Færslusöfn

Góðar og vondar ástæður fyrir trú

eftir Richard Dawkins1

Elsku Júlía,

Þar sem þú ert orðin tíu ára langar mig til að skrifa þér um dálítið sem skiptir mig máli. Hefurðu nokkurn tíma velt því fyrir þér hvernig við vitum það sem við vitum? Hvernig vitum við, til dæmis, að stjörnurnar sem líta út eins og örlítil nálargöt á himninum eru í raun og veru gríðarstórir eldhnettir eins og sólin og mjög langt í burtu? Og hvernig vitum við að jörðin er minni hnöttur sem snýst kringum eina af þessum stjörnum, sólina?

Svarið við þessum spurningum er ‘sannanir’. Stundum merkir þetta orð, sannanir, í rauninni að sjá (eða heyra, finna, lykta …) að eitthvað er satt. Geimfarar hafa farið nógu langt frá jörðinni til að sjá með eigin augum að hún er hnöttótt. Stundum þurfa augun á hjálp að halda. ‘Kvöldstjarnan‘ lítur út eins og bjartur glampi á himninum en með sjónauka sjáum við að hún er fallegur hnöttur – reikistjarnan sem við köllum Venus. Eitthvað sem við lærum með því að sjá það beint (eða heyra það eða finna það …) er kallað athugun.

Oft eru sannanir ekki bara athugun út af fyrir sig, en athugun býr þeim alltaf að baki. Hafi morð verið framið er það oft svo að enginn sá það (nema morðinginn og sá sem dó!). En rann­sóknarlögreglumenn geta safnað saman mörgum öðrum athugunum sem allar geta bent til þess að ákveðinn maður sé grunaður. Ef fingraför manns passa við þau sem finnast á rýtingi þá sannar það að hann hafi snert hann. Það sannar ekki að hann hafi framið morðið en það getur komið að gagni þegar það er tengt mörgum öðrum sönnunargögnum. Stundum getur rann­sóknarlögreglumaður hugleitt heilan helling af athugunum og allt í einu gert sér ljóst að þær koma allar heim og saman og eru skiljanlegar ef viss persóna framdi morðið.

Vísindamenn – sérfræðingarnir í að uppgötva sannleikann um jörðina og heiminn – vinna oft eins og rannsóknarlögreglumenn. Þeir koma með ágiskun (sem kallast tilgáta) um hvað kynni að vera satt. Síðan segja þeir við sjálfa sig: Ef þetta væri í raun og veru satt þá ættum við að sjá þetta og annað. Þetta kallast forsögn eða spá. Til dæmis, ef jörðin er í raun og veru hnöttótt þá getum við sagt fyrir um að ferðamaður sem héldi stöðugt áfram í sömu átt mundi að lokum koma aftur þangað sem hann lagði af stað. Þegar læknir segir að þú sért með mislinga lítur hann ekki á þig í eitt skipti og sér mislinga. Við fyrstu athugun dettur honum í hug sú tilgáta að þú kunnir að vera með mislinga. Síðan segir hann við sjálfan sig: Ef hún er í raun og veru með mislinga þá ætti ég að sjá þetta og þetta og … Síðan fer hann yfir þennan lista af spám og prófar þær með augunum (Ertu með bletti?); með höndunum (Er ennið á þér heitt?), og eyrunum (Heyrist soghljóð þegar þú andar, sem lýsir sér eins og þú værir með mislinga?). Þá fyrst kveður hann upp úrskurð og segir: „Ég greini að barnið er með mislinga.“ Stundum þurfa læknar að gera aðrar rannsóknir eins og blóðrannsókn eða röntgenrannsókn sem hjálpa augum þeirra, höndum og eyrum við að gera athuganir.

Hvernig vísindamenn nota sönnunargögn til að fræðast um heiminn er langtum snjallara og flóknara en ég get sagt í stuttu bréfi. En nú vil ég hverfa frá sönnunum og sönnunargögnum, sem eru góð ástæða til að trúa einhverju, og vara þig við þremur vondum ástæðum til að trúa hverju sem er. Þær kallast ‘hefð‘, ‘kennivald‘ og ‘opinberun‘.

Byrjum á hefðinni. Fyrir nokkrum mánuðum fór ég í sjónvarpið til að ræða við um fimmtíu börn. Þessum börnum var boðið vegna þess að þau höfðu verið alin upp við mörg ólík trúarbrögð. Sum höfðu verið alin upp sem kristið fólk, önnur sem gyðingar, múslímar, hindúar eða sikhar. Maðurinn með hljóðnemann fór frá barni til barns og spurði þau hverju þau tryðu. Það sem þau sögðu sýnir nákvæmlega hvað ég á við með ‘hefð‘. Trú þeirra reyndist ekki hafa nein tengsl við sannanir eða rök. Þau romsuðu bara upp úr sér trúarskoðunum foreldra sinna og afa og ömmu sem voru ekki heldur reistar á sönnunum eða rökum. Þau sögðu til dæmis: „Við hindúar trúum þessu og þessu“; „Við múslímar trúum þessu og þessu“; „Við sem erum kristin trúum einhverju öðru.“

Auðvitað gátu þau ekki öll haft á réttu að standa þar sem þau trúðu öll ólíkum hlutum. Maðurinn með hljóðnemann virtist álíta þetta alveg rétt og tilhlýðilegt og hann reyndi ekki einusinni að fá þau til að rökræða hvert við annað um þessi ólíku trúaratriði. En núna er þetta ekki aðalatriðið. Ég vil einfaldlega spyrja hvaðan trúarskoðanir þeirra komu. Þær komu frá hefð. Hefð merkir trú og skoðanir sem eru látnar ganga að erfðum frá afa og ömmu til foreldra, til barna og þar fram eftir götunum. Eða þær komu úr bókum sem hafa gengið frá einni kynslóð til annarrar í aldanna rás. Hefðbundin trú á sér oft upphaf í næstum engu; einhver býr hana kannski bara til upphaflega, eins og sögurnar um Þór og Seif. En eftir að þær hafa gengið mann fram af manni í nokkrar aldir virðast þær eitthvað sérstakar einungis vegna þess að þær eru svo gamlar. Fólk trúir hlutum einfaldlega vegna þess að það hefur trúað þeim öldum saman. Þetta er hefðin.

Gallinn við hefðina er sá að sama hve langt er liðið síðan saga var búin til þá er hún enn nákvæmlega jafn sönn eða ósönn og upphaflega sagan var. Ef maður býr til sögu sem er ekki sönn þá gerir það hana ekkert sannari þótt hún gangi mann fram af manni í eins margar aldir og vera skal!

Flest fólk í Englandi hefur verið skírt inn í ensku þjóðkirkjuna en hún er aðeins ein af mörgum deildum kristinnar trúar. Það eru til aðrar deildir eins og rússneska rétttrúnaðarkirkjan, rómversk-kaþólska kirkjan og meþódistakirkjan. Þær trúa allar ólíkum hlutum. Gyðingatrú og múslímatrú eru þó ögn ólíkari, og það eru til ólíkar tegundir gyðinga og múslíma. Fólk sem trúir jafnvel örlítið mismunandi hlutum fer í stríð út af ágreiningnum. Það mætti því halda að það hlyti að hafa nokkuð góðar ástæður – sannanir – til að trúa því sem það trúir. En í rauninni stafar ólíkur átrúnaður þess eingöngu af ólíkum hefðum.

Við skulum tala um eina ákveðna hefð. Rómersk-kaþólskir menn trúa því að María, móðir Jesú, hafi verið svo sérstök að hún hafi ekki dáið heldur hafi hún hafist upp til himna í líkamanum. Aðrar kristnar hefðir eru ósammála þessu og segja að María hafi dáið eins og allir aðrir. Þessar trúar­hefðir tala ekki mikið um hana og ólíkt hinni rómversk-kaþólsku kalla þær hana ekki ‘himna­drottninguna‘. Sú hefð að líkami Maríu hafi hafist upp til himna er ekki mjög gömul. Biblían segir ekkert um hvernig eða hvenær hún dó; reyndar er aumingja konan varla nefnd í biblíunni. Sú trú að líkami hennar hæfist upp til himna var ekki hugsuð upp fyrr en um það bil sex öldum eftir tíma Jesú. Í fyrstu var hún bara búin til á sama hátt og aðrar sögur eins og til að mynda ‘Mjallhvít‘ var búin til. En í aldanna rás varð hún að hefð og fólk fór að taka hana alvarlega einfaldlega vegna þess að sagan hafði gengið mann fram af manni í svo margar kynslóðir. Því eldri sem hefðin varð því flera fólk tók hana alvarlega. Að lokum var hún skrifuð niður sem opinber rómversk-kaþólsk trú aðeins fyrir skemmstu, eða árið 1950, þegar ég var á þínum aldri. En sagan var ekkert sannari árið 1950 en hún var þegar hún var fyrst búin til sex hundruð árum eftir dauða Maríu.

Ég kem aftur að hefðinni í lok bréfsins og lít á hana með öðrum hætti. En fyrst má ég til með að fjalla um tvær aðrar vondar ástæður til að trúa hverju sem er, en þær eru kennivald og opinberun.

Kennivald, sem ástæða til að leggja trúnað á eitthvað, merkir að trúa því af því að einhver hátt­settur maður segir manni að trúa því. Í rómversk-kaþólsku kirkjunni er páfinn æðstur manna og fólk heldur að hann hljóti að hafa rétt fyrir sér bara af því að hann er páfinn. Í einni deild múslímatrúarinnar er háttsetta fólkið gamlir karlar með skegg sem kallaðir eru höfuðklerkar. Fjöldi múslíma hér á landi eru reiðubúnir að fremja morð eingöngu vegna þess að höfuð­klerkarnir í fjarlægu landi segja þeim að gera það.

Þegar ég segi að það hafi ekki verið fyrr en 1950 sem rómversk-kaþólsku fólki var loks sagt að það yrði að trúa því að líkami Maríu hafi skotist upp til himna á ég við að árið 1950 sagði páfinn fólki að það yrði að trúa því. Þar við sat. Páfinn sagði að það væri satt svo að það hlaut að vera satt! Nú, sennilega hefur sumt af því sem páfinn sagði um sína ævidaga verið satt og sumt ekki. Engin góð og gild ástæða er fyrir því að maður ætti að trúa öllu sem hann sagði, bara af því að hann var páfinn, frekar en maður trúir öllu sem fjöldi annarra manna segir. Núverandi páfi hefur skipað fylgismönnum sínum að takmarka ekki barneignir sínar. Ef fólk fer eftir kennivaldi hans eins auðmjúklega og hann mundi óska gætu afleiðingarnar orðið skelfileg hungursneyð, sjúk­dómar og styrjaldir sem orsökuðust af of miklum fólksfjölda.

Auðvitað er það þannig, jafnvel í vísindunum, að stundum höfum við sjálf ekki séð sönnunar­gögnin eða sannanirnar og verðum að hafa það fyrir satt sem einhver annar segir. Ég hef ekki séð með eigin augum sannanirnar fyrir því að ljós fari með 300 þúsund kílómetra hraða á sekúndu. Í staðinn trúi ég bókum sem segja mér hver ljóshraðinn er. Þetta lítur út eins og ‘kennivald‘. En í raun og veru er það langtum betra en kennivald vegna þess að fólkið sem skrifaði bækurnar hefur séð sönnunargögnin og öllum er frjálst að skoða gögnin vandlega hvenær sem þeir vilja. Þetta er mjög hughreystandi. En ekki einusinni prestarnir halda því fram að til séu neinar sannanir fyrir sögu þeirra að líkami Maríu hafi svifið upp til himna.

Þriðja tegund vondrar ástæðu til að trúa hverju sem er kallast ‘opinberun‘. Hefði maður spurt páfann árið 1950 hvernig hann vissi að líkami Maríu hefði horfið upp til himna mundi hann sennilega sagt að það hafi ‘opinberast‘ sér. Hann lokaði sig inni í herberginu sínu og bað til Guðs um leiðsögn. Hann hugsaði og hugsaði, alveg út af fyrir sig, og hann varð vissari og vissari innra með sér. Þegar trúað fólk hefur bara tilfinningu innra með sér um að eitthvað hljóti að vera satt kallar það tilfinninguna ‘opinberun‘. Það eru ekki aðeins páfar sem halda því fram að þeir fái opinberanir. Fjöldi trúaðs fólks gerir það. Það er ein aðalástæða þess fyrir að trúa því sem það trúir. En er það góð ástæða?

Setjum svo að ég segði þér að hundurinn þinn væri dauður. Þér yrði mikið um þetta og þú mundir líklega spyrja: „Ertu viss? Hvernig veistu það? Hvernig gerðist það?“ Setjum nú svo að ég svaraði: „Ég veit reyndar ekki hvort Peppi er dauður. Ég hef engar sannanir. Ég hef bara þessa skrýtnu tilfinningu djúpt innra með mér að hann sé dauður.“ Þú yrðir allreið út í mig fyrir að hræða þig af því að þú vissir að innri ‘tilfinning‘ ein sér er ekki góð ástæða til að trúa að hundur sé dauður. Maður þarf sannanir. Við höfum öll innri tilfinningar annað veifið og stundum reynast þær réttar og stundum ekki. Hvað sem því líður, ólíkt fólk hefur gagnstæðar tilfinningar svo hvernig eigum við þá að skera úr um hver hafi réttu tilfinninguna? Eina leiðin til að vera viss um að hundur sé dauður er að sjá hann dauðan eða heyra að hjartað er hætt að slá, eða að einhver sem hefur fengið áreiðanlegar sannanir segi manni að hann sé dauður.

Stundum segir fólk að maður verði að trúa á tilfinningar djúpt innra með sér, annars yrði hann aldrei fullviss um hluti eins og „Konan mín elskar mig.“ En þetta er vond röksemd. Það geta verið nægar sannanir fyrir því að einhver elski mann. Daginn út og daginn inn þegar maður er með einhverjum sem þykir vænt um mann sér hann og heyrir marga litla sannanamola og þeir leggjast allir saman. Það er ekki eingöngu innri tilfinning eins og tilfinningin sem prestar kalla opinberun. Það eru ytri hlutir sem veita innri tilfinningunni stuðning: augnaráð, blíður raddblær, smágreiðar og annar vinsemdarvottur. Allt þetta er raunverulegar sannanir.

Stundum hefur fólk sterka innri tilfinningu um að einhver elski það þótt hún byggist ekki á neinum sönnunum og þá er líklegt að það hafi algerlega á röngu að standa. Til er fólk með sterka innri tilfinningu um að fræg kvikmyndastjarna elski það þótt kvikmyndastjarnan hafi ekki einusinni séð það í raun og veru. Slíkt fólk er andlega sjúkt. Innri tilfinningar verða að vera studdar sönnunum, annars er bara ekki hægt að treysta þeim.

Innri tilfinningar skipta líka máli í vísindunum en einungis til að gefa manni hugmyndir sem hann prófar seinna með því að leita sannana. Vísindamaður getur haft ‘grun‘ um hugmynd sem honum bara ‘finnst‘ rétt. Í sjálfu sér er þetta ekki góð ástæða fyrir að trúa einhverju. En það getur verið góð ástæða til að verja dálitlum tíma til gera ákveðna tilraun eða til að leita á ákveðinn hátt að sönnunum. Vísindamenn nota stöðugt innri tilfinningar til að fá hugmyndir. En þær eru einskis virði fyrr en þær eru studdar sönnunum.

Ég lofaði að koma aftur að hefðinni og skoða hana á annnan hátt. Mig langar til að reyna að út­skýra hvers vegna hefðin er svona mikilvæg fyrir okkur. Öll dýr eru byggð (af ferli sem kallast þróun) til að lifa á þeim stað þar sem tegund þeirra á venjulega heima. Ljón eru byggð til að vera hæf til að lifa á sléttum Afríku. Vatnakrabbar eru byggðir til að vera hæfir til að lifa í fersku vatni, en humrar eru hins vegar byggðir til að vera hæfir til að lifa í söltum sjó. Fólk er líka dýr og við erum byggð til að vera hæf til að lifa í heimi fullum af … öðru fólki. Fæst okkar veiða sér til matar eins og ljón eða humrar; við kaupum matinn af öðru fólki sem hefur keypt hann af enn öðru fólki. Við ‘syndum‘ gegnum ‘sjó af fólki‘. Alveg eins og fiskur þarf tálkn til að lifa í vatni þarf fólk heila til að gera það fært um að eiga samskipti við annað fólk. Alveg eins og sjórinn er fullur af söltu vatni er fólkssjórinn fullur af erfiðum hlutum sem þarf að læra. Eins og tungumálinu.

Þú talar ensku en vinkona þín Ann-Kathrin talar þýsku. Hvor ykkar talar það mál sem gerir ykkur hæfar til að ‘synda um‘ í ykkar eigin sérstaka ‘fólkssjó‘. Hefðin flytur tungumálið frá einni kynslóð til annarrar. Það er engin önnur leið. Í Englandi er Peppi ‘a dog‘. Í Þýskalandi er hann ‘ein Hund‘. Hvorugt þessara orða er réttara eða sannara en hitt. Bæði ganga einfaldlega að erfðum frá kynslóð til kynslóðar. Til þess að vera fær um ‘að synda um í fólkssjó sínum‘ verða börn að læra tungumál lands síns og helling af öðrum hlutum um sína eigin þjóð, og þetta þýðir að þau verða að drekka í sig, eins og þerripappír, gífurlegt magn af hefðbundnum fróðleik. (Mundu að hefðbundinn fróðleikur merkir bara hluti sem eru látnir ganga að erfðum frá öfum og ömmum til foreldra, til barna.) Heili barnsins verður að gleypa við hefðbundnum fróðleik. Og ekki er hægt að búast við að barnið skilji góðan og gagnlegan fróðleik, eins og orðin í tungumáli, frá vondum eða heimskulegum fróðleik eins og trú á nornir og djöfla og eilífar jómfrúr.

Það er leiðinlegt, en það er óhjákvæmilegt, að vegna þess að börn verða að gleypa við hefðbundnum fróðleik þá er líklegt að þau trúi öllu sem fullorðnir segja þeim, hvort sem það er satt eða ósatt, rétt eða rangt. Mikið af því sem fullorðnir segja þeim er satt og á rökum reist, eða það er að minnsta kosti skynsamlegt. En sé sumt af því ósatt, heimskulegt eða jafnvel andstyggilegt getur ekkert komið í veg fyrir að börnin trúi því líka. Þegar börnin svo vaxa úr grasi hvað gera þau? Nú, vitanlega segja þau það næstu kynslóð barna. Svo að þegar farið er að leggja eindreginn trúnað á eitthvað – jafnvel þótt það sé ósatt með öllu og það hafi aldrei verið nein ástæða til að trúa því – þá getur það haldið áfram um aldur og ævi.

Getur þetta verið það sem hefur gerst með trúarbrögð? Trú á tilveru guðs eða guða, trú á himnaríki, sú trú að María hafi aldrei dáið, sú trú að Jesús hafi ekki átt mannlegan föður, sú trú að við séum bænheyrð, sú trú að vín breytist í blóð – ekkert af þessum átrúnaði hefur við nein góð rök að styðjast. Samt leggja milljónir manna trúnað á þetta. Kannski það sé vegna þess að þeim var sagt að trúa því þegar þeir voru nógu ungir til að trúa hverju sem er.

Milljónir annarra manna trúa allt öðrum hlutum vegna þess að þeim var sagt annað þegar þeir voru börn. Múslímabörnum eru sagðir aðrir hlutir en kristnum börnum og bæði vaxa úr grasi alveg sannfærð um að þau hafi á réttu að standa og hinir hafi rangt fyrir sér. Jafnvel innan kristninnar trúa rómversk-kaþólskir menn öðrum hlutum en fólk í ensku þjóðkirkjunni eða biskupa­kirkjumenn, hristarar eða kvekarar, mormónar eða hvítasunnumenn, og allir eru fullkomlega sannfærðir um að þeir hafi rétt fyrir sér og hinir rangt. Þeir trúa ólíkum hlutum af nákvæmlega sams konar ástæðu og þú talar ensku og Ann-Kathrin talar þýsku. Í sínu eigin landi eru bæði málin rétta málið til að tala. En það getur ekki verið satt að ólík trúarbrögð séu rétt í sínum löndum vegna þess að ólík trúarbrögð halda því fram að gagnstæðir hlutir séu réttir. María getur ekki verið á lífi í hinu kaþólska Suður-Írlandi en dáin í Norður-Írlandi mótmælenda.

Hvað getum við gert í öllu þessu? Það er ekki auðvelt fyrir þig að gera neitt af því að þú ert ekki nema tíu ára. En þú gætir reynt þetta. Næst þegar einhver segir þér eitthvað sem virðist mikilvægt hugsaðu þá með sjálfri þér: „Er þetta eitthvað sem fólk veit kannski vegna sannana? Eða er það eitthvað sem fólk trúir einungis vegna hefðar, kennivalds eða opinberunar?“ Og næst þegar einhver segir þér að eitthvað sé satt hvers vegna ekki að segja við hann: „Hvers konar sannanir eru fyrir þessu?“ Og ef hann getur ekki gefið þér gott svar vona ég að þú hugsir þig mjög vandlega um áður en þú trúir orði af því sem hann segir.

Með ástarkveðju,

pabbi

Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísanir

1. Höfundur þessa ‘bréfs’, Richard Dawkins, er þróunarlíffræðingur og prófessor við Oxford-háskóla. Fyrsta bók hans, The Selfish Gene (Eigingjarna genið) sem kom út 1976, fjallaði um það sem nú er kallað félagslíffræðilega byltingin. Hann er annálaður fyrir frumlegar hugmyndir og skýra framsetningu. Þekktastur mun Dawkins vera fyrir bókina The Blind Watchmaker (Blindi úrsmiðurinn) sem kom fyrst út 1986. Báðar þessar bækur eru metsölubækur. ‘Bréfið‘ birtist í bókinni How Things Are: A Science Tool-Kit for the Mind sem kom út í Bretlandi árið 1995. Í bókinni eru 34 stuttar ritgerðir eftir jafnmarga höfunda sem hver fjallar um eitthvert grundvallarhugtak á sínu sviði. Þýð.

« Til baka