Nietzsche og Dínamít

eftir Atla Harðarson

Þjóðleikhúsið sýnir um þessar mundir leikritið Dínamít eftir Birgi Sigurðsson. Það fjallar um ævi þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsche sem uppi var frá 1844 til 1900. Mér þótti þetta góð sýning og leikararnir hver öðrum betri. Þó má finna að því að síðasta atriðið fyrir hlé, þegar Nietzsche er að missa vitið, er helst til langdregið og mætti stytta það um helming.

Í upphafi sýningarinnar kynnast áhorfendur glaðhlakkalegum, hláturmildum eldhuga sem hefur lag á að orða glannalegar hugmyndir með eftirminnilegum hætti. Eftir hlé er hugsuðurinn hins vegar mállaus og að því er virðist meðvitundarlaus og lamaður meðan systir hans, Elísabet Förster-Nietzsche, misnotar rit hans og hugmyndir í þágu þýskrar þjóðernisstefnu. Hún á volduga vini, kúgar alla í kringum sig, breiðir út lygar um bróður sinn og hefur hann fyrir sýningargrip á Nietzsche safni sem hún hefur komið á fót í Weimar. Hitt fólkið sem þekkti Nietzsche og áhorfendur kynntust fyrir hlé reynir sumt að malda í móinn, en fær litlu áorkað. Þjóðernissinnar, sem hugsa eins og Elísabet, eru í sókn og þegar tjaldið fellur hafa Nazistar náð völdum í Þýskalandi. Þeir túlka skrif Nietzsche um ofurmennið sem lofsöng um þumba sem ryðjast áfram á harkmiklum hermannastígvélum og breyta minningunni um heimspekinginn glaðbeitta þannig að hún falli að hugmyndum þeirra um þýskan hetjuskap.

Með leikritinu leggur Birgir Sigurðsson áherslu á að skilningur þýskra þjóðernissinna á Nietzsche sé útúrsnúningur og það held ég að sé vissulega rétt hjá honum. Ofurmennið sem hann skrifaði um er miklu líkara Línu langsokk en Hitlersæskunni. Mér finnst Birgir þó ganga fulllangt í að hvítþvo Nietzsche. Þar sem heimspeki hans ber á góma er áherslan öll á fáeina þætti í margflókinni kenningasmíð. Mest ber á andófi Nietzsche gegn þrúgandi trúarkreddum sem blanda hverja jarðneska gleði seyrnum keimi. Birgir tínir upp setningar úr verkum hans sem snúast um að gjalda jákvæði við jarðlífinu, þroska hæfileikann til að gleðjast yfir því sem er hér og nú og sigrast á gildismati og siðadómum sem hindra að menn fái notið sín hver á sinn hátt.

Af leikritinu mætti ráða að kenningar Nietzsche snúist einkum um skilaboð af svipuðu tagi og finna má í kvæðum Stephans G. Stephanssonar. Þetta er fullmikil einföldun. Boðskapurinn sem Birgir leggur áherslu á er aðeins hluti af því sem Nietzsche hafði til málanna að leggja. Hann ritaði sínar frægustu bækur á níunda áratug nítjándu aldar. Í þessum bókum fer hann ekki aðeins hamförum gegn trúarlegum naglaskap og siðavandri meinfýsi. Hann lætur einnig gamminn geisa móti lýðræði, skynsemishyggju og hugsjónum upplýsingarinnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag allra manna. Nietzsche var afburða penni. Bækur hans hafa í meira en hundrað ár heillað menn og dáleitt. Í þeim ægir saman fræðilegum kenningum um siðferði og gildismat, skarpri gagnrýni á sjálfsblekkingu og hleypidóma og glannalegum stjórnmálaskoðunum sem eru einhvers konar blanda af hetjudýrkun og hugmyndum um að forréttindi til handa afburðamönnum skapi vaxtarskilyrði fyrir æðri menningu.

Tengsl Nietzsche við pólitíska ógæfu Þýskalands eru miklu flóknari en leikrit Birgis gefur til kynna. Nietzsche var vissulega ekkert sérstaklega illa við Gyðinga og hann fyrirleit þýska þjóðernisstefnu. En um sum önnur efni fóru skoðanir hans saman við hugmyndir Nazista því líkt og þeir var hann andvígur hvers konar kenningum um jafnrétti og bræðralag allra manna. Hann hafnaði því líka að til sé neitt eitt siðferði fyrir allt fólk og daðraði við boðskap sem auðvelt var að nota í þágu öfgafullrar þjóðernisstefnu. Í vinsælasta riti sínu Svo mælti Zaraþústra segir hann til dæmis:

Engin þjóð getur lifað án gildismats; en eigi hún að þrífast, má hún ekki halda í heiðri sömu gildi og nágrannar hennar. (Bls 80)

Héðan er stutt í þá firru að aðrar þjóðir hafi annað siðferði en við, þær viðurkenni ekki það sem við teljum vera rétt og því þurfum við ekki að meðhöndla þær í samræmi við það réttlæti sem gildir í samskiptum okkar á milli.

Eitt af höfuðskáldum Þjóðverja á 20. öld, Thomas Mann (1875-1955), gerir upp við Nietzsche í skáldsögu sinni Doktor Fástus sem út kom árið 1947. Þótt hann sé ekki nefndur í sögunni er ævisaga Nietzsche svo sláandi lík ævi söguhetjunnar, tónskáldsins Adríans Leverkühn, að lesandinn hlýtur að skoða þennan ímyndaða listamann sem hliðstæðu heimspekingsins. En ævisagan er líka spegilmynd af sögu Þýskalands á fyrri hluta 20. aldar og segir frá siðferðilegri upplausn sem endaði með hörmungum seinni heimstyrjaldarinnar. Í sögulok er Adrían Leverkühn ósjálfbjarga skar og sturlaður af völdum sárasóttar líkt og Nietzsche var síðasta áratuginn sem hann lifði og þá er Þýskaland líka lamað og ósjálfbjarga. Líkt og Nietzsche og Leverkühn féll Þýskaland saman eftir að hafa hamast gegn hefðbundnu siðferði og gildismati: Nietzche með heimspeki sem boðaði umturnun allra gilda; Leverkühn með hinni djöfullegu Opinberunaróratóríu; Þýskaland með hervirkjum sem áttu engan sinn líka.

Í sögu Thomasar Mann birtist þessi siðferðilega upplausn meðal annars í samræðum menntamanna. Til dæmis þar sem þeir ræða um „að útrýma hinum sjúku í stórum stíl, einfaldlega drepa þá, sem vanfærir væru um að lifa eða geðveikir og … snúa bakinu í alla þessa mannúðarbleyðimennsku, sem væri leifar hins borgaralega tímaskeiðs.“ (Bls. 462-463). Nokkru síðar (bls. 466) segir sögumaður frá því að Adrían Leverkühn semji tónverk „í furðulegu samræmi – næstum nákvæmlega sama anda“ og þessar samræður. Thomas Mann hefði ekki látið sömu sögupersónu vera í senn spegilmynd Nietzsche og Nazismans nema hann hafi álitið einhvern skyldleika með heimspeki Nietzsche og hugmyndafræði Þriðja ríkisins.

Um þessar mundir er Nietzsche í tísku hjá menningarvitum og bókmenntaspekúlöntum. Hjá sumu af þessu fólki gætir tilhneigingar til að draga sakleysislegri mynd af honum en Thomas Mann og aðrir sem fjölluðu um verk hans á fyrri hluta 20. aldar. Þessi viðleitni til að gera Nietzsche húsum hæfan birtist með skýrum hætti í leikriti Birgis Sigurðssonar. (Davíð Kristinsson gerir viðleitni af þessu tagi ágæt skil í grein sinni „Íslenskur Nietzsche við aldamót.“ Þar andæfir hann tilraunum nútímamanna til að gera Nietzsche meinlausan og sýnir fram á að flestir sem stóðu honum nær í tíma skildu hugsun hans sem ógn, heillandi og hættulega.)

Nietzsche ætlaði sér að vera ógnvekjandi og aðdáendur hans á fyrri hluta 20. aldar voru uppreisnarmenn sem vildu dansa á gröf kristindóms, jafnaðarstefnu og borgaralegs lýðræðis. Meðal þeirra áhrifamestu má telja bandaríska blaðamanninn H. L. Mencken (1880-1956) sem skrifaði bókina The Philosophy of Friedrich Nietzsce. Sú bók kom út árið 1908 og kynnti heimspeki Nietzsche fyrst bóka fyrir enskumælandi lesendum. Mencken var einlægur aðdáandi þýska spekingsins og taldi sig túlka viðhorf hans til lágstéttar og lítilsigldra manna. Hann á ekki nógu sterk orð til að lýsa vanþóknun sinni á samfélagi sem „nærir illa gefin afkvæmi lágstéttarinnar þar til þau líta næstum út eins og heilbrigðar manneskjur og sleppir þeim svo lausum til að æxlast og geta af sér fleiri sína líka.“ (Bls. 166) Mencken leit á Nietzsce sem bandamann í andstöðu við kristilega tilfinningasemi, samhjálp og hugmyndir um að allir menn séu jafningjar og eigi að hjálpa hver öðrum. Ekki mikil samúð með lítilmagnanum þar og hætt við að flestum sem snobba fyrir Nietzsche nú á dögum þyki þessi hugmyndablanda beisk í munni ef þeir reyna að sulla henni í sig óþynntri. En í byrjun 20. aldar skildu flestir Nietzsche á svipaðan hátt og Mencken og sá skilningur studdist meira við texta heimspekingsins sjálfs en falsanir Elísabetar.

Nietzsche fyrirleit viðleitni til að skapa betri lífskjör fyrir alþýðu manna og þóttist geta gefið umbótamönnum undir lok 19. aldar langt nef. Í bók sinni, Handan góðs og ills, sem út kom árið 1886 segir hann:

[M]álglaðir og pennaliprir þrælar hins lýðræðislega smekks og þeirra „nútímalegu hugmynda“ sem honum fylgja. Allt eru þetta manneskjur lausar við einmanaleika, lausar við eigin einmanaleika, kjánalegir og meinlausir náungar sem skortir hvorki hugrekki né virðingarverða viðkvæmni. … Það sem þeir vilja berjast fyrir af öllum lífs- og sálar kröftum er hin almenna græna bithagasæla hjarðarinnar, með öruggu, hættulausu, þægilegu og léttara lífi fyrir hvern og einn. Þeir söngvar og kenningar sem þeir kyrja án afláts heita „jöfnuður“ og „samúð með öllu sem þjáist“ — og þjáningin sjálf er í þeirra augum eitthvað sem verður að uppræta. (Gr. 44)

Þrem árum seinna þegar Nietzsche ritaði Götzen-Dämmerung fjallaði hann með augljósri velþóknun um indverska stéttakerfið sem hann áleit vera siðferði aríanna.

Lítum á aðra hlið þessa sem kallað er siðferði, ræktun tiltekinna kynþátta og tegunda. Stórkostlegasta dæmið um þetta er að finna í indverskri siðfræði sem er helguð og gerð að trúarbrögðum í „Lögmáli Manu“. Verkefnið sem þar liggur fyrir er að rækta samtímis fjóra kynþætti: klerka; hermenn; verslunarmenn og bændur; og að síðustu verkamenn eða sudra. … Maður andar léttar þegar komið er úr pestarbæli kristindómsins og því kjallaralofti sem þar er og stígur inn í þessa heilbrigðu veröld þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja. Hvað Nýja Testamentið er illa lyktandi og hve lágkúrulegt það er í samanburði við Manu. En þetta skipulag varð líka að vera hræðilegt … (Gr. 3 í kaflanum Die „Verbesserer“ der Menschheit.)

Svo lýsir Nietzsche því sem var hræðilegt í Manu, hvernig indverskt siðferði varði sig (eða varði hinar fjórar ræktuðu stéttir) gegn þeim óræktuðu, stéttleysingjunum. Hann lýsir hlutskipti þeirra á þessa leið.

Eina næringin sem þeim er heimil eru laukar því helgar ritningar banna að þeim sé gefið korn eða fræberandi aldin eða vatn eða eldur. Sömu reglur mæla fyrir um að þeir skuli ekki fá vatn úr læk, á, lind eða tjörn heldur einungis það sem rennur í forarvilpur eða safnast í fótspor dýra. Einnig skal þeim bannað að laugast og þvo klæði sín því vatnið sem þeim er af miskunn gefið skal aðeins slökkva þorsta þeirra. Að síðustu skal konum af kynþætti sudra eigi heimilt að aðstoða stéttlausar konur í barnsnauð né heldur skal konum stéttleysingja heimilt að hjálpa hver annarri. … Manu sjálfur segir: „Stéttleysingjarnir eru ávextir glæpa, hórdóms og sifjaspella … þeir skulu klæðast tötrum dauðra manna, matast úr brotnum kerum og skrautmunir þeirra skulu vera gamalt járn. Til tilbeiðslu hafi þeir illa anda og þeir skulu ráfa stað úr stað án hvíldar.“

Í framhaldi af þessu segir Nietzsche að í þessum reglum finnum við „hreina og upprunalega mennsku aríanna.“ („die arische Humanität, ganz rein, ganz ursprünglich“ Gr. 4) Svo lýsir hann kristni sem uppreisn stéttleysingjanna gegn þessu hreina og upprunalega siðferði. Hann mælir ekki beinlínis með að indverska stéttaskiptingin sé tekin upp í Evrópu og segir raunar að fátt veki meiri vanþóknun meðal vor. En hann lætur samt að því liggja að af tvennu illu sé þessi aríska ójafnaðarstefna æðri og betri en jafnaðarstefna Nýja Testamentisins. Ég held að hvorki hafi þurft verulega útúrsnúninga né neina forpokaða Elísabet til að þessar hugmyndir yrðu verkfæri í höndum þeirra sem grófu undan mannúðlegum samfélagsháttum eins og gert var í Þýskalandi á fyrri helmingi 20. aldar.

Rit

Davíð Kristinsson. 2004. „Íslenskur Nietzsche við aldamót“. Hugur 15. árg. bls. 84-149.

Mann, Thomas. 2000. Doktor Fástus (Þorsteinn Thorarensen íslenskaði). Fjölvi, Reykjavík.

Menken, H. L. 2003. The Philosopy of Friedrich Nietzsche, See Sharp Press, Tucson, Arizona. (Fyrst gefin út árið 1908.)

Nietzsche, Friedrich. Rit sem liggja frammi á http://www.gutenberg.org/

Nietzsche, Friedrich. 1994. Handan góðs og ills (Þröstur Ásmundsson og Arthúr Björgvin Bollason íslenskuðu). Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Nietzsche, Friedrich. 1996. Svo mælti Zaraþústra (Jón Árni Jónsson íslenskaði). Heimspekistofnun – Háskólaútgáfan, Reykjavík.

« Til baka

Related Entries