Færslusöfn

Töfrar málspekinnar

Bernard Williams og Bryan Mage ræða saman

INNGANGUR

Heitin tvö ‘málspeki’ (‘linguistic philosophy’) og ‘málgreining’ (‘linguistic analysis’) eru notuð til að tákna sama fyrirbærið: aðferð í heimspeki sem þróaðist aðallega í hinum engilsaxneska heimi og náði fullum þroska á fimmta og sjötta áratug þessarar aldar. Ég hygg að það sé sanngjarnt að segja að aðferð nánast allra sem síðan hafa fengist við heimspeki hafi orðið fyrir áhrifum frá henni. Hinar tvær miklu miðstöðvar þessarar heimspeki voru Oxford og Cambridge. Í Oxford var áhrifamesti einstaklingurinn J. L. Austin1 og í minna mæli Gilbert Ryle. Í Cambridge var það tvímælalaust Wittgenstein. Þessir og aðrir einstaklingar sem áttu hlut að máli voru, eins og gefur að skilja, ólíkir innbyrðis, en þeir áttu tilteknar grundvallarkennisetningar sameiginlegar. Kannski má orða þær helstu á eftirfarandi hátt:

Allt frá dögum Sókratesar hafa heimspekingar haft tilhneigingu til að spyrja spurninga á borð við „Hvað er sannleikur? . . . Hvað er fegurð? . . . Hvað er réttlæti?“ á þeirri forsendu að því er virðist að hvert þessara orða standi fyrireitthvað – kannski eitthvað ósýnilegt eða óhlutbundið en í öllu falli eitthvað sem á sér eigin tilvist óháð því hvernig orðin eru notuð. Það var eins og heimspekingarnir væru að reyna að brjótast gegnum spurninguna, brjótast gegnum tungumálið, til einhvers ekki-mállegs veruleika sem stæði bak við orðin. Jæja, málspekingarnir komu til skjalanna og sögðu að þetta væri kórvilla – og það sem meira er, villa sem flækir okkur í alls konar öðrum alvarlegum villum í hugsun okkar. Það eru, sögðu þeir, engir sjálfstæðir hlutir sem þessi orð tengjast. Tungumálið er mannaverk: við fundum upp orðin og við ákveðum notkun þeirra. Að skilja hvað orð merkir er ekkert meira eða minna en að kunna að nota það. Tökum til dæmis hugmynd eins og ‘sannleika’: þegar maður skilur til fulls hvernig á að nota orðið ‘sannleikur’ rétt – og skyld orð eins og ‘sannur’, ‘sannsögli’ og svo framvegis – þá skilur maður til fulls merkingu þess. Þessi merking er einfaldlega heildarsumma mögulegrar notkunar orðsins, ekki einhver sjálfstæður hlutur sem er til í einhverjum ekki-mállegum heimi.

Í framhaldi af þessu sögðu málspekingar að eina fullnægjandi leiðin til að rökgreina frumhugtök mannlegrar hugsunar – eða hugtökin sem við reynum að ná tökum á heiminum með eða eiga samskipti hvert við annað með – sé að rannsaka hvernig þau eru í raun og veru notuð. Og að iðka málspeki felst í því að framkvæma slíkar rannsóknir. Reyndar er frægasta bókin í málspeki kölluðRannsóknir í heimspeki (eftir Wittgenstein). Venjulega var slík rannsókn gerð á einu hugtaki í einu – það gat til dæmis verið hugtakið hugur (sem er heiti á því sem er sennilega önnur frægasta bók í málspeki, eftir Gilbert Ryle). Nokkrum árum eftir útgáfu þessara tveggja bóka – bókar Ryles 1949 og Wittgensteins 1953 – hafði málgreining gífurleg áhrif á heimspekina. Á þessum árum fór hún alltént að hafa áhrif á það hvernig greinin var iðkuð af næstum öllum í hinum enskumælandi heimi. Maður sem hefur dvalið mörg ár í Oxford og Cambridge, Bernard Williams2, ræðir þetta við mig. Hann er prófessor í heimspeki í Cambridge og mun innan skamms segja þeirri stöðu lausri og taka við rektorsstöðu í King’s College. Hann var á fyrstu námsárum sínum í Oxford þegar málspekin stóð þar með mestum blóma.

UMRÆÐA

Magee Málspekin táknaði brotthvarf frá því sem hafði tíðkast áður. Og það sem hafði tíðkast áður var fyrst og fremst rökfræðileg staðreyndahyggja3 ( Logical Positivism). Með öðrum orðum var rökfræðileg staðreyndahyggja ríkjandi rétttrúnaður einnar kynslóðar, málspeki annarrar. Ein leið fyrir okkur til að lýsa málspekinni er þá að tala um muninn á henni og rökfræðilegri staðreyndahyggju.

Williams Ég held við höfum verið mjög meðvituð um mismuninn, kannski meðvitaðri um hann en þeir sem skoða þetta allt saman seinna. Aðalmunurinn, held ég, var þessi: Staðreyndahyggjan taldi að mælikvarðinn á merkingarbæra orðræðu og þekkingu væri raunvísindin. Hún viðurkenndi að til væru einnig aðrar tegundir orðræðu, en samkvæmt henni var mælikvarðinn á hvort önnur orðræða væri merkingarbær mælikvarði raunvísindanna. Fyrir staðreyndahyggjunni var heimspeki heimspeki raunvísinda en málgreiningin, eða málspekin, gerði sér aftur á móti fulla grein fyrir að orðræða er af margvíslegu tæi. Það væru til margir ólíkir talsmátar, margar ólíkar tegundir merkingar auk vísindalegrar merkingar og verkefnið var að reyna að uppgötva hvernig þessar margvíslegu aðrar tegundir, sem og hinar vísindalegu, virkuðu en ekki að mæla allt með mælikvörðum raunvísinda og dæma hinar tegundirnar merkingarlausar.

Magee Rökfræðilegir staðreyndasinnar sögðu skýrt og skorinort, var það ekki, að staðhæfingar sem ekki væri hægt að sannprófa með reynslu væru merkingarlausar?

Williams Jú, að undanskildum staðhæfingum í stærðfræði eða rökfræði sem voru taldar sannar einungis í krafti merkingar orða. En vissulega voru allar staðhæfingar í siðfræði eða fagurfræði eða trúarbrögðum og reyndar margar hversdagslegar sálfræðilegar staðhæfingar merkingarlausar samkvæmt mælikvarða staðreyndahyggjunnar.

Magee Og uppgangur málspekinnar hafði þau áhrif að mörg orðræðusvið sem rökfræðilegir staðreyndasinnar höfðu látið róa voru tekin inn aftur.

Williams Já, auðvitað. Að vissu leyti hafði hún mjög umburðarlynda afstöðu. Það sem hún var reiðubúin að segja var þetta: „Heimspeki snýst um að gera sér grein fyrir hvernig við notum orð, um tegundir merkinga sem þau hafa, um lífshættina sem þær eru hluti af. Ef þessir orðræðuhættir eru til þá eru þessir lífshættir til og það þarf að skilja þá.“

Magee Þannig að þegar rökfræðilegir staðreyndasinnar hefðu sagt að sérstaklega trúarlegt tal væri merkingarlaust vegna þess að engin leið væri til að sannprófa neitt af því kynnu málgreiningarsinnar hins vegar að hafa sagt: „Nú jæja, áður en við dæmum þetta merkingarlaust skulum við skoða vandlega hvað nákvæmlega hugtökin sem verið er að nota eru og hvernig þau eru notuð – hvernig þau virka innan þessa sérstaka orðræðuheims.“

Williams Já. Vitanlega er frekar kaldhæðnisleg hlið á þessu öllu af þeirri ástæðu að enda þótt málspekin væri, eins og þú segir, vingjarnlegri í garð trúarlegrar orðræðu en staðreyndahyggjan hafði verið, þá sýndi staðreyndahyggjan henni þá virðingu, í vissum skilningi, að sýna fram á að hún væri merkingarlaus út frá forsendum hennar, reynsluforsendunum. Málgreiningarsinnum hætti dálítið til að segja: „Nú jæja, hér höfum við þennan orðræðuhátt sem er einn lífsmáti líkt og hver annar“ – og þetta var þegar óbeint að túlka trúna á róttækan húmanískan hátt. Málgreiningin hafði tilhneigingu til að líta á trú, og trúarsannfæringu, bara sem mannlífsform, sem tjáningu á mannlegum þörfum. Og þó það séu margir, þar með taldir nú margir í klerkastétt, sem væru sammála þessu, var það ekki hin hefðbundna hugmynd allra um trúarsannfæringu.

Magee Þegar við höfum nú greint málspeki frá rökfræðilegri staðreyndahyggju er annar greinarmunur sem við ættum að gera í upphafi umræðu okkar og það er greinarmunurinn á málspeki (linguistic philosophy) og heimspeki málsins (philosophy of language). Þessi tvö heiti eru svo lík að þeim sem þekkir ekki til heimspeki mætti fúslega fyrirgefast að blanda þeim saman eða að telja að þau væru heiti á sama fyrirbærinu.

Williams Hér er um mikilvægan greinarmun að ræða. Heimspeki málsins, eins og ég skil hana, er ein grein heimspeki, eitt svið heimspekinnar. Hún er sá hluti heimspekinnar sem fæst einkum við spurningar sem tungumálið sjálft vekur. Þetta er nú blómstrandi og á margan hátt tæknileg grein og vitanlega stendur hún mjög nálægt fræðilegum málvísindum. Á hinn bóginn er málspeki, eða málgreining, ekki ein grein heimspeki heldur heimspekileg aðferð, aðferð sem hægt væri að beita við heimspekilegar spurningar sem koma upp í öllum greinum. Hún býður upp á leið til að fást við spurningar, hvort heldur í frumspeki, siðfræði eða hverju sem er, og leggur einkum áherslu á að vera meðvitaður um málið sem þessar spurningar eru settar fram á.

Magee Málspekin gaf visst fyrirheit, var það ekki? Hugmyndin var að það væri ekkert innihald í neinum hluta hugtakakerfis okkar sem við sjálf hefðum ekki sett og þess vegna væri enginn afgangur, ekkert eftir, jafnskjótt og búið væri að framkvæma rækilega greiningu á því hvernig hugtak virkaði. Þetta þýddi að heimspekileg rannsókn gæti leitt til þess að vandamálið væri endanlega leyst.

Williams Já. Frasinn sem svo oft var notaður, og ég held að heyrist stundum enn, er ‘ekki leyst heldur leyst upp’. Hugmyndin var að mörg hinna hefðbundnu vandamála hefðu byggst á misskilningi, á óhóflega einföldum hugmyndum um hvernig tungumál okkar virkaði og þegar maður gerði sér grein fyrir hvernig málið virkaði í raun og veru – þegar við færum að skilja merkinguna sem við höfðum í raun og veru gefið orðum okkar – þá sæjum við að það væri ekki hægt að setja bara tiltekin orð saman og vona að þau fyndu sinn eigin áfangastað, ef ég má orða það þannig. Hugsunin gæti ekki bara þotið gegnum orðin og komist til veruleikans. Það væri einungis það sem við gerðum sem ákvæði merkingu spurninganna. Þessu tengist að margar af spurningum heimspekinnar reyndust alls ekki vera, hver þeirra um sig, nein ein spurning. Þær voru oft safn ólíkra vandamála, ólíkra ráðgátna, sem höfðu verið settar undir einn hatt til einföldunar. Og þegar maður sá í gegnum þetta og hafði sundurgreint vandamálin uppgötvaði hann að mörg hinna hefðbundnu vandamála heimspekinnar höfðu ekki verið leyst heldur horfið. Það þurfti ekki lengur að spyrja þeirra. Og fyrirheitið sem þetta gaf var stórkostlegt – og ákaflega spennandi. Það voru í raun og veru menn sem sögðu að allri heimspeki yrði lokið eftir fimmtíu ár. Hún myndi öll heyra sögunni til.

Magee Vegna þess að þegar búið er að rökgreina öll grunnhugtökin út í hörgul verður ekkert eftir til að gera.

Williams Eða við munum alltént hafa losnað við þau hugtök sem voru tilefni hinna djúpstæðu heimspekilegu vandamála.

Magee Samt er þetta í ósamræmi við annað fyrirheit sem málspekin gaf. Rökfræðilegir staðreyndasinnar héldu heimspekinni undir yfirráðum raunvísindanna, en eins og þú útskýrðir áðan voru málspekingarnir reiðubúnir að íhuga hvað sem er. Ein afleiðing af þessu var að litið var svo á að heimspekilegum aðferðum mætti beita við bókstaflega öll orðræðusvið. Það er engin ástæða til þess að við ættum ekki, á þeirri forsendu, að hafa heimspeki læknisfræði, heimspeki hagfræði, heimspeki fólksfjöldakenningar, heimspeki íþrótta – heimspeki alls afdráttarlaust (en einungis ‘alls’ í merkingunni ‘hvers sem er’). Tökum læknisfræði til dæmis. Nokkur sérkennandi hugtök hennar og aðalhugtök eru ‘heilbrigði’, ‘sjúkdómur’ og ‘lækning’ sem öll verða mjög ráðgátukennd strax og farið er að hugleiða þau í alvöru. Hægt væri að beita heimspekilegum greiningaraðferðum við þau og útlista með því orðræðu á sviði læknisfræði. Nú, einmitt sú staðreynd að hægt væri að gera þetta á bókstaflega öllum orðræðusviðum býður upp á endalaust verkefni.

Williams Já. Ég held ekki að neinn hafi nokkurn tíma álitið að unnt væri að útlista öll hugtök. Þeir álitu að unnt væri að leysa helstu vandamálin upp. Og það stafar af því að til var skoðun á því hvaðan helstu vandamálin kæmu. Auðvitað eru heimspekilegar spurningar um hugtök sem þarf að svara um læknisfræði – til að mynda þegar um andlegt heilbrigði er að ræða hefur sumum þótt sjálft hugtakið geðveiki ráðgátukennt – og heimspekileg rannsókn hefur farið fram á þeim grunni. En hvað snertir viðfangsefni málspekinnar reyndust aðalvandamálin koma upp með tvennu móti. Í fyrra lagi með ákaflega almennum hugtökum – ekki hugtökum sem eru eins sérstök og heilbrigði heldur hugtökum sem koma upp alls staðar eins og hugmyndin um að eitthvað sé það sama og eitthvað annað, eða hugmyndin um að eitthvað orsaki eitthvað annað, eða hugtökin um tíma og rúm. Þetta eru hugmyndir sem við notum á öllum orðræðusviðum og hið afar almenna einkenni þeirra verður tilefni meginbálks heimspekilegra vandamála. Síðari mikilvægi flokkur grundvallarvandamála var þau sem talin voru koma upp á mörkunum milli ólíkra tegunda orðræðu, til dæmis á mörkunum milli þess að tala um efnislega hluti og tala um sálræna hluti. Bókin eftir Ryle sem þú nefndir, Hugtakið hugur, var umfram allt tilraun til að beita aðferðum málgreiningar við spurningar á borð við: „Hvernig vitum við að annað fólk hafi reynslu? Hvað er það fyrir lifandi hlut að hafa hugsanir?“ Nú voru þetta vissulega ekki ný vandamál – sett þannig fram voru þau mjög gömul vandamál í heimspeki. Aðalatriðið var að maður tæki eitthvert svið þar sem vandamálin voru mjög knýjandi og notaði þessar nýju aðferðir. Þá myndu vandamálin ekki líta út eins og áður. Þau myndu leysast upp í flokk aðgreindra hugtakalegra viðfangsefna sem við gætum kannski ráðið við.

Magee Hvert var – fyrir utan fyrirheitið um að leysa öll vandamál upp sem er augljóslega aðlaðandi – hið sérstaka aðdráttarafl máspekinnar fyrir svona margt og svona vel gefið fólk? Því hún hafði, þegar öllu er á botninn hvolft, gífurlegt aðdráttarafl. Fólk smitaðist af henni næstum því eins og sjúkdómi.

Williams Fyrir því voru ástæður á ýmsum stigum. Ein þeirra var að þessi heimspeki sýndi, í svo til öllum sínum myndum, einhverja andstæðu milli þess að vera sprottin af djúpum og alvarlegum hvötum og þess að nota hversdagslegan stíl. Dæmin voru hversdagsleg. Það var vísvitandi tilraun til að forðast allt uppblásið heimspekilegt fagmál. Það var ekki háfleygt, og vegna þess að manni fannst um leið að hann væri í raun og veru að gera eitthvað mikilvægt, þó það liti ekki endilega þannig út, þá veitti þetta sérstaka tegund af því sem mætti kalla sókratíska ánægju, þar sem hið hversdagslega efni þjónaði því sem við vissum öll að væri dýpri tilgangur. Útkoman var nokkuð ólík eftir því hvort um Wittgenstein-stíl eða Oxford-stíl var að ræða, en hinn síðarnefndi var oft vísvitandi og háðslega þurr og gerði um leið í því að eltast við greinarmun vegna þess hvað það var gaman. Til er athugasemd höfð eftir Austin sem var fræg á sínum tíma. Hann hélt málstofur þar sem rökræddur var munurinn á að gera eitthvað í ógáti (inadvertently), fyrir mistök (by mistake), af slysni (accidentally) og svo framvegis, og á einhverju stigi spurði einhver þátttakandinn iðulega: „Prófessor Austin, hvaða stór heimspekivandamál varpa þessar rannsóknir ljósi á?“ Og Austin var vanur að svara: „ Í grófum dráttum: á þau öll.“

Magee Margir létu blekkjast af því hve dæmin voru léttvæg. Enda þótt málspekingar, eins og þú segir, tækju vísvitandi upp úrdráttarstíl og notuðu dæmi sem virtust léttvæg höfðu þeir gilda ástæðu til að nota dæmi af því tæi. Hún var sú að þeir vildu ekki að neitt í því sem þeir sögðu ylti á dæmunum.

Williams Það er rétt. Ég hygg að hluti hugmyndarinnar hafi verið að tæki maður eitthvert augljóslega stórbrotið eða áhrifamikið eða að því er virtist djúpt hugsað dæmi þá stæði hann frammi fyrir tveim valkostum: annaðhvort var það í raun og veru djúpt hugsað og þá væri það næstum því áreiðanlega of flókið og erfitt til að byrja með – við hefðum átt að komast þangað með því að taka eitthvert hversdagslegra málefni fyrst – eða það væri ekki djúpt hugsað og aðdráttarafl þess væri bara falskt. Af þessari afar mikilvægu ástæðu setti málspekin til hliðar hefðbundið orðfæri heimspekinnar. Bæði Oxford- og Wittgenstein-gerðin drógu í efa hefðbundna hugmynd um djúphygli eða dýpt. Þær höfðu auðvitað ólíkan stíl, eins og ég vék að. Þar sem Oxford-stíllinn beitti háði og hugvitssemi og forðaðist hátíðleika þá arfleiddi Wittgenstein hins vegar fylgismenn sína að háleitum kröfum um heilindi og alvöru og trúarlegri óbeit á hugvitssemi. Heimspekingur nokkur sagði einu sinni við mig að það hefðu alltaf verið tvær ólíkar ástæður fyrir því að iðka heimspeki – forvitni og sáluhjálp, og þær samsvara nokkurn veginn þessum tvenns konar stíl og ólíku aðdráttarafli þeirra. En báðar þessar stíltegundir leituðu skilnings í hinu hversdagslega og með atbeina þess, og báðar vöktu gremju með því að gera að engu venjubundnar væntingar til heimspekinnar að hún væri djúpt hugsuð en veitti samt huggun.

Má ég bæta einu við um ódramatísku eða hversdagslegu dæmin? Sjálfur tel ég að notkun þeirra hafi verið langtum skynsamlegra fyrirtæki þegar talað var um skynjun eða þekkingarfræði en hún var þegar talað var um siðfræði eða stjórnmál. Það er athyglisvert að í rauninni þreifst stjórnmálaheimspeki alls ekki þegar málspekin réð ríkjum. Hugtökin um hið dramatíska og alvarlega eru sjálf stjórnmálaleg og siðferðileg hugtök, en það á ekki við um að sjá, vita, telja og önnur slík hugtök.

Magee Ég geri ráð fyrir að enn önnur hlið á aðdráttarafli málspekinnar hafi verið innræting hollrar sjálfsvitundar um notkun málsins, innræting næstum því nýrrar tegundar ábyrgðar – viðurkenning þess að það skiptir í raun og veru máli að maður tjái sig óaðfinnanlega skýrt.

Williams Ég held það skipti máli hvers eðlis þessi sjálfsvitund var. Það er athyglisvert að enda þótt sumir hafi gagnrýnt málspekina fyrir að vera smásmuguleg eða bara orðabókarleg eða léttvæg að þessu leyti, eða fyrir að hafa of miklar áhyggjur af smáatriðum í framsetningu, þá er þetta í rauninni sama krafan og iðulega er gerð af skáldum – til að mynda af Auden í mörgum verka hans og af Yeats – sem fannst að einhvern veginn sé heiðarleiki hvað varðar merkingu, að segja hvorki meira né minna en maður meinar, og að gera sér grein fyrir hvað þetta er, vörn gegn upplausn, ótta og sýndarmennsku.

Magee Það er lítið um skrif þar sem þetta sjónarmið er sett fram, er það ekki: Karl Kraus, George Orwell. . . .

Williams Jú – andstaðan gegn spillingu hugans með óskýru málfari. Við verðum að hafa hugfast að Wittgenstein kom frá Vín þar sem þetta hafði lengi verið mikið áhyggjuefni. Í Oxford hefði það ekki verið orðað þannig vegna þess að það hefði hljómað frekar hástemmt, en í raun var þetta án efa hluti af ástæðunni og að mínum dómi mikilvægur hluti.

Magee Ég hygg að í Oxford, þar sem við báðir stunduðum nám í greininni, hafi þessi áhersla á skýrleika, á ábyrgð, á að gaumgæfa rækilega smávægilegan merkingarmun, verið ágæt þjálfun hugans alveg burtséð frá heimspekilegri þýðingu hennar.

Williams Já. Hún hafði vissulega mjög jákvæðar hliðar. Ég held það verði að segjast að hún hafði einnig einhverjar neikvæðar hliðar hvað þetta varðar.

Magee Ég vil koma að þeim seinna, ekki alveg strax. Við höfum talað um hollustuna við skýrleika en þetta vekur undireins eina eða tvær aðrar spurningar. Flestir myndu vera sammála því að Wittgenstein í seinni heimspeki sinni væri nafntogaðastur allra málspekinga, en enginn gæti sagt að hann væri skýr. Þvert á móti. Og ég vil tengja þetta við annað atriði sem þú vilt kannski heldur taka sér. Ég veit það ekki; ég ætla hvort eð er að segja þetta núna. Vegna ástríðufullrar hollustu við skýrleika höfðu málspekingar djúpa (og ég meina djúpa) fyrirlitningu á sumum heimspekingum sem eru ekki skýrir vegna þess að þeir eru ekki skýrir. Þar sker Hegel sig úr. Á fyrstu námsárum okkar í Oxford-háskóla var Hegel vísað á bug með algerri fyrirlitningu af flestum atvinnuheimspekingum, aðallega vegna þess að hann er svo óskýr. Það var skopast að verkum hans og þau kölluð ‘rusl’, ‘þvættingur’, ‘ekki verð alvarlegrar vitrænnar umhugsunar’. En þetta var samt augljóslega – alltént er okkur það ljóst nú – misskilningur. Með öðrum orðum, skýrleika var gefið gildi í heimspeki sem nú er hægt að sjá greinilega að hann hafði ekki.

Williams Ég hygg að skýrleiki reynist vera flóknara hugtak en menn, eða sumir menn, töldu á þeim tíma. Ég hygg að dæmið um Hegel sé margslungið. Ég held ekki að það hafi bara verið af því að hann var erfiður; það var vegna þess að hann var erfiður á tiltekinn hátt. Til dæmis held ég ekki að Kant hafi nokkurn tíma orðið fyrir annarri eins höfnun og þú talar um, en ég held ekki að neinn gæti sagt að Kant, eða mál Kants, væri framúrskarandi auðvelt. Ég held það verði líka að bæta því við að það voru vissar sögulegar ástæður fyrir því að Hegel var hugmyndafræðilega tortryggilegur. Hann var talinn tengjast alræðisbrenglunum í þýskri vitund. Þetta hefur sennilega verið villa, en algeng tegund villu. Það var sögulegt samhengi. En það er rétt hjá þér að skoðunin á sögu heimspekinnar var afar takmörkuð og stjórnaðist að vissu leyti af einhverju hugtaki um skýrleika. Ef við snúum okkur frá þessu að muninum sem við höfum vikið að á stíl Wittgensteins og til að mynda stíl Austins og orðum þennan mun með því að segja að stíll Austins sé skýr á þann hátt sem stíll Wittgensteins er það ekki, þá held ég að við hljótum að meina að Austin sé einhvern veginn þurrari eða bókstaflegri en Wittgenstein. Það eru mjög fáar setningar í Rannsóknum í heimspeki eftir Wittgenstein sem eru ekki fullkomlega blátt áfram setningar. Í þeim er ekki vafasöm málfræði eða torskilin nafnorð.

Magee Það sem er erfitt að skilja er hvers vegna hann hefur skrifað þær. Maður skilur það sem hann segir en ekki hvers vegna hann segir það.

Williams Það er rétt. Það eru setningar eins og: „Ef ljón skyldi tala mundum við ekki skilja það.“ Spurningin er: „Hvers vegna stendur þetta þarna?“ Og ég held að ein ástæða fyrir því að erfitt er að skilja það sé óvissa, mjög djúpstæð óvissa, um að hvaða marki það tengist röksemdafærslu. Hjá Austin, eða mörgum öðrum málspekingum sem við gætum nefnt, eru skilmerkilegar röksemdafærslur. Það er mikið af ‘þess vegna’ og ‘úr því að’ og ‘af því að’ og ‘það verður nú sannað á tiltekinn hátt’. Hjá Wittgenstein eru ákaflega fáar röksemdafærslur. Verkið samanstendur af undarlegum samtölum hans við sjálfan sig og spakmælum, áminningum, hlutum af þessu tæi, og þetta tengist mjög róttækri skoðun sem hann hafði á heimspeki að hún hefði alls ekkert að gera með sönnun eða röksemdafærslu. Við ættum að nálgast heimspekina, segir hann á einum stað, með því að safna áminningum um hvernig við tölum venjulega, nokkuð sem heimspekinni hættir til að fá okkur til að gleyma.

Magee Það er ekki ólíkt því að reyna að fá fólk til að sjá hluti á tiltekinn hátt – en það gera listaverk almennt, einkum leikrit og skáldsögur.

Williams Ásamt þeirri hugmynd að þegar við sjáum hlutina á þennan hátt sjáum við þá samt á þann hátt sem er óspilltur af fræðilegum ofureinföldunum heimspekinnar. Ekkert annað afbrigði málspekinnar var eins róttækt og Wittgenstein hvað varðar sönnun. En það var þessi tilhneiging sem þau deildu öll með honum að endurheimta margslungna gerð venjulegrar reynslu. Hugmyndin um skýrleika er hér tengd því að setja margslungna gerð í staðinn fyirir óskýrleika. Heimspekinni leyfist að vera flókin af því að lífið er flókið. Og ein hinna miklu ásakana á hendur fyrri heimspekingum er að enda þótt þeir hafi verið óskýrir, erfiðir og hátíðlegir, það sem þeir hafi í raun og veru gert sé að einfalda hlutina allt of mikið. Þeir gerðu til að mynda mikið úr andstæðunni milli sýndar og veruleika, en hugmyndin er að hugsi maður í raun og veru um á hve margvíslega vegu hlutir geta virst vera eitt eða raunverulega verið annað og þar fram eftir götunum – eða hvað mætti ætla að ‘veruleikinn’ væri – þá kemst hann að raun um að öll hugsanatengsl okkar um þetta eru langtum flóknari en þeir eða við höfðum upphaflega gert ráð fyrir.

Magee Fyrir fáeinum mínútum vorum við að tala um hvernig, við skulum segja fyrir tuttugu árum, í hinni nýju dögun málspekinnar menn hneigðust til að halda að með því að nota hinar nýju aðferðir yrði búið að leysa grundvallarvandamál heimspekinnar eftir svo sem tuttugu ár. Jæja, þessi tuttugu ár eru nú liðin og grundvallarvandamál heimspekinnar eru enn hjá okkur. Sem sagt, enda þótt málspekin hefði þá umtalsverðu kosti sem við höfum verið að tala um þá var greinilega eitthvað í grundvallaratriðum rangt í væntingum hennar til sjálfrar sín, og kannski þess vegna í hugmynd hennar um sjálfa sig. Við skulum nú tala um gallana á henni.

Williams Heimspekingar hafa oft séð dögun af annarri öld. Við getum undireins skráð um það bil fimm byltingar í heimspeki, þar sem menn hafa sagt: „Hvers vegna hefur heimspekin verið á villigötum? Nú er hún komin á rétta braut.“ Þeim hættir öllum til að rekast á vandamál sinna eigin aðferða áður en mjög langt um líður og málspekin var ekki ein um það. Ég tel að aðaltakmörkun hennar hafi verið að hún vanmat mikilvægi kenninga. Umfram allt vanmat hún mikilvægi kenninga innan heimspekinnar (þó hjá Wittgenstein væri varla hægt að kalla þetta vanmat – öllu heldur algera höfnun). Hún hafði þar að auki þá tilhneigingu að vanmeta einnig mikilvægi kenninga í öðrum greinum. Ég held ekki að hún hafi haft mjög skýra hugmynd um mikilvægi kenninga meira að segja í vísindunum.

Magee Leyfðu mér að ganga úr skugga um að mér sé ljóst hvað þú átt við þegar þú talar um að vanmeta mikilvægi kenninga. Málgreiningarsinnum hætti til að taka upp eitt hugtak í einu með flísatöngum sínum og láta það undirgangast rækilega greiningu – stundum, til að mynda hjá Austin, nánast í einangrun frá öllu öðru, það er að segja án nokkurrar vísunar til skýringarkenningar sem bakgrunns. Er það þetta sem þú átt við?

Williams Það er hluti af því. En það snýst ekki aðeins um umfang rannsóknarinnar (Austin og aðrir lögðu áherslu á mikilvægi þess að skoða skyld hugtök eða hugtakaflokka) heldur einnig um ástæðuna fyrir henni. Ég held að það sem okkur hætti til að gera hafi verið að taka fyrir einhvern greinarmun eða andstæðu og fara vandlega í saumana á þessu og á hinum ýmsu blæbrigðum sem kynnu að tengjast því og koma skipan á þau eða setja þau fram, án þess að íhuga nægilega vel hvaða bakgrunnur gerði þennan greinarmun frekar en einhvern annan áhugaverðan eða mikilvægan.

Magee Þið stunduðuð greinina í smáskömmtum og reyndar var ‘í smáskömmtum’ orðasamband sem þið sjálfir notuðuð oft til að lýsa starfsemi ykkar, var það ekki?

Williams Iðulega. ‘Í smáskömmtum’ var lofsyrði. Austin notaði afhjúpandi hliðstæðu. Þegar kvartað var um margföldun greinarmunar benti hann á að til væru þúsundir tegunda af einhverri gerð skordýra og spurði: „Hversvegna getum við ekki bara fundið sambærilegan greinarmun í tungumálinu?“ Ja, svarið er vitanlega að ástæður okkar fyrir því að greina tegundir bjallna hverja frá annarri eiga sér rætur í tilteknum fræðilegum skilningi á því sem aðgreinir tegundir, skilningi sem þróunarkenningin lætur í té. En hafi maður ekki einhvern fræðilegan skilning að bakgrunni er hvað sem er jafn ólíkt hverju öðru sem er og manni sýnist.

Magee Með öðrum orðum, maður verður að hafa viðmið. Og þetta viðmið er kenning.

Williams Ég held það verði að segjast, og það var ekki nægilega viðurkennt. Það var misjafnt hjá mönnum að hve miklu leyti þeir sögðu að hægt væri að iðka heimspeki í smáskömmtum en ég hygg að viðurkenning þess að vandamálin væru einungis ákveðin, greinarmunurinn einungis látinn í té, af bakgrunni einhvers fræðilegri eða kerfisbundnari skilnings – þetta atriði hygg ég að mönnum hafi oftar sést yfir.

Magee Hér áðan var ég að tala um hvernig málspekingar voru reiðubúnir að beita verkfærunum á hvert sem er af ýmsum orðræðusviðum. Þegar hér er komið í umræðu okkar má tengja þessa staðreynd við einn hinna alvarlegu galla á málspekinni. Málspekingum hætti of mikið til að líta á heimspeki sem aðgreinda frá öllum viðfangsefnum, eða alltént aðgreinanlega frá þeim. Ég minnist þess að einn af virtustu heimspekingum landsins sagði við mig fyrir um fimmtán árum: „Maður þarf ekki að vita neitt til að vera góður heimspekingur. Maður þarf bara að vera greindur og hafa áhuga á faginu.“

Williams Jæja, hann var vissulega heiðarlegri en sumir. Ég held að margir hafi hugsað þetta en hafi ekki verið svo ósvífnir að segja það. Kannski þetta sé nokkuð athyglisverð söguleg athugasemd um hvernig hlutirnir litu út, eins og þú gefur í skyn. Þetta er að vissu leyti önnur hlið á því sem við sögðum hér á undan um hinn byltingarkennda skilning þessarar heimspeki. Hann virkaði að hluta með því að láta manni finnast að eðli heimspekinnar hefði verið misskilið, að menn hefðu iðkað heimspeki rétt eins og þeir væru að kortleggja hið heimspekilega svið eða fást við sérstaka tegund yfirvísinda, og nú hefðum við nýja vitund um heimspeki sem þýddi að við gætum ekki gefið okkur að hún væri þannig. Og eins og ég hef þegar sagt var Wittgenstein haldinn djúpstæðum efasemdum um að heimspeki gæti verið til nema sem andlegar truflanir sem eiga sér stað þegar hugmyndir okkar um okkur sjálf lenda á villigötum. Þessi byltingarkennda tilfinning hvað varðar heimspeki gerði einnig marga djúpt – og óhóflega – meðvitaða um hvað heimspeki væri og ýtti undir þá tilfinningu að hún væri gerólík öllu öðru. Þetta hvatti svo aftur fólk til að álíta að vísindin, til dæmis, gætu ekki verið heimspekileg í sjálfum sér, gætu ekki haft neitt heimspekilegt við sig. Hérna var heimspekin og þarna voru hinar eiginlegu vísindagreinar. Ég held að menn geri sér nú enn einu sinni mjög ljósa grein fyrir að einhverjir hlutar vísinda eru sjálfir heimspeki vísinda, einhverjir hlutar málvísinda eru heimspeki málvísinda, mikið af sálarfræði er heimspeki sálarfræði. Það eru til svið þar sem þörf er fyrir bæði heimspekilega færni og þekkingu í vísindum eða öðrum greinum sem máli skipta. Tvískiptingin milli heimspeki og alls annars fær á endanum ekki staðist.

Magee Að rjúfa þannig tengsl heimspekinnar við aðrar greinar gerði aðferðina líka gallaða með öðrum hætti: það leiddi til skorts á sögulegum skilningi. Það var mjög lítill skilningur hjá málspekingum á því að hugtökin sem þeir rökgreindu ættu sér sögu. Þeir gáfu furðulega lítinn gaum að áformum þeirra málnotenda sem þeir voru að rökræða málnotkun hjá þegar þetta voru fyrri tíðar menn. Það sem gerir allt þetta enn furðulegra er að þeir settu sjálfir notkun í fyrsta sæti sem mælikvarða á merkingu en leiddu aftur á móti alltaf hjá sér þá einföldu staðreynd að notkun orða er sífelldum breytingum undirorpin.

Williams Ég held að þarna sé um tvö ólík atriði að ræða. Annað gengur út á það að öll hugtök eigi sér sögu. Hvaða hugtak sem vera skal á sér einhverja sögu, og hvað það snertir tel ég að þeir hafi haft verjanlega afstöðu þó hún væri dálítið þröngsýn, en hún var þessi: „Við skulum líta á það núna sem kerfi sem gegnir ákveðnu hlutverki.“ Þetta var að vissu leyti eins og ákveðin tegund mannfræði.

Magee En þegar þeir fjölluðu um hugmyndir Lockes eða Descartes eða einhvers annars látins heimspekings þá hætti þeim til að rökræða við hann eins og hann væri starfsbróðir á sömu kennarastofu.

Williams Þegar komið er að sögu heimspekinnar þá vaknar vitanlega öðruvísi spurning og á því leikur alls enginn vafi að afstaðan til mikils af heimspeki fortíðar hafði það sem kalla mætti sterk einkenni tímaskekkju. Þá athugasemd að meðhöndla heimspeki fortíðar eins og hún væri skrifuð í heimspekitímarit í þessum mánuði gerði einhver til að hrósa þessari aðferð. Ég held ekki að við viljum fara út í kenninguna um sögu heimspekinnar og um þessa frekar furðulegu leið til að fást við hana, en það er sanngjarnt að segja að reyndar er hún nokkuð frjó og örvandi og hefur reyndar fengið þróttmeiri arf en sumar tegundir heimspekisögunnar sem láta sér óhóflega annt um að vera ekki bendlaðar við tímaskekkju.

Magee Við höfum verið að tala um gallana á málspekinni og ég held að sérhver þeirra sem við höfum fjallað um sé raunverulegur. Nú langar mig til að vekja máls á einum sem þú telur kannski ekki vera raunverulegan. Hann er engu að síður algengastur af öllum aðfinnslum. Þeir sem eru ekki heimspekingar hafa ætíð haft, og hafa enn, tilhneigingu til að líta á málspekina sem ómerkilega. Málspekingar, hafa þeir alltaf sagt , eru ‘bara að leika sér með orð’, þeir eru ‘léttúðugir’ og svo framvegis. Hvað mundir þú vilja segja um þetta?

Williams Ja, svarið við þessu er að sumt af henni var vitanlega svona. Sumt af henni var smásmugulegt, léttvægt og leiðinlegt. En alltaf og á öllum tímabilum, og hver sem stundar heimspekina, þá eru að minnsta kosti níutíu prósent hennar, samkvæmt ríflegu mati, frekar léleg og munu aldrei vekja áhuga neins síðar meir nema sagnfræðinga. Þetta á við um margar greinar en það á kannski sérstaklega við um heimspeki. Það er því ekki að undra að mikið af málspekinni sé heldur lélegt – af því að mikið af heimspeki af öllu tæi er heldur lélegt. Málspekin var léleg með sérstökum hætti, sem sé þeim að hún var léttvæg, léttúðug og smásmuguleg í stað þess að vera hástemmd, innantóm og leiðinleg eins og mikið af annarri heimspeki er. Heimspeki getur verið léleg með tvennu móti: Hún getur annaðhvort verið smásmuguleg eða hún getur verið húmbúkk. Málspekin sérhæfði sig í að vera léleg með því að vera smásmuguleg. Það er að minnsta kosti satt yfirleitt, og það er algerlega satt um Oxford afbrigðið sem gagnrýninni sem þú nefndir var sennilega beint gegn. Það ætti að koma fram að sumir sem skrifuðu í anda Wittgensteins hafa verið lélegir í hina áttina. Eins og segja mætti að Wittgenstein hafi leitað dýptar í heimspekinni en Austin hins vegar nákvæmni þá skiptust skrif lélegri fylgismanna þeirra annaðhvort í torrætt húmbúkk eða leiðinlega smásmygli. Nú jæja, verði heimspeki manns léleg þá er smásmyglin að sumu leyti virðingarverðari en húmbúkkið, einkum þegar heimspekingurinn verður að láta sér lynda að vera kennari í faginu. En að þessu frátöldu, sé farið út fyrir lélegu dæmin þá er ásökunin ekki rétt. Það sem er túlkað sem eitthvað léttúðugt: að hafa áhyggjur af hvað setningarnar merkja í raun og veru var nauðsynlegur og ómissandi hluti þeirrar tegundar sjálfskilnings hvað varðar tungumálið – láta það hljóma til að heyra nákvæmlega hvaða tón setningin myndar – sem við töluðum um hér á undan.

Magee Ég veit af fyrri rökræðum við þig að þú ert mjög andsnúinn hugmyndinni, svo vinsælli af því að hún er þægileg fyrir mann, sem kemur fram í orðum eins og þessum: „Hafðu ekki áhyggjur af því sem ég segi, það sem ég meina er það sem skiptir máli.“

Williams Það er rétt. Það var þetta sem málspeki af öllum gerðum var góð í að stoppa fólk í að segja og, það sem skiptir enn meira máli, stoppa það í að finnast. Þetta og sú hugmynd að einhvern veginn hafi ég merkinguna hérna – litla setningin mín mun reyna að tjá þér hana – en ef hún tjáir þér hana ekki þá er það vegna einhvers skorts á ímyndunarafli hjá þér. Við berum ábyrgð gagnvart orðum okkar vegna þess að við höfum ekki, að lokum, þessar merkingar bara innra með okkur, óháð því sem við höfum tilhneigingu til að segja. Setningarnar eru það sem við meinum.

Magee Þú hefur gert góð reikningsskil – hvað stendur eftir að lokum? Hver er arfurinn? Ég skal byrja og svara eigin spurningu með því að nefna eitt einfalt atriði: Arfurinn er mikill. Málspekin hefur haft áhrif á hvernig allir iðka heimspeki nú. En að því sögðu, hvað annað stendur eftir að lokum?

Williams Ja, ég held að atriðið sem við drápum á síðast, atriðið sem snertir ábyrgð okkar gagnvart því sem við segjum, standi eftir hjá okkur; einnig sú hugmynd að heimspekileg vandamál muni ekki endilega hafa það form sem hefðin gaf þeim – sú hugsun að það sem var kallað heimspekilegt vandamál er oft óróasvið sem verður að kanna með þeim næmleika sem málspekin hvatti til. Þetta er vissulega mjög jákvæð arfleifð. Þegar hún er tengd endurheimtum áhuga á kenningum sem heimspekin sýnir nú ljóslega, þá fær maður óvenjulega frjóa samsetningu. Það er þó nokkuð athyglisverð skammtíma söguleg staðreynd að, enda þótt heimspekin sé nú mjög frábrugðin því sem hún var jafnvel fyrir aldarfjórðungi, þá hefur í okkar hefð verið miklu minna um að hafna þessari leið til að iðka heimspeki en iðulega á sér stað við slíka breytingu.

Magee Sú hlið málspekiarfsins sem ég met mest er útvíkkun heimspekilegrar rannsóknar til nýrra efnissviða. Sú hugmynd að hægt sé að beita aðferðum málgreiningar við hugtök á öllum sviðum hefur leitt til þess að til hefur orðið það sem nánast má líta á sem nýjar greinar.

Williams Sú hugmynd að heimspekin fengist við að íhuga tungumálið og um leið að hún hefði ekkert sérstakt eigin viðfangsefni auðveldaði þessa framvindu. Sú staðreynd að hin ströngu mörk milli heimspeki og hinna eiginlegu vísinda hafa leyst upp að miklu leyti (þetta kom fram hér á undan) hefur nú enn frekar auðveldað hana. Málspekin stuðlaði vissulega að tilkomu þessara greina. En takmörkun þessarar heimspeki, umfram allt í Oxford-gerðinni sem var í almennari mæli umtalsverður annmarki, viss tegund bókstafshyggju, hafði samt neikvæð áhrif á hvernig þær voru stundaðar. Hún skildi ekki þá mikilvægu staðreynd að í sögu vísindanna – eða sögu heimspekinnar, ef hún er til umræðu – skipar bókstafleg nákvæmni venjulega annað sæti. Einhver hafði eitthvað nýtt að segja og vegna þess að það var ný innrás í heiminn gat varla hjá því farið að það væri óskýrt, af því að það hlaut nánast að passa illa við þá hugtakanotkun sem fyrir var. Nú, Austin neitaði þessu ekki alfarið. Hann sagði að það sem við yrðum að gera væri að útlista það allt, koma á það röð og reglu, og þá sæjum við hvar við værum stödd hver svo sem kenningin var. Þetta virðist mér núna, og ég held mér hafi virst það þá, vera ósönn mynd. Tökum til að mynda kenningu á borð við kenningu Freuds: Hún gerði nokkuð stóra innrás inn í hversdagsmál okkar. Við neyddumst til að segja hluti sem við sögðum ekki oft – gátum tæplega sagt – áður. Við urðum að segja að fólk tryði einhverju sem það vissi ekki að það tryði, að til væru ómeðvitaðar óskir og annað sem syndgaði að einhverju marki gegn mæltu máli. Mér virðist það nú alröng og ófrjó hugmynd að halda að það sem maður gerir sé að skoða hin málfarslegu tengsl, reyna að koma á þau röð og reglu og vega síðan og meta framlag Freuds. Sé framlag Freuds það sem talið er að það hafi verið þá mun það búa sér til eigið rými. Það er líkt og lifandi jurt sem breiðir úr sér – hún breytir lögun hlutanna í kringum sig. Hún býr sér til eigið rými. Málspekin vanmat í hve mikilvægum skilningi nýjar vísindalegar uppgötvanir búa sér til eigið hugtakarými – að þær, ef svo má að orði kveða, beinlínis rífa niður hluta af máli og hugsun í kringum sig með óvæntum hætti sem kann að virðast í fyrstu stjórnlaus, naumast skiljanlegur. Sú staðreynd að mikið af frjóustu hugsun okkar á einhverri tiltekinni stundu gæti varla annað en verið fálmkennd, lélega ígrunduð og óskýr, er mikilvæg hugmynd sem málspekin, að minnsta kosti í Oxford-gerðinni, hafði ekki nægilegt rúm fyrir.

Magee Það sem ég mundi vilja segja að lokum um málspekina er að hún heldur áfram að hafa, notuð sem aðferð, gífurlegt og varanlegt gildi, og að hún er einungis stórgölluð ef litið er á hana sem heildarhugmynd um heimspeki frekar en tæki. Það var reyndar tímabil á fimmta og sjötta áratugnum þegar margir heimspekingar töldu að heimspeki fælist í að gera þetta. Það var nú bara rangt. En að því tilskildu að henni sé haldið á sínum stað, sem hjálparaðferð, held ég að erfitt sé að gera of mikið úr gildi hennar.

Williams Já – svo framarlega sem fallist er á það mikilvæga atriði (ef ég má orða það þannig) að tækin sjálf og taskan sem þau koma í hafi tiltekið vitsmunalegt sköpulag sem þýðir að þau verði ekki notuð af hvaða heimspekilegum handverksmanni sem er. Sum tækjanna frá sjötta áratugnum getum við í rauninni ekki lengur notað vegna þess að hugmyndirnar sem mótuðu þau virðast nú ósannfærandi. Hins vegar verða öll tækin yfirleitt aðeins notuð af þeim sem fellst á mótandi hugmyndir þeirra – hugmyndir sem ég tel að hafi breytt á djúpstæðan hátt, og haldi áfram að breyta, hugmyndum okkar um heimspekina, tungumálið og hugann.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. John L. Austin (1911-60) var aðalmaður í hreyfingunni sem er þekkt undir heitunum málspeki, Oxford heimspeki eða heimspeki venjulegs máls. Helstu verk hans, gefin út að honum látnum, eru Sense and Sensibilia (1962) og How to Do Things with Words (1962).

2. Bernard Williams dó í júní 2003 á sjötugasta og fjórða aldursári. Þessari samræðu var sjónvarpað hjá BBC á útmánuðum 1978. – B. W. er talinn einn af merkustu og áhrifamestu breskum heimspekingum á seinni hluta 20. aldar. Af bókum hans skulu hér nefndar Descartes: The Project of Pure Enquiry (1978), Ethics and the Limits of Philosophy (1985), Making Sense of Humanity (1995) og síðasta bók hans Truth and Truthfulness (2002). – Þess má geta að Williams er viðmælandi Magees í samræðunni um Descartes í bókinni The Great Philosophers (1987) sem kom út á íslensku 2002 undir heitinu Miklir heimspekingar.

3. Logical Positivism er venjulega þýtt rökfræðileg raunhyggja en þýðandi telur að ‘staðreyndahyggja’ nái betur merkingu þessa afbrigðis raunhyggjunnar (empiricism), því samkvæmt L. P. snýst öll merkingarbær orðræða, fyrir utan stærðfræði og rökfræði, um staðreyndir!

 

« Til baka

Tómas af Aquino og rit hans Um lög

eftir Garðar Gíslason

Tómas af Aquino og rit hans Um lög.1

Þegar Mike Marlies kom hingað til lands með Barböru konu sinni á áttunda áratug síðustu aldar og hóf kennslu í Almennri lögfræði á fyrsta ári í lagadeild Háskóla Íslands með okkur Sigurði Líndal kynnti hann heilagan Tómas af Aquino og fór yfir kenningar hans um lög, sem hann hafði meðferðis í enskri þýðingu. Mörg okkar höfðu þá heyrt getið um heilagan Tómas og náttúruréttinn og Sigurður efalaust lesið eitthvað í honum á frummálinu, latínu, og Gaukur Jörundsson hafði lesið og skrifað um náttúruréttinn í grein í Úlfljóti, riti laganema.2 Þá var ekkert til á íslensku eftir Tómas og hann var fyrir okkur nánast lokuð bók, spekingur í órafjarlægð, upphafinn og dýrlingur að auki, alls ekki mennskur og snertanlegur, heldur í tölu engla. Þorsteinn Gylfason, ritstjóri lærdómsrita Bókmenntafélagsins, hvatti okkur til að koma köflunum um lögin á bók, fékk Þórð Kristinsson til þess að þýða þá og mig til þess að skrifa inngang. Verkið tók sinn tíma en nú er bókin komin. Við það að lesa mig til og skrifa innganginn að bókinni fannst mér ég kynnast Tómasi nokkuð sem persónu og langar mig til að deila þeim kynnum með lesendum. Þorsteini Gylfasyni, sem nú er látinn langt um aldur fram, tileinka ég þetta greinarkorn með þökkum.

I. Æviágrip.

Á fyrri hluta 13. aldar, á tímum krossferðanna, ríkti Sturlungaöld um miðja Ítalíu eins og hér á landi. Lönd páfans voru í kringum Rómaborg en lönd keisara Hins heilaga rómverska ríkis voru beggja vegna landa páfans, að norðan og sunnan. Fyrir norðan kom Langbarðaland og yfir það sem nú er Sviss, Austurríki og Þýskaland náði keisaradæmið allt að Norðursjó og Eystrasalti. Fyrir sunnan lönd páfa var Konungdæmið Sikiley, Suður-Ítalía og Sikiley og yfir því réði keisarinn einnig, sjálfur Friðrik II, stupor mundi, undur heimsins. Móðir hans var Konstansa frá Sikiley svo hann leit á sig sem Ítala og kaus að dveljast í höllum sínum á Sikiley og Suður-Ítalíu.

Rétt við landamæri páfalanda að sunnan var og er hið fræga klaustur Monte Cassino, miðja vegu milli Rómar og Napólí. Aðeins fyrir norðan það í þessum háu fjöllum er bærinn Aquino, gamall bær frá dögum Rómverja og þar rétt norðar bærinn Roccasecca. Þar á fjallstindi stóð kastali Aquino-ættarinnar og þar bjó Landolfo greifi með Theódóru Carraciolo síðari konu sinni, sem var af Normannaættum frá Napólí. Þau áttu þá 3 syni og 4 dætur. Landolfo var hershöfðingi í her keisarans, fógeti og skattheimtumaður. Tveir elstu synirnir, Aimo og Rinaldo voru liðsforingjar í her keisarans með föður sínum.

Um áramótin 1224/1225 jók frúin enn við þessa stóru fjölskyldu er hún fæddi fjórða soninn, sem gefið var nafnið Tommaso. Hann eignaðist svo litla systur, sem fórst ung í eldsvoða þegar eldingu sló niður í kastalaturn þar sem þau voru í gæslu barnfóstrunnar.

Á fimmta ári var Tómas settur til náms í Monte Cassino klaustri, færður kirkjunni sem oblatus, en það var venja á þessum tímum að yngsti sonur aðalsmanns yrði kirkjunnar þjónn. Þar dvaldist hann í 9 ár hjá munkum af reglu heilags Benedikts, sem stofnaði reglu þá er við hann er kennd á 6. öld. Þarna var hann í grunnskóla, lærði að lesa og skrifa latínu. Hann varð fulltíða að skilningi kirkjunnar14 ára gamall 1239. Þá þurfti að rýma klaustrið, það var enn undirlagt í hernaði. Ábótinn lagði til að hann yrði sendur til frekara náms í háskólanum í Napólí. Keisarinn hafði stofnað þennan háskóla um það leyti sem Tómas fæddist, til mótvægis við háskólann í Bologna, sem var undir áhrifavaldi páfans.

Í Napólí komst Tómas í kynni við tvennt sem átti eftir að hafa mikil áhrif á líf hans:

Þar var stundað nám í náttúruvísindum Aristótelesar, sem víða voru bönnuð og litin hornauga, og þar voru menn í nýrri reglu föru- og betlimunka, Dóminíkanar, sem lærðu til þess að predika fyrir fólkinu og forða því frá villutrú. Hann ákvað að ganga í reglu þeirra.

Sú ákvörðun var fjölskyldu hans mjög á móti skapi og var allt gert til þess að reyna að fá hann ofan af henni. Bræður hans fluttu hann með valdi í kastalann og honum var haldið í stofufangelsi í heilt ár. Reyndi móðir hans, sem unni honum mjög, að tala um fyrir honum. Þessi nýja regla betli- og förumunka þótti ekki beint virðuleg og fjölskyldan ætlaði honum æðra hlutverk, t.d. ábóta í Monte Cassino. En allt kom fyrir ekki, hann var ákveðinn og fékk loks vilja sínum framgengt. Þá var hann sendur til frekara náms til Parísar hjá reglubróðurnum Albert mikla3. Þeim merka fræðimanni hafði meðal annars verið fengið það verkefni innan reglunnar að fara yfir rit Aristótelesar, sem þá voru að birtast í latneskum þýðingum, og reyna að sameina þau kristnum fræðum. Tómas fór með meistara sínum til Kölnar og nam þar hjá honum í fjögur ár og vann með honum í þessu mikla verkefni, sem átti eftir að verða hans ævistarf, með mörgu öðru. Tómas varð baccalaureus í guðfræði 1252 en var að svo búnu sendur aftur til Parísar til þess að kenna og vinna að meistaragráðu í fræðunum. Það gerði hann með fyrirlestrum um Liber sententiarum (Bók trúarsetninganna) Péturs Langbarða. Páfinn þurfti að veita undanþágu til þess að Tómas gæti hlotið meistaragráðuna aðeins 31 árs gamall 1256, þar sem lágmarksaldur meistara var 34 ár. Þetta var æðsta menntagráða sem þá var unnt að taka. Doctors-nafnbótin var heiðursnafnbót og hlaut Tómas nokkrar slíkar síðar, jafnvel eftir dauðann4. Þarna má sjá hvílíkur námsmaður hann hefur verið, iðjusamur og duglegur.

Önnur regla betli- og förumunka, sem einnig var nýstofnuð á þessum tíma, var sú sem kennd var við heilagan Frans frá Assisi, Fransiskanar, grábræður. Báðar reglurnar fengu leyfi páfa til þess að predika og berjast gegn villutrú, sem þá var orðin útbreidd. Dóminíkanar eða svartbræður (blackfriars) settu sér það mark að mennta sig og aðra og nota fræðilegar röksemdir gegn villutrúnni, og komu þær sér vel í rannsóknarréttinum5. Þeir lögðu því kapp á að fá kennsluaðstöðu við háskólana, sem nú var verið að stofna víða um Evrópu, og spruttu af því deilur við aðra kennara og fræðimenn, sem ekki voru bundnir reglum eða klerklærðir yfirleitt. Háskólinn í París var helsta menntasetur álfunnar, og þar urðu því mestu deilurnar um stöður og áhrif.

Dóminíkanar höfðu þar tvær prófessorsstöður og Fransiskanar eina, af tólf stöðum, en þeir fyrrnefndu þóttu bera af í kennslunni. Þarna kenndi Tómas og skrifaði í þrjú ár, til 1259, en var þá sendur til Ítalíu til ýmissa starfa á vegum páfans. Í París hóf hann ritun annars stórvirkja sinna, Summa Contra Gentiles. En einmitt á þessum þremur árum komu út í latneskum þýðingum heilu ritsöfn forngrískra heimspekinga í túlkunum heimspekinga araba og gyðinga og þýðingar á ritum Aristótelesar vöktu mikla aðdáun. Þegar Heimspekingurinn virtist setja fram hugmyndir andstæðar kristinni trú var illt í efni. Tómasi var því falið af reglunni að semja kennsluefni í guðfræði og sameina hugmyndir Aristótelesar kristinni kennisetningu. Það gerði hann sannarlega og svikalaust.

Eftir tíu ára dvöl og mikil störf í Napólí, Viterbo og Róm var Tómas aftur sendur til Parísar og kom þangað veturinn 1269. Hann tók við fyrri stöðu í guðfræði við háskólann og tók þátt í deilum lærðra manna um túlkanir á verkum Aristótelesar og þurfti að verja reglu sína gegn árásum andstæðinga fyrir að notast við rit Heimspekingsins yfirleitt í guðfræðinni. Hann hafði á Ítalíu byrjað á stórvirki sínu,Summa Theologiæ, og hélt því nú áfram, enda skyldi það vera kennsluritið fyrir guðfræðinemana, sem honum hafði verið falið að semja. Þetta þriðja Parísar-tímabil Tómasar, eins og það er kallað í fræðunum, var tími mikilla átaka og deilna í heimspeki og guðfræði, og mikilla skrifa og starfa. Loðvík IX var konungur Frakka og sat í höll sinni á eyjunni í Signu þegar hann var ekki í hernaði og krossferðum, en hann var mikill trúmaður og áhugasamur um kristin fræði og helga dóma. Sóttist hann eftir viðræðum við Tómas og bauð honum gjarnan í höllina. Tómas mátti ekki vera að því að stunda veislur en fór þó að skipan reglunnar endrum og eins og eru af þeim miklar sögur. Loðvík var síðar tekinn í tölu dýrlinga og nefnist Saint Louis.

Tómas hélt áfram riti sínu Summa Theologiæ og lauk öðrum hluta verksins, þar sem kaflarnir um lögin standa. Hann var sískrifandi og svo stórvirkur að haft er fyrir satt að hann hafi lesið fyrir þremur og jafnvel fjórum riturum samtímis um mismunandi efni. Hann fór aftur til Ítalíu eftir páska 1272 og átti ekki afturkvæmt til Parísar. Hann stofnaði nýjan skóla reglunnar í sínum gamla háskóla í Napólí og kenndi þar, las fyrir, messaði og baðst fyrir. En þar kom að hann vann yfir sig. Hann varð meira og meira utan við sig og djúpt hugsi og í desember 1273 féll hann í ómegin við messugjörð. Þegar hann rankaði við sér var hann breyttur maður og kvaðst ekki lengur geta skrifað eða lesið fyrir, honum hefðu vitrast slíkar sýnir að allt sem hann hefði hingað til skrifað væri sem strá. Í ársbyrjun 1274 var hann kvaddur á kirkjuþingið í Lyon. Á leiðinni þangað slasaðist hann illa þegar hann rak höfuðið í trjágrein á veginum, en allar ferðir fóru reglubræður fótgangandi. Hann lagðist banaleguna og var færður í klaustrið í Fossanova, þar sem hann var í umsjá Benediktína-munka eins og hann hafði verið barn. Þar lést hann 7. mars 1274 á fimmtugasta aldursári, í gestaherbergi sem skoða má enn í dag. Þá var höfundur Njálssögu að ljúka verki sínu hér úti á Íslandi.

Tómas var stór maður og mikill vexti, hæglátur og þungur á sér, rauðhærður en snemma sköllóttur. Hann var fámáll og dagfarsprúður, kurteis og tillitssamur, velviljaður og góðgjarn en harður í horn að taka í deilum. Hann hræddist ekkert nema þrumur og eldingar. Að loknum löngum réttarhöldum var hann tekinn í dýrlinga tölu árið 1323 í Avignon. Mátti þar litlu muna, þar sem lítt fannst um kraftaverk tengd honum í lifanda lífi, þar til páfinn benti á að rit hans væru kraftaverk, en þau eru yfir 100 talsins og telur tölvan yfir 8 milljón orð. Hann var nefndur doctor angelicus á 15. öld og doctor ecclesiæ á þeirri 16. Trúfræði rómversk-kaþólsku kirkjunnar er að miklu leyti reist á ritum hans.

II. Verk og hugmyndir.

Regla Dóminíkana setti svip sinn á störf Tómasar. Hann var trúr þjónn hennar og gerði það sem fyrir hann var lagt af hálfu yfirmanna hennar, en það var fyrst og fremst að semja kennslurit í guðfræði og sameina hugmyndir Aristótelesar kristinni kennisetningu. Á þessum tíma voru unnin frumverk í þessum fræðum, enda var enduruppgötvun rita Aristótelesar slík opinberun fyrir fræðimönnum þessara tíma, að varla eru dæmi um neina hliðstæðu í hugmyndasögunni. Albert mikla hafði verið falið að byrja á verkinu en Tómas tók við, jók við og gerði allt upp á nýtt6. Til þess að takast á við þetta mikla verk þurfti hann að meta gildi og áreiðanleika þess sem áður hafði verið skrifað í guðfræði, og það var sannarlega ekki einfalt verk á þessum tíma. Þessu til viðbótar komu svo rit Aristótelesar í nýjum þýðingum og fræðirit arabískra heimspekinga um hann, og þar urðu á vegi hans mörg jarðsprengjusvæði, svo gripið sé til nútímamáls. Tómas byrjaði á því að flytja fyrirlestra um hin ýmsu rit Heimspekingsins, sem hann nefndi svo, og voru þeir ritaðir og gefnir út. Þannig komst hann inn í þennan hugsunarheim og gat kynnt hann fyrir samtíðarmönnum sínum og nemendum. Þar vitnaðist mönnum t.d. að til þess að ákveða hvað eitthvað væri þá væri gott að spyrja til hvers það væri og tilgangskenning Aristótelesar náði útbreiðslu. Stjórnspeki Aristótelesar varð mönnum mikil og heillandi ráðgáta, þar sem bent var á að manninum væri eðlislægt að búa í samfélagi og mynda samfélög, maðurinn væri stjórnmálavera, en ekki aðeins félagsvera, eins og heilagur Ágústínus hafði haldið fram. Þarna þurfti Tómas beinlínis að rökstyðja hugmyndir Aristótelesar gegn viðteknum guðfræðihugmyndum kirkjufeðra um stöðu mannsins í heiminum og gagnvart Guði7.

Lítum nú nánar á hið mikla rit hans og þekktasta verk, Summa Theologiæ, sem kalla mætti á íslensku Meginþætti guðfræðinnar, en bókin Um lög er aðeins hluti af þessu stóra verki. Til þess að gefa hugmynd um stærð verksins, þá var það gefið út í nýrri enskri þýðingu á sjöunda áratug 20. aldar í 60 bókum í Skírnisbroti og er bókin Um lög þar sú 28. í röðinni. Lærdómsrit Bókmenntafélagsins eru nú einmitt orðin 60 að tölu, og þessi bók ein þeirra, og mætti því draga upp þá samlíkingu aðSumma Theologiæ samsvari þannig öllum lærdómsritum félagsins til þessa.

Tómas sagði sjálfur að ritið væri kerfisbundið ágrip guðfræðinnar fyrir byrjendur. Þörf væri á slíku riti þar sem rit Péturs Langbarða, sem til þessa höfðu verið helstu kennslurit í guðfræði, væru ekki kerfisbundin og því ill yfirferðar. Ritið er í þremur hlutum en öðrum hluta er venjulega skipt í tvo, svo hlutarnir eru í raun fjórir. Í fyrsta hluta er fjallað um Guð og sköpun heimsins, eðli mannsins og andlegt líf hans, hvernig allt stafi frá Guði og komi frá honum. Annar hlutinn er lengstur og er skipt í tvo hluta: Fyrri hluta annars hluta og síðari hluta annars hluta. Sá fyrri fjallar um siðferðilegt líf mannsins, þ.e. hvernig skynsemi gæddar verur nálgist Guð aftur með aðstoð dyggðanna en í baráttu við lestina. Þar er fjallað um takmark mannsins og almenn siðferðileg efni. Síðari hlutinn fjallar um sérstakar dyggðir og lesti, og er munurinn á fyrri og síðari hluta annars hluta kunnuglegur úr lögfræði, þ.e. almenni hlutinn og sérstaki hlutinn. Þriðji hlutinn fjallar um Jesúm Krist sem sé vegurinn til Guðs og um sakramentin, en þessum hluta lauk hann ekki. Tómas segir að endanlegt markmið mannsins sé að nálgast Guð og þar með yfirnáttúrulegt og ekki á sviði mannlegs lífs, en vegferðin hefjist hér á jörðu. Fyrsti og þriðji hluti eru því nánast hrein guðfræði, en miðhlutinn víkur frá hefðbundinni guðfræðilegri umræðu þessara tíma um siðferðileg efni.

Í öðrum hluta byggir Tómas á siðfræði Aristótelesar og sýnir ferð mannsins á vegum dyggðanna til Guðs á svipaðan hátt og Aristóteles fjallar um leit manna að hamingju og farsæld í siðfræði sinni. Þetta var byltingin, að flétta saman siðfræði Aristótelesar og kristna kennisetningu. Í upphafi annars hluta er almennt fjallað um það hvernig maðurinn nálgist Guð með breytni sinni. Endanlegu takmarki mannsins er lýst og síðan leiðunum að því. Hann fjallar um hamingjuna, hvað hún sé og hvernig henni verði náð. Leitin að hamingjunni sé mannleg iðja og gerðir mannanna eru því skoðaðar. Hann ræðir skipulega verk manna sem gerð eru af skynsemi og síðan ræðir hann tilfinningalífið. Þar næst víkur hann að dyggðum og löstum almennt og síðan að syndinni, sem allt varðar mannlega breytni. Að svo búnu bendir hann á að meginreglur (principia) mannlegrar breytni séu annars vegar þær sem séu mönnum inngrónar, þ.e. siðvenjur, og hins vegar þær sem komi að utan, en það eru annars vegar lög og hins vegar náð Guðs. Í bókinni Um lög eru þeir kaflar ritsins sem fjalla um lög almennt, eðli þeirra og skilgreiningu.

III. Um náttúruréttinn og eðlislögin.

Í heimspeki, guðfræði og lögfræði og félagsvísindum almennt er Tómas einkum þekktur fyrir kenningar sínar um náttúrurétt, sem miklar deilur hafa staðið um8. Margir misskilja þessar kenningar. Fæstir hafa lesið skrif hans sjálfs um þetta, og er útgáfa bókarinnar Um lög liður í þeirri viðleitni að skoða þau og kynnast þeim. Skoðum bókina nánar. Hún er aðeins átta kaflar um lög úr miklu yfirlitsriti um alla guðfræðina, úr þeim hluta þess sem fjallar um siðferðilegt líf mannsins. Nánar tiltekið eru kaflarnir um lögin questiones 90 til 97 í fyrri hluta annars hluta, og vísað til þeirra þannig: 1a2æ 90-97, þar sem 1a2æ merkir prima secundæ.

Spurningarnar sjálfar, eða kaflarnir, bera sín nöfn, en undir hverri eru greinar og þær eru í spurnarformi, eins og títt var í skólaspekinni.

90. spurning er um hvert sé eðli laga almennt: 1. Hvort lögin heyri til skynseminni, 2. Hvort lögum sé ætíð skipað til almannaheilla, 3. Hvort hver og einn geti sett lög með sinni skynsemi, og 4. Hvort hluti af eðli laga sé að þau séu birt opinberlega.

91. spurning er hvort til séu ýmsar tegundir laga: 1. Hvort til séu eilíf lög, 2. Hvort í mönnunum séu eðlislög, 3. Hvort til séu lög manna, 4. Hvort nauðsyn hafi verið á guðlegum lögum, 5. Hvort einungis séu ein guðleg lög, og 6. Hvort til séu lög lostans.

92. spurning er um áhrifamátt laga, hvort þeim sé ætlað að gera menn góða og hvað sé yfirleitt unnt að gera með lögum.

Í næstu spurningum tekur hann fyrir hvern flokk laga fyrir sig: 93. spurning er um eilífu lögin, sem voru ein tegund laga, og sú 94. um eðlislögin í mönnunum, hvað þau séu. Í 95. spurningu tekur hann fyrir mannalög, hvort þörf hafi verið á þeim yfirleitt ef Guð stjórnaði öllu með eilífum fyrirmælum og menn gætu fundið þau með skynsemi sinni (eilífu lögin og eðlislögin) og í 96. spurningu er fjallað um áhrifamátt mannalaga. 97. og síðasta spurningin er síðan um lagabreytingar, hvernig og hvers vegna þær eigi sér stað.

Í lok spurningar 90 dregur Tómas saman skilgreiningu á lögum almennt:

„Lög eru ekkert annað en ráðstöfun skynseminnar sem skipar til almannaheillar, sett og birt af þeim sem fer með umsjá samfélagsins.“ Þarna eru í lögum fjórir eðlisþættir: Þau eru skynsamleg fyrirmæli, til almannaheilla, gefin af þeim sem stjórna samfélaginu og kunngerð með birtingu. Hann komst að þessari niðurstöðu með því að komast fyrst að því að lög séu á sviði skynseminnar sem fær hreyfiafl sitt frá viljanum. Síðan, að lögum sé ætlað að stuðla að almannaheill, að þeir sem stuðli að almannaheill séu almenningur eða þeir sem sjái um málefni almennings í umboði hans, og að lög þurfi að birta til þess að þau geti náð tilgangi sínum. Hann skiptir síðan lögum í fjóra flokka og við þurfum að skoða aðeins nánar hvers vegna hann gerir það.

Í fyrsta hluta ritsins sýnir Tómas fram á það, að heiminum sé stjórnað af guðlegri forsjá. Þessi stjórn alheimsins eða alheimsskipulag hafi laga-eðli sem almenn skynsamleg fyrirmæli til alls sem í heiminum er. Réttast sé að halda því aðgreindu frá öðrum tegundum laga og kalla það eilíf lög.

Nú eru lög bæði hátternisreglur og viðmið. Þar sem öllum hlutum sé stjórnað og þeir séu miðaðir við eilífu lögin, þá sé ljóst að allir hlutir tengist eilífu lögunum á einhvern hátt, þar sem tilhneigingar þeirra til fullkomnunar stafi frá eilífu lögunum. Af öllum sköpuðum hlutum taki mennirnir, hinar skynsemi gæddar verur, þátt í eilífu lögunum á sinn einstæða hátt, með sínu sérstaka eðli, það er með skynseminni, bóklegri og verklegri, dómgreind og hyggindum. Ljós eðlilegrar skynsemi mannsins upplýsi hann um hvað sé gott og illt, hvað sé rétt og rangt og hvað honum beri að gera til að öðlast farsæld. Þannig taki maðurinn sinn þátt í eilífu lögunum, alheimsskipulaginu, lífinu sjálfu, og hann noti skynsemi sína til þess að sjá og skilja hin eilífu fyrirmæli til sín sérstaklega. Þessi þátttaka skynsemi gæddra vera er því kölluð eðlislög. Þau eru skynsamlegar ályktanir manna um það sem gefur lífinu gildi og hvað beri að gera í umgengni við það. Þetta eru m.ö.o. grundvallarreglur um lífsgæðin, vernd þeirra og þátttöku manna í þeim. Þær hafa laga-eðli með því að vera skynsamleg fyrirmæli, sem lúta að almannaheill og birtast í skynseminni.

Þessir tveir flokkar laga, sem nú hafa verið nefndir, eilíf lög og eðlislög, eru mönnum væntanlega framandi svona við fyrstu sýn. En þeir tveir sem eftir standa eru það væntanlega ekki, en það eru mannasetningar og GuðslögLög manna eru sérstakur flokkur laga, þar sem menn setja sín lög, hverjir í sínu ríki, sem nánari útfærslur á eðlislögunum og með stuðningi þeirra. Guðslög eru fjórði flokkurinn. Tómas bendir á að Guð hafi birt mönnunum lög beint og milliliðalaust í boðorðunum tíu og í heilagri ritningu, til þess að menn hafi eitthvað svart á hvítu og enginn vafi leiki um þau fyrirmæli. Svona til öryggis.

Þetta yfirlit yfir það hvernig Tómas skiptir lögum almennt í fjóra flokka sýnir okkur að sjónarhorn hans er óvenjulegt, svo ekki sé meira sagt. Hann notar í raun hið almenna lagahugtak úr daglegu lífi og yfirfærir það á stjórn alheimsins til þess að sýna fram á að Guð stjórni öllu með almennum skynsamlegum fyrirmælum sem séu til heilla. Öll náttúrulögmál vísindanna finnist þarna og bíði þess að vera uppgötvuð. Svo uppgötvi mennirnir með skynsemi sinni eftir hverju þeir eigi að fara til þess að lifa lífinu og öðlast hamingjuna og setji sín eigin lög í samræmi við það. Skynsemina noti menn til þess að skipuleggja líf sitt og til þess að lifa því á réttan og sannan hátt og finna hvað best sé að gera í hverju tilviki, og til þess að komast að niðurstöðu í deilumálum. Til öryggis hafi Guð sett mönnunum bein fyrirmæli í skrifuðum textum, sem birt hafi verið þeim í boðorðunum og heilagri ritningu, þar sem skynsemi manna sé þeim eilíf uppspretta deilna og rökræðna, eins og henni sé einmitt ætlað, enda hafi þeir skynsemina hver fyrir sig eins og hverjum sé hún gefin.

Þegar við virðum fyrir okkur þessa fjóra flokka laga sjáum við að þeir gilda á mismunandi sviðum. Þrír fyrstu flokkarnir hafa hver sitt gildissvið: Alheimurinn, einstaklingurinn og ríkið. Eilífu lögin gilda í alheiminum öllum, eðlislögin gilda í hverjum einsökum manni og mannasetningar gilda í ríkinu. Þetta má einnig orða þannig: Eilíf lög ríkja í alheiminum öllum, einstaklingurinn stjórnast af lögum sem hans eigin eðli, skynsemin, segir honum, og ríkinu er stjórnað af lögum manna. Fjórði flokkurinn, Guðslög, eru síðan eins og til öryggis, ex tuto, bein fyrirmæli Guðs til mannanna til þess að ekkert fari á milli mála.

Þegar við tölum um ríkið, minnumst þess að Tómas hafði það frá Aristótelesi að ríkið væri eðlilegt fyrirbæri náttúrunnar og hann taldi að það lyti því náttúrulögunum. Það væri mannlegt samfélag og í stjórnun þess væri engin þörf á guðlegum eða yfirnáttúrulegum þáttum, þar sem öll lög ríkisins væru innifalin í því sjálfu. Ríkið væri æðsta samfélag manna, samkvæmt kenningu Aristótelesar um þróun samfélaga: fjölskyldan, þorpið, og loks ríkið, sem hefði annan tilgang en fjölskyldan og þorpið.

Til aðgreiningar benti Tómas á að kirkjan væri ekki náttúrulegt fyrirbæri eins og ríkið, þar sem hún væri reist af hinu guðlega. Hún væri því yfir-náttúruleg.9

Hvernig fer Tómas að þessu? Lestur þessa rits leiðir í ljós að Tómas var vel að sér um lög og stjórnskipun ríkja síns tíma. Það var Rómaréttur og lög Langbarða, dómvenjur og réttarvenjur og hin margbrotnu lög einstakra konungsríkja og borga. Sjálft löggjafarvaldið var í mótun á þessum tíma, þar eins og hér á landi, og hann hefur efalaust tekið þátt í umræðum um það. Á þessari þekkingu reisir hann kenningu sína um eðli laga. Í stuttu máli sér hann lög sem annað og meira en valdbundnar reglur til að halda fólki í skefjum og refsa því ef það brýtur af sér. Hann byggir á Siðfræði Aristótelesar og einnig á Stjórnspeki hans, sem hann leit á sem framhald af Siðfræðinni.

Aðferðin sem hann notar bendir líka til lögfræðikunnáttu. Hann setur skýrlega fram báðar eða allar hliðar álitaefnisins og tekur síðan rökstudda afstöðu. Hann setur hlið andstæðinganna fram í sem skýrustu og bestu ljósi og gerir aldrei lítið úr þeim. Þetta er aðferðin sem er notuð í málflutningi í dómstólum siðmenntaðra ríka og í dómunum og úrskurðunum. Ágreiningsmál eru flutt, sótt og varin, með því að setja hliðar þeirra fram á sem skýrastan og bestan hátt og síðan er niðurstaðan fengin af því sem þar kemur fram, með rökstuðningi.

Tómas setur fram einföld dæmi og skoðar almenn, vel þekkt lög í réttarkerfi eins og hegningarlög til þess að bera fram skilgreiningu sína á lögum almennt. Hann spyr svo hvað það sé í huga löggjafans sem öllu máli skipti um eðli laga, að lög séu sett en ekki eitthvað annað.

Tökum dæmi. Laga er þörf á einhverju sviði mannlífsins. Þá þarf að ná ákveðnu markmiði með lögunum og fólk vill ekki að það sé gert af handahófi eða geðþótta. Þess vegna finnur löggjafinn skynsamlega leið að settu marki og leiðin felst í eðli hlutanna sjálfra og tengslum þeirra í milli. Ef draga á úr slysahættu á vegum í umferðinni, en samt láta umferðina ganga eins greiðlega og unnt er, þá er rannsakað með mælingum á vegunum og hraða ökutækja og fengin niðurstaða: Ef þið ætlið að draga úr slysahættu á þessum vegum verðið þið að hafa hámarkshraðann 90 km/klst. Þannig tekur löggjafinn ákvörðun um að ná ákveðnu marki með ákveðinni aðferð, sem markið sjálft gerir kröfu um. Þannig felst eðli laganna í kröfunni sem markið gerir til leiðarinnar að því sjálfu. Með þessu skiljum við þá hugmynd Tómasar að kjarni laganna sé skipan mála í huga löggjafans um leiðir þær sem liggi til almannaheilla.

Tómas setur fram kenningu um eðli laga. Hann spyr hvernig lög geti skuldbundið menn og sett þeim skyldur sem þeim beri að hlýða hvað sem öðru líður, þ.e. siðferðilegar skyldur. Hann sér að menn búa við lög í samfélögum. Þessa staðreynd daglegs lífs leitast hann við að túlka með því að segja að lögin nái sínu fram með því að leggja mönnum siðferðilegar skyldur á herðar, en ekki með beinni valdbeitingu. Því spyr hann, eins og allir hugsandi menn: Hvernig getur þetta gerst? Hvernig getur löggjafinn í samfélaginu skapað mönnum skyldur sem þeim ber að virða af öðru en með hótun um valdbeitingu? Heilagur Ágústínus kirkjufaðir hafði á sínum tíma orðað þetta með því að spyrja: Hvað er ríkisvald án réttlætis annað en bófaflokkur í stækkaðri mynd?

Svar Tómasar er einfaldlega: „ … lög sem maðurinn setur eru annaðhvort réttlát eða ranglát. Ef þau eru réttlát þá fá þau kraft sinn til að binda samvisku manna frá eilífu lögunum, sem þau eru leidd af.“10

Hér er kjarninn í kenningu Tómasar um eðli laganna. Mannanna lög skapa þeim skyldur sem þeim ber að hlýða ef þau eru réttlát, og það eru þau ef þau eru leidd af hinu eilífa lögmáli sem stjórnar veröldinni eða sett með stuðningi af því. Löggjafinn þarf að kynnast þessu lögmáli og það gerir hann með því að nota skynsemi sína.

Með beitingu skynseminnar, ekki trú, öðlast mennirnir hlutdeild í hinu eilífa lögmáli. Þessi hlutdeild mannanna í hinum eilífu lögum – skynsamlegar ályktanir um það sem gefur lífinu gildi – kallast náttúrulög eða eðlislög, grundvallarreglur um lífsgæðin, vernd þeirra og þátttöku mannanna í þeim.

Þau eru kölluð eðlislög þar sem þau birtast í eðli mannsins og vísa til þeirrar skipanar sem þar kemur fram, og annars ekki. Þau eru því hvorki trúarlegs né guðfræðilegs eðlis. Væru þau reist á opinberun eða öðru trúarlegs eðlis þá væru þau ekki náttúruleg heldur yfirnáttúruleg. Tómas taldi að allir menn gætu séð þetta og skilið, án trúarlegrar reynslu.

Menn beita skynsemi sinni og velta fyrir sér hvernig þeir eigi að lifa lífinu í friði og öryggi og njóta lífsgæðanna og njóta hamingjunnar. Skynsemin segir mönnum hvernig þetta sé unnt og þar með fá mennirnir rök fyrir því hvað sé rétt og hvað sé rangt, hvaða lög séu réttlát og hvaða lög séu ranglát.

Þessi kenning Tómasar er andstæða þeirrar kenningar um lög að þau séu vilji löggjafans og annað ekki, ef hana ber að skilja svo að lögum beri að hlýða af því einu að löggjafinn hafi sett þau á formlega réttan hátt. Tómas myndi bæta við og segja sem svo að setji löggjafinn skynsamlegar reglur sem miði að almannaheill þá beri að hlýða þeim.

Hann gerir sér fulla grein fyrir því að þeir sem valdið hafa og setja lögin geti gert það í eigin hagsmunaskyni og til þess að kúga þegnana. Slík lög eru ranglát og hann nefnir þau eyðileggingu laganna, ólög. Vér þekkjum hin fornu orð úr Njálssögu: “Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða”.

Hvað einkennir lög, hvað einkennir ólög? Hver er munurinn? Þessum spurningum svaraði Tómas í köflunum um lögin. Það gerir hann með því að benda á að lög séu á sviði skynseminnar. Þar átti hann ekki við að lög séu beinlínis leidd af skynseminni og þannig tilbúningur hennar. Fremur ætti að skilja hann þannig að lög séu í skynseminni, eða öllu heldur að þau séu skynsemin að verki þegar hún stjórnar gerðum manna eins og þegar hún stjórnar hugrenningum þeirra11. Þessi hugmynd um að lög væru eitthvað annað og meira en vilji þeirra sem valdið hafa varð rótin að hugmyndum Vesturlanda um lög og réttarríki, lýðræði og frelsi. Nægir að benda á sjálfstæðisyfirlýsingu nýlendnanna í Norður-Ameríku 1776 og stofnun Bandaríkjanna, og frönsku stjórnarbyltinguna 1789 og mannréttindayfirlýsingar í kjölfarið.

IV. Tómas á síðustu tímum.

Þrátt fyrir síðastnefndar hugmyndir vesturlandabúa um lög og réttarríki, lýðræði og frelsi fengu þeir og heimurinn yfir sig voldugar stjórnmálahreyfingar á tuttugustu öld, sem voru andsnúnar þessum hugmyndum. Stærstar og sterkastar vorukommúnismi í Rússlandi og nazismi í Þýskalandi, sem báðar stefndu að heimsyfirráðum. Sú síðarnefnda hrundi með uppgjöf Þjóðverja í heimsstyrjöldinni 1945 en sú fyrrnefnda lifði áfram en hrundi loks við hrun Sovétríkjanna 1991. Margir veltu fyrir sér hvernig slíkar alræðisstefnur gátu náð slíkri hylli.

Þegar komið er að frelsis-hugtakinu er rétt að rifja upp að þegar á dögum Tómasar deildu menn um það12. Fyrir honum var frelsi mannanna leiðin til að ná fullkomnun sem menn og þar með ná lífshamingjunni, í anda siðfræði Aristótelesar. Það var því forsenda þess að unnt væri að stunda hið góða líf dyggðanna. Þar kom þjálfunin, enginn fæðist fullkominn, dyggðirnar þarf að þjálfa og læra, til þess eru uppeldi og skólar. Að slá á nótur á píanói er í fyrstu aðeins hávaði og hljóð en verður með þjálfuninni að dýrðlegri hljómlist. Frelsi er þannig aðferðin til að öðlast smám saman hæfileikann til að velja hið góða og að gera það, sem við kjósum að gera, vel eða helst frábærlega. Þannig verða lög og frelsi ekki andstæður heldur styðja hvort annað, þar sem lög eru aðferð mannanna til að taka skynsamlegar ákvarðanir til þess að lifa lífinu sem best, en það er nefnt almannaheill.

Vilhjálmur frá Ockham setti fram annað frelsishugtak. Fyrir honum voru hugtök eins og „mannlegt eðli“ aðeins hugtök, þau voru aðeins til í huganum en vísuðu ekki til raunveruleikans þar fyrir utan. Mannlegt eðli væri aðeins nafn sem gefið væri þessari sam-mannlegu reynslu sem kölluð væri þessu nafni. Sé þetta rétt, ef ekki er í raun til neitt sem nefnt er mannlegt eðli þá eru heldur ekki til neitt sem kallast eðlislög að hætti Tómasar og engin almenn siðalögmál. Með þessu frelsishugtaki verða lög ávallt eitthvað óviðkomandi manni sjálfum, eitthvað utanaðkomandi, þvinganir stjórnvalda. Frelsið í þessum skilningi er aðeins valfrelsi, frelsi viljans. Þetta er hið útbreidda frelsishugtak nútímans, en spurning er hvort hugtak Tómasar var í raun sannara og betra.

En víkjum í lokin að alræðisstefnunum sem náðu rótum í Evrópu á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þeir sem þurftu að lifa við þær í löndum sínum, sem áður höfðu lifað við hefðbundin stjórnarform, fundu þær á eigin skinni. Einn þessara manna er nú nýlátinn, en bók með hugleiðingum hans var gefin út að honum látnum á þessu ári.13 Þessi maður, Jóhannes Páll páfi II, velti mikið fyrir sér hugmyndum Tómasar og áhrifum þeirra í lífi mannanna, enda hluti af lífsstarfi hans. Hann fæddist og ólst upp í Póllandi og lifði því ógnarstjórnir nazista og kommúnista í landi sínu. Í bókinni kemur fram að honum fannst hið illa koma fram í þessum hreyfingum. Um lýsingu á hinu illa vísar hann í heilagan Tómas, að það sé ávallt vöntun á einhverjum gæðum sem ættu að vera fyrir hendi, það er skortur á gæðum, aldrei alger fjarvist gæða. Hann tekur dæmið um hið góða fræ og illgresið (Mattheus 13:24-30). Þannig sé saga mannkyns, hið góða vex með hinu vonda eins og hveitið með illgresinu. Hvort tveggja, gott og illt, kemur úr mannlegri náttúru. Hann telur hina illu hugmyndafræði eiga sínar rætur í sögu evrópskrar heimspeki, Upplýsingin hafi sprottið af þessu sama. Ræturnar telur hann vera í byltingunni sem Descartes hafi komið í verk með heimspeki sinni, Ég hugsa, þess vegna er ég. Fram að því hafi hugsunin, cogito, verið talin koma á eftir esse, verundinni, því sem er. Descartes hafi snúið þessu við og sett hugsunina framar verundinni. Þetta hafi breytt allri heimspekilegri umræðu og aðferð og þar með hafi heimspeki heilags Tómasar fallið í ónáð, enda sé verundin, esse, þar í fyrirrúmi og allt hafi verið túlkað út frá henni. Með Descartes hafi heimspekin orðið að hreinni hugsunarfræði þar sem öll verund, allt sem er til, bæði hinn skapaði heimur og Skaparinn, sé innan vébanda hugsunar og huga mannsins. Svipað hafi gerst við valdatöku kommúnista í háskólum Póllands. Þá hafi eingöngu þeirra heimspeki verið viðurkennd til kennslu og menn hafi brátt farið að ræða um „hnignun tómískrar raunspeki“ og að Guð væri einungis til í huga manna, ef það. Að minnsta kosti hefði Guð enga sjálfstæða tilvist, hvað þá að allt væri frá honum komið.

En páfi bendir á að með þessari nýju hugsun hafi hin gamla hugsun um tilvist hins illa einnig hrunið. Áður hafi hið illa einungis getað verið til í tengslum við hið góða, þ.e. sem skortur á hinu góða, og þá sérstaklega í tengslum við Guð, sem hið algóða. Þannig hafi syndir mannanna verið skildar og þær hafi Kristur tekið á sig á krossinum, eða öllu heldur, Kristur hafi tekið á sig mennina og syndir þeirra og þannig komið þeim í ríki Guðs. Allt þetta hafi horfið með Upplýsingunni og maðurinn hafi orðið einn í veröldinni, einn skapari örlaga sinna og ákvörðunar hvað sé gott og illt. Geti maðurinn ákveðið sjálfur, án Guðs, hvað sé gott og hvað sé illt, þá geti hann einnig ákveðið að útrýma hópum manna eftir stéttum og kynferði, og það hafi einmitt einkennt alræðisríkin.

Þessar hugleiðingar minna á þjóðsöguna sem Sigurður Nordal hélt mjög upp á og las sjálfur í viðtali í sjónvarpinu, Skrattinn og þrír djöflar hans: Einu sinni sendi fjandinn burt þrjá djöfla þess erindis að skemma mannkynið. Þeir eru um ár í burtvistinni og koma aftur til skolla á vetrardaginn fyrsta. Fjandi fagnar þeim vel og spyr tíðinda. Verður einn fyrir svörum, sá er mestur þóttist, og segist hafa kennt alþýðu að ljúga. Annar, sem taldi sig næstan hinum, segir þá að hann hafi kennt mönnum að stela. „Miklu góðu hafið þér til leiðar komið“ segir skratti, „en hvað gjörðir þú, ómyndin þín?“ segir hann, því hann var minnstur talinn. „Það var nú ekki mikið; ég kom öllum heldri mönnum til að trúa að þú værir ekki til.“ „Það var vel gjört og betur en hinir gjörðu, og skaltu hér eftir næstur mér teljast.“

Reykjavík, 10. október 2005

Tilvísanir

1. Þessi stutta ritgerð er að miklu leyti samin upp úr formála mínum að bókinni Um lög, sem kom út hjá Hinu íslenzka bókmenntafélagi 2004. Þar er því að finna miklu ítarlegri upplýsingar um Tómas, ævi hans og störf.

2. „Um vernd mannréttinda og náttúrurétt“, 1966.

3. Albert var þá kallaður Albertus Teutonicus, þar sem hann var frá Þýskalandi, nánar tiltekið frá Sváfalandi, Swabia, og var fyrsti Þjóðverjinn sem varð prófessor í guðfræði við háskólann í París. Vegna sinna miklu fræðistarfa var hann síðar kallaður hinn mikli. Góða lýsingu á honum og samtíðarmönnum hans, þar á meðal Tómasi, er að finna í ágætu litlu yfirlitsriti eftir kennara í miðaldaguðfræði við háskólann í Cambridge, G.R. Evans, Fifty Key Medieval Thinkers, London og New York 2002. Í þessari bók eru veittar miklar upplýsingar í stuttu máli.

4. Tómas sjálfur kallaði t.d. kirkjufeðurna og aðra áhrifavalda í kirkjusögunni doctores.

5. Nánari lýsing á Dóminíkana-reglunni og baráttu hennar gegn villutrú er í formálanum, sjá fyrstu athugsemd.

6. Þessi bylting í hugmyndum manna á 12. og 13. öld er efni nýrrar bókar, sem ekki náðist að geta um í formálanum, Richard E. Rubinstein, Aristotle´s Children, New York 2003. Þar er í 5. kafla stórskemmtileg lýsing á athöfnum reglubræðra og deilum þeirra við aðra fræðimenn um þessi efni.

7. Um þetta efni, þ.e. hugmyndir heilags Ágústínusar um manninn, vísindalega hugsun og afneitun hennar í fræðum kirkjufeðra, og síðan opnun vísindalegrar hugsunar með Tómasi og samtíðarmönnum hans á 13. öld, hefur nýlega verið rituð aðgengileg bók: Charles Freeman, The Closing of the Western Mind, London 2002.

8. Í viðauka II í bókinni Um lög, bls. 194-199, er að finna yfirlit um rökræður um lögspeki Tómasar á vorum tímum með vísan í helstu rit.

9. Tómas leggur áherslu á það að kirkjan og ríkið hafi mismunandi hlutverk, kirkjan sjái um andlegt líf mannsins en ríkið um hið líkamlega og efnahagslega. Þessa aðgreiningu má rekja til deilna á 11. öld milli Gregoríusar páfa VII og Heinreks IV keisara um skipan biskupa, sem lauk með sigri páfans. Eftir það voru sett mörk sem ríkisvaldið seildist ekki yfir í málefnum kirkjunnar og andlegum efnum. En þetta gerðist ekki í austur-kirkjunni, í Rússlandi var czarinn yfirmaður kirkjunnar. Í íslam er heldur enginn greinarmunur gerður á ríki og kirkju, það gengur vesturlandabúum erfiðlega að skilja.

10. Spurning 96, grein 4.

11. Edward Booth O.P. benti mér á þetta í samræðum. Hann hefur skrifað grein um lagahugtak Tómasar sem birtist á íslensku í Merki krossins, 1. hefti 2005.

12. Um þetta má lesa í ágætri nýlegri hugvekju um tíðarandann, George Weigel, The Cube and the Cathedral, New York 2005, bls. 78-86.

13. Pope John Paul II, Memory and Identity, Personal reflections, London 2005.

« Til baka