Færslusöfn

Fornfræðileg skólaspeki

Hugleiðing um mikilvægi heimspekisögu

eftir Jakob Guðmund Rúnarsson

I: Atvinnusjúkdómar

Einu sinni sem oftar þurfti Þorsteinn Gylfason að verja gildi heimspekinnar í samræðum við samtímamenn sína. Í gamansömum tón vék Þorsteinn að þeirri fullyrðingu að orðhengilsháttur væri þekktur atvinnusjúkdómur meðal heimspekinga. Það stóðst engan veginn nánari skoðun að mati Þorsteins. Orðhengilsháttur væri, þvert á móti, aðalatvinna heimspekinga. Þó svo að um góðlátlegt grín hafi verið að ræða þá fylgir öllu gamni nokkur alvara.

Á sínum tíma veitti ástralski heimspekingurinn John Passmore þessari sömu tilhneigingu athygli. Passmore hélt því fram að skólaspekileg skilgreiningarárátta væri einkennandi fyrir suma heimspekinga, þar sem skilgreiningafarganið felur, ruglar og afvegaleiðir frekar en að afhjúpa eða dýpka skilning okkar á viðfangsefninu. Þetta leiðir til þess ástands sem hefð er fyrir að kenna við moldviðri.1 En Passmore veitti því einnig athygli að svipuð meinsemd gerði vart um sig meðal sagnfræðinga. Þeim bresti væri hinsvegar best lýst sem „fornfræðingshætti.“ Líkt og „skóla­spekingum“ hættir til að setja fram skilgreiningar þeirra sjálfra vegna, skemmtir „forn­fræðingurinn“ sér við að tína saman athyglisverðar eða sérkennilegar frásagnir þeirra sjálfra vegna. Frásagnir „fornfræðinganna“ eru því undir sömu sök seldar og heimspeki „skóla­spekinganna.“ Í stað afhjúpandi rannsóknar eða umbreytandi skilnings á viðfangsefninu er afraksturinn safn sjálfhverfra athugasemda.2

II: Samband heimspekinnar við sögu sína

Maður gæti því auðveldlega haldið að fræðilegt heilbrigði þeirra sem fást við sögu heimspekinnar sé frekar brothætt og hættan á svæsnum tilfellum „fornfræðilegrar skólaspeki“ mikil. En ég leyfi mér að halda því fram að það sé öðru nær. Eins og sannast svo ágætlega á Passmore sjálfum sem fléttaði listilega saman heimspeki og rannsóknum á sögu heimspekinnar. Það sama mætti líka segja um mörg bestu verk Þorsteins Gylfasonar. Mikil áhersla er lögð á sögu heimspekinnar við kennslu hennar í háskólum og eitt höfuðeinkenni góðs heimspekings er staðgóð þekking á sögu fræðigreinarinnar. Margir helstu heimspekingar hinnar vestrænu hefðar eru ekki einungis kunnugir sögu heimspekinnar heldur er heimspekisagan snar þáttur af heimspeki þeirra, hvort heldur sem þau sækja til, styðjast við eða takast á við hana. Nægir þar að nefna Richard Rorty, Hannah Aarendt, Paul Ricoeur, Karl Popper og Hegel.

En jafnframt þessu hefur verið löng og sterk hefð meðal vestrænna heimspekinga að reyna að halda heimspekinni rækilega aðskilinni frá sögu sinni. Ekki svo að skilja að sögu heimspekinnar sé hafnað sem fræðilegu viðfangsefni. Hún er einfaldlega álitin vera algjörlega aðgreind fræðigrein sem komi heimspeki samtímans ekkert sérstaklega við. Ekkert frekar en saga samgangna í Rómaveldi komi geimförum NASA við.

Páli Skúlasyni sýndist það vera orðið ráðandi sjónarmið meðal heimspekinga að heimspeki væri „ósöguleg fræðigrein“ og að „hún horfi fram hjá allri sögu og smíði kenningar sem hafi enga tímalega vídd“ og snúist fyrst og fremst um að „ skýra rökleg tengsl ekki söguleg.“3 Þetta viðhorf leiðir til þess að heimspekingar reyna að takast á við „eilífðar vandamál“ eða hinar klassísku spurningar heimspekinnar með því að skapa hugtaka- og kenningakerfi til að takast á við veruleikann. Sem dæmi má nefna, aðleiðslu-vandann, vandann um aðra hugi, mælikvarða-vandann o.s.frv. En það er til annað og andstætt viðhorf:

„Hins vegar höfum við svo það sjónarmið að heimspeki sé eða eigi að vera söguleg fræðigrein, kenningar hennar eigi að hafa tímanlega vídd, sýna röklega mótun hugmynda og skoðana gegnum tíðina og hvernig rökvísi mannsandans hefur þroskast, þekkingin aukist. Veruleikinn sem slík heimspeki vill hugsa er verðandi, hann er breytilegur og dýnamískur. […] Slík heimspeki miðar að því að gera reynslu manna skiljanlega, e.t.v. ekki endanlega heldur við tilteknar sögulegar aðstæður. Samkvæmt þessu sjónarmiði eru viðfangsefni heimspekinnar ekki nein eilífðarvandamál, heldur miklu fremur spurning um skilning, merkingu og tilgang sem sífellt tekur á sig nýjar myndir.“4

Þá ríkjandi tilhneigingu heimspekinnar að vilja hafna fortíð sinni og treysta einungis á kraft skynseminnar, og þá skynsemi hins sjálfstæða hugsandi einstaklings, má rekja allt til upphafs nútíma heimspeki, t.a.m. verka Descartes.5 Kant sömuleiðis brýndi samtíð sína með orðum Hórasar sapere aude til að varpa af sér klafa kennivalds og stöðnunar í nafni upplýsingar. Hin engilsaxneska rökgreiningarheimspeki 20. aldarinnar, sérstaklega á fyrrihluta aldarinnar, fylgdi þessari hefð og lagði litla áherslu á sögu heimspekinnar og sögulega greiningu þeirra vandamála sem heimspekingar fengust við.6 Það er m.ö.o. sterk hefð innan vestrænnar heim­speki að gera hinn íhugandi einstakling að „sjálfberandi“ miðpunkti allrar heimspeki.7 Hinn íhugandi einstakling sem er einangraður frá sögulegum veruleika sínum, og þar með að mikil­vægu leyti frá samtíma sínum.

III: Upplýsingargoðsögnin og sögulegt eðli huglægra fyrirbæra

Kanadíski heimspekingurinn Charles Taylor vakti máls á þeirri undarlegu staðreynd að svo virðist sem krafan um að heimspekin hafni fortíð sinni og taki upp algjörlega nútímalegan hugsunarhátt komi reglulega fram. Sem dæmi má nefna rökfræðilega raunhyggju á öndverðri 20. öld. Þessa tilhneigingu nefndi Taylor „upplýsingargoðsögnina.“ Við þau skilyrði er sögu heimspekinnar kannski ekki hafnað algjörlega en hin „tímalega vídd,“ sem Páll Skúlason talaði um, grynnkar og afbakast. Söguleg tengsl eru sniðgengin og rökleg tengsl lesin inn í framandi umhverfi. Slík nálgun getur ekki alið af sér neitt nema sögulegar rangfærslur og heimspekilega einfeldni.8 Svo virðist sem „upplýsingargoðsögnin“ sé skilgetið afkvæmi þeirrar áherslu sem heimspekingar hafa viljað leggja á mátt hreinnar skynsemi hins sjálfstæða og óskilyrta huga.

Nýlega hefur bandaríski hugmyndasagnfræðingurinn Donald Kelley bent á grundvallarmun sem honum virðist hafa einkennt skilning heimspekinga annarsvegar og sagnfræðinga hinsvegar, á eðli „hugmynda“ í gegnum söguna. Heimspekingum hættir til að einblína á hugmyndir sem „hrein“ huglæg fyrirbæri án nokkrar skírskotunar til félagslegar, eða sögulegrar víddar. Þær eru tjáðar og miðlaðar á formlegan hátt sem hluti af röksemdarfærslu höfunda sinna, annað hvort í ræðu eða riti. Sagnfræðingar hinsvegar takast á við hugmyndir fyrst og fremst sem félagsleg og söguleg fyrirbæri sem segja meira um ytri veruleika en hugarheim höfundarins. Þær eru afurðir flókinna ferla og samspils höfundar við umhverfi sitt, í eiginlegum og óeiginlegum skilningi.9 Sagnfræðingur túlkar oftast hugmyndir sem afsprengi félagslegra og sögulegra þátta en heimspekingum hættir til að einblína á röklega eiginleika þeirra. Þetta eru vissulega nokkuð groddalegar einfaldanir; það má spyrja sig hvort málspekingar í anda hins síðari Wittgensteins eða fyrirbærafræðingar í anda Ricoeurs gætu samsamað sig þessari lýsingu Kelleys á heimspekingum. En líkt og með „fornfræðinganna“ og „skólaspekingana“ í dæmi Passmores þá virðist vera eitthvert sannleikskorn fólgið í þessari greiningu.

Ef við samþykkjum að heimspekingum sé hætt við sögulegum einfeldningshætti, sem getur haft neikvæð áhrif á gildi heimspeki þeirra og rannsókna, hver er þá lausnin? Er nóg að fara fram á aukið „sagnfræðilegt næmi“ heimspekinga? Hvað myndi það þýða?

IV: Göngugrind, spegill og starf

Saga heimspekinnar verður að snúast um eitthvað meira en innantóma naflaskoðun heimspekinga á viðurkenndum stórvirkjum heimspekisögunnar. Þó svo að heimspekingar verði að geta tileinkað sér sagnfræðilega ögun er hin „fornfræðilega“ hætta sífellt nálægt. Allir geta tekið undir að heimspeki megi ekki snúast um daufdumban utanbókarlærdóm. Það sama gildir um rannsóknir á sögu heimspekinnar. Hún má ekki snúast um skeyta skoðunum eða rökum úr verkum genginna heimspekinga ógagnrýnið inní rökræður samtímans. Við getum ekki ætlast til þess að fortíðin hafi að geyma tilbúnar lausnir við þeim vandamálum sem við glímum við í dag. Við verðum að hafa meira fyrir hlutunum.

Ef við berum virðingu fyrir mikilvægi heimspekinnar sem hluta af menningu okkar, þá verðum við að þekkja það sögulega samhengi sem hefur skapað, mótað og skilyrt heimspekina og starf heimspekingsins. Og heldur áfram að skapa, móta og skilyrða starf heimspekingsins og hugmyndir okkar um heimspeki. Með því að takast á við sögu heimspekinnar öðlumst við skilning á heimspekinni og hvers vegna við leggjum rækt við hana. En þar með er ekki sagt að heimspekisagan sé einhverskonar göngugrind fyrir heimspekinga til að styðja sig við í amstri sínu; eða spegill til sjá dást að ímynd sinni í.

Sagan sýnir að það er hægt að stunda heimspeki (eða í það minnsta að skrifa heimspekileg verk) án vísana til heimspekisögunnar eða hinnar sögulegu víddar almennt (svo má deila um gildi slíkrar heimspeki). En rannsóknir á sögu heimspekinnar fela nauðsynlega í sér heim­spekilegt starf og niðurstöður slíkra rannsókna snúast ekki einvörðungu um sögulegan veruleika heldur líka, og jafnvel fyrst og fremst, um heimspeki.10

En nákvæmlega með hvaða hætti, eða með hvernig aðferð, við ættum að leggja stund á sögu heimspekinnar er svo allt önnur spurning sem verður ekki svarað hér.

Tilvísanir

1. Sjá Guðmund Finnbogason, „Trúin á moldviðrið,“ birtist í: Huganir. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, 1943, bls. 59-69.

2. John Passmore, „The Idea of a History of Philosophy“, birtist í: History and Theory, 5. árg., 5. Beiheft: The Historiography of the History of Philosophy. 1965, bls. 1-32. Sérstaklega bls. 31.

3. Páll Skúlason, „Hugleiðingar um heimspeki og frásagnir“, birtist í: Skírnir, 157. Ár, 1983, bls. 5-28. Hér bls. 17.

4. Páll Skúlason, „Hugleiðingar um heimspeki og frásagnir“, bls. 18.

5. Mikilvægi þess að sýna hugmyndafræðilegt og heimspekilegt sjálfstæði má rekja allt aftur til Platons, og kemur einnig fram í heimspeki Ágústínusar á miðöldum og í hinni húmanísku hefð nýaldar.

6. Um samband rökgreiningarheimspeki við heimspekisögu, sjá safnritið Analytical Philosophy and History of Philosophy, ritstj. Tom Sorell og G.A.J. Rogers, Clarendon Press, Oxford-UK, 2005.

7. Um hinn „íhugandi einstakling“ sjá grein Ólafs Páls Jónssonar, „Gagnrýnar manneskjur,“ birtist í: Hugur, 20. árg, 2008, bls. 98-112.

8. Taylor, „Philosophy and its history“, birtist í: Ideas in Context: Philosophy in History. Essays on the historiography of philosophy. Ritstj. Richard Rorty, J.B. Schneewind og Quentin Skinner. Cambridge University Press, Cambridge, 1984. Bls. 17-30. Hér bls. 17.

9. Donald Kelley, The Descent of Ideas: The History of Intellectual History. Ashgate Publishing Limited, Aldershot, 2002. Hér bls. 106.

10. Sjá grein Svavars Hrafns Svavarssonar, „Saga og samtíð heimspekinnar“, birtist í: Ritið 7. árg., 2-3. tbl. 2007, bls. 197-215. Sérstaklega bls. 208, þar sem Svavar brýnir fyrir lesendum sínum að tilgangur heimspekisögu sé einmitt að stunda heimspeki. Þeim sem hafa hug á að kynna sér samband heimspeki og heimspekisögu nánar er eindregið bent á grein Svavars.