Ástralir áttuðu sig

eftir Gunnar Örn Sigvaldason og Sigríði Þorgeirsdóttur

Saga frá Tasmaníu

Á árunum 1982 og 1983 náði áralangt andóf borgara gegn byggingu vatnsaflsvirkjunar á eyjunni Tasmaníu við Ástralíu hámarki. 2600 manns stóðu í vegi risavaxinna vinnuvéla sem verið var að ræsa til að hefja framkvæmdir við byggingu stíflu Franklinárinnar á suð-vestur hluta eyjunnar. Bygging virkjunarinnar hefði krafist þess að sökkt hefði verið stórbrotnum gljúfrum og flúðum, menjum um frumbyggjaslóðir, þúsund ára gömul tré hefðu verið höggvin og dýrum á svæðinu hefði verið drekkt. Mótmælendur komu alls staðar að úr Ástralíu og höfðu margir þeirra lagt á sig mörg þúsund kílómetra langa leið. Í þeirra hópi voru kennarar, læknar, opinberir starfsmenn, vísindamenn, bændur, listamenn, skrifstofufólk, verkfræðingar og leigubílstjórar. Næstum helmingur þeirra var handtekinn af lögreglunni og ákærður fyrir að hafa brotið aðgöngubann. Hópur 20 lögfræðinga, allt sjálfboðaliðar, aðstoðuðu hina kærðu. 450 manns neituðu að greiða tryggingu til að fá sig lausa úr haldi og urðu að eyða allt að fjórum vikum í varðhaldi. Þessi mótmæli beindu athygli alls samfélagsins að Franklinvirkjuninni og leiddu til þess að stjórnmálaflokkur sem lofaði að stöðva framkvæmdir bar sigur úr býtum í kosningum og myndaði næstu ríkisstjórn. Franklináin rennur enn frjáls og óbeisluð.

Í hópi andstæðinga þessara umdeildu framkvæmda var ástralski heimspekingurinn Peter Singer. Hann hefur síðan þá getið sér orð sem einn þekktasti siðfræðingur samtímans, en ekki síður vakið athygli fyrir skrif sín um umhverfisvernd og réttindi dýra. Er Peter Singer frétti af fyrirhuguðum framkvæmdum við Kárahnjúka skrifaði hann okkur: „Ég er hneykslaður að heyra að það stendur til að eyðileggja sjaldgæf víðerni á hálendi Íslands. Í Ástralíu tók það nokkra áratugi að koma í veg fyrir áform Vatnsaflsvirkjanafélags Tasmaníu um að sökkva dalnum sem Franklináin flæðir um. Allir, og þar með taldir stjórnmálaflokkarnir sem voru fylgjandi byggingu virkjunarinnar vegna þess að þeir töldu að það myndi auka atvinnu á svæðinu, eru nú sammála um að það var rétt að hætta við framkvæmdirnar. Okkur hefur lærst að víðerni eru dýrmæt arfleifð sem okkur er treyst fyrir, ekki aðeins til að skila þeim óspjölluðum til komandi kynslóða, heldur einnig til að vernda þau vegna dýranna sem þar eiga heima.“

Álitamál um Kárahnjúka

Rökin fyrir byggingu Kárahnjúkavirkjunar eru þau sömu og rökin fyrir byggingu virkjunarinnar í Tasmaníu. Það eru tuttugu ár síðan Ástralar ákváðu að hætta við virkjun Franklinár í nafni náttúruverndar. Hér á landi hefur náttúruvernd hins vegar mátt sín lítils andspænis gildismatinu sem býr að baki virkjanastefnunni sem fylgt hefur verið undangengna áratugi á Íslandi. Þegar þessi virkjanastefna var mótuð voru viðhorf til náttúru- og umhverfisverndar alls ólík því sem við þekkjum í dag. Virkjanastefnan er afsprengi nútímavæðingar og tæknihyggjunnar sem er kjarni hennar. Hún hefur án efa átt drjúgan þátt í að gera samfélag okkar lífvænlegra og hagsælla. Það fer heldur ekki á milli mála að arðurinn af ýmsum virkjunum hefur verið góður. Þeir sem aðhyllast óbreytta virkjanastefnu telja því fulla ástæðu til að halda áfram að virkja fallvötn og jarðvarma og framleiða og selja orku.

Margir eru hins vegar farnir að setja spurningamerki við óbreytta virkjanastefnu og kemur það skýrast fram í niðurstöðum skoðanakannana sem sýna að u.þ.b. þriðjungur landsmanna er andsnúinn framkvæmdunum sem fara á út í á hálendinu. Sú staðreynd að unnið er að gerð „Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls- og jarðvarma“ er einnig til marks um að yfirvöld orkumála álíti nauðsynlegt að vega og meta virkjanastefnu okkar og forgangsraða virkjanakostum eftir fórnum á kostnað náttúrunnar ekki síður en arðsemi. Gagnrýnendur Kárahnjúkavirkjunar hafa einmitt lagt áherslu á áhættuþættina sem umhverfismatið sýnir og lýst yfir áhyggjum af hinum hagfræðilegu áhrifum sem framkvæmdirnar hafa í för með sér. Kannski getum við látið Landsvirkjun og stjórnvöld njóta vafans og treyst þeim til að taka skynsamlega ákvörðun um byggingu virkjunarinnar í þeirri von að hún verði okkur til hagsældar. Þar með er málið hins vegar ekki úr sögunni því þetta er ekki bara spurning um þessa einu virkjun. Þetta er spurning um virkjanastefnu Íslendinga almennt. Og hún tengist umræðu um hvaða stefnu við viljum taka í náttúru- og umhverfisverndarmálum. Orkar það t.d. tvímælis að leggja ofuráherslu á verndun hálendis sem gerir að verkum að önnur og ekki síður brennandi umhverfismál í þéttbýlismenningu falla hugsanlega í skuggann? Hvað er til í rökum virkjanasinna um að framleiðsla áls á Íslandi sé náttúruvæn í hnattrænu samhengi vegna þess að vatnsafl sé ekki mengandi eins og flestir aðrir orkugjafar?

Í framhaldi af því væri þörf á að velta fyrir sér hvers vegna ekki hefur verið leitast við að leita annarra leiða og virkja t.d. vindafl sem þrátt fyrir sjónmengun veldur líkast til ekki eins miklum náttúruspjöllum og fallvatnsvirkjanir. M.a. þess vegna virðist brýnast að spyrja hvers vegna haldið er áfram á þessari braut virkjanastefnu? Viljum við veðja á stórar virkjanir og stóriðju? Eða eigum við að reyna að finna aðrar lausnir og skapa samfélag sem byggist ekki endilega að drjúgum hluta á stóriðju sem kostar mikil spjöll á náttúru landsins?

Virkjanastefna og menntun

Því er haldið fram að óbreytt virkjanastefna stuðli ekki að því að hækka menntunarstig hér á landi. Þetta kom m.a. fram í máli hagfræðinganna Sigurðar Jóhannessonar og Guðmundar Magnússonar á fundi um hægri græna pólitík á Hótel Borg sunnudaginn 16. febrúar s.l. Þeir sögðu að hin mikla áhersla á verklegar framkvæmdir myndi ekki leiða til þess að menntunarstig hækkaði hér á landi. Það má jafnvel búast við því að piltar sæki síður í háskólanám til að taka þátt í þessum framkvæmdum. Munu kynjahlutföll í háskólum raskast enn frekar og hvaða afleiðingar mun það hafa?

Þetta er ekki síst áhyggjuefni þar eð menntunastig hérlendis er lægra en í nágrannalöndum okkar, sem eru sum hver mun fátækari að náttúruauðlindum en leggja hins vegar megin áherslu á að efla menntun og þróa þekkingarsamfélag. Guðmundur Magnússon benti í því samhengi á að í samfélögum þar sem menntunarstig er hærra og lífskjör betri er lögð meiri áhersla á náttúruvernd og heilsu almennings en annars staðar. Það getur því fleira tapast með virkjana- og stóriðjustefnu en óspillt náttúra.

Lýðræðisleg umræða og jafnræði

Áhyggjum sem þessum verður ekki drepið á dreif með því að ræða þær ekki. Það þarf þess vegna að skoða virkjanastefnu í víðu samfélagslegu og menningarlegu samhengi, og ekki einskorða umræðu um hana við hagvöxt og atvinnuþróun á sviði verklegra framkvæmda og stóriðju. Hinir ólíku hagsmunaðilar verða einnig að geta komið að málinu á jafnræðisgrundvelli. Landsvirkjun framfylgir áratuga gamalli virkjanastefnu og á ríkra hagsmuna að gæta sem ráðast af þessari stefnu. Náttúruverndarsamtökin leitast við að hamla gegn spjöllum á náttúru og umhverfi og eru einn helsti talsmaður náttúrunnar í þessu máli. Landsvirkjun mun hafi eytt meir en 200 miljónum króna á þessu kjörtímabili til að uppfræða Íslendinga um starfsemi sína og efla ímynd fyrirtækisins. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa ekki nema örlítið brot af þeirri upphæð til ráðstöfunar til þess að koma á framfæri gagnrýni og fræðslu um málið, en þau fengu í fyrra 1200 þúsund krónur í rekstrarstyrk frá umhverfisráðuneytinu. Það getur varla talist lýðræðislegri umræðu um virkjana- og hálendismál til framdráttar að svo halli á annan aðilann í því óumflýjanlega fræðslustarfi sem þarf að eiga sér stað til þess að leiða þetta mál lýðræðislega til lykta. Þá eigum við ekki við að það sé afgreitt eftir settum leiðum á Alþingi. Það er meira eða minna búið og gert. Við eigum fyrst og fremst við þá afgreiðslu sem þetta mál þarf að fá í opinberri umræðu í samfélaginu sjálfu.

Margir eru þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðsla um þessa framkvæmd sé knýjandi og er undirskriftasöfnun því til stuðnings farin af stað á www.halendid.is. Þjóðaratkvæðagreiðsla er í sjálfu sér góð og gild, en það er hætt við að hún missi marks ef hún er ekki studd nægri gagnrýninni umræðu um málið. Hún er alger forsenda þess að fólk geti tekið upplýsta ákvörðun.

Það hefur verið mikill hraði á afgreiðslu þessa máls. Alþingi hefur sett lok á pottinn, en það heldur áfram að krauma og bulla í honum. Vonandi þarf ekki að koma til þess að upp úr sjóði eins og gerðist í Ástralíu þegar framkvæmdir við Franklinvirkjunina áttu að byrja. Ef á að koma í veg fyrir djúpstæðan ágreining í samfélaginu þarf því að eiga sér stað víðtæk umræða með þátttöku almennings og frjálsra félagasamtaka um virkjanastefnu og það framtíðarsamfélag sem við erum að skapa okkur með henni, (sbr. alþjóðasamninga eins og Riosáttmálann og Árósasamninginn.)

Gunnar Örn Sigvaldason er nemi í heimspeki við Háskóla Íslands

Sigríður Þorgeirsdóttir er dósent í heimspeki við Háskóla Íslands

 

« Til baka

Related Entries