Færslusöfn

Áhugi fáeinna á heimspeki

Handa Félagi áhugamanna um heimspeki

eftir Þorstein Gylfason

§1 Félag áhugamanna um heimspeki

Hinn 17da marz 2004 sýndi Félag áhugamanna um heimspeki mér þann sóma að gera mig að heiðursfélaga sínum. Ég afréð að þakka fyrir mig með því að hugleiða, af veikum mætti, áhuga Íslendinga á heimspeki. Hluta af þeim hugleiðingum flutti ég á fundi félagsins á Kaffi Sóloni í húsi Málarans við Bankastræti kvöldið 17da marz. Hér birtast þær í fyllri mynd.

Það er við hæfi að ég byrji á örfáum orðum um Félag áhugamanna um heimspeki. Það var stofnað 1976, og það voru fáeinir heimspekinemar sem stofnuðu það. Ég hygg að Laugvetningarnir sem við nefndum stundum svo – Eyjólfur Kjalar Emilsson, Ingimar Ingimarsson og Vilhjálmur Árnason – hafi farið þar fremstir í flokki. Ingimar varð fyrsti formaður félagsins, tindrandi af áhuga og atorku.

Framan af stóð félagið einkum fyrir óvenjulega fjölsóttum fyrirlestrum, mánaðarlega eða svo yfir veturinn. Meðal fyrirlesaranna voru frægir heimspekingar úr öðrum löndum: G. E. M. Anscombe, Philippa Foot, Peter Geach, Páll Árdal, W. V.O.Quine, Paul Ricœur og Richard Rorty. Gestunum var auðvitað alltaf sagt að meginhluti áheyrenda þeirra í Reykjavík yrði áhugafólk um heimspeki, ekki kennarar og stúdentar í greininni eins og tíðkast annars staðar á byggðu bóli. Þeir voru beðnir að taka tillit til þess í efnisvali sínu og efnistökum. Þessu tóku allir með afbrigðum vel þótt sumir þeirra hefðu aldrei áður þurft að tala yfir slíkum hópi fólks. Sumir höfðu síðan orð á því, þegar allt var afstaðið, að fyrirspurnir og athugasemdir áheyrenda eftir hvern lestur hefðu verið með meiri skynsemdarbrag en algengast væri hjá lærðara fólki.

Áður en þetta ágæta félag þeirra Laugvetninga tók til starfa höfðu opin- berir háskólafyrirlestrar verið heldur sjaldgæf skemmtun í Reykjavík um nokkurt árabil, og kenndu margir sjónvarpinu um. Á unglingsárum mínum, fyrir daga sjónvarpsins, höfðu slíkir fyrirlestrar verið alltíðir og vel sóttir. Eftir að félagið var tekið til starfa tóku aðrir sér starf þess til fyrirmyndar.Til að mynda voru stofnuð félög áhugamanna (svo nefnd) um bæði bókmenntir og um tvö sérsvið lögfræðinnar ef mig misminnir ekki. Akureyringar eignuðust líka Félag áhugamanna um heimspeki, meira að segja áður en Háskólinn á Akureyri kom til skjalanna að ég held.

Á síðasta áratug má heita að háskólasamfélagið í Reykjavík hafi verið logandi í opinberum fyrirlestrum og málþingum, svo að sumum þykir nóg um, með þeim afleiðingum að Félag áhugamanna um heimspeki, sem átti verulegan þátt í að kveikja þennan eld, sinnir fyrirlestrahaldi og ráðstefnum mun minna en í fyrstu. Í staðinn gefur það út tímaritið Hug.

Næst er að hyggja sem snöggvast að háskólanum þar sem fáeinir stúdentar bjuggu þetta félag til.

§2 Fjórar háskólabyltingar

Háskóli Íslands er rúmlega níræður. Hann var embættismannaskóli í sextíu ár. Fyrstu þrjátíu árin var kennt í Alþingishúsinu. Næstu þrjátíu árin fór nær öll kennslan fram í einu húsi sem nú er kallað aðalbygging Háskólans. Það var að vísu þá og lengi síðan stærsta hús á Íslandi svo að ýmsum ofbauð.1 Nú eru einkum guðfræði og heimspeki kenndar þar. Hálft húsið er skrifstofur yfirstjórnar Háskólans. Stofnun Háskólans var bylting í sögu þjóðarinnar. Byggingin var bylting í sögu Háskólans.

Um 1970 var þriðja byltingin gerð. Þá var embættismannaskóla breytt í allsherjarskóla – universitas – eftir alþjóðlegum fyrirmyndum. Þetta var meiri bylting en stofnun Háskólans hafði verið 1911. Sú fólst í því einu, fyrir utan nafngiftina Háskóli Íslands, að stofnuð var heimspekideild, með íslenzk fræði sem aðalgrein og Ágúst H. Bjarnason sem heimspekiprófessor til að kenna öllum stúdentum forspjallsvísindi að dönskum sið, til viðbótar við prestaskóla, læknaskóla og lagaskóla sem fyrir voru í landinu. Um 1970 var stofnað til kennslu í mörgum greinum náttúruvísinda ásamt stærðfræði í fyrsta lagi, í öðru lagi í félagsvísindum – nú er félagsvísindadeild ein af þremur langstærstu deildum skólans ásamt viðskipta- og hagfræðideild og heimspekideild (hugvísindadeild) – og loks var í þriðja lagi efnt til kennslu í nýjum hugvísindagreinum eins og bókmenntafræði, málvísindum og heimspeki. Allt þetta starf hefur kallað á nýbyggingar sem blasa við augum. Húsið góða er nú partur af stóru hverfi.

Nú um þessar mundir er fjórða byltingin að fara fram. Háskólinn hyggst efna til framhaldsnáms í sem flestum greinum. Við sjáum að byltingarand- inn kemur yfir okkur á þrjátíu ára fresti. Ekki hafa Frakkar haft svona snyrtilega reglu á sínum byltingum.

Saga síðustu þrjátíu ára í Háskóla Íslands hefur ekki verið skráð svo að ég viti. En það er almannarómur, held ég, að þriðja byltingin hafi verið skólanum til blessunar – hann er margfalt betri skóli en hann var fyrir – og jafnvel til nokkurrar blessunar fyrir land og þjóð. Ég ætla ekki að dæma um hvað hæft er í því.

§3 Tölur og áhugi

Lítum á heimspekina. Ef við miðum við önnur lönd virðist heimspekinámið í Háskóla Íslands tiltölulega fjölsótt. Heimspekin hér er ámóta umfangsmikil kennslugrein og íslenzka, sagnfræði, bókmenntafræði og enska í heimspekideild eða þá stjórnmálafræði og félagsfræði í félagsvísindadeild.2 Í háskólunum í London og Kaupmannahöfn er heimspeki naumast hálfdrættingur greina eins og móðurmálsins á hvorum stað og sagnfræði.3

Í heimspeki eru allt að 100 virkir stúdentar á hverjum tíma, þar af 5–10 erlendir stúdentar sem við kennum á ensku.4 Það útskrifast 10–20 manns á ári með BA-próf í heimspeki,5 og enginn veit hve margir aðrir sem hafa sótt eitt eða fleiri námskeið í greininni. Eitt af því sem mestu skiptir, fyrir okkur kennarana að minnsta kosti, er að við fáum yfirleitt mjög áhugasama og furðugóða nemendur. Suma frábæra. Þess má geta að fyrstu tuttugu árin sást varla stúlka í heimspeki. Á síðustu þrettán árum hafa þær smám saman orðið um helmingur hópsins. Þær standa sig nákvæmlega jafnvel og piltarnir. Ég hef haldið mitt eigið bókhald um það.

Ekkert af þessu telst til stórtíðinda. Nema kannski að heimspeki virðist njóta nokkru meiri hylli meðal ungs fólks á Íslandi en í nálægum löndum. Ég hef orðið var við að þetta er svolítið öfundarefni meðal heimspekinga í Svíþjóð.6

Ef þessi hylli er skrítin er hún kannski skrítnust vegna þess að heimspekinám er ekki starfsnám. Að því leyti stingur heimspekin í stúf við allar hinar greinarnar sem ég nefndi, svo að ekki sé minnzt á viðskiptafræði, verkfræði eða lögfræði. Sálfræðingar, félagsfræðingar og stjórnmálafræðingar hafa að auki lært ýmis hyggindi sem í hag koma við margvísleg störf, svo sem tölfræði. Nám í íslenzku, bókmenntafræði og sagnfræði er öðrum þræði kennaranám. Það eru engar vísar kennarastöður í heimspeki í íslenzkum framhaldsskólum þótt hún sé valgrein í sumum þeirra.

Eins og stúdentar í félagsvísindum læra tölfræði lesa heimspekinemar rökfræði. En þótt rökfræði síðustu hundrað ára sé ein af sögulegum meginforsendum tölvualdar, þá er hún ekki sjálf hagnýt grein eins og tölfræði eða tölvunarfræði. Samt hafa ýmsir ungir heimspekingar lagt tölvulistir fyrir sig með ágætum árangri.

§4 Áhugi á hverju?

Hvað er nú það sem allt þetta unga fólk hefur áhuga á? Um það veit ég ekki nærri nóg. Það er helzt ég geti farið með fáeina sjálfsagða hluti eins og gætu staðið í kynningarbæklingi handa nýstúdentum.

Heimspeki fjallar, og hefur fjallað í 2500 ár, um fáein frumhugtök allrar hugsunar. Meðal þeirra eru veruleiki og tilvera, vitund og þekking, trú og sannleikur, gæði og fegurð, réttur og réttlæti. Tökum bara sannleikann sem dæmi.7

Heimspekingar fjalla um hugtök eins og sannleikshugtakið með tvennum hætti. Annars vegar með því að hyggja að sögu hugtaksins, og samhengi þess á hverjum tíma. Heimspekisagan bregður oft óvæntu ljósi á hugtök eins og sannleika. Eða á vitund eða réttlæti. Hins vegar glíma heimspekingar við að greina hugtökin af eigin rammleik, stundum með tæknilegum aðferðum rökfræðinnar þar sem þær eiga við. Þá má aldrei gleymast að öll hugtökin sem ég nefndi eru fullkomlega hversdagsleg hugtök sem hver maður hefur þó nokkurt vald á. Sannleikshugtakið á ekki bara við um vísindakenningar, heldur líka um blaðafregnir, vitnisburði fyrir dómstólum eða bara um það sem lítill strákur segir um rúðuna sem brotnaði í næsta húsi þegar hann var í boltaleik.

Úr hugmyndasögunni og rökgreiningunni verða til kenningar um sannleikann, til að mynda samsvörunarkenning og samkvæmniskenning. Þær geta síðan nýtzt í glímunni við önnur hugtök, til dæmis trú, skilning og þekkingu.

Nú eru vísindi leit að sannleika. Þar er hann vandmeðfarinn. Jafnvel í nákvæmustu vísindagreinum eins og eðlisfræði geta vaknað spurningar um hvort kenningarnar sem fólk setur saman séu bókstaflega sannar eða kannski að einhverju leyti skáldskapur. En þá má spyrja: geta þær ekki verið sannar fyrir því? Í öðrum fræðum geta líka vaknað spurningar um kostina á öðrum sannleika en hinum bókstaflega sannleika. Þannig geta bæði guðfræðingar og bókmenntafræðingar spurt.

Slíkar spurningar valda því að heimspekin deilir viðfangsefnum sínum, eins og sannleikshugtakinu, með mörgum eða flestum öðrum fræðigreinum. Þess vegna þrífst hún bezt þar sem hún á greiðan aðgang að iðkendum annarra fræða og þeir að henni. Eftir byltinguna 1970 hefur Háskóli Íslands verið gróskumikill vettvangur slíkra samskipta af augljósum ástæðum. Við vorum á sínum tíma ári mörg í sama báti: að búa til háskólagreinar sem engin hefð var fyrir í landinu. Auðvitað þurftum við að tala mikið saman, til dæmis bara um nýyrði. Úr rökræðunum gat sem bezt orðið einhvers konar heimspeki.

Það er afar margt til marks um þessa grósku. Hér er dæmi.

§5 Stúdentalíf

Snemma árs 1992 efndu tveir heimspekinemar, Einar Logi Vignisson og Ólafur Páll Jónsson, til fyrirlestraraðar um heimspekilegt efni: samband sálar og líkama. Þetta var alfarið þeirra hugmynd, sem þeir höfðu brætt með sér lengi, og öll framkvæmdin var á þeirra hendi nema þeir fengu sex fræðimenn úr líffræði, sálarfræði, læknisfræði og heimspeki til að flytja lestrana. Ég fékk að vera heimspekingurinn í hópnum.

Fyrsta lesturinn flutti Guðmundur Pétursson prófessor á Keldum. Hann hét „Lífsskoðun efnishyggjumanns“ og fór fram í stóra salnum í Odda (101). Þá bar svo við að salurinn, sem tekur 100 manns, troðfylltist út úr dyrum. Næsta laugardag var þingað í stærri sal í Háskólabíói. Við enduðum í næststærsta salnum þar.8 Strákarnir höfðu alltaf ætlað sér að gefa lestrana út í bók og gerðu það. Þeir borguðu okkur höfundum sínum meira að segja. Snjallast þótti mér þó að þegar bókin var gerð höfðu þeir samkeppni í efsta bekk Myndlistarskólans um bókarkápu. Svo seldu þeir bókina – Af líkama og sál heitir hún – eins og heitar lummur. Hún er því miður löngu uppseld.

Þetta var ævintýri, og það var að mestu verk stúdenta einna saman með þeim eldmóði sem verður sem betur fer vart í þeirri stétt til þessa dags. Þeir Einar Logi og Ólafur Páll voru ekki óstuddir í þessum framkvæmdum: það var heill hópur af ungu fólki í kringum þá. Þessi hópur tók sig svo til, í beinu framhaldi af fyrirlestraröðinni, og þýddi heimspekiritgerðir frá tuttugustu öld, eftir fræga heimspekinga austan hafs og vestan, í stóra bók. Sú heitir Heimspeki á tuttugustu öld og kom út hjá Máli og menningu 1994.

Ég held að þegar Svíarnir vinir mínir öfundast yfir hylli heimspekinnar á Íslandi séu þeir ekki að hugsa um staðtölur. Þeir eru að hugsa um Einar Loga, Ólaf Pál og félaga þeirra. Þá hef ég getað sagt þeim að svoleiðis ævintýri verði ekki til úr engu. Það megi hugsa til þess meðal annars að það eru ýmis dæmi um slíka starfsemi stúdenta við hinn örlitla Háskóla Íslands frá gamalli tíð. Laganemar hafa til að mynda gefið út tímaritið Úlfljót í áratugi. Engu að síður voru bækurnar Af líkama og sál og Heimspeki á tuttugustu öld afrek. Svona stúdentalíf hygg ég sé afar sjaldgæft í veröldinni. Ég þekki engin dæmi þess annars staðar.

Svo hafa afrekin borið ávöxt. Snemma árs 1996 tóku þrír sálfræðinemar sig til, innblásnir af fordæmi Einars Loga og Ólafs Páls, og endurtóku leikinn. Aftur bar ég gæfu til að fá að eiga aðild að honum, ásamt tveimur öðrum heimspekingum, einum sálfræðingi og tveimur eðlisfræðingum. Ávextirnir af þessu voru ekki bara fjölsóttir laugardagsfyrirlestrar í Háskólabíói – næststærsta salnum – heldur líka bókin Er vit í vísindum? sem út kom haustið 1996 og fæst enn að ég held.9Ritstjórarnir voru Andri Steinþór Björnsson, Torfi Sigurðsson og Vigfús Eiríksson. Þeir höfðu allir lesið nokkra heimspeki með sálarfræðinni, einkum hjá Mikael Karlssyni sem var ráðunautur þeirra um fyrirlestraröðina og bókina.

Af þessum sögum má ráða hvað heimspeki hefur lifandi tengsl við önnur fræði. Líka hitt að reykvískur almenningur er ekki áhugalaus um heimspekileg efni fyrst hann flykkist hundruðum saman til að heyra þau útlistuð. Og nú ber mér að nefna að eftir minni reynslu eru Akureyringar ennþá duglegri en Reykvíkingar við að sækja heimspekilega fyrirlestra.

§6 Störf heimspekinga

Heimspekingar hafa gegnt margvíslegum störfum á Íslandi. En skipting þeirra á starfsgreinar hefur ekki verið skipulega könnuð frá því 1992,10 og síðan hefur tala þeirra meira en tvöfaldazt og heildarmyndin ugglaust breytzt mikið. Í könnuninni kom fram að til 1992 hafði næstum fimmtungur 100 manna hóps sótt í fréttamennsku og aðra fjölmiðlun. Ég minnist þess að fáum árum áður en þessi könnun var gerð hafði ég veitt því athygli steinhissa að ungir heimspekingar flykktust sem blaðamenn að Morgunblaðinu. Þeir urðu fimm í næstum einni svipan. Þá spurðist ég fyrir um hvað hefði komið yfir blaðið. Ég fékk einfalt svar hjá ritstjórunum. Morgunblaðið hafði þá nýverið tekið upp á því að leggja fyrir umsækjendur um blaðamannsstörf móðurmálspróf, samið af kunnum íslenzkukennara. Svo vildi til að ungir heimspekingar leiftruðu á þessu prófi.

Annað get ég nefnt. Sá hluti nemenda okkar sem haldið hefur til framhaldsnáms í góðum háskólum í öðrum löndum – fram til 1992 var næstum helmingur hópsins við fræðastörf eða í framhaldsnámi – hefur getið sér mjög gott orð. Ég hygg það sé til marks um þetta góða orð að nú eru að minnsta kosti fjórir íslenzkir heimspekingar að störfum við erlenda háskóla í Evrópu og Ameríku. Hér í Reykjavík erum við níu og þrír á Akureyri.

Í heimspeki hefur það verið eina meðvitaða markmiðið með kennslunni í þrjátíu ár að námið hlítti ýtrustu alþjóðlegum kröfum. Þetta á við um miklu fleiri greinar í Háskóla Íslands. Við höfum mörg viljað að Háskólinn stefndi aðeins að einu marki: að vera eins góður háskóli, eftir alþjóðlegum kröfum, og hann frekast megnar eða fær að vera.

Þar með á hann ekki að stefna að því að bæta siðina, þjóna atvinnulífinu eða efla menningarlífið. Kannski gerir hann eitthvað af öllu þessu, en það er aukageta eða úthrif. Það gerist án þess að að því sé stefnt. Það er óvíst að það mundi gerast ef við færum að stefna að því.

Hyggjum nú að hlutskipti heimspekinnar á Íslandi áður en hún varð að fullgildri kennslugrein í Háskóla Íslands.

§7 Heimspeki og guðspeki

Sigurður Nordal hefur eftir kennara sínum Finni Jónssyni eins og frægt er: „Íslendingar eiga ekki að fást við heimspeki. “11 Mörgum árum áður en þessi orð féllu hafði Finnur sagt í litlu Ágripi af bókmenntasögu Íslands að heimspeki væri ekki til í íslenzkum bókmenntum.

Frá alda öðli hafa Íslendingar sýnt, að þá vantar bæði löngun til sjálfstæðra heimspekilegra rannsókna og hæfileika til þess… [Þ]ar sem einhver heimspekileg tilþrif eða umbrot hafa verið, þar hefur trúin borið þau ofurliði. Öll heimspeki verður hjá Íslendingum að guðspeki, ef svo mætti að orði komast.12

Til marks um þetta nefnir Finnur Njólu Björns Gunnlaugssonar og ýmis kvæði Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi. Þess má geta að Finnur var Brandesarmaður, raunspekingur og trúleysingi. Svo má líka nefna að það sem við köllum „guðspeki“ var naumast komið til sögunnar í heiminum þegar orð Finns voru skrifuð. Hann lagði sinn eigin skilning í orðið.

Ég held við ættum að fallast á dóm Finns um þá Björn Gunnlaugsson og Brynjólf frá Minna-Núpi. Svo er ég nógu mikill Brandesarmaður sjálfur til að vera hallur undir hina almennu afstöðu Finns. Fyrir nú utan það að sem háskólakennari ber ég djúpa virðingu fyrir honum sem einum mesta höfðingja þeirrar stéttar sem Íslendingar hafa átt. Ég andæfi honum bara að einu leyti. Hann gerir ramman greinarmun á guðspeki sem eins konar trú og heimspeki sem eins konar vísindum að því er virðist. Ef Finnur trúði á eitthvað trúði hann á vísindin, og hann sagði sjálfur að það væri bara ein vísindaleg aðferð og hún héti „heilbrigð skynsemi“.13Viss í sinni sök.

Vísindatrúin veldur því að Finnur missir sjónar á einu. Þetta eina heitir á íslenzku „hinztu rök tilverunnar“. Þau eru utan við trú og vísindi. Vísindin leiða þau hjá sér, og trúin þarf ekki að reyna að átta sig á þeim.

§8 Hin hinztu rök

Um þær mundir sem Finnur var í Kaupmannahöfn að ráða Sigurði frá heimspekinámi í Oxford var heimspeki að nema land á Íslandi. Þar munar mest um Ágúst H. Bjarnason, Yfirlit yfir sögu mannsandans í mörgum bindum. Brynjólfur Bjarnason segir frá:

Ég er fæddur og skírður til kristinnar trúar og skírnarsáttmálinn var staðfestur með fermingu. En barnatrúnni glataði ég þegar á barnsaldri og mun áreiðanlega ekki öðlast hana aftur, ef ég held fullu viti. Tvær bækur höfðu mest áhrif á mig af öllu, sem ég las í bernsku. Þær voru Austurlönd eftir Ágúst H. Bjarnason og Úranía eftir Flammarion. Þessar bækur opnuðu mér nýja sýn. Ég komst að raun um að það sem mér var kennt í Helgakveri og í predikunum prestsins voru ósannindi. Mér hafði verið kennt, að það væri ljótt að segja ósatt, en mér fannst öll ósannindi blikna við hliðina á þessum stórlygum og blekkingum. Ég fylltist heilagri reiði.14

Hún entist honum til æviloka.

Halldór Kiljan skrifaði tvítugur skáldsögu – drög að Vefaranum mikla – sem heitirHeiman eg fór. Þar segir söguhetjan:

Í sveitinni er lestrarfélag og þar fæst lánuð bók eftir dr. Ágúst Bjarnason, sem heitir Yfirlit yfir sögu mannsandans. Ég hef einga bók lesið af annarri eins áfergju. Þessi bók um sögu mannsandans hefur átt sterkari þátt í því en nokkur lýðskóli að belgja upp úngmenni í sveitum með gríska goðafræði, búddatrú, rómverja, Giordano Bruno og Descartes, svo maður veit nákvæmlega alt milli himins og jarðar, eða það vissi ég að minsta kosti.15

Tökum eftir að það voru Austurlönd Ágústs sem Brynjólfur las og þau koma líka við sögu hjá Halldóri þar sem hann nefnir Búddatrú. Það er einmitt í bindinu því sem Ágúst kemst næst hinum hinztu rökum. Hann var stundum kærulaus um þau annars staðar í verki sínu því hann var sjálfur raunspekingur eins og Finnur Jónsson. Í Nítjándu öldinni (1906)16 hafði hann meiri áhuga á hagfræði Adams Smith, jafnaðarstefnu Marx, frjálshyggju og kven- réttindastefnu Mills og þróunarkenningu Darwins en á þeim Kant, Hegel og Nietzsche sem hugleiddu hin hinztu rök.

Um sama leyti og Yfirlit Ágústs kom út barst hingað guðspeki, í okkar skilningi á því orði fremur en Finns. Hún kom albrynjuð austurlenzkum vísdómi. Skáld eins og Jakob Smári og Þórbergur upptendruðust af henni. Þess má geta að í minningum sínum segist Halldór Kiljan hafa orðið afhuga heimspeki fyrir lífstíð á því að lesaSögu mannsandans.17 En guðspekin nýja náði nokkrum tökum á honum í kraftiBókarinnar um veginn sem Jakob Smári var annar þýðandinn að.18 Og svo var Helgi Pjeturss. Halldór varð ekki svo afhuga heimspeki að hann hellti sér ekki á efri árum út í Helga. Það gerði hann í Kristnihaldi undir Jökli.

Um þessar mundir stóð á hátindi ferils síns eina heimspekilega skáldið sem Ísland hefur átt: Einar Benediktsson, barmafullur af líkingum, sem hann sótti ýmist í eðlisfræði eða í bragfræði, um hin hinztu rök.19 Einar á sér enga fyrirrennara og enga fylgjendur í íslenzkri bókmenntasögu. Íslendingar hafa ekki verið mjög iðnir við að lesa önnur kvæði hans en þau fáu sem helzt svipar til kvæða annarra skálda. Þeir hafa samt kosið að reisa af honum myndastyttu, setja mynd hans á peningaseðil og skrifa ævisögu hans í þykkum bindum og margar bækur aðrar sem fjalla allar um hann en ekki um kvæðin. Á sokkabandsárum mínum gat þó oft að hitta á öldurhúsum í Reykjavík tvo drykkfellda viðskiptajöfra og athafnamenn, Ásbjörn Ólafsson heildsala og Bensa á Vallá sem átti steypubíla og steypustöð sem enn er til undir hans nafni. Þeir Ásbjörn og Bensi kunnu Einar allan utan bókar, og vissu ekkert skemmtilegra á börum en að fara með hann fyrir aðra. Eftir því sem ég komst næst var það heimspeki Einars sem höfðaði til þeirra, þótt þeim þætti orðkynngin ekki spilla.

Símon Jóhannes Ágústsson prófessor kynntist Einari á námsárum sínum í París.20Þá var Einar gamall maður. Hann las mikið, og næstum eingöngu alþýðlegar bækur um eðlisfræði, stjörnufræði og heimsfræði. Hann talaði um þær, brennandi í andanum, við íslenzku stúdentana í borginni. En stundum þegar þeir komu til hans á hótelið var hann að lesa í orðabók Fritzners yfir íslenzkt fornmál, þremur vænum bindum. Þá talaði hann ekki við neinn. Allir sáu að hann var að yrkja.21

Í þessari íslenzku heimspeki sem var að byrja að verða til snerist allt um hin hinztu rök: alheiminn, mannssálina, veruleikann. Stundum um guðdóminn. Bara stundum. Það var eins og margir hefðu fengið sig fullsadda af honum í Helgakveri.

§9 Fyrstu kynni mín af heimspeki

Ég hef sagt frá því áður,22 en vildi samt mega nefna það núna, að ég kynntist heimspeki fyrir hlálega tilviljun. Ég var fluttur upp um bekk á miðjum vetri í gagnfræðaskóla, þrettán ára, og þurfti þá að lesa í einum rykk hálfs vetrar byrjendaefni í ensku til að ná bekkjarsystkinum mínum. Afi minn Vilmundur Jónsson var svo vænn að segja mér til. Fyrsta kennslustundin hjá honum, seint á jólaföstu 1955, hófst á því að hann fór með enska vísu og sagði mér að skrifa hana eftir sér. Það var villa í næstum hverju orði sem ég skrifaði. Þá var enska ekki allt í kringum mann eins og núna, og ég hafði naumast séð enskt lesmál þótt ég væri fluglæs á dönsku og bærilega læs á þýzku. Afi leiðrétti vísuna með rauðu, lét mig skrifa hana rétta og sagði svo: „Nú geturðu skrifað ensku. Þá er að lesa hana.“ Mig minnir að valið hafi staðið milli leikrits eftir Bernard Shaw og lítillar bókar eftir Bertrand Russell. Sú heitir The Problems of Philosophy (Gátur heimspekinnar). Hún varð fyrir valinu án þess að ég réði miklu um það að mér finnst. Ég lærði mína fyrstu ensku á því að stauta mig í gegnum hana.

Vísan var svona:

Whatever you do Do with your might. Things done by half Are never done right.

Hefði leikrit Shaws orðið fyrir valinu hefði ég áreiðanlega orðið eitthvað allt annað en heimspekingur þegar þar að kom. En Russell náði tökum á mér. Sýnd og veruleiki, að þekkja og að vita, eilífar frummyndir, jafnvel dulhyggjan um einingu hugar og heims sem bókin endar á og kallar hina hæstu hamingju. Hin hinztu rök.

§10 Heimspekin í Reykjavík

Það var ekki í mörg hús að venda í Reykjavík árið 1956 fyrir þrettán ára strák með grillur um heimspeki. Það var að vísu hægt að lesa Sögu mannsandans sem nú var komin í nýrri útgáfu en ófullgerðri. Ágúst dó frá henni. Tvær af bókum Russells voru til í þýðingum, Uppeldið sem Ármann Halldórsson námsstjóri þýddi 193723 ogÞjóðfélagið og einstaklingurinn í þýðingu Sveins Ásgeirssonar hagfræðings frá 1951. Þrettán ára strákur hefur ekki mikinn áhuga á uppeldismálum, og ég hafði lítinn áhuga á þjóðfélagsmálum líka. Við skulum segja að ég hafi fengið nóg af hvorutveggja í uppvextinum.

Það lifði enn í einhverjum glæðum í Guðspekifélaginu. Og hjá Nýalssinn- um og Sálarrannsóknafélaginu. En það eina sem munaði um í heimspekiáhuga á Íslandi um miðja öldina var marxisminn. Hjá Ásgeiri Blöndal Magnússyni sem hafði skrifað bók um hann,24 hjá Birni Franzsyni, sem samdi Efnisheiminn og deildi við Sigurð Nordal um líf og dauða,25 hjá Brynjólfi Bjarnasyni sem var nýbyrjaður að birta heimspeki sína á bókum.26 Þjóðviljinn hafði um skeið fastan dálk um díalektíska efnishyggju. Ég kom einu sinni á sellufund til Ásgeirs Blöndal í Tjarnargötu 20, flokksheimili Sameiningarflokks alþýðu, og reyndi að standa uppi í hárinu á honum um frummyndakenninguna sem ég vissi náttúrlega allt um úr Gátum heimspekinnar. En annars lét ég mér nægja að lesa þessa karla. Eitt af mörgu eftirtektarverðu um þá alla var að þeir höfðu miklu meiri áhuga á hinum hinztu rökum en á nokkrum þjóðfélagsmálum. Meira að segja Brynjólfur sem var þó stjórnmálamaður að ævistarfi: flokksforingi í áratugi, alþingismaður og ráðherra. Í heimspekibókum hans sér þess naumast stað.

Ég átti eftir að kynnast Brynjólfi allvel. Hann nefndi ekki stjórnmálin, starfsmálin né heimsmálin í mín eyru. Nema einu sinni. Þá höfðum við farið í Stjörnubíó og séð A Man for All Seasons, stórmynd um ævi og dauða heilags Tómasar More. Með hlutverk dýrlingsins fór Paul Scofield. Orson Welles lék Wolsey kardínála ef ég man rétt.

Myndin snart Brynjólf djúpt. Ég hafði aldrei séð hann snortinn fyrr. Hann keyrði mig heim, og í jeppanum á leiðinni og fyrir utan húsið heima hjá mér talaði hann um hlutskipti píslarvotta og byltingarhetja af ríkri innlifun. Ég sagði fátt. Til þess tíma vorum við kunningjar. Eftir þetta fannst mér að við værum vinir.

§11 Guð í syndinni

Eftir að heimspekin nam land á Íslandi fyrir hundrað árum komu hin hinztu rök, sem hún reynir að skilja, miklu víðar við sögu en hjá Einari Ben eða hjá guðspekingum og marxistum. Í Íslenzkum aðli segir Þórbergur svo frá sumrinu 1912:

Einar H. Kvaran hafði þá nýlega slöngvað út spakmæli í einni af sögum sínum, sem læsti sig um allar byggðir landsins eins og kitlandi danslag: „Guð er líka í syndinni.“ Hingað til hafði flekklaus almúginn gert sér að góðu að skipta tilverunni í tvö hólf eins og atkvæðakassa í góðtemplarastúku … Flekklaust líferni var frá Guði, syndin frá Djöflinum. Þar með klappað og klárt. Þetta var svo óbrotin til- vera, að menn þurftu ekki að kunna að leggja saman tvo og tvo til að yfirstíga karla eins og Einstein í alheimsspekinni. Það var svo leikandi einfalt á þessum tímum að skilja út í yztu æsar leyndardóma alheimsins, meðan hugsunin var óflekkuð af saurgun þekkingarinnar. Ýmsum, sem ekki töldu sig til svartasta almúgans, var þó farin að finnast þessi djöflakenning nokkuð þröngskorin fyrir athafnasvigrúm einstaklingsins, og þeim hafði tekizt að róa sig með hagkvæmari heimspeki, er þeir orðuðu á þessa leið: „Það er enginn djöfull til nema í manninum. Það er ekkert helvíti til nema vond samvizka.“ Og „vond samvizka“ var á þessum árum hvorki sérlega algengur né tiltakanlega kvalafullur kvilli. En nú höfðu æðri sem lægri fengið að vita, að syndin svo nefnda stafaði hvorki frá illu innræti mannsins né vélabrögðum Andskotans, heldur var Guð sjálfur í syndinni. Að syndga var með öðrum orðum Guðs vilji.

Þetta opnaði margri leitandi sál óvænt útsýni yfir krókaleiðir breytninnar… Og margir báru lotningu fyrir einurð þeirrar sannleiksástar, sem áræddi að segja og það á prenti annað eins og þetta: „Guð er líka í syndinni.“27

§12 Lífsspeki sem áttaviti

„Það var feiknalegur álitshnekkir fyrir heimsstyrjöldina miklu að hafa ekki vit á skáldskap,“ segir Þórbergur. Litlu síðar bætir hann við: „Á þessum árum þótti ungum mönnum það ruddaskapur við siðfágun lífsins að beita það ofbeldi þekkingar eða raka.“28 Allt um það kemur þar sögu hans í Íslenzkum aðli að hann segir við vin sinn Stefán frá Hvítadal sem hafði sakað hann um leirburð:

Ég hef aldrei ætlað mér að verða skáld. Mig hefur meira að segja aldrei langað til að verða það… Ég tæki mér það miklu nær, ef einhver, sem vit hefði á, segði, að ég væri lélegur lífsspekingur… Lífsspekin er réttur skilningur á lífinu. Og réttur skilningur á lífinu er nauðsynlegur áttaviti fyrir rétta breytni.29

Lífsspekin sem er áttaviti fyrir rétta breytni þarf ekki að koma hinum hinztu rökum hið minnsta við. Setningin „Guð er líka í syndinni“ varðar hin hinztu rök. Hún er enginn áttaviti. Hún leysir mann kannski úr viðjum reglna, eins og Þórbergur ýjar að, en setur engar nýjar. Orðalag Þórbergs er óaðfinnanlegt: hún opnar útsýn yfir krókaleiðir breytninnar.

Lífsspekin sem áttaviti varð með tímanum nokkuð umsvifamikil á Íslandi, til dæmis í ritum Sigurðar Nordal og Þórbergs sjálfs. Báðir áttu til að krydda hana með jóga og fleiri fræðum úr Austurvegi, einkum Þórbergur. Einn ang- inn af þessari hefð, sem Sigurður og Þórbergur voru þó alveg ósnortnir af, er hin skamma saga mannbótafræðinnar í landinu, til dæmis í Vandamálum mannlegs lífs I-II eftir Ágúst H. Bjarnason30 frá stríðsárunum og Mannbótum Steingríms Arasonar frá 1948.

Svo vill til að Gagnfræðaskólinn við Hringbraut, sem varð til þess óviljandi að ég lasGátur heimspekinnar eftir Russell, verðlaunaði mig eftir unglingapróf um vorið meðMannbótum Steingríms. Þar las ég meðal annars að Elsworth Huntington, prófessor á Yale, segi í bók sinni The Character of Races að kynstofn Íslendinga hafi verið úrval þegar fyrir landnámstíð. „Hér við bætist sú skoðun Huntingtons,“ segir Steingrímur, „að íslenzkt loftslag sé hið ákjósanlegasta til mannbóta… [Til] andlegra starfa telur hann beztan 40° hita á fahrenheit, eða tæp 5° á selsíus, en það er ekki fjarri meðalhitanum í Reykjavík.“31 Hér skellti þrettán ára strákur upp úr.

Má ég heldur biðja um hin hinztu rök þótt það sé að sjálfsögðu leikur einn að gera þau hlægileg líka.

§13 Hinztu rök aftur

Ég hef getað talað hér um hin hinztu rök eins og ekkert sé, þó að ég hafi að vísu nefnt fáein dæmi þeirra: alheim og veruleika, sýnd og reynd, að þekkja og að vita. Ég er ekki viss um að íslenzku orðin „hin hinztu rök“ verði þýdd á ensku með góðu móti. Ef ég talaði um „the ultimate grounds of existence“ mundi hver einasti enskumælandi maður spyrja hvað í ósköpunum ég ætti við. Þjóðverja mundi kannski ekki svelgjast á orðunum „Urgründe des Seins“. En mig grunar að hann mundi skilja þau einhvern veginn allt öðru vísi en við skiljum „hin hinztu rök“ vandræðalaust.

Ég held að íslenzkir heimspekingar í samtímanum mundu flestir hika við að nota orðin „hin hinztu rök“ um efni fræða okkar. Ég líka við venjulegar aðstæður. En samt verð ég að kannast við að eina heimspekin sem skiptir mig máli er, eins og fyrir næstum fimmtíu árum, sú sem glímir við hin hinztu rök.

Á vormisseri 2004 hélt ég málstofu um þjóðarétt Johns Rawls. Nú hef ég áhuga á heimsmálunum eins og hver annar. Ég hef lagt mig ofurlítið eftir rétti stríðs og friðar og lesið mér til með hryllingi um örbirgð, fáfræði, hungur og sjúkdóma víða um heim. Samt finnst mér annað en allt þetta skipta mestu: það er glíma Rawls við að finna mannréttindum stað í veröldinni án þess að gera þau að guðs gjöfum eða náttúrlegum réttindum. Sú glíma skiptir mig ekki mestu vegna þess að með þessu móti markar Rawls sér sérstakan bás í hugmyndasögunni, en sá sögulegi bás held ég að sé mikilsvert hugðarefni hans. Heldur vegna hins að þar glímir Rawls við hin hinztu rök allrar siðfræði og stjórnspeki, réttlætingu frumhugtaka eins og réttinda og frelsis og stað þeirra í lífinu. Í veruleikanum. Þetta eru kaupin.

Hitt er kaupbætir að maður öðlast kost á sálufélagi við heilagan Tómas, Descartes eða Kant. Og lærir svolitla hugmyndasögu. En stundum er enginn leikur að glæða eða efla skilning stúdenta á þessum hinztu rökum þótt þeir séu allir af vilja gerðir til að fræðast um stríð og frið eða ríkidæmi og örbirgð. Eða um þá Tómas, Descartes og Kant.

Ég hef skrifað þó nokkuð um líkingar, og næsta vetur á ég að taka þátt í málstofu í íslenzku, hjá Bergljótu Kristjánsdóttur, um þær. Ég veit ekki hvort ég hef mikið að segja sem bókmenntafræðingum þætti merkilegt um líkingar. Ég er hræddur um ekki þótt ég ætli að sjá til. Það þarf æran mann til að afþakka samneyti við Beggu. En sannleikurinn er sá að ég hef alls ekki hugsað og skrifað um líkingar af neinum bókmenntalegum ástæðum, til dæmis ekki vegna þess að ég hef stundum fitlað við kveðskap sjálfur. Ég hef áhuga á þeim af þeirri einu ástæðu að mér virðast þær vera dæmi um sköpun. Sköpun er í flokki hinna hinztu raka.

Allt árið 2003 fékkst ég mest við smættir í vísindaheimspeki.32 Þær varða meðal annars vísindatrú. En ég hugsa ekki um smættir vegna þess að þá geti ég atazt í henni. Samt er vísindatrú afar mikilsvert málefni. Wittgenstein hélt hún væri voðalegasti vandinn í allri okkar menningu á síðustu tímum. Kannski eru orðin „saurgun þekkingarinnar“ og „ofbeldi þekkingar eða raka“ heimssöguleg fyndni hjá Þórbergi. Við þetta bætist að ef einhver rauður þráður er í íslenzkri heimspeki síðustu hundrað ára þá er sá þráður vísindatrú í einhverri mynd. Hjá Einari Ben, Ágústi H. Bjarnasyni, Helga Pjeturss og Sigurði Nordal. Í andatrú, marxisma og mannbótafræði.

Ég hef ekki áhuga á smættum af því að ég vilji andæfa vísindatrú þótt það væri sannarlega þarft verk. Ég glími við þær, eins og við líkingar, af því að þær varða sköpun. Í máli, mannlífi og öðru jarðlífi, í alheimi. Sköpun virðist að ýmsu leyti ósamrýmanleg smættum. Ef mannsheilinn er bara tölva – sem er ein smættarhyggjan um hann – virðist hann að einhverju leyti ekki vera skapandi líffæri. Eins og ég sagði er sköpun í flokki hinna hinztu raka.

§14 Ósagt enn

Síðustu þrjátíu árin hefur heimspeki eflzt mikið á Íslandi, með kennslu og skriftum og stúdentalífi, eins og ég reyndi að lýsa lauslega í upphafi máls míns. Þótt ég hafi átt svolítinn hlut að því veit ég, eins og ég er búinn að kannast við, fátt um raunverulegan áhuga Íslendinga á heimspeki í þessa þrjá áratugi eða á okkar dögum. Ég veit ekki vel hvers eðlis hann er hjá starfssystkinum mínum, nemendum okkar, félögum í Félagi áhugamanna um heimspeki, né hjá þeim sem kaupa eða lesa það sem við skrifum. Ég verð því að láta allt ósagt um hann.

Ég hef í staðinn reynt að rekja hver áhuginn var áður fyrr, eftir því sem ég kemst næst. Svo er ég nokkuð viss um minn.33

Skaftfelli á Seyðisfirði

18da–23ðja júní 2004

Tilvísanir

1. Sbr. Sigurð Nordal: „Háskólabyggingin nýja“ í List og lífsskoðun III, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1987, 220–223. Úr Tímariti Máls og menningar 1940 en þá var byggingin vígð.

2. Sálarfræðin ein er merkjanlega fjölsóttari en allar þessar greinar: með 250–300 innritaða stúdenta á hverjum tíma frekar en 150–200 eins og hinar. (Ath. að innritunartölur sýna ekki fjölda virkra stúdenta. Nú er nýfarið að halda bókhald yfir þá, en það er ekki aðgengilegt á einum stað fyrir einstakar greinar.) Heimild: skýrslur nemendaskrár.

3. Í Stokkhólmi er hún svolítið fjölsóttari, án þess þó að ná okkur hér. Þá er þess að gæta að heimspeki er skyldugrein í sænskum menntaskólum sem þurfa kennara. Það er hún ekki á Englandi eða í Danmörku. Frekar en hér. Heimildir: staðtölur frá Alþjóðaskrifstofu Háskólans.

4. Ágizkun því að engar tölur eru aðgengilegar á einum stað. Haustið 2003 fjölgaði stúdentum í heimspeki mikið (úr um 40 í rúmlega 60 í inngangsnámskeiðum á fyrsta ári). Þegar þetta er skrifað sumarið 2004 er ekki vitað hvort þessi fjöldi á eftir að halda tryggð við greinina. Né heldur hvort nýstúdentar haustið 2004 verði jafnmargir og þeir voru 2003. Innritunartölur sem fyrir liggja þurfa ekki að sýna fjölda virkra stúdenta eins og fram kemur í neðanmálsgrein 2.

5. 11 árið 2000, 13 1999 og 22 1998. Sambærilegar tölur í íslenzku eru 10, 20 og 26, í sagnfræði 22, 11 og 17 og í stjórnmálafræði 26, 16 og 28. (Tínt saman í flýti úr ársskýrslum Háskólans.)

6. Að sögn Gunnars Svensson í Stokkhólmi og Mats Furberg í Gautaborg.

7. Sbr. Þorstein Gylfason: „Sannleikur“ í Er vit í vísindum? Háskólaútgáfan, Reykjavík 1996.

8. Alls sóttu um 1500 manns lestrana. Sjá formála ritstjóranna að Af líkama og sál, Reykjavík 1993.

9. Andri Steinþór Björnsson, Torfi Sigurðsson og Vigfús Eiríksson (ritstjórar): Er vit í vísindum?, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1996.

10. Einar Logi Vignisson og Ragnar Helgi Ólafsson gerðu þessa könnun á högum um 100 heimspekinga 1992, með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Niðurstöðurnar voru aldrei birtar, en eru til í handriti.

11. Sigurður Nordal: Íslenzk menning, Mál og menning, Reykjavík 1942, 13.

12. Finnur Jónsson: Ágrip af bókmenntasögu Íslands II, Fylgikver Þjóðólfs, Reykjavík 1892, 84.

13. Sigurður Nordal: „Finnur Jónsson sjötugur“ í Mannlýsingum III, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1986, 146.

14. Brynjólfur Bjarnason: „Svar við spurningu um lífsskoðun“ í Lögmáli og frelsi, Heimskringla, Reykjavík 1970, 149.

15. Halldór Kiljan Laxness: Heiman eg fór, Helgafell, Reykjavík 1956, 13.

16. Ágúst H. Bjarnason: Yfirlit yfir sögu mannsandans: Nítjánda öldin, Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar, Reykjavík 1906.

17. Halldór Laxness: Úngur eg var, Helgafell, Reykjavík 1976, 40.

18. Lao-Tse: Bókin um veginn, Jakob Jóh. Smári og Yngvi Jóhannesson íslenzkuðu, Bókaverslun Guðmundar Gamalíelssonar, Reykjavík 1921. Oft endurprentuð síðan.

19. Sbr. nánar Kristján Karlsson: „Inngangur“ að Ljóðasafni I eftir Einar Benediktsson, Skuggsjá, Bókabúð Olivers Steins sf, Hafnarfirði 1979, einkum 27–34.

20. Símon sagði mér frá þessum atvikum.

21. Um þessar mundir kvað Einar síðasta kvæði sitt sem vitað er af, „Jöklajörð“.

22. Þorsteinn Gylfason: Tilraun um heiminn, Heimskringla, Reykjavík 1992, 20, og Að hugsa á íslenzku, Heimskringla, Reykjavík 1996, 13.

23. Ármann er afi alnafna síns, formanns Félags áhugamanna um heimspeki.

24. Ásgeir Blöndal Magnússon: Marxisminn: Nokkur frumdrög, Heimskringla, Reykjavík 1937.

25. Björn Franzson: Efnisheimurinn, Mál og menning, Reykjavík 1938. Umsögn Björns um Líf og dauða Sigurðar birtist í Tímariti Máls og menningar 3. hefti 1940, 237–243. Svar Sigurðar birtist í næsta hefti Tímaritsins, 1. hefti 1941, 46–65 og síðar sem bókarauki við Líf og dauða í Áföngum I, Helgafell, Reykjavík 1943. Í ritsafni Sigurðar, þeirri deild sem heitir List og lífsskoðun III, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1987, stendur ritgerðin á 139–156.

26. Forn og ný vandamál komu út hjá Heimskringlu í Reykjavík 1954.

27. Þórbergur Þórðarson: Íslenzkur aðall, Bókaútgáfa Heimskringlu, Reykjavík 1938, 41–42.

28. Íslenzkur aðall, 56 og 58.

29. Íslenzkur aðall, 217.

30. Ágúst H. Bjarnason: Vandamál mannlegs lífs I-II, Fylgirit með Árbók Háskóla Íslands 1937-1938 og 1938-139, Reykjavík 1943–1945.

31. Steingrímur Arason: Mannbætur, Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1948, 22.

32. Þorsteinn Gylfason: „Vísindi, skuld og vals“ í Heimspekimessu: Ritgerðum handa Mikael M. Karlssyni prófessor sextugum, ritstjórar Kristján Kristjánsson og Logi Gunnarsson, Háskólaútgáfan, Reykjavík 2003, 105–122.

33. Kristján Karlsson skáld og annar gamall vinur ónefndur lásu fyrsta handritið að ritgerðinni í marz 2004 (fyrirlesturinn af Kaffi Sólon frá 17da marz), ræddu það við mig og sögðu mér til. Á Seyðisfirði í júní 2004 litu vinir mínir Jón Laxdal Halldórsson og Sigurður Heiðar Jónsson yfir endursamið handrit. Ég þakka öllum fjórum.

« Til baka