina þá í sundur. Quine er t.a.m. yfirlýstur atferlissinni,26. en jafnmikið greinir hann frá Skinner (og ennfremur Watson) og Skinner frá Wittgenstein.

Wittgenstein er í andstöðu við skilgreiningu Fites á fleiri stöðum en í Bláu bókinni, til að mynda við skýringu á því hvernig við lærum að beita sálfræðilegum hugtökum, en þar vísar hann til upplifana. Með því að beita nálgun Leaheys á atferlishyggju má vísa í afstöðu Wittgensteins til upplifana til þess að skilgreina hann frá hugtakinu. Það felur aftur í sér að honum er skipað á bekk með hughyggjumönnum – hvernig sem Wittgenstein hefði líkað það.

Niðurstaðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi: í samræmi við viðteknar skoðanir er Wittgenstein ekki atferlissinni. Með því að bera verk hans við skilgreiningu Leaheys á atferlishyggju má sjá að Wittgenstein á aö mörgu leyti illa heima innan þess ramma. Þessi aðferð er ekki gallalaus vegna þess hve skilgreiningin sem Leahey notar er víð og vegna þess að hún skipar Wittgenstein í aðra fylkingu, hughyggju, sem ekki er rúm til að ræða hér. Ennfremur er Wittgenstein ekki atferlissinni vegna stíls hans og vilja til þess að taka inní skýringarkerfi sitt hugræna, óskoðanlega þætti. Í öðru lagi: Wittgenstein er ekki atferlissinni; en það er ekki vegna þess að hann sagðist ekki vera það, heldur vegna þess að úr verkum hans má lesa að hann getur ekki verið það.

 

Tilvísanir

1. Wittgenstein, L. (1953/1994) Philosophical Investigations. Cambridge: Blackwell.

2. Enska: psychological, linguistic, metaphysical, logical, methodological, eliminative, analytical, scientific, supervenient.

3. Leahey, T. H. (1992) A History of Psychology. New Jersey: Prentice Hall, bls. 271. Á ensku: … „behaviorism“ as it is usually used is becoming useless as a philosophical category and unworkable as a historical entity.

4. Kaufman, A. Sjá í: Edmon, P., ritstj. (1967) The Encyclopaedia of Philosophy. New York: MacMillan Company & The Free Press.

5. Það er önnur góð spurning, hvort ástæður sem einhver hefur fyrir afstöðu skipti máli þegar meta á afstöðuna eða hvort afstaða hans, og það atferli sem henni fylgir, skipti aðeins máli.

6. Byrne, A. Sjá í: Guttenplan, S., ritstj. (1994) A Companion to the Philosophy of Mind. Cambridge, Mass.: Blackwell.

7. Enska: first order logic.

8. Enska: fact of the matter.

9. Gibson, R. F. Sjá í O’Donohue, W & Kitchener, R. F., ritstj. (1996) The Philosophy of Psychology. London: Sage Publications.

10. Skinner, B. F. (1974/1993) About Behaviorism. London: Penguin. Bls. 3. Á ensku: „Behaviorism is not the science of human behavior, it is the philosophy of that science.“

11. Enska: stimulus response.

12. Wittgenstein, L. (1958/1994) The Blue and Brown Books. Cambridge: Blackwell.

13. Fite, 1913; sjá Leahey, 1992, bls. 270. Á ensku: True psychological analysis ignores all personal experiences of mentality. The science of psychology is, then, the finished result of what we may call the conspiracy of naturalism, in which each experimenter has bound himself to a strange oath to obtain all his knowledge from observation of the actions of his fellows…and never conceive them in his own expereince of his living.

14. Hugtakinu var ætlað að vera andstæða hughyggju (e. mentalism).

15. Wittgenstein, L. Remarks on the foundations of Mathematics, II, 18; sjá í Fogelin, R. J. (1987) Wittgenstein. New York, Routledge. Bls 190. Skáletrun mín.

16. Þegar kom að stærðfræði, leiddu strangar þekkingarfræðilegar kröfur Wittgensteins hann að endanleikahyggju (e. finitism).

17. Wittgenstein, L. (1953/1994). Á ensku: And now it seems as we have denied mental processes. And naturally we don’t want to deny them.

18. Russell, B. (1921/1951) The Analysis of Mind. London: George Allen & Unwim ltd.

19. Kenny, A. (1973) Wittgenstein. London: Allan Lane, Penguin Press.

20. Munurinn á ytra og innra atferli, samkvæmt skilningi Skinners, virðist ligja í því að hið fyrra er skoðanlegt en hið seinna ekki. Að skilgreina skoðanleika verður að bíða betri tíma.

21. Þess má geta að ekki eru allar líkingar óhepplilegar að dómi Wittgensteins, þó þær geti verið til trafala við heimspekiiðkun.

22. Early Big Typescript, bls. 310. Sjá í: Baker, G. P. & Hacker, P. M. S. (1980) Wittgenstein, Understanding and Meaning. Oxford: Basil Blackwell. Bls. 637.

23. Enska: criteria.

24. Grayling, A. C. (1996) Wittgenstein. Oxford: Oxford University Press.

25. Enska: It is not something, but it is not nothing either.

26. Fræg tilvinun í Quine er á þessa leið: „… I do consider myself as behavioristic as anyone in his right mind could be.“ Sjá: Quine (1976) „Linguistics and Philosophy;“ sjá í Gison, 1996

 

« Til baka

Varúð – heimspekingur á ferð!

eftir Gunnar Sigvaldason og Sigríði Þorgeirsdóttur

Varúð – heimspekingur á ferð!

Um heimspeki Peters Singer

Næstkomandi laugardag, þann 6. september, kl. 14, mun Peter Singer, einn umdeildasti heim­spekingur samtímans, halda fyrirlestur í hátíðasal Háskóla Íslands. Í erindi sínu mun Singer tala um heimspeki náttúruverndar og um gildi náttúrunnar fyrir manninn. Singer hefur sjálfur haft afskipti af umhverfismálum í heimalandi sínu Ástralíu, en hann hefur þó einkum getið sér orð á þeim sviðum heimspekinnar sem fjalla um dýra- og lífvísindasiðfræði. Þar hefur honum rækilega tekist að hrista upp í viðteknum skoðunum. Hann talar tæpitungulaust um mörg stærstu siðferðilegu álitamál samtímans og hann er óhræddur við að setja fram óvenjuleg svör við þeim. Fáir eða engir samtímahemspekingar hafa fengið jafn heiftarleg viðbrögð við skoðunum sínum og Peter Singer. Af þessum sökum hefur hann jafnvel verið kallaður „hættulegasti maður í heimi“! En hvernig skyldi heimspekingi – sem vanalega láta sér nægja að velta vöngum án þess að taka beinlínis afstöðu eða gera eitthvað í málunum – takast að öðlast slíkt orðspor?

Alvöru heimspekingur?

Peter Singer er ólíkur flestum öðrum heimspekingum. Hann skrifar um siðferðilegan vanda sem venjulegt fólk glímir við, á þann hátt sem venjulegt fólk getur skilið. Þetta er líkast til ástæðan fyrir því að bók hans Hagnýt siðfræði (Practical Ethics,1979) er mest selda heimspekirit sem háskólaforlagið í Cambridge hefur gefið út og bók hans um Frelsun dýranna (Animal Liberation, 1975) hefur verið prentuð í næstum hálfri milljón eintaka. Síðarnefnda ritið er af mörgum talið biblía dýraverndunarsinna, t.d. lætur Paul McCartney selja hana á tónleikaferðalögum sínum um heiminn. Singer er líklega eini heimspekingurinn sem fengið hefur tækifæri til að viðra skoðanir sínar í hinum fræga bandaríska fréttaþætti 60 Minutes II. En getur slík „fígúra“ talist alvöru heim­spekingur sem taka má mark á? Það þarf alltént ekki að koma á óvart að sumir kollegar Singers vildu til skamms tíma svara þessari spurningu neitandi. Á þessu hefur þó orðið rækileg breyting. Á nýafstöðnu heimsþingi heimspekinga sem haldið var í Istanbúl dagana 10.–17. ágúst sl. var Singer einn aðal fyrirlesaranna og gerði sér m.a. lítið fyrir og fyllti 2.500 manna fyrirlestrasal. Leiðarstef þingsins var „heimspeki andspænis heimsvandamálum“. Í erindi sínu fjallaði Singer um ástand heimsins um þessar mundir, hnattvæðinguna og framtíð Sameinuðu þjóðanna. Hóf Singer lesturinn – eða réttara sagt málflutninginn, því hann talar iðulega blaðlaust – á því að kryfja hugtakið „fyrirbyggjandi árás“, en eins og kunnugt er hafa bandarísk stjórnvöld lýst því yfir að þau telji réttmætt að ráðast í fyrirbyggjandi skyni á lönd sem öðrum löndum stafaði ógn af. Varpaði Singer í þessu sambandi m.a. fram þeirri ögrandi tilgátu, að ef yfirlýsing Bandaríkjanna væri tekin bókstaflega mætti færa rök fyrir því að ýmis lönd, s.s. Norður-Kórea, hefðu ríkari ástæðu til að fara í fyrirbyggjandi stríð gegn Bandaríkjunum en Bandaríkin gegn þeim! Komst Singer að þeirri niðurstöðu að í raun væri hvorki efnisleg né rökleg réttlæting fyrir kenningu Bandaríkjastjórnar um fyrirbyggjandi árásarstríð, heldur væri um að ræða gerræðislega ákvörðun eina stórveldisins sem eftir er í heiminum. Líkti hann yfirstjórn Bandaríkjanna við „Leviathan“ eða harðstjórann sem Thomas Hobbes dró upp mynd af í samnefndu stjórnspekiriti sínu.

Tegundarremba

Það er þó einkum afstaða Singers til tveggja málefna sem gert hefur hann jafn umdeildan og raun ber vitni. Í fyrsta lagi er um að ræða gagnrýni hans á svokallaða tegundarrembu (speciesism) sem kveður á um algera sérstöðu dýrategundarinnar maður meðal annarra dýrategunda sem byggja þessa jörð. Í öðru lagi hefur Singer storkað lesendum sínum með því að efast um hefðbundnar hugmyndir vestrænnar heimspeki um mannhelgi eða þau sérréttindi sem hljótast af því að við erum menn.

Heimspeki Singers tilheyrir nytjastefnu, en siðfræði nytjastefnunnar hefur það að markmiði að hámarka hamingju sem flestra jafnframt því að draga úr sársauka. Samkvæmt mannskilningi nytjastefnunnar er maðurinn vera sem þráir vellíðan og forðast vanlíðan, en upphafsmaður þess­ara stefnu var Jeremy Bentham. John Stuart Mill, helsti heimspekingur Breta á 19. öld, færði nyjastefnuna í búning sem gerði hana að annarri helstu siðfræðistefnu okkar tíma, en hina má rekja til þýska heimspekingsins Immanuel Kants. Bæði Bentham og Mill voru félagslegir umbótasinnar og Singer er fylgismaður þessarar hefðar. Af þessum sökum vill hann að heim­spekin hafi áhrif, að hún stuðli að betra lífi, réttlátara samfélagi og betri heimi þar sem hamingja sem flestra er í fyrirrúmi. Þetta krefst þess m.a. af okkur sem búum í hinum vestræna heimi að við breytum afstöðu okkar gagnvart öðrum heimshlutum og gagnvart dýrum. Samkvæmt því ber okkur siðferðileg skylda til að hætta dýraáti og gefa hluta tekna okkar til þróunarhjálpar.

„Heimspekingar eru aftur farnir að láta til sín taka“

Singer vakti fyrst á sér athygli með grein sinni „Hungursneyð, velmegun og siðferði“ („Famine, Affluence and Morality“, 1972) þar sem hann hvetur heimspekinga til að láta gjörðir fylgja orðum sínum. Hann byrjar greinina með þessum orðum: „Þegar þetta er skrifað í nóvember 1971 er fólk að deyja í Austur-Bengal vegna skorts á fæðu, húsaskjóli og læknishjálp. … Það er ekki nóg að tala um hlutina. Hver er tilgangurinn með því að tengja heimspeki við opinber (og persónuleg) málefni ef við tökum niðurstöður okkar ekki alvarlega … [en það felur í sér] að breyta samkvæmt þeim.“

Þrátt fyrir að þessi orð séu skrifuð á háannatíma 68-kynslóðarinnar var engu að síður óvenjulegt að sjá slíkar staðhæfingar í fræðilegri ritgerð, enda hefjast þær iðulega með vísunum í löngu dauða heimspekinga og ritskýringum á hugmyndum þeirra. Heimspekingar hafa einnig verið gjarnir á að velta því fyrir sér skilyrðunum fyrir ímynduðum fyrirmyndarheimi í stað þess að huga að því hvernig raunverulega er komið á fyrir veröldinni og finna leiðir til breyta því sem betur má fara. Singer kvaddi sér hljóðs í tómarúmi sem hafði skapast innan akademískrar heimspeki, án þess þó að flýja í útópíur eða óraunhæfar draumsýnir. Vissulega töldu fulltrúar helstu stjórnspeki­stefna þessa tíma, hvort sem það voru frjálslyndir lýðræðissinnar, frjálshyggjusinnar eða marxistar, sig vera að svara kalli tímans. Margir áttu þó erfitt með að tengja kenningar sínar við raunveruleg álitamál og voru þær því eftir sem áður loftkastalar einir. Singer vildi strax hella sér út í glímuna við áþreifanleg vandamál og taldi heimspekina geta nýst við að greina þau og leysa. „Philosophers are back on the job“ fullyrti hann í grein í New York Times Magazine árið 1974 og náði þar með að vekja athygli almennings á hagnýtingu siðfræðinnar. Allar götur síðan hefur hann verið einn atkvæðamesti siðfræðingur samtímans. Ekki hvað síst vegna þess hve hann stuggar við mörgum.

Hvenær lætur maður mann deyja og hvenær drepur maður mann?

Það sem Singer gerir öðru fremur er að benda á tvískinnungshátt í afstöðu okkar til dýra og manna, sem kemur berlega í ljós í ýmsum þeim siðferðilegu álitamálum sem nútíma líf- og læknavísindi hafa fært okkur í fang. Við eyðum milljörðum í að búa háhyrningnum Keikó ‘áhyggjulaust ævikvöld’, en okkur stendur á sama um húsdýr sem eru stríðalin á hormónabættu fóðri og geta sig hvergi hrært í þröngum kössum fyrr en þau eru leidd til slátrunar. Við fram­lengjum með miklum tilkostnaði mannlegt líf sem vart getur talist þess virði að lifa því á sama tíma og við látum viðgangast að börn í þriðja heiminum deyja úr hungri þótt hægt væri að bjarga þeim með tiltölulega litlum tilkostnaði. Singer spyr: Er einhver siðferðilegur munur á því að láta mann deyja og að drepa hann? Hann gengur jafnvel svo langt að efast um að réttlætanlegt sé að bjarga með öllum tiltækum ráðum lífi fyrirbura sem horfir fram á ævilanga fjölfötlun. Er lífið raunverulega svo heilagt? Nei, svarar Singer og varpar þar með fyrir róða einni háleitustu og rót­grónustu hugmynd okkar menningar um mannhelgi. Að dómi Singers gerir líftækni nútímans að verkum að hefðbundnar hugmyndir um manninn og helgi lífsins fá ekki lengur staðist. Við þurfum á nýjum mælikvörðum að halda. En hverjir eru þeir?

„Burt með Singer!“

Þegar Singer ætlaði að halda fyrirlestra um þessi mál í Þýskalandi fyrir röskum áratug mætti hann harðri andstöðu talsmanna samtaka fatlaðra. Hvað eftir annað var komið í veg fyrir að Singer fengi að stíga í pontu og ráðist var að honum með hrópum og skömmum og honum líkt við nasista. Talsmenn fatlaðra sökuðu hann um að hvetja til dráps á fötluðum og að lítilsvirða líf þeirra og tilveru. Þeir ásökuðu m.ö.o. gyðinginn Peter Singer, sem sjálfur missti afa sína og ömmu í útrýmingarbúðum nasista, fyrir að hvetja til mannkynbóta í anda nasista. Málið vakti mikla athygli á kenningum Singers, en hann segir sjálfur að þær hafi verið skrumskældar. En þetta mál átti eftir að draga dilk á eftir sér. Þegar Singer tók við prófessorsstöðu í siðfræði lífvísinda við Princeton háskóla í Bandaríkjunum ætlaði allt um koll að keyra. Steve Forbes, einn af helstu velunnurum skólans, hótaði að hætta að leggja til fé til skólans ef ráðning Singers yrði ekki dregin til baka. Stofnuð voru samtök til að vinna gegn hugmyndum hans. Málið komst í hámæli í fjölmiðlum, en stjórn skólans stóð fast á sínu enda ætlun þeirra að ráða siðfræðing sem hefði örvandi áhrif á umræðuna. Singer hefur svo sannarlega staðið undir þessum væntingum, en eftir hann liggja tugir bóka, einkum á sviði siðfræði og stjórnmálaheimspeki, sem hann hefur ýmist ritað sjálfur eða ritstýrt. Samfara því að vera mikilvirkur höfundur á sviði lífvísindasiðfræði hefur hann gefið út bækur um klassíska höfunda á borð við Hegel, Marx og Darwin.

Þjáningar dýra og manna

Þótt Singer hafi vakið mesta úlfúð vegna gagnrýni sinnar á helgi mannsins, eru kenningar hans um dýr sínu róttækari. Hann telur siðferðilega vafsamt, ef ekki beinlínis rangt, að borða dýrakjöt á meðan við getum lifað góðu lífi á grænmetisfæði. Ástæðan er einföld: Dýr líða þjáningar við þær aðstæður sem þeim eru búnar í iðnvæddri kjötframleiðslu, vísindarannsóknum og snyrtivöru­iðnaði. Singer færir mannskilning nytjastefnunnar yfir á dýr sem hann segir að hafi sársaukaskyn ekki síður en menn. Einu gildi þótt dýr geti ekki tjáð sig í máli eins og menn. Þau geti þjáðst og það eitt skiptir máli. Með þetta lögmál þjáningarinnar að viðmiði geti verið ranglátara að drepa hund en að taka úr sambandi tæki sem viðhalda lífi í dauðvona manneskju sem engar líkur eru á að komist aftur til rænu. Singer er þó ekki þeirrar skoðunar að manneskjur í slíku ástandi séu réttdræpar, eins og sumir gagnrýnendur hans hafa haldið fram. Hann segir ákvarðanir um líf og dauða ráðist af aðstæðum hverju sinni og óskum og viðhorfum viðkomandi einstaklinga og aðstandenda þeirra. Honum er umhugað um að koma umræðunni um þessi mál upp úr þeim spólförum sem hefðbundin viðhorf festa okkur í.

Af þeirri tegund nytjastefnu sem Singer aðhyllist leiðir að þegar valið stendur á milli þess að bjarga tíu ókunnugum börnum eða barni manns sjálfs sé réttara að bjarga hinum tíu. Flestir myndu ugglaust halda því fram að þetta sé andstætt siðferðiskennd okkar sem myndi boða okkur að reyna a.m.k. fyrst að bjarga eigin barni. Af þessum sökum hefur Singer verið gagnrýndur fyrir að gera ráð fyrir að því við séum ofurrökvís og jafnvel kaldlynd í siðferðilegum ákvörðunum okkar. Heimspekingurinn Bernard Williams heldur því t.d. fram að lífið sé ekki jafn einfalt og Singer vilji vera láta og ekki sé unnt að beita formúlum hans á flókin og oft mótsagnakennd siðferðileg álitamál.

Að gefa tíund

Líklega ganga fáir siðfræðingar jafn langt og Singer í að reyna að framfylgja eigin kenningum í verki. Í skrifum sínum um þróunarhjálp heldur hann því fram að við eigum að gefa þeim sem verr eru staddir af auðæfum okkar. Í þessu skyni setur hann fram einfalda reglu: Ef eitthvert okkar á fé eða önnur gæði sem geta betur nýst hinum þurfandi ber okkur að láta þeim þau í té upp að því marki að það skaði okkur ekki sjálf. Í samræmi við þessa kenningu gefur Singer sjálfur hluta tekna sinna til þeirra sem eru þurfandi og allur ágóði af sölu bókar hans Hagnýt siðfræðirennur til þróunarhjálpar. Nytjastefnumenn eins og Singer þróa hins vegar ekki lögmál eða viðmið um sanngjarna skiptingu gæða sem gilda eiga innan tiltekins samfélags eða hafa almennt gildi, eins og réttlætiskenningasmiðir á borð við John Rawls hafa gert. Því hefur Singer verið átalinn fyrir að handahófskennd viðmið sem komi ekki að tilætluðum notum við að draga úr fátækt og misskiptingu.

Singer hefur víða komið við í lífi og starfi. Hann hefur beitt sér fyrir náttúruvernd og bauð sig m.a. fram til þings í Ástralíu fyrir flokk Græningja. Hann vill að heimspeki sýni sig í verki. Af þeirri ástæðu telja margir kollegar hans úr heimspeki hann vera meiri pólitíkus en heimspeking. Það sem vakir hins vegar alltaf fyrir Singer er að greina og skýra rök fyrir skoðunum. Hann segir sjálfur að heimspekin taki við þegar allar staðreyndir máls liggja fyrir. Hann tekur sér þess vegna fyrir hendur að hugsa mál til enda. Af þessum sökum hefur hann oft verið fyrstur til að koma inn á viðkvæm mál eins og um réttinn til lífs sem hann vill ekki einskorða við menn. Hann vill líta á þennan rétt í mun víðara samhengi en almennt tíðkast og það krefst þess að tekið sé tillit til lífsgæða og hamingju.

Kristnir siðfræðingar hafa gengið hvað harðast fram í að gagnrýna Singer fyrir að virða ekki helgi mannlegs lífs sem æðsta gildi. Siðfræðingum af hinni kantísku hefð, sem líklega er áhrifamesta siðfræðistefna samtímans, er uppsigað við mannskilning Singers. Samkvæmt kantískum skiln­ingi er virðing fyrir manninum og þau réttindi sem leidd eru af mannvirðingunni hornsteinn sið­fræðinnar. Innan nytjastefnunnar sjálfrar er Singer umdeildur einkum vegna þess hversu af­dráttarlaus hann er. Þess vegna ásaka margir hann fyrir groddalega sýn á manninn í anda Benthams sem líti aðeins á manninn sem eins konar samansafn kennda á borð við sársauka eða ánægju. Yfirlýstir nytjastefnumenn, eins og Kristján Kristjánsson, segja um Singer að hann sé maður sem hafi komið meira óorði á nytjastefnuna en drykkjumennirnir á brennivínið. Frá sjónarhóli Singers mætti hins vegar álykta að hann teldi að nytjastefnan sé víða orðin svo út­vötnuð að hún sé gagnslítil til að hjálpa okkur að koma auga á leiðir til að draga úr vanlíðan og auka vellíðan sem flestra. Hins vegar kallar slíkt augljóslega á rækilega umræðu um það, í hverju gott líf felist og hvaða skilning beri að leggja í líf sem er þess virði að lífa því.

Gildi náttúrunnar fyrir manninn og réttur dýra

Eins og sagði í upphafi mun Singer næsta laugardag flytja erindi um heimspeki náttúruverndar, gildi náttúrunnar fyrir manninn og eflaust mun hann í því samhengi koma inn á rétt dýra, jafnvel þótt hann forðist að tala um „réttindi“ í því samhengi. Nytjastefnurök eru oft færð fram til rétt­lætingar á nýtingu náttúrunnar fyrir manninn. Singer mun hins vegar væntanlega færa nytja­stefnurök fyrir vernd náttúrunnar. Margir náttúruverndarsinnar forðast að gera það. Þeir óttast að meta og mæla gildi náttúru eftir nytsemi. Oftast er lagður efnahagslegur mælikvarði á nytsemi og þá má náttúruvernd sín oft lítils andspænis meintri ábatasamri nýtingu náttúrunnar. Til stuðnings málflutningi sínum fullyrða margir talsmenn náttúruverndar að náttúran hafi gildi í sjálfri sér. Náttúran verður samkvæmt þeirri skoðun ekki alltaf metin til fjár vegna þess að hún hafi einnig eigið gildi óháð gildi hennar fyrir manninn. Singer gengur þvert á þetta viðhorf því hann gerir ekki ráð fyrir að náttúran hafi gildi í sjálfri sér. Að mati Singers getur náttúran einungis haft gildi fyrir menn og dýr. Það verður því spennandi að heyra hvernig hann færir nytjastefnurök fyrir vernd náttúrunnar.

 
« Til baka