Færslusöfn

David Hume

David Hume (1711–1776) er jafnan talinn með merkustu og áhrifamestu heimspekingum síðari alda. Einkum er hann kunnur fyrir þekkingarfræði sína, trúarheimspeki og siðfræði. Í þessum greinum heimspekinnar setti hann fram kenningar sem gengu þvert á þær skoðanir sem viðteknar voru á hans tíma. Hann færði meðal annars rök fyrir því að mannlegum skilningi væri þrengri skorður settar en flestir vildu vera láta, að um guðfræðileg efni væri nánast ekkert hægt að vita og obbinn af allri guðfræði væri hártoganir og hindurvitni. Auk þess reyndi hann að leggja grundvöll að veraldlegri siðfræði og sýna fram á að siðferði helgist af mannlegu eðli og þörfum samfélagsins, en komi trúarbrögðum ekkert við. Jafnframt reyndi Hume að grundvalla vísindalegri skilning á mannlífinu en tíðkast hafði. Hann er því einn af frumkvöðlum félagsvísindanna og geta þeir sem huga vilja að undirstöðum þeirra margt lært af að lesa bækur Humes.

Tvö af stærri verkum Humes hafa verið gefin út á íslensku hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi:

Um Rannsókn á skilningsgáfunni eftir David Hume

Um Samræður um trúarbrögðin eftir David Hume

Atli Harðarson:
David Hume og gagnrýni hans á trúarbrögðin
Greinin birtist upphaflega í Ganglera, vorhefti 1989, en birtist hér á Heimspekivefnum í nokkuð breyttri og endurbættri mynd af hálfu höfundar.

David Hume:
Útdráttur Humes úr Ritgerð um manneðlið
Þýðing Gunnars Ragnarssonar, frumbirt á Heimspekivefnum.

« Til baka

David Hume og gagnrýni hans á trúarbrögðin

eftir Atla Harðarson

David Hume og gagnrýni hans á trúarbrögðin

David Hume fæddist í Edinborg árið 1711. Hann var af virðulegri ætt og fjölskylda hans ætlaði honum að leggja stund á lögfræði og ganga í hóp betri borgara. En Hume var áhugalaus um flest það sem betri borgarar sækjast eftir. Ef marka má sjálfsævisögu hans hafði hann ekki áhuga á neinu öðru en heimspeki.1 Hann brást því öllum vonum frænda sinna, hirti hvorki um fé né mannaforráð, heldur gerði sér að góðu rýrar tekjur og takmarkaða virðingu og gaf sig óskiptur að heimspeki mestalla æfi.

Sú heimspeki sem Hume fékkst við spannaði nokkuð vítt svið því á 18. öld var ekki gerður greinarmunur á heimspeki og félagsvísindum og Hume fékkst jöfnum höndum við hvort tveggja og auk þess sem hann er jafnan talinn með merkustu heimspekingum síðari alda þá vann hann brautryðjendaverk á sviði sagnfræði og mannvísinda.

Framan af vöktu kenningar hans ekki mikla athygli, en eftir því sem menn kynntust þeim varð nafn Humes þekkt, því rit hans vöktu hvarvetna hneykslun og gremju. Ekki var nóg með að hann rifi niður þá heimspeki sem breskir menntamenn höfðu í mestum hávegum á 18. öld heldur veittist hann líka að viðtekinni söguskoðun Frjálslynda flokksins, sem fór með öll völd á Bretlandi um hans daga og greiddi kristinni trú og guðfræði þyngri högg og hnitmiðaðri en hún hafði áður mátt þola.2

Hume var þó enginn æsingamaður. Hann var, eftir því sem næst verður komist ímynd hins yfirvegaða fræðimanns og fátt fékk haggað heimspekilegri ró hans. Hann tilheyrði þeim hópi menntamanna í Edinborg sem oft eru kenndir við skosku upplýsinguna. Í þessum hópi voru meðal annarra hagfræðingurinn Adam Smith (1723–90) og siðfræðingurinn Francis Hutcheson (1694–1746). Hume hafði auk þess sambönd við franska heimspekinga og menntamenn og leiða má rök að því að hann hafi orðið fyrir töluverðum áhrifum af þeim. Meðal þessara frönsku vina hans má nefna Montesquieu (1689–1755) og Rousseau (1712–78). Hume var því í flokki þeirra 18. aldar manna sem horfðu hvað lengst fram á veginn og skildu margt sem þeirra eigin öld var ekki reiðubúin til að meðtaka. Honum tókst þó að lifa af sölu bóka sinna og þegar hann lést, árið 1776, var hann orðinn vel þekktur og sæmilega stæður.

Áhrif Humes á seinni tíma heimspeki eru meiri en svo að þeim verði gerð skil í stuttu máli. Meðal þeirra sem sótt hafa innblástur til hans má frægastan telja Þjóðverjann Immanúel Kant (1724–1804) sem fór fyrst að fást við heimspeki fyrir alvöru þegar hann kynntist ritum Humes. Einnig má nefna Englendinginn Bertrand Russell (1872–1970), sem er jafnan talinn einn af merkustu heimspekingum þessarar aldar. Ótal aðra má tína til sem hafa orðið fyrir áhrifum af Hume og óhætt er að fullyrða að áhrif hans hafi farið vaxandi alla tíð síðan rit hans komu út fyrir meira en 200 árum. Þessara áhrifa gætir ekki aðeins í heimspeki heldur líka í félagsvísindum og guðfræði.

Náttúruleg trú og opinberuð trú

Nú á tímum þykir það ekki tíðindum sæta þó heimspekingur efist um kenningar kirkjunnar eða hafni jafnvel öllum trúarkenningum. En á dögum Humes var guðlast tekið alvarlega og þeir menn sem ekki játuðu neina trú tæpast taldir með öllum mjalla. Að vísu höfðu heimspekingar eins og Pierre Bayle (1647–1706) í Frakklandi og Matthew Tindal (1657–1733) og John Toland (1670–1722) á Englandi og fleiri andæft kenningum kristinnar kirkju. Um daga Humes var líka uppi nokkur hópur franskra heimspekinga sem hélt fram algeru guðleysi. Í þessum hópi má frægasta telja þá Denis Diderot (1713–84) og Paul-Henri Holbach (1723–89). En eftir því sem ég best veit hefur enginn heimspekingur fyrr eða síðar fært jafn sterk rök gegn hvers kyns trúar- og guðfræðikenningum og Hume gerði. Hann veittist ekki aðeins að einstökum kenningum kirkjunnar heldur að öllum tilraunum til að styðja trúarbrögð skynsamlegum rökum.

Þessi gagnrýni á trúarbrögðin var ekki hættulaus. Hume var engan veginn óhætt að segja hug sinn allan heldur varð hann stundum að tala undir rós og látast gefa sljórri rökum sigur til þess að forðast ofsóknir. Af þessum sökum þarf stundum að lesa milli línanna til þess að skilja hvað Hume meinar og oft er vafamál hvernig réttast er að túlka rökfærslur hans.

Til þess að við áttum okkur á því hversu stórhöggur Hume var í árásum sínum skulum við rifja upp helstu rökin sem færð hafa verið fyrir guðstrú. Þessum rökum má gróflega skipta í tvennt, heimspekileg rök og söguleg rök. Í samræmi við þessa tvískiptingu hefur guðfræðin (að minnsta kosti kristin og íslömsk guðfræði) lengst af verið tvískipt í náttúrulega guðfræði, sem fæst við hin heimspekilegu rök trúarbragðanna, og opinberaða guðfræði, sem fæst við hin sögulegu rök þeirra.

Auk þessa hafa oft verið færð siðferðileg rök fyrir ágæti trúarinnar. Rökum af þessu tagi er yfirleitt ekki ætlað að sanna neinar trúarkenningar heldur sýna fram á að trúin hafi góð áhrif á fólk.

Heimspekilegu rökin eru einkum ýmiss konar tilraunir til þess að sanna eða rökstyðja að guð sé til og hafi þessa eða hina eiginleika, sé t.d. almáttugur, algóður og alvitur. Þessar tilraunir til að sanna tilveru guðs eiga sér langa sögu allt aftur til grískra heimspekinga. Til dæmis reyndi Grikkinn Aristóteles (384–322 f.Kr.) að sanna tilveru frumhreyfils, eða aflvaka heimsins, í 12. bók Frumspekisinnar. Þessi frumhreyfill átti samkvæmt Aristótelesi að vera óefniskennd skynsemi sem laðar fram alla heimsrásina. Tilraunir kristinna heimspekinga, til að mynda Tómasar frá Akvínó (um 1225–74), til að sanna tilveru guðs draga margar dám af rökum Aristótelesar.

Þótt margir hugsuðir hafi fengist við að sanna tilveru einhvers konar guðs þá átu flestir hver eftir öðrum og skipta má nær öllum þessum „sönnunum“ í þrjá flokka. Í fyrsta lagi eru rök sem leidd eru af þeirri forsendu að regla eða skynsamlegt skipulag sé á heiminum. Af þessu er svo ályktað að heimurinn hljóti að vera verk einhverrar vitsmunaveru og þessi vitsmunavera hljóti að vera bæði vitur, máttug og góðfús. Þessi rök eru yfirleitt nefnd „skipulagsrökin“. Á dögum Humes var það almennt haft fyrir satt að þessi rök væru fullgild og sönnuðu tilveru guðs svo ekki yrði um villst. Skipulagsrökin hafa jafnan notið meiri vinsælda en önnur rök fyrir tilveru guðs, enda eru þau bæði einföld og sennileg. Alþýðleg útgáfa þeirra gæti verið á þessa leið:

Skoðum einhvern líkamshluta, til dæmis augun. Eru þau ekki greinilega hönnuð til að þjóna ákveðnu hlutverki og hlýtur slík hönnun ekki að vera verk einhverrar vitsmunaveru? Ef við sjáum smíðisgrip eins og klukku þá efumst við ekki um að hann sé búinn til af vitsmunaveru. Er ekki enn ótrúlegra að önnur eins völundarsmíð og líffæri og líkamshlutar lifandi dýra verði til fyrir samspil efniskrafta án þess vit og vilji komi þar nokkurs staðar nærri?

Í öðru lagi eru rök sem byggja á þeirri forsendu að ekkert geti verið til að ástæðulausu. Til eru ýmis tilbrigði við þessi rök en flest snúast þau um að sýna fram á að eina mögulega ástæðan fyrir tilveru heimsins sé guð. Dæmigerð útfærsla þeirra gæti verið á þessa leið: Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að ég er til. Auðvitað er orsakar þess að leita hjá foreldrum mínum, en þeir eru ekki fullnægjandi skýring á tilveru minni því það á eftir að útskýra hvers vegna foreldrar mínir urðu til og foreldrar þeirra o.s.frv. En það skýrir ekkert að halda endalaust áfram svona. Endalaus orsakaruna skýrir ekkert því hún gerir hvorki grein fyrir því hvað kom öllu af stað í upphafi né hvers vegna þessi orsakaruna á sér stað fremur en einhver önnur. Eina raunverulega skýringin er að gera ráð fyrir frumorsök sem hefur ástæðu tilveru sinnar fólgna í sjálfri sér og þessi frumorsök getur ekki verið neitt annað en guð. Þessi rök eru oft nefnd „heimsfræðilegu rökin“.

Í þriðja lagi má svo nefna hina verufræðilegu sönnun fyrir tilveru guðs. Þessi „sönnun“ var fyrst sett fram af Anselm (1033–1119) erkibiskup af Kantaraborg. Aðalhugmyndin að baki hennar er sú að hugtakið guð feli í sér hugmynd um alfullkomleika og hluti alfullkomleikans sé fólginn í tilvist, þannig að það sé álíka fáránlegt að hugsa sér alfullkomleika án tilvistar eins og að hugsa sér þríhyrning án horna. Að vera alfullkominn er samkvæmt þessu í því fólgið að hafa gæsku, visku, mátt, tilvist og e.t.v. eitthvað fleira á svipaðan hátt og að vera þríhyrningur er í því fólgið að hafa þrjú horn og þrjár hliðar. Þessi sönnun gerir því ráð fyrir því að alfullkomin vera sé til samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu alfullkominn. Hume fjallar nokkuð um hana í Samræðum um trúarbrögðin en ég mun ekki að gera þeirri umfjöllun nein skil hér heldur láta duga að geta þess að tilvist er ekki eiginleiki og merking orðsins „alfullkominn“ felur engan veginn í sér að alfullkomin vera sé til.

Þessum heimspekilegu rökum fyrir tilveru guðs var vitaskuld ekki ætlað að sanna réttmæti kristinnar trúar heldur aðeins að til sé einhvers konar guð. Á dögum Humes var það viðtekin skoðun að náttúruleg eða heimspekileg guðfræði gæti að vísu sýnt fram á sanngildi flestra þeirra kenninga sem eru sameiginlegar allri eingyðistrú en til þess að sýna fram á réttmæti annarra trúarlærdóma þyrfti að grípa til sögulegra raka og opinberaðrar guðfræði.

Þessi sögulegu rök eru fyrst og fremst frásagnir af spádómum og kraftaverkum. Það var (og er enn) ein helsta röksemdin fyrir réttmæti kristindómsins að Jesú hafi risið upp frá dauðum og gert ýmiss konar kraftaverk og að spádómar Gamla testamentisins hafi ræst á honum. Í hópi þessara sögulegu raka teljast og frásagnir af trúarlegri reynslu og samskiptum einstaklinga við almættið.

Söguleg og heimspekileg rök

Í riti Humes Rannsókn á skilningsgáfunni fjallar tíundi kaflinn um það hvort og þá hvenær sé skynsamlegt að leggja trúnað á kraftaverkasögur. Niðurstaða Humes er í stuttu máli á þá leið að slíkar sögur séu aldrei trúverðugar. Hann rökstyður þessa niðurstöðu sína á ýmsa vegu en kjarninn í rökum hans kemur vel fram þar sem hann segir:

Kraftaverk er brot á náttúrulögmálunum. Og þar sem þessi lögmál eru studd öruggri og undantekningarlausri reynslu leiðir af eðli málsins að staðfesting þess að kraftaverk gerist ekki er svo örugg sem nokkur reynslurök geta hugsanlega verið. […] Ekkert telst vera kraftaverk ef það hendir nokkru sinni sem hluti af venjulegum gangi náttúrunnar. Það er til dæmis ekkert kraftaverk þótt maður, sem virðist við góða heilsu, falli skyndilega örendur; því þótt slíkur dauðdagi sé hinn sjaldgæfasti, þá hafa menn séð hans mörg dæmi. En það væri kraftaverk ef dauður maður risi skyndilega til lífs, því slíkt hefur aldrei sést gerast í nokkru landi. Sérhvert kraftaverk stangast því á við reynslu, sem er öll á einn veg, því ella væri það ekki réttnefnt kraftaverk. Og þar sem reynsla, sem er öll á einn veg jafngildir staðfestingu, þá er, eðli málsins samkvæmt fengin bein og fullkomin staðfesting þess að kraftaverk hafi aldrei gerst. Það eina sem getur vegið gegn þessari staðfestingu og gert kraftaverk trúverðugt er andstæð staðfesting sem vegur þyngra.

Augljós afleiðing alls þessa er sú (og þetta er almenn regla sem er þess verð að vér gefum henni gaum) að enginn vitnisburður getur fært sönnur á kraftaverk, utan hann sé af því tagi að það væri enn meira kraftaverk ef hann væri ósannur heldur en ef atburðurinn sem vitnað er um hefði gerst. […] Segi mér einhver að hann hafi séð dauðan mann rísa til lífs, hugsa ég strax með mér hvort sé nú sennilegra að viðkomandi sé annaðhvort að reyna að blekkja mig eða hafi sjálfur verið blekktur, eða að það sem hann segir frá hafi raunverulega gerst. Ég veg eitt kraftaverk á móti öðru og kveð upp dóm minn eftir því á hvora hlið misvægið er; og ég hafna alltaf því sem er meira kraftaverk. Sé atburðurinn sem hann segir mér frá ekki eins mikið kraftaverk og hitt að vitnisburður hans sé ósannur, þá og aðeins þá trúi ég honum og læt hann hafa áhrif á skoðanir mínar.3

Rétt er að vekja athygli á því að með þessum rökum hafnar Hume því ekki að kraftaverk geti átt sér stað. Hann rökstyður aðeins að frásagnir af kraftaverkum geti aldrei verið trúverðugar vegna þess að reynslan kenni að það sé sennilegra að menn annaðhvort misskilji reynslu sína eða ljúgi til um hana en að kraftaverk eigi sér stað. Af þessu leiðir meðal annars að það sé sennilegra að höfundar Biblíunnar segi ósatt en að Jesú hafi risið upp frá dauðum því reynslan kennir okkur að trúa því frekar að fólk fari við og við með ósannindi en að dauðir menn lifni við.

Fái rök Humes í tíunda kafla Rannsóknar á skilningsgáfunni staðist þá stendur tæpast steinn yfir steini í svokallaðri opinberaðri guðfræði og öll söguleg rök fyrir réttmæti trúarkenninga eru þá reist á sandi.

Þessi rök Humes gegn opinberaðri guðfræði eru reyndar töluvert margslungnari en fram hefur komið hér. Enn margslungnari eru þó rök hans gegn hinni náttúrulegu guðfræði. Þau eru óaðskiljanleg frá þekkingarfræði hans, eða kenningum um takmarkanir og eðli mannlegrar þekkingar. Meginhugmyndir Humes um mannlega þekkingu eru á þá leið að hugsun okkar lúti sálfræðilegum lögmálum. Þessi sálfræðilegu lögmál taldi Hume ekki afrakstur skynsemi heldur aðeins eina gerð eðlishvatar sem náttúran hefur innrætt okkur til þess að við getum brugðist við hversdagslegum aðstæðum. Hann taldi mannlega hugsun því færa um að fást við þann heim sem við lifum og hrærumst í, þ.e. náttúruna og mannlegt samfélag, en öldungis ófæra um að glíma við efni sem liggja utan allrar reynslu. Í 7. kaflaRannsóknar á skilningsgáfunni fjallar Hume meðal annars um þessi takmörk mannlegrar þekkingar. Þar er hann að fjalla um kenningu sem naut töluverðra vinsælda um hans daga og er jafnan eignuð franska heimspekingnum Nicolas Malebranche (1638–1715). Kenningu þessari var ætlað að leysa vandamálið um samband sálar og líkama. En á 17. öld höfðu heimspekingar af skóla Descartes (1591–1650) miklar áhyggjur af því hvernig efnishlutir gætu haft áhrif á mannshugann sem þeir töldu vera andlegan veruleika af allt öðru tagi en efnið. Malebranche reyndi að höggva á hnútinn með því að segja að efnishlutir stæðu ekki í neinu sambandi við hugann og skynjanir okkar væru því ekki orsakaðar af áhrifum ytri hluta á skynfærin heldur væri orsök þeirra guð. Hann hugsaði sér að guð setti skynjanirnar inn í hugi okkar jafnóðum og hann möndlaði við efnishlutina og léti okkur þannig vita hverju fram vindur í veröld efnisins. Kenning þessi kveður því á um að engin tengsl séu milli sálar og líkama heldur stjórni guð almáttugur beint og milliliðalaust öllu sem gerist og efnislegar orsakir ráði í raun engu um framvindu heimsins. Um þetta segir Hume:

[Mér virðist] þessi kenning um allsherjarorku og íhlutun hinnar æðstu veru vera full bíræfin til þess að sannfæra nokkurn mann sem gerir sér grein fyrir takmörkunum mannlegrar skynsemi og skilur hve þröngar skorður henni eru settar. Hversu sterk rök sem færð eru fyrir þessari kenningu þá hlýtur að vakna áleitinn grunur ef ekki fullkomin vissa um að komið sé út fyrir þau takmörk sem gáfum vorum eru sett, þegar niðurstöðurnar eru svo undarlegar og fjarri lífi voru og hversdagslegri reynslu. Löngu áður en rök þessarar kenningar eru til lykta leidd hafa þau leitt oss inn í töfraheim æfintýrisins og í þeim heimi höfum vér enga ástæðu til þess að reiða oss á venjulegar rökleiðsluaðferðir eða halda að vér getum með réttu ályktað af hliðstæðum og sennileika eins og vér erum vön. Lóð vort nær ekki til botns í þvílíku ómælisdjúpi. Og hversu mjög sem vér teljum oss trú um að sannlíki og reynsla vísi oss veg, megum vér vita að meint reynsla er að engu hafandi þegar fengist er við efni sem liggja langt utan við heim hennar.4

Þessa kenningu sína um takmörk þekkingarinnar rökstyður Hume á ýmsa vegu. Fái rök hans staðist þá er útilokað að menn geti komist yfir nein sannindi um eðli guðdómsins.

Rök Humes gegn náttúrulegri guðfræði standa víðar fótum en á þessum efasemdum hans um getu mannlegrar skynsemi til þess að uppgötva hinstu rök tilverunnar. Ein fyrirferðarmesta kenningin í Rannsókn á skilningsgáfunni er kenning Humes um tengsl orsaka og afleiðinga. Þessa kenningu notar hann meðal annars til þess að vefengja hina heimsfræðilegu „sönnun“ fyrir tilveru guðs. En eins og fyrr er getið snýst sú „sönnun“ um þá forsendu að orsök heimsins verði ekki skýrð öðruvísi en með því að gera ráð fyrir því að guð hafi skapað hann.

Í stuttu máli er kenning Humes um tengsl orsaka og afleiðinga sú að ógerlegt sé að greina hvað það er sem veldur því að eitt atvik orsakar annað. Þekking okkar á orsakatengslum byggist því ekki á neinum raunverulegum skilningi á framvindu atburðanna heldur aðeins á því að þegar við sjáum svipaða atburðarás endurtaka sig aftur og aftur þá fær vaninn okkur til þess að gera ráð fyrir því að þættir hennar séu á einhvern hátt samhangandi. Þessi áhrif vanans taldi Hume ógerlegt að réttlæta með skynsamlegum rökum. Þau eru að hans viti þáttur í náttúrulegri gerð mannshugans, sálfræðilegt lögmál sem knýr okkur til þess að álíta að atvik sem ævinlega eru samfara séu á einhvern hátt samtengd. Þessi ímynduðu tengsl köllum við orsakatengsl. Í niðurlagi 5. kafla Rannsóknar á skilningsgáfunni segir Hume:

Til að staðfesta fyrrgreinda kenningu enn frekar bæti ég því við að þessi starfsemi hugans sem gerir oss kleift að álykta um líkar afleiðingar af líkum orsökum, og öfugt, er svo nauðsynleg lífi allra manna, að hinni seinvirku skynsemi vorri með sínar skeikulu rökfærslur er tæpast treystandi fyrir henni. Skynseminnar gætir líka lítt fyrstu bernskuár vor og þegar best gegnir er henni alla æfi hætt við að skjöplast og mistakast. Það samrýmist betur háttbundinni visku náttúrunnar að tryggja svo nauðsynlega hugarstarfsemi með því að fela hana einhverri eðlishvöt eða vélgengri hneigð sem er óskeikul, kemur fram um leið og líf vort og hugsun kvikna og getur verkað óháð þungsóttum rökleiðslum skilningsgáfunnar. Eins og náttúran hefur kennt oss að beita höndum og fótum, án þess að gefa oss þekkingu á þeim vöðvum og taugum sem valda hreyfingum útlimanna, eins hefur hún rótfest í oss eðlishvöt sem stýrir huganum svo að hugsun vor sé í samræmi við framvindu ytri fyrirbæra, þótt vér vitum ekkert um þau öfl og krafta sem valda þessari reglubundnu hegðun þeirra.5

Samkvæmt þessari kenningu þá er þekking okkar á orsökum takmörkuð við tengsl atburða sem við höfum reynslu af að séu ævinlega samfara. Það er því öldungis tómt mál að tala um orsök heimsins alls. Við höfum enga reynslu af því hvernig heimar verða til. Hugmyndir okkar um orsakir og afleiðingar grundvallast á eðlishvötum sem gagnast ágætlega við náttúrulegar aðstæður, en Hume telur enga ástæðu til að ætla að við getum með réttu heimfært þær upp á annan veruleika en þann sem við þekkjum af reynslu. Í ellefta kafla Rannsóknar á skilningsgáfunni orðar hann þessa hugsun svona:

… ég efast mjög um að orsök geti verið þekkt af afleiðingu sinni einni […] eða verið svo einstæð og sérstæð í eðli sínu að hún sé á engan hátt hliðstæð eða lík neinni annarri orsök eða nokkru fyrirbæri sem vér höfum augum litið. Vér getum aðeins ályktað um eitt fyrirbæri af öðru þegar vér höfum reynt að tvær tegundir fyrirbæra fari alltaf saman; og komi fram afleiðing sem er algerlega einstök og engin leið að flokka með neinni þekktri tegund, þá sé ég ekki að vér getum getið oss neins til eða ályktað neitt um orsök hennar.6

Ég læt þetta duga um rök Humes gegn hinni heimsfræðilegu sönnun og sný mér nú að því sem hann hafði að segja um skipulagsrökin. Það er ljóst að Hume bar töluverða virðingu fyrir þessum rökum. Hann taldi þau að vísu gölluð en greinilegt er að hann áleit þau ekki öldungis úr lausu lofti gripin eins og heimsfræðilegu rökin og þau verufræðilegu. Í samræmi við þetta eyðir Hume töluvert meira máli í að fjalla um þessi rök en um hin sem hann áleit svo veikburða að nánast mætti berja þau til bana í einu höggi.

Skipulagsrökin byggjast raunar á því að hægt sé að líkja náttúrunni við einhvers konar smíð og álykta af henni um eiginleika smiðsins. Helsta mótbára Humes gegn þessum rökum er sú að þótt þau sýni ef til vill að náttúran hljóti að vera sköpunarverk vitsmunaveru þá segi þau okkur ekkert um eiginleika þessarar veru annað en það að hún hafi nægilegt vit og mátt til þess að skapa þann heim sem við þekkjum af reynslu. Þau gefa því ekkert tilefni til þess að álykta að þessi vera sé alvitur, almáttug eða hafi siðferðilega eiginleika eins og góðvild til að bera.

Auk þessa bendir Hume á það að hæpið sé að líkja náttúrunni við smíðisgrip á þann hátt sem skipulagsrökin gera: Náttúran sé alveg eins lík lífveru og gæti sem best verið sjálfsprottin, um þetta getum við einfaldlega ekkert vitað því við höfum, eins og fyrr segir, enga reynslu af því hvernig heilir heimar verða til. Hann bendir ennfremur á það að jafnvel þótt færa megi rök að því að náttúran sé sköpunarverk einhvers himnasmiðs þá staðfesti þau rök engan veginn að hún sé verk eins guðs, hún gæti allt eins verið sköpuð af mörgum guðum sem unnu saman. Skipulagsrökin duga því ekki til þess að staðfesta að til sé guð í líkingu við þann sem kristnir menn trúa á. Sér í lagi er útilokað að nota þau til þess að sanna að skapari heimsins sé góðviljaður eða láti sér annt um sköpunarverk sitt. Veröldin er full af böli og þrautum og gefur því ekkert tilefni til að álykta um siðlegar eigindir skapara síns. Hume útilokar þó ekki að veröldin sé sköpuð af algóðum, almáttugum og alvitrum guði. Hann bendir aðeins á að það sé engin ástæða til þess að ætla að svo sé.

Margt er á huldu um endanlega niðurstöðu af bollaleggingum Humes um skipulagsrökin. Það er ljóst að hann telur þau hvorki duga til þess að renna stoðum undir nein ein trúarbrögð öðrum fremur né til þess að leiða neitt annað í ljós um eiginleika guðdómsins en að hann hafi ef til vill einhvers konar vitsmuni til að bera sem kannski svipar eitthvað til mannlegrar skynsemi. En hvort Hume taldi rökin duga til þess að renna stoðum undir einhverja guðstrú er óljóst og þeir sem dýpst hafa kafað í heimspeki Humes eru ekki á einu máli um það hver niðurstaða hans sé.

Í niðurlagi Samræðna um trúarbrögðin gefur Hume í skyn að hann telji að

[öll náttúrleg guðfræði], leysist upp í eina einfalda, en þó allóljósa eða allténd óskilgreinda staðhæfingu, sem sé að orsök eða orsakir reglubundinnar skipunar í alheimi eigi sér sennilega einhverja fjarlæga hliðstæðu í mannvitinu …7

Hume gat ekki fremur en aðrir átjándualdarmenn ímyndað sér hvernig skynsamlegt skipulag eins og finna má hvarvetna í lífríkinu gæti orðið til af náttúrulegum orsökum. Hann þekkti enga kenningu um tilurð lífvera sem hægt var að tefla fram gegn sköpunarsögunni. Slík kenning mótaðist ekki fyrr en um miðbik næstu aldar þegar Darwin (1809–82) gerði grein fyrir rannsóknum sínum í bókinniUm uppruna tegundanna við náttúruval (On the Origin of Species by Means of Natural Selection) sem kom út árið 1859.

Ýmislegt í hugsun Humes vísar fram á við til kenningar Darwins. Hann gerði til dæmis ráð fyrir að siðir og stofnanir samfélagsins hefðu mótast fyrir eins konar náttúruval og áleit mannkynið og menninguna vera hluta af náttúrunni. En það þurfti snilling í náttúruskoðun til að taka skrefið til fulls og sýna fram á að allt sem skýra má með skipulagsrökunum er hægt að skýra enn betur með náttúrulegum orsökum. Telja má víst að ef Hume hefði þekkt kenningu Darwins þá hefði hann hafnað skipulagsrökunum jafn afdráttarlaust og hann hafnaði heimsfræðilegu og verufræðilegu sönnununum fyrir tilveru guðs.

Orsakir trúarbragðanna og áhrif þeirra á mannlífið

Átjánda öldin var öld upplýsingarstefnunnar. Eitt helsta einkenni þeirrar stefnu var trú á mannlega skynsemi og getu hvers einstaklings til þess að höndla af eigin rammleik sannleikann um flest þau efni sem máli skipta, þar á meðal um trúarleg og siðferðileg efni. Upplýsingarmenn voru yfirleitt bjartsýnir á möguleika fólks til þess að lifa góðu lífi með því að breyta í samræmi við boð sinnar eigin skynsemi. Einn af fylgifiskum upplýsingarinnar var frumgyðistrúin, sem hafði mikil áhrif á guðfræði með Vestur–Evrópuþjóðunum. Þessi frumgyðistrú kenndi að náttúruleg skynsemi hvers manns væri þess megnug að upplýsa hann um helstu sannindi trúarinnar, eins og að guð sé til og mönnum beri að þjóna honum og tilbiðja hann. Í samræmi við þetta litu flestir svo á að trúin á einn algóðan og almáttugan guð væri jafn gömul mannkyninu. Menn hefðu strax í öndverðu séð það af hyggjuviti sínu að

Himnarnir segja frá Guðs dýrð

og festingin kunngjörir verkin hans handa.8

Hume var of vel að sér í sagnfræði til þess að geta fallist á þessar hugmyndir upplýsingarinnar um uppruna trúarbragðanna. Í „Náttúrusögu trúarbragðanna“ bendir hann á að í öndverðu hafi allar þjóðir verið fjölgyðistrúar og trú þeirra hafi fremur svipað til trúar á náttúruvætti en til trúar á algóðan skapara himins og jarðar. Eingyðistrúna taldi hann fram komna síðar og orsakir hennar rekur hann til þess að fjölgyðistrúarmenn hafi smám saman farið að telja einn guð æðstan og hlaðið á hann lofi þar til þeir loks kváðu hann einn verðskulda að kallast guð.

Hume hafnaði því jafnframt að trúin ætti rætur sínar í skynsamlegum ályktunum um uppruna heimsins. Hann taldi að frumstæð trúarbrögð forsögulegra þjóða hefðu verið afsprengi ótta og eymdar en ekki skynsamlegra ályktana af því tagi sem velmegandi lærdómsmenn sem búa við öryggi og allsnægtir draga af gangi náttúrunnar.

Auk þess sem Hume taldi að frumorsaka trúarbragðanna væri að leita í ótta, óvissu og fáfræði frummannsins þá taldi hann að enn þann dag í dag nærðust þau á ótta, eymd og heimsku. Hann bendir á að menn séu aldrei fúsari til að kasta sér í fang trúarinnar en þegar þeir eru örvæntingarfullir og óttaslegnir.

Hugmyndir Humes um uppruna og orsakir trúarbragðanna eru mun flóknari og fágaðri en kostur er að gera grein fyrir í stuttu máli. Þær voru í raun meira en öld á undan sinni samtíð. En með þróun mannfræðinnar og sálarfræðinnar hafa ýmsar þeirra orðið viðteknar á seinni tímum. Nú efast til dæmis fáir um að fjölgyðistrú og trú á náttúruvætti séu eldri en eingyðistrú.

Hume var líka á undan sinni samtíð í hugmyndum sínum um samband trúar og siðferðis. Á átjándu öld litu flestir svo á að trúin væri undirstaða alls siðferðis og menn væru vísir til að haga sér eins og skepnur ef þeir tryðu því ekki að þeir hlytu að launum helvítisvist eftir dauðann. Hume hafnaði þessu og sagði að siðferði væri algerlega óháð hugmyndum um refsingu og umbun annars heims. Hann ritaði mikið um siðfræðileg efni og lagði nýjan grundvöll að veraldlegri siðfræði sem skýrir siðlega breytni og greinarmun rétts og rangs út frá mannlegu eðli og þörfum samfélagsins án nokkurrar tilvísunar til yfirnáttúrulegs veruleika.

Það er ekki nóg með að siðfræði Humes sé óháð öllum trúarkenningum. Hann taldi að trúarbrögðin væru í andstöðu við allt almennilegt siðferði og svokallaðar trúarlegar dygðir væru ekki raunverulegir mannkostir heldur miklu fremur lestir:

Skírlífi, föstur, kárínur, meinlæti, sjálfsafneitun, auðmýkt, þögn, einvera og allar munkadygðir, hví er þeim alls staðar hafnað af skynsömum mönnum? Er það ekki vegna þess að þær eru gagnslausar og auka hvorki gengi manns né gagnsemi hans fyrir samfélagið; gjöra hann hvorki færari um að geðjast öðrum né hæfari til að njóta lífsins? Við okkur blasir þvert á móti að þær ganga gegn öllum þessum eftirsóknarverðu markmiðum; gjöra skilninginn sljóan, hjartað kalt, ímyndunaraflið dauft og skapið súrt.9

Auk þessa bendir Hume á að þær hugmyndir sem kristnir menn gerðu sér um refsingu og umbun annars heims séu beinlínis ósiðlegar. Í ritgerð sinni „Um ódauðleika sálarinnar“ þar sem hann rakkar niður flest rök sem menn höfðu fært fyrir framhaldslífi og sýnir fram á að góðar ástæður séu til að ætla að dauðir menn séu í raun og veru dauðir, segir hann um helvítispredikanir kirkjunnar:

Refsing sem þjónar engum tilgangi samræmist ekki hugmyndum vorum um góðsemi og réttlæti; og refsing getur ekki þjónað neinum tilgangi eftir að lífinu er lokið.

Oss þykir og sem refsing eigi að vera í einhverju hlutfalli við afbrotin. Hvað réttlætir endalausa refsingu fyrir tímanleg afbrot svo veikburða veru sem mannskepnan er?10

Hume hafði fleira út á siðferði trúarbragðanna að setja. Hann taldi að þau ýttu beinlínis undir ranga breytni. Hann viðurkennir að það sé að vísu eðlilegt að hugsa sér að menn þjóni góðum guði best með því að haga sér siðlega og iðka náungakærleik, en bendir á að reyndin sé sú að þeir sem ganga lengst í svokallaðri þjónustu við guð séu öðrum fremur líklegir til þess að vera sjálfum sér og öðrum til ama og tjóns. En hvernig getur staðið á þessu? Í „Náttúrusögu trúarbragðanna“ segir Hume:

Ef til vill má sættast á eftirfarandi greinargerð sem rétta lausn á þessum vanda. Þegar menn rækja þær skyldur sem þeir hafa sem foreldrar eða vinir þá virðast þeir aðeins þjóna börnum sínum eða velgerðamönnum. Þessar skyldur getur heldur enginn vanrækt án þess að níðast á náttúrunni og öllu siðferði. […] Sé maður að sönnu dygðugur þá hneigist hann til þess að gera skyldur sína án þess að beita sjálfan sig neinni nauðung. Jafnvel þegar um er að ræða dygðir sem hafa strangara yfirbragð og byggjast meir á íhugun, eins og þegnskap, ættrækni, hófstillingu og heiðarleika, þá er það mat manna að hin siðferðilega skylda útiloki að dygðirnar hafi neitt sérstakt trúarlegt gildi. Mönnum þykir sem þeir geri ekkert meira en skyldu sína við sjálfa sig og samfélagið með því að breyta siðlega. Trúmanninum finnst því að með dygðugu líf einu saman geri hann í raun ekkert sérstakt fyrir guð sinn sem geri hann verðugan guðlegrar verndar og velþóknunar. Hann gáir ekki að því að besta leiðin til þess að þjóna guðdóminum er sú að þjóna undir hamingju sköpunarverka hans. Í staðinn leitar hann beinni leiða til þess að þóknast hinni æðstu veru og vinna þannig bug á hugarvíli sínu. Hann er því tilbúinn að iðka hvað það sem annaðhvort þjónar alls engum tilgangi eða er öndverðast náttúrulegum tilhneigingum hans– og það af ástæðum sem ættu að réttu lagi að gera hann frábitinn slíkri iðkun. Þetta er vegna þess að téð háttalag virðist þeim mun guðrækilegra sem útilokaðra er að menn hafi það í frammi af neinum öðrum ástæðum. […] Enginn opinberar guðrækni sína með því einu að greiða skuldir sínar og standa í skilum; maður er hvort sem er skyldugur til þess arna og þetta mundu margir gera þótt enginn guð væri til. En fasti maður í einn dag, eða berji sjálfan sig með svipu, þá finnst honum sem það sé raunveruleg þjónusta við Guð.11

Hume bætir því við að trúhneigð sé í raun andstæð dyggðugu lífi í þeim skilningi að dyggðugur maður hneigist síður til trúar en misindismenn, skálkar og vesalingar:

Við þetta er því að bæta að glæpaverkum fylgir vond samviska og hrollvekjur sem gefa sálinni engan frið svo menn flýja á náðir trúariðkana og helgisiða. Allt það sem veikir hugann og raskar ró sálarinnar ýtir undir trúarlegar hégiljur. Ekkert er heldur betur til þess fallið að víkja þessum hégiljum á bug en karlmannlegt jafnlyndi og stöðugleiki í dygðunum sem ýmist ver oss gegn dapurlegum hendingum eða hjálpar oss að yfirvinna þær.12

Hverju skal trúa?

Hume heldur því hvergi fram í ritum sínum að hann geti sannað að guð sé ekki til. Hann taldi það ekki í mannlegu valdi að öðlast vitneskju um hinstu rök tilverunnar og lést aldrei vita neitt með vissu um tilvist eða tilvistarleysi æðri máttarvalda. Hann taldi sig aftur á móti vissan um að þau rök sem heimspekingar og guðfræðingar hafa fært fyrir tilveru guðs og ýmislegum öðrum trúarkenningum séu tómar hártoganir. Hann taldi sig enn fremur hafa sýnt fram á að þau trúarbrögð sem útbreiddust eru hafi fremur skaðleg en gagnleg áhrif á mannlífið.

Hume gekk þó aldrei svo langt að fordæma alla trú. Það sem hann fordæmir er annars vegar langsótt guðfræði sem læst vera vísindaleg og skynsamleg en er í raun ekkert nema orðhengilsháttur og hins vegar það sem hann kallaði falska trú (false religion). Í ritgerð sinni „Um hjátrú og ofsatrú“ gerir hann grein fyrir tveim afbrigðum falskrar trúar sem eru, eins og nafn ritgerðarinnar gefur til kynna, hjátrú (superstition) og ofsatrú (enthusiasm). Taldi hann flestar trúariðkanir kristinna manna einkennast af að minnsta kosti öðru hvoru þessa. Kaþólskuna, með öllum sínum helgisiðum, trú á helga dóma, staðhelgi og mátt kirkjunnar, taldi hann dæmi um hjátrú og ýmis afbrigði mótmælendasiðar, þar sem menn eru ýmist frelsaðir og tæpast viðmælandi fyrir vikið, eða súrir í sinni af trúarlegum strangleika taldi hann dæmi um ofsatrú.

Á nokkrum stöðum í ritum sínum talar Hume um sanna trú sem andstæðu þeirrar fölsku. Hann gerir ekki skýra grein fyrir því í hverju hin sanna trú sé fólgin og það er ljóst að hann taldi hana vera afar sjaldgæfa, því hann fordæmdi flestar trúariðkanir sem viðteknar voru á hans tíð. En það að Hume skuli gera þennan greinarmun bendir til þess að hann hafi ekki talið alla trú undir sömu sök selda heldur álitið kost á betri trúarhugmyndum en þeim sem hann áleit ríkjandi.

Af því sem Hume ritaði um trúarleg efni má ráða meira um það hvernig sönn trú á ekki að vera heldur en hitt hvernig hún á að vera. Í fyrsta lagi er ljóst að Hume taldi helgisiði og trúarathafnir í besta falli fánýta vitleysu. Í öðru lagi má fullyrða að hann taldi siðferði vera óháð trú í þeim skilningi að ekki þurfi að leita til trúarkenninga til þess að fá vitneskju um hvernig rétt er að breyta við sjálfan sig og náungann. Í þriðja lagi taldi hann alla langsótta guðfræði og kreddur um hinstu rök tilverunnar vera rugl og vitleysu í besta falli en oftar þó tilraunir til þess að réttlæta valdakerfi eða samfélagshætti sem ekki yrðu réttlættir með skynsamlegum rökum. Í fjórða lagi leit hann svo á að engin leið væri að styðja neinar kennisetningar með sögum um kraftaverk og yfirnáttúrulega atburði.

Hvaða kostir á trú eru eftir þegar búið er að útiloka allt þetta? Mér virðist ekki vera neinn kostur á trúarbrögðum í venjulegum skilningi þess orðs. En í hverju er hún þá fólgin þessi sanna trú sem Hume teflir fram sem andstæðu þeirra trúarbragða sem hann rakkar niður?

Einn kostur sem Hume útilokar ekki er trú sem byggist á beinu sambandi einstaklings við guðdóminn eða kraftaverki sem unnið er á sál þess trúaða. (Þessi kostur er mjög í anda þess Kalvínisma sem var ríkjandi í Skotlandi á tímum Humes.) Þótt Hume telji menn ekki hafa neina skynsamlega ástæðu til þess að trúa kraftaverkasögum þá útilokar hann ekki að kraftaverk geti átt sér stað og menn geti haft rétt til að trúa á kraftaverk sem hefur verið unnið á þeim sjálfum. Hume nefnir þennan möguleika í niðurlagi kaflans um kraftaverk í Rannsókn á skilningsgáfunni þar sem hann segir:

Niðurstaða alls þessa er því sú að kraftaverk hafi ekki aðeins fylgt kristninni í byrjun, heldur geti enn þann dag í dag enginn maður með fullu viti játast henni nema fyrir kraftaverk. Skynsemin dugar hvergi til þess að sannfæra oss um sannleiksgildi trúarinnar. Og hver sem fyrir átrúnað játar kristni hefur stöðuga vitran um kraftaverk í sálu sinni, sem umturnar skilningsgáfunni og gefur honum styrk til þess að trúa því sem gengur þverast gegn vana og reynslu.13

Þótt Hume færi engin rök gegn trú sem byggist á svona kraftaverki eða beinu sambandi við guð þá leynir háðið sér ekki þegar hann getur hennar, svo varla er það þetta sem hann á við með sannri trú. En hvað er það þá?

Annar kostur sem Hume útilokar ekki er trú sem viðurkennir eigin fáránleika. Innan kristninnar hafa verið uppi stefnur, allt frá því í fornöld, sem hafna allri skynsemi, viðurkenna að trúin sé röklaus og fáránleg á mælikvarða mannvitsins. Hafi fylgismenn svona röklausrar trúar á annað borð hirt um að réttlæta trú sína hafa þeir gert það með því að segja að viska mannanna sé heimska hjá guði og ekkert mark sé takandi á mannlegri skynsemi, hún sé í besta falli villuljós; menn verði bara að kasta sér í fang trúarinnar og halda sér þar af öllum vilja og mætti hversu mjög sem þeir kunna að ofbjóða sinni eigin skynsemi með því. Frægasti málsvari svona röklausrar trúar í fornöld var afríski kirkjufaðirinn Tertullianus (um 160 til um 220). Á þessari öld og hinni síðustu hafa ýmsir slegið á svipaða strengi. Má þar frægasta telja Danann Søren Kierkegaard (1813–55) og Spánverjann Miguel de Unamuno (1864–1936). Þessi hugsunarháttur er afar fjarri Hume. Þótt hann hafi öðrum fremur gert sér grein fyrir takmörkunum mannlegrar skynsemi þá var hann andsnúinn hvers kyns rökleysishyggju og vildi, eins og boðberar upplýsingarstefnunnar, að fólk notaði þær gáfur sem það hefur til þess að gera líf sitt sem best og þægilegast. Hin sanna trú sem Hume ræðir um getur því ekki verið trú sem er andsnúin skynseminni og gengst upp í því að vera fáránleg. En hvað er hún þá?

Þótt Hume telji útilokað að menn geti vitað neitt um tilvist eða eiginleika guðs þá virðist sem hann hafi talið það mögulegt og jafnvel sennilegt að æðri máttarvöld séu til. Sums staðar fullyrðir hann það meira að segja blákalt, eins og til dæmis í inngangi sínum að „Náttúrusögu trúarbragðanna“ þar sem hann segir:

Öll náttúran vitnar um vitran skapara og enginn skynsamur athugandi fær efast um frumatriði sannrar trúar.14

Af öðrum ritum Humes, einkum 11. kafla Rannsóknar á skilningsgáfunni ogSamræðum um trúarbrögðin er svo ljóst að Hume taldi það ekki í mannlegu valdi að vita neitt um eiginleika þessa „vitra skapara“. Það er til dæmis fullljóst að hann taldi enga ástæðu til þess að taka lýsingu kristinnar guðfræði á honum neitt alvarlegar en það sem hugsuðir annarra trúarbraga hafa til málanna að leggja. Hin sanna trú Humes er því að líkindum trú á guð sem ekkert er hægt að vita eða segja um, trú sem ekki kemur fram á neinn hátt nema hugsanlega í innri ró og góðri breytni. Þetta er trú efahyggjumannsins sem gerir sér grein fyrir fáfræði sinni um hinstu rök tilverunnar, helgar lífinu krafta sína og hefur ekki áhyggjur af því sem bíður hans handan við gröf og dauða. Trú hans er ekki fólgin í neinum kennisetningum og yfirleitt ekki í neinu sem hægt er að koma orðum að nema því að kannski er til einhvers konar guð.

*

Fyrir daga Humes studdust flestar siðfræði- og stjórnspekikenningar að einhverju leyti við trúarlegar forsendur. Nú til dags dettur fáum í hug að byggja fræðikenningu um stjórnmál á Biblíutilvitnunum eða rökstyðja siðfræðikenningu með tilvísun til æðri máttarvalda: Veraldarhyggjan er orðin alls ráðandi í heimspeki og mannvísindum. Enginn einn maður á meiri þátt í þessum sigri veraldarhyggjunnar en David Hume. En þótt höggvið sé á tengsl trúar og þekkingar dregur ekki úr þörf manna fyrir trúarlíf. Við sitjum því uppi með trúarbrögð og trúariðkanir sem eru æ meira úr tengslum við skynsamlega hugsun og sífellt framandlegri heimi vísindanna og þekkingarinnar.

Tilvísanir

1. Sjálfsævisaga Humes er örstutt æviágrip („The Life of David Hume, Esq., Written by Himself“, 1777) sem hann ritaði nokkrum mánuðum fyrir andlát sitt og vinur hans Adam Smith lét gefa út. Rit þetta er til á íslensku í Hume 1988.

2. Árásir Humes á viðtekna heimspeki eru dreifðar um flest hans rit. Mest af þeim er í Tilraun um manneðlið (A Treatise of Human Nature, 1739–40), Rannsókn á skilningsgáfunni (Enquiry concerning Human Understanding, 1748), Rannsókn á undirstöðum siðferðisins (Enquiry concerning the Principles of Morals, 1751) og Samræðum um trúarbrögðin (Dialogues concerning Natural Religion, 1779). Rök Humes gegn söguskoðun og hugmyndafræði Frjálslynda flokksins er að finna í Englandssögu (History of England, 1754–62) í 8 bindum sem hann skrifaði og í ýmsum styttri ritgerðum sem flestar birtust í Ritgerðasafni um stjórnmál og siðfræði (Essays, Moral and Political, 1741–2). Árásir Humes á guðfræðina og trúarbrögðin má finna víða í ritum hans. Flest það merkasta sem hann hefur að segja um þessi efni er þó að finna í Rannsókn á skilningsgáfunni, „Náttúrusögu trúarbragðanna“ („The Natural History of Religion“), sem birtist fyrst í bókinni Fjórar ritgerðir (Four Dissertations, 1757), Samræðum um trúarbrögðin og nokkrum styttri ritgerðum, m.a. „Um sjálfsvíg“ („Of Suicide“), „Um ódauðleika sálarinnar“ („Of the Immortality of the Soul“) og „Um hjátrú og ofsatrú“ („Of Superstition and Enthusiasm“).

3. Hume 1988, bls. 198–200.

4. Hume 1988, bls. 145–6.

5. Hume 1988, bls. 125.

6. Hume 1988, bls. 244.

7. Hume 1977, bls. 197.

8. 19. Davíðssálmur.

9. Hume 1983, bls. 73–4.

10. Hume 1889, 2. bindi, bls. 402.

11. Hume 1889, 2. bindi, bls. 358–9.

12. Hume 1889, 2. bindi, bls. 359.

13. Hume 1988, bls. 223.

14. Hume 1889, 2. bindi, bls. 309.

« Til baka