Færslusöfn

Kant og Rawls um þjóðarrétt

eftir Þorstein Gylfason

§1 Kant

Þjóðaréttur varðar ýmis efni: til dæmis mengun, mannréttindi, landhelgi og annan hafrétt, höfundarétt og annan einkaleyfarétt. Þjóðaréttur í okkar skilningi varð fyrst til á 17du öld í Evrópu, að hluta til upp úr margvíslegu erfðagóssi úr Rómaveldi, kaþólsku kirkjunni og keisaradæmi Karlamagnúsar, og birtist bæði í ritum lærdómsmanna eins og Hugos Grotius og sáttmálum konunga sem þeir gerðu með sér í Westfalen 1648. Þá og lengi síðan snerist þessi réttur mest um stríð og frið. Hann setti reglur um styrjaldir, og honum var ætlað að tryggja frið.

Sumir segja að hin gamla þjóðréttarhefð rísi hvergi hærra en í fáeinum smáritum Kants, einkum bæklingi hans Að eilífum friði frá 1795. 1 Um þær mundir var stríðsferill Napóleóns að hefjast svo að ekki báru skrif Kants mikinn ávöxt fyrst í stað. Kant trúði því að lýðveldi væru friðsamlegri en einveldi, og því þyrftu öll ríki að gerast lýðveldi (og þar með réttarríki) ef von ætti að vera um frið í heiminum. Eitt meinið er að Napóleón hófst til vegs í lýðveldi.

En ýmsir hrósa Kant fyrir að hafa séð lengra fram í tímann, og hafa þá í huga uppskrift hans að lýðveldum sem geri með sér þjóðabandalag sem aftur setji alþjóðalög. Þetta er uppskriftin sem þjóðir heims hafa reynt að matbúa á tuttugustu öld, einkum eftir 1945. Kant var síðasti talsmaður hinnar gömlu þjóðréttarhefðar 17du og 18du aldar. Hann var líka fyrsti hugmyndasmiður Þjóðabandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Hugmyndir hans lifa á þeim vettvangi ekki síður en í ritum Rawls. Þær lifa reyndar líka í ritum svonefndra heimsborgara sem eru andstæðingar Rawls á okkar dögum og hann þeirra.

Þess má geta að bæklingur Kants hét Að eilífum friði í höfuðið á hollenzkri krá sem hann hafði spurnir af: Zum ewigen Frieden hét hún. Á skiltinu úti yfir dyrunum, segir Kant, stóð nafnið ásamt málaðri mynd af kirkjugarði. Hann segist láta liggja á milli hluta hvort spaug veitingamannsins gildi fyrir mannkynið allt, stríðsglaða konunga, eða fyrir heimspekinga með hugsjónir.

§2 Rawls

Þjóðaréttur (The Law of Peoples) eftir John Rawls, sem út kom fyrir fimm árum hjá Harvard University Press,2 er í öllum meginatriðum sniðinn eftir Að eilífum friði.

Bækur þeirra Kants og Rawls eru býsna líkar um sum einstök atriði. Báðir leggja mikið kapp á skilgreiningar, stundum sérvizkulegar. Báðir trúa því að sómasamleg ríki–lýðveldi hjá Kant, „frjálslynd lýðræðisríki“ hjá Rawls–fari ekki í stríð hvert við annað. Kant rökstyður þetta á sinn hátt, út frá hugmyndaheimi frjálsra þegna í lýðveldum. Hjá Rawls verður þetta söguleg tilgáta sem hann sækir reyndar til annarra fræðimanna samtímans: „the democratic peace hypothesis“. Tilgátan kallar á að ýmis hernaður Bandaríkjamanna í rómönsku Ameríku (Chile, Guatemala) sé hafður til marks um að ríkin sem þar eigast við séu ekki réttnefnd lýðræðisríki. Kannski var fyrsta franska lýðveldið ekki alvörulýðveldi heldur. Hvað hefði Kant sagt um Napóleón?

Auðvitað er margvíslegur munur á bókunum. Til dæmis eru frumreglur alþjóðalaga átta hjá Rawls, en aðeins þrjár hjá Kant. (Ein af reglum Rawls kveður á um aðstoð við þjóðir í neyð. Hjá Kant er engin slík regla.) Kant bindur þjóðabandalagið við lýðveldi, eins og ég sagði, sem eru sjálfkrafa réttarríki.3 Rawls lætur bandalagið ná jafnt til „frjálslyndra lýðræðisríkja“ sem til „þokkalegra þjóðfélaga“ („decent societies“) og hefur þá einkum í huga ýmis þjóðfélög múslima á okkar dögum sem ekki búa við lýðræði. Fyrir tuttugu árum hefði hann kannski heldur tekið dæmi af ríkjunum austan tjalds. Þau voru ekki lýðræðisríki, en fullgildir aðiljar að samvinnu og sátt­málum þjóðanna, jafnvel mannréttindayfirlýsingum, svo að ekki sé nú minnzt á viðskipti. Þokkaleg þjóðfélög.

Ein breyting enn varðar réttlætingu frumreglnanna sem eiga að tryggja friðinn. Réttlæting Kants snýst einkum um lýðveldi sem hann kallar svo, og réttlæting lýðvelda styðst á endanum við siða­lögmál hans. Sá leikur þarf ekki að koma á óvart vegna þess að siðfræði Kants var að sumu leyti sniðin til að réttlæta þegnréttarkröfur frönsku byltingarinnar. Um þessa siðfræði og hlutverk hennar í stjórnarfarshugmyndum um lýðveldi og heimsborgaralegum hugmyndum um stríð og frið ætla ég ekki að segja neitt. Þess má geta að það er jafnvel umdeilanlegt hvort Kant tekst að réttlæta siðferðið á grundvelli siðalögmála sinna, og má þá nærri geta að vandinn verður ekki minni um lýðveldin og friðinn.4

Réttlæting Rawls er ekki siðfræðileg heldur stjórnfræðileg. Hún er sáttmálakenning af því tæi sem Rawls hafði áður sett fram, svo að frægt er, um þjóðfélagslegt réttlæti í einu samfélagi. Kant tilheyrði eins og Rawls sáttmálahefðinni í stjórnspeki Vesturlanda, og er einn af máttugustu höfundum hennar frá fyrri tíð. En þær hugmyndir hans koma ekki fyrir í Að eilífum friði nema rétt í svip í greinargerð hans fyrir lýðveldum.

Rýnum nú í hina stjórnfræðilegu réttlætingu Rawls á þjóðarétti. Hugmynd hans er sú að þjóða­réttur sé ekki aðeins reistur á sáttmála eða sáttmálum í þeim skilningi að sáttmála þurfi til að koma honum á, sem kann að vera óumdeilanlegt, heldur líka í hinum að þessi réttur réttlætist af sáttmála. „Rýnum í þetta,“ segi ég, en það eru raunar allt of stórt orð yfir það litla sem ég hef tóm til að segja. Kannski ætti ég heldur að segjast ætla að viðra ofurlítið hugboð um afarmikið efni.

Byrjum á dæmi frá líðandi stund, og segjum fáeina sjálfsagða hluti um það.

§3 Heimssakadómur

Nýlega tók til starfa Heimssakadómur (Hinn alþjóðlegi sakamáladómstóll), og munu um níutíu þjóðir hafa fullgilt sáttmálann um hann.5 (Það þurfti sextíu til að hann kæmist á laggirnar.) Honum er ætlað að taka við hlutverki einnota dómstóla eins og í Nürnberg og Tokyo eftir 1945, eða í Arusha og Haag á síðustu árum út af Rúanda og Júgóslavíu. Heimsdómurinn fjallar um glæpi gegn mannkyni, fjöldamorð og stríðsglæpi ef þeir verða ekki að sakamálum heima fyrir.

Það voru ekki sízt Bandaríkjamenn sem áttu upptökin að þessum dómstól, en þeir hafa ekki viljað staðfesta sáttmálann um hann í fjögur ár og eiga því ekki aðild að honum. Það hafa jafnvel heyrzt raddir vestra um að Bandaríkin ættu að réttu lagi að ná sér niðri á þeim þjóðum sem að honum standa.6 Beinasta tilefnið til að Bandaríkin misstu áhuga á dómstólnum var að þeim tókst ekki að fá því ráðið að fastafulltúar í öryggisráðinu–stórveldin–hefðu neitunarvald um málsóknir. Rökin gegn dómstólnum snúast þó mest um fullveldi ríkja–slíkur dómstóll dregur óneitanlega úr því–og síðan um hugsanlegar málsóknir af annarlegum hvötum. Bæði Kínverjar og Indverjar hafa neitað að fallast á Rómarsáttmálann um dóminn með svipuðum rökum.

Svona verða alþjóðlegir sáttmálar til. Auðvitað líka með hvers kyns málamiðlunum hér og þar ef út í það væri farið. Og jafnvel með uppgjöf á sumum sviðum. Heimssakadómur fjallar ekki um árásarstríð og ekki um hryðjuverk. Ástæðan er sögð vera sú að höfundum sáttmálans tókst ekki með neinu móti að koma sér saman um skilgreiningar á árásarstríði og hryðjuverki.

Sáttmáli um heimssakadóm er bæði skýring á því og réttlæting þess að við reynum að forðast þau verk sem hann mundi sakfella okkur fyrir, og virðum dóma hans hvort sem þeir varða okkur sjálf eða aðra. Hér kann endanlega réttlætingin að vera ósköp einfaldlega: þetta hefur orðið að samkomulagi. En Rawls er ekki að hugsa um þessi atvik, heldur um réttlætingu þjóðaréttar áður en hann er settur.

Einhver kynni að vísa til annars samkomulags sem búi að baki samkomulagi eins og því sem birtist í Rómarsáttmálanum um Heimssakadóm. Til dæmis er stundum sagt að Mannréttinda­dómstóll Evrópu hafi heppnazt jafn vel og raun ber vitni vegna þess að almennt samkomulag sé meðal þjóðanna sem að honum standa um frumatriði stjórnarfars og réttarfars. Gott og vel, þetta kann að vera skýring á því að Mannréttindadómstóllinn komst á, eða á hinu að dómar hans eru virtir í ríkjum Evrópu.

En þetta samkomulag að baki mannréttindasáttmálanum er að sjálfsögðu ekki réttlæting á ákvæðum hans. Pyndingar eða skoðanakúgun eru ekki glæpsamlegar vegna þess að þjóðir Evrópu hafa orðið ásáttar um að telja þær það. Þær eru bersýnilega glæpsamlegar af allt öðrum ástæðum: vegna þjáninga sem þær valda, eða ranglætis sem birtist í þeim. Eins liggur í augum uppi að slíkt samkomulag er ekki réttlæting fordæmingar okkar á þjóðamorðum, stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni.

Það breytir að sjálfsögðu engu um glæpsamlegt eðli árásarstríða og hryðjuverka að ekki tókst að ná samkomulagi um að telja þau til glæpa eftir Rómarsáttmálanum.

§4 Réttlæting af samkomulagi

Stundum virðist sáttmáli geta réttlætt ákvæði sín. Í Kenningu um réttlæti beitir Rawls sáttmála­hugmynd í því skyni að réttlæta jafnaðarreglu um lífskjör í einu þjóðfélagi. Hér er ágrip af henni.

Segjum að tveir hópar séu í samfélagi, hæfileikafólk og hæfileikalaust. Kjör þeirra verða óhjákvæmilega ójöfn. Þá getur virzt sanngjarnt að jafna þau í nafni þeirrar hversdagslegu hugsunar að munur á náttúrlegum hæfileikum, eða forréttindi sem fólk er fætt til, sé óverð­skuldaður mannamunur. Því sé sanngjarnt að bæta þeim það upp sem fara illa út úr því happ­drætti. Hér er ekki vísað til neins sáttmála.

En við getum líka nálgast efnið á annan hátt, og þá kemur sáttmáli við sögu. Skipuleg samvinna hópanna er bersýnilega skilyrði þess að hvor þeirra um sig, og báðir saman, lifi bærilegu lífi í einu samfélagi. Hvor um sig þarf á hinum að halda. En við getum ekki ætlast til að allir taki þátt í þessari samvinnu nema skilmálarnir séu sanngjarnir. Af þessum ástæðum ætti hæfileikafólkið, ef það er skynsamt, að sætta sig við að allt sem það ber úr býtum umfram hina afskiptu ráðist af einum saman hag hinna afskiptu af þeim ójöfnuði.7

Hvernig réttlætir þetta jafnaðarregluna? Mér virðist svarið velta á þeirri hugsun Rawls að hvor hópurinn um sig þarf á hinum að halda. Þörf er sjálfkrafa ástæða til breytni, og ástæða til breytni er réttlæting þeirrar breytni. Samkomulagið ræðst af þessari þörf og þess vegna getum við litið á það sem réttlætingu reglunnar.

§5 Þjóðréttarsáttmálinn

Eitt meinið við sáttmálann sem þjóðaréttur á að vera reistur á er að þar er engin hliðstæða við þá hugsun að þegnar samfélags þurfi hver á öðrum að halda. Þvert á móti gengur Rawls að því vísu í Þjóðarétti, eins og gert var í þjóðréttarhefðinni allt frá 17du öld, að aðilarnir að slíkum sáttmála séu fullvalda ríki og í höfuðatriðum sjálfum sér næg. (Margir heimsborgarar hafa talið þetta sýna að hugmyndir Rawls séu rammlega úreltar í ljósi svonefndrar hnattvæðingar.8) Sáttmálarnir tveir, hinn þjóðlegi og hinn alþjóðlegi, eru þá ekki sambærilegir.

Alþjóðlegi sáttmálinn hjá Rawls réttlætir ekkert. Það væri nær að líta á hann sem framsetningar­máta á viðteknum hugmyndum um þjóðarétt. Rawls virðist raunar leggja mikið upp úr því í athugunum sínum á alþjóðalögum, bæði í Kenningu um réttlæti og í Þjóðarétti, að kenningar sínar réttlæti viðtekinn þjóðarétt, og meira að segja viðtekinn lágmarksþjóðarétt, til að mynda lágmarksmannréttindi og lágmarksaðstoð við þjóðir í nauðum, öðrum þræði í nafni raunsæis. Sáttmálahugmyndin þjónar þá þeim tilgangi í framsetningunni að draga fram hlutleysi réttarins. Það verður höfuðprýði hans.

En Rawls tekst ekki að réttlæta þennan rétt. Mundi Kant farnast betur?

 

Tilvísanir

1. Immanuel Kant: Zum ewigen Frieden: Ein philosophischer Entwurf í Immanuel Kants Werke (Ernst Cassirer) VI (Schriften von 1790-1796), Verlegt bei Bruno Cassirer, Berlin 1914, 425-474.

2. John Rawls: The Law of Peopes with the Idea of Public Reason Revisited, Harvard University Press, Cam­bridge, Massachusetts 1999.

3. Fólk greinir á um hvort lýðveldi Kants séu jafngildi þess sem við köllum lýðræðisríki á okkar dögum. Ég held við vitum jafnvel minna um hvað við köllum lýðræðisríki á síðustu tímum en hvað Kant kallaði lýðveldi, þótt það hafi verið annað en það sem við köllum því nafni.

4. Ég vísa forvitnum á framúrskarandi rökræðu Loga Gunnarssonar um þessi efni í bókinni Making Moral Sense, Cambridge University Press, Cambridge 2000.

5. Að sögn skrifstofu Amnesty International í Reykjavík í síma 21sta október 2004. Sjá líka fróðleik á Netinu.

6. Um þetta og fleira í þessum kafla styðst ég við Chris Brown: Sovereignty, Rights and Justice: International Political Theory Today, Polity Press, Cambridge 2002. Sjá einkum 216-223.

7. John Rawls: A Theory of Justice, endurskoðuð útgáfa, Harvard University Press, Cambridge, Massa­chusetts 1999, §17, 86-89.

8. Sjá Alan Buchanan: „Rawls’s Law of Peoples: Rules for a Vanished Westphalian World“ í Ethics CX, 2000, 697-721.

 

« Til baka

Karl R. Popper

Karl Raimund Popper fæddist í Vínarborg árið 1902 en dvaldist lengst af á Englandi, þar sem hann gegndi kennarastöðu við London School of Economics. Hann er þekktur fyrir heimspekilegt framlag sitt til bæði stjórnmála- og vísindaheimspeki. Karl Popper lést árið 1994. Gunnar Ragnarsson ritaði eftirfarandi inngangstexta með þýðingu sinni á viðtali Bryans Magee við Popper:

„Meðal almennings mun Popper þekktastur sem óvæginn gagnrýnandi marxismans og annarra kenninga sem þykjast hafa höndlað stórasannleik um mann og heim og má þar, auk marxismans, nefna sálgreiningu Freuds og þráttarhyggju Hegels. Það gefur að skilja að Popper á ekki upp á pallborðið hjá fylgismönnum slíkra kenninga.

Vínarhringurinn sem nefndur er í innganginum að samtalinu var samtök vísindalega sinnaðra heimspekinga í tengslum við háskólann í Vínarborg. Eru samtök þessi einkum tengd nafni Moritz Schlicks (1882–1936) sem var aðalhvatamaður að stofnum þeirra. Þau störfuðu á þriðja og fjórða áratug 20. aldar, gáfu út tímarit, bækur og héldu ráðstefnur, en leystust upp þegar nasistar náðu völdum í Austurríki. Sumir félaganna fluttu til Bandaríkjanna og höfðu mikil áhrif á þróun heimspeki þar í landi, t.d. Rudolf Carnap (1891–1970). Heimspekingarnir í Vínarhringnum héldu fram kenningu sem kallast á ensku logical positivism og hefur fengið á íslensku nafnið rökfræðileg raunhyggja. Meginhugmynd þessarar heimspeki er sú að allt sem hægt er að segja af viti og hefur merkingu sé annaðhvort raunvísindalegs eðlis, þ.e.a.s. staðhæfingar um sannreynanleg fyrirbæri, staðreyndir, ellegar staðhæfingar í rökfræði og stærðfræði. Samkvæmt þessari tegund raunhyggju eru því til að mynda frumspekilegar og siðfræðilegar staðhæfingar bókstaflega merkingarlausar, að ekki sé minnst á guðfræði. Popper var frá upphafi eindreginn andstæðingur og óvæginn gagnrýnandi þessarar kreddu og sýndi fram á að kenningin um merkingu og merkingarleysi fengi ekki staðist. – Í sjálfsævisögu sinni (Unended Quest) segist Popper hafa gengið af rökfræðilegri raunhyggju dauðri í bók sinni Rökfræði rannsóknar.

Sem vísindaheimspekingur er Popper frægastur fyrir kenningu sína um afmörkun raunvísinda og alræmdur fyrir þá skoðun að engin aðleiðsla sé til. Eins og fram kemur í samtalinu telur hann sig hafa fundið mælikvarða sem hægt sé að nota til að draga markalínu milli raunvísinda, frumspeki og annarra fræðigreina – án þess að halda því fram að staðhæfingar í öðrum greinum en þeim raunvísindalegu séu merkingarlausar! (Magee talar um mörkin milli vísinda og ekki–vísinda). Þetta er hrekjanleikaregla Poppers og er hún sett fram gegn sannreynslu- eða sannreynanleikareglu rökfræðilegra raunhyggjumanna sem átti m.a. að útiloka frumspeki frá merkingarbærri orðræðu. Hugmynd Poppers er að hugsanlegur hrekjanleiki kenningar sé mælikvarði á vísindalegt einkenni hennar.

Einn höfuðkostur Poppers sem heimspekings er sá hve skýr hann er í framsetningu. Hann felur ekki loðna eða óljósa hugsun á bak við tvírætt eða margrætt orðalag. Hann leggur sig allan fram við að orða skoðanir sínar þannig að unnt sé að koma höggi á þær, nefnilega að gagnrýna þær. Og hann er eflaust einn mesti rökfærslusnillingur í hópi heimspekinga. Heimspekilega afstöðu sína kallar Popper gagnrýna rökhyggju (critical rationalism). En nafngiftir út af fyrir sig skipta ekki máli að hans dómi, enda þótt hann telji að ekkert sé mikilvægara en tungumálið, eins og fram kemur í samtalinu.

Bestu kynningu á þekkingarfræði Poppers og þróunarhyggju er að finna í bók hansHlutlæg þekking (Objective Knowledge. – Oxford University Press, 1972) en besta inngang að hugsun hans almennt, fyrir utan bókina Popper eftir Magee, tel ég vera að fá í safni greina eftir Popper sem birtist í bók undir heitinu Tilgátur og afsannanir(Conjectures and Refutations. – Routledge & Kegan Paul, 1963).“

Í greininni „Ágiskanir og afsannanir“ skýrir Popper fræga hugmynd sína um svokallaðan „afsannanleika“ vísindakenninga, sem hann taldi góðan prófstein á þær. Viðtal Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við Popper snýst einkum um stjórnmálaheimspeki. Viðtal Poppers og Magees er greinargóður inngangur að öllum helstu hugmyndum Poppers.

Karl R. Popper:
Ágiskanir og afsannanir
Haukur Ástvaldsson þýddi.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson:
Frjálshyggjan verður aldrei fullsköpuð

Bryan Magee:
Samræða við Karl R. Popper
Samræðan birtist upphaflega í Modern British Philosophy. Gunnar Ragnarsson þýddi.

Karl Popper:
Immanúel Kant: Heimspekingur upplýsingarinnar. Fyrirlestur til minningar um Kant á 150. ártíð hans
Upphaflega útvarpserindi. Textinn er prentaður í Conjectures and Refutations (7.kafli) og In Search of a Better World (9. kafli). Gunnar Ragnarsson þýddi.

« Til baka