Færslusöfn

Heimspeki úr glatkistunni: „Um það að vita“ eftir Benedikt Gröndal, fyrri hluti

„Um það að vita“

eftir Benedikt Gröndal

Inngangur

eftir Helgu Jónsdóttur og Jón Braga Pálsson

Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal fæddist árið 1826 á Bessastöðum. Faðir hans var Sveinbjörn Egilsson, kennari við Bessastaðaskóla og móðir hans Helga Gröndal. Foreldrar Benedikts voru gott fólk, vel gefið og vel lesið, en að sögn Benedikts sýndu þau ekki mikla hjartahlýju í garð barna sinna og hann segist snemma hafa orðið einrænn og fúll.1 Þrátt fyrir að vera alinn upp á miklu menntaheimili var skólaganga hans slitrótt. Hann var mikill lestrarhestur og gæddur góðum námshæfileikum en hefðbundið nám átti þó ekki vel við hann. Hann var alla tíð sveimhuga og mótþróasamur, átti erfitt með að festa hugann við ákveðið efni og lét ekki skipa sér fyrir. Hann útskrifaðist úr Bessastaðaskóla 19 ára gamall, með lægstu einkunn bekkjarins, og hélt til Kaup­mannahafnar til að hefja háskólanám. Hann flosnaði fljótt upp úr því en gerði tvær tilraunir í viðbót og lauk að lokum mastersgráðu í norrænum fræðum fyrstur Íslendinga árið 1864 eftir sautján ára gloppóttan háskólaferil.2 Hann vatt sér þá beint í doktorsnám og skrifaði doktorsritgerð um skáld Haralds hárfagra. Ritgerðin var hins vegar ekki samþykkt til varnar af Kaupmannahafnarháskóla vegna þess að hún þótti ekki nógu nákvæm. Þetta var mikið áfall fyrir Benedikt en eftir þetta varð ekkert úr frekara háskólanámi hans.3

Þótt Benedikt hafi ekki sinnt háskólanáminu af miklum metnaði allan tímann, sat hann ekki auðum höndum. Hann las sér ýmislegt til gagns og sökkti sér niður í vísindi, heimspeki og lestur klassískra bókmennta. Hann orti einnig sjálfur kvæði og fékk fjögur birt í Fjölni, 21 árs gamall, og varð þjóðþekktur í kjölfarið. Hann var vinsælt skáld í samtíma sínum og almenningur talaði um hann, Matthías Jochumsson (1835-1920) og Steingrím Thorsteinsson (1831-1913) sem þjóð­skáldaþríeykið. Kvæði Benedikts hafa þó fallið í skuggann á síðari tímum en óbundið mál hans lifir enn góðu lífi, þá sérstaklega, Heljarslóðarorrusta frá 1863 og sjálfsævisaga hans, Dægra­dvöl, sem hann ritaði á ævikvöldinu.4

Hann er sennilega þekktastur í dag fyrir skáldskap sinn en fékkst þó við margt fleira. Eins og kemur fram í, „Um það að vita“, þótti Benedikt mikilvægt að hafa vítt þekkingarsvið og gagnrýnir þá sem „slíta einhverja grein út úr heildinni og vita svo ekkert um annað.“5 Það mætti í raun kalla hann fjölfræðing, auk ritlistarinnar og norrænu fræðanna, fékkst hann við náttúrufræði, þýðingar á klassískum bókmenntum, myndlist og heimspeki ásamt því að vera eftirsóttur skrautritari.6

Heimspekin sem Benedikt lagði stund á var fjölbreytt. Hann getur þess að hafa lesið meðal annars Hegel, Aristóteles og Platón en um þann síðastnefnda orti hann aðdáunaróð sem hefst á vísuorðunum: „Viskunnar veglegi son! Þú voldugi, guðlegi Platon!“7 Hann varð þó fyrir mestum áhrifum af þýsku hughyggjunni og eru kvæði hans lituð af ídealisma.8 Hann ritaði einnig greinar um fagurfræði þar sem hann er undir sterkum áhrifum frá heimspekingum hughyggjunnar, þeim Kant og Hegel.9 Sömu áhrif eru einnig augljós í greininni, „Um það að vita“.

Greinin birtist árið 1873 í tímaritinu Gefn sem Benedikt gaf út á árunum 1870-1874 en hann ritaði allt efni þess sjálfur. Á þessu fimm ára tímabili var útgáfa Gefn aðalviðfangsefni hans og var því vel tekið.10 Því var ætlað að vera skemmtilegt og fræðandi rit og höfða til allra Íslendinga eins og kemur fram í leiðara Benedikts að fyrsta tölublaðinu. Hann vildi kynna „helztu uppgötvanir og uppáfinníngar“ úr fræðaheiminum, aðallega í málvísindum og fornfræðum, en einnig segja skemmtilegar sögur og fjalla um pólitík á alþýðlegum nótum.11

„Um það að vita“ fjallar um heimspekisögu Vesturlanda frá upphafi fram á 13.öld og er jafnframt fyrsta tilraunin til að skrifa heimspekisögu á íslensku. Benedikt telur ekki nauðsynlegt að fjalla um yngri heimspeki því hann heldur því fram að hún sé „ekki frumhugsuð, heldur upptygging eptir enum eldri mönnum.“12 Greinin byrjar á stuttum inngangi og hefst Benedikt síðan handa við að rekja söguna. Hann telur upp og fjallar stuttlega um hverja heimspekistefnu fyrir sig, nokkurn veginn í tímaröð. Í innganginum fjallar Benedikt um mikilvægi þess að þekkja heimspekina og sögu hennar. Hann skilgreinir heimspekina og útskýrir m.a. tengsl hennar við guðfræði. Mikilvægt er að hafa í huga að merking orðsins heimspeki er ekki sú sama í dag og á tíma Benedikts. Hugtakið var í raun notað yfir þekkingarleit í víðum skilningi og þar af leiðandi sem regnhlífar­hugtak yfir margar fræðigreinar.13 Skilgreining Benedikts er að heimspekin sé „það að skoða alla þá hluti sem í heiminum eru, en það er náttúran og andinn […] þá er hún ekkert annað en það að leita að upphafi heimsins til að leiða þar allt af.“14 Benedikt leggur áherslu á að allar vísindagreinar tengist saman og að þekking á einni varpi ljósi á aðrar. Þannig veitir þekking á heimspeki­sögunni skilning á tengslum vísindagreinanna.

Benedikt útskýrir tengsl guðfræði og heimspeki á þá leið að guð búi að baki hinum sýnilega heimi og þar sem heimspekin fæst við að rannsaka heiminn, verður guð óhjákvæmilega umhugsunarefni heimspekinnar. Siðfræðin á, að mati Benedikts, einnig rætur sínar að rekja til guðfræðinnar, vegna þess að í upphafi var hún útskýring á því hvernig bæri að þóknast guð­dómnum. Þar með hefur hann sett útgangspunkt fyrir sögu heimsspekinnar: að greina frá þeim hugmyndum um andann, náttúruna og guð sem heimspekingar og heimspekistefnur mótuðu út frá skoðun á heiminum. Aðaláhersla Benedikts er þó á hugmyndir um andann og guð.

Umfjöllun Benedikts er allt annað en þurr og hlutlaus upptalning. Ákveðið sjónarhorn Benedikts sem tekur mið af hughyggjunni, helsta heimspekilega áhrifavaldi hans, litar textann. Til að mynda tengir hann kenningar nýplatónismans við kenningar Hegels og auk þess rímar mikil áhersla hans á andann við hugmyndafræði hughyggjunnar. Benedikt fjallar á skemmtilegan og persónu­legan hátt um stefnurnar og oft skína hans eigin viðhorf til ákveðinna heimspekinga í gegn. Hann hefur aðdáun á þeim mönnum sem börðust gegn viðteknum hugmyndum samfélagsins eins og til dæmis Abelard (1079-1141). Um hann segir Benedikt: „[hann] var hinn gáfaðasti, djarfasti, lærðasti, skarpasti og mælskasti og liprasti allra þeirra sem nokkrar sögur eru af á 11. og 12. öld […] hann götvaði upp hverja mótsögnina af annari í bókum kirkjunnar og þrumaði hlífðarlaust á móti kirkjufeðrum.“15 Benedikt þykir hins vegar lítið koma til ófrumlegra manna sem börðust ekki á móti valdinu eins og umfjöllun hans um Albertus Mikla (1193/1206-1280) ber með sér. Hann tekur fram að Albertus hafi aldrei komist í stríð við kirkjuna og segir: „hann hugsaði ekki mikið upp sjálfur.“16 Þessi afstaða Benedikt kemur ekki á óvart þegar hans eigin lífshlaup er haft í huga, en eins og áður sagði var hann mikill mótþróaseggur.

Í ritgerðinni er hann trúr markmiði sínu, að vera á aðþýðlegum nótum og höfða til Íslendinga. Hann tengir á nokkrum stöðum heimspekisöguna við íslenska menningu. Hann líkir til að mynda ljóðum Hesiodusar við Eddukvæðin og kenningu sjálfs Aristótelesar um hið góða við helgikvæðið Lilju. Þannig reynir Benedikt að vekja áhuga landsmanna á efninu. Greinin getur varla talist vísindaleg en það var heldur ekki ætlun Benedikts eins og afsökun hans til hinna „lærðu“ manna, sem hann hefur innan sviga í upphafi skrifa sinna, gefur til kynna. Þrátt fyrir að vera menntaður maður var Benedikt fyrst og fremst alþýðufræðari og kennari, fremur en vísindamaður eins og til dæmis útgáfustarf hans á Gefn ber vitni.17 „Um það að vita“ er ekki hnökralaus en vert er að hafa í huga sögulegt samhengi hennar og tilgang, ásamt því að hún er frumkvöðlaverk í ritun heimspekisögu á Íslandi.

Aftanmálsgreinar

1. Benedikt Gröndal 1983: 25-26.

2. Páll Valsson 1996: 361.

3. Gils Guðmundsson 1981: 18.

4. Páll Valsson 1996: 359-366.

5. Benedikt Gröndal 1983: 62.

6. Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2011: 241. Náttúrufræðin, myndlistin og skrautskriftin sameinast í stórvirk­inu Íslenskir fuglar (Crymogea, 2011).

7. Benedikt Gröndal 1981: 143 og 158.

8. Páll Valsson 1996: 362.

9. Þórir Óskarsson 1987: 108.

10. Benedikt Gröndal 1983: 284.

11. Benedikt Gröndal 1870: 11.

12. Benedikt Gröndal 1873: 65.

13. Gottskálk Jensson 2010: 31-33.

14. Benedikt Gröndal 1873: 64.

15. Benedikt Gröndal 1873: 98-99.

16. Benedikt Gröndal 1873: 104.

17. Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2011: 245.

Heimildir

Benedikt Gröndal. 1870. Leiðari. Gefn 1:1, 1-14.
Benedikt Gröndal. 1873. „Um það að vita“. Gefn 4:1, 61-105.
Benedikt Gröndal. 1981. „Platon“. Rit I, bls. 158. Skuggsjá, Hafnarfirði.
Benedikt Gröndal. 1983. „Dægradvöl (Ævisaga mín)“. Rit III, bls. 7-288. Skuggsjá, Hafnarfirði.
Gils Guðmundsson. 1981. „Benedikt Gröndal: Æviferill og helstu störf“. Rit I, bls. 7-30. Skuggsjá, Hafnarfirði.
Gottskálk Jensson. 2010. ,Af merkingarusla í heitum háskólagreina: hugleiðing um sögu 18. aldar nýyrðanna „bókmenntir“ og „heimspeki““. Ritið 10:3: 7-35.
Kristinn Haukur Skarphéðinsson. 2011. Eftirmáli. Íslenskir fuglar: teiknaðir af Benedikt Gröndal, bls. 235-251. Crymogea, Reykjavík.
Páll Valsson. 1996. „Hömlulaus ljóðræn sveimhygli: Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal“. Íslensk bókmenntasaga III, bls. 359-366. Mál og menning, Reykjavík.
Þórir Óskarsson. 1987. Undarleg tákn á tímans bárum: Ljóð og fagurfræði Benedikts Gröndals. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.

 


 

Um það að vita

(Þó þessi ritgjörð kunni að þykja nokkuð „prestaskólaleg“ eða þessleiðis, þá læt eg nú samt prenta hana hér, af því eg er ekki viss um að fá betra tækifæri til þess í bráð. Eg vona að kunníngjar mínir fyrirgefi, þó eg sem „ólærður“ maður velti mér hér inn í efni þessara „lærðu“ manna, sem ekki geta ritað einn staf fyrir tómum „lærdómi“: Það sem eg les, fyrir því geri eg mér sjálfur opt grein með því að rita það; og svo hefir og orðið með þetta efni.)

Menn leggja fyrir sig ýmsa hluti, og sú regla gildir ætíð, að einn maður getur ekki vitað allt. En þetta allt er heimurinn, og heimurinn er einúngis einn. Heimurinn er allt hið skapaða, bæði and­legt og líkamlegt, og allt hið skapaða er óaðgreinanlega samtengt hvað við annað. En það er sjálfsagt, að guð er undan skilinn hér frá, því hann einn er ekki skapaður, heldur er hann einn skapari alls. Að þekkja heiminn, er þá sama sem að þekkja allt sem í heiminum er. En af því að enginn maður kemst yfir það, þá hafa menn skipt hlutunum niður, og leggur sinn stund á hvern hlut, eptir því sem hann finnur sig lagaðan til; sumir stunda málin (málfræðíngar), og sumir enda ekki nema eitt mál; sumir rýna eptir stjörnum, sumir eptir dýrum o.s.fr. Heimurinn bendir oss þegjandi á þetta, því engum dettur í hug að slengja saman stjörnum og málum t.a.m., eða dýrum og jurtum eða því sem er auðsjáanlega annars eðlis. Þannig er undir komin skiptíng heimsins í vísindagreinir, og þær eru mjög margar og margvíslegar. En af því sem áður er sagt, leiðir, að allar vísindagreinir hánga saman og mega eigi aðgreinast; menn sjá líka, að það er ekki unnt að stunda eina grein, nema menn stundi fleiri, og því verr er maðurinn að sér, sem hann er eintrjáníngslegar bundinn við þá einu. Hvernig á nokkur málfræðíngur til að mynda að skilja dýrasögu Aristóteles, nema hann þekki dýrafræði? Sjálfsagt er það, að ekki liggja allar vísindagreinir jafn nærri hvor annari; til að mynda dýrafræði og stjörnufræði — þær eru ekki náskyldar, en þó skyldar að því leyti sem jarðarhnötturinn er einn hluti alheimsins; málfræði er og ekki náskyld dýrafræði, en þó er hún henni skyld að því leyti sem málið heimtar munn, og hann hafa öll dýr; en munnurinn er ós raddarinnar, þótt eigi hafi hana öll dýr. — En hin óendanlega margbreytni og mikilleiki heimsins veldur því, að menn hrasa á tvær hendur: ýmist vita menn einúngis eina vísindagrein eða mjög fáar, og þá eru menn eintrjáníngslegir; eða menn stunda allar eða allflestar, og þá er það með öllu ómögulegt, að menn komist jafn lángt í öllum, eins og aðrir komast í einni eða fám. Þeir menn eru samt ætíð betur að sér og menntaðri, sem stunda sem flest, því þeir taka heiminn í samanhengi hans og heild, en hinir slíta einhverja grein út úr heildinni og vita svo ekkert um annað. Vér skulum hugleiða aðalstefnur vísindanna betur.

Guðfræði er engin vísindagrein og engin fræði, því enginn þekkir guð nema hann sjálfur, og hvernig á nokkur maður að rannsaka guð? Höfðíngi nokkur beiddi Simonides heimspekíng að segja sér hvað guð væri. Simonides beiddi um einn dag til að hugsa sig um. Daginn eptir kom hann og beiddi um tvo daga, og síðan um fjóra. Höfðínginn spurði loksins hví svo væri. Simonides mælti: »Það er af þeirri orsök, að því meir sem eg hugsa um guð, því meira fjarlægist hann mig.« — Það þarf hvorki heimsspekínga né guðfræðínga til að þekkja guð, því sér hverr góður maður þekkir hann. Heldur ekki er það nein vísindagrein, að þýða ritnínguna, því í fyrsta lagi er ritníngin öllum gefin jafnt, en allir geta ekki lesið og skilja heldur ekki allt það sem »guðfræðíngarnir« rita um hana; og í öðru lagi er það venja guðfræðínganna, en enginn réttur, að þýða hana, og að koma sér aldrei saman um margt í henni. En menn skulu ekki ímynda sér, að lærdómur guðfræðínganna um ritnínguna sé meiri eða sannari en annara manna, því það er ekki það orð í heiminum talað, sem ekki má þýða á marga vegu og verða tvíeggjað sverð, ef menn vilja svo. Guðfræðíngarnir koma mönnum ekki nær guði, heldur fjær honum, ef nokkuð er, því af skoðuninni kemur efinn, en efinn er rót trúarleysisins. Hin sanna guðfræði er ekki það, að skilja grísku, eða Clausen og Baur og þess konar rusl; en hún er það, að lifa siðferðislega og réttvíslega í heimi þessum; hún er það, að tilbiðja guð, en menn tilbiðja ekki guð með því að lesa Clausens Hermeneutik eða Martensens Dogmatik, heldur leiðast menn á því í freistíngar og snörur, með því þeir sem þannig lifa, ímynda sér að þeir geti handsamað guð og skilið hann betur en aðrir, en þó gera þeir ekkert annað með þessu, en fyrirlíta guð og saurga helgidóm hans. Það sem menn kalla guðfræði, ætti miklu heldur að heita mannfræði, því það er ekkert annað en um samband mannsins við hið heilaga, og samband mannanna sín á milli, sem er byggt á réttvísi og góðum siðum. Þetta er og hið sama, sem menn kalla að nokkru leyti sálarfræði — það er vísindagrein, sem ekki er til nema í höfðum sálarfræðínga og guðfræðínga.

Heimsspekin er engin vísindagrein, því hún innifelur öll vísindi og alla fræði, eins og nafn hennar sýnir. Guðfræði og heimsspeki eru hvor í annari. Margir hafa þá skoðun, að öfl og viðburðir náttúrunnar hafi leitt af sér guðafræðina (mythologiu), með því að menn hafi ekki getað gert sér grein fyrir þessum hlutum og ímyndað sér þannig æðri verur en menn eru; þannig er goða-trúin upp komin: Þór og Júpíter eru guðir reiðarslaganna, Bragi og Apollo guðir skáldskaparins o.s.fr., af því hið mikla og hið fagra — sem í rauninni á sér rót í hinu eilífa og guðdómlega — hrífur anda mannanna til guðs, hversu sem menn kalla hann og hvernig sem menn trúa á hann. Af guðafræðinni er aptur heimsspekin runnin á þann hátt, að ef guð eða guðir eru til, þá eru þeir í einhverju hlutfalli við menn, en þetta hlutfall er ætíð siðferðislegt, þar af eru komin blót og tilbeiðsla. Hin fyrsta heimsspeki er því kenníng um siðferði manna (Ethik), það er, um það hvernig menn eigi að þóknast guðdóminum. En heimsspekin verður líka sama sem guðafræðin, ef hún hugleiðir guðina sem náttúruöfl. Aptur á móti hafa aðrir þá skoðun, að guðfræðin sé ein tegund af heimsspeki, og það er líka rétt, samkvæmt því sem sagt er um guðfræðina, seinast í greininni.

Heimsspekin er það að skoða þá hluti sem í heiminum eru, en það er náttúran og andinn; á öllum öldum og í hverri mynd sem hún er, hvort heldur hún er skáldskapur, óbundin ræða eða kenníng, þá er hún ekkert annað en það að leita að grundvelli og upphafi heimsins, til þess að leiða allt þar af. Nú er miklu minna um þessa »heimsspekínga« en áður, því menn eru búnir að sjá, að heimsspekin er engin sérstakleg fræði, heldur felur hún í sér bæði náttúruvísindin, málfræði, sögu og fegurðarvísindi, ásamt með kenníngum siðferðilegs lífs eða mannfélagsins, en þessi fimm vísindi eru aðalstefnur andans.

Sér hverr skynsamur maður á hægt með að sjá, hvernig þessi fimm vísindi grípa hvort inní annað. Náttúran er umgjörð og undirstaða mannlegs lífs og félags; úr náttúrunni fáum vér allt viðurværi og á hennar leiksviði eru framdir sjónarleikir mannanna, sem eru annað hvort friður eða styrjöld. Án málsins væru mennirnir ekki menn, því málið er upphaf og viðhald mannlegs félags, allra samtaka, allrar vinnu, allrar styrjaldar og alls friðar; en án siðferðilegs lífs getur mannlegt félag ekki stadizt, en félagið og siðferðið heimtar fegurðina eins og krydd lífsins og má ekki án hennar vera, því þar sem hana vantar, þar er menntunarleysi og myrkur dauðans; fegurðin er sameiníngarliður á milli líkamsins og andans, á milli hins jarðneska og hins himneska, á milli guðs og manna; hún minnir oss á hina eilífu, heilögu rót, sem vér erum runnir af, og hún bendir oss til þess lífsveldis, er vér eigum að leitast við að ná. En sagan segir frá allri þessari eptirsókn mannsins, um dimmar nætur og daga ljósa, hún faðmar allt. Þannig sameinast öll vísindi. Eg skal nú gefa yfirlit yfir heimsspekina eða skoðun manna á heiminum frá elztu tímum og fram á 13du öld, en ekki lengra, því það sem ýngra er, er ekki frumhugsað, heldur upptyggíng eptir enum eldri mönnum.

Hin elzta heimsspeki hefur komið fram í ljóðum. Þannig er bók Jobs, orðskviðir Salómons, Davíðs sálmar: þetta er allt saman ekki annað en heimsspeki, það er: skoðun á lífinu og heiminum, og hlutfalli þess við skaparann, hið góða og hið almáttuga veldi guðs. Það er ekki furða, þótt hin skáldlega heimsspeki gyðínga væri tignarlegust allra, því þeim hlotnaðist hinn mesti löggjafi, sem nokkurn tíma hefir uppi verið, hann, sem sagði þetta hið óttalega og fagra orð: »eg er drottinn þinn guð, þú átt eigi að hafa aðra guði fyrir mér.« Með þessum einföldu orðum var þjóð gyðínga umsvifalaust leidd að upphafi vizkunnar, og þessi orð gjörðu þá hæfilega til þess, að verða jarðneskir forfeður frelsarans, því þau létu þá varðveita trúna á sannan guð, og það er hin sanna heimsspeki. En þótt það nú sé rétt, að kalla löggjafana heimsspekínga, svo sem Móses, eða Lykúrgus, af því þeir heimfærðu heimsspekina uppá mannlegt félag og gáfu lög samkvæmt því sem þeir vissu bezt um hlutfall þess við guðdóminn, þá eigum vér hér ekki við slíka heimsspekínga, heldur þá, sem einúngis skoðuðu heiminn og leituðust við að finna upphaf hans. Móses leitaði ekki þessa upphafs; hann fann það þegar í stað, og því er allt önnur birta yfir gyðíngum en öðrum þjóðum fornaldarinnar. — Sá er ómenntaður, sem ekki veit neitt um þessa baráttu hinna vitrustu manna við fávizkuna, hvernig þeir reyndu til af öllum mætti andans, til þess að ná þekkíngu á uppruna heimsins og með því á sönnu eðli mannlegs lífs, og því skal jeg nú fara stuttlega yfir hinar helztu tilraunir í því efni.

Hin elzta skoðandi heimsspeki er, að því leyti oss er kunnugt, hjá Grikkjum og Indverjum, og á meðal Grikkja er Hesiodus elztur (eitthvað 960 eða 1000 árum fyrir Krist); hann hefir kveðið um goðin, eins konar Gylfaginníngu; er þar sagt frá upphafi þeirra og ýmsum undarlegum hlutum. Enn er til eptir hann kvæði, um vinnu og daga (έργα ϰαί ήμέραι); þar reiknar hann hina fimm mannsaldra: gullöld, silfuröld, eiröld, hetjuöld (hálfguða-öld) og hina fimmtu öld, sem er hans öld, og hefur þá þannig upp: »Æ, að jeg skuli vera vitni til hins fimmta aldurs mannanna! Að jeg ekki fyrir laungu skyldi mega deyja! … Þetta er járn-öld, og hinir spilltu menn hvíla hvorki nætur né daga fyrir eymd og kvöl … Þá flýðu blygðanin og réttvísin aptur til himins frá bústöðum mannanna, skrýddar skínandi blæjum; en hjá dauðlegum mönnum varð eptir harðhent neyð, og engin hjálp finnst handa hinum aumu« — þannig kveður Hesiodus, svo menn sjá, að ekki er það spónnýtt að mönnum mislíkar heimurinn; þetta er eins og í Völuspá: »Bræður munu berjast og að bönum verðast … skeggöld, skálmöld, skildir eru klofnir, vindöld, vargöld, áður veröld steypist«, nema hvað þetta er spá, en hitt lýsíng aldarinnar, eins og Hesiodusi fannst hún.

Þess konar kvæði eru í rauninni ekki annað en trú mannanna, sem skáldið hefur sett í ljóð, eins og Íslendingar kváðu Völuspá, Grímnismál og fleiri Eddukvæði. En seinna, þegar menntun Grikkja óx, þá komu upp margir menn, sem bæði ferðuðust erlendis, til þess að nema vizku af öðrum þjóðum, sem reyndar voru ekki jafn menntaðar (?), en áttu afar gamla klerkastétt, þar sem gömul trú hafði haldist við frá alda öðli (Egiptar), og jósu einnig af sínum eigin brunni, með því þeim var veitt meira ljós en öðrum til þess að rýna eptir eðli hlutanna, þótt þeir sjaldan kæmist nærri sönnu. Þessir vitríngar kendu öðrum, og þeir flokkar, sem námu af þeim og héldu uppi meiníngum þeirra, kallast »skólar«. Heimsspekíngarnir voru þá á allan annan hátt en nú eru lærðir menn; þeir ýmist kendu úti undir berum himni, eða í svölugaungunum í Aþenuborg, eða þeir ferðuðust til og frá, því þá voru engir háskólar né skólahús, heldur var kennslan og allt líf manna öðru vísi en nú. Sumir voru og mjög kátlegir, eins og Diogenes, er hafði tunnu fyrir hús og fyrirleit svo mikið allt mannlegt félag, að þegar hann gat að líta hund lepja vatn, þá fleygði hann burtu trésleif þeirri, sem hann var vanur að drekka með, og drakk eptir það úr lúku sinni; og um albjartan dag gekk hann um torgið í Aþenuborg með skriðljós, og kvaðst vera að leita að mönnum (hann meinti, að hvergi væri þeir til, sem menn mætti kalla). Þegar Alexander mikli kom til Korintuborgar, þá kom hann þar að, sem Diogenes lá í tunnunni, og spurði hann hvað hann gæti gert fyrir hann. »Farðu frá, svo sólin megi skína á mig«, sagði Diogenes.

1. Hinn ióniski skóli leitaði að frumrökum heimsins og vildi fylgja reynslunni; frá honum er runnin sú tilraun, að heimfæra allt uppá skynsemina. Vitríngar þessa skóla fóru eptir frumefnunum: þannig kendi Thales (á 7. öld f.Kr.), að heimurinn hefði upptök sín af vatni;1 Heraklitus (frá Efesus, 500 árum f.Kr) kendi, að hann væri skapaður úr eldi, Anaximenes (frá Miletus, 550 ár. f.Kr.) úr lopti. Empedocles (sikileyskur, 550 ár. f.Kr.) kendi, að heimurinn væri ein sameiníng fjögra höfuðskepna: elds, lopts, vatns og jarðar; hann neitaði að guðirnir hefðu mannlega mynd, og sagði, að guð væri ósýnileg, andleg og óumræðileg vera. Pherecydes (á 6tu öld f.Kr.) kendi fjórar aðalhugmyndir: Seif(ↄ: guð), tímann og jörðina; hann sagði að andi mannsins væri ódauðlegur.2

2. Hinn ítalski skóli kallaðist þannig, af því Pythagoras, sem var fyrir honum, var á Suðurítalíu, sem þá var mjög bygð af Grikkjum. Pythagoras dó 504 f.Kr., og er einhverr hinn merkasti maður. Hann fór austur í heim til að nema fræði, og hélt mörgum venjum austurlandabúa síðan; hann var ætíð þann veg búinn, að hann gekk í síðri kápu alhvítri og gylta krúnu á höfði. Sjálfur sást hann aldrei, að kalla mátti, nema þegar hann kendi, og svo mikinn trúnað lögðu lærisveinar hans á allt er hann sagði, að þegar þeim greindi á um einhvern sannleika, þá var það ætíð úrskurðurinn: »hann sagði það sjálfur« (αὺτοϛ έῳα). Á sér hverjum morgni gengu þeir á móti austurátt og heilsuðu sólinni með saung og hörpuslætti. Aðal lífsregla þeirra var: »að gjöra gott og segja satt« (άληδεύειν ϰαί εύεργετειν). Pythagoras bygði heimsspeki sína á reikníngslist. Byrjun alls er ein einíng (monas); sálin er tala (numerus symbolicus). Þær einíngar, sem mynda alheiminn, eru frumeiníng, sem er púnkturinn; tvítala, sem er línan: þrítala, sem er yfirborðið; fjórtalan, sem er hið þétta (fasta). Sálin streymir út frá mið-eldinum, sem er upphaf lífs og varma; hún fer úr líkamanum, þegar hann deyr, og í aðra líkami (sálarflakk, μετεμψυχωσις). Pythagoras kendi mjög reikníng og stjörnufræði; hann fann að ferhyrníngur á lengstu línu þríhyrníngs er jafn stór og tveir á hinum styttri línunum (magister matheseos); hann rýndi og eptir hlutfalli milli hljóms og strengs; hann vissi að vatn varð að lopti með gufan, og að túnglið var dimmur líkami. Enn skildi hann og, að sólin mundi vera knöttur, og hann vissi hreifíngu og möndulhalla jarðar; hann áleit allan alheiminn að vera samhljóðandi heild; að tíu himinhnettir rynni í kríngum sólu, og að af rás himin­hnattanna kæmi hljómur (harmonia coelestis, ↄ: ef Pythagoras hefur meint þetta þannig, eins og allir lærðir menn halda; en άρμονία þýðir líka samhljóðan í sömu merkíngu og vér höfum það, sem er setníng, niðursetníng hluta, svo þeir eiga rétt saman); hann vissi og að morgunstjarna og kvöldstjarna er hið sama, og sýnast breyta stöðu sinni eptir snúníngi jarðar. Hann kendi, að skilníngur væri æðst sálareðli, en dygðin honum undirorpin. Réttvísin er jöfn tala (άριϑμός ίσάϰις ϊσος). Mennirnir standa í sambandi við guðdóminn fyrir krapt stjarnanna. Margir lærisveinar Pythagoras voru merkilegir menn, svo sem Archytas frá Tarent, Timeus frá Lokris, Hippon frá Rhegium og margir fleiri. Auðséð er á kenníngum Pythagoras, að hann hefir numið af Egiptum og Indum, því þar var stjörnulist iðkuð frá alda öðli meir en nokkurstaðar í heimi; en kenníngum hans var ekki nægur gaumur gefinn, heldur týndust þær í heimslífinu; annars mundu menn hafa vitað marga hluti nær sanni en var. Ekkert rit er til eptir Pythagoras; kvæði nokkurt, er kallast »gullvers« (χρυσεα έπη), og inniheldur lífsreglur og ýmsar kenníngar, er varla eptir hann, þótt það sé kent við nafn hans.

3. Hinn eleatiski skóli kallaðist þannig af Elea, borg á Suðurítalíu; þar bjó Zenon (500 árum f.Kr.), hann var einna helztur heimsspekíngur þessa skóla. Þeir sem þessum skóla fylgdu, álitu alla hluti að vera tómar hugmyndir, að skilníngurinn einn væri verulegleiki, og að guð væri heimurinn. Zenon kendi, að ef hlutir þeir, er í kríngum oss eru, væri í raun og veru eins og vér skynjum þá, þá væru þeir eintóm vitleysa og staðleysa; hann áleit að engin hreifíng gæti átt stað. Þann kennslumáta hafði Zenon, að hann talaði við menn, og kom þeim í bobba með orðasnúníngum, svo þeir féllu um sjálfa sig. — Xenofanes frá Kolofon stofnaði þennan skóla í Elea 536 árum f.Kr., og orti kvæði um náttúruna; hann kendi, að guð væri einn efstur guða og manna, ólíkur mönnum að mynd og muna;3 hann kendi og að guð væri hnöttóttur,4 og að hnattmyndin táknaði íhugan; að ekkert kæmi af engu, og að allt eða alheimurinn væri því einn einasti hlutur, óbreytanlegur og eilífur. Alheimurinn er einn, og þessi eini er guð. Menn geta ekkert sagt visst, heldur er allt get­gátur. Parmenides (kennari Zenons og honum samtíða) kendi, að eldur hefði myndað jörðina, og hreifði hana; hann hélt að guð væri ljóshríngur, sem girti himininn.5 Hann var fyrstur heimsspekíngur, sem gerði mun á, meiníngu og vissu. — Melissus frá Samos (440 árum f.Kr.), hershöfðíngi og stjórnarmaður, neitaði því, að líkamarnir hefði nokkra útþenslu eða stærð.

4. Atomista skólinn kendi, að frumefni allra hluta og alls verulegleika væri frum-arið (atoma), eður ímyndaðar agnir sem enginn sæi, en væri eilífar og margvíslegar að mynd; þessar agnir hefði sameinast af hendíngu, og þannig væri heimurinn til kominn. Sálin er sameiníng eldagna. Tveir eru merkilegastir af þessum skóla: Heraklitus frá Efesus (500 árum f.Kr.), sem kallaður var grátstafur, af því hann harmaði óstöðugleika heimsins og að allt hvyrfi á burtu en ekkert stæði í stað. Hið sama áleit og Platon, en hann fór betur með það: »ekkert er, en allt verður«.6 Heraklitus var þúnglyndur og þúngskilinn, skáldlegur og djúpsær. — Demokritus frá Abdera (470 f.Kr.) var gagnstæður Heraklitus; því þar sem Heraklitus grét af öllu, þá hló Demokritus að öllu; hann kendi að nauðsynin stýrði náttúrunni, og að jafnlyndi væri upphaf sælunnar. (Sumir telja Epikurus til þessa skóla, sumir sleppa Heraklitusi; o.s.fr.)

Þeir heimsspekíngar, sem vér nú munum minnast á, mynduðu eigi kennsluskóla, en höfðu nafn sitt ýmist af mönnum, stöðum eða öðrum hlutum. Sophistarnir höfðu ýmsar skoðanir á lífinu: Gorgías frá Leontium sagði, að enginn hlutur væri í rauninni til; Protagoras frá Abdera, að menn gætu aldrei komist að neinum sannleika; Critias, að trúarbrögðin væru uppáfinníngar löggjaf­anna; Pólus og Trasymakkus, að enginn munur væri á góðu og illu o.s.fr. —

Kynikarnir álitu bindindi hina mestu dygð, og að með því einu móti yrðu menn lausir við öll hlutföll heimsins. Þeir sögðu að hið góða væri fagurt, hið illa ljótt, en allt annað ómerkilegt. Meðal þeirra voru Antisthenes og Diogenes frá Sinope, sem fyrr var nefndur.

Kyrenaíkarnir sögðu, að dygðin væri réttstilt, samhljóðandi fullnægíng allrar nautnar og laung­unar, og menn ætti að njóta sem lengst. Meðal þeirra var Theodorus, er sagði: engin dygð er til, en tilgángur lífsins er einúngis að skemta sér. Þó að heimsspekíngarnir, bæði þessir, Epikúrarnir og fl., hefðu þessar skoðanir, sem vér álítum óhafandi, og sem raunar eru undirrót ólifnaðar og alls ills, þá megum vér ekki halda, að þeir hafi lifað þannig; þeir voru miklu fremur fyrirmynd manna í dygðum og góðum siðum.

Kynikarnir heita á íslendsku »hundíngjar« (af ϰύων hundur), þeir nefndust svo, af því of mikil bindindi gerir mann eins dýrslegan, eins og of mikil nautn á hinn bóginn. Menn hafa engan rétt til þess, að neita sér um þá ánægju og þann unað, er lífið má veita; mennirnir eru menn, en ekki dýr; mennirnir einir geta fundið verulega gleði og djúpa hrygð, en það geta dýrin ekki á sama hátt; þetta sannast af því, að engin jarðnesk vera getur grátið eða hlegið og brosað, nema maðurinn einn; allar menntaðar þjóðir heimta unað og gleði, ágæti listanna og nautn líkama og sálar, og er það ætíð merki uppá eintrjáníngsskap og skakka skoðun á lífinu, ef menn kalla það óþarfa. En allt á að vera í hófi, og ekki um of. Kyrenaíkarnir höfðu nafn af Kyrene í Affríku; þar bjó Aristippus, sem var foríngi þessa flokks.

Þá er enn sá flokkur heimsspekínga, er heitir efunarmenn (Sceptici, af σχεψις, skoðun); þeir skoðuðu allt og efuðust um allt. Zenon frá Elea hafði þegar lagt grundvöll til þessa flokks, eða gefið honum undir fótinn, með því hann gekk ætíð út frá einhverju, sem hann gerði ráð fyrir að gæti verið (δποϑεσις), en sagði ekki víst, að það endilega hlyti að vera; hann sagði til að mynda: »setjum nú svo, að staður sé til« (εί έστί τόπος) — hvað þá? En hann grundvallaði samt ekki efunarflokkinn, heldur gerði það Pyrrhon. Hann var fyrst málari, en lærði síðan hjá Demokritus. Hann gat ekki fellt sig við Demokritus, en áleit, að á móti hverri sönnun ætti koma með aðra sönnun eins gilda, og þess vegna væri allar ályktanir (conclusiones) óvissar; menn gæti aldrei sagt já eða nei með neinni vissu. Ekki neitaði hann með öllu tilveru guðs, en áleit bæði það og annað ósannandi og menn yrðu því allt af að efast um það. Hann trúði því, að menn skynjuðu hlutina einúngis af vana, og því yrðu menn að fara eptir venju og almenníngs áliti; menn mættu ekki forðast neitt, né sækjast eptir neinu, ekki gleðjast mjög né hryggjast, því ætíð væri óvisst, hvað væri gott, og hvað illt. — En þótt nú þessi skoðun ætti að leiða af sér fyrirlitníngu á öllu, jafnt góðu og illu, fyrst menn vita aldrei hvað er gott eða illt, sem og líka fögru og ófögru, vizku og fávizku, fyrst menn vita ekkert ákveðið um hlutina, og þótt Timon frá Flion segði hreint út, að öll vísindi væri ónýt, af því allt væri óvisst og gæti því ekki leitt mann til lukku né rósemi: þá hefir samt þessi flokkur miklu meira gagnað vísindunum en hitt, með því þeir hafa rannsakað alla hluti frá öllum hliðum, og sjálfir sýnt afbragðs lærdóm opt og tíðum, svo sem Sextus Empiricus, er menn halda að hafi verið uppi á 2. öld eptir Krist, og hefir látið eptir sig rit, er lýsa miklum lærdómi og skarpleik. En það gefur að skilja, að slíkir menn eru ekki sem beztir vinir trúarinnar, því trúin vill trú, en ekki efa, og gerðu því efunarmennirnir mesta spell á efri tímum kristninnar, eins og lesa má í einni ræðu Gregoríus af Nazianz: »En eptir að Sextusarnir og Pyrrhónarnir7 og sú túnga, sem full er mótmæla, hefir smogið inn í kirkjur vorar eins og óttaleg og ill sýki, og þvaður þykir upp­lýsíng — ó, hverr Jeremías mun harma truflan vora og blindu!«8

Þá var og Megara-flokkurinn, sem Evklídes stofnaði, frá Megara; hann fylgdi mjög íóniska skóla­num, en heimfærði það allt uppá siðferðið.

Enn var sá heimsspekíngaflokkur, sem Epikúrus stofnaði fyrst í Lampsakus (310 f.Kr.), en flutti sig síðan til Aþenuborgar. Þetta er mikill flokkur, og er þetta aðalkenníng Epíkúrus: Heimsspekin er sú fræði, sem leiðir manninn til lukkunnar fyrir krapt skynseminnar; siðafræðin er því aðalhluti heimsspekinnar, en náttúrufræðin (physica) og ræðan (canonica, dialectica) eru aukahlutir. Ef maðurinn ekki hefði nema einfaldar tilfinníngar, þá gæti hann ekki ályktað, og væri ekki meiri en dýrin. En maðurinn hefur tvenns konar eðli, sem er hið ytra, nefnilega það að menn skynja líkamana, og hið innra, sem er skilníngsveldið. Heimurinn er úr frum-ari (atomista kenníng), og er orðinn til af hendíngu; beri menn saman hið illa og ófullkomna í heiminum við sælu og frið guðanna, þá geta menn ekki trúað því, að heimurinn sé skapaður af skynsamri eða viturri veru. Ekkert er gott til nema nautn og skemtan; unaður andans er það að vera nærri hinu þægilega, en fjarri hinu óþægilega; allar tilfinníngar eru jafnar að tign eður ágæti, en ójafnar að afli, varanleika og afleiðíngum. Hin mesta dygð er þess vegna hyggindin, sem er uppspretta réttvísinnar. — Ekkert er til af ritum Epikúrus, nema fáein brot í riti Diogenes Laertíuss um náttúruna, sem fundist hefir í Herkúlanum. Engin heimsspeki hefir, ef til vill, verið jafn misskilin og kenníng Epikúrus. Hann kendi að hyggindi væri hin mesta dygð, en hófsemi er og hyggindi. Epikúrus var manna hófsamastur, en þó héldu menn að hann kendi eptirsókn allrar nautnar, og eru því enn óhófsmenn og sælkerar kallaðir »Epikúrar«. Svo mjög var þetta allt misskilið, að Epikúrarnir voru reknir burtu úr Macedoníu, af Lysippussi; frá Messeníu, Rómaborg og Aþenuborg.

Enn er Stóa-flokkurinn, sem nefndist svo af Stoa, er var gángur eða hallargarður í Aþenuborg, og söfnuðust þeir þar fyrst saman. Þessi flokkur er stofnaður af Zenon frá Citium á Cyprus, hér um bil 350 árum fyrir Krist, og er einhverr hinn merkilegasti allra heimsspekínga flokka; einkunn hans var: »þoldu og þreyðu« (abstine et sustine), og þessi orð einkenna allan anda hans. Þeir hafa haft ákaflega mikil áhrif á heiminn, og flestir hinir lærðustu og merkustu menn miðaldanna hafa án efa tekið sér snið eptir þeim, með því að samlaga alvörugefni þeirra við kristna skoðun. Stóikarnir álitu dygðina hið einasta góða, og allt annað ónýtt; enginn tröppugángur er í illu og góðu; annars fylgdu þeir skiptíngu Platons á dygðinni. Ein af reglum þeirra var sú, að láta engan hlut hrífa sig til undrunar,9 og engan til harma. En af þessari kenníngu leiddi aptur rángláta fyrirlitníngu á mörgu, eins og allir sjá. Hinir kristnu vitríngar fetuðu og dyggilega í fótspor þeirra, og kölluðu allt hégóma (vanitas vanitatum), eins og Salómon, þegar hann var orðinn saddur á nautninni. Flestir þeir Rómverjar, sem mikið kvað að og voru uppi eptir fall fólkstjórnarinnar, voru Stóikar: óbeygjanlegir á móti spillíngunni og harðstjórninni; þeir trúðu á mátt sinn og megin og létu aldrei undan; meiníngar Stóikanna um heimsbyggínguna voru bygðar á skynseminni, sem var gjörandi heimsins, og á efninu (materia), sem er þolandi. Heimurinn er einúngis einn, umkríngdur af óendanlegum og óhugsandi tómleika; hann er fjórir himnar eða hvolf; í hinum fjærsta himni eru fasta-stjörnur, þá eru reikistjörnur og lopt, þá er vatn og þá jörðin, sem er miðja heimsins. Heimurinn endurnýjast á vissum tímabilum, en endir hvers tímabils er heimsbál. Enginn meðal­vegur er á milli heimsku og vizku; dygðin er ein, og lösturinn einn; hinn dygðugi er tilfinníngarlaus, það er: heimurinn hefir engin áhrif á hann, hið fagra og góða tælir hann ekki til undrunar né gleði; hið ljóta og illa leiðir hann ekki til viðbjóðs né lasta. Margir merkilegir menn voru af þessum flokki: Kleantus, er orti lofsaunginn mikla; Krysippus; Panetius, vinur Scipions Africanus og fyrirmynd Cicerós; Hecaton, Philon frá Larissa. — Cicero og Seneca voru ekki neitt, þeir stældu allt eptir öðrum, sitt eptir hverjum.

Platon og Aristoteles. 1. Platon er einhverr hinn merkilegasti maður í öllu tilliti og heimsspeki hans öll yfirskygð unaðlegum friði og blíðu. Án efa hefir hann komizt næst kristninni af öllum heiðnum mönnum. Þótt hann væri lærisveinn Socrates, þá ritaði Socrates aldrei neitt, en talaði við menn og kendi svo. Platon hafði sama hátt og Socrates, að hann kendi með viðræðum við menn, en reit kenníngar sínar á fögru máli, sem er jafn skáldlegt, sem það er djúpsært. Það sýnir, hve tignarlegar hugsanir Platon hafði, að hann kallaði heimsspekina undirbúníng undir dauðann (μελέτη ϑανάτου), eins og hún væri kenníng kristninnar sjálfrar, því guð er upphaf og endir (α ϰαί ω) og dauðinn leiðir til guðs.10 Aðalatriðin í kenníngu Platons eru þessi: A, Skoðun heimsins. Grundvöllur alls sannleika er guð, sem er hin æðsta hugmynd, hugmynd (hugsjón) hins góða; ímynd guðs er sólin, en hún stendur í miðju allrar tilveru. Heimurinn er verk guðs, og er mikil og reglubundin heild; með reglu heimsins gefur guð sig til kynna: hann er ekki einúngis voldugur, heldur einnig vitur og góður, og án líkama; hann er hið fyrsta sem er sjálfu sér líkt, hin sanna og hreina fegurð, hið einasta eina, sem er hafið upp yfir umbreytíngu og iðran. Alheimurinn er þannig til kominn, að guð, hið eilífa góða, sem ógæfan og öfundin ekki mega snerta, vildi umkríngja sig með verkum, sem væri eins fullkomin og góð og hann sjálfur. Þessi verk gátu ekki orðið til án fyrirmyndar, en þessi fyrirmynd er guðs eigið orð, sem hann talar við sjálfan sig, og vizka hans, er stefnir í hugsun hans á hugmyndina um heiminn. Heims-hugmyndin, sem er al­menn, aðgreinist í margar ólíkar hugmyndir, að því leyti sem hún hángir saman við hinar marg­víslegu eðlistegundir, sem tilveran kemur fram í. Þessar hinar mörgu hugmyndir (ideae) eru í æðsta veldi verulegleikans, óskapaðar og eilífar, ólíkamlegar og óbreytanlegar, og ríkjandi í öllu því sem er og líður; þær eru ómeingaðir eiginlegleikar guðlegrar vizku, og lifandi straumar hennar. Einstaklíngarnir (ↄ: sér hverr hlutur út af fyrir sig) eiga sér rót í þeirri hluttekníngu, sem þeir hafa í þeirri hugmynd, sem er grundvöllur tegundar þeirra. Nauðsyn eyðileggíngarinnar ríkir í einstaklíngunum samsíða grundvelli lífsins og fullkomlegleikans, og allt verður að deyja; hinn upprunalegi tilgángur hins eilífa góða verður aldrei hreinn í verkinu, af því líkaminn og andinn geta aldrei algjörlega sameinast. Þessi eyðileggíng liggur í efnislegu eðli tilverunnar (materia), sem hefur blint og ósigranda afl, sem aldrei var sköpuð, heldur einúngis sett í skorður af guði. Efniseðli heimsins er rót hins illa, og hindrun hins góða. — B, Skoðun sálarinnar og andans. Öll hneigíng andans til hins góða er í rauninni endurminníng (άναμνησις) þess, er hann var sameinaður því í öndverðu. Í anda mannsins eru tveir staðir, hinn guðlausi og dimmi, þarsem ekki er guð; og hinn guðlegi og bjarti, þar sem er sá andi, sem minnir oss á guð, og þessi gáfa eða eðli er hin æðsta sjón sálarinnar, sem er veitt oss ofanað, ↄ: frá guði sjálfum. Hin æðsta skynsemi (vizka), sem er drottinn allrar tilveru, sýnir sig öllum skynsömum verum, fyrst öndunum, þá mönnunum, en það er torvelt að sjá hana. Þekking og sannleikur eru ekki sjálft hið æðsta góða, heldur ímyndir þess. Fyrir krapt þekkíngarinnar komumst vér frá ímyndinni að sjálfum sannleikanum og sjáum síðan hið æðsta góða; þetta er hneigíng sálarsjónarinnar frá skuggunum til ljóssins (ↄ: frá ímynd hins góða til þess sjálfs). Ljósið, sem er alvizkan, sem er guð, sem er hið æðsta góða, er hið eina sem fullkomlega er, sem hefir fullkomna og algilda tilveru, sem er eilíft, og er orsök til þeirra skuggamynda og hugsjóna, er vér sjáum. — Ákvarðan mannsins er tvenns konar, að framkvæma og skilja. Ástin gengur í gegnum allt sem framkvæmt er: hún uppfyllir alla byggíngu alheimsins, hún ræður öllu til framkvæmdar og stillir veraldar-heildina til furðulegra hljóma. Ástin kemur fegurst fram í manninum, hún laðar hann með laungun og vekur hann með sjón hlutarins, og veitir honum ekki hvíld nema í sameiníngu hans sjálfs við hlutinn (andinn verður að samlaga sig sannleikanum, ef hann á að geta skilið hann). Af þessari sameiníngu koma ekki einúngis endanlegir hlutir, heldur einnig óvæntar uppgötvanir, fagrar listir og miklar framkvæmdir. Af því ástin er margvísleg og breytileg, þá er hún í sjálfri sér hvorki ill né góð, en hún fær ágæti sitt af því takmarki, sem hún stefnir á. Meðfædd laungun vekur holdlega fýsn; ágæti andans, sem er hækkað og aukið með iðju og lærdómi, leiðir til dygðarinnar; þetta er hin einasta ást, sem heimsspekíngi sæmir. Fegurðin vekur enga óhreina ást; hún er fyrir ástinni eins og endurskin sannleikans, skuggi ósýnilegrar hugsjónar hins góða; undrunin veitir ástinni það flug, sem henni var neitað um af hinu jarðneska eðli. Eptir því sem dygðin nálgast takmark sitt, hið góða, þá skiptist hún í fjórar greinir, en er þó í rauninni hin sama: hyggindi, hófsemi, hugrekki og réttvísi; í sér hverjum manni er óákvörðuð laungun eptir einhverju, og þetta eitthvað kalla menn hið góða. Sumir hlutir, sem fullnægja oss, eru skammvinnir og ófullkomnir, það eru líkamleg gæði og sú gæfa, sem forlögin veita oss. Aðrir hlutir veita oss varanlega sælu; það eru vísindi og dygð, sem ríkja hjá guði einum í óþrotlegum ljóma og hátt ytir alheimi. Frá guði koma öll gæði, og til hans snúa þau aptur; hann vekur alla laungun sálarinnar eða fremur endurminníngu, því áður var sá tími, er sálin sá hann frá augliti til auglitis, áður en hún bygði þessa jörð; hún getur aptur nálgast hann, ef hún með dygðum hefur sig til hans, frjáls og hreinsuð frá hinu illa. En þetta getur ekki orðið í þessu lífi, af því það er takmarkað af efniseðlinu, heldur er ódauðleikinn það takmark, sem uppfyllast munu hin eptiræsktu gæði. Hin æðsta hugsjón mannlegrar fullsælu getur ekki hugsast nema í reglubundnu ríki, þar sem konúngurinn er heimsspekíngur, það er: skilur heimslífið og hefur í sér hugsjón hins góða, sem hann lætur streyma út til allra og lífgar þá með.

Þetta eru nú aðalatriðin úr kenníngum Platons, og hefur mönnum fundist mikið um þær á öllum tímum. Jeg hef raunar ekki lýst nákvæmlega kenníngu Platons um sálina, hversu hann deilir henni í þrjá flokka eða stefnur, og mörgu öðru er hér sleppt. Katólskir heimsspekíngar hafa mjög leitað fyrir sér um það, hvort Platon muni hafa þekkt sannan guð eða ekki. Þessi spurníng er jafn heimskuleg og hún er óþörf; því það liggur í augum uppi, að Platon hefur leitað hins sanna guðs, og hann hefur fundið hann. En menn sjá hæglega, jafnvel á hinni daufu og ónógu lýsíngu, sem jeg hef gefið um Platon, hversu örðugt hann hefir átt með það; hann ýmist leikur sér í skáldahugmyndum eða stritar í þýngstu hugsunum til þess að finna þetta góða »sem er torvelt að sjá« (μόγις ὁρασϑαι), sem varla verður séð, en þótt andinn sé allur á flugi. Þessi rannsókn katólskra manna um Platon hófst snemma; Justinus fullyrðir að hann hafi þekkt guð, en Augustinus þorir eigi að fullyrða það; og nú á seinustu tímum hafa menn aptur vakið máls á þessu; en það er einkum til þess að fá að vita, hvort Platon muni vera í helvíti eða ekki, því þar er mörgum svo mikið um að gjöra, að hnýsast eptir því, sem er óviðurkvæmilegt og ómögulegt. Dante hefur náttúrlega látið Platon vera í helvíti,11 eptir þeirri skoðun, sem Kristur hefir sjálfur styrkt, að enginn sjái föðurinn nema hann trúi á soninn; og katólskir fara því enn lengra, til að hjálpa Platon, með því þeir segja að hann kenni um hið »lifanda orð« (λογον) og þetta orð sé sonurinn (Kristur); þannig heimfæra þeir alla kenníngu hans til biblíustaða. Það, sem æfinlega er víst, er það, að þótt Platon hafi þekkt guð sem »hið góða«, þá skoðaði hann ekki guð sem skapara, sem er frumeðli guðs (ef það er leyfilegt að orða þetta þannig); því enginn nema guð er til frá eilífð, og sé annar hlutur til frá eilífð (nefnilega efnið, sem Platon lætur vera eilíft), þá eru til tveir guðir, sem ekki getur staðist. Platon fór nú aldrei svo lángt í hina stefnuna, að hann kallaði efnið guð; en hefði hann gert það, þá hefði hann lent í austurlenzkum kennígum, sem kendu tvo guði, illan og góðan (myrkur og ljós), sem sí og æ lægi í baráttu, eins og Heimdallur og Loki, sem börðust til eilífðar um Brísíngamen að vestursölum við Síngastein; og mundi allt þetta hafa orðið að Gnosticismus. Platon skoðaði guð sem fylki heimsins (διαπραττοτα την ϰοσμου ταξιν); en hvort Platon sé í himnaríki eða helvíti, það vitum vér eigi, og enginn skynsamur maður kemur upp með slík spursmál.

2. Aristoteles var lærisveinn Platons, og segja menn hann hafi vitað allt sem vitað varð á hans dögum. Hann var kennari Alexanders mikla. »Eg er ekki eins glaður yfir því að eg hef eignast son«, ritaði Filippus Macedonakonúngur til Aristoteles, þegar hann beiddi hann að kenna Alexander, »eins og yfir því að hann er fæddur á meðan þú ert uppi«, enda mun varla nokkur kennari hafa haft meiri lærisvein, né nokkur lærisveinn meiri kennara. Í ritum sínum hefur Platon ætíð viðtals-hátt (dialog) og lætur kennara (Socrates) og lærisvein hjálpast að til að leiða fram hið sanna; verður ritið á þessu miklu lengra, en þá aptur líka fjörugt og skáldlegt; þessa ritmáta neytir Aristoteles aldrei; hann er sjálfur kennandi, stuttorður og gagnorður, og hnitmiðar orðin niður; lýsíngar hans eru furðulega nákvæmar og votta það, að hann hefir sjálfur séð og reynt allt það er hann talar um. Sagt er að hann hafi verið um tíma með Alexander á herferð hans; og hafi Alexander sent honum fjölda dýra ávallt, og meir en millíón ríkisdala (800 talent), en hvað sem er um það, þá hefir Aristoteles hlotið að sjá sjálfur það er hann hefir lýst í dýrasögu sinni, svo er frá því gengið. Enginn fornmaður hefir eins vísindalegt mál og það sem Aristoteles ritar. Aristoteles hafði þann kennsluhátt, að hann gekk um gólf með lærisveinum sínum og kendi svo, því var hans flokkur kallaður gaungumanna-flokkur (περιπατιτηϰοι af περιπατειν að gánga til og frá), en Platon kendi í þeim garði er Αϰαδημιϰοι hét, því voru hans menn kallaðir Akademíumenn (αϰαδημιϰοι, academici); af Academia eru skólar og kallaðir þannig, og eru það einkum æðri skólar. Sum af ritum Aristoteles eru týnd, en þó er ákaflega mikið sem til er, og jafn undrunar vert fyrir sakir mikilleika og margfaldleika sem djúpleika og skarpleika.

Aristoteles vill sanna tilveru guðs af hreifíngunni, þannig, að allt það er hreifist, hlýtur að hafa einhverja orsök, sem komi því í hreifíngu. Og ef þessi orsök hreifist, þá hlýtur hún að hreifast af annari orsök. En það þótti Ar. ótækt, að láta þetta gánga óendanlega, og því trúir hann því, að guð, sem hreifir allt, sé sjálfur kyrr. En þessa kenníngu um kyrð guðs framsetur Aristoteles af þeirri orsök, að hann segir að hreifíng sé umbreytíng, en guð getur ekki verið undirorpinn umbreytíngu. Vegna þess að guð kemur öllu í hreifíngu, þá er hann endalaus verkan (actus purus); en þessi verkan, sem er endalaus og sjálf í eilífri kyrð, getur ekki verið annað en hugsan, og hún er hið æðsta veldi sælunnar. Í tilverunni eru þrjú grundvallareðli: hið góða út af fyrir sig; hugsunin út af fyrir sig, og verkanin eða lífið út af fyrir sig. En hugsunin út af fyrir sig er hugsun hins góða út af fyrir sig, og þetta góða er guð sjálfur. Guð hugsar því sjálfan sig eilíflega; hann er sjálfhugsandi hugsun, sem alheimurinn hreifist í kríngum. Þetta hið góða, óhreifanlega hreifandi (»stað haldandi í kyrrleiks valdi« segir Eysteinn í Lilju) sem menn æskja eptir, er nauðsynlegt upphaf hlutanna, sem heimurinn er staðfestur í. Tilverurnar eru þrjár, ein óumbreytanleg (guð), og tvær náttúrulegar: andinn og líkaminn. Heimurinn er eilífur; og undir hinum gjörsamlega kyrra guði, hinum æðsta, standa aðrir guðir, eilífir, óhreifanlegir hverr fyrir sig, og ódeililegir. Hinn æðsti guð er hin einasta fullkomna frumvera (substantia, entelechia), ódeililegur gjörsamlega. Maðurinn er samsettur af efni (líkama) og anda. En af því andinn ekki getur komið til vitundar vorrar, nema í líkamanum, þá getur hann ekki verið fyrir utan líkamann, þótt hann sé annars eðlis. — Ástin á hæðsta stigi er vinátta. Á milli ánægjunnar og framkvæmdar stendur frelsið, og skilur þau stundum að, með því það afneitar ánægjunni og kýs hið sára. Löstur er þrennt: illska, óhóf og ómennska. Dygðin er tvenns konar: hin siðferðislega dygð, sem kemur fram í mannlífinu, og hin skilningslega dygð, sem kemur fram í hugsuninni, og er æðra eðlis. Menn geta kosið um tvenns konar líf, nefnilega hið framkvæmdarsama, sem er hægra, og hið skoðandi líf, sem er æðra og erfiðara; á þessu er fullsælan bygð. Góð heilsa, afl og auður eru nauðsynleg til fullsælu, en samt ekki nóg. Hin sanna fullsæla, sem allt annað fylgir, er framkvæmdarsemi sálarinnar, sem verður innan vebanda dygðarinnar. Eðli andans eru tvö: 1. Skilníngur, sem er list, hyggindi, skynsemi, vísindi og vizka; 2. Tilfinníng, sem er skynjan, laungun og vit. Tilveran hefir tíu aðalhætti (kate­goriae): 1, efni, 2, stærð, 3, ástand, 4, hlutfall, 5, rúm, 6, tíma, 7, legu, 8, að hafa, 9, að gjöra, 10, að þola. (Seinni lærisveinar hans bættu fimm öðrum við (postpraedicamenta): 11, mótsögn, 12, undanfara, 13, eptirfara, 14, samveru, 15, hreifingu).

Aftanmálsgreinar

1. Deum autem eam mentem, quae ex aquã cuncta fingeret. Cic. de nat. deor. Engin rit eru til eptir þessa menn.

2. Quoad literis exstat proditum, Pherecydes primus dixit, animos hominum esse sempiternos. Cis. Tusc.

3. Έίς ϑεός ἒν τε ϑεοϊσι ϰαί άνϑρώποισι μέγιστος οϋτι δέμας ϑνητοϊσιν δμοιος, ούδέ νόημα

4. conglobatȧ figura. Cic. Acad. I 2.

5. Nam Parmenides commentitium quiddam coronae similitudine efficit: Stephanen appellat, continentem ardore lucis orbem, qui cingit coelum, quem appellat Deum. Cic. de nat. Deor. l.

6. ἒστ μέν γάρ οϑδέποτ ούδέν, άεί δέ γίγνεται. Plat. Theaetet.

7. Svo kölluðust efunarmennirnir og, af Pyrrhóni.

8. Gregor. Naziazenus Oratio. XXI in Athanasium: άφ’ ού δέ Σέξτοι Πυρρώνες, ϰαί ή άντίϑετος γλῶσσα ὤσπερ τι νόσημα δεινόν ϰαί ϰαϰόηϑες ταϊς έϰϰλησίαις ήμῶν είσεφϑάρη, ϰαί ή φλυαρία΄παίδευσις ἒὁοξε — ὡ, τίς Ιερεμίας ὀὄύρηται τήν ήμετέραν σύγχυσιν ϰαί σϰοτόμαιναν;

9. Nil admirari, prope res est una, Numici!
Solaque, quæ possit facere et servare beatum.
                  Hor. Ep. VI. Lib. I.

10. „Svo lifa sér hverr á, sem sálast eigi“ eru fullkomlega platonicé hugsuð orð, og eru hin fegurstu – jeg efast um að fegurra sálmvers hafi nokkruntíma verið ort en þetta.

11. „Tutti l’ammiran, tutti onor gli fanno.
Quivi vid’io e Socrate e Platone
Che’nnanzi agli altri piú presso gli stanno.“
                  Inferno C. IV.
Þetta er nú raunar í skáldskap, en „öllu gamni fylgir nokkur alvara.“ Þessi staður í helvíti, þar sem Dante setur heiðin skáld, heimsspekínga, og aðra mikla heiðíngja, er ekki kvalastaður, heldur inndælt og blómvaxið engi, eins konar campi Elysii eða Ódáinsakur; en hegningin er sú, að rannsóknir þeirra ná aldrei að takmarkinu, sem er guð, fyrir það að Kristur hefir ekki endurleyst þá. Þeir ná því aldrei hinni sönnu sælu himinríkis, sem er tak­mark og mið jarðarlífsins: að sjá guð.

Heimspeki úr glatkistunni: „Um það að vita“ eftir Benedikt Gröndal, seinni hluti

Seinni heimsspeki. Platon og Aristoteles eru hinir mestu vitríngar sem uppi hafa verið: á þeim var ekki einúngis bygð öll skoðandi rannsókn guðlegra hluta á miðöldunum, heldur er og öll heims­speki ýngstu tíma á þeim bygð. Þó að Sophistíkin í rauninni væri rannsókn heimseðlisins, þá var hún loksins orðin svo afmynduð og misbrúkuð til orðaleiks og rángra ályktana, að Platon og Aristoteles kölluðu hana þá list, að rugla menn; og menn kalla enn Sophista þá menn, sem hártoga alla hluti. Lærisveinar Platons og Aristoteles dreifðu kenníngum þeirra sjálfsagt út, en eru þó ekki neitt í samanburði við þá; vér þekkjum varla Arkesilaus frá Pitana (í Eolíu), Karneades frá Kyrene, Theophrastus, Straton frá Lampsakus, Díkearkus frá Messína, Aristoxenus eða Aristion. En þar sem Platon hafði sagt, að heimsspekin væri undirbúníngur undir dauðann, þá sannaðist það síðar meir, þegar Kristur kom og lífgaði og stofnaði trúna. Þá tóku margir trú, og þá varð trúin heimsspeki, og heimsspekin trú.

Nýplatónsku heimsspekíngarnir, sem kallaðir eru, eru tvenns konar. Fyrri flokkurinn var uppi á 1. og 2. öld eptir Krist, og ruglaði saman kenníngum Platons, Aristoteles og Pythagoras; merki­legastir þeirra eru Theon frá Smyrna og Plútarkus frá Keronea. Síðari flokkurinn var uppi á 3. öld e. Kr., og sameinaði gríska heimsspeki við austurlandafræði, svo sem kenníngu Zoroasters o.fl. Stofnandi hans var Ammonius Sakkas, en ritaði ekki. Lærisveinar hans voru Plotinus, Origenes, Longinus, Herenníus. Ammonius Sakkas féll frá kristni til heiðindóms. Lærisveinn Plotinus var Porfyríus, hans lærisveinn Jamblichus, sem hefir ritað merkilega bók um leyndardóma Egiptatrúar. Lærisveinar Jamblichus voru Eustathius, Aedesius og Julianus Apostata Rómakeisari. Þessi heimspeki leiðir til Mysticismus, sem er sú stefna andans, að menn skoða hið yfirnáttúrlega sem orsök heimsins, og megi það sjást með innri sjón andans, með andlegri sjón sem er á undan allri hugsun, og er hér gert ráð fyrir andaheimi, sem menn geti staðið í sambandi við. Þessir nýplatónsku heimsspekíngar trúðu á eina æðstu veru og að öll heiðin trúarbrögð væru opin­beranir hennar á ýmsan hátt; þeir tignuðu Krist sem mikinn mann, er væri misskilinn. Hinir veru­legu hlutir (objecta) koma fram af hugsuninni (eins og Hegel kennir), með því að hið guðlega skilníngsveldi upplýsir sálina, svo hún snýr til sjálfrar sín og verður æðri og einfaldari, gengur þá aptur út frá sjálfri sér og rennur saman við það sem hún sér. Þessi óskiljanlega sálarsjón verður ekki lærð né öðrum gefin; með henni kemst skynsemin að takmarki sínu, hinu andlega og guðlega. Hin lægri, skynjandi skoðun felur engan sannleika í sér; en einúngis það er sannleikur, sem skynsemin skilur sem andlegt. Andi mannsins er forgengilegur, og er hniginn í eðli líkamans af eigin synd; hann fer eptir dauðann í dýr eða menn, eða í stjörnurnar.12 Þessa samanblöndun ýmissa kennínga sjá menn hæglega að vera örstutt frá Gnosticismus og þeim heimsspekínga­flokkum, sem honum eru skyldir, sem vér nú skulum hugleiða.

Gnosticismus. Þetta nafn kemur af γνωσις, þekkíng, og lítur til þess, að þeir flokkar, sem bera það nafn, þóttust hafa þekkíngu — annað merkir það ekki. En aðaleðli þessara flokka er það, að þeir létust sjá inn í einhvern andaheim, með sálarsjóninni, og það var þessi þekkíng þeirra. Kenníngar þeirra aðgreinast frá hinum nýplatónsku á því, að Gnostíkarnir framsettu Krist í þeim á ýmsan hátt, og upphugsuðu ýmsar skiptíngar og ýms hlutföll andaheimsins, sem minna á austurlanda trú. — Ýmsir trúarflokkar komu upp eptir Krist, sem eru ekki eiginlegir Gnostikar, en þetta er allt í rauninni svo skylt, að vér höfum það saman. Þannig voru til að mynda Ebionitarnir, sem Tertúllíanus segir að dragi nafn af Ebion, stofnanda sínum, en Origenes af svipuðu orði ebresku, sem þýðir »fátækur«; þeir áttu heima í Nabathea og víðar í landinu helga, og á Cyprus. Þeir viðurkendu Krist einúngis sem spámann, og fylgdu lögum Móses; Pál postula kölluðu þeir trúarníðíng (apostata) og vonuðu eptir jarðnesku ríki Messíasar.— Nazarearnir trúðu yfirnáttúrlegri fæðíngu Krists og guðdómlegu eðli hans; þeir áttu heima í Beroea og fylgdu lögum Móses. — Þá var og sá flokkur, er kallaðist Elkesaitar, en seinna Sampsear, og var uppi eptir daga Traianus keisara; þeir menn trúðu að andi guðs hefði farið í suma menn, svo sem Adam, Enoch, Abraham, Isak, Móses og Krist. Þeir höfðu ceremoníur gyðínga, köstuðu samt á burtu öllum offurgerðum, máttu giptast og afneita Kristi munnlega, ef þeir játuðu hann í hjartanu. Líkir þessum flokki voru Essear og Cerinthusmenn. Margir trúðu og, að Kristur mundi koma aptur eptir þúsund ár, eptir að Antikristur væri kominn áður, sú trú kallaðist Kilíasmus, og höfðu hana sumir merkir menn, svo sem Justinus Martyr og Ireneus.

Nú er hinn eiginlegi Gnosticismus, sem Tertúllíanus reit á móti þá bók, er heitir »Scorpiacum contra Gnosticos«; aðalkenníngar þeirra eru þannig: það eru tvö frumeðli eða frumguðir, annar illur en annar góður. Hið góða býr í óaðgengilegu ljósi, ljósfyllíngu (πληρωμα), og stendur ekki í beinlínis sambandi við heiminn. Þetta er hinn órjúfandi eða eilífi guð (ϑεος αῤῥηϰτος), hinn ónefnandi (αϰατονομαστος), botnlausi (βυϑος); hið illa, hinn vondi guð er sama sem Ahriman hjá Persum, eptir syriskri og austurlenzkri skoðun, en eptir platónskri og alexandrínskri skoðun sama sem hið eilífa dauða efni (ὔλη), sem lífgast af óreglu í ljóssríkinu. Hið góða frumeðli streymir út sem kraptar (δυναμεις), sem mynda aeones og svo framvegis niðureptir. Hinn líkamlegi heimur er ekki skapaður af hinu góða frumeðli (frumguði), heldur af hinu illa, og hann er díblissa þeirra lífskrapta, sem komnir eru úr ljóssríki. Kristur er æðri vera, hann er endurlausnari, en varð aldrei maður, heldur andlegur líkami (σῶμα πνευματαστις). Sálirnar streyma aptur til ljóssins og sam­einast því (αποϰαταστασις).

Gnostíkunum ber eigi öllum saman.

Satúrnínus, sem lifði í Antiochía á 2. öld, kendi um hinn óþekkta föður, πατερα αγνωστον, og um anda, sem hinir neðstu eru sjö plánetuandar (αγγελοι ϰοσμοϰρατορες, heimsstýrendur; talan 7 er heilög tala). Á móti föðurnum er djöfullinn (σατανας), en hvort hann sé fallinn, eða hann sé illur frá eilífð, er ekki kennt svo menn viti. Hinir sjö plánetu-andar sköpuðu manninn, en sú sköpun skreið; þá kendi faðirinn í brjósti um hann og sendi honum lífsgneista (πνευμα, anda): einúngis sá gneisti kemur aptur til ljóssríkisins (πληρωμα). Einn af hinum 7 öndum er skapari heimsins og guð gyðínga; hann er útstreymdur af Aeónaheiminum, og er því ekki illur andi, af því αιωνες eru frá hinu góða frumeðli; en þó er hann of máttlítill til þess að verja mennina á móti djöflinum. Hinn óþekkti faðir sendir því Krist, hugann (νοῠν), mönnunum til hjálpar. — Áhángendur Satúrnínus lifðu mjög stránglega, máttu aldrei giptast og aldrei eta kjöt.

Basilídes hét annar gnostiskur kennari, og lifði um sama leyti og Satúrnínus. Hann kendi um að­streymíngu andanna að frumguðinum, og eptir hans kenníngu er ættartalan þannig:

θεὸς ἀϰατονόμαστος (hinn ónefnanlegi)
|
νοῦς (hugur)
|
λόγος (orð)
|
φρόνησις (hyggindi)
|
σοφία (vizka)

δύναμις (vald). διϰαιοσύνη (réttvísi). εἰρήνη (friður).

Þessir 7 andar (ↄ: að fráreiknuðum frumguðinum) skapa heiminn og mynda hina fyrstu áttúng (ογδοάς) í sameiníngu með frumverunni. Þessir sjö geta af sér aptur sjö og svo framvegis í sífellu, eptir tölu himnanna (7), eða eptir því sem aðrir segja, eptir tölu andanna (365 ↄ: tala ársdaganna). Þessi andaheimur heitir Abraxas (Αβραξας eða αβρασαξ, sem merkir eptir bókstöfunum 365). Allir andar eru ímynd hins ónefnanlega, en því daufari, sem þeir eru honum fjær. Hinir sjö seinustu (ↄ: fjærstu guði og þess vegna daufustu) andar skapa heiminn og stjórna honum; hinn mesti (αρχων) er fyrir þeim, og er sama sem guð gyðínga; hann er enginn sjálfráður guð, heldur er hann undir æðri stjórn. Basilides kendi ekki upprunalega illsku (malum absolutum), heldur eilíft efni (ὑλην, eins og Platon). Gneisti guðdómsins er ekki einúngis í manninum, heldur og í öllu aleðlinu. Maðurinn á að erfiða sig upp eptir, hann gengur frá einum líkama í annan og verður loksins æðri en höfuðandinn αρχων, því hann er æðra eðlis. En höfuðandinn og hinir 7 skildu ekki veraldar­áformið, þess vegna sendi guð hugann (νοῠν), sem sameinast í skírninni við Jesús, en skilur sig frá honum við dauða hans og sameinast þá ljóssríkinu (πληρωμα). Þessi hugur (νους) kendi mönnum að þekkja hinn æðsta guð; tilgángur endurlausnarinnar var sá, að láta menn þekkja ætt mannanna frá andaheiminum og að menn geti komist þángað aptur með trúnni.

Enn var sá kennari gnostiskur, er Valentinus hét; hann var frá Egiptalandi og lifði í Rómi á annari öld; hann var þrisvar sinnum rekinn úr kirkjunni. Kenníng hans var þannig, að til væri frumvera, frumguð, hinn órannsakanlegi (βυϑός, προπάτωρ, προαρχή); af honum koma (fæðast, getast) þrjár tegundir anda: Ráð (διαϑεσις), Völd (δυναμεις) og Aldir (αιωνες). Gæzkan (ευνοια χαρις, náð) er frá eilífð sameinuð hinum órannsakanlega og framleiðir hugann eður hinn eingetna (νουν, μονογεητον), sem er hinn fyrsti aldarandi (αιων), upphaf alls og sá sem opinberar eða leiðir í ljós hinn órannsakanlega (βυϑος), en samhliða hinum eingetna gengur sannleiksandinn (αληϑεια) fram, honum til uppfyllíngar; af þeim báðum framgánga orðið (λογος) og lífið (ζωη), og þar af aptur maðurinn (ἄνϑρωπος) og kirkjan (έϰϰλησία). Þessir átta andar (ↄ: líf, orð, sannleikur, hugur, aldir, völd, ráð og hinn órannsakanlegi) mynda hina fyrstu áttúng (ογδοας). Orðið og lífið geta aptur af sér tíu aðra aldaranda (αιωνες), fimm karlkyns og fimm kvennkyns; maðurinn og kirkjan geta af sér tólf anda, sex karlkyns og sex kvennkyns, og sú röð endar á viljanum (ϑελετος) og vizkunni (σοφια). — Einúngis hugurinn, hinn eingetni (μονογεης) getur séð frumveruna, en hinir ekki, en þó lángar þá alla til þess. Þessi laungun varð hjá vizkunni (σοφια) að ástríðu; hún vildi ekki samlagast viljanum (ϑελετος), en vildi brjótast fram. Þá sendi guð anda takmörkunarinnar (ὡρος). En nú var friðurinn einu sinni truflaður, og hann þurfti að komast aptur á; þá gat hugurinn Jesús við kenníngarandanum (πνεμα). Jesús átti að vera hið sama fyrir hinn lægra heim, sem hinn eingetni var fyrir hinn æðra. Af þeirri styrjöld, sem vizkan (σοφια) gjörði með því hún vildi brjótast fram, var sköpunarverkið orðið útvíkkað fyrir utan ljóssríkið. Vizkan gat af sér hina lægri vizku (ή ϰατω σοφια, επιϑυμησις, αχαμωϑ) einúngis við laungun sinni eptir hinum órannsakanlega (βυϑος), en ekki við viljanum (ϑελετος); þetta afkvæmi heitir einnig Prunicos, og er óhreint og fullt af ástríðum. Þegar andi takmörkunarinnar (ὡρος) ekki flutti hina lægri vizku og móður hennar til ljóssríkisins, þá steypti hún sér í óskepið (Chaos) og meingaðist því. Loksins beiddi hún Krists; þá frelsaði andi takmörkunarinnar hana úr óskepinu og andinn (αιων) Jesús friðaði hana við hinn órannsakanlega, en þó kemst hún ekki í ljóssríkið, heldur í lægra heim; þar skapar hún ásamt með heimshöfðíngjanum (δημιουργος) hinn óæðra heim, sem er líkamlegur (φυσιϰος) og sálarlegur (ψυχιϰος). Þá koma fram sex heimar með sex öndum; það er hin önnur áttúng (ογδσας;ↄ:6 + δημωυργος og σοφια), sem er ímynd hinnar fyrri áttúngar. Demiurgus (»þessa heims höfðíngi«) skapar hinn þriðja heim úr efninu (ύλη, materia), og veitir honum sál frá sér (ψυχη) og anda (πνευμα) frá vizkunni, sá heimur er mannheimur. Fyrir krapt andans (πνεματος) hefir maðurinn sig upp yfir Demiurgum, sem verður hræddur og englar hans; og til þess að halda mönnunum í hlýðni, bannar hann þeim að eta af tré skilníngsins. En maðurinn óhlýðnaðist því, og fyrir það steypti Demiurgus honum úr sælustaðnum (Paradís) og niður á jörðina eður í hinn lægra líkamsheim og gefur manninum holdlegan líkama; það er hinni lægri vizku að þakka, að maðurinn verður ekki undir líkamanum. Af þessu er hið andlega (τύ πνευματιϰόν) komið um allan heiminn. Þá varð Jesús frelsari (σωτήρ) að koma, til þess að frelsa manninn frá glötun og sameina hann ljóssríkinu (πληρωμα). Demiurgus hafði heitið gyðíngum einúngis sálarlegum (ψυχιϰῳ) Messíasi, og sem svo kemur Jesús í andlegum líkama (σωματι αιϑηριϰῳ), og í skírninni sameinast hann Jesúsi frelsara. Endurlausnin er sameiníng við Krist og sigur yfir líkamanum. Allt er fullkomnað, þegar hinar andlegu (puevmatisku) náttúrur eru orðnar hæfar til að komast í ljóssríkið; hinar sálarlegu (psychisku) koma í ríki Demiurgus, því þær eru þaðan runnar; en hið líkamlega verður að engu.

Ofitar kallaðist einn flokkur, er trúði Gnosticismus: þeir draga nafn af höggorminum (οφις), því hans gætir mjög hjá þeim (höggormsmenn). Þeir trúðu þannig, að einn er frumguð, frumljós, frummaður, upphaf alls (βυϑος); frá því útstreymir þagnarhyggjan (εννοια, σιγη), sem er hinn annar maður; af henni streymir fram andinn eða hin æðri vizka (πνευμα, ή ανω συφία); hún er svo fögur, að bæði frumljósið og þagnarhyggjan verða ástfángnar í henni, og eiga við henni hið algjörða mannlega ljósseðli, sem er hinn himneski Kristur, og hina kvennlegu vizku, eða hina lægri vizku (αχαμωϑ, προυνειϰος). Kristur sameinast ljóssríkinu (πληρωμα), en hin lægri vizka steypir sér niður í óskepið og lífgar það; hún getur af sér heimshöfðíngjann (Demiurgum), sem einnig heitir ίαλδαβαωδ. Demiurgus getur af sér engil, og svo koll af kolli; þá kemur fram hin heilaga sjöund (έβδομας), en hún skapar manninn, en hann er sálarlaus líkami. Demiurgus, sem ætlaði að sameinast frumljósinu, en lenti í miðríkinu (τοπῳ μεσοτητος), gefur manninum líf, en við það rennur allt guðlegt ljós frá Demiurgus til mannanna. Þá speiglar Demiurgus sig í dýpsta óskepi (Chaos), og getur af sér öfundsjúkan og hatursfullan djöful (οφιομορφον). —- Líka trú höfðu fleiri flokkar, svo sem Sethianar, Kainitar o.fl.

Karpokrates frá Alexandríu var samtíða Basilides, og kendi, að alfaðirinn (μονας) væri upphaf margra anda, sem gjörðu upphlaup á móti honum og sköpuðu heiminn. Hin sanna þekkíng (γνωσις) er það, að hefja sig upp yfir heiminn og til alföðursins; þá fær maður ráð yfir heiminum og öndunum; það gjörðu Pythagoras, Platon, og einkum Jesús »sonur Jóseps og Maríu« (ɔ: Karp. kendi að hann væri maður); einúngis fyrir samhand sitt við alföðurinn gjörði Kristur kraptaverk. Karpokrates kendi og, að sálin væri til áður en maðurinn; hann kendi fyrirlitníngu á öllum siðferðislögum og bænum, og að allir ættu allt jafnt. — Bardesanes frá Edessa, á annari öld, kendi svo, að hinn órannsakanlegi (πατηρ αγνωστος) og efnið (ύλη) hefði framleitt djöfulinn (σατανα).

Gnostiskar skoðanir komu upp einnig af sorg skynsamra manna yfir illsku heimsins, svo að þeir gátu ekki trúað því að algóður guð hefði skapað svo illan heim; þessi skoðan kemur fram hjá Hermogenes, en einkum hjá Marcion, sem báðir lifðu á 2. öld. Marcion var biskupssonur, og átti barn við stúlku, en fyrir það setti faðir hans hann út af heilagri kirkju, og þótt Marcion leitaðist hvað eptir annað við að fá aptur inngaungu í kirkjuna með iðran og yfirbót, þá fékk hann það ekki. Hann fékk því melankólska skoðun á heiminum, og guði, og mundi varla hafa stofnað kenníngarflokk sinn, ef kirkjan hefði ekki gefið sjálf tilefni til þess með hörku sinni. Marcion gat ekki ímyndað sér, að sá guð væri góður, sem hefði skapað svo illan heim. Hann hélt því, að til væri æðri guð en skapari heimsins (Demiurgus). Þetta eru aðalatriði Marcions: Skapari hins illa og góða er guð gamla sáttmálans (δημιουργος ϰοσμοϰρατωρ), og hefir aldrei opinberað sig, hvorki í líkama né skynsemi, fyrr en Kristur kom. Guð gamla sáttmálans (testam.) er ófullkominn, takmarkaður og fávís, óstöðug vera og í mótsögn við sjálfan sig. Sé hann almáttugur, hví leyfir hann þá syndina? Sé hann alvitur, hví sér hann þá ei syndina fyrir? Ef hann sér syndina fyrirfram og tálmar henni ekki, þá er hann vondur. — Þessi vera spurði: Adam, hvar ertu? Þess vegna er hann ekki alvitur. Hann lét Ísraels lýð fara á burtu með gull og silfur úr Egiptalandi; þess vegna er hann ránglátur. Hann lét villudýr rífa í sundur börnin, sem smánuðu Elíseus; hann getur því ekki verið góður. Hann iðraðist eptir að hann smurði Saúl; hann veit því ekki hvað hann gjörir. — Marcion reit bók, sem heitir Antitheses, og aðgreindi þar guð gamla sáttmálans og guð nýja sáttmálans; hinn góði og ókunni guð opinberast í Kristi; og eins og guð gamla sáttmálans er harður, eins er guð nýja sáttmálans mildur. Marcion trúði því ekki, að Kristur hefði íklæðzt líkamlegu holdi, af því hið líkamlega er illt og skapað af guði gamla sáttmálans; þess vegna trúði hann heldur ekki upprisunni. Í flokki Marcions voru furðulega strángir siðir; þar mátti engi giptast, af því holdið var sköpun hins illa guðs; enginn giptur maður mátti skírast; enginn mátti nokkurn tíma bragða kjöt, og margar og strángar föstur voru haldnar; þrisvar sinnum varð sérhverr að skírast, og máttu kvennmenn skíra, ef á lá; í kvöldmáltíðinni var haft vatn fyrir vín.

Þrjú eilif frumeðli eru ránglega eignuð kenníngu Marcious (ϑεος αγαϑος, ϑεος πονηροςύληδιαβυλος og δημιουργος διϰαιος), en Tertúllíanus getur þeirra eigi í þeirri bók, sem hann reit á móti Marcion (adv. Marcionem Libb. V og de carne Christi.)

Náskyldir hinum gnostisku flokkum voru Manichæarnir, á miðri 3. öld; þeir tóku lærdóma sína úr Zendavesta, Búddhismus og Gnosticismus, og rugluðu þar Evangelio saman við. Þeir trúðu að tvö ríki væri, ljóssríki og myrkurríki, og ætti í sífeldu stríði. Guðdómurinn setti alheimssálina (ψυχη απαντων) á móti áhlaupum hinna illu anda, sem liggja bæði í stríði hvorr við annan og sameiginlega við hið góða. Heimssálin hefir 5 eiginlegleika: vind, ljós, vatn, eld og líkama. Hinn sýnilegi heimur kemur fram af baráttunni á milli ljóssríkisins og myrkurríkisins.

Ályktan. Þessar skoðanir lýsa erfiðri eptirleit eptir sannleikanum, og það er svo lángt frá því, að menn hafi nokkurn rétt til að skoða þær sem vitleysur, að þær einmitt tela í sér djúpan sannleika. Þær eru heldur ekki draumórar, því flest í þeim má heimfæra uppá trúna og náttúruhlutföllin; þegar menn skoða búníng þeirra sem líkíngarfullan búníng (Allegoria), þá hverfur af þeim þetta ríngl, sem mönnum finnst liggja í þeim. En hitt er og satt, að mennirnir rugluðust og aðgreindu ekki hið trúarlega og hið veraldlega með nógu ákvörðuðum takmörkum; en hvað á að segja, þegar »hugurinn reikar víða«? Sá sem lítið hugsar, hann truflast síður en sá sem mikið hugsar (confunditur animus multa cogitans segir Augustinus). En því ruglaðist þá ekki Platon eða Aristo­teles? Þartil liggja tvö svör: 1. Þeir voru gáfaðri en þessir menn og höfðu betur vit á að greina hugmyndirnar í sundur; 2. Þeir þektu ekki ritnínguna eða Krist. Því eins og hið illa bægir mönnum frá hinu góða, ef menn ekki yfirstíga það, eins verður hið góða sjálft manni til falls, ef menn neyta þess ekki réttilega; þetta á jafn vel við um ritnínguna og sanna trú sem við allt annað í heiminum; það er ekkert orð ritað, og Kristur hefir ekkert orð talað, sem eigi má hártoga, rángskilja eða misskilja, og tveir menn, sem skilja eitthvað sinn á hvorn veg, geta báðir haft rángt fyrir sér. Þetta sést á mörgum ágreiníngi katólskra og prótestanta, og ekki síst á meiníngunum um erfðasyndina.

Eg nenni nú ekki að hleypa mér út í nákvæmar útlistanir á gnostisku kenníngunum; þær eru eins og allt annað, að það má skoða þær á fleiri en einn veg. Eg skal þess vegna benda á fáein atriði, sem mér nú detta í hug. Gnosticismus er samsettur af þrem greinum, 1. Sálarfræði (Psychologia), 2. Guðfræði (Theosophia)13 og 3. Náttúrufræði (Physica, Astrologia og Astronomia). En Evan­gelíið hefir einmitt orðið til þess að rugla allt fyrir þessum mönnum, og kenníng Pythagoras, sem ber með sér sumstaðar gnostiskan keim, hefir á sér hreinni blæ, einmitt af því Pythagoras hafði ekki kenníngu Krists, og gat því ekki misskilið hana né truflast af henni. Það eru fleiri en Gnostikarnir, sem truflast hafa af orðum Krists; eg skal hér einúngis minna menn á Ochin, sem var kallaður lærðari en öll Ítalía, hann kastaði loksins kristinni trú og gjörðist gyðíngur, ekki af neinni léttúð né mannvonzku, heldur af því hann sagðist ekki geta skilið neitt í þeim; þau mótsegðu sjálfum sér og því gæti Kristur ekki verið guðs sonur. Þýðíngar ritníngarinnar af »guðfræðíng­unum«, sem kallast svo, marka eg ekkert betur en hverra annara manna; og þarsem þeir þykjast skilja »rétt«, og geta eytt mótsögnum biblíunnar, er það opt ekkert annað en hártogaðir útúrsnúníngar.

Til sálarfræðinnar (sem svo er kölluð) heyrir til að mynda hin niðurstígandi ættartala hins þríeina veldis jarðarlífsins: valdsins, réttvísinnar og friðarins, sem á sér rót í guði (hinum ónefnanlega), eins og eg hef ritað þegar eg nefndi Basilides; þetta er rétt hugsunarröð: hugur, orð, hyggindi og vizka. Hér til heyrir og kenníng Valentinus um viljann og vizkuna, sem er ekkert annað en sama niðurstaðan sem Aristoteles komst að, og sem seinna á miðöldunum kom fram í allri trúarheims­spekinni (philosophia scholastica) sem intellectus og voluntas; á þessu tvennu er öll Summa theologiae Tómasar frá Aquino bygð. Ætterni vizkunnar er og rétt rakið af Valentínus; ef að vizka og vilji eru alveg samhljóða, þá er andinn á tindi fullkomlegleika síns, en það er nú aldrei, því »viljinn er reiðubúinn, en holdið er veikt«, og vitið getur verið mikið, en viljinn lítill. Vizkan, sem ekki vill þýðast viljann, sem er stýrið, hún vill alltaf leita hærra og hærra (NB. það er ekki guðs vizka, sem hér ræðir um), og hún hefir laungun eptir að komast eptir uppruna alls, sem er guð, en af því hún er ekki einhlít, en vill vera einhlít, þá lendir hún í böndum ófullkomlegleikans og af­kvæmi hennar hlýtur að bera keim af því (προνειϰος).

Það má nærri geta, að þegar menn hugsa um guð sem skapara heimsins, þá er ekki hægt að hugsa sér hann lausan við heiminn; en í kenníngum Gnostikanna kemur guð alltaf fram sem skapari, af því Gnosticismus er ekkert annað en leitan eptir uppruna hlutanna. Hér sveiflast menn þá óumflýjanlega inn í náttúrufræðina, sem hefir orðið mörgum guðfræðíngi til falls, af því þeir þekkja sjaldan mikið til hennar. En á tímum Gnostikanna var náttúrufræðin mestmegnis sama sem trúin, ↄ: sköpunarfræði, eins og á tímum elztu heimsspekíngaskóla Grikkja: þeir fóru einmitt þángað sem engum er ætlað, en hlupu yfir allt sem er á milli uppruna heimsins og mannsins, og það er mikið, því það er ekki hálftæmt enn í dag; Aristoteles lá í dái þángað til seint á 12. öld, þegar trúarheimsspekin tók að magnast; og Galenusi lækni (á 2. öld e. Kr.) var enginn gaumur gefinn. Þess ber og að geta, að þetta voru heiðnir rithöfundar, en allir vita, hversu þverhnýpt trúin tók fyrst fyrir allar kenníngar og rit heiðinna manna.

Aðalatriðið í skoðunum Gnostikanna er það, að þeir gátu ekki ímyndað sér, að algóður guð hefði skapað svo tvískipta tilveru, eins og heimurinn er, og þetta kemur glöggast fram hjá Marcion. En það er einnig hjá öllum hinum, því með því að kenna »frumljós«, »hinn ónefnanlega« o.s.fr., þá vildu þeir ekkert annað en það, að koma guði sem lengst frá heiminum, svo að hann mætti vera öldúngis hreinn af synd og illsku heimsins. Þeir gleymdu gjörsamlega frelsi mannsins eða sáu ekki, að hið illa leiðir greinilega þar af, en ekki af guði (peccatum est aversio a Deo segir Augustinus). En engu að síður gátu þeir ekki komizt hjá þessu, því þó þeir léti guð (»hinn ónefnanlega«) ekki vera skapara heimsins, þá var hann það óbeinlínis, með því allt var af honum runnið. Að hneykslast á því, að Gnosticismus kennir »útrennsli« andanna frá guði (Emanation), það virðist vera óþarfi, því það er ósannað hvernig þeir hafi hugsað sér þessa emanationem; það má allt eins skilja hana fígúrulega eins og bókstaflega; eins og gnostiskir lærdómar eru ekki fyrirdæmanlegir í sjálfum sér, þegar menn skilja þá sem líkíngar í myrkum búníngi, en að skilja þá bókstaflega og gjöra þá að trú, það er fyrirdæmanlegt.

Frá Gnosticismus er skammt til Mysticismus, og Montanistarnir, sem voru uppi í Phrygíu á 2. öld, og kallast einnig Kataphrygii og Pepuziani, eru milliliðurinn á milli Gnosticismus og Mysticismus. Þeir voru mótsettir Gnostíkunum að því leyti, að þeir héldu fast við ritnínguna og viku ekki frá bókstaf hennar, en þeir trúðu helgum innblæstri (inspiratio); þeir lifðu straungu líferni, giptust aldrei og sóktust eptir píslardauða fyrir trúna.

Trúarheimsspekin (Philosophia scholastica). Eg kalla trúarheimsspeki það sama sem Sigurður Melsteð kallar »skólaguðfræði«, og hún er »heimfærsla heimsspekinnar uppá rannsókn um setníngar trúarinnar«. Bonaventura segir, að heimsspekin sé það meðal, sem guðfræðíngurinn gjöri sér speigil með úr hinu skapaða, og stigi á því eins og á stiga upp í himininn. En þó að trúarheimsspekin þannig væri guðfræði; þá var hún meira um leið; hún innifól alla rannsókn allra hluta, en af því guð er æðstur, þá var líka »guðfræðin« æðst, og því hét heimsspekin »ambátt guðfræðinnar« (philosophia theologiae ancilla). Bonaventura hefir ritað annað rit, er kallast »heimfærsla kunnáttanna (ɔ: vísindanna) til guðfræðinnar« (Reductio artium ad theologiam), og þar lýsir hann berlega, að heimsspekin sé rannsókn alls heimsins: »heimsspekin er rannsókn hinna skiljanlegu sannleika, og af því þessir sannleikar eru bundnir við orð, hluti eða siði, þá er hún skynsemisleg, náttúruleg eða siðferðisleg. Sem skynsemisleg rannsókn felur hún í sér málfræði, sem býr hugmyndirnar orðum (Grammatík); hugsunarfræði, sem lýsir gángi þeirra og setníngum (Logík); mælskufræði, sem á við hreifíngu líkamans, framburð og orðaval (Rhetorík). Sem náttúruleg hlýtur heimsspekin að innibinda náttúrufræði (Physík), sem rannsakar uppruna og hvarf hlutanna; mælíngarfræði (Mathematík), er skoðar einstaka sannleika í reikníngshlutföllum og hin almennu lög; Metaphysík, sem leiðir lögin að uppruna sínum, til frumeðlis þeirra og tilgángs. Sem siðferðisleg (moralis) er heimsspekin Monastík, Oeconomía og Politík, eptir því sem hún á við einstaklínginn, félagslíf eða ríkisveldi«. Vér höfum ekki betri skiptíngu á vísindunum, en þessi er, þótt gömul sé, og sannast þar enn hið fornkveðna, að »opt er gott það sem gamlir kveða (Bonaventura dó 1274, sama ár og Tómas frá Aquino).

Öll trúarheimsspeki miðaldanna er bygð á Platon, Aristoteles og ritníngunni; hún tók tvær aðalstefnur eptir þessu, því sumir fylgdu Platon, en sumir Aristoteles. Hin platónska heimsspeki komst helzt inn í trúna frá Augustinus (Quidquid a Platone dicitur, vivit in Augustino, sögðu menn); en Aristoteles frá máriskum lærdómsmönnum (samt hafði Boëthius († 524) snúið mörgu eptir hann á latínu), á 11 — 13 öld, og náði hæstum blóma hjá Thomasi af Aquino, sem hefur hann fyrir aðra máttarsúlu alls skilníngs í Summa totius theologiae, og kallar hann nærri því aldrei með nafni, heldur einúngis »heimsspekínginn« (ut ait philosophus). Trúarheimsspekin hefir enn aðrar tvær aðalstefnur, sem eg heldur vil taka fram.

1. Hina fyrri stefnuna halda hinir eiginlegu guðfræðíngar, sem voru ofaná, samkvæmt anda tímans, og héldu sér við guðfræðina stránglega. 2. Hina síðari stefnu halda fróðir menn (Poly­histori), sem stunduðu öll vísindi og eptir miklu stærri mælikvarða en flestir menn nú. Þar að auki eru enn tveir flokkar, sem tóku alveg heimsspekilega stefnu í rannsókninni um frumeðli hlutanna, en það eru Nominalistarnir og Realistarnir.

»Allt sem vér gjörum, er saga«, segir Lamartine (24. Febr. 1848), og það má líka með sanni segja um kirkjusögu miðaldanna. Saga trúarheimsspekinnar er saga kirkjunnar, og saga kirkjunnar er saga mannlegs anda. En trúarheimsspekin stóð ekki lengur en hér um bil þrjár aldir (10—13 öld), svo hún er ekki saga kirkjunnar lengi. Mennirnir sjálfir komu byggíngu kirkjunnar til þess að riða og haggast, með því þeir timbruðu hana of hátt: Bonifacius VIII. bætti annari krúnu ofan á páfa­krúnuna, til þess að tákna verzlega valdið líka, og Úrbanus V. bætti þriðju krúnunni þar ofan á, þegar hann flutti frá Avignon 1367, til þess að tákna að hann væri jarl Krists á jarðríki; en bæði var það, að hann var fluttur þángað aptur fám árum síðar (1370), enda stóð páfakrúnan ekki lengi þreföld eptir það nema að nafninu til.

Tímabil trúarheimsspekinnar er eitthvert hið merkilegasta atriði í allri sögunni, því þá byrjuðu vísindin að lifa nýju lífi, vermdu og ljómuðu í geislum guðs sólar. Aldrei hefir »atorka andans og athöfn þörf« skinið í fegri ljóma. Þá voru engin stríð, engir herkonúngar á suðurlöndum — því hersögurnar urðu þá norður í heimi, í Svíþjóð, í Norvegi og á Íslandi, og í krossferðunum — en lærdómsmennirnir voru andlegir herkonúngar og háðu andleg stríð. Tími trúarheimsspekinnar er sama sem tími riddaranna var þá og seinna; en annar var með orðum, en hinn með vopnum. Um lok elleftu aldar komu háskólarnir upp, og menn geta ekki líkt því vísindalífi, sem þá hófst, við annað í sögunni en heimsspekíngaskóla Grikkja og Alexandríu, þegar bezt lét, nema hvað þetta var því efldara, sem það gilti um eilífa sælu eða eilífa fyrirdæmíngu. Háskólarnir voru fyrst eins og nokkurs konar þjóðstjórnarríki, og voru ekkert riðnir við ríkisvald eða kirkjustjórn, þángað til 1231, þegar Gregor IX. komst í það þjark, sem kom upp um það, hvort leyfilegt væri að byggja skoðanir á Aristoteles í skólunum, en »philosophus« hafði það og komst inn. Í fyrstunni var einúngis ein aðalvísindagrein stunduð við sér hvern háskóla, til að mynda guðfræði við háskólana í París, Öxnafurðu og Kolni; lög í Bologna og læknisfræði í Salerno. Háskólinn í Neapel var hinn fyrsti háskóli, sem stofnaður var fyrir öll vísindi. Þessir háskólar voru svo stórkostlegir, að á þá gengu margar þúsundir stúdenta; fjörutigi þúsundir gátu setið á bekkjunum í Parísarháskólanum, og hann var styrktur og stoðaður af kóngum og keisurum, leikmönnum, páfum og klerus, og kallaður sól vísindanna, sem andann ala. Páfadómurinn var á þessum öldum í hinum mesta blóma, og Gregoríus VII. og Innocentíus III. tindruðu á söguhimninum með voðalegum og fögrum ljóma, sem aldrei mun blikna.

Ógurlegar styrjaldir voru á þessum tímum út af kenníngum Berengaríus frá Tours († 1088), sem sagði að Kristur væri ekki verulega sjálfur nærverandi í brauðinu og víninu, heldur væri helgunin ónóg nema menn neyttu líkama og blóðs frelsarans með sannri trú, eins og Kalvín kendi síðar; Berengaríus hafði komið sér vel við Gregor VII. og komst við það undan illu, en apturkallaði allt. Anselmus af Kantaraborg barðist við Roscelin út af þrenníngar lærdóminum og því lauk svo, að Roscelin var fyrirdæmdur á fundinum í Soissons 1092 og kallað að hann kendi þrjá guði. En harðasta styrjöldina vakti Abailarð. Petrus Abailarð var hinn gáfaðasti, djarfasti og lærðasti, skarpasti, mælskasti og liprasti allra þeirra, sem nokkrar sögur eru af á 11. og 12. öld, og hinn heilagi Bernardus, sem var sá eini sem á honum vann, gjörði það hvorki með lærdómi né lipurleik, og ekki með slægð eður ofríki, heldur einúngis með trúnni, því hann var sannheilagur maður. Þessir tveir, Abailarð og Bernardus, voru hinar mestu hetjur á sínum tíma. Abailarð stofnaði skóla hjá París, og þángað flyktust menn að honum hvaðanæfa; hann götvaði upp hverja mótsögnina af annari í bókum kirkjunnar og þrumaði hlífðarlaust á móti kirkjufeðrunum. Hann var fyrst lærisveinn Vilhjálms af Champeaux, sem stofnaði háskólann í París, en óx bráðum svo yfir höfuð Vilhjálmi, að hann þrumaði hann niður með mælsku, lærdómi og dirfsku; hann lagði hann svo í einelti með »dispútazíum«, og beitti öllum vopnum, skarpleika, hártogunum og drambi, að Vilhjálmur, sem var haldinn hinn mesti »dialecticus« allra manna, lagði niður kennsluna. Þetta var orsökin til yfirgángs Abailarðs, er hann hlóð slíkum dreka, og þótti sér nú ekkert ófært. Fúlbertus kanúki fékk Abailarð til að kenna frændkonu sinni Helóisu, og af þessari kennslu er Abailarð orðinn alkunnur og hafa margar skáldsögur verið ortar um þau. Hann var manna fríðastur sýnum og útbúinn öllu því sem mann mátti prýða; Helóisa var fögur og gáfuð, og nú feldu þau ástarhug hvort til annars, Abailarð og Helóisa. Þau létu gefa sig saman á laun, og nú fór svo, að Helóisa varð ólétt af völdum Abailarðs, en neitaði fastlega að hún væri hans kona; átti hún þúngum álögum að sæta af öllum ættíngjum sínum. Af þessum orsökum flúði Abailarð á burt með Helóisu og kom henni í nunnusetur; en Fúlbertus varð fokvondur, lét taka Abailarð og gelda. Abailarð gjörðist þá múnkur og ætlaði að hætta allri kennslu, fyrir sakir harms og reiði, en hafði engan frið fyrir hinum fyrri lærisveinum sínum og varð að taka til kennslunnar að nýju. En hann gjörði háð að ýmsu í kirkjulærdómunum og var nokkuð keskinn í orði, og nú var hann dæmdur til að brenna kennslubók sína á báli og að setjast í klausturvarðhald. Aptur komst hann samt þaðan og götvaði upp nýja villu; þá gerðu múnkar aðsúg að honum, og hlaut hann að flýja í skóg nokkurn og ætlaði að verða þar einsetumaður; en múgur og margmenni streymdi til hans aptur og neyddi hann til að halda fyrirlestra, og leið ekki á laungu, áður þar komst upp mikið ábótasetur. Þar eirði hann ekki, og fékk Helóisu ábótasetrið til umráða; en hún var abbadís í öðru klaustri og réði ekkert við nunnurnar vegna lostasemi þeirra og óreglu. Abailarð var síðan í átta ár ábóti í klaustri einu í Bretagne og fékk ekkert ráðið við múnkana þar; síðan tók hann aptur til að kenna og sóktu hann eins margir og fyrr, eða jafn vel fleiri. Sýndi hann enn ýmsa hluti, er ekki samrýmdust kirkjunni (í bókunum: Scito te ipsum, Theologia christiana og Sic et nou), og mótsagnir kirkjulæraranna. Þá fór Bernardus á móti honum, og var hann dæmdur villumaður og í klausturvarðhald að nýju, og bækur hans allar skyldi á bál bera (1140). Eptir það var Abailarð kyrr og bjó hjá ágætum ábóta, Petrus venerabilis, til dauðadags (1142), en sættist við Bernardus áður. Þannig er æfisaga þessa merkilega manns, sem vér ekki þekkjum hans líka með tilliti til ákefðar, heiptar og ástar. Bernardus af Claravalle (Clairvaux) var sannheilagur maður og innblásinn af heilögum anda svo mikið sem maður má vera; hann hneigist til Mysticismus og lýsa því öll hans rit. Merkir og vitrir lúterskir guðfræðíngar kannast við að öll æfi hans sé sveipuð kraptaverkanna geislandi dýrð. Frá fyrstu barnæsku stóð hann á móti freistíngum holdsins, og menn vita ekki um hann hinn minnsta skugga nokkurrar syndar. Hann var jafnt riðinn við ríkisvöld sem kirkjumálefni, og sóktur frá einu landi til annars til þess að dæma milli þengla og þjóða. Engin hræsni var hjá honum fundin, hann var blíður og góður, en refsaði harðlega misbrúkun klerkavaldsins: honum stóð páfatignin til boða fremur en öllum öðrum, en hann neitti því. Bæn og hugsun um guð var öll guðfræði hans (Orando facilius quam disputando et dignius Deus quaeritur et invenitur, segir Bernardus, og benda þessi orð á anda tímans). Af engum manni eru sögð jafn mörg og mikil kraptaverk og Bernardus, það er engu líkara en Jesú Kristi sjálfum, sem af honum er sagt, og miklu fremur en Þorláki helga, sem honum er þó líkastur þeirra er eg man eptir; þó er Franz af Sales líkur honum einnig, en um hann eru engin kraptaverk sögð, og þó er hann heilagur maður. Það þarf mikla bíræfni og dirfsku til að neita slíkum hlutum, en menn geta neitað öllu, og sumir neita öllu þótt þeir sjái það. Bernardus andaðist 1153.

Eptir þessa styrjöld komst friður á um hríð í kirkjunni. Á þessari öld voru uppi þeir Húgó af sancte Victore, vinur Bernardus og áþekkur Augustinusi, djúpsæjasti og lærðasti maður, og reit um sakramentin. Petrus Lombardus reit um trúarsetníngar kirkjunnar (sententias), og var það rit haft í öllum skólum og staðfest af kirkjunni sjálfri 1215. Fleiri merkilegir menn voru og uppi.

Öll lærdómsstríð þessarar aldar áttu sér rót í rannsóknunum um frumeðli hlutanna, og er harla torvelt að lýsa þessu, en þó er það nauðsynlegt, til þess að sjá anda tímans.

Heimsspekin var í fyrstunni kend á háskólunum sem formleg (Dialectica), og fékkst ekki við guð­fræði. Guðfræðin var fyrst sama sem skoðun hins ósýnilega (Metaphysica); en af sameiníngu Metaphysices og Logices (eða –orum) kom fram trúarsetníngafræðin (Theol. Dogmatica). Úr ritum Porphyrius, nýplatonisks heimsspekíngs († 304) náðu menn þeirri spurníngu, hvort lifandi hlutfall mundi vera á milli hins ósýnilega, sem Metaphysica kennir, og hugmyndanna (Begriffe), sem Logica gjörir ráð fyrir, ↄ: á milli realitatis og ideae. Þessu svaraði Anselmus af Kantaraborg († 1109) með því að leiða tilveru guðs út af hugmyndinni um guð (eins og Cartesíus gjörði síðar); tilvera eða verulegleiki hugmyndanna var þannig ályktaður sem gildur, og svo varð Anselmus foríngi þessa flokks, er því trúði. Þeir kölluðust Realistar, af því þeir vörðu verulegleika hugmynd­anna (Realitas idearum), og álitu, að hugmyndirnar hlytu að vera til áður en maður gæti hugsað um þær, og hvort sem menn hugsuðu um þær eður ekki. Á móti Anselmusi reis upp Roscelin kanúki, og neitaði að hugmyndirnar væru til þannig, en sagði að þær væru einúngis tilbúníngur málsins (flatus vocis) og ekki nema nöfnin tóm; hans menn kölluðust Nominalistar. Þessi ágrein­íngur réði öllum styrjöldum í trúarheimsspekinni með ýmsum háttum, sumir hneigðust til Platons og þar með til innri sjónar andans (Mysticismus); sumir til Aristoteles, eða sameinuðu þá.

Þrettánda öld. Þessi öld er einhver hin merkilegasta í sögunni, og á henni var trúarheimsspekin í mestum blóma. Þá voru og fagrar menntir í ekki minni dýrð, því að þá var Dante uppi og þá var farið að byggja dómkirkjuna í Kolni, sem er hin mesta meistarasmíð allra byggínga, og ekki búin enn. Þetta, og hinir fjórir menn, sem eg nú mun nefna, lýsir afli aldarinnar; hinir fjórir fólu í sér allan lærdóm, sem menn voru þá búnir að ná.

1. Tómas frá Aquino, 1227—1274, var greifi, frændi Hinriks keisara VIta og Friðreks konúngs annars, náskyldur Friðreki Barbarossa og kominn af Norðmönnum í móðurætt. Hann yfirgaf alla dýrð þessa heims og gjörðist múnkur af Dominikus reglu, á móti vilja allra ættíngja sinna. Hann var lærisveinn Albertus mikla, og var þar kallaður »nautið þegjandi«, því hann var mikill vexti og mjög fátalaður. En Albertus mikli sagði einhverju sinni, þegar verið var að gjöra gys að Tómasi í heyrnarsalnum: »það skuluð þér vita, að þetta naut mun einhvern tíma öskra svo hátt, að það heyrist um allan heim«. Hann kendi síðan bæði í Kolni, París og Rómi, hann sat að veizlum með Frakkakonúngi (Loðvíki helga) og var þá opt eins og utan við sig, því hann var sí og æ svo á sig kominn, að hann »hátt og djúpt huga sendi.« Síðan hafðist hann við í Dominikussetri í Neapel og dó á ferð til kirkjufundarins í Lyon, og halda sumir af eitri. Tómas af Aquino var »hinn voldugasti omnium scholasticorum«, hinn djúpsæjasti og skarpasti spekíngur þessarar aldar; jafn mikill heimsspekíngur og Augustinus, en ekki eins lærður. Í trúarlegu tilliti fylgdi hann Augustinus, en í öllu hinu formlega lagði hann Aristoteles til grundvallar. Aðalverk hans er Summa totius theol­ogiae, sem er eitthvert hið mesta verk sem nokkur einn maður hefir gjört, því að þar er ekki einúngis innifalin í öll guðfræði og heimsspeki kirkjunnar, heldur er það samanhángandi byggíng, sem mænir upp yfir öll önnur manna verk í þeirri stefnu.

2. Bonaventura (1211 — 1274) var annar mestur guðfræðíngur þessarar aldar. Hann var af Fransiskus reglu, og svo siðgóður, að menn sögðu um hann þegar á únga aldri, að það sýndist sem Adam hefði eigi í honum syndgazt. Hann hneigðist að hinnri innri sjón andans (Mystik), og ræður það í ritum hans. Bæði Tómas og Bonaventura voru skáld, því trúin og listirnar eru óaðgreinanlegar í eðli sínu; Tómas hefir ort svo fagra sálma á latínu, að aldrei hefir fegra verið kveðið í þá stefnu; þeir reyndu sig, Tómas og Bonaventura, og fór svo að Tómas vann sigur (það kvæði byrjar svo: Lauda Zion). Bonaventura orti mart og reit mart; hann var svo engilhreinn, að hann var kallaður »doctor seraphicus«,14 og var það sann-nefni. Tómas hafði lesið ýms rit og kvæði eptir hann, og með því hann var hinn hneigðasti fyrir alla bókvísi, þá gjörði hann sér ferð til Bonaventura til þess að sjá bókasafn hans, því hann hélt það væri mikið, en Bonaventura sýndi honum ímynd frelsarans, og sagði það væri bókasafnið sitt. Hann hafði nefnilega alla sína vizku af trúnni á Krist.

Hinir aðrir tveir hrókar alls náms á þessari öld voru fróðir menn, sem stunduðu öll veraldleg vísindi ásamt guðfræðinni.

3. Albertus mikli (1195—1280), greifi af Bollstädt, kennari í París og Kolni, af reglu Dominikus. Hann kunni jafn vel austurlanda mál sem grísku og latínu og ritaði í öllum vísindagreinum, en hann hugsaði ekki mikið upp sjálfur; að fjölhæfni var hann mestur allra trúarheimsspekínga, en hvergi nærri eins djúpsær og hinir þrír. Það liggur við að mönnum megi ægja hversu mikið sá maður hefir komizt yfir að rita; verk hans eru 21 bindi in folio, alls konar efnis. Hann lagði mjög stund á náttúruvísindi, og þekti marga hluti er ókunnir voru almenníngi; því lék það orð á honum, að hann væri fjölkunnugur, en aldrei komst hann í stríð við kirkjuna.

4. Roger Baco (1214—1294) álíta sumir fjölhæfastan mann allrar miðaldarinnar, og hann var lángt á undan sínum tíma í mörgum greinum. Hann nam fræði í París og Öxnafurðu. Hann kunni latínu, grísku, hebresku og arabísku eins vel og ensku og frakknesku; hann rýndi lángt fram fyrir sína öld inn í reikníngslist, stjörnufræði, læknisfræði og öll náttúruvísindi, og lét ekki lenda við eintóma skoðun, eins og annars var siður, en reyndi og prófaði sjálfur alla hluti, og réði alltaf til þess að gánga þann veg. Tilraunir hans í efnafræðínni leiddu hann svo lángt, að hann sá fyrir þá hluti, sem menn nýlega hafa upp götvað; hvað sem menn segja um Salomon de Caus eða þá sem menn rekja til uppáfinníngar gufuvélanna, þá er auðséð, að Baco hefir séð það miklu fyrr. Hann segir í þeirri bók, sem er ritin um leyndardóma listanna og náttúrunnar (de secretis artis et naturae), að menn geti búið til slík verkfæri fyrir skip, að þau geti farið yfir fljót og höf miklu harðar en með árum, og menn geti búið til vagna, sem geti runnið hart áfram án nokkurra eykja. Þótt menn eigi reikni uppgötvan púðurs og skotfæra eldri en til 15. Aldar,15 þá hefir Baco samt sagt í sama riti, að ef menn láti sérlegt efni í koparpípu, þá geti menn gjört óttalegan hvell, og með því efni geti menn eyðilagt staði og herlið. (Í fornum sögum vorum er talað um »herbrest«, sem gerður hefir verið með einhverju þess konar efni, t. d. í Biskupasögunum, um Þórð fiseler ↄ: fusilier). Samt ber þess að geta, að Arabar og Márar þektu púðrið miklu fyrr en norðurálfubúar. En andi tímans var ekki fyrir þessa stefnu Bacós; hann var ákærður fyrir fjölkynngi og galdra, og hlaut að sitja í díblissu í mörg ár, þángað til Clemens páfi hinn IV. leysti hann þaðan; segja menn að hann einn hafi skilið Baco, og á hann þakkir skilið fyrir það.

Aftanmálsgreinar

12. Sálarflakks-kenníng Pythagoras, sem hann án efa hefir numið á Egiptalandi.

13. Það sem menn kalla guðfræði (Theologia) almennt, er allt þetta til samans, en engin ein vísindagrein.

14. Hann er alls eigi kallaður þannig vegna stíls síns, eins og segir í „Nordisk Conversationslexicon.“

15. Þannig segja menn almennt í fræðibókum skólanna; en menn vita með vissu að púðrið, ↄ: efni sem haft var til að spreingja grjót með, er miklu eldra (frá 12. öld) – en til skotfæra hefir það ekki verið notað fyrr en seinna.

Heimspeki utan fræðanna

Vettvangur heimspekinnar takmarkast engan veginn við kennslustofuna eða tölvuborðið, markmið hennar ekki við það eitt að setja fram kenningar og leysa fræðilegar gátur eða að svara átakaspurningum um grundvöll samfélagsins. Sumir ætla henni það hlutverk að vera meðferð til að auka einstaklingsbundinn þroska og að efla með því mannlífið. Dæmi um þessa viðleitni eru einkum svokölluð sókratísk samræða, heimspeki fyrir börn (eða hugfimi), heimspekileg ráðgjöf (eða meðferð) og heimspekikaffihúsið.

Hrannar Baldursson:
Íslensk heimspeki í Mexíkó

Róbert Jack:
Heimspekikaffihúsið

« Til baka

Heimspekikaffihúsið

eftir Róbert Jack

Heimspekikaffihúsið

Heimspekikaffihúsið á uppruna sinn að rekja til dags eins í júlímánuði árið 1992 á Café des Phares á Bastillutorgi í París: það er sunnudagsmorgunn og heimspekingurinn Marc Sautet ræðir við nokkra vini sína um heimspekilega ráðgjafarstofu sem hann hefur nýlega opnað. Nokkrir einstaklingar hafa heyrt á öldum ljósvakans að þarna sé að finna heimspeking sem eigi í samræðu við fólk. Þeir leita hann uppi og finna. Einhver nefnir þá reynslu að vera nærri dáinn og þar með verður dauðinn fyrsta viðfangsefni heimspekikaffihússins.1 – Einhvern veginn þannig lýsir Marc Sautet upphafi heimspekikaffihússins sem hann stóð svo fyrir vikulega á sunnudagsmorgnum klukkan 11:00. Nú eru mjög margir viðburðir af þessu tagi í Parísarborg og þá má einnig finna víða í Evrópu, Norður-Ameríku og annars staðar.

Lýðræðisleg grunnhugmynd

Grunnhugmyndin hefur varla verið mjög mótuð fyrir fyrstu samkomuna, ef marka má lýsingu Sautets. Heimspekikaffihúsinu er þó ætlað að mynda einhvers konar torgstemningu (agora-stemningu) í líkingu við það sem Sókrates kann að hafa skapað í Aþenu til forna. Hér eru viðmælendurnir þó margir, allt upp í nokkur hundruð, og þróun umræðunnar ekki alveg sambærileg við það sem við eigum að venjast úr samræðum Platons þar sem Sókrates er í aðalhlutverki. Þar á Sókrates sér ekki ávallt aðeins einn viðmælanda, til dæmis í Ríkinu eru þeir nokkrir, en hann ræðir að jafnaði í nokkra stund við hvern og einn áður en hann beinir athyglinni að næsta viðmælanda.

Á heimspekikaffihúsinu er þessu öðruvísi farið. Þar er ætlast til að samræðan fari samtímis fram meðal allra viðstaddra og sé því afar lýðræðisleg. Hlutverk hins heimspekilega stjórnanda er vissulega að „stjórna“ en ekki í þeim sama skilningi og Sókrates heldur samræðunni gangandi með leiðandi spurningum. Þannig hafa menn séð heimspekikaffihúsið sem lið í lýðræðislegri umræðu, sem frjálsan vettvang óháðan félagslegum eða efnahagslegum þvingunum.2 Bandaríski heimspekingurinn Lou Marinoff sér heimspekikaffihúsið nánast sem eins konar byltingarstarfsemi þar sem ríkir andúð á fjöldamenningunni.3 Þarna komi saman fólk sem er reiðubúið að reyna á hugann og þróa hugmyndir sínar.

Umgjörð

Umgjörðin eins og Sautet leggur hana upp er ekki önnur en sú að fólk hittist á venjulegu kaffihúsi, en e.t.v. í bakherbergi þannig að ekki sé of mikill hávaði. Sautet hefur þó ekkert á móti því að það heyrist aðeins í kaffivélinni og það sé smá skvaldur í bakgrunni. Í Bandaríkjunum fara slíkar samkomur gjarnan fram í bókabúðum, en menn hafa einnig staðið fyrir þeim í félagsmiðstöðvum, fangelsum og öðrum stofnunum. Tímalengdin er að jafnaði ein og hálf til tvær klukkustundir, en oft er tekið hlé þegar samkoman er u.þ.b. hálfnuð.

Umræðuefni

Þegar á staðinn er komið þarf fyrst að ákveða umræðuefnið, þótt það sé stundum ákveðið fyrirfram. Bandaríkjamaðurinn Richard Shusterman stendur til dæmis fyrir mánaðarlegum uppákomum þar sem ávallt nýr „fyrirlesari“ kemur og kynnir ákveðið efni sem salurinn ræðir svo um, en þessi nálgun samræmist reyndar ekki því sem flestir kalla heimspekikaffihús.4 Á „hefðbundnu“ heimspekikaffihúsi er stjórnandinn oftast sá sami og ákveður efnið þar að auki sjaldnast fyrirfram. Það gerir Sautet til að mynda ekki, heldur biður salinn um að koma með tillögur að umræðuefni. Sjálfur velur hann svo það sem honum hugnast best.5 Ekki velja þó allir stjórnendur sjálfir út frá tillögum úr salnum heldur láta fólk kjósa á milli nokkurra tillagna.

Hvað efnislegt innihald viðfangsefnisins áhrærir getur það verið hvað sem hægt er að hugsa heimspekilega um. Sautet gerir sér far um að velja efni sem telst óvenjulegt heimspekilegt umræðuefni, eins og t.d. „fyrsta skiptið“. Dæmi um önnur efni sem hann hefur tekið til umræðu eru: „að vera háður“, „ofbeldi“, „seinkun“, „er jólasveinninn til?“ og „ákveður maður sjálfur eða er ákveðið fyrir mann?“. Bandaríkjamaðurinn Christopher Phillips, sem stendur fyrir svipuðum samkomum sem hann kalla Sókratesarkaffi, hefur, svo dæmi séu nefnd, fjallað um „hví að spyrja?“, „hvað er heimili?“, „hvað er vinur?“, „hvenær er lífið ekki þess virði að lifa því?“, „hvað er trú?“ og „er heimurinn einungis huglægur?“.6 Þá hvetur Phillips þátttakendur í salnum til að velja það efni sem þeir telja sig minnst vita um, því það leiði oft til skemmtilegustu umræðnanna og opni nýjar víddir hjá fólki.7

Að hlusta og spyrja

Sautet telur að eins og greina megi hjá Sókratesi séu heimspekingar betur til þess fallnir að spyrja en að tjá sig um hvernig hlutunum sé eða eigi að vera háttað. Raunar segir hann að ástundun heimspeki hefjist á því að hlusta.8 Til að fá samræðuna í gang biður hann því ávallt þann sem stakk upp á umræðuefninu að segja svolítið frá hugleiðingum sínum um það. Þannig fær heimspekingurinn hráefni til að bregðast við.9 Þetta tengist einnig mikilvægi spurninga almennt á heimspekikaffihúsinu, en Phillips nefnir að mikilvægt sé að fólk læri að spyrja spurninga og jafnvel má segja að heimspekikaffihúsið sé vel heppnað ef fólk fer með fleiri spurningar en það kom með.10 Stjórnandinn á sem sagt að hvetja til spurninga bæði um efnið almennt og um réttmæti þess sem sagt hefur verið.

Hlutverk stjórnanda og viðmiðunarreglur

Stjórnandi samræðunnar á ekki að ýta á neinn að tjá sig, en enginn þarf að tala frekar en hann vill. Hlutverk stjórnandans er fyrst og fremst að sjá til þess að samræðan gangi vel fyrir sig. Hann á sjálfur ekki endilega að koma með efnislegt innlegg eða spurningar nema samræðan hafi siglt í strand. Honum ber þó að inna fólk eftir rökum fyrir skoðunum sínum, biðja það um að nefna dæmi sem geta tengt umfjöllunarefnið við hversdagsleikann og skýrt viðhorf viðkomandi. Þá á hann að beina til fólks að hlusta á meðan aðrir tala og koma í veg fyrir að samræðan taki á sig fyrirlestrastíl (einn talar), ráðstefnustíl (nokkrir tala án tillits til þess sem aðrir segja), kennslustíl (einn kennir hinum) eða verði kaffistofusnakk (yfirborðsleg umræða þar sem ekkert er skoðað ofan í kjölinn).11 Loks skal hvorki stefna að samkomulagi né reyna í lokin að draga saman í eina niðurstöðu hvað sagt hefur verið.12

Marinoff segist einungis hafa eina aðalreglu, að sýna kurteisi, en vegna þeirrar reglu komi einnig fram aðrar dygðir eins og þolinmæði, hlustun og umburðarlyndi. Marinoff reynir einnig að draga úr því að vísað sé til frægra nafna, því hann telur það vinna gegn því markmiði að fólk hugsi eigin hugsanir og þrói hugmyndir sínar.13 Þessu tengt hafnar Phillips því að gengið sé út frá ákveðnu lesefni, því hann segir of mikla stjórnun felast í því og það „líkist um of annars konar hópum sem segjast ætla að færa heimspekina út úr skólastofunni en taka svo óvart skólastofuformið með sér“.14

Gagnlegt fyrir hversdagslífið

Þá talar Sautet um að heimspekikaffihúsið sé hvorki vettvangur fyrir innvígða heimspekinga (nema að þeir stilli fræðimáli sínu í hóf) né sé það meðferðarhópur.15Kanadíski heimspekingurinn Peter Raabe tekur upp þemað um meðferðarhópinn, en hann er þeirrar skoðunar að oftast sé óviðeigandi að ræða persónuleg vandamál sín á heimspekikaffihúsi eins og gert er til að mynda í heimspekilegri ráðgjöf.16 Vissulega sé gjarnan við hæfi, og jafnvel mjög æskilegt, að dæmi sem nefnd eru í umræðunni séu úr eigin reynsluheimi, en því má ekki rugla saman við það að bera persónuleg vandamál sín á torg. Fái fólk einhverja innsýn í persónulegan vanda sinn á heimspekikaffihúsi er það því frekar fyrir tilviljun en að það sé beinlínis ætlunin. Á heimspekikaffihúsinu getur einstaklingurinn hins vegar frekar gengið að því vísu að geta þroskað og þróað athyglisgáfuna, hæfileikann til að hlusta, hugsun sína og þær hugmyndir sem hann hefur. Þannig nýtist viðburðurinn í hversdagslífinu.

 

Tilvísanir

1. Marc Sautet, Ein Café für Sokrates, Siedler, Düsseldorf 1997 (1. útg. á frönsku 1995), bls. 24.

2. Sjá heimasíðu Gale Prawda (www.philodialogue.com/history.htm), sótt 4. ágúst 2004.

3. Marinoff, Plato, Not Prozac!, Quill 2000 (1. útg. 1999), bls. 258.

4. Sjá grein Roberts Strauss um Richard Shusterman: „His forum is making philosophy almost fun“ á vefslóðinni www.geocities.com/centersophon/press/Shusterman.html, sótt 10. júní 2004.

5. Sautet, Ein Café für Sokrates, bls. 29.

6. Sjá bók Christophers Phillips, Socratic Café: A Fresh Taste of Philosophy, Norton, New York 2001. Sbr. bókardóm eftir David Arnaud í Practical Philosophy, 4. árg. 2. tbl. (júlí 2001).

7. Sbr. „Starting a Socrates Café“ á heimasíðu SPI (The Society for Philosophical Inquiry) (www.philosopher.org/soccaf.html), sótt 24. janúar 2005, (bls. 2/9).

8. Sautet, Ein Café für Sokrates, bls. 45.

9. Sautet, Ein Café für Sokrates, bls. 46.

10. Sbr. „Starting a Socrates Café“, (bls. 6/9).

11. Sjá heimasíðu Gale Prawda.

12. Sbr. „Starting a Socrates Café“, (bls. 6/9).

13. Marinoff, Plato, Not Prozac!, bls. 259.

14. Sbr. „Starting a Socrates Café“, (bls. 7/9).

15. Sautet, Ein Café für Sokrates, bls. 36.

16. Peter Raabe, Issues in Philosophical Counseling, Praeger, Westport 2002, bls. 35-38.

 

« Til baka