Færslusöfn

Um jafnrjetti og jafnstæði kvenna gagnvart karlmönnum

eftir Eirík Jónsson

Bók J. St. Mills „Kúgun kvenmannsins“ (Subjection of Woman) hefði eins mátt kalla: „Lausn kvenna úr ánauð“, því þetta var tilgangurinn. Hér var til mikils verkefnis vísað, og skorað á þann anda kærleiks og mannúðar, sem lyftir mönnunum af lægri stigum á efri, á stig vaxanda göfug­leiks og framfara. Ánauð kvenmannsins er eins gömul og mannkynið sjálft. Konan var fyrsti þræll á jörðinni, og þó var í henni sá neisti fólginn, sem átti að framleiða vermsl allrar ástar og kær­leika. Það var móðurástin. Hið upphaflega ástand ætla menn hafi farið því nær, sem enn finnst hjá sumum villiþjóðum, t. d. í Afríku og Eyjaálfunni, sem skemmst eru komnar í mannúð og menningarsiðum. Hin kristna þjóðmenning hefur að vísu mikið að gert til að rétta hlut kven­mannsins, en þó eru enn of margar leifar eftir af ójafnaði fyrri alda og hleypidómum. Vér þurfum ekki annað enn benda á, hverjum takmörkum eignarréttur og þegnréttindi kvenna hafa verið háð til vorra tíma í flestum löndum. Ókristilegast og afskræmislegast er þó það þýjamark, sem lögin setja á kvenmanninn fyrir afbrot, sem karlmanninum eru látin hlýða eða honum haldast uppi átölulaust. — Hér þarf ekki berara að mæla. —

Vor öld á það lof skilið, að á síðara hluta hennar hefur hér verið margur steinn úr götu tekinn, og að því er nú á hverju ári kappsamlega unnið, að greiða veg fyrir jafnrétti karla og kvenna. Mest hefur til þessa áunnist, þar sem til atvinnunnar kemur, og kvenmenn nema það nú til atvinnu í þúsunda tali, sem fáum mundi hafa þótt í mál takanda á fyrirfarandi öldum. Vér nefnum fátt eitt til dæmis. Í fyrra stúderuðu 108 stúlkur við háskólana á Svisslandi. Við háskólann í París nema læknisfræði 50 kvenmenn, og við tvo háskóla á Hollandi 40. Vér nefndum í fyrra kvennaskólann (í Girton) í námunda við Cambridge, og eru þar nú drjúgum fleiri. En við háskólana í Cambridge, Lundúnum og Dýflinni nema ýmis fræði hér umbil 750 kvenna (samtals). Nú á að reisa nýjan kvennaskóla nálægt Vindsor, og hefur auðugur læknir, Halloway að nafni, gefið til hans 4 ½ millj­ón króna. Frakkar hafa líka stofnað marga menntaskóla, þar sem stúlkum er ætlað að nema þau fræði, sem allmennt eru kennd í kvennaskólum, á Norðurlöndum og víðar. Til síðustu tíma hafa klaustrin verið helstu kvennaskólarnir á Frakklandi. Hinu sama fer fram á Ítalíu, og þar beiðast konur fullkomins jafnstæðis við karlmenn, t.d. jafnrar heimildar að öllum embættum og umboð­um, sem þær geta gegnt fyrir kunnáttu sakir. Vér látum þess getið, að 150 kvenmenn gegna póst­embættum í Austurríki, og 1000 þjónustu við hraðfréttasendingar í Lundúnum, Dýflinni og Edína­borg. Hvað eignarréttinn og þegnréttindin snertir, þá er því máli vel fram haldið í öllum löndum, og er víða áleiðis komið. Í fyrra var kosningarréttur kvenna (til þingkosninga) borinn enn upp í neðri málstofu Englendinga. Með honum urðu 114 atkvæði gegn 130. Þegar Stúart Mill bar sitt frumvarp fram í fyrsta sinn, fylgdu því ekki fleiri enn 73 atkvæði. Að niðurlagi þessarar greinar skal þess getið, að alþjóðafélag, eða deildir þess í öllum löndum vorrar álfu, kostar mesta kapps um, að takmarka og afnema þau lög, sem hafa fyrir ávirðingar og tálarfall skipað konum í her lastanna og forsmánarinnar.