Færslusöfn

Hvar greinir okkur á?

eftir W. V. Quine

Hvar greinir okkur á?1

(Hugur 7. ár. 1994–1995, s. 7–13)

Það hlýtur að vekja eftirtekt þeirra sem þekkja verk mín og Donalds Davidson, hversu mjög við erum á sama máli, en að sama skapi hljóta þeir stöku staðir þar sem við erum bersýnilega ósammála að vekja undrun. Ég ætla að reyna að gera grein fyrir þessum ágreiningi.

Um langt skeið höfum við verið sammála um tilvísunarbrigði, sem virðast óumdeild, og jafnvel um hina umdeildari tilgátu um þýðingarbrigði heilla setninga. Hvað þýðingarbrigðin varðar, hefur Davidson reyndar látið í ljósi efasemdir um orðalag mitt, „verufræðilegt afstæði“. Þegar ég setti kenninguna fyrst fram með þessari yfirskrift árið 1968 virtist ég gera verufræði tiltekins tungumáls afstæða við traustari verufræði einhvers annars máls, sem þar með leiddi til vítarunu. En það sem mér virðist vera tilhlýðilegt afstæði má glögglega sjá í seinni ritum mínum. Tilvísunarbrigði ná aðeins til þýðingar af einu máli á annað og verufræðilegt afstæði er afstæði við þýðingarhandbækur. „Lapin“ vísar til kanínu samkvæmt minni uppáhalds fröns-ensku orðabók, og hér standa öll tungumál jafnfætis, ekkert liggur öðru til grundvallar.

Gera þarf grein fyrir frekari smáatriðum, ekki vegna Davidsons, heldur vegna ýmissa annarra lesenda. Handbók fyrir þýðingu af einu máli á annað, t.d. á ensku, má setja stærðfræðilega fram með því að skilgreina með tilleiðslu fjölþætt tengsl setninga í frummálinu og setninga í ensku. Þessi tengsl varða málið í heild og velta ekki á neinni tiltekinni samsvörun milli orða eða uppbyggingar. Þýðingarhandbók er góð að svo miklu leyti sem hún stuðlar að liprum samræðum og árangursríkum sáttum. Kenning mín eða tilgáta um þýðingarbrigði, í heildarsamhengi, er að liprar samræður og árangursríkar sættir geti tekist eins vel og verða vill með hvorri ósamþýðanlegu handbókinni sem er. Ósamþýðanleikinn gæti komið í ljós ef handbækurnar væru notaðar á víxl, setningu og setningu í senn, en það gæti leitt til ósamkvæmrar þýðingar á texta, sem reyndist aftur á móti samkvæmur ef einungis önnur bókanna væri notuð.

Þannig eru brigðin í þýðingu á samfelldu máli. Á hinn bóginn varða tilvísunarbrigði einungis þýðingu umsagna og einnefna, og eiga einungis við um tungumál þar sem hægt er að afmarka umsagnir og einnefni, sem aftur kann að velta á heildarþýðingu. Af þessu er ljóst að hvaða tilfallandi pörun sem eru, milli tilvísunar og orðs eða umsagnar, samrýmist öllum mögulegum athugunum. Þetta leiðir af vangaveltum um tvíburaföll, eða fjölbreytileika líkana og eðli reynslubundinna prófa. Eins og heildarbrigðin eru þetta þýðingarbrigði.

Annar staður þar sem Davidson sér mun á okkur, er þar sem hann talar um fjærkenningu um merkingu hjá sér en nærkenningu hjá mér. Þetta varðar orsakakeðju frá hlut eða atviki í ytri heimi til athafnar eða orða sem eiga að greina frá því sem um er að ræða. Munurinn liggur í því hvernig við neglum keðjuna niður, hvernig við einkennum hana. Davidson neglir hana niður við fjærendann, við hlutinn eða atvikið sem sagt er frá, en ég við yfirborð þess sem segir frá og auðkenni hana út frá virkum taugaendum.

Vegna þess að við notum athugunarsetningar en ekki athugunarorð er fjærendi keðjunnar ekki alltaf snyrtilega afmarkaður og einkenndur sem hlutur eða atvik, og það er ein ástæðan fyrir vali mínu. Dæmin geta verið „það er kalt“ og „það er tekið að rökkva“, og þar virðist þurfa að einkenna kringumstæður. Davidson hefur réttilega leyft hlutgervingu staðreynda að sigla sinn sjó og ég býst við að um kringumstæður gegni sama máli.

Einföldun er önnur ástæða fyrir því að negla keðjuna niður við nærendann, því keðjur sem eru einungis frábrugðnar utan við skinn manns verða að einni. En jafnvel þannig er óþarfinn enn til staðar því margir taugaendanna, sem verða virkir við tiltekið atvik, hafa engin áhrif á skynjun manns eða hegðun. Við gætum leitað eftir frekari hagkvæmni með því að staðsetja keðjuna út frá einhverjum punkti í heilanum, en taugalífeðlisfræðingar hafa hins vegar komist að því að enginn slíkur allsherjar endapunktur er til.2 Eins og ég skrifaði nýlega:3

Það er einungis við taugaenda í yfirborðinu sem hinn gífurlegi flokkur eða vöndull ævintýralega fjölskrúðugra orsakakeðja frá umhverfi til athafna liggur að allsherjarkrossgötum. Sérhver orsakakeðja sker … yfirborðið við taugaenda, og taugaendar manns hafa ákveðna staðsetningu, fjöldinn er takmarkaður og þeir eru svipaðir að gerð. Og í raun eru einkennin sem máli skipta aðeins já eða nei: kveikt eða slökkt.

Það sem ég afmarka þá sem áreiti, sem leiðir til þess að maður segir athugunarsetningu, er tímabundin skipan virkra taugaenda. En það er ekki það sem setningin greinir frá eða merkir eða er um. Athugunarsetningin er um einhver fjarlæg atvik eða hluti, kannski um veðrið eða birtustigið, eða hvað svo sem verða vill. Ég tek því ekki undir nærkenningu um merkingu.

Þriðji munurinn vekur eftirtekt í orðum Davidsons „róttæk túlkun“ andstætt „róttækri þýðingu“ hjá mér. Munurinn er ekki einungis á orðalagi. Túlkun er víðari en þýðing. Til eru enskar setningar í nútímavísindum sem væri jafnvel ekki hægt að þýða yfir á aldamótaensku, svo ekki sé nú talað um fornarabísku eða swahili. Samt sem áður má vel túlka setningarnar á öllum þessum málum. Sem dæmi mætti nefna orðið „fiseind“ í hvaða flókna samhengi sem er. Ný orð eins og „fiseind“ eru ekki innleidd með skilgreiningu; okkur er ekki sagt hvernig megi þýða setningu með þessu orði yfir á eldra mál, enda er það almennt ekki hægt. Okkur er einungis sagt nóg um fiseindir til að geta notað orðið að gagni þar sem við á. Þannig er túlkun án þýðingar.

Ég sagði að þýðingarhandbók væri tilleiðsluskilgreining, sem lýsti sambandi milli setninga. Ég get hins vegar ekki hugsað mér neina sambærilega skýra lýsingu á túlkunarhandbók, en þó er venjuleg orðabók af einu máli á annað í raun einmitt slík bók; handbók fyrir túlkun. Og vissulega gegnir svipuðu máli um hvaða einsmálsorðabók sem er. Þótt túlkun sé víðari en þýðing eru aðferðirnar svipaðar. Upplýsingarnar sem hvor tveggja veltur á eru sýnileg hegðun í sýnilegum aðstæðum, og í báðum tilvikum er mælikvarðinn á árangur lipurð samræðna og árangur í sáttum.

Það er rétt hjá Davidson að skoða almenna túlkun frekar en einbera þýðingu, þar sem hann er að fást við merkingarfræði eða kenningu um tjáningu í tungumáli. Greining mín á róttækri þýðingu, sem var ímynduð tilraun, hafði þrengri tilgang; ég var að bjóða þeirri hugmynd birginn að merking setningar væri inntak hennar. Þýðingarbrigðin þýddu að þótt setningar hefðu samsvarandi merkingu væru ekki endilega jafngildisvensl milli þeirra, og þar með féll hugmyndin um aðgreinanlegar yrðingar; og enginn hlutur er án aðgreiningar, án samsemdar.

Í aðferðafræði Davidsons er eitt atriði sem ég hef efasemdir um, nefnilega sú meginregla að gera sanngildi þess sem innfæddir segja sem mest. Ég vil gera sem mest úr líkindunum fyrir því að einhver hafi tilteknar hugmyndir frekar en úr sannleika þessara hugmynda. Í ljósi framandi helgisiða og banna meðal innfæddra, geta augljós rangindi þess sem þeir segja stundum verið líklegri túlkun en sannleikurinn. En burtséð frá slíkri hegðun og sviðum þar sem gera má ráð fyrir að innfæddir séu óupplýstir, er vinnureglan sú að þeir hugsi eins og við, og því beri yfirleitt að túlka orð þeirra eins og þau væru sönn í okkar augum.

Sannleikurinn er einnig með öðrum hætti grundvallaratriði í kenningu Davidsons; hjá honum eru T-setningar í anda Tarskis burðarás túlkunar. Ég fagnaði þessum leik hjá Davidson strax í upphafi árið 1966.4 Þetta er snyrtilegt tilbrigði við aðferð Tarskis. Tarski gaf sér túlkun setninga sem grunn undir skilgreiningu á sannleika; Davidson gefur sér sannleikann sem grunn undir túlkun setninga.

Annar aðdáunarverður kostur á kenningu Davidsons um túlkun er samspil trúar og löngunar. Í atferli verður hvorki trú né löngun sýnileg, heldur óskiptur árangur þeirra beggja; það er svo verkefni fyrir kenningar og getgátur að greina þetta að.

Hvorki T-setningarnar né samspilið milli trúar og löngunar hjá Davidson falla að minni umfjöllun um róttæka þýðingu. Í mínu samhengi félli þetta best að því að skýra það sem ég hef einfaldlega sópað undir titilinn rökgreiningartilgátur. Þar liggur allt verk hins róttæka þýðanda eftir að hann hefur einu sinni brotið sér leið inn í athugunarsetningarnar.

Að lokum kem ég aftur að Tarski og sannleiksumsögninni, þar sem skýra þarf nokkur óljós atriði. Vegna þess hvað þau eru myrk ætla ég ekki að reyna að smámunast um muninn á mér og Davidson; við erum augljóslega sammála þar sem kenningar okkar skarast. Ég ætla einungis að útlista mínar eigin hugmyndir.

Lykilatriði um sannleika er afvitnun [disquotation]: „Snjór er hvítur“ ef og aðeins ef snjór er hvítur. Merking eða tilvísun afvitnar á svipaðan hátt: „Kanína“ merkir x ef og aðeins ef x er kanína. Hugmyndin er frá Tarski, en orðalagið „að afvitna“ er mitt, eftir því sem ég best veit, og er ekki hugsað til að gera lítið úr henni. Síðasti hluti Word and Object er helgaður mikilvægi sannleiksumsagnarinnar í framþróun merkingarfræði. Með afvitnun er sannleikurinn, sem vissulega er langt frá því að vera einfaldur, svipaður og eiginleikinn að vera stak í mengi, þegar hann sprengir fjötra barnalegra kenninga; því sannleikurinn leiðir til svipaðra þversagna. Ég hef lengi harmað að Ramsey skyldi ekki hafa borið skyn á hugmyndina um afvitnun og hafnað henni sem „hvarfhyggju um sannleikann“. Hinn forni meinvættur minn – ruglingurinn á því að orð sé nefnt og það sé notað – hefur naumast unnið verra verk. Hér er afstaða mín nær Davidson en hann virðist hafa áttað sig á.5

Nær afvitnun því sem máli skiptir um sannleikann? Ég veit ekki hvernig á að svara þessu. Afvitnun nær umtaki sannleikans innan tungumáls, en svo þarf þýðingu til að færa það yfir á önnur mál.

Eins og við sáum eru sannleikur og tilvísun systkini í afvitnun, og skilgreining Tarskis á sannleikanum er skilgreining á öðru á grundvelli hins. Tilvísun er tengsl einfaldrar umsagnar og sérhvers hlutar sem hún á við. Með almennara orðalagi þá er tilvísun tengsl n-sæta umsagnar og sérhvers skipulegs n-fylkis sem hún á við. Með því að alhæfa enn frekar má hugsa sér setningu með n frjálsum breytum semn-sæta umsögn; og svo má segja að þessi setning vísi til sérhvers n-fylkis sem uppfyllir gildi breytnanna. Greining Tarskis er skilgreining á tilvísun á þennan almenna hátt með rakningu út frá eindartilvísun, þ.e. tilvísun einsorðs umsagnar. Sannleikurinn verður loks eftir við 0-sæta umsagnir, þ.e. lokaðar setningar.

Og hvers vegna skyldi Tarski hafa viljað skilgreina sannleikann á grundvelli eindartilvísunar, frekar en til dæmis þveröfugt? Einfaldlega vegna þess að hvaða tiltekna tungumál sem er hefur endanlegan fjölda einsorðs umsagna, og því má skilgreina eindartilvísun með því að gera tilteknum afvitnunum tæmandi skil.

Afvitnun setur sannleikann augljóslega út fyrir tungumálið, vegna þess að með þversögn lygarans sýnir hún að ekki er hægt að gera fulla grein fyrir sannleiksumsögn tiltekins tungumáls á því máli. Þversögnin verður til þegar fjallað er um sannleika í setningum sem sjálfar innihalda sannleiksumsögnina eða skyldar umsagnir.6 Að vísu mætti skilgreina annars stigs sannleiksumsögn til að ná yfir þessi tilfelli, en hún bregst þegar setningarnar innihalda þá umsögn. Þannig má halda upp stigveldi sífellt betri nálgana að fullkominni sannleiksumsögn, sem aftur gerir stigveldið utanmáls. Róttækur náttúruhyggjumaður gæti eins notað þversögn lygarans máli sínu til stuðnings; hún sýnir að það sem er utanmáls, í þessu tilviki að minnsta kosti, leiðir til mótsagnar.

Önnur álíka kunnugleg hugmynd er að óhrekjanleikinn setji sannleikann utanmáls. Þegar framfarir í vísindum leiða til þess að kenningu er hafnað og ný tekur við, þá segjum við ekki að gamla kenningin hafi verið sönn en síðan orðið ósönn. Við segjum frekar að hún hafi verið talin sönn, en aldrei verið það. Sannleikurinn er ekki afrakstur vísindanna, heldur markmið þeirra. Hann er hugsjón hreinnar skynsemi, eins og Kant orðaði það svo ágætlega.

Sannleikurinn er utanmáls með tvennum hætti, við getum sagt að hann sé það bæði merkingarfræðilega og rökfræðilega. Að sannleikurinn skuli vera merkingarfræðilega utanmáls leiddi óhjákvæmilega af sjálfri afvitnuninni. Að hann skuli vera rökfræðilega utanmáls leiddi af afvitnun en ekki með eins sterkum rökum, en nógu sterkum samt – nefnilega lögmálinu um annað tveggja. Látum pvera setningu sem þýðir að fjöldi stráa í Boston-almenningi í ársbyrjun 1901 hafi verið jöfn tala. Af lögmálinu um annað tveggja leiðir annað hvort p eða ekki p; með afvitnun fáum við svo „p“ er satt eða „ekki p“ er satt. Og samt taka vísindin í víðasta skilningi þess orðs – upplýst skoðun – enga afstöðu til „p“ eða „ekki p“, og munu aldrei gera.

C.S. Peirce gerði tilraun í anda náttúruhyggju til að festa hendur á sannleikshugtakinu, sem er rökfræðilega utanmáls, með því að skilgreina sannleikann sem það mark sem vísindin stefna að. Tilraunin var byggð á bjartsýnisórum, svo vægt sé til orða tekið. Þrátt fyrir stórkostlegustu framfarir í vísindum sem hugsast gætu myndu þau aldrei segja neitt um „p“ eða „ekki p“ úr dæminu að framan. Og eftir því sem ég best veit hafði Peirce engar efasemdir um lögmálið um annað tveggja.

John Dewey lagði til, náttúruhyggjunni til framdráttar, að sannleiksumsögnin yrði einfaldlega sniðgengin og í staðinn hökt á rökstuddum skoðunum. Otto Neurath fór svipaða leið á síðustu árum sínum. En vissulega hefðu hvorki Dewey né Neurath getað neitað því að afvitnun gerir sannleikann aldeilis krystaltæran, og eflaust féllust þeir báðir á „p eða ekki p“. Þeir komu sér því ekki hjá vandanum, þeir skildu hann einfaldlega ekki.

Hvað sem þessu líður er skrýtið að við náttúruhyggjumenn skulum verða snúðugir yfir því að sannleikurinn sé rökfræðilega utanmáls, því það felur einmitt í sér aðnáttúrunni er eignaður sannleikur frekar en fálmkenndum nálgunum mannsins. Ástæðan fyrir þessu er að náttúruhyggjan fellst ekki á neina æðri uppsprettu þekkingar en upplýsta vísindalega aðferð. Gott og vel, en sannleikur er ekki þekking. Sannleikshugtakið á samleið með öðrum gagnlegum hugtökum vísindanna, eins og hugtökunum tilvist, efni, hlut, þyngdarkrafti, tölu, fiseind og jarðíkorna. Eins og Davidson er ég sáttur við sannleikann þar sem hann liggur rökfræðilega utanmáls. Hann er hugsjón hreinnar skynsemi – og helgist hans nafn.7

Ólafur Páll Jónsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Í þessari ritgerð fer Quine ákaflega hratt yfir og lætur vera að skýra ýmis atriði sem eru síður en svo sjálfljós. Greinin getur því ekki staðið ein, en svo vel vill til að áður hafa verið þýddar tvær af greinum hans, „Tvær kreddur raunhyggjunnar“ í Hug, 3.–4. ári, 1991 og „Um það sem er“ í Heimspeki á tuttugustu öld (Mál og menning 1994). Auk þessa hefur Árni Finnsson skrifað grein um merkingarfræði Quines, „Kenningar um merkingu“ í Hug, 3.–4. ári, 1991. – Quine skrifaði þessa grein fyrir safnrit um heimspeki Donalds Davidson, sem enn er óútkomið, og því hefur greinin hvergi birst áður. Quine sendi Þorsteini Gylfasyni greinina með leyfi til að birta hana á íslensku. Auk Þorsteins hef ég notið aðstoðar Mikaels M. Karlssonar, Erlends Jónssonar og Arnar Bjarnasonar læknis. Björn Þorsteinsson, Geir Sigurðsson, Róbert Jack, Uggi Jónsson og Ágúst Hjörtur Ingþórsson lásu handritið í heild.

2. Daniel Dennett: Consciousness Explained, Boston 1992.

3. „In Praise of Observation Sentences“, Journal of Philosophy, 90, 1993, bls. 115.

4. Donald Davidson: „Truth and Meaning“ (abstract), Journal of Philosophy, Vol 63, bls. 586–587.

5. Donald Davidson: „The Structure and Content of Truth“, Journal of Philosophy, 1990 Vol. 87, bls. 283.

6. Sjá t.d. bók mína Pursuit of Truth, Harvard 1990, 1992, § 34.

7. Greinin er margfalt ríkulegri vegna athugasemda Burtons Dreben við fyrra handrit.

 

« Til baka

Kenningar um merkingu

eftir Árna Finnsson

(Hugur 3.–4. ár. 1990/1991, s. 57–77)

Inngangur

Hér á eftir er ætlunin að fara nokkrum orðum um kenningar bandaríska heimspekingsins Willards Van Orman Quine um merkingu eða kannski öllu heldur um kenningar um merkingu. Quine er án efa í hópi kunnustu heimspekinga seinni tíma, og áhrif hans hafa náð víða. Hann er órjúfanlega tengdur raunhyggjuheimspeki tuttugustu aldar, og hefur jafnvel haft meiri áhrif á þeim vettvangi en nokkur einn heimspekingur annar. Meðal kunnustu rita Quines má nefna ritgerðasöfnin From a Logical Point of View (1953) og Ontological Relativity and Other Essays (1969) og bókina Word and Object (1960). Í From a Logical Point of View er að finna tvær af kunnari ritgerðum Quines, en það eru ritgerðirnar „On what there is“ og „Two dogmas of empiricism“, sem birt er í þessu hefti í þýðingu Þorsteins Hilmarssonar. Í Ontological Relativity and Other Essays er að finna meðal annarra ritgerðirnar „Ontological relativity“ og „Speaking of objects“, en sú síðarnefnda, sem skrifuð er um 1957, leggur grunninn að skrifum Quines í Word and Object, og töluverðir hlutar ritgerðarinnar birtast að meira eða minna leyti aftur í þeirri bók. Í öllum þessum ritgerðum fjallar Quine um þau efni sem rakin verða hér á eftir. Í Word and Object er síðan að finna ítarlega og viðamikla greinargerð Quines fyrir heimspeki tungumálsins, og þeim vandamálum sem þar er við að glíma.

Ef draga á saman verk Quines í stuttu máli, þá má segja að helsta viðfangsefni hans hafi verið að gagnrýna og skerpa raunhyggju seinni tíma á ýmsa vegu. Líta má á verk hans sem andsvar við þeirri raunhyggju sem spratt upp á fyrrihluta aldarinnar, og má þá helst horfa til kenninga Rudolfs Carnap og annarra meðlima Vínarhringsins svokallaða. Kenningar Quines um ýmis þau efni er varða raunhyggju, verða því sennilega að skoðast í ljósi þeirra hugmynda til að skiljast til fullnustu. Hér er þó ekki ætlunin að gera með neinum hætti grein fyrir hugmyndum Carnaps eða annarra sem Quine gagnrýnir, heldur verður einungis fjallað um helstu vandamálin sem við blasa í hugmyndum Quines um kenningar um tungumál og merkingu, og hugsanleg svör við þeim vandamálum. Hér verður ekki reynt að leysa þessi vandamál á einn eða annan hátt, né heldur að gera grein fyrir því hvernig heimspekingar almennt og yfirleitt hafa tekið á þeim.

Fjölmargir hafa tekið sér fyrir hendur að bregðast við þeim vandamálum sem Quine bendir á að upp komi þegar gera á grein fyrir merkingu í tungumáli, og mætti eyða löngu máli í að lýsa þeim leiðum sem reyndar hafa verið. Hér verður þó einungis litið lítillega til kenninga annars bandarísks heimspekings, Donalds Davidson. Davidson var um tíma nemandi Quines, og hefur líkt og hann glímt talsvert við þau vandamál sem tengjast kenningum um merkingu. Helstu kenningar og hugmyndir Davidsons í þessum efnum má finna í ritgerðasafninu Inquries into Truth and Interpretation sem inniheldur 18 ritgerðir um heimspeki tungumálsins, frá árunum 1964–82.

Tungumál og merking

Þegar einhver segir eitthvað satt, hvað er það þá sem gerir fullyrðingu hans sanna. Okkur finnst gjarnan sem þar komi til tveir þættir: merking og staðreynd. Þjóðverji mælir fram fullyrðinguna: „Der Schnee ist weiss“. Í þeim töluðum orðum hefur hann sagt satt, og svo er fyrir að þakka ánægjulegri samleitni tveggja þátta: setningin sem hann mælti merkir að snjór er hvítur, og staðreyndin er einnig sú að snjór er hvítur. Hefði merkingin verið önnur, ef til að mynda „weiss“ hefði merkt grænn, þá hefði hann ekki sagt satt. Ef staðreyndirnar hefðu verið á annan veg, ef snjór hefði verið rauður, þá hefði hann á sama máta ekki sagt satt.1

Með þessum orðum hefur Quine bók sína Philosophy of Logic, og vísast myndu margir fallast umyrðalaust á þessa lýsingu hans á því hvernig tungumálið virkar. Tungumálið er óneitanlega eitthvert öflugasta tólið sem maðurinn hefur á valdi sínu, og máttur þess virðist fyrst og fremst felast í þeim eiginleika þess að geta flutt boðskap um heiminn manna á milli, eða tjáð heiminn á einhvern hátt. Þetta á sér stað á þann hátt að tungumálið ber merkingu, og boðskapurinn sem þannig er fluttur, það sem sagt er, er satt ef merking þessi er í samræmi við það sem er í heiminum. Í þessari lýsingu verður í fljótu bragði ekki séð neitt sem ekki kemur heim og saman við daglega reynslu okkar af tungumálinu og almennar hugmyndir um það.

En hvað er það nákvæmlega sem felst í þessari lýsingu? Hvað má af henni ráða um það hvernig merking á sér stað í tungumálinu? Hvernig er aðgangi okkar að þessari merkingu háttað? Hvernig er hægt að gera grein fyrir samsvörun á milli merkingar og staðreynda? Ef okkur á að takast að gera grein fyrir því hvernig tungumálið virkar, eða að móta kenningu um merkingu, þá virðumst við þarfnast svara við spurningum sem þessum. Af lýsingunni hér að framan verður hins vegar fátt ráðið um þessi atriði. Heimspekingar hafa um langan aldur verið ólatir við að reyna að ráða bót á þessu, og hafa margir þeirra reynt að auka við þessa lýsingu eða betrumbæta hana á annan veg, og móta þannig kenningu um merkingu.

Segja má að kenning Quines, sem hér verður rakin, snúist að mestu leyti um að vefengja hversdagslegar hugmyndir manna um tungumálið. Þá fá kenningar fyrirrennara hans í þessum fræðum einnig sinn skerf af gagnrýni. Þó svo að ekki séu allir á einu máli um gildi kenninga hans er sennilega óhætt að segja að honum takist býsna vel að varpa rýrð á þessar hugmyndir – honum tekst í það minnsta að sýna fram á að hugmyndir þessar eru fjarri því að vera eins einfaldar og auðveldar viðureignar og ætla mætti. Framlag Davidsons í þessum efnum er með nokkrum öðrum hætti en Quines, þar sem hann reynir að gera grein fyrir þeim skilyrðum sem setja verður kenningu um merkingu í tungumáli og síðan leitar hann leiða til að móta kenningu sem uppfyllir þau skilyrði. Hann glímir við mörg af þeim vandamálum sem Quine bendir á og telur siga leysa úr ýmsum þeirra, eða í það minnsta komast fram hjá þeim þannig að þau standi merkingu ekki fyrir þrifum. Á endanum kann jafnvel að mega sjá í kenningum hans mynd af tungumáli og merkingu, sem ekki er ýkja frábrugðin hversdagslegum hugmyndum manna í þessum efnum, þótt hún sé sett fram á nokkuð annan veg. Því má segja að kenning Davidsons sé að nokkru leyti framhald á kenningum Quines og að nokkru leyti svar við þeim. Davidson neitar því þó alfarið að hann sé í einu eða neinu að andmæla Quine.

Merking

Það fyrsta sem okkur kemur í hug þegar gera á grein fyrir merkingu er að segja orðin merkja eða standa á einhvern hátt fyrir hlutina í umhverfi okkar, eiginleika þessara hluta og tengsl þeirra innbyrðis og við okkur. Merking setninganna er síðan sett saman úr merkingu orðanna og skilningur á setningu er undir því kominn að okkur takist að tengja hvert orð þessu fyrirbæri sem nefnt er merking. Hlutirnir og eiginleikar þeirra eru þannig nefndir í ákveðnum tengslum hver við annan, og tengsl þessi endurspegla raunveruleg tengsl hlutanna í umhverfi okkar. Þannig mætti ætla að setningar tungumálsins virkuðu líkt og myndir af veruleikanum eða aðstæðum í veruleikanum. Setning er síðan sönn ef myndin sem hún dregur upp er mynd af raunverulegum aðstæðum.

Fjöldi kenninga dregur upp mynd af merkingu sem svipar til þessarar. Þar mætti sem dæmi nefna kenningu Wittgensteins í Tractatus Logico-Philosophicus.2 Þar segir hann hreint út að staðhæfingar séu myndir af veruleikanum (4.01, 4.021). Það að skilja slíka staðhæfingu segir hann síðan felast í því að vita hvað það þýðir fyrir veruleikann ef staðhæfingin er sönn (4.024), eða með öðrum orðum að vita hvaða aðstæður það eru sem staðhæfingin er mynd af (4.021). Það að vita hvortsú mynd er sönn eða ekki er hins vegar annað, og til að komast að því þarf að bera hana saman við veruleikann. Líkt og rakið var hér að framan, þá telur Wittgenstein myndirnar virka þannig að þær séu settar saman úr hlutum eða einingum sem svari til hlutanna í þeim aðstæðum sem myndin er af (2.13, 2.131). Hlutar myndarinnar standa í ákveðnum tengslum hver við annan og tengsl þessi endurspegla tengsl hlutanna í veruleikanum (2.15). Hinir einstöku hlutar myndarinnar eru okkur kunnuglegir af viðureignum okkar við aðrar slíkar myndir, eða vegna þess að hlutverk þeirra hefur verið skýrt fyrir okkur. Með þessu móti er hægt að gera grein fyrir því hvernig við skiljum slíkar myndir þrátt fyrir að við höfum aldrei rekist á þær fyrr, og eins þó að við höfum ekki reynt þær aðstæður sem myndin er af. Síðan segir Wittgenstein að þegar eitt tungumál er þýtt yfir á annað, felist þýðingin ekki í því að þýða sérhverja setningu með annarri setningu, heldur því að þýða hina einstöku hluta setninganna (4.025). Fljótt á litið verður ekki annað séð en slík lýsing á tungumálinu sé í flestum atriðum samhljóða hversdagslegum hugmyndum okkar í þessum efnum.

Quine andmælir slíkri lýsingu á tungumálinu, sem hann segir vera „goðsögn um safn þar sem sýningargripirnir eru merkingar, sem auðkenndar eru með orðunum.“3 Væri þetta hin rétta lýsing á tungumálinu, þá væri það að þýða af einu tungumáli á annað fólgið í því að skipta hreinlega um merkispjöld á sýningargripunum. Myndin sem upp er dregin með orðunum verður þannig hin saman, aðeins dregin með nýjum línum. En Quine segir þessa lýsingu ranga. Í stað þess að leita einhverra slíkra huglægra fyrirbæra sem nefna mætti merkingar orðanna, og sem standa á einhvern máta utan og ofan við tungumálið og beitingu þess, þá verðum við að líta beint til málhegðunar manna. „Merking er fyrst og fremst eiginleiki hegðunar.“4 Afstöðu þessa kennir Quine við náttúruhyggju, og rekur hana til Johns Dewey. En af henni sprettur að handan þess sem ráða má beint af málhneigðum manna og breytni er ekki unnt að tala um að orð eða setningar séu sömu merkingar. „Frammi fyrir náttúruhyggjunni er ekkert óbrigðult svar, þekkt eða óþekkt, til við þeirri spurningu hvort tvær setningar eru sömu eða ólíkrar merkingar, nema að því marki sem það svar er ráðið af málhneigðum manna, þekktum eða óþekktum.“5 Ef við föllumst á þetta verður strax ljóst að goðsögnin sem lýst var hér að framan færir okkur litlu nær merkingu í tungumáli, þar sem safnið sem þar var lýst er ekki til, eða í það minnsta stendur ekkert slíkt safn okkur opið á þessari stundu.

Það að taka tungumálið slíkum tökum hefur víðtækar afleiðingar fyrir öll málvísindi, og stundum virðist Quine jafnvel ganga svo langt að segja að fyrirbæri eins og merking og tilvísun varði alvarleg málvísindi næsta lítið. Á einum stað segir hann:

[…] Merkingar reynast hins vegar vera fyrirbæri einstakrar gerðar: merking setningar er hugmynd sú sem látin er í ljós. Nú er það svo að á meðal málspekinga samtímans er eftirtektarverður einhugur um að hugmyndin um hugmynd, hugmyndin um andlega samsvörun eininga málsins, sé minna en einskis nýt fyrir málvísindin. Mér sýnist sem atferlissinnar hafi rétt fyrir sér í því að tal um hugmyndir sé jafnvel fánýti eitt fyrir sálfræði. Gallinn við hugmyndina „hugmynd“ er að notkun hennar, líkt og vísunin til svæfingarmáttarins hjá Molière, býður heim þeirri blekkingu að eitthvað hafi verið útskýrt.6

Það var sagt hér að ekki væri hægt að ganga að því vísu að setningar væru sömu merkingar nema því aðeins að ráða mætti það af málhneigðum manna og breytni, en það er þó ekki eini vandinn. Sé tungumálið tekið þessum tökum verður erfitt að gera grein fyrir því einu hvernig ólík orð eða setningar geta verið sömu merkingar, eða því að setningar geti á einhvern veg verið sjálfljósar, sannar af sjálfum sér. Quine hefur raunar höggvið að greinarmuninum á rökhæfingum og raunhæfingum í ritgerðinni „Tvær kreddur raunhyggjumanna“. Enn eitt sem er ljóst er að ef farið er að ráðum Quines verður það fjarri því að vera áhlaupaverk að grafast fyrir um merkingu orða og setninga í tungumáli á vísindalegan máta, þar sem við hvert einasta skref þarf að festa kenninguna í sessi með vísun í breytni manna og hneigðir. Í kenningasmíð sinni notar Quine þá aðferð meðal annars að skoða slíka rannsókn eða þýðingu, sem hann kallar róttæka þýðingu (radical translation), til að komast að því hvar merkingu sé að finna í tungumáli og þá hvernig megi finna hana.

Róttæk þýðing

Kunnasta framlag Quines til umfjöllunar um merkingu er án efa kenning um það sem nefnt hefur verið þýðingabrigði. Sennilegast er best að ráða hvað í þeirri kenningu felst og hvað af henni sprettur, af tali Quines um róttæka þýðingu. Við skulum nú fallast á það með Quine, í það minnsta um stund, að sá efniviður sem alvarlegum málvísindamönnum ber að vinna með séu málhneigðir manna og breytni, og róttæk þýðing er þýðing á fjarlægu, áður óþekktu tungumáli, í anda þessa og þá án nokkurra þeirra hjálpartækja sem venjulega standa mönnum til boða við þýðingar. Það eina sem þýðingin er reist á er athugun á málhneigðum manna og breytni. Slík þýðing stendur að líkindum víðs fjarri öllu því sem ætla má að menn hafi lent í, en að breytir því ekki að ef okkur tekst að gera okkur hana í hugarlund þá ætti hún að sýna næsta vel hvernig merking verður aðgengileg í gegnum breytni manna.

Hugsum okkur nú málvísindamann meðal óþekkts ættbálks og setjum honum það verkefni að þýða tungu ættbálksins á grundvelli reynsluathugunar einnar saman. Það fyrsta sem honum tekst sennilega að þýða eða tengja einhver konar merkingu, eru setningar um einfalda hluti sem fyrir augu ber í umhverfinu. Ef hann þannig veitir því athygli að þegar kanína birtist innan sjónsviðsins segir einn frumbygginn „Gavagai“, gerir hann ráð fyrir að tengja megi setninguna kanínum, eða jafnvel þýða hana með orðinu „kanína“. Tilgátuna getur hann síðan prófað með frekari athugunum. Með tíð og tíma kemst hann að því hvað beri að líta á sem játun og hvað neitun í máli frumbyggjanna og þegar þar er komið getur hann prófað að leita eftir viðbrögðum þeirra við setningum sem hann hefur lært, í ólíkum aðstæðum; t.a.m. ýmist þegar kanínur eru sjáanlegar eða ekki. Hann getur jafnvel reynt að setja aðstæðurnar upp á þann veg sem honum hentar best í rannsókninni. Þótt ýmis vandamál komi upp strax á þessu frumstigi rannsóknarinnar fer þó svo á endanum að málvísindamaðurinn getur verið næsta viss um að setningunni „Gavagai“ er samsinnt ef kanína er sjáanleg en annars ekki . Tilgátan sem hann setti fram í upphafi er því sennilega rétt.7

Setningar eins og „Gavagai“ nefnir Quine atvikssetningar (occasion sentences), en það eru setningar sem eru þannig að þeim er einungis samsinnt að gefnu ákveðnu áreiti og þá því aðeins að þetta áreiti sé til staðar á því augnabliki. Andstætt þessum setningum eru síðan viðvarandi setningar (standing sentences), sem eru þannig að að því gefnu að viðkomandi hafi á einhverjum tíma orðið fyrir ákveðnu áreiti, þá samsinnir hann slíkum setningum óháð aðstæðum hverju sinni. Áreiti þau sem kalla fram samþykki við ákveðnum setningum, kallar Quine síðan áreitismerkingu (stimulus meaning) þeirra setninga.

Við skulum nú gefa okkur að með stöðugum athugunum og prófunum takist málvísindamanninum að koma sér upp talsverðu safni atvikssetninga eins og „Gavagai“ sem eru þannig að hann fari nokkuð nærri um áreitismerkingu þeirra; það er að hann geti á næsta áreiðanlegan hátt tengt þessar setningar ákveðnu áreiti líkt og hann tengdi setninguna „Gavagai“ því að kanína væri nálægt. Við getum jafnvel gefið okkur að málvísindamaðurinn geti með tíð og tíma farið að spyrja einfaldra spurninga til að renna stoðum undir þær niðurstöður sem hann hefur komist að. Til þessa þyrfti hann þó að koma sér upp einhvers konar grunni að málfræði fyrir tungumálið sem glímt er við og til að það mætti takast yrði hann að líkindum að vera kominn vel á veg í þýðingunni. Ótal önnur vandamál spretta einnig á þessari leið, svo sem í tengslum við aðrar setningar en einfaldar atvikssetningar og ýmis atriði önnur í framkvæmd athugananna. Við getum þó horft framhjá slíkum vandamálum hér án þess að það breyti á endanum miklu um niðurstöðurnar.

Þýðingabrigði og verufræðilegt afstæði

En hversu langt höfum við þá komist í átt að þýðingu á tungumáli frumbyggjanna? Við höfum þarna ákveðið safn setninga sem eru þannig að vitum undir hvaða kringumstæðum frumbyggjarnir hneigðust til að samsinna þeim og hverjum ekki. Hugsanlega gætum við síðan reynt að tiltaka setningar sem samsinnt yrði undir sömu kringumstæðum í okkar eigin tungu. Það er hins vegar augljóst að því fer fjarri að þetta dugi okkur sem þýðing á tungumáli frumbyggjanna. Við þurfum meira en aðferð til að para einhvern tiltekinn fjölda setninga á máli þeirra við setningar á okkar eigin máli. Enn eru til setningar sem eru annarrar gerðar en þær sem rannsóknin náði til, og eins er að hversu margar setningar sem við kunnum að hafa rekist á þá munu alltaf vera til aðrar setningar sem við höfum enn ekki heyrt. Þetta á í það minnsta við um öll þau tungumál sem við þekkjum. Ef þýðingin á að vera til einhvers nýt verður hún að gera okkur kleift að þýða slíkar setningar þrátt fyrir að við höfum aldrei heyrt þær fyrr. Þýðingin, eða þessi forskrift að þýðingu, þyrfti jafnvel að gera okkur kleift að mynda nýjar setningar á tungumálinu, það er setningar sem við ekki þekktum fyrir. Fyrr gætum við ekki fallist á að verkefni okkar væri að fullu lokið. Eina leiðin sem við blasir til að þetta megi takast, er í líkingu við hugmyndir Wittgensteins í Tractatusi sem nefndar voru hér að framan. Við komumst ekki af með að þýða heilar setningar með öðrum setningum, heldur verðum við með einhverjum hætti að hluta setningarnar upp í einingar og þýða síðan þessar einingar eða para við einingar á okkar eigin tungu. En ef þetta á að takast virðist ljóst að málvísindamaðurinn okkar verður að segja skilið við vettvangsathugun sína og grípa til annarra aðferða. Hann verður að setja saman einhverja tilgátu um hvernig hluta eigi setningar tungumálsins niður og hvernig fara skuli með hvern setningarhluta. Hann verður þannig að setja saman einhvers konar orðalista og reglur sem kveða á um notkun listans. Af listanum verður síðan að vera hægt að ráða hlutverk hvers einstaks setningarhluta og hvernig fara skuli með hann í þýðingunni.

Þegar að þessum hluta verkefnisins kemur er það sem þýðingabrigðin birtast. Málvísindamaðurinn hefur verk sitt með tiltekið safn setninga sem hann parar við eða þýðir með setningum á sinni eigin tungu. Verkinu heldur hann síðan áfram á þann veg að hann hlutar setningarnar upp á einhvern máta sem samræmist þessum þýðingum sem þegar eru til og gerir grein fyrir hlutverki hvers hluta fyrir sig. Tilgáturnar má síðan prófa að einhverju marki með athugunum, en eftir því sem kerfið verður viðameira og flóknara því fjarlægari verða tilgáturnar þeim athugunum sem gerðar voru, og að sama skapi verður erfiðara að ganga úr skugga um gildi þeirra. Að endingu fer svo að kerfið, eða þýðingartilgátan, stendur sem slíkt en verður ekki stutt með neinni beinni vísun til athugananna. Quine segir síðan að unnt væri að setja saman fleiri en eina slíka tilgátu, sem tengdu sömu setningar eða setningarhluta við ólíkar þýðingar á okkar tungu, en sem samræmdust þó allar jafn vel öllum þeim upplýsingum sem voru aðgengilegar í athugun okkar á tungumálinu. Þannig yrðu til tvær eða fleiri forskriftir að þýðingu, sem væru ósamrýmanlegar eða jafnvel í mótsögn hver við aðra. Og vandamálin rísa jafnvel fyrr en ætla mætti af lýsingunni hér að framan. Einföldustu atvikssetningar, sem voru það fyrsta sem málvísindamanninum tókst að henda reiður á, geta nú orðið til vandræða. Þannig verður til að mynda setningin „Gavagai“, sem í upphafi virtist næsta auðveld viðureignar, nú vandmeðfarin. Okkur er ekki nóg að vita um hana að hún standi í einhvers konar sambandi við kanínur. Við verðum að tiltaka orð eða setningarhluta sem komið gæti í hennar stað í öllum tilfellum, og gegndi þar sama hlutverki. Og þegar að þessu kemur, kemur í ljós að í hegðun frumbyggjanna og málhneigðum virðist ekkert vera að finna sem skorið gæti úr um hvort þýða ætti setninguna sem til að mynda „kanína“, „kanínuhluti“, „kanínuskeið“ (tímanlegt) eða „kanínuleiki“. Vandinn sem hér um ræðir er sá, í stuttu máli, að við höfum ekkert fyrir okkur sem skorið getur úr um hvort frumbyggjarnir hafa sama hátt og við á að tiltaka og aðgreina hluti í veruleikanum. Þannig verður jafnvel merking einföldustu atvikssetninga illnálganleg eftir leiðum beinnar reynsluathugunar, í það minnsta svo lengi sem við reynum að staðfesta merkinguna með tilvísun eða einhverju sem kemur í hennar stað. Quine segir um þetta á einum stað:

Það er eins líklegt og hvað annað, að munur á tungumálum liggi í því að þeir sem tunguna tala hafi mismunandi hátt á að skipa heiminum sjálfum í hluti og eiginleika, tíma og rúm, frumefni, krafta, anda o.s.frv. Það er engan veginn ljóst að vitlegt sé að líta svo á að orð og setningaskipan séu breytileg frá einni tungu til annarrar en að innihald þeirra sé óbreytt; þó er einmitt slíkur tilbúningur að verki þegar talað er um að setningar séu sömu merkingar, í það minnsta ef um mjög ólík mál er að ræða.8

Í sem stystu máli má segja að ef okkur á að takast að koma saman orðalistanum fyrir tungumál frumbyggjanna, þá verðum við að þröngva ákveðinni verufræði, eða ákveðnum hætti á að tiltaka hlutina og greina einn hlut frá öðrum, upp á tungumál þeirra án þess að nokkuð í hegðan þeirra eða málhneigðum gefi tilefni til. Slík verufræði er ekki aðgengileg eða opinber í tungumálinu, og því er vel mögulegt að búa til fleiri en einn orðalista sem hafa þarna mismunandi hátt á, og gefa þannig ólíkar þýðingar. – Á endanum felst vandinn sem hér um ræðir í því að hér er um tvenns konar merkingu að ræða. Annarsvegar getum við sagt að sú merking sem hægt er að tala um að birtist í málhneigðum manna og breytni, sé einskonarumtaksmerking setninga. Ef okkur á hins vegar að takast að setja saman þýðingartilgátu sem fullnægir öllum okkar þörfum, þá þurfum við að geta gert grein fyrir inntaki setninga eða setningahluta í tungumálinu. Slíkt inntak segir Quine hins vegar ekki aðgengilegt með neinum hætti í málhneigðum manna og breytni.

En nú höfum við ákveðinn hátt á að greina hlutina í okkar eigin tungumáli, sem þá er væntanlega sá háttur sem flytjum yfir á tungumál frumbyggjanna. Ennfremur þá höfum við að því er virðist, komist yfir þessa verufræði tungumálsins á meira eða minna sama máta og málvísindamaðurinn „lærði“ tungumál frumbyggjanna. Við virðumst fyrst og fremst læra tungumálið með því að upplifa beitingu annarra á því, án þess að nota til þess nokkuð annað en það sem málvísindamanninum okkar er aðgengilegt. Við getum vart ætlað annað en honum sé kleift að læra tungumálið á sama máta og barn lærir að tala. Og má þá ekki ætla að með tíð og tíma læri hann þannig þann hátt sem hafður er á aðgreiningu hlutanna í tungumálinu, sem þá væntanlega má aftur gera grein fyrir í okkar eigin tungumáli? Og ef þetta tekst, erum við þá ekki komin með það sem kalla mætti rétta eða óbrigðula þýðingu?

Slík svör duga þó ekki hér, því jafnvel í okkar eigin tungumáli er enginn slíkur gefinn háttur á að aðgreina hlutina eða fyrirbærin sem tungumálið vísar til, í þessari mynd, eiga engu síður við um okkar eigið tungumál en hvaða tungumál annað. Hér gildir það sama og áður að bein reynsluathugun á okkar eigin tungumáli getur ekki staðfest neins konar verufræði tungumálsins. Þetta þýðir þó ekki að tungumál okkar sé óskiljanlegt eða merkingarlaust. Þetta þýðir einungis að verufræði, „heimsskoðun“ eða vísindaleg kenning um náttúru fyrirbæranna, er ekki eiginlegur hluti af merkingu í tungumáli.

Þannig verður þessi merking sem við leitum eftir, afstæð gagnvart heildarskoðun okkar á heiminum. Við getum ekki gert grein fyrir merkingu í tungumáli, eftir þeim leiðum sem hér hafa verið farnar, án þess að gera grein fyrir verufræði tungumálsins. Verufræði þessi er samvaxin heildarskoðun okkar á heiminum og verður ekki fundin eða staðfest með reynsluathugun, sem fyrir Quine er sú eina aðferð sem talist getur vísindaleg í þessum efnum. Þetta verður kannski ljósara ef við lítum til þess sem Quine segir um sannreynslukenningu um skilning á tungumáli, í ritgerð sinni „Tvær kreddur raunhyggjumanna“. Sannreynslukenning um skilning er á þá leið að það að skilja setningu eða staðhæfingu, sé fólgið í því að vita hvað það þýðir fyrir veruleikann í kringum okkur ef staðhæfingin er sönn. Með öðrum orðum þá skiljum við setninguna ef við vitum hvernig við getum staðfest hana eða hnekkt. Quine víkur að þessari kenningu, þegar hann gagnrýnir smættarhyggjukredduna, sem hann kallar svo, og segir meðal annars:

Smættarhyggjukreddan helst við lýði þegar gert er ráð fyrir að með einhverju móti sé hægt að staðfesta sérhverja staðhæfingu eða hnekkja henni í einangrun frá öðrum. Gagntillaga mín sem einkum á rætur í kenningu Carnaps um efnisheiminn í Rökgerð heimsins, er að staðhæfingar okkar um heiminn þurfi ekki að standast dóm skynreynslunnar hver í sínu lagi, heldur einungis sem samstæð heild. […] Hugmyndin um að skilgreina tákn í samhengi var, eins og að var vikið, framför frá hinni vonlausu raunhyggju Lockes og Humes sem bundin var við að staðfesta einstök heiti. Frá og með Bentham var farið að líta á staðhæfingar fremur en heiti, sem þær einingar sem gagnrýni raunhyggjumanna beindist að. En það sem ég held nú fram er að jafnvel með því að gera staðhæfingar að grunneiningum höfum við riðið netið of þétt. Á endanum eru það ekki einstakar staðhæfingar, heldur vísindin í heild sem þurfa að koma heim og saman við reynsluna.9

Afstaða þessi hefur verið kennd við heildarhyggju, sem raunar er titill sem hugmyndir Davidsons hafa einnig verið felldar undir. En af öllu þessu sprettur að ef sníða á áreiðanlega reynslukenningu um merkingu, verðum við að sættast á að handan áreitismerkingar setninga og þess sem leiða má beint af henni, er ekkert það að finna sem kalla má áreiðanlega merkingu. Þennan vanda leysum við með tilgátum, sem vissulega eru ekki alveg úr lausu lofti gripnar, og með því að setja upp einhvern ramma fyrir tilvísun í tungumálinu. En eftir stendur að tilvísunarrammi þessi er og verður aldrei meira en tilgáta og ef marka má Quine er ekkert sem útilokar að til sé önnur slík tilgáta jafn góð en þó ólík okkar. Í þessum efnum erum við þess ekki umkomin að finna eitt né neitt sem skorið getur úr um hvort tilgáturnar eru réttar eða rangar. Eða eins og Quine segir:

Hinn endanlegi orðalisti er augljóslega dæmi um ex pade Herculem. En þó er þar munur á. Er við kennum Hercules af fætinum eigum við á hættu að okkur skjátlist, en við getum huggað okkur við þá staðreynd að til er eitthvað sem okkur getur skjátlast um. Hvað orðalistann varðar […] er ekki um neitt slíkt að ræða; það er ekkert að finna sem höfundur orðalistans getur haft á réttu eða röngu að standa um.10

Sannkjarakenning um merkingu

Hvert erum við þá komin í þessari viðureign okkar við merkingu í tungumáli? Ég sagði hér að framan að tungumálið væri máttugasta tólið sem maðurinn hefði á valdi sínu og að svo virtist sem máttur þess fælist fyrst og fremst í þeim eiginleika þess að geta flutt boðskap um heiminn manna á milli. Kenning um merkingu verður með einhverjum hætti að gera grein fyrir því hvernig við nálgumst þennan boðskap eða skiljum hann. Til þessa hefur hins vegar næsta fátt komið fram sem leyst gæti úr slíkum vanda. Áreitismerking setninga virðist illa til þess fallin og það sem kom í framhaldi af henni virðist litlu betra. Raunar má segja að flest sem hér hefur verið rakið hafi snúist fyrst og fremst um að sýna fram á hvar kenningu um merkingu sleppi; hvar hún komi að þeirri hindrun sem hún á endanum kemst ekki yfir.

En er þá engin von til að okkur takist að gera grein fyrir því á annan veg hvernig merkingu í tungumáli er háttað. Donald Davidson gerir tilraun í þá átt og við skulum nú líta til þess sem hann hefur fram að færa. Davidson, líkt og Quine, vill móta kenningu um merkingu í anda raunhyggju, og af því leiðir, í samræmi við það sem rakið hefur verið hér að framan, að sú merking sem horfa verður til er umtaksmerking setninga. Annað skilyrði sem Davidson setur kenningu um merkingu höfum við einnig rekist á hér áður, en það er að kenningin verður að gera grein fyrir því hvernig við getum með tiltekinn orðaforða og takmarkað safn af reglum, skilið hverja og eina af ótölulegum fjölda merkingarbærra setninga í tungumáli. Kenningin verður, með öðrum orðum, að gera grein fyrir því hvernig merking setninga veltur á merkingu orða eða setningarhluta.11

Sú kenning sem við fyrstu sýn virðist vænlegust til að uppfylla þetta skilyrði, er án efa sú sem húr að framan var kennd við goðsögn. Það er sú kenning að orðin merktu eða stæðu fyrir hluti, eiginleika þeirra og tengsl þeirra innbyrðis, og að merking setninga væri síðan sett saman úr merkingum orðanna. Þannig yrði tungumálið nokkurs konar formlegt kerfi, sem drægi upp myndir af aðstæðum í veruleikanum eftir ákveðnum reglum. Það virkaði þannig líkt og stafrófið, sem segja má að dragi á skipulegan hátt upp myndir af málhljóðum eða orðum.

Við höfum þegar séð hverja útreið slík kenning fékk hjá Quine, og Davidson kemst að svipuðum niðurstöðum um þau efni; að okkur dugi ekki að leita einhvers konar huglægra fyrirbæra sem tiltaka mætti sem merkingu (inntak) orða og setningarhluta og skeyta síðan saman í merkingu setninga. Því leitar hann annarra leiða.

Það sem fyri honum verður er sanngildi setninga í tungumáli: það að vita hvað það er fyrir setninguna að vera sönn, er að skilja hana og þar með vita hvað hún merkir. Þessu svipar til þess sem Wittgenstein hafði fram að færa í myndakenningunni sem getið var hér að framan. Í myndakenningunni urðu hinir einstöku hlutar myndanna skiljanlegir sökum þess að við þekktum notkun þeirra af öðrum myndum, og myndirnar sem slíkar virtust einungis verða skiljanlegar af því að ákveðnar venjur giltu um beitingu hinn einstöku hluta þeirra. Í þessa sömu veru segir Davidson á einum stað:

Við afréðum hér að framan að gera ekki ráð fyrir að hinir einstöku hlutar setningar hafi merkingu, nema í þeim verufræðilega hlutlausa skilningi að þeir auki á skipulegan hátt við merkingu þeirra setninga sem þeir birtast í. […] Eitt af því sem af þessu kann að spretta er ákveðin heildarhyggja um merkingu. Ef merking setninga veltur á byggingu þeirra, og við skiljum merkingu sérhvers hluta þeirrar byggingar einungis sem sértekningu frá heild þeirra setninga sem hann birtist í, þá getum við einungis gefið merkingu setningar (eða orðs) með því að gefa merkingu allra setninga (og orða) í tungumálinu. Frege sagði að einungis innan samhengis setningar hafi orð merkingu; á sama veg gæti hann hafa bætt við að einungis innan samhengis tungumáls hafi setning (og þar af leiðandi orð) merkingu.12

Ef við nú stöndum nánast í sömu sporum og í upphafi þessarar umfjöllunar, hvar getum við þá leitað leiða til að nálgast merkingu frekar? Ég hef þegar nefnt að Davidson lítur til sanngildis setninga í tungumáli í leit að merkingu og hann leitar enn á þau mið eftir lausn á þessum vanda. Hann segir: „Kenning um merkingu í tungumáli L sýnir hvernig merking setninga veltur á merkingu orða ef hún inniheldur skilgreiningu á sannleika-í-L.“13 Síðan segir hann:

Kenningin afhjúpar ekkert nýtt um skilyrði þau sem afhjúpa þarf ef einstök setning á að vera sönn; hún gerir þau skilyrði engu ljósari en setningin gerir sjálf. Virkni kenningarinnar liggur í því að tengja kunn sannkjör sérhverrar setningar við þá hluta („orð“) setningarinnar sem birast í öðrum setningum, og eigna má sambærilegt hlutverk í öðrum setningum.14

Þessi hugmynd er sem slík alls ekki svo flókin. Það er næsta auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig tengja má sannkjör setningar og merkingu, eða kenningu um sannleika og kenningu um merkingu. Ef við til að mynda lítum enn og aftur til þýðinga, og nú í ljósi sannkjara, þá blasir við að ef merkingin er á einhvern máta bundin sannkjörum, þá blasir við að ef merkingin er á einhvern máta bundin sannkjörum, og unnt er að tiltaka sannkjör setninga á einu tungumáli, ætti að vera unnt án verulegra vandræða að tiltaka fyrir hverja setningu tungumálsins setningu á öðru máli sem hefði sömu sannkjör. Það má vera að sú þýðing sem þannig fengist væri kannski ekki sú eina rétta, en hún væri hins vegar eins rétt og nokkur þýðing gæti orðið. Af því leiðir hins vegar ekki að við værum þar með aftur komin með þýðingabrigði inn í myndina, heldur gæti þar verið um að ræða nokkuð sem okkur er öllum kunnugt, sem sé að oftar en ekki er unnt að þýða setningar á ólíka vegu án þess að við sjáum að innihald þeirra skolist á nokkurn hátt til.

Á hinn bóginn er ekki eins ljóst hvernig ætla má að í kenningu um sannleika sé unnt að tiltaka sannkjör setninga þannig að kenningin skýri hvernig þessi sannkjör hvíla á byggingu setninganna.15 Davidson telur þó með því að taka tungumálið þessum tökum, geti hann skýrt hvernig við getum með tilteknum orðaforða og tilteknu safni af reglum, skilið hverja og eina af ótölulegum fjölda setninga í tungumáli. Og þetta reynir hann að gera án þess að fjalla að nokkru marki um tilvísun einstakra orða og jafnvel án þess að fara mörgum orðum um merkingu sem slíka. Þó má draga þá ályktun að merking setninga felist í því að tengja megi þær ákveðnum staðhæfingum sem gera mætti grein fyrir eða setja fram í ákveðnu formlegu, nákvæmlega skilgreindu tungumáli, nokkurs konar yfirtungumáli. Það sem til þarf í kenningu um merkingu er því einhvers konar formlegt kerfi fyrir sannkjör í tungumálinu, sem þá dugar til að gera grein fyrir því hvað það er fyrir hverja setningu að vera sönn. Kerfið sem slíkt kveður ekki á um það hvernig við göngum úr skugga um hvort setning er í samræmi við veruleikann eða ekki. Það bætir engu við þekkingu okkar á því sem til þarf ef setning á að vera sönn. Þess í stað kveður kerfið á um byggingu setninga í tungumálinu og hvernig má ráða af þeirri byggingu ákveðin skilyrði þess að setning sé sönn. Þá er kerfi þetta ekki heldur á neinn hátt skilyrði þess að við skiljum tungumálið, það er við þurfum ekki að þekkja neitt slíkt kerfi til að skilja tungumálið, enda er það svo að enginn hefur yfir nokru slíku kerfi að ráða.

Einn vandinn sem blasir við ef við reynum að gera grein fyrir merkingu í tungumáli á þennan veg er sá að ekki nema tiltölulega lítill hluti setninga í tungumáli er þannig að unnt sé að tiltaka sannkjör þeirra. Fjöldi setninga hefur ekkert sanngildi og því engin sannkjör. Þetta er vandi sem raunar má segja að birtist bæði í myndakenningunni sem nefnd var hér að framan og í rannsóknum málvísindamannsins hjá Quine. Davidson vill leysa þennan vanda með því að við gerum fyrst grein fyrir þeim setningum sem hafa sanngildi, og skilgreinum sannkjör þeirra. Síðan eru aðrar setningar paraðar við þessar setningar í ljósi hinna einstöku setningarhluta sem þá hafa öðlast hlutverk sitt í greiningu okkar á sannkjörum. En jafnvel þó að við næðum þetta langt í því að smíða slíka kenningu um merkingu, verður í fljótu bragði ekki séð að við séum komin ýkja langt frá hugmynd þeirri sem Quine réðist á hér í upphafi. Við verðum á einhvern máta að þekkja tungumálið í heild sinni áður en við getum vænst þess að geta gert grein fyrir því hvernig hinir einstöku hlutar þess virka, og því er engan veginn augljóst að við séum komin fram hjá þeim aðfinnslum sem Quine hafði fram að færa gegn hversdagslegum skilningi okkar á tungumálinu; við getum enn ekki sagt að fullu skilið við þýðingabrigði í einhverri mynd.

Davidson talar um þrenns konar brigði sem birtast í kenningu Quines og sem ætla mætti að spryttu í kenningu um merkingu:

Í fyrsta lagi gæti verið um sannleiksbrigði að ræða; til gæti verið þýðingartilgáta (eða kenning um merkingu) fyrir tungumál, sem samræmdist öllu sem af reynsluathugn á málinu sprytti, sem telur ákveðna setningu sanna, og síðan önnur jafn aðgengileg kenning sem ekki telur þessa sömu setningu sanna. […]
Í öðru lagi gæti rökform verið óákvarðað; munur gæti verið á því hvað tvær fullnægjandi kenningar teldu vera einnefni, magnara eða umsagnir, eða jafnvel á sjálfri rökfræðinni sem byggt væri á.
Í þriðja lagi er mögulegt, jafnvel þó rökform og sanngildi væru óbrigðul, að tvær jafn aðgengilegar kenningar væru ólíkar hvað varðar tilvísun þá sem þær eignuðu sömu orðum eða setningarhlutum.16

Davidson vísar engum af þessum brigðum á bug. Af ýmsum ástæðum vill hann þó draga nokkuð úr umfangi þeirra tveggja fyrri. Til að mynda vill hann líta til fleiri þátta en áreitismerkingar setninga í glímu sinni við tungumálið, svo sem ákveðinna skoðana, langana, ætlana eða óska sem við komumst vart hjá að eigna þeim sem tala málið sem rannsaka á. Þá setur yfirtungumálið eða kerfið fyrir sannkjör, ákveðinn ramma fyrir túlkun á rökformi setninga, þannig að rökform yfirtungumálsins er á vissan máta lesið inn í tungumálið sem túlka á. Það eru hins vegar fyrst og fremst þriðju og síðustu brigðin sem varða okkur hér. Quine telur tilvísunina sem lesin er inn í tungumál, afstæða gagnvart þýðingartilgátu, eða jafnvel gagnvart verufræði sem síðan er afstæð gagnvart einhverju utan hennar – verufræðin sem Quine nefnir hér til sögunnar er sprottin af heild vísinda og heimsskoðunar og þýðingabrigðin spretta að endingu af því að þessi heild vísindanna er ekki og verður aldrei ákvörðuð í öllum atriðum.

Þarna vill Davidson fara nokkuð aðra leið. Hann er að vísu sammála því að tilvísun einstakra orða sé sem slík órannsakanleg, en lítur hins vegar ekki á það sem nokkra lausn á þeim vanda að gera hana afstæða gagnvart vali á verufræði, eða skýra hana á annan veg með verufræðilegu afstæði. Því segir hann:

Þegar hann [Quine] segir að við getum á merkingarbæran og ákvarðandi máta talað um kanínur og kanínuhluta, en þó einungis afstætt gagnvart tilvísunarramma, þá segir slíkt í raun engu meira en að þegar við tölum á þennan hátt þá hljótum við að vera að tala tungumál sem við kunnum. Það er hins vegar fulljóst að það eitt býður hvorki heim né leggur grunninn að því að við getum tiltekið nákvæmlega gagnvart hverju tal okkar er afstætt. Við getum eins og Quine segir, gert grein fyrir þessu afstæði ef við hörfum yfir í annað tungumál, en ef slíkt er nauðsynlegt einu sinni þá verður það alltaf svo, sem leiðir til vítarunu. Sé svo þá er verufræði ekki einasta „endanlega órannsakanleg“, heldur verður allt tal um tilvísun, hversu afstæð sem hún kann að vera, viðlíka merkingarsnautt og „Sókrates er hærri en“.17

En eigum við þá engra kosta völ til að gera grein fyrir tilvísun í tungumáli? Ef svo er hvernig má þá ætla að okkur takist að móta kenningu um merkingu? Ef við þannig vísum því frá að það dugi okkur að festa tilvísun með hreinum tilgátum (um orðalista) eða með því að hengja hana utaná hugmyndaheim manna eða verufræði, getum við þá leitað eitthvað annað? Sú lausn sem Davidson hefur hér fram að færa, hefur þegar verið nefnd. Hún er fólgin í því að gera ekki ráð fyrir að orð hafi merkingu (eða tilvísun) nema í þeim verufræðilega hlutlausa skilningi að þau auki á skipulegan hátt við merkingu setninga sem þau birtast í. Þannig verða hvort heldur er sanngildi setninga eða tilvísun einstakra setningarhluta afstæð gagnvart tungumálinu í heild.18 Þannig telur Davidson að greinargerð fyrir tilvísun sé ekki nauðsynlegur þáttur í kenningu um sannleika-í-tungumáli; hann telur unnt að móta merkingarfræðilega skilgreiningu á sannleika í tungumáli, sem sýni hvernig merking setninga velti á merkingu orða, án þess að í þeirri skilgreiningu sé að finna greinargerð fyrir tilvísun. Því er það að við leitum ekki í reynslunni staðfestingar á því að tilvísun orðs sé ein fremur en önnur, heldur reynum við að koma reynslunni í heild sinni heim og saman við merkingarkenning (sannleikskenningu) fyrir tungumálið. Þannig getum við ef við viljum tala um eitthvert afstæði í þessum efnum, sagt að merking sé afstæð gagnvart tungumálinu, við getum ekki, eins og kom fram hér að framan, gert grein fyrir merkingu hinna einstöku hluta tungumáls nema með því að gera grein fyrir merkingu tungumálsins alls. Tal um slíkt afstæði segir hins vegar næsta lítið sem ekki hefur alltaf blasað við. Davidson segir síðan:

Þessi hugmynd um það hvernig móta skuli merkingarkenningu er í grundvallaratriðum sprottin frá Quine. Það sem ég hef aukið við grunnhugmyndir Quines, er sú hugmynd að kenningin skuli taka sig mynd sannleikskenningar. Geri hún það, getum við á ný litið svo á að bygging setninga samanstandi af einnefnum, umsögnum og mögnurum, sem gegna venjulegu verufræðilegu hlutverki. Tilvísun fellur hins vegar fyrir borð. Hún gegnir engu nauðsynlegu hlutverki í að skýra tengslin milli tungumáls og veruleika.19

Lokaorð

Því fer fjarri að einhugur ríki um gildi kenninga þeirra Quines og Davidsons um merkingu. Menn eru jafnvel ekki á eitt sáttir um hvaða þýðingu þær myndu hafa ef þær stæðust, það er hvaða ályktanir bæri að draga af þeim. Af þeim kenningum sem hér hafa verið nefndar, má segja að einna meistur einhugur ríki um myndakenninguna og þá um það að sú kenning dugi okkur ekki til að gera grein fyrir merkingu í tungumáli.20

Við sáum hér að framan hverja útreið myndakenningin, sem ég leyfði mér að segja að svipaði til hversdagslegs skilnings á tungumáli og merkingu, fékk hjá Quine þegar við urðum vitni að því hvernig vandræði málvísindamanns Quines byrjuðu fyrir alvöru um leið og hann þurfti að grípa til einhvers sem svipaði til þessarar kenningar. Um leið var þó ljóst að málvísindamaðurinn hafði ekkert annað að grípa til. Eina leiðin sem honum virtist fær til að setja saman þýðingartilgátu sem dygði til að þýða allar setningar tungumálsins sem glímt var við, var að opna með einhverjum hætti leið að merkingu eða inntaki orða eða setningarhluta, og greina síðan hvernig merking setninga yrði til úr þessum smærri merkingareiningum. Þetta skref, sem segja má að sé á milli umtaksmerkingar setninga og inntaks orða og setningahluta, reyndist hins vegar ekki hægt að staðfesta með neinum áreiðanlegum hætti.

Ef við síðan lítum til þess sem Davidson segir, þá virðist jafnvel sem eitthvað svipað sé uppi á teningnum þar. Davidson reynir að gera grein fyrir því hvernig móta má merkingarkenningu sem við getum staðfest að einhverju marki, án þess að við þekkjum nákvæmlega ætlanir manna með orðum sínum, eða hvað þeim býr í hug. Þetta gerir hann með því að reyna að sýna fram á hvernig orðin öðlast merkingu sína af málinu sjálfu, málinu í heild sinni og notkun þess. Með því móti kemst hann hjá því að tala um tilvísun eða inntak einstakra orða, en við getum tæpast gert ráð fyrir öðru en að málið, í heild sinni, vísi á einhvern veg til heimsins. Og sannkjör setninga hljóta einnig að vera að einhverju leyti undir heiminum komin. Þannig er ósennilegt að okkur takist að gera grein fyrir sannkjörum allra setninga sem innihalda orðið „snjór“ án þess að nefna snjó til sögunnar. Tilvísunin sem hér er á ferðinni hefur vissulega tekið á sig nýjan búning, en að hún sé fallin fyrir borð er ekki eins ljóst. Ýmis önnur atriði valda því síðan að kenningu Davidsons virðist svipa til myndakenningarinnar. Hún þarfnast einhvers konar kerfis sem kveður á um hvernig raða má setningunum saman, eða hvernig ráða má í byggingu þeirra, og ef slíkt kerfi á að finnast getum við ekki leitað annað en til tungumálsins sjálfs og beitingar þess. Við verðum að reisa þetta kerfi á þeim venjum sem við þykjumst sjá að verki í tungumálinu.

Á endanum kann svo að fara að við getum sagt um myndakenninguna að til að við gætum gert endanlega grein fyrir hlutverki einstakra hluta myndanna, það er orðanna, yrðum við að þekkja tungumálið í heild sinni eða gera grein fyrir merkingu tungumálsins alls. Þegar þar er komið er stutt yfir í það að segja að orðin öðlist merkingu sína, ekki af því að þau vísi einmitt til þessa eða hins heldur af því að þetta sé einmitt það hlutverk sem þeim var ætlað að gegna í heild tungumálsins. Þar með værum við komin með kenningu sem í flestum atriðum væri samhljóða myndakenningunni – nema hvað hún gerði ekki grein fyrir tilvísun að neinu marki.

Hér er ég ekki að reyna að halda fram að kenningar þeirra Quines og Davidsons séu rangar, eða að þeir endi í sömu sporum og þeir hófu ferð sína. Að líkindum stendur það sem þeir halda fram, að myndakenningin eins og hún birtist hjá Wittgenstein, eða í hversdagslegum skilningi manna á því hvernig tungumálið virkar, sé fallin sem vísindaleg reynslukenning um tungumál og merkingu – það er næsta ljóst að ef takast á að setja fram kenningu um merkingu, sem uppfyllir kröfur þeirra, þá verðum við að losna við allt úr henni sem nefna má tilvísun eða inntak. En hugmyndin að baki myndakenningunni er fjarri því að vera fráleit – hún er fremur næsta augljós – og á endanum kann svo að fara að við komumst ekki ýkja langt frá henni hvað sem við reynum.

 

Tilvísanir

1. W.V. Quine, Philosophy of Logic, 2. útg. (Harvard University Press, Cambridge 1985 [1. útg. 1970]), s. 1.

2. Ensk þýðing Pears & McGuinnes (Routhledge & Kegan Paul, London 1981 [fyrst gefin út á þýsku 1921]). Háttur tilvísana fylgir hér málsgreinamerkingu Wittgensteins, eins og venja er.

3. W.V. Quine: „Ontological Relativity“ í Ontological Relativity and Other Essays (Columbia University Press, New York 1969), s. 27.

4. Sama rit, s. 27.

5. Sama rit, s. 29.

6. „The Problem of Meaning in Linguistics“ í From a Logical Point of View, 2. útg. (Harvard University Press, Cambridge 1980 [1. útg. 1953]), s. 47–8.

7. Nákvæma greinargerð fyrir því hvernig þessi rannsókn eða þýðing fer fram, er að finna í 2. kafla bókar Quines Word and Object. Það gerir hann einnig nákvæmari grein fyrir flokkun setninga eftir gerð þeirra og fleiri atriðum sem horft er framhjá hér.

8. „The Problem of Meaning in Linguistics“, s. 61.

9. Tvær kreddur raunhyggjumanna“, s. 50 og 51 í þessu hefti.

10. „The Problem of Meaning in Linguistics“, s. 63.

11. Davidson hefur skrifað fjölda ritgerða um merkingarkenningu sína, eða um það hvernig ætla mætti að hún yrði til. Tvær þessara ritgerða gefa nokkuð gott yfirlit yfir kenninguna, en það eru ritgerðirnar „Truth and Meaning“ og „Radical Interpretation“. Þessar ritgerðir er að finna í ritgerðasafni Davidsons Inquiries into Truth and Interpretation, og þar eru einnig aðrar ritgerðir sem taka nánar á stökum þáttum kenningarinnar.

12. Donald Davidson: „Truth and Meaning“ í Inquiries into Truth and Interpretation, s. 22.

13. Sama rit, s. 23.

14. Sama rit, s. 25.

15. Davidson byggir í þessum efnum á grunni sem hann sækir til Alfreds Tarskis og kenninga hans um sannleikann. Verkið sem vinna þarf er að tiltaka fyrir hverja setningu p í tungumáli, samsvarandi setningu á forminu: ‘setningin p er sönn þá og því aðeins að s,’ þar sem s kveður á um sannkjör setningarinnar. Þetta er bersýnilega óvinnandi verk, þar sem fjöldi setninga í tungumáli, jafnvel þó aðeins séu teknar staðhæfingar sem hafa sanngildi, er ótakmarkaður. Því þarf að þrengja hringinn frekar og reyna að finna í málinu grunneiningar, orð og setningar, sem ætla má að séu takmarkaður að fjölda, og setja síðan saman kerfi sem gerir grein fyrir því hvernig má raða þeim grunneiningum saman þannig að útkoman verði sönn setning. – Greinargerð fyrir kenningu Tarskis má finna víða, t.a.m. í ritgerð hans „The Semantic Conception of Truth“ (Philosophy and Phenomenological Research, 4 (1944), s. 341–75); ritgerðin er endurprentuð m.a. í Semantics and the Philosophy of Language, ritstj. Leonard Linski). Útleggingar Davidsons má einnig finna í ýmsum ritgerðum hans, t.a.m. „In Defense of Convention T“ í Inquiries into Truth and Interpretation.

16. „Inscrutability of Reference“ í Inquiries into Truth and Interpretation, s. 228.

17. Sama rit, s. 233–4.

18. Sama rit, s. 240.

19. „Reality without Reference“ í Inquiries into Truth and Interpretation, s. 225.

20. Vert er að nefna það hér að Wittgenstein, sem hér var nefndur til sögunnar sem málsvari myndakenningarinnar, hafnar kenningunni sjálfur í öllum síðari verkum sínum.

 

« Til baka

Skilningur er eftirsóknarverður í sjálfum sér

Viðtal Mikaels M. Karlssonar við W.V. Quine í tilefni komu Quines til Íslands árið 1980 (Hugur 3.–4. ár. 1990/1991, s. 17–29)

Kannski ég megi byrja á persónulegri spurningu. Hvernig fenguð þér fyrst áhuga á heimspeki?

Fyrstu sporin voru ugglaust efasemdir um þann kristindóm sem ég var alinn upp við; það hafa margir þá sögu að segja. Við þetta bættist snemma dálæti á sögum og kvæðum eftir Edgar Allan Poe. Ég las hvern stafkrók, þar á meðal undarlega og oflátungslega ritgerð sem heitir „Eureka“. Hún er mjög ábyrgðarlaust plagg sem hefur hneykslað mig á síðari árum. En hún kveikti í mér forvitni um eðli alheimsins, eðli hlutanna. Þeirri forvitni hefði ég eins getað svalað með því að leggja stund á eðlisfræði og stjörnufræði fremur en heimspeki. En heimspekin varð ofan á, kannski vegna þess að mér leiddist öll verkleg eðlisfræði í skóla og stóð mig illa í henni.

Samt var heimspeki ekki eina áhugamálið, fjarri því. Allt frá bernsku og til þessa dags hef ég haft brennandi áhuga á landafræði. Og af einhverjum ástæðum fékk ég líka snemma feiknlegan áhuga á uppruna orða, orðsifjum, og tók að fletta upp í orðabókum og lesa bækur um málsögu. Loks var stærðfræði mín besta námsgrein í skóla, og ég velti því fyrir mér að gerast stærðfræðingur.

Eftir fyrsta háskólaárið þurfti ég að gera upp hug minn. Kostirnir voru þrír: málvísindi, sem á þeim tíma jafngiltu fornfræði, latínu og grísku, þá stærðfræði og loks heimspeki. Ég kynntist þá eldri stúdent sem las ensku, og hann var nógu vel að sér til að gera frætt mig á því að Bertrand Russell hefði skrifað um „stærðfræðilega heimspeki“. Þar virtust tvö áhugamál mín af þremur komin – meirihlutinn – svo að ég ákvað að lesa stærðfræði með „stærðfræðilega heimspeki“ sem sérgrein. „Stærðfræðileg heimspeki“ reyndist vera rökfræði.

Svoleiðis grein var nú ekki kennd í mínum háskóla heima í Ohio á þeim árum, en prófessorinn minn talaði við einhverja starfsbræður sína í öðrum háskólum og fékk hjá þeim bókalista. Svo að rökfræði varð mitt fyrsta alvarlega viðfangsefni, en áherslan var öllu meiri á stærðfræðiþáttinn en hinn heimspekilega. En svo fór ég til framhaldsnáms við Harvardháskóla, og þar innritaðist ég í heimspeki því að Whitehead var heimspekingur, og hann var meðhöfundur Russells að Principia Mathematica sem ég dáði meira en aðrar bækur. Eftir þetta tók eiginleg heimspeki að leita meira á hugann.

Mér þótti fróðlegt að heyra, að áhugi yðar á heimspeki hefði fyrst kviknað af efasemdum um kristindóm. En nú hafið þér eingöngu lagt stund á rökfræði, heimspeki málsins, þekkingarfræði og frumspeki. Þér virðist alveg hafa leitt hjá yður siðfræði, stjórnspeki, fagurfræði og trúarheimspeki. Hvers vegna?

Af trúarheimspeki er einfalda sögu að segja. Ég hafnaði allri trú, með þeim afleiðingum að ég hafði ekki haft um annað að hugsa þar sem trú er annars vegar, en hvaða orsakir liggja til trúarbragða í sálarlífi og félagslífi manneskjunnar. Og það er ekki heimspekilegt viðfangsefni.

En höfnuðuð þér trú á heimspekilegum forsendum, eða . . .

Já, á heimspekilegum forsendum: þeim að trú styðjist ekki við rök.

Hvað um hitt sem ég nefndi, til dæmis siðfræði og stjórnspeki?

Já, ég kannast við að siðfræði og stjórnspeki séu mikilsverðar greinar. En mér þótti rétt að setja sjálfum mér takmörk, því að ráðgáturnar sem ég hafði hug á að glíma við voru svo víðfeðmar. Ég komst að raun um að þær snertu málfræði ekki síður en stærðfræði. Í háskóla hafði ég talið mér trú um að ég hefði snúið baki við málfræði, þótt áhuginn á orðsifjum eltist ekki af mér. En þá kom í ljós að kenningar mínar um eðli mannlegs máls, taldi ég mér trú um, skiptu sköpum um alla heimspeki. Á hinn bóginn gat ég ekki séð að siðfræði hjálpaði mér til að hugsa skýrar um slík vandamál. Ég kaus að sérhæfa mig. Það var ekki að ég teldi siðfræði litlu skipta.

Svo þér hafnið ekki siðfræði, stjórnspeki og fagurfræði sem mikilsverðum greinum heim­spekinnar?

Nei, vissulega ekki siðfræði og stjórnspeki. Um fagurfræði el ég með mér efasemdir. Ég held að list og fegurð séu mikilsverð sálfræðileg viðfangsefni fremur en heimspekileg, ég veit ekki af neinum heimspekilegum gátum um list og fegurð sem vert sé að glíma við. Kannski ég væri annarrar skoðunar ef ég vissimeira um efnið.

Þér nefnduð það í fyrirlestri yðar hjá Félagi áhugamanna um heimspeki – og hafið raunar oft vikið að því áður – að þér teljið engan eðlismun vera á heimspeki og vísindum: heimspeki sé einmitt sú grein vísindanna, sem sértækust er.

Rétt er það.

En hvernig getið þér talið siðfræði og stjórnspeki vera vísindagreinar, aðeins mjög sértæk vísindi?

Þarna var góð spurning. Ég held hún sýni að ég verði að draga svolítið í land um að heimspeki sé vísindagrein.

Heimspeki af því tæi sem ég iðka er ekkert annað en mjög óhlutbundin, sértæk vísindi. Siðfræði er svolítið annað, þó að sumt sé líkt með henni og vísindalegri heimspeki. Til að mynda aðferðirnar sem beitt er. Siðfræðingur leitar að alhæfum reglum mannlegs siðferðis, reglum sem leiða má af sérhæfari reglur sem maður fylgir fyrir. Þessi viðleitni er dæmigerð fyrir alla heimspki, og raunar fyrir vísindi líka. Á hinn bóginn sé ég enga leið til að fást við spurningar um verðmæti eins og spurningar um eðli heimsins.

Svo að þér gerið greinarmun á tvenns konar heimspeki: vísindalegri heimspeki og verðmæta­heimspeki. Og þér teljið að þeim séu aðferðir að nokkru leyti sameiginlegar. En hvað er það þá helst sem á milli ber?

Meginmunurinn held ég að sé sá að í vísindum höfum við forsagnir sem við síðan berum saman við staðreyndir, en í siðfræði getur maður á endanum ekki byggt á öðru en sínu eigin verðmæta­mati. Þessu fylgir að í siðfræði hljótum við fremur að styðjast við samkvæmniskenningu um sannleikann en samsvörunarkenningu.

Þetta er stórfróðlegt. Það væri gott að þér skrifuðuð bók um þetta síðasta atriði.

Ég hef birt litla ritgerð sem snertir þetta, en mér finnst hún lítið segja nema sjálfsagða hluti. Hún heitir „Um eðli siðferðilegra verðmæta“ – „On the Nature of Moral Values“. Hún kom í ritgerðar­safni sem var tileinkað þeim Stevenson, Brandt og Frankena fyrir þremur árum, útgefnu af Michiganháskóla. Og svo var hún endurprentuð í Critical Inquiry.

Í framhaldi af því sem þér sögðuð um vísindaheimspeki og verðmætaheimspeki ætti ég kannski að spyrja yður hvað vísindi séu að yðar áliti. En það er alltof stór spurning; má ég ekki heldur spyrja hver þér teljið vera höfuðmarkmið vísindanna? Skilning, forsögn um framtíðina, vald yfir náttúrunni? Eða allt þetta?

Vísindi þjóna, held ég, tvennum tilgangi: annars vegar er skilningur, hins vegar vald yfir umhverfinu. Og þetta tvennt helst í hendur. Forsagnir eru ekki markmið í sjálfu sér; þær eru prófsteinn á gildi vísindalegrar kenningar. En auðvitað er náið samband milli forsagna og valdsins.

Teljið þér að skilningur sé eftirsóknarverður í sjálfum sér? Mundi skilningur gefa vísindunum gildi jafnvel þótt hann veitti ekkert vald?

Já, skilningur er eftirsóknarverður í sjálfum sér – á sama hátt og siðferði. Og ég held að á þessu megi finna sálfræðilega skýringu, á endanum kannski með tilvísun til þróunar mannkynsins. Þetta yrði orsakaskýring á því siðferði sem við búum við, og á ástríðu okkar til að vita og skilja. En bæði siðferði og skilningur eru endanleg verðmæti: við getum gefið á þeim orsakaskýringar, en þau verða ekki réttlætt frekar.

Eru orsakaskýringar helsta keppikefli vísindanna? Ég spyr vegna þess að margir heimspekingar hafa þá hugmynd um vísindalega aðferðafræði að réttnefnd vísindaleg skýring hljóti að vera orsakaskýring.

Mér virðist þetta skynsamleg skoðun. En vitaskuld er orsakarhugtakið torrætt, og fremur óljóst. Sjálfur held ég að kjarni orsakarhugtaksins sé hugmyndin um flutning orku. Þar með verður orsakarhugtakið vísindalegt hugtak fyrst og fremst. En það tilheyrir ævafornum og frumstæðum hluta vísindanna, og ég á hægt með að hugsa mér að heimsmynd vísindanna breytist þannig að orsakarhugtakið hætti að skipta máli. En eins og nú standa sakir er það eitt höfuðhugtak vísindanna.

Hvað um svonefnd félagsvísindi – sálarfræði, félagsfræði, stjórnfræði, mannfræði? Eru þetta vísindi í yðar skilningi?

Já, vissulega. En þar fyrir eru ekki öll vísindi jafngóð: í mörgum greinum vantar mikið á að nákvæmniskröfum sé hlítt, og af því ræðst vísindalegt gildi þessara greina.

Margir trúa því, eins og þér vitið, að djúp sé staðfest milli félagsvísinda og náttúruvísinda – einn er Peter Winch, höfundur Hugmyndarinnar að félagsvísindum sem er nýkomin út á íslensku. Bæði eiga aðferðirnar að vera gerólíkar, svo og viðfangsefnin. Hafið þér eitthvað um þetta að segja?

Já, túlkunarfræðingarnir. Ég man eftir langri og skemmtilegri ritgerð eftir Wolfgang Stegmüller í München; hún er í bók hans Rationale Rekostruktion. Þar fjallar hann annars vegar um kvæði eftir þýska miðaldaskáldið Walter von der Vogelweide og hins vegar um dulstirni, sem er ein af nýlegum og heldur torræðum uppgötvunum stjörnufræðinnar. Stegmüller færir að því hnyttin rök að deilurnar um túlkun þessa miðaldakvæðis – sem eru dæmigerðar fyrir allt það sem túlkunar­fræðingar telja einkenna mannleg fræði en ekki náttúruvísindi – séu nauðalíkar ágreiningi stjarneðlisfræðinga um dulstirni. Og af þessu dregur Stegmüller þá ályktun að það sé enginn eðlismunur hér: önnur eins nákvæmnisvísindi og stjörnufræði eru á sama báti og mannleg fræði. Þessi ritgerð þótti mér sannfærandi.

Þér nefnduð „túlkunarfræðinga“. Hafið þér myndað yður skoðun á þeirri heimspeki sem iðkuð er á meginlandi Evrópu? Á Husserl, Heidegger og Sartre, til dæmis?

Já. Ég kemst ekkert áleiðis með Husserl; ég hef reynt við rökfræðirit hans, Logische Unter­suchungen. Vandinn er sá að ég skil ekki leikreglurnar þegar allt er reist á sjálfskoðun. Það vantar alla ytri skírskotun. Orð velta á öðrum orðum, og fyrr en varir taka hugtökin að svífa í lausu lofti. Og þetta á við um fyrirbærafræði almennt.

Jafnframt kannast ég við að ráðgáturnar sem Husserl var að glíma við eru að mestu leyti hinar sömu og ég hef fengist við. Og það er eins víst að einhver sem ratar betur en ég um sjálfskoðunarmýrarnar hans geti fundið margt hjá honum sem varpar ljósi á mínar kenningar, eða hjá mér sem varpar ljósi á Husserl.

Svo þér forkastið ekki fyrirbærafræði eins og margir rökgreiningarheimspekingar hafa gert?

Nei, ekki alveg. En ég er fullur efasemda. Og hvað tilvistarstefnuna varðar hef ég aldrei getað lesið Heidegger. Sami vandinn verður fyrir mér: þrotlaus leikur að orðum, verri en hjá Husserl.

Einu sinni las ég bók eftir William Barrett, Irrational Man. Ég þekkti Barrett; þá var hann lærisveinn Rudolfs Carnap eins og ég. Við vorum saman í flokki ungra „pósitívista“; alla vega vorum við hallir undir „pósitívista“, að minnsta kosti var Barrett það. Og svo gerðist hann ákafur tilvistarspekingur. Ég hugsaði með mér að enginn væri betur til þess fallinn en fyrrverandi „pósitívisti“ til að gera mér tilvistarstefnuna skiljanlega.

En þegar ég las bókina – mestalla – sá ég að mér hafði skjátlast. Hér var vandinn sá að allt sem Barrett hafði að segja voru sjálfsagðir hlutir. Undirtónninn var svartsýni og tómhyggja: „Til hvers lifum við lífinu? Við því er ekkert svar!“ Nú – ég er sammála þessu, en mér virðist það ekki vera uppgötvun sem hægt er að vinna neitt úr.

Kannski var tilvistarstefnan fyrst og fremst bókmenntagrein, eða kveikja að ákveðinni tegund bókmennta. Eins og hjá Sartre sjálfum, eða kannski hjá Iris Murdoch.

Það sem þér segið nú vekur nýja spurningu: Margir halda, bæði á Íslandi og annars staðar, að heimspekingar ættu að hafa eitthvað mikilsvert að segja við hvern mann, eitthvað sem skiptir miklu í daglegu lífi. Hver er yðar skoðun á því?

Mér hefur reynst það erfitt. En það væri gott að geta það. Gilbert Ryle skrifaði litla bók sem ég dáðist mikið að – Ógöngur hét hún, Dilemmas. Hún er mjög alþýðlega skrifuð, og mér þótti Ryle gera ráðgátur heimspekinnar áþreifanlegar fyrir hverjum óbreyttum lesenda. Að vísu fjallar bókin ekki um hvað geri lífið þess virði að því sé lifað. En Ryle gæðir heimspekina lífi. Svo að það er hægt, þó að ég hafi ekki skeytt um það. Kannski ég hafi komist nálægt því í einni ritgerð eða tveimur – um þverstæður rökfræðinnar og undirstöður stærðfræðinnar.

Satt að segja hefur mér ekki fundist að heimspeki af því tagi sem ég stunda eiga mikið erindi við allan þorra manna. Ef forstjóri BBC hefði borið undir mig hvort ráðlegt væri að búa til fimmtán þætti um heimspeki eins og gert var og þeir kallaðir „Men of Ideas“ – einn þátturinn átti að vera viðtal við mig – þá hefði ég ráðið honum frá því. En ég var ekki spurður álits, heldur þáði ég boð um að slást í hópinn eftir að þættirnir voru afráðnir. Og sé ekki eftir því. En mér hefur samt virst að engin ástæða sé til að fólk almennt hafi meiri áhuga á því sem ég fæst við heldur en til dæmis á lífrænni efnafræði. Ég veit vel að lífræn efnafræði er mikilvæg grein, en samt hef ég engan áhuga á henni, og mundi held ég aldrei lesa alþýðlega grein um hana, sama hversu skiljanleg hún væri.

En ef þetta er nú rétt hjá yður, hvers vegna skyldu menn þá verja fé til að iðka og kenna heim­speki?

Þetta er erfið spurning. Á að verja fé til mjög hreinna, sértækra fræða ekki síður en til hinna hlutbundnari og hagnýtari fræða?

Ein nytjarökin fyrir því eru þau að lausn á einhverjum sértækum vanda í hreinum fræðum getur stundum flýtt fyrir framförum annarra fræða, og jafnvel bætt við einhverja tækni á endanum. En þetta yrðu ekki meginrök mín, því að ég tel leitina að þekkingu og skilningi vera markmið í sjálfri sér. En þá vaknar sá vandi hvort allur þorri manna eigi að standa straum af þeirri ástríðu til þekkingar og skilnings sem aðeins fáir menn hafa til að bera – þeir okkar til dæmis sem áhuga hafa á heimspeki. Á að ausa fé í svo fámennan hóp?

Ef sértæk vísindi væru aðeins dægradvöl – eins og skák eða frímerkjasöfnun – þá svaraði ég neitandi. Á hinn bóginn virðast mér mjög sértæk fræðileg vandamál vera ákaflega mikilvæg í sjálfum sér, þó svo ég viti ekki hvernig á að gera mikilvægi þeirra hverjum manni ljóst. Ekki svo að skilja að ég sé á móti því að slík vandamál verði almenningseign. Mér væri það mesta fagnaðarefni ef einhverjum lánaðist að skrifa alþýðlegt heimspekirit sem væri bæði skýrt og skemmtilegt.

Mér þætti gott að mega spyrja tveggja spurninga sem snerta kenningar yðar, og almenningur kynni að láta sig einhverju skipta. Fyrri spurningin er: ef fyrir okkur yrðu verur af öðrum hnetti, hvaða líkur teljið þér á því að við gætum talað við þær?

Ég held að það þyrftum við alls ekki að geta. Eina leiðin sem ég hef komið auga á til að skilja öldungis framandi tungumál veltur á því að við deilum með þeim sem málið tala einhverjum viðmiðum um líkt og ólíkt; og slík viðmið geta verið mjög breytileg. Og ef mikill munur væri á slíkum viðmiðum, þá yrðu allar tilraunir okkar til aðleiðslu – til að leiða alhæfar tilgátur af dæmum – vita árangurslausar. Við þyrftum ekki einu sinni að geta stuðst við ertingu skynfæra vera af öðrum hnetti, því að skynfæri þeirra kynnu að vera svo gerólík okkar að þau bregðist aðeins við ertingu sem hefur engin áhrif á okkur.

Síðari spurningin er sú hvort til sé „ólýsanleg hugsun“ – hugsun sem ekki verður látin í ljósi í orðum – eða alla vega hugsun sem maður á engin orð yfir.

Vandinn væri að finna merkinguna í orðunum „ólýsanleg hugsun“. Ég veit hvað það er að finna til spennu við leit að orðum, og síðan fylgir því léttir þegar að orðin finnast. Er þetta hugsun? Ólýsanleg hugsun? Mér virðist það ekki skipta meginmáli hvort við látum orðið „hugsun“ ná yfir slík dæmi eða ekki, eða hvort við segjum að maður hafi ekki hugsað fyrr en hann veit hvernig á að koma orðum að hugsun sinni.

Á hinn bóginn hvarflar ekki að mér að öll hugsun sé bundin við orð. Hugsum okkur verkfræðing að smíða vél. Hann vantar nýjan vélarhluta til að leysa einhvern vanda. Kannski snýr hann fingrunum og líkir með þeim eftir þessum vélarhluta, eða þá hann beitir vöðvunum með þeim hætti sem atferlisfræðingurinn John B. Watson lýsti; það þurfa ekki að vera vöðvar í talfærunum. Og þetta er að hugsa. Svo að ekkert er algengara en hugsun án orða. En alla slíka hugsun er hægt að láta í ljósi með orðum, að minnsta kosti gæti maður gert það sem væri ef til vill betur máli farinn en verkfræðingurinn.

En hvernig munduð þér þá vilja skilja þá reynslu, sem margir kannast við, að maður leiti að orði, finni það svo og segi: „Þarna kom það!“ Þá er það ekki að honum falli orðið, eða þá að það sé orð sem hæfi vel samhenginu – eins og gæti gerst ef einhver annar hefði stungið upp á því; þá gæti það jafnvel gerst að orðið sem stungið væri upp á væri betra en orðið sem maður var sjálfur að leita að – heldur er – þetta orðið sem leitað var að; það var einhvers staðar í fylgsnum hugans. Mér virðist það sem þér sögðuð um spennu og létti ekki hæfa þessu dæmi. En er dæmið ekki raunhæft?

Jú, þetta gerist auðvitað: maður man ekki orð. Oft gríp ég í orðabók og finn þar orð sem ég var að leita að. Stundum rétta orðið, og stundum orð sem ég leitaði og sé að það er ekki rétta orðið. Mikil ósköp.

En hvernig getið þér gert grein fyrir þessu með tilvísun til spennu og léttis? Er hér ekki hugsun sem gerist án þes að við vitum af því? Ólýsanleg hugsun?

Eins og ég sagði þá þarf hugsun ekki að vera bundin við orð. Hugsun verkfræðingsins um vélarhlutann er það ekki, og þá þarf hugsun um orð ekki að vera það heldur.

Nú vildi ég mega spyrja spurningar sem margir fræðimenn, einkum í náttúruvísindum, hafa áhuga á – um rökfræði, sem hefur veirð eitt helsta viðfangsefni yðar. Teljið þér að til sé rökfræði vísindalegrar aðferðar, aðleiðslurökfræði?

„Aðleiðslurökfræði“ er kannski ekki heppileg nafngift, því að slík rökfræði er svo frábrugðin eiginlegri rökfræði, umsagnarökfræði. En auðvitað eru tölfræði og líkindareikningur virðulegar og nytsamlegar fræðigreinar, og þær eru hluti af því sem kalla mætti aðleiðslurökfræði.

Þér nefnduð áðan að aðleiðsla væri fólgin í því að varpa fram tilgátum á grundvelli dæma: aðleiðslurökfræði væri þá rökfræði vísindalegra uppgötvana. En nú virðist þér vilja skilja aðleiðslu svo að hún væri í því fólgin að meta hvaða máli einstakar staðreyndir eða athuganir skiptu fyrir tilgátur sem við höfum þegar varpað fram; þá er aðleiðslurökfræði orðin rökfræði vísindalegrar staðfestingar. Teljið þér aðleiðslu vera af þessu tvennu tæi?

Já, reyndar. Aðleiðsla er bæði uppgötvunaraðferð og staðfestingaraðferð.

Er þá uppgötvunarrökfræði til sem fræðigrein?

Aftur hnýt ég um orðið „rökfræði“. Það bendir til nánari skyldleika við eiginlega rökfræði en rétt er.

Er það vegna þess að í aðleiðslurökfræði eru engin sannindi af því tæi sem þér kallið „rök­sannindi“ í afleiðslurökfræði?

Já einmitt. Sá er meginmunurinn.

En ef svo er, hvernig getið þér þá yfirhöfuð kennt aðleiðslu við rökfræði?

Einungis vegna þess að það er viðtekin orðanotkun. Aðleiðslurökfræði er eins konar tækni, sambærileg við verkfæri. Dæmigerð aðleiðslurökfræði eru reglur Mills um vísindalega aðferð; Hume hafði áður sett margar sömu reglur fram.

Svo að þér lítið þá ekki á afleiðslurökfræði sem tækni?

Það má nota eiginlega rökfræði sem tækni, rétt eins og hverja aðra reiknislist. En eins og þér nefnduð leiðir afleiðslurökfræðin sannindi í ljós, röksannindi, og það gerir hún án alls tillits til nytjagildis, eins og öll stærðfræði. En um þetta er ekki að ræða í aðleiðslurökfræði. Þér hittuð naglann á höfuðið.

Mætti ég spyrja yður um yðar eigin stöðu innan heimspekinnar? Eru einhverjir heimspekingar sem þér getið litið á sem hetjur yðar?

Hetjurnar eru kannski ekki margar. Rudolf Carnap var sá sem langmest áhrif hefur haft á mig, þó svo að ég hafi reynst honum ósammála um flesta hluti. Hann hafði miklu meiri áhrif á mig en Russell og Whitehead. Og auðvitað hef ég mesta dálæti á Hume. Hverjir aðrir? Jú, Aristóteles – hann fremur en Platón. En ég er nú ekki lærður maður í heimspeki fornaldar.

Hvað um aðra sígilda heimspeki?

Ég er ekki lærður maður í neinni sígildri heimspeki. Ég hef lesið Platón meira en Aristóteles, og af síðari alda heimspekingum þá Kant, Leibniz og Hume. Descartes minna, Spinoza miklu minna.

Hvað um Berkeley?

Jú, honum má ég ekki gleyma.

Hafa einhverjir sígildir heimspekingar haft bein áhrif á hugmyndir yðar?

Ekki bein. En eftir á að hyggja virðist mér ég finna til skyldleika við Kant.

Hvaða skyldleika helst?

Einkum þess að við leggjum báðir mikla áherslu á hinn mannlega þátt í allri þekkingu okkar á náttúrunni. Vísindalegar kenningar velta á skynjun okkar og hugsun, og hugsunin ræðst aftur af uppeldi og erfðum. Og lífverur af öðrum hnetti kynnu að skynja heiminn og hugsa um hann allt öðru vísi en við, þannig að vísindi þeirra yrðu öll önnur. En auðvitað er ég ósammála Kant um að hér sé um óbreytanlegt eðli mannsins að ræða.

Breytilegt mannseðli kannski?

Já, breytilegt.

Hvað virðist yður um ameríska heimspeki? Er hún til sem slík, og hvað hefur hún haft mikilsvert fram að færa? Hefur kannski yðar eigin heimspeki einhver séramerísk einkenni?

Ég held að það sé ekki til nein séramerísk heimspeki sem orð sé á gerandi. Svonefndur „pragmatismi“ – kenningar Peirce, James, Deweys og fleiri heimspekinga – er oft talin sér­amerískur; en ég get ekki séð að „pragmatismi“ sé ýkja frábrugðinn annarri raunhyggju. Mér virðist meiri munur á „pragmatistum“ innbyrðis heldur en á mörgum þeirra og höfundum eins og Austurríkismanninum Ernst Mach sem ekki er talinn „pragmatisti“ heldur einungis raunhyggju­maður.

Hvað varðar einstaka ameríska heimspekinga þá hef ég aldrei haft mikla þolinmæði gagnvart William James. Og ég dái ekki Peirce eins og svo margir gera. Hann var að vísu merkilegur rökfræðingur. Í heimspeki fékk hann nokkrar góðar hugmyndir; en svo skrifaði hann ókjör af frumspeki sem mér hefur aldrei lærst að meta. Þessir tveir hafa látið mig alveg ósnortinn. Dewey finnst mér þreytandi. Ég veit að vísu að ég stend honum nærri í mörgum greinum, einkum í efnishyggju minni sem hefur eflst mjög með árunum. En hann hafði aldrei nein áhrif á mig.

C.I. Lewis hafði áhrif á mig – hlýtur að hafa haft þau; hann kenndi mér á Harvard. En auðvitað er ég öldungis ósammála honum vegna þess að hann reisti allar kenningar sínar á greinarmun rökhæfinga og raunhæfinga, og þeim greinarmun hafna ég eins og þér vitið. Við þetta bætist að ég er andsnúinn háttarökfræði hans, rökfræði möguleika og nauðsynjar.

Carnap er sá heimspekingur sem mótaði mig mest; og í rökfræði þeir Russell og Whitehead og allur pólski rökfræðiskólinn. Ég er Evrópumaður í heimspeki, meira að segja „ættaður“ af meginlandi Evrópu.

Hvað um skyldleika yðar við Ludwig Wittgenstein?

Hann er sérkennilegur að því leyti að mér féll ekki fyrra höfuðrit Wittgensteins,Tractatus Logico-Philosophicus. Mér þótti Wittgenstein hafa að mestu leyti rangt fyrir sér í þeirri bók. Svo komu Philosophische Untersuchungen út eftir dauða hans. Þá bók las ég ekki fyrr en seint og um síðir, þegar mér varð ljóst að ekki var um annað meira talað meðal starfsbræðra minna. Og ég varð seinn til að læra að meta bókina – vegna þess að ég var fyllilega sammála Wittgenstein um allt sem máli skipti, svo sammála að ekkert kom mér á óvart í bókinni og ég gat þar með ekkert af henni lært. En skoðanir okkar Wittgensteins eru nauðalíkar, ekki þó alveg allar; en ég hafði komist að mínum niðurstöðum sjálfur.

Á Íslandi er nokkur áhugi á Wittgenstein. Haldið þér að eftir eina öld eða tvær verði litið á verk hans sem sígilda heimspeki – ef mannkynið lifir þá enn og hugsar um heimspeki? Verða þau talin sambærileg við Ritgerð Humes eða siðfræði Kants eða Aristótelesar? Eða kannski við bækur sem standa skör lægra, en eru þó sígild rit, eins og Nytjastefna Mills til dæmis?

Ég held að verk Wittgensteins muni lifa, og menn muni kannast við að þau hafi verið mjög áhrifamikil. En þau verða kannski ekki sett í flokk með ritum Humes, Kants og Berkeleys, vegna þess að Wittgenstein er ekki höfundur að heilu heimspekikerfi, auk þess sem margar af kenningum hans eru tilgátur.

Hvað um þær hugmyndir sem valdið hafa mestu fjaðrafoki í heimspeki allra síðustu ára, einkum í Ameríku, en líka miklu víðar um lönd? Ég hef kenningar Saul Kripke í huga öðrum fremur. Haldið þér að þær séu lífvænlegar?

Nei, það held ég ekki. Ég held að háttarökfræði Kripkes, og öll frumspeki hans um mögulega heima, séu öldungis ófrjóar sem frumspekilegt sjónarmið – sem er sjónarmið Kripkes sjálfs. Ég held sjálfur að möguleiki og nauðsyn – sem eru höfuðhugtök Kripkes – séu afstæð hugtök, afstæð við tilteknar gefnar aðstæður, og eigi þess vegna ekki rétt á sér meðal vísindalegra eða frumspekilegra hugtaka. Frumspeki Kripkes um algilda nauðsyn held ég sé röng, og kenningar hans um mögulega heima aðeins villandi líkingamál. Ég get ekki séð að frumspekileg nauðsynjarkenning hafi neitt vísindagildi eða varpi minnsta ljósi á eðli veruleikans.

Hvaða samtímaheimspekingar haldið þér að muni lifa í sögunni – eða ættu að lifa – sem meiri háttar hugsuðir?

Einn er nemandi minn og vinur Donald Davidson. Og ég hef líka, svo undarlegt sem það kann að virðast, mikið álit á Roderick Chisholm, þótt ég sé alveg ósammála honum í grundvallaratriðum. Hann er gífurlega nákvæmur hugtakasmiður, og mér virðist allt verk hans ennþá tilkomumeira fyrir þá sök að kenningar hans eru allar reistar á sandi. Þeim mun meira afrek er byggingin. Hann er mikill handverksmaður, og honum hefur fleygt fram síðustu þrjátíu árin.

En þurfa menn ekki að skrifa eitthvert stórvirki til að þeirra verði minnst í hugmyndasögunni? Hefur Chisholm skrifað nokkurt slíkt stórvirki?

Kannski ekki. Og Davidson hefur ekki einu sinni gefið út bók.

Einn starfsbróðir yðar við Harvard, John Rawls, hefur skrifað stóra bók um réttlæti, A Theory of Justice, sem vakið hefur mikla athygli. Skyldi hún vera heimspekilegt stórvirki?

Ég hef ekki lesið hana svo að ég veit það ekki. Hins vegar las ég bók Róberts Nozick, Anarchy, State and Utopia, og þótti gagnrýni hans á Rawls hitta í mark. En ég get ekki dæmt um Rawls sjálfan.

Heimspekin hefur átt sín blómaskeið: eitt var fjórða öld fyrir Krist, annað upphaf nýaldar, 17. og 18. öld. Hvað um okkar tíma? Eru þeir slíkt blómaskeið, eða erum við í heimspekilegri lægð?

Nei, nei, ekki í lægð. Í heimspeki eru horfurnar góðar, og einkum hafa þær verið það síðustu tuttugu árin eða svo. Það er nóg af efnilegum mönnum. Sumir þeirra bestu hafa snúið sér að skammtafræði, og hafa náð tæknilegu valdi á henni. Og það kann ég að meta: slíkir menn hafa réttu ástríðuna, ástríðu til að skilja alheiminn og veruleikann, ástríðuna til að gera heimsmyndina skýra og skiljanlega. Og svo eru ágætir ungir fræðimenn í öðrum greinum rökgreiningar­heimspekinnar, til að mynda þeir Tyler Burge og Richard Sharvy. Og ég gæti nefnt fleiri. Á síðustu tveimur áratugum hefur mér virst að miklum hæfileikamönnum hafi farið mjög fjölgandi í heimspeki. Og það vegur í vaxandi mæli upp á móti öllum þeim hégóma sem setur til að mynda svip á málskrafsmót heimspekinga. Ég held að heimspeki laði nú að sér fjölda hæfileikamanna, eins og eðlisfræði gerði öðrum greinum fremur til skamms tíma.

Mér virðist heimspeki hafa fleygt fram. Og ein helsta framförin er sú að menn líta æ meir á heimspeki og vísindi sem eitt. Það má hafa til marks um þetta hversu mikil samvinna hefur komist á með heimspekingum, málfræðingum, stærðfræðingum og náttúruvísindamönnum.

Að síðustu: Ef þér væruð í mínum sporum, hvers munduð þér spyrja að lokum?

Einskis held ég. Mér sýnist þér hafa gert mér prýðileg skil!

« Til baka

Tvær kreddur raunhyggjumanna

eftir Willard van Orman Quine

Tvær kreddur raunhyggjunnar1

(Hugur 3.–4. ár. 1990/1991, s. 30-55)

Tvær kreddur hafa að miklu leyti mótað raunhyggju nútímans. Önnur er trú á einhvers konar meginmun á sannindum sem eru rökhæf eða ráðast af skilningi máls óháð staðreyndum, og sannindum sem eru raunhæf eða ráðast af staðreyndum. Hin kreddan er smættarhyggja: sú trú að sérhver skiljanleg staðhæfing sé jafngildi einhverrar röksmíðar á grunni heita er vísi til beinnar reynslu. Ég mun færa að því rök að báðar þessar kreddur séu tilhæfulausar. Eins og við munum sjá er ein afleiðing þess að hafna þeim sú að mörkin sem talin hafa verið á milli frumspeki og náttúruvísinda verða óljós. Önnur afleiðing er áherslubreyting í átt til nytjahyggju.

1. Baksvið röksanninda

Aðgreining Kants á röksannindum og raunsannindum bar merki greinarmunar Humes á venslum hugmynda (relations of ideas) og staðreyndum (matters of fact), og greinarmunar Leibniz á skynsemdarsannindum og staðreyndasannindum. Leibniz sagði að skynsemdarsannindi væru sönn í öllum mögulegum heimum. Að líkingamáli slepptu felur þetta í sér að þau sannindi séu skynsemdarsannindi sem alls ekki gætu verið ósönn. Á svipaðan hátt heyrum við rökhæfingar skilgreindar sem þær staðhæfingar sem verða að mótsögnum sé þeim neitað. En þessi skilgreining skýrir lítið; því að hugmyndin um mótsögn í hinum mjög svo víðtæka skilningi sem við þörfnumst fyrir þessa skilgreiningu á rökhæfingum, þarf öldungis sömu skýringar við og sjálf hugmyndin um rökhæfingar. Hér er sami grautur í sömu skál.

Kant hugsaði sér að rökhæfing eignaði frumlagi sínu einungis það sem þegar fólst í hugtakinu um frumlagið. Það eru tveir gallar á þessari hugmynd: hún einskorðast við staðhæfingar með sniðinu frumlag-umsögn, og hún styðst við líkinguna „að felast í“ sem ekki eru gerð nein nánari skil. En hugsun Kants sem fremur birtist í því hvernig hann notfærir sér hugmyndina um rökhæfingar en hvernig hann skilgreinir hana, má umorða á eftirfarandi hátt: staðhæfing er rökhæfing þegar hún er sönn óháð staðreyndum vegna þess skilnings sem í hana er lagður. Við skulum athuga þetta nánar með því að gaumgæfa hugtakið skilning sem hér er gengið að sem gefnu.

Minnumst þess fyrst að ekki má leggja skilning og merkingu að jöfnu.2 Dæmi Freges um „Kvöldstjörnuna“ og „Morgunstjörnuna“ og Russells um „Walter Scott“ og „höfund Waverly“ sýna að heita geta merkt sama hlutinn en þó verið skilin mismunandi skilningi. Greinarmunur skilnings og merkingar er ekki síður mikilvægur á sviði sértækra heita. Heitin „9“ og „tala reikistjarnanna“ merkja eitt og sama sértæka fyrirbærið en væntanlega verður að telja okkur skilja þau ólíkum skilningi; því að stjarnfræðilegrar athugunar þurfti við, en ekki einungis athugunar á skilningi orðanna, til að ákvarða að um sama fyrirbæri væri að ræða.

Dæmin hér að ofan eru um eintæk heiti á hlutum eða sértökum. Hliðstæða sögu er að segja um altæk heiti, eða umsagnir, en þó gegnir þar að sumu leyti öðru máli. Eintæk heiti eiga að merkja sértæk eða hlutbundin fyrirbæri, en altæk heiti ekki; en altæk heiti eru sönn um eitthvert fyrirbæri eða um mörg eða engin.3 Mengi allra fyrirbæra sem altækt heiti er satt um nefnist umtak heitisins. Á hliðstæðan hátt og við greinum á milli skilnings eintæks heitis og fyrirbærisins sem það merkir, verðum við einnig að greina á milli skilnings altæks heitis og umtaks þess. Þó svo altæku heitin „dýr með hjarta“ og „dýr með nýru“ hafi til dæmis sama umtak, leggjum við ólíkan skilning í þau.

Ekki er eins algengt að rugla saman skilningi og umtaki altækra heita og rugla skilningi eintækra heita saman við það sem þau merkja. Í heimspeki er reyndar viðtekið að gera greinarmun á inntaki (eða skilningi, intension) og umtaki (extension), eða með annari orðanotkun, á þýðingu (connotation) og merkingu (denotation).

Eflaust var hin aristótelíska eðlishugmynd undanfari nútímahugmyndarinnar um inntak eða skilning. Aristóteles taldi það eðli manna að vera skynsamir, en hendingu um þá að þeir væru tvífættir. En það er mikilvægur munur á þessu viðhorfi og kenningunni um skilning máls. Af sjónarhóli þeirrar kenningar mætti reyndar viðurkenna (þó ekki væri nema til málamynda) að skynsemi felist í skilningi orðsins „maður“, en það að hafa tvo fætur ekki; en jafnframt gæti það að hafa tvo fætur verið talið felast í skilningi orðsins „tvífætlingur“, en skynsemi ekki. Frá sjónarhóli kenningarinnar um skilning máls virðist þannig ekkert vit vera í að segja um raunverulegan einstakling sem bæði er maður og tvífætlingur, að skynsemin sé honum eðlislæg en það að vera tvífættur hending eða öfugt. Aristóteles eignaði hlutum eðli, en einungis er hægt að leggja skilning í málsnið. Eðli verður að skilningi þegar það er aðskilið frá hlutnum sem vísað er til og tengt orðinu yfir hann.

Fyrir allar skilningskenningar er það brennandi spurning hver eðlis viðfangsefni þeirra er: hvers konar hlutur er skilningur? Verið gæti að þeim er finnst skilningur máls hljóta að vera einhvers konar hlutur hafi láðst að gera sér grein fyrir að sitt er hvað skilningur og merking. Þegar umfjöllun um skilning hefur verið skýrt aðgreind frá umfjöllun um merkingu er auðvelt að sjá að meginhlutverk athugana á skilningi er einfaldlega að kanna hvort málsnið séu samheiti og hvort staðhæfingar séu rökhæfingar; skilninginn sem slíkan má láta lönd og leið, því hann er óljós milliliður máls og merkingar.4

Við þurfum þá að takast á við vandann við rökhæfingar á ný. Þær staðhæfingar eru reyndar auðfundnar sem eru almennt taldar rökhæfingar af heimspekingum. Þær skiptast í tvo flokka. Eftirfarandi er dæmigert fyrir fyrri flokkinn, þær má segja að séu eiginleg röksannindi:

(1) Engin kona sem á barn er barnlaus.

Það sem skiptir máli í þessu dæmi er að það helst satt hvernig sem „kona“ og „barn“ eru túlkuð, en er ekki aðeins satt eins og það stendur. Ef við göngum að skrá yfir rökfasta vísri, þar sem upp væri talið: „enginn“, „-laus“, „ó-“, „ekki“, „ef“, „þá“, „og“ o.s.frv., þá teldist staðhæfing sem er sönn og helst sönn við sérhverja túlkun annarra þátta en rökfastanna, eiginleg röksannindi.

En til er líka annar flokkur rökhæfinga sem eftirfarandi staðhæfing er dæmi um:

(2) Engin móðir er barnlaus.

Einkenni slíkrar staðhæfingar er að henni má breyta í eiginleg röksannindi með því að skipta á samheitum; þannig er hægt að breyta (2) í (1) með því að setja „kona sem á barn“ í stað samheitisins „móðir“. Að því marki sem við þurftum að styðjast við hugmynd um „samheiti“ í lýsingunni hér að ofan sem ekki þarf síður skýringar við en rökhæfingarnar sjálfar, skortir okkur enn eiginlega greinargerð fyrir þessum seinna flokki rökhæfinga, sem og fyrir rökhæfingum almennt.

Á seinni árum hefur Carnap hneigst til að skýra hvað rökhæfingar eru með tilvísun til þess sem hann nefnir ástandslýsingar.5 Ástandslýsing er sérhver tæmandi ákvörðun sanngilda grunnstaðhæfinga málsins – það er, ósamsettra staðhæfinga. Carnap gerir ráð fyrir að liðir allra annarra staðhæfinga málsins tengist þannig saman með þekktum rökfræðilegum tengjum að sérhver samsett staðhæfing hafi ákveðið sanngildi fyrir hverja ástandslýsingu samkvæmt rökfræðireglum sem tilgreina má. Staðhæfing er álitin rökhæfing þegar hún reynist sönn við sérhverja ástandslýsingu. Þessi greinargerð er útfærsla á hugmynd Leibniz um „sannleika í öllum mögulegum heimum“. En tökum eftir að þessi greinargerð fyrir rökhæfingum þjónar því aðeins tilgangi sínum að grunnstaðhæfingar málsins séu óháðar hver annarri, en þannig er ekki ástatt um „Guðrún er móðir“ og „Guðrún er barnlaus“. Annars mundi vera til ástandslýsing sem mæti „Guðrún er móðir“ og „Guðrún er barnlaus“ sannar, og þar með yrði „Engar mæður eru barnlausar“ raunhæfing fremur en rökhæfing ef þetta kennimark væri haft að leiðarljósi. Ef ástandslýsingar væru hafðar sem kennimark um rökhæfingar mundu þær þannig einvörðungu duga fyrir tungumál sem ekki hafa að geyma órökfræðileg samheitapör eins og „móðir“ og „kona sem á barn“ – samheitapör af þeirri gerð sem valda tilkomu rökhæfinga af síðari gerðinni. Í besta falli geta ástandslýsingar talist kennimark eiginlegra röksanninda en ekki rökhæfinga almennt.

Ég er ekki að gefa í skyn að Carnap geri sér ekki grein fyrir þessu atriði. Hið einfaldaða mállíkan hans sem hefur að geyma ástandslýsingar á fyrst og fremst að þjóna öðrum tilgangi en leysa vandann við rökhæfingar almennt, nefnilega að gera grein fyrir líkindum og aðleiðslu. Hins vegar eru rökhæfingar okkar vandamál; og þar felst meginvandinn ekki í eiginlegum röksannindum, heldur fremur í rökhæfingum sem byggjast á hugmyndinni um samheiti.

2. Skilgreiningar

Til eru þeir sem finna huggun í því að rökhæfingarnar í síðari flokknum megi smætta með skilgreiningu í eiginleg röksannindi í fyrri flokknum; til dæmis er orðið „móðir“ skilgreint sem „kona sem á barn“. En hvernig komumst við að því að „móðir“ er skilgreint sem „kona sem á barn“? Hver skilgreindi svo og hvenær? Eigum við að höfða til næstu orðabókar og telja framsetningu orðabókarhöfundarins lög? Þá væri eggið augljóslega farið að kenna hænunni. Orðabókarhöfundurinn stundar fræði sín á grundvelli reynslunnar, hann hefur þann starfa að skrá framkomnar staðreyndir; og ef hann útskýrir „móðir“ sem „kona sem á barn“ er það vegna þess að hann álítur að þessi heiti tengist sem samheiti, það hafi falist í notkun þeirra almennt eða í málvenjum áður en hann tók stil starfa. Hugmyndina um samheiti sem hér er gengið að vísri, á enn eftir að skýra, líklega með tilvísun til málatferðis. „Skilgreiningin“ sem er tilkynning orðabókarhöfundarins um samheiti sem hann hefur tekið eftir, getur vissulega ekki talist ástæðan til þess að um samheiti er að ræða.

Raunar eru það ekki einungis málfræðingar sem fást við skilgreiningar. Heimspekingar og vísindamenn þurfa oft að „skilgreina“ torskilin orð með því að umorða þau á almennara mál. En eins og hjá málfræðingum er slíkt skilgreining yfirleitt hrein orðtaka sem staðfestir sameheitatengsl sem voru til staðar áður en haft var orð á þeim.

Það er síður en svo ljóst nákvæmlega hvað felst í að orð teljast samheiti, nákvæmlega hvaða tengsl kynnu að vera nauðsynleg og nægileg til þess að með réttu megi telja tvö málsnið samheiti; en hver svo sem þessi tengsl kynnu að vera, þá byggjast þau yfirleitt á orðanotkun. Skilgreiningar sem greina frá völdum dæmum um samheiti er því greinargerðir fyrir málvenjum.

Samt sem áður er einnig til afbrigði skilgreininga sem ekki einskorðast við tilgreiningu á samheitum sem þegar eru til staðar. Ég hef í huga það sem Carnap kallar útleggingu – starfsem sem heimspekingar hneigjast til og vísindamenn einnig þegar þeir eru í heimspekilegum hugleiðingum. Með útleggingu er tilgangurinn ekki einungis að umorða skilgreiningarefnið í beint samheiti, heldur í raun að bæta um betur með því að fága og bæta skilning þess. En jafnvel þótt útlegging feli meira í sér en skilgreiningu samheita sem voru samheiti fyrir, hvílir hún engu að síður á öðrum samheitum sem voru það fyrir. Líta má á málið á eftirfarandi hátt. Sérhvert orð sem er útleggingar virði, má finna í samhengi sem í heild er nægilega skýrt og greinilegt til að vera nytsamlegt; og tilgangur útleggingarinnar er að viðhalda notkuninni í þessu æskilega samhengi samhliða því að gera notkunina markvissari í öðru samhengi. Til þess að ákveðin skilgreining geti talist útlegging þarf skilgreiningarefnið þess vegna ekki að hafa verið samheiti skilgreiningarumsagnarinnar í fyrri notkun, heldur nægir að æskilegt samhengi skilgreiningarefnisins í heild hafi verið samheiti samsvarandi samhengis umsagnarinnar.

Tvær mismunandi skilgreiningarumsagnir geta komið að jafn góðu gagni við ákveðna útleggingu og samt ekki verið samheiti innbyrðis; því þær gætu komið hvor í annarrar stað í hinu æskilega samhengi en verið ólíkar í öðru. Með því að hallast að einni umsögn fremur en annarri ákvarðar skilgreining í útleggingarskyni samheitatengsl milli skilgreiningarefnisins og umsagnarinnar sem ekki stóðust áður. En eins og sjá má byggist útleggingarhlutverk slíkrar skilgreiningar á tilvikum þar sem heitin voru samheiti fyrir.

Hins vegar er enn eftir dæmi um skilgreiningu sem alls ekki byggir á áður tilkomnum samheitum: nefnilega upptaka nýrra tákna eftir vild einungis til styttingar. Hér verður nýja táknið, skilgreiningarefnið, samheiti skilgreiningarumsagnarinnar einfaldlega vegna þess að það hefur verið búið til í þeim tilgangi að vera samheiti hennar. Hér höfum við virkilega gagnsætt dæmi um samheiti mynduð samkvæmt skilgreiningu; ef allar tegundir samheita væru nú jafn skiljanlegar! Í öllum öðrum tilfellum byggjast skilgreiningar á samheitum fremur en að skýra þau.

Orðið „skilgreining“ hefur fengið hættulega traustvekjandi hljóm, eflaust vegna þess hversu oft það kemur fyrir í skrifum um rökfræði og stærðfræði. Er nú rétt að lofa stuttlega hlutverk skilgreininga á því sviði.

Í rökfræðilegum og stærðfræðilegum kerfum má sækjast eftir hagkvæmni af tvennu ólíku tagi, og hvor um sig hefur til síns ágætis nokkuð. Annars vegar getum við sóst eftir hagkvæmni í framsetningu sem gerir okkur kleift að orða margvísleg vensl í stuttu og viðráðanlegu máli. Þessi tegund hagkvæmni krefst yfirleitt greinilegra skammstafana yfir fjölda hugtaka. Andstætt þessu gætum við hins vegar sóst eftir hagkvæmni í málfræði og orðaforða; við gætum reynt að finna lágmark grunnhugtaka þannig að þegar hvert þeirra hefur verið táknað á skýran hátt, yrði mögulegt að láta í ljós hvaða hugtak annað sem við viljum, einungis með því að samtengja og endurtaka grunntáknin. Þessi seinni tegund hagkvæmni er óhagkvæm að einu leyti, því að takmarkaður grunnorðaforði felur nauðsynlega í sér lengingu setninganna. En hún er hagkvæm á annan hátt: hún einfaldar fræðilega umræðu um málið að miklum mun, því með henni hefur það að geyma lágmarksfjölda orða og myndunarreglna.

Þessar tvær tegundir hagkvæmni eru báðar nytsamlegar hvor á sinn hátt þótt þær virðist ósamrýmanlegar við fyrstu sýn. Sú venja hefur þess vegna komist á að sameina þær með því að mynda í raun tvö mál þar sem annað er hluti hins. Þótt yfirgripsmeira málið hafi að geyma óþarfa málfræði og orðaforða, er það hagkvæmt hvað varðar lengd skilaboða, en sá hlutinn er nefnist frumskrifmátinn er spar á málfræði og orðaforða. Heildin og hlutinn tengjast með þýðingarreglum, samkvæmt þeim er hvert orð sem ekki tilheyrir frumskrifmátanum lagt að jöfnu við einhverja samsetningu tákna í honum. Þessar þýðingarreglur eru svokallaðar skilgreiningarsem sjá má í rökfræðikerfum. Best er að telja þær vörpun milli tveggja mála þar sem annað er hluti hins, en ekki aukareglur innan eins máls.

En þessar varpanir eru ekki tilviljunarkenndar. Þær eiga að sýna hvernig frumskrifmátinn getur gert sama gagn og auðugra málið, nema hvað hann er ekki eins gagnorður og lipur. Þess vegna má ætla að skilgreiningarefnið og skilgreiningarumsögn þess séu í hverju tilfelli tengd á einhvern þriggja hátta sem áður er getið. Umsögnin getur verið trú umorðun skilgreiningarefnisins yfir á þrengri skrifmátann þar sem beinum samheitum í fyrri notkun er viðhaldið;6 eða þá að umsögnin bætir fyrri notkun skilgreiningarefnisins sem nánari útlegging; og loks gæti skilgreiningarefnið verið nýmyndað tákn sem ákveðinn skilningur hefur verið lagður í á stað og stund.

Við sjáum þannig að skilgreining byggist á samheitatengslum sem fyrir eru, bæði þegar um er að ræða rökfræðikerfi og venjulegt mál – nema í dæminu um upptöku nýrra tákna. Við skulum því viðurkenna að hugmyndin um skilgreiningu er ekki lykillinn að skýringu á samheitum og rökhæfingum, og líta nánar á samheiti en láta umræðu um skilgreiningar lokið.

3. Víxl

Það er eðlilegt tillaga sem rétt er að athuga náið, að ef tvö málsnið teljast samheiti, felist það einfaldlega í því að þeim megi víxla í öllum tilfellum án þess að sanngildi breytist – með orðum Leibniz, víxl „að óbreyttu sanngildi“ (salva veritate).7 Takið eftir að í þessum skilningi þurfa samheiti ekki einu sinni að vera fyllilega skilmerkileg, aðeins ef þau eru bæði óskilmerkileg að sama leyti.

En það er ekki alveg satt að víxla megi samheitunum „móðir“ og „kona sem á barn“ í öllum tilfellum að óbreyttu sanngildi. Auðveldlega má mynda sannindi sem verða ósönn við það að setja „kona sem á barn“ í stað „móðir“ með því að nota „ljósmóðir“ eða „perlumóðir“; einnig með því að beita tilvitnunum á eftirfarandi hátt:

„Móðir“ hefur færri en 10 stafi.

Hins vegar má ef til vill líta fram hjá slíkum gagndæmum með því að fara með orðasamböndin „ljósmóðir“ og „perlumóðir“, og tilvitnunina „móðir“ sem einstök ósundurgreinanleg orð, og að tilskilja síðan að möguleg víxl að óbreyttu sanngildi sem á að vera mælikvarði á samheiti, eigi ekki við um tilfelli þar sem orðin koma fyrir innan orða. Þótt við gerðum ráð fyrir að þessi greinargerð fyrir samheitum væri tæk að öllu leyti öðru, felst raunar sá galli í henni að höfða til gefinnar hugmyndar um „orð“ sem treysta má að erfitt verði að gera grein fyrir. Samt sem áður má telja að nokkur árangur hafi náðst við að smætta vandann um hvaða samheiti eru í vanda um hvað orð eru. Við skulum skoða þetta nánar og líta á „orð“ sem gefin.

Þeirri spurningu er eftir sem áður ósvarað hvort víxl að óbreyttu sanngildi (nema í orðum) sé nægilegt skilyrði þess að um samheiti sé að ræða, eða hvort þvert á móti megi víxla orðum sem ekki eru samheiti með þessum hætti. Við skulum gera okkur ljóst að hér erum við ekki að fást við samheiti í skilningi algjörrar samsömunar sálrænna hugtengsla eða skáldlegra eiginda; raunar eru engin tvö orð samheiti í þeim skilningi. Við höfum einungis í huga það sem kalla máþekkingarsamheiti. Ekki er hægt að segja nákvæmlega hvað þau eru án þess að ljúka umfjölluninni um víxl fyrst; en við höfum nasasjón af þeim vegna þess að þeirra þurftum við með til að segja deili á rökhæfingum í fyrsta hluta ritgerðarinnar. Þar þörfnuðumst við einungis þess konar samheitatengsla að mögulegt væri að breyta sérhverri sannri rökhæfingu í eiginleg röksannindi með því að víxla samheitum. Með því að snúa blaðinu við og ganga að rökhæfingum vísum, gætum við raunar skýrt þekkingarsamheiti á eftirfarandi hátt (ef við höldum okkur við sama dæmið): að segja að „móðir“ og „kona sem á barn“ séu þekkingarsamheiti er nákvæmlega það sama og að segja að staðhæfingin:

(3) Allar mæður og einungis þær, eru konur sem eiga börn

sé rökhæfing.8

Ef við ætlum okkur gagnstætt þessu að gera grein fyrir rökhæfingum út frá þekkingarsamheitum eins og gert var í fyrsta hlutanum, þörfnumst við greinargerðar fyrir þekkingarsamheitum sem gengur ekki að rökhæfingum vísum. Og raunar er slík sjálfstæð greinargerð fyrir þekkingarsamheitum nú til athugunar, nefnilega víxl að óbreyttu sanngildi alls staðar nema innan orða. Svo að ef við tökum nú þráðinn loksins upp að nýju, er spurningin sem við stöndum frammi fyrir sú, hvort slík víxl séu nægilegt skilyrði fyrir að um þekkingarsamheiti sé að ræða. Við getum auðveldlega fullvissað okkur um að svo sé með dæmum af eftirfarandi gerð. Staðhæfingin:

(4) Nauðsynlega eru allar mæður og aðeins þær, mæður

er augljóslega sönn, jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að orðið „nauðsynlega“ sé skilið svo þröngum skilningi að einungis sé með réttu hægt að hafa það um rökhæfingar. Ef víxla má „móðir“ og „kona sem á barn“ að óbreyttu sanngildi, hlýtur þar með niðurstaðan:

(5) Nauðsynlega eru allar mæður og aðeins þær, konur sem eiga börn

af að setja „kona sem á barn“ þar sem „móðir“ kemur fyrir í (4), að vera sönn eins og (4). En það að segja að (5) sé sönn, er að segja að (3) sé rökhæfing, og þar með að „móðir“ og „kona sem á barn“ séu þekkingarsamheiti.

Athugum nú hver galdurinn er við ofangreinda röksemdafærslu. Skilyrðin fyrir víxlum að óbreyttu sanngildi eru misjöfn eftir mismunandi fjölbreytni þess máls sem í hlut á. Röksemdafærslan hér að ofan gerir ráð fyrir að við notum mál sem er svo víðtækt að hafa að geyma atviksorðið „nauðsynlega“ sem skilið sé þannig að það láti í ljós sannindi þá og því aðeins að það sé haft um rökhæfingar. En getum við samþykkt mál sem hefur slík atviksorð að geyma? Er í raun eitthvert vit í slíku orði? Að telja svo vera er að gera ráð fyrir að við höfum þegar öðlast fullnægjandi skilning á „rökhæfingum“. En til hvers var ekki leikurinn gerður?

Röksemdir okkar ganga ekki í hring, en allt að því. Segja má að þær hafi lögun lokaðrar sveigju í rúminu.

Víxl að óbreyttu sanngildi hafa þá aðeins gildi að þau séu bundin máli sem við höfum afmarkað að því leyti sem máli skiptir. Gerum ráð fyrir að við athugum mál sem einungis hefur að geyma eftirfarandi þætti. Það hefur ótakmarkaðan fjölda einrúmra umsagna (til dæmis „F„ þar sem „Fx“ táknar að x er maður) og margrúmra umsagna (til dæmis „G“ þar sem „Gxy“ táknar að x elskar y), sem einkum vísa til hluta utan rökfræðinnar. Aðrir þættir málsins eru rökfræðilegir. Hver grunnsetning samanstendur af umsögn sem ein breyta „x“, „y“ o.s.frv., eða fleiri fylgja; og samsettar setningar eru myndaðar úr grunnsetningum með sannföllum („ekki“, „og“, „eða“ o.s.frv.) og mögnurum.9 Slíkt mál er raunar einnig gætt kostum lýsinga og meira að segja eintækra heita almennt, því þau má skilgreina í samhenginu eftir þekktum leiðum.10 Jafnvel er hægt að skilgreina sértæk eintæk heiti sem merkja mengi, mengi mengja o.s.frv., í samhenginu ef tvírúma umsögnin um að tilheyra mengi er hluti af málinu.11 Slíkt mál getur verið nægilegt fyrir sígilda stærðfræði og jafnvel fyrir vísindalegar umræður almennt, nema að svo miklu leyti sem hið síðara felst í vafasömum meðulum eins og viðtengingarskilyrðingum eða háttaratviksorðum eins og „nauðsynlega“.12 Mál af þessari gerð vísar til umtaks í eftirfarandi skilningi: hverju pari umsagna sem hefur sama umtak (það er, er satt um sömu hluti), má víxla að óbreyttu sanngildi.13

Í umtaksmáli eru víxl að óbreyttu sanngildi þess vegna engin trygging fyrir að um sé að ræða þekkingarsamheiti af þeirri gerð sem sóst er eftir. Það að víxla má „móðir“ og „kona sem á barn“ að óbreyttu sanngildi í umtaksmáli, sýnir okkur ekki fram á annað en að (3) er satt. Hér er engin trygging fyrir að sama umtak „móðir“ og „kona sem á barn“ byggist á skilningi orðanna fremur en tilviljunarkenndum staðreyndum, eins og það að „dýr með hjarta“ og „dýr með nýru“ hafa sama umtak.

Yfirleitt þurfum við ekki að fást við samheiti nema sem heiti með sama umtak. En sú staðreynd stendur eftir sem áður að ehiti með sama umtak ná ekki því að teljast þekkingarsamheiti þeirrar gerðar sem við þörfnumst til að gera grein fyrir rökhæfingum eins og í grein 1. Til þess að „móðir“ og „kona sem á barn“ teljist þar þekkingarsamheiti þarf að álíta (3) röksannindi, en ekki aðeins sannindi.

Við verðum því að viðurkenna að ef víxl að óbreyttu sanngildi eru bundin við umtaksmál, er það ekki nægilegt skilyrði fyrir að um þekkingarsamheiti sé að ræða í þeim skilningi sem þeirra er þörf til að leiða út rökhæfingar á sama hátt og í grein 1. Ef mál hefur að geyma inntaksatviksorðið „nauðsynlega“ í skilningnum sem áður var vikið að, eða önnur orð af sama tagi, þá eru víxl að óbreyttu sanngildi á slíku máli nægilegt skilyrði fyrir að um þekkingarsamheiti sé að ræða; en slíkt mál er skiljanlegt einungis að því marki sem hugmyndin um röksannindi er þegar skilin fyrirfram.

Ef til vill er tekið rangt á málunum þegar reynt er að skýra þekkingarsamheiti fyrst til þess að leiða rökhæfingar af þeim á eftir eins og í grein 1. Í staðinn gætum við reynt að skýra rökhæfingar einhvern veginn án tilvísunar til þekkingarsamheita. Síðan gætum við eflaust leitt þekkingarsamheiti af rökhæfingum með góðu móti ef við vildum .Við höfum séð að það að „móðir“ og „kona sem á barn“ teljast þekkingarsamheiti má skýra sem að (3) sé rökhæfing. Sama skýring gildir auðvitað fyrir hvaða par einrúmra umsagna sem er, og það má auðsæilega útfæra hana fyrir margrúmar umsagnir. Á hliðstæðan hátt má einnig fella önnur málsnið undir hana. Telja má eintæk heiti þekkingarsamheiti þegar samsemdarstaðhæfingin sem mynduð er með því að setja „=“ á milli þeirra er rökhæfing. Einfaldlega má segja að staðhæfingar séu þekkingarsamheiti eða þekkingarsamræðar þegar gagnkvæm skilyrðing þeirra (niðurstaðan af að tengja þau með „ef og aðeins ef“) er rökhæfing.14 Ef við viljum setja öll málsnið undir einn hatt með því að ganga aftur út frá hugmyndinni um „orð“ sem vísað var til snemma í þessum kafla, getum við lýst hvaða tveimur málsniðum sem er sem þekkingarsamheitum þegar víxla má þeim (nema þegar þau fyrir innan „orða“) – ekki lengur án þess að sanngildi breytist, heldur – án þess að staðhæfingin hætti að vera rökhæfing. Reyndar vakna vissar tæknilegar spurningar þar sem um tvíræðni eða samhljóða orð er að ræða; við skulum samt ekki staldra við þær, því þegar við erum þegar komin á leið. Snúum frekar baki við vandanum um samheiti og beinum athyglinni að rökhæfingum á ný.

4. Túlkunarreglur

Í fyrstu virtist eðlilegast að skilgreina rökhæfingar með tilvísun til skilnings máls. Við frekari úrvinnslu reyndist tilvísun til skilnings fela í sér tilvísun til samheita eða skilgreininga. En skilgreiningar reyndust vera mýraljós, og samheiti reyndust vera best skilin með hjálp fyrirfram tilvísunar til rökhæfinganna sjálfra. Enn á ný stöndum við því frammi fyrir vandanum við rökhæfingar.

Ég veit ekki hvort staðhæfingin „Allt sem er grænt hefur rúmtak“ er rökhæfing. Er óvissa mín í þessu dæmi til marks um takmarkaðan skilning, að ég geri mér takmarkaða grein fyrir „skilningi“ orðanna „grænt“ og „rúmtak“? Ég held ekki. Vandkvæðin felast ekki í „grænt“ eða „rúmtak“, heldur í orðinu „rökhæfing“.

Oft er gefið í skyn að vandinn við að greina rökhæfingar frá raunhæfingum í mæltu máli stafi af því hve mælt mál er ónákvæmt og að greinarmunurinn sé skýr þegar við höfum nákvæmt gervimál með greinargóðum „túlkunarreglum“. Þarna er hins vegar ruglingur á ferðinni eins og ég mun reyna að sýna.

Hugmyndinni um rökhæfingar sem við erum að kljást við er ætlað að fela í sér vensl staðhæfinga og tungumála: staðhæfing S er sögð vera rökhæfing í máli M, og vandinn er að fá vit í þessi vensl almennt, það er, fyrir breyturnar „S“ og „M“. Ekki er svo að sjá að þetta sé minna vandamál varðandi gervimál en fyrir raunveruleg. Vandinn við að fá vit í ummælin „S er rökhæfing í M“ þar sem „S“ og „M“ eru breytur, er jafn illviðráðanlegur þó svo við takmörkum gildissvið breytunnar „M“ við gervimál. Leyfið mér nú að sýna fram á þetta atriði.

Það liggur beint við að leita til skrifa Carnaps um gervimál og túlkunarreglur. Túlkunarreglurnar hans eru með ýmsu sniði, og til að geta sýnt fram á það sem ég ætla mér verð ég að greina á milli þeirra. Til að byrja með skulum við gera ráð fyrir gervimáli M0 með túlkunarreglum sem felast í beinni tilgreiningu allra rökhæfinga í M0 með þrepaskilgreiningum eða á annan hátt. Reglurnar segja okkur að tilteknar staðhæfingar og aðeins þær, séu rökhæfingar í M0. Nú, hér er vandinn einfaldlega sá að reglurnar hafa að geyma orðið „rökhæfing“ sem við skiljum ekki. Við skiljum hvaða orðasambönd reglurnar telja rökhæfingar, en við skiljum ekki hvað það er sem þær telja orðasamböndin vera. Áður en við getum skilið reglu sem byrjar „Staðhæfingin S er rökhæfing í máli M0 þá og því aðeins að . . .“, verðum við í stuttu máli sagt að skilja hvaða vensl felast í altæka heitinu „rökhæfing í“; við verðum að skilja „S er rökhæfing í M“ þar sem „S“ og „M“ eru breytur.

Að vísu er annar kostur sá að við getum litið á hina svokölluðu reglu sem venjubundna skilgreiningu á nýju ósamsettu tákni „rökhæfingu-í- M0“, sem fremur ætti að skrifa á óvilhallan hátt sem „K“ svo að það virðist ekki varpa ljósi á hið athyglisverða orð „rökhæfing“. Augljóslega má tilgreina hvaða fjölda mengja staðhæfinga í M0 sem er, K, L, N o.s.frv., í ýmsum tilgangi eða að ástæðulausu; hvað felst í að segja að K andstætt L, N o.s.frv., sé mengi staðhæfinganna í M0sem eru „rökhæfingar“?

Með því að tilgreina hvaða staðhæfingar eru rökhæfingar í M0 skýrum við „rökhæfingar-í- M0“, en hvorki „rökhæfingar“ né „rökhæfingar í“. Í þessu felst engin skýring á ummælunum „S er rökhæfing í M“, þar sem „S“ og „M“ eru breytur, jafnvel þótt við sættum okkur við að takmarka gildissvið „M“ við gervimál.

Raunar vitum við nóg um hvað ætlast er til að felist í „rökhæfingum“ til að vita að rökhæfingar eiga að vera sannar. Snúum okkur þá að annarri gerð túlkunarreglna sem ekki tiltekur ákveðnar staðhæfingar sem rökhæfingar, heldur hljóðar einfaldlega upp á að ákveðnar staðhæfingar séu á meðal þeirra sem láta í ljós sannindi. Slík regla verður ekki gagnrýnd fyrir að innihalda orðið „rökhæfing“ sem við skiljum ekki; og við getum viðurkennt til málamynda að víðtækara orðið „sannindi“ feli engin vandkvæði í sér. Túlkunarregla af þessari síðari gerð, sannindaregla, á ekki að tilgreina öll sannindi í málinu; hún tilgreinir einungis, með þrepaskilgreiningu eða öðru móti, ákveðinn fjölda staðhæfinga sem teljast eiga sannar ásamt öðrum sem ekki eru tilgreindar. Viðurkenna má að slík regla sé allsendis ljós. Eftir á má afmarka rökhæfingar á eftirfarandi hátt út frá reglunni: staðhæfing er rökhæfing ef hún er (ekki einungis sönn, heldur) sönn samkvæmt túlkunarreglunni.

Enn er samt í raun ekki um neinn ávinning að ræða. Í stað þess að vísa til óskilgreinda orðsins „rökhæfing“, vísum við til óskilgreinda orðsins „túlkunarregla“. Ekki geta allar sannar staðhæfingar sem segja að staðhæfingar í tilgreindum flokki séu sannar talist túlkunarreglur – þá mundu öll sannindi vera „rökhæfingar“ í þeim skilningi að vera sönn samkvæmt túlkunarreglum. Að því er virðist er einungis hægt að þekkja túlkunarreglur af þeirri staðreynd að þær birtast á blaðsíðu undir fyrirsögninni „Túlkunarreglur“; og þá er sjálf fyrirsögnin alveg óskiljanleg.

Raunar getum við sagt að staðhæfing sé rökhæfing-í-M0 þá og því aðeins að hún sé sönn samkvæmt tilteknum „túlkunarreglum“ sem er sérstaklega hnýtt aftan við, en þá erum við eiginlega komin aftur að því sama og við fjölluðum um upphaflega: „S er rökhæfing-í-M0 þá og því aðeins að . . .“. Ef við reynum að skýra „S er rökhæfing í M“ fyrir breytu „M“ almennt (jafnvel þótt við takmörkuðum „M“ við gervimál), er skýringin „sönn samkvæmt túlkunarreglum í M“ gagnslaus; því að venslaheitið „túlkunarregla í“ þarfnast að minnsta kosti jafn mikillar skýringar við og „rökhæfing í“.

Það gæti verið lærdómsríkt að bera saman hugmyndina um túlkunarreglur og hugmyndina um frumsetningar. Með hliðsjón af ákveðnu mengi frumsetninga er auðvelt að segja hvað frumsetningar eru: þær eru stök í menginu. Jafn auðvelt er að segja hvað túlkunarregla er með hliðsjón af gefnu mengi túlkunarreglna. En hver getur sagt hvaða sannar staðhæfingar ákveðins táknkerfis, stærðfræðilegs eða annars, eru frumsetningar að engu öðru gefnu en táknkerfinu, sama hversu gjörskilið það væri með tilliti til þýðinga á staðhæfingum þess á önnur kerfi eða skilyrði fyrir sannleika þeirra? Það er augljóslega ekkert vit í spurningunni – álíka mikið vit og að spyrja hvaða staðir á Suðurlandi séu upphafsstaðir. Sérhvert endanlegt úrval staðhæfinga (eða óendanlegt ef hægt er að tilgreina það; ef til vill helst sannra staðhæfinga) er ekkert síður mengi frumsetninga en hvað annað. Orðið „frumsetning“ verður ekki skilið án tilvísunar til ákveðins athugunarefnis; við höfum orðið aðeins um mengi staðhæfinga að því marki sem við reynumst vera að hugsa, þetta árið eða þessa stundina, um þær í tengslum við aðrar staðhæfingar sem leiða má af þeim með einhverjum röksemdum sem okkur hefur þótt hæfa að beina athyglinni að. Hugmyndin um túlkunarreglur er ámóta skiljanleg og skynsamleg og hugmyndin um frumsetningar ef hún er hugsuð á álíka afstæðan hátt – í þetta sinn með tilliti til uppfræðslu vankunnandi fólks um nægileg skilyrði fyrir að staðhæfingar teljist sannindi í einhverju raunverulegu eða tilbúnu máli „M“. En ef svona er litið á málin er engin ein tilgreining á undirflokki sanninda í M raunverulega meiri túlkunarregla en önnur; og ef skilja á „rökhæfingu“ sem „satt samkvæmt túlkunarreglum“, þá eru engin ein sannindi í M rökhæfing fremur en önnur.15

Hugsanlega mætti andmæla með því að segja að tilbúið mál M (andstætt raunverulegu máli) sé mál í venjulegum skilningi auk mengis tilgreindra túlkunarreglna – við skulum segja að heildin myndi raðtvennd; og að túlkunarreglur M megi þá einfaldlega tilgreina sem seinni þátt tvenndarinnar M. En með sama móti og á einfaldari hátt gætum við litið á gervimálið M sjálft sem raðtvennd þar sem seinni liðurinn væri hreinlega mengi rökhæfinga í málinu; og þá má einfaldlega tilgreina rökhæfingarnar í M sem staðhæfingarnar í seinni lið raðtvenndarinnar M. Eða það sem betra væri, við gætum alveg hætt að reyna að draga sjálf okkur upp á hárinu með þessum hætti.

Í ofangreindum hugleiðingum hefur ekki verið gerð grein fyrir öllum skýringum á rökhæfingum sem Carnap og lesendur hans þekkja, en ekki er erfitt að sjá hvernig má yfirfæra þær á aðrar gerðir. Einungis þarf að minnast á eitt atriði í viðbót sem stundum er um að ræða: stundum eru túlkunarreglurnar í raun þýðingarreglur yfir á mælt mál, í því tilfelli eru rökhæfingar gervimálsins í raun viðurkenndar sem slíkar vegna þess að tilgreindar þýðingar þeirra í mæltu máli eru rökhæfingar. Hér getur vissulega ekki verið um það að ræða að tilbúna málið varpi ljósi á vandann við rökhæfingar.

Frá sjónarhóli rökhæfingavandans er hugmyndin um gervimál með túlkunarreglum mesta mýraljósið. Túlkunarreglur sem ákvarða hvaða staðhæfingar í gervimáli eru rökhæfingar, eru einungis athyglisverðar að því marki sem við skiljum hugmyndina um rökhæfingar fyrir; þær eru gagnslausar við að öðlast skilning á þeim.

Hugsanlega gæti verið gagnlegt að höfða til ímyndaðs einfalds gervimáls til að varpa ljósi á rökhæfingar, ef innan slíks einfaldaðs líkans mætti einhvern veginn leggja frumdrög að þeim sálrænu, atferðislegu eða menningarlegu þáttum – hverjir sem þeir nú eru – sem máli skipta um rökhæfingar. En líkan þar sem auðkenni rökhæfinga eru ósmættanleg er ekki vænlegt til að varpa ljósi á vandann við að gera grein fyrir rökhæfingum.

Það er augljóst að sannindi almennt byggjast bæði á málinu og staðreyndum utan þess. Staðhæfingin „Brútus drap Caesar“ væri ósönn ef heimurinn hefði verið öðruvísi að ákveðnu leyti, en hún væri einnig ósönn ef orðið „drap“ væri fremur skilið sem „gat af sér“. Þess vegna hneigjumst við til að gera almennt ráð fyrir að sannleika staðhæfingar megi með einhverju móti greina í málþátt og staðreyndaþátt. Ef gengið er út frá þessu, virðist líklegt að staðreyndaþátturinn í sumum staðhæfingum skipti ekki máli; og að þær staðhæfingar séu rökhæfingar. En þar með hafa mörk á milli rökhæfinga og raunhæfinga einfaldlega ekki verið dregin, hversu rökvíslegt sem það gæti virst fyrirfram að svo sé. Að telja að slíkum greinarmuni sé yfirleitt til að dreifa, er óraunsæ kredda raunhyggjumanna, frumspekilegt trúaratriði.

5. Sannreynslukenningin og smættarhyggjan

Í þessum svartsýnu hugleiðingum höfum við litið hugmyndina um skilning máls og síðan hugmyndina að þekkingarsamheiti og loks hugmyndina um rökhæfingar hornauga. En spyrja mætti, hvað með sannreynslukenninguna um skilning máls? Þetta orðtak hefur náð svo tryggri fótfestu sem einkennisorð raunhyggju að við værum vissulega afar óvísindaleg að skyggnast ekki eftir hvort þar er á ferðinni möguleg lausn á vandanum um skilning máls og þeim er tengjast honum.

Sannreynslukenningin um skilning, sem hefur verið áberandi í fræðunum frá og með skrifum Peirce, er á þá leið að skilningur staðhæfingar felist í hættinum á að staðfesta eða hnekkja henni í reynslu. Rökhæfing er það markadæmi sem fær staðfestingu hver svo sem reynslan er.

Eins og hvatt er til í fyrsta hlutanum getum við auðveldlega litið framhjá spurningunni um skilning sem fyrirbæri og vikið beint að því þegar um sama skilning eða samheiti er að ræða. Þá kveður sannreynslukenningin á um að staðhæfingar séu samræðar (hliðstætt því er orð eru samheiti) þá og því aðeins að þær séu sannreyndar á sama hátt í reynslunni.

Þetta er greinargerð fyrir þekkingarsamræðni staðhæfinga en ekki málsniða almennt.16 Hins vegar getum við leitt hugmyndina um samræðni annarra málsniða af hugmyndinni um samræðni staðhæfinga með svipuðum hugleiðingum og í lok þriðja hluta. Reyndar gætum við að gefinni hugmyndinni um „orð“ gefið þá skýringu á samræðni hverra tveggja málsniða sem vera skal að ef annað sniðið er sett í stað hins í hvaða staðhæfingu sem er (nema þegar þau koma fyrir í „orðum“), myndist staðhæfing sem er samræð hinni upphaflegu. Loks gætum við að þannig gefnu hugtakinu um samræðni málsniða almennt, skilgreint rökhæfingar út frá samræðni og eiginlegum röksannindum eins og í fyrsta hlutanum. Ef því væri að skipta gætum við skilgreint rökhæfingar á einfaldari hátt einvörðungu út frá samræðni staðhæfinga og eiginlegum röksannindum. Óþarfi er að höfða til samræðni annarra málsniða en staðhæfinga, því að lýsa má staðhæfingu sem rökhæfingu, einfaldlega þegar hún er samræð staðhæfingu sem lætur í ljós eiginleg röksannindi.

Þannig er það að hugmyndin um rökhæfingar heldur velli þrátt fyrir allt ef viðurkenna má sannreynslukenninguna sem fullnægjandi greinargerð fyrir samræðni staðhæfinga. Við skulum samt hugleiða þetta nánar. Staðhæfingar eiga að teljast samræðar ef þær hljóta staðfestingu eða er hnekkt í reynslunni með sömu aðferð. Hverjar nákvæmlega eru þessar aðferðir sem bera skal saman? Með öðrum orðum, hvert er eðli tengslanna milli staðhæfingar og reynslunnar sem staðfestir eða hnekkir henni?

Barnalegasta viðhorfið til þessara tengsla er að þau felist í því að staðhæfingin sé bein lýsing á reynslunni. Þetta er róttæk smættarhyggja. Álitið er að þýða megi sérhverja skiljanlega staðhæfingu í (sanna eða ósanna) staðhæfingu um beina reynslu. Róttæk smættarhyggja í einni eða annarri mynd er töluvert eldri en sannreynslukenningin um skilning með því nafni. Þannig álitu Locke og Hume að sérhver hugmynd hlyti annaðhvort að eiga rætur beint í skynreynslu, eða þá að vera samsett af hugmyndum sem þar ættu rætur; og með því að fylgja ábendingu frá Tooke gætum við umorðað þessa kenningu á merkingarfræðimáli með því að segja að ef unnt eigi að vera að leggja skilning í heiti verði það annaðhvort að vera nafn skynreyndar eða samsett úr slíkum nöfnum eða stytting á slíkri samsetningu. Þannig fram sett tekur kenningin ekki af tvímæli um hvort skynreyndir eru heldur atburðir í skilningarvitunum eða skynjanlegir eiginleikar; og ekki er ljóst af henni hvers konar samsetningar eru leyfilegar. Ennfremur er kenningin óþarflega og óheyrilega ströng þar sem hún krefst þess að hvert orð fyrir sig sé vegið og metið. Það er skynsamlegra og helst samt innan marka þess sem ég nefni róttæka smættarhyggju, ef við lítum á heilar staðhæfingar sem þær einingar sem koma skilningi á framfæri – og krefðumst þannig að unnt eigi að vera að þýða staðhæfingar okkar í heild yfir á skynreyndamál, en ekki að þær þurfi að þýða orð fyrir orð.

Þessari lagfæringu hefði án efa verið vel tekið af Locke, Hume og Tooke, en í reynd varð hún að bíða mikilvægrar viðhorfsbreytingar í merkingarfræði – þess nýmælis að tekið var að líta svo á að fyrst og fremst staðhæfingar en ekki heiti fælu í sér skilning. Þessi viðhorfsbreyting sem sjá má stað í Bentham og Frege, býr að baki hugmynd Russells um ófullgerð tákn sem eru skilgreind í samhengi;17 hún birtist einnig í sannreynslukenningunni um skilning, því það sem við sannreynum eru staðhæfingar.

Talsmenn róttækrar smættarhyggju litu nú á staðhæfingar sem frumeiningar, og settu sér það verkefni að tilgreina skynreyndamál og sýna hvernig þýða má allt annað skiljanlegt tal yfir á það, staðhæfingu fyrir staðhæfingu. Carnap hóf þetta starf í bók sinni Rökgerð heimsins (Der Logische Aufbau der Welt).

Málið sem Carnap lagði til grundvallar var ekki skynreyndamál í þrengsta hugsanlega skilningi, því það hafði einnig að geyma táknkerfi rökfræðinnar allt upp í æðri mengjafræði. Raunar hafði það að geyma mál hreinnar stærðfræði eins og það lagði sig. Verufræðin sem fólst í því (það er, gildissvið breytna þess) náði ekki aðeins yfir skynreyndir, heldur einnig mengi, mengi mengja og svo framvegis. Til eru þeir raunhyggjumenn sem mundi blöskra slíkt bruðl. Carnap er aftur á móti afar aðsjáll í þeim hluta grundvallarins sem stendur utan rökfræði, það er, fjallar um skynreyndir. Carnap tekst að skilgreina víðtækt svið hugtaka um skynreyndir til viðbótar sem engan hefði dreymt um að skilgreina á svo veikum grunni, ef ekki væri fyrir rökfræðilega úrvinnslu hans á forsendum kerfisins þar sem hann nýtir sér möguleika nútíma rökfræði af mikilli hugkvæmni. Hann var fyrsti raunhyggjumaðurinn sem lét sér ekki nægja að fullyrða að hægt væri að smætta vísindi niður í heiti beinnar reynslu, heldur gerði alvöru úr því að fylgja smættuninni eftir.

Ef grundvöllur Carnaps er fullnægjandi, þá er úrvinnsla hans samt eins og hann lagði áherslu á sjálfur, einungis brot af heildaráætluninni. Hann lagði einungis drög að útleiðslu jafnvel einföldustu staðhæfinga um efnisheiminn. Í þessu efni gáfu tillögur Carnaps mikið til kynna þótt einungis væri um drög að ræða. Hann skýri einstaka tímarúmspunkta sem raðferndir rauntalna, og áleit að punktum væru eignaðir skynjanlegir eiginleikar samkvæmt ákveðnum reglum. Í stuttu máli sagt var ætlunin sú að eiginleikarnir skyldu eignaðir einstökum punktum á þann hátt að fá fram einfaldasta heim sem félli að reynslu okkar. Lögmálið um lágmarksvirkni átti að vera okkur leiðarljós við að smíða heiminn úr reynslu.

Carnap virst samt ekki gera sér grein fyrir að merðferð hans á efnislegum hlutum gat ekki talist smættun, ekki einungis af því að um drög var að ræða, heldur eðli sínu samkvæmt. Samkvæmt reglum hans átti staðhæfingum með sniðinu „Eiginleikiq er á punktinum xyzt“ að vera úthlutað sanngildum þannig að gert yrði sem mest og sem minnst úr ákveðnum heildareinkennum, og með aukinni reynslu átti smám saman að endurskoða sanngildin í sama anda. Mér virðist þetta góð svipmynd af raunverulegu vísindastarfi (en vissulega afar einfölduð mynd, eins og Carnap gerði sér ljóst); en hún gefur enga vísbendingu, ekki einu sinni frumdrög að vísbendingu, um hvernig staðhæfing með sniðinu „Eiginleiki q er á xyzt“ gæti nokkru sinni verið þýdd yfir á málið um skynreyndir og rökfræði sem Carnap leggur til grundvallar. Tengið „er á“ er eftir sem áður óskilgreind viðbót; reglurnar segja okkur til um notkun þess en ekki hvernig við getum losnað við það.

Carnap virðist hafa áttað sig á þessu atriði eftir á; því að í seinni skrifum hans hætti hann við hugmyndina um að hægt væri að þýða staðhæfingar um efnisheiminn yfir í staðhæfingar um beina reynslu. Smættarhyggjan í róttækri mynd er löngu hætt að vera þáttur í heimspeki Carnaps.

En í lúmskari og smágervari mynd hefur smættarhyggjukreddan áfram haft áhrif á hugsun raunhyggjumanna. Sú hugmynd er enn við lýði að til sé ákveðinn hópur mögulegra skynjanlegra atvika fyrir hverja staðhæfingu, eða raunhæfingu, sem auki líkur á sannleika hennar ef atvikin eiga sér stað og annar hópur er dragi úr þeim líkum ef atvik úr honum eiga sér stað. Þessi hugmynd felst auðvitað í sannreynslukenningunni um skilning.

Smættarhyggjukreddan helst við lýði þegar gert er ráð fyrir að með einhverju móti sé hægt að staðfesta sérhverja staðhæfingu eða hnekkja henni í einangrun frá öðrum. Gagntillaga mín sem einkum á rætur í kenningu Carnaps um efnisheiminn íRökgerð heimsins, er að staðhæfingar okkar um umheiminn þurfi ekki að standast dóm skynreynslunnar hver í sínu lagi, heldur einungis sem samstæð heild.18

Smættarhyggjukreddan, jafnvel í sinni útþynntu mynd, tengist hinni kreddunni náið – þeirri að greinarmunur sé á rökhæfingum og raunhæfingum. Raunar höfðum við leiðst frá síðarnefnd vandamálinu að hinu fyrra fyrir tilstilli sannreynslukenningarinnar um skilning. Svo að við komum okkur beint að efninu, þá styður önnur kreddan hina á svofelldan hátt: á meðan það er almennt talið hafa gildi að tala um að staðfesta eða hnekkja staðhæfingu virðist jafnframt vera vit í að tala um markategund staðhæfinga sem hlýtur staðfestingu sjálfkrafa, af sjálfri sér, hvernig sem í pottinn er búið; og slíkar staðhæfingar eru rökhæfingar.

Reyndar er kjarninn í kreddunum tveimur einn og hinn sami. Áður létum við í ljós að almennt væri sannleikur staðhæfinga augljóslega háður bæði tungumálinu og staðreyndum utan þess; þessi hugsun bauð annarri heim, þeirri tilfinningu að sannleik staðhæfingar mætti á einhvern hátt greina í málþátt og staðreyndaþátt, þótt ekkert röksamband sé þarna á milli. Staðreyndaþátturinn hlýtur, ef við erum raunhyggjumenn, að reynast að vera sú reynsla sem staðfestir það sem staðhæfingin lætur í ljós. Í jaðardæminu þar sem einungis málþátturinn skiptir máli er sönn staðhæfing rökhæfing. En ég vona að nú sé til þess tekið hversu árangurslaust það hefur verið að gera skýran greinarmun á rökhæfingum og raunhæfingum. Mér virðist það líka eftirtektarvert hversu vandinn við að setja fram skýra kenningu um staðfestingu raunhæfinga í reynslunni hefur alltaf verið illráðanlegur, ef undan eru skilin tilbúin dæmi um svartar og hvítar kúlur í öskju. Tillaga mín nú er þá á leið að það sé vitleysa og leiði til enn meiri vitleysu að tala um málþátt og staðreyndaþátt í sannleik einstakrar staðhæfingar. Sem heild byggjast vísindin bæði á máli og reynslu; en ekki er hægt að finna þessari tvískiptingu stað að neinu marki í einstökum staðhæfingum vísindanna.

Hugmyndin um að skilgreina tákn í samhengi var eins og að var vikið, framför frá hinni vonlausu raunhyggju Lockes og Humes sem bundin var við að staðfesta einstök heiti. Frá og með Bentham var farið að líta á staðhæfingar fremur en heiti sem þær einingar sem gagnrýni raunhyggjumanna beindist að. En það sem ég held nú fram er jafnvel með því að gera staðhæfingar að grunneiningum höfum við riðið netið of þétt. Á endanum eru það ekki einstakar staðhæfingar, heldur vísindin í heild sem þurfa að koma heim og saman við reynslu.

6. Kreddulaus umhyggja

Hin svokallaða þekking okkar eða trú, allt frá tilviljunarkenndum atriðum í landafræði og sögu til djúphugsaðra lögmála í kjarneðlisfræði eða jafnvel hreinnar stærðfræði og rökfræði, er í heild vefur gerður af manna höndum sem snertir ekki reynsluna nema á jöðrunum. Eða svo brugðið sé upp annarri myndlíkingu, vísindin í heild eru eins og orkusvið þar sem reynslan er markaskilyrði. Ef sviðið er andstætt reynslunni í útjaðrinum veldur það leiðréttingu innanvert í sviðinu. Þá þarf að úthluta sumum staðhæfingum okkar nýjum sanngildum. Endurmat á sumum staðhæfingum felur í sér endurmat á öðrum vegna þess að þær eru röklega tengdar innbyrðis – og rökfræðilögmálin eru einfaldlega sjálf tilteknar aðrar staðhæfingar kerfisins, ákveðnar aðrar einingar innan sviðsins. Eftir að hafa endurmetið eina staðhæfingu verðum við að endurmeta aðrar sem ef til vill eru staðhæfingar í röktengslum við þá fyrstu eða þá staðhæfingar um sjálf röktengslin. En sviðið í heild er vanákvarðað af markaskilyrðum þess, reynslunni, svo að margir kostir eru í valinu á hvaða staðhæfingar skal endurmeta þegar um einhverja gagnstæða reynslu er að ræða. Engin ákveðin reynsla tengist neinum ákveðnum staðhæfingum innan sviðsins nema óbeint þegar sviðið í heild er aðlagað reynslunni.

Ef þessi líking er rétt, þá er villandi að tala um reynsluinntak einstakrar staðhæfingar – einkum ef um er að ræða staðhæfingu í minnstu fjarlægð frá reynslujaðri sviðsins. Ennfremur verður það fávíslegt að leita að skilum á milli raunhæfinga sem eru sannar samkvæmt reynslu, og rökhæfinga sem eru sannar hvað sem á dynur. Hvaða staðhæfingu sem er má álíta sanna hvað sem á dynur ef við gerum nógu róttækar breytingar á öðrum hlutum kerfisins. Jafnvel má telja staðhæfingu sem er mjög nálægt jaðrinum sanna þótt reynslan bendi til hins gagnstæða með því að halda fram að um skynvillu sé að ræða, eða með umbótum á ákveðnum staðhæfingum þeirrar gerðar er nefnast rökfræðilögmál. Á sama hátt gildir hið gagnstæða að engin staðhæfing er undanþegin endurmati. Það hefur jafnvel verið lagt til að endurskoða rökfræðilögmálið um annað tveggja sem leið til að einfalda skammtafræði; og hvaða eðlismunur er á slíkri breytingu og breytingu Keplers á kenningum Ptólemaíosar, eða Einsteins á kenningum Newtons, eða Darwins á kenningum Aristótelesar?

Til að gera þessar hugmyndir sem ljósastar hef ég talað um ólíkar fjarlægðir frá skynreynslujaðri. Leyfið mér nú að skýra þessa hugmynd án líkingamáls. Vissar staðhæfingar virðast vera sérstaklega tengdar skynreynslu þó þær séu umefnislega hluti en ekki skynreynslu – og á afmarkandi hátt: sumar staðhæfingar eru tengdar ákveðinni reynslu. En í þessum tengslum sé ég ekkert nema lausleg tengsl sem bera vott um tiltöluleg líkindi til þess að við tökum í raun fremur eina staðhæfingu til endurskoðunar en aðra ef til andstæðrar reynslu kemur. Til dæmis getum við ímyndað okkur andstæða reynslu sem við mundum eflaust vilja laga kerfi okkar að með því að endurmeta einungis þá staðhæfingu að það séu múrsteinshús við Reynimel, ásamt tengdum staðhæfingum um sama efni. Við getum hugsað okkur aðra andstæða reynslu sem við mundum vilja aðlaga kerfi okkar með því að endurmeta einungis staðhæfinguna að það séu engir nykrar til, ásamt skyldum staðhæfingum. Ég hef haldið því fram að margir kostir séu á að aðlaga heildarkerfið að andstæðri reynslu með endurmati á ýmsum mismunandi hlutum þess; en í tilfellunum sem við nú gerum okkur í hugarlund mundi eðlislæg tilhneiging okkar til að raska heildarkerfinu sem minnst leiða okkur til að beina endurmati okkar að þessum ákveðnu staðhæfingum um múrsteinshús og nykra. Okkur virðast því þessar staðhæfingar fela í sér beinni tilvísun til reynslunnar en fræðilegar staðhæfingar eðlisfræði, rökfræði eða verufræði. Líta má svo á að síðarnefndu staðhæfingarnar séu staðsettar nálægt miðju heildarkerfins, sem þýðir einfaldlega að lítið er um forgangstengsl við ákveðnar skynreyndir komi í ljós.

Sem raunhyggjumaður tel ég hugtakakerfi vísindanna eftir sem áður verkfæri sem í raun er ætlað að segja fyrir um komandi reynslu í ljósi liðinnar reynslu. Efnislegir hlutir koma sem hugtök inn í aðstæðurnar sem hentugt millistig – ekki samkvæmt skilgreiningu út frá reynslu, heldur einfaldlega sem ósmættanleg festi,19þekkingarfræðilegar hliðstæður guða Hómers. Sem áhugamaður um eðlisfræði trúi ég á efnislega hluti og ekki á guði Hómers; og ég tel það vísindalega villu að trúa öðru. En frá þekkingarfræðilegu sjónarmiði er enginn eðlismunur á efnislegum hlutum og guðum, heldur einungis stigsmunur. Báðar þessar tegundir fyrirbæra verða þættir í hugarheimi okkar einungis sem viðteknar venjur eða festi menningar okkar. Goðsögnin um efnislega hluti hefur þekkingarfræðilega yfirburði vegna þess að hún hefur reynst árangursríkari en aðrar goðsagnir sem tæki til að koma viðráðanlegri mynd á breytileika reynslunnar.

Við setjum okkar ekki einvörðungu festi um efnislega hluti sem greina má berum augum. Til þess að gera lögmál um stærri hluti, og á endanum lögmál reynslunnar, einfaldari og viðráðanlegri gerum við ráð fyrir hlutum af stærðargráðu frumeinda; og við þurfum ekki frekar að búast við eða krefjast endanlegrar skilgreiningar á fyrirbærum eins og frumeindum og öreindum út frá sýnilegum fyrirbærum en skilgreiningur á sýnilegum hlutum út frá skynreyndum. Vísindin eru framhald af heilbrigðri skynsemi, og þau halda áfram því heilbrigða skynsemisráði að bæta við fyrirbærum til þess að einfalda kenningar.

Stórir og smáir efnislegir hlutir eru ekki einu festin sem við setjum okkur. Kraftar eru annað dæmi; og raunar er okkur sagt núorðið að skilin milli efnis og orku séu úrelt. Ennfremur er á sama hátt gert ráð fyrir sértækum fyrirbærum sem stærðfræðin samanstendur af – á endanum mengjum og mengjum mengja og svo framvegis. Þetta eru þekkingarfræðilegar goðsagnir jafngildar efnislegum hlutum og guðum, hvorki skárri né verri nema hvað mismunandi er hversu þær auðvelda okkur að koma skipan á skynreynsluna.

Heildartáknkerfi ræðra og óræðra talna er vanákvarðað með táknkerfi ræðu talnanna, en það er meðfærilegra og hentugra; og táknkerfi ræðu talnanna felst í því sem ólögulegur eða skörðóttur hluti.20 Á svipaðan hátt eru vísindin í heild, náttúruvísindin og mannvísindin, enn frekar vanákvörðuð af reynslunni. Láta verður jaðra kerfisins falla að reynslunni; reynt er að láta sem einföldust lögmál gilda um afganginn með ölum sínum margbreytilegu goðsögnum eða ímyndunum.

Af þessum sjónarhóli eru verufræðilegar spurningar jafngildar spurningum náttúruvísindanna.21 Lítum á spurninguna hvort viðurkenna beri mengi sem fyrirbæri. Eins og ég hef haldið fram annars staðar,22 er þetta spurningin hvort magna eigi breytur sem taka mengi sem gildi. Carnap hefur haldið því fram að þetta sé ekki spurning um staðreyndir, heldur um að velja hentugt málsnið, hentugt hugtakakerfi eða ramma um vísindin. Ég er sammála þessu, en aðeins að því tilskildu að sama verði sagt um vísindalegar tilgátur yfirleitt. Carnap hefur viðurkennt að hann geti einungis aðgreint verufræðilegar spurningar og vísindatilgátur með því að gera ráð fyrir altækum greinarmuni á rökhæfingum og raunhæfingum; og ég þarf ekki að taka það fram að ég hafna þeim greinarmuni.23

Ef spurt er um mengi virðist það fremur spurning um hentugt hugtakakerfi; sé um nykra að ræða eða múrsteinshús við Reynimel, virðist það fremur spurning um staðreyndir. En ég hef verið að halda því fram að þarna sé aðeins um stigsmun að ræða, og hann snúist um þá hentistefnu okkar að laga fremur einn þráð í vefi vísindanna en annan þegar við lögum þau að einhverri ákveðinni andstæðri reynslu. Íhaldssemi á þátt í slíku vali, og einnig leitin að einfaldleika.

Carnap, Lewis og fleiri halda fram gagnsemishyggjumálstað í spurningunni um val á milli málsniða eða vísindaramma; en gagnsemishyggju þeirra sleppir við ímynduð mörk á milli rökhæfinga og raunhæfinga. Með því að hafna þessum greinarmuni tek ég upp sjálfri sér samkvæmari gagnsemishyggju. Hverjum manni er gefin vísindaleg arfleifð auk síbylju skynfæraertingar; og að svo miklu leyti sem rök hans er duga til að fella vísindaarfinn að sífelldum áreitum á skynfærin eru skynsamleg, eru þau nytsemdarrök.

Þorsteinn Hilmarsson þýddi.

 

Tilvísanir

1. „Two Dogmas of Empiricism“, íslensk þýðing eftir Þorstein Hilmarsson. Greinin birtist fyrst í Philosophical Review í janúar 1951. Þýðingin er byggð á ritgerðinni eins og hún birtist í From a Logical Point of View (Harvard University Press, Cambridge, Mass.) sem kom fyrst út árið 1953, en í endurskoðaðri útgáfu árið 1961. Þar er ritgerðin lítillega endurskoðuð, sbr. nmgr. 15.

2. Sjá From a Logical Point of View, s. 9.

3. Sjá sama rit, s. 10 og 107-115.

4. Sjá sama rit, s. 11 o.áfr. og 48 o.áfr.

5. Rudolf Carnap, Meaning and Necessity (University of Chicago Press, Chicago 1947), s. 9 o.áfr.; Logical Foundations of Probability (University of Chicago Press, Chicago 1950), s. 70 o.áfr.

6. Samkvæmt mikilvægum skilningsmáta á „skilgreiningu“ geta tengslin sem viðhaldast verið hin veikari tengsl einberrar samhljóða tilvísunar; sjá From a Logical Point of View, s. 132. En í þessu samhengi er betra að hafa að engu skilgreiningu í þessum skilningi, þar sem hún kemur spurningunni um samheiti ekkert við.

7. Sjá C.I. Lewis, A Survey of Symbolic Logic (Berkely 1918), s. 373.

8. Þetta eru þekkingarsamheiti í víðasta upprunalegum skilningi. Carnap (Meaning and Necessity, s. 56 o.áfr.) og Lewis (An Analysis of Knowledge and Valuation [Open Court, La Salle, III. 1946], s. 83 o.áfr.) hafa lagt til hvernig leiða má af þessari hugmynd þrengri skilning á þekkingarsamheitum sem er æskilegri í vissum tilfellum. En þessi sérstaka uppskipting hugtaksins kemur umfjölluninni hér ekki við, og henni má ekki rugla saman við þekkingarsamheiti í víðtækum skilningi sem hér ræðir um.

9. Á s. 81 í From a Logical Point of View er lýsing á einmitt slíku máli, nema þar vill svo til að einungis er ein umsögn í málinu, tvírúma umsögnin „(“.

10. Sjá sama rit, s. 5-8, 85 o.áfr. og 166 o.áfr.

11. Sjá sama rit, s. 87.

12. Um slík meðul sjá einnig sama rit, ritgerð VIII.

13. Þetta er kjarninn í Mathematical Logic (Norton, New York 1940), *121.

14. Átt er við „ef og aðeins ef“ í sannfallaskilningi; sjá Carnap, Meaning and Necessity, s. 14.

15. Síðasta málsgrein var ekki hluti af þessari ritgerð eins og hún birtist upphaflega. Skrif Martins, (sjá „On „analytic““, Philosophical Studies 3 (1952), s. 42-47) ýtti undir að hún var skrifuð; sama er að segja um niðurlag ritgerðar VII í From a Logical Point of View.

16. Raunar má setja kenninguna fram um heiti í stað staðhæfinga. Þannig lýsir Lewis skilningi heitis eins og huglægu kennimarki (a criterion in mind), sem það sem við vísum til, til að geta notað eða neitað að nota viðkomandi heiti þegar um gefna eða ímyndaða hluti eða aðstæður er að ræða“ (An Analysis of Knowledge and Valuation, s. 133). – Lærdómsríka greinargerð fyrir margbreytileika sannreynslukenningarinnar um skilning sem beinist hins vegar að spurningunni um skiljanleika fremur en samræðni og rökhæfingar, má sjá hjá C.G. Hempel, „Problems and Changes in the Empiricist Criterion of Meaning“, Revue internationale de philosophie 4 (1950), s. 41-63.

17. Sjá From a Logical Point of View, s. 6.

18. Pierre Duhem (La Theorie physique: son object et sa structure [París 1906], s. 303-328) leiddi góð rök að þessari kenningu. Eða sjá Armand Lowinger, The Methodology of Pierre Duhem (Columbia University Press, New York 1941), s. 132-140.

19. Sjá From a Logical Point of View, s. 17 o.áfr.

20. Sjá sama rit s. 18.

21. „L’ontologie fait corps avec la science elle-même et ne peut en être séparée.“ Émile Mcyerson, Identité et realité (Paris 1908), s. 439.

2. Sjá From a Logical Point of View, s. 12 o.áfr., 102 o.áfr.

23. [Sjá Carnap „Empiricism, sematics and ontology“, sérstaklega s. 32 nmgr.] Sjá áhrifaríka umfjöllun með frekari efasemdum um þennan greinarmun hjá Morton White „The Analytic and the Synthetic: an Untenable Dualism“, John Dewey: Philosopher of Science and Freedom (Dial Press, New York 1950), s. 316-330.

 

« Til baka

Um það sem er

eftir Willard Van Orman Quine

Inngangur um Quine e. Árna Finnsson

Quine er án efa meðal kunnustu heimspekinga þessarar aldar. Stærstum hluta starfsævinnar eyddi hann við Harvardháskóla, fyrst í framhaldsnámi en síðar sem kennari uns hann hætti störfum um miðjan áttunda áratuginn. Quine hefur verið afkastamikill á langri starfsævi, gefið út á annan tug bóka og birt fjölda ritgerða. Í fyrstu fékkst hann aðallega við rökfræði en í kringum 1950 beindi hann sjónum í auknum mæli að öðrum viðfangsefnum. Hann gagnrýndi raunhyggju tuttugustu aldar, ekki síst kenningar Carnaps kennara síns, en hélt um leið staðfastlega fram eigin raunhyggju. Þá skrifaði Quine fjölda ritgerða um málspeki sem um margt eru sprottnar af sömu rótum. Kunnastar ritgerða Quines frá þessum tíma eru sú ritgerð sem hér birtist „Um það sem er“ og „Tvær kreddur raunhyggjumanna“ sem hefur birst í íslenskri þýðingu Þorsteins Hilmarssonar í Hug, 3.-4. árg. 1991, en þar vegur Quine meðal annars að hefðbundnum greinarmuni á rökhæfingum og raunhæfingum. Báðar þessar ritgerðir birtust í greina­safninu From a Logical Point of View (1953). Árið 1960 kom út bókin Word and Object sem líta má á sem meginrit Quines um málspeki. Þar kafar hann dýpra í mörg fyrri viðfangsefni sín og setur fram einskonar atferliskenningu um tungumál. Hann athugar hvaða skilyrðum slík kenning yrði að fullnægja og hvaða mynd hún yrði að taka, og á þeirri leið verður til þekktasta og um­deildasta framlag Quines til málspekinnar, nefnilega þýðingabrigðakenningin. Kenningin er í stuttu máli sú að til geti verið tvær tilgátur um þýðingu af einu máli á annað sem séu ósamrýman­legar, en samt sé ekki hægt að gera upp á milli þeirra með neinni beinni skynreynslu.

Síðan Word and Object kom út hefur Quine birt fjölda greina sem skýra hugmyndir úr fyrri skrifum hans. Meðal þeirra kunnustu eru greinarnar „Speaking of Objects“ og „Ontological Relativity“ sem báðar birtust í greinasafninu Ontological Relativity and Other Essays (1969). Þá má finna gott yfirlit yfir ýmsa þætti raunhyggju og málspeki Quines í ritgerðasafninu Theories and Things sem út kom 1981.

Í greininni sem hér fer á eftir fæst Quine við verufræði, það er spurninguna „hvað er til?“ Hann svarar hanni þó ekki en reynir þess í stað að festa hendur á því hvernig við gætum eða hvenær við höfum svarað henni og hvað skuldbindi okkur til að fallast á eina kenningu um verufræði frekar en aðra. Greinin snýst reyndar að verulegu leyti um tungumál og merkingu en að stofni til er þó umfjöllunarefnið verufræði. Í henni má finna ýmis þeirra atriða sem spretta fram í seinni kenningum Quines um tungumál. Niðurstaða Quines um verufræði er á endanum sú að hún sé, líkt og hann síðar hélt fram um merkingu eða þýðingar, afstæð við heildarsamhengi þeirra kenninga sem við aðhyllumst. Quine telur þó ekki allar kenningar um verufræði jafngildar og hefur greinina á að hrekja ýmsar kunnar kenningar. En eftir stendur að þegar hismið hefur verið skilið frá kjarnanum, þá verði ekki með áreiðanlegum hætti skorið úr um gildi verufræðilegra kenninga eða staðhæfinga nema innan þess kenninga- og hugtakaramma sem við setjum okkur. Þessa hugmynd um afstæði kenninga við kenninga- eða hugtakaramma má finna víða í skrifum Quines, og segja má að hún sé nokkurskonar grunnhugmynd í ýmsum kenningum hans. Umfjöllunar­efnið er því nánast heildarsamhengi heimspeki og vísinda og nauðsynleg samfella þessa tvenns.

Of langt mál yrði að gera grein fyrir öðrum kenningum Quines en hvað sem um þær verður sagt þá er víst að erfitt mun reynast að glíma við stóra hluta heimspeki tuttugustu aldar án þess að þær komi við sögu í einhverri mynd. Kunnastur þeirra heimspekinga sem byggt hafa á kenningum Quines er væntanlega nemandi hans, Donald Davidson. Eins og Quine hefur Davidson heildarhyggju um tungumálið en er þó á gjörsamlega öndverðum meiði þegar kemur að atferliskenningunni. Saman hafa kenningar þessara tveggja heimspekinga verið eitt helsta umfjöllunar- og viðfangsefni þeirra sem fjallað hafa um málspeki síðustu áratugina, og munu væntanlega verða áfram.

„Um það sem er“ (On What There Is) birtist fyrst í Review of Metaphysics árið 1948. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Um það sem er

I

Eitt hið forvitnilegasta við hinn verufræðilega vanda er hversu einfaldur hann er. Setja má hann fram í þremur einsatkvæðisorðum: „Hvað er til?“ Honum má síðan svara í einu orði – „allt“ – og allir munu fallast á að svarið sé satt. Þetta jafngildir ekki öðru en að segja að það er sem er. Eftir stendur nægt rúm fyrir ágreining um einstök tilvik, og því hefur vandinn haldið velli í gegnum aldirnar.

Gerum nú ráð fyrir að tvo heimspekinga, McX og mig, greini á um verufræði. Gerum ráð fyrir að McX haldi því fram að til sé eitthvað sem ég segi ekki vera. McX getur, í fullu samræmi við eigin sjónarmið, lýst ágreiningi okkar með því að segja að ég neiti að kannast við tiltekin fyrirbæri. Ég segði hins vegar, að sjálfsögðu, að hann færi með rangt mál í lýsingu sinni á ágreiningi okkar, því ég held því fram að ekki séu til nein fyrirbæri þeirrar tegundar sem hann staðhæfir, sem ég gæti þá kannast við; það að ég telji hann hafa rangt fyrir sér í framsetningu sinni á ágreiningsefni okkar er hins vegar léttvægt þar sem ég myndi telja verufræði hans ranga hvort sem er.

Þegar ég reyni hins vegar að gera grein fyrir skoðanamun okkar virðist ég í vanda. Ég get ekki fallist á að til séu fyrirbæri sem McX heldur fram en ég ekki, því féllist ég á að slík fyrirbæri fyndust væri ég um leið kominn í mótsögn við eigin afneitun þeirra.

Sé rökleiðsla þessi réttmæt virðist því sem í sérhverri slíkri verufræðilegri deilu verði sá sem heldur fram hinu neikvæða að líða fyrir að geta ekki fallist á að andmælandann greini á við hann.

Hér er á ferðinni hin forna gáta Platons um það sem ekki er. Það sem ekki er hlýtur að vera með einhverjum hætti, því hvað væri það annars sem ekki er? Þessa snúnu kennisetningu mætti kalla skegg Platons; hún hefur reynst lífseig í gegnum söguna og iðulega slævt bitið í rakhníf Ockhams.

Það er þankagangur þessum líkur sem leiðir heimspekinga á borð við McX til að halda fram tilvist þar sem þeir féllust annars fúslega á að ekkert væri. Tökum sem dæmi Pegasus. Ef Pegasus væri ekki, segir McX, værum við ekki að tala um neitt þegar við notuðum orðið; þar af leiðandi væri jafnvel hrein merkingarleysa að segja að Pegasus sé ekki. Í þeirri trú að þar með sé sýnt að afneitun Pegasusar verði ekki haldið fram á samkvæman hátt, kemst hann að þeirri niðurstöðu að Pegasus sé.

McX getur þó raunar ekki fyllilega sannfært sjálfan sig um að einhver staður í tíma og rúmi, nær eða fjær, innihaldi fljúgandi hest af holdi og blóði. Sé hann krafinn frekari skýringar á Pegasusi segir hann Pegasus vera ímynd í hugum manna. Hér fer hins vegar að bera á ruglingi. Rökræðunnar vegna getum við fallist á að til sé fyrirbæri, jafnvel einstakt fyrirbæri (þó svo sú hugmynd sé næsta óaðgengileg), sem sé hin huglæga ímynd Pegasusar, en þetta huglæga fyrirbæri er hins vegar ekki það sem fólk er að tala um þegar það hafnar Pegasusi.

McX ruglar aldrei saman Meyjarhofinu og ímyndum manna af því. Meyjarhofið er efnislegt, ímynd þess er huglæg (í það minnsta samkvæmt hugmyndum McX um ímyndir og ég hef ekki aðrar betri). Meyjarhofið er sýnilegt, ímynd þess er ósýnileg. Við getum ekki með hægu móti hugsað okkur neitt ólíkara og ólíklegra til að valda ruglingi en Meyjarhofið og ímyndir manna af því. En þegar við hverfum frá Meyjarhofinu til Pegasusar þá sækir ruglingurinn að – fyrir þær sakir einar að McX lætur fremur glepjast af grófri og óljósri eftirmynd en fallast á að Pegasus sé ekki til.

Sú hugmynd að Pegasus hljóti að vera, því ella væri það merkingarleysa að segja jafnvel að Pegasus sé ekki, leiðir því McX út í grundvallarrugling. Gleggri hugsuðir, sem leggja upp frá sama stað og McX, komast að kenningum sem ekki eru eins ljóslega á misskilningi byggðar, og því að sama skapi erfiðara að uppræta. Við skulum segja að einn þessara gleggri hugsuða nefnist Wyman. Wyman heldur því fram að Pegasus eigi tilvist sína í óframgengnum möguleika. Þegar við segjum um Pegasus að enginn slíkur hlutur sé til, þá erum við nánar tiltekið að segja að Pegasus búi ekki yfir þeim sérstaka eiginleika sem raunveruleiki er. Að segja að Pegasus sé ekki raunverulegur jafngildir því, röklega, að segja að Meyjarhofið sé ekki rautt; í báðum tilvikum höldum við fram einhverju um fyrirbæri sem ekki verður efast um að sé til.

Svona til áréttingar, þá er Wyman einn þeirra heimspekinga sem tekið hafa höndum saman um að eyðileggja hið gamalgróna orð „tilvist“. Þótt hann aðhyllist óframgengna möguleika takmarkar hann orðið „tilvist“ við raunveruleikann – og viðheldur þannig þeirri blekkingu að sammæli sé með honum og okkur hinum sem vísum frá öðrum hlutum hins ofsetna heims hans. Við höfum hneigst til að segja, miðað við hversdagslegan skilning okkar á orðunum „er til“, að Pegasus sé ekki til, og eigum þá einfaldlega við að ekkert slíkt fyrirbæri sé. Væri Pegasus til væri hann vissulega í tíma og rúmi, en einungis vegna þess að orðið „Pegasus“ hefur í sér fólginn rúm- og tímalegan hljóm, en ekki vegna þess að orðið „tilvist“ feli í sér slíkan hljóm. Ef rúm- eða tímaleg tilvísun er fjarri þegar við höldum því fram að til sé kvaðratrótin af 27, þá er það einfaldlega vegna þess að kvaðratrót er ekki rúm- eða tímalegur hlutur og ekki vegna þess að við gerumst sek um tvíræðni í notkun okkar á „tilvist“.1 Í lítt ígrundaðri tilraun til að virðast aðgengilegur gefur Wyman okkur hins vegar eftir af rausn að Pegasus eigi sér enga tilvist en heldur síðan fram, þvert á það sem við áttum við með tilvistarleysi Pegasusar, að Pegasus sé. Tilvist er eitt, segir hann, og vera annað. Eina leiðin sem ég þekki til að glíma við þennan rugling er að gefa Wyman eftir orðið „tilvist“. Ég mun reyna að nota það ekki aftur; enn hef ég þó „er“. Nú er nóg komið af orðfræði, snúum okkur aftur að verufræði Wymans.

Hinn ofsetni heimur Wymans er um margt lítt þekkilegur. Hann særir fegurðarskyn okkar sem höfum smekk fyrir eyðilegu landslagi, en það er þó ekki það versta. Haugabyggð Wymans af möguleikum er gróðrarstía fyrir ósköpuleg fyrirbæri. Tökum sem dæmi mögulega feita manninn þarna í dyrunum; og svo að auki mögulega sköllótta manninn þarna í dyrunum. Eru þeir einn og sami mögulegi maðurinn eða tveir mögulegir menn? Hvernig komust við að niðurstöðu? Hversu margir mögulegir menn eru þarna í dyrunum? Eru fleiri grannvaxnir en feitir? Hversu margir þeirra eru hver öðrum líkir? Eða myndi líking þeirra gera þá að einum? Eru engir tveir mögulegir hlutir eins? Jafngildir þetta því að segja að ómögulegt sé fyrir tvo hluti að vera eins? Eða að endingu, er hugtakið sérkenni hreinlega ónothæft um óframgengna möguleika? En hvaða vit má finna í tali um hluti sem ekki verður sagt um á merkingarbæran hátt að séu sjálfum sér líkir en frábrugðnir hver öðrum? Þessi fyrirbæri eru því næst óbetranleg. Kannski mætti freista þess að endurvekja einstaklingshugtök að hætti Freges,2 en mér segir svo hugur að heilladrýgra sé að ryðja haugabyggð Wymans og fjalla ekki um hana frekar.

Möguleiki, ásamt öðrum háttum nauðsynjar og ómöguleika og samkvæmni, vekur spurningar sem ég ætla mér alls ekki að gefa í skyn að við skyldum snúa við baki. En við getum þó í það minnsta takmarkað hætti þessa við heilar staðhæfingar. Við getum notað atviksorðið „mögulega“ um staðhæfingu sem slíka, og við getum hæglega velt vöngum yfir málfræðilegri greiningu slíkrar notkunar, en það er lítilla raunverulegra framfara að vænta af því að víkka veruleikann út svo hann innihaldi einnig svokölluð möguleg fyrirbæri. Mig grunar að helsti hvati þess að grípa til slíkrar útvíkkunar sé einfaldlega hin forna hugmynd að Pegasus, svo dæmi sé tekið, hljóti að vera, því ella væri það merkingarleysa að segja jafnvel að hann sé ekki.

Ennfremur virðist sem óhófleg frjósemi möguleikaheims Wymans verði að svo til engu ef við breytum dæminu lítillega og tölum ekki um Pegasus heldur um hringlaga ferhyrndu þak­hvelfinguna á Berkeleyháskóla. Ef það væri merkingarleysa að segja að Pegasus sé ekki, nema því aðeins að hann sé, þá myndi með sama hætti vera merkingarlaust að segja hringlaga fer­hyrndu hvelfinguna á Berkeleyháskóla ekki vera, nema því aðeins að hún væri. En ólíkt Pegasusi, þá er ekki hægt að fallast á hringlaga ferhyrndu hvelfinguna á Berkeleyháskóla, jafnvel ekki sem óframgenginn möguleika. Getum við nú knúið Wyman til að fallast einnig á ríki óframkominna ómöguleika? Sé svo, vaknar sægur hjákátlegra spurninga. Við kynnum jafnvel að geta leitt Wyman í mótsagnir með því að fá hann til að fallast á að sum þessara fyrirbæra séu í senn hring­laga og ferhyrnd. Hinn slægi Wyman kýs þó að taka vandann öðrum tökum og viðurkennir að það sé merkingarleysa að segja að hin hringlaga ferhyrnda hvelfing á Berkeleyháskóla sé ekki. Hann segir að orðin „hringlaga ferhyrnd hvelfing“ séu merkingarlaus.

Wyman var ekki fyrstur til að grípa þennan kost. Kennisetningin um merkingarleysi mótsagna á sér langa sögu. Hefðin heldur jafnvel velli hjá höfundum sem hallast að þessari skoðun af allt öðrum ástæðum en Wyman. Þó velti ég vöngum yfir því hvort fyrsta freistingin til slíkrar kenningar kunni ekki, þegar öllu er á botninn hvolft, að hafa verið sú hin sama og við sáum hjá Wyman. Víst er að kennisetningin sjálf býr ekki yfir neinu augljósu aðdráttarafli; hún hefur leitt fylgjendur sína til jafnóraunhæfra öfga og þeirra að ráðast gegn sönnunarmætti niðursöllunar í fáránleika (reductio ad absurdum) – sú aðför sýnist mér nánast salla kenninguna sjálfa niður í fáránleika.

Ennfremur er sá alvarlegi aðferðafræðilegi galli á kenningunni um merkingarleysi mótsagna að hún gerir í grundvallaratriðum ókleift að setja saman áhrifaríka aðferð til að kanna hvað hafi merkingu og hvað ekki. Þá væri með öllu ómögulegt fyrir okkur að finna upp kerfisbundna aðferð til að ganga úr skugga um hvort táknruna þýddi eitthvað – jafnvel fyrir okkur sjálfum, hvað þá öðrum. Það leiðir af uppgötvunum á sviði stærðfræðilegrar rökfræði, fyrir tilverknað Church,3 að ekkert almennt nothæft próf fyrir mótsagnir getur hugsast.

Ég hef hér talað heldur óvirðulega um skegg Platons, og jafnvel gefið í skyn að það sé flókið. Ég hef dvalið lengi við að sýna hversu óhentugt sé að umbera það. Nú er tími til kominn að halda lengra.

Russell hefur sýnt ljóslega fram á, í kenningu sinni um ákveðnar lýsingar, hvernig við gætum notað sýndarheiti á merkingarbæran hátt án þess að gera ráð fyrir að þau nefni neitt. Heitin sem kenning Russells á beint við um eru samsett ákveðin lýsandi heiti líkt og „höfundurinn sem skrifaði Waverley“, „núverandi konungur Frakka“ og „hringlaga ferhyrnda hvelfingin á Berkeley­háskóla“. Russell greinir þessi orðasambönd kerfisbundið sem hluta þeirra setninga sem þau koma fyrir í. Setningin „höfundurinn sem skrifaði Waverley var skáld“ er skýrð í heild þannig að hún merki: „Einhver (betra: eitthvað) skrifaði Waverley og var skáld, og ekkert annað skrifaði Waverley.“ (Það sem sagt er í viðbótinni er til að staðfesta hið einstaka sem felst í notkun ákveðins greinis í „höfundurinn sem skrifaði Waverley“.) Setningin „hringlaga ferhyrnda hvelfingin á Berkeleyháskóla er bleik“ er útskýrð sem: „Eitthvað er hringlaga og ferhyrnt og er hvelfing á Berkeleyháskóla og er bleikt, og ekkert annað er hringlaga og ferhyrnt og hvelfing á Berkeley­háskóla“.4

Helsti kostur þessarar greiningar felst í því að sýndarheitið, lýsingin, er umorðuð í samhengi sem svokallað ófullkomið tákn. Engin einstök segð er sett fram sem greining á lýsingunni, en stað­hæfingin í heild sinni, sem var samhengi lýsingarinnar, fær þó allan þann hlut í merkingunni sem henni ber – hvort heldur hún er sönn eða ósönn.

Ósundurgreinda staðhæfingin „höfundurinn sem skrifaði Waverley var skáld“ inniheldur hluta sem þeir McX og Wyman gerðu ranglega ráð fyrir að krefðist hlutlægrar tilvísunar til að hann gæti borið nokkra merkingu. En í þýðingu Russells, „Eitthvað skrifaði Waverley og var skáld og ekkert annað skrifaði Waverley“, er byrðinni af hlutlægri tilvísun létt af lýsingunni og hún flutt yfir á orð þeirrar tegundar sem rökfræðingar kalla bundnar breytur, magnbreytur, nefnilega orð eins og „eitthvað“, „ekkert“ og „allt“. Þessi orð, sem fráleitt þykjast vera heiti sem sérstaklega eigi við um höfund Waverley, þykjast ekki vera heiti á neinn hátt; þau vísa almennt til einda, með nokkurs konar lærðri óræðni sem er einkennandi fyrir þau sjálf.5 Þessi magnorð eða bundnu breytur eru sannarlega einn grunnþáttur tungumáls, og ekki verður efast um að þau beri merkingu, í það minnsta í samhengi. En það að þessi orð beri merkingu krefst þess engan veginn að höfundur Waverley sé, né hinar hringlaga ferhyrndu hvelfingar á Berkeleyháskóla, né nokkrir aðrir fyrirfram tilteknir hlutir.

Þar sem lýsingar eiga hlut að máli er því vandalaust að játa eða neita að eitthvað sé. „Höfundur­inn sem skrifaði Waverley er“ útskýrir Russell þannig að það merki: „Einhver (eða nánar tiltekið, eitthvað) skrifaði Waverley og ekkert annað skrifaðiWaverley“. „Höfundur Waverley er ekki“ skýrir hann á sama hátt þannig að það merki: „Annaðhvort skrifaði sérhver hlutur ekki Waverley eða tveir eða fleiri hlutir skrifuðu Waverley“. Þessi eða-setning er röng en merkingarbær, og hún inni­heldur ekkert sem þykist nefna höfund Waverley. Staðhæfingin „hin hringlaga ferhyrnda hvelfing Berkeleyháskóla er ekki“ er sundurgreind með svipuðum hætti. Þannig fellur fyrir borð sú aldna hugmynd að staðhæfingar um tilvistarleysi afneiti sjálfum sér. Sé staðhæfing um veru eða ekki-veru greind samkvæmt kenningu Russells um lýsingar, hættir hún að innihalda nokkuð sem svo mikið sem þykist nefna þann hlut sem efast er um að sé, og því felur krafan um merkingu alls ekki í sér að gert sé ráð fyrir slíkum hlut.

II

En hvað þá um „Pegasus“? Þar sem þetta er orð fremur en setning blasir ekki undir eins við að rökfærsla Russells eigi hér við. Hins vegar er hægur vandi að láta hana eiga við. Við þurfum einungis að umorða „Pegasus“ sem lýsingu á hvern þann hátt sem virðist einangra hugmynd okkar; til að mynda „Vængjaði hesturinn sem Bellerófon fangaði“. Sé skipt á þessari setningu og „Pegasus“ getum við sem hægast snúið okkur að því að greina staðhæfinguna „Pegasus er“ eða „Pegasus er ekki“ í fullu samræmi við greiningu Russells á „höfundur Waverley er“ og „höfund­ur Waverley er ekki“.

Til þess þá að heimfæra eins orðs heiti eða sýndarheiti eins og „Pegasus“ undir kenningu Russells um lýsingar, verðum við vitanlega fyrst að geta þýtt heitið yfir í lýsingu. Þetta eru þó engar raunverulegar hömlur. Ef hugmyndin um Pegasus væri óljós eða svo augljós að engin slík hiklaus þýðing yfir í lýsingu hefði verið ljós eftir kunnuglegum leiðum, hefðum við þó enn getað útbúið okkur eftirfarandi og að því er virðist lítilvæga tól: við hefðum getað gripið til hins frumlæga, ógreinanlega og ósmættanlega eiginleika að vera Pegasus, og tekið upp til að tjá hann sögnina „er-Pegasus“ eða „pegasusar“. Sjálft nafnorðið „Pegasus“ gætum við síðan litið á sem afleitt og á endanum jafngilt lýsingu: „hluturinn sem er-Pegasus“, „hluturinn sem pegasusar“.6

Ef það að innleiða umsögn eins og „pegasusar“ virðist leiða okkur til að viðurkenna tilsvarandi eiginleika, pegasusleika, á himnum Platons eða í hugum manna, þá það. Hvorki við né McX eða Wyman höfum glímt við veru eða óveru slíkra almennra hugtaka, heldur veru eða óveru Pegasusar. Ef við getum með stoð pegasusleika túlkað nafnorðið „Pegasus“ í lýsingu sem fellur að kenningu Russells um lýsingar, þá höfum við rutt úr vegi þeirri fornu hugmynd að við getum ekki sagt um Pegasus að hann sé ekki, án þess að gera ráð fyrir að hann sé með einhverjum hætti.

Þessi rökfærsla er býsna almenn. McX og Wyman gerðu ráð fyrir að við gætum ekki á merkingar­bæran hátt fallist á staðhæfingu á forminu „þetta eða hitt er ekki“, þar sem þetta eða hitt stendur fyrir einfaldan eða lýsandi nafnlið, nema því aðeins að þetta eða hitt sé. Nú hefur það sýnt sig að þessi skoðun stendur almennt á brauðfótum, því að nafnliðnum sem um ræðir má ævinlega breyta í ákveðna lýsingu, á einn eða annan hátt, og hana má síðan sundurgreina að hætti Russells.

Við göngumst við verufræði þar sem finna má tölur, þegar við segjum að til séu prímtölur stærri en milljón; við göngumst við verufræði þar sem finna má kentára, þegar við segjum að til séu kentárar; og við göngumst við verufræði þar sem finna má Pegasus, þegar við segjum að Pegasus sé. En við göngumst ekki við verufræði þar sem eru Pegasus, höfundur Waverley eða hringlaga ferhyrnda þakhvelfingin á Berkeleyháskóla, þegar við segjum að Pegasus, höfund­ur Waverley eða þakhvelfingin séu ekki. Við þurfum ekki framar að gangast við þeirri villu að merkingarbærni staðhæfingar sem inniheldur lýsandi hugtak sé undir því komin að hugtakið nefni hlut eða fyrirbæri. Slík lýsandi hugtök þurfa ekki að vísa til neins til að bera merkingu.

Ávæningur þessa kynni að hafa sótt að Wyman og McX, jafnvel án stuðnings Russells, hefðu þeir aðeins veitt því athygli – sem svo fá okkar hafa – að milli þess að merkja og nefna eru víðáttur, jafnvel þegar talað er um lýsandi hugtök sem sannarlega nefna hluti. Eftirfarandi dæmi sem fengið er frá Frege7 er hér við hæfi. Heitið „Kvöldstjarnan“ nefnir tiltekinn stóran, efnislegan, hnöttóttan hlut sem geysist um himinhvolfin í einhverra milljóna kílómetra fjarlægð héðan. Heitið „Morgunstjarnan“ nefnir þennan sama hlut, líkt og glöggur athugandi í Babýloníu var líkast til fyrstur að uppgötva. En heitin tvö geta þó ekki talist hafa sömu merkingu, því þá hefði Babyloníumaðurinn komist af án athugana sinna með því einu að líta til merkingar orðanna. Merkingarnar, sem eru ólíkar, hljóta því að vera annað en hluturinn sem nefndur var, þar sem hann er einn og hinn sami í báðum tilfellum.

Ruglingur þess að merkja og nefna leiddi McX ekki einasta til að halda að ekki væri á merkingarbæran hátt hægt að hafna Pegasusi heldur átti áframhaldandi ruglingur merkingar og nefningar án efa sinn þátt í að geta af sér þá fráleitu hugmynd hans að Pegasus væri ímynd, huglægt fyrirbæri. Ruglingi hans má lýsa á eftirfarandi hátt. Hann ruglaði meintum nefndum hlut, Pegasusi, saman viðmerkingu orðsins „Pegasus“, og leiddi af því þá niðurstöðu að Pegasus hlyti að vera, ætti orðið að geta borið merkingu. En hvers kyns hlutir eru merkingar? Hér erum við á vafasömum slóðum, en þó kynni að vera hægt að skýra merkingar sem ímyndir hugans, sé gert ráð fyrir því að í framhaldinu megi skýra ljóslega þessa hugmynd um ímyndir hugans. Þannig atvikast það að Pegasus, sem upphaflega er ruglað saman við merkingu, verður á endanum ímynd hugans. Enn eftirtektarverðara er þó að Wyman, sem í upphafi var rekinn áfram af sömu hvötum og McX, skyldi sveigja hjá þessum tilteknu hættum og sitja í þess stað uppi með óframgengna möguleika.

Snúum okkur nú að þeim verufræðilega vanda sem sprettur af almennum hugtökum: spurningunni um það hvort til séu fyrirbæri eins og eiginleikar, tengsl, tegundir, tölur og hlutverk. McX telur að svo sé, og engan skyldi undra það. Þegar eiginleika ber á góma segir hann: „Til eru rauð hús, rauðar rósir, rauð sólarlög; svo mikið er ljóst af hugvitinu einu saman sem við öll munum fallast á. Þessi hús, rósir og sólarlög eiga því eitthvað sameiginlegt og það er þetta sem þeim er sammerkt sem ég á við þegar ég tala um eiginleikann að vera rautt.“ Að til séu eiginleikar er því í augum McX enn ljósara og sjálfsagðara en þau augljósu og sjálfsögðu sannindi að til eru rauð hús, rósir og sólarlög. Þetta tel ég einkennandi fyrir frumspeki, eða í það minnsta fyrir þann þátt frumspeki sem kallast verufræði: sá sem fellst á annað borð á staðhæfingu um þessi efni, verður að líta á hana sem augljós sannindi. Verufræði manns liggur til grundvallar því hugtakakerfi sem hann síðan notar til að túlka samanlagða reynslu sína, jafnvel hina hversdags­legustu. Séu verufræðilegar staðhæfingar metnar innan tiltekins hugtakakerfis – og hvernig ætti að meta þær annars? – þá standast þær án þess að nokkuð verði frekar um þær sagt, þær kalla ekki á neina staðfestingu aðra. Verufræðilegar staðhæfingar spretta sjálfkrafa af þeim hætti sem hafður er á staðhæfingum um hversdagsleg sannindi, rétt eins og „til er eiginleiki“ leiðir sjálfkrafa af „til eru rauð hús, rauðar rósir, rautt sólarlag“ – í það minnsta séð af sjónarhóli McX.

Séu þessar verufræðilegu staðhæfingar metnar innan annars hugtakakerfis þá kynnu þær sem eru frumsetningar í huga McX að vera taldar rangar á jafnaugljósan og sjálfsagðan máta. Þannig getur maður fallist á að til séu rauð hús, rósir og sólarlög en hins vegar hafnað því að þau eigi nokkuð sammerkt, nema sem útbreiddum og misvísandi talsmáta. Orðin „hús“, „rósir“ og „sólarlög“ eru sönn um fjölskrúðuga flóru einstakra fyrirbæra sem eru hús, rósir og sólarlög, og orðin „rautt“ eða „rautt fyrirbæri“ eru sönn um margvísleg einstök fyrirbæri sem eru rauð hús, rauðar rósir og rautt sólarlag; en hins vegar er ekki neins konar fyrirbæri þessu til viðbótar, einstakt eða almennt, sem nefnt er með orðinu „roði“, né ef því er að skipta, með orðunum „húsleiki“, „rósleiki“ eða „sólarlagsleiki“. Að húsin, rósirnar og sólarlagið séu öll rauð má líta á sem endanlegt og ósmættanlegt, og sé horft til raunverulegra skýringa McX, megi því halda fram að hann sé engu bættari með öll þau sérstæðu fyrirbæri sem hann færir undir heiti eins og „roði“.

Einni þeirra leiða sem kynnu að hafa blasað við McX, hefði hann reynt að þröngva upp á okkur verufræði sinni um almenn hugtök, hafði þegar verið lokað áður en við komum að vandanum um almenn hugtök. McX getur ekki haldið því fram að umsagnir eins og „rauður“ eða „er-rauður“, sem við öll notum, verði að skoðast sem heiti á tilteknu almennu fyrirbæri eigi þau að merkja eitthvað yfirleitt. Því við höfum séð að það að nefna eitthvað er miklum mun sérstæðari eiginleiki en það að vera merkingarbær. Hann getur jafnvel ekki sakað okkur – í það minnsta ekki meðþessum rökum – um að hafa gert ráð fyrir eiginleikanum pegasusleika þegar við gripum til umsagnar­innar „pegasusar“.

McX grípur hins vegar til annarra baráttuaðferða. „Við skulum fallast á þennan greinarmun á að merkja og nefna sem þú metur svo mikils,“ segir hann. „Við skulum jafnvel fallast á að „er rautt“, „pegasusar“ og svo framvegis séu ekki heiti á eiginleikum. Þó samþykkir þú að þau hafi merkingu. En þessar merkingar, hvort sem þær eru nefndar eða ekki, eru eftir sem áður almennar, og ég freistast jafnvel til að segja að sumar þeirra kynnu að vera einmitt það sem ég vil kalla eiginleika eða í það minnsta eitthvað sem á endanum gegnir í stórum dráttum sama hlutverki.“

Þetta er óvenju ásækin ræða af McX að vera, og eina leiðin sem ég þekki til að svara henni er að neita að viðurkenna merkingar. Ég sé hins vegar enga eftirsjá í merkingum, sé þeim hafnað, því að þar með hafna ég ekki því að orð og staðhæfingar hafi merkingu. McX og ég gætum orðið sammála í öllum atriðum í greiningu okkar á einingum tungumálsins í merkingarbærar og merkingarlausar einingar, jafnvel þótt McX líti svo á, ólíkt mér, að það að bera merkingu sé að búa yfir (í einhverjum skilningi þess „að búa yfir“) einhvers konar óhlutbundnu fyrirbæri sem hann kallar merkingu. Mér er enn frjálst að halda því fram að sú staðreynd að tiltekin segð beri merkingu (eða sé skiljanleg, eins og ég kýs að segja, til að fyrirbyggja að litið sé á merkingu sem fyrirbæri) sé endanleg og ósmættanleg sjálfgefin sannindi. Og ég gæti hafist handa við að gera grein fyrir þessu beint í ljósi þess sem fólk aðhefst í nálægð segðarinnar sem um er fjallað og annarra henni líkum.

Svo virðist sem fólk tali að gagni um merkingu einungis á tvo vegu: það að hafamerkingu, sem er að vera skiljanlegt, og samsemd merkingar, eða samheiti. Það sem kallað er að gefa merkingu einhverrar segðar er einfaldlega að mæla fram samheiti, venjulega sett fram á skýrara máli en hið upphaflega. Ef við höfum ofnæmi fyrir merkingum sem slíkum getum við talað beint um segðirnar sem skiljanlegar eða óskiljanlegar, og sem jafngildar eða ekki jafngildar hver annarri. Vandinn við að útskýra lýsingarorðin „skiljanlegt“ og „jafngilt“, svo vel og ljóst sé, og helst í ljósi hegðunar að mínu mati, er jafnerfiður og hann er mikilvægur.8 En skýringargildi tiltekinna ósmættanlegra fyrirbæra sem þarna komi til og kallist merkingar er svo sannarlega blekking.

Til þessa hef ég haldið því fram að við getum notast við ákveðin heiti á skiljanlegan hátt í setningum, án þess að gera fyrirfram ráð fyrir að til séu fyrirbæri sem þessi heiti þykist nefna. Ég hef síðan haldið því fram að við getum notað almenn hugtök, til að mynda umsagnir, án þess að líta á þau sem heiti á óhlutbundnum fyrirbærum. Þá hef ég einnig haldið því fram að við getum litið á segðir sem skiljanlegar, og sem jafngildar eða ójafngildar hver annarri, án þess að fallast á ríki fyrirbæra sem kallast merkingar. Þegar hér er komið sögu leitar sú hugsun á McX hvort verufræðilegu ónæmi okkar séu nokkur takmörk sett. Mun ekkert sem við kynnum að segja leiða okkur að þeirri ályktun að til séu almenn fyrirbæri eða önnur fyrirbæri sem okkur kann að þykja óvelkomin?

Ég hef nú þegar vikið að því að við getum svarað þessari spurningu neitandi, þegar ég fjallaði um bundnar breytur eða magnbreytur í tengslum við kenningu Russells um ákveðnar lýsingar. Við getum sem hægast gengist undir verufræðilegar skuldbindingar með því að segja, til að mynda, að til sé eitthvað(bundin breyta) sem rauð hús og sólarlag eigi sameiginlegt, eða að til sé eitthvaðsem sé prímtala stærri en milljón. Þetta er í eðli sínu eina leiðin sem getur leitt okkur til verufræðilegra skuldbindinga, það er notkun okkar á bundnum breytum. Notkun sýndarheita kemur hér ekki til álita, því við getum í sviphendingu vísað því frá að þau nefni nokkurn hlut, nema því aðeins að notkun okkar á bundnum breytum þvingi okkur til að gera ráð fyrir tilsvarandi fyrirbærum. Heiti eru reyndar algjörlega óviðkomandi verufræðilegum vandamálum, því eins og ég hef sýnt fram á, í tengslum við „Pegasus“ og „pegasusar“, má umbreyta heitum í lýsingar, og Russell hefur sýnt hvernig eyða má lýsingum. Hvaðeina sem við segjum með aðstoð heita má segja á máli sem sneiðir algerlega hjá þeim. Það að vera fyrirbæri er hreint og beint að vera viðurkennt sem gildi breytu. Sé gripið til hugtaka hefðbundinnar málfræði má orða þetta þannig að það að vera sé að vera innan umtaks fornafna. Fornöfn eru sá miðill sem liggur tilvísun til grundvallar; nafnorð hefðu betur verið nefnd forfornöfn. Magnbreyturnar „eitthvað“, „ekkert“ og „allt“ ná yfir alla verufræði okkar, hver sem hún kann að vera; við erum þá og því aðeins ofurseld tilteknum verufræðilegum forsendum, að það sem þær kveða á um verði að teljast til þeirra fyrirbæra sem breytur okkar ná yfir, eigi einhver staðhæfinga okkar að vera sönn.

Við getum til dæmis sagt að sumir hundar séu hvítir, án þess að við höfum þar með viðurkennt að það að vera hundur eða að vera hvítur sé fyrirbæri. „Sumir hundar eru hvítir“ segir að sumir hlutir sem eru hundar séu hvítir; til að staðhæfingin sé sönn verða einhverjir hvítir hundar að vera á meðal þeirra hluta sem breytan „sumir“ nær til, en á meðal þeirra þurfa ekki að vera hundleiki eða hvítleiki. Þegar við segjum hins vegar að sumar tegundir dýra geti afkvæmi með öðrum tegundum, þá erum við um leið að fallast á að tegundirnar sem slíkar séu fyrirbæri, þótt þær séu óhlutbundnar. Og við verðum að fallast á þetta í það minnsta þar til við finnum leið til að umorða staðhæfinguna þannig að komist verði hjá þeirri vísun til tegunda sem virtist ljós af breytunni.9

III

Sígild stærðfræði er margskuldbundin verufræði óhlutbundinna fyrirbæra, eins og dæmið um prímtölu stærri en milljón sýndi. Því er það að hin mikla deila miðalda um almenn hugtök hefur fengið endurnýjaða lífdaga í stærðfræðilegri heimspeki nútímans. Deiluefnið er ljósara nú en fyrr, því við búum nú yfir ljósari stöðlum sem gripið er til þegar ráðið er hvaða verufræði tiltekin kenning eða samræðuform verður að gangast undir; kenning verður að gangast við þeim og aðeins þeim fyrirbærum sem bundnar breytur hennar verða að geta vísað til ef staðhæfingar kenningarinnar eiga að vera sannar.

Þar sem þessir staðlar um verufræðilegar forsendur urðu ekki ljósir í heimspekihefðinni, þá hafa heimspekilegir stærðfræðingar nútímans ekki allir fallist á að þeir séu að deila um sama forna vandann um almenn hugtök á nýjan og skýrari máta. Þó er það svo að helsti klofningurinn meðal nútímasjónarmiða um grundvöll stærðfræðinnar snýst næsta ljóslega upp í ágreining um það til hvaða mengis fyrirbæra bundnar breytur skuli geta tekið.

Þrjú helstu sjónarmið miðalda um almenn hugtök hafa sagnfræðingar nefnt hlut­hyggjuhughyggju og nafnhyggju. Í grundvallaratriðum birtast þessar þrjár kennisetningar aftur á tuttugustu öld í umfjöllun um heimspeki stærðfræðinnar undir nöfnun­um rökhyggjainnsæishyggja og formhyggja.

Hluthyggja, eins og orðið er notað í sambandi við deilur miðalda um altæk hugtök, er hin platónska kennisetning að altæk hugtök eða óhlutbundin fyrirbæri eigi sér tilvist óháða huganum; hugurinn getur uppgötvað þau en hann getur ekki skapað þau. Rökhyggja, sem Frege, Russell, Whitehead, Church og Carnap héldu fram, leyfir notkun bundinna breytna um óhlutbundin fyrirbæri, þekkt og óþekkt, skilgreinanleg og óskilgreinanleg, án nokkurra skilyrða.

Hughyggja hélt því fram að til væru altæk hugtök, en þau væru hugsmíð.Innsæishyggja, sem haldið hefur verið fram í samtímanum í einni mynd eða annarri af Poincaré, Brouwer, Weyl og fleirum, heimilar einungis notkun bundinna breytna um altæk hugtök þegar hægt er að sjóða þessi fyrirbæri saman hvert fyrir sig, úr hráefni sem tiltekið er fyrirfram. Eða eins og Fraenkel hefur lýst því, þá telur rökhyggjan að tegundir séu uppgötvaðar en innsæishyggja telur þær vera fundnar upp – svo sannarlega ágæt lýsing á hinum fornu andstæðum hluthyggju og hughyggju. Þessar andstæður eru fráleitt hártoganir og þær ráða í grundvallaratriðum miklu um hversu stóran hlut af sígildri stærðfræði viðkomandi er reiðubúinn til að viðurkenna. Rökhyggjumenn, eða hluthyggju­menn, geta á grundvelli ályktana sinna fallist á vaxandi óendanleikatölur Cantors; innsæis­hyggjumenn eru neyddir til að láta sér nægja hinn fyrsta óendanleika, sem veldur því óbeint að þeir verða að gefa eftir sum af hefðbundnum lögmálum rauntalna.10 Þessi ágreiningur nútímans milli rökhyggju og innsæishyggju spratt raunar af ósamkomulagi um óendanleika.

Formhyggja, sem tengd hefur verið nafni Hilberts, fylgir innsæishyggjunni í því að harma óheft athvarf rökhyggjumanna í almennum hugtökum. En formhyggjunni þykir þó innsæishyggjan ófullnægjandi. Til þess gætu legið tvær andstæðar ástæður. Formhyggjumaðurinn gæti, líkt og rökhyggjumaðurinn, risið öndverður gegn spjöllum á sígildri stærðfræði, eða líkt og nafnhyggju­maðurinn fyrr á tímum, andmælt því að yfirleitt skuli fallist á nokkur óhlutbundin fyrirbæri, jafnvel þótt takmörkuð séu við afurðir hugans. Niðurstaðan verður sú sama: formhyggjumaðurinn heldur í sígilda stærðfræði sem leik með ómerkingarbært táknkerfi. Þessi leikur með táknkerfi getur þó komið að notum – sem þegar hafa komið í ljós sem stoð fyrir eðlisfræðinga og tæknifræðinga. En notagildi þarf ekki að benda til merkingar, í neinum bókstaflegum málfræðilegum skilningi. Árangur stærðfræðinga við að spinna upp kennisetningar og við að koma á hlutlægum grunni fyrir samkomulag um niðurstöður hvers annars þarf ekki heldur endilega að benda til merkingar. Fullnægjandi grunn fyrir samkomulag má einfaldlega finna í reglunum sem ráða því hvernig farið er með táknkerfið – þessar setningafræðilegu reglur eru, ólíkt táknunum sjálfum, sannarlega merkingarbærar og vitrænar.11

Ég hef hér haldið því fram að sú verufræði sem við aðhyllumst gæti verið afdrifarík – þetta er augljóst í tengslum við stærðfræði, þótt hún sé einungis dæmi. En hvernig eigum við þá að gera upp á milli andstæðra verufræðikenninga? Svarið er sannarlega ekki að finna í merkingarfræði­reglunni: „Að vera er að vera gildi breytu.“ Þvert á móti gagnast sú regla við að ganga úr skugga um samkvæmni setningar eða kennisetningar við gefna verufræðilega afstöðu. Við lítum til bundinna breytna í tengslum við verufræði, ekki í því augnamiði að komast að því hvað er, heldur til að vita hvað tiltekin umsögn eða kennisetning, okkar eigin eða annarra, segir að sé; og svo langt sem þetta nær er þetta réttilega vandamál sem snýst um tungumál. Það hvað er, er önnur spurning.

Þegar rætt er um hvað er, er enn full ástæða til að heyja glímuna á velli tungumálsins, meðal annars til að komast hjá þeim vanda sem bent var á í upphafi greinarinnar; þeim vanda mínum að geta ekki fallist á að til séu hlutir, sem McX segir að séu til en ég ekki. Svo lengi sem ég held tryggð við eigin verufræði, í andstöðu við verufræði McX, þá get ég ekki leyft breytum mínum að vísa til fyrirbæra sem heyra til verufræði McX en ekki minni. Ég get hins vegar af fullri samkvæmni lýst ágreiningi okkar með því að greina staðhæfingarnar sem McX fellst á. Að því einu gefnu að verufræði mín heimili málfræðileg form, eða í það minnsta efnislegar áletranir og mælt mál, get ég talað um setningar McX.

Önnur ástæða fyrir því að hörfa yfir á völl tungumálsins er sú að þar er sameiginlegur grunnur til að heyja deiluna á. Ágreiningur um verufræði felur í sér grundvallarágreining um hugtakakerfi, en þó komumst við McX að því, þrátt fyrir þennan ágreining, að hugtakakerfi okkar hafa nægan samhljóm í afleiddum greinum sínum til að við getum á árangursríkan hátt talað saman um efni eins og stjórnmál, veður og einkanlega um tungumál. Að svo miklu leyti sem hægt er að þýða grundvallarágreining okkar um verufræði yfir á málfræðilegan ágreining um orð og notkun þeirra, má komast hjá því að ágreininginn dagi uppi sem óleysta spurningu.

Því er ekki að undra að ágreiningur um verufræði hafi tilhneigingu til að enda í ágreiningi um tungumál. Við megum þó ekki hrapa að þeirri ályktun að það hvað er velti á orðum. Að unnt sé að þýða spurningu yfir á málfræðileg hugtök þarf alls ekki að benda til þess að spurningin sé málfræðileg. Að sjá Napólí er að bera nafn sem getur af sér sanna setningu, sé því skeytt fyrir framan orðin „sá Napólí“; þó er ekkert málfræðilegt við það að sjá Napólí.

Að fallast á verufræði er, að mínum dómi, í eðli sínu svipað því að fallast á vísindalega kenningu, eðlisfræðikerfi svo dæmi sé tekið. Svo fremi að sanngirni sé gætt, þá grípum við til einfaldasta hugtakakerfisins sem við getum fellt óregluleg brot reynslunnar að. Verufræði okkar er ráðin þegar við höfum fundið alla þá hugtakaramma sem eiga að hýsa vísindin í sínum víðasta skilningi, og þau sjónarmið sem ákvarða réttmæta samsetningu einhvers hluta hugtakakerfisins, til dæmis líffræðihlutann eða efnishlutann, eru ekki frábrugðin þeim sem ákvarða réttmæta samsetningu kerfisins í heild. Að svo miklu leyti sem sagt verður um upptöku einhvers vísindalegs kerfis að hún velti á tungumáli, verður hið sama sagt – en ekki meira – um upptöku verufræði.

En hugmyndin um einfaldleika sem leiðarljós við smíði hugtakakerfis er ekki skýr eða ótvíræð. Hún gæti sem hægast birt okkur tvöfalda eða margfalda afstöðu. Ímyndum okkur til að mynda að við höfum sett saman sérlega hagkvæmt kerfi hugtaka til að lýsa af vettvangi beinni skynreynslu okkar. Við skulum gera ráð fyrir að fyrirbærin sem liggja kerfinu til grundvallar – gildi bundinna breytna – séu einstök huglæg fyrirbæri skynreynslu eða athugunar. Án efa kæmumst við þó að því að eðlisfræðilegt hugtakakerfi, sem gefur sig út fyrir að tala um efnislega hluti, gefur kost á fjölmörgu sem einfaldað gæti lýsingar okkar. Með því að draga saman sundraða viðburði reynslunnar og fara með þá sem skynmyndir eins og sama hlutar, smættum við fjölbreytileika samanlagðrar reynslu okkar í meðfærileg, einföld hugtök. Reglan um einfaldleika er sannarlega hið leiðandi lögmál þegar við heimfærum viðburði skynreynslunnar upp á hluti: við tengjum fyrri og síðari hringlaga skynmynd sömu svokölluðu krónunni, eða tveimur ólíkum svokölluðum krónum, af hlýðni við kröfuna um sem mestan einfaldleika í samanlagðri veraldarmynd okkar.

Hér höfum við þá tvö andstæð hugtakakerfi, annað af toga fyrirbærafræði en hitt eðlisfræðilegt. Hvort skyldi fá að ráða? Hvort um sig hefur sína kosti og bæði búa þau yfir einfaldleika hvort á sinn hátt. Og mér virðist bæði eiga skilið að við þau sé lögð rækt. Reyndar má segja um hvort kerfið um sig að einmitt það sé hið frumlægara, þótt í ólíkum skilningi sé: annað þekkingarfræði­lega, hitt efnislega.

Hið hlutbundna eða efnislega hugtakakerfi einfaldar lýsingu okkar á reynslunni, vegna þess hvernig ókjör aðskiljanlegra viðburða reynslunnar tengjast einum og sama svokölluðum hlut; þó eru engar líkur til þess að sérhverja setningu um efnislega hluti megi þýða yfir í tungumál fyrirbærafræði, hvaða ráða sem gripið yrði til. Efnislegir hlutir eru afleidd fyrirbæri sem sníða til og einfalda lýsingu okkar á flæði reynslunnar, rétt eins og innleiðsla óræðra talna einfaldar lögmál talnafræðinnar. Séð af sjónarhóli talnafræði ræðra talna einna væri hin víðari talnafræði ræðra sem óræðra talna eins konar hentug goðsögn, einfaldari en sannleikurinn sjálfur (nefnilega talnafræði ræðra talna) en innihéldi þó þennan sama sannleika í sundruðum brotum. Á svipaðan hátt væri hugtakakerfi efnislegra hluta hentug goðsögn séð af sjónarhóli hugtakakerfis fyrirbærafræðinnar, einfaldari en sannleikurinn sjálfur en innihéldi þó þennan sannleika sem sundruð brot.12

En hvað nú um tegundir eða eiginleika efnislegra hluta? Frá sjónarhóli hins eðlisfræðilega hugtakakerfis verður platonsk verufræði af slíkum toga rétt eins mikil goðsögn og hið eðlisfræði­lega kerfi er í augum fyrirbærafræðinnar. Þessi afleidda goðsögn er hins vegar góð og gagnleg að svo miklu leyti sem hún einfaldar greinargerð okkar fyrir eðlisfræði. Þar sem stærðfræði er innbyggður hluti þessarar afleiddu goðsagnar er notagildi hennar fyrir eðlisfræði nógu ljóst. En þegar ég hef hér talað um kerfið sem goðsögn, þá enduróma ég þá heimspeki stærðfræðinnar sem ég vék að áður undir nafninu formhyggja. En þetta viðhorf formhyggjunnar geta þeir sem aðhyllast hreina fagur- eða fyrirbærafræði tekið upp með sama rétti um hið eðlisfræðilega hugtakakerfi.

Líkingin milli goðsagnar stærðfræðinnar og goðsagnar eðlisfræðinnar er ótrúlega mikil, á nokkuð annan hátt. Lítum til dæmis til þeirrar kreppu sem varð um grundvöll stærðfræðinnar í upphafi aldarinnar með uppgötvun þverstæðu Russells og annarra þverstæðna mengjafræðinnar. Þessum mótsögnum varð að ryðja úr vegi með því að grípa til tiltekinna torskiljanlegra og handa­hófskenndra tækja;13 stærðfræðileg goðsagnagerð okkar varð meðvituð og öllum ljós. En hvað um eðlisfræði? Mótsögn varð ljós milli bylgjufræðilegrar og eindafræðilegrar greiningar á ljósi; og þótt hún væri ekki eins augljós og afgerandi mótsögn og þverstæða Russells, þá grunar mig að ástæða þess sé að eðlisfræði er ekki jafnaugljós og afgerandi og stærðfræði. Önnur alvarleg kreppa samtímans um grundvöll stærðfræðinnar – sem hrundið var af stað 1931 með sönnun Gödels14 á því að til væru óákvarðanlegar setningar í talnafræði – á sér hliðstæðu í eðlisfræði í brigðhyggju Heisenbergs.

Hér að framan réðist ég í að sýna fram á að nokkur algeng rök fyrir tiltekinni verufræði væru skeikul. Þá setti ég fram ljósan staðal sem nota mætti til að ákvarða hvaða verufræðilegu skuldbindingar tiltekin kenning setti okkur. En spurningunni um það hvaða verufræði við skyldum á endanum aðhyllast er enn ósvarað, og ljósasta ráðleggingin er þolinmæði, umburðarlyndi og tilraunaandi. Við skulum fyrir alla muni grafast fyrir um hversu mikið af hugtakakerfi eðlisfræð­innar megi smætta í fyrirbærafræði; eftir sem áður kallar eðlisfræði vitanlega á rannsókn, þótt hún kynni í heild sinni að vera ósmættanleg. Við skulum athuga hvernig, eða að hve miklu marki, náttúruvísindin reynast óháð platónskri stærðfræði, en um leið skyldum við glíma við stærðfræði og kafa í platónskan grundvöll hennar.

Af þeim fjölbreytilegu hugtakakerfum sem best henta þessum ólíku athugunum er eitt – hið fyrirbærafræðilega – sem krefst þekkingarfræðilegs forgangs. Sé horft af sjónarhóli fyrirbæra­fræðinnar er verufræði efnislegra hluta og verufræði stærðfræðilegra fyrirbæra goðsagnir. Ágæti goðsagnarinnar er hins vegar afstætt; í þessu tilviki afstætt við hið þekkingarfræðilega sjónar­horn. Þetta sjónarhorn er eitt af mörgum og svarar til eins af margvíslegum áhugamálum okkar og ætlunarverkum.

Árni Finnsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Sú tilhneiging að greina hugtakalega á milli tilvistar sem eignuð er hlutum sem í raun eru í tíma og rúmi og tilvistar (eða tilveru eða veru) sem eignuð er öðrum fyrirbærum, kann að eiga einhverjar rætur að rekja til þeirrar hugmyndar að athugun á náttúrunni eigi einungis við þegar spurt er um hina fyrrnefndu tegund tilvistar. En þessa hugmynd má jafnharðan hrekja með dæmum um hið andstæða, svo sem „hlutfallinu milli fjölda kentára og fjölda einhyrninga“. Væri til slíkt hlutfall, væri það óhlutstætt fyrirbæri, nefnilega tala. Þó er það einungis með athugun á náttúrunni sem við komust að þeirri niðurstöðu að fjöldi bæði kentára og einhyrninga sé 0 og þar af leiðandi sé ekkert slíkt hlutfall til.

2. Sjá From a Logical Point of View, 152.

3. Sjá Alonso Church: „A note on the Entscheidungsproblem“, Journal of Symbolic Logic 1 (1936).

4. Nánari greinargerð fyrir kenningunni um ákveðnar lýsingar má sjá í From a Logical Point of View, 85 og áfram og 166 og áfram.

5. Nánari umfjöllun um hinar bundnu breytur má lesa í From a Logical Point of View, 82, 102 og áfram.

6. Frekari umfjöllun um slíka aðlögun allra einkvæðra heita að ákveðnum lýsingum má sjá í From a Logical Point of View, 167; einnig í W.V. Quine: Methods of Logic, N.Y. 1950, 218-224.

2. Sjá Gottlob Frege: „On Sense and Nomination“, í Feigt & Sellars: Reasoning in Philosophical Analysis, N.Y. 1949.

3. Sjá ritgerðirnar „Two Dogmas of Empiricism“ og „The Problem of Meaning in Linguistics“ í From a Logical Point of View.

9. Frekari umfjöllun um þetta efni er að finna í ritgerðinni „Logic and the Reification of Universals“ í From a Logical Point of View.

10. Sjá From a Logical Point of View, 125 og áfram.

11. Sjá um þetta efni Goodman og Quine: „Steps toward a constructive nominalism“, Journal of Symbolic Logic 12 (1947), 105-122. Frekari umfjöllun um efnin sem fjallað hefur verið um á síðustu tveimur blaðsíðum má finna hjá Paul Bernays: „Sur le platonisme dans les mathématiques“, L’Enseignement mathématique 34 (1935-36), A.A. Fraenkel: „Sur la notion d’existence dans les mathématiques“, L’Enseignement mathématique 34 (1935-36) og Max Black: The Nature of Mathematics, London 1933.

12. Reiknifræðilega samlíkingin er fengin frá Philipp Frank: Modern Science and its Philosophy, Cambridge 1949, 108 og áfram.

13. Sjá From a Logical Point of View, 90 og áfram, 96 og áfram og 122 og áfram.

14. Sjá Kurt Gödel: „Über formal unentscheidbare Sätze der Principia Mathematica und verwandter Systeme“, Monatshefte für Mathematik und Physik 38, 1936.

 

« Til baka

Willard V. Quine

Willard Van Orman Quine (1908–2000) var í hópi fremstu rökgreiningarheimspekinga tuttugustu aldar. Bakgrunnur Quines var í rökfræðilegri raunhyggju (e. logical positivism) Vínarhringsins og taldi hann Rudolf Carnap (1891–1970) sinn helsta lærimeistara. Helstu rit Quines eru From a Logical Point of View (1953), Word and Object (1960) og Ontological Relativity and Other Essays(1969).

Í grein Árna Finnssonar „Kenningar um merkingu“ sem hér birtist má finna ágætt yfirlit um heimspeki Quines. Greinin „Tvær kreddur raunhyggjunnar“ í þýðingu Þorsteins Hilmarssonar er úr áðurnefndu höfuðriti Quines From a Logical Point of View. Hér birtist einnig greinin „Um það sem er“ úr sama riti en hún er í þýðingu Árna Finnssonar.

Quine heimsótti Ísland árið 1980 og tók þá Mikael M. Karlsson viðtal við hann sem hér er birt og nefnist „Skilningur er eftirsóknarverður í sjálfum sér“. Viðtalið er góður upphafsreitur fyrir þá sem ekki þekkja Quine, sem og inngangurinn að grein Árna Finnssonar.

Mikael M. Karlsson:
„Skilningur er eftirsóknarverður í sjálfum sér“
Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. júní 1980.

Willard van Orman Quine:
Um það sem er
Í inngangi fjallar þýðandinn Árni Finnsson um Quine. Greinin birtist fyrst á íslensku í safnritinu Hvað er heimspeki? Tíu greinar á tuttugustu öld.

Willard van Orman Quine:
Tvær kreddur raunhyggjumanna

Árni Finnsson
Kenningar um merkingu
Ofantöldu greinarnar tvær birtust í Hug 1990/1991.

Willard van Orman Quine:
Hvar greinir okkur á?
Greinin birtist í Hug 1995.

« Til baka