Færslusöfn

Íslensk heimspeki – nokkur ártöl

1588 Þýðir Magnús Jónsson (1525–1591) nefndur hinn prúði, sýslumaður að Bæ á Rauða­sandi, Dílektík Fuchsbergers úr þýsku á íslensku.

1640 skrifar Brynjólfur Sveinsson (1605–1675) biskup í Skálholti, Skýringar við Rökræðulist Ramusar í Skálholtsskóla.

1687 lýkur Páll Björnsson (1621–1706), prestur í Selárdal, við uppbyggilegt siðfræðirit á íslensku sem hann nefnir Spegil þolinmæðinnar.

Nokkru seinna yrkir Guðmundur Bergþórsson (1657–1705) kvæðið Heimspekingaskóla eftir íslenskri þýðingu á danska ritinu Collegium Philosophorum sem gefið var út í Árósum árið 1636.

1747 og 1748 dispúterar Páll Bjarnason Vídalín (1728–1759) í heimspeki við Kaupmanna­hafnarháskóla og eru ritgerðir hans prentaðar.

1760 (?) eða þar um bil kennir Hálfdan Einarsson (1732–1785), skólameistari, frumspeki og siðfræði í Hólaskóla og styðst við kennslubækur byggðar á kerfi C. Wolffs.

1762 og 1766 dispúterar Skúli Þórðarson Thorlacius (1741–1815) í heimspeki við Kaupmanna­hafnarháskóla og eru ritgerðir hans prentaðar.

1780 (?) eða þar um bil kennir Hannes Finnsson (1739–1796), biskup, rökfræði, frumspeki og siðfræði í Skálholtsskóla og styðst einnig við kennslubækur byggðar á kerfi C. Wolffs.

1798 kemur út þýðing Jóns Þorlákssonar (1744–1819) á Bægisá á Tilraun um manninn, heim­spekilegu kvæði eftir Alexander Pope.

1842 sendir Björn Gunnlaugsson (1788–1876), stæðfræðikennari við Bessastaðaskóla, frá sér langt heimspekilegt kvæði er nefnist Njóla.

1848 hefur Hannes Árnason (1809–1879) að kenna heimspekileg forspjallsvísindivið Presta­skólann í Reykjavík.

1873 birtir Benedikt Gröndal (1826–1907) langa ritgerð um sögu heimspekinnar, Um það að vita, í tímariti sínu, Gefn.

1875 sendir Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi (1838–1914) frá sér langt heimspekilegt kvæði er nefnist Skuggsjá og ráðgáta.

1880 tekur Eiríkur Briem (1846–1929) við kennslu í heimspekilegum forspjallsvísindum við Prestaskólann.

1885 birtir Grímur Thomsen (1820–1896) fyrstu ritgerð sína um heimspeki í Tímariti hins ís­lenska bókmenntafélags.

1891 skrifar Arnljótur Ólafsson (1823–1904) ritgerð um rökfræði í Tímarit hins íslenska bók­menntafélags.

1897 gefur Eiríkur Briem út Hugsunarfræði (þ.e. rökfræði) til að nota við kennslu á Presta­skólanum.

1901 ljúka Ágúst H. Bjarnason (1875–1952) og Guðmundur Finnbogason (1873–1944) meistaraprófi í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla. Sama ár verður Ágúst fyrsti styrkþegi sjóðs Hannesar Árnasonar til eflingar heimspekilegum vísindum á Íslandi.

1904–1905 flytur Ágúst H. Bjarnason Hannesar Árnasonar fyrirlestra sína í Reykjavík. þeir eru gefnir út á bók á árunum 1905–1915 og nefnast Yfirlit yfir sögu mannsandans.

1907 hlýtur Guðmundur Finnbogason styrk Hannesar Árnasonar. Hann flytur Hannesar Árna­sonar fyrirlestra sína í Reykjavík veturinn 1910–1911.

1911 ljúka þeir Ágúst H. Bjarnason og Guðmundur Finnbogason doktorsprófi í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla. Sama ár tekur Ágúst við embætti prófessors í heimspekilegum forspjallsvísindum við hinn nýstofnaða Háskóla Íslands.

1912 gefur Guðmundur Finnbogason út Hannesar Árnasonar fyrirlestra sína undir heitinu Hugur og heimur. Sama ár kemur út Saga hugsunar minnar um sjálfan mig og tilveruna eftir Brynjúlf frá Minna-Núpi.

1915 hlýtur Sigurður Nordal (1886–1974) styrk Hannesar Árnasonar og flytur Hannesar Árnasonar fyrirlestra sína um Einlyndi og marglyndi við húsfylli í Bárubúð í Reykjavík veturinn 1918–1919.

1919 gefur Helgi Pjeturss (1872–1949) út rit sitt Nýal.

1920 hlýtur Björg C. Þorlákson (1874–1934) styrk Hannesar Árnasonar. Hún ver doktorsritgerð við Sorbonne-háskóla árið 1926 fyrst norrænna kvenna.

1940 flytur Sigurður Nordal útvarpserindi er nefnast Líf og dauði. Erindin vekja mikla athygli, verða tilefni ritdeilna og eru gefin út á prenti.

1948 tekur Símon Jóhannes Ágústsson (1904–1976) við embætti prófessors í heimspekilegum forspjallsvísindum við Háskóla Íslands.

1954 gefur Brynjólfur Bjarnason (1898–1989) út fyrsta rit sitt um heimspeki, Forn og ný vanda­mál.

1970 heldur Þorsteinn Gylfason (1942) Hannesar Árnasonar fyrirlestra sína í Reykjavík. Þeir koma út á bók undir heitinu Tilraun um manninn.

1970 byrja Lærdómsrit Bókmenntafélagsins að koma út og verða helsti farvegur þýðinga á sígildum heimspekiritum. Ritstjóri þeirra er Þorsteinn Gylfason.

1972 hefst nám í heimspeki sem sjálfstæðri grein til B.A.-prófs við Háskóla Íslands. Fyrstu kennarar eru Páll Skúlason og Þorsteinn Gylfason. Nokkru síðar bætast Arnór Hannibalsson og Mikael Karlsson í hópinn.

1975 tekur Páll Skúlason (1945) við embætti prófessors í heimspekilegum forspjallsvísindum við Háskóla Íslands.

1977 er Félag áhugamanna um heimspeki stofnað af nokkrum nemendum við Háskóla Íslands. Fyrsti formaður þess er Ingimar Ingimarsson.

1988 kemur fyrsta hefti af heimspekitímaritinu Hugur út á vegum Félags áhugamanna um heim­speki. Fyrsti ritstjóri þess er Jörundur Guðmundsson.

1997 verður Sigríður Þorgeirsdóttir fyrsta konan sem gegnir starfi háskólakennara í heimspeki

« Til baka

Íslensk heimspeki fyrri alda

Heimspeki hefur verið stunduð á Íslandi í einni eða annarri mynd allt frá því á 12. öld. Hugtak heimspekinnar hefur að vísu breyst í aldanna rás og var notað bæði í víðri og þrengri merkingu. Á miðöldum táknaði heimspeki oftast nær þá fræðaiðkun sem fór fram utan vébanda guðfræðinnar, en á síðari öldum færðist merking hugtaksins nær því sem það er í dag.

Á þessum síðum má öðlast nokkra innsýn í sögu heimspekinnar á Íslandi fram yfir miðja tuttugustu öld. Vefurinn er byggður á uppflettiatriðum sem skrifuð hafa verið fyrir heimspekilega orðabók, Hugtök og heiti í heimspeki, sem væntanleg er einhvern tíma á næstunni og Heim­spekistofnun Háskóla Íslands hefur styrkt.

Heimspekisögu Íslendinga má skipta í nokkur tímabil, sem fara nokkurn veginn eftir almennri skiptingu íslenskrar bókmenntasögu. Nokkur helstu ártöl má þó skoða sérstaklega.

Í Hávamálum eru þeim sem vaka næturlangt við íhugun allra hluta ekki vandaðar kveðjurnar. Þrátt fyrir það má sjá heimspekilega hugsun í nokkrum frumsömdum forníslenskum ritum, svo sem Hávamálum sjálfum, málfræðiritgerðum, formálaSnorra-Eddu og ýmsum alfræðiritum, svo og í hinni svonefndu íslensku hómilíubók. Einnig voru á miðöldum þýdd nokkur lærdómsrit sem hafa inni að halda heimspekilegt efni eða heimspekileg hugtök. Meðal þeirra má nefna Elucidarius, sem samið var á 12. öld af munkinum Honoriusi Augustodunensis og líklega þýtt á norrænu nokkrum áratugum síðar, og ritgerð Alcuins, ráðgjafa Karlamagnúsar, um dygðir og lesti. Þá hafa margir glímt við að ráða í siðfræði Íslendingasagna.

Á 16. öld þýddi Magnús Jónsson sýslumaður rökfræði Fuchsbergers á íslensku og ætlaði hana til útgáfu. Málið á ritinu þótti heldur stirt og varð ekkert úr því.

Á 17. öld kenndi Brynjólfur Sveinsson biskup rökfræði Ramusar á latínu í Skálholti á árunum 1640–1643 og Páll Björnsson prófastur í Selárdal skrifaði árið 1687 siðfræðirit sem mun að öllum líkindum hægt að kalla fyrsta frumsamda heimspekiritið á íslensku. Einnig orti Guðmundur Bergþórsson kvæðið Heimspekingaskóli.

Á 18. öld var sú heimspeki sem Íslendingar lögðu stund á undir sterkum áhrifum af heimspeki Christians Wolff sem var lærisveinn Leibniz. Kennsla hófst í heimspeki við lærðu skólana á Hólum og í Skálholti og lásu Hálfdan Einarsson á Hólum og Hannes Finnsson í Skálholti fyrir kennslubækur byggðar á heimspeki Wolffs. Einnig lásu fjölmargir Íslendingar heimspeki við Háskólann í Kaupmannahöfn og sumir skrifuðu ritgerðir, dispútasjónir, sem þeir létu prenta og eru margar þeirra enn til. Þeirra á meðal eru Páll B. Vídalín og Skúli Þ. Thorlacius.

Á 19. öld lásu stúdentar í Bessastaðaskóla forn heimspekirit undir leiðsögn Sveinbjörns Egils­sonar og nokkrir menntamenn og skáld rituðu um heimspekileg efni í tímarit, m. a. Benedikt Gröndal og Grímur Thomsen. Einnig ortu sumir heimspekileg kvæði, m.a. Björn Gunnlaugsson og Brynjúlfur Jónsson. Þá voru gefnar út fyrstu kennslubækurnar í rökfræði, og mun Arnljótur Ólafsson hafa fundið upp það orð. Einnig þýddi Jón Ólafsson Frelsið eftir John Stuart Mill.

Árið 1848 hófst skipuleg kennsla í heimspeki í Reykjavík, þegar farið var að kenna heimspekileg forspjallsvísindi við Prestaskólann í Reykjavík. Fyrsti kennari í forspjallsvísindum var Hannes Árna­son en síðar tók Eiríkur Briem við starfinu. Þessi kennsla hefur staðið óslitið síðan, því að kennarastarfinu við Prestaskólann var breytt í prófessorsembætti í heimspekilegum forspjalls­vísindum við Háskóla Íslands þegar hann var stofnaður árið 1911.

Á 20. öld urðu miklar breytingar í heimspekisögunni á Íslandi. Styrkur Hannesar Árnasonar varð helsta lyftistöng heimspekilegra fræða framan af öldinni og mætti jafnvel tala um ákveðið blóma­skeið í íslenskri heimspekisögu á tímabilinu 1910–1940. Eftir síðari heimsstyrjöld virðist dofna nokkuð yfir stöðu heimspekinnar en árið 1972 varð sú breyting að byrjað var að kenna heimspeki sem sjálfstæða grein til B.A.-prófs við Háskóla Íslands.

Meðal styrkþega Hannesar Árnasonar má nefna Ágúst H. Bjarnason, fyrsta prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, Guðmund Finnbogason, prófessor og Landsbókavörð, Símon Jóhannes Ágústsson, prófessor í heimspeki, Sigurð Nordal, prófessor, Björgu C. Þorláksson, o. fl. Meðal annarra sem lögðu stund á heimspeki má nefna Helga Pjeturss og Brynjólf Bjarnason.

Flestir þeir heimspekingar sem hlutu styrk Hannesar Árnasonar á fyrri hluta 20. aldar stunduðu nám við Kaupmannahafnarháskóla og voru yfirleitt undir áhrifum annars vegar frá dönskum heimspekikennurum og hins vegar frá frönskum heimspekingum samtíma síns, einkum Henri Bergson. Einnig gætir áhrifa frá bandarískum pragmatisma, einkum William James.

Á sjötta áratugnum stunduðu tveir Íslendingar heimspekinám í Skotlandi, Gunnar Ragnarsson og Páll S. Árdal, síðar prófessor í Kanada. Um svipað leyti skrifar Gunnar Dal fjölmargar alþýðlegar bækur um heimspeki og austræn fræði.

Á síðustu áratugum 20. aldar hafa áhrif frá Bandaríkjunum og Bretlandi í meira mæli sett mark sitt á íslenska heimspeki. Þar hefur mestu ráðið að ungir, íslenskir heimspekingar hafa sótt fram­haldsnám í miklum mæli til Bandaríkjanna og Bretlands.

« Til baka

Íslensk heimspeki í Mexico

eftir Hrannar Baldursson

I. Að uppgötva heimspekina

Frá unga aldri hef ég haft mikinn áhuga á dularfullum spurningum sem leitað hafa á mig. Hvað er þetta og hvað er hitt? Til hvers er þetta og til hvers er hitt? Af hverju þetta og af hverju hitt? Hvers vegna þetta og hvers vegna hitt? Kannski hljóma þessar spurningar álíka við fyrstu sýn, en þegar viðfangsefni verða fyrir manni og maður spyr, verða þær fljótt áhugaverðar. Hugsum til dæmis um frelsi: Hvað er frelsi? Til hvers er frelsi? Af hverju hugsum við um frelsi? Hvers vegna er frelsi mikilvægt?

Sem barn velti ég mikið fyrir mér eðli hlutanna og tilgangi. Til að mynda pældi ég í hlutum eins og hvort að hver einasti hlutur og hver einasta vera og hvert einasta fyrirbæri í heiminum hefði sér einhvern einn ákveðinn tilgang, eða hugsanlega marga. Ég man eftir samræðum við vini mína þegar þeir bentu á að hitt og þetta væri óþolandi, eins og mýflugur að sumri við unglingavinnu. Alltaf þurfti ég að reyna að benda þeim á að viðkomandi hlutur væri á einhvern hátt ómissandi í tilverunni, sama hvort um væri að ræða flugur, óvini, slys, mykju eða dauða.

Einnig höfðu foreldrar mínir sett mér afar skýrar leikreglur í sambandi við sannleikann, og hafði ég ákveðið að fylgja þeirra ráðum: að segja alltaf satt. Það kom mér stundum í vandræði, eins og til að mynda þegar skólafélagi braut rúðu. Margir sáu atburðinn. Ég sagði skólastjóranum satt og rétt frá fyrir framan bekkjarfélaga mína. Ekki vinsælt það.

Þar að auki hafði ég gífurlega sterka réttlætiskennd og var mikill rómantíker. Mér fannst ég gegna hlutverki verndara, rétt eins og Don Kíkóte og að sjálfsögðu án þess að aðrir samþykktu það hlutverk. Ég skipti mér oft af slagsmálum milli krakka og reyndi að stoppa þau, sérstaklega ef mér sýndist sterkari einstaklingur væri að kvelja veikari, eða ef nokkrir réðust gegn einum. Reynslan við þetta var stundum sár, en mér fannst hún þó hafa meira gildi en að sitja aðgerðarlaus og horfa bara á. Ég fylgdi semsagt siðalögmálum riddaramennskunnar, og geri það sjálfsagt að miklu leyti enn í dag.

Því miður náði ég ekki að yfirfæra þessa göfugu lund á allar mínar gerðir. Ég var breyskt barn og varð nammifíkill. Ég einfaldlega gat ég hætt að háma í mig ‘Smarties’. Til að fjármagna fíkn mína fór ég að stela peningum, og það óx upp í að einu sinni stal ég tindátapoka úr kjörbúð og síðan teiknimyndasögum úr bókabúð. Það var á þessum tíma sem ég kynntist hversu mögnuð fíkn og ávani getur orðið. Ég missti algjörlega stjórn á þessu og stal eins miklu og ég komst upp með. Einn daginn var ég það heppinn að eigandi bókaverslunar stóð mig að þjófnaði bókar, og hótaði að hringja í foreldra mína. Ég skammaðist mín ógurlega og hætti að stela úr verslunum. Þá var ég tíu ára. Hef ekki stolið síðan.

Ég viðurkenndi allt sjálfur fyrir foreldrum mínum og var refsað með innilokun í herbergi mínu í einhverjar stundir, og fékk ekki að horfa á prúðuleikarana í sjónvarpinu þá vikuna, en það þótti mér skemmtilegasta sjónvarpsefnið. Mér þótti refsingin réttlát, en þetta varð til þess að ég fór að hugsa alvarlega um hvað hafði valdið þessu.

Ég komst að þeirri niðurstöðu að ávaninn varð sjálfum mér sterkari. Ég hét sjálfum mér að láta þetta aldrei koma fyrir aftur. Frá þessari stundu fylgdist ég með þegar rætt var um ávanabindandi efni, og forðaðist þau þá eins og heitan eldinn. Þetta varð til þess að ég hef aldrei prófað að reykja né drekka kaffi; og þar að auki smakkaði ég ekki áfengi fyrr en á 20. aldursári eins og lög gera ráð fyrir, og hafði alltaf í huga að drykkja gæti orðið fíkn, rétt eins og ‘Smarties’-átið. Reyndi ég því að finna meðalhófið og sá hversu mikilvægt það er. Þegar ég uppgötvaði löngu síðar að ég var í raun orðinn háður Diet-Coke gosdrykknum, lagði ég mig sérstaklega eftir því að hætta þeirri drykkju og taka upp sódavatns- og vatnsdrykkju í staðinn. Fíkn og ávani er nefnilega eitthvað sem gerist þegar við gerum hlutina í hugsunarleysi, að minnsta kosti er það þannig í mínu tilfelli.

Sem barn varð ég einnig var við hvernig félagsskapur hafði áhrif á fólk. Ég sá vini mína umbreytast þegar þeir byrjuðu að verja tíma sínum með ólíku fólki. Það var eins og persónuleiki og skoðanir annarra yfirfærðust á annað fólk, án þess að djúpar ástæður lægju nauðsynlega að baki. Til dæmis sá ég mjög friðsæla og góða stúlku umturnast með félagsskap sínum við vinkonu sem átti foreldra með mikil vandamál. Þessi stúlka fór að yfirfæra vandamál vinkonu sinnar yfir á eigið líf, og hafði þetta mikil áhrif á framtíð hennar. Það sama gerðist með marga vini mína – ég sá þá breytast með ólíkum félagsskap og taka upp ákveðna takta sem var ekki þeirra. Ég dró þá ályktun að þetta gæti komið fyrir mig rétt eins og alla aðra. Því reyni ég ávallt að velja vini mína vel. Samt veit ég að sama hvert valið verður, hefur valið sjálft áhrif á okkur, ásamt samneiti okkar við þá sem við ákveðum að kynnast betur.

Ég varði löngum stundum sem barn við lestur bóka, og var vanur að bíða eftir bókabílnum á hverjum mánudegi til að velja mér eitthvað nýtt lestrarefni. Þar að auki uppgötvaði ég spennandi áhugamál – eftir að hafa prófað nokkrar ólíkar íþróttir eins og knattspyrnu, körfubolta, handbolta og júdó – engin þeirra átti sérstaklega við mig: skák. Skákin heillaði og mér líkaði vel við félagsskapinn. Þetta var rólegt fólk, en samt fannst mér alltaf mikið krauma undir yfirborðinu. Þar að auki eru siðareglur skákmanna ekki ólíkar siðareglum miðaldariddara. Ég fann ákveðinn samhljóm með þeim.

Það var svo á nítjánda aldursári að ég kynntist námsgrein sem heillaði mig; heimspeki. Gunnar Hersveinn kenndi heimspeki með líflegum hætti, og mér fannst ég oft vera í tíma hjá skáldi sem sífellt fann nýjar leiðir til að vekja áhuga lesenda á viðfangsefninu. Honum tókst það í mínu tilfelli.

Síðustu daga Sókratesar las ég spjaldanna á milli, ekki sjaldnar en fimm sinnum yfir þessa önn. Mér fannst stórkostlegt hvernig nýjar hugmyndir lifnuðu í huganum, við lestur hverrar einustu blaðsíðu. Ég áttaði mig á að þessi bók var hvorki til að kunna né skilja, heldur til að læra; læra að vera meira manneskja. Þarna var sagt frá manni sem hafði allt sitt líf sagt satt og rétt frá og virt og farið eftir þeim siðareglum sem samfélag hans og hann sjálfur höfðu sett honum, í fullri einlægni.

Reyndar var hann tekinn af lífi og hlaut mikið vanþakklæti frá sínum samtímamönnum, en hann hafði líka lifað tvær stjórnarbyltingar og hugsanlega átt sinn þátt í sköpun hugmyndafræðinnar sem stóð þeim að baki. En það var eitthvað fagurt við þetta allt saman, hvernig Sókrates hafði trúað því að eina leiðin til að komast þangað sem sál hans fengi að njóta sín til fullnustu, væri við að losna undan líkamlegum nautnum og ávana, að losa sálina frá líkamanum sem hlekkjaði hana við jörðina. Þó að margir félagar mínir hafi bókað Sókrates sem rugludall var ég á öðru máli. Þessi maður hafði sýnt mikið hugrekki og staðið við það sem hann trúði á, og trú hans var byggð á mjög traustum rökum, í það minnsta rökum sem ég sá engan veikleika á. Hvaða rök fyrir eigin tilvist geta verið sterkari en þau sem haldið er fram af manni sem sífellt leitar sannleikans og er tilbúinn til að efast um gildi eigin raka, ef betri rök koma fram?

Þá gerðist nokkuð í mínu lífi. Það var kvöld eitt að framhaldsskólaskákmót var í gangi. Einhverjir af mínum nánustu vinum áttu að tefla, en höfðu ákveðið að fara frekar út að skemmta sér, enda hafði prófum lokið sama dag. Ég vildi ekki skrópa í skákina, enda fyrirliði liðsins, og fann aðra til að keppa í þeirra stað. Næsta morgun þegar ég opnaði Morgunblaðið, sá ég mynd af félaga mínum Kjartani, þar sem tilkynnt var um andlát hans. Bíll félaga minna hafði farið fram af Hafnarfjarðarbryggju í frosti.

Heimspekilegar spurningar tóku að leita á mig af miklum krafti. Ég skrifaði fjölmargar sögur, ljóð og pælingar til að velta fyrir mér öllum þessum málum og stakk þeim svo flestum ofan í tösku og hreyfði ekki við þeim aftur. Ég hafði til margra ára stefnt á að læra rafeindaverkfræði eða tölvunarfræði, eða jafnvel lögfræði. Þegar komið var að skráningu fylltist ég efasemdum. Ég spurði sjálfan mig hvernig manneskja ég vildi vera. Ég hafði þá skoðun að við veljum það sem við erum, en fylgjum ekki endilega einhverri einni ákveðinni köllun í lífinu. Hefði ég valið tölvunarfræði, hefði persónuleiki minn sjálfsagt mótast í samræmi við það val. Ég valdi heimspeki og bókmenntafræði.

Af heimspekitímum í háskólanum þótti mér samræðutímar með Páli Skúlasyni áhugaverðir, í áfanganum ‘Inngangur að Heimspeki’. Ástæðan var fyrst og fremst sú að öllum nemendum var raðað í hring og ætlast til að við ræddum saman um spurningar sem vöknuðu eftir lestur námsefnisins. Ég hafði ótal spurningar sem spruttu fram við lestur námsefnisins og fékk einhvern smá ávæning af því hvernig heimspekileg samræða gæti verið.

Flest fögin voru sett fram sem fyrirlestrar, en mestan áhuga hafði ég á samræðum. Þótti mér of lítið um samræður í kennslustundum, en aftur á móti fengu nemendur gífurlega góða og djúpa undirstöðu í vestrænni heimspeki. Eftirminnilegasti hluti heimspekinámsins var þegar hópur í áfanga hjá Þorsteini Gylfasyni ákvað að fara í Skálholt, þar sem skrifaðar yrðu ritgerðir og rætt saman um heimspeki í nokkra daga. Þorsteinn Gylfason kom með, og var það mér mikil ánægja að sitja með honum í bíl og spjalla um heimspekilegar hugmyndir – sérstaklega man ég eftir þegar við ræddum um nýyrði og hvaðan þau kæmu, hvernig ný orð yrðu til í málinu og hvernig þau festust. Þá var Þorsetinn að þýða texta úr óperu sem sýna átti nokkrum vikum síðar hjá Íslensku Óperunni. Þessi tími í Skálholti var stórfengleg reynsla, þó svo að ritgerð mín um órjúfanleg tengsl myndhverfinga og heimspekilegrar samræðu hafi þótt torskilin.

Þegar B.A.-prófi var lokið tók ég að velta fyrir mér framhaldsnámi. Hreinn Pálsson hafði komið í stofu til okkar einn daginn í Aðalbyggingu háskólans og kynnt okkur það sem hann kallaði „heimspeki fyrir börn“. Hann sagði okkur sögu um mýs og kött og reyndi að fá okkur til að ræða heimspekilega saman, sem reyndar var erfitt, því að við höfðum ekki verið þjálfuð til að ræða heimspekilega saman um eitt eða neitt. Þjálfun íslenskra heimspekinema fólst í því að gagnrýna heimspekilegar hugmyndir og skrifa um þær ritgerðir. Samræðan var oft skilin útundan. Þessu gerði ég mér óljósa grein fyrir þegar Hreinn minntist á að börn væru fljót til að stökkva á þær heimspekilegu hugmyndir sem fælust í sögunni, og að honum þætti undarlegt að háskólalærðir heimspekinemar gerðu ekki það sama. Ég fann fyrir ákveðinni samkennd með því sem Hreinn var að reyna.

Því mælti ég mér mót við hann og ákvað að leggja í framhaldsnám við Montclair State University í Bandaríkjunum, þar sem heimspeki fyrir börn, sem ég vil kalla hugfimi, var sprottin. Þegar ég lagði af stað hafði Hreinn tilkynnt mér að 99% líkur væru á því að ég fengi styrk sem borgaði öll skólagjöld mín, og þessi tilkynning hafði komið úr símtali við Matthew Lipman sjálfan, þeim sem fundið hafði Hugfiminni farveg.

Eftir að hafa verið í heimspekilegum samræðum með fólki víðs vegar að úr heiminum í kaþólsku klaustri í Mendham, New Jersey; samræðum sem ég hafði svo lengi þráð að komast í; samræðum þar sem hlustað var jafnt á hvern einstakling sem hafði eitthvað fram að færa, og allir hvattir til þátttöku, og allir hvattir til að huga betur að sérhverju málefni sem tekið var fyrir; var ég sannfærður um að þetta var eitthvað fyrir mig – þetta var námið og lífið sem ég vildi leggja fyrir mig.

Eftir þrjá daga í heimspekilegum samræðum fékk ég símhringingu frá Matthew Lipman, sem enn var ekki mættur í klaustrið. Hann hafði þá fréttir að færa að styrkur minn hafði ekki verið samþykktur. Þetta var áfall. Hvað átti ég að gera? Fara aftur til Íslands þar sem tæki við atvinnuleysi – en ég hafði verið atvinnulaus í einn og hálfan mánuð eftir að heimspekinámi lauk og loks fengið vinnu sem aðstoðarmaður í byggingarvinnu við að reisa íþróttahús í Kópavogi.

Eftir fimmtán mínútna umhugsun tók ég ákvörðun.

Hreinn Pálsson tók vel á móti mér við heimkomuna ári síðar og útvegaði mér strax nokkur góð verkefni. Ég hélt heimspekinámskeið fyrir atvinnulaus ungmenni við Iðnskólann í Reykjavík, og tók einnig að mér heimspekikennslu fyrir ung börn á sumarnámskeiði í Gerðubergi. Sama sumar var auglýst eftir heimspekikennara við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Ég sótti um og fékk starfið. Þetta var hlutastarf, og því sótti ég einnig um hlutastarf hjá Iðnskólanum í Reykjavík og fékk það líka.

II. Að upplifa heimspeki með börnum: Watchung Primary School, Montclair, New Jersey 1994

12 ára börn

Fyrsta reynsla mín sem kennari í hugfimi var í janúar árið 1994. Þá mætti ég einu sinni í viku í Watchung barnaskólann og fékk að vinna með hóp 11-12 ára barna í hálfa klukkustund í senn. Það voru um 20 börn í hópnum og var kennari þeirra viðstaddur. Hann hélt uppi ströngum aga, svo ströngum reyndar að mér þótti einum of. Til dæmis skammaði hann nemanda fyrir að leika sér með blýant milli fingranna, og annan fyrir að segja eitthvað óskylt efninu. Reyndar er heimspekin þannig að oft er erfitt að greina hvort samband sé á milli þess sem barn segir og hugsar, og þess sem hópurinn segir og hugsar.

Ég hafði komið með nógu mörg ljósrit af fyrsta kafla Lísu eftir Matthew Lipman til að allir gætu setið í hring og lesið upp úr henni. Fyrsti tíminn byrjaði vel. Börnin lásu, spurðu spurninga og völdu sér síðan hugmynd til að ræða um. Börnunum þótti áhugavert að ræða um dauðann, og hvað yrði eftir dauðann, en daginn áður hafði Oprah Winfrey verið með sjónvarpsþátt og umfjöllunarefnið hafði verið: líf eftir dauðann. Börnin tengdu fyrsta kafla Lísu saman við umfjöllun Oprah, og byrjuðu að ræða þessi mál. Eins og gengur og gerist reyna sumir að tala meira en aðrir, grípa fram í og gera lítið úr skoðunum annarra, en hluti verkefnis hugfimikennarans er að leysa þessi vandamál svo að úr verði sterkara samræðusamfélag meðal nemenda. Það tókst ágætlega í þetta sinn. Samræðan varð á tíma mjög spennandi, sérstaklega vegna þess að nemendur voru af ólíkum stigum samfélagsins, þarna voru börn efnaðs fólks, en það sendi börnin sín í þennan opinbera skóla þar sem hann hafði á sér mjög gott orðspor, þarna voru börn fátækra foreldra og börn úr millistétt.

Sumir töldu að líf væri eftir dauðann, en öðrum þótti þessi hugmynd fáránleg. Nemendur gáfu dæmi máli sínu til stuðning. Þegar minnst var á ljósið sem fólk sér þegar það er á mörkum þess að deyja, en getur svo sagt frá eftir að það hefur verið vakið aftur til lífsins var það útskýrt af þeim sem trúðu á líf eftir dauðann að þetta væri leiðin að öðrum heimi, en af hinum sem ekki trúðu því að hér væri líklegast um súrefnisskort að ræða. Þá var farið út í að ræða hvað yrði um líkamann, og sumir fullyrtu að líkaminn væri aðeins klæði sem sálin notaði á meðan manneskjan lifði, en aðrir að líkami og sál væri sami hluturinn. Einn drengur sagði að hann væri fullviss um að maður yrði bara maðkamatur og ekkert annað, á meðan aðrir héldu að maður kæmist á annað tilvistarstig. Nemendur héldu áfram að ræða saman um samband líkama og sálar, sú samræða var spennandi og var þátttaka lífleg.

Þannig fóru margar samræður fram, og alltaf var rætt um ólík hugtök – einfaldlega það sem vakti mestan áhuga nemenda á hverri stundu. Oftast reyni ég að tengja síðustu samræðu við þá næstu, en sama hvað ég reyni, alltaf tekst nemendum að finna spurningar og fleti sem ég hafði ekki reiknað með, en voru samt heimspekilega séð, mjög spennandi viðfangsefni.

Summer Honors 1994-2004

Eftir æfingakennsluna í Watchung og lok prófa við Montclair State University, var haft samband við kennara minn, Ann Margaret Sharp, og hún beðin um að mæla með kennara til að kenna rökfræði á námskeiði fyrir afburðargreinda nemendur í Nebraska á aldrinum 13-18. Þetta yrði tveggja vikna námskeið. Eugenio Echeveria hafði áður haldið þessi námskeið en komst ekki í þetta skiptið vegna mikilla anna. Hann aðstoðaði mig sérstaklega við undirbúning fyrir fyrsta námskeiðið sem ég hélt.

Það var svolítið spennandi að koma til Nebraska. Þar er endalaust flatlendi í allar áttir og landbúnaður aðal atvinnugreinin. Ég fékk gistingu í heimahúsi, og þannig hefur það verið á hverju sumri síðustu tíu árin. Á sunnudegi, áður en námskeiðið átti að hefjast var öllum kennurum boðið í mat á heimili nokkurra starfsmanna. Það eftirminnilegasta sem ég sá þetta kvöld var hvirfilvindur. Hann þeyttist um fyrir utan stofugluggann, reyndar í mikilli fjarlægð, og kippti sér enginn upp við hann nema ég, sem hafði aldrei augum litið slíkt náttúruundur.

Áður en kennsla hófst, daginn eftir, raðaði ég borðum og stólum í hring og skrifaði leiðbeiningar á töflur stofunnar um hvernig best væri að hegða sér í samræðusamfélagi. Þegar nemendur mættu var ég ekki einu sinni viss um að þau myndu skilja enskan framburð minn almennilega. Ég byrjaði á því að biðja nemendur að læra nöfn hvers annars sem fyrst, svo að enginn yrði neinum ókunnugur í stofunni. Þannig tókst mér líka að kynnast þeim betur. Með því að þekkja nöfn fólksins í kringum þig skapast ákveðið traust og trúnaður meðal viðkomandi. Næst lét ég þau taka könnun í rökleikni. Svo fórum við yfir hana og athuguðum saman hver réttu svörin voru. Spunnust áhugaverðar samræður um það.

Loks snérum við okkur að Lísu, eftir Matthew Lipman. Ég man enn hver fyrsta spurningin sem valin var af nemendunum var.

„Hvað gerist ef þú horfir í spegil og ljósin er slökkt.“

Þessi spurning hljómar ósköp sakleysislega, en hún varð til að umræðuefni næstu tveggja vikna varð hugtakið: „ekkert“. Ræddu nemendur mikið um eðli þessa hugtaks og þótti þeim mjög dularfullt að allir vissu einhvern veginn hvað „ekkert“ þýddi, en komust að því að „ekkert“ gæti samt ekki verið til. Þetta varð til þess að nemendur rannsökuðu hvernig „ekkert“ tengdist ólíkum fræðigreinum, eins og stærðfræði, list, tölvufræði, vísindum og fleiru. Í lok vikunnar tveggja var lokahönd lögð á rit sem nemendurnir kölluðu: „Nothing: The Book“ og sögðust þau ætla að gera kvikmynd að ári sem héti: „Nothing: The Movie“ en ekkert varð úr henni.

Á hverju ári síðan, í júnímánuði, hef ég fengið 14 nemendur í rökfræðihópinn og hefur hann náð miklum vinsældum. Ár eftir ár sækja flestir nemendur um að komast í rökfræðina. Um 500 afburðarnemendur sækja um að komast á námskeiðið, sem samanstendur nú af rökfræði, tölvufræði, samfélagsfræði, ritlist, myndlist (teiknimyndagerð), leiklist, vísindum, læknisfræði og tæknifræði. Af þessum 500 nemendum komast aðeins um 110 að. Á síðasta ári sóttu 99 nemendur um rökfræði sem fyrsta val.

Nemendur hafa rætt allt milli himins og jarðar á þessum námskeiðum. Eitt árið var meginþemað goðafræði, þar sem við leituðum að hinu sanna í sögum sem virtust ósannar, eitt árið rannsökuðum við skák og hvernig rökhugsun tengist skáknámi, enn eitt árið rannsökuðum við visku, og reyndum að átta okkur á hvort hægt væri að mæla visku á svipaðan hátt og hægt er að mæla þekkingu. En mikill fjöldi hugmynda og umræðuefna hafa sprottið fram sem hafa vakið áhuga allra sem þátt tóku, og minn líka að sjálfsögðu, en ég hef þá kenningu að nemendur muni varla fá áhuga á námsefninu nema kennarinn sýni að hann hafi svo brennandi áhuga að það sé nánast smitandi.

Um heimspekikennslu á Íslandi 1994-1998

Ég var ráðinn sem heimspekikennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti haustið 1994. Ég tók á heimspekikennslunni á svipaðan hátt og ég hafði gert með nemendum mínum í Nebraska. Megin munurinn var sá að ég samdi sjálfur og þýddi fjölmargar sögur og greinar sem ég vildi nota sem stökkbretti út í sundlaug heimspekinnar, til þess að finna áhugaverðar heimspekilegar hugmyndir meðal nemenda. Áhugi nemenda var gríðarlegur og hópur nemenda tók sig saman og unnu með mér að gerð fleiri áfanga, því þeim þótti mjög gott að ræða heimspeki nokkrum sinnum í viku með öðru námsefni. Urðu til áfangarnir Heimspeki 2024 og 3024, Rökfræði 1024 og Gagnrýnin hugsun 1024. Góður hópur sótti ávallt þessa tíma.

Nemendur sátu alltaf í hring í tímum hjá mér, og stundum fór ég með hópa út í Menningarmiðstöðina Gerðuberg þar sem við fengum að vera í sal, okkur að kostnaðarlausu, en þar gátu nemendur drukkið kaffi og gos í tímum, og verið á þægilegum stað á meðan samræður stóðu yfir. Einn daginn heimsótti Pétur Blöndal okkur, en þá var hann blaðamaður Morgunblaðsins og skrifaði skemmtilega grein um heimsóknina. Einnig fór hópur nemenda einn daginn í sjónvarpssal þar sem þeir spurðu spurninga um trúmál fyrir sjónvarpsþáttinn Ó.

Félagslega hafði þessi áfangi mjög góð áhrif á nemendur. Vináttusambönd urðu til sem lifa enn góðu lífi í dag. Stofnað var til árlegrar heimspekiferðar í fjallakofa þar sem nemendur og kennari áttu góða kvöldstund saman og sváfu síðan (misjafnlega mikið) á staðnum yfir nóttina. Nokkrir nemendur urðu til þess að láta mig vita að þeir hefðu komist yfir námsleiða og jafnvel þunglyndi við að sækja þessa tíma, því að allt í einu urðu hlutirnir svo áhugaverðir og spennandi. Móðir eins nemanda skrifaði mér fallegt bréf um hvernig sonur hennar hafði verið við það að flosna frá námi, en síðan hafi áhugi hans kviknað við að vera í hugfimitímunum.

Áður en ég fór til Mexíkó, árið 1998, kvöddu nemendur mig fallega um vorið og buðu mér í bátsferð eitt kvöldið. Þá var gott að ræða við marga nemendur í síðasta sinn fyrir ferðina löngu, og horfa á Reykjavík á siglingu úti á hafi. Þetta var fallegt kvöld og eftirminnilegt.

Árin 1995-1996 kenndi ég einnig áfanga í Iðnskólanum í Reykjavík sem kallaður var Hugfimi 102, en hann var settur saman eins og áfangarnir í FB. Ingvari Ásmundssyni, skólameistara Iðnskólans, þótti nafngiftin Heimspeki 102 ekki hljóma nógu spennandi, og því varð úr að ég fann upp á heitinu ‘Hugfimi’ sem síðan hefur loðað við þessa aðferð heimspekinnar.

Árið 1997 var ég svo fenginn til að þjálfa kennara við Selásskóla í Reykjavík til hugfimikennslu fyrir börn. Kennararnir sýndu náminu mikinn áhuga og hafa tjáð mér að námskeiðið hafi reynst þeim mjög gagnlegt. Því miður gat ég ekki fylgt námskeiðinu nógu vel eftir þar sem ég flutti af landi brott.

Um heimspekikennslu í CEFILNI – börn, unglingar, háskólanemendur, kennarar

Angeles, konu minni, hafði ávallt þótt mikið til borgarinnar Merida koma, enda er hún mjög merkileg og spennandi borg á Yucatanskaganum. Hún hafði áhuga á að reisa þar skóla. Við stofnuðum CEFILNI – eða Centro de Filosofia Para Ninos y Ninas del Sureste, A.C. Fyrsta árið gekk hægt, en þó vorum við fengin til að þjálfa kennara við kaþólskan einkaskóla, Educación y Patría (Menntun og föðurlandsást). Nokkrar nunnur voru með í hópunum sem við þjálfuðum og þótti þeim, jafnt sem nemendunum, námið vera mjög spennandi og áhugavert. Við eiginkona mín kenndum þetta saman; hún kenndi eina vikuna og ég þá næstu. Fyrsta árið notaði ég mikið túlk, en komst svo ótrúlega fljótt upp á lagið með að skilja og greina heimspekilegar hugmyndir sem nemendurnir tjáðu á spænska tungu. Varð ég brátt mjög fær í heimspekilegri samræðu á spænsku, en var nánast ósjálfbjarga í öllu öðru – vissi til dæmis ekki hvað hinir ólíku hlutir eldhússins eða matvörur hétu, en gat rætt um ólíkar myndir frelsis – hvort sem væri frelsi til gera eitthvað, eða frelsi frá einhverju.

Smám saman jukust verkefnin og við tókum að okkur námskeið í ólíkum fylkjum Mexíkó, og þar reyndist okkur vinur minn, Eugenio Echeveria vel enn og aftur, en hann bað okkur að koma sér til aðstoðar.

Við opnuðum námskeið fyrir börn í skólastofu sem við höfðum byggt úr viði og gleri, eins og heimski maðurinn í dæmisögunni gerði, en höfðum enga ástæðu til að trúa öðru en að hún dygði okkur í fjölda ára. Við fengum nemendur frá fjögurra ára aldri til átján ára, auk þess sem að nemendur úr háskólum, bæði kennarar, kennaranemar og sálfræðinemar sýndu mikinn áhuga á að taka námskeið hjá okkur. Það gekk vel. Spænskan mín var orðin mjög góð.

Angeles var boðið á ráðstefnu í Kólumbíu, þar sem hún átti að kynna hugfimina fyrir fólki víða úr Suður-Ameríku. Varð það til þess að okkur var boðið að þjálfa kennara í Kosta Ríka, sem við ferðuðumst fjórum sinnum til, og svo í Ekvadór, þar sem ég meðal annars hitti danska heimspekinginn Per Jespersen og kornungann nemanda hans, sem þá voru að gefa út bók saman, en Per skrifar meðal annars fyrir skólavefinn íslenska á http.//www.skolavefur.is.

Það væri of mikið verk að telja upp hvert við ferðuðumst innan Mexíkó og við hvaða stofnanir við störfuðum.

Ég tók að mér starf sem framhaldsskólakennari við hinn kaþólska Instituto Cumbres de Merida, en hann rekur ‘The Legion of Christ’ eða ‘Hersveit Krists’ þar sem ég kenndi samfélagsfræði, heimspeki, landafræði, aðferðarfræði vísinda, námstækni og tölvufræði. Starfsliðið var óaðfinnanlegt, miklir fagmenn, en nemendur voru erfiðir. Þegar ég reyndi að fá þá til samræðu gekk það engan veginn. Þessir nemendur voru vanir samkeppni sín á milli og því að spilla hverjir fyrir öðrum – þeir fáu sem sýndu námi mikinn áhuga fengu ekki tækifæri til að þroska sig í eðlulegu námsumhverfi. Árin mín tvö við þennan skóla voru því sorgleg reynsla – þar sem mér sýndist nemendur læra nánast ekkert. Reyndar voru þessir nemendur börn milljónamæringa, og var ekki óalgengt að þau fengju bíl í verðlaun fyrir góðar einkunnir en einhvers konar refsingu fyrir lægri einkunnir. Þessir nemendur virtust ekki finna fyrir neinni þörf til þess að læra. Þeir voru fátækasta fólk sem ég hef kynnst, þrátt fyrir að hafa meiri aðgang að fjármunum en flestir aðrir. Því hætti ég störfum þar eftir tveggja ára baráttu við að skapa betri námsaðstæður.

Haustið 2002 virtist allt vera á uppleið. Við höfðum lagt grunninn að menningarstofnum hjá Coca Cola fyrirtækinu í Merida, þar sem að börn starfsfólks í verksmiðjum fengu tækifæri til að ástunda hugfimi, læra tölvufræði, leiklist, og margt fleira. Höfðum við skapað heilt starf þar sem að ég átti að sjá um að dæmið gengi upp. Á sama tíma höfðum við haldið fjölda nemenda okkar í hugfimiskólanum, og mörg verkefni voru á döfinni. Frá árinu 2000 hafði ég unnið að uppbyggingu Vísindavefs Háskóla Íslands gegnum internetið undir ritstjórn Þorsteins Vilhjálmssonar, og var ég mjög ánægður með að vinna við vefinn.

En þá skall ógæfan yfir. Sunnudaginn 22. september árið 2002 reið yfir Merida fellibylurinn Ísídór. Hann var gríðarlega kraftmikill. Vindhraðinn fór upp í 250 km á klukkustund, sem eru 135 hnútar eða 69 metrar á sekúndu, en fárviðri samkvæmt venjulegum skala er allt yfir 118 km á klukkustund.

Þetta varð til þess að kennslustofan okkar, úr viði og gleri, gjöreyðilagðist. Borgin Merida varð fyrir mikilli eyðileggingu af völdum fellibylsins. Við vorum án rafmagns og síma í heilan mánuð. Mikið vatn hafði safnast saman í sundlaug sem við höfðum byggt úti í garði, þannig að við höfðum baðvatn. Einnig tókst okkur að kaupa drykkjarvatn í tönkum, en það var erfitt að fá þá. Einn daginn þurfti ég að bíða um 10 klukkustundir í röð fyrir utan ísverksmiðju, til að kaupa einn tíu lítra ísklump sem verði mat okkar gagnvart hitanum (en á þessum tíma var um 35 stiga hiti í skugga).

Menningarmiðstöðin sem var verið að byggja var jöfnuð við jörðu, og því yrði opnun hennar frestað í um eitt ár. Skólastofan okkar var gjörónýt og við gátum ekki lengur tekið á móti nemendum. Síma- og internetsamband lá niðri þannig að við gátum ekki haldið uppi samskiptum við viðskiptavini okkar. Þetta gerði okkur gjaldþrota og við fluttum til borgarinnar Puebla, en fjölskylda Angeles bjó þar að studdi okkur til að koma undir okkur fótunum á ný.

Við héldum áfram að kenna á námskeiðum víða um Mexíkó og ég fór til starfa við Instituto Andes de Puebla, sem einnig var rekinn af ‘Hersveit Krists’ og voru agavandamál þar nákvæmlega jafn slæm og í Merida. Einnig byrjaði ég að þjálfa unga krakka í skák, en okkur tókst ekki að verða okkur úti um húsnæði til að byrja hugfimiskólann aftur. Mér líkaði ekki ástandið í Puebla og ákvað að leita aftur heim til Íslands.

Ég kom heim í júní árið 2004, og hef fengið húsnæði til að hefja hugfiminámskeið fyrir börn í Skeifunni í Reykjavík. Einnig hef ég hug á að þróa námsefni fyrir fullorðna, fyrirtæki og stofnanir.

Þar að auki stunda ég kennslu við barnaskólann Salaskóla í Kópavogi, þar sem ég beiti meðal annars aðferðum hugfiminnar. Hugfimitímar með börnum þar hafa tekist vel, börnin hafa sýnt náminu mikinn áhuga. Gott að vera kominn heim.

Viskulind byrjar með námskeið í janúar árið 2005. Kennsla fyrir börn mun einungis fara fram á laugardögum. Námskeið fyrir leikskólakennara og grunnskólakennara eru skipulögð eftir samkomulagi.

« Til baka