Færslusöfn

Óbein lýsing: Um réttmæti gagnrýni Sauls Kripke á lýsingakenningar

eftir Geir Matta Järvela

Lýsingakenningar eru tilraun til að útskýra hvernig orð vísa til hluta í heiminum. Samkvæmt þeim ákvarðast merking og tilvísun orða af ákveðinni lýsingu orða. Bandaríski heimspekingurinn Saul Kripke hefur mótmælt þessu sjónarmiði og setur fram sterka gagnrýni gegn lýsingakenningum um eiginnöfn. Honum tekst með gagnrýni sinni að fella þá kenningu að ákveðnar lýsingar ákvarði tilvísun nafna. Hann er ekki jafn sannfærandi í gagnrýni sinni á þá hugmynd að merking ákvarðist af einhvers konar ákveðinni lýsingu. Helsta vandamálið sem gagnrýni hans veldur lýsinga­kenningum er hvernig þær eiga að útskýra til hvers ákveðnar lýsingar vísa, ef slíkar kenningar vilja halda því fram að orð vísi til hluta í heiminum en ekki til hugmynda eins og Locke hélt fram.1
      Eina lausnin sem lýsingakenningar virðast hafa er að segja að eiginnöfn vísi til tungumálsins eða siðvenju ef þær vilja ekki fallast á að persónubundnar hugmyndir séu merking tungumálsins. Verður sú lausn rökstudd hér. Sú hugmynd að tungumálið sé einhvers konar gagnagrunnur og að eiginnöfn vísi á hugtök í gagnagrunninum virðist duga til að verja ákveðna gerð lýsinga­kenninga. Sú spurning vaknar hins vegar hvort slík kenning uppfylli markmið lýsingarkenninga: Að útskýra hvernig hægt er að miðla samræmdum upplýsingum á milli einstaklinga með tungu­málinu.

Lýsingakenningar

Lýsingakenningar um eiginnöfn reyna að sýna hvernig nöfn geta vísað til hluta utan hugans á þann hátt að málnotendur geti verið vissir um hvaða hlut er verið að ræða. Þær telja að nafn þurfi sjálfstæða merkingu, óháða notendum tungumálsins, til að hægt sé að ákvarða hvaða einstak­ling orð vísi til og til að merking orða sé ekki persónubundin hugmynd, eins og Locke taldi2, sem myndi þýða að tungumálið væri gífurlega ónákvæmt verkfæri.
      Lýsingakenningar leysa þetta vandamál með því að segja nöfn standa fyrir ákveðnar lýsingar. Nafn eins og „Leonardo da Vinci“ merkir því í raun og veru eitthvað eins og „Maðurinn sem málaði Monu Lisu“. Út frá lýsingunni er hægt að skoða alla hluti og einstaklinga og sjá hver þeirra upp­fyllir þau skilyrði sem lýsingin setur. Sá einstaklingur sem málaði Monu Lisu er einstaklingurinn sem nafnið „Leonardo da Vinci“ vísar til. Með ákveðinni lýsingu er því komin aðferð sem útskýrir hvernig nöfn vísa til hluta, en ekki til hugmynda.
      Ákveðnar lýsingar útskýra í leiðinni merkingu nafna. Þegar við segjum nafn eins og „Leonardo da Vinci“ erum við að segja meira en bara eintóm orð, við erum að segja „maðurinn sem málaði Monu Lisu og var einn frægasti uppfinningamaður endurreisnarinnar“. Þetta útskýrir hvernig setningar eins og til dæmis „Jón er læknir“ hafa merkingu. Ef orðið Jón hefði enga merkingu, væri innihald setningarinnar í rauninni „einhver er læknir“, sem hljómar frekar tilgangslaust.
      Kripke lýsir yfir efasemdum um kenninguna, eða eins og hann segir sjálfur: „Það virðist vera rangt að við gefum okkur einhver atriði sem einhvern veginn með eiginleikum sínum velja ein­stakan hlut og ákvarða tilvísun okkar til hans á þann máta“.3
      Hann efast bæði um að ákveðin lýsing sé tilvísun eða merking nafna og setur fram sterk rök máli sínu til stuðnings. Rök hans eru tvenns konar; í fyrsta lagi hafna þau því að lýsingin ákvarði tilvísun, og í öðru lagi því að hún ákvarði merkingu nafna.

Mótrök gegn tilvísun

Eitt af vandamálum lýsingakenningarinnar er að ákvarða hvaða lýsing sé einstök. Lýsingar þurfa að vera einstakar fyrir þann einstakling sem nafnið vísar til. Til að mynda dugar ekki að ákveðna lýsingin á „Leonardo da Vinci“ sé „frægur maður frá endurreisnartímanum“ því sú lýsing gæti átt við alla fræga menn á miðöldum, ekki bara „Leonardo da Vinci“. Lýsingin má ekki heldur fela í sér nafnið sjálft, sem er einstakt, af því að það væri merkingarlaust. Það væri svipað og að segja: „Ég ætla að kalla hlutinn þarna Glunk“ og segja síðan „ég ætla að nota nafnið „Glunk“ um hlutinn sem ég kalla „Glunk“!“. Þetta segir í rauninni ekki neitt um hlutinn sjálfan. Því þarf lýsingin að byggjast á einhverju öðru en nafninu sjálfu.4
      Ef lýsingin má ekki fela í sér nafn, þá getur vanþekking á viðkomandi hlut valdið ruglingi. Oft býr fólk ekki yfir nægum upplýsingum um hlut til að geta vísað afgerandi til hans. Ef við erum að ræða manneskju sem við höfum ekki mikla vitneskju um, þá höfum við ekki næga þekkingu til að búa til lýsingu sem á einungis við um þá manneskju. Sem dæmi, ef venjuleg manneskja talar um Platon, þá veit hún í mesta lagi að hann var frægur heimspekingur í fornöld. Þessi lýsing á hins vegar við ótrúlega marga heimspekinga og því vísar hún ekki á einhvern ákveðinn einstakling. Lýsingakenningin gerir ráð fyrir að það þurfi einstaka lýsingu til að finna viðfang tilvísunarinnar. En fólk veit að það er að tala um Platon, ekki einhvern annan heimspeking, þrátt fyrir að hafa ekki einstaka lýsingu. Því finnst Kripke augljóst að fólk sé að benda á einstaklinginn Platon, óháð eiginleikum eða ákveðinni lýsingu á honum.5
      Ef lýsingakenningin er sönn og ákveðin lýsing ákvarðar tilvísun nafna, er líka möguleiki á að við vísum óvart á rangan hlut. Ef lýsing okkar á Einstein er „maðurinn sem setti fram afstæðiskenninguna“ þá getum við lent í vandræðum ef einhver annar hefði í raun og veru sett fram afstæðiskenninguna. Ef til dæmis Wittgenstein hefði í raun og veru sett fram afstæðis­kenninguna, þá væri lýsingin „maðurinn sem setti fram afstæðiskenninguna“ ekki lýsing á Einstein, heldur á Wittgenstein. Þetta myndi þýða að í hvert skipti sem við segðum „Einstein“ með lýsinguna „maðurinn sem setti fram afstæðiskenninguna“ í huga, þá værum við í raun og veru að tala um Wittgenstein en ekki Einstein. En þetta er augljóslega ekki satt, við værum að tala um einstaklinginn Einstein, þótt vitneskja okkar um hann væri röng.6
      Við gætum reynt að bjarga okkur með því að halda því fram að lýsingin á nafninu „Einstein“ væri „sá maður sem flestir trúa að hafi sett fram afstæðiskenninguna“ en þá erum við komin í vandræði. Ef allir í samfélaginu sem nota nafnið Einstein eru að segja „Einstein er maðurinn sem flestir trúa að hafi sett fram afstæðiskenninguna“ er ómögulegt að setja fram nýja lýsingu á nafni. Ef Wittgenstein virkilega setti fram afstæðiskenninguna, þá gæti maður sem kæmist að þeirri vitneskju ekki notað afstæðiskenninguna til að tala um Wittgenstein. Þá væru almennt viður­kenndar hugmyndir um einstaklinga sem innihéldu staðreyndavillur óbreytanlegar.
      Við virðumst flest getað notað nöfn á merkingarbæran hátt án þess að vita gífurlega mikið um þá einstaklinga sem nöfnin vísa til. Ef ákveðin lýsing væri nauðsynleg til að nota nöfn, þá kæmi í ljós að fæst okkar skildu þau nöfn sem við notum dags daglega.

Mótrök gegn merkingu

Kripke er líka andsnúinn því að ákveðin lýsing ákvarði merkingu nafna. Hann telur að viðfang nafna sé einungis hluturinn sjálfur en ekki falinn hópur lýsinga. Til að mynda telur hann að nafnið Leonardo da Vinci hafi ekki merkingu eins og „maðurinn sem málaði Monu Lisu, bjó á Ítalíu á miðöldum, var merkur uppfinningamaður …“, heldur vísi beint á einstaklinginn Leonardo da Vinci. Eiginleikar Leonardo da Vinci og hvað hann gerði í lífinu breyta því ekki við hvaða einstakling við eigum þegar við segjum nafnið.
      Til að rökstyðja gagnrýni sína skilgreinir Kripke það sem hann nefnir „fastanefnara“ og „mögulega heima“. Með mögulegum heimum á Kripke hvorki við aðrar plánetur né frumspekilega heima sem eru aðskildir okkar. Hann á einungis við að við getum ímyndað okkur heim sem er alveg eins og okkar heimur, fyrir utan að vissir hlutir eru frábrugðnir. Til að mynda þegar við segjum „ég gæti átt fjólubláan gíraffa“, erum við ekki að segja að það sé til annar heimur þar sem við eigum í raun fjólubláan gíraffa, heldur að við getum ímyndað okkur okkar heim, þannig að við ættum fjólubláan gíraffa.
      Hinsvegar telur Kripke að vissir hlutir geti aldrei verið frábrugðnir í öðrum mögulegum heimum. Til að mynda telur hann að ef við notum nöfn, þá séum við alltaf að vísa á sama hlut­inn.7 Þegar við notum nafnið Paris Hilton erum við að vísa á sömu manneskjuna í öllum mögu­legum heimum. Sama hversu mikið heimurinn okkar breytist, sama hversu mikið eiginleikar Paris Hilton breytast, þá er hún samt Paris Hilton. Kripke notar orðið „fastanefnari“ yfir slíka hluti sem eru óbreytanlegir, óháð heimum.
      Með því að beita þessum hugtökum setur Kripke fram sterk rök gegn því að lýsing ákvarði merkingu nafna. Í fyrsta lagi er hægt að beita mögulegum heimum til að fá út mótsögn. Ef merking nafnsins „Leonardo da Vinci“ er ekkert annað en „maðurinn sem málaði Monu Lisu“, þá gæti einhver sagt „Leonardo da Vinci hefði getað sleppt því að mála Monu Lisu“. Hvor setning fyrir sig er fullkomlega rökrétt, en ef raunveruleg merking orðsins Leonardo da Vinci er „maðurinn sem málaði Monu Lisu“, þá er raunveruleg merking seinni setningarinnar: „Maðurinn sem málaði Monu Lisu, hefði getað sleppt því að mála Monu Lisu“. Ef nafnið „Bertrand Russell“ þýðir einungis „maðurinn sem á fjólubláan gíraffa“, en við getum ímyndað okkur heim þar sem Bertrand Russell á ekki fjólubláan gíraffa, þá værum við með setningunni „það er til mögulegur heimur þar sem Bertrand Russell á ekki fjólubláan gíraffa“ að segja „það er til mögulegur heimur þar sem maðurinn sem á fjólubláan gíraffa á ekki fjólubláan gíraffa“. Þetta eru augljósar þver­sagnir.
      Það er líka auðvelt að koma með tvítekningar þegar nöfn eru sett fram á þennan hátt. Ef nafnið Leonardo da Vinci þýddi í raun og veru „maðurinn sem málaði Monu Lisu“ þá væri tvítekning að segja „Leonardo da Vinci var maðurinn sem málaði Monu Lisu“, setningin þýddi þá ekkert annað en „maðurinn sem málaði Monu Lisu var maðurinn sem málaði Monu Lisu.“ Setningarnar virðast þó ekki vera jafngildar, sú fyrri kennir okkur eitthvað á meðan sú seinni gefur engar nýjar upplýsingar.8
      Kripke bendir líka á að lýsingar geta verið mismunandi eftir fólki. Lýsingakenningin segir ekki til um hvaða lýsing á að gilda fyrir hvert nafn. Þannig getur ein manneskja talið að merking „Leonardo da Vinci“ sé „stórmerkur listamaður sem málaði Monu Lisu og var einnig ágætur uppfinningamaður“, á meðan annar gæti talið að lýsingin ætti að vera „mikill uppfinningamaður á miðöldum sem fann upp skriðdrekann og var einnig listamaður“. Hér virðast lýsingarnar stangast á.9
      Annað vandamál er að ef fólk hefur mismunandi skoðanir á hver lýsing er, þá virðist ekki vera sameiginleg merking með nöfnum. Ef engin sameiginleg merking er á nöfnum, þá er enginn tilgangur með þeim. Ef einn heldur að Aristoteles þýði „kennari Alexanders“ en annar „nemandi Platons“, þá eru þeir að tala um sitt hvorn hlutinn þegar þeir segja Aristoteles. Lýsingakenningin virðist þá lenda í sömu vandræðum og kenning Locke, orð gætu haft mismunandi merkingu fyrir hvern og einn notanda tungumálsins. Það myndi gera tungumálið að mjög óöruggum og ónákvæmum samskiptamáta.

Möguleg svör

Það er í raun ekkert marktækt svar sem nær að svara allri gagnrýni Kripke á tilvísunarhluta lýsingakenningarinnar. Það er nánast hægt að fullyrða að sá hluti lýsingakenningarinnar sé ógildur. Hinsvegar er hægt að svara flestum, ef ekki öllum mótrökum hans gegn merkingarhluta kenningarinnar.
      Svarið við mögulegum heimum setur Kripke fram sjálfur, þótt tilgangur hans sé ekki að benda á galla í kenningu sinni. Hann bendir á að þegar við tölum um aðra heima, erum við að gera það með reglum úr okkar eigin heimi. Til dæmis þegar við segjum að í mögulegum heimi gætum við verið að tala þýsku, erum við að fjalla um þann heim á okkar eigin tungumáli.10
      Hér virðist Kripke óvart hafa sett fram gagnrýni á eigin kenningu. Ef reglurnar í okkar heimi gilda þegar við tölum um aðra heima, þá hlýtur merking okkar á nöfnum að gilda þegar við ræðum um aðra mögulega heima. Merking nafna í þeim heimi hefur ekki áhrif á merkingu nafna í okkar heimi; ekki frekar en að orð í heimi þar sem töluð er þýska hefur áhrif á íslenskuna í okkar heimi. Lýsingakenningin notar lýsingar í okkar heimi sem merkingu nafna. Lýsingar í öðrum heimi geta ekki haft áhrif á þessa merkingu eins og hún er í okkar heimi. Í hæsta falli geta þær haft áhrif á merkingu nafna í öðrum mögulegum heimi. Samkvæmt lýsingakenningunni hefur nafnið „Leonardo da Vinci“ merkinguna „maðurinn sem málaði Monu Lisu“. Þessi lýsing á því einungis við um manninn í okkar heimi. Ef við orðum setningu eins og „Leonardo da Vinci hefði getað sleppt því að mála alla ævi“ erum við ekki að segja „maðurinn sem málaði Monu Lisu hefði getað sleppt því að mála alla ævi“, heldur erum við að segja „maðurinn sem málaði Monu Lisu, hefði í öðrum mögulegum heimi getað sleppt því að mála alla ævi“. Það virðist ekki vera nein rökvilla eða þversögn þegar setningin er túlkuð á þennan hátt. Ákveðnar lýsingar breytast ekki þegar við tölum um möguleika, það er einungis verið að tala um möguleikann á því að þær geti verið öðruvísi.
      Það er vissulega rétt hjá Kripke að lýsingakenningin á erfitt með að tala um aðra heima, en það er vegna þess að hún byggir á hlutunum eins og þeir eru. Lýsingin á Leonardo da Vinci á við af því að Leonardo da Vinci gerði þá hluti sem hann gerði. Pegasus var ekki til af því að í okkar heimi var aldrei til fljúgandi hestur sem Bellerófón átti. En við getum samt sagt „í mögulegum heimi gæti Pegasus verið til“. Það þýðir ekki að orðið „Pegasus“ vísi á mögulegan einstakling, það þýðir einfaldlega að ef alheimurinn hefði þróast öðruvísi, þá gæti orðið „Pegasus“ hugsan­lega haft aðra merkingu en það hefur. Lýsingakenningunni er sama um mögulega heima. Hún vill útskýra hvernig orð eiga við hluti í heiminum eins og hann er. Um leið og við blöndum möguleikanum á því að heimurinn sé öðruvísi en hann er í málið, erum við farin að tala um eitthvað sem er ekki raunverulegt. Við erum farin að reyna að skálda upp merkingu, og það er auðvelt að fá út þverstæðu í skáldskap. Ef við tökum orð eins og „þríhyrningur“ þá er augljóst að orðið hefur ákveðna merkingu. Þetta þýðir eitthvað með þrjú horn. Við getum auðveldlega talað um þríhyrninga með fjögur horn, hversu lítið vit sem í því kann að vera, en þótt við gætum skrifað um heim þar sem þríhyrningar hafa fjögur horn, breytir það ekki því að í okkar tungumáli og okkar heim eru þríhyrningar með þrjú horn. Á sama hátt hafa nöfn ákveðna merkingu í okkar heimi og sama hvaða skáldskap við gefum okkur um merkingu nafnanna, þá breytist okkar merking ekki. Ef lýsingakenningin er sönn, þá er merking nafna sú sem hún er í okkar heimi, alveg óháð öðrum heimum.
      Flóknara vandamál kemur í ljós þegar við tölum um einstaklinga sem voru hugsanlega aldrei til. Ef við segjum setninguna „Móses leiddi þjóð sína út úr Egyptalandi“, erum við að miðla ákveðinni merkingu. Það virðist fáránlegt að ætla að einhver sem hefur notað nafnið Móses í samtölum alla ævi, komist skyndilega að því að allar setningar sem innihaldi orðið hafi skyndi­lega afgerandi nýja merkingu og verufræðilega stöðu, allt af því að við lærum nýja staðreynd um Móses: að hann var ekki til. Ef það er einhvers konar merking bakvið nöfn á skáldsagnar­persónum, þá þarf að vera merking bakvið nöfn á raunverulegum einstaklingum.
      Það er erfiðara að svara þeim röksemdum sem snúa að banni við að nafn sé hluti af eigin lýsingu. En ekki ómögulegt. Eins og Kripke segir sjálfur:

Undarlegt nokk, ef þú veist að Einstein uppgötvaði afstæðiskenninguna og ekkert um þá kenningu, getur þú bæði vitað hver Einstein er, nefnilega sá sem uppgötvaði afstæðiskenninguna, og hver uppgötvaði afstæðiskenninguna, nefnilega Einstein, á grundvelli þeirrar þekkingar. Þetta virðist vera blygðunar­laust brot á einhvers konar forsendu sem bannar hringrök.11

      Þrátt fyrir að það virðist rangt að nota nafn sem hluta af merkingu sjálfs síns, þá er það ekki rökfræðilega rangt. Það er líka augljós munur á því að segja „Leonardo da Vinci er Leonardo da Vinci“ og á því að segja „einn hluti af merkingu orðsins Leonardo da Vinci, er að um einstakling er að ræða sem var til og er þekktur undir nafninu Leonardo da Vinci“. Nafnið virðist ekki gefa merkingu orðsins neina sérstöðu fyrr en við skiljum hvað setningin segir í raun og veru. Lýsing nafnsins „Leonardo da Vinci“ hefði hugsanlega enga merkingu ef hún væri „maðurinn sem er þekktur sem Leonardo da Vinci“. Á sama hátt ef nafnið þýddi einungis „frægur uppfinningamaður frá miðöldum“ þá væri lýsingin ekki nægilega einstök til að aðskilja hann frá öðrum frægum uppfinningamönnum á miðöldum. En þegar merkingarnar eru settar saman fáum við út að nafnið Leonardo da Vinci þýðir í það minnsta „frægur uppfinningamaður frá miðöldum sem gekk undir nafninu Leonardo da Vinci“. Þessi lýsing er bæði einstök og hefur merkingu á bak við sig. Eins þegar við komumst að því að Einstein setti fram afstæðiskenninguna, lærum við að til var ein­staklingur sem hét Einstein, að til er orð í tungumálinu yfir þann einstakling, að til er kenning sem er þekkt innan tungumálsins og að Einstein hafi sett fram þá kenningu. Þetta eru alls ekki litlar upplýsingar.
      Það virðist fullkomlega eðlilegt að hugsa sem svo að fólk geti haft mismunandi merkingu, eða ákveðna lýsingu í huga þegar það notar sama orðið. Það er hinsvegar spurning hvor nauðsynlegt sé að hafa nákvæmlega sömu merkingu í huga, eða hvort það dugi að það séu viss líkindi, eða sameinandi þættir, með lýsingunum. Ef einn aðili veit að Leonardo da Vinci málaði Monu Lisu og var talinn einn merkasti uppfinningamaður endurreisnarinnar, og annar aðili veit að Leonardo da Vinci var einn merkasti uppfinningamaður miðalda og bjó til styttu fyrir Ludovico Sforza, þá er spurning hvort lýsingar þeirra séu ekki nægilega líkar til að þeir geti vitað að um sama ein­staklinginn að ræða. Það gæti dugað að hafa nægilega miklar upplýsingar til að tengja nafnið við þær upplýsingar sem aðrir hafa.

Önnur lausn

Þrátt fyrir að Kripke takist ekki fullkomlega að fella þá kenningu að einhvers konar ákveðin lýsing ákvarði merkingu nafna, þá tekst honum á frekar afgerandi hátt að fella þá kenningu að ákveðin lýsing ákvarði tilvísun. Eina vörnin fyrir lýsingakenningar virðist vera að segja að orð vísi í tungumálið sjálft. Án tilvísunar er ekkert sem hindrar nöfn í að verða að hugmyndum, eins og Locke virðist gera ráð fyrir og ef lýsingakenningar vilja forðast að breytast í kenningu hans, þá virðist eina vörnin vera að telja að orð vísi í tungumálið. Tungumálið verður þá að einhvers konar gagnagrunni, og nöfn verða eins og öll önnur orð í þessum gagnagrunn. Nafn eins og Leonardo da Vinci verður þá ekki vísun í einstaklinginn, heldur í einhvers konar upplýsingagrunn í tungu­málinu.
      Þegar við heyrum nafnið „Sherlock Holmes“ koma upp í huga okkar allar þær upplýsingar sem við höfum um Sherlock Holmes, til dæmis að hann hafi verið skáldsagnapersóna og einkaspæjari. Sögulegir einstaklingar hafa á sama hátt ekkert viðfang, það er engin raunveruleg persóna til lengur. Þegar við heyrum nöfn eins og Leonardo da Vinci tengjum við nafnið við þekkingu okkar á einstaklingnum. Oft vitum við ekki með fullri vissu hvort sögufrægur ein­staklingur var í raun og veru til og það virðist fáránlegt að gera ráð fyrir að eðli orðsins breytist algerlega, eingöngu vegna þess að við lærum eitthvað nýtt um viðfang þess. Ef við kæmumst að því að Leonardo da Vinci hefði aldrei lifað, myndu allar eldri setningar þar sem nafn hans kemur fyrir skyndilega breyta algerlega um merkingu.
      Ef ég segi „Móses var ekki til“ er ég ekki að lýsa efasemdum um hvort einhver einstaklingur hafi framkvæmt alla þá hluti sem lýsingin gefur þeim, við erum ekki að segja að orðið „Móses“ sé merkingarlaust, við erum einfaldlega að segja að hluti af lýsingu, merkingu orðsins „Móses“ sé að hann hafi ekki verið raunveruleg persóna, rétt eins og „Æðstistrumpur“ eða „Sherlock Holmes“.
      Eina leiðin fyrir lýsingakenningar til að komast hjá kenningu Locke virðist vera að segja orð vísa á sameiginlegan gagnagrunn tungumálsins og segja tilvísun einungis vera óbeina, að orð vísi ekki beint í einstaklinga með því að lýsa einstökum aðila, heldur með því að segja orð vísa í þá hugmynd sem er sameiginleg með fólki í tungumálinu. Við þetta hverfur hinsvegar sérstaða nafna fram yfir önnur orð, þau verða bara að venjulegum orðum ásamt öllum öðrum orðum tungu­málsins, sem þrátt fyrir allt virðist vera snyrtilegri lausn en að gefa þeim frumspekilega og verufræðilega sérstöðu fram yfir alla aðra þætti tungumálsins.

Neðanmálsgreinar

1. John Locke: An Essay Concerning Human Understanding. London, 1690, 3.2.1

2. Sama rit.

3. Saul Kripke: Naming and Necessity. Blackwell Publishing 1981, bls. 93-94 [þýðing mín]

4. Sama rit, bls. 69.

5. Sama rit, bls. 81.

6. Sama rit, bls. 81.

7. Sama rit, bls. 48.

8. Sama rit, bls. 30.

9. Sama rit, bls. 57.

10. Sama rit, bls. 77.

11. Sama rit, bls. 83 [mín þýðing].

Ómar af strengleikum

Úrval úr „Diapsalmata. Ad se ipsum“ í Enten-eller.

eftir Søren Kierkegaard

Mennirnir eru nú tilætlunarsamir. Þeir nota sér aldrei það frelsi sem þeir hafa, en heimta hitt sem þeir hafa ekki. Þeir hafa hugsunarfrelsi, þeir heimta málfrelsi.

    Engu nenni ég. Ég nenni ekki að sitja hest, það er of mikil hreyfing. Ég nenni ekki að ganga, það er of erfitt. Ég nenni ekki að leggjast, því annaðhvort yrði ég að liggja og því nenni ég ekki, eða ég yrði að rísa á fætur og því nenni ég ekki heldur. Hvernig sem á er litið: ég nenni alls engu.

    Sum skordýr, eins og menn vita, deyja í andrá frjóvgunarinnar. Eins er um alla gleði, æðsta og dýpsta nautnastund lífsins kemur í fylgd dauðans.

    Ellin lætur drauma æskunnar rætast. Þannig fór um Swift. Þegar hann var ungur reisti hann geðveikrahæli, í ellinni fór hann þangað sjálfur.

    Stundum getur það gerzt að maður verði snortinn svo ósegjanlegum sársauka af að sjá manneskju standa aleina í heiminum. Um daginn sá ég fátæka stúlku sem fór alein til kirkju til að láta ferma sig.

    Ég segi það um sorg mína sem Englendingur segir um hús sitt: sorg mín er kastali minn. Margir telja sorgir til lífsþæginda.

    Mér líður eins og peði í tafli hlýtur að líða þegar andstæðingurinn segir um það: þetta peð máttu ekki hreyfa.

    Lífið er orðið mér að beiskum drykk, og samt á ég að taka hann inn í dropatali, hægt og teljandi.

    Enginn snýr aftur frá þeim dauðu, enginn kom í heiminn ógrátandi. Enginn spyr mann hvenær hann vilji inn, enginn hvenær hann vilji út.

    Tíminn líður, lífið er straumur, segir fólk, og þar fram eftir götunum. Það get ég ekki séð. Tíminn stendur í stað og ég líka. Allar áætlanir sem ég geri fljúga rakleitt aftur í fang mér, og þegar ég hræki hræki ég framan í sjálfan mig.

    Tíma mínum skipti ég svona: helming tímans sef ég, hinn helminginn dreymir mig. Þegar ég sef dreymir mig aldrei. Því er nú verr, þar sem svefninn er hin æðsta snilld.

    Það að vera fullkomin manneskja er æðra en allt annað. Nú er ég kominn með líkþorn, það er þó alltaf í áttina.

    Mannlegur virðuleiki er samt ennþá viðurkenndur í náttúrunni, því vilji menn fæla fuglana frá trjánum er einhverju hrófað upp sem á að líkjast manni, og jafnvel sá litli svipur sem fuglahræða hefur af manni dugir til að vekja virðingu.

    Bezta sönnunin fyrir eymd tilverunnar er sú sem sótt er í hugleiðingu um dýrð hennar.

    Ræfils örlaganorn! Árangurslaust farðar þú hrukkótt andlit þitt eins og gömul skækja, árangurs­laust hringlar þú trúðabjöllunum. Mér leiðist þú. Það er eitt og samt, hið sama í hinu sama. Engin tilbreyting, eilíf uppsuða. Kom svefn og dauði, þú lofar engu, þú efnir allt.

    Svo bar við í leikhúsi að það kviknaði í tjöldunum. Þá kom loddari og sagði áhorfendum frá því. Þeir héldu að það væri spaug og klöppuðu. Hann sagði það aftur, og fólk klappaði enn þá meira. Þannig held ég að heimurinn muni farast, við almenn fagnaðarlæti gamansamra manna sem halda að það sé spaug.

    Hin sanna nautn er ekki fólgin í því sem notið er, heldur í ímyndun manns. Ef ég hefði í þjónustu minni auðsveipan anda sem færði mér, þegar ég bæði hann um vatnsglas, heimsins dýrustu vín sætlega blönduð í bikar, þá segði ég honum upp þangað til hann hefði lært að nautnin felst ekki í því sem ég nýt, heldur í því að ég fái vilja mínum framgengt.

    Það sem heimspekingarnir segja um veruleikann veldur oft ámóta vonbrigðum og að lesa á skilti hjá skransala: Hér er rullað. Sá sem kemur með þvottinn sinn til að láta rulla hann fer fýluferð, því skiltið er bara til sölu.

    Hlutföllin í skapnaði mínum eru skökk að því leyti að framfæturnir eru of stuttir. Eins og hérinn í Ástralíu hef ég mjög stutta framfætur, en óendanlega langa afturfætur. Yfirleitt sit ég grafkyrr. Ef ég hreyfi mig tek ég ofboðslegt stökk, og skelfi alla sem ég er bundinn hlýjum böndum frændskapar og vináttu.

Annaðhvort – eða

Upphafinn fyrirlestur

    Giftu þig, þú munt iðrast þess; giftu þig ekki, þú munt líka iðrast þess; giftu þig eða giftu þig ekki, þú munt iðrast hvorstveggja; annaðhvort giftir þú þig eða þú giftir þig ekki, þú iðrast hvors­tveggja. Hlæðu að heimsku veraldar, þú munt iðrast þess; gráttu yfir henni, þú munt líka iðrast þess; hlæðu að heimsku veraldar eða gráttu yfir henni, þú munt iðrast hvorstveggja, annaðhvort hlærðu að heimsku veraldar eða þú grætur yfir henni, þú iðrast hvorstveggja. Treystu stúlku, þú munt iðrast þess; treystu henni ekki, þú munt líka iðrast þess; treystu stúlku eða treystu henni ekki, þú munt iðrast hvorstveggja; annaðhvort treystir þú stúlku eða treystir henni ekki, þú iðrast hvorstveggja. Hengdu þig, þú munt iðrast þess; hengdu þig ekki, þú munt líka iðrast þess; hengdu þig eða hengdu þig ekki, þú munt iðrast hvorstveggja; annaðhvort hengir þú þig eða þú hengir þig ekki, þú iðrast hvorstveggja. Þetta, herrar mínir, er kjarninn í allri lífsvizku. Það er ekki bara á einstökum örkotsstundum sem ég hugleiði heiminn, eins og Spinoza segir, frá sjónarhóli eilífðarinnar. Ég er alltaf á sjónarhóli eilífðarinnar. Þetta halda margir að þeir séu líka, þegar þeir hafa gert annaðhvort og sameina síðan eða sætta þessar andstæður. En þetta er misskilningur, því hin sanna eilífð býr ekki bak við annaðhvort-eða, heldur framan við. Eilífð þeirra verður því sársaukafullur straumur tímans, því þeir munu þurfa að eyða tvöfaldri iðrun. Vísdómur minn er auðskilinn, því ég gef mér aðeins eina frumsetningu og geng samt ekki út frá henni. Það verður að greina á milli tímanlegrar rökvísi í annaðhvort-eða og hinnar eilífu sem hér er um að ræða. Svo að þegar ég segi hér, að ég gangi ekki út frá frumsetningu minni, þá er andstæða þess ekki það að ganga út frá henni, heldur er þar aðeins neikvætt orðalag um frumsetningu mína. Þannig skilur hún sjálfa sig í andstæðu við að gengið sé út frá henni eða ekki. Ég geng ekki út frá frumsetningu minni, því ef ég gengi út frá henni mundi ég iðrast þess, og ef ekki, mundi ég iðrast þess líka. Skyldi þess vegna einum eða öðrum af hæstvirtum tilheyrendum mínum virðast, að eitthvað sé til í því sem ég var að segja, þá sýnir hann ekki annað með því en að höfuð hans er ekki gert fyrir heimspeki. Ef honum virðist, að verið hafi hreyfing í orðum mínum, sýnir það hið sama. Fyrir þá tilheyrendur aftur á móti, sem megna að fylgja mér eftir þótt ég sé hreyfingarlaus, mun ég nú rekja hinn eilífa sannleika sem gerir þessari heimspeki kleift að vera ávallt hún sjálf og fallast ekki á neina æðri. Því ef ég gengi út frá frumsetningu minni, gæti ég aldrei hætt framar, því ef ég hætti ekki, mundi ég iðrast þess, og ef ég hætti, mundi ég iðrast þess og þar fram eftir götunum. Nú þegar ég á hinn bóginn geng aldrei út, get ég alltaf hætt, því eilíf útganga mín er að hætta til eilífðar. Reynslan hefur sýnt, að það er alls ekki mjög erfitt fyrir heimspekina að byrja. Öðru nær, því hún byrjar á engu og getur þess vegna byrjað hvenær sem er. Það sem veitist heimspekinni og heimspekingunum erfitt er að hætta. Ég hef líka sneitt hjá þessum erfiðleikum, því ef einhver skyldi halda að ég sé í raun og veru hættur, þegar ég nú hætti, þá sýnir hann að hann hefur ekki háspekilega skilningsgáfu. Því ég hætti ekki núna, heldur hætti ég þegar ég byrjaði. Heimspeki mín hefur þess vegna þann frábæra eiginleika að hún er stutt, og að hún er ómótmælanleg, því ef einhver andmælir mér, þá ætti ég eiginlega að hafa rétt til að lýsa hann vit­skertan. Heimspekingurinn lifir ávallt í eilífðinni. Hann á sér ekki bara stundir sem hann, eins og hinn sæli Sintenis, lifir fyrir eilífðina.

    Hvers vegna fæddist ég ekki í Nýbúðum, hvers vegna dó ég ekki sem lítið barn? Þá hefði faðir minn lagt mig í litla kistu, tekið mig sjálfur undir handlegginn, borið mig til grafar á sunnudags­morgni, kastað rekunum sjálfur, sagt í hálfum hljóðum fáein orð sem enginn skildi nema hann sjálfur. Aðeins hinni hamingjusömu fornöld hefur til hugar komið að láta lítil börn gráta á Ódáins­völlum af því að þau dóu svo ung.

    Undur kom yfir mig. Ég var hrifinn í sjöunda himin. Þar sátu allir guðirnir saman. Sú sérstaka náð veittist mér að bera fram ósk. „Viljirðu,“ sagði Merkúríus, „viljirðu æsku, eða fegurð, eða vald, eða langlífi, eða hina fegurstu stúlku, eða einhverja aðra dásemd sem við eigum í skrankistunni, þá veldu. En aðeins eitthvað eitt.“ Ég var ráðvilltur andartak. Svo sneri ég mér að guðunum og sagði: Hæstvirtu samaldrar! Ég vel það eitt að ég megi alltaf hafa hláturinn mín megin. Enginn guðanna sagði eitt einasta orð, heldur fóru þeir allir að hlæja. Af því dró ég þá ályktun að ósk mín væri uppfyllt, og mér fundust guðirnir vera smekkvísir í svörum. Því það hefði ekki verið viðeigandi að svara með alvöru: þér verður að ósk þinni.

Þorsteinn Gylfason íslenskaði.

Aftanmálsskýringar

„Strengleikar“ eru fyrsti hlutinn af fyrsta höfuðriti Kierkegaards Annaðhvort-eða. „Diapsalmata“ voru streng­leikar sem Gyðingar létu leika í musterum milli lestra úr Davíðssálmum. Orðið er stundum þýtt „millispil“. „Ad se ipsum“–„Til sjálfs sín“–er heiti á Hugleiðingum Markúsar Árelíusar keisara í Rómaborg (121–180). Jonathan Swift (1667–1745) var dómkirkjuprestur í Dyflinni og höfundur Ferða Gúllívers og fleiri rita. Hinn 14da febrúar 1836 brann leikhús í Pétursborg með þeim atvikum sem Kierkegaard segir frá. Hérinn í Ástralíu (sem Kierkegaard kallar Nýja Holland) er væntanlega kengúra, ef til vill svonefnd hérakengúra sem er smávaxin. Baruch Spinoza (1632–1677) var hollenzkur heimspekingur af Gyðingaættum, höfundur Sið­fræði og fleiri rita. C.F. Sintenis (1750–1820) var þýzkur guðfræðingur og höfundur bókarinnar Stundir fyrir eilífðina. Nýbúðir eru lítið hverfi í Kaupmannahöfn, upphaflega reist af Kristjáni 4ða handa hermönnum hans. Frá börnunum sem gráta á Ódáinsvöllum segir í Eneasarkviðu Virgils VI, 426–429.

Birt í Jóni á Bægisá nr. 1, nóvember 1994.

Birt á Heimspekivefnum með góðfúslegu leyfi erfingja Þorsteins Gylfasonar og útgáfustjóra Jóns á Bægisá.

Orðið heimspeki

Orðið heimspeki, upphaflega „heimsspeki“, er að öllum líkindum tökuþýðing úr þýsku (Weltweisheit) eða dönsku (den verdslige Visdom) og merkir bókstaflega „veraldarviska“. Orðið var notað yfir aðrar greinar fræðilegrar þekkingar en guðfræði. Þessi merking er í samræmi við hefðbundna notkun orðsins á fyrri öldum sem enn má sjá þegar lærdómsmönnum úr hinum ýmsu fræðigreinum er veitt doktorsnafnbót í heimspeki (t.d. Ph.D.)

Samkvæmt ritmálssafni Orðabókar Háskólans er elsta dæmi um orðið „heimsspekingur“ úr þýðingu Guðbrands Þorlákssonar á Enchiridion edur Hand Bok, eftir David Chytræus og M. Chemnitz, sem prentuð var á Hólum árið 1600. Í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu, sem var prentuð árið 1540, er það orð ekki notað, heldur eru heimspekingar nefndir philosophi upp á latínu. Elsta dæmið úr ritmálssafninu um „heimsspeki“ er aftur á móti úr þýðingu Þorleifs Halldórssonar á eigin latínuriti, Lofi lyginnar, frá 1711–1713. Orðið er einnig notað í kvæði Guðmundar Bergþórssonar (1657–1705), Heimspekingaskóli, en það var fyrst prentað 1785. Í seðlasafni Orðabókar Háskólans eru fleiri dæmi frá 18. öld.

Í íslenskum miðaldaritum eru heimspekingar yfirleitt nefndir „spekingar“, t.d. eru „Aristóteles hinn spaki“ og „spekingurinn Plató“ nefndir í málfræðiritum. Vera má að orðið „fróðleiksást“ í Fyrstu málfræðiritgerðinni, sem talin er frá 12. öld, sé elsta tilraun til að íslenska latnesku orðmyndina philosophia.

« Til baka

Ósennilegi byltingarmaðurinn

eftir Kristján G. Arngrímsson

Það hefur verið sagt um John Rawls að hann hafi valdið byltingu í heimspeki. Þetta hljómar einhvernveginn ósennilega – maðurinn á myndinni hér til hliðar (sem var tekin í mars 1990) lítur ekki út fyrir að vera byltingarmaður. En hvaða bylting var það þá sem Rawls olli?

Með skrifum sínum – þar tvímælalaust frægustum bókinni Kenning um réttlæti (A Theory of Justice) – sneri hann heimspekinni aftur að spurningunum sem hún í upphafi fékkst við, spurningum um rétt og rangt, gott og vont, það er að segja siðferðilegum spurningum.

Byltingarmaðurinn John Rawls lést á sunnudaginn, 81 árs að aldri. Talsmaður Harvard-háskóla, þar sem Rawls var lengst af prófessor, staðfesti tíðindin, en fréttastofan Associated Press segir ekkert hafa verið látið uppi um dánarorsökina. Þó væri vitað að Rawls hefði fengið röð heilaáfalla síðan um miðjan síðasta áratug, þótt hann hafi haldið áfram að skrifa og birta skrif sín fram á síðasta dag.

Í eftirmælum um Rawls, sem AP sendi út á mánudags­kvöldið, segir ennfremur að Rawls hafi með byltingu sinni „bjargað“ heimspekinni frá rökfræði- og vísindaspeki­spurningunum sem hún hafi verið orðin gagntekin af. Það er vísast að einhverjum þyki það hafa verið bjarnargreiði.

Ráðandi afl í heimspeki

Kenning um réttlæti kom fyrst út 1971 og þrjátíu og eitt ár er stuttur tími í fræðaheiminum – að ekki sé nú minnst á í heimspekisögunni – og því of snemmt að segja til um hvort það hafi verið heillaspor sem Rawls steig með þessari byltingu eða bara smáfeilspor sem heimspekin verði tiltölulega fljót að leiðrétta og jafna sig á.

En hinu verður ekki neitað að nafn Rawls trónir nú hærra en flest önnur nöfn í heimspeki Vesturlanda og allir sem koma nálægt því fagi verða að taka afstöðu til Rawls eða að minnsta kosti kunna hann til prófs. Því má hiklaust segja að hann sé ráðandi afl í heimspeki nú um stundir, hvað svo sem seinna kann að verða.

„Siðfræðingar og stjórnmálaheimspekingar gerðu sér fljótlega grein fyrir því að nú varð maður annaðhvort að vinna samkvæmt kenningu Rawls eða útskýra hvers vegna maður kaus að gera það ekki,“ sagði fyrrverandi nemandi hans, Andreas Föllesdal, í grein sem hann skrifaði í tilefni af áttræðisafmæli Rawls í fyrra og birtist hér í Lesbók (24. febrúar).

„Skrif hans munu ekki gleymast næstu áratugina eða næstu aldirnar, held ég,“ hefur AP eftir Hilary Putnam, kollega Rawls við Harvard. Og Joshua Cohen, prófessor við Massachusetts Institute of Technology, segir um mikilvægi kenninga Rawls: „Hann tengdi heimspekina við lýðræðið.“

Réttlátt samfélag

Kenning um réttlæti fjallar um það hvernig megi best skipuleggja mannlegt samfélag. Föllesdal segir að Rawls telji „að það sem ráði úrslitum um réttlátt samfélag sé það hvernig þeir verst settu hafa það“. Þarna mætti byggja á tiltölulega einfaldri reglu, sem höfundur eftirmælanna frá AP segir að hafi verið nefnd „Rawls-prófið“, og er svona: Skipulagið þarf að vera þannig, að þeir sem mest mega sín myndu samþykkja það, vitandi að þeir kynnu á hverri stundu að lenda sjálfir í sporum þeirra sem minnst mega sín.

En þetta eru einungis óhlutbundnar reglur, hugmyndir á bók. Hvernig myndu þær skila sér í raunveruleikanum? Föllesdal segir að Rawls hafi hafnað bæði algeru markaðsfrelsi og líka fullkomnum jöfnuði. „Í staðinn telur hann að stofnanir samfélagsins verði að tryggja jafnar ævitekjur óháð samfélagsstöðu, nema hagur þeirra verst settu verði bættur með því að einhverjir hafi hærri laun og stækki þannig „þjóðarkökuna“. Hærri laun fyrir sum störf eru því réttlætanleg, en aðeins ef slíkur launaauki er nauðsynlegur til að gera minnstu sneiðina af þjóðarkökunni eins stóra og hægt er.“

Illska mannanna

Rawls var Bandaríkjamaður, fæddur í Baltimore og nam við Princeton-háskóla. Hann var ekki bara á kafi í bókum og til marks um það hefur verið haft að honum bauðst einhverju sinni að gerast atvinnumaður í hafnabolta. Ekki fylgir sögunni hvort hann íhugaði alvarlega að taka því boði.

Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar barðist hann á Kyrrahafsvígstöðvunum. „Þar gerði hann sér grein fyrir því hvað mannskepnan getur unnið mikil illvirki,“ segir í eftirmælunum frá AP. Samt hefði Rawls alla ævi búið yfir því sem hann hefði kallað „raunsæja staðleysuhyggju“, og verið bjartsýnn á að mannkyninu gæti farið fram – og ekki bara í kenningasmíð.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgublaðsins 30. nóvember 2002.

 

« Til baka

Otto Weininger og Vínarborg um aldamótin 1900

Hugleiðing um módernisma

eftir Halldór Guðmundsson

Ótrúlega margt úr sjálfsmynd Vesturlandabúa má rekja aftur til þess nýja mannskilnings sem mótast samhliða svonefndum módernisma í bókmenntum og listum í kringum síðustu aldamót. Því hefur verið haldið fram að á þeim tíma hafi evrópskir menntamenn tekið skrefið frá því að álíta manninn öðru fremur skynsama og rökbundna veru, til þess að telja hann leiksopp sálrænna afla sem hann hafi ekki nema mjög takmarkaða stjórn á. Og víst er að efinn um sjálfsvitundina, sem var samstiga takmarkalausri sjálfskönnun hjá stórum hópi lista- og menntamanna á þessum tíma, hefur fylgt okkur allar götur síðan. Á síðustu árum hefur eflst sá straumur meðal evrópskra menntamanna sem heldur því fram að einnig mannsýn módernismans hafi verið tálsýn, full af blekkingum um sjálfsveru mannsins og möguleika hans til að öðlast sanna vitund um sjálfan sig með hjálp tungumálsins. Við erum ekki bara leiksoppar sálrænna afla, heldur öðru fremur fangar í tugthúsi tungumálsins, dæmd til lífstíðar án þess að geta sótt um náðun. Einu skynsömu viðbrögðin eru að hafna allri skynsemi, hætta að telja okkur trú um að við getum höndlað umheiminn með hjálp mannlegs máls. Upp er runnin tíð hins póstmóderníska blaðurs.

Raunar voru margir módernistar aldamótanna ekki langt frá þessum þankagangi, jafn róttækur og efi þeirra um öll viðtekin verðmæti og allan fyrri sjálfsskilning einatt varð. Einn þeirra var Otto Weininger, höfundur verksins Kynferði og skapgerð(Geschlecht und Charakter), sem varð einhver umtalaðasta bók í Evrópu fyrir 1914, ekki síst vegna þess að höfundurinn framdi sjálfsmorð hálfu ári eftir að hún kom út vorið 1903. Eftir stríð féll Weininger í svo rækilega gleymsku að fæstir hefðu trúað að hann ætti þaðan afturkvæmt, en á síðustu árum er aftur farið að lesa verk hans: það hefur verið gefið út aftur í Þýskalandi, á Englandi og Ítalíu, þar sem nýja kvenréttindahreyfingin stóð fyrir útgáfu þess. Verk Weiningers er meira en lítið skrýtin lesning núna, og því meiri furðu sætir hversu gífurleg áhrif það hafði á sínum tíma á marga og ólíka lista- og menntamenn, allt frá August Strindberg til Ludwig Wittgenstein (og þeir voru líka til sem lásu verkið eftir fyrri heimsstyrjöld, þar á meðal Halldór Laxness sem fékk það lánað hjá Emil Thoroddsen þegar hann heimsótti Emil í Dresden haustið 1921, og segir af því í Grikklandsárinu).

Áhrif verksins má ekki bara rekja til djarflegra yfirlýsinga höfundar um „stöðu konunnar“, þau eiga líka rætur að rekja til þess að það birtir óvenjuskýrt í öfgum sínum mannssýn þess módernisma sem var að verða til um aldamótin, og þar með líka ógöngurnar sem fylgismenn hans gátu ratað í. Margt í þessu verki kallast á við stefnur í okkar samtíma, vekur upp spurninguna um hvert gagnrýni á skynsemis- og rökhyggju geti leitt. Samt er það líka nátengt staðnum þar sem það varð til: Vínarborg um aldamótin 1900.

Þverstæður Vínarborgar

Fáir hafa betur lýst mannlífinu í Vínarborg á árunum fyrir fyrra stríð en rithöfundurinn Robert Musil í verki sínu Der Mann ohne Eigenschaften (Maður án eiginleika), og er sá kafli sem birtur er í þessu tímaritshefti í þýðingu Þorsteins Þorsteinssonar til vitnis um það. Hafi þetta mannlíf einkennst af einhverju öðru fremur voru það þverstæður. Ein var sú að þótt sótt sé að þessu samfélagi úr öllum áttum og ríkið sem Vínarborg átti að heita höfuðborg í sé að liðast í sundur, láta ráðamenn eins og þeir viti ekki af því og fátt virðist meira aðkallandi en að undirbúa 70 ára krýningarafmæli Franz Jósefs keisara árið 1918. Sá karl var reyndar einhver afturhaldssamasti þjóðhöfðingi álfunnar og hafði komist til valda eftir ósigur byltingarhreyfingarinnar 1848. Franz Jósef byggði upp skrifstofuveldi sem tæpast átti sinn líka utan Rússlands, treysti vald sitt með sérlega íhaldssömum her, beitti ritskoðun óspart og mátt vart á milli sjá hvort hann hataðist meira við lýðræðið eða allar þær tækninýjungar sem litu dagsins ljós um og upp úr aldamótum. Víst er að hann mátti ekki sjá síma, bíla, rafmagn né vatnssalerni, svo einhver dæmi séu tekin.

En Franz Jósef drottnaði ekki yfir neinu hefðbundnu aðalsveldi. Í Vínarborg urðu frjálslynd borgaröfl ráðandi á sjöunda áratug 19. aldar, reyndar ekki af eigin rammleik heldur vegna þess að framsókn Bismarcks hafði veikt fyrri ráðastétt mjög. Þessir borgarar voru öðru fremur skynsamir, siðmenntaðir og ríkir, en veldi þeirra stóð ekki mjög traustum fótum. 1873 varð alvarleg efnahagskreppa sem borgarbúar voru lengi að jafna sig eftir, velmegunin virtist standa á brauðfótum. Borgarastéttinni tókst heldur ekki að móta stjórnkerfið varanlega og koma á neinu alvörulýðræði. Virðulegir borgarar stóðu ráðalausir andspænis þeirri róttæku þjóðernisstefnu sem naut æ meira fylgis meðal hinna mörgu þjóða og voru síst úrræðabetri andspænis nýju fjöldahreyfingunum sem voru að ryðja sér til rúms í stjórnmálum ríkisins laust fyrir aldamót. Aðeins eitt sameinaði borgarastétt Vínar og það var aðdáun á fögrum listum. Þar var að finna þau eilífu verðmæti sem reyndist svo erfitt að móta þjóðfélagið í heild eftir.

Þegar dæmigerður kaupsýslumaður í Vínarborg kom heim að kvöldi frá verslun sinni sneri hann anda sínum til fagurra lista, hugaði að tónlist, bókmenntum, málaralist eða byggingarlist. Gömlu borgarmúrarnir voru horfnir og í staðinn komin mikil breiðgata, Ringstrasse, sem umlukti allan miðbæinn. Við þessa götu risu á síðari hluta 19. aldar miklar menningarhallir og listar, Burgleikhúsið, háskólinn, þinghúsið, ráðhúsið, óperan, allt feiknalegar byggingar þar sem mætast skyldu aldagömul hefð aðalsins og menningarsókn hinnar nýju borgarastéttar. Innan þessa hrings bjuggu best settu borgararnir börnum sínum einstök menningarheimili. Sú gamla tugga, að dýrkun menningar og listar geti falið í sér flótta frá pólitískum verkefnum, hefur sjaldan átt betur við en um borgarastétt Vínar á síðari hluta 19. aldar. Borgin hafði vaxið gífurlega á þessum tíma, verkafólk flykktist hvaðanæva að úr þessu víðfeðma ríki og settist að í ömurlegum bústöðum í úthverfunum. Óleyst þjóðernis- og stjórnunarvandamál ríkisins urðu æ viðameiri og illviðráðanlegri, fjöldahreyfingar af smáborgaralegu tagi litu allt öðru vísi á stjórnmál en áður hafði tíðkast í landinu. Bak við allan þann siðfágaða formalisma sem einkenndi borgaralega menningu Vínar leyndist sívaxandi upplausn og óreiða, sem ráðandi öfl neituðu að horfast í augu við. Gott dæmi um þessa hræðslu við raunveruleikann voru viðbrögð borgara í Vín við þeirri fáheyrðu ósvífni austurrískrar verkalýðshreyfingar að ætla að efna til kröfugöngu 1. maí 1890. Geysilegar öryggisráðstafanir voru gerðar og heiðvirðir borgarar lokuðu börn sín inni á heimilunum svo þau yrðu ekki vitni að þessum ósköpun, eins og Stefan Zweig segir frá í bók sinni Veröld sem var. Samt gat ekki kurteisari menn en austurríska sósíaldemókrata og gangan öll fór einstaklega prúðmannlega og friðsamlega fram. Hefðu frjálslyndir borgarar einhvers staðar getað fundið bandamenn – ef þeir hefðu ætlað sér að takast á við vandamál þessa samfélags – þá var það í austurríska sósíaldemókrataflokknum, en leiðtogi hans Viktor Adler var persónugerving hins frjálslynda húmanisma.

Því sem nær dró aldamótum, því meira óx bilið milli viðurkenndrar hugmyndafræði og raunverulegra athafna, milli orðs og æðis í þessu ríki. Hræsni var öruggasta leiðin til metorða á síðustu áratugum Habsborgaraveldisins, og hörðustu gagnrýnendur samfélagsins beindu spjótum sínum öllu öðru fremur gegn henni: Þar má nefna blaðamanninn Karl Kraus, lækninn Sigmund Freud og rithöfundinn Arthur Schnitzler. Í raun voru þetta synir að rísa upp gegn feðrum, afkvæmi þeirra vel stæðu borgara sem byggt höfðu Ringstrasse snerust gegn hugmyndafræði feðra sinna. En andófið var ekki pólitískt í eiginlegum skilningi, það birtist öðru fremur á sviði listarinnar og gat af sér nýstefnuna, módernismann. Hin nýja kynslóð í borgarastétt Vínar leit öðru vísi á listina en sú eldri:

Kynslóð Gründer-tímans (þriðji fjórðungur 19. aldar, mín aths.) var þeirrar skoðunar að „viðskipti væru viðskipti“ og að listin væri í kjarna sínum skraut (viðskipta)lífsins. Synir þessara manna litu á listina sem eitthvað skapandi og héldu því fram að „list væri list“ og viðskipti þreytandi truflun frá (listrænni) sköpun. Kynslóð Gründer-tímans unni þeirri list sem vegsamaði gildi fortíðarinnar; þessir menn voru safnarar, eða umsjónarmenn þeirra safna sem þeir höfðu gert heimili sín að. List yngri kynslóðarinnar horfði þar á móti fram á við og var nýskapandi, og höfundum sínum var hún þungamiðja lífsins.1

Ekkert minna en fullkomnun

Hvergi var opinber hræsni keisaraveldisins meira áberandi en á sviði kynferðismála. Á kynlífið mátti aldrei minnast og þess vegna voru allir með það á heilanum. Með orðum Stefan Zweig:

Þessi „félagslega siðfræði“, sem undir niðri viðurkenndi tilvist kynhvatanna, en vildi þó með engu móti láta þetta uppskátt, var sjálfri sér ósamkvæm á fleiri en einn veg. Fólk lést ekki sjá, að ungir menn hefðu kynhvatir, en deplaði þó til þeirra auga til merkis um, að óhætt væri „að hlaupa af sér hornin“, eins og það var orðað á spaugsömu fjölskyldumáli. Gagnvart konunni var hins vegar um enga slíka tilslökun að ræða.2

Kynferðismálin var það svið sem mótsögnin milli opinberar hugmyndafræði sem þóttist vera skynsamleg og rökleg, og raunveruleikans hefur verið hvað stærst. Vinsældir Weiningers byggðust ekki hvað síst á því að hann fékkst einmitt við þessi mál. En verk hans var líka liður í uppgjöri æskumanna þessa tíma við borgaralega skynsemishyggju yfirleitt. Menn voru að finna sér ný viðmið og ný átrúnaðargoð, samanber eftirfarandi mynd Zweig frá skólaárunum:

Meðan kennarinn þuldi sinn margtuggna fyrirlestur um „Bernskan skáldskap og tilfinningaskáldskap“ eftir Schiller, lásum við Nietzsche og Strindberg undir borðum, en þeirra hafði hinn frómi öldungur aldrei heyrt getið.3

Innhverf sjálfsskoðun aldamótanna takmarkaðist ekki við ljóðskáld. Miklu stærri hópur menntamanna, sem stóð utan ráðandi hóps í samfélaginu, tók þátt í því sem bandaríski sagnfræðingurinn Carl Schorske hefur kallað atlöguna að hinum skynsama manni, „sem varð að víkja fyrir þessu ólíkt innihaldsmeira, en hættulegra og þokukenndara kvikindi, hinum sálfræðilega manni.“4 Það liggur við að hægt sé að fylgja þessari þróun í verki Weiningers um kynferði og skapgerð, því það skiptist í tvo hluta, þar sem sá fyrri hefur yfir sér miklu sálvísindalegra yfirbragð, á meðan háspekilegar hugsanir Weiningers um tilgang konunnar og tilverunnar yfirleitt setja svip sinn á seinni hlutann.

Aðferð Weiningers er andsöguleg, og hann telur kenningar sínar byggjast á óbreytanlegum forsendum tilverunnar. Hann ætlar sér að hreinsa til í umræðu sem var þó, eins og hún þá var, mjög tengd þessu söguskeiði, nefnilega umræðunni um stöðu konunnar og jafnrétti kynjanna. Weininger byrjar á því að búa til tvær hreinræktaðar manngerðir, eins konar frummyndir: Karl (Mann, M) og konu (Weib, W). Hann fullyrðir að allt raunverulegt fólk sé í líffræðilegum skilningi eins konar blanda af þessum manngerðum, margir karlmenn t.d. samsetningur á borð við 3/4M + 1/4W. Það sem hann svo segir í bókinni um konuna almennt á semsé við þessa frummynd en ekki allar núlifandi konur.

Annan mikilvægan fyrirvara verður að hafa um kenningar Weiningers. Háspekilegar niðurstöður hans hafa ekki í för með sér tilteknar samfélagslegar athafnir, og hér sver hann sig í ætt við þá borg sem hann ólst upp í. Þrátt fyrir það sem hann segir um skelfilega eiginleika konunnar er hann til dæmis fylgjandi fullu jafnrétti kynjanna að lögum: „Í þessu verki, þar sem reynt er að brjóta til mergjar umræðuna um stöðu konunnar, er fremur sett spurningarmerki við þá þrá konunnar, að verða eins og karlmaðurinn er í innsta eðli sínu“5, sem er reyndar gagnrýni á hefðbundna jafnréttisbaráttu sem einnig hefur heyrst innan nýju kvenréttindahreyfingarinnar. Sama djúp er staðfest milli almennrar kenningar og raunverulegrar löggjafar í umræðu Weiningers um gyðinga og hlutverk þeirra, en þar gætir mjög and-semítískra viðhorfa (þótt Weininger hafi verið gyðingur sjálfur).

Það er trú Weiningers að greining hans á frummyndum karls og konu eigi ekki bara við líffræðilega, heldur líka á sviði „skapgerðarfræða“, sem honum þykja ólíkt merkilegri fræði en hin nýja empíríska sálfræði, sem hann kallar „handfanga- og skrúfjárnasálfræði“, og gagnrýnir þar hefðbundna borgaralega skynsemistrú einsog fleiri samtíðarmenn hans. Þegar Weininger er kominn svona langt fer smám saman að færast fjör í leikinn. Hann fullyrðir nú og leiðir að því rök, að vitund konunnar (W) sé allt öðru vísi upp byggð en vitund karlmannsins. Höfuðatriðið í því sambandi er að Weininger álítur að konan geti ekki haldið hugsunum og tilfinningum aðskildum. Þess vegna skortir hana hæfileika karlmannsins að geta skapað form og reglu úr óreiðunni (og aftur geta fulltrúar nýju kvennahreyfingarinnar tekið undir með Weininger út frá öðru gildismati, lesið hann með öfugum formerkjum).

Konuna skortir ennfremur hæfileikann til röklegrar hugsunar, hún getur ekki greint hlutina að, og þess vegna takmarkast minni hennar við líkamlega hluti, kynlíf og fæðingar. Hún gerir sér ekki nema mjög takmarkaða grein fyrir tímanum. „Viljinn til að öðlast verðmæti“ er aftur á móti æðsta prýði karlmannsins, og hann Weininger í stað „viljans til valdsins“ sem Nietzsche hafði skrifað um. Karlmaðurinn (M) hefur hæfileikann til að skapa form, gefa hlutunum einhverja mynd: „Maðurinn er formið, konan hráefnið“ segir Weininger. Og fullkomnasta mynd mannsins er skilningurinn:

Snillingurinn birtir okkur eiginlega frummynd mannsins. Hann segir okkur hver maðurinn er: Hugvera, sem á sér allan heiminn að viðfangi, og slær því föstu um ókomna tíð.6

Hér tengist Weininger mörgum listamönnum aldamótamódernismans, og má nefna Strindberg sem dæmi. Höfnun ríkjandi hugmyndafræði, tæknihyggju og skynsemistrú, fylgir bæði sálræn sjálfskönnun og mikilmennskubrjálæði, eða í það minnsta einkar sterk fullkomnunarþrá. Og þeirri þrá fylgir um leið sterk einsemdartilfinning: „Maðurinn er algerlega einn í alheiminum, í eilífri, óhugnanlegri einsemd“7 segir Weininger.

Konuna skortir þessa einsemd, hún er allraf hluti af heiminum, af því hún er ekki einstaklingur í sömu merkingu og karlinn, hún á sér ekkert eiginlegt sjálf: „engan persónuleika og ekkert frelsi, enga skapgerð og engan vilja“8. Konan er líkamleg og jarðnesk, en um leið algerlega siðlaus vera. Hin tvískipta kvenmynd margra aldamótahöfunda, sem sáu konuna annað hvort sem mellu eða guðsmóður, setur líka svip sinn á Weininger. Stefan Zweig hefur að vísu bent á að þessi kvenmynd átti sér vissar efnislegar forsendur hjá ungum mönnum þessa tíma. Kynlíf meðal fólks af jafnháum stigum var algerlega bannfært þar til eftir hjónaband, en ungir menn máttu ekki kvænast fyrr en þeir höfðu komið sæmilega undir sig fótunum. Í þjóðfélagi sem vantreysti æskunni jafn rækilega og austurríska keisaradæmið þýddi það að langt fram eftir aldri þekktu yngri karlmenn aðallega tvær gerðir kvenna: Móður sína og svo mellurnar, sem margir þeirra leitiðu útrásar hjá en óttuðust þó vegna kynsjúkdómanna. Kannski er hér ein af skýringum þess hversu lífseigur þessi tvískipti kvenskilningur hefur orðið í bókmenntunum og myndlist þessa tíma.

Weininger gefur reyndar ekki mikið raunverulega móðurást og hallast þá heldur að mellunum því þær sigla ekki undir fölsku flaggi. Hins vegar viðurkennir hann þá fegurð sem fólkgin er í tilbeiðslu guðsmóðurinnar eða ástinni á Beatrice. Þetta er eins konar þróuð aðferð karlmannsins til að elska sjálfan sig, eða eins og hann segir í annarri bók sem út var gefin að honum látnum, Über die letzten Dinge (Um hin hinstu rök):

Karlmaðurinn færir sinn betri mann, allt það sem hann vill elska . . . yfir á konuna og með þessum aðskilnaði reynist honum auðveldara að vilja og þrá ímynd fegurðar, gæsku og sannleika.9

En þessari hugsun má allt eins snúa við og segja sem svo að Weininger færi allt það sem hann vill síst kannast við í eigin sálarlífi yfir á hugmynd sína um konuna (W).

Víkjum nánar að þessu. Eftir því sem meira líður á bókina er eins og Weininger æsist meira og meira upp gegn konunni: „Konan á sér enga tilvist og engan kjarna, hún er ekki, hún er ekkert.“10. Niðurstaða hans verður að maðurinn geti þá aðeins frelsað sjálfan sig og konuna um leið með því að bæla kynhvötina algerlega. Það er einmitt sú hvöt sem gerir konuna að viðgangi mannsins, en samkvæmt þeim skilningi sem Weininger leggur í kantíska siðfræði er slíkt siðlaust, því þá er ekki litið á manneskjuna sem markmið í sjálfu sér, heldur einungis verkfæri til að öðlast eitthvað annað. Þótt fullkomin afneitun kynlífs þýði í raun að mannkynið deyi út harmar Weininger það ekki. Því markmiðið er að maðurinn verði algerlega fullkominn og þar með guðdómlegur, og jarðnesk tilvist hans er honum bara fjötur um fót í þeirri viðleitni.

Því er þetta rakið að kenningar Weiningers um konuna má allt eins skoða sem aðferð til að hugsa og fjalla um eitthvað annað en afstöðu kynjanna innbyrðis. Í fyrsta lagi er eins og Weininger gangi út frá aðskilnaðinum sem var milli yfirlýstra siðferðilegra gilda og raunverulegrar hegðunar í því samfélagi sem hann bjó við, og nánast fullkomni þennan aðskilnað. Viðmið hans eru hin viðteknu verðmæti en sjálfum sér samkvæmur gerir hann eftirsóknina eftir þeim að fullkomlega óframkvæmanlegum draumi. Í öðru lagi verður konan hjá honum, rétt eins og hjá Strindberg, öðrum þræði tákn hvatalífsins, hins líkamlega og jarðneska sem reynist fullkomnunarþrá þeirra óyfirstíganleg hindrun. Í konunni hötuðu þessir menn eigin breyskleika, sem stóð í vegi fyrir því að þeir næðu fullkomnuninni sem þeir stefnu að.

Loks má leiða að því rök að þegar Weininger er að skrifa um konuna sé hann öðrum þræði að skrifa um það svið, sem samtímamaður hans í Vínarborg var að „uppgötva“ á sama tíma, undirmeðvitundina eða dulvitundina. Sumt af því sem Weininger segir um hvernig hugur konunnar starfi, hvernig hugsun hennar sé háð tilfinningum og líkamlegum skynjunum, minni á umfjöllun Freuds um hugarstarf dulvitundarinnar. Þegar Weininger er að lýsa konunni, er hann því líka að lýsa sínu innra sálarlífi, og þeim hindrunum sem þrá hans eftir fullkomnun þarf að mæta. „Óttinn við konuna“, segir hann á einum stað í Kynferði og skapgerð, „er óttinn við tilgangsleysið: það er óttinn við freistandi hengiflug tómsins.“ Þráin eftir guðdómleik mannsins bar dauðann í sér. Kvenhatur Weiningers er því öðrum þræði sjálfhatur, rétt eins og gyðingahatur hans. Gyðingdómurinn var í hans augum einhvers konar tegundarhyggja, og því versti fjandmaður þeirrar taumlausu einstaklingshyggju sem hann aðhylltist sjálfur. Maðurinn er algerlega einn, og hann verður að leita fullkomnunar einn. Þegar Weininger varð ljóst að hann myndi aldrei ná því marki sem hann hafði sett sér átti hann ekki annars úrkosta en að fremja sjálfsmorð, og það gerði hann í fyrstu morgunskímunni þann 4. október 1903 í því húsi í Vínarborg, þar sem Beethoven dó.

Sjálfskönnun og samfélag

Hvað fól „fullkomnun“ eiginlega í sér að dómi Weiningers og félaga hans? Þð er ekki alltaf ljóst en þó virðist sem snillinginn hafi að þeirra dómi átt að prýða margir þeir eiginleikar, sem feður þeirra höfðu einnig álitið göfugasta. Sjálft gildismatið var ekki gerbreytt, breytingin fólst miklu fremur í því að hinir ungu módernistar tóku gildin alvarlega, voru sjálfum sér samkvæmari. Þeir höfðu fyrir augunum djúpið sem var staðferst milli hugtaka og lífsreynslu í ríkjandi hugmyndafræði austurríska keisaradæmisins, og aðskilnaður lífs og listar varð þeim sérlega hugleikið viðfangsefni (það á til dæmis við um skáldið Hugo von Hofmannsthal).

Ein leið til að brúa þessa gjá var að takast á hendur ferð um víðáttur hins innra sjálfs eins og Weininger kallaði það, í stað þess að einblína á ytri framfarir. Sá hópur höfunda sem kenndi sig við Das junge Wien var fyrst og fremst samhuga um þetta, sem hugmyndafræðingur þeirra Hermann Bahr orðaði svo:

Ég held að það verða að sigrast á natúralismanum með taugaveiklaðir rómantík; eða öllu heldur: með dulmögnun taugakerfisins.11

Knut Hamsun orðaði þá viðleitni sína á ekki ósvipaðan hátt þegar hann var að skrifa Sult. Þessum mönnum virtist hvunndagurinn loginn, sannleikann var að finna innra með þeim sjálfum, og leiðin til hans lá í gegnum listina. Á þessum grundvelli hefja þeir það uppgjör við ríkjandi list á öllum sviðum sem kennt hefur verið við módernisma og sem fæðir af sér sín mikilfengslegustu verk á millistríðsárunum. Ungir myndlistamenn undir forystu Gustav Klimt gera atlögu að innantómum og flatneskjulegum myndverkum akademíunnar. Meðal yngri manna í þessum hópi var líka tónskáldið Arnold Schönberg, sem reyndist ekki lítill byltingarmaður á sínu sviði – einnig hann hafði orðið djúpt snortinn af verki Weiningers. Og því hefur líka verið haldið fram að heimspeki Ludwigs Wittgenstein hafi ekki hvað síst mótast af því að hann ólst upp í Vínarborg aldamótanna og varð vitni að þeim tragíska aðskilnaði tungutaks og lífsreynslu sem var meðal þess sem leiddi Habsborgarríkið til falls. Uppgjör átti sér líka stað á sviði byggingarlistar og fór þar fremstur arkitektinn Adolf Loos („Skraut er glæpur“ eru fræg einkennisorð hans). Þessum mönnum var ekki hvað síst sameiginleg krafan um skilyrðislausan heiðarleika sem algera andstæðu við ríkjandi hugmyndafræði samtímans. Það var þessi heiðarleiki og sannleiksþrá, sem duldist ekki við neinar þær niðurstöður sem komist var að, sem þeir hrifust af í verki Otto Weiningers. Hér var maður sem þorði að takast á hendur ferð í eigið sálardjúp, þorði að gera þá miskunnarlausu sjálfskönnun sem var æðsta boðorð margra aldamótamódernista.

En þessa ferð varð hver og einn að fara einsamall og það er ljóst að uppgjör þessara manna við hugmyndafræði feðra sinna var bæði and-samfélagslegt og and-pólitískt. Þeir neituðu að taka við þjóðfélagslegu verki þeirrar borgarastéttar sem hafði komist til valda í Vínarborg og sú neitun hvíldi oft þungt á þeim. Það er tæpast tilviljun að meðal ungra menntamanna þessa tíma voru líka þeir sem hvað fyrstir komu auga á þýðingu minnimáttarkenndar (Alfred Adler) og Ödipusarduldar (Sigmund Freud) fyrir mannlegt sálarlíf. Og það er engin furða þótt uppgjörið við ríkjandi hugmyndafræði hafi stundum fengið á sig þunglyndislegan, vonlausan blæ. Margir þessara listamanna voru „spámenn án reiði“ einsog sagt hefur verið um rithöfundinn Arthur Schnitzler.

Í vissum skilningi má segja að „verkefni módernismans“, að sameina fullkominn heiðarleik gagnvart eigin hvötum og sálarlífi samfélagslegu starfi, sé enn óleyst. Þannig er sá sósíalismi, sem ekki kann að bregðast við öðrum vanda en efnahagsvandanum litlu betur settur en skynsemishyggja borgarastéttar Vínar um aldamótin. Á hinn bóginn þarf viðurkenning á duldum hvötum sálarlífs og trú á skapandi mátt ímyndunaraflsins ekki að fela í sér afneitun allrar skynsemi og rökhyggju, eins og nú virðist vinsæl kenning. Listamaður sem á sér ekki annað markmið en botnlausa sjálfskönnun í nafni fullkomnunar í anda Otto Weiningers glatar viðmælanda sínum, og þar með missa öll mannleg samskipti merkingu sína þegar allt kemur til alls. Ótti Weiningers við konuna var líka ótti hans við lífið.

Sumarið 1903 ferðaðist Otto Weininger um Ítalíu til að losna undan þeim drunga sem hafði lagst á hann eftir að bók hans kom út. Í bréfi þaðan kallar hann Taormínu á Sikiley einhvern fegursta blett jarðar.12 22 árum síðar sat þar ungur Íslendingur með einglyrni og skrifaði bók sem í senn birti aðdáun hans á þeirri manngerð sem Weininger var fulltrúi fyrir og var uppgjör hans við hana: Vefarann mikla frá Kasmír. En það er önnur saga.

Tilvísanir

1. Alla Janik og Stephen Toulmin: Wittgenstein’s Vienna, New York 1973, s. 45.

2. Stefan Zweig: Veröld sem var, þýð. Halldór J. Jónsson og Ingólfur Pálmason. Rvk. 1958, s. 75.

3. Sama verk s. 43. Heiti á ritgerð Schillers er þýtt öðruvísi.

4. C E Schorske: Fin-de-siècle Vienna, New York 1981, s. 4.

5. Otto Weininger: Geschlecht und Charakter, Wien und Leipzig 1912, s. 80.

6. Sama verk s. 235.

7. Sama verk s. 210.

8. Sama verk s. 267.

9. Otto Weininger: Über die letzten Dinge, Wien u. Leipzig 1912, s. 38.

10. Otto Weininger: Geschlecht und Charakter, s. 388.

11. Hermann Bahr: Die Überwindung des Naturalismus, í Ulrich Karthaus (ritstj.): Impressionismus, Symbolismus und Jugendstil, Stuttgart 1981, s. 124.

12. Über die letzten Dinge, s. XX.

« Til baka