Færslusöfn

Frjálshyggjan verður aldrei fullsköpuð

eftir Hannes Hólmstein Gissurarson

„Frjálshyggjan verður aldrei fullsköpuð“ – viðtal við Sir Karl R. Popper

Hver er merkasti heimspekingur okkar daga? Margir kunna að svara: Sir Karl Raimund Popper, Austurríkismaður að ætt, en Englendingur að eigin vali, höfundur framúrskarandi fræðirita um stjórnmál eins og Opins skipulags og óvina þess (The Open Society and Its Enemies), en einnig ágætra verka um vísindi, svo semRökfræði vísindalegrar rannsóknar (The Logic of Scientific Discovery). Sir Karl er eins og Davíð Hume, Immanúel Kant og John Stuart Mill heimspekingur í þeim hefðbundna skilningi, að hann lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Hann skrifar ekki aðeins um stjórnmál, heldur reynir að skýra og skilja rök tilverunnar með hugtökum sínum. Tveir eða fleiri heimspekingar mega hvergi koma svo saman, að kenningar hans beri ekki á góma, hvort sem þeir eru sammála honum eða ekki.

Ég hafði heyrt, að Popper væri erfiður í umgengni og ómannblendinn, svo að ég hikaði við að hafa samband við hann, er ég settist fyrst að í Englandi. En í ársbyrjun 1985 herti ég upp hugann, hringdi í gamla manninn og sagði honum eins og satt var, að ég hefði lengi velt hugmyndum hans fyrir mér, gert um hann útvarpsþátt heima á Íslandi og vildi gjarnan skrifa eitthvað meira um hann. Hvort ég gæti hitt hann? Popper reyndist hinn ljúfasti. Já, hann hafði ekkert á móti því að hitta mig, þótt hann yrði að vara mig við því, að hann væri að verða heldur heyrnardaufur, sagði hann með þýskum hreimi. Gæti ég ekki komið í heimsókn til hans miðvikudaginn 3l. janúar klukkan þrjú? Ég hélt nú það.

Enginn flótti í augnaráðinu

Klukkan þrjú miðvikudaginn 31. janúar árið 1985 barði ég að dyrum á húsi Popper-hjónanna. Það heitir „Fallowfield“ og er í litlu, syfjulegu þorpi norðan af Lundúnum, Penn í Buckingham-skíri. Enid Blyton, barnabókahöfundurinn frægi, hafði búið í næsta þorpi, og allt er umhverfið eins og lýst er í mörgum bókum hennar og landa hennar, Agötu Christie: Gömul og virðuleg hús, umvafin trjágróðri, tíst í fuglum, friðsæld í lofti og feitlagnir lögregluþjónar. Ég þurfti að bíða nokkra stund við dyrnar. En að lokum kom aldraður maður, lágvaxinn og heldur lotinn í herðum, til dyra, grannur og hvíthærður með óskaplega stór eyru og hvelft nef og gyðinglegt. Þetta var Sir Karl Popper. Hann brosti blíðlega, bauð mér til stofu, og þar settumst við og tókum tal saman.

Margar sögur eru sagðar af því, hvernig Popper hafi leikið samkennara sína og nemendur í Hagfræðiskólanum í Lundúnum (London School of Economics), á meðan hann var þar prófessor. Hann hafi verið kröfuharður, deilugjarn og ekki gefið neinum grið. Stundum hafi hann jafnvel vísað nemendum á dyr, er honum hafi mislíkað við þá á málstofu. En ég varð alls ekki var við þessa hlið á honum. Hann sagði að vísu skoðun sína og hana afdráttarlausa á mönnum og málefnum, en tók því ekki illa, er ég nefndi við hann ýmsar þær veilur, sem menn hafa þóst sjá á kenningum hans sjálfs. Hann hefur falleg augu (þótt hið vinstra virðist nokkru sljórra en hið hægra) og horfir beint í augu viðmælanda síns. Það er enginn flótti í augnaráði þessa manns.

Ég hóf umræðurnar með því að spyrja Popper, hvernig honum litist á ýmis þau verk, sem unnin hefðu verið síðustu árin í heimspeki stjórnmálanna. Hann sagði, að hann hefði að vísu ekki fylgst vel með þeim, því að síðustu áratugi hefði hann einbeitt sér að heimspeki vísindanna. En sér sýndist því miður sem ýmsir yngri menntamennirnir þekktu ekki nægilega vel til sögu vestrænna þjóða og bókmennta þeirra; þessir ágætu menn virtust ekki hafa lesið sér nægilega vel til. Hann tók til dæmis grein, sem sér hefði borist þá um morguninn, um hina frægu ádeilu sína á kenningu Karls Marx í bókinni Opnu skipulagi og óvinum þess (en hún kom fyrst út árið 1945). Það leyndi sér ekki, að höfundur þessarar greinar þekkti lítt til tímabilsins frá 1900 til 1940, þegar flokkar marxista voru sem áhrifamestir í Norðurálfu.

„Karl Marx hafði umfram allt aðdráttarafl á þessum árum, af því að hann var spámaður. Hann taldi sig geta sagt með sömu vissu fyrir um byltingar og stjörnufræðingur um gang himintungla,“ sagði Popper. „Þeir, sem skilja þetta ekki, skilja ekki, hvers vegna svo öflug hreyfing spratt upp undir merki hans á þessum árum. Kjarni málsins er, að Marx taldi sig hvorki siðbótarmann né stjórnmálamann, heldur allt að því hlutlausan vísindamann, sem bryti fyrirbæri mannlegs samlífs til mergjar. Menn trúðu þessum boðskap og fylktu sér því um þá flokka, sem störfuðu í nafni hans; um þetta get ég borið af eigin reynslu. Það er ekki síst þessari trú þeirra – eða öllu heldur hjátrú – að kenna, að fyrri heimsstyrjöldin skall á, en hún er ein mesta ógæfa okkar aldar. Félagshyggjumenn, sem hefðu getað stöðvað hana, töldu þess ekki þurfa; sagan hlyti að ganga sinn gang.“

Popper bætti við: „Ungir fræðimenn lesa ekki nægilega margt, og þeir lesa ekki nægilega vandlega. Þeir eiga að lesa margt og hægt og vel. Um 1960 var hraðlestur mjög í tísku. Í Hagfræðiskólanum í Lundúnum, þar sem ég kenndi þá, var haldið hraðlestrarnámskeið. Ég skrifaði forstjóranum bréf og sagði, að mér fyndist nær að halda hæglestrarnámskeið. Ég er hræddur um, að forstjórinn hafi ekki tekið þessari hugmynd minni mjög vel!“

Kenning Marx óvísindaleg

Í tveimur bókum sínum, Opnu skipulagi og óvinum þess, sem þegar hefur verið getið, og Eymd söguhyggjunnar (The Poverty of Historicism), sem kom fyrst út í heild á ensku árið 1957, leiðir Sir Karl Popper rök að því, að kenning Marx og fylgismanna hans geti ekki talist vísindaleg. Hann bendir á það, að þessi kenning geti skýrt allt, en í því felist, að hún geti ekki skýrt neitt. Marxisti megi ekki opna svo dagblað, að hann sjái þar ekki einhverja staðfestingu blessaðrar stétta­baráttunnar; hver dagur sé honum ný opinberun kenningarinnar. Menn kunni að halda, að þetta sé styrkleiki kenningarinnar, en Popper segir, að þetta sé reyndar einmitt veikleiki hennar. Til þess að geta talist vísindaleg verði kenning að hafa í sér fólgna einhverja forskrift um, hvernig hana megi hugsanlega hrekja eða afsanna. Kenning Marx hafi ekki (að minnsta kosti ekki í þeim búningi, sem margir marxistar sníði henni) í sér fólgna neina slíka forskrift og geti því ekki talist vísindaleg.

Einhverjum kann að þykja þetta einkennilegt. Er kenning vísindaleg, af því að hana megi (hugsanlega) afsanna, en ekki af því að hana megi sanna? Popper segir, að hann hafi fyrst áttað sig á þessu skömmu eftir heimsstyrjöldina fyrri, þegar hann hafi verið ungur maður í Vínarborg, en þar hafi allt verið á hverfanda hveli og óskaplegt framboð af nýjum hugmyndum: Afstæðis­kenningu Einsteins, sálgreiningu Freuds, byltingarkenningu Marx, rökfræðilegri raunhyggju (e. logical positivism) Wittgensteins, Carnaps og Neuraths og ýmsum öðrum kenningum. Hann hafi komið auga á muninn á afstæðiskenningu Einsteins annars vegar og hugmyndum Freuds og Marx hins vegar: Í afstæðiskenningunni hafi verið fólgin forskrift um það, hvernig hana mætti afsanna, og það hafi verið reynt, en ekki tekist. En í hugmyndum Freuds og Marx hafi sjálfum verið fólgnar skýringar á öllum hugsanlegum frávikum frá þeim. (Hagfræðingur, sem hafnar vinnu­gildiskenningu Marx, er að sögn marxista aðeins „borgaralegur hagfræðingur“, svo að tekið sé einfalt dæmi.) Kenning Einsteins hafi verið opin og óvarin fyrir gagnrýni, þótt hún hafi staðist hana fram að þessu, en kenningar Freuds og Marx verið lokaðar fyrir allri slíkri gagnrýni.

Stendur sólin upp á morgun?

Popper gat, eftir að hann hafði komið auga á þetta, ungur maður í Vínarborg, lagt í glímu við gamlan vanda heimspekinnar, sem Davíð Hume hafði fyrstur komið skýrum orðum að. Hann er sá, hvernig við getum verið viss um, að regla, sem gilt hefur fram að þessu, að því er virðist, gildi áfram. Hvernig getum við verið viss um, að sólin standi upp á morgun, þótt hún hafi komið upp á hverjum degi svo lengi sem elstu menn muna? Vandinn liggur í því, að ekki nægir að telja upp einstök dæmi um eitthvert vísindalegt lögmál til þess að sanna það. Ekki nægir að segja sögur máli sínu til stuðnings, eins og fylgismenn Marx og Freuds gera gjarnan. Þetta má orða svo: Af einstökum dæmum, hversu mörg sem þau eru, má ekki draga ályktun um neina almenna reglu.

Popper leysti þennan vanda með því að benda á það, að við getum afsannað reglu, þótt við getum ekki sannað hana. Vísindamenn gátu hrakið kenningu Newtons með tilraunum sínum, þótt þeir gætu ekki „sannað“ kenningu Einsteins með sambærilegum tilraunum. Við verðum að sögn Poppers að sætta okkur við það, að við getum aldrei komist að neinum endanlegum sann­leika um umheiminn, eins og vísindamenn hafa reynt á öllum öldum. En við getum nálgast slíkan sannleika með því að reyna að ryðja úr vegi röngum kenningum – með því að reyna að hrekja hefðarspeki hvers tíma, ef svo má að orði komast. Við getum með öðrum orðum aðeins nálgast sannleikann með sífelldri samkeppni hugmynda. Þær vísindalegu kenningar, sem taldar eru sannar hverju sinni, eru aðeins tilgátur, sem hugsanlegt er að hrekja, þótt það hafi ekki tekist fram að þessu. Þær eru alltaf bráðabirgðatilgátur.

Taka má þetta mál svo saman, að meginkenningar Poppers um vísindi séu tvær: Önnur er um það, hvernig draga megi mörk vísinda og gervivísinda, og hún er sú, að kenningar gervivísinda séu óhrekjanlegar – þær geymi ekki í sér tilsögn um tilraunir, sem geti afsannað þær. Hin kenningin er sú, að við getum ekki sannað neitt um umheiminn, heldur aðeins afsannað eitthvað um hann. Við getum ekki treyst því, að sólin standi upp á morgun, af því að tekist hafi að sanna það, heldur af því að ekki hafi tekist að afsanna það. (Popper hafnar því efa Humes um það, að við getum komist að einhverri óyggjandi vitneskju um veruleikann, enda telur hann sig hafa leyst þann vanda, sem Hume hafi skilið eftir. Hann er alls ekki efahyggjumaður.)

Popper sagði mér, að sennilega hefði hann valdið einhverju sjálfur um það með gagnrýni sinni, að marxistar hefðu hörfað út af vettvangi vísindanna. Nú á dögum teldu þeir kenningu sína ekki vísindalega heldur „tiltekna túlkun veruleikans“ eða eitthvað þvíumlíkt. Marxistar hefðu fyrr á árum verið ótrúlega innblásnir af þeim Stórasannleika, sem þeir hefðu fundið, jafnvel ágætir vísindamenn. Þeir hefðu verið sannfærðir um það, að þeir væru að slást í för með Framtíðinni, hinni vísindalega sönnuðu sögu. Hann sagðist enn muna eftir því, þegar kunnur breskur vísindamaður hefði látið þau ummæli falla í Prag árið 1950, að Stalín væri „mesti vísindamaður okkar tíma“.

Ég spurði Popper, hvort hann hefði ekki verið of mildur í dómi sínum um Marx íOpnu skipulagi og óvinum þess, en þar segir hann, að Marx hafi verið mannvinur, þótt hann hafi að vísu haft rangt fyrir sér. Ég minnti Popper á, að Marx hefði verið kynþáttahatari eins og vinur hans Engels, hroka­fullur, stjórnlyndur menntamaður, eins og ráða mætti af ýmsum einkabréfum hans. (Íslendingar hljóta sumir að muna eftir ókvæðisorðum Engels um Íslendinga, en ég dró þau fram í dagsljósið í blaðagrein fyrir nokkrum árum.) „Ég skrifaði Opið skipulag og óvini þess til þess að reyna að telja marxistum eins og þeim, sem ég þekkti, hughvarf,“ svaraði Popper. „Þess vegna reyndi ég að ræða af fullri samúð um Marx. En þú hefur sennilega rétt fyrir þér um það, að fullt tilefni sé til þess að efast um góðgirni Marx, og ég bendi reyndar á það í eftirmála við eina síðari útgáfu bókarinnar.“

Tókst Popper að snúa einhverjum marxistum til betri vegar? „Það gleður mig mjög, ef ég hef haft áhrif á einhverja þeirra, eins og mér er sagt,“ sagði hann. Hann gerði smáhlé á máli sínu, brosti og sagði: „Ég man, að ég sagði einu sinni við kunnan breskan vísindamann, mjög róttækan, sem þú skalt ekki nafngreina, að hann gæti ekki verið þekktur fyrir að vera í Kommúnistaflokknum, á meðan Stalín leyfði lagsbróður sínum, Trófim Lýsenkó, að hundelta alla erfðafræðinga Ráð­stjórnarríkjanna fyrir þá sök eina, að erfðafræði þeirra félli ekki í einu og öllu að kenningum þeirra Marx og Leníns. Viku síðar birtu blöðin frétt um það, að hann hefði sagt sig úr Kommúnista­flokknum.“

Er vísindakenning Poppers sjálfri sér samkvæm?

Ýmsir heimspekingar gagnrýna Popper fyrir kenningu hans um vísindin. Þeir taka undir það með honum, að tilgátur vísindanna séu fremur afsannanlegar en sannanlegar, en segja, að Popper hafi ekki leyst þann vanda, sem Hume benti á, með þessu, heldur umorðað hann. Einn ágætasti heimspekingur Íslendinga, Arnór Hannibalsson, hefur komið orðum að slíkri gagnrýni í fyrir­lestrum um rætur mannlegrar þekkingar. (Þess má geta, að breski heimspekingurinn Anthony O’Hear reifar svipaða gagnrýni í nýlegri bók um Popper.) Arnór segir, að mótsögn sé í kenningu Poppers. Annars vegar haldi hann því fram, að ekki megi draga ályktanir um kenningar af stað­reyndum, heldur öfugt: Draga megi ályktanir um staðreyndir af kenningum. Hins vegar kenni hann, að kenningar verði að styðjast við staðreyndir. Eins og Arnór orðar það: „Popper neitar því, að menn hafi aðgang að veruleika utan hugarheims þeirra (eða tungumálsins), en hins vegar þarf hann á slíkum veruleika að halda til þess að geta sagt eitthvað um sannleiksgildi kenninga. Staðreyndir eru ekki til sem uppspretta kenninga, en þær eru til sem mælikvarði á sannleiksgildi kenninga.“

Ég spurði Popper, hvað hann hefði að segja um þessa gagnrýni. Hann svaraði, að hann kæmi ekki auga á neina mótsögn. Við prófuðum kenningar með því að gera sífelldar tilraunir til að hrekja þær. Hann minnti á, að við gætum ekki sagt til um, hvenær kenningar hefðu verið sannaðar, en við gætum hins vegar sagt til um, hvenær þær hefðu verið afsannaðar. Vísindalegar kenningar væru aldrei annað en bráðabirgðatilgátur, og við það yrðu menn við að sætta sig, en samkvæmt þessari gagnrýni yrðu þær að vera sannar til þess að vera vísindalegar. Popper sagði, að menn gætu ekki komist upp að veruleikanum, en þeir gætu þokast nær honum með aðstoð sumra kenninga og fjær honum með aðstoð annarra. Enginn vafi væri á því, að kenning Einsteins um þyngdarafl færði menn nær veruleikanum, samsvaraði staðreyndunum betur, heldur en kenning Newtons. Það væri síðan langt mál og flókið að skýra samsvörunarkenningu pólska rökfræðingsins Tarskis um sannleikann, sem Popper hefði gert að sinni.

Um Platón og Hegel

Árið 1938 var Popper kominn hinum megin á hnöttinn, til Nýja-Sjálands, en þangað hafði hann hrökklast undan hinni brúnu vofu, sem lék ljósum logum í Norðurálfu á fjórða áratugnum, þjóðernis-sósíalisma Hitlers. Daginn sem Hitler lagði undir sig heimaland hans, Austurríki, hét Popper því að skrifa bók þá, sem síðar varð Opið skipulag og óvinir þess. Hann hugðist koma á framfæri skýringum sínum á því, hvernig alræðisstefna tuttugustu aldar varð til. Bókin er umfram allt rækileg ádeila, mjög frumleg á köflum, á kenningar þriggja hugsuða, sem Popper taldi bera ábyrgð á alræðisstefnunni. Þeir voru auk Marx forngríski heimspekingurinn Platón og þýski prófessorinn G. W. F. Hegel. Ýmsum fræðimönnum finnst Popper hafa verið of harður í dómum um þessa tvo heimspekinga, einkum um Hegel, þótt hann hafi tekið Marx full-mjúklegum tökum. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, eftir að ég kynnti mér rit Hegels um stjórnmál, að Popper hafi að minnsta kosti ekki unnt Hegel sannmælis. Þessi þýski prófessor er þrátt fyrir allt merkilegur heimspekingur, þótt skynsamir menn hljóti að hafna mörgum kenningum hans. En þetta mál varðar nokkru uppi á Íslandi, því að árás Poppers á Hegel er tekin upp allt að því óbreytt í tveimur íslenskum ritum, í Tilraun um manninn eftir Þorstein Gylfason og Frjálshyggju og alræðishyggju eftir Ólaf Björnsson. Ég sneri talinu því að þessu.

„Ég er þeirrar skoðunar og segi það í bók minni, að Platón hafi verið einn mesti, ef ekki mesti, heimspekingur allra alda, svo að enginn getur sakað mig um ósanngirni í hans garð. Ég held þó, að ég geti enn staðið við gagnrýni mína á stjórnmálakenningar hans,“ sagði Popper. „Og ég var alls ekki of harður í dómum mínum um Hegel. Hann sinnti ekki fremur en forveri hans, Fichte, heimspeki í neinni alvöru, hann var ekki að leita að sannleikanum, hann hafði enga ábyrgðar­kennd. Hann var spámaður, postuli á palli, guðfræðingur í verstu merkingu þess orðs.“

Umsjónarkennari minn á Pembroke-garði í Oxford, dr. Zbigniew A. Pelczynski, sem er manna fróðastur um stjórnspeki Hegels, hefur sagt mér það, að Popper hafi tekið nærri sér gagnrýni Johns heitins Plamenatz, prófessors í stjórnspeki í Oxford, á frásögn Poppers frá kenningu Hegels. Plamenatz hafi látið þau orð falla í umsögn um aðra útgáfu Opins skipulags og óvina þess, að Popper hafi misskilið Hegel. Sannleikurinn væri sá, að hugmynd Poppers um stjórnmálatækni (e. social engineering) væri svipuð hugmynd Hegels um hóflega ríkisafskipta­stefnu til þess að berja í þá bresti, sem finna mætti á hinu borgaralega skipulagi. Popper hafi skrifað Plamenatz og óskað eftir fundi um málið. Hann hafi síðan, er á fundinn hafi komið, hvorki þegið vott né þurrt, heldur stikað um fundarherbergið og endurtekið: „Hvernig gátuð þér gert mér þetta, prófessor Plamenatz? Hvernig gátuð þér sagt þetta?“ Plamenatz hafi varla komist að til þess að skýra fyrir Popper, að þetta væri sér ekkert tilfinningamál. Hann væri að reyna að skilja fræðimenn fyrri alda, en ekki að draga þá til ábyrgðar fyrir dómstóli sögunnar.

Popper skrifar stundum fremur sem tilfinningamaður með mikla lífsreynslu að baki en hlutlaus fræðimaður uppi í fílabeinsturni. Það hefur sennilega mótað hann að verða vitni að því, ungur maður í Vínarborg, hvernig menn voru tilbúnir til þess að fórna öllu siðferði fyrir það, sem þeir héldu, að væri sannleikur sögunnar; hann taldi, réttilega eða ranglega, að Hegel bæri öðrum fremur ábyrgð á slíkri söguhyggju. Í Opnu skipulagi og óvinum þess ræðir hann því ekki um Hegel eins og dómari, heldur sem ákærandi.

Mont Pèlerin-samtökin

Ég vék að svo búnu talinu að Mont Pèlerin-samtökunum svonefndu, en Sir Karl Popper var einn af stofnendum þeirra ásamt ýmsum öðrum menntamönnum. Popper, sem er kvikur mjög í hreyfingum þrátt fyrir sín 83 ár, stóð þá upp og náði í bók, þar sem hann geymir ljósmyndir frá stofnfundinum, sem haldinn var í litlu þorpi í Svisslandi í apríl 1947, Mont Pèlerin, Pílagríms­fjallinu. Við skoðuðum þær drykklanga stund og spjölluðum saman um ýmsa þá hugsuði, lífs og liðna, sem þar gat að líta.

Þeir Popper og Friðrik von Hayek eru gamlir vinir, en Hayek útvegaði Popper útgefanda að Opnu skipulagi og óvinum þess, eftir að ýmis fyrirtæki höfðu hafnað bókinni af hugmyndafræðilegum ástæðum. Hayek útvegaði Popper einnig kennarastarf við Hagfræðiskólann í Lundúnum árið 1946. Popper lauk miklu lofsorði á Hayek, bæði sem stórkostlegan mann og mikinn hugsuð. „Mér þykir mjög vænt um hann,“ mælti Popper. Hann stóð aftur upp, náði í tvö helstu verk Hayeks,Frelsisskrána og Frelsi, lög og lagasetningu, lagði þau á borðið fyrir framan okkur og sagði með áherslu: „Ég held, að ég geti skrifað undir hvert orð, sem hér stendur.“

Ég spurði Popper um annan góðkunnan frjálshyggjumann, Milton Friedman, og sagði hann, að sér hefði alltaf fallið vel við hann; Friedman væri fjörugur og skemmtilegur. En Popper var þeirrar skoðunar, að Lúðvík von Mises – kennari Hayeks og einn helsti hugsuðurinn í hópi „austurrísku hagfræðinganna“ svonefndu – hefði verið betri hagfræðingur en vísindaspekingur. Það er að vonum, að Popper sé ekki hrifinn af kenningu Misess um aðferðir mannvísindanna, því að hún stangast á við kenningu hans sjálfs. Popper leggur mikla áherslu á það, að reyna verði þolrifin í vísindalegum kenningum, prófa þær með öllum hugsanlegum ráðum. En Mises taldi, að kenningar hagfræðinnar hvíldu á óyggjandi staðreyndum um eðli mannanna; þær þyrfti ekki að prófa, heldur væru þær í raun ekkert annað en rökréttar ályktanir af þessum staðreyndum. Popper sagði, að sér hefði hins vegar ekki líkað við Michael heitinn Polanyi, heimspeking, vísindamann og félaga í Mont Pèlerin-samtökunum, en Polanyi lagði mikla áherslu á þá hagnýtu þekkingu, sem falin væri í siðum manna og venjum. Popper bætti því við, að hann væri hættur að sækja fundi Mont Pèlerin-samtakanna, enda hefði hann á síðustu árum einbeitt sér að vísindaspeki, eins og hann hefði þegar tekið fram. Hann væri þessa stundina að skrifa um skammtafræði (e. quantum physics). Hann leit á mig, brosti og sagði: „Skammta-aflfræðin var æskuástin mín, og ég er aftur snúinn í fang hennar.“ Einn daginn hefði hann til dæmis unnið sleitulaust frá því klukkan hálfþrjú til miðnættis með grískum vini sínum, eðlisfræðingnum Tómasi Angelidis.

„Við finnum ekki sannleikann í valdinu“

Hvað hafði Popper að segja um þá kenningu, að samkeppni á markaði veldi úr þá siði, sem heppilegastir væru, en sumir frjálshyggjumenn hafa gælt við hana síðustu árin, þar á meðal vinur hans, Hayek? Popper kvaðst telja þessa kenningu varasama. Ekki mætti rugla saman lífsmætti einhvers siðar og sannleiksgildi hans eða siðferðisgildi. Það væri því miður rangt, sem margir frjálshyggjumenn héldu, að sannleikurinn hlyti alltaf að sigra að lokum. „Við finnum ekki sann­leikann í valdinu,“ sagði Popper. „Við finnum hann ekki heldur í sögunni. Það sannar að mínum dómi ekkert um einhvern sið, að hann sé langlífur. Ég veit ekki betur en Indverjar hafi búið við sína rígskorðaða stéttaskiptingu í þúsundir ára. Hún er hvorki betri né verri fyrir það. Enginn siður okkar mannanna er hafinn yfir gagnrýni, hvort sem hann er gamall eða nýr, og við hljótum að hafna einhverjum sið, ef okkur býðst annar betri. Hitt er auðvitað annað mál, að við verðum að hafa einhver sæmileg rök fyrir því að hafna honum. Sönnunarbyrðin hvílir á þeim, sem vilja hafna einhverjum sið.“

Popper hélt áfram: „Við frjálshyggjumenn megum aldrei gleyma því, að frjálshyggjan er sífelld barátta gegn því böli, sem er af manna völdum. Menn verða að kunna að gera greinarmun á staðreyndum og verðmætum. Við sönnum ekkert um verðmæti með því að vísa til staðreynda. Við sönnum ekkert um það, að stéttaskiptingin í Indlandi sé æskileg eða óæskileg, með því að vísa til þeirrar staðreyndar, að hún hefur verið mjög lífseig. Ég leyfi mér að segja, að slík stéttaskipting sé óæskileg, hvort sem hún hefur verið til í tíu ár, hundrað ár eða þúsund ár – og hvort sem hún á eftir að vera til í þúsund ár í viðbót eða ekki.“

Popper sagði mér, að von okkar mannanna lægi í vísindunum – í því að reyna í sífellu að ryðja úr vegi röngum hugmyndum, siðum, kenningum, mannlegum þjáningum, böli. Vísindin yrðu að vera samkeppni ólíkra hugmynda, svo að þar gæti verið um framþróun að ræða, og þess vegna væri frelsið eins nauðsynlegt vísindamönnum og andrúmsloftið öllu fólki. En hæpið væri að beita einhverjum þróunarkenningum á sviði stjórnmálanna, því að þar væri valdið alltaf fyrir og þar ættu rangar hugmyndir þess vegna auðveldara með að sigra en á sviði vísindanna. (Í raun er röksemd Poppers ekki mjög ólík þeirri, sem Milton Friedman kom orðum að í fyrirlestri sínum hérlendis haustið 1984, en hún er sú, að í stjórnmálunum gildi eitthvert tregðulögmál, sem ekki sé unnt að taka úr sambandi nema með því að breyta leikreglum stjórnmálanna.)

Popper sagði síðan, að honum fyndist sumir frjálshyggjumenn okkar daga vera heldur miklir draumóramenn. Þeir tryðu á fyrirmyndarríki frjálshyggjunnar, staðleysu eða útópíu, þar sem stjórnmál væru úr sögunni. Hann væri þeirrar skoðunar eins og aðrir frjálshyggjumenn, að brýnasta verkefnið væri að minnka ríkisafskipti. Ekkert væri eins hættulegt frelsinu og risastórt ríkisbákn, þunglamalegt kerfi. Einhver ríkisafskipti væru þó alltaf nauðsynleg. Hann sagði: „Það er innri spenna í frjálshyggjunni, sem við getum ekki lokað augunum fyrir. Annars vegar tortryggjum við frjálshyggjumenn allir valdið. Hins vegar þurfum við valdsins með til þess að tryggja frelsið. Við verðum að fylgja verndarstefnu, sem ég kalla svo – beita ríkisvaldinu til þess að vernda frelsið. Við höldum frelsinu ekki nema með sífelldri aðgát, gagnrýni, baráttu. Frjálshyggjan verður að leysa þessa spennu, og lausnirnar hljóta að vera ólíkar í ólíkum löndum og á ólíkum tímum. Frjálshyggjan verður þess vegna aldrei fullsköpuð. Hún er endalaus leit að lausnum, tilraun til að takmarka valdið, binda það, svo að það geti horft til heilla fyrir fólk.“

Sveigjanleg frjálshyggja og hörð

Frjálshyggja Poppers er „sveigjanleg“ fremur en „hörð“, ef svo má að orði komast, enda hafa ýmsir frjálslyndir stjórnmálamenn hrifist af henni, þótt þeir hafi talið sig á vinstrivæng stjórnmálanna: Jafnaðarmaðurinn Helmuth Schmidt, fyrrum kanslari Vestur-Þýskalands, skrifaði til dæmis formála að afmælisriti hans árið 1982. Hver er munurinn á sveigjanlegri og harðri frjálshyggju? Ég held, að þetta séu tvær hliðar á sama fyrirbæri: Harðir frjálshyggjumenn eins og Milton Friedman og Robert Nozick brýna það fyrir okkur að gleyma því aldrei, hvaða takmörk tilveran setji okkur. Þeir minna okkur á lögmál skortsins – á það, að lífsgæðin nægja ekki til þess að sinna öllum þörfum allra manna og að við verðum því að koma okkur saman um einhverja reglu um skiptingu þeirra og að skynsamlegasta reglan felist í séreignarréttinum. Sveigjanlegir frjálshyggjumenn eins og John Stuart Mill og Karl Popper hafa á hinn bóginn meiri áhuga á því fyrirheiti, sem frelsið ber í sér – á möguleikum vísindamanna og listamanna til sköpunar og möguleikum einstaklinga til þess að lifa fögru mannlífi. Það fer eftir efnum og ástæðum, hvorri hliðinni frjálshyggjan getur snúið að umheiminum. Stundum hljótum við mennirnir að rekast heldur harkalega á takmörk okkar, ef við ætlum okkur um of. En stundum getum við leyst úr læðingi þann mikla mátt, sem í mannsandanum býr.

Skýringin á því, að margir íslenskir menntamenn hafa ekki verið tilbúnir til að kalla sig frjáls­hyggjumenn, er sú, býst ég við, að þeir hafa lítinn áhuga á annarri hlið frjálshyggjunnar – á þeirri kenningu, að peningar vaxi ekki á trjánum, ekki megi eyða meira en aflað sé og mönnum beri að gera góðverk sín á eigin kostnað, en ekki annarra. Þeir hafna því harðri frjálshyggju. En geta þeir ekki tekið undir sveigjanlega frjálshyggju með Popper? Sjálfur held ég að vísu, að frjálshyggjan verði við núverandi aðstæður að snúa hinni hliðinni að umheiminum. Lögmál skortsins leggst á okkur af miklum þunga í velferðarríkjum Vesturlanda, þar sem við höfum eytt langt umfram efni. Við getum ekki, hvort sem okkur líkar betur eða verr, gleymt þessu lögmáli. En þetta mat á aðstæðum breytir því ekki, að þessir ágætu menntamenn eiga heima í hópi frjálshyggjumanna – ekki sem harðir frjálshyggjumenn, heldur sveigjanlegir.

Ummæli Poppers um Ísland

Popper spurði, hvaðan ég væri. Hann brosti vingjarnlega, þegar ég sagðist vera frá Íslandi, og spurði mig, hvort ég vissi af ummælum hans um Ísland. Ég kinkaði kolli: Í grein um sögu okkar daga, sem birtist í bókinni Tilgátum og tilraunum, segir Popper, að sér hafi ekki hugkvæmst nema eitt ríki, sem fullnægi öllum settum skilyrðum til þess að vera þjóðríki – en það sé Ísland. Annaðhvort sé það svo, að önnur ríki hafi gjarnan tvær þjóðir eða fleiri innan sinna vébanda, til dæmis Svissland, eða hitt, að ein og sama þjóðin byggi mörg ríki, til dæmis Engilsaxar, og síðan sé það til, að mörk á milli þjóða séu mjög óglögg með öðrum hætti. Popper bætir því við í greininni, að Norður-Atlantshafið skilji Íslendinga frá öðrum þjóðum, og ekki megi heldur gleyma því, að landið sé ekki varið af Íslendingum sjálfum, heldur af Norður-Atlantshafsbandalaginu. Hann dregur þess vegna þá ályktun, að landið sé ekki eins mikil undantekning og virðist við fyrstu sýn frá þeirri reglu sinni, að þjóðríki séu hvergi til.

Popper er eindreginn alþjóðahyggjumaður. Hann er andsnúinn þeirri kenningu, sem notuð var við uppskiptingu Norðurálfu að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni, að landamæri ríkja yrðu að falla saman við mörk á milli þjóða. Rök hans gegn henni eru einkum tvenn. Í fyrsta lagi sé þessi kenning óframkvæmanleg, þar sem ólíkar þjóðir búi alls staðar hver innan um aðra. Í öðru lagi sé þjóðernisstefna óheillavænleg eins og reynslan hafi margsýnt. Rétta ráðið sé ekki að stía þjóðum sundur, heldur að búa þeim skilyrði til þess að lifa friðsamlega saman – eins og tekist hafi að gera í Svisslandi. Popper benti þó á það í samtali okkar (eins og Friedman hafði gert uppi á Íslandi), að fámennar þjóðir og tiltölulega samleitar, ef svo má segja, ættu ekki í sömu vandræðum og fjölmennari þjóðir og sundurleitari. Um það gæti hann sjálfur borið af reynslu sinni á Nýja-Sjálandi, sem hefði verið friðsælt land og viðkunnanlegt.

„Þegar við hjónin vorum ung og bjuggum í Vínarborg, höfðum við einmitt mikinn áhuga á Íslandi,“ bætti Popper við. „Okkur fannst stórkostlegt, hvernig víkingarnir fóru um lönd og sigldu um sæ, fundu Grænland og Vínland. Konan mín flutti meira að segja fyrirlestur um Eirík rauða á málstofu í landafræði við Vínarháskóla, annaðhvort 1929 eða 1930. Við veltum því einnig fyrir okkur, hvað hefði orðið um víkingabyggðina á Grænlandi, en ekki hefur enn tekist að leysa þá gátu, eins og þú veist.“

Afskipti ríkisins af vísindum

Ég spurði Popper, hvernig hefði staðið á hinum furðulegu ummælum Rudolfs Carnaps í bréfi til hans snemma árs 1946, en Hayek hafði á sínum tíma sagt mér frá þeim. Carnap, – einn kunnasti heimspekingurinn í Vínarhringnum svonefnda – hafði haft spurnir af því, að Popper hefði farið lofsamlegum orðum um bók Hayeks,Leiðina til ánauðar, og spurt Popper í bréfi, hvort þetta væri satt: Hefði Popper hrósað þessu hræðilega afturhaldsriti, sem Carnap hefði að sjálfsögðu ekki lesið! Popper svaraði honum um hæl, varði bók Hayeks, en sagði honum einnig af öðru tilefni, að sér hefði gengið erfiðlega að finna bandarískan útgefanda að Opnu skipulagi og óvinum þess. Carnap skrifaði í svari við bréfi Poppers, að þetta væri auðvitað fullkomið hneyksli, svo góð bók sem Opið skipulag og óvinir þess væri, en bætti því við, að þetta sýndi það eitt, að bókaútgáfa ætti ekki að vera í höndum einkaaðila!

Popper svaraði, að Carnap hefði þrátt fyrir ýmsa kosti sína verið vísindatrúar, hann hefði ofmetið aðgang mannanna að sannleikanum. Carnap hefði talið, að allur sannleikurinn hlyti að lokum að koma í leitirnar – líklega einnig allur sannleikurinn um það, hverjir væru heppilegastir til að taka ákvarðanir um bókaútgáfu! „Hugsaðu þér: Í fyrstu bókinni sinni taldi Carnap, að staðhæfingar væru varla nothæfar, nema þær hefðu allar verið sannaðar!“ – sagði Popper. Carnap hefði sennilega ekki skilið hugmynd sína, Hayeks og annarra frjálshyggjumanna um samkeppni hugmynda. Miklu máli skipti að skilja, að sannleikurinn lægi ekki í augum uppi, hann væri okkur aldrei tiltækur allur í einu. Ég get ekki stillt mig um að bæta því við, að ummæli Carnaps má hafa til marks um það, hversu lítinn skilning margir ágætir menn hafa á þeim kostum, sem tilveran setur okkur. Ef bókaútgáfa er tekin úr höndum einstaklinga, sem keppa hverjir við aðra um gróða, þá lendir hún ekki í mjúkum lófa góðgjarnra og alviturra vísindamanna, heldur í klóm valdsmanna, sem hafa iðulega annarlega hagsmuni. Er ekki vænlegra, að útgáfa fræðirita ráðist af ákvörðunum óteljandi bókaútgefenda en af ákvörðunum einhvers eins embættismanns ríkisins?

Skömmu áður en ég hitti Popper, hafði ég átt í ritdeilu uppi á Íslandi við ungan og málgefinn matvælafræðing, sem hafði látið það út úr sér í einhverri fljótfærni, að ríkið yrði að hafa víðtæk afskipti af vísindum. Af því tilefni má spyrja: Er ekki vænlegra, að styrkir til vísindalegra rannsókna ráðist af ákvörðunum óteljandi einstaklinga og frjálsra samtaka þeirra en örfárra valdsmanna ríkisins? Jónas H. Haralz benti mér síðan á það, er við vorum að ræða um rök Poppers nokkrum dögum eftir heimsókn mína til hans, að hið alkunna deilumál nafna síns frá Hriflu við listamenn væri sennilega dæmi um þetta. Jónas Jónsson frá Hriflu hefði að vísu verið mikill styrktarmaður lista og vísinda á Íslandi, á meðan ríkisvaldið hefði verið í höndum hans á fjórða áratug. En böggull hefði fylgt skammrifi. Jónas hefði óspart skipt sér af því, sem vísindamenn og listamenn hefðu látið frá sér fara, og gegn því hefðu þeir auðvitað orðið að rísa undir forystu þeirra Sigurðar Nordals og Tómasar Guðmundssonar.

Iðnbyltingin og kjör almennings

Ég færði það að lokum í tal við Popper, hvort hann hefði ekki í Opnu skipulagi og óvinum þess gert meira úr slæmum afleiðingum iðnbyltingarinnar en efni stæðu til. Hefði markaðskerfið ekki reynst mikilvirkasta tækið, sem fundist hefði til þess að breyta fátæklingum í efnafólk? Margir sagnfræðingar héldu á sínum tíma, að kjör almennings hefðu versnað vegna iðnbyltingarinnar, og Karl Marx skrifaðiFjármagnið (þ. Das Kapital) í þeirri trú. En nýlegar rannsóknir ýmissa sagnfræðinga, svo sem T. S. Ashtons og Max Hartwells, sýna, að kjör almennings bötnuðu fremur en hitt vegna iðnbyltingarinnar. Popper gerði þá hlé á samtali okkar, stóð upp, seildist í bókaskápinn, náði í nokkrar skáldsögur frá nítjándu öldinni eftir lítt kunnan breskan rithöfund, frú Elizabeth C. Gaskell, og sýndi mér. Ein bókin hétNorðan og sunnan (North and South) og hafði fyrst komið út 1855, önnur Mary Barton og var frá 1847. En í báðum bókunum er mörgum orðum farið um sára fátækt almennings á árum iðnbyltingarinnar. Popper sagði mér, að hann hefði lesið þessar bækur ungur og orðið fyrir miklum áhrifum af þeim. Enginn vafi væri á því, að frú Gaskell hefði reynt að segja svo satt og rétt frá sem hún hefði getað.

Ég kastaði þeirri skýringu fram við Popper, að mönnum hefði orðið starsýnt á það böl, sem eftir var, af því að svo mikið annað böl hefði horfið vegna iðnbyltingarinnar. Mætti ekki segja, að menn tækju eftir fátækt, væri hún undantekning, en hirtu ekki um hana, væri hún regla? Ég spurði Popper því, hvort ýmsum tilfinninganæmum menntamönnum hefði ekki skjátlast um iðn­byltinguna; þeim hefði sýnst, að kjör launamanna hefðu versnað, af því að kjör sumra hefðu batnað miklu hraðar en annarra, þótt kjör langflestra eða allra hefðu í raun batnað. Popper sagði, að þetta kynni að vera rétt. En það breytti engu um það, að fátækt væri meinsemd, sem ekki mætti gefast upp fyrir. Hitt væri annað mál, eins og hann hefði áður sagt mér, að óhófleg aukning ríkisafskipta væri sú meinsemd, sem nú væri brýnast að reyna að lækna á Vesturlöndum.

Popper sagði mér síðan aðspurður, að Margrét Thatcher væri tvímælalaust hæfasti og besti núlifandi stjórnmálamaður Breta; hún væri mjög hugrökk. En Sir Winston Churchill væri eftirlætisstjórnmálamaður sinn; hann hefði verið vitur maður. „Þú ættir að lesa bók, sem Martin Gilbert tók saman um stjórnmálaskoðanir Churchills. Hún er mjög fróðleg aflestrar. Þessi sjálfmenntaði maður var ótrúlega skarpskyggn,“ sagði Popper.

Er hér var komið sögu, var degi tekið að halla í þessu litla og vinalega þorpi norðan af Lundúnum – heimili viðmælanda míns, lágvaxins og lotins öldungs, sem hafði fæðst árið 1902 í keisara­dæmi Habsborgarættarinnar, tekið út þroska sinn í austurríska lýðveldinu, orðið vitni að hruni stórkostlegrar menningar á Dónárbökkum, en að lokum komist til landa hinna engilsaxnesku þjóða, þar sem frjálshyggjuhefðin er sterkari en annars staðar, fyrst til Nýja Sjálands, síðan til Bretlands. Popper var að vísu hinn alúðlegasti og sagði mér að bera allt það upp við sig, er ég kærði mig um; hann væri síður en svo að flýta sér. En mér fannst ekki tilhlýðilegt að tefja þennan vinnusama mann lengur, stóð því upp og kvaddi.

« Til baka