Færslusöfn

Ritdómur um ritdóm um greiningu á greiningu

Um Réttlætið og Derrida eftir Björn Þorsteinsson

eftir Tryggva Örn Úlfsson

Fyrir þremur árum síðan, árið 2007, kom út á frönsku bókin La question de la justice chez Jacques Derrida (Réttlætið og Derrida) eftir Björn Þorsteinsson, byggð á doktorsritgerð hans. Bókin inniheldur greiningu á hugmynd Derrida um afbyggingu sem réttlæti en tilefnið er einföld en óvænt orð sem hann lét falla í fyrirlestri árið 1989: „Afbyggingin er réttlætið.“ Ekki er hægt að segja að bókin hafi vakið mikla athygli hér á landi. Höfundur þessarar greinar veit aðeins um eina grein sem fjallar um meginhugmyndir bókarinnar, „Samhengið í hugsun Jacques Derrida“1, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins eftir Björn sjálfan. Nýlega birtist svo um bókina ritdómur eftir Alexöndru Popovici í tímaritinu International Journal for the Semiotics of Law2 og er hugmyndin með þessari grein að nota hann til að kynna í örstuttu máli téðar meginhugmyndir.
          Áður en lengra er haldið er rétt að beina athygli að þeim erfiðleikum sem Björn stendur frammi fyrir við að skrifa doktorsritgerð um heimspekinginn sem hafnaði helstu verkfærum heimspekinnar, gagnrýni og greiningu, án þess að vanvirða arfleifð hans með því að gagnrýna og greina. Björn er vel meðvitaður um þessa erfiðleika og byrjar verkið á viðeigandi hátt með því að vitna í Jean Luc-Nancy: „Að skrifa um Derrida virðist mér vera ofbeldi“ (bls. 9). Ef trúa má Derrida sjálfum þarf það þó ekki að vera neitt slæmt að beita arfleifð hans ofbeldi. Eins og Björn bendir á felst trúnaður ekki einfaldlega í því að endurtaka eitthvað sem aðrir hafa sagt (þá er betra að þegja). Í bókinni hefur Björn þetta eftir Derrida: „Maður getur ekki óskað eftir erfingja sem finnur ekki upp það sem hann erfir, sem fer ekki með það á annan stað í trúnaði sínum. Trúnaðar­lausum trúnaði“ (bls. 10). Hér er reyndar strax snert á lykilatriði í verkinu, nefnilega því að skrif að hætti Derrida eru ekki og eiga ekki að vera hlutlaus, heldur miða þau að því að breyta þeim merkingarbundna veruleika sem þau spretta úr. Þess vegna getur bókin ekki einfaldlega miðað að því að útskýra hvað afbygging sem réttlæti í rauninni er. Slík útskýring myndi einmitt ekki vera í anda Derrida sem gagnrýndi hefðbundnar skilgreiningar heimspekinnar fyrir að þykjast geta flutt það sem skilgreint er í heild sinni fyrir vitund þess sem ætlað er að skilja skilgreininguna. Það sem ritgerðin býður frekar upp á er afbygging sem réttlæti í framkvæmd. Björn sýnir afbygginguna í verki með því að beita henni á texta Derrida í trúnaðarlausum trúnaði.
          Hvernig skyldi hann svo sýna afbygginguna í framkvæmd? Björn segir verkefnið krefjast rannsóknar á meginhugtökum Derrida, skilafrestinum (la différance) sem er tekinn fyrir í fyrsta hluta verksins), afbyggingunni (í öðrum hlutanum), sambandi Derrida við heimspekina (efni þriðja hlutans) áður en réttlætið sjálft birtist loksins „í eigin persónu“ í fjórða og síðasta hlutanum.
          Björn nálgast skilafrestinn með því að skrifa um hann „einhvers konar sifjafræðilega sögu“ (bls. 23). Þannig sýnir hann hvernig hugtakið fæðist í grein um skáldið og leikhúsfræðinginn Antonin Artaud, áður en hann sýnir skýrari birtingarmynd þess í túlkun Derrida á málvísinda­manninum og strúktúralistanum Ferdinand de Saussure og loks í greiningu á fyrirbærafræði Husserls. Þó að Björn sýni okkur ekki uppruna eða gefi okkur skilgreiningu á skilafrestinum – hugtakið sjálft hafnar bæði hreinum uppruna og einföldum skilgreiningum á hugtökum yfir höfuð – erum við þó einhvers vísari um hann eftir yfirferð Björns.
          Við skulum taka eitt dæmi hér um það hvernig skilafresturinn birtist í verkum Derrida í gegnum bók Björns. Derrida skýrir skilafrestinn með samanburði við klassíska hugmynd um tákn sem kemur skýrt fram í táknfræði Saussures. Samkvæmt þessari hugmynd felst virkni táknsins í því að leysa af hólmi upprunalega nærveru einhvers hlutar, nefnilega hlutarins sem það táknar. „Táknið stendur fyrir hið nálæga í fjarveru sinni“ (bls. 119, tilvitnun í bók Derrida Marges – de la philosophie, 9). Þegar orðið ljón hefur orðið til í tungumálinu þurfum við til dæmis ekki á nærveru raunverulegs ljóns að halda til að kalla fram hugmyndina um það; táknið nægir. Framlag eða frammígrip Derrida felst í að benda á að hér stangast Saussure á við sjálfan sig: þessi hugmynd um táknið er í andstöðu við kenningu Saussures um tungumálið sem „kerfi mismuna“. Það þýðir að einstök tákn í málkerfinu sækja ekki merkingu sína til einhverrar upprunalegrar nálægðar utan kerfisins, heldur til þess hvernig þau greina sig frá öðrum táknum kerfisins. Svo við höldum áfram að notast við táknið „ljón“ felst merking þess í að vera ekki hlébarði, tígrisdýr, köttur, maríubjalla, hagvöxtur o.s.frv. þangað til öll önnur tákn málkerfisins hafa verið talin upp. Merking táknsins býr þannig ekki í því sjálfu heldur í öllum hinum táknunum. Eða eins og Derrida segir: Táknið er einungis ummerki hinna táknanna án þess að nokkuð sé til sem það er upprunalega merki um. Skilafresturinn (différance) nefnir meðal annars þetta samspil tákna í tungumáli. Hann er ekki hugtak heldur uppruni og undirstaða hugtakleikans (þ.e. lýsir því hvað það er að vera hugtak), undirstaða allra stöku og venjulegu mismunanna (différences) í tungumálinu – án þess að vera hvorki undirstaða né uppruni eins og bent hefur verið á.
          Réttlæting Björns fyrir því að eyða svona miklu púðri í þetta hugtak sem ekki er hugtak er að það er nauðsynlegt til að útskýra annað slíkt lykilhugtak (sem ekki er hugtak), nefnilega afbyggingu Derrida. Það gildir nákvæmlega það sama um afbygginguna og gildir um skila­frestinn: þar sem hún er tæki Derrida í uppreisn hans gegn heimspekihefðinni er ekki hægt að fella hana undir eina skilgreiningu – ótvíræðar skilgreiningar eru sjúkdómseinkenni hefð­bundinnar heimspeki. En eins og Björn sýnir fram á er ekki þar með sagt að ekkert sé um hana að segja eða að enga þekkingu sé á henni að hafa. Einmitt í því skyni að auðvelda skilning á afbygginguni reynir hann að útskýra rökvísi og kerfi afbyggingarinnar. Þessu kerfi lýsir hann sem keðju þar sem hver hlekkur er hugtak sem verður til í afbyggingarferlinu. En þar sem ekkert þessara hugtaka (það gildir þó sama um þau og afbygginguna og skilafrestinn: þau eru eiginlega ekki hugtök) getur lýst afbyggingunni í eitt skipti fyrir öll verður aldrei hægt að loka keðjunni eða ljúka henni. Keðjan verður alltaf að vera opin. Möguleikinn til þess að bæta við einum hlekk í viðbót verður alltaf að vera til staðar.
          Við skulum gera grein fyrir einum þessara hlekkja. Hugtakið „tvöfaldar hömlur“ (úr ensku: „double bind“) notaði Derrida sjálfur þegar hann stóð frammi fyrir því að útskýra virkni (eða óvirkni) afbyggingarinnar. Það á upptök sín í viðleitni mannfræðingsins Gregorys Bateson til að skýra uppruna geðklofa og þýðir í hans fræðum tvöfaldar skipanir sem skarast á og er þess vegna enginn leið að hlýða. Maurice Blanchot sem Derrida las mikið og lærði af gefur gott dæmi um það sem hér er á ferðinni þegar hann lætur eina persónu sína skipa: „Ef þér drepið mig ekki, eruð þér morðingi.“ Í textum Derrida er orðið notað yfir það sem gerist þegar maður reynir að nálgast það sem er fjarlægt eða öðruvísi: því meir sem maður nálgast það því fjarlægari er maður. Eins og við höfum séð er ekki til nein nálægð sem vísar ekki á eitthvað annað sem er fjarlægt – ummerkin (um eitthvað annað) eru upprunaleg. Hlutskipti okkar svipar til hlutskiptis K., persónu Franz Kafka úr Höllinni, sem sekkur dýpra og dýpra ofan í þorpið eftir því sem hann reynir meira að nálgast höllina. Af þessari ástæðu getur afbyggingin ekki verið greining. Derrida útskýrir að greining snýst um að taka hluti í sundur svo við blasi upprunalegt byggingarefni þeirra – við færum fyrir vitundina það sem hlutirnir eru raunverulega úr. Afbyggingin verður frekar að felast í tvöföldum hömlum þar sem greining í átt að upprunalegri nálægð færir okkur fjær hlutunum en ella.
          Þegar afbyggingin verður í meðförum Björns (næstum því) skýr og rökleg vaknar sú spurning hvað það er sem greini hana frá heimspekihefðinni sem hún er í uppreisn gegn. Í næsta hluta, „Heimspekinni“, upplýsir Björn lesendur sína um að afbygging Derrida beinist fyrst og fremst gegn díalektík Hegels. Eins og Popovici bendir á snýst málið aftur um trúnað við arfleifð: er Derrida afkvæmi heimspekihefðarinnar eða er hann útlagi hennar? Vandi Derrida í uppreisn sinni gegn heimspekihefðinni felst fyrst meðal annars í því að með því að beina afbyggingunni gegn díalektíkinni á Derrida á hættu að díalektíkin gleypi hana eins og díalektíkin er vön að gleypa aðra andstæðinga sína – afbyggingin væri eins og hver önnur antitesa sem biði eftir að vera hafinn upp (hoben auf) í næsta hugtaki. Lausn Derrida er að staðsetja sig við afganginn sem kerfi Hegels skilur eftir.
          Hvernig? Í greiningu Björns birtist svarið í samanburði á Hegel og skáldinu Jean Genet sem er úthlutað sínum hvorum dálknum í bók Derrida, Glas. Í öðrum dálknum er nákvæm greining Derrida á kerfi Hegels þar sem fjölskyldan gegnir lykilhlutverki: menn geta ekki yfirstigið dýrslegt eðli sitt, orðið raunverulegir menn, verur andans, án þess að tilheyra fjölskyldu. Í hinum dálknum er Genet í aðalhlutverki. Ólíkt venjulegum mönnum fæddist hann ekki inn í fjölskyldu; hann átti ekki foreldra (móðir hans yfirgaf hann við fæðingu og ekkert er vitað um föðurinn). Að sama skapi gat hann ekki stofnað hefðbundna fjölskyldu þegar hann óx úr grasi þar sem hann var samkynhneigður. Þess vegna getur hann ekki, samkvæmt nákvæmri greiningu Derrida á Hegel, talist eiginlegur maður. Derrida bendir raunar á að hann er nær því að teljast vera planta. Þannig sýnir Derrida afganginn af alltumlykjandi kerfi Hegels, því sem díalektíkin nær ekki utan um, hefur ekki upp, heldur vísar út fyrir sig. Munurinn á Hegel og Derrida liggur í þessum afgangi sem hér ber nafnið Genet en hefur áður verið kallað skilafrestur.
          Samband Derrida við hegelismann verður þó ekki afgreitt nema spurningunni um réttlætið verði svarað. Síðasti hlutinn, þar sem réttlætið birtist „í eigin persónu“ skiptist í þrennt. Fyrst er rannsókn á birtingarmyndum réttlætisins í höfundarverki Derrida og greining á lykiltextanum, Afl laganna (Force de loi) þar sem kemur fram að réttlætið er reynslan af hinu ómögulega. Síðan nákvæm greining á texta Heideggers, Mál Anaximanders (La parole d’Anaximander). Og loks eru ólíkir þræðir verksins tengdir saman í túlkun á bók Derrida Vofu Marx (Spectre de Marx) sem snýst um hugtakið arfleifð. Björn nær að tengja saman Derrida og Heidegger með því að sýna fram á að tímahugtakið sem gegnir lykilhlutverki í Vofu Marx, tíminn sem ósamræmi, eitthvað sem fer út af sporinu (the time is out of joint Hamlets) á sér samsvörun í Un-fug Heideggers. Derrida er sumsé trúr arfleifð Heideggers. Afbyggingin sem réttlæti er þetta ósamræmi tímans, þegar eðlilegur gangur hlutanna er truflaður, þegar bátnum er ruggað, til dæmis þegar höfundur fer með texta annars höfundar eitthvert annað í trúnaðarlausum trúnaði.
          Niðurstaða Popovici er sú að Björn nær að sýna þennan trúnaðarlausa trúnað. Þannig tekst honum hið ómögulega: að skrifa um Derrida án þess að vanvirða arfleifð hans.

Tilvísanir

1. Til á Heimspekivefnum: http://heimspeki.hi.is/?page_id=532

2. Dómurinn er aðgengilegur á netinu: http://www.springerlink.com/content/t3401l14272j81h5/