Færslusöfn

Páll B. Vídalín

Páll Bjarnason Vídalín (1728–1759), heimspekinemi.

Fæddur 1728, sonur Bjarna Halldórssonar sýslumanns og Hólmfríðar Pálsdóttur. Lærði í heimaskóla og hélt til Kaupmannahafnar 1743, tók lárviðarpróf í heimspeki 1745, fór til Leipzig 1749 og lagði þar stund á ýmsar fræðigreinar, einkum heimspeki, með styrk úr konungssjóði. Lést í Leipzig 1759.

Páll þótti frábærlega vel gefinn og er framlag hans til íslenskrar heimspeki þrjár ritgerðir sem hann lét prenta eftir sig í Kaupmannahöfn: De methodo mathematico-philosophica (1745), Num philosophia facultatis inferioris nomine recte possit appellari(1747) og De voluptatibus innocuis et licitis (1748).

« Til baka

Páll Björnsson

Páll Björnsson (1621–1706), guðfræðingur og fræðimaður, prestur og prófastur í Selárdal.

Fæddur að Saurbæ á Rauðasandi 1621, sonur Björns Magnússonar og Helgu Arngrímsdóttur. Eftir nám í Hólaskóla innritaðist hann í Hafnarháskóla og lauk lárviðarprófi 1644, jafnframt því sem hann fékk lærdómsvottorð sem jafngilti guðfræðiprófi. Vígðist prestur að Selárdal 1675 og hélt það prestakall síðan. Lést 23. október 1706.

Þótt Páll sé nú einna þekktastur fyrir baráttu sína gegn göldrum og galdramönnum má ekki gleyma mikilsverðu framlagi hans til íslenskrar heimspeki, en það er siðfræðiritið Spegill þolinmæðinnar sem hann lauk 1687 og er að öllum líkindum fyrsta heimspekilega ritið sem vitað er til að frumsamið hafi verið á íslensku.

« Til baka