Færslusöfn

Gagnrýni

eftir Valtý Guðmundsson

      Eitt af því, sem einna tilfinnanlegastur skortur er á á Íslandi, er það sem á útlendu máli kallast »krítík«. Það kveður jafnvel svo rammt að, að við eigum einu sinni ekki neitt orð yfir hugmyndina í málinu. Að »krítísera« er eiginlega það, að láta sjer ekki nægja að skoða hlutina eins og þeir líta út á yfirborðinu, heldur leitast við að rýna í gegnum þá og gagnskoða, til þess að sjá hina innri eigin­leika þeirra, bæði kosti og lesti. Það er með öðrum orðum að kafa í djúpið og sækja bæði gullið og sorann, greina það hvort frá öðru og breiða hvorttveggja út í dagsbirtunni, svo að allir, sem hafa ekki sjálfir tíma eða tækifæri til að vera að kafa, geti sjeð, hvað er gull og hvað er sori. Þetta virðist oss að mætti kalla á íslenzku gagnrýni og gagnrýninn þann mann, sem sýnt er um að gagnrýna hlutina.
      Gagnrýnin er nauðsynleg fyrir þjóðlífið eins og saltið fyrir matinn. Vanti gagnrýnina, er hætt við, að sumt kunni að taka að rotna eða að minnsta kosti að þeim, sem eiga að súpa seyðið af gjörðum forgöngumanna þjóðfjelagsins, finnist það nokkuð dauft á bragðið, og að svo geti farið með tímanum, að þeir, sem hafa óbilaðar bragðtaugar, fái velgju, en hinir, sem líklega verða miklu fleiri, missi algerlega smekkinn, og er það ekki síður hættulegt.
      Í engum efnum finnst oss jafnmikil þörf á gagnrýninni nú sem stendur á Íslandi eins og í öllu, er lýtur að þjóðmálum og stjórnarfari. Það vantar að vísu eigi, að blöðin finni að ýmsu og lofi annað, en gagnrýni þeirra er þó vanalega ekki á marga fiska. Hún er að jafnaði nokkuð handa­hófsleg og hættir við að bera keim af annaðhvort eintómum gullhamraslætti eða illvígu hnútu­kasti, fremur en af verulegri gagnrýni. Til þessa liggja auðvitað sjerstakar ástæður. Er þar fyrst að telja þá, að þar sem blaðamennskan er mestmegnis höfð í hjáverkum, þá er ekki von að blaða­mennirnir geti lagzt mjög djúpt. Í annan stað er sjóndeildarhringur þeirra sumra hverra svo tak­markaður, að varla verður ætlazt til, að þeir geti dæmt um það, sem mikið víðsýni þarf til að gagn­rýna, enda hættir þeim opt við að einblína fremur á ávextina, en að skoða orsakasambandið og grafa fyrir ræturnar.
      Þá er og nærsýni sú, sem stafar af dvergvexti þjóðfjelagsins; því þar sem þjóðfjelagið er svo smávaxið, að hver þekkir annan, þar er jafnan hætt við, að það ráði miklu í dómum um einstaka menn og framkomu þeirra, hvort menn bera til þeirra hlýjan hug eða hafa ýmugust á þeim. Að lokum má telja einstrengingslega og misskilda þjóðernistilfinningu, sem hjá sumum mönnum er farin að fá á sig hinn megnasta kínverskublæ, er í ýmsum málum dregur glýju eða jafnvel ský á augu manna, svo þeir verða stundum hálfblindir, og eru svo að streitast við að hlaða gorgeirsmúr kringum landið, til þess að varna öllum útlendum áhrifum, en »bara ef lúsin íslenzk er, er þeim bitið sómi«. Þetta öfugstreymi í þjóðernistilfinningunni er hinn mesti þröskuldur í vegi fyrir sannri gagnrýni, því ekkert er eins hættulegt fyrir hana og það, ef tilfinningin ber skynsemina ofurliði.
      En blaðamennirnir íslenzku eiga líka við ramman reip að draga, þegar þeir eru að gagnrýna gjörðir embættismannanna eða annara forkólfa þjóðfjelagsins. Þó maður skyldi halda, að einmitt þeir menn, er hafa það hlutverk með höndum, að beitast fyrir í alþjóðarmálum, hefðu töluvert rýmri sjóndeildarhring en flestir aðrir, sýnir þó reynslan, að flestir þeirra eru svo herfilega nærsýnir, að þeir stökkva upp á nef sjer og skoða það sem persónulega móðgun við sig, ef eitthvað er fundið að gjörðum þeirra í opinberum málum. Það er sama hvort það er amtmaður, sýslumaður, bæjar­fógeti eða alþingisforseti, allir rjúka þeir undir eins í málaferli, ef eitthvað er fundið að framkomu þeirra í opinberum málum, og reyna þannig að bæla niður alla verulega gagnrýni. Þeim virðist ekki vera það ljóst, að þeir menn, sem hafa opinber störf á hendi, eru skyldir að þola gagnrýni. Þeir munu nú segja sem svo, að þá verði líka gagnrýnin að vera sanngjörn og benda jafnt á gott sem illt. Það er nú að vísu rjett; en þó ber þess að geta, að það er ofboð eðlilegt, að blöðin einkum bendi á það, sem þeim þykir ábótavant, en láti hitt fremur liggja í þagnargildi. Það er miklu minni þörf á, að geta um það, sem er eins og allir vildu helzt kjósa, heldur en hitt, sem aflaga fer, nema hið góða sje svo framúrskarandi, að það geti orðið öðrum til eptirdæmis, og þá mun það sjaldan látið liggja í láginni. Það fer líkt með þetta eins og veðrið í kunningjabrjefunum. Sje alls ekkert minnzt á það í brjefunum, þá er óhætt að treysta því, að það hafi verið allgott, því það er æfinlega tekið fram, ef það hefur verið illt, og eins ef það hefur verið framúrskarandi gott.
      Það er nú að vísu víðar pottur brotinn í þessum efnum. Það ber víðar við en á íslandi, að forkólfar þjóðfjelagsins leitist við að þagga niður gagnrýnisraddir blaðanna með málaferlum, þó meira kveði að því þar en annars staðar. En sá er munurinn, að blöð annara landa hafa vanalega svo mikið bolmagn, að það gerir þeim ekkert til, þó þau sjeu dæmd í töluverðar sektir, og láta því hvorki þær nje fangelsisvist aptra sjer frá, að beita gagnrýni sinni, þegar þeim fmnst þörf á henni fyrir þjóðfjelagið. Því auðvitað getur gagnrýnin verið rjett og nauðsynleg, þó einhver lagagrein, sem teygja má sem hrátt skinn, heimili hana ekki að öllu leyti.
      Á Íslandi er aptur efnahagur blaðanna — af þvi þau eru svo mörg og svo smá — svo bág­borinn, að þau þola ekki nein áföll, og því síður mega þau við því, að ritstjórarnir hætti sjer svo langt fyrir sannfæring sína, að þeir verði dæmdir í fangelsisvist. Þá væri blaðið líklega úr sögunni í sama vetfangi. Afleiðingin af þessu verður hugleysi og ósjálfstæði, því »fátæklingurinn, sem jafnan er upp á aðra kominn, getur aldrei orðið fullkomlega sjálfstæður nje frjáls« (Eimr. I, n). Og svo kemur vaninn í tilbót, svo að menn jafnvel leiða hjá sjer, að finna að því, sem þó ekki gæti bakað þeim neina lagalega ábyrgð, og öll veruleg gagnrýni fer út um þúfur.
Og hver er svo afleiðingin af þessari vöntun á fullkominni gagnrýni? Hún er sú, að siðferðislegt þrek, sjálfstæði, drengskapur, orðheldni, óhlutdrægni og aðrir andlegir mannkostir fara óðum þverrandi hjá þjóðinni. Þetta er harður dómur, en því miður er hann sannur, þótt grátlegt sje til þess að vita. Það kveður jafnvel svo rammt að þessu, að þetta er farið að koma ótvíræðlega í ljós á sjálfu alþingi Íslendinga, hjá hinum útvöldu fulltrúum þjóðarinnar. Allir vita, hversu nauðsynlegt það er álitið fyrir þá, sem um eitthvað hafa sótt til þingsins, að vera sjálfir viðstaddir á áheyranda­pöllunum, til þess að »horfa atkvæði út úr þingmönnum«.
      Þó að nokkuð mikið kunni nú að vera gert úr því, þá er þó hitt eigi að síður víst, að þetta álit hefur við töluverð rök að styðjast. Það er sannreynt, að marga þingmenn brestur kjark til að greiða atkvæði á móti þeim mönnum, sem sjálfir eru við staddir, þótt þeir annars mundu hafa gert það. Þetta hefur meðal annars leitt til þess, að sumir menn, sem eitthvað þykjast eiga undir sjer, eru farnir að leggja í vana sinn að sitja í Rvík allan þingtímann, þó þeir hafi þar ekkert annað að gera en að reyna að hafa áhrif á þingmenn og embættismenn. Og áhrifin af veru þeirra hafa stundum komið svo berlega í ljós, að það er til stórkostlegrar minnkunar fyrir þingið og þjóðhöfðingja vora. Þá eru atkvæðasvikin ekki góður vottur. Eins og menn vita, verða menn á öllum þingum, til þess að þingstörfin geti farið í nokkru lagi, opt að vera búnir að koma sjer saman um það, áður en á þingfund er gengið, hvernig menn ætli sjer að snúast við því og því máli.
      Þetta gera menn líka á alþingi, en þar hefur það á seinni árum sýnt sig, að menn fyrirverða sig ekki fyrir að svíkjast um að greiða atkvæði eins og þeir hafa lofað fyrirfram, — ekki einungis frá einum degi til annars, heldur jafnvel frá einni klukkustund til annarar. Mest kveður að þessu við allar kosningar, einkum í hinar þýðingarmestu nefndir þingsins t. d. í fjárlaganefnd. Þessi alda er jafnvel farin að rísa svo hátt, að sumir þeirra, er skipa hin efstu virðingarsæti þingsins, hafa ekki gætt betur sóma síns en svo, að gera sig seka í þessari óhæfu. Og í einu máli kom það fyrir á síðasta þingi, að rúmur þriðjungur deildarmanna í neðri deild (7 þingmenn) svikust um að greiða atkvæði, eins og þeir höfðu lofað fyrirfram. En þá átti líka einstakur maður í hlut, sem í það sinn sat á áheyrandapalli, þótt hann aldrei hefði sjezt þar allan þingtímann áður, nema þegar mera­frumvarpið var á ferðinni, enda gekk og meðferð þess honum að óskum. Sá skortur á siðferðis­legu þreki, sú ósjálfstæði og sá ódrengskapur, sem lýsir sjer í slíkri meðferð á löggjafarmálum þjóðarinnar, er harla athugaverður, enda hefur merkur maður sagt oss, að einmitt fyrir þær sakir hafi einn hinn mesti hæfileikamaður landsins hrökklazt út úr þinginu (ɔ: neitað að taka endur­kosning), af því hann gat ekki átt í því, að eiga að búa við sífeld svik.
      »Samvizkulaus þingmaður er óttalegt orð«, sagði síra Einar Jónsson í þingsetningarræðu sinni 1895, og þá setningu munu allir þingmenn fúsir til að undirskrifa. En þær systurnar Theóría og Praxis eiga nú ekki ætíð samleið í heiminum. Þær fara stundum sín í hvora áttina. Að lofa að greiða atkvæði sitt svo og svo í jafnþýðingarmiklum málum og þeim, sem eru til meðferðar á alþingi, og svíkjast svo um það rjett á eptir verðum vjer einmitt að kalla samvizkuleysi, og þyki mönnum slíkt fjarri sönnu, þá bendir það óneitanlega á, að tilfinningin fyrir því, sem almennt er kallað samvizkusemi, sje sannarlega farin að verða eitthvað geggjuð hjá þjóðinni. Og merkilegt er það, að ekkert af blöðunum minnist á slíkt sem þetta, og vitum vjer þó fyrir víst, að þeim er það fullkunnugt, að minnsta kosti sumum hverjum.
      Viðlíka skortur á sjálfstæði, einurð og drengskap kemur og eigi allsjaldan fram við umræður­nar á alþingi. Það vantar ekki að menn sjeu nógu frakkir í því, að dangla á stjórninni, og ausi á hana hrakyrðum, bæði fyrir það, sem henni er að kenna og ekki að kenna — af því stjórnin er nógu langt í burtu og aldrei heyrir, hvað menn segja. En eigi landshöfðingi eða aðrir nærstaddir embættismenn í hlut, þá vill nú stundum koma annað hljóð í strokkinn. Þá leggja menn optast niður rófuna og verða annaðhvort klumsa eða gera sjer tæpitungu og fara í kringum efnið eins og köttur í kringum heitt soð. Maður getur nú skilið í þessu um embættismennina, en erfiðara er að skilja, hvað bændum gengur til. Og þó er það sannast að segja, að einmitt hjá sumum þeirra kveður hvað mest að þessum heigulskap og einurðarleysi.
      Þó oss væri skapi næst, að minnast á margt fleira athugavert í fari bæði þingmanna og embættismanna — og nóg sje til —, þá ætlum vjer þó að láta hjer staðar numið að sinni, enda stendur það ekki oss næst að gagnrýna alþingi opinberlega. Vjer höfum aðeins viljað benda á, að þörf væri á að gera það, því ef hættuleg átumein fá að grafa um sig óátalin hjá beztu mönnum þjóðarinnar — og menn verða að ætla, að ekki sje valið af verri endanum, þegar verið er að kjósa sjer löggjafa —, þá er öllu þjóðfjelaginu stofnað í voða. Ef svo fer um hið græna trjeð, hvernig mun þá fara um hinn feyskna stofn.

V.G.

Greinin birtist upprunalega í Eimreiðinni 2. árg. 3. tbl. (01.09.1896)

Góðar og vondar ástæður fyrir trú

eftir Richard Dawkins1

Elsku Júlía,

Þar sem þú ert orðin tíu ára langar mig til að skrifa þér um dálítið sem skiptir mig máli. Hefurðu nokkurn tíma velt því fyrir þér hvernig við vitum það sem við vitum? Hvernig vitum við, til dæmis, að stjörnurnar sem líta út eins og örlítil nálargöt á himninum eru í raun og veru gríðarstórir eldhnettir eins og sólin og mjög langt í burtu? Og hvernig vitum við að jörðin er minni hnöttur sem snýst kringum eina af þessum stjörnum, sólina?

Svarið við þessum spurningum er ‘sannanir’. Stundum merkir þetta orð, sannanir, í rauninni að sjá (eða heyra, finna, lykta …) að eitthvað er satt. Geimfarar hafa farið nógu langt frá jörðinni til að sjá með eigin augum að hún er hnöttótt. Stundum þurfa augun á hjálp að halda. ‘Kvöldstjarnan‘ lítur út eins og bjartur glampi á himninum en með sjónauka sjáum við að hún er fallegur hnöttur – reikistjarnan sem við köllum Venus. Eitthvað sem við lærum með því að sjá það beint (eða heyra það eða finna það …) er kallað athugun.

Oft eru sannanir ekki bara athugun út af fyrir sig, en athugun býr þeim alltaf að baki. Hafi morð verið framið er það oft svo að enginn sá það (nema morðinginn og sá sem dó!). En rann­sóknarlögreglumenn geta safnað saman mörgum öðrum athugunum sem allar geta bent til þess að ákveðinn maður sé grunaður. Ef fingraför manns passa við þau sem finnast á rýtingi þá sannar það að hann hafi snert hann. Það sannar ekki að hann hafi framið morðið en það getur komið að gagni þegar það er tengt mörgum öðrum sönnunargögnum. Stundum getur rann­sóknarlögreglumaður hugleitt heilan helling af athugunum og allt í einu gert sér ljóst að þær koma allar heim og saman og eru skiljanlegar ef viss persóna framdi morðið.

Vísindamenn – sérfræðingarnir í að uppgötva sannleikann um jörðina og heiminn – vinna oft eins og rannsóknarlögreglumenn. Þeir koma með ágiskun (sem kallast tilgáta) um hvað kynni að vera satt. Síðan segja þeir við sjálfa sig: Ef þetta væri í raun og veru satt þá ættum við að sjá þetta og annað. Þetta kallast forsögn eða spá. Til dæmis, ef jörðin er í raun og veru hnöttótt þá getum við sagt fyrir um að ferðamaður sem héldi stöðugt áfram í sömu átt mundi að lokum koma aftur þangað sem hann lagði af stað. Þegar læknir segir að þú sért með mislinga lítur hann ekki á þig í eitt skipti og sér mislinga. Við fyrstu athugun dettur honum í hug sú tilgáta að þú kunnir að vera með mislinga. Síðan segir hann við sjálfan sig: Ef hún er í raun og veru með mislinga þá ætti ég að sjá þetta og þetta og … Síðan fer hann yfir þennan lista af spám og prófar þær með augunum (Ertu með bletti?); með höndunum (Er ennið á þér heitt?), og eyrunum (Heyrist soghljóð þegar þú andar, sem lýsir sér eins og þú værir með mislinga?). Þá fyrst kveður hann upp úrskurð og segir: „Ég greini að barnið er með mislinga.“ Stundum þurfa læknar að gera aðrar rannsóknir eins og blóðrannsókn eða röntgenrannsókn sem hjálpa augum þeirra, höndum og eyrum við að gera athuganir.

Hvernig vísindamenn nota sönnunargögn til að fræðast um heiminn er langtum snjallara og flóknara en ég get sagt í stuttu bréfi. En nú vil ég hverfa frá sönnunum og sönnunargögnum, sem eru góð ástæða til að trúa einhverju, og vara þig við þremur vondum ástæðum til að trúa hverju sem er. Þær kallast ‘hefð‘, ‘kennivald‘ og ‘opinberun‘.

Byrjum á hefðinni. Fyrir nokkrum mánuðum fór ég í sjónvarpið til að ræða við um fimmtíu börn. Þessum börnum var boðið vegna þess að þau höfðu verið alin upp við mörg ólík trúarbrögð. Sum höfðu verið alin upp sem kristið fólk, önnur sem gyðingar, múslímar, hindúar eða sikhar. Maðurinn með hljóðnemann fór frá barni til barns og spurði þau hverju þau tryðu. Það sem þau sögðu sýnir nákvæmlega hvað ég á við með ‘hefð‘. Trú þeirra reyndist ekki hafa nein tengsl við sannanir eða rök. Þau romsuðu bara upp úr sér trúarskoðunum foreldra sinna og afa og ömmu sem voru ekki heldur reistar á sönnunum eða rökum. Þau sögðu til dæmis: „Við hindúar trúum þessu og þessu“; „Við múslímar trúum þessu og þessu“; „Við sem erum kristin trúum einhverju öðru.“

Auðvitað gátu þau ekki öll haft á réttu að standa þar sem þau trúðu öll ólíkum hlutum. Maðurinn með hljóðnemann virtist álíta þetta alveg rétt og tilhlýðilegt og hann reyndi ekki einusinni að fá þau til að rökræða hvert við annað um þessi ólíku trúaratriði. En núna er þetta ekki aðalatriðið. Ég vil einfaldlega spyrja hvaðan trúarskoðanir þeirra komu. Þær komu frá hefð. Hefð merkir trú og skoðanir sem eru látnar ganga að erfðum frá afa og ömmu til foreldra, til barna og þar fram eftir götunum. Eða þær komu úr bókum sem hafa gengið frá einni kynslóð til annarrar í aldanna rás. Hefðbundin trú á sér oft upphaf í næstum engu; einhver býr hana kannski bara til upphaflega, eins og sögurnar um Þór og Seif. En eftir að þær hafa gengið mann fram af manni í nokkrar aldir virðast þær eitthvað sérstakar einungis vegna þess að þær eru svo gamlar. Fólk trúir hlutum einfaldlega vegna þess að það hefur trúað þeim öldum saman. Þetta er hefðin.

Gallinn við hefðina er sá að sama hve langt er liðið síðan saga var búin til þá er hún enn nákvæmlega jafn sönn eða ósönn og upphaflega sagan var. Ef maður býr til sögu sem er ekki sönn þá gerir það hana ekkert sannari þótt hún gangi mann fram af manni í eins margar aldir og vera skal!

Flest fólk í Englandi hefur verið skírt inn í ensku þjóðkirkjuna en hún er aðeins ein af mörgum deildum kristinnar trúar. Það eru til aðrar deildir eins og rússneska rétttrúnaðarkirkjan, rómversk-kaþólska kirkjan og meþódistakirkjan. Þær trúa allar ólíkum hlutum. Gyðingatrú og múslímatrú eru þó ögn ólíkari, og það eru til ólíkar tegundir gyðinga og múslíma. Fólk sem trúir jafnvel örlítið mismunandi hlutum fer í stríð út af ágreiningnum. Það mætti því halda að það hlyti að hafa nokkuð góðar ástæður – sannanir – til að trúa því sem það trúir. En í rauninni stafar ólíkur átrúnaður þess eingöngu af ólíkum hefðum.

Við skulum tala um eina ákveðna hefð. Rómersk-kaþólskir menn trúa því að María, móðir Jesú, hafi verið svo sérstök að hún hafi ekki dáið heldur hafi hún hafist upp til himna í líkamanum. Aðrar kristnar hefðir eru ósammála þessu og segja að María hafi dáið eins og allir aðrir. Þessar trúar­hefðir tala ekki mikið um hana og ólíkt hinni rómversk-kaþólsku kalla þær hana ekki ‘himna­drottninguna‘. Sú hefð að líkami Maríu hafi hafist upp til himna er ekki mjög gömul. Biblían segir ekkert um hvernig eða hvenær hún dó; reyndar er aumingja konan varla nefnd í biblíunni. Sú trú að líkami hennar hæfist upp til himna var ekki hugsuð upp fyrr en um það bil sex öldum eftir tíma Jesú. Í fyrstu var hún bara búin til á sama hátt og aðrar sögur eins og til að mynda ‘Mjallhvít‘ var búin til. En í aldanna rás varð hún að hefð og fólk fór að taka hana alvarlega einfaldlega vegna þess að sagan hafði gengið mann fram af manni í svo margar kynslóðir. Því eldri sem hefðin varð því flera fólk tók hana alvarlega. Að lokum var hún skrifuð niður sem opinber rómversk-kaþólsk trú aðeins fyrir skemmstu, eða árið 1950, þegar ég var á þínum aldri. En sagan var ekkert sannari árið 1950 en hún var þegar hún var fyrst búin til sex hundruð árum eftir dauða Maríu.

Ég kem aftur að hefðinni í lok bréfsins og lít á hana með öðrum hætti. En fyrst má ég til með að fjalla um tvær aðrar vondar ástæður til að trúa hverju sem er, en þær eru kennivald og opinberun.

Kennivald, sem ástæða til að leggja trúnað á eitthvað, merkir að trúa því af því að einhver hátt­settur maður segir manni að trúa því. Í rómversk-kaþólsku kirkjunni er páfinn æðstur manna og fólk heldur að hann hljóti að hafa rétt fyrir sér bara af því að hann er páfinn. Í einni deild múslímatrúarinnar er háttsetta fólkið gamlir karlar með skegg sem kallaðir eru höfuðklerkar. Fjöldi múslíma hér á landi eru reiðubúnir að fremja morð eingöngu vegna þess að höfuð­klerkarnir í fjarlægu landi segja þeim að gera það.

Þegar ég segi að það hafi ekki verið fyrr en 1950 sem rómversk-kaþólsku fólki var loks sagt að það yrði að trúa því að líkami Maríu hafi skotist upp til himna á ég við að árið 1950 sagði páfinn fólki að það yrði að trúa því. Þar við sat. Páfinn sagði að það væri satt svo að það hlaut að vera satt! Nú, sennilega hefur sumt af því sem páfinn sagði um sína ævidaga verið satt og sumt ekki. Engin góð og gild ástæða er fyrir því að maður ætti að trúa öllu sem hann sagði, bara af því að hann var páfinn, frekar en maður trúir öllu sem fjöldi annarra manna segir. Núverandi páfi hefur skipað fylgismönnum sínum að takmarka ekki barneignir sínar. Ef fólk fer eftir kennivaldi hans eins auðmjúklega og hann mundi óska gætu afleiðingarnar orðið skelfileg hungursneyð, sjúk­dómar og styrjaldir sem orsökuðust af of miklum fólksfjölda.

Auðvitað er það þannig, jafnvel í vísindunum, að stundum höfum við sjálf ekki séð sönnunar­gögnin eða sannanirnar og verðum að hafa það fyrir satt sem einhver annar segir. Ég hef ekki séð með eigin augum sannanirnar fyrir því að ljós fari með 300 þúsund kílómetra hraða á sekúndu. Í staðinn trúi ég bókum sem segja mér hver ljóshraðinn er. Þetta lítur út eins og ‘kennivald‘. En í raun og veru er það langtum betra en kennivald vegna þess að fólkið sem skrifaði bækurnar hefur séð sönnunargögnin og öllum er frjálst að skoða gögnin vandlega hvenær sem þeir vilja. Þetta er mjög hughreystandi. En ekki einusinni prestarnir halda því fram að til séu neinar sannanir fyrir sögu þeirra að líkami Maríu hafi svifið upp til himna.

Þriðja tegund vondrar ástæðu til að trúa hverju sem er kallast ‘opinberun‘. Hefði maður spurt páfann árið 1950 hvernig hann vissi að líkami Maríu hefði horfið upp til himna mundi hann sennilega sagt að það hafi ‘opinberast‘ sér. Hann lokaði sig inni í herberginu sínu og bað til Guðs um leiðsögn. Hann hugsaði og hugsaði, alveg út af fyrir sig, og hann varð vissari og vissari innra með sér. Þegar trúað fólk hefur bara tilfinningu innra með sér um að eitthvað hljóti að vera satt kallar það tilfinninguna ‘opinberun‘. Það eru ekki aðeins páfar sem halda því fram að þeir fái opinberanir. Fjöldi trúaðs fólks gerir það. Það er ein aðalástæða þess fyrir að trúa því sem það trúir. En er það góð ástæða?

Setjum svo að ég segði þér að hundurinn þinn væri dauður. Þér yrði mikið um þetta og þú mundir líklega spyrja: „Ertu viss? Hvernig veistu það? Hvernig gerðist það?“ Setjum nú svo að ég svaraði: „Ég veit reyndar ekki hvort Peppi er dauður. Ég hef engar sannanir. Ég hef bara þessa skrýtnu tilfinningu djúpt innra með mér að hann sé dauður.“ Þú yrðir allreið út í mig fyrir að hræða þig af því að þú vissir að innri ‘tilfinning‘ ein sér er ekki góð ástæða til að trúa að hundur sé dauður. Maður þarf sannanir. Við höfum öll innri tilfinningar annað veifið og stundum reynast þær réttar og stundum ekki. Hvað sem því líður, ólíkt fólk hefur gagnstæðar tilfinningar svo hvernig eigum við þá að skera úr um hver hafi réttu tilfinninguna? Eina leiðin til að vera viss um að hundur sé dauður er að sjá hann dauðan eða heyra að hjartað er hætt að slá, eða að einhver sem hefur fengið áreiðanlegar sannanir segi manni að hann sé dauður.

Stundum segir fólk að maður verði að trúa á tilfinningar djúpt innra með sér, annars yrði hann aldrei fullviss um hluti eins og „Konan mín elskar mig.“ En þetta er vond röksemd. Það geta verið nægar sannanir fyrir því að einhver elski mann. Daginn út og daginn inn þegar maður er með einhverjum sem þykir vænt um mann sér hann og heyrir marga litla sannanamola og þeir leggjast allir saman. Það er ekki eingöngu innri tilfinning eins og tilfinningin sem prestar kalla opinberun. Það eru ytri hlutir sem veita innri tilfinningunni stuðning: augnaráð, blíður raddblær, smágreiðar og annar vinsemdarvottur. Allt þetta er raunverulegar sannanir.

Stundum hefur fólk sterka innri tilfinningu um að einhver elski það þótt hún byggist ekki á neinum sönnunum og þá er líklegt að það hafi algerlega á röngu að standa. Til er fólk með sterka innri tilfinningu um að fræg kvikmyndastjarna elski það þótt kvikmyndastjarnan hafi ekki einusinni séð það í raun og veru. Slíkt fólk er andlega sjúkt. Innri tilfinningar verða að vera studdar sönnunum, annars er bara ekki hægt að treysta þeim.

Innri tilfinningar skipta líka máli í vísindunum en einungis til að gefa manni hugmyndir sem hann prófar seinna með því að leita sannana. Vísindamaður getur haft ‘grun‘ um hugmynd sem honum bara ‘finnst‘ rétt. Í sjálfu sér er þetta ekki góð ástæða fyrir að trúa einhverju. En það getur verið góð ástæða til að verja dálitlum tíma til gera ákveðna tilraun eða til að leita á ákveðinn hátt að sönnunum. Vísindamenn nota stöðugt innri tilfinningar til að fá hugmyndir. En þær eru einskis virði fyrr en þær eru studdar sönnunum.

Ég lofaði að koma aftur að hefðinni og skoða hana á annnan hátt. Mig langar til að reyna að út­skýra hvers vegna hefðin er svona mikilvæg fyrir okkur. Öll dýr eru byggð (af ferli sem kallast þróun) til að lifa á þeim stað þar sem tegund þeirra á venjulega heima. Ljón eru byggð til að vera hæf til að lifa á sléttum Afríku. Vatnakrabbar eru byggðir til að vera hæfir til að lifa í fersku vatni, en humrar eru hins vegar byggðir til að vera hæfir til að lifa í söltum sjó. Fólk er líka dýr og við erum byggð til að vera hæf til að lifa í heimi fullum af … öðru fólki. Fæst okkar veiða sér til matar eins og ljón eða humrar; við kaupum matinn af öðru fólki sem hefur keypt hann af enn öðru fólki. Við ‘syndum‘ gegnum ‘sjó af fólki‘. Alveg eins og fiskur þarf tálkn til að lifa í vatni þarf fólk heila til að gera það fært um að eiga samskipti við annað fólk. Alveg eins og sjórinn er fullur af söltu vatni er fólkssjórinn fullur af erfiðum hlutum sem þarf að læra. Eins og tungumálinu.

Þú talar ensku en vinkona þín Ann-Kathrin talar þýsku. Hvor ykkar talar það mál sem gerir ykkur hæfar til að ‘synda um‘ í ykkar eigin sérstaka ‘fólkssjó‘. Hefðin flytur tungumálið frá einni kynslóð til annarrar. Það er engin önnur leið. Í Englandi er Peppi ‘a dog‘. Í Þýskalandi er hann ‘ein Hund‘. Hvorugt þessara orða er réttara eða sannara en hitt. Bæði ganga einfaldlega að erfðum frá kynslóð til kynslóðar. Til þess að vera fær um ‘að synda um í fólkssjó sínum‘ verða börn að læra tungumál lands síns og helling af öðrum hlutum um sína eigin þjóð, og þetta þýðir að þau verða að drekka í sig, eins og þerripappír, gífurlegt magn af hefðbundnum fróðleik. (Mundu að hefðbundinn fróðleikur merkir bara hluti sem eru látnir ganga að erfðum frá öfum og ömmum til foreldra, til barna.) Heili barnsins verður að gleypa við hefðbundnum fróðleik. Og ekki er hægt að búast við að barnið skilji góðan og gagnlegan fróðleik, eins og orðin í tungumáli, frá vondum eða heimskulegum fróðleik eins og trú á nornir og djöfla og eilífar jómfrúr.

Það er leiðinlegt, en það er óhjákvæmilegt, að vegna þess að börn verða að gleypa við hefðbundnum fróðleik þá er líklegt að þau trúi öllu sem fullorðnir segja þeim, hvort sem það er satt eða ósatt, rétt eða rangt. Mikið af því sem fullorðnir segja þeim er satt og á rökum reist, eða það er að minnsta kosti skynsamlegt. En sé sumt af því ósatt, heimskulegt eða jafnvel andstyggilegt getur ekkert komið í veg fyrir að börnin trúi því líka. Þegar börnin svo vaxa úr grasi hvað gera þau? Nú, vitanlega segja þau það næstu kynslóð barna. Svo að þegar farið er að leggja eindreginn trúnað á eitthvað – jafnvel þótt það sé ósatt með öllu og það hafi aldrei verið nein ástæða til að trúa því – þá getur það haldið áfram um aldur og ævi.

Getur þetta verið það sem hefur gerst með trúarbrögð? Trú á tilveru guðs eða guða, trú á himnaríki, sú trú að María hafi aldrei dáið, sú trú að Jesús hafi ekki átt mannlegan föður, sú trú að við séum bænheyrð, sú trú að vín breytist í blóð – ekkert af þessum átrúnaði hefur við nein góð rök að styðjast. Samt leggja milljónir manna trúnað á þetta. Kannski það sé vegna þess að þeim var sagt að trúa því þegar þeir voru nógu ungir til að trúa hverju sem er.

Milljónir annarra manna trúa allt öðrum hlutum vegna þess að þeim var sagt annað þegar þeir voru börn. Múslímabörnum eru sagðir aðrir hlutir en kristnum börnum og bæði vaxa úr grasi alveg sannfærð um að þau hafi á réttu að standa og hinir hafi rangt fyrir sér. Jafnvel innan kristninnar trúa rómversk-kaþólskir menn öðrum hlutum en fólk í ensku þjóðkirkjunni eða biskupa­kirkjumenn, hristarar eða kvekarar, mormónar eða hvítasunnumenn, og allir eru fullkomlega sannfærðir um að þeir hafi rétt fyrir sér og hinir rangt. Þeir trúa ólíkum hlutum af nákvæmlega sams konar ástæðu og þú talar ensku og Ann-Kathrin talar þýsku. Í sínu eigin landi eru bæði málin rétta málið til að tala. En það getur ekki verið satt að ólík trúarbrögð séu rétt í sínum löndum vegna þess að ólík trúarbrögð halda því fram að gagnstæðir hlutir séu réttir. María getur ekki verið á lífi í hinu kaþólska Suður-Írlandi en dáin í Norður-Írlandi mótmælenda.

Hvað getum við gert í öllu þessu? Það er ekki auðvelt fyrir þig að gera neitt af því að þú ert ekki nema tíu ára. En þú gætir reynt þetta. Næst þegar einhver segir þér eitthvað sem virðist mikilvægt hugsaðu þá með sjálfri þér: „Er þetta eitthvað sem fólk veit kannski vegna sannana? Eða er það eitthvað sem fólk trúir einungis vegna hefðar, kennivalds eða opinberunar?“ Og næst þegar einhver segir þér að eitthvað sé satt hvers vegna ekki að segja við hann: „Hvers konar sannanir eru fyrir þessu?“ Og ef hann getur ekki gefið þér gott svar vona ég að þú hugsir þig mjög vandlega um áður en þú trúir orði af því sem hann segir.

Með ástarkveðju,

pabbi

Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísanir

1. Höfundur þessa ‘bréfs’, Richard Dawkins, er þróunarlíffræðingur og prófessor við Oxford-háskóla. Fyrsta bók hans, The Selfish Gene (Eigingjarna genið) sem kom út 1976, fjallaði um það sem nú er kallað félagslíffræðilega byltingin. Hann er annálaður fyrir frumlegar hugmyndir og skýra framsetningu. Þekktastur mun Dawkins vera fyrir bókina The Blind Watchmaker (Blindi úrsmiðurinn) sem kom fyrst út 1986. Báðar þessar bækur eru metsölubækur. ‘Bréfið‘ birtist í bókinni How Things Are: A Science Tool-Kit for the Mind sem kom út í Bretlandi árið 1995. Í bókinni eru 34 stuttar ritgerðir eftir jafnmarga höfunda sem hver fjallar um eitthvert grundvallarhugtak á sínu sviði. Þýð.

« Til baka

Grímur manns og heims

eftir Vilhjálm Árnason

Grímur manns og heims

 

Látbragðslistin í heimspeki Nietzsches1

Nietzsche notar ekki oft hugtakið „gríma“ í verkum sínum, en það er áberandi í hvert sinn sem því bregður fyrir. En þótt orðið sé sjaldgæft sést við nánari skoðun að hugtök sem tengjast grímunni, á borð við látbragð, blæja, skikkja, hlutverk, leikrit og leikur gegnsýra textann. Ætlun mín í þessari ritgerð er að sýna að þessi hugtök „látbragðslistarinnar“ séu mikilvæg til skilnings á heimspeki Nietzsches. Notkun hans á grímutengdum orðum er afar þýðingarmikil bæði fyrir hugsun hans um eðli veruleikans og einnig fyrir endurmat hans á tilvist manna og gildum. Meginkostur þess að ræða hugsun Nietzsches í ljósi grímunnar er hin djúpa margræðni þessa hugtaks. Það er sífelld spenna milli þeirra eiginleika grímunnar að afhjúpa og að fela og þessir tveir eiginleikar eru ekki andstæður heldur samtvinnaðir. Þrátt fyrir að yfirhylming sé megineinkenni hennar er hún hún líka leið að sannleikanum: Hún getur bæði staðið fyrir blekkingu og það sem Nietzsche kallar „sanna blekkingu“. Hana má nota til að fela og flýja en einnig til að leiða í ljós og skapa.

Viðhorf Nietzsches til veruleikans er af ætt Heraklítosar: Allt er á stöðugri hreyfingu og undirselt látlausri verðandi. Það er engin greinarmunur á ‘sýnd’ og ‘reynd’; veruleikinn er eins og hann er skynjaður í lifaðri reynslu. Allar hugmyndir um veru í sjálfri sér utan og ofan við skynheiminn, sem svo mjög setja svip sinn á vestræna frumspeki, eru af rót tómhyggjunnar. Þær eru til marks um óhæfilegar kröfur um algilda og örugga þekkingu og um skort á sálarstyrk til að gangast við veruleikanum eins og hann er. En með því að segja að sýndin sé allt sem er, felst Nietzsche ekki á þá raunhyggju sem telur sig finna merkingarbærar skynreyndir í beinni reynslu. Frá bæjardyrum Nietzsches er ekkert „þarna“ sem hægt er að endurspegla á þennan hátt; um leið og sýndin tekur á sig form og mynd þá er hún ekki „empírísk staðreynd“ heldur túlkun. Ég kalla þessar túlkanir veruleikagrímur og í raun eru þær grímur hvata okkar:

Setjum nú svo að ekkert sé raunverulega „gefið“ nema veröld okkar eigin langana og ástríðna og við komumst hvergi niður né upp til neins annars „veruleika“ en veruleika eigin hvata – því hugsunin er ekkert annað en samspil þessara hvata.2

Við erum aldrei hlutlausir skoðendur andspænis hlutlægum heimi. Með því að láta vilja okkar til sín taka í veröldinni erum við fremur virkir skapendur veruleikans. En þar eð veruleikagrímurnar hafa stirnað, gleymir manneskjan framlagi sínu og fer að trúa því að heimurinn sé sannur eins og hann er:

einungis vegna þess að mannskepnan gleymir sjálfsveru sinni, listrænt skapandi sjálfsveru sinni, býr hún við sæmilega ró, öryggi og samkvæmni.3

Stundum segir Nietzsche að það að vera maður sé að meta og túlka. Hann talar um hvötina „til að skapa myndhverfingar“ sem „frumþörf manneskjunnar“4; sem manneskjur nærumst við á merkingu og gildum. Þetta grundvallareinkenni mannlegrar tilvistar, að skapa úr skynbrotum verðandinnar merkingarbært form, felur samkvæmt Nietzsche ávallt í sér blekkingu að einhverju marki – blekkingu af ætt grímunnar. Máttur okkar til að breiða yfir eðli veruleikans um leið og við leiðum hann í ljós er innbyggður í sjálfan hátt okkar á að hugtaka heiminn og í boðskiptum okkar; hann á rætur í eðli tungumálsins. Með tungumálinu skipuleggjum við veruleikann, sem í eðli sínu er síkvik verðandi. Rétt eins og það sé okkur lífsnauðsyn að negla hlutina niður á þennan hátt þrengjum við flokkunum hugans, á borð við samsemd, líkindum og andstæðum, upp á það sem birtist okkur. Raunar telur Nietzsche þetta mannlegu lífi nauðsyn vegna þess að tungumálið gerir tjáskipti möguleg með samsömun og reglubindingu veruleikans.

Öll hugtök verða til við samsömun þess sem er ekki eins. […] Maðurinn sem skynsemisvera lætur sértekninguna stjórna athöfnum sínum: Hann þolir ekki lengur að hrífast og gefa sig á vald óvæntum áhrifum og skynjunum, heldur alhæfir og aflitar þessi áhrif og færir í kaldan hugtakabúning sem hann síðan spennir fyrir vagn lífs síns og athafna. […] Við getum ekki annað en dáðst að því hvílíkur völundarsmiður mannskepnan er að reisa jafn óendanlega flókna hugtakahvelfingu á hreyfanlegum undirstöðum, svo að segja á rennandi vatni.5

Auk þessa óhjákvæmilega grímueiginleika tungumálsins hafa túlkanir trúarbragða, frumspeki og þekkingarfræði smám saman tekið sér bólfestu í því og fyllt það villandi hugmyndum um mann og heim. Þess vegna þarf að

þýða manninn aftur yfir í náttúruna, ná valdi yfir ótölulegum hégómlegum og öfgakenndum túlkunum og aukamerkingum sem búið er að krota og mála yfir hinn eilífa frumtexta homo natura6

Í tungumálinu afhjúpast heimurinn og manneskjan en vegna þessara tálmynda eru þau líka falin eða grímuklædd. Vitnisburður skynfæranna er afbakaður af skynseminni en jafnframt er skynsemin nauðsynleg til að verðandin geti tekið á sig mynd og birzt á ‚merkingarbæran’ hátt. Þetta er hin sérstaka leið manneskjunnar til sjálfsvarðveizlu. Stundum talar Nietzsche um þetta sem „viljann til sannleika“ en líka sem það „afl lífsins sem vill blekkingu“ og hann sér það sem tjáningarmynd viljans til valds: „að þröngva eiginleikum verunnar upp á verðandina – það er æðsti viljinn til valds“.7 Sannleiksvilji mannsins byggist á vissri sannfæringu; hann er trú á óhagganlegan og merkingarríkan veruleika. Nietzsche sér þessa trú sem tegund villu sem maðurinn getur ekki lifað án:

mennirnir gætu ekki þrifist án rökrænna ímyndana, án þess að meta veruleikann í ljósi hreins uppspuna á borð við veröld hins óskilyrta, hins sjálfu sér samkvæma, án þess að nota tölurnar stöðugt til að rangtúlka heiminn. Við höldum því einnig fram að vísuðu menn röngum dómum á bug væru þeir jafnframt að hafna og afneita lífinu sjálfu. Að viðurkenna ósannindi sem skilyrði lífsins sjálfs …8

Þannig getum við séð að frá bæjardyrum Nietzsches er forsenda hins einstæða mannlega lífs sjálf blekking eða villa af einhverju tagi: Sú blekking að það sé til eitthvað fast og „röklega niðurneglt“. Og þessi „blekking“ er forsenda þeirrar staðreyndar að veruleikinn birtist yfirhöfuð. Í þessu felst hin mikla margræðni tilverunnar, margræðni grímunnar: Fyrirbærin taka óhjákvæmilega á sig mynd til að geta birzt og þessi mynd dylur þeirra innsta eðli, síkvika verðandina. Gríman er nauðsynleg til að setja hlutina fram. En með því að sýna leynir hún og blekkir um leið. Í þessu ljósi verðum við að skilja þá staðhæfingu Nietzsches að „Öll heimspeki felur líka heimspeki. Allar skoðanir eru líka felustaðir, hvert orð er líka gríma.“9 Í þessum fullyrðingum er fólgin sú meginhugmynd að öll skynjun, hugsun og þekking sé bundin vissum sjónarhornum. Eins og við höfum séð eru það þarfir okkar sem túlka heiminn og hver dómur og sérhver mannleg viðleitni er því tengd hagsmunum og lituð af gildum. Grunnfordómar af þessu tagi, hvort sem þeir eru lífeðlisfræðilegir, sögulegir eða félagslegir að uppruna, eru nauðsynlegir til að gefa mannlegri viðleitni „stefnu, merkingu, mörk og tilverurétt“10. Hér verður á vegi okkar sama margræðni og áður. Þrátt fyrir að sérhvert mannlegt sjónarhorn sé takmarkað og hlutdrægt, að minnsta kosti á mælistiku hefðarinnar, er það einnig forsenda sannleika og þekkingar. Hættan felst í því að alhæfa einhverja eina túlkun eða sjónarhorn og að útiloka þátt lífsaflanna í túlkunum okkar. Hvert takmarkað sjónarhorn gefur sem slíkt afbakaða og villandi mynd. Þar með er ekki sagt að til sé eitthvað í sjálfu sér sem megi afbaka, einhver endanlegur sannleikur sem alltaf gengur okkur úr greipum. Það merkir fremur að enginn slíkur sannleikur sé til og einungis með því að gangast við margbreytileika sjónarhornanna sé hægt að vera trúr hinni margbreytilegu reynslu. Nietzsche kallar þetta „ástríðufulla“ hlutlægni:

því fleiri hvötum sem við leyfum að tjá sig um hvert atriði, því fleiri augu, ólík augu sem við höfum til að skoða hvern hlut, þeim mun fyllra verður „hugtak“ okkar um þann hlut, þeim mun meiri „hlutlægni“.11

Meginstefið í framansögðu er að veruleikinn sé óhjákvæmilega grímuklæddur. Við sögðum að sérhver túlkun sé sett fram undir takmörkuðu sjónarhorni sem felur í sér vissa blekkingu. Engu að síður eru sumar túlkanir meira viðeigandi en aðrar; sumar grímur dylja einungis, aðrar miða ekki að því að blekkja heldur reyna að afhjúpa á sannan hátt. Eins og undanfarandi umfjöllun gefur til kynna ræðst það hve sönn túlkun er af tvennu (eða tveimur hliðum sama fyrirbæris): Annars vegar er hún opin fyrir fjölbreytilegri reynslu og sýnir hinn auðuga margbreytileika sjónarhorna. Hins vegar er hún trú hinum mennska veruleika og viðurkennir að fullu hlutverk ástríðna og eðlishvata í túlkunarferlinu, með ástríðufullri hlutlægni. Einkenni þess sem birtist ræðst af sjónarhorninu og því er gríman ákvörðuð af gagnvirkni heims og manns, túlkandanum. En hver er þessi túlkandi? „Sjálfið“ er alveg jafn mikið túlkunarverkefni og allt annað. Líkt og engin vera er að baki ásýndar veruleikans þá er ekkert hefðbundið, eiginlegt sjálf að baki túlkuninni. Sjálf túlkandans er ekki „ég“ heldur „það“ eða sjálfsveran sem af eðlishvöt leysir orku sína úr læðingi.

… hugsun kemur þegar „hún“ vill en ekki þegar „ég“ vil; þannig er það fölsun á staðreyndum að segja frumlagið „ég“ er skilyrði umsagnarinnar hugsa […] jafnvel með „það“ hugsar er of langt gengið: þetta „það“ ber í sér túlkun á ferlinu og tilheyrir ekki ferlinu sjálfu. Hér er ályktað eftir málfræðivenjunni …12

Heimurinn er ákvarðaður af viljanum sem við veitum í hann. Athafnir okkar, sem leiða í ljós túlkanir okkar á heiminum, eru tjáning ástríðna okkar og langana. Breytni manna, birting okkar í heiminum, ræður því úrslitum. Túlkunin sem bregður grímu á veruleikann og fær hann til að birtast leiðir jafnframt túlkandann í ljós. Við stígum fram í athöfnum okkar og túlkunum. Í þessum skilningi er gríman skilyrði sjálfsins, leið þess til að birtast. ‘Sjálfið’ er líka gríma og röð af grímum í stöðugri ummyndun. Uppgerðarlistin er sérkennandi fyrir manninn og á rætur í vitsmunum hans. Umbreyting hvatanna í meðvitaða rökhugsun er undirstaða skilningslistarinnar, „sem er listin sem leyfir okkur að bera grímur“.13 Yfirvegun fjarlægir manninn frá náttúrunni og þetta rof er forsenda látbragðs og uppgerðar. Í krafti þessarar fjarlægðar erum við mennsk og getum þar með borið grímur.

Vitsmunirnir þjóna því hlutverki að viðhalda einstaklingnum og er megintilgangur þeirra að villa á sér heimildir. […] Listin að villa á sér heimildir nær hámarki hjá mannskepnunni: hér eru allsráðandi blekking, skjall, svik og prettir, baktal, yfirborðsmennska, tildur, grímuklæðnaður, hulur hefðarinnar, sýndarmennska gagnvart sjálfum sér og öðrum, í stuttu máli sagt eitt allsherjar flökt í kringum hégómans eilífa loga.14

Látbragðslistin kemur sér sérstaklega vel fyrir þrælasiðferðið – það siðferði sem á rætur í kjörum hinna undirokuðu – vegna þess að það getur ekki gengizt við eigin hvötum. Yfirvegun verður lífsnauðsynlegt skilyrði tilvistar þrælsins sem verður alltaf að fara krókaleiðir og leita óbeinna leiða til athafna. Stöðug gagnrýni Nietzsches á siðferðið beinist að þessu atriði.

Siðapostular þurfa að hafa á sér yfirbragð dygðarinnar, einnig yfirbragð sannleikans, þeir gera þá fyrst mistök þegar dygðin nær tökum á þeim, þegar þeir missa tökin á dygðinni og þeir verða sjálfir siðferðisverur, verða sannir. Eitt af því sem góður siðapostuli þarf að hafa til að bera eru góðir leikhæfileikar; áhættan sem hann tekur er að leiktilburðirnir verði honum óvart eiginlegir, því það er guðleg hugsjón hans að halda eðli sínu og athöfnum aðskildum.15

Þetta er ein ástæða þess að Nietzsche metur mikils hina „göfugu kynþætti“. Hegðun þeirra einkennist af því að vera óyfirveguð og hreinskiptin, öfugt við hina yfirveguðu, útpældu hegðun sem einkennir hinn „útsmogna þræl“. Hinn göfugi maður tjáir hvatir sínar og ástríður á óheftan hátt. Hið „göfuga“ við þetta er hreinskilni og trúmennska við mannlegt eðli. Það er einmitt í hinni sjálfsprottnu athöfn og ræðu sem við erum sannarlegast „við sjálf“. Bæling hvatanna sem svo mjög einkennir hina andlíkamlegu frumspeki þrælanna er lífsafneitandi, þótt hún marki upphaf siðmenningar. „Skynsemin“ er aðgreind frá og tekin fram yfir ástríðurnar sem eru bældar. Þessi afneitun lífsaflanna leiðir til sjálfsblekkingar og afbökuð mynd af mannlegu eðli verður til. Ein ástæðan fyrir hrörnun siðferðisins að mati Nietzsches er sú að áherzlan hefur flutzt frá hinum einstaka geranda höfðingjasiðferðisins yfir á almenna flokka athafna og siðareglna í þrælasiðferði. Hið síðarnefnda felur í sér áherzlu á dygðugt látæði í stað dygðugra manngerða og þess vegna leiðir það látbragðslistina, sem blekkjandi tilvistarhátt, inn að kjarna siðferðisins. Í stað þess að skapa gildi og taka áhættu leitum við öryggis í búningum venja og hefða. Markmið hinna veiku er að alhæfa gildi sín, gera allt sameiginlegt svo að allir geti falizt bak við hefðir, klæddir í búning meðalmennskunnar. Afleiðingin er sú að blekkingin hefur öðlazt vaxandi gildi fyrir okkur í lífsbaráttunni. Viljinn til að vera blekktur er orðin náttúruleg hneigð mannsins; hann flýr vandamálin, forðast þjáningu og leitar hælis í blekkingum um heiminn og handanheiminn, jarðlífið og lífið eftir dauðann. Það sem í raun angrar Nietzsche hér er sú staðreynd að þessar veruleikagrímur hafa fengið stöðu sem viðtekin sannindi: blekking sem við höfum gleymt að sé blekking.

Sannindi eru tálsýnir sem við höfum gleymt að eru tálsýnir, útjaskaðar og máttlausar myndhverfingar […] samfélagið leggur okkur [skyldu] á herðar til að halda velli: sannsöglina, þ.e. fastbundna notkun myndhverfinga; eða siðferðilega orðað: skylduna til að ljúga samkvæmt fastmótaðri hefð, ljúga saman í hjörð eftir reglum sem allir verða að hlýða.16

Hér að ofan kom fram að öll þekking er bundin takmörkuðum sjónarhornum. Allar tilraunir til að upphefja þessar grundvallartakmarkanir mannsins eru veruleikaflótti af rót tómhyggjunnar. Slíkar túlkanir eru blekkingar, yfirhylmandi grímur. Einungis með því að gangast við takmörkunum okkar og fagna jarðneskum lífsskilyrðum, getum við forðað blekkingu og sjálfsafneitun og skapað möguleikann á skapandi lífsstyrkingu. Þar eð takmarkað sjónarhorn er forsenda þess að eitthvað sé leitt í ljós og sérhvert sjónarhorn dylur jafnframt því sem það afhjúpar þá verður sannleikurinn aldrei sviptur grímunni: „Við trúum því ekki lengur að sannleikurinn verði sannleikur þegar hulunni er svipt af; við höfum upplifað of mikið til að trúa þessu“.17 Í ljósi þessa má segja að vandinn sé ekki sá að bera grímu, heldur hvernig hún er borin, hvernig birtingin á sér stað. Villa hefðbundins siðferðis er að alhæfa og halda fram sem sannleika viðhorfum sem eru einungis sjónarhorn. Grundvallareiginleika mannlegrar tilvistar er afneitað með því að alhæfa siðadóma og aftengja þá hagsmunum og persónum. Siðferði verður þá flótti fyrir einbera leikendur, gríma sem hefur það meginhlutverk að breiða yfir. Hugmynd Nietzsches um að sigrast á þrælasiðferðinu má því skoða sem viðleitni mannsins til að birta sig á sannan hátt. Í ljósi þess sem sagt hefur verið getur hann þó ekki gert það grímulaust. Munurinn á eiginlegri og óeiginlegri grímu kemur skýrt fram í riti Nietzsches Fæðing harmleiksins. Í verkum Sófóklesar og Æskýlosar birtast appólónskar og díonýsískar grímur. Það er guðleg vera að baki hverri grímu og hin guðlega vera stígur einungis fram fyrir tilverknað grímunnar. Hér er gríman sönn listræn aðferð, nauðsynlegt form til að setja guðina á svið. Í leikverki Evripídesar er goðsögnin á hinn bóginn á hverfanda hveli og það sem eftir stendur er einungis „endurgerð, grímubúin goðsögn“, hetjur hans sýna „tilgerðarlegar, grímuklæddar ástríður og flytja tilgerðarlegar, grímuklæddar ræður“.18 Þessi samanburður gefur ljóslega til kynna greinarmun á hinu grímubúna og hinu sanna. En hið sanna ber einnig grímu. Munurinn er fólginn í því hvernig gríman er notuð sem birtingarmynd, hversu sönn framsetningin er. Þessum greinarmun má velta fyrir sér út frá hugmyndum um tvenns konar leikara á leiksviði lífsins. Sumir, ég kalla þá einbera leikara, nota list sína sem felustað. Þeir eru því eins konar loddarar sem setja upp grímur til að blekkja sjálfa sig og aðra. Eiginlegur leikari breytir hinsvegar gagngert til að kanna aðstæður sínar, hann spinnur og gerir tilraunir með lífið. Slíkur maður ber því ekki grímu til að flýja heldur til að leiða sjálfan sig í ljós. Þetta er ein ástæða þess að „Allt sem er djúpt elskar grímur“.19 Á meðan hinn einberi leikari bregður yfir sig skikkjunni vegna hentugleika eða þæginda til að leyna hvötum sínum sem ekki þola dagsbirtuna, notar eiginlegur leikari grímur sínar til að tjá hin margvíslegu lífsöfl sín á sannan hátt. Hann forðast að festa einhverja eina af grímum sínum vegna þess að hann gerir sér grein fyrir að látbragðslistin er óhjákvæmileg, að sjálfið er hans eigin sköpun. Og takist hann ekki sjálfur á við það mun heimurinn hrifsa það úr höndum hans og negla á hann útjaskaða grímu hins viðtekna. Því slík gríma er alltaf vinsæl.20 Hins vegar eru „hinir ósviknu […] alltaf sjaldgæfir, einkum ósviknir leikarar“21 Það verkefni, að verða maður sjálfur er því fólgið í því að skapa grímur: „ að ljá sér stíl – göfug og sjaldgæf list“.22 Það kemur margoft fram í verkum Nietzsches að lykillinn að þessari lífslist er að lífsöfl einstaklingsins séu stælt til sköpunar. Sigrazt er á hvötum og ástríðum á þann hátt að þær þjóna lífinu án þess að dreginn sé úr þeim máttur eða þær geltar. Þessi göfgun lífsaflanna felur í sér leið til sjálfsumsköpunar. Þótt við séum að vissu marki þegar ákvörðuð „í okkar innsta kjarna, „dýpst“ í okkur“,23 erum við sjálfum okkur verkefni til að sigrast á. Það felur í sér að gangast við náttúru mannsins og endurheimta þá hreinskilni sem einkenndi höfðingjann. Hér er þó mikilvægur munur á. Höfðinginn tjáir hvatir sínar og eðlisávísun óheft á náttúrulegan hátt, en hin frjálsa tjáning ofurmennisins á hvötum sínum og ástríðum er í mynd göfgunar sem „beinir hugsunum manns og líkamsöflum í aðra farvegi“.24 Höfuðatriði er þó að einstaklingurinn öðlist styrk til að verða hann sjálfur: „Sumir menn hafa vilja, en flestir láta bara að vilja annarra. Sumir eru ósviknir, en flestir eru lélegir leikarar.“25 Sannur leikari lítur á líf sitt sem verkefni og reynir að lifa því eins og listaverki. Það verkefni er listrænn grímudans. Til að losna undan túlkunarfargi heimsins leitast hann við að vera „Doppelgänger“ sem hefur „annað andlit til viðbótar því fyrsta. Og kannski líka hið þriðja“.26 Í þessu er fólgin viðurkenning á nauðsynlegri margræðni mannlegrar tilvistar og fjölbreytileika sjálfsins. Maður getur engu frekar neglt sjálfan sig niður með hlutlægri túlkun en maður getur neglt niður heiminn eða aðra. Alvöruþrungi í túlkun felur bæði í sér veruleikafrystingu og sjálfsblekkingu. Á hinn bóginn hafnar Nietzsche ekki allri alvöru:

Manndómsþroski: það er að hafa fundið aftur alvöruna sem maður bjó yfir sem barn að leik.27

Kát alvara barnsins að leik er einlæg, heilshugar, og óyfirveguð sjálfstjáning. Hinn þroskaði maður er frábrugðinn barninu að því leyti að hann er meðvitaður um þá staðreynd að leikur er aðeins leikur, hreinskilin blekking. En um leið gerir hinn sanni leikari sér grein fyrir að líf hans er leikur vegna þess að einungis í leiknum kemur í ljós túlkun hans eða mat á lífinu. Þess vegna er vitneskjan um að maður sé ekkert annað en heild allra þeirra gríma sem maður setur upp, ástæða til að fara gætilega í vali sínu á grímum. Að þessu leyti er það að setja upp sanna grímu sambærilegt við list. Heil hegðun er ekki í því fólgin að hafa fangað einhvern tiltekinn lífsmáta; hún fylgir hvorki gefnum siðareglum né er markmið hennar fyrirfram skilgreint. Þetta gerir hana þó ekki algerlega undirselda geðþótta. Hún er ávallt meðvituð um þá staðreynd að gildi lífsins eru undir henni komin. Þess vegna verður grímudansinn léttstígur og glaðvær. Þegar lífið verður list forðumst við blekkinguna – því listin ein gengst við því að hún er uppgerð.

 

Tilvísanir

1. Grein þessi birtist í <i>Tímariti Máls og menningar</i> 58 (1997:3), bls. 51–59.

2. HGI 36. Lykil að tilvísunum í rit Nietzsches er að finna hér fyrir ofan.

3. USL, bls. 23.

4. USL, bls. 26.

5. USL, bls. 21–22.

6. HGI 230.

7. NF 1885–1887, 7 [54] (KSA 12).

8. HGI 4.

9. HGI 289.

10. GM III 24.

11. GM III 12.

12. HGI 17.

13. NF 1884–1885, 35 [9] (KSA 11).

14. USL, bls. 16.

15. NF 1887–1889, 11 [54] (KSA 13).

16. USL, bls. 21.

17. FW 4.

18. GT 10.

19. HGI 40.

20. FW 77.

21. ZA. 176.

22. FW 290.

23. HGI 231.

24. M 109.

25. ZA 176.

26. EH Af hverju ég er svona vitur 3.

27. HGI 94.

 

Lykill að tilvísunum

 

KSA: Friedrich Nietzsche, Sämtliche Werke. Kritische Studienausgabe in 15 Bänden. Ritstjórar Giorgio Colli og Mazzino Montinari. Berlin/New York: de Gruyter Verlag 1967-1977.

EH: Ecce Homo. KSA, 6. bindi.

FW: Die Fröhliche Wissenschaft. KSA, 3. bindi.

GM: Zur Genealogie der Moral. KSA, 5. bindi.

GT: Die Geburt der Tragödie. KSA, 1. bindi.

HGI: Handan góðs og ills. Arthúr Björgvin Bollason og Þröstur Ásmundsson þýddu. Hið íslenzka bókmenntafélag 1994.

M: Morgenröte. KSA, 3. bindi.

USL: „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“. Magnús D. Baldursson og Sigríður Þorgeirsdóttir þýddu, Skírnir (vorhefti 1993).

Z: Svo mælti Zaraþústra. Jón Árni Jónsson þýddi. Heimspekistofnun og Háskólaútgáfan 1996.

« Til baka

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen (1820–1896), bókmenntafræðingur, skáld og áhugamaður um heimspeki.

Fæddur að Bessastöðum 1820, sonur Þorgríms gullsmiðs Tómassonar og konu hans. Stúdent 1837 frá Árna Helgasyni, tók 1. og 2. lærdómspróf við Hafnarháskóla 1837-1838 og lagði síðan stund á heimspeki og bókmenntir. Skrifaði verðlaunaritgerð um franskan samtímaskáldskap („Om den nyfranske Poesi“, 1843) og varð mag. art. 1845 með ritgerð um Byron („Om Lord Byron“); titlinum var breytt í dr. phil. 1854. Ferðaðist nokkuð um Evrópu, varð 1848 ritari í danska utanríkisráðuneytinu og skrifstofustjóri þar frá 1859. Fékk 1866 lausn frá störfum með biðlaunum og eftirlaunum og hvarf aftur til Íslands, keypti Bessastaði og bjó þar frá 1868, var m.a. þingmaður og ritstjóri. Lést að Bessastöðum 1896.

Grímur var á yngri árum hallur undir heimspeki Hegels, en hneigðist síðar æ meir til fornra fræða. Í ritgerðinni „Rúm og tími“, sem birtist í Tímariti Hins íslenska Bókmenntafélags, 1885, reynir hann að leiðrétta Kant og Hegel með Aristótelesi.

Nokkur önnur rit: „Platon og Aristoteles. Tveir kapítular úr sögu heimspekinnar“,Tímarit Hins íslenska Bókmenntafélags, 18 (1897), 1–27; 19 (1898), 1–66.,Ljóðmæli 1880, Rvk, (Kh 1895, Rvk. 1906), Íslenzkar bókmenntir og heimsskoðun, Andrés Björnsson þýddi og gaf út, Reykjavík, 1975.

« Til baka

Guðmundur Bergþórsson

Guðmundur Bergþórsson (1657–1705), skáld.

Fæddur að Stöpum á Vatnsnesi, Húnavatnssýslu, veiktist illa í æsku og varð krypplingur, hálflamaður og lítt til verka fallinn. Lærði að lesa upp á eigin spýtur og hafði ofan af fyrir sér með barnakennslu og rímnakveðskap.

Helsta framlag hans til íslenskrar heimspeki er kvæðið Heimspekingaskóli sem hann orti að mestu leyti út frá íslenskri þýðingu á dönsku riti, Collegium Philosophorum eftir Hans Hanssøn Skonning, sem kom út 1636. Á fáeinum stöðum bætir Guðmundur þó við efnið einhverju frá sjálfum sér.

« Til baka

Guðmundur Finnbogason

Guðmundur Finnbogason (1873–1944) heimspekingur og prófessor við H.Í.

Fæddur 6. júní 1873 að Arnarstapa í Ljósavatnsskarði, Þingeyjarsýslu, sonur Finnboga Finnbogasonar og Guðrúnar Jónsdóttur. Stúdent 1896, lauk forprófi í heimspeki í Kh. 1897 og meistaraprófi í heimspeki (mag. art.) 1901. Undirbjó fræðslulöggjöf á Íslandi 1901–1905. Hlaut styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar 1908 og dvaldist aðallega í París. Doktorspróf í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla 1911 með ritgerð um samúðarskilning. Prófessor í hagnýtri sálarfræði við H.Í. 1918–1924, Landsbókavörður 1924–1943. Lést 1944.

Samkvæmt Guðmundi á heimspekin að veita útsýn yfir tilveruna og getur fjallað um hvað sem er út frá því sjónarhorni. Persónuleg tök og greining heimspekingingsins á viðfangsefninu er þá það sem mestu skiptir. Guðmundur ritaði ókjör af greinum og bókum. Í meginriti sínu, Hugur og heimur, fjallar hann um samúðarskilning milli manna út frá andstæðu umheims og hugarheims, vísinda og vitundar og leitast við að sýna hvernig sálarlíf manna birtist í látæði þeirra. Guðmundur þýddi fjölmargar greinar um heimspeki, m.a. eftir Henri Bergson og William James.

Helstu rit: Lýðmenntun (1903), Den sympatiske forstaaelse (1911), L’intelligence sympatique (1913), Hugur og heimur (1912), Frá sjónarheimi (1918), Huganir(1943).

« Til baka