Orðið heimspeki

Orðið heimspeki, upphaflega „heimsspeki“, er að öllum líkindum tökuþýðing úr þýsku (Weltweisheit) eða dönsku (den verdslige Visdom) og merkir bókstaflega „veraldarviska“. Orðið var notað yfir aðrar greinar fræðilegrar þekkingar en guðfræði. Þessi merking er í samræmi við hefðbundna notkun orðsins á fyrri öldum sem enn má sjá þegar lærdómsmönnum úr hinum ýmsu fræðigreinum er veitt doktorsnafnbót í heimspeki (t.d. Ph.D.)

Samkvæmt ritmálssafni Orðabókar Háskólans er elsta dæmi um orðið „heimsspekingur“ úr þýðingu Guðbrands Þorlákssonar á Enchiridion edur Hand Bok, eftir David Chytræus og M. Chemnitz, sem prentuð var á Hólum árið 1600. Í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu, sem var prentuð árið 1540, er það orð ekki notað, heldur eru heimspekingar nefndir philosophi upp á latínu. Elsta dæmið úr ritmálssafninu um „heimsspeki“ er aftur á móti úr þýðingu Þorleifs Halldórssonar á eigin latínuriti, Lofi lyginnar, frá 1711–1713. Orðið er einnig notað í kvæði Guðmundar Bergþórssonar (1657–1705), Heimspekingaskóli, en það var fyrst prentað 1785. Í seðlasafni Orðabókar Háskólans eru fleiri dæmi frá 18. öld.

Í íslenskum miðaldaritum eru heimspekingar yfirleitt nefndir „spekingar“, t.d. eru „Aristóteles hinn spaki“ og „spekingurinn Plató“ nefndir í málfræðiritum. Vera má að orðið „fróðleiksást“ í Fyrstu málfræðiritgerðinni, sem talin er frá 12. öld, sé elsta tilraun til að íslenska latnesku orðmyndina philosophia.

« Til baka

Related Entries