Otto Weininger og Vínarborg um aldamótin 1900

Hugleiðing um módernisma

eftir Halldór Guðmundsson

Ótrúlega margt úr sjálfsmynd Vesturlandabúa má rekja aftur til þess nýja mannskilnings sem mótast samhliða svonefndum módernisma í bókmenntum og listum í kringum síðustu aldamót. Því hefur verið haldið fram að á þeim tíma hafi evrópskir menntamenn tekið skrefið frá því að álíta manninn öðru fremur skynsama og rökbundna veru, til þess að telja hann leiksopp sálrænna afla sem hann hafi ekki nema mjög takmarkaða stjórn á. Og víst er að efinn um sjálfsvitundina, sem var samstiga takmarkalausri sjálfskönnun hjá stórum hópi lista- og menntamanna á þessum tíma, hefur fylgt okkur allar götur síðan. Á síðustu árum hefur eflst sá straumur meðal evrópskra menntamanna sem heldur því fram að einnig mannsýn módernismans hafi verið tálsýn, full af blekkingum um sjálfsveru mannsins og möguleika hans til að öðlast sanna vitund um sjálfan sig með hjálp tungumálsins. Við erum ekki bara leiksoppar sálrænna afla, heldur öðru fremur fangar í tugthúsi tungumálsins, dæmd til lífstíðar án þess að geta sótt um náðun. Einu skynsömu viðbrögðin eru að hafna allri skynsemi, hætta að telja okkur trú um að við getum höndlað umheiminn með hjálp mannlegs máls. Upp er runnin tíð hins póstmóderníska blaðurs.

Raunar voru margir módernistar aldamótanna ekki langt frá þessum þankagangi, jafn róttækur og efi þeirra um öll viðtekin verðmæti og allan fyrri sjálfsskilning einatt varð. Einn þeirra var Otto Weininger, höfundur verksins Kynferði og skapgerð(Geschlecht und Charakter), sem varð einhver umtalaðasta bók í Evrópu fyrir 1914, ekki síst vegna þess að höfundurinn framdi sjálfsmorð hálfu ári eftir að hún kom út vorið 1903. Eftir stríð féll Weininger í svo rækilega gleymsku að fæstir hefðu trúað að hann ætti þaðan afturkvæmt, en á síðustu árum er aftur farið að lesa verk hans: það hefur verið gefið út aftur í Þýskalandi, á Englandi og Ítalíu, þar sem nýja kvenréttindahreyfingin stóð fyrir útgáfu þess. Verk Weiningers er meira en lítið skrýtin lesning núna, og því meiri furðu sætir hversu gífurleg áhrif það hafði á sínum tíma á marga og ólíka lista- og menntamenn, allt frá August Strindberg til Ludwig Wittgenstein (og þeir voru líka til sem lásu verkið eftir fyrri heimsstyrjöld, þar á meðal Halldór Laxness sem fékk það lánað hjá Emil Thoroddsen þegar hann heimsótti Emil í Dresden haustið 1921, og segir af því í Grikklandsárinu).

Áhrif verksins má ekki bara rekja til djarflegra yfirlýsinga höfundar um „stöðu konunnar“, þau eiga líka rætur að rekja til þess að það birtir óvenjuskýrt í öfgum sínum mannssýn þess módernisma sem var að verða til um aldamótin, og þar með líka ógöngurnar sem fylgismenn hans gátu ratað í. Margt í þessu verki kallast á við stefnur í okkar samtíma, vekur upp spurninguna um hvert gagnrýni á skynsemis- og rökhyggju geti leitt. Samt er það líka nátengt staðnum þar sem það varð til: Vínarborg um aldamótin 1900.

Þverstæður Vínarborgar

Fáir hafa betur lýst mannlífinu í Vínarborg á árunum fyrir fyrra stríð en rithöfundurinn Robert Musil í verki sínu Der Mann ohne Eigenschaften (Maður án eiginleika), og er sá kafli sem birtur er í þessu tímaritshefti í þýðingu Þorsteins Þorsteinssonar til vitnis um það. Hafi þetta mannlíf einkennst af einhverju öðru fremur voru það þverstæður. Ein var sú að þótt sótt sé að þessu samfélagi úr öllum áttum og ríkið sem Vínarborg átti að heita höfuðborg í sé að liðast í sundur, láta ráðamenn eins og þeir viti ekki af því og fátt virðist meira aðkallandi en að undirbúa 70 ára krýningarafmæli Franz Jósefs keisara árið 1918. Sá karl var reyndar einhver afturhaldssamasti þjóðhöfðingi álfunnar og hafði komist til valda eftir ósigur byltingarhreyfingarinnar 1848. Franz Jósef byggði upp skrifstofuveldi sem tæpast átti sinn líka utan Rússlands, treysti vald sitt með sérlega íhaldssömum her, beitti ritskoðun óspart og mátt vart á milli sjá hvort hann hataðist meira við lýðræðið eða allar þær tækninýjungar sem litu dagsins ljós um og upp úr aldamótum. Víst er að hann mátti ekki sjá síma, bíla, rafmagn né vatnssalerni, svo einhver dæmi séu tekin.

En Franz Jósef drottnaði ekki yfir neinu hefðbundnu aðalsveldi. Í Vínarborg urðu frjálslynd borgaröfl ráðandi á sjöunda áratug 19. aldar, reyndar ekki af eigin rammleik heldur vegna þess að framsókn Bismarcks hafði veikt fyrri ráðastétt mjög. Þessir borgarar voru öðru fremur skynsamir, siðmenntaðir og ríkir, en veldi þeirra stóð ekki mjög traustum fótum. 1873 varð alvarleg efnahagskreppa sem borgarbúar voru lengi að jafna sig eftir, velmegunin virtist standa á brauðfótum. Borgarastéttinni tókst heldur ekki að móta stjórnkerfið varanlega og koma á neinu alvörulýðræði. Virðulegir borgarar stóðu ráðalausir andspænis þeirri róttæku þjóðernisstefnu sem naut æ meira fylgis meðal hinna mörgu þjóða og voru síst úrræðabetri andspænis nýju fjöldahreyfingunum sem voru að ryðja sér til rúms í stjórnmálum ríkisins laust fyrir aldamót. Aðeins eitt sameinaði borgarastétt Vínar og það var aðdáun á fögrum listum. Þar var að finna þau eilífu verðmæti sem reyndist svo erfitt að móta þjóðfélagið í heild eftir.

Þegar dæmigerður kaupsýslumaður í Vínarborg kom heim að kvöldi frá verslun sinni sneri hann anda sínum til fagurra lista, hugaði að tónlist, bókmenntum, málaralist eða byggingarlist. Gömlu borgarmúrarnir voru horfnir og í staðinn komin mikil breiðgata, Ringstrasse, sem umlukti allan miðbæinn. Við þessa götu risu á síðari hluta 19. aldar miklar menningarhallir og listar, Burgleikhúsið, háskólinn, þinghúsið, ráðhúsið, óperan, allt feiknalegar byggingar þar sem mætast skyldu aldagömul hefð aðalsins og menningarsókn hinnar nýju borgarastéttar. Innan þessa hrings bjuggu best settu borgararnir börnum sínum einstök menningarheimili. Sú gamla tugga, að dýrkun menningar og listar geti falið í sér flótta frá pólitískum verkefnum, hefur sjaldan átt betur við en um borgarastétt Vínar á síðari hluta 19. aldar. Borgin hafði vaxið gífurlega á þessum tíma, verkafólk flykktist hvaðanæva að úr þessu víðfeðma ríki og settist að í ömurlegum bústöðum í úthverfunum. Óleyst þjóðernis- og stjórnunarvandamál ríkisins urðu æ viðameiri og illviðráðanlegri, fjöldahreyfingar af smáborgaralegu tagi litu allt öðru vísi á stjórnmál en áður hafði tíðkast í landinu. Bak við allan þann siðfágaða formalisma sem einkenndi borgaralega menningu Vínar leyndist sívaxandi upplausn og óreiða, sem ráðandi öfl neituðu að horfast í augu við. Gott dæmi um þessa hræðslu við raunveruleikann voru viðbrögð borgara í Vín við þeirri fáheyrðu ósvífni austurrískrar verkalýðshreyfingar að ætla að efna til kröfugöngu 1. maí 1890. Geysilegar öryggisráðstafanir voru gerðar og heiðvirðir borgarar lokuðu börn sín inni á heimilunum svo þau yrðu ekki vitni að þessum ósköpun, eins og Stefan Zweig segir frá í bók sinni Veröld sem var. Samt gat ekki kurteisari menn en austurríska sósíaldemókrata og gangan öll fór einstaklega prúðmannlega og friðsamlega fram. Hefðu frjálslyndir borgarar einhvers staðar getað fundið bandamenn – ef þeir hefðu ætlað sér að takast á við vandamál þessa samfélags – þá var það í austurríska sósíaldemókrataflokknum, en leiðtogi hans Viktor Adler var persónugerving hins frjálslynda húmanisma.

Því sem nær dró aldamótum, því meira óx bilið milli viðurkenndrar hugmyndafræði og raunverulegra athafna, milli orðs og æðis í þessu ríki. Hræsni var öruggasta leiðin til metorða á síðustu áratugum Habsborgaraveldisins, og hörðustu gagnrýnendur samfélagsins beindu spjótum sínum öllu öðru fremur gegn henni: Þar má nefna blaðamanninn Karl Kraus, lækninn Sigmund Freud og rithöfundinn Arthur Schnitzler. Í raun voru þetta synir að rísa upp gegn feðrum, afkvæmi þeirra vel stæðu borgara sem byggt höfðu Ringstrasse snerust gegn hugmyndafræði feðra sinna. En andófið var ekki pólitískt í eiginlegum skilningi, það birtist öðru fremur á sviði listarinnar og gat af sér nýstefnuna, módernismann. Hin nýja kynslóð í borgarastétt Vínar leit öðru vísi á listina en sú eldri:

Kynslóð Gründer-tímans (þriðji fjórðungur 19. aldar, mín aths.) var þeirrar skoðunar að „viðskipti væru viðskipti“ og að listin væri í kjarna sínum skraut (viðskipta)lífsins. Synir þessara manna litu á listina sem eitthvað skapandi og héldu því fram að „list væri list“ og viðskipti þreytandi truflun frá (listrænni) sköpun. Kynslóð Gründer-tímans unni þeirri list sem vegsamaði gildi fortíðarinnar; þessir menn voru safnarar, eða umsjónarmenn þeirra safna sem þeir höfðu gert heimili sín að. List yngri kynslóðarinnar horfði þar á móti fram á við og var nýskapandi, og höfundum sínum var hún þungamiðja lífsins.1

Ekkert minna en fullkomnun

Hvergi var opinber hræsni keisaraveldisins meira áberandi en á sviði kynferðismála. Á kynlífið mátti aldrei minnast og þess vegna voru allir með það á heilanum. Með orðum Stefan Zweig:

Þessi „félagslega siðfræði“, sem undir niðri viðurkenndi tilvist kynhvatanna, en vildi þó með engu móti láta þetta uppskátt, var sjálfri sér ósamkvæm á fleiri en einn veg. Fólk lést ekki sjá, að ungir menn hefðu kynhvatir, en deplaði þó til þeirra auga til merkis um, að óhætt væri „að hlaupa af sér hornin“, eins og það var orðað á spaugsömu fjölskyldumáli. Gagnvart konunni var hins vegar um enga slíka tilslökun að ræða.2

Kynferðismálin var það svið sem mótsögnin milli opinberar hugmyndafræði sem þóttist vera skynsamleg og rökleg, og raunveruleikans hefur verið hvað stærst. Vinsældir Weiningers byggðust ekki hvað síst á því að hann fékkst einmitt við þessi mál. En verk hans var líka liður í uppgjöri æskumanna þessa tíma við borgaralega skynsemishyggju yfirleitt. Menn voru að finna sér ný viðmið og ný átrúnaðargoð, samanber eftirfarandi mynd Zweig frá skólaárunum:

Meðan kennarinn þuldi sinn margtuggna fyrirlestur um „Bernskan skáldskap og tilfinningaskáldskap“ eftir Schiller, lásum við Nietzsche og Strindberg undir borðum, en þeirra hafði hinn frómi öldungur aldrei heyrt getið.3

Innhverf sjálfsskoðun aldamótanna takmarkaðist ekki við ljóðskáld. Miklu stærri hópur menntamanna, sem stóð utan ráðandi hóps í samfélaginu, tók þátt í því sem bandaríski sagnfræðingurinn Carl Schorske hefur kallað atlöguna að hinum skynsama manni, „sem varð að víkja fyrir þessu ólíkt innihaldsmeira, en hættulegra og þokukenndara kvikindi, hinum sálfræðilega manni.“4 Það liggur við að hægt sé að fylgja þessari þróun í verki Weiningers um kynferði og skapgerð, því það skiptist í tvo hluta, þar sem sá fyrri hefur yfir sér miklu sálvísindalegra yfirbragð, á meðan háspekilegar hugsanir Weiningers um tilgang konunnar og tilverunnar yfirleitt setja svip sinn á seinni hlutann.

Aðferð Weiningers er andsöguleg, og hann telur kenningar sínar byggjast á óbreytanlegum forsendum tilverunnar. Hann ætlar sér að hreinsa til í umræðu sem var þó, eins og hún þá var, mjög tengd þessu söguskeiði, nefnilega umræðunni um stöðu konunnar og jafnrétti kynjanna. Weininger byrjar á því að búa til tvær hreinræktaðar manngerðir, eins konar frummyndir: Karl (Mann, M) og konu (Weib, W). Hann fullyrðir að allt raunverulegt fólk sé í líffræðilegum skilningi eins konar blanda af þessum manngerðum, margir karlmenn t.d. samsetningur á borð við 3/4M + 1/4W. Það sem hann svo segir í bókinni um konuna almennt á semsé við þessa frummynd en ekki allar núlifandi konur.

Annan mikilvægan fyrirvara verður að hafa um kenningar Weiningers. Háspekilegar niðurstöður hans hafa ekki í för með sér tilteknar samfélagslegar athafnir, og hér sver hann sig í ætt við þá borg sem hann ólst upp í. Þrátt fyrir það sem hann segir um skelfilega eiginleika konunnar er hann til dæmis fylgjandi fullu jafnrétti kynjanna að lögum: „Í þessu verki, þar sem reynt er að brjóta til mergjar umræðuna um stöðu konunnar, er fremur sett spurningarmerki við þá þrá konunnar, að verða eins og karlmaðurinn er í innsta eðli sínu“5, sem er reyndar gagnrýni á hefðbundna jafnréttisbaráttu sem einnig hefur heyrst innan nýju kvenréttindahreyfingarinnar. Sama djúp er staðfest milli almennrar kenningar og raunverulegrar löggjafar í umræðu Weiningers um gyðinga og hlutverk þeirra, en þar gætir mjög and-semítískra viðhorfa (þótt Weininger hafi verið gyðingur sjálfur).

Það er trú Weiningers að greining hans á frummyndum karls og konu eigi ekki bara við líffræðilega, heldur líka á sviði „skapgerðarfræða“, sem honum þykja ólíkt merkilegri fræði en hin nýja empíríska sálfræði, sem hann kallar „handfanga- og skrúfjárnasálfræði“, og gagnrýnir þar hefðbundna borgaralega skynsemistrú einsog fleiri samtíðarmenn hans. Þegar Weininger er kominn svona langt fer smám saman að færast fjör í leikinn. Hann fullyrðir nú og leiðir að því rök, að vitund konunnar (W) sé allt öðru vísi upp byggð en vitund karlmannsins. Höfuðatriðið í því sambandi er að Weininger álítur að konan geti ekki haldið hugsunum og tilfinningum aðskildum. Þess vegna skortir hana hæfileika karlmannsins að geta skapað form og reglu úr óreiðunni (og aftur geta fulltrúar nýju kvennahreyfingarinnar tekið undir með Weininger út frá öðru gildismati, lesið hann með öfugum formerkjum).

Konuna skortir ennfremur hæfileikann til röklegrar hugsunar, hún getur ekki greint hlutina að, og þess vegna takmarkast minni hennar við líkamlega hluti, kynlíf og fæðingar. Hún gerir sér ekki nema mjög takmarkaða grein fyrir tímanum. „Viljinn til að öðlast verðmæti“ er aftur á móti æðsta prýði karlmannsins, og hann Weininger í stað „viljans til valdsins“ sem Nietzsche hafði skrifað um. Karlmaðurinn (M) hefur hæfileikann til að skapa form, gefa hlutunum einhverja mynd: „Maðurinn er formið, konan hráefnið“ segir Weininger. Og fullkomnasta mynd mannsins er skilningurinn:

Snillingurinn birtir okkur eiginlega frummynd mannsins. Hann segir okkur hver maðurinn er: Hugvera, sem á sér allan heiminn að viðfangi, og slær því föstu um ókomna tíð.6

Hér tengist Weininger mörgum listamönnum aldamótamódernismans, og má nefna Strindberg sem dæmi. Höfnun ríkjandi hugmyndafræði, tæknihyggju og skynsemistrú, fylgir bæði sálræn sjálfskönnun og mikilmennskubrjálæði, eða í það minnsta einkar sterk fullkomnunarþrá. Og þeirri þrá fylgir um leið sterk einsemdartilfinning: „Maðurinn er algerlega einn í alheiminum, í eilífri, óhugnanlegri einsemd“7 segir Weininger.

Konuna skortir þessa einsemd, hún er allraf hluti af heiminum, af því hún er ekki einstaklingur í sömu merkingu og karlinn, hún á sér ekkert eiginlegt sjálf: „engan persónuleika og ekkert frelsi, enga skapgerð og engan vilja“8. Konan er líkamleg og jarðnesk, en um leið algerlega siðlaus vera. Hin tvískipta kvenmynd margra aldamótahöfunda, sem sáu konuna annað hvort sem mellu eða guðsmóður, setur líka svip sinn á Weininger. Stefan Zweig hefur að vísu bent á að þessi kvenmynd átti sér vissar efnislegar forsendur hjá ungum mönnum þessa tíma. Kynlíf meðal fólks af jafnháum stigum var algerlega bannfært þar til eftir hjónaband, en ungir menn máttu ekki kvænast fyrr en þeir höfðu komið sæmilega undir sig fótunum. Í þjóðfélagi sem vantreysti æskunni jafn rækilega og austurríska keisaradæmið þýddi það að langt fram eftir aldri þekktu yngri karlmenn aðallega tvær gerðir kvenna: Móður sína og svo mellurnar, sem margir þeirra leitiðu útrásar hjá en óttuðust þó vegna kynsjúkdómanna. Kannski er hér ein af skýringum þess hversu lífseigur þessi tvískipti kvenskilningur hefur orðið í bókmenntunum og myndlist þessa tíma.

Weininger gefur reyndar ekki mikið raunverulega móðurást og hallast þá heldur að mellunum því þær sigla ekki undir fölsku flaggi. Hins vegar viðurkennir hann þá fegurð sem fólkgin er í tilbeiðslu guðsmóðurinnar eða ástinni á Beatrice. Þetta er eins konar þróuð aðferð karlmannsins til að elska sjálfan sig, eða eins og hann segir í annarri bók sem út var gefin að honum látnum, Über die letzten Dinge (Um hin hinstu rök):

Karlmaðurinn færir sinn betri mann, allt það sem hann vill elska . . . yfir á konuna og með þessum aðskilnaði reynist honum auðveldara að vilja og þrá ímynd fegurðar, gæsku og sannleika.9

En þessari hugsun má allt eins snúa við og segja sem svo að Weininger færi allt það sem hann vill síst kannast við í eigin sálarlífi yfir á hugmynd sína um konuna (W).

Víkjum nánar að þessu. Eftir því sem meira líður á bókina er eins og Weininger æsist meira og meira upp gegn konunni: „Konan á sér enga tilvist og engan kjarna, hún er ekki, hún er ekkert.“10. Niðurstaða hans verður að maðurinn geti þá aðeins frelsað sjálfan sig og konuna um leið með því að bæla kynhvötina algerlega. Það er einmitt sú hvöt sem gerir konuna að viðgangi mannsins, en samkvæmt þeim skilningi sem Weininger leggur í kantíska siðfræði er slíkt siðlaust, því þá er ekki litið á manneskjuna sem markmið í sjálfu sér, heldur einungis verkfæri til að öðlast eitthvað annað. Þótt fullkomin afneitun kynlífs þýði í raun að mannkynið deyi út harmar Weininger það ekki. Því markmiðið er að maðurinn verði algerlega fullkominn og þar með guðdómlegur, og jarðnesk tilvist hans er honum bara fjötur um fót í þeirri viðleitni.

Því er þetta rakið að kenningar Weiningers um konuna má allt eins skoða sem aðferð til að hugsa og fjalla um eitthvað annað en afstöðu kynjanna innbyrðis. Í fyrsta lagi er eins og Weininger gangi út frá aðskilnaðinum sem var milli yfirlýstra siðferðilegra gilda og raunverulegrar hegðunar í því samfélagi sem hann bjó við, og nánast fullkomni þennan aðskilnað. Viðmið hans eru hin viðteknu verðmæti en sjálfum sér samkvæmur gerir hann eftirsóknina eftir þeim að fullkomlega óframkvæmanlegum draumi. Í öðru lagi verður konan hjá honum, rétt eins og hjá Strindberg, öðrum þræði tákn hvatalífsins, hins líkamlega og jarðneska sem reynist fullkomnunarþrá þeirra óyfirstíganleg hindrun. Í konunni hötuðu þessir menn eigin breyskleika, sem stóð í vegi fyrir því að þeir næðu fullkomnuninni sem þeir stefnu að.

Loks má leiða að því rök að þegar Weininger er að skrifa um konuna sé hann öðrum þræði að skrifa um það svið, sem samtímamaður hans í Vínarborg var að „uppgötva“ á sama tíma, undirmeðvitundina eða dulvitundina. Sumt af því sem Weininger segir um hvernig hugur konunnar starfi, hvernig hugsun hennar sé háð tilfinningum og líkamlegum skynjunum, minni á umfjöllun Freuds um hugarstarf dulvitundarinnar. Þegar Weininger er að lýsa konunni, er hann því líka að lýsa sínu innra sálarlífi, og þeim hindrunum sem þrá hans eftir fullkomnun þarf að mæta. „Óttinn við konuna“, segir hann á einum stað í Kynferði og skapgerð, „er óttinn við tilgangsleysið: það er óttinn við freistandi hengiflug tómsins.“ Þráin eftir guðdómleik mannsins bar dauðann í sér. Kvenhatur Weiningers er því öðrum þræði sjálfhatur, rétt eins og gyðingahatur hans. Gyðingdómurinn var í hans augum einhvers konar tegundarhyggja, og því versti fjandmaður þeirrar taumlausu einstaklingshyggju sem hann aðhylltist sjálfur. Maðurinn er algerlega einn, og hann verður að leita fullkomnunar einn. Þegar Weininger varð ljóst að hann myndi aldrei ná því marki sem hann hafði sett sér átti hann ekki annars úrkosta en að fremja sjálfsmorð, og það gerði hann í fyrstu morgunskímunni þann 4. október 1903 í því húsi í Vínarborg, þar sem Beethoven dó.

Sjálfskönnun og samfélag

Hvað fól „fullkomnun“ eiginlega í sér að dómi Weiningers og félaga hans? Þð er ekki alltaf ljóst en þó virðist sem snillinginn hafi að þeirra dómi átt að prýða margir þeir eiginleikar, sem feður þeirra höfðu einnig álitið göfugasta. Sjálft gildismatið var ekki gerbreytt, breytingin fólst miklu fremur í því að hinir ungu módernistar tóku gildin alvarlega, voru sjálfum sér samkvæmari. Þeir höfðu fyrir augunum djúpið sem var staðferst milli hugtaka og lífsreynslu í ríkjandi hugmyndafræði austurríska keisaradæmisins, og aðskilnaður lífs og listar varð þeim sérlega hugleikið viðfangsefni (það á til dæmis við um skáldið Hugo von Hofmannsthal).

Ein leið til að brúa þessa gjá var að takast á hendur ferð um víðáttur hins innra sjálfs eins og Weininger kallaði það, í stað þess að einblína á ytri framfarir. Sá hópur höfunda sem kenndi sig við Das junge Wien var fyrst og fremst samhuga um þetta, sem hugmyndafræðingur þeirra Hermann Bahr orðaði svo:

Ég held að það verða að sigrast á natúralismanum með taugaveiklaðir rómantík; eða öllu heldur: með dulmögnun taugakerfisins.11

Knut Hamsun orðaði þá viðleitni sína á ekki ósvipaðan hátt þegar hann var að skrifa Sult. Þessum mönnum virtist hvunndagurinn loginn, sannleikann var að finna innra með þeim sjálfum, og leiðin til hans lá í gegnum listina. Á þessum grundvelli hefja þeir það uppgjör við ríkjandi list á öllum sviðum sem kennt hefur verið við módernisma og sem fæðir af sér sín mikilfengslegustu verk á millistríðsárunum. Ungir myndlistamenn undir forystu Gustav Klimt gera atlögu að innantómum og flatneskjulegum myndverkum akademíunnar. Meðal yngri manna í þessum hópi var líka tónskáldið Arnold Schönberg, sem reyndist ekki lítill byltingarmaður á sínu sviði – einnig hann hafði orðið djúpt snortinn af verki Weiningers. Og því hefur líka verið haldið fram að heimspeki Ludwigs Wittgenstein hafi ekki hvað síst mótast af því að hann ólst upp í Vínarborg aldamótanna og varð vitni að þeim tragíska aðskilnaði tungutaks og lífsreynslu sem var meðal þess sem leiddi Habsborgarríkið til falls. Uppgjör átti sér líka stað á sviði byggingarlistar og fór þar fremstur arkitektinn Adolf Loos („Skraut er glæpur“ eru fræg einkennisorð hans). Þessum mönnum var ekki hvað síst sameiginleg krafan um skilyrðislausan heiðarleika sem algera andstæðu við ríkjandi hugmyndafræði samtímans. Það var þessi heiðarleiki og sannleiksþrá, sem duldist ekki við neinar þær niðurstöður sem komist var að, sem þeir hrifust af í verki Otto Weiningers. Hér var maður sem þorði að takast á hendur ferð í eigið sálardjúp, þorði að gera þá miskunnarlausu sjálfskönnun sem var æðsta boðorð margra aldamótamódernista.

En þessa ferð varð hver og einn að fara einsamall og það er ljóst að uppgjör þessara manna við hugmyndafræði feðra sinna var bæði and-samfélagslegt og and-pólitískt. Þeir neituðu að taka við þjóðfélagslegu verki þeirrar borgarastéttar sem hafði komist til valda í Vínarborg og sú neitun hvíldi oft þungt á þeim. Það er tæpast tilviljun að meðal ungra menntamanna þessa tíma voru líka þeir sem hvað fyrstir komu auga á þýðingu minnimáttarkenndar (Alfred Adler) og Ödipusarduldar (Sigmund Freud) fyrir mannlegt sálarlíf. Og það er engin furða þótt uppgjörið við ríkjandi hugmyndafræði hafi stundum fengið á sig þunglyndislegan, vonlausan blæ. Margir þessara listamanna voru „spámenn án reiði“ einsog sagt hefur verið um rithöfundinn Arthur Schnitzler.

Í vissum skilningi má segja að „verkefni módernismans“, að sameina fullkominn heiðarleik gagnvart eigin hvötum og sálarlífi samfélagslegu starfi, sé enn óleyst. Þannig er sá sósíalismi, sem ekki kann að bregðast við öðrum vanda en efnahagsvandanum litlu betur settur en skynsemishyggja borgarastéttar Vínar um aldamótin. Á hinn bóginn þarf viðurkenning á duldum hvötum sálarlífs og trú á skapandi mátt ímyndunaraflsins ekki að fela í sér afneitun allrar skynsemi og rökhyggju, eins og nú virðist vinsæl kenning. Listamaður sem á sér ekki annað markmið en botnlausa sjálfskönnun í nafni fullkomnunar í anda Otto Weiningers glatar viðmælanda sínum, og þar með missa öll mannleg samskipti merkingu sína þegar allt kemur til alls. Ótti Weiningers við konuna var líka ótti hans við lífið.

Sumarið 1903 ferðaðist Otto Weininger um Ítalíu til að losna undan þeim drunga sem hafði lagst á hann eftir að bók hans kom út. Í bréfi þaðan kallar hann Taormínu á Sikiley einhvern fegursta blett jarðar.12 22 árum síðar sat þar ungur Íslendingur með einglyrni og skrifaði bók sem í senn birti aðdáun hans á þeirri manngerð sem Weininger var fulltrúi fyrir og var uppgjör hans við hana: Vefarann mikla frá Kasmír. En það er önnur saga.

Tilvísanir

1. Alla Janik og Stephen Toulmin: Wittgenstein’s Vienna, New York 1973, s. 45.

2. Stefan Zweig: Veröld sem var, þýð. Halldór J. Jónsson og Ingólfur Pálmason. Rvk. 1958, s. 75.

3. Sama verk s. 43. Heiti á ritgerð Schillers er þýtt öðruvísi.

4. C E Schorske: Fin-de-siècle Vienna, New York 1981, s. 4.

5. Otto Weininger: Geschlecht und Charakter, Wien und Leipzig 1912, s. 80.

6. Sama verk s. 235.

7. Sama verk s. 210.

8. Sama verk s. 267.

9. Otto Weininger: Über die letzten Dinge, Wien u. Leipzig 1912, s. 38.

10. Otto Weininger: Geschlecht und Charakter, s. 388.

11. Hermann Bahr: Die Überwindung des Naturalismus, í Ulrich Karthaus (ritstj.): Impressionismus, Symbolismus und Jugendstil, Stuttgart 1981, s. 124.

12. Über die letzten Dinge, s. XX.

« Til baka