Færslusöfn

Stórvirkjanir og tilfinningar

eftir Atla Harðarson

Þeir sem vilja byggja nýjar vatnsaflsvirkjanir á hálendinu og fjölga stóriðjuverum væna andstæðinga sína stundum um tilfinningasemi og finna málflutningi þeirra til lasts að hann byggist á tilfinningum. Þótt ég sé fylgjandi því að fjölga virkjunum og stóriðjuverum finnst mér lítið vit að hafna málflutningi hinna, sem eru ósammála mér, á þeim forsendum að hann byggist á tilfinningum. Þegar rætt er um hverju má breyta og hvað á að fá að vera í friði, hvað má skemma og hvað ber að varðveita hljóta tilfinningar að skipta máli. Hugsum okkur til dæmis að við séum að taka til í geymslu eða á háalofti. Sumu hendum við og sumt ákveðum við að geyma. Við rekumst kannski á gamla brúðu sem er orðin óhrein og annað augað er dottið af og einhver segir: „Eigum við ekki bara að henda þessu“ og annar svarar: „Æ nei, mér þykir vænt um garminn.“ Hér er komin skynsamleg ástæða til að varðaveita dúkkudrusluna og þessi ástæða byggir á tilfinningum og engu öðru. Það er að öllu jöfnu rangt að skemma það sem einhverjum þykir vænt um. Þetta gildir ekki bara um muni og minjar, heldur líka um landslag og náttúrufyrirbæri. Ein mikilvægasta ástæðan fyrir því að það væri rangt að hrófla mikið við landslagi á Þingvöllum er tilfinningar fólks. Stórum hluta landsmanna þykir vænt um staðinn eins og hann er.

Eitt af því sem mælir gegn miklu raski á hálendi Íslands er tilfinningar fólks sem hefur ást á ósnortnum víðáttum. Þessar tilfinningar eiga fullt erindi í rökræðu um stórvirkjanir t.d. við Kárahnjúka. En það dugar ekki bara að bera þær á torg, það þarf líka að ræða þær af skynsamlegu viti. Það eitt, að mönnum sé heitt í hamsi og hafi stór orð um eitthvað sem þeim er hjartfólgið, segir okkur lítið um hvers virði tilfinningarnar eru. Jafnvel ástin getur lent á villigötum. Öfugsnúnar og heimskulegar tilfinningar viðhalda trúarofstæki og pólitískum og siðferðilegum hindurvitnum allt frá þjóðrembu og kynþáttahyggju til haturs á feldskerum og hvalveiðimönnum. Þótt tilfinningar eigi fullt erindi í alvarlega rökræðu, hvort sem hún fjallar um stórframkvæmdir eða tiltekt á háalofti, er ekki þar með sagt að allar tilfinningar séu jafngóðar. Þess vegna þarf að rökræða tilfinningalífið ekkert síður en efnahagslífið.

Í umræðum sem fram hafa farið um virkjanir á hálendinu hefur margt verið sagt af skynsamlegu viti um atvinnu- og efnahagsmál og það er orðið næsta víst að framkvæmdir sem Landsvirkjun áformar norðan Vatnajökuls stuðla að efnahagslegum ávinningi. Hagfræðileg rök virkjunarandstæðinga eru varla skóbótar virði. Sumir tala um ávöxtunarkröfu og kalla mismuninn á gróða af Kárahnjúkavirkjun og ímynduðum hámarksgróða af jafndýrri fjárfestingu „tap“ og fá þannig út að „tap“ sé af fyrirtækinu og það þótt þeir geti ekki bent á neina raunhæfa leið til að komast yfir þennan ímyndaða hámarksgróða. Aðrir halda því fram að auðnin sé svo heillandi að hægt sé að græða offjár á að flytja ferðamenn þangað. Víst er auðn fjallanna stórkostleg. En ef þangað fara nógu margir ferðamenn til að hagnaður af ferðaþjónustu jafnist á við gróða af stóriðju þá verður auðnin ekki lengur auðn. Reyni mjög margir að njóta einveru á sama stað þá verður þar engin einvera. Það er eitthvað mótsagnakennt við áform um að selja miklum fjölda aðgang að firnindum og ósnortnum öræfum fjarri alfaraleið. Stórfelldur ferðamannaiðnaður breytir ásýnd landsins ekkert síður en stíflur og rafmagnslínur. En þetta er útúrdúr. Ég er ekki að tala um efnahagsmál heldur tilfinningar. Sumir reyna að klæða þær í vísindalegan búning og minna á að virtir náttúrufræðingar hafi sýnt og sannað að umrædd virkjun hafi veruleg og óafturkræf áhrif á umhverfið. Þetta er vafalaust rétt en til að halda því fram að þessi áhrif séu ekki bara mikil og varanleg heldur líka slæm þarf fleiri forsendur en lesa má úr niðurstöðum vísindalegra rannsókna. Þessar viðbótarforsendur styðjast við rök hjartans fremur en bláköld vísindi og um þær er miklu minna rökrætt heldur en tæknileg smáatriði í skýrslum náttúrufræðinga og útreikningum hagfræðinga. Þrátt fyrir allan okkar lærdóm einkennist umræða um virkjanir á hálendinu af kunnáttuleysi í að fjalla um tilfinningar og meta þær með skynsamlegum hætti.

Hafi verið rökrætt af einhverju viti um tilfinningar fólks sem er á móti Kárahnjúkavirkjun þá hefur það a.m.k. farið fram hjá mér. Margir andstæðingar virkjunarinnar hafa vissulega gert grein fyrir tilfinningum sínum og jafnvel málað þær nokkuð sterkum litum. Fylgismenn framkvæmdanna hafa hins vegar gert afar lítið til að svara þeim sem tjá tilfinningalega afstöðu gegn þeim. Í stuttu máli má segja að annar hópurinn hampi tilfinningum og hinn hafni þeim. Afleiðing þessa er frekar leiðinleg og ógáfuleg umræða sem einkennist m.a. af því að andstæðingar virkjunarinnar hafa uppi sífellt meiri ýkjur og gífuryrði og talsmenn hennar tala bara um efnahagslegu hliðina en hliðra sér hjá að ræða um önnur efni sem líka skipta máli, eins og t.d. ást fólks á landinu.

Ef umræðu um tilfinningar er hafnað og þær annað hvort taldar hafnar yfir alla gagnrýni eða ekki þess virði að vera rökræddar af alvöru þá geta menn haldið fram hvers kyns tilfinningalegum firrum. Við þessar aðstæður er vandalaust að hrópa að þetta eða hitt sé ómetanlegt og trompa hvaða mótbáru sem er með nógu yfirdrifnum ástarjátningum. Efnahagsleg rök og raunvísindi duga skammt til að hrekja slíkan málflutning. Skynsamlegt mat á tilfinningum er viðfangsefni siðfræði fremur en náttúruvísinda og hagfræði. Við mat á tilfinningum þeirra sem eru andvígir virkjunum á hálendinu þarf að spyrja um ást manna á landi og náttúru. Spurningarnar eru margar: Munu menn, þegar fram líða stundir, hafa jafnmiklar mætur á landslaginu sem verður til við framkvæmdirnar eins og því sem hverfur? Verður virkjunin einhvern tíma að minjum sem menn munu telja jafnmikilvægt að varðveita eins og núlifandi mönnum þykir að vernda ósnortnar auðnir? Skiptir þetta kannski engu máli? Eru náttúruvætti eins og mannslíf að því leyti að þau séu hafin yfir skiptagildi og ekki hægt að bæta missi þeirra með því að eignast eitthvað nýtt sem er jafngott því sem fyrir var? (Við teljum missi vinar ekki bættan þótt við eignumst annan jafngóðan vin.) Eru tilfinningar fólks til staða sem það þekkir aðeins af afspurn jafngildar taugum manns til eigin átthaga sem hann er gerkunnugur? Eru kenndir sem eru spanaðar upp við lúðrablástur, bumbuslátt og slagorðaglamur jafngildar þeim sem vaxa í næði og eiga rætur í persónulegum kynnum? Hafa tilfinningar borgarbúans sem vill vita af ósnortinni auðn hinu megin á landinu sama vægi og Austfirðingsins sem ann átthögum sínum svo að hann langar að búa þar áfram? Hjá hvorum finnum við fegurri ást á landinu? Hjá hvorum meiri fordild, vaðal og vellu sem ekki stenst neina gagnrýni?

Það liggur þegar fyrir að efnahagsleg rök mæla með áformaðri stórvirkjun norðan Vatnajökuls. Eigi að meta hvort tilfinningaleg og siðferðileg rök mæla fremur með henni eða á móti þarf að svara þessum spurningum og mörgum öðrum. Þrátt fyrir gífuryrði um hernað gegn landinu, tilfinningaþrungin orð um helgi auðnarinnar og hástemmdar ástarjátningar til fjallanna hefur farið lítið fyrir vitlegri rökræðu um spurningar af þessu tagi.

« Til baka