Færslusöfn

Úr engu er ekkert komið

eftir Svein Eldon

Fyrsti háskólafyrirlesturinn í heimspeki sem ég sótti hófst á því að prófessorinn, sem var í brúnum munkakufli, leit hvössum og ásakandi augum á nýnemana sem flestir voru ungir reglubræður í reglu Heilags Frans af Assisi, og sagði: „ex nihilio nihil fit!“ og bætti við: „Ef einhver efast um þetta er best að hann hætti námi í heimspeki nú þegar áður en það er um seinan. Hann á ekkert erindi í heimspekinám.“ Mér varð all hverft við, ekki einungis vegna hins hvassa augnaráðs prófessorsins, heldur fremur vegna þess að ég skildi ekki hvert hann var að fara og því ekki hvort að ég ætti nokkuð erindi í heimspekinám. „Úr hverju skapaði Guð himinn og jörð“, spurði ég prófessorinn, föður Rabbitte, eftir að ég hafði safnað hugrekki. „Þú skilur ekki enn hugtakið ‚sköpun‘, svo að ég ætla ekki að svara þér nú“, var svarið sem bergmálaði í gotnesku hvolfþaki hins kalda, dimma og raka fyrirlestrarsalar. Nú fjörutíu árum seinna er ég engu nær um sköpun eða hvort ég hafi átt nokkuð erindi í heimspekinám og því stend ég hér nú næsta hálftímann.

Af umfjöllun Humes er augljóst að hann beinir spjótum sínum fremst að rykföllnum heimspekikreddum samtíma síns, sem hann álítur margar eiga rót sína að rekja til heimspeki munka á miðöldum. Hann minnir um margt á Vínarhringinn, sem starfaði á síðustu öld. Ætlun beggja var að eyða kreddum og ákafi beggja var mikill.

Úr engu er ekkert komið og ef svo er ætti allt að vera komið úr einhverju. Spurningin er hvort allt eigi sér þá eina og sömu frumorsök, „Big Bang“.

Hugum stuttlega að upphafi alheimsins.

Það er ekki án mótsagnar unnt að gera sér í hugarlund að alheimurinn hefði ekki fæðst og væri ekki til. Það er mótsagnalaust unnt að ímynda sér að hann hafi ætíð verið til, þó það sé vissulega vísindalega sannað að öll frumefni alheimsins eigi sér upphaf. Er unnt er að hugsa sér að eitthvað sem er til, hafi aldrei orðið til, heldur sé eilíft?

Við getum ekki ímyndað okkur gap Ginnunga, tómið. Við getum einungis gert okkur í hugarlund stað án hluta og atvika. Hugtakið tóm er háð hugtakinu hlutur eða ferli, hugtakið gerir ráð fyrir hlutum og atvikum. Hugtakið segir: Ekki hlutir, ekki ferli, það er allt og sumt sem það segir í raun. Án nokkurs hlutar er hvorki tími eða rúm. Og reyndar engin hugsun heldur, því öll hugsun okkar gerir ráð fyrir hlutum, ferlum og atvikum. Tíminn og rúmið urðu til við fæðingu fyrsta hlutarins (eða atviksins). Hugsum okkur að fyrsti hluturinn sem varð til hafi hætt að vera til því sem næst samstundis og hann varð til og eftir það hefði ekkert gerst. Hyrfi þá tími og rúm jafnframt samtímis? Tíminn hyrfi ekki (þó vissulega stæði hann kyrr, því við gætum nú talað um fyrir og eftir atvikið. Rúmið hyrfi því ómögulegt er að staðsetja nokkurn hlut án annara hluta.

Nóg um þetta, enda auðvelt að verða áttavilltur og segja ekkert af viti um alheiminn. Hann er heldur ekki efni þessa stutta erindis.

Hume heldur því fram að ekki sé unnt að sýna fram á að öll atvik eigi sér orsök. Í þessum fyrirlestri ætla ég ekki að túlka Hume, heldur að velta stuttlega fyrir mér, hvort að það sé kredda að úr engu sé ekkert komið.

Hugum að orðum Humes. Hann skrifar: „Ekkert er auðveldara en að hugsa sér hvaða hlut sem er, hlut sem ekki er til nú, en er til eftir eitt augnablik, án þess að önnur hugmynd, hugmyndin um orsök komi þar að… Það er því augljóslega unnt að skilja að hugmyndina um orsök frá hugmyndinni um upphaf tilveru.“ (Þýðing höfundar) (Treatise on Human Nature, bók I, I. hluti , III. kafli)

Hume virðist ætla að unnt sé að ímynda sér að hvaða hlutur sem vera skal sé eitt augnablik ekki til og til næsta augnablik, án þess að við leiðum hugann að orsök þess að hann varð til, sem er önnur hugmynd. Hvert er maðurinn að fara? Við getum ímyndað okkur að það sé engin lampi á borðinu fyrir framan mig nú en ef ég nú loka augunum í eina sekúndu, er lampi á borðinu jafnskjótt og ég opna augun. Ekkert er auðveldara en að ímynda sér þetta. Hvernig lampinn kom á borðið er annað mál og ég get ímyndað mér ýmsar skýringar á því. Gallinn á Gjöf Njarðar (eða fremur Davíðs) er þó sá að ef að ég ímynda mér þetta þá ímynda ég mér einnig að einhver hafi sett lampann á borðið, annars ímynda ég mér ekki að það sem var ekki á borðinu en er þar nú, sé ekki lampi heldur mín eigin skynvilla. Rétt eins og ég get ímyndað mér lampalaust borð og lampa á sama borði, get ég ímyndað mér borðið lampalaust og lampa á borðinu sem einhver hefur sett á borðið, því það er að ímynda sér nákvæmlega það sama. Ef ekki, hver er þá munurinn? Lampi á borði og lampi sem einhver, hver sem er, hefur sett á borð, er sami hlutur. „Sem einhver hefur sett á borðið“, bætir engu við „lampi á borðinu“, merkingin er sú sama. Merkingin er sú sama, vegna þess að upplýsingagildi „sem einhver, hver sem er, hefur sett á borðið“ er ekkert. Reynið góðir áheyrendur að ímynda ykkur lampa á borðinu sem enginn setti á borðið. Ekkert er einfaldara, því það er að ímynda sé borðið lampalaust! Hvað annað gæti það verið? Hver setti lampann á borðið er annað og óskylt mál, en ekki að lampinn var settur á borðið af einhverjum.

Það er erfitt að ímynda sér skynvillur en auðvelt að gera ráð fyrir þeim. Skynvilla, jafnvel ímynduð skynvilla, hlýtur að eiga sér skýringu, eitthvað hlýtur að hafa orsakað hana. Orð eins og hlutur, atvik og atburður eru notuð í daglegu tali á ákveðinn hátt og í hvert eitt sinn í ákveðnum tilgangi. Ef merking orðanna er ekki nægilega skýr eiga engin tjáskipti sér stað. Orðin eru ekki til í tómarúmi, þau eru hluti af daglegu lífi okkar og daglegt líf okkar veitir þeim merkingu. Skilningur okkar á heiminum, er ekki okkar einkamál og er að mestu fengin úr því samfélagi sem ólumst upp í, eins og reyndar flest okkar viðhorf. Skilningur samfélagsins á heiminum er skapaður af íbúum samfélagsins, bæði lifandi og dauðum, því við erfum viðhorf. Hver þessi viðhorf eru fer að mestu eftir hvernig baráttu samfélagsins við umhverfið er háttað. Sönnun þess að hugmyndir og viðhorf samfélags eru sannleikanum samkvæm er að samfélagið er til, það hefur ekki liðið undir lok, dáið út.

Hume virðist ætla að einstaklingurinn geti einn og sér skapað sér viðhorf og skoðanir, með skilningarvitin ein að vopni og án þess að aðrir menn komi þar að. Þetta er rangt hjá Hume. Einstaklingur sem ekki elst upp í eða er í mannlegu samfélagi, er dýr sem lifir eins og önnur villt dýr í kring um hann. Maður sem yfirgefur mannlegt samfélag og býr einn, heldur áfram að leggja svipaðan skilning á umhverfið og hann gerði þegar hann bjó meðal manna. Uppeldi og kennsla felst ekki síst í að kenna okkur að vera það sem kallast „nýtir þjóðfélagsþegnar“, dugandi fólk, sem getur drukkið í sig viðhorf og hugmyndir samfélagsins. Útlendingum er oft ekki treyst vegna þess að engin veit hversu hugmyndir þeirra og viðhorf eru lík okkar eigin.

En aftur að aðalefni þessa spjalls.

Lampi sem lýsir ekki lengur og hvorki er unnt að skipta um peru í eða gera við, er ekki lengur lampi heldur málm-, plast- eða trébútur. Lampi sem birtist á borði án þess að hafa verið settur þar lýsir vart neinum, ímyndaður lampi á borði lýsir vart heldur nema að við ímyndum okkur það og við getum ímyndað okkur fleira en við eigum orð yfir og orð eigum við einungis yfir fyrirbæri vorrar sameiginlegu reynslu, því sameiginleg reynsla veitir orðunum merkingu.

Ef ég geri mér í hugarlund hlut eða fyrirbæri er ég sjálfur orsök eða höfundur þessa ímyndaða hlutar eða fyrirbæris. Ég get vissulega gert mér í hugarlund eitthvert fyribæri t.d. að þessi fyrirlestrarsalur fyllist af reyk, án þess að ég geri mér einnig samtímis í hugarlund orsök reyksins. En ekki veit ég hvað ég á að gera mér í hugarlund, ef að ég á að gera mér í hugarlund að salurinn fyllist af reyk og að fyrir því sé enginn orsök, því það er engin reykur án elds. Hume virðist ætla að þarna sé engin munur, það sé einn og sami hlutur að ímynda sér reyk sem eigi sér orsök og reyk sem eigi sér enga orsök. Að ímynda sér reyk og að ímynda sér orsök reiks, t.d. eld, sé tvennt ólíkt. Ef unnt er að ímynda sér reyk án þess að leiða hugann samtímis að eldi, eru þetta tveir hlutir og ekki ekkert annað en vani að leiða hugann jafnan að eldi ef maður verður var við reyk. Ekkert er athugavert við þessa staðhæfingu Humes, en hún breytir engu um það sem ég sagði hér ofan. Ég get auðveldlega ímyndað mér að salurinn fyllist af reyk, án þess að leiða hugann jafnframt að því hvort að það eigi sér orsök eða ekki. Þó er það svo, að það er ég sjálfur sem er höfundur reyksins, þó ég leiði ekki hugann endilega að þeirri staðreynd. Get ég gert mér í hugarlund reyk sem ég geri mér ekki í hugarlund? Varla.

Hugsum okkur að við séum í bifreið kunningja okkar sem heitir Davíð á leið til Keflavíkur. Í Straumsvík drepur bíllinn á sér. Davíð ræsir bílinn og við ökum áfram. Í nánd við Hvassahraun drepur bíllinn aftur á sér og í þetta sinn tekst Davíð ekki að ræsa bílinn á nýjan leik. Við spyrjum hvort hann viti hvað sé að bílnum og hvað sé nú til ráða. Hann svarar að ekkert sé að bílnum og að bíllinn sé ekki bensínlaus. Hann geti ekkert gert bílinn hagi sér svona stundum. Hvernig bregðumst við við þessum tíðindum? Ef kunningja okkar er full alvara hlýtur hann annaðhvort að vera mjög fákunnugur um bíla eða hann hefur misst vitið. Varla er hann að stríða okkur. Hann veit að við erum að verða of sein til að ná fluginu til Glasgow og þótt hann sé stríðinn er hann ekki illgjarn. Líklegasta skýringin er sú að hann veit ekki hvað hann á að taka til bragðs, en vill ekki opinbera fákunnáttu sína.

Af hverju efumst við um að kunningi okkar hafi rétt fyrir sér? Hvað vitum við um bíla? Enginn okkar er bifvélavirki. Getur ekki verið að bílar drepi á sér af ástæðulausu? Skiptir nokkru máli hvort bílinn drap á sér vegna þess að hann er bensínlaus, eða hvort hann drap á sér af ástæðulausu? Hvort heldur sem er komust við ekki lengra og við missum af fluginu.

Ef Davíð hefði haldið því fram að bíllinn væri bensínlaus, hefðum við getað minnt hann á að fylla tankinn með bensíni í Hafnarfirði. Ef Davíð, aftur á móti, þverneitar að orsök sé fyrir því að bílinn drap á sér, er ekki unnt fyrir okkur að ræða málið nánar við hann. Heimsmynd hans er greinilega svo gjörólík okkar, að öll umræða um málið er gagnslaus. Það er eitt að vera ósammála um hvaða orsök eða orsakir séu fyrir því að bíllinn drap á sér og annað að vera ósammála um hvort orsök sé að finna fyrir því atviki. Við getum gengið úr skugga um hvort bíllinn er bensínlaus, en við getum ekki gengið úr skugga um hvort orsök sé að finna fyrir því að bíllinn drap á sér. Við getum gengið úr skugga um HVAÐA orsök er fyrir því að bíllinn drap á sér, en við getum ekki gengið úr skugga um HVORT orsök sé fyrir því að hann drap á sér. Ef við finnum enga orsök fyrir því að bíllinn drap á sér, er ekki þar með sagt að við álítum að enga orsök sé að finna fyrir því. Engin rökfræðileg mótsögn er í því að halda því fram að atvik geti átt sér stað án nokkurrar orsakar. En ef við höldum því fram, þá förum við yfir takmörk hins skiljanlega yfir í heim hins óskiljanlega. Við köstum fyrir róða forsendum sem liggja til grundvallar allri hugsun, máli og skilningi. Það er ekki unnt að neinu viti að ræða þessar forsendur því þær liggja til grundvallar alls máls og alls skilnings. Þessu til staðfestingar getum við velt fyrir okkur hvernig við færum að því að afsanna staðhæfinguna að ekkert gerist án orsakar. Engin reynsla gerir slíka afsönnun mögulega. Yrðingin er þó ekki með öllu án innihalds, því við getum, eins og Hume, velt innihaldi hennar fyrir okkur og reynt að gera okkur í hugarlund kringumstæður þar sem hún væri ósönn.

Vera má að allar þær orsakir sem við tínum til fyrir því af hverju bíllinn drap á sér séu ekki orsök þess að hann drap á sér, er ekki þar með sagt að engin orsök sé fyrir því að hann drap á sér. Það er engin mótsögn falin í því að álíta að orsök sé fyrir því að bíllinn drap á sér, þó að við álítum eða jafnvel göngum úr skugga um að hvaða orsök sem við tínum til sé ekki orsök þess að hann drap á sér. Fyrir hvaða orsök sem vera skal, má vera satt að hún sé ekki orsök þess að bíllinn drap á sér, þótt vandséð sé að bíllinn hafi drepið á sér án orsakar.

Eitt af því sem angrar Hume er sú einfalda staðreynd að ekki er unnt að benda á sambandið á milli orsakar og afleiðingu með fingrunum. Við KOMUMST AÐ því hver er orsök einhvers. Ef orsök þess að bíllinn drap á sér var bensínleysi, getum við bent með fingrunum á tóman tankinn, en ekki á bensínleysið. Það að bensíntankurinn er tómur er niðurstaða rannsóknar og sú niðurstaða getur verið röng. Einnig má vera að bensínleysið sé ekki orsök þess að bíllinn drap á sér, því bíllinn hefur bæði bensínvél og vél sem er rafknúin. Hume hefur því rétt fyrir sér í því að við getum vel ímyndað okkur að bíll verði bensínlaus, án þess að bíllinn hætti að ganga. En ef bíllinn hættir að ganga gerir hann það ekki án ástæðu þó að sú ástæða sé ekki nauðsynlega það að hann varð bensínlaus.

Það er eitt að leiða hugann að einhverjum fyrirbærum eða hlutum sem slíkum án þess að leiða hugann að orsökum þeirra og allt annað að leiða hugann að raunverulegum fyrirbærum og hlutum án þess að leiða hugann að orsökum þeirra. Við getum velt fyrir okkur eiginleikum þríhyrnings og píramída án þess að leiða hugann að orsök þess að slíkar fígúrur séu til. Við getum íhugað leyndardóma píramídans mikla í Khufu í Egyptalandi án þess að leiða hugann að því að hann er mannvirki. En við getum vart gert okkur í hugarlund að enginn hafi byggt hann, fremur en við getum ímyndað okkur að engin ástæða hafi verið fyrir byggingu hans.

Þakka áheyrnina!

Erindið var flutt á málþingi Félags áhugamanna um heimspeki um heimspeki David Hume, sem haldið var laugardaginn 26. nóvember 2011.

Úr erindinu „Drög að rökrænni kenningu um hefð“

eftir Karl Popper

Hið sérkennilega fyrirbæri sem við köllum vísindahefð hefur oft verið rætt. Menn hafa velt fyrir sér þessu furðulega fyrirbæri sem kom fram einhvern veginn einhvers staðar í Grikklandi á sjöttu og fimmtu öldunum fyrir Krist – uppfinning rökrænnar heimspeki. Hvað gerðist í raun og veru, hvers vegna gerðist það og hvernig? Sumir nútíma hugsuðir halda því fram að grískir heimspekingar hafi verið fyrstir til að reyna að skilja það sem gerist í náttúrunni. Ég ætla að sýna ykkur hvers vegna þetta er ófullnægjandi skýring.
      Fyrstu grísku heimspekingarnir reyndu vissulega að skilja það sem gerist í náttúrunni. En það gerðu líka hinir frumstæðari goðsagnahöfundar á undan þeim. Hvernig getum við lýst þeirri frumstæðu gerð skýringa sem mælikvarðar elstu grísku heimspekinganna leystu af hólmi – höfundar vísindahefðar okkar? Gróflega orðað þá sögðu hinir forvísindalegu goðsagnahöfundar þegar þeir sáu að þrumuveður var í aðsigi: „Nújá, Seifur er reiður.“ Og þegar þeir sáu að sjórinn var úfinn sögðu þeir: „Poseidon er reiður.“ Þetta var sú tegund skýringa sem þótti fullnægjandi áður en rökhyggjuhefðin innleiddi ný skýringaviðmið. Hver var í raun munurinn sem skipti sköpum? Varla er hægt að segja að nýju kenningarnar sem grísku heimspekingarnir innleiddu séu auðskiljanlegri en þær gömlu. Ég hygg að það sé langtum auðveldara að skilja þá stað­hæfingu að Seifur sé reiður en að skilja vísindalega skýringu á þrumuveðri. Og sú fullyrðing að Poseidon sé reiður er fyrir mér miklu einfaldari og miklu auðskiljanlegri skýring á hinum háu öldum hafsins en skýring út frá núningi milli loftsins og yfirborðs sjávarins.
      Ég hygg að nýjungin sem fyrstu grísku heimspekingarnir innleiddu hafi verið þessi í grófum dráttum: Þeir byrjuðu að rökræða þessi mál. Í stað þess að fallast á trúarhefðina gagnrýnilaust og sem óbreytanlega (líkt og krakkar sem mótmæla ef frænka breytir einu orði í uppáhalds­ævintýri þeirra), í stað þess bara að láta hefðina haldast vefengdu þeir hana og bjuggu jafnvel til nýja goðsögn í staðinn fyrir þá gömlu. Ég held við verðum að viðurkenna að nýju sögurnar sem þeir komu með í stað hinna gömlu hafi í grundvallaratriðum verið goðsagnir – alveg eins og gömlu sögurnar voru, en það er tvennt athyglisvert við þær.
      Hið fyrra er að þær voru ekki bara endurtekningar eða endursamning gömlu sagnanna heldur innihéldu þær ný atriði. Það er ekki svo að þetta sé í sjálfu sér mjög mikill kostur. En hið síðara og aðalatriðið er þetta: Grísku heimspekingarnir fundu upp nýja hefð – þá hefð að tileinka sér gagnrýna afstöðu til goðsagna, þá hefð að rökræða þær, þá hefð að segja ekki einungis goðsögn heldur einnig að áheyrandinn dragi hana í efa. Þegar þeir sögðu söguna voru þeir reiðubúnir fyrir sitt leyti að hlusta á hvað áheyrandanum fannst um hana – og viðurkenndu þar með þann mögu­leika að hann kynni að hafa betri skýringu en þeir. Þetta var eitthvað sem hafði ekki gerst áður. Nýr háttur á að spyrja spurninga varð til. Jafnframt skýringunni – goðsögninni – kom þessi spurning fram: „Geturðu gefið mér betri skýringu?“ Og annar heimspekingur gat svarað: „Já, það get ég.“ Eða hann sagði: „Ég veit ekki hvort ég get gefið þér betri en ég get gefið þér mjög ólíka skýringu sem dugir alveg eins vel. Þessar tvær skýringar geta ekki báðar verið réttar svo eitthvað hlýtur að vera rangt hér. Við getum ekki blátt áfram tekið báðar skýringarnar gildar. Við höfum ekki heldur neina ástæðu til að samþykkja bara aðra þeirra. Okkur langar í raun og veru að vita meira um málið. Við verðum að ræða það frekar. Við verðum að sjá hvort skýringar okkar gera í raun grein fyrir þeim hlutum sem við þekkjum þegar og kannski meira að segja fyrir einhverju sem okkur hefur yfirsést hingað til.“
      Tilgáta mín er að það sem við köllum ,vísindi‘ aðgreinist ekki frá eldri goðsögnum með því að vera aðskilið frá goðsögn heldur með því að þeim fylgir annars stigs hefð – sú hefð að ræða goðsögnina á gagnrýninn hátt. Áður var einungis fyrsta stigs hefðin. Ákveðin saga var látin ganga. Nú var að sjálfsögðu enn þá saga til að láta ganga en henni fylgdi eitthvað í líkingu við þöglan fylgitexta sem var annars eðlis: „Ég læt hana ganga til þín en segðu mér hvað þér finnst um hana. Hugleiddu hana. Kannski geturðu sagt okkur ólíka sögu.“ Þessi annars stigs hefð var hin gagnrýna afstaða eða rökfærsluviðhorfið. Hún var, að ég tel, eitthvað nýtt og hún er enn það sem er í grundvallaratriðum mikilvægt við vísindahefðina. Ef við skiljum þetta þá höfum allt öðruvísi afstöðu til allmargra vandamála vísindalegrar aðferðar. Við munum gera okkur ljóst að í vissum skilningi búa vísindin til goðsagnir alveg eins og trúarbrögðin gera. Þið munuð segja: „En goðsagnir vísindanna eru svo afar ólíkar goðsögnum trúarbragðanna.“ Vissulega eru þær ólíkar. En hvers vegna eru þær ólíkar? Vegna þess að tileinki maður sér þessa gagnrýnu afstöðu þá verða goðsagnirnar öðruvísi. Þær breytast, og þær breytast í þá átt að gefa æ betri skýringu á heiminum – á hinum ýmsu hlutum sem við getum athugað. Og þær skora einnig á okkur að athuga hluti sem við hefðum aldrei athugað án þessara kenninga eða goðsagna.
      Í þeim gagnrýnu umræðum sem nú hófust varð einnig til, í fyrsta sinn, eitthvað í líkingu við skipulega athugun. Maðurinn sem einhver goðsögn var látin ganga til, ásamt hinni þöglu en hefðbundnu beiðni: „Hvað hefurðu að segja um hana? Geturðu gagnrýnt hana?“ tæki goðsögnina og beitti henni á hina ýmsu hluti sem henni var ætlað að skýra, eins og til dæmis hreyfingar reikistjarnanna. Síðan segði hann: „Ég held ekki að þessi goðsögn sé mjög góð vegna þess að hún skýrir ekki hina raunverulegu sjáanlegu hreyfingu reikistjarnanna“ eða hvað sem við á. Þannig er það goðsögnin eða kenningin sem leiðir til hinna skipulegu athugana okkar og stýrir þeim – athugunum sem eru gerðar í þeim tilgangi að rannsaka sannleiksgildi kenningar eða goðsagnar. Útfrá þessu sjónarmiði ætti ekki að telja vöxt vísindakenninganna vera árangur af samsafni eða samsöfnun athugana; þvert á móti ætti að telja athuganirnar og samsöfnun þeirra vera árangur af vexti vísindakenninganna. (Ég hef kallað þetta leitarljóss kenninguna um vísindin – þá skoðun að vísindin sjálf varpi nýju ljósi á hluti, að þau leysi ekki bara vandamál heldur skapi þau mörg ný þegar þau gera það, og að athuganir komi þeim ekki einungis að gagni heldur leiði til nýrra athugana.) Ef við þannig svipumst um eftir nýjum athugunum til þess að rannsaka sannleiksgildi goðsagna okkar þarf það ekki að koma okkur á óvart þótt við komumst að raun um að goðsagnir sem farið er svona harkalega með breyti um eðli og að þær verði með tímanum það sem kalla mætti raunsannari eða að þær samsvari betur sýnilegum staðreyndum. Með öðrum orðum, undir þrýstingi frá gagnrýni eru goðsagnirnar neyddar til að laga sig að því verkefni að gefa okkur viðunandi og nákvæmari mynd af heiminum sem við búum í. Þetta skýrir hvers vegna vísindagoðsagnir, undir þrýstingi frá gagnrýni, verða svo ólíkar goðsögnum trúarbragð­anna. Ég held samt að við ættum að hafa það alveg á hreinu að hvað uppruna þeirra varðar verða þær eftir sem áður goðsagnir eða tilbúningur rétt eins og hinar. Þær eru ekki það sem sumir rökhyggjumenn álíta – fylgismenn athugunarkenningarinnar: Þær eru ekki samantekt athugana. Ég skal endurtaka þetta atriði. Vísindakenningar eru ekki einungis niðurstöður athugana. Þær eru, að mestu leyti, afurðir goðsagnasmíði og prófa. Próf fara sumpart fram með athugun og athugun er því mjög mikilvæg, en hlutverk hennar er ekki að búa til kenningar. Hún gegnir hlutverki sínu með því að hafna, útiloka og gagnrýna kenningar, og hún skorar á okkur að búa til nýjar goðsagnir, nýjar kenningar sem geta kannski staðist þessi athugunarpróf. Einungis ef við skiljum þetta getum við skilið mikilvægi hefðar fyrir vísindin.
      Ég skora á þá meðal ykkar sem eru á öndverðum meiði og trúa því að vísindakenningar séu niðurstöður athugana að byrja athuganir hér og nú og láta mig fá hinar vísindalegu niðurstöður þeirra. Þið segið kannski að þetta sé ósanngjarnt og að það sé ekkert markvert að athuga hér og nú. En jafnvel þótt þið gangið um til æviloka með minnisbók í hendi og skrifið niður allt sem þið athugið og ef þið að lokum arfleiðið Konunglega félagið að þessari mikilvægu minnisbók, og biðjið það að gera úr henni vísindi, þá kynni Konunglega félagið að varðveita hana sem eitthvað forvitnilegt en örugglega ekki sem uppsprettu þekkingar. Hún gæti kannski týnst í einhverjum kjallara í British Museum (sem eins og þið ef til vill vitið að hefur ekki efni á að skrá flesta dýrgripi sína), en sennilegra er að hún endi á ruslahaug.
      En þið fáið kannski eitthvað vísindalega áhugavert út ef þið segið: „Hér eru kenningarnar sem sumir vísindamenn halda fram nú á dögum. Þessar kenningar útheimta ákveðna hluti sem ætti að vera hægt að athuga við ákveðin skilyrði. Við skulum sjá hvort hægt er að athuga þá.“ Með öðrum orðum velji maður athuganir sínar með vísindaleg vandamál í huga og hina almennu stöðu vísindanna eins og hún birtist þá stundina kann vel að vera að maður geti lagt eitthvað til vísindanna. Ég vil ekki vera kreddufastur og neita að til séu undantekningar eins og til dæmis svokallaðar tilviljanakenndar uppgötvanir. (Enda þótt jafnvel þær reynist mjög oft vera gerðar undir áhrifum kenninga.) Ég segi ekki að athuganir séu ætíð lítilvægar nema þær tengist kenningum en ég vil benda á hver er aðalaðferðin í þróun vísindanna.
      Allt þetta merkir að ungum vísindamanni sem vonast til að gera uppgötvanir er illa ráðlagt ef kennari hans segir: „Farðu um og athugaðu.“ En honum er vel ráðlagt ef kennarinn segir: „Reyndu að kynna þér hvað menn eru að ræða nú á dögum í vísindunum. Finndu út hvar vand­ræði koma upp og vertu áhugasamur um ágreining. Þetta eru spursmálin sem þú ættir að tileinka þér.“ Þú ættir með öðrum orðum að kynna þér vandamálastöðuna eins og hún er hverju sinni. Þetta þýðir að þú tileinkir þér og reynir að halda áfram með rannsóknarstefnu sem hefur alla forsögu fyrri þróunar vísindanna á bak við sig, að þú takir vísindahefðina gilda. Það er mjög einfalt og afgerandi atriði en engu að síður atriði sem rökhyggjumenn gera sér oft ekki nægilega grein fyrir: að við getum ekki byrjað frá grunni, að við verðum að notfæra okkur það sem fyrirrennarar okkar hafa gert í vísindum. Ef við byrjum frá grunni þá verðum við þegar við deyjum komin álíka langt og Adam og Eva voru þegar þau dóu (eða ef þið viljið heldur álíka langt og Neanderdalsmaðurinn). Við verðum að halda áfram ákveðinni hefð. Frá því sjónarmiði hvað við viljum sem vísindamenn – skilning, forsögn, greiningu, og þar fram eftir götunum – er heimurinn sem við búum í ákaflega flókinn. Ég mundi freistast til að segja að hann sé óendanlega flókinn ef þau orð hefðu einhverja merkingu. Við vitum ekki hvar eða hvernig skuli byrja greininguna á þessum heimi. Það er engin viska sem segir okkur það. Jafnvel vísindahefðin segir okkur það ekki. Hún segir okkur aðeins hvar og hvernig aðrir byrjuðu og hvert þeir komust. Hún segir okkur að menn hafi þegar smíðað í þessum heimi einskonar fræðilegan ramma – ef til vill ekki mjög góðan en ramma sem virkar nokkurn veginn. Hann gagnast okkur sem einhvers konar net, sem hnitakerfi sem við getum vísað hinum ýmsu margslungnu fyrirbærum þessa heims til. Við notum það með því að gera athuganir á því og gagnrýna það. Þannig miðar okkur áfram.
      Það er nauðsynlegt fyrir okkur að skilja að af þeim tveimur aðalaðferðum sem við getum kannski útskýrt vöxt vísindanna með er önnur frekar léttvæg og hin mikilvæg. Sú fyrri útskýrir vísindin með söfnun þekkingar: Þau eru eins og stækkandi bókasafn (eða safn). Eftir því sem fleiri og fleiri bækur safnast því meiri og meiri þekking safnast. Hin aðferðin útskýrir þau með gagnrýni: Þau vaxa með aðferð sem er byltingarkenndari en söfnun – með aðferð sem eyði­leggur, breytir og umturnar þeim öllum, þar á meðal mikilvægasta tæki þeirra, málinu sem goðsagnir okkar og kenningar eru settar fram á.
      Það er athyglisvert að sjá að fyrri aðferðin, söfnunaraðferðin, er langtum léttvægari en menn halda. Það er miklu minna um söfnun þekkingar í vísindunum en um byltingarkenndar breytingar á vísindakenningum. Það er furðulegt og mjög áhugavert atriði því að við fyrstu sýn mætti halda að fyrir uppsöfnunarvöxt þekkingar skipti hefðin miklu máli. En því er eimitt öfugt farið. Ef vísindin gætu vaxið með einberri söfnun skipti það ekki svo miklu máli þótt vísindahefðin glataðist vegna þess að hægt væri að byrja að safna á nýjan leik hvenær sem væri. Eitthvað mundi glatast en tjónið væri ekki alvarlegt. Hins vegar ef vísindunum miðar áfram með þeirri hefð að breyta hefðbundnum goðsögnum sínum þá er þörf á einhverju til að byrja með. Hafi maður ekkert til að hnika til og breyta kemst hann aldrei neitt áleiðis. Það þarf því tvær byrjanir fyrir vísindin: nýjar goðsagnir og nýja hefð til að breyta þeim á gagnrýninn hátt. En slíkar byrjanir eru afar sjaldan gerðar. Það tók ég veit ekki hvað mörg ár frá uppfinningu lýsandi tungumáls – sem við getum sagt að hafi verið stundin þegar maðurinn varð maður – til upphafs vísindanna. Allan þennan tíma var málið, framtíðartæki vísindanna, að vaxa. Það óx ásamt vexti goðsagnarinnar – sérhvert tungumál hefur að geyma og varðveitir óteljandi goðsagnir og kenningar, jafnvel í málfræðilegri gerð sinni – og ásamt vexti hefðarinnar sem notar tungumálið til að lýsa staðreyndum og til að skýra og rökræða staðreyndir. Ef þessar hefðir væru eyðilagðar væri ekki einu sinni hægt að byrja að safna; tækið til þess skorti.

                                                                                                Gunnar Ragnarsson þýddi1

Neðanmálsgrein

1. Erindið, sem á ensku nefnist „Towards a Rational Theory of Tradition“, var haldið á þriðju árlegu ráðstefnu the Rationalist Press Association 26. júlí 1948 í Magdelan College, Oxford. Þýðingin er gerð eftir texta bókarinnar Conjectures and Refutations: The Growth of Scientific Knowledge (4. kafla).