Inngangsfræði heimspeki og sögulegrar efnishyggju

eftir Antonio Gramsci1

Nokkur byrjunaratriði

 

Nauðsynlegt er að uppræta þá almennu hjátrú að heimspekin sé afarerfitt viðfangsefni sökum þess að hún sé andlegt starfssvið ákveðins flokks sérmenntaðra fræðimanna eða atvinnu­heimspekinga sem eigi sér heimspekikerfi. Umfram allt þarf að sýna fram á að allir menn séu heimspekingar og skilgreina takmarkanir og eðli þessarar „sjálfkvæmu heimspeki“ sem er eiginleg öllum almenningi, þeirrar heimspeki sem er fólgin: 1. í sjálfri tungunni sem er samsafn ákveðinna hugmynda og hugtaka, en vissulega ekki samsafn málfræðilega innihaldslausra orða einvörðungu; 2. í brjóstviti og heilbrigðri skynsemi; 3. í alþýðutrúarbrögðum, og þá einnig í öllu því kerfi átrúnaðar, hindurvitna, skoðana, skoðunarhátta og starfshátta sem er yfirleitt sópað saman í það safn sem kallað er „þjóðhættir“.

Þegar sýnt hefur verið fram á að allir séu heimspekingar, reyndar hver á sinn hátt og ómeðvitað, – því að jafnvel í óbrotnustu tjáningu hugarstarfs, svo sem í „tungunni“, er fólginn ákveðinn heims­skilningur, – þá er næst að víkja að gagnrýninni og vitundinni, það er að segja að þeirri spurningu hvort æskilegt sé að „hugsa“ án þess að beita gagnrýnni vitund við hugsunina, án þess að skeyta um einingu og eftir duttlungum kringumstæðnanna, með öðrum orðum að „eiga hlut að“ heims­skilningi sem umhverfið „neyðir“ ósjálfrátt upp á menn; en með umhverfi er átt við einhvern þeirra mörgu félagshópa sem hver maður verður sjálfkrafa aðili að um leið og heimur­inn verður honum meðvitaður (þar getur verið um að ræða þorpið eða héraðið þar sem hann á heima, ræturnar sem hann á í sókninni sinni og í „andlegu starfi“ prestsins eða ættarhöfðingjans sem ræður lögum og lofum með „vizku“ sinni, konunnar sem hefur erft kunnustu galdrakvennanna, eða þess minni háttar andans manns sem hefur súrnað í eigin heimsku og máttleysi); eða er æskilegra að smíða sinn eigin heimsskilning í fullri vitund með gagnrýnni aðferð og því í samræmi við eigið hugvit og hugarstarf, kjósa sér sitt eigið athafnasvið, taka fullan þátt í að framleiða sögu heims­ins, vera sjálfs sín leiðtogi í stað þess að taka með þolgæði við því móti sem umhverfið þvingar upp á persónuleikann.

Athugagrein 1. Að því er tekur til heimsskilningsins er maður alltaf áhangandi ákveðins hóps, og þessi hópur inniheldur félagslegar einingar sem hugsa og starfa á sama hátt. Menn eru alltaf konformistar einhvers konformisma, menn eru alltaf fjöldamenni eða félagsverur. Viðfangsefnið er þetta: til hvaða sögulegrar tegundar telst konformisminn, fjöldamennið sem einstaklingurinn hagar sér eftir? Þegar heimsskilningur hans er ekki gagnrýnn og sjálfum sér samkvæmur, heldur afsprengi hvers andartaks og af ýmsum toga, tilheyrir maðurinn samtímis mörgum hópum, persónuleiki hans er einkennilegur samtíningur: sækir sumt til hellabúanna og sumt til nýjustu vísinda, til fordóma allra söguskeiða og útkjálka og til þeirrar framtíðarheimspeki sem mannkynið eignast þegar það verður orðið ein heild. Að gagnrýna heimsskilning sjálfs sín þýðir þá það að ljá honum einingu og samkvæmni og hefja hann á það stig sem heimhugsunin hefur komizt lengst. Þá þýðir það einnig að gagnrýna alla heimspeki sem fram að þessu hefur orðið til, að svo miklu leyti sem hún hefur skilið eftir fastar myndanir í alþýðuspeki. Upphaf gagnrýnisstarfsins verður vitundin um það hvað maður er raunverulega, sjálfsrannsókn sem tekur til áhrifa hins sögulega ferlis sem hingað til hefur átt sér stað, og hefur skilið eftir í sérhverjum okkar ótal spor sem við höfum ekki neina skrá yfir. Slíka skrá þarf að semja á undan öllu öðru.

Athugagrein 2. Ekki er hægt að skilja í sundur heimspekina, menninguna og sögu menningar­innar. Í beinustum og raunhæfustum skilningi orðsins geta menn ekki verið heimspekingar, þ. e. a. s. haft gagnrýnan og samkvæman heimsskilning, nema þeir séu meðvitandi um sögulegt afstæði þess skilnings, það þróunarstig sem hann endurspeglar, og þá staðreynd að hann er í mótsögn við aðra skilningshætti. Heimsskilningur okkar svarar ákveðnum viðfangsefnum, sem eru afmörkuð og „upprunaleg“ og eiga heima í nútímanum. Hvernig er hægt að gera sér grein fyrir nútíðinni, mjög afmarkaðri nútíð, með hugsunarhætti sem mótazt hefur í viðureign við viðfangs­efni löngu liðinnar tíðar? Ef slíkt er gert, þá er það sökum þess að við erum „tímavilltir“ á okkar eigin tíma, steingervingar en ekki lifandi verur í heimi nútímans, eða að missta kosti einkennilega „samsettar“ verur. Og það ber reyndar við að félagshópar sem að sumu leyti eru fulltrúar nútímans í hinu þróaðasta formi eru að öðru leyti á eftir samtímanum vegna félagslegrar stöðu sinnar og geta því ekki öðlazt algert sögulegt sjálfræði.

Athugagrein 3. Ef rétt er að sérhvert tungumál geymi í sér frumþætti heimsskilnings og menningar, þá er einnig rétt að tungumál hvers og eins ber vitni um heimsskoðun hans, hvort hún er fjölhæf eða ósamsett. Þeir sem talal mállýzku eða skilja þjóðtunguna miður vel, hljóta að eiga aðild að heimsskilningi sem er takmarkaður og útkjálkalegur að meira eða minna leyti, stirðnaður, úreltur, andspænis þeim stórstraumum hugsunarinnar sem bera með sér sögu heimsins. Áhugaefni þeirra verða takmörkuð, varða að meira eða minna leyti þröng hagsmuna­mál og afkomumöguleika, en eru ekki almenn. Það er ekki alltaf hægt að nema margar erlendar tungur til þess að komast í snertingu við ýmislegar menningarheildir, en heild er hægt að túlka á tungumáli annarrar meiriháttar mennigarheildar, þ. e. a. s. þjóðtunga sem er auðug og fjölhæf af sögu sinni og arfi getur flutt hvaða meiriháttar menningu sem er, hún getur með öðrum orðum tjáð allan heiminn. En það getur mállýzka ekki gert.

Athugagrein 4. Að skapa nýja menningu er ekki aðeins í því fólgið að gera einstaklingsbundnar og „frumlegar“ uppgötvanir, það er líka og einkum fólgið í því að miðla með gagnrýni sannindum sem þegar hafa verið uppgötvuð, gera þau að félagseign, gera þau að grundvelli nauðsynlegra athafna, gera þau að samhæfingarþáttum, að andlegum og siðferðilegum hvötum. Þegar fjöldinn lærir að gera sér grein fyrir raunveruleik nútímans á sjálfum sér samkvæman og heillegar hátt, er sá „heimspekilegi“ ávinningur mun mikilvægari og frumlegri en uppgötvun nýs sannleika gerð af heimspeki„snillingi“, sem smáhópar menntamanna eignast aðgang að.

Tengsl milli brjóstvits, trúarbragða og heimspeki. Heimspekin er menntagrein, en það geta trúar­brögð og brjóstvit ekki verið. Athuga hvernig trúarbrögð og brjóstvit eru ekki heldur samhliða, hvernig trúarbrögðin eru einn þátturinn af mörgum í brjóstvitinu. Annars er „brjóstvit“ safnheiti engu síður en „trúarbrögð“: brjóstvit er ekki eitt og samt, því að það er einnig afurð sögunnar og söguleg verðandi. Heimspeki er gagnrýni og ofurlið trúarbragðanna og brjóstvitsins, og í þessum skilningi er hún samferða „skynsamlegu viti“ sem er ekki sama og brjóstvit.

Tengsl milli vísinda, trúarbragða og brjóstvits. Trúarbrögð og brjóstvit er ekki unnt að telja menntagrein, af því að ekki er hægt að skapa úr þeim einingu og samkvæmni, jafnvel ekki í vitund einstaklingsins, hvað þá heldur í vitund fjöldans; það er ekki hægt að skapa úr þeim einingu og samkvæmni „af sjálfu sér“, en það er hægt með gerræðislegum aðferðum, og hefur verið gert innan vissra takmarka áður fyrr. Trúarbrögðin eru ekki skilin hér kirkjulegum skilningi, heldur litið á þau frá sjónarmiði leikmannsins, þ. e. a. s. sem trúarlega einingu heimsskilnings og lífsreglna sem eru í samræmi við þann skilning: en hví ætti þá að kalla þessa trúareiningu „trúarbrögð“ fremur en „hugmyndafræði“ eða hreint og beint „pólitík“?

Heimspekin í almennum skilningi er reyndar ekki til: það eru til ýmsar heimspekistefnur eða heimsskoðanir og milli þeirra stendur valið. Hvernig fer þetta val fram? Er þetta val einfaldlega háð ákvörðunum skynseminnar eða eru flóknari öfl að verki? Og verður ekki oft vart mótsagnar milli ákvarðana skynseminnar og hegðunarforma mannsins? Hver verður þá hin raunverulega heimsskoðun: sú sem skynsemin heldur fram og styður með rökum, eða sú sem kemur í ljós í hátterni einstaklings, sú sem er óbeint fólgin í athöfn hans? Og úr því að athöfnin er ævinlega pólitísk athöfn, má þá ekki segja að raunveruleg heimspeki hvers og eins sé öll saman fólgin í pólitík hans? Þessi mótsögn milli hugsunarinnar og athafnarinnar, þ. e. a. s. sambúð tveggja heimsskoðana, annarrar játaðrar í orði, hinnar fólginnar í raunverulegum athöfnum, er ekki ævinlega að kenna óheilindum. Óheilindi geta verið fullnægjandi skýring, þegar um er að ræða einstaklinga eða jafnvel hópa, litla og stóra; en sú skýring nægir ekki þegar mótsögnin birtist í lífsháttum fjöldans: þá er hún óhjákvæmilega afurð djúptækari árekstra af sögulegum og félagslegum toga. Þetta þýðir að félagshópur (þó að hann eigi sjálfur heimsskilning, að vísu oft ófullburða, sem kemur fram í athöfn, og því um stundarsakir, þ. e. a. s. á þeim stundum þegar hópurinn hrærist sem lífræn heild) hefur, af andlegri auðmýkt og ósjálfstæði, fengið að láni hjá öðrum hóp skoðun sem er honum ekki eiginleg, og hann játar í orði og heldur sig fylgja, af því hann fylgir henni á venjulegum tímum, m. ö. o. á tímum þegar framferði hans er ekki sjálfstætt og sjálfrátt, heldur einmitt undirgefið og ósjálfstætt. Því er ekki hægt að losa heimspekina frá pólitíkinni, og það er jafnvel hægt að sýna fram á að val og gagnrýni heimsskilnings er einnig pólitísk athöfn.

Það þarf því að útskýra hvernig á því stendur að alltaf eru til samtímis mörg heimspekikerfi og heimspekistefnur, hvernig þau verða til, hvernig þau breiðast út, hvernig þau fylgja í útbreiðslu sinni ákveðnum brotalínum og fara í ákveðnar áttir o. s. frv. Þetta sýnir hverja nauðsyn ber til að safna saman í kerfisformi, með hjálp gagnrýnnar og sjálfri sér samkvæmrar aðferðar, þeim skoðunum sem maður hefur á heiminum og lífinu. Þó þarf að skilgreina nákvæmlega við hvað er átt með „kerfi“, svo að ekki verði lagður í það orð skilningur orðhenglanna og prófessoranna. En þessa upplýsingarstarfsemi verður að leysa af hendi og hún verður aðeins leyst af hendi með tilvísun til heimspekisögunnar sem sýnir hvaða breytingum hugsunin hefur tekið í rás aldanna, og hvaða sameiginlegs átaks hugsunaraðferð nútímans hefur krafizt. Sú hugsunaraðferð er útdráttur og samsafn allrar þessarar liðnu sögu, einnig mistaka hennar og óráðstiltækja. Ekki er heldur hægt að fullyrða að þessi mistök og óráðstiltæki kunni ekki að endurtaka sig nú á tímum og útheimta leiðréttingar, enda þótt þau heyri til liðnum tíma og hafi þegar verið leiðrétt.

Hvaða hugmynd gerir alþýða sér um heimspeki? Þá hugmynd má greina í algengum orðatil­tækjum. Mjög algengt er orðatiltækið „að taka hlutunum heimspekilega“, og við nánari aðgæzlu virðist ekki ástæða til að fordæma það orðatiltæki gjörsamlega. Að sönnu hvetur þetta orðatiltæki óbeinlínis til uppgjafar og þolinmæði, en samt sýnist höfuðboðskapur þess vera hvatning til íhugunar, til að gera sér þess grein að viðburðirnir eru í rauninni skiljanlegir með skynseminni og að þannig beri að líta á þá, með því að einbeita skynsemiskröftum sínum, en láta ekki ósjálfráðar og sterkar tilfinningar hrekja sig af leið. Unnt ætti að vera að flokka þessi alþýðlegu orðatiltæki með svipuðum orðatiltækjum alþýðlegra rithöfunda, með því að fletta upp á orðunum „heimspeki“ og „heimspekilegur“ í stórri orðabók, og þá mun koma í ljós að þessi orðatiltæki þýða einmitt það að menn vinni bug á dýrslegum og frumstæðum ástríðum í þágu þess skilnings á nauðsyninni sem fær athöfnum manna meðvitaða stefnu. Þetta er hinn heilbrigði kjarni brjóstvitsins, það sem mætti einmitt kalla „skynsamlegt vit“, og leggja þyrfti rækt við og gera heillegra og sjálfu sér samkvæmara. Það er því auðséð að af þessum sökum einnig er örðugt að greina svokallaða „vísindalega“ heimspeki frá þeirri heimspeki sem kölluð er „alþýðleg“ og er ekki annað en safn ósamstæðra hugmynda og skoðana.

Þá er komið að mjög mikilvægu viðfangsefni sem sérhver heimsskoðun eða heimspeki, sem orðin er menningarhreyfing, „trú“, „trúarbrögð“, verður að fást við. Hér er um það að ræða að varðveita hugmyndafræðilega einingu í allri félagsheildinni, sem sækir einmitt styrk og samstöðu í þessa hugmyndafræði. Þróttur trúarbragðanna og katólsku kirkjunnar sér í lagi hefur verið og er fólginn í því að gera sér fullkomna grein fyrir nauðsyn kenningalegrar einingar meðal hins „trúaða“ fjölda, og að berjast gegn því að æðri menntastéttir félagsheildarinnar slitni frá hinum lægri. Rómverska kirkjan hefur ævinlega barizt af þrautseigju gegn því að tvennskonar trúarbrögð mynduðust: trúarbrögð menntaðra manna á annan bóginn og trúarbrögð „einfaldra sálna“ á hinn bóginn.2

Praxis-heimspekin hlýtur í byrjun að koma fram í ádeilu- og gagnrýnisformi, sem reikningsskil við þann hugsunarhátt sem ríkir og þá hluttæku hugsun sem fyrir er (eða þann menningarheim sem fyrir er). Þessvegna framar öllu sem gagnrýni á „brjóstvitinu“ (eftir að hafa stuðzt við „brjóstvitið“ til að sanna að „allir“ menn séu heimspekingar, og að ekki er um það að ræða að smeygja spánýrri fræði inn í einstaklingslíf „allra manna“ heldur að endurnýja starfsemi sem fyrir var og gera hana gagnrýna), og ennfremur sem gagnrýni á heimspeki menntamanna sem hefur getið af sér sögu heimspekinnar, og getur að svo miklu leyti sem hún er einstaklingsbundin (og hún þróast einmitt aðallega fyrir starfsemi sérstaklega gáfaðra einstaklinga) verið skoðuð sem framfarabroddur brjóstvitsins, að minnsta kosti brjóstvits hinna bezt menntu og síðan einnig brjóstvits alþýðunnar. Því ætti undirbúningur að rannsókn heimspekinnar að vera fólginn í því að draga saman í eina heild þau vandamál sem þróunarferli menningarinnar getur af sér, – en það þróunarferli endur­speglast ekki nema að nokkru leyti í sögu heimspekinnar. Eigi að síður verður saga heim­spekinnar helzta heimildin (með því að saga brjóstvitsins verður ekki sögð sökum heimilda­skorts) fyrir þá sem taka sér fyrir hendur að kanna þessi vandamál, sýna hvaða raunverulegt gildi þau hafa, ef nokkurt, eða þá merkingu sem þau hafa haft, sem hlekkir í keðju, og skilgreina raunveruleg og ný vandamál, og þau form sem gömul vandamál taka nú á sig.

Sambandinu milli „æðri“ heimspeki og brjóstvits er komið á af pólitíkinni, á sama hátt og pólitíkin sér um að viðhalda sambandi milli katólsku lærðra manna og katólsku hinna „einföldu sálna“. Mismunurinn á þessum hliðstæðum skiptir þó höfuðmáli. Sú staðreynd að kirkjan þarf að kljást við „einfaldar sálir“ þýðir að klofningur hefur orðið í samfélagi trúaðra. Á þessum klofningi er ekki hægt að ráða bót með því að lyfta hinum „einföldu“ í hæð hinna lærðu (kirkjan setur sér ekki einusinni þetta markmið, bæði hugmyndlega og fjárhagslega er það henni mjög um megn nú), heldur með því að leggja agahömlur á hina lærðu til þess að þeir haldi klofningnum í vissum skefjum og geri hann ekki að óbætanlegri plágu. Áður fyrr var þessi „klofningur“ í samfélagi trúaðra bættur upp með voldugum fjöldahreyfingum sem gerðust aflvakar nýrra trúarreglna – og fundu samnefnara í myndun þeirra – kringum sterka einstaklinga (heilagan Dóminík, heilagan Frans).

En gagnsiðbótin dró máttinn úr þessari grósku alþýðukrafta: Jesúsamfélagið er síðasta mikils­háttar trúarreglan, það er að uppruna afturkippsstofnun og valdstjórnarstofnun, eðli þess var kúgun og „diplómatí“, og stofnun þess var merki um harðnandi afstöðu katólskunnar. Hinar nýju reglur sem risið hafa upp síðan hafa mjög takmarkaða „trúarlega“ þýðingu, en mikla þýðingu sem „ögunartæki“ gagnvart fjölda hinna trúuðu. Þetta eru greinar af Jesúfélaginu eða hafa orðið það, viðnámstæki til að halda við áunnum pólitískum ítökum en ekki öfl endurnýjunar og þróunar. Katólskan er orðin „jesúítismi“. Nútímastefnan hefur ekki skapað trúarreglur heldur stjórnmála­flokka, kristilega demókrata.

Afstaða praxis-heimspekinnar er gagnstæð afstöðu katólskunnar: praxis-heimspekin leitast ekki við að viðhalda frumstæðri brjóstvits-heimspeki hinna einföldu sálna, þvert á móti vill hún gera þær aðnjótandi æðri lífsskilnings. Þó að hún haldi fram nauðsyn þess að koma á skilningi milli lærðra manna og hinna einföldu sálna, er markmið hennar ekki að halda í við vísindalega starf­semi eða viðhalda einingu á lágu menningarstigi fjöldans, heldur að smíða menningarlega og siðferðilega samfylkingu sem skapi pólitíska möguleika á menningarlegum framförum fjöldans, ekki aðeins fárra og fámennra hópa menntamanna.

Starf alþýðumannsins er raunhæft, en hann gerir sér ekki skýra fræðilega grein fyrir starfi sínu, þó að það leiði til þekkingar á heiminum. Fræðileg vitund hans getur jafnvel verið í andstöðu við starf hans: segja má að hann hafi tvær fræðilegar vitundir (eða mótsagnakennda vitund): önnur er óbeint fólgin í starfi hans, og hún sameinar hann raunverulega öllum þeim sem leggjast á eitt með honum að breyta veruleikanum í raun; hin lýsir veruleikanum í orðum á yfirborðslegan hátt, hana hefur hann tekið gagnrýnislaust að erfðum frá fortíðinni. Þessi „orðaði“ skilningur hefur samt afleiðingar: hann tengir manninn við ákveðinn félagshóp, hefur áhrif á siðferðilegt hátterni, á stefnu viljans, – sterk eða veik áhrif –, og getur þetta gengið svo langt að mótsagnir vitundarinnar hindri allar athafnir, allar ákvarðanir, allt val, og geti af sér andlegt og pólitískt aðgerðaleysi. Gagnrýnn sjálfsskilningur myndast því í baráttu pólitískra forræðisstefna af andstæðum þáttum, fyrst á sviði siðfræðinnar, síðan á sviði stjórnmálanna, sú barátta leiðir til fullkomnari gerðar þeirrar vitundar sem maður hefur sjálfur um veruleikann. Vitundin um að vera þáttur af ákveðnu forræðisafli (þ. e. a. s. hin pólitíska vitund) er fyrsti áfanginn á leiðinni til stígandi sjálfsvitundar þar sem kenning og athöfn sameinast að lokum. Jafnvel eining kenningar og athafnar er ekki stað­reynd sem verður til sjálfkrafa, heldur söguleg verðandi, sem hefur átt sitt frumstæða byrjunar­skeið í hálfmeðvitaðri tilfinningu „fremdar“, „sérstöðu“, „sjálfstæðis“, og þróast upp í raunveruleg og fullkomin umráð yfir samkvæmum og heillegum heimsskilningi. Þessvegna ber að leggja áherzlu á hvernig pólitísk þróun forræðishugtaksins er til marks um mikinn heimspekilegan ávinning, svo ekki sé talað um hagnýta pólitíska hlið þess, af því að það fram­kallar og útheimtir andlega og siðfræðilega einingu í samræmi við raunveruleikaskilning sem hefur lagt brjóstvitið að baki og er orðinn gagnrýnn, þó innan þröngra marka.

Eigi að síður er það rétt að í nýjustu ritum praxisheimspekinnar er ekki rýnt djúpt í einingarhugtak kenningar og athafnar heldur er skilgreining þess aðeins á byrjunarstigi, leifar ólífrænnar hugsunar eru þar enn, úr því talað er um fræðikenninguna sem „viðbót“ og „anga“ athafnarinnar, um fræðikenninguna sem ambátt athafnarinnar. Réttmætt virðist að líta á þetta málefni sögulega, það er að segja sem þátt af pólitískri vitund menntamanna. Gagnrýn sjálfsvitund þýðir í sögu­legum og pólitískum skilningi sköpun „úrvalshóps“ menntamanna. Hópur manna ber ekki af og verður ekki sjálfstæður „af sjálfum sér“, án þess að skipuleggja sig (í víðum skilningi), og ekkert skipulagt félag er til án lærðra manna, þ. e. a. s. án skipuleggjenda og stjórnenda, – án þess að hinn fræðilegi þáttur samstæðunnar kenning-athöfn komi skýrt fram í hópi manna sem eru „sérhæfðir“ í andlegu og heimspekilegu starfi. En þessi mótun lærðra manna er seinlegt og erfitt verk og fullt af mótsögnum, þar skiptist á framsókn og undanhald, sundrung og samfylking, og „tryggð“ fjöldans verður stundum að þola örðuga raun (en tryggðin og aginn eru í upphafi það form sem þátttaka fjöldans og samvinna í þróun gervallrar menningarstarfseminnar tekur á sig). Þróunarferlið er tengt díalektískum samskiptum menntamanna og alþýðu; lag menntamanna þróast á breidd og dýpt, en sérhvert tilhlaup í áttina að nýju „víðfeðmi“ og nýrri fjölbreytni mennta­manna er tengt hliðstæðri hreyfingu hins óbreytta fjölda, sem rís til æðra menningarstigs og eykur um leið áhrifasvið sitt með framsókn einstaklinga eða jafnvel smárra eða stórra hópa í átt til lags hinna sérhæfðu menntamanna. En á þessu ferli koma æ ofan í æ þær stundir að sam­bandið rofnar milli fjöldans og menntamannanna (nokkurra þeirra eða einhvers hóps þeirra), og af því leiðir tilfinningu hins „aukalega“, tilfinningu uppbótarmannsins, undirtyllunnar. Þegar mikil áherzla er lögð á þáttinn „athöfn“ í samstæðunni „athöfn-kenning“, eftir að þættirnir tveir hafa verið skildir í tvennt og klofnir í sundur, en ekki aðeins greindir (algerlega sjálfgeng og venjubundin hugsunaraðferð) merkir það að menn eru staddir á tiltölulega frumstæðu söguskeiði, skeiði sem er ennþá efnahagslegt (ökónómískt) og fagfélagslegt (korpóratíft), þar sem hinn almenni rammi „byggingarinnar“ er að ummyndast að ytra búnaði og þar sem innra eðli yfirbyggingarinnar er að koma í ljós en hefur ekki enn myndazt á lífrænan hátt. Það þarf að gera grein fyrir því hve stjórn­málaflokkarnir eru mikilvægir aðilar nú á tímum að mótun og dreifingu heimsskoðana þar eð þeir smíða sér í lagi pólitískar og siðferðilegar meginreglur sem eru í samræmi við þessar heims­skoðanir og koma í stuttu máli sem sögulegir tilraunafrömuðir þessara skoðana. Flokkarnir velja einstaklingana sem mynda hinn starfandi fjölda, og valið fer fram jafnt á sviði starfsins og á sviði fræðikenningarinnar og tengt hvað öðru, með þeim mun nánara sambandi starfs og fræði­kenningar sem heimsskoðun flokks er róttækari og þróttmeiri og í algjörari andstöðu við gamla hugsunarhætti.

Í nýlegum umræðum um praxisheimspekina hefur mátt sjá hvernig algerlega vélgengur og yfir­borðslegur skilningur breytist í baráttuskilning sem nálgast töluvert réttan skilning á einingu fræðikenningar og athafnar. Auðvelt er að greina hvernig nauðhyggjan, örlagatrúin, hinn mekaníski þáttur hefur verið hugmyndafræðilegt „krydd“ praxisheimspekinnar, nokkurskonar trúarbrögð og örvunarlyf (sem verkaði þó eins og eiturlyf). Þessi örlagatrú var nauðsynleg og réttlættist sögulega af „undirtyllu“-eðli ákveðinna þjóðfélagshópa.

Þegar menn hafa ekki frumkvæði í baráttunni og sjálf baráttan verður að lokum röð af ósigrum, þá verður hin sjálfgenga örlagatrú geysiöflugt siðferðilegt mótstöðuafl, sameiningar- og þolgæðis­vaki. „Ég hef beðið ósigur um sinn, en þegar fram líða stundir verður þróunin mér hliðholl“ o. s. frv. Hinn raunverulegi vilji dulbýr sig sem trúræn heistrenging, örugg útskýring sögunnar, sem nokkurskonar empirískt og frumstætt form ástríðufullrar örlagatrúar, sem kemur í stað forákvörðunar og guðlegrar forsjár. Leggja verður áherzlu á það, að jafnvel þegar svo er ástatt er viljinn í rauninni síður en svo óvirkur, hann tekst beinlínis á við „vald hlutanna“, en reyndar eins og á laun, eins og hann blygðist sín, og af því leiðir mótsagnir þeirrar vitundar sem skortir gagnrýna einingu o. s. frv. En þegar „undirtyllan“ verður stjórnandi og ábyrgur fyrir efnahagsstarfi heildar­innar, kemur að því að þessi hugsanagangur verði bráð hætta, og þá fer fram endurskoðun alls hugmyndakerfisins vegna þess að orðin er breyting á lífsháttum þjóðfélagsins. Hversvegna herðir „vald hlutanna“ fjötra sína þá fastar? Það er vegna þess að þó að undirtyllan hafi áður verið hlutur, er hún ekki lengur hlutur, heldur sögulegur persónuleiki; í gær var hún ábyrgðarlaus af því hún var í andstöðu við annarlegan vilja, en í dag finnst henni að hún sé ábyrg af því hún er ekki lengur í andófi, heldur frumkvöðull, gerandi og framkvæmandi. En var hún áður aðeins „andóf“, aðeins „hlutur“, aðeins „ábyrgðarleysi“? Áreiðanlega ekki; það verður einmitt að leggja áherzlu á það að örlagahyggjan hefur aðeins það hlutverk að dylja veikleika starfandi og raunverulegs vilja. Þessvegna verður alltaf að sýna fram á einskisnýti hinnar vélgengu nauðhyggju, hún er að vísu auðskýrð sem einföld fjöldaheimspeki, og sem slík en aðeins sem slík er hún óbeinn styrkleiki. En þegar litið er á hana af menntamönnum sem yfirvegaða og sjálfri sér samkvæma heimspeki leiðir hún til aðgerðarleysis og bjánalegrar sjálfsánægju. Á þetta verðu að benda enda þótt undirtyllan sé orðin ábyrgur stjórnandi. Nokkur hluti fjöldans – enda þótt hann sé undirtyllur – er ævinlega ábyrgir stjórnendur, og heimspeki eins hluta kemur alltaf á undan heimspeki heildarinnar, ekki aðeins sem fræðileg spá heldur sem brýn nauðsyn.

 

Tilvísanir

1. Eftir Antonio Gramsci hafa áður birzt í Tímariti Máls og menningar fáein brot um bókmenntir og gagnrýni (2. hefti 1961, bls. 135-139), ásamt dálitlum formála um líf og starf Gramsci. Í bók Jóhanns Páls Árnasonar, Þættir úr sögu sósíalismans, er gerð nokkur grein fyrir pólitískri kenningu Gramsci, og í tímaritinu Kommúnistanum hafa verið þýddar eftir hann greinar. Brotin hér að framan eru úr fangelsisritum Gramsci, og virðast vera rituð 1932. Lesendur fangelsisritanna verða ævinlega að hafa í huga við hvaða kringumstæður þau rit urðu til, að Gramsci var ekki að skrifa til að gefa út, heldur fyrst og fremst að setja á pappírinn athugasemdir fyrir sjálfan sig eins og greinilega kemur fram í rithættinum; og stundum þurfti hann að gæta sín að skrifa ekki of bert, því alltaf var hætta á að fangaverðirnir færu að grúska í blöðin hans. Þannig er t. d. talið að sé tilkomin notkun hans á orðinu „praxis-heimspeki“, sem flestir álíta að þýði einfaldlega „marxismi“. – S. D.

2. Hér er sleppt úr hálfi annarri síðu þar sem Gramsci ræðir þessa spurningu nánar, með tilvísun til Benedetto Croce og fleiri ítalskra heimspekinga, reynslunnar af lýðháskólum o. s. frv. Hugleiðingum hans um þetta efni lýkur svo: „Vér komum aftur að sömu spurningunni: getur heimspekihreyfing því aðeins talizt gild að hún leitist við að móta sérhæfða menningu, sem sé ætluð afmörkuðum hópum menntamanna, eða er hún ekki nafnsins verð nema hún gæti þess ævinlega, – í viðleitni sinni að móta hugsun sem sé æðri brjóstvitinu og fræðilega samkvæm sjálfri sér, – að halda tengslum við hinar „einföldu sálir“, og sæki meira að segja í þessi tengsl þau vandamál sem ber að rannsaka og finna lausn á? Aðeins fyrir þessi tengsl verður heimspeki „söguleg“ og „lifandi“.

 

« Til baka

Related Entries