Færslusöfn

Menningarvitinn: Ellefu tilgátur

eftir Richard Rorty

Menningarvitinn: Ellefu tilgátur1

1.

Við ættum ekki að reyna að skilgreina „hugvísindi“ með því að spyrja hvað hugvísindadeildir háskóla eiga sameiginlegt sem greinir þær frá öðrum. Sú skipting er áhugaverðari sem gengur þvert á deildir og aðferðafræði, en greinir milli, annars vegar, þess fólks sem bisar við að afla þekkingar eftir viðurkenndum viðmiðum og, hins vegar, fólks sem leitast við að þenja siðferðilegt hugarflug sitt. Síðarnefnda fólkið les bækur til að efla kennd sína fyrir því hvað er mögulegt og hvað er mikilvægt – ýmist fyrir það sjálft sem einstaklinga eða fyrir samfélag þess. Nefnum þetta fólk „menningarvita“. Oft fer meira fyrir slíku fólki í mannfræðinámi en í fornmenntum, og stundum meira í lagadeild en heimspeki.

2.

Ef maður spyr hvaða gagn þetta fólk gerir, hvert félagslegt hlutverk þess er, virðist ekki viðhlítandi að svara því til að það „kenni“ eða „sinni rannsóknum“. Í huga þess er kennsla – alltént sú kennsla sem það vonast sjálft til að stunda – ekki beinlínis fólgin í miðlun þekkingar. Hún felst fremur í því að hræra upp í krökkunum. Þegar menningarvitarnir sækja um leyfi eða styrk fylla þeir iðulega út eyðublöð um markmið og aðferðir hinna svonefndu rannsóknaverkefna sinna, en í raun vilja þeir bara lesa fleiri bækur, í von um að verða öðruvísi manneskjur.

3.

Samfélagslegt hlutverk menningarvitanna er því í reynd að vekja með nemendum efasemdir um sjálfsmynd þeirra og um samfélagið sem þeir tilheyra. Menningarvitarnir eiga þátt í að tryggja að siðferðisvitund hverrar nýrrar kynslóðar verði eilítið frábrugðin siðferðisvitund þeirrar sem á undan gekk.

4.

Þegar réttlæta þarf opinberan stuðning við æðri menntir, tölum við þó ekki mikið um þetta samfélagshlutverk. Við getum ekki útskýrt fyrir styrktaraðilum og stjórnarnefndum að okkar sé að hræra upp í hlutunum, vekja sektarkennd með samfélaginu og koma því úr jafnvægi. Við getum ekki sagt að skattgreiðendur ráði okkur til að tryggja að börnin þeirra muni hugsa öðruvísi en þeir sjálfir. Einhvers staðar innst inni vita allir – jafnvel almennir skattgreiðendur – að þetta er meðal þess sem háskólum ber að gera. En enginn hefur efni á að ljóstra því upp.

5.

Staða okkar menningarvitanna er sambærileg við stöðu samfélagssinnaðra presta og frelsunarguðfræðinga, sem vilja reisa Guðsríki á jörðu. Andstæðingar þessara presta segja iðju þeirra tilheyra vinstri væng stjórnmála. Þeir segja að prestunum sé borgað fyrir að boða Guðs orð, en þess í stað blandi þeir sér í pólitík. Við erum aftur sökuð um að þiggja laun fyrir að safna og miðla þekkingu, en rugla þess í stað reitum hugvísinda og stjórnmála. Við getum hins vegar ekki tekið mark á hugmyndum um hugvísindi án stjórnmála – ekki frekar en kollegar okkar meðal klerka taka mark á hugmyndum um ópólitíska kirkju.

6.

Enn er til þess ætlast að við fylgjum helgisiðunum sem styrktaraðilar okkar eru vanir – kyrjum söngva um „hlutlægt gæðamat“, „siðferðileg og andleg grundvallargildi“, „spurningarnar sem eilíft vaka fyrir manninum“ og svo framvegis, rétt eins og ætlast er til að frjálslyndu klerkarnir tafsi sig gegnum trúarjátningar fyrri og einfaldari alda. Sumum okkar þykir hins vegar nokkuð til þeirra seinni alda höfunda koma er snúast gegn platónisma og eðlishyggju en hneigjast að náttúrulegum og sögulegum nálgunum (höfunda á við Hegel, Darwin, Freud, Weber, Dewey og Foucault). Okkur stendur það tvennt til boða að gerast hæðin í viðmóti, eða skrumskæla að öðrum kosti alla helgisiðafrasana með okkar eigin túlkunum.

7.

Þessi spenna milli opinbers málflutnings og köllunar gerir háskólasamfélagið í heild, og þó einkum menningarvitana sjálfa, berskjaldað gagnvart villutrúarveiðurum. Metnaðarfullir stjórnmálamenn eins og William Bennett2 – og meinhæðnir blaðamenn á við hinn unga William Buckley (höfund God and Man at Yale3) eða Charles Sykes (höfund Profscam4) – geta alltaf sýnt fram á mun á málflutningi háskólafólksins og raunverulegri iðju þess. Villutrúarveiðarnar renna þó iðulega út í sandinn óðar en samstaða háskólamanna verður ljós. Það má treysta á að eðlisfræðingar og lagaprófessorar – fólk sem enginn vill eiga í erjum við – fylki liði kringum þá félaga sína úr Sambandi bandarískra háskólakennara sem kenna mannfræði eða frönsku, eins þótt þeir hvorki viti hvað hinir síðarnefndu starfa, né hafi áhuga á því.

8.

Í þeim styrr sem nú stendur um hugvísindin, er bráðin þó veikari fyrir en vant er. Skotmarkið er það sem Allan Bloom5 nefnir „hina nítsísku vinstrihreyfingu (the Nietzschean left)“. Í Bandaríkjunum er þessi „vinstrihreyfing“ undarleg nýjung. Áður fyrr hétu vinstri öfl í Bandaríkjunum á landið okkar að fylgja hugsjónum sínum, ganga áfram þann frelsisslóða sem forfeður okkar fetuðu – slóðann sem leiddi okkur frá afnámi þrælahalds, um kjörrétt kvenna, lagavernd verkalýðsfélaga og borgaraleg réttindi svartra, til kvennabaráttu og frelsisbaráttu samkynhneigðra í samtímanum. En hið nítsíska vinstri segir Bandaríkjunum að þau séu rotin inn að beini – þau séu samfélag kynþáttahaturs, kynjamisréttis og heimsvaldastefnu sem sé ekki treystandi fyrir túkalli – samfélag sem þurfi að taka hvert sitt orð til óvæginnar afbyggingar.

9.

Önnur ástæða þess að þessi vinstrihreyfing er auðveld bráð, er hvað hún er ógurlega upptekin af sjálfri sér, innræktuð og tröllriðin heimspeki. Hún tekur hina skrítnu hugmynd Pauls de Man6 alvarlega, að „vandamál hugmyndafræði og þaðan pólitísk vandamál, sé aðeins hægt að nálgast á grundvelli gagnrýninnar greiningar á tungumálinu“. Hún virðist samþykkja hina fjarstæðukenndu staðhæfingu Hillis Millers að „þúsundáraríki [fullkomins friðar og réttlætis meðal manna] rísi ef allir menn og konur verða góðir lesendur í skilningi de Mans“. Ef einhver spyr um draumsýn á framtíð landsins, gefa nýju vinstriliðarnir svar sem minnir á eina grunnhyggnislegustu athugasemd Foucaults. Þegar hann var spurður hvers vegna hann hefði aldrei gert uppdrátt að þjóðfélagsdraumsýn sagði hann: „Ég tel að með því að ímynda okkur nýtt kerfi framlengjum við þátttöku okkar í því kerfi sem er til staðar.“ De Man og Foucault voru miklu skárri en þessar óheppilegu athugasemdir gefa til kynna (og það er Miller líka), en sumir fylgismenn þeirra eru miklu verri. Þessi heimspekiþjakaða og sjálfsupptekna vinstrihreyfing er spegilmynd hinna heimspekiþjökuðu og sjálfsuppteknu Straussista.7 Fyrirlitning beggja hópa á Bandaríkjum samtímans er svo mikil að þeir hafa gert sig getulausa þegar kemur að stjórnmálum, hvort sem um þjóðmál, málefni fylkis eða málefni héraðs er að ræða. Fyrir vikið geta þeir eytt allri orku sinni í háskólapólitík.

10.

Sem stendur [1989] eru hóparnir tveir að sviðsetja átök um hvernig eigi að raða saman leslistum háskóla. Straussistar segja að miða skuli við eigið ágæti bóka þegar þær eru valdar á listana, meðan Nietzschíska vinstrihreyfingin vill miða við sanngirni – það er, sanngirni við konur, svarta og íbúa þriðja heimsins. Báðir hóparnir hafa rangt fyrir sér. Leslista ætti að setja saman með það að augnamiði að varðveita viðkvæmt jafnvægi tvenns konar þarfa. Sú fyrri er þörf nemenda fyrir skírskotun til einhvers sem fyrri kynslóðir og aðrar samfélagsstéttir þekkja – svo að ömmurnar, afarnir og barnabörnin, fólk sem nam við Wisconsinháskóla og fólk sem nam við Stanford, hafi mikið til lesið sömu bækur. Sú síðari er þörf kennaranna fyrir að geta kennt bækur sem hafa hreyft við þeim, örvað þá, breytt lífi þeirra – fremur en þurfa að fylgja námsskrá sem þeim berst frá nefnd.

11.

Menntunarheimspekingar, velviljaðar nefndir og opinberir aðilar hafa gert tilraunir til að skilja hugvísindin, skilgreina þau og stjórna þeim. Keppikeflið er hins vegar að hugvísindin verði áfram of síbreytileg til að þau megi skilgreina eða þeim verði stjórnað. – Allt sem þarf er gamalt og gott akademískt frelsi. Hafi hugvísindin frelsi til að hrista af sér villutrúarveiðara sem hrópa „Pólitík! Pólitík!“ og hafi hver fylking nýrra aðstoðarkennara frelsi til að fyrirlíta og afneita gömlu stofnanahundunum sem þeir eiga störf sín að launa, þá verða hugvísindin í góðu formi enn um sinn. Ef þér hugnast ekki hugmyndafræðilega veðurfarið í bókmenntafræðideildum þessa dagana, dokaðu þá við um eina kynslóð. Sjáðu hvað verður um nítsísku vinstrisinnana þegar þeir reyna að endurnýja sig, kringum 2010. Ég þori að veðja að klárustu nýju doktorarnir í deildinni verður fólk sem vill aldrei aftur heyra minnst á „vestræna tvíhyggju“ eða „orðræðu feðraveldisins“ svo lengi sem það lifir.

Haukur Már Helgason þýddi

 

Tilvísanir

1. Greinin er frá árinu 1989. Hún birtist í safnritinu Philosophy and Social Hope (Penguin 2000). – Allar neðanmálsgreinar eru athugasemdir þýðanda.

2. Bandarískur íhaldsmaður.

3. Alþýðlegt rit um stöðu amerískra háskóla.

4. Umdeild bók sem sakar ameríska háskóla um spillingu og vonda kennslu, skrifuð 1988.

5. (1930–1992) Bandarískur hugvísindamaður sem réðist gegn afstæðishyggju og „pólitískri rétthugsun“ í kennsluháttum bandarískra háskóla, í bókinni The Closing of the American Mind.

6. (1919–1983) Belgískur bókmenntafræðingur og forvígismaður afbyggingar sem hefur haft mikil áhrif í Bandaríkjunum.

7. Fylgismenn Leo Strauss (1899–1973), þýsks stjórnmálaheimspekings og prófessors við Chicago háskóla frá 1949 til 1968. Strauss gagnrýndi sívaxandi meðalmennsku og afstöðuleysi í kenningum innan stjórnmálafræði og barðist fyrir lestri á textum klassískra stjórnspekinga innan háskóla, þegar þeir höfðu að nokkru vikið fyrir nýrri höfundum og atferlisfræðilegum nálgunum.

 

« Til baka

Menntun tilfinninga

eftir John Macmurray1

Meðal skólamanna er vaxandi viðurkenning á því að brýna nauðsyn beri til að mennta tilfinning­arnar rétt.2 En mér virðist ekki vera neinn samsvarandi skilningur á eðli viðfangsefnisins svo að viðleitni til að fullnægja þörfinni hefur, þegar allt kemur til alls, einkennilega tilhneigingu til að ónýta markmiðið. Hinar hefðbundnu aðferðir sem hafa nú sem betur fer að mestu leyti verið lagðar niður, eða hafa alltént fallið í ónáð, hafa verið þær að beita ströngum aga þar sem börnum er refsað og þau bæld niður. Það mundi almennt vera viðurkennt að í sínum verstu myndum var þessi gamaldags agi hrottafenginn og að líklegt væri að í grundvallaratriðum reyndust afleiðing­arnar hörmulegar. „Lögreglumanns“-afstöðu kennarans til barnsins hefur að mestu leyti verið skipt út fyrir mannúðlegri afstöðu. En þó er ástæða til að spyrja hvort eldri afstaðan hafi ekki verið skárri en sumar þeirra aðferða sem hafa komið í staðinn, einkum þær sem byggjast á því að höfða til „betra eðlis“ barnsins. Hinar eldri ögunaraðferðir, þó að þær byggðust á ótta, forðuðust samt hinar lúmskari hættur að notfæra sér náttúrlega ástúð barnsins og virðingu þess fyrir valdi.
      Ég hygg við verðum að fallast á að menntun tilfinninganna er ögun eðlislægra viðbragða manndýrsins. En spurningin sem skiptir máli snýst um hvað átt er við með aga. Fyrsti greinar­munurinn sem við verðum að gera er greinarmunur á aga sem er þröngvað upp á með valdi og þess aga sem uppgötvast í reynslunni. Þessar tvær tegundir aga eru í grundvallaratriðum ólíkar. Það kann að vera auðveldara að skilja þennan greinarmun með vísun til vitsmunalífsins. Hægt er að aga hugsunina, eins og gert var á miðöldum, með kennivaldi. Kreddufesta miðalda sagði við hugsuðinn: „Þetta er sannleikurinn. Þú verður að læra að hugsa á þann hátt að þú komist að þessum og þessum niðurstöðum. Gerirðu það ekki er hugsun þín slæm hugsun vegna þess að við vitum að þessar niðurstöður eru hinar sönnu.“ Slík ögun hugsunar, eins og við ættum öll að vera sammála um, er hugsanakúgun. Henni tekst að tryggja samræmi hjá öllum hugsuðum og forðast þannig ágreining og deilur. En hún gerir það með því að gera út af við sjálfar uppsprettur raunverulegrar hugsunar. Í samanburði við þetta er nútíma vísindaleg hugsun frjáls og ókreddu­bundin. En hún er ekki óöguð. Hún finnur agann í viðleitninni að afla þekkingar, í hinu óþvingaða vitsmunalega starfi sjálfu. Hún er öguð af þeirri nauðsyn að tryggja raunverulega samsvörun hugmyndanna og þess sem hugsunin er um. Afleiðingin er fjöldinn allur af kenningum og niður­stöðum, stöðug barátta milli hugsuða sem eiga í samkeppni, sannkallað hugmyndastríð. Samt erum við öll sammála um að slíkt frelsi sé einmitt aflvaki hugsunar; og alltént í orði styðjum við frelsi einstaklingsins til að hugsa sjálfstætt.
      Munurinn á hinum tveimur tegundum aga á tilfinningasviðinu er nákvæmlega sá sami. Agi valdsins hefur að markmiði að tryggja bælingu þeirra tilfinninga sem eru álitnar óviðurkvæmilegar og hlúa að tilfinningum sem eru lofsverðar og góðar. Þetta er án efa gerlegt. Það stuðlar að sam­ræmi, að árekstralausum félagslegum samskiptum, að því að viðhalda hefðinni. En það tekst einungis með því að gera út af við hina frjálsu sjálfkvæmni tilfinningalífsins. Gegn þessu kreddubundna valdi verðum við að beina trú okkar á frelsi einstaklingsins til að finna til sjálfur, að þroska eigin tilfinningagáfur og leitast við að uppgötva gildi lífsins, ekki með því að viðurkenna samræmdar góðar tilfinningar og ekki heldur með því að þröngva fræðilegum hugmyndum um góðleik upp á tilfinningalíf sitt, heldur með frjálsri tjáningu eigin tilfinninga. Víst er að þetta felur í sér aga, en sá agi er allt annars eðlis. Það er sá agi sem fæst með stöðugri viðleitni til að uppgötva hin raunverulegu gildi lífsins sjálfur.
      Menntun tilfinninganna ætti því að vera yfirveguð viðleitni til að kenna börnum að finna til af eigin hvötum, í sama skilningi og vitsmunaleg menntun þeirra ætti að vera viðleitni til að kenna þeim að hugsa sjálfstætt. Svo framarlega sem við leggjum upp með þá ósögðu forsendu að við vitum hvernig fólk ætti að finna til og það sé hlutverk okkar að kenna nemendum okkar að finna þannig til, því verr sem okkur tekst það því betra. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hve veikburða og óburðugt tilfinningalíf okkar er og átta okkur á því að einmitt af þeirri ástæðu eru hugmyndir okkar um hvað sé góð tilfinning og hvað ekki einnig veikburða og ef til vill ósannar. Þá förum við kannski að uppgötva hvað við getum gert til að þroska hjá börnum hinn dýrmæta hæfileika til óþvingaðs tilfinningalífs sem hefur verið svo vanþroska hjá okkur. Ein fyrsta afleiðing svo djúpstæðrar viðhorfsbreytingar yrði eflaust sú að við mundum viðurkenna að það sé jafn fráleitt að leggja tilfinningalega menntun barna í hendur kennara sem hafa óburðugt eða vanþroska tilfinningalíf og það er að fela vitsmunalega menntun þeirra kennurum sem eru vitgrannir og heimskir.
      Þetta er helsta viðhorfsbreytingin sem við þörfnumst. Ef við gefum okkur að við nálgumst spurninguna um tilfinningamenntun í þessum anda þá getum við haldið áfram og spurt ítarlega hvernig hægt sé að framkvæma hana í megindráttum. Við verðum þá að veita því athygli að tilfinningalífið er í eðli sínu skynrænt og að menntun tilfinninga er fyrst og fremst þjálfun skilningarvitanna. Flest sem okkur mistekst í menntun skilningarvitanna stafar af því að við lítum á þau frá verklegu sjónarmiði sem tæki til að ná hagnýtum markmiðum, með þeim afleiðingum að við þjálfum þau, að svo miklu leyti sem við menntum börn yfirleitt í hinu skynræna lífi þeirra, til að nota skilningarvitin í hagnýtum tilgangi. Hins vegar er tilfinninganæmið snar þáttur í mannlegu eðli og það verður að þroska það vegna þess sjálfs. Við verðum að mennta börn til að gera hið skynræna líf þeirra auðugt og fallegt: að sjá til þess að sjá, að heyra til þess að heyra, að lykta, bragða og snerta vegna lífsgleðinnar sem fólgin er í þeim skynjunarhæfileikum sem þau eru gædd.
      Slík menntun mundi stefna að því sem William Blake kallaði einu sinni í augnabliksinnblæstri „fágun hins skynræna“. Á hinu grófara vísindalega fræðimáli okkar gætum við kallað það þroskun skynrænnar greiningar og samstillingar. Það sem fær okkur til að óttast birtingarmyndir hins skynræna lífs er hve gróft það er og óheflað, og þetta er einungis til marks um hið frumstæða, vanþroskaða eðli þess. Það er einmitt þetta sem viðeigandi menntun skilningarvitanna verður að fást við. Hún verður að finna leið til að þroska hæfileika skilningarvitanna til að komast á það stig að þau greini á hárfínan og fágaðan hátt það sem þau skynja, og hæfileikann til að samstilla og samræma greiningu þeirra. Gróf og óhefluð tjáning tilfinninga er ævinlega afleiðing þess að skynjunin er gróf og skortir fágun. Að bæla niður slíka móðgandi tjáningu tilfinninga (sem er í megindráttum það sem við stefnum enn að) skiptir máli fyrir lífsgæðin. Sé eðli manns gróft er nauðsynlegt að hafa hemil á því þó ekki sé nema vegna annarra. En hlutverk menntunar er að gera slíkar hömlur óþarfar með því að fága eðlið sem þær eru nú lagðar á.
      Það eru bein tengsl, sem liggja til grundvallar öllu lífi, milli skynvitundar og verklegra athafna. Hægt er að hafa hemil á og koma í veg fyrir þessi tengsl upp að vissu marki, en aldrei full­komlega. Mannlífið, líkt og allt líf, fullkomnar sig einungis í tengslum beinnar skynjunar við athöfn sem tjáir það sem hún hefur orðið áskynja. Hugsunina skortir þessa beinu svörun í athöfn við meðvitaðri skynjun. Vitsmunagreind getur þess vegna aldrei komið í staðinn fyrir beina skynræna athöfn. Hún getur auðgað hana með því að lyfta henni á hærra stig eða rýrt hana með neikvæði og bælingu. Annað sviðið í menntun tilfinningalífsins er því svið óþvingaðrar tjáningar. Hin skynræna vitund um heiminn vegna hennar sjálfrar, án dulinna hvata eða ástæðna, er tilfinninganæmi okkar, og það fullkomnar sig, sé það ekki hindrað, í athöfnum sem eru óþvinguð tjáning tilfinninga, athöfnum sem eru framkvæmdar vegna þeirra sjálfra en ekki vegna einhvers markmiðs utan við þær. Slík tjáning tilfinninga í athöfn – hvort heldur í tali, söng eða hreyfingum – er í fyrstu gróf og ruglingsleg. Hlutverk menntunar er ekki að breyta sjálfsprottnu eðli hennar heldur að fága hana og fíngera, viðhalda sjálfsprottnu eðli hennar svo að þróun yndisþokka og fágunar í athöfn sé ætíð án annarrar hvatar eða ástæðu en tjáningargleðinnar. Að öðru jöfnu fara saman fágun í tjáningu og fágun í skyngreiningu svo það er ekki þörf fyrir tvenns konar þjálfun heldur aðeins eina tegund þjálfunar þar sem þroskun fágaðrar skyngreiningar fæst með viðleitni til að tjá það sem er skynjað og viðleitnin til að þroska skyngreininguna er framkvæmd með viðleitni til að tjá hana í athöfn af einhverju tæi. Það er ekki í mínum verkahring að ákveða aðferðir sem þetta skuli gert með. Þeir sem hafa það starf að gera tilraunir með kennsluaðferðir munu eiga létt með að finna upp slíkar aðferðir svo framarlega sem þeir gera sér ljóst hvað það er sem þeir vilja þroska. Það sem skiptir mestu máli að hafa efst í huga er að menntun tilfinningalífsins, hvort sem það er skynvitund eða tjáningarathafnir, má ekki hafa neina dulda eða hagnýta ástæðu. Þetta er menntun í sjálfkvæmni og þess vegna eru bæði vitundin og athafnirnar sem hún leitast við að fága og þroska markmið í sjálfum sér. Við erum að leitast við á þessu sviði að skerpa vitund barna um heiminn sem þau lifa í eingöngu vegna hennar sjálfrar af því að það gerir þau færari um að njóta lífsins. Við erum að leitast við að þroska fágun í tjáningu vegna þess að það er gott í sjálfu sér, ekki í neinum skilningi vegna þess sem kann að vera hægt að ávinna sér með því.
      Ljóst er að þegar slík menntun kemst á ákveðið stig verður hún menntun í starfsemi lista­mannsins. Það er óhjákvæmileg afleiðing af réttri menntun tilfinninganna. Það er þroskun hinna listrænu til aðgreiningar frá hinum vísindalegu hæfileikum manneðlisins. Ég get því lagt áherslu á boðskap minn með tilvísun til þess sem er rangt við slíka listræna menntun eins og hana er venjulega að finna í skólanámskránni. Hún gerir menntun í list að vitsmunalegri eða vísindalegri starfsemi og verður ekki þjálfun í listrænum vinnubrögðum heldur þjálfun hugans í greiningu og skilningi á listrænum vinnubrögðum annarra. Rétt þjálfun hinna listrænu hæfileika, eins og ég hef lýst henni, er þjálfun í skynjun og tjáningu sem í fyllingu tímans mundi þroska til hins ýtrasta hæfileika barnsins til að vera listamaður, það er að segja að skynja heiminn fagurlega með sínu eigin tilfinninganæmi og tjá þessa skynjun í óþvinguðum eða sjálfsprottnum athöfnum einungis vegna gleðinnar sem fylgir því að gera það.
      Engin þörf er á að útfæra þessa grunnhugmynd frekar. Ég vil heldur vekja athygli á afleiðingum þess að láta undir höfuð leggjast að mennta tilfinningalífið á þennan hátt sem er í grundvallaratriðum eina leiðin til að mennta það. Mig langar til að láta í ljós þá skoðun mína að það að vanrækja þessa hlið á menntun barns, eða bregðast í því, er að bregðast fullkomlega í mikilvægasta menntunarstarfinu.
      Tilfinningalífið er ekki bara hluti af mannlegu lífi eða ein hlið á því. Það er ekki, eins og við höldum svo oft, sett skör lægra, eða lægra skipað, en hugurinn. Það er kjarni og meginþáttur mannlífsins. Vitsmunirnir spretta upp af því, eiga rætur sínar í því, sækja næringu sína og viðurværi í það, og eru hinn óæðri félagi í mannlífsbúskapnum. Þetta stafar af því að vitsmunirnir gegna í meginatriðum hlutverki verkfæris. Að hugsa er ekki að lifa. Í versta falli er það staðgengill þess, í besta falli leið til að lifa betur. Eins og komið hefur fram er tilfinningalífið líf okkar, bæði sem vitund um heiminn og sem athafnir í heiminum, að svo miklu leyti sem því er lifað vegna þess sjálfs. Gildi þess felst í því sjálfu, ekki í neinu utan við það sem það er leið til að öðlast. Menntun sem gerir sér fulla grein fyrir hlutverki sínu hlýtur að hafna því að meðhöndla mannlífið eins og leið að markmiði. Hún hlýtur að leggja áherslu að eina skylda sín sé að þroska hinn áskapaða hæfileika til fulls mennsks lífs. Öll sönn menntun er menntun í að lifa.
      En afleiðing þess að einbeita sér að menntun vitsmunanna þannig að menntun tilfinninganna verður útundan er einmitt að koma í veg fyrir þetta markmið. Vegna þess að vitsmunirnir fást við leiðirnar til að lifa getur einskorðuð einbeiting að þjálfun þeirra, og að setja tilfinningalífið skör lægra, aðeins leitt til þess að gera nemendur okkar færa um að ákveða leiðirnar til mennsks lífs en mjög lítið til að lifa því. Hún mun óhjákvæmilega skapa tækjaskilning á lífinu þar sem allar mannlegar athafnir verða metnar sem leiðir að markmiði, aldrei vegna þeirra sjálfra. Þegar það er varanleg og almenn tilhneiging í einhverju þjóðfélagi að beina athyglinni að vitsmununum og þjálfun þeirra þá verður afleiðingin þjóðfélag sem safnar völdum og með völdum auðnum til hins góða lífs en hefur engan samsvarandi þroskaðan hæfileika til að lifa hinu góða lífi sem það hefur safnað auðnum til. Þetta er að mínu viti alveg greinilega það ástand sem við erum nú í og hin evrópska menning okkar. Við höfum gífurleg völd og gífurleg auðæfi; við dýrkum skilvirkni og velgengni en við kunnum ekki að lifa afbragðsvel. Ég mundi rekja þetta ástand mála næstum algerlega til þess að við höfum vanrækt að mennta tilfinningalífið.
      Önnur afleiðing þessarar vanrækslu hlýtur að vera eyðilegging heildar. Vitsmunirnir geta aðeins fjallað um lífið í pörtum vegna þess að þeir eru verkfæri. Þeir verða að sundurgreina og sértaka. Það er í tilfinningalífinu sem eining persónuleikans, bæði einstaklingsbundin og félagsleg eining hans, er raungerð og henni haldið við. Það er í tilfinningaríkum athöfnum sem þessi eining er tjáð. Tilfinningarnar eru sameinandi þátturinn í lífinu. Að vanrækja að þroska tilfinningalífið leiðir því til sértekningar og sundurgreiningar, til þess að menn geta ekki séð lífið staðfastlega og sem heild. Þegar vitsmunirnir taka völdin er sérhæfing óhjákvæmileg afleiðing, sérstakar hliðar mannlegra athafna eru gerðar að fullkomnum hugmyndum um lífið, hluti kemur í stað heildar. Afleiðingin er sundrun í lífinu og samhengisleysi í hugsun og reynd. Bæði einstaklingar og samfélag munu smitast af hinni þröngu sýn sérfræðingsins sem gerir jafnvægi, hrynjandi og heildarsýn óraunhæf og jafnvel óhugsandi. Hér birtist aftur vanræksla okkar að mennta tilfinningalífið í samkeppni langana innra með okkur sem við getum ekki samhæft, í samkeppni öndverðra krafna og hagsmuna, í flokkadráttum innan samfélags okkar. Enda þótt kringumstæðurnar hafi þröngvað upp á okkur vitsmunalegum skilningi á nauðsyn þess að öðlast einingu og heildarsýn í samfélagslífi okkar, þjóðlegu og alþjóðlegu, erum við ófær um að raungera þá einingu sem við höfum svo brýna og meðvitaða þörf fyrir.

                                                                                                    Gunnar Ragnarsson þýddi

Aftanmálsgreinar

1. John Macmurray (1891–1976) var prófessor í siðfræði við háskólann í Edinborg í Skotlandi á árunum 1944–1958.
     Macmurray var eftirsóttur fyrirlesari og voru greinarnar í Reason and Emotion upphaflega fyrirlestrar. Reyndar má segja það um flestar bækur hans. Bókin Freedom in the Modern World samanstendur af fyrirlestrum sem hann flutti í Breska ríkisútvarpið (BBC) 1930 og 1932 og nutu gríðarlegra vinsælda, einkum fyrri fyrirlestraröðin, Reality and Freedom (12 lestrar). Þeir komu út á bók 1932 sem hefur verið endurprentuð nokkrum sinnum og útg. með nýjum inngangi 1992.
     Macmurray var afkastamikill rithöfundur. Af öðrum verkum hans nefni ég hér Interpreting the Universe (1933; ný útg. 1996), The Boundaries of Science: a Study in the Philosophy of Psychology (1939), The Self as Agent (1957) og Persons in Relation (1961). Tvö síðastnefndu verkin voru endurútgefin 1991 og 1995. Sameiginlegur titill þeirra er The Form of the Personal. Þau byggjast á skosku Gifford fyrirlestrunum sem Macmurray flutti í háskólanum í Glasgow 1953–1954.
     Þessi frumlegi og róttæki hugsuður hefur að mestu leyti verið sniðgenginn af akademísku heimspeki­hefðinni. Hann hefur hins vegar haft umtalsverð áhrif á guðfræðinga, sálfræðinga, menntunarfræðinga og félags- og stjórnmálahugsuði. Grundvallarhugtök í heimspeki hans eru athöfn (e. action), gerandi (e. agent), persóna (e. person) og vinátta (e. friendship). Heimspeki hans mætti kalla „persónuhyggju“ (e. personalism) sem er ein tegund af tilvistarspeki.
     Athöfnin kemur á undan hugsuninni, „ég geri“ á undan „ég hugsa“. Macmurray gerir uppreisn gegn kartesískri tvíhyggju og þar með vestrænni heimspekihefð. Að því leyti má flokka hann með Heidegger, Wittgenstein og bandarísku pragmatistunum sem allir reyna að brjótast undan oki hefðarinnar – komast út úr Descartes!
     Macmurray er einn örfárra heimspekinga sem leggur sérstaka áherslu á tilfinningalífið. Fyrstu þrjár greinarnar í Reason and Emotion heita „Reason in the emotional life“. Kenning hans um „emotional rationality“ er sett fram rúmum sex áratugum á undan kenningu Daniels Goleman um „emotional intelligence“ í samnefndu riti, sem byggist á heilarannsóknum og þróunarrökum.

2. Þýtt úr greinasafninu Reason and Emotion, 6. prentun 1947. útg. með nýjum inngangi 1992. Greinin kom fyrst út í tímaritinu The New Era árið 1932.