Færslusöfn

Bara flón! bara skáld!

eftir Kristján Árnason

„Bara flón! bara skáld!“

Heimspeki í molum eða molar um Nietzsche

I

Ef sagt er um heimspeki að hún sé í molum, hljómar það sumpart sem áfellisdómur og sumpart sem öfugmæli, því það ætti einmitt að vera sérstakt kappsmál allrar heimspeki að koma auga á samhengi hlutanna og raða þekkingu manna á þeim í skipulegt kerfi sem sé byggt á traustum grundvelli og það svo mjög að hafa megi að leiðarljósi í lífi sínu. Sá sem helgar líf sitt heim­spekinni ætti þá með réttu móti að geta sagt eins og postulinn: nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja. Og í aldanna rás hefur heimspekin sem slík stefnt að því og jafnvel á stundum náð langt í að þjóna þessu markmiði, og þótt þar hafi einatt verið hver höndin upp á móti annarri og efahyggja skotið upp kollinum hvað eftir annað, þá hefur hún myndað í heild sinni samhangandi og vitræna orðræðu frá Þalesi til Hegels. En frá því um miðja síðustu öld og fram á okkar dag er eins og brestur komist í þetta samhengi og vöxtur og viðgangur hinna einstöku greina þekkingar hafi leitt til þess að þær hafa slitið sig lausar frá heildinni og splundrast í allar áttir í ákveðin sérsvið þar sem hvert hirðir sinn mola. Og í stað raunverulegrar heimspekilegrar heildarsýnar hafa menn þá látið sér nægja að hokra að sínu, nema þá helst að þeir hafi reynt að byggja út frá sínu þekkingarsviði ákveðna hugmyndafræði eða „isma“, þar sem alhæft er út frá þröngum forsendum og gert tilkall að komast að gildum niðurstöðum sem ná langt út fyrir umrædd svið.

Á þessu tímabili er kannski erfitt að finna heimspekinga sem bera ægishjálm yfir aðra og halda í alla þræði þekkingar líkt og löngum áður, en ef á að benda á hugsuð sem endurspeglar þetta skeið, mótsagnir þess og ringulreið og sveiflur og ólgu og upplausn, væri það helst Friedrich Nietzsche sem var einmitt fæddur rétt fyrir miðja öldina eða 1844 og og lauk lífi sínu sjálft aldamótaárið. Um Nietzsche má kannski einmitt segja, og það allt eins til lofs og lasts, að heim­speki hans sé í molum eins og tíminn sem hann lifir á og eins og umfjöllun um hann hlýtur að vera, þar sem hann í stað þess að reyna að tjasla upp fokheldu hugmyndahreysi sem við gætum skriðið inn í til skjóls fyrir vindum skilur lesanda sinn eftir á berangri þar sem allra veðra er von.

Sjálfur lýsti hann heimspekiaðferð sinni á þann veg að hann beitti hamrinum við þá iðju, og það segir sig sjálft að eitthvað hlýtur undan að láta þegar slíkur kappi mundar hamarinn, líkur Ása-Þór með Mjölni. Og í samræmi við það er heimspeki hans síður byggð á varfærnislegri röksemda­færslu út frá traustum grundvelli til óyggjandi niðurstaðna sem væri raðað saman snyrtilega í paragrafa en einstökum, brotakenndum hugarleiftrum, skáldlegum myndum eða glannalegum staðhæfingum, oft mótsagnakenndum innbyrðis, ef ekki beinlínis sleggjudómum um menn og málefni. Viðleitni hans beindist enda tæplega í þá átt að skapa eitthvert tímalaust kerfi þekkingar, er kallast mætti philosophia perennis, heldur felst hún meira í glímu við eigin samtíma, er hann í skrifum sínum gagnrýnir og afhjúpar og endurómar í senn, um leið og hann tjáir það í orðum sem liggur í loftinu eða hugsar það til enda sem aðrir vildu láta liggja í láginni og knýr til uppgjörs. Það er því ekki ófyrirsynju að hann líkir sér við eldloga í kvæði sem hann yrkir um sjálfan sig eins og svo mörg önnur og nefndi Ecce homo:

Hver er ég? Af hvaða toga?
Óseðjandi líkur loga
tendrast ég og tærist ég.
Kviknar allt sem kem ég nærri,
kol er það sem læt ég fjarri,
hyrjartunga heiftarleg!

Þeir hafa því nokkuð til síns máls sem vilja líta á Nietzsche fremur sem rithöfund og skáld en heimspeking í venjulegum og akademískum skilningi, og á óvenjuleg ritsnilld hans drjúgan þátt í því að rödd hans hefur heyrst langt út fyrir raðir þess fólks sem mætti bendla við heimspekiiðkun. Og sé litið á einmanalega ævi hans sem heilsulauss og rótlauss flakkara,þar sem hann flækist sem fugitivus errans, tekur Nietzsche raunar einnig á sig mynd píslarvottar, sem ber allt böl heimsins á herðum sér, og spámannleg vangamynd hans, þungbrýns með hönd undir kinn og rostungsskeggið mikla yfir munninum, spillir þar ekki fyrir.

Raunar má og minna á að Nietzsche var alls ekki heimspekingur í þeirri merkingu sem nútíminn gefur því orði, það er að segja sem „lögvernduðu starfsheiti“ þeirra sem útskrifaðir eru úr þar til ætluðum stofnunum með áunnum réttindum til að tjá sig um heimspekileg efni, þannig að mark verði á tekið. Því Nietzsche nam og kenndi allt önnur fræði en heimspeki á sínum akademíska ferli, það er að segja hina „klassísku fílologíu“ sem nú mun talin til úreltari greina en við getum nefnt á íslensku ýmist klassíska fornfræði eða textafræði og hefur menningu Forngrikkja og Rómverja að viðfangsefni. Tengsl Nietzsches við heimspekina sem sérstaka fræðigrein eru því frá upphafi nokkuð losaraleg, en það getur ekki síður talist styrkur hans en veikleiki, því hann er fyrir vikið minna flæktur í þær steingeldu og ófrjóu rökræður um þekkingarfræði og aðferðafræði sem löngum hafa sett svip sinn á akademíska umræðu og getur gefið hugsun sinni þeim mun lausari tauminn. Auk þess má segja að sú grein sem hann stundaði, hin klassíska fornfræði, hafi verið honum sjónarhóll sem gerði honum kleift að skoða samtíð sína og vanda hennar líkt og utanfrá og verða henni þannig sá óvægni greinandi og dómari sem hann var.

En í þeirri fræðigrein sem hann gerði að sinni, hinni klassísku fornfræði, átti hann þó ekki heima nema að takmörkuðu leyti, enda má segja að ferill hans sem fræðimanns og háskólakennara í þeirri grein hafi verið með nokkrum eindæmum. Fáir hafa hafið feril sinn með jafn miklum glæsi­brag og hann og fáir lokið honum með jafn litlum, því hann hafði orðið prófessor við háskólann í Basel tuttugu og fimm ára gamall án þess að hafa lokið prófi og það fyrir atbeina kennara síns Ritschls sem hafði komið auga á óvenjulegar gáfur hans án þess kannski að átta sig nógu vel á því hvar þær raunverulega lágu og því talið hann meira efni í fræðimann og kennara en raunin varð. Því er yfir lauk, eftir tíu ára slitróttan kennsluferil, þegar Nietzsche varð að láta af prófessors­stöðu sinni sakir heilsuleysis er vaxið hafði jafnt og þétt, var svo komið að stúdentar voru farnir að sniðganga háskólann í Basel í fræðigrein hans, að sögn varaðir við honum af kennurum við aðra háskóla.

Ástæða þess voru einkum fræðiskrif Nietzsches í fyrstu bók hans sem fjallaði um uppruna harm­leiksins gríska, en þau skrif féllu síður en svo í kramið og hlutu hraklega dóma, þannig að Nietzsche var þar með dæmdur úr leik og útlægur ger úr samfélagi fæðimanna um klassísk efni og átti ekki þangað afturkvæmt. Svo hlaut að fara, því téð rit sprengir þann ramma sem akademískum fræðiritum eru mörkuð, og höfundur tekur í því kannski fullmikið mið af þeim viðhorfum sínum er hann lét í ljós annars staðar að sögulegt fræðagrúsk hefði aðeins gildi að svo miklu leyti sem það gæti orðið innlegg í baráttu líðandi stundar. En snemmbær starfsloka­samningur Nietzsches varð til góðs að því leyti að hann gat snúið sér af alefli og óskiptur að því sem hugur hans stóð til og skrifað líkt og í striklotu á þeim áratug er hann hélt andlegri heilsu þau mörgu verk, prýdd skáldlegum og ögrandi nöfnum á borð við AftureldingHin kátu vísindiHandan góðs og ills, SkurðgoðarökkurAndkristur eða Ecce homo og þar fram eftir götunum, sem halda nafni hans á lofti, innblásin verk þar sem allri smásmygli og fræðahygli er gefið langt nef. Trúlega er það einmitt þess vegna sem þau orka svo fersk og lifandi enn í dag, þótt verk gagnrýnenda hans og fyrrum kollega, sem voru rituð af öllu meiri gerhygli og samviskusemi, rykfalli æ meir og úreldist með hverri nýrri kynslóð fræðimanna, og hér væri freistandi að segja að eftirtíminn hafi heiðrað skálkinn.

II

Nú stendur Nietzsche, og það ekki að ástæðulausu, mönnum fyrir hugskotssjónum einkum sem boðberi og spámaður einhvers nýs og byltingarkennds og þá sem niðurrifsmaður alls þess sem telst gamalt, feyskið og úr sér gengið. En þá er þó rétt að hafa í huga að hann, eins og áður var vikið að, stendur á grundvelli hinnar klassisku fornfræði og er á margan hátt mótaður af því og tekur að miklu leyti mið af hinu forna Grikklandi sem hann dáði mjög og þá einkanlega Grikkland eins og það var fyrir daga Sókratesar. Þegar hann því gengur til atlögu við ríkjandi hefð síns tíma og þeirra næstu á undan, byggist það oftar en ekki á því að hann vill komast sem lengst aftur fyrir hana fremur en fram úr henni, og oft jafnvel eins og hann vilji snúa hjóli sögunnar við, enda hafnar hann eindregið þeirri skoðun upplýsingarmanna að sagan stefni sífellt fram á við og mannkynið sé sjálfkrafa á þroskabraut. En hin klassíska fornöld er býsna vítt svið, og andstætt Rousseau og forkólfum byltingarinnar frönsku, sem gátu vísað til hins frjálsa borgríkis Aþeninga í baráttu sinni gegn spilltu aðalsveldi síns tíma, þá er eins og Nietzsche vilji upphefja höfðingja­hugsjónir hins hómerska Grikklands gegn þeirri þróun í átt til aukinna lýðréttinda sem setti svip sinn á samtíma hans sjálfs. Það segir sitt um afstöðu Nietzsches að hann valdi sér á námsárum sínum sem viðfangsefni gríska ljóðskáldið Þeógnis og skrifaði um hann ritgerð sem varð honum til mikils framdráttar. En Þeógnis, sem var af grónum höfðingjaættum og uppi á tímum er aðallinn missti völd sín og eigur í hendur ótíndra borgara, orti ljóð þar sem hann vandar hinum nýríku ekki tóninn en lofsyngur fornar dygðir höfðingjanna. Það er eins og Þeógnis hafi hlaupið í Nietzsche.

Raunar má af ýmsu marka að Nietzsche hafi þegar á námsárum verið farinn að þykja rammi hinnar klassísku textafræði helst til þröngur fyrir sig og hann hafi ekki einungis verið farinn að sökkva sér niður í verk þeirra heimspekinga er mest voru í tísku um og eftir miðja öldina heldur og að líta á sig sjálfan sem heimspeking. En um þær mundir ríkti byltingarandi og hugsuðir beindu spjótum sínum að þeirri hughyggju er hafði ríkt á blómaskeiði þýskrar heimspeki fyrr á öldinni og þeir töldu íhaldssama og úr öllum tengslum við samtímann en boðuðu þess í stað róttæka vísindahyggju og efnishyggju. Það er ekki laust við að þessi þenkimáti hafi um tíma hrifið og jafnvel haft varanleg áhrif á prestssoninn unga frá Röcken sem hafði fengið strangt trúarlegt uppeldi í bernsku, en engu að síður áttar hann sig fljótt á takmörkunum vísindahyggjunnar eins og sjá má þegar á skrifum hans íÓtímabærum hugleiðingum. Og sem betur fer hafði hann þá komist í tæri við annan og eldri hugsuð sem kafaði öllu dýpra og veitti honum víðari sýn inn í myrkviði tilverunnar, Arthur Schopenhauer. Hann má telja til lærisveina Immanuels Kant, en hafði farið þveröfuga leið við aðra í grundvallaratriðum og raunar kollvarpað viðtekinni skynsemistrú og húmanisma Vesturlanda með því að sjá heiminn sem myndgervingu blinds afls sem hann nefndi „lífsvilja“ og setja þar með hið „lægra“ ofar hinu „æðra“ og gera skynsemina að þjóni hvatanna. Þessi heimspeki er vissulega sá grundvöllur – eða grundvallarleysi – sem Nietzsche stendur á, þótt hann hafi áður en yfir lauk snúið henni við í bjartsýnisátt og í stað þeirrar afneitunar og bælingar lífsviljans sem Schopenhauer taldi nauðsynlega boðað upphafningu hans og eflingu í líki „viljans til valda“.

Það er þessi heimspeki sem Nietzsche byggir á í fyrsta ritverki sínu, Fæðing harmleiksins úr anda tónlistarinnar, sem fékk svo hraklegar viðtökur fræðimanna og varð höfundinum að fótakefli á fræðabrautinni en var þeim mun betur tekið af tónlistarfólki og þá ekki síst Ríkarði Wagner sem ritið var helgað. Þegar í titlinum sjálfum felst vísun til tvískiptingar heimsins í vilja og sýnd og til lífsviljans svonefnda sem uppsprettu alls, þar sem tónlistin er einmitt skilin af Schopenhauer sem birting þessa lífsvilja í hreinleika sínum, og því list listanna, þar sem aðrar, jafnt myndlist sem leiklist og skáldlist, eru aðeins endurskin af ytri mynd þessa kjarna. Og með því að það eru kórar, helgaðir guðinum Díonýsosi, sem upphaf harmleiksins gríska er rakið til, tekur þessi guð „endurnýjunar lífs, vímu, hvatar og verðandi“ með fríðu föruneyti skógarvætta öll völd í riti Nietzsches og ýtir til hliðar sjálfum Apolloni hörpuvaldi, guði „fjarlægðar, ásýndar, draums og stöðugleika“ , nokkuð í trássi við hugmyndir Forngrikkja sjálfra sem litu á Apollon sem yfirguð jafnt tónlistar og skáldskapar og sáu í tónlistinni öðru fremur endurpeglun á guðlegu skipulagi heimsins En með því að tefla þannig „hinu díonýsiska“ gegn hinu „apollonska“ er Nietzsche ekki einungis að boða hvataheimspeki í anda Schopenhauers heldur einnig að ryðja hinu nýja „Musik­drama“ Wagners braut, þar sem tónlist og orð voru samofnari en tíðkast hafði í óperulist seinni tíma og áttu hvort tveggja um sig að vera þáttur í „heildarlistaverki“ sem svipaði á ýmsan hátt til harmleiksins gríska í elstu gerð hans. En það sem skilur þó einkum milli þeirra samherja, Wagners og Nietzsches, er að þar sem hinn fyrrnefndi var þrátt fyrir allt að hugsa um „framtíðar­listaverk“ sem sameinaði í sér meginþætti hinnar forngrísku listar og listar seinni tíma, þá er eins og hinn síðarnefndi hafi viljað fara sem lengst aftur til upprunans, á vit Díonýsosar og slást í hóp geitmenna og blótkvenna, og það svo mjög að næmur lesandi gat séð fyrir sér hinn þungbrýna prófessor frá Basel með þyrsosstaf eða furuköngul í hendi í gervi satýrs, dansandi líkt og Þersítes spámann í Bakkynjum Evripídesar.

III

En þegar á líður er eins og þungamiðja ritsins færist til og athyglin beinist frá fæðingu harm­leiksins til hnignunar hans, og þá er meginandstæðan ekki lengur milli guðs vímunnar og guðs draumsins, eða hins díonýsiska og hins apollonska, heldur skýtur upp kollinum nýtt svið sem verður höfuðandstæða hins díonýsiska. Þetta mætti kalla „hið sókratíska“, því í leitinni að orsök fyrir hnignun harmleikjalistarinnar í Grikklandi berast böndin æ meir að einum manni sérstak­lega, hinum aþenska vitringi Sókratesi, sem er nefndur „fyrsti fræðingurinn“, þar sem hann með endalausum rökræðum sínum, kollóttum siðapredikunum og oftrú á skynsamlegri hugsun verður fulltrúi þess sem spillti hinni tragísku lífskennd Forngrikkja og varð hinum safamikla díonýsiska skáldskap að aldurtila.

Og nú er auðvitað full ástæða til að hefja að nýju málssókn gegn Sókratesi, að þessu sinni þó einkum fyrir þær sakargiftir að hafa lagt grundvöll að þeirri skynsemishyggju Vesturlanda sem Nietzsche finnst kominn tími til að endurskoða og endurmeta. Og þá eru að sjálfsögðu kvaddir til höfuðandstæðingar Sókratesar, sófistarnir svonefndu sem hann er látinn kveða í kútinn í sam­tölum Platons, en nú er eins og kominn sé tími til „endurupptöku“ þeirra kappræðna. En eins og sumir muna varð þeim ekki síst að deiluefni afstæði mannlegrar þekkingar, þar sem Sókrates og Platon lærisveinn hans litu svo á að hin sófíska setning að maðurinn væri „mælikvarði allra hluta“ mundi grafa undan sannri þekkingarleit með því að gera öll sjónarmið jafn rétthá.

Þegar nú Nietzsche teflir fram í þessum efnum viðhorfum sem ganga undir nafninu perspektív­ismi eða sjónarhornastefna, þá er ekki nema von að einhverjum finnist sem hin forna afstæðis­hyggja sófistanna sé endurvakin til lífsins og sömu rökin hljóti að gilda gegn þessum tveim stefnum jafnt, sem sé þau að þær falli á eigin bragði og komist í mótsögn við sjálfar sig, sé þeim fylgt út í æsar. Hér skal þó ekki farið út í þá sálma en aðeins bent á að hugsun Nietzsches er hér sem endranær sniðin að hans eigin tíma og vegur öðru fremur að trúnni á algildar vísindalegar niðurstöður og staðreyndir, þegar hann til að mynda bendir á að það séu aðeins til túlkanir á staðreyndum. Þannig beinist viðleitni Nietzsches í þá átt að útvíkka sannleikshugtakið frá því að vera hlutlaus formúla, sem allir geta tuggið utan að, til fagurfræðilegs eða sálfræðilegs skilnings þar sem sannleikurinn felst í tileinkun og innlifun og glímu, og þannig getur hann sagt að sann­leikurinn sé „efling viljans til valda“ , auk þess sem hann leyfir sér að slá því fram í formála að Handan góðs og ills að sannleikurinn sé kvenpersóna.

En ágreiningur Sókratesar og sófistanna forðum snerist ekki síður um siðferði en þekkingu, um „hið góða“ ekki síður en „hið sanna“ , þar sem sumir hinna síðarnefndu gagnrýndu viðtekið siðferði og réttarfar á þeim forsendum að öllu slíku væri stefnt til höfuðs náttúrlegum rétti hinna sterkari gagnvart hinum veikari. Það er óhætt að segja að slíkar og þvílíkar kenningar séu endur­vaktar af fullum krafti í ritum Nietzsches og að kappar úr samtölum Platons á borð við þá Kallíkles og Þrasýmakkos gangi þar ljósum logum og bíti í skjaldarrendur – og enginn Sókrates lengur til að flækja þá í mótsagnir. Það er þó ekki hinn heiðni vitringur, Sókrates, sem verður megin­skotspónn Nietzsches í þessum efnum nema að svo miklu leyti sem hann er fyrirrennari þeirra kristnu siðferðishugmynda og gilda sem urðu ríkjandi og Nietzsche hamast býsna óvægilega gegn, ekki síst fyrir þá sök að hann sér í þeim rót þeirra lýðræðishugsjóna og jafnaðar­mennsku sem hann telur tröllríða Evrópu síns tíma, með allri þeirri „hjarðmennsku“, smásálarskap og niðurkoðnun tilfinninga og hugsana sem honum þótti einkenna samtíma sinn.

Og til að afhjúpa betur og skilgreina þetta ástand „hjarðmennskunnar“ tekur Nietzsche sig til og skrifar það sem hann kallar tilurðarsögu siðferðis (Genealogie der Moral) sem er að því leyti sama marki brennd og fyrri bók hans um tilurðarsögu harmleiksins að hún ber meiri keim af áróðri en hlutlausu fræðiriti, þar sem túlkanir skipa hærri sess en staðreyndir og allt gengur út á að bregða upp mynd af glæstu „höfðingjasiðferði“ sem verður að víkja vegna einhvers stórslyss sem nefnist „þrælauppreisnin“, er hinir undirokuðu ná að innprenta kúgurum sínum siðferði sitt, mótað af beiskju og lífshatri. Það má segja að hlutirnir séu einfaldaðir meir en góðu hófi gegnir í umfjöllun um svo flókið fyrirbæri sem mannlegt siðferði. En öllu athyglisverðari en hin sögulega úttekt er hin sálfræðilega skýring á orsök þess arna, þar sem Nietzsche dregur hér fram ákveðna tvískiptingu og tvískinnung í sjálfi mannsins eða hæfileika til að villa um fyrir sjálfum sér, er hann rekur uppruna kristins siðferðis – sem einhver mundi nú halda að væri af hágöfugum hvötum sprottið – til einhvers sem hann nefnir upp á frönsku ressentiment og hvorki íslenska né þýska virðast eiga nákvæmlega samsvarandi orð fyrir en felur í sér vanmáttug sárindi og beiskju ásamt löngun til að ná sér niðri. Og sé skyggnst enn dýpra er téð ressentiment ekki annað en ranghverfa eða dulargervi þess vilja til valda er Nietzsche taldi þruma að baki alls, og þannig er siðaboð­skapur þrælanna lítið annað en tilraun „þeirra veikari“ til að ná þrælataki á „hinum sterkari“.

En með þessu hefur Nietzsche ekki aðeins afgreitt siðferðið heldur orðið brautryðjandi þeirra sem gera sér mat úr því að kafa í sálarlíf manna og draga þaðan fram ókennilegar þrár, duldir og flækjur, líkt og töframaður dúfur fram úr ermi sinni. Og þegar menn á annað borð eru farnir að iðka þá list að skyggnast bakvið yfirborðið og sjá þar að verk mannanna eru löngum sprottin af allt öðrum hvötum en þeir sjálfir láta í veðri vaka fyrir sjálfum sér og öðrum, þá vill einmitt svo til að sálfræðilegar skýringar af þessu tagi eru, rétt eins og afstæðishyggja og perspektívismi, fallnar til að koma aftan að sjálfum sér og höfundi sínum, ef menn taka nú upp á því að spyrja hvað honum sjálfum gangi nú raunverulega til með kenningum sínum og hvort þær séu ekki að meira eða minna leyti tómt yfirvarp. Og þeir eru nokkrir, svo sem breski eyspekingurinn Bertrand Russel í heimspekisögu sinni, sem hafa viljað afgreiða alla heimspeki Nietzsches með þeirri skýringu hún sé aðeins látalæti sjúks, vanmetins og einmana manns til að ganga fram af heiðarlegu fólki og ná sér niðri á heiminum. Þetta má að vísu teljast yfirborðsleg túlkun á heimspeki Nietzsches, en hitt er svo annað mál að sá sami Nietzsche hefur gefið tilefni til hennar sjálfur.

IV

Viðleitni Sókratesar til að skapa traustan grundvöll þekkingar jafnt sem siðferðis hafði á sínum tíma leitt til hinnar platonsku tvíhyggju þar sem standa andspænis hvor öðrum heimur skynjana og verðandi annars vegar og hinn „sanni“ kyrrstæði heimur þess sem ávallt varir hins vegar, og innan hans ákveðið stigveldi þar sem „frummynd hins góða“ trónir efst sem markmið alls. Þessar hugmyndir taka á sig nýja mynd í kristinni guðfræði í skiptingunni milli hins eilífa og hins stundlega, himnesks og jarðnesks, Guðs og heims, og þess vegna getur Nietzsche með nokkrum rétti kallað kristindóminn „platonisma fyrir alþýðuna“. En í aldanna rás er eins og hinn andlegi heimur, sem menn áttu áður að beina sjónum til, hafi bliknað æ meir eftir því sem menn ánetjuðust hinni áþreifanlegu og stundlegu veröld hlutanna sem nú stendur eftir firrt öllum ljóma að ofan en einnig þeirri dulúð og þeim goðmögnum er hún bjó yfir í árdaga. Hér skýtur þá upp kollinum tómleikakennd og tómhyggja sem Nietzsche skynjar og skilgreinir öllum mönnum betur og tjáir með hinum fleygu orðum sínum: Guð er dauður. Þessi orð ber reyndar ekki að skilja sem innlegg í rökræður þær um tilvist eða tilvistarleysi Guðs sem skólaspekingar hófu á sínum tíma, því hér er fremur verið að staðhæfa að trúin á Guð sé ekki lengur lifandi veruleiki og hann horfinn úr lífi manna. Í kaflanum þar sem þessi setning kemur fram fyrst, er hún sett í listræna umgjörð þar sem þungamiðjan verður ekki setningin sjálf heldur þau viðbrögð sem hún vekur eða kannski réttara sagt viðbragðaleysi mannanna við því sem vitfirringurinn í sögunni taldi mikil tíðindi, nefnilega lát Guðs, því þeir yppta öxlum og láta sem ekkert hafi í skorist.

Nietzsche sem sagt lítur hlutina öðrum augum og lítur svo á að dauði Guðs kalli á hvorki meira né minna en „endurmat allra gilda“. Því þótt Guð teljist kannski ekki gildi í venjulegum skilningi, er hann þó altént hugsaður sem uppspretta allra gilda og hin æðsta viðmiðun, og eftir fráfall hans hlýtur maðurinn að endurskoða stöðu sína í heiminum. Því undirstaða þeirrar mannhyggju, er hefur ríkt á Vesturlöndum, er sú trú að maðurinn sé skapaður og það í mynd skapara síns og reyndar einskonar ráðsmaður hans hér á jörð og þá æðri dýrunum en hlýðinn boðum drottins síns. Falli sú forsenda burt verður ekki annað séð en maðurinn verði að leita inn í raðir dýranna sem hann er þó utangátta í, „sjúka dýrið“ eins og Nietzsche kallar hann eða „skæðasta meindýr jarðar“ eins og íslenskt skáld hefur orðað það svo hnittilega. En hið sjúka dýr er með þeim ósköpum fætt að þurfa að setja sér gildi, og þá er auðvitað fjarri Nietzsche að setja það sjálft eða meinta „mennsku“ þess á stall sem eitthvert gildi, eins og sumir guðsbanar á undan honum, því maðurinn er í hans augum „allt of mennskur“ og „eitthvað sem þarf að sigrast á“, og það gildir að sjálfsögðu ekki síst um samtímamenn hans sem hann nefndi „síðustu mennina“. Og nú ætti engum að koma á óvart að hið fræga hugtak „ofurmennið“ skuli skjóta upp kollinum og því sé ætlað að vera tilgangur og merking jarðarinnar (Sinn der Erde).

Nú er engum lesenda það láandi, og allra síst þeim sem hefðu kannski áhuga á að líkjast umræddu ofurmenni, þótt þeir telji sig svikna af Nietzsche um nánari útlistun, hvort heldur væri á ytra eða innra sköpulagi þess, því hann minnist á það miklu sjaldnar en frægð og vinsældir hugtaksins gætu gefið ástæðu til að ætla, og þá allajafna fremur lauslega og á óljósan hátt, þannig að menn verða að geta í eyðurnar. Ef til vill lægi beinast við, ef við teljum yfirleitt að Nietzsche sé einhver alvara með því, að skilja það út frá þeim orðum í Svo mælti Zaraþústra að maðurinn verði í samanburði við ofurmennið eins og apinn í samanburði við manninn, sem sé í dýrafræðilegum skilningi og þá náttúrlega út frá þeirri kenningu um þróun tegundanna að ein þróist út af annarri. Og þegar ofannefndar forsendur um manninn sem eftirmynd sjálfs Drottins teljast brostnar, er auðvitað fullkomlega ástæðulaust að líta á manninn sem endastöð í því kostulega ferli.

En hitt er svo annað mál að hversu vel sem slíkt ofurmenni yrði nú úr garði gert úr samspili litninga og erfðavísa eftir nokkrar milljónir ára, þá kemur það þeim er lifa hér og nú harla lítið við. Það er því freistandi að leita ofurmennisins nær okkur í tíma og þá af skiljanlegum ástæðum fremur í fortíð eða framtíð en í samtíma. Þá kemur auðvitað upp í hugann sú manngildishugsjón sem felst í áðurnefndu höfðingjasiðferði fyrri tíma sem og því sem Nietzsche nefnir „hina nýju herra“ framtíðarinnar og teflir fram sem andstæðu við lýðræðishugmyndir samtíma síns, líkt og hann hafi haft hugboð um harðstjóra tuttugustu aldar. En hver sem skoðar þau dæmi um manngildi sem Nietzsche virðast hugstæðust, svo sem Cesare Borgia eða „hetjur Íslendinga­sagna“, hlýtur að draga í efa að slíkt mannval geti verið tilgangur jarðarinnar og spyrja sjálfa sig hvort hugtakið „ofurmenni“ sé ekki í rauninni háðsyrði eins og þar sem það kemur fyrir í Fást Goethes. Þegar öllu er á botninn hvolft er kannski réttast að líta á „ofurmennið“ sem tilvistarkröfu sem maðurinn býr sér einfaldlega til og gerir til sjálfs sín til að forða sér frá því að sökkva niður í fen mennskunnar eða til að draga sig upp úr því, líkt og Münchhausen barón sig sjálfan og hestinn sinn upp úr kviksyndinu forðum.

Ofurmennið fræga er þar með orðið svífandi í lausu lofti og getur tekið á sig nánast hvaða mynd sem mönnum þóknast að gefa því, en það sama verður ekki sagt um annað meginhugtak í hinni nýju frumspeki Nietzsches „hina eilífu endurkomu“ sem bindur okkur við núið og eilífð þess. Þessi hugmynd, þótt hún sé tilkomin sem eins konar vitrun að sögn Nietzsches en ekki eftir leiðum rökvísinnar, á sér samsvörun í náttúruspekinni forngrísku og hugmyndum hennar um takmarkað efni í óendanlegum tíma. En það er ekki hin eðlisfræðilega hlið sem skiptir máli, því kjarninn í boðskap Nietzsches er fremur verufræðilegur og tilvistarlegur í senn, þar sem hann felur í sér tilraun til að endurreisa hina for-platonsku verufræði Herakleitosar, þar sem verðandin er allt og eilífðin hvergi utan hennar, og í samræmi við það að gefa lífinu vægi með því að lifa hverja stund til fulls. Að vísu kynnu einhverjir að sjá hér fyrir sér Sísyfos þann sem velti í undir­heimum sama steininum upp sama hólinn til eilífðarnóns, en þeir þá um það. Því hér er það hin huglæga afstaða sem allt veltur á, og þess vegna er það sem Nietzsche nefniramor fati eða „ást á örlögunum“ nátengt hinni „eilífu endurkomu“ og felur í sér eins og hún sátt mikilla andstæðna, sem eru hér innra frelsi og ytri nauðung, auk þess sem þessi afstaða á að hreinsa menn af hinu hvimleiða og móralskaressentiment. En það leynir sér ekki að hér er á ferðinni rammheiðin og stóísk hugmynd sem gengur þvert á allar kristnar kenningar um endurlausn eða endurfæðingu, náð eða náungakærleika, því amor fati einangrar einstaklinginn og lokar inni í eigin lífi.

Amor fati er á vissan hátt síðasta orðið í heimspeki Nietzsches og engin tilviljun að það kemur fyrir í lok síðustu bókarinnar er hann sjálfur lét frá sér fara, Ecce homo, sem er sambland af ævi­sögu og málsvörn. Enda er hugtakið þar mjög svo tengt hans persónulega lífi, sem var markað af stöðugri glímu við þrálát veikindi, og það kemur í ljós að heimspeki hans hefur verið honum eins og vopn í þeirri baráttu og leið til að öðlast annars konar hreysti. Sem minnir reyndar á það að Nietzsche skilgreindi sjálfur heimspeki sem persónulega tjáningu heimspekinganna sjálfra fremur en ópersónuleg vísindi, og hvað sem annars má um þá skilgreiningu segja almennt séð, þá er hún eins og sniðin að heimspeki Nietzsches sjálfs. Og sé svo, þá er einnig rökrétt afstaða hans til hugsanlegra sporgöngumanna eða áhangenda, sem hann lætur Zaraþústra sinn vísa frá sér beinlínis með skömmum, svo þeir megi finna sinn eigin veg, því við getum einungis fylgt Nietzsche með því að fylgja okkur sjálfum , samkvæmt orðunum vademecum vadetecum, gakktu með mér gakktu með þér.

Og það er einnig fullkomlega rökrétt að rithöfundarferill Nietzsches skuli enda með bók á borð við Ecce homo, þar sem hann fer hamförum í sjálfhælni og sjálfsupphafningu, og það má segja að þar sé hann kominn einna lengst frá hinum hógværa aþenska spekingi, Sókratesi, en þeim mun nær landa okkar, Sölva Helgasyni. En líkt og hógværð Sókratesar á sér ranghverfu, þá á yfirlæti Nietzsches það einnig, og rétt að taka sumu með fyrirvara er hann lætur flakka, þar sem honum er sýnt um að villa á sér heimildir og tala sér þvert um geð, hefja hið léttvæga á stall en deila óvægilega á það sem á mest ítök í honum sjálfum. Eitt af því sem Nietzsche hælir sér fyrir í Ecce homo er það hve hann sjálfur skrifi góðar bækur, og munu væntanlega fáir lesenda hans finna sig knúna til að reka þau orð ofan í hann aftur. Ritsnilld hans er með eindæmum, og hann þróar stíl sinn frá þunglamalegum lærdómsstíl í átt til meiri hraða og léttleika, og lagar sig í því eftir Heine að hætti góðra manna, án þess að tapa þeim kynngikrafti lútherskrar hugvekju sem hann benti á að væri helst uppsprettuæð óbundins máls á þýsku.

Þó er það ekki síður í bundnu máli en óbundnu sem orðsnilld hans nýtur sín, enda orti hann frá ungum aldri og sjálfshyggjan, sem Nietzsche fór síst varhluta af, hefur löngum þótt fara ljóðskáldum betur en heimspekingum, enda geta þau og frekar leyft sér að tjá sig í molum fremur en í kerfi. Ljóðlist Nietzsches er að vísu minna hampað en skyldi einhverra hluta vegna, kannski sumpart vegna þess grallaraskapar og alvöruleysis sem stundum ráða ríkjum og menn telja kannski ekki hæfa heimspekingi, því hér bregður hann á leik og er sem fuglinn frjáls og því ekki út í hött er hann tekur sér skáldanafnið Prinz Vogelfrei sem merkir reyndar líka að hann sé útlagi.

En ljóðin eru býsna fjölbreytt innbyrðis og rúma allt frá grárri glettni og skopi um menn og málefni til tærrar ljóðlistar þar sem hann nær að fanga andrána sjálfa í sinni „eilífu endurkomu“, svo sem í ljóðperlunni „Feneyjum“ að ógleymdu ljóðinu drukkna úr Svo mælti Zaraþústra. Nietzsche gleymir heldur ekki að beina sjónum að sjálfum sér, þar sem hann birtist í líki hyrjarloga en einnig himintungls, svo sem í ljóði er nefnist „Stjörnusiðferði“ og hefur að geyma á einkar sam­þjappaðan hátt kjarnann í siðaboðskap hans og þær ströngu kröfur til sjálfs sín um óhagganleika sem hann vildi gera:

Á hringferð, stjarna, um himinsvið,
hvað kemur myrkrið þér þá við?

Í sælli rósemd renn þitt skeið.
Sé þér sama um heimsins neyð!

Fjarlæg veröld á þig ein.
Öll vorkunn sé þér synd og mein!

Því eitt boð áttu: Vertu hrein!

Þó er hann enn meir í essinu sínu, þegar hann sleppir allri samþjöppun en gefur sér lausan tauminn í miklum langlokum, í fyllsta máta opnum og útleitnum, sem hann nefnir Díonýsosar-diþýramba eða Bakkusarblótsöngva og bregður sér þar gjarna sjálfur í gervi guðsins. Í þessum söngvum sameinar hann gamalt og nýtt, eins og honum var lagið, því söngvarnir eru ortir undir frjálsum brag, byggðum á hljóðfalli og hrynjandi að forngrískum hætti, en hafa jafnframt orðið til að ryðja þeim nýstefnum braut er nefnast expressíonismi á þýsku svæði en nýrómantík á Norður­löndum, og bregður hann þar fyrir sig háværum upphrópunum og áleitnum myndhverfingum og stundum einnig talsverðri sjálfshæðni, svo sem í þessu ljóðbroti:

Bara flón! bara skáld!
bara fleiprandi stöðugt,
úr flónsku-grímum fleiprandi stöðugt,
sem stikandi um
á orða-tálbrúm
á lyga-regnbogum
loginna himna
líður, læðist:
Bara flón! bara skáld!

« Til baka

Eftirmyndir Nietzsches

eftir Róbert H. Haraldsson

Eftirmyndir Nietzsches

Þýski hugsuðurinn Friedrich Nietzsche er sýnilegri í menningu tuttugustu aldar en aðrir heim­spekingar. Flestir kannast við veggjakrot á borð við:

„Guð er dauður“.
Nietzsche.

Eða, eins og gárungarnir hafa það:

„Nietzsche er dauður“.
Guð.

Orðspjótum Nietzsches hefur rignt inn í hugarheim samtímans og m.a. haft áhrif á það hvernig við lesum, eða mislesum, verk hans. Tæpast tekur nokkur maður fordómalaust upp bók eftir Nietzsche í fyrsta sinn; sniðganga þarf ansi margar kvikmyndir, skáldsögur, blaðagreinar og útvarpsþætti til að komast hjá því að heyra nafn Nietzsches nefnt. Hér verður það ekki gert heldur verður litið við í kvikmyndahúsi, réttarsal og aftur í kvikmyndahúsi, gluggað í sögubækur og tímaritsgreinar til kynnast hugmyndum manna um Nietzsche og e.t.v. Nietzsche sjálfum. Um hið síðara verður þó engu lofað.

Óþokkinn Nietzsche

Ein er sú tegund óþokka sem virðist laða gesti að kvikmyndahúsum, nær að fylla rúmgóða sali af fólki sem nýtur þess að hata vissa manngerð úr hæfilegri fjarlægð. Slíkur maður er kynntur til sögunnar í myndinni Vígahöfði (Cape Fear, 1991). Sá heitir Max Cady (Robert de Niro) og er þegar myndin hefst að ljúka við að afplána tíu ára fangelsisdóm sem hann hafði hlotið fyrir að misþyrma konu svo hrottalega að sjálfur lögfræðingur hans, Bowden (Nick Nolte), veigraði sér við að verja hann. Cady sat ekki auðum höndum í fangelsinu. Þegar hann var settur í svartholið var hann ólæs og óskrifandi; líkami og sál í órækt. En Cady þarf svo sannarlega ekki að skríða í fötin er hann endurheimtir frelsi sitt. Hann er orðinn vel heima í fagurbókmenntum og heimspeki Vesturlanda og hefur náð þvílíkum sjálfsaga að hann tók upp vindlareykingar (eina löstinn sinn) „til að minna sjálfan sig á að [hann] er mennskur maður“. Cady treystir engum nema sjálfum sér, elskar engan, virðist þola ótakmarkaðan sársauka og nýtur þess raunar að sjá aðra þjást. Hann er maður óttalaus og er skítsama um almenningsálitið; „ég er betri en þið öll“, segir hann á einum stað í myndinni. Heimspekinámið hefur því hvorki mýkt skap Cadys né mildað siði hans; öðru nær, illmennska hans er skefjalausari og hefur nú öðlast hugmyndafræðilega dýpt.

Áhorfendur hafa ekki hímt lengi í rökkrinu þegar þeir fá upplýsingar um hvaða speking þessi grimmi og óttalausi einfari les. Strax í upphafsatriðinu sést ljósmynd af Friedrich Nietzsche í fangaklefa Cadys innan um myndir af Mússólíni, Stalín og fleiri köppum – fjarvera Hitlers vekur eftirtekt. Ljósmyndin sýnir Nietzsche í fullum herklæðum, girtan vígalegu sverði stórskotaliðans. Sekúndubrotum síðar líður myndavélin eftir bókahillu Cadys, þar sem sjá má kunnar enskar þýðingar á tveimur höfuðritum Nietzsches, Wille Zur Macht (þýðing Kaufmanns)1 og Also Sprach Zarathustra (þýðing Hollingdales) ásamt Biblíunni, nokkrum lögbókum og höfuðriti Dantes. Síðar í myndinni, sem hnitast um það hvernig Cady hrellir hina borgaralegu fjölskyldu Bowdens, fáum við m.a. fréttir af því hvar Cady situr á almenningsbókasafni, yfir bókinni Svo mælti Zaraþústra, „þýska heimspekingsins sem skrifaði um ofurmennið“.

Mönnum hefur staðið stuggur af heimspeki Nietzsches nálega frá upphafi, það vita þeir í Holly­wood. Einkum hafa menn óttast áhrif hans á hina ungu og örgeðja og afstöðu þeirra til kristins siðferðis. Hér á landi gerir þessi beygur snemma vart við sig. Árið 1891 er varað við lífsskoðun Nietzsches í tímaritinu Aldamót, sem gefið var út í Reykjavík en dreift á Íslandi og á meðal Íslendinga í Vesturheimi. Þar er Nietzsche kennt um aukna tíðni sjálfsmorða í Norðurálfu og hann bendlaður við vopnaskak og manndráp:

En siðferði forfeðra vorra í heiðninni, þegar menn óðu hver að öðrum með morðvopn um leið og þeim bar eitthvað á milli og ljetu höfuðin fjúka eða þegar menn gjörðu atreið að heimilum fjandmanna sinna og brældu inni göfuglynda menn með öllu heimilisfólki eins og melrakka í greni, – því hrósa menn nú og hefja til skýjanna og nefna það siðferði herranna. (s. 28)

Segist höfundurinn, Friðrik J. Bergmann, tæpast hafa trúað sínum eigin skilningarvitum þegar hann rakst á þessa skoðun í riti gáfumannsins Brandes, hafða eftir Þjóðverjanum Friedrich Nietzsche.2

Í Vígahöfða vottar fyrir fjölmörgum atriðum sem tengd hafa verið Nietzsche: Hefndarþorsta, sið­leysi, gegndarlausri áherslu á sjálfssköpun og sjálfsaga, öfgafullri einstaklingshyggju, úrvals­hyggju, höfnun á samúð og náungakærleika og spartverskri ást á hörku. Hægur vandi er að ljá þessum viðhorfum villimannlegt yfirbragð, ekki síst þegar þau eru leidd saman í einni persónu á borð við Cady. En sú lífssýn sem Cady öðlaðist eftir að hafa lesið Nietzsche (og Biblíuna!) verður ekki með góðu móti eignuð alvöru heimspekingi, hvorki Nietzsche né öðrum. Þetta er einfaldlega ekki heimspekileg afstaða. Engu að síður hafa ýmsir heimspekingar gert Nietzsche upp nákvæmlega þessa afstöðu. Í heimspekisögu sinni segir Bertrand Russell m.a.:

Hinn „göfugi“ maður [Nietzsches] – sem er enginn annar en Nietzsche sjálfur í eigin dagdraumum – er vera gersneydd samúð, miskunnarlaus, undirförul, grimm; vera sem hugsar eingöngu um aukin völd.3

Russell grípur iðulega til orðsins „ruthless“ þegar hann lýsir fyrirmyndareinstaklingi Nietzsches en „ruth“ er einmitt gamalt enskt orð yfir samúð eða meðaumkun: Fyrirmyndareinstaklingur Nietzsches verður sá sem skortir alla samúð og kemur fram við náungann af takmarkalausri grimmd. Russell eyðir miklu púðri í að skýra hvernig gáfumaður á borð við Nietzsche geti mælt svo kaldgeðja afstöðu til meðbræðranna bót. Svarið finnur Russell í þeirri úrvalshyggju (elítisma) sem hann eignar Nietzsche, en samkvæmt henni skipta aðeins þeir bestu máli; úrvalið má gera hvað sem því sýnist við fjöldann. Russell lendir að vísu í basli með að bera kennsl á hverjir eru bestir (öflugastir) samkvæmt Nietzsche og vísar ýmist á kapitalistana, sem arðræna verkamenn­ina, lénsherrana, sem blóðmjólka kotbændurna eins og kvikfé eða hershöfðingjana sem senda dáta sína miskunnarlaust út í opinn dauðann. Russell ratar í jafnvel meiri ógöngur þegar hann reynir að útskýra hvers vegna kapitalistar, lénsherrar og hershöfðingjar hljóti að vera grimmir og gersneyddir samúð, eða hví slíkir herramenn geti ekki viðurkennt skyldur sínar við undirmenn og aðra. Russell virðist t.d. horfa framhjá hinu aldagamla noblesse oblige og áttar sig raunar ekki heldur á því að arðræninginn getur aukið nytina úr kúm sínum með því að hugsa vel um þær. Það hvarflar ekki að Russell að gagnrýni Nietzsches á samúðina kunni að vera borin uppi af mannúð.

Nú eru fræðimenn nokkuð sammála um að Nietzsche verði ekki eignuð sú villimannlega afstaða sem Cady og Russell þóttust sjá í verkum hans, og Friðrik J. Bergmann óttaðist svo mjög. Orðspor Nietzsches heldur hins vegar áfram að stýra því hvernig menn lesa og skrifa um verk Nietzsches. Raunar svo mjög að oft er freistandi að setja nafn Nietzsches í gæsalappir þegar vikið er að umræðu um „Nietzsche“. Sú tilfinning að Nietzsche sé hættulegur heimspekingur, að það sé þverbrestur í hugsun hans, hefur ekki dofnað, hvorki hjá almenningi né ýmsum fræði­mönnum.

Siðspillirinn Nietzsche

Árið 1924 framdi ungur og bráðefnilegur námsmaður við Chicagoháskóla, Nathan Leopold, full­komlega tilefnislaust morð, ásamt félaga sínum, Richard Loeb. Réttarhöldin yfir þeim félögum vöktu mikla athygli, ekki síst sökum þess að feður drengjanna, sem voru úr röðum efnamanna Chicagoborgar, réðu þekktasta lögmann Bandaríkjanna, Clarence Darrow, til að verja þá. Í vörn sinni – sem stundum er nefnd „milljóndollaravörnin“ – færði Darrow rök fyrir því að Leopold, og að einhverju leyti Loeb, væri haldinn alvarlegri hugsýki sem hefði gripið hann við lestur á ritum Friedrichs Nietzsches, en kenningar þessa manns væru í „eðli sínu tegund af geðveiki“.4 „Ég hef lesið næstum því allt sem Nietzsche skrifaði“, segir Darrow í tólf tíma langri samantekt sinni, en bætir því svo við að sér hafi aldrei dottið í hug að lifa samkvæmt hugmyndum Nietzsches (s. 70).5 Hins vegar hafi Leopold verið svo yfir sig hrifinn af heimspeki þessa manns að hann hafi ákveðið að móta líf sitt eftir henni. Hann hafi talið að sökum gáfna og menningarlegra yfirburða væri hann undanþeginn hefðbundnu siðferði, engin boð og bönn næðu (upp) til hans (s. 71). Hann mætti gera hvað sem honum sýndist við þá sem væru óæðri (s. 71).

Margir hafa, líkt og Darrow, varað við heimspeki Nietzsches sökum þess að hún feli í sér ávísun á róttækt siðleysi – ekki bara á hversdagslega afstæðishyggju um siðferði heldur mannvonsku. Um það verður ekki deilt að Nietzsche gagnrýnir og grefur undan vissri tegund af siðferði sem hann nefnir ýmist hjarðsiðferði, kristið siðferði eða meðaumkunarsiðferði (Mitleids-moral).6 Hann er sérlega gagnrýninn á þá siðapredikara sem boða slíkt siðferði. Hins vegar er það önnur spurning, hvort hann hafi verið siðleysingi (immoralisti) í þeim skilningi að hann hafni öllu siðferði.

Áhrifamestu rökin fyrir því að telja Nietzsche siðleysingja í þessum sterka skilningi virðast sáraeinföld: Hann fagnar nafnbótinni „siðleysingi“, titlar sjálfan sig sem fyrsta siðleysingjann og hann segist hafna siðferðinu sem slíku.7 Ekki er ólíklegt að ýmsum þyki að hér þurfi tæpast fleiri vitnanna við! Nietzsche hljóti að hafa hafnað siðferðinu sem slíku; að öðrum kosti sé ekki mark takandi á hans eigin orðum.

Nietzsche er sleipur heimspekingur, afsleppur, ekki síst þegar maður herðir takið. Vandinn sem blasir hér við er að Nietzsche heldur líka opnum þeim möguleika að til séu æðri tegundir siðferðis en það hjarðsiðferði sem reynir að steypa alla í sama mót og hann gagnrýnir hvað ákafast.8 Raunar er ein helsta ástæða þess að hann gagnrýnir hjarðsiðferði samtímans sú að hann telur það hefta framgöngu æðri tegunda siðferðis.9 Hann ræðir líka víða um sitt eigið siðferði, og segist vilja gefa okkur vísbendingar um hverrar náttúru það sé og gerir það reyndar t.d. í Ecce homo. Svo er að sjá sem Nietzsche sé því ekki á móti öllu siðferði þótt hann segist vera á móti siðferðinu sem slíku!

Vafalítið freistast ýmsir til að álykta hér um ást Nietzsches á mótsögnum. En ef að er gætt kemur í ljós að engin mótsögn felst í afstöðu Nietzsches, hversu skrýtið sem það kann að virðast við fyrstu sýn. Mótsögnin leysist upp um leið og hugað er að ásetningi Nietzsches og skilningi hans á tungumálinu. Tungumálið er ekki bundið við það eitt að miðla innihaldi skoðana til annarra, það er verkfæri sem menn brúka til að ná fjölmörgum markmiðum sínum. Tungumálið má nota til að villa á sér heimildir,10 vekja til umhugsunar, hræða, sefa, fyrirskipa og ákalla, svo fátt eitt sé nefnt. Raunar má efast um miðlunargetu tungumálsins, líkt og svo margir fræðimenn hafa gert á þessari öld, iðulega undir sterkum áhrifum frá Nietzsche. Þótt Nietzsche hafi öðlast frægð fyrir að beina sjónum að tungumálinu sem verkfæri, hefur mönnum láðst að spyrja hvað Nietzsche sjálfum gekk til þegar hann nefnir sig opinberlega „siðleysingja“, hvaða markmiðum hann hugðist ná með þessu orði.

„[É]g afhjúpaði kristið siðferði“, segir Nietzsche í Ecce homo, „þess vegna þurfti ég á orði að halda sem hafði ögrandi merkingu í augum allra“.11 Nietzsche velur semsagt orðið vegna þess að það er ögrandi og sú ögrun er tengd afhjúpun kristins siðferðis. Með kristnu siðferði vísar hann, eins og áður sagði, á það hjarðsiðferði sem hann telur ríkja á nítjándu öld. Til að skilja herkænsku Nietzsches – notkun hans á orðinu „siðleysingi“ – verðum við að huga nánar að skilningi hans á þessu siðferði.

Hér nægir að tilfæra þrjú einkenni úr hinni viðamiklu greiningu Nietzsches. Hið fyrsta er að hjarðsiðferðið auglýsir sjálft sig blygðunarlaust sem siðferði.12Siðapredikarinn blaðrar um eigið siðferði, gefur dygðum sínum nafn og telur að mikið sé áunnið með því að játast siðferðinu í orði; og hann reynir fá aðra á sitt band, þolir engin frávik. Í öðru lagi notar siðapostulinn siðferðið til að breiða yfir veikleika sína og ljá þeim yfirbragð siðferðilegs styrkleika. Siðapostulinn er, svo skýringardæmi sé tekið, líkur ófróðum og lötum kvikmyndagagnrýnanda sem er alls ófær um að gera upp á milli kvikmynda en segist vera umburðarlyndur og sanngjarn gagnrýnandi, hann hreinlega vilji ekki gera upp á milli mynda: Þær séu allar jafngóðar. Með fáeinum vel völdum orðum tekst honum að breyta veikleika í siðferðilegan styrkleika. Þriðja atriðið varðar yfirgengilegan hroka siðapostulans, hversu sjálfumglaður hann er. Siðapostulinn telur sitt eigið siðferði hið eina eiginlega siðferði, allt annað sé siðleysi. „Ég er siðferðið í sjálfu sér, ég er siðferðið sem slíkt“ er kjörorð siðapostulans. Í Ecce homo segir Nietzsche að orð sitt „siðleysingi“ feli í sér tvíþætta neitun, sú síðari, sem hann telur mikilvægari, er höfnun á þeirri tegund siðferðis sem náð hefur yfirburðum og „drottnar sem siðferðið í sjálfu sér“.13

Nú blasir við að þegar Nietzsche segist vera á móti siðferði sem nefnir sig „siðferðið sem slíkt“ þá er hann alls ekki á móti siðferðinu sem slíku, þ.e. öllu siðferði. Hann lýsir andstöðu sinni með því að taka upp orðalagið sem siðapostulinn sjálfur notar. Ef einhver segði: „Ég er mannvinur“ væri freistandi að segja: „Ég er á móti mannvinum“. Ef vindhaninn tæki dýpra í árinni og segði: „Ég er eini mannvinurinn“ þá lægi beint við að segja: „Ég er á móti öllum mannvinum“. Slíkt svar myndi ekki eingöngu hafna staðhæfingu vindhanans heldur afhjúpa um leið hversu hrokafull hún er. Með sama hætti hyggst Nietzsche afhjúpa kristið hjarðsiðferði.

Þegar Nietzsche kallar sig siðleysingja er hann á skemmtilega tvíræðan hátt að vekja til umhugsunar um að siðferðilegt ágæti markast ekki af tali um siðferðið. Enginn verður siðleysingi með því einu að kalla sig siðleysingja og enginn verður góður með því að tala um dygðir sínar eða hugsa um þær, hversu einlægur sem hann reynir að vera. Einlægni í orði kemur þessu einfaldlega ekkert við: Orð eru bara orð, verk eru verk og skapgerð er skapgerð. Hannes Pétursson ljóðskáld hefur vikið að þessum sannindum um máttleysi orðanna í færslu um minningargreinar:

Við þráum að hefjast yfir mannlega veikleika, en getum það ekki í huganum einum, heldur aðeins í breytni okkar og siðum, hver maður upp á sitt eindæmi; með orðum mínum get ég ekki hjálpað neinum dauðum manni til þess og enginn getur hjálpað mér dauðum til þess með orðum sínum.14

Á einum stað í Hinum hýru vísindum segir Nietzsche að ef við viljum eyðileggja hið besta og ágætasta í okkur þá eigum við að lofsama hamingjuveg dygðanna frá morgni til kvölds og hrópa um ágæti þeirra á götum úti15. Hann varpar fram þeirri hugmynd hvort ekki væri ráð að gera andstæða tilraun, neita þessum ágætu dygðum og sjá hvers konar einstaklingar yrðu þá fúsir til að tileinka sér þær, beita þeim eins og verkfærum í eigin lífi. Í verkum sínum framkvæmir Nietzsche slíka tilraun.

Fagurkerinn Nietzsche

Alfred Hitchcock byggði kvikmynd sína Reipið (The Rope, 1948) að hluta á fyrrnefndri sögu Leopolds og Loebs.16 Í listrænni útfærslu Hitchcocks verður atburðarásin þó enn hryllilegri – minnir raunar á smásögur Edgars Allans Poe – því morðingjarnir, Brandon og Rupert, bjóða nokkrum ættingjum og kærustu Róberts, fórnarlambsins, til kvöldverðar og framreiða matinn á kistu sem geymir lík hins myrta. Af skiljanlegum ástæðum verður nokkur dráttur á að Róbert mæti til hófsins og meðan beðið er eiga sér stað eftirfarandi orðskipti milli Brandons og Franks, föður hins myrta, sem á þessu augnabliki er grunlaus um örlög sonar síns:

Brandon: Hinir fáu eru afburðamennirnir, sem hafa þvílíka vitsmunalega og menningarlega yfirburði að þeir eru ekki bundnir af hefðbundnum siðferðilegumhugtökum; gott og illt, rétt og rangt eru hugtök sem búin voru til handa hversdagsþrælunum, meðalmönnunum, undirmálsmönnunum sem þurftu á þeim að halda.
Frank: Þá ert þú augljóslega sammála Nietzsche og kenningu hans um ofurmennið.
Brandon: Já, það er ég.

Reipið hefst á því að birtu er hleypt inn í stofuherbergið þar sem Brandon framdi glæpinn, ásamt félaga sínum Rupert. Brandon harmar mjög að hafa ekki framið morðið undir berum himni fyrir allra augum. Hann er stoltur af ódæði sínu, lítur á það sem listaverk, sönnun þess að hann sé skapandi listamaður. „Morðið,“ segir hann, „er fullkomlega mitt eigið verk“. Rupert er hins vegar kominn með bullandi samviskubit og vill óðara slökkva ljósið aftur; í dagsbirtunni rennur upp fyrir honum að þetta er myrkraverk.

Ófáir túlkendur Nietzsches vita að hann ræðir sitt eigið siðferði sem eina tegund æðra siðferðis. Engu að síður vara þeir við „siðferði“ Nietzsches því þeir álíta að þegar öllu er til skila haldið sé þetta ekkert eiginlegt siðferði, heldur einhvers konar fagurfræðilegur lífsmáti. Philippa Foot er einn þeirra siðfræðinga sem hreyft hefur þessari mótbáru við Nietzsche og hafa tilfært nokkra staði í ritum hans máli sínu til staðfestingar:

„Dygðin verður að vera okkar eigin uppgötvun, persónulegasta vörn og nauðsynokkar: að öðrum kosti er [hún] beinlínis hættuleg“.17 Og einnig: „„Gott“ er ekki lengur gott þegar granni manns tekur sér það í munn“. Nietzsche telur því að gildi tilheyri aðeins persónum sem hafa skapað sína eigin skaphöfn á þann veg sem ekki verður þvingað upp á aðra; og það er hér sem áhersla hans færist augljóslega af siðferðilegum gildum yfir á fagurfræðileg gildi …. Það er ekki að ástæðulausu sem hann segir á einum stað: „Við viljum verða ljóðskáld okkar eigin lífs“.18

Alexander Nehamas hefur skrifað áhrifamikla bók um heimspeki Nietzsches sem nefn­ist Nietzsche: Life as Literature (Líf sem skáldskapur). Þar skýrir hann hvers vegna áherslubreyting sú sem Foot gerir að umtalsefni sé áhyggjuefni:

Sá einstaklingur sem Nietzsche dáir, hinn fullkomlega heilsteypti einstaklingur, kann að vekja siðferðilegan viðbjóð … sú ónotalega tilfinning situr eftir að einhver gæti tileinkað sér hið góða líf Nietzsches en samt sem áður verið viðurstyggilegur frá sjónarhóli siðferðisins. Þetta skiptir e.t.v. engu máli þegar um persónur skáldverka er að ræða, persónur sem geta ekki haft nein bein áhrif á okkur, en maður skyldi ætla að annað gilti um raunverulegt fólk, sem getur gert það.19

Þótt það hljómi undarlega kann áhyggjuefni Foots og Nehamas að hverfa þegar textar þeirra eru lesnir saman. Nehamas ræðir um fagurfræðilegar persónur skáldverka sem öðlast líf og geta þannig haft bein áhrif á okkur. Foot vísar til ljóðskálda. Þegar áherslan færist þannig frá persónum skáldverka – Brandon Hitchcocks, Raskolnikov Dostojevskís eða Felix Krull Manns og raunverulegar útgáfur af slíkum persónum, svo sem Leopold og Loeb – yfir á ljóðskáldin virðast áhyggjur Foots og Nehamas nánast óþarfar. Þeir sem þekkja til verka Goethes, Emersons eða Heines – svo nefnd séu þrjú ljóðskáld sem Nietzsche las – eiga erfitt með að sjá þá sem ótínda glæpamenn. Það er raunar engu auðveldara fyrir þá sem þekkja til Jónasar Hallgrímssonar, Stephans G. Stephanssonar, Snorra Hjartarsonar eða Hannesar Péturssonar, svo nefnd séu fjögur ljóðskáld sem Nietzsche fékk ekki tækifæri til að lesa. Ljóðskáldið vekur ekki hug­renningatengsl við glæpi, æsing og ofstopa heldur kyrrð, náttúru, hið fyllta líf. Hér má að vísu benda á að ljóðskáld eru sem skáld og menn hvert öðru ólík og breytileg frá einum tíma til annars; spyrja má hvort ekki sé hægt að ímynda sér ofstopafullt ljóðskáld, æsingarmann og svola. Hvað með t.d. Egil Skallagrímsson, var hann ekki ofstopafullt ljóðskáld? Áhyggjur Foots og Nehamas verða að sjálfsögðu ekki sefaðar nema við hugum að því hvað Nietzsche eigi við þegar hann segist vilja verða ljóðskáld eigin lífs. Hvers konar ljóðskáld hefur hann í huga?

Þegar skrif Nietzsches um ljóðskáldin – t.d. í Mannlegt, alltof mannlegtHin hýru vísindi og Handan góðs og ills – eru lesin, vekur athygli hversu gagnrýninn hann er iðulega í þeirra garð. Jafnvel þar sem hann lýsir aðdáun á ljóðskáldum er hólið varfærnislegt; þegar hann lýsir skyldleika sínum og ljóðskáldanna er það ekki fyrirvaralaust. Á einmitt þeim stað sem Foot tilfærir ræðir Nietzsche t.d. um það hvað við getum lært af ljóðskáldunum en verið „engu að síður vitrari en þau í öðrum efnum“. Foot vitnar því miður ekki í upphafið á hugsun Nietzsches:

… á allan þennan máta viljum við læra af listamönnunum en vera engu að síður vitrari en þeir í öðrum efnum. Því hjá þeim endar skarpskyggnin gjarnan þar sem listinni sleppir og lífið byrjar; en við viljum vera ljóðskáld okkar eigin lífs … (Leturbreyting mín)

Foot áttar sig ekki á þeim greinarmun sem Nietzsche gerir á ljóðskáldum og listamönnum annars vegar og hins vegar því lífi sem hann vill lifa. Athyglisvert er að þegar Nietzsche nefnir þá Giacomo Leopardi, Prosper Mérimée, Ralph Waldo Emerson og Walter Savage Landor sem hina eiginlegu prósameistara nítjándu aldar þá kallar hann þá ekki ljóðskáld, þótt slíkt hefði auðvitað verið réttlætanlegt, heldur „sérlega undarlegar og sannarlega ljóðrænar mannverur“.20 Líkt og í ofangreindri tilvitnun er áherslan lögð á ákveðinn lífsmáta sem ljóðskáldið vísar á með einhverjum ófullkomnum hætti. Lífsmátinn er aðalatriði, ljóðskáldið aukaatriði. Hvers konar líf hefur Nietzsche í huga? Hann gefur okkur eina vísbendingu strax á eftir þeim orðum sem Foot vitnar til:

… en við viljum vera ljóðskáld eigin lífs – fyrst og fremst í hinum smæstu og hversdagslegustu atriðum.

Sú setning sem ég hef skáletrað, og Foot klippir aftan af tilvitnuninni, verður raunar sterk vísbending þegar tekið er mið af áhrifaríkum kafla í bókinni Mannlegt, alltof mannlegt:

… við verðum að viðurkenna að flestir sjá illa það sem liggur næst þeim og veita því litla athygli … vanþekking á hinum smæstu og hversdagslegustu atriðum … er það sem breytir jörðinni í „táradal“ fyrir marga menn …21

Dæmin sem Nietzsche tekur þessu til staðfestingar lýsa öll hversdagslegum athöfnum, svo sem þeirri að borða morgunmat (hann nefnir fólk sem borðar egg á hverjum morgni án þess að taka eftir því að stærstu eggin bragðast best), aðmelta (fólk tekur ekki eftir því að þrumuveður hefur góð áhrif á meltinguna) oglyktarskyn (að unaðslegur ilmur er sterkari í köldu, hreinu lofti). Þegar hugmyndir Nietzsches um ljóðskáld eigin lífs eru raktar kemur í ljós að það er næsta lítið skylt hinum listræna, glæpsamlega bóhem. Ljóðskáld eigin lífs er sá sem lifir og hrærist í hversdagleikanum, í nú-inu. Hann lifir fábrotnu, náttúrlegu og umfram allt heilsusamlegu lífi, drekkur hvorki vín né kaffi, lætur sér vatnið nægja.22 Honum er lýst sem þolinmóðum einstaklingi sem öðlast hefur skilning á því að andinn vaknar og vex aðeins sem hreinn og heilbrigður líkami. Sá sem er ljóðskáld eigin lífs er líka sagður vera heil manneskja og glaðvær. Slíkur einstaklingur er í sífelldri spurn gagnvart veruleikanum, elskar spurningarmerki, allt sem er vafasamt og undarlegt og veit ekki hvernig á að koma orðum að hinum æðstu gæðum. Fáir viðurkenna ósegjanleikann eins fúslega og ljóðskáldin, a.m.k. í orði.

Þegar Nietzsche lítur yfir farinn veg í sjálfsævisögu sinni Ecce homo þá er honum, að mínum dómi, fyrst og fremst umhugað um að sýna sjálfum sér að hann hafi verið ljóðskáld eigin lífs. Í formálanum talar hann um heimspeki „eins og hann hafi skilið hana og lifað hana“; hvernig hann hafi leitað uppi allt hið undarlega og vafasama, og um ást sína á spurningarmerkjum.23 Hann leggur sérlega ríka áherslu á hversu mjög hann hafi hugað að hinum smæstu og hversdagslegustu atriðum, einkum mat og drykk, loftslagi og tómstundastörfum. Hann mælir t.d. mjög eindregið með löngum göngutúrum og hvetur alla andans menn til að snerta aldrei á áfengum drykkjum né öðrum vímuefnum – vatn nægi þeim. Með áherslu sinni á einfaldan og heilsusamlegan lifnað er Nietzsche ekki eingöngu að minna á hvernig andleg og líkamleg heilsa24 ræðst af lifnaði – og hvernig við eigum til að gleyma því á háfleygustu augnablikum lífs okkar; hann er ekki síður að beina sjónum manna að því að dýpstu leyndardómar lífsins opinberast í hinum einföldustu þörfum og athöfnum: Endurnýjun lífsins, sísköpun og verðandi eru ekki síst augljós við morgunverðarborðið.

Að mínum dómi er markmið Nietzsches að sýna að heimspeki sé ekki eiginleg fyrr en hún birtist sem lífsmáti, fyrr en hún gagnsýrir allt líf manna, athafnir þeirra og tengsl við aðra menn. Í Ecce homo segir Nietzsche að það hafi glatt sig mest hversu góð tengsl hans við götusala voru, þeir hafi ávallt valið sætustu vínberin handa honum. Og síðan bætir hann við: „Svo langt verður maður að ná sem heimspekingur …“.25 Fimmtán árum áður hafði hann skrifað í Ótímabærum hugleiðingum að eini markverði prófsteinninn á heimspeki væri hvort gerlegt væri að lifa samkvæmt henni eða ekki. En sú spurning væri því miður ekki á námsskrá háskóla, þar væri mönnum kennt að gagnrýna orð með öðrum orðum.26 Nietzsche telur að heimspekin hafi verið skilin frá réttum lifnaði, sé orðin orðaleikur. Menn segist t.d. vera einhyggjumenn – segist hafna aðskilnaði líkama og anda – en lifi óheilbrigðu lífi, fari illa með líkama sinn. Þannig lifi þeir í reynd eins og líkaminn væri andanum óviðkomandi.

Nietzsche lýsir áhrifamiklum fyrirmyndum í náttúrlegum og hversdagslegum lifnaði – ljóðskáldum sem ná að yrkja um ríkidæmi hversdagsleikans – en um leið beinir hann sjónum okkar að því hversu léttvægar þessar fyrirmyndir eru samanborið við lífið og náttúruna. Ljóðskáldið reynir að glæða vitund okkar um margbreytileika og ríkidæmi náttúrunnar og lífsins og takist það– ef við sjáum að náttúran er sívirk og lífið hefur engu glatað af krafti sínum – verður ljóðskáldið léttvægt minnismerki um það sem var. Þannig tvöfaldar Nietzsche vægi fyrirmyndarinnar. Hann hrífst t.d. mjög af Fást og Manfreð en spyr: „En hvað eru Fást og Manfreð leikhússins fyrir þeim sem er eitthvað líkur Fást og Manfreð?“.27 Ljóðskáldin þekkja vel þessa aðferð Nietzsches og beita henni gjarnan til að mæra náttúruna, ekki síst til að sýna að ágætasti lofsöngur um náttúruna verður að vera náttúrlegur, koma frá náttúrunni sjálfri. Jónas Hallgrímsson yrkir: „Skáld er eg ei en huldukonan kallar“ og Hannes Pétursson yrkir: „Skáld verð ég ekki fyrr en ég finn að þú / ert fólgið í mínu blóði, ég orðinn þú: / laufgræn harpa í höndum myrkurs og birtu“.

Eitt af því sem gerir lýsingar Nietzsches á ljóðskáldinu áhrifamiklar er að þær eru í vissum skilningi stílaðar beint til lesandans, gera kröfur til hans. Nietzsche telur að allir menn geti verið ljóðskáld í eigin lífi. Í upphafi bókarinnar Hin hýru vísindi, sem er um ljóðskáld eigin lífs, skrifar hann: „Einhver kjánaskapur sannfærir mig sífellt um að sérhver manneskja hafi þessa tilfinningu sem manneskja“.28 Tilfinningin sem hér um ræðir er skömm á þeim sem lifa í ósamstæðu samræmi hlutanna – hinni ríkulegu tvíræðni tilvistarinnar – án þess að spyrja, skömm á þeim sem ekki eru ljóðskáld eigin lífs.

Nietzsche skilur mæta vel hversu hæpið það er að lofa ljóðskáldið í því augnamiði að vegsama líf í nú-inu og hversdagslífinu, það sem er smæst og næst. Slíkt kann einfaldlega að hafa þveröfug áhrif: lesandinn hættir að rækta sitt eigið hversdagslega líf; honum finnst það fátæklegt samanborið við líf hins mikla Goethes, Heines eða Emersons. Það er því ekki síður mikilvægt fyrir Nietzsche að gagnrýna og fjarlægjast skáldin en lofa þau og mæra. Ekkert er fjær Nietzsche en siðblind ást á listamönnum.

Siðlaus sjálfssköpun

Ofangreind athugasemd Foots hófst á tilvitnunum í Nietzsche sem er ekki síður vert að staldra við en þá tilvitnun sem hún nefnir í lokin. Þar segir Nietzsche m.a. að dygðin verði „að vera okkar eigin uppgötvun, persónulegasta vörn og nauðsynokkar: að öðrum kosti er hún beinlínis hættuleg“. Foot telur að dygð sem er svo persónuleg – í reynd uppgötvun einstaklingsins – sé tæpast réttnefnd dygð. Eiginleg dygð sé eitthvað sem hægt sé að hvetja alla menn til að leggja rækt við. Nietzsche sé því í reynd ekki að ræða um dygðir.

Þótt Nietzsche ræði vissulega um dygðir og lesti undir öðrum formerkjum en siðfræðingar almennt er nauðsynlegt að huga að ýmsu áður en fallist er á niðurstöður Foots. Rétt er t.d. að veita því athygli að í tilvitnuninni sem Foot tilgreinir ræðir Nietzsche ekki eingöngu um dygðina sem persónulega uppgötvun heldur einnig sem persónulega nauðsyn. Orðið „nauðsyn“ dregur úr þeim gerræðis- og duttlungablæ sem setningin kynni annars að hafa. Og þessi tilvísun á nauðsyn er engin tilviljun. Í formála að Sifjafræði siðferðisins ræðir Nietzsche t.d. um þróun sinna eigin hugmynda:

Hugmyndir okkar [heimspekinganna], gildin okkar, já-in okkar og nei-in … verða að spretta upp af okkur sjálfum af sömu nauðsyn og ávextirnir á trjánum … þær verða að bera vott um einn vilja, eitt heilbrigði, einn jarðveg, eina sól.29

Nietzsche grípur oft til trjá-líkinga þegar hann lýsir eigin þroskasögu og einnig þegar hann lýsir Zaraþústru. Fáir hneigjast til að aðskilja lífsanda trésins frá efniviði þess en þeirrar tilhneigingar gætir í afstöðu manna til dýra og hún virðist allsráðandi í afstöðu þeirra til eigin tegundar. Fyrir Nietzsche verður tréð lifandi tákn um einingu efnis og anda, myrkurs og birtu. Að þessu leyti er hann ekki ólíkur ljóðskáldunum. Í bréfi til ungs ljóðskálds skrifar Rainer Maria Rilke m.a.:

Að vera listamaður merkir: Að mæla hvorki né telja heldur þroskast eins og tré sem rekur ekki á eftir eigin safa, heldur stendur öruggt í stormum vorsins, hvergi smeykt um að sumarið komi ekki. Það kemur. En það kemur aðeins til þeirra sem hafa þolinmæði, sem standa þarna eins og eilífðin lægi við fætur þeirra, svo óviðjafnanlega þögul og takmarkalaus. Ég nem það dag hvern, nem það með sársauka sem ég er þakklátur fyrir: Þolinmæði er allt.30

Til að verða, eins og Hannes Pétursson orðar það, „laufgræn harpa í höndum myrkurs og birtu“ þarf mikla þolinmæði. Nietzsche er ekki síður iðinn við að leiða lesendum sínum fyrir sjónir mikilvægi þolinmæði en ljóðskáldin. Í þessu viðfangi er athyglisvert að skoða eftirfarandi hugleiðingu um óþolinmæði úr Mannlegt, alltof mannlegt:

Það er nákvæmlega sá sem er að verða sem ekki fær afborið verðandina: Hann er of óþolinmóður fyrir hana. Unglingurinn neitar að bíða þar til að, eftir miklar yfirlegur, þjáningar og skort, mynd hans af mönnum og hlutum er fullgerð: Þess í stað … varpar hann sér í faðm heimspekings eða ljóðskálds, og verður því um langt skeið að neita sjálfum sér og gerist lénsmaður. Hann lærir margt í þeirri vist; en oft gleymir unglingurinn því sem hann hefur ríkustu ástæðu til að læra og þekkja: Sjálfum sér; hann verður flokksbundinn allt sitt líf.31

Hér leggur Nietzsche ósköp hversdagslegan skilning í þolinmæðina, hún er hæfileikinn til að bíða, skuldbinda sig ekki of snemma, leyfa hlutunum að vaxa í ró og næði. Ekki er síður mikilvægt að Nietzsche rekur orsök þess að einstaklingurinn finni ekki sjálfan sig til óþolinmæði. Öfugt við það sem gagnrýnendur Nietzsches ætla leggur hann áherslu á mikilvægi dygða nákvæmlega á þeim stað sem hann ræðir um mikilvægi sjálfssköpunar,32 þótt hann haldi því vitaskuld einnig fram að dygð án sjálfsköpunar eða sjálfsleitar sé hættuleg. Þessi tilvitnun er sannarlega ekkert einsdæmi. Nietzsche semur t.d. ljóð þar sem segir:

Vertu trúr þínu eigin sjálfi
taktu þér tíma – og þannig fylgirðu mér.33

Þótt þolinmæði sé að mínum dómi höfuðdygð í siðfræði Nietzsches, hef ég hvergi fundið um­fjöllun um hana í hinum fjölmörgu bókum um Nietzsche sem ég hef undir höndum. Þolinmæðin er engan veginn eina dygðin sem Nietzsche telur mikilvæga. Hann er líka iðinn við að leiða lesendum sínum fyrir sjónir, með sínum sérstæða hætti, mikilvægi hugrekkis, þrautseigju, heiðarleika, dugnaðar og samúðar.

Nietzsche leggur dýpri og umfram allt náttúrlegri skilning í sjálfssköpun en margir túlkendur hans. Þeir líta á sjálfssköpun sem tilbúning, hreina uppfinningu hins staka manns. Nietzsche segir hins vegar: „Vertu sá sem þú ert“.34 Orðalag hans leggur í senn áherslu á að búa til og finna, skáldskap og uppgötvun, veru og verðandi. Fyrir Nietzsche er sönn sjálfssköpun eitthvað sem gerist því sem næst óviljandi þegar menn taka sér tíma.

Nietzsche fer ekki í grafgötur með að slík sköpun eða sjálfsleit kalli á mikinn styrk, mikla þrautseigju. Í Ragnarökkri er kafli sem ég tel að varpi einkar skýru ljósi á hvers konar styrk Nietzsche telur nauðsynlegan:

Að læra að sjá – að venja augað við kyrrðina, við þolinmæði, við það að leyfa hlutunum að koma upp að því; að fresta dómum, að læra að fara kringum viðfangsefnið og skoða hvert einstakt tilfelli frá öllum hliðum … að bregðast ekki strax við áreiti, en ná stjórn á öllum hvötum sem útiloka og hamla. Að læra að sjá, eins og ég skil það, er næstum því það sem kallað er … sterkur vilji:35Grundvallaratriðið er nákvæmlega að „vilja“ ekki – að geta frestað ákvörðun.36

Hér tengist styrkur hinu sterka auga mannvinarins og listamannsins sem leyfir hlutunum að birtast og vera það sem þeir eru. Hér er líka vikið að þeim styrk sem þarf til að leyfa öðrum að þjást, styrk til að bíða og sjá hvernig þjáning og erfiðleikar geta verið nauðsynlegur og góður hluti af lífi þess sem þjáist. Þetta er styrkur hins góða lesanda sem ekki slítur setningar eða kaflahluta úr samhengi heldur frestar því að fella dóma um ritverk þar til hann hefur hægt og bítandi öðlast heilsteypta mynd af verkinu og markmiði höfundar. Hér er í stuttu máli vikið að þeirri tegund af styrk sem marga lesendur Nietzsches hefur skort.

Niðurlag

Menn hafa lengi óttast að Nietzsche væri hættulegur heimspekingur. Upp á síðkastið hafa ýmsir komið Nietzsche til varnar og haldið því fram að þessi ótti sé byggður á misskilningi. Furðu fáir veita því athygli að það er ekki endilega niðrandi að segja um heimspeking að hann sé hættu­legur. Nietzsche telur a.m.k. að ekki sé hægt að segja neitt meira niðrandi um heimspeking en að hann sé meinlaus eða hættulaus. Heimspekingur sem ekki hreyfir við neinum, segir Nietzsche á einum stað, er ekki mikill heimspekingur.37 Margir af þeim sem hafa lastað Nietzsche hafa því óvart verið að lofa hann og öfugt.

Hvort væri nú meira viðeigandi að enda þessa grein á því að kalla Nietzsche hættulegan eða hættulausan heimspeking? Ég svara með því að segja að hann er hættulaus þeim sem sjálfir eru hættulegir heimspekingar, hættulegur hinum.

 

Tilvísanir

1. Áhorfsmál er hvort skoða beri Wille Zur Macht sem höfuðrit Nietzsches þar sem hann gekk ekki sjálfur frá því til útgáfu.

2. Ekki óttuðust þó allir slíkt afturhvarf hugarfarsins til heiðni. Í bréfi sem Stephan G. Stephansson skrifaði góðvini sínum Jóhannesi P. Pálssyni árið 1924 lýsir hann afsökunarlaust ást sinni á heimspeki Nietzsche: „Annars er heimspeki „Nitchzes“ [Stephan tekur fram að hann er að geta sér til um rétta stafsetningu nafnsins] algerlega trú forfeðra okkar – og mér því kær – meðan þeir enduðu hana með Valhöll, og áður þeir bættu „Baldri“ við …“ Stephan G. Stephansson, Bréf og ritgerðir, III. bindi, Reykjavík 1947, s. 149. Í þessu bréfi er Stephan líka með einhverja athyglisverðustu þýðingu á „Übermensch“ sem ég hef séð en hann kallar það „afarmennið“.

3. Bertrand Russell, A History of Western Philosophy, Simon and Schuster 1945, s. 767.

4. Clarence Darrow, Attorney for the Damned, ritstj. Arthur Weinberg, The Unversity of Chicago Press 1984, s. 73. Darrow heldur að vísu líka opnum þeim möguleika að hugsýkin hafi orðið til þess að Leopold las Nietzsche.

5. Ævisöguritari hans, Kevin Tierney, telur að Darrow hafi um árabil lifað samkvæmt skilningi sínum á heimspeki Nietzsches: „Á næstu tuttugu árum varð Darrow sífellt frakkari í árásum sínum á viðteknar skoðanir, óhræddari við að ganga í berhögg við almenningsálitið … Löngu síðar á ævikvöldinu þegar ástríðuhitinn tók að kólna runnu á hann tvær grímur varðandi heimspeki Nietzsches … hann sá að heimspeki hans var vímugjafi handa hinum ungu og ístöðulausu, líkt og hún hafði verið honum“. Sjá Kevin Tierney, Darrow, A Biography, Thomas Y. Crowell Publishers 1979, s. 74–75.

6. Þó ég færi ekki rök fyrir því hér tel ég að þessi nöfn Nietzsches vísi á eina og sömu gerð siðferðis. Nietzsche gerir líka frægan greinarmun á þrælasiðferði og höfðingjasiðferði. Sjá umræðu í grein Vilhjálms Árnasonar, „Við rætur mannlegs siðferðis“, Skírnir, 167. ár (vor 1993).

7. Sjá sérstaklega síðasta hlutann í Ecce homo.

8. Sjá t.d. Handan góðs og ills, þýð. Þröstur Ásmundsson og Arthúr Björgvin Bollason, Hið íslenska bókmenntafélag 1994, 202.

9. Sjá t.d. formála Nietzsches að Sifjafræði siðferðisins, sérstaklega 5. og 6. hluta.

10. Mig grunar að þetta sé meginhlutverk tungumáls í mannlegum samskiptum.

11. Friedrich Nietzsche, Sämtliche Werke: Kritische Studienausgabe in 15 Bände (KSA), útgef. Giorgio Colli og Mazzino Montinari, Walter de Gruyter 1967–1977, 6. bindi, s. 371.

12. Að dómi Nietzsches er blygðunarleysi einn höfuðlöstur siðapredikarans.

13. KSA 6. bindi, s. 367.

14. Hannes Pétursson, Ýmsar færslur (Brot), Iðunn 1989, s. 12.

15. KSA, 3. bindi, s. 532-533.

16. Hitchcock notast reyndar við vinsælt breskt leikrit (Rope) sem Patrick Hamilton samdi um Leopold og Loeb. Í leikritinu er ekkert gert með þátt Nietzsches. Tvær aðrar myndir, Nauðung (Compulsion, 1959) og Ómegin (Swoon, 1991), hafa verið gerðar um réttarhöldin yfir Leopold og Loeb.

17. Tilvitnanir Foots í Nietzsche eru í KSA 6. bindi, s. 177; KSA 5. bindi, s. 60; og KSA 3. bindi, s. 538.

18. Philippa Foot, „Nietzsches Immoralism“, í Nietzsche, Genealogy, Morality, ritstj. Richard Schacht, University of California Press 1994, s. 6.

19. Alexander Nehamas, Nietzsche: Life as Literature, Harvard University Press 1985, s. 167.

20. KSA 3. bindi, s. 448.

21. KSA 2. bindi, s. 542.

22. Dæmin eru úr Ecce homo.

23. KSA 6. bindi, s. 258, leturbreyting mín.

24. Nietzsche forðast að gera greinarmun á þessu tvennu.

25. KSA 6. bindi, s. 301.

26. KSA 1. bindi, s. 417.

27. KSA 3. bindi, s. 444.

28. KSA 3. bindi, s. 373–74.

29. KSA 5. bindi, s. 248–49.

30. Rainer Maria Rilke, Letters to a Young Poet, ensk þýð. Stephen Mitchell, Vintage Books 1986, s. 24–25. Bréfin, tíu að tölu, voru send Franz Xaver Kappus, ungu ljóðskáldi sem hafði sent Rilke nokkur kvæði til umsagnar.

31. KSA 2. bindi, s. 667.

32. Sjá einnig eftirfarandi tilvitnun: „Þeir [menn almennt] hafa allir tilhneigingu til að vera latir … Þeir eru allir hræðslugjarnir. Þeir fela sig á bak við venjur og skoðanir … Í hjarta sínu veit sérhver maður ósköp vel að … hann verður í heiminum aðeins einu sinni og að engin möguleg tilviljun mun aftur raða saman svo furðulegri samsetningu eins og hann er: þetta veit hann en felur það eins og slæma samvisku – hvers vegna? Af ótta við náunga sinn sem krefst vanafestu og hangir sjálfur saman á henni. En hvað er það sem fær einstaklinginn til að óttast nágranna sinn … í stuttu máli … tilhneiging til leti“ (KSA 1. bindi, s. 337).

33. KSA 3. bindi, s. 354. Ég hef lagt þýðingu Kaufmanns til grundvallar.

34. Sjá t.d. KSA 3. bindi, s. 519 og yfirskrift Ecce homo, KSA 6. bindi, s. 255.

35. Nietzsche slær fyrirvara um að þetta sé óheimspekilegt tal því ekki sé í reynd rétt að tala um viljann sem sjálfstætt fyrirbæri.

36. KSA 6. bindi, s. 108–109.

37. Sjá KSA 1. bindi, s. 426–27.

 

« Til baka

Friedrich Nietzsche

Þýski heimspekingurinn Friedrich Nietzsche fæddist árið 1844 í bænum Rökken sem þá tilheyrði Prússlandi. Menntaferill Nietzsches hófst á sviði fornfræði og varð hann snemma vel að sér í forn­grískri heimspeki og menningu. Árið 1869 var hann gerður að prófessor í fornfræði við háskólann í Basel einungis 24 ára að aldri, en neyddist til að láta af störfum árið 1879 vegna slæmrar heilsu. Fyrsta rit Nietzsches, Fæðing harmleiksins (1871), fjallaði um samspils hins villta og hins fágaða í forngrískri leiklist.

Siðfræðin var eitt af höfuðviðfangsefnum Nietzsches, og eru rit á borð við Handan góðs og ills (1886) og Sifjafræði siðferðisins (1887) úttektir á því sem hann taldi menningarbundnar kreddur bæði í hugmyndum almennings og heimspekinga um siðferðislegan skilning á „hinu góða“. Nietzsche taldi þörf á að endurskilgreina siðferðislega hugtakanotkun og áleit sig standa í fylkingarbrjósti nýrrar hugmyndafræðilegrar sýnar öll heimspekileg og menningarleg viðfangsefni.

Nietzshe velti fyrir sér afdrifum einstaklings og menningar á umbrotatímum í sögu heimspeki­legrar hugsunar, þar sem mörgum fannst upplausnin ein ríkja. Upplausn og niðurbrot gilda eru miklvæg stef í heimspeki Nietzsches, samanber „dauða Guðs“, eina af frægustu hugmyndum hans.

Verk Nietzsches eru gjarnan söguleg eða „sifjafræðileg“ (genealógísk) úttekt á heimspekinni, þar sem hann taldi sig „fletta ofan af“ ýmsum forpokuðum hugmyndum hennar. Nietzsche taldi til dæmis kristið siðferði, hinn viðurkennda útgangspunkt vestrænnar siðfræði, vera „þrælasiðferði“ og þjóna hagsmunum hinna undirokuðu, eða þörf þeirra fyrir siðferðislega upphafningu á þræls­lunduðum dyggðum sínum: hógværð, undirgefni, o.s.frv. Nietzsche var heimspekingur vantrausts­ins og efans, og hafa ýmsir heimspekingar 20. beitt aðferðum hans við að grafa undan viðteknum viðhorfum í samfélaginu. Má þar nefna sem dæmi Michel Foucault og Richard Rorty, sem beita þeirri aðferð að „segja sögu“ fyrirbæranna í stað þess að einbeita sér að því að hrekja eða af­sanna fullyrðingarnar sjálfar.

Friedrich Nietzsche lést við upphaf nýrrar aldar, árið 1900, fársjúkur af geðveilu sem þá hafði hrjáð hann árum saman.

Fjölmargir íslendingar hafa ritað um Nietzsche, og er það til marks um þann aukna áhuga sem vaknað hefur á verkum hans á síðustu áratugum. Freistandi er að skýra þennan áhuga sem svo að verk Nietzsches eigi nú loksins erindi við mannkynið, þar sem hann taldi kenningar sínar á sínum tíma „ótímabærar“ eins og sjá má af titlum bóka hans; Ótímabærar hugleiðingar og undir­titil Handan góðs og ills, „Forleikur að heimspeki framtíðar“.

Tvö af ritum Nietzsches hafa komið út á íslensku. Þau eru Handan góðs og ills (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1994) í þýðingu Arthúrs Björgvins Bollasonar og Þrastar Ásmundssonar og Svo mælti Zaraþústra (Háskólaútgáfan, 1996) í þýðingu Jóns Árna Jónssonar. Einnig hefur komið út greinin „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“ (Skírnir, 1993) í þýðingu Magnúsar Diðriks Baldurssonar og Sigríðar Þorgeirsdóttur.

Tímarit Máls og menningar gaf árið 1997 út sérstakt hefti tileinkað Nietzsche. Hér má lesa allar greinarnar úr því, sem og greinarnar „Við rætur mannlegs siðferðis“ eftir Vilhjálm Árnason og „Tilraun um styrk: Trúin í túlkunarsálarfræði Nietzsches“ eftir Matthew Ray.

Vilhjálmur Árnason:
Grímur manns og heims. Látbragðslistin í heimspeki Nietzsches
Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

Vilhjálmur Árnason:
Við rætur mannlegs siðferðis. Siðagagnrýni og heilræði Friedrichs Nietzsche

Greinin birtist í Broddflugum, Háskólaútgáfan 1997.

Kristján Árnason:
„Bara flón! bara skáld!“ Heimspeki í molum eða molar um Nietzsche
Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

Róbert H. Haraldsson:
Eftirmyndir Nietzsches
Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

Arthúr Björgvin Bollason:
Stefnumót við Díonýsos. Nokkrir punktar um Nietzsche
Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

Matthew Ray:
Tilraun um styrk: Trúin í túlkunarsálarfræði Nietzsches
Birtist í Hugi 10.-11. árg., 1998/1999.

Atli Harðarson:
Nietzsche og Dínamít
Stutt er síðan nýjasta leikrit Birgis Sigurðssonar, Dínamít, var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu. Efniviður þess er ævi þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsche, samband hans við systur sína, Elisabeth, og andleg hrörnun. Hér birtist gagnrýni Atla Harðarsonar á heimspekisögulegan þátt leikritsins, þ.e. á þá meinleysislegu mynd sem honum þykir þar vera dregin af hugsuðinum. Dómurinn birtist áður fyrir stuttu í Lesbók Morgunblaðsins.

« Til baka

Grímur manns og heims

eftir Vilhjálm Árnason

Grímur manns og heims

 

Látbragðslistin í heimspeki Nietzsches1

Nietzsche notar ekki oft hugtakið „gríma“ í verkum sínum, en það er áberandi í hvert sinn sem því bregður fyrir. En þótt orðið sé sjaldgæft sést við nánari skoðun að hugtök sem tengjast grímunni, á borð við látbragð, blæja, skikkja, hlutverk, leikrit og leikur gegnsýra textann. Ætlun mín í þessari ritgerð er að sýna að þessi hugtök „látbragðslistarinnar“ séu mikilvæg til skilnings á heimspeki Nietzsches. Notkun hans á grímutengdum orðum er afar þýðingarmikil bæði fyrir hugsun hans um eðli veruleikans og einnig fyrir endurmat hans á tilvist manna og gildum. Meginkostur þess að ræða hugsun Nietzsches í ljósi grímunnar er hin djúpa margræðni þessa hugtaks. Það er sífelld spenna milli þeirra eiginleika grímunnar að afhjúpa og að fela og þessir tveir eiginleikar eru ekki andstæður heldur samtvinnaðir. Þrátt fyrir að yfirhylming sé megineinkenni hennar er hún hún líka leið að sannleikanum: Hún getur bæði staðið fyrir blekkingu og það sem Nietzsche kallar „sanna blekkingu“. Hana má nota til að fela og flýja en einnig til að leiða í ljós og skapa.

Viðhorf Nietzsches til veruleikans er af ætt Heraklítosar: Allt er á stöðugri hreyfingu og undirselt látlausri verðandi. Það er engin greinarmunur á ‘sýnd’ og ‘reynd’; veruleikinn er eins og hann er skynjaður í lifaðri reynslu. Allar hugmyndir um veru í sjálfri sér utan og ofan við skynheiminn, sem svo mjög setja svip sinn á vestræna frumspeki, eru af rót tómhyggjunnar. Þær eru til marks um óhæfilegar kröfur um algilda og örugga þekkingu og um skort á sálarstyrk til að gangast við veruleikanum eins og hann er. En með því að segja að sýndin sé allt sem er, felst Nietzsche ekki á þá raunhyggju sem telur sig finna merkingarbærar skynreyndir í beinni reynslu. Frá bæjardyrum Nietzsches er ekkert „þarna“ sem hægt er að endurspegla á þennan hátt; um leið og sýndin tekur á sig form og mynd þá er hún ekki „empírísk staðreynd“ heldur túlkun. Ég kalla þessar túlkanir veruleikagrímur og í raun eru þær grímur hvata okkar:

Setjum nú svo að ekkert sé raunverulega „gefið“ nema veröld okkar eigin langana og ástríðna og við komumst hvergi niður né upp til neins annars „veruleika“ en veruleika eigin hvata – því hugsunin er ekkert annað en samspil þessara hvata.2

Við erum aldrei hlutlausir skoðendur andspænis hlutlægum heimi. Með því að láta vilja okkar til sín taka í veröldinni erum við fremur virkir skapendur veruleikans. En þar eð veruleikagrímurnar hafa stirnað, gleymir manneskjan framlagi sínu og fer að trúa því að heimurinn sé sannur eins og hann er:

einungis vegna þess að mannskepnan gleymir sjálfsveru sinni, listrænt skapandi sjálfsveru sinni, býr hún við sæmilega ró, öryggi og samkvæmni.3

Stundum segir Nietzsche að það að vera maður sé að meta og túlka. Hann talar um hvötina „til að skapa myndhverfingar“ sem „frumþörf manneskjunnar“4; sem manneskjur nærumst við á merkingu og gildum. Þetta grundvallareinkenni mannlegrar tilvistar, að skapa úr skynbrotum verðandinnar merkingarbært form, felur samkvæmt Nietzsche ávallt í sér blekkingu að einhverju marki – blekkingu af ætt grímunnar. Máttur okkar til að breiða yfir eðli veruleikans um leið og við leiðum hann í ljós er innbyggður í sjálfan hátt okkar á að hugtaka heiminn og í boðskiptum okkar; hann á rætur í eðli tungumálsins. Með tungumálinu skipuleggjum við veruleikann, sem í eðli sínu er síkvik verðandi. Rétt eins og það sé okkur lífsnauðsyn að negla hlutina niður á þennan hátt þrengjum við flokkunum hugans, á borð við samsemd, líkindum og andstæðum, upp á það sem birtist okkur. Raunar telur Nietzsche þetta mannlegu lífi nauðsyn vegna þess að tungumálið gerir tjáskipti möguleg með samsömun og reglubindingu veruleikans.

Öll hugtök verða til við samsömun þess sem er ekki eins. […] Maðurinn sem skynsemisvera lætur sértekninguna stjórna athöfnum sínum: Hann þolir ekki lengur að hrífast og gefa sig á vald óvæntum áhrifum og skynjunum, heldur alhæfir og aflitar þessi áhrif og færir í kaldan hugtakabúning sem hann síðan spennir fyrir vagn lífs síns og athafna. […] Við getum ekki annað en dáðst að því hvílíkur völundarsmiður mannskepnan er að reisa jafn óendanlega flókna hugtakahvelfingu á hreyfanlegum undirstöðum, svo að segja á rennandi vatni.5

Auk þessa óhjákvæmilega grímueiginleika tungumálsins hafa túlkanir trúarbragða, frumspeki og þekkingarfræði smám saman tekið sér bólfestu í því og fyllt það villandi hugmyndum um mann og heim. Þess vegna þarf að

þýða manninn aftur yfir í náttúruna, ná valdi yfir ótölulegum hégómlegum og öfgakenndum túlkunum og aukamerkingum sem búið er að krota og mála yfir hinn eilífa frumtexta homo natura6

Í tungumálinu afhjúpast heimurinn og manneskjan en vegna þessara tálmynda eru þau líka falin eða grímuklædd. Vitnisburður skynfæranna er afbakaður af skynseminni en jafnframt er skynsemin nauðsynleg til að verðandin geti tekið á sig mynd og birzt á ‚merkingarbæran’ hátt. Þetta er hin sérstaka leið manneskjunnar til sjálfsvarðveizlu. Stundum talar Nietzsche um þetta sem „viljann til sannleika“ en líka sem það „afl lífsins sem vill blekkingu“ og hann sér það sem tjáningarmynd viljans til valds: „að þröngva eiginleikum verunnar upp á verðandina – það er æðsti viljinn til valds“.7 Sannleiksvilji mannsins byggist á vissri sannfæringu; hann er trú á óhagganlegan og merkingarríkan veruleika. Nietzsche sér þessa trú sem tegund villu sem maðurinn getur ekki lifað án:

mennirnir gætu ekki þrifist án rökrænna ímyndana, án þess að meta veruleikann í ljósi hreins uppspuna á borð við veröld hins óskilyrta, hins sjálfu sér samkvæma, án þess að nota tölurnar stöðugt til að rangtúlka heiminn. Við höldum því einnig fram að vísuðu menn röngum dómum á bug væru þeir jafnframt að hafna og afneita lífinu sjálfu. Að viðurkenna ósannindi sem skilyrði lífsins sjálfs …8

Þannig getum við séð að frá bæjardyrum Nietzsches er forsenda hins einstæða mannlega lífs sjálf blekking eða villa af einhverju tagi: Sú blekking að það sé til eitthvað fast og „röklega niðurneglt“. Og þessi „blekking“ er forsenda þeirrar staðreyndar að veruleikinn birtist yfirhöfuð. Í þessu felst hin mikla margræðni tilverunnar, margræðni grímunnar: Fyrirbærin taka óhjákvæmilega á sig mynd til að geta birzt og þessi mynd dylur þeirra innsta eðli, síkvika verðandina. Gríman er nauðsynleg til að setja hlutina fram. En með því að sýna leynir hún og blekkir um leið. Í þessu ljósi verðum við að skilja þá staðhæfingu Nietzsches að „Öll heimspeki felur líka heimspeki. Allar skoðanir eru líka felustaðir, hvert orð er líka gríma.“9 Í þessum fullyrðingum er fólgin sú meginhugmynd að öll skynjun, hugsun og þekking sé bundin vissum sjónarhornum. Eins og við höfum séð eru það þarfir okkar sem túlka heiminn og hver dómur og sérhver mannleg viðleitni er því tengd hagsmunum og lituð af gildum. Grunnfordómar af þessu tagi, hvort sem þeir eru lífeðlisfræðilegir, sögulegir eða félagslegir að uppruna, eru nauðsynlegir til að gefa mannlegri viðleitni „stefnu, merkingu, mörk og tilverurétt“10. Hér verður á vegi okkar sama margræðni og áður. Þrátt fyrir að sérhvert mannlegt sjónarhorn sé takmarkað og hlutdrægt, að minnsta kosti á mælistiku hefðarinnar, er það einnig forsenda sannleika og þekkingar. Hættan felst í því að alhæfa einhverja eina túlkun eða sjónarhorn og að útiloka þátt lífsaflanna í túlkunum okkar. Hvert takmarkað sjónarhorn gefur sem slíkt afbakaða og villandi mynd. Þar með er ekki sagt að til sé eitthvað í sjálfu sér sem megi afbaka, einhver endanlegur sannleikur sem alltaf gengur okkur úr greipum. Það merkir fremur að enginn slíkur sannleikur sé til og einungis með því að gangast við margbreytileika sjónarhornanna sé hægt að vera trúr hinni margbreytilegu reynslu. Nietzsche kallar þetta „ástríðufulla“ hlutlægni:

því fleiri hvötum sem við leyfum að tjá sig um hvert atriði, því fleiri augu, ólík augu sem við höfum til að skoða hvern hlut, þeim mun fyllra verður „hugtak“ okkar um þann hlut, þeim mun meiri „hlutlægni“.11

Meginstefið í framansögðu er að veruleikinn sé óhjákvæmilega grímuklæddur. Við sögðum að sérhver túlkun sé sett fram undir takmörkuðu sjónarhorni sem felur í sér vissa blekkingu. Engu að síður eru sumar túlkanir meira viðeigandi en aðrar; sumar grímur dylja einungis, aðrar miða ekki að því að blekkja heldur reyna að afhjúpa á sannan hátt. Eins og undanfarandi umfjöllun gefur til kynna ræðst það hve sönn túlkun er af tvennu (eða tveimur hliðum sama fyrirbæris): Annars vegar er hún opin fyrir fjölbreytilegri reynslu og sýnir hinn auðuga margbreytileika sjónarhorna. Hins vegar er hún trú hinum mennska veruleika og viðurkennir að fullu hlutverk ástríðna og eðlishvata í túlkunarferlinu, með ástríðufullri hlutlægni. Einkenni þess sem birtist ræðst af sjónarhorninu og því er gríman ákvörðuð af gagnvirkni heims og manns, túlkandanum. En hver er þessi túlkandi? „Sjálfið“ er alveg jafn mikið túlkunarverkefni og allt annað. Líkt og engin vera er að baki ásýndar veruleikans þá er ekkert hefðbundið, eiginlegt sjálf að baki túlkuninni. Sjálf túlkandans er ekki „ég“ heldur „það“ eða sjálfsveran sem af eðlishvöt leysir orku sína úr læðingi.

… hugsun kemur þegar „hún“ vill en ekki þegar „ég“ vil; þannig er það fölsun á staðreyndum að segja frumlagið „ég“ er skilyrði umsagnarinnar hugsa […] jafnvel með „það“ hugsar er of langt gengið: þetta „það“ ber í sér túlkun á ferlinu og tilheyrir ekki ferlinu sjálfu. Hér er ályktað eftir málfræðivenjunni …12

Heimurinn er ákvarðaður af viljanum sem við veitum í hann. Athafnir okkar, sem leiða í ljós túlkanir okkar á heiminum, eru tjáning ástríðna okkar og langana. Breytni manna, birting okkar í heiminum, ræður því úrslitum. Túlkunin sem bregður grímu á veruleikann og fær hann til að birtast leiðir jafnframt túlkandann í ljós. Við stígum fram í athöfnum okkar og túlkunum. Í þessum skilningi er gríman skilyrði sjálfsins, leið þess til að birtast. ‘Sjálfið’ er líka gríma og röð af grímum í stöðugri ummyndun. Uppgerðarlistin er sérkennandi fyrir manninn og á rætur í vitsmunum hans. Umbreyting hvatanna í meðvitaða rökhugsun er undirstaða skilningslistarinnar, „sem er listin sem leyfir okkur að bera grímur“.13 Yfirvegun fjarlægir manninn frá náttúrunni og þetta rof er forsenda látbragðs og uppgerðar. Í krafti þessarar fjarlægðar erum við mennsk og getum þar með borið grímur.

Vitsmunirnir þjóna því hlutverki að viðhalda einstaklingnum og er megintilgangur þeirra að villa á sér heimildir. […] Listin að villa á sér heimildir nær hámarki hjá mannskepnunni: hér eru allsráðandi blekking, skjall, svik og prettir, baktal, yfirborðsmennska, tildur, grímuklæðnaður, hulur hefðarinnar, sýndarmennska gagnvart sjálfum sér og öðrum, í stuttu máli sagt eitt allsherjar flökt í kringum hégómans eilífa loga.14

Látbragðslistin kemur sér sérstaklega vel fyrir þrælasiðferðið – það siðferði sem á rætur í kjörum hinna undirokuðu – vegna þess að það getur ekki gengizt við eigin hvötum. Yfirvegun verður lífsnauðsynlegt skilyrði tilvistar þrælsins sem verður alltaf að fara krókaleiðir og leita óbeinna leiða til athafna. Stöðug gagnrýni Nietzsches á siðferðið beinist að þessu atriði.

Siðapostular þurfa að hafa á sér yfirbragð dygðarinnar, einnig yfirbragð sannleikans, þeir gera þá fyrst mistök þegar dygðin nær tökum á þeim, þegar þeir missa tökin á dygðinni og þeir verða sjálfir siðferðisverur, verða sannir. Eitt af því sem góður siðapostuli þarf að hafa til að bera eru góðir leikhæfileikar; áhættan sem hann tekur er að leiktilburðirnir verði honum óvart eiginlegir, því það er guðleg hugsjón hans að halda eðli sínu og athöfnum aðskildum.15

Þetta er ein ástæða þess að Nietzsche metur mikils hina „göfugu kynþætti“. Hegðun þeirra einkennist af því að vera óyfirveguð og hreinskiptin, öfugt við hina yfirveguðu, útpældu hegðun sem einkennir hinn „útsmogna þræl“. Hinn göfugi maður tjáir hvatir sínar og ástríður á óheftan hátt. Hið „göfuga“ við þetta er hreinskilni og trúmennska við mannlegt eðli. Það er einmitt í hinni sjálfsprottnu athöfn og ræðu sem við erum sannarlegast „við sjálf“. Bæling hvatanna sem svo mjög einkennir hina andlíkamlegu frumspeki þrælanna er lífsafneitandi, þótt hún marki upphaf siðmenningar. „Skynsemin“ er aðgreind frá og tekin fram yfir ástríðurnar sem eru bældar. Þessi afneitun lífsaflanna leiðir til sjálfsblekkingar og afbökuð mynd af mannlegu eðli verður til. Ein ástæðan fyrir hrörnun siðferðisins að mati Nietzsches er sú að áherzlan hefur flutzt frá hinum einstaka geranda höfðingjasiðferðisins yfir á almenna flokka athafna og siðareglna í þrælasiðferði. Hið síðarnefnda felur í sér áherzlu á dygðugt látæði í stað dygðugra manngerða og þess vegna leiðir það látbragðslistina, sem blekkjandi tilvistarhátt, inn að kjarna siðferðisins. Í stað þess að skapa gildi og taka áhættu leitum við öryggis í búningum venja og hefða. Markmið hinna veiku er að alhæfa gildi sín, gera allt sameiginlegt svo að allir geti falizt bak við hefðir, klæddir í búning meðalmennskunnar. Afleiðingin er sú að blekkingin hefur öðlazt vaxandi gildi fyrir okkur í lífsbaráttunni. Viljinn til að vera blekktur er orðin náttúruleg hneigð mannsins; hann flýr vandamálin, forðast þjáningu og leitar hælis í blekkingum um heiminn og handanheiminn, jarðlífið og lífið eftir dauðann. Það sem í raun angrar Nietzsche hér er sú staðreynd að þessar veruleikagrímur hafa fengið stöðu sem viðtekin sannindi: blekking sem við höfum gleymt að sé blekking.

Sannindi eru tálsýnir sem við höfum gleymt að eru tálsýnir, útjaskaðar og máttlausar myndhverfingar […] samfélagið leggur okkur [skyldu] á herðar til að halda velli: sannsöglina, þ.e. fastbundna notkun myndhverfinga; eða siðferðilega orðað: skylduna til að ljúga samkvæmt fastmótaðri hefð, ljúga saman í hjörð eftir reglum sem allir verða að hlýða.16

Hér að ofan kom fram að öll þekking er bundin takmörkuðum sjónarhornum. Allar tilraunir til að upphefja þessar grundvallartakmarkanir mannsins eru veruleikaflótti af rót tómhyggjunnar. Slíkar túlkanir eru blekkingar, yfirhylmandi grímur. Einungis með því að gangast við takmörkunum okkar og fagna jarðneskum lífsskilyrðum, getum við forðað blekkingu og sjálfsafneitun og skapað möguleikann á skapandi lífsstyrkingu. Þar eð takmarkað sjónarhorn er forsenda þess að eitthvað sé leitt í ljós og sérhvert sjónarhorn dylur jafnframt því sem það afhjúpar þá verður sannleikurinn aldrei sviptur grímunni: „Við trúum því ekki lengur að sannleikurinn verði sannleikur þegar hulunni er svipt af; við höfum upplifað of mikið til að trúa þessu“.17 Í ljósi þessa má segja að vandinn sé ekki sá að bera grímu, heldur hvernig hún er borin, hvernig birtingin á sér stað. Villa hefðbundins siðferðis er að alhæfa og halda fram sem sannleika viðhorfum sem eru einungis sjónarhorn. Grundvallareiginleika mannlegrar tilvistar er afneitað með því að alhæfa siðadóma og aftengja þá hagsmunum og persónum. Siðferði verður þá flótti fyrir einbera leikendur, gríma sem hefur það meginhlutverk að breiða yfir. Hugmynd Nietzsches um að sigrast á þrælasiðferðinu má því skoða sem viðleitni mannsins til að birta sig á sannan hátt. Í ljósi þess sem sagt hefur verið getur hann þó ekki gert það grímulaust. Munurinn á eiginlegri og óeiginlegri grímu kemur skýrt fram í riti Nietzsches Fæðing harmleiksins. Í verkum Sófóklesar og Æskýlosar birtast appólónskar og díonýsískar grímur. Það er guðleg vera að baki hverri grímu og hin guðlega vera stígur einungis fram fyrir tilverknað grímunnar. Hér er gríman sönn listræn aðferð, nauðsynlegt form til að setja guðina á svið. Í leikverki Evripídesar er goðsögnin á hinn bóginn á hverfanda hveli og það sem eftir stendur er einungis „endurgerð, grímubúin goðsögn“, hetjur hans sýna „tilgerðarlegar, grímuklæddar ástríður og flytja tilgerðarlegar, grímuklæddar ræður“.18 Þessi samanburður gefur ljóslega til kynna greinarmun á hinu grímubúna og hinu sanna. En hið sanna ber einnig grímu. Munurinn er fólginn í því hvernig gríman er notuð sem birtingarmynd, hversu sönn framsetningin er. Þessum greinarmun má velta fyrir sér út frá hugmyndum um tvenns konar leikara á leiksviði lífsins. Sumir, ég kalla þá einbera leikara, nota list sína sem felustað. Þeir eru því eins konar loddarar sem setja upp grímur til að blekkja sjálfa sig og aðra. Eiginlegur leikari breytir hinsvegar gagngert til að kanna aðstæður sínar, hann spinnur og gerir tilraunir með lífið. Slíkur maður ber því ekki grímu til að flýja heldur til að leiða sjálfan sig í ljós. Þetta er ein ástæða þess að „Allt sem er djúpt elskar grímur“.19 Á meðan hinn einberi leikari bregður yfir sig skikkjunni vegna hentugleika eða þæginda til að leyna hvötum sínum sem ekki þola dagsbirtuna, notar eiginlegur leikari grímur sínar til að tjá hin margvíslegu lífsöfl sín á sannan hátt. Hann forðast að festa einhverja eina af grímum sínum vegna þess að hann gerir sér grein fyrir að látbragðslistin er óhjákvæmileg, að sjálfið er hans eigin sköpun. Og takist hann ekki sjálfur á við það mun heimurinn hrifsa það úr höndum hans og negla á hann útjaskaða grímu hins viðtekna. Því slík gríma er alltaf vinsæl.20 Hins vegar eru „hinir ósviknu […] alltaf sjaldgæfir, einkum ósviknir leikarar“21 Það verkefni, að verða maður sjálfur er því fólgið í því að skapa grímur: „ að ljá sér stíl – göfug og sjaldgæf list“.22 Það kemur margoft fram í verkum Nietzsches að lykillinn að þessari lífslist er að lífsöfl einstaklingsins séu stælt til sköpunar. Sigrazt er á hvötum og ástríðum á þann hátt að þær þjóna lífinu án þess að dreginn sé úr þeim máttur eða þær geltar. Þessi göfgun lífsaflanna felur í sér leið til sjálfsumsköpunar. Þótt við séum að vissu marki þegar ákvörðuð „í okkar innsta kjarna, „dýpst“ í okkur“,23 erum við sjálfum okkur verkefni til að sigrast á. Það felur í sér að gangast við náttúru mannsins og endurheimta þá hreinskilni sem einkenndi höfðingjann. Hér er þó mikilvægur munur á. Höfðinginn tjáir hvatir sínar og eðlisávísun óheft á náttúrulegan hátt, en hin frjálsa tjáning ofurmennisins á hvötum sínum og ástríðum er í mynd göfgunar sem „beinir hugsunum manns og líkamsöflum í aðra farvegi“.24 Höfuðatriði er þó að einstaklingurinn öðlist styrk til að verða hann sjálfur: „Sumir menn hafa vilja, en flestir láta bara að vilja annarra. Sumir eru ósviknir, en flestir eru lélegir leikarar.“25 Sannur leikari lítur á líf sitt sem verkefni og reynir að lifa því eins og listaverki. Það verkefni er listrænn grímudans. Til að losna undan túlkunarfargi heimsins leitast hann við að vera „Doppelgänger“ sem hefur „annað andlit til viðbótar því fyrsta. Og kannski líka hið þriðja“.26 Í þessu er fólgin viðurkenning á nauðsynlegri margræðni mannlegrar tilvistar og fjölbreytileika sjálfsins. Maður getur engu frekar neglt sjálfan sig niður með hlutlægri túlkun en maður getur neglt niður heiminn eða aðra. Alvöruþrungi í túlkun felur bæði í sér veruleikafrystingu og sjálfsblekkingu. Á hinn bóginn hafnar Nietzsche ekki allri alvöru:

Manndómsþroski: það er að hafa fundið aftur alvöruna sem maður bjó yfir sem barn að leik.27

Kát alvara barnsins að leik er einlæg, heilshugar, og óyfirveguð sjálfstjáning. Hinn þroskaði maður er frábrugðinn barninu að því leyti að hann er meðvitaður um þá staðreynd að leikur er aðeins leikur, hreinskilin blekking. En um leið gerir hinn sanni leikari sér grein fyrir að líf hans er leikur vegna þess að einungis í leiknum kemur í ljós túlkun hans eða mat á lífinu. Þess vegna er vitneskjan um að maður sé ekkert annað en heild allra þeirra gríma sem maður setur upp, ástæða til að fara gætilega í vali sínu á grímum. Að þessu leyti er það að setja upp sanna grímu sambærilegt við list. Heil hegðun er ekki í því fólgin að hafa fangað einhvern tiltekinn lífsmáta; hún fylgir hvorki gefnum siðareglum né er markmið hennar fyrirfram skilgreint. Þetta gerir hana þó ekki algerlega undirselda geðþótta. Hún er ávallt meðvituð um þá staðreynd að gildi lífsins eru undir henni komin. Þess vegna verður grímudansinn léttstígur og glaðvær. Þegar lífið verður list forðumst við blekkinguna – því listin ein gengst við því að hún er uppgerð.

 

Tilvísanir

1. Grein þessi birtist í <i>Tímariti Máls og menningar</i> 58 (1997:3), bls. 51–59.

2. HGI 36. Lykil að tilvísunum í rit Nietzsches er að finna hér fyrir ofan.

3. USL, bls. 23.

4. USL, bls. 26.

5. USL, bls. 21–22.

6. HGI 230.

7. NF 1885–1887, 7 [54] (KSA 12).

8. HGI 4.

9. HGI 289.

10. GM III 24.

11. GM III 12.

12. HGI 17.

13. NF 1884–1885, 35 [9] (KSA 11).

14. USL, bls. 16.

15. NF 1887–1889, 11 [54] (KSA 13).

16. USL, bls. 21.

17. FW 4.

18. GT 10.

19. HGI 40.

20. FW 77.

21. ZA. 176.

22. FW 290.

23. HGI 231.

24. M 109.

25. ZA 176.

26. EH Af hverju ég er svona vitur 3.

27. HGI 94.

 

Lykill að tilvísunum

 

KSA: Friedrich Nietzsche, Sämtliche Werke. Kritische Studienausgabe in 15 Bänden. Ritstjórar Giorgio Colli og Mazzino Montinari. Berlin/New York: de Gruyter Verlag 1967-1977.

EH: Ecce Homo. KSA, 6. bindi.

FW: Die Fröhliche Wissenschaft. KSA, 3. bindi.

GM: Zur Genealogie der Moral. KSA, 5. bindi.

GT: Die Geburt der Tragödie. KSA, 1. bindi.

HGI: Handan góðs og ills. Arthúr Björgvin Bollason og Þröstur Ásmundsson þýddu. Hið íslenzka bókmenntafélag 1994.

M: Morgenröte. KSA, 3. bindi.

USL: „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“. Magnús D. Baldursson og Sigríður Þorgeirsdóttir þýddu, Skírnir (vorhefti 1993).

Z: Svo mælti Zaraþústra. Jón Árni Jónsson þýddi. Heimspekistofnun og Háskólaútgáfan 1996.

« Til baka

Nietzsche og Dínamít

eftir Atla Harðarson

Þjóðleikhúsið sýnir um þessar mundir leikritið Dínamít eftir Birgi Sigurðsson. Það fjallar um ævi þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsche sem uppi var frá 1844 til 1900. Mér þótti þetta góð sýning og leikararnir hver öðrum betri. Þó má finna að því að síðasta atriðið fyrir hlé, þegar Nietzsche er að missa vitið, er helst til langdregið og mætti stytta það um helming.

Í upphafi sýningarinnar kynnast áhorfendur glaðhlakkalegum, hláturmildum eldhuga sem hefur lag á að orða glannalegar hugmyndir með eftirminnilegum hætti. Eftir hlé er hugsuðurinn hins vegar mállaus og að því er virðist meðvitundarlaus og lamaður meðan systir hans, Elísabet Förster-Nietzsche, misnotar rit hans og hugmyndir í þágu þýskrar þjóðernisstefnu. Hún á volduga vini, kúgar alla í kringum sig, breiðir út lygar um bróður sinn og hefur hann fyrir sýningargrip á Nietzsche safni sem hún hefur komið á fót í Weimar. Hitt fólkið sem þekkti Nietzsche og áhorfendur kynntust fyrir hlé reynir sumt að malda í móinn, en fær litlu áorkað. Þjóðernissinnar, sem hugsa eins og Elísabet, eru í sókn og þegar tjaldið fellur hafa Nazistar náð völdum í Þýskalandi. Þeir túlka skrif Nietzsche um ofurmennið sem lofsöng um þumba sem ryðjast áfram á harkmiklum hermannastígvélum og breyta minningunni um heimspekinginn glaðbeitta þannig að hún falli að hugmyndum þeirra um þýskan hetjuskap.

Með leikritinu leggur Birgir Sigurðsson áherslu á að skilningur þýskra þjóðernissinna á Nietzsche sé útúrsnúningur og það held ég að sé vissulega rétt hjá honum. Ofurmennið sem hann skrifaði um er miklu líkara Línu langsokk en Hitlersæskunni. Mér finnst Birgir þó ganga fulllangt í að hvítþvo Nietzsche. Þar sem heimspeki hans ber á góma er áherslan öll á fáeina þætti í margflókinni kenningasmíð. Mest ber á andófi Nietzsche gegn þrúgandi trúarkreddum sem blanda hverja jarðneska gleði seyrnum keimi. Birgir tínir upp setningar úr verkum hans sem snúast um að gjalda jákvæði við jarðlífinu, þroska hæfileikann til að gleðjast yfir því sem er hér og nú og sigrast á gildismati og siðadómum sem hindra að menn fái notið sín hver á sinn hátt.

Af leikritinu mætti ráða að kenningar Nietzsche snúist einkum um skilaboð af svipuðu tagi og finna má í kvæðum Stephans G. Stephanssonar. Þetta er fullmikil einföldun. Boðskapurinn sem Birgir leggur áherslu á er aðeins hluti af því sem Nietzsche hafði til málanna að leggja. Hann ritaði sínar frægustu bækur á níunda áratug nítjándu aldar. Í þessum bókum fer hann ekki aðeins hamförum gegn trúarlegum naglaskap og siðavandri meinfýsi. Hann lætur einnig gamminn geisa móti lýðræði, skynsemishyggju og hugsjónum upplýsingarinnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag allra manna. Nietzsche var afburða penni. Bækur hans hafa í meira en hundrað ár heillað menn og dáleitt. Í þeim ægir saman fræðilegum kenningum um siðferði og gildismat, skarpri gagnrýni á sjálfsblekkingu og hleypidóma og glannalegum stjórnmálaskoðunum sem eru einhvers konar blanda af hetjudýrkun og hugmyndum um að forréttindi til handa afburðamönnum skapi vaxtarskilyrði fyrir æðri menningu.

Tengsl Nietzsche við pólitíska ógæfu Þýskalands eru miklu flóknari en leikrit Birgis gefur til kynna. Nietzsche var vissulega ekkert sérstaklega illa við Gyðinga og hann fyrirleit þýska þjóðernisstefnu. En um sum önnur efni fóru skoðanir hans saman við hugmyndir Nazista því líkt og þeir var hann andvígur hvers konar kenningum um jafnrétti og bræðralag allra manna. Hann hafnaði því líka að til sé neitt eitt siðferði fyrir allt fólk og daðraði við boðskap sem auðvelt var að nota í þágu öfgafullrar þjóðernisstefnu. Í vinsælasta riti sínu Svo mælti Zaraþústra segir hann til dæmis:

Engin þjóð getur lifað án gildismats; en eigi hún að þrífast, má hún ekki halda í heiðri sömu gildi og nágrannar hennar. (Bls 80)

Héðan er stutt í þá firru að aðrar þjóðir hafi annað siðferði en við, þær viðurkenni ekki það sem við teljum vera rétt og því þurfum við ekki að meðhöndla þær í samræmi við það réttlæti sem gildir í samskiptum okkar á milli.

Eitt af höfuðskáldum Þjóðverja á 20. öld, Thomas Mann (1875-1955), gerir upp við Nietzsche í skáldsögu sinni Doktor Fástus sem út kom árið 1947. Þótt hann sé ekki nefndur í sögunni er ævisaga Nietzsche svo sláandi lík ævi söguhetjunnar, tónskáldsins Adríans Leverkühn, að lesandinn hlýtur að skoða þennan ímyndaða listamann sem hliðstæðu heimspekingsins. En ævisagan er líka spegilmynd af sögu Þýskalands á fyrri hluta 20. aldar og segir frá siðferðilegri upplausn sem endaði með hörmungum seinni heimstyrjaldarinnar. Í sögulok er Adrían Leverkühn ósjálfbjarga skar og sturlaður af völdum sárasóttar líkt og Nietzsche var síðasta áratuginn sem hann lifði og þá er Þýskaland líka lamað og ósjálfbjarga. Líkt og Nietzsche og Leverkühn féll Þýskaland saman eftir að hafa hamast gegn hefðbundnu siðferði og gildismati: Nietzche með heimspeki sem boðaði umturnun allra gilda; Leverkühn með hinni djöfullegu Opinberunaróratóríu; Þýskaland með hervirkjum sem áttu engan sinn líka.

Í sögu Thomasar Mann birtist þessi siðferðilega upplausn meðal annars í samræðum menntamanna. Til dæmis þar sem þeir ræða um „að útrýma hinum sjúku í stórum stíl, einfaldlega drepa þá, sem vanfærir væru um að lifa eða geðveikir og … snúa bakinu í alla þessa mannúðarbleyðimennsku, sem væri leifar hins borgaralega tímaskeiðs.“ (Bls. 462-463). Nokkru síðar (bls. 466) segir sögumaður frá því að Adrían Leverkühn semji tónverk „í furðulegu samræmi – næstum nákvæmlega sama anda“ og þessar samræður. Thomas Mann hefði ekki látið sömu sögupersónu vera í senn spegilmynd Nietzsche og Nazismans nema hann hafi álitið einhvern skyldleika með heimspeki Nietzsche og hugmyndafræði Þriðja ríkisins.

Um þessar mundir er Nietzsche í tísku hjá menningarvitum og bókmenntaspekúlöntum. Hjá sumu af þessu fólki gætir tilhneigingar til að draga sakleysislegri mynd af honum en Thomas Mann og aðrir sem fjölluðu um verk hans á fyrri hluta 20. aldar. Þessi viðleitni til að gera Nietzsche húsum hæfan birtist með skýrum hætti í leikriti Birgis Sigurðssonar. (Davíð Kristinsson gerir viðleitni af þessu tagi ágæt skil í grein sinni „Íslenskur Nietzsche við aldamót.“ Þar andæfir hann tilraunum nútímamanna til að gera Nietzsche meinlausan og sýnir fram á að flestir sem stóðu honum nær í tíma skildu hugsun hans sem ógn, heillandi og hættulega.)

Nietzsche ætlaði sér að vera ógnvekjandi og aðdáendur hans á fyrri hluta 20. aldar voru uppreisnarmenn sem vildu dansa á gröf kristindóms, jafnaðarstefnu og borgaralegs lýðræðis. Meðal þeirra áhrifamestu má telja bandaríska blaðamanninn H. L. Mencken (1880-1956) sem skrifaði bókina The Philosophy of Friedrich Nietzsce. Sú bók kom út árið 1908 og kynnti heimspeki Nietzsche fyrst bóka fyrir enskumælandi lesendum. Mencken var einlægur aðdáandi þýska spekingsins og taldi sig túlka viðhorf hans til lágstéttar og lítilsigldra manna. Hann á ekki nógu sterk orð til að lýsa vanþóknun sinni á samfélagi sem „nærir illa gefin afkvæmi lágstéttarinnar þar til þau líta næstum út eins og heilbrigðar manneskjur og sleppir þeim svo lausum til að æxlast og geta af sér fleiri sína líka.“ (Bls. 166) Mencken leit á Nietzsce sem bandamann í andstöðu við kristilega tilfinningasemi, samhjálp og hugmyndir um að allir menn séu jafningjar og eigi að hjálpa hver öðrum. Ekki mikil samúð með lítilmagnanum þar og hætt við að flestum sem snobba fyrir Nietzsche nú á dögum þyki þessi hugmyndablanda beisk í munni ef þeir reyna að sulla henni í sig óþynntri. En í byrjun 20. aldar skildu flestir Nietzsche á svipaðan hátt og Mencken og sá skilningur studdist meira við texta heimspekingsins sjálfs en falsanir Elísabetar.

Nietzsche fyrirleit viðleitni til að skapa betri lífskjör fyrir alþýðu manna og þóttist geta gefið umbótamönnum undir lok 19. aldar langt nef. Í bók sinni, Handan góðs og ills, sem út kom árið 1886 segir hann:

[M]álglaðir og pennaliprir þrælar hins lýðræðislega smekks og þeirra „nútímalegu hugmynda“ sem honum fylgja. Allt eru þetta manneskjur lausar við einmanaleika, lausar við eigin einmanaleika, kjánalegir og meinlausir náungar sem skortir hvorki hugrekki né virðingarverða viðkvæmni. … Það sem þeir vilja berjast fyrir af öllum lífs- og sálar kröftum er hin almenna græna bithagasæla hjarðarinnar, með öruggu, hættulausu, þægilegu og léttara lífi fyrir hvern og einn. Þeir söngvar og kenningar sem þeir kyrja án afláts heita „jöfnuður“ og „samúð með öllu sem þjáist“ — og þjáningin sjálf er í þeirra augum eitthvað sem verður að uppræta. (Gr. 44)

Þrem árum seinna þegar Nietzsche ritaði Götzen-Dämmerung fjallaði hann með augljósri velþóknun um indverska stéttakerfið sem hann áleit vera siðferði aríanna.

Lítum á aðra hlið þessa sem kallað er siðferði, ræktun tiltekinna kynþátta og tegunda. Stórkostlegasta dæmið um þetta er að finna í indverskri siðfræði sem er helguð og gerð að trúarbrögðum í „Lögmáli Manu“. Verkefnið sem þar liggur fyrir er að rækta samtímis fjóra kynþætti: klerka; hermenn; verslunarmenn og bændur; og að síðustu verkamenn eða sudra. … Maður andar léttar þegar komið er úr pestarbæli kristindómsins og því kjallaralofti sem þar er og stígur inn í þessa heilbrigðu veröld þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja. Hvað Nýja Testamentið er illa lyktandi og hve lágkúrulegt það er í samanburði við Manu. En þetta skipulag varð líka að vera hræðilegt … (Gr. 3 í kaflanum Die „Verbesserer“ der Menschheit.)

Svo lýsir Nietzsche því sem var hræðilegt í Manu, hvernig indverskt siðferði varði sig (eða varði hinar fjórar ræktuðu stéttir) gegn þeim óræktuðu, stéttleysingjunum. Hann lýsir hlutskipti þeirra á þessa leið.

Eina næringin sem þeim er heimil eru laukar því helgar ritningar banna að þeim sé gefið korn eða fræberandi aldin eða vatn eða eldur. Sömu reglur mæla fyrir um að þeir skuli ekki fá vatn úr læk, á, lind eða tjörn heldur einungis það sem rennur í forarvilpur eða safnast í fótspor dýra. Einnig skal þeim bannað að laugast og þvo klæði sín því vatnið sem þeim er af miskunn gefið skal aðeins slökkva þorsta þeirra. Að síðustu skal konum af kynþætti sudra eigi heimilt að aðstoða stéttlausar konur í barnsnauð né heldur skal konum stéttleysingja heimilt að hjálpa hver annarri. … Manu sjálfur segir: „Stéttleysingjarnir eru ávextir glæpa, hórdóms og sifjaspella … þeir skulu klæðast tötrum dauðra manna, matast úr brotnum kerum og skrautmunir þeirra skulu vera gamalt járn. Til tilbeiðslu hafi þeir illa anda og þeir skulu ráfa stað úr stað án hvíldar.“

Í framhaldi af þessu segir Nietzsche að í þessum reglum finnum við „hreina og upprunalega mennsku aríanna.“ („die arische Humanität, ganz rein, ganz ursprünglich“ Gr. 4) Svo lýsir hann kristni sem uppreisn stéttleysingjanna gegn þessu hreina og upprunalega siðferði. Hann mælir ekki beinlínis með að indverska stéttaskiptingin sé tekin upp í Evrópu og segir raunar að fátt veki meiri vanþóknun meðal vor. En hann lætur samt að því liggja að af tvennu illu sé þessi aríska ójafnaðarstefna æðri og betri en jafnaðarstefna Nýja Testamentisins. Ég held að hvorki hafi þurft verulega útúrsnúninga né neina forpokaða Elísabet til að þessar hugmyndir yrðu verkfæri í höndum þeirra sem grófu undan mannúðlegum samfélagsháttum eins og gert var í Þýskalandi á fyrri helmingi 20. aldar.

Rit

Davíð Kristinsson. 2004. „Íslenskur Nietzsche við aldamót“. Hugur 15. árg. bls. 84-149.

Mann, Thomas. 2000. Doktor Fástus (Þorsteinn Thorarensen íslenskaði). Fjölvi, Reykjavík.

Menken, H. L. 2003. The Philosopy of Friedrich Nietzsche, See Sharp Press, Tucson, Arizona. (Fyrst gefin út árið 1908.)

Nietzsche, Friedrich. Rit sem liggja frammi á http://www.gutenberg.org/

Nietzsche, Friedrich. 1994. Handan góðs og ills (Þröstur Ásmundsson og Arthúr Björgvin Bollason íslenskuðu). Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Nietzsche, Friedrich. 1996. Svo mælti Zaraþústra (Jón Árni Jónsson íslenskaði). Heimspekistofnun – Háskólaútgáfan, Reykjavík.

« Til baka

Stefnumót við Díonýsos

eftir Arthúr Björgvin Bollason

Stefnumót við Díonýsos

 

nokkrir punktar um Nietzsche

Fræðimenn hafa löngum komist að furðu ólíkum niðurstöðum um heimspeki Nietzsches. Það er kannski ekki að undra. Sjálfur lét Nietzsche þau orð falla að „allt væri túlkun“. Og í bréfi sem hann skrifaði vinkonu sinni Lou Salomé sagðist hann láta lesendum eftir að draga sjálfir sínar eigin ályktanir af þeim vísdómi sem hann bæri á borð fyrir þá í verkum sínum. Í umræddu bréfi, sem hefur að geyma eins konar drög að stílfræði, segir Nietzsche ennfremur að stíllinn eigi að sanna „að maður trúi á eigin hugsanir og hugsi þær ekki aðeins, heldur skynji þær líka.“1Í þessum orðum felst sú krafa, að lesandinn „lifi sig inn í“ textann.

Hér á Nietzsche tvímælalaust við annars konar „innlifun“ en þá sem heimasætan á Fæti undir Fótarfæti lagði í bókmenntir heimsins, þegar hún var að lesa úr Felsenborgarsögunum fyrir Ólaf Kárason Ljósvíking:

Hún las ekki heimsbókmentirnar til að láta sálina líða frjálsa um þau æðri svið sem heilsulaus sveitarómagi heldur að sé fullkomnasta stig lífsins, heldur til að friða eða ófriða einn þungan, þefmikinn kropp.2

Enda þótt Nietzsche hafi tæpast ætlast til þess að lesendur meðtækju hugsanir hans jafn „líkamlega“ og heimasætan á Fæti skynjaði Felsenborgarsögurnar, gerir hann að þessu leyti engu að síður óvenjulegar kröfur til lesenda sinna.

Honum nægir ekki að þeir lesi og skilji verk hans með höfðinu, heldur ætlast hann líka til þess að þeir leggi sínar eigin tilfinningar í lesturinn. Þeir eiga m.ö.o. að lesa rit hans bæði með höfðinu og hjartanu.

Þess munu varla dæmi, að heimspekingur hafi gert slíka kröfu til lesenda sinna. Allt frá dögum Platóns hefur heimspekin þvert á móti snúist um að „hug-taka“ fyrirbæri þessa heims. Hún hefur haft það mið að efla mönnum skilning, gera þá sem vitsmunaverur hæfa til að glöggva sig á einingu og samræmi í þeim sundurlausa flaumi sem sogast án afláts inn um skilningarvitin. Þetta á ekki síst við um margvíslegar greinar svonefndrar hugspeki, sem rekja má allar götur aftur til Platóns.

Og jafnvel þeir heimspekingar sem hafa snúist gegn hugspekinni og andæft því að til sé nokkur skynsamleg grind í heiminum sjálfum, hafa gert það á röklegum og vitrænum nótum. Þeir hafa í það minnsta freistað þess að færa skynsamleg rök fyrir því, að heimurinn sé „ó-skynsamlegur“.

Nietzsche er að þessu leyti á allt öðru róli. Innblásinn af kenningum Arthúrs Schopenhauers mótaði hann heimspekilegt viðhorf til veruleikans, sem er að nokkru leyti skyggt af skáldlegu innsæi. Línudansinn sem Nietzsche iðkar á markalínu heimspeki og skáldskapar veldur því að skrif hans verða margslungin og óræð á köflum. Þetta er jafnframt ein af undirrótum þeirrar kröfu að lesendur noti „skynjun“ sína og „innsæi“ til að fylgja honum eftir.

En það hangir fleira á spýtunni.

Þessi krafa tengist líka annarri og dýpri rót sem hugsun Nietzsches er sprottin af.

Í heilsteyptasta og samfelldasta heimspekiriti Nietzsches, „Handan góðs og ills“, sem hefur komið út á íslensku, leiðir hann „hinn mikla og tvíræða guð freistinganna“, sjálfan Díonýsos, fram á sviðið. Um leið og hann kynnir guðinn fyrir lesendum sínum fá þeir að vita, að höfundurinn sé „sá síðasti sem er innvígður í launhelgar hans.“

Og það er ekki lítið sem við er haft til að boða komu Díonýsosar. Höfundur vottar að „snilligáfa hjartans“ sé aðalsmerki guðsins og að hann búi yfir rödd sem megni „að berast niður í undirheima hverrar sálar . . .“ Þessi snilligáfa hefur þá náttúru að hún „þaggar niður allan hávaða og alla sjálfumgleði og fær menn til að hlusta“, auk þess sem hún „sléttar úr grófum sálum og leyfir þeim að bergja á nýrri löngun – að liggja kyrrar eins og spegill svo hinn djúpi himinn megi sjást þar í endurskini sínu. –“

Og lýsingin á snilligáfunni heldur áfram í sama skáldlega dúrnum:

„Snilligáfa hjartans sem kennir klaufalegri og skjótráðri hönd að hika og grípa af meiri fimi en fyrr, sem greinir hulinn og gleymdan fjársjóð, dropa af gæsku og sætu andríki undir dimmum, þykkum ís og er spákvistur fyrir hvert gullkorn sem svo lengi lá grafið í dýflissu eðju og sands. –“3

Ein leiðin til að lesa, skilja og „lifa sig inn í“ þann hugarheim sem fyrir verður í verkum Nietzsches er að fylgja honum eftir inn í launhelgar Díonýsosar.

Þessi leið er fólgin í að glöggva sig á því hlutverki sem guðinn gegnir í hugsun Nietzsches, allt frá fyrstu bók hans Fæðingu harmleiksins (1872) til þeirra verka sem hann sendi frá sér undir lok níunda áratugs 19. aldar.

Í Fæðingu harmleiksins er Díonýsos tákn annars tveggja frumkrafta, sem takast á í listrænni sköpun sem og í sálarlífi manna. Það þarf líka listrænt hugarflug til að gera sér grein fyrir þeim áhrifamætti sem um ræðir:

Ímyndum okkur að óður Beethovens til gleðinnar sé orðinn að málverki þar sem milljónir manna hníga í algleymi í duftið; þannig er hægt að nálgast hið díonýsíska.4

Tónlistin er sá farvegur sem hið díonýsíska streymir um. Upp úr henni spratt hinn gríski harmleikur á sínum tíma. Og það er í harmleiknum sem díonýsísk frumreynsla mannsins byrjar að takast á við apolloníska andstæðu sína, formsköpun og hófstillingu. Hnignun gríska harmleiksins er í augum Nietzsches afleiðing and-díonýsískrar skynsemishyggju sem hann rekur til Sókratesar. Þannig víkja átökin milli Apollons og Díonýsosar fyrir glímu þess síðarnefnda við heimspekinginn Sókrates. Og sú glíma er ekki aðeins háð á leikvangi vestrænnar menningar, heldur líka innra með hverjum heimspekingi sögunnar. Þrátt fyrir hátimbruð heimspekikerfi og fínpússaðar kenningar er Nietzsche sannfærður um að annað sýnu frumstæðara búi jafnan undir:

Eftir að hafa nógu lengi fylgst grannt og fullur grunsemda með heimspekingunum og lesið á milli línanna hjá þeim segi ég við sjálfan mig: mestur hluti meðvitaðrar hugsunar verður enn að teljast til þeirra gerninga sem eiga rót sína í eðlishvötunum og þetta á jafnvel við um heimspekilega hugsun.5

Hið díonýsíska, frumhvötin, kraumar jafnan undir þegar menn smíða sér heimspekilegar kenningar. Þetta er í samræmi við það meginviðhorf Nietzsches að heimurinn sé í raun allsherjar ó-skapnaður, glundroði sem mennirnir séu sífellt að bisa við að koma skaplegu lagi á. Það gera þeir með því að smíða sér trúarbrögð, heimspekikerfi og vísindi. En allt ber þetta í augum Nietzsches að sama brunni: menn eru sýknt og heilagt að slæðast eftir einhverjum óbrigðulum „sannleika“, sem er ekki til nema sem hugarfóstur þeirra sjálfra. Þeir neita hins vegar staðfastlega að horfast í augu við þessa staðreynd. Þeir þverskallast við að játa, að heimurinn sé ekkert annað en það sem hann sýnist vera. Til að gefa lífi sínu „æðri“ tilgang skálda þeir heilar veraldir af hreinum frummyndum, ósýnilegum guðum og vængjuðum englum, þar sem þeir staðsetja allt það sem mestu varðar í lífinu:

Það sem mestu varðar hlýtur að eiga sér annan, sérstakan uppruna – það getur ekki átt sér rætur í þessum hverfula, ginnandi, brigðula og lítilsiglda heimi, í þessari ringulreið vitfirringar og losta. Þvert á móti hlýtur það að eiga sér upptök í skauti verunnar, í hinu óforgengilega, hjá ósýnilegum guði, í „hlutunum í sjálfum sér“, þar hljóta ræturnar að vera og hvergi annars staðar.6

Hin hrollkalda staðreynd, segir Nietzsche, er hins vegar sú að þetta eru hillingar einar. Heimurinn er ekki skuggamynd af neinum „æðri“ veruleika. Lífið á sér hvorki guðlegan uppruna né æðri tilgang. Það er ekkert annað en það sem við mennirnir gerum úr því: jarðneskt sjónarspil. Það sem mestu varðar er að okkur takist að leikstýra því þannig að úr verði listaverk. Þar kemur „menningin“, sköpunargáfa manna til skjalanna. Hún gefur lífinu lit og hljóm, gerir úr því fagran sjónleik sem við getum hrifist af. Það er þessi hugsun sem býr að baki þeim fleygu orðum Nietzsches að lífið sé einungis „réttlætanlegt sem fagurfræðilegt fyrirbæri.“

Undirstaða og frumrót þessarar vitneskju er sem fyrr segir vissan um hið díonýsíska, þennan óræða frumkraft sem er að verki í lífi manna og veldur því að tilvist þeirra verður á stundum hörð og grimm. Það er hið óræða, það sem við náum ekki að veiða í gisið net skynseminnar sem Nietzsche kennir við vímuguðinn Díonýsos. Hið díonýsíska er því eins konar tákn þess vægðarleysis, sem býr í lífinu sjálfu. Gagnvart þessu afli stöndum við mennirnir berskjaldaðir. Við verðum einfaldlega að sætta okkur við þá hugsun að lífinu fylgi endurtekin stefnumót við Díonýsos.

Í krafti þessa lífsviðhorfs beindi Nietzsche spjótum sínum m.a. að siðferðishugmyndum kristninnar sem hann taldi vera byggðar á fagurri tálsýn. Í stað þess að stinga höfðinu niður í „sand himneskra fyrirbæra“ væri mönnunum nær að bera sitt jarðneska höfuð hátt.

Í ljósi þess að enginn æðri veruleiki er til eru kenningar heimspekinga ekki annað en „persónulegar játningar höfundanna og nokkurs konar óviljandi og ómeðvitaðar endurminningar.7

Það er hlutskipti heimspekingsins að horfast í augu við þá staðreynd, að lífið „sem slíkt“ sé ekkert annað en yfirborðslegt sjónarspil. Þetta hlutskipti er ekki til þess fallið að gera hann aufúsugest í veislusölum fáfræðinnar. Þess vegna er hann dæmdur til að lifa einn með sjálfum sér. Hans bíður sú kalda einsemd sem fylgir því að hafna hverri blekkingu og láta ekki ginnast af værðarfullri hjarðvitund og fíflsku fjöldans, heldur vera ávallt trúr hugsun sinni og sannfæringu. Þetta verður til þess að reka fleyg á milli hans og fjöldans:

Í ritum einbúans greinum við alltaf óm af bergmáli auðnanna, hvísli og kvíðafullri árvekni einsemdarinnar. Frá áhrifaríkustu orðum hans, jafnvel frá hrópum hans, hljómar ennþá ný og háskaleg þögn, viðleitni til að fela eitthvað með þögninni. Sá sem hefur árum saman, daga og nætur, setið einn á hljóðskrafi við sál sína og tekist á við hana í trúnaði, sá sem í helli sínum – hvort sem sá hellir var völundarhús eða gullnáma – varð að hellisbirni eða gullgrafara eða verndara gullsins og dreka: hugtök hans fá á endanum á sig sérkennilegan rökkurblæ, fara að lykta bæði af dýpt og fúa, einhverju ólýsanlegu og ógeðfelldu sem andar köldu á þá sem leið eiga hjá.8

Og í augum hins hugsandi einbúa dregur heimspekin sjálf líka dám af því, að heimurinn er í raun ekki annað en „yfirborð“:

Öll heimspeki er yfirborðsheimspeki – það er dómur einbúans. Það hafa einhverjir duttlungar ráðið því að hann nam hér staðar, horfði til baka, leit í kringum sig, að hann gróf ekki dýpra hér og lagði frá sér rekuna . . . Öll heimspeki felur líka heimspeki. Allar skoðanir eru líka felustaðir, hvert orð er líka gríma.9

Þrátt fyrir að þar sé ólíkum höfundum saman að jafna minnir þessi skilningur Nietzsches á verkum heimspekinga óneitanlega á það sem meistari Þórbergur setti á blað um samlíf höfundar og bókar:

Allar bækur eru einskonar fjölmyndir, pólifótó, sem höfundur hefur fest á blað af sínum innra manni.10

Hvað sem líður almennu gildi þessarar hugmyndar, blandast víst engum hugur um að hún á við um verk beggja þessara annars ólíku höfunda. Lesandinn sér þá báða jafnan greinilega í textanum, „frá ýmsum hliðum og í ýmiskonar stellingum“, svo enn sé vitnað til orða meistara Þórbergs. Þetta gildir um verk Nietzsches í ríkara mæli en títt er um verk annarra heimspekinga. Hann er alls staðar nálægur í þeim textum sem eftir hann liggja. Lesandinn finnur oft fyrir gáska í stílnum, andlegu fjöri og írónískum hugarleiftrum. Þess á milli ber það við að höfundurinn sé hálf-önugur eða jafnvel daufur í bragði. Það voru óefað sveiflur af þessu tagi sem Ágúst H. Bjarnason hafði í huga, þegar hann sagði að Nietzsche væri „höfrungur í anda“. Og þess konar sveiflur hafa ekki aðeins áhrif á rithátt Nietzsches, heldur taka þær líka til þeirra sjónarmiða sem hann er að lýsa hverju sinni:

Nietzsche er allur í breytingunni, víðáttunni, sveiflunni, mótsögninni. Það er ekki hægt að negla hann fastan við einn púnkt. Jafnskjótt og því er haldið fram að skoðun hans á einhverju atriði hafi verið þessi en ekki önnur verður að leiðrétta þá skilgreiningu með gagnstæðri ákvörðun. Baráttan í hug hans er aðalatriði sem aldrei má gleyma.11

Þessi hlið á hugsun Nietzsches átti stærstan þátt í því að mörgum varð hált á að nota einstakar tilvitnanir úr verkum hans til að styðja það sem þeim var í mun að sanna hverju sinni. Ítalski fræðimaðurinn Colli gekk svo langt að halda því fram að hver sá sem reyndi að túlka Nietzsche með því að raða saman tilvitnunum í verk hans væri falsari.

Auðvitað er ógjörningur að túlka höfund á borð við Nietzsche án þess að styðjast við tilvitnanir. Það sem mestu varðar er þó að missa aldrei sjónar á því samhengi sem einstakar hugsanir standa í, – rífa þær ekki með rótum upp úr þeim hugmyndalega jarðvegi, sem þeim var ætlað að þrífast í. Sá sem gerir það lendir á heimspekilegum villigötum.

Hugsun Nietzsches er eins konar vefur, þar sem hugmyndir af ýmsum og stundum ólíkum toga, bjartsýni, bölhyggja, léttúð og tregi, von og vonleysi fléttast saman í eina órofa heild. Þessi vefur er jafnframt eftirmynd lífsins sjálfs. Sá sem vill lesa, skilja og túlka hugmyndir Nietzsches þarf að vera gæddur þeim „heimspekilega næmleika“, sem hann talaði sjálfur um, þegar hann kvartaði undan því í bréfi til danska bókmenntafræðingsins Georgs Brandesar, að lesendur hefðu ekki skilið bók hans Handan góðs og ills:

Ég held að jafnvel velviljuðustu lesendur hafi ekki tekið eftir því að hér er á ferðinni ítarleg rökfræði ákveðins heimspekilegs næmleika en ekki samsafn af hundruðum þversagna . . . Það virðist enginn hafa skynjað neitt slíkt: það kemur enginn til móts við mig með svo mikið sem þúsundasta brot af ástríðu og þjáningu.12

Í þessum orðum felst mikilvæg ábending um það sem menn þurfa til að geta lesið og „skilið“ það sem Nietzsche skrifaði. Það er ekki hægt að nálgast hugsun hans með kaldri rökvísi; menn verða þvert á móti að lesa þessa margslungnu texta af ástríðu og næmleika, svo að þeir finni sjálfir fyrir kvikunni sem leynist undir marglitri grímu orðanna.

Það gefur auga leið að í þessu tilliti gegnir stíllinn, sjálfur búningur hugsunarinnar, mikilvægu hlutverki. Nietzsche gerir ekki aðeins þá kröfu til lesenda, að þeir skilji og skynji merkingu textans, heldur er honum líka í mun að þeir „grípi“ hljómfall, hraða og önnur blæbrigði málsins. Í því tilliti óskar hann þess að lesendur hafi „þriðja eyrað “ í lagi.

Það er eftirtektarvert að Nietzsche lætur í ljósi miklar efasemdir um færni landa sinna til að stílsetja hugsanir sínar skammlaust. Það fer heldur ekki á milli mála, hvaða álit hann hefur á þýskum lesendum:

Hvílíkt kvalræði eru bækur á þýsku fyrir þann sem hefur þriðja eyrað! Hversu mikil skapraun er honum að fylgjast með þessari seigfljótandi forarvilpu hljómlausra hljóma, hljómfalls sem enginn dans er í, því sem Þjóðverjar kalla „bók“! Að ekki sé talað um Þjóðverja sem les bækur! Hversu latur, tregur og vondur er sá lesandi! Hversu margir Þjóðverjar vita, heimta af sjálfum sér að þeir viti, að í hverri góðri setningu er fólgin list, list sem þeir verða að átta sig á til að þeir geti skilið setninguna. Misskilji menn til dæmis hraðann hafa þeir misskilið setninguna sjálfa.13

Það er forvitnilegt að bera þessi viðhorf Nietzsches enn saman við athugasemdir um málfar og stíl sem Þórbergur Þórðarson festi á blað rúmri hálfri öld síðar. Í frægri grein sem Þórbergur kallaði „Einum kennt – öðrum bent“ fjallar hann m.a. um vanda þess að lesa, skilja og lifa sig inn í bækur:

Ef við kynnum að lesa bækur, myndum við jafnvel sjá meltingu höfundarins.14

Það er einmitt lestur af þessu tagi sem Nietzsche ætlast til af lesendum sínum. Hann krefst þess að við lesum bækur hans með íhugun, í stað þess að fara yfir þær á hundavaði, þannig að lesturinn geri okkur „að sorptunnum, sem bækurnar fleygja í atvikarusli héðan og þaðan“ eins og Þórbergur orðaði það.

Nietzsche hefði því að líkindum getað tekið undir með meistara Þórbergi, þegar hann segir:

Vís maður hefur sagt: Sá sem skilur eitt atóm, hefur skilið alla tilveruna. Ein bók, lesin til hlítar, er meiri fræðari en þúsund bækur, lesnar til afþreyingar.15

Það er reyndar ekki alveg úr lausu lofti gripið að bera saman meistara Þórberg og heimspekinginn Friedrich Nietzsche. Þrátt fyrir ólík lífsviðhorf áttu þeir sameiginlegt að vera báðir óvenju snjallir stílistar, – hvor á sína tungu. Og báðir lögðu mikið upp úr því að búa hugsun sinni þá umgjörð sem hæfði efninu hverju sinni. Þess vegna getur verið forvitnilegt að bera saman athugasemdir beggja um málfar og bóklestur. Sem fornfræðingur var Nietzsche vanur að sýsla með ýmiss konar texta sem þurfti að þýða úr einu máli á annað. Þegar hann ræðir um vanda þess að þýða verk á þýsku, skjóta enn upp kollinum djúpstæðar efasemdir um ágæti þýskunnar sem heimspeki- og skáldskaparmáls:

Það eru til vel meintar þýðingar sem hafa óviljandi orðið svo flatneskjulegar að þær jaðra við að vera falsanir á frumtextanum, eingöngu vegna þess að ekki tókst að þýða hinn djarfa og gáskafulla hraða sem smeygir sér framhjá öllum hættum sem felast í hlutum og orðum og gerir þær skaðlausar. Þjóðverjar eiga varla til presto í sínu tungumáli; þess vegna má líka draga þá ályktun að þá skorti mörg af þokkafyllstu og djarflegustu blæbrigðum frjálsrar og frjálslyndrar hugsunar . . . Allt sem er þyngslalegt, seigfljótandi og hátíðlega klunnalegt, allar langdregnar og leiðinlegar stíltegundir hafa þrifist hjá Þjóðverjum í ótal tilbrigðum – fyrirgefið mér að ég skuli minnast á þá staðreynd að jafnvel óbundið mál Goethes er engin undantekning . . .16

Hér má nefna að Halldór Laxness kemst að líkri niðurstöðu og Nietzsche um ófullkomleika þýskunnar í Skáldatíma. Þar rekur Halldór fyrst í stuttu máli sögu þýskra bókmennta allt til þess að alþýðlegar mállýskur innan keisaradæmisins voru sameinaðar með stofnun samþýsks ritmáls.

Þetta litlausa, gerilsneydda, stjarfa og óalþýðlega esperantó þjóðverja, nútímaháþýskan, reyndi í síendurvöktum rómantískum köstum frá því á átjándu öld og frammundir okkar daga að brjóta sér leið til einhvers í líkingu við þjóðlegan uppruna, ýmist með því að sækja sér anda úr sveitaþorpum og handverksmannagildum, eða reyna að soga að sér andblæ úr upprifjun ímyndaðrar miðaldasælu.

Halldór tekur líka fram að höfuðskáldið Goethe hafi að þessu leyti ekki verið nein undantekning:

Jafnvel Goethe sem þeir hafa miklað af ofurkappi fyrir sjálfum sér og heiminum, hann varð ekki nema tilhlaup til þýskrar klassíkur.17

Það er forvitnilegt að bera saman dóma Halldórs Laxness og heimspekingsins Friedrichs Nietzsche um annmarka og ófullkomleika þýskrar tungu. Báðir taka þessir annars gjörólíku höfundar í líkan streng, þegar þeir lýsa stífni og klunnaskap þýskunnar. Nietzsche kafar reyndar dýpra, þegar hann færir rök að því, að vöntun á gáskafullum hraða og dirfsku í málinu sé undirrót þess að Þjóðverjar hafi farið á mis við ýmis blæbrigði frjálsrar og frjálslyndrar hugsunar.

Sé horft til þess stíls sem finna má í verkum Nietzsches sjálfs er óhætt að segja að hann sé um margt frábrugðinn þeim sem mest fer fyrir í verkum þýskra höfunda á 19du öld. Stíll Nietzsches er óvenju myndríkur, fullur af andlegu fjöri og „hraður“, svo notað sé hans eigið orðalag.

Ítalski fræðimaðurinn Colli, sem fyrr var nefndur, var flestum mönnum betur heima í hugarveröld Nietzsches. Colli komst að eftirfarandi niðurstöðu um þann stíl sem Nietzsche berar lesendum í verkum sínum:

Hann er árangur vandlegrar yfirlegu eins og sjá má á vinnubókum Nietzsches. Byrjunin er oft einhvers konar rammi, blóðlaus sértekning; höfundurinn reynir að blása lífi í þetta lík með galdri orðsins, með margvíslegum, látlausum endurlífgunartilraunum. Að lokum kristallast orðalagið, líkt og í fyrsta kasti, slípað og hnitmiðað.18

Það hefur áður komið fram, að Nietzsche var tamt að grípa til orða úr tónlistarmáli, þegar hann fjallaði um stíl. Tónlistin gegndi líka mikilvægu hlutverki í hugmyndum hans um hinn díonýsíska frumkraft í listsköpun og sálarlífi manna. Í þessu samspili tónlistar og heimspekilegrar orðræðu kristallast sú lífssýn Nietzsches að lífið sé einungis réttlætanlegt sem „fagurfræðilegt fyrirbæri“, m.ö.o. sem listaverk. Þessi samruni heimspeki og tónlistar nær með vissum hætti hámarki í seinni hluta „Handan góðs og ills“, þegar Nietzsche freistar þess að lýsa meginásetningi orðræðu sinnar um siðferðið með því að bregða upp lítilli, en áhrifaríkri „tónlistarmynd“:

Ég gæti ímyndað mér tónlist sem fæli í sér þann fágæta galdur að þekkja hvorki gott né illt framar. Endrum og sinnum bæri þar ef til vill fyrir heimþrá sæfarans, einhverja gullna skugga og ljúfsáran vanmátt: list sem úr órafjarska sæi liti hnignandi veraldar, siðferðilegrar veraldar sem orðin væri nærri því óskiljanleg, flýja í áttina til sín og væri nógu örlát og djúp til að taka við svo síðbúnum flóttamönnum.19

 

Tilvísanir

1. Friedrich Nietzsche, Handan góðs og ills, Reykjavík 1994, bls. 70.

2. Halldór Laxness, Heimsljós I, Reykjavík 1990, bls. 89.

3. Handan góðs og ills, bls. 407–408.

4. Friedrich Nietzsche, Werke in drei Bänden, útg. Karl Schlechta, 1.b. bls. 24.

5. Handan góðs og ills, bls. 83.

6. sama rit, bls. 81.

7. sama rit, bls. 87.

8. sama rit, bls. 403.

9. sama rit, bls. 404.

10. Þórbergur Þórðarson, Einum kennt, öðrum bent, Reykjavík 1971, bls. 234.

11. Sigfús Daðason, „Nietzscheskýring Thomasar Manns“, í Afmælisriti Kristins E. Andréssonar, Reykjavík 1961, bls. 135.

12. Handan góðs og ills, bls. 63.

13. Handan góðs og ills, bls. 335.

14. Þórbergur Þórðarson, Einum kennt, öðrum bent, bls. 234.

15. sama rit, bls. 235.

16. Handan góðs og ills, bls. 127.

17. Halldór Laxness, Skáldatími, Reykjavík 1963, bls. 72.

18. Colli, Nach Nietzsche, Hamburg 1993, bls. 34.

19. Handan góðs og ills, bls. 335.

 

« Til baka

Tilraun um styrk

eftir Matthew Ray

Tilraun um styrk:

Trúin í túlkunarsálarfræði Nietzsches

Orð Nietzsches vekja litla huggun. Þótt Kant afneiti möguleikum skynjunar eða opinberunar­reynslu þegar kemur að hinu guðlega, telur hann guð bæði vera nauðsynlega blekkingu og praktíska forsendu. Og þótt Schopenhauer dragi upp mynd af guðlausum heimi, sefar hann hrylling okkar með því að benda á möguleika endurlausnar. Ólíkt flestum öðrum heimspekingum keppir Nietzsche ekki að fjarveru sársaukans, iðju sem að hans mati felur í sér mistök trúarinnar.

Röksemd Nietzsches gegn guðstrú byggir í hnotskurn á þeirri hugmynd að guðstrúin sé merki um veikleika og beiskju og það væri best fyrir mannkynið að gleyma henni. Þessi röksemd er ekki úr lausu lofti gripin og hér á eftir mun ég fjalla um heimspekilegar stoðir meginkenningar hans þar að lútandi, þeirrar sem lýtur að úrkynjun trúarinnar, sem og andmæli gegn henni. Það sem vakir fyrir mér er að sýna hvernig trúleysi Nietzsches geti kallast jafn heimspekilega slíðrað og trúleysi Schopenhauers. Þrátt fyrir ólíka framsetningu, má túlka orð Nietzsches sem nánari útlistun á trúlausu viðbragði Schopenhauers gegn yfirskilvitlegri hughyggju Kants, eða þeirri þróun hugmynda sem miðar að frelsun kristinnar siðfræði undan guðlegum grunni. Nietzsche varpar skýru ljósi á þá þróun með því að hægja á henni og það gerir hann með hinni svokölluðu sifjafræði – sem í raun er sálfræðileg saga – siðferðisins.

Fyrst munum við sjá hvernig greining Nietzsches á kristinni trú byggir á tveimur þáttum sem finna má í áhangendum hennar, annars vegar þörf einstaklings fyrir sáluhjálp og hins vegar þrá einstaklings eftir að milda hræðslu sína með því að svala hefndarþorstanum gegn sér æðri. Með því að skoða sálfræðilega gagnrýni Nietzsches og þá hugmynd að kristni snúist meira og minna um sáluhjálp – en sem slík er kristni réttnefnd hækja fyrir veiklundaða og þá illa skorðuðu í lífinu – munum við einnig líta brestina í túlkun Nietzsches. Því þrátt fyrir tilraun Nietzsches til hins gagnstæða er hvergi í skrifum hans gert ráð fyrir trú þeirra sterku og heilbrigðu, trú þeirra sem Nietzsche kallar „göfuga“ einstaklinga. Að því búnu skoðum við það viðhorf Nietzsches að kristni sé afturhaldandi og þar af leiðandi lítilsigld eða óheilbrigð. Í lokin skoðum við andmæli – sem eru sókratísk að uppruna – gegn kenningu Nietzsches um sifjafræði trúarinnar og því hvernig hún byggir öðru fremur á hefndarþorsta. Líkt og koma mun í ljós hrökkva þau andmæli þó skammt gegn sláandi fágun röksemda Nietzsches.

I. Heimspeki gildanna endurhugsuð

Greining Nietzsches á trú og hvernig hann skoðar hana sem líkamlega úrkynjun er ein af grundvallar hugmyndunum, ef ekki þungamiðjan, í þróttmikilli gagnrýni hans á nútímann. Það er líka áherslan á þátt líkamans í stað hvers kyns frumeindahyggju (e. atomism) sem myndar efnishyggju hans. En ólíkt Schopenhauer (sem leggur einnig mikla áherslu á nálægð líkamans í heimspekilegri rannsókn) virðist Nietzsche hafa meiri áhuga á gildi trúarlegrar hugsunar en trúverðugleika hennar: „Spurningin um sannleika guðs í kristni […] hlýtur að teljast aukaatriði, spyrji maður ekki um gildi kristinnar siðfræði.“1 Þar sem Nietzsche skipar hér spurningum um sannleika skör lægra en spurningum um gildi og án þess að leggja þær að jöfnu, virðist hann ekki hallur undir hagkvæmniskenningu um sannleikann.2

Þekkingarfræði Nietzsches er með öðrum orðum ekki hagkvæm í þeim skilningi að hann sam­þykki gagnlegar hugmyndir sem sannar, heldur dregur hann hefðbundnar, jafnvel þekkingar­fræðilegar og verufræðilegar, heimspekilegar spurningar í efa með spurningum um gildi. Slík afstaða gerir hins vegar ráð fyrir mælistiku gilda, einhverju sem gerir manni kleift að mæla þekkingarfræði og siðferði. Eins og þekkt er orðið ber Nietzsche öll fyrirbæri að hugtakinu „viljinn til valds;“ hvatir, líkama, sjálfsverur, fólk, bækur og allt það sem kann að hafa áhrif þar á. Í því efni má skoða eftirfarandi textabrot sem öll eru fagurlega samansett í formi spurningar og svars:

… [H]vers virði eru siðferðisgildi okkar í raun? Hver er árangur þeirra? Hverjum þjóna þau? Í tenglsum við hvað? – Svar: Fyrir lífið. En hvað er lífið? Hér þurfum við á nýrri og nákvæmari skil­greiningu á hugtakinu „lífið“ að halda. Skilgreining mín er þessi: Lífið er viljinn til valds.3

Hvað er gott? Allt það sem eykur tilfinninguna fyrir valdi, viljinn til valds, valdið sjálft í manninum.4
Hver er hin eina mælistika gildis? Ekkert annað en efling og skipulagning valdsins.5

Svo virðist sem meginandmæli Nietzsches gegn trú og trúarlífi byggi frekar á mati en verufræði. Og þar sem takmark trúarinnar virðist felast í sáluhjálp og dulbúnum hefndarþorsta – en sem slík er trúin tæki þeirra sem skortir vald – og þar sem Nietzsche leggur að jöfnu gildi og vald, má einnig sjá hversu lítils trúin má sín frammi fyrir spurningunni um gildi. Því má ekki gleyma að trúin sjálf er birtingarmynd valds. Engu að síður dregur trúin – þá sem einskonar „líf sem sverfur í lífið“ – úr því valdi og þeim styrk sem aðrir gætu tamið sér. Eins og sjá má hér á eftir er trúin fordæmd og trúleysinu hampað á þeim grunni.

Nietzsche lýsir eingyðistrú á þann veg að hún sé ofin úr tveimur sálfræðilegum þáttum sem báða er hægt er að meta með því að ákvarða valdaítökin sem þeir gera ráð fyrir í fylgjendum sínum. Hugtakið „vald“ verður því skoðað, en líkt og Walter Kaufmann bendir á í frægri bók sinni Nietzsche: heimspekingur, sálfræðingur, andkristur, birtast þessi lýsandi einkenni kristni í þránni eftir sáluhjálp og ótta við herrastétt, sem og þránni eftir hefndum á hana.6 Við skulum því snúa okkur að merkingu og mögulegu samhengi þessara sálfræðilegu einkenna á trú og með hvaða hætti Nietzsche metur þau.

II. Kristni sem flótti

Í Ecce homo, þeirri bók sem kalla má sjálfsævisögu Nietzsches, hlýtur franski heimspekingurinn og stærðfræðingurinn Blaise Pascal þá umsögn að vera mest upplýsandi fórnardæmið í kristni.7 Pascal er einfaldlega holdgervingur þeirrar sjálfselsku sem Nietzsche sér í kristnum mönnum og hvernig trú þeirra byggir á frelsunaráráttu sem fullkomnast í trú þeirra á líf eftir dauðann. Líkt og Freud (í Blekkingu trúarinnar) hamrar Nietzsche á því að löngun allra kristinna manna hverfist um æðstu gildi (lat. summum bonum) sem staðsett eru í handanheimum. Hinn kristni, segir Nietzsche, lætur tilveruna sjálfa hringsnúast um „sáluhjálp mannsins.“8 Og þetta er fyrsta sálfræðilega lýsingin hans á kristnum mönnum. Í því samhengi og í beinu framhaldi spyr hann hvers vegna kristnir menn séu svona uppteknir af lífi eftir dauðann og hvaða þýðingu handan­heimsáhuginn hafi, sé spurt um vald þeirra og styrk. Kristnum mönnum hlýtur að finnast lífið sem þeir lifa bæði ófullnægjandi og sársaukafullt, eða hvernig fá þeir annað og óskylt líf á heilann? Það sem um ræðir er að ef tiltekinn einstaklingur fyndi sér stað í heiminum, myndi hann ekki þrá lausn undan hlutskipti sínu. Þeir einstaklingar sem gæta ekki hófs í þránni eftir sáluhjálp eru því hvort heldur óheilbrigðir eða illa skorðaðir; þeir eru „lífeðlisleg rúst,“ svo gripið sé til þeirrar líffræðilegu skilgreiningar sem Nietzsche virðist temja sér í Ecce homo. Í kjölfarið má líta á kristni sem trú þeirra veikbyggðu og óheilbrigðu, sem einskonar stofnanabundið stoðkerfi hinna þjáðu og að Nietzsche finni trúnni stað í spurningu um líkamsástand.

Nietzsche hefur án efa rétt fyrir sér þegar hann segir meginhluta kristinna kennisetninga snúast um líf eftir dauðann og að þess gæti í hugarfari kristinna manna. Hann getur líka haft rétt fyrir sér þegar hann segir þörfina fyrir sáluhjálp vera upplýsandi um stöðu kristinna manna; að kristinn maður sé hvorki fullkomlega skorðaður í heiminum né hamingjusamur með hlutskipti sitt í lífinu. En hver verða afdrif þessarar yfirgripsmiklu lýsingar hans og mats á kristni, spretti fram á sjónarsviðið kristinn maður sem er gjörsneyddur áhuganum á handanheimi; með öðrum orðum líkamlega heilbrigður kristinn maður? Við skulum skoða nánar andmæli af þessu tagi.

Í nýlegri bók gagnrýnir Peter Poellner einmitt umrædda skoðun Nietzsches með því að vísa í einstaka áhangendur kristni sem virðast í senn heilbrigðir og með öllu áhugalausir um líf eftir dauðann; áhangendur sem með öðrum orðum geta hvorki talist veikbyggðir eða lasburða né ófullnægðir með hlutskipti sitt. Einn þeirra er heilagur Frans af Assisi, maður sem Nietzsche myndi telja „lífeðlislega vel gerðan.“9 Hér er um sannkallaða undantekningu að ræða, en taki maður hana alvarlega má efast um forsenduna sem Nietzsche gefur sér, þá sem segir að allir kristnir menn séu lasburða eða illa gerðir. Í kjölfarið er einnig hægt að efast um þá skoðun Nietzsches að kristni geti ekki falið í sér manngildi þar sem hún stuðli ekki að valdahagsmunum. En líkt og röksemdafærsla Poellners í þessu efni ber vitni um, duga andmæli af þessu tagi skammt. Schopenhauer kann að líta á heilagan Frans sem fullkomið dæmi um heilbrigðan mann, þá manngerð sem afneitar viljanum til lífsins. Hugmyndir Nietzsches um eðli meinlætalifnaðar eru hins vegar allt aðrar og hann myndi seint kalla Frans af Assisi vel gerðan. Í óútgefnu textabroti Nietzsches má lesa eftirfarandi lýsingu: „Frans af Assisi (taugaveiklaður, flogaveikur og draumóramaður eins og Jesús).“10 Poellner svarar um hæl að hér blasi við tilfinnanlegur skortur á sönnunargögnum. Og það er rétt ef sjónarhornið er bundið sagnfræði­legum rökum. En ef marka má orð Nietzsches íAndkristi, má sjá hvernig hann bæði staðfestir og styrkir áreiðanleika þessarar lýsingar.11

Ljóst má vera að úr þessu getur enginn dregið endanlegar ályktanir um heilsufar heilags Frans. Nietzsche virðist á hinn bóginn vera sér meðvitaður um þau andmæli sem hér eru rakin og í kenningu sinni um lasburða áhangendur kristni má greina tilraun af hans hálfu til að svara þeim. Eðli málsins samkvæmt kunna svörin að vera reist á veikum grunni, en hversu sterkar eru stoðir andmælanna?

Poellner kallar til fleiri kristna menn af spjöldum sögunnar. Í vitnisburði Meister Eckharts og heilagrar Teresu af Avila sér hann ekki aðeins fjarveru hins meinta heilsubrests, heldur hverfandi áhuga þeirra á lausn undan hlutskipti sínu. Í stuttu máli virðist tilveran ekki vera hringferð um sáluhjálp í huga þessara þekktu stærða kristinnar frásagnar. Þetta á sérstaklega við um Teresu, en fræg er yfirlýsing hennar þar sem hún segist elska guð án tillits til refsinga hans eða umbunar. Líkt og Poellner viðurkennir, getur Meister Eckhart tæplega talist dæmigerður fulltrúi þessa viðhorfs. En sé Teresa það sem hún er sögð vera, sé hún hefðbundin, kristin manneskja, er hún hefðbundnari en Meister Eckhart, svarar Poellner.12 Sem slík er hún lýsandi dæmi um hefðbundið, kristið viðhorf og þar sem hún skeytir ekki um líf eftir dauðann, er viðhorf hennar í hrópandi mótsögn við þá kenningu Nietzsches að allt kristið fólk sé illa skorðað og þrái það eitt að komast úr erfiðum heimi viðvarandi samkeppni.

Nietzsche lítur parið aftur á móti allt öðrum augum og segir Teresu jafn mikla undantekningu og Meister Eckhart. Í textabroti sem ber yfirskriftina „Þegar herrarnir gátu einnig orðið þrælar“ ráðleggur hann okkur að hugsa um Teresu „umkringda hetjulegri eðlishvöt bræðra sinna. Hér tekur kristni á sig mynd […] viljastyrks, sem hetjulegur kíkótismi.“13 Svar Nietzsches við þeim andmælum Poellners að kristnir menn skeyti ekki allir um sáluhjálp er að þeir sem geri það ekki heyri til undantekninga, því að þeir séu sterkir einstaklingar spjallaðir af kristni. En hvernig nær kristni tökum á sterkum einstaklingum? Þar kemur til ást þeirra á háska, svarar Nietzsche. Samkvæmt túlkun hans finnur kristni ekki aðeins hljómgrunn í huga og hjörtum lasburða fólks eða því fólki sem finnur sárt fyrir getuleysi sínu í heiminum og þráir þess vegna sáluhjálp af einhverju tagi, heldur nær kristni einnig tökum á þeim sterku. Ástæðan liggur þó ekki í þörf þeirra fyrir sáluhjálp eða viljanum til hennar. Þvert á móti fyrirfinnst lítil sem engin fyrirhyggja í hugarfari þeirra. Ást þeirra á erfiðleikum virðist takmarkalaus. Í ást á því sem er hættulegt snýr það árásargjörnum og grimmum eðlishvötunum gegn sjálfu sér. Og hér má líta þá þróun sem Nietzsche greinir í kristni, en eftir að hafa hreiðrað um sig í hugarfylgsnum úrvinda fólks af lægri stigum, tekur kristni sér einnig bólstað í sterkum og sjálfseyðandi manneskjum.14

Vandi greiningar Nietzsches er þó ekki úr sögunni. Líkt og Nietzsche talar sjálfur um á öðrum stað (og í anda sem Freud temur sér síðar) snúast eðlishvatirnar fyrst inn á við, finni þörf manns fyrir útrás grimmdar engan annan farveg: „Allar hvatir sem ekki fá svigrúm beinast inn á við.“15 „Á friðartímum leggur hinn herskái til atlögu við sjálfan sig.“16 Sú innri kvöl sem sá sterki finnur mögulega í kristinni trú er því að hluta til (ytri) afneitun og að hluta til (innri) tjáning grimmdar, einskonar innri tjáning þeirrar hvatar sem fær ekki útrás hið ytra. Í Sifjafræði siðferðisinsdregur Nietzsche upp lýsandi mynd af þessari félagslegu afleiðslu sjálfspíslarhvatarinnar og tengslum hennar við trú:

Eftir að hafa dagað uppi hið innra í löskuðu dýrseðli, fann maðurinn upp slæma samvisku til að geta meitt sig og fengið útrás fyrir grimmd sína. Sligaður af slæmri samvisku sneri hann sér að trúnni, en með henni fann sjálfspíningarhvöt hans alvöru farveg: Að skulda guði! Hvílíkt pyndingartæki!17

Hér gefur að líta verjandi svar, sálfræðilega séð, við ráðgátunni: Hvers vegna skeyta ekki allir kristnir einstaklingar um sáluhjálp? Slíkir einstaklingar teljast ekki upprunalega kristnir, heldur eru þetta sterkir menn og konur sem fá ekki tjáð grimmd sína nema með því að beina henni inn á við. Poellner er þó ekki sannfærður, eða hvers vegna ættu þeir sterku sem eru sviptir fyrirhyggju ekki að svala grimmum og árásargjörnum eðlishvötum sínum fyrir opnum tjöldum og fylgja í einu og öllu þeirri siðfræði sem byggir á vanhugsaðri sóun? Ef hinir sterku eru með öðrum orðum tengdir áhættunni með ástríðufullum hætti, hvers vegna ættu þeir að láta mörk siðfágunar hefta útrásina sem dýrseðlið býður? Lýsing Nietzsches á kristni sem þrá eftir himnaríki hlýtur því að teljast vandkvæðum bundin. Ástæðuna er þó ekki að finna í þeim óútskýrðu dæmum sem sanna hið gagnstæða, þ.e. í þeim sterku einstaklingum sem skeyta ekki um sáluhjálp, heldur í takmörkun útskýringar Nietzsche þegar kemur að spurningunni: Hvers vegna finna sterkir einstaklingar sjálfseyðingunni sinni stað í kristni frekar en að svala henni með trúlausum hætti? Felist alvöru hetjudáð í afneitun kristinnar trúar, getur „hetjulegur kíkótismi“ ekki útskýrt trúhneigð hinna sterku.

Ég mun ekki dvelja frekar við greiningu Nietzsches á trú sem flótta. Staðreyndin er sú að hefð­bundnir, kristnir einstaklingar á borð við Pascal játa fúslega að þráin eftir himnaríki sé helsta driffjöður þeirra. Greining Nietzsches á trúnni sem flótta getur því vart talist áhrifarík gagnrýni á þessa hefð. Öðru máli gegnir hins vegar um þann þátt greiningar Nietzsches sem snýr að ótta og hefndarþorsta í sálarfræði trúarinnar og verður nú vikið að honum.

III. Kristni sem hefnd

Í því sem talist getur fyrsta ræðan hans í Gorgíasi, fjallar hinn platónskt ættaði Kallíkles um siðferðishugmynd Sókratesar og segir hana byggja á sálarfræði frekar en verufræðilegum grunni; hún vísar ekki út fyrir sig til gæða sem óháð eru þeim sem skynjar. Samkvæmt Kallíklesi er siðferðið tækið sem þeir veikbyggðu í senn skapa og nota gegn þeim sem sterkari eru. Hann heldur því einnig fram að siðavenjur séu tilbúningur veikburða manna, þeirra sem mynda meirihluta mannkyns, í þeirri von um að draga kjarkinn úr þeim sterku og sigur­stranglegu.18Kallíkles gefur það sömuleiðis í skyn að þessir veikburða menn séu sambærilegir þrælum, ímynd sem finna má í skrifum Aristótelesar, Nietzsches og Hegels, en innan heimspekinnar hefur þrælsímyndin verið notuð til að varpa ljósi á (einstaka fræðilega) þætti í félagslegri og pólitískri reynslu mannsins.

Hið sögulega innsæi Kallíklesar getur verið tilkomið vegna afar nákvæmrar og raunvísindalegrar rannsóknar hans á ferli náttúrunnar. Hann virðist í það minnsta styðja kenningu sína niðurstöðum sem byggja á raunvísindalegri athugun. Það sem Kallíkles sér í náttúrunni er að hinn sterki ræður ávallt ríkjum, en þar sem þessu er öðruvísi farið í samfélagi manna hlýtur siðferðið að vera vélræði hinna veiku og stríða gegn lögmáli náttúrunnar:

Það kemur víða greinilega í ljós, að þessu er svona háttað, bæði hjá öðrum lífverum og eins ef við lítum á samskipti heilla ríkja og kynflokka. Þar er rétt og rangt ákvarðað þannig að hinn betri ríkir yfir hinum lakari og fær meira í sinn hlut.19

Kallíkles virðist hér leiða rök að náttúrulögmáli sem hann teflir síðan gegn túlkun Sókratesar á siðferði, því sem hann segir skyldara mannasetningum en kalli náttúrunnar. Og í ljósi þessa viðhorfs kallar Karl Popper siðfræði Kallíklesar tómhyggju.20 Kallíkles er þó ekki trúlaus maður. Heilshugar styður hann náttúrurétt hins sterka og á þeim grunni gagnrýnir hann Sókrates. Sú aðgreining sem felst í umræddu viðhorfi Kallíklesar – hún sem skilur á milli leiðarvísa náttúrunnar og reglugerða mannasetninga – er ekki aðeins til staðar í verkum Marquis de Sade, Freuds, Rousseaus og hins unga Karls Marx, heldur skipar hún höfuðsess í greiningu Nietzsches á trú.

Í Sifjafræði siðferðisins greinir Nietzsche frá því hvernig nám hans á yngri árum í textafræði og sagnfræði, ásamt áhuga hans á sálarfræði, hafi vakið með honum spurninguna: Hvaða skilyrði fengu manninn til að búa til gildismatið gott og illt?21Þannig byrjar hann – í anda Kants – að gagnrýna dómgreindina og er gildismat útgangspunktur í gagnrýni Nietzsches. Í leit að svari við þessari spurningu hefst Nietzsche handa við sagnfræðilega greiningu á tilurð siðferðis: „Ég leitaði í sögunni að upphafi á sköpun gagnstæðra hugsjóna.“22 Þessa hugmynd um sagnfræði­lega nálgun siðferðisins má kalla síendurtekinn þátt í skrifum Nietzsches, en hana má strax greina í Mannlegt, alltof mannlegt og öðru hverju eftir það alveg þar til úrvinnsla hennar rís hvað hæst í Sifjafræði siðferðisins.

Um þetta vitnar textabrot í upphafi seinni hlutar Sifjafræði siðferðisins: „Það var í safni kjarnyrða sem hét Mannlegt, alltof mannlegt sem ég setti hikandi í fyrsta sinn fram hugmyndir mínar um uppruna siðferðisfordóma … “ Í þeirri bók, sem með réttu má kalla fyrstu kjarnyrðabók Nietzsches, segir hann sálir veikbyggðra og valdalausra manna hafa getið af sér hugtakið illt.23 Skömmu síðar segir hann í Morgunroða: „Er það ekki dæmigert fyrir almúgasálir að halda andstæðinginn ávallt illan?“24 Og í Svo mælti Zaraþústra má lesa eftirfarandi varnarorð: „„Óvinur“ skuluð þið segja en ekki „illmenni;“ „sjúklingur“ skuluð þið segja en ekki „þrjótur;“ „kjáni“ skuluð þið segja en ekki „syndari.““25 Það er síðan í Handan góðs og ills sem finna má slípaða skilgreiningu Nietzsches á þrælauppreisn siðferðisins, en þar má sjá hvernig sálfræðin í tvíþættri smánun andstæðingsins – hann sem er sagður bæði andsnúinn manni og illur – byrjar að taka á sig áþreifanlega mynd í sagnfræðilegu, ekki síður en trúarlegu umhverfi. Það er þó ekki fyrr en í fyrstu ritgerð Nietzsches í Sifjafræði siðferðisins sem hugmynd hans um þrælauppreisnina í siðferðinu fær yfirgripsmikla meðhöndlun. Þar virðist Nietzsche öðlast dýpri skilning á sköpun siðferðisins, ekki síst vegna þeirrar orðsifjafræðilegu rannsóknar sem hann gerir á hugtökum yfir hið góða í þýsku, grísku, latínu og gelísku.

Samkvæmt greinargerð Nietzsches í Sifjafræði siðferðisins má rekja fyrsta gildismat mannkyns­sögunnar til mennskrar valdaklíku sem vísaði til sjálfrar sín með jákvæðum hætti. Við gætum kallað þetta fyrirbrigði sjálfhverft gildismat. Þessi hugmynd um sjálfskviknun er grundvallarþáttur í greinargerð Nietzsches og er grundvallarþáttur í sjálfu valdi og eða styrk þessarar manngerðar. Seinna klofnaði háklíkan í flokk bardagamanna og prestastétt og þar sem prestarnir nutu fulltingis alþýðunnar, fordæmdu þeir dygðir þess sterka manns sem ríkti yfir öðrum. Fordómar prestanna voru ekki byggðir á hlutlausu mati, því takmark þeirra – meðvitað eða ómeðvitað – var að veikja þá sem sterkari voru „og þeir upphefja sjálfa sig eingöngu til þess að niðurlægja aðra.“26 Þessi fordæming skiptir höfuðmáli í dæmisögu Nietzsches: „Þrælauppreisn siðferðis­ins hefst þegar tilfinning haturs verður að skapandi afli og fæðir af sér gildi.“27

En prestarnir skapa ekki aðeins gildi heldur einnig hugtök. Til þess að flýta fyrir viðtöku þessa forskriftarsiðferðis – því sem byggir á fölsku jafnræði manna á milli sé horft til mismunandi líkamsbyggingar þeirra – spila prestarnir út hugmyndinni um ódauðleika sálarinnar: „Í blekkingu sinni trúðu þeir að „fögur sál“ þrifist í óskapnaði … “28 Það er síðan með enn frekari þróun guðshugtaksins sem prestarnir styrkja stoðir hugmyndarinnar um jafnræði sálna. Guð er til sem refsing, en fylgi maður ekki settum reglum hjarðarinnar er hann sagður valda alvöru skaða. Þannig beita prestarnir guði fyrir sér í baráttunni við þá sterku; það eru prestarnir sem hafa áhrif á göfuga barbara: „Aðeins með því að vekja þá trú að þeir búi yfir æðri, mikilfenglegri styrk – guði.“29

Nietzsche virðist álykta að fyrstu prestarnir hafi verið gyðingatrúar og í því ljósi er kristni lesin sem lítil hreyfing „sértrúarhóps á jaðri gyðingdómsins.“30 Ólíkt Kant og Schopenhauer lítur Nietzsche því ekki á kristni sem mótsögn við gyðingdóminn. Í hans augum er hún frekar útfærsla á pólitík þeirrar hefndar sem á einmitt rætur sínar að rekja til gyðingdóms: „Kristni, sem sprottin er af gyðinglegum rótum og verður einungis skilin sem afurð þess jarðvegs, felur í sér viðbrögð (þ. Gegenwebung) gegn siðferði ætternis, kynþáttar og forréttinda.“31 Í fullkomnu samræmi við afstöðu Kallíklesar skrifar Nietzsche ennfremur að siðferði sé „hreyfing andstæð viðleitni náttúrunnar … “32 Það hefur verið uppi ýmiskonar heimspekilegur skilningur á náttúrunni. En ólíkt skilningi Rousseaus felur náttúran, í huga Nietzsches, ekki í sér siðferðilega tilfinningasemi. Skilningur Nietzsches á náttúrunni gerir heldur ekki ráð fyrir tilvist dýra á kostnað manna, ólíkt því sem sjá má hjá Hegel.33 Í þrá eftir að forðast allar menjar kristni, snýr Nietzsche sér að Grikkjunum.

Líkt og Kallíkles virðist Nietzsche hafa leitt af þessu almenn lögmál: „Ég veitti því sem lifir eftirför, þræddi jafnt breiðustu götur sem þrengstu stíga til að kynnast eðli þess … Hvar sem lifandi verur urðu á vegi mínum, þar fann ég viljann til valds … “34 Nietzsche virðist byggja tilgátuna um viljann til valds á staðreyndum sem finna má í náttúru- og dýrafræði. Og í eftirfarandi textabroti má sjá hvernig umrædd niðurstaða byggir á rannsókn Nietzsches á sögu mannsins: „gjörvöll mannkynssagan er einmitt tilraunakennd afsönnun á tilgátunni um „siðferðilega reglu.““35 Í kjölfar þessa kemst Nietzsche að þeirri niðurstöðu að hið góða fyrirfinnist ekki í náttúrunni.36 Þar með leitast hann við að draga fram í dagsljósið þau gildi sem rjúfa hefðbundið siðferði, gildi sem eru persónugerð í siðlausum og/eða sterkum manngerðum: „Í stað „siðferðisgilda,“ hrein náttúrugildi. Náttúruvæðing siðferðisins.“37

Frá sjónarhóli Nietzsches – þaðan sem ótvírætt gildi felst í því að fylgja náttúrunni sé hún skilin sem styrkur og vald – gengst maður í vægðarleysi við þeirri skoðun að guðshugtakið ógni gildi mannlífsins þar sem það rúmi ekki beitingu styrks. Þetta hugtak er fundið upp af þeim veikbyggðu í von um skjótari endurlausn frá þessu lífi. Það er einnig uppfinning þeirra sem reyna í senn að halda aftur af og fá útrás fyrir hefnd gegn hinum sterka og heilbrigða aðli, þeim sem búa yfir sjálfsprottinni tilfinningu varðandi eigið gildi. Walter Kaufmann segir á einum stað: „Andmæli Nietzsches gegn kristnu siðferði, ekki síður en andmæli hans gegn kristinni trú, má smækka niður í andstöðu styrks og veikleika.“38 Og Nietzsche skrifar: „Nú er maðurinn nógu sterkur til að blygðast sín fyrir trú á guð … “39 Ef spurt er um gildi frá sjónarhóli Nietzsches, er engin mælistika til önnur en styrkur eða vald. Eingyðistrú reynist því ófullnægjandi: „Við sjáum að dýrkun á guði býr ekki yfir neinu „guðlegu.“ Þvert á móti er dýrkunin aumkunarverð, fáránleg og skaðleg; hún er ekki bara mistök heldur glæpur gegn lífinu … “40

En þessi greining á síðari þætti eingyðistrúarinnar – sá þáttur sem varpar ljósi á trú sem þrá eftir hefnd – býr einnig yfir þeirri „dygð“ að afhjúpa sjálfan drifkraft kristinnar tilfinningar. Í ljósi hans má sjá hvernig drifkraftur kristni hvílir í þeim tilfinningum sem kristnin sjálf fordæmir: hatur, hefnd og reiði. Því fyrir utan þá mynd sem þegar blasir við, eða hvernig kristni getur kallast verkfæri hinna veikbyggðu og gildi hennar þar með talist takmarkað, dregur röksemd Nietzsches í þokkabót upp mótsagnakennda og samhengislausa mynd af kristni. Þeim mun meiri ástæða til að sniðganga mótsagnir kristinnar trúar og lifa hetjulega frammi fyrir grimmd og krafti náttúrunnar undir stjórn þess göfuga.

Eins og bent hefur verið á er umrædd lýsing Nietzsches þó ekki með öllu hnökralaus og mun ég ræða eitt dæmi þar um. Í Gorgíasi viðrar Sókrates það sjónarmið að siðlaus maður geti ekki talist sterkur þar sem styrkurinn felist í siðferðinu.41 Sé siðlaus maður sagður í senn sterkur og veikbyggður eru honum augljóslega eignaðar mótsagnakenndar umsagnir. Þessum sókratísku andmælum gegn Kallíklesi er hægt að beita vandræðalaust gegn viðhorfi Nietzsches. Því þegar Nietzsche skrifar: „Sá veikari ræður aftur og aftur yfir hinum sterka,“42 og þegar hann segir: „Hinir veiku eru helsta hættan sem steðjar að hinum heilbrigðu,“43blasa mótsagnakenndar fullyrðingar við. Ef marka má athugasemd Arthurs Dantos í Nietzsche sem heimspekingur, lifa andmæli sem þessi góðu lífi. Án vísunar til röksemdar Sókratesar þó, segir Danto: „Maður skyldi ætla að sterkur merki það sem sterkur geri og að það sé í raun mótsögn að segja um x og y að x sé veikari en y, en að y lúti x.“44 Hér virðist Danto álykta að kenning Nietzsches um styrk fái ekki staðist, beinist umræðan að yfirburðum raunverulegra, félagslegra fyrirbrigða. Slíku er þó ekki til að dreifa. Sá háttur Nietzsches að beita fyrir sér hugtakinu „göfugt“ í stað styrks getur einmitt kallast lykillinn að lýsingu hans á styrk án líkamlegra vísana.

Þegar orðið „styrkur“ ber á góma er oft átt við skynlausa eiginleika vöðva. Á hinn bóginn eru til fjölmörg tilfelli í hefðbundnu málfari (og það án myndhverfinga) sem fela í sér allt aðra merkingu. Setningar eins og: „Þú verður að sýna styrk við jarðarför föður þíns á morgun“ eða „Það sem drepur þig ekki gerir þig sterkari“ (en þessa á Nietzsche sjálfur) krefjast öðruvísi túlkunar. Sú túlkun gerir ekki ráð fyrir líkamlegri getu, heldur dregur þvert á móti upp mynd af tilfinningalegu jafnvægi, innsæi eða því sem heitir að vera vel gerð manneskja. Í skrifum Nietzsches má reyndar finna haldgóð rök fyrir slíku viðhorfi. Sem dæmi um það má benda á kaflann „Hvað er göfugt?“ í Handan góðs og ills þar sem Nietzsche staðhæfir eftirfarandi um hina göfugu stétt: „Yfirburðir hennar voru ekki fólgnir í líkamsafli heldur í sálarstyrk … “45 Svo virðist sem lykilþátturinn í lýsingu Nietzsches á göfgi sé sjálfsfærni, eða það sem kallað var hér að framan sjálfhverft gildismat. Hin æðri stétt virðist hafa eðlislæga tilfinningu fyrir eigin verðleikum, en „þrælasiðferðið verður ekki til nema gagnvart sviði sem er ólíkt og fjandsamlegt.“46

Áherslan á hinn sjálfsprottna þátt greinir Nietzsche með afgerandi hætti frá hugsuði eins og Hegel, þótt til séu þeir sem vilja koma auga á samhengi þar á milli. Um þetta skrifar George Bataille í bók sinni Innri reynsla: „Nietzsche þekkti varla betur til Hegels en sem við kom almennri vitneskju. Um það vitnar Sifjafræði siðferðisins sem telja má einstaka sönnun á þeirri van­þekkingu … “47 Hér er Sifjafræði siðferðisins lesin sem einskonar ófullkomin fyrirbærafræði sjálfsins með hliðsjón af verkum hins unga Hegels. En slíkur lestur verður að kallast alvarleg yfirsjón. Kennig Hegels í Fyrirbærafræði andans – kenning sem reynst hefur áhrifarík fyrir meginlandshugsuði á borð við Lacan – byggir á þeirri hugmynd að sjálfsmeðvitund kvikni með vitundinni um einhvern annan. Sannfæring Nietzsches hins vegar byggir á þeirri óhefðbundnu skoðun að tilfinning fyrir sjálfinu geti verið sjálfsprottin. Þráhyggjan um annan – sem finna má í skrifum jafn mikilvægra hugsuða og Hegel, Lacan, Irigaray, Scheler, Nancy og Sartre – er Nietzsche með öllu framandi. Og þetta fullkomna áhugaleysi Nietzsches á annarleikanum sem undirstöðu sjálfsins, getur fremur talist mikilvægur þáttur í þeim vitsmunalega arfi sem hann sækir frekar til Schopenhauers en Hegels.

Frá pólitísku sjónarmiði, dýpkar sjálfhverft gildismat ekki tilfinninguna fyrir samfélagi. Þess sjást heldur engin merki í skrifum Nietzsches, ólíkt því sem finna má í skrifum þeirra sem benda á nauðsyn hugsunar um hinn og hvernig sú nauðsyn krefst í senn tilfinningar fyrir samfélagslegri tilvist sem og formgerðar um hana. Jean-Luc Nancy varpar skýru ljósi á síðarnefnt sjónarmið samfélagslegs mats þegar hann skrifar: „Hvað er samfélag? Samfélag er ekki samkunda sem fullskapaðir einstaklingar flykkjast á, heldur eini mögulegi vettvangureinstaklingseðlis.“48

Hjá þeim mörgu sem (í anda Hegels) finna sjálfinu stað með viðurkenningu á hinum, virðast tilteknir siðferðilegir og pólitískir þættir sigla í kjölfarið: samfélaginu ber að viðhalda þar sem hugsunin um samfélag kemur á undan hugsuninni um sjálfið. Slíkar hugleiðingar eru framandi mönnum á borð við Nietzsche og Max Stirner, en báðir hafna þeir hugmyndinni um samfélags­lega tilurð sjálfsins. Hið sjálfsprottna sjálf er á endanum grundvallarþáttur í því sem Nietzsche kallar göfgi, þáttur sem aðskilur hann í senn frá Hegel (sem og Nancy og Lacan) og Kallíklesi: Sjálfið er ekki gagnverkandi heldur sjálfvirkt og styrkur er ekki einvörðungu bundinn líkamsafli. Þrællinn, eins og Deleuze minnir á, hættir ekki að vera þræll þótt sigursæll sé.49 Líkt og Deleuze, viðurkennir Poellner einnig að Nietzsche skilgreini ekki styrk einstaklings út frá gefnum árangri hans í valdabaráttu.50 Í túlkun sem þessari má því sjá hvernig umræða Nietzsches um göfgi andspænis styrk geti kallast djúpstæð fágun á því viðhorfi sem byggir á túlkun Kallíklesar á hefðbundu siðferði: Styrkur er ekki lengur skilgreindur á þann veg að hin sókratíska gagnrýni eigi við, sú sem segir siðleysingja af ætt Kallíklesar eigna – á sama tíma – einni og sömu sjálfs­verunni mótsagnakenndar umsagnir.

IV. Lokaorð

Þótt hér megi líta efasemdir um tvo þætti þeirrar sálfræðilegu gagnrýni sem Nietzsche beitir gegn trú, má sjá hversu kraftmikill texti Nietzsches er í viðbrögðum gegn slíkum efasemdum. Ljóst er að trúin getur ekki kallast helber þrá eftir sáluhjálp, þar sem hinn sterki er líklegri til að finna sjálfspíslarhvöt sinni glæstari stað, afneiti hann trú. Röksemd Nietzsches gegn kristni fær því ekki að fullu staðist í fyrri þætti gagnrýni hans. En þegar kemur að seinni þættinum má sjá hvernig texti Nietzsches stendur af sér kviðu efasemda á borð við Dantos. Styrkur, í huga Nietzsches, felst ekki einvörðungu í líkamsafli. Röksemd Nietzsches fyrir trúleysi stenst þó ekki nema lesandinn gangist við meginforsendu þess, þeirri forsendu að vald sé það takmark sem veiti lífi hvers og eins ótvírætt gildi. Það er síðan á valdi hvers lesanda fyrir sig að álykta um áreiðanleika þeirrar forsendu.

Þegar kemur að efni trúarinnar má telja „Guð er dauður“ frægustu athugasemd Nietzsches. En ef umrædd niðurstaða er höfð í huga getur merking þeirrar athugasemdar (sem og merking trúarheimspeki Nietzsches í heild sinni) verið sú að spurningar varðandi sannleika trúar og tilvist skapara falli í skuggann frammi fyrir þeirri sókratísku grundvallarspurningu hvernig lífi sé best að lifa áður en óumflýjanlegt andlátið leysir mann af hólmi.

Birna Bjarnadóttir þýddi.51

 

Tilvísanir

1. Friedrich Nietzsche: Nietzsche Werke, Kritische Gesamtausgabe, Nachlassene Fragmente 15[19], útg. Giorgio Colli og Mazzino Montinari, Walter de Gruyter, Berlín/New York, 1967–1977, 8. hluti, 3. bindi, s. 211. Sjá einnig Nachlassene Fragmente 7[9], KSA, 8. hluti, 1. bindi, s. 319.

2. Sjá bók Alexanders Nehamas: Nietzsche: Life as Literature, Harvard University Press, Cambridge Massachusetts/London, 1985, s. 53.

3. Friedrich Nietzsche: Nachlassene Fragmente 2[190], KSA, 8. hluti, 1. bindi, s. 159.

4. Sami: Der Antichrist, Werke in Zwei Bänden, II. bindi, 4. útg., Carl Hanser Verlag, München, 1978, s. 487.

5. Sami: Nachlassene Fragmente 1[83], KSA, 8. hluti, 2. bindi, s. 281–282.

6. Sjá bók Walter Kaufmanns: Nietzsche: Philosopher, Psychologist, Anti-Christ, Princeton University Press, Princeton, 1991, s. 344.

7. Friedrich Nietzsche: Ecce Homo, III, 3, WZB, 2. bindi, s. 419.

8. Sami: Nachlassene Fragmente 11[285], KSA, 8. hluti, 2. bindi, s. 352–353.

9. Peter Poellner: Nietzsche and Metaphysics, Clarendon Press, Oxford, 1995, s. 248.

10. Friedrich Nietzsche: Nachlassene Fragmente 11[363], KSA, 8. hluti, 2. bindi, s. 402.

11. Sjá Der Antichrist, WZB, 29. kafli, s. 507, 2. bindi: „Was mich angeht, ist der psychologische Typus des Erlösers. Derselbe könnte ja in den Evangelien enthalten sein trotz den Evangelien, wie sehr auch immer verstümmelt oder mit fremden Zügen überladen: wie der des Franziskus von Assisi in seinem Legenden erhalten ist trotz seinen Legenden.“

12. Peter Poellner: Nietzsche and Metaphysics, s. 248.

13. Friedrich Nietzsche: Nachlassene Fragmente 10[188], KSA, 8. hluti, 2. bindi, s. 235.

14. Sami: Der Antichrist, 22. kafli, WZB, s. 500.

15. Sami: Zur Genealogie der Moral, II § 16, KSA, 6. hluti, 2. bindi, s. 337–340.

16. Sami: Handan góðs og ills, þýð. Arthúr Björgvin Bollason og Þröstur Ásmundsson, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, 1994, s. 187.

17. Sami: Zur Genealogie der Moral, II § 22, KSA, 6. hluti, 2. bindi, s. 347–349.

18. Platón: Gorgías, þýð. Eyjólfur Kjalar Emilsson, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, 1977, s. 113.

19. Sama rit, s. 114.

20. Karl Popper: The Open Society and Its Enemies, vol. I, Routledge, London, 1995, s. 116.

21. Friedrich Nietzsche: Zur Genealogie der Moral, formáli, KSA, 6. hluti, 2. bindi, s. 261.

22. Sami: Nachlassene Fragmente 16[32], KSA, 8. hluti, 3. bindi, s. 289.

23. Sami: Menschliches, Allzumenschliches, I § 45, KSA, 4. hluti, 2. bindi, s. 65–66.

24. Sami: Morgenröte, I § 26, KSA, 5. hluti, 1. bindi, s. 32–33.

25. Sami: Svo mælti Zaraþústra, þýð. Jón Árni Jónsson, Háskólaútgáfan, Reykjavík, 1996, s. 63.

26. Sama, s. 112.

27. Sami: Zur Genealogie der Moral, I § 10, KSA, 6. hluti, 2. bindi, s. 284.

28. Sami: Nachlassene Fragmente 14[96], KSA, 8. hluti, 3. bindi, s. 65.

29. Sami: Nachlassene Fragmente 14[189], KSA, 8. hluti, 3. bindi, s. 169.

30. Sami: Der Antichrist, 58. kafli, WZB, s. 539–540.

31. Sami: Götzen-Dämmerung, textabrot 4 í „Die Verbesserer der Menschheit,“ WZB, 2. bindi, s. 335.

32. Sami: Nachlassene Fragmente 8[4], KSA, 8. hluti, 1. bindi, s. 344.

33. Sjá Philosophy of Mind, Oxford University Press, Oxford, 1985, bls. 11. (Í þessu ljósi er skilningur Nietzsches nær skilningi Marx.)

34. Friedrich Nietzsche: Svo mælti Zaraþústra, s. 128–129.

35. Sami: Ecce Homo, 4. kafli, WZB, s. 477–478.

36. Sjá Nachlassene Fragmente 10[28], KSA, 8. hluti, 2. bindi, s. 147.

37. Sjá sama rit, 10[28], s. 136.

38. W. Kaufmann: Nietzsche: Philosopher, Psychologist, Anti-Christ, s. 364.

39. Friedrich Nietzsche: Nachlassene Fragmente 10[21], KSA, 8. hluti, 2. bindi, s. 133.

40. Sami: Der Antichrist, 47. kafli, WZB, s. 525.

41. Platón: Gorgías, s. 121–123.

42. Friedrich Nietzsche: Götzen-Dämmerung, textabrot 14 í „Streifzüge eines Unzeitgemässen,“ WZB, s. 368.

43. Sami: Zur Genealogie der Moral, III § 14, KSA, 6. hluti, 2. bindi, s. 385.

44. Arthur Danto: Nietzsche as Philosopher, Columbia University Press, New York, 1980, s. 186–187.

45. Friedrich Nietzsche: Handan góðs og ills, s. 363.

46. Sami: Zur Genealogie der Moral, I § 10, KSA, 6. hluti, 2. bindi, s. 285.

47. G. Bataille: Inner Experience, (L’Experience Interieure, 1954), þýð. Leslie Anne Boldt, Suny, New York, 1988, s. 109.

48. J.-L. Nancy: The Birth to Presence, ritstj. Werner Hamacher og David E. Wellbery, þýð. Brian Holmes o.fl., Stanford University Press, Stanford, 1993, s.153.

49. Sjá bók Gilles Deleuze: Nietzsche and Philosophy, (Nietzsche et la Philosophie, 1983), þýð. Hugh Tomlinson, Athelone Press, 1990, s. 59.

50. Peter Poellner: Nietzsche and Metaphysics, s. 53.

51. Þýðandi vill þakka Ástráði Eysteinssyni fyirr að leysa úr þó nokkrum vandamálum varðandi þýðingu greinarinnar. Hrannar Már Sigurðsson á einnig þakkir skilið fyrir vandaðan lestur á greininni og ýmsar lagfæringar. Það sem betur má fara skrifast á ábyrgð þýðanda.

 

« Til baka

Við rætur mannlegs siðferðis

eftir Vilhjálm Árnason

Við rætur mannlegs siðferðis

Siðagagnrýni og heilræði Friedrichs Nietzsche1

Hvað innsiglar áunnið frelsi? – Að skammast sín ekki lengur gagnvart sjálfum sér.2

1. Inngangsorð

Þegar ég var við nám í Háskóla Íslands leigði ég vetur einn hjá Ragnhildi Ásgeirsdóttur, mikilli sómakonu á Sólvallagötunni. Ragnhildur heitin reyndist mér mjög vel og var ánægð með að ég væri að læra heimspeki. Og þar sem hún bar hag minn fyrir brjósti gaf hún mér stundum góð ráð, en ekki man ég til þess að hún hafi nokkurn tíma varað mig við nema einum hlut og það gerði hún oftar en einu sinni. Hún bað mig um að gæta mín á Friedrich Nietzsche. Kannski hefur hún haldið að hinn hættulegi hugsuður myndi steypa þessum ógæfulega unglingi endanlega í glötun – eitthvað slíkt hefur eflaust vakað fyrir henni. Ekki fór ég að ráði Ragnhildar, en minnugur orða hennar, sem gætu allt eins endurspeglað almennt viðhorf til Nietzsches á Íslandi, ákvað ég að skrifa þessa ritgerð til að reyna að varpa einhverju ljósi á hugmyndir þessa misskilda heim­spekings.

Ég ákvað að halda mig að mestu við siðferðishugmyndir Nietzsches. Framan af ritgerðinni reifa ég í aðalatriðum greiningu hans á mannlegu siðferði, skýri hugtök hans um höfðingja- og þræla­siðferði sem og kenninguna um ofurmennið. Jafnframt leitast ég við að skýra forsendur þessarar greiningar í heimspeki Nietzsches almennt. Síðan ber ég lífsspeki Nietzsches stuttlega saman við skilning Kierkegaards á tilvistarvanda mannsins og þá lausn sem hann hefur upp á að bjóða. Ég færi rök fyrir því að siðakenning Nietzsches snúist einkum um viðleitni einstaklingsins til þess að græða sálarmein sín og öðlast sjálfsvirðingu og sjálfstæði. Hún sé hins vegar ekki heilla­vænleg siðfræði í viðleitni manna til að móta samlíf sitt af réttsýni og gagnkvæmri virðingu.

2. Greining Nietzsches: Höfðingjasiðferði

„Það er til höfðingjasiðferði og það er til þrælasiðferði“, skrifar Nietzsche í bók sinni Handan góðs og ills.3 Nærtækasta leiðin til þess að gera grein fyrir siðagagnrýni Nietzsches er að reyna að útlista þennan fræga greinarmun hans. Mikilvægt er að hafa í huga að þessi hugtök eru tæki eða fræðilegar ímyndir sem Nietzsche beitir í greiningu sinni á uppruna mannlegs siðferðis – sköpunarsögu þess eða sifjafræði.4 Nafngiftirnar stafa af því að Nietzsche telur þau verðmæti sem spretta úr garði hinna voldugu séu gerólík þeim siðadómum sem vaxa úr jarðvegi vanmáttar og undirokunar. Þannig á höfðingjasiðferði upptök sín meðal þeirra sem valdið hafa, fulltrúa aristókratíunnar, sem hampa velgengni sinni og virðingu. Grundvallarhugsun höfðingjans í siðferðisefnum er „ég er góður“ því hann velkist ekkert í vafa um eigið ágæti. Í erindi „Um hið góða“ nefnir Eyjólfur Kjalar Emilsson forngrískan skilning á gríska orðinu „agaþós“ sem ég held að varpi ljósi á hugsun Nietzsches:

Orðabækur segja, að upphaflega hafi orðið „agaþós“ fyrst og fremst verið notað um menn af göfugum ættum og til að láta í ljósi, að maður sé voldugur, ríkur og hraustur, enda voru þessir eiginleikar eignaðir heldri mönnum. [. . .] Það er hafið yfir vafa, að hjá Hómer eru rökleg tengsl milli „agaþós“ og vissra náttúrulegra eiginleika: það væri hrein mótsögn að halda því fram, að maður sé hvorki ættstór, ríkur né hraustur, en samt sem áður „agaþós“.5

Með sama hætti segir Nietzsche höfðingjann útnefna sjálfan sig göfugan bæði í krafti valdastöðu sinnar og eiginleika á borð við þá sem Eyjólfur nefnir, enda verður vart skilið þar á milli. Svipaðan skilning er að finna í Íslendingasögunum þar sem „hinir beztu menn“ fá þá einkunn jafnt fyrir samfélagsstöðu sína og atgervi.6 Óneitanlega minnir það á höfðingjasiðferði Nietzsches þegar Sigurður Nordal talar um „fyrirmannlega lífsskoðun í heiðnum dómi“ í kaflanum um drengskap í Íslenzkri menningu.7 Það er einkum tvennt í lýsingu Sigurðar sem kallast á við greiningu Nietzsches. Annars vegar það að „hátterni heiðinna manna var metið af þjóðfélaginu eða einstaklingunum sjálfum án þess dómnum væri áfrýjað lengra“8 og hins vegar að í sögunum sé manneskjan einkum dæmd af eiginleikum sínum og upplagi, virðingu hennar fyrir sjálfri sér. „Ef þýða ætti orðið drengskap með einu orði öðru, mundi sönnu næst að kalla hann máttargæði“, segir Sigurður.9

Varla er hægt að hugsa sér betra orð á íslenzku en máttargæði til þess að lýsa inntaki höfðingjasiðferðis Nietzsches. Eins og áður sagði er máttur höfðingjans í senn persónulegur og félagslegur og þetta tvennt er samofið. Hann er stoltur af stöðu sinni og yfirburðum, en styrkur hans felst líka í hreysti og hugrekki. Til samans gera þessir þættir honum kleift að ganga hreint til verks, en hreinskilnin er það aðalsmerki sem Nietzsche heldur mest á lofti. Hann segir að höfðinginn sé „uppréttur“, sem minnir á dranginn í rót orðsins drengskapur. Hugtakið máttargæði tengist líka því sem í gæðagreiningu hefur verið kallað tegundargæði, þar sem áherzlan hvílir á þeim eiginleikum sem fyrirbæri ákveðinnar tegundar þarf að hafa sér til ágætis.10 Þetta er sá gæðaskilningur sem við höfum í huga þegar við tölum til að mynda um góðan og lélegan bíl. Þessi andstæða hins góða og hins lélega liggur höfðingjasiðferðinu til grundvallar. Andspænis eigin ágæti, sem allt miðast við, fyrirlítur höfðinginn hina undirokuðu og lægra settu sem í augum hans eru auvirðilegar og lélegar manneskjur. Þær hafa ekki þann mátt sem er undirstaða tegundargæða höfðingjasiðferðisins.11

En það verðmæti sem Nietzsche tengir helzt höfðingjasiðferði er heilnæmi. Að svo miklu leyti sem hann dáir þessa rót siðferðis er það vegna þess að hún nærir, ef ég má nota svo útjaskað orð, já-kvæða hugsun til lífsins. Höfðinginn kveður  við sjálfum sér og aðstæðum sínum einfaldlega vegna þess að hann er ánægður með sig. Hreinskilin sjálfsánægja og nánast barnaleg sjálfsupphafning einkenna höfðingjasiðferðið: Ég og mínir líkar eru miklir og góðir, segir höfðinginn – óbreyttur almúginn er auvirðilegur og þeim lýð er ekki treystandi. Í upphafinni fjarlægð frá lýðnum fellir höfðinginn þennan dóm eins og sjálfsagðan hlut, án allra illinda; almúgamaðurinn er ekki illur (þ. böse) heldur lélegur (þ. schlecht) í samanburði við göfgi höfðingjans og hans líka. Þessi hugsun flýtur fram af gnægðum valds og sæmdar þeirra sem gefa veruleikanum gildi í krafti eigin ágætis. Höfðinginn er fullur orku og hamingja hans eða lífsfylling er fólgin í því að tjá styrk sinn í verki. Þetta segir Nietzsche vera andstætt „hamingju“ hinna undirokuðu sem leita hennar í hvers konar afslöppun, hvíld og vímu, sem sagt með því að draga sé í hlé frá vettvangi athafna.12 Slík hamingjuleit er dæmd til að mistakast, að mati Nietzsches, því hún felur í sér lífsafneitun og flótta undan forsendum skapandi lífs.

Höfðingjar bindast gjarna sterkum böndum gagnkvæmrar virðingar og vináttu, en einungis meðal jafningja. Gagnvart öðrum eiga þeir til að haga sér eins og villidýr og víla ekki fyrir sér að myrða, nauðga og pynda þegar sá gállinn er á þeim.13 Sú orkugnægð og sjálfsánægja sem eru forsendur dygða höfðingjans gera hann því jafnframt að hræðilegum, samvizkulausum ógnvaldi. En jafnvel í því sér Nietzsche „góða“ eiginleika, því í ofbeldi sínu gengur höfðinginn hreint til verks en elur ekki á fæð og langrækni í garð óvina sinna eða andstæðinga. Til að verjast þessum vargi hljóta hinir veikari að grípa til sinna ráða og undan þeirra rifjum er þrælasiðferðið runnið, en það er önnur meginuppspretta siðadóma að mati Nietzsches.

3. Þrælasiðferði

Þrælasiður er ávöxtur af lífskilyrðum hinna undirokuðu, þjáðu og minnimáttar í samfélaginu. Það blasir við að slíkir þjóðfélagshópar hreykja sér ekki af kostum sínum, eins og sjálfmiðaðir höfðingjarnir gera, heldur eru þeir óánægðir með hlutskipti sitt. Þrællinn lifir í ótta við herra sinn og er tortrygginn gagnvart öllu því sem höfðingjarnir miklast af og tíunda sér til ágætis. Eiginleikar og lífsgildi höfðingjans ógna tilvist þrælsins en hann verður nauðbeygður að lúta þeim. Þess vegna er fyrsta hugsun þrælsins alls ekki ágætiseinkunn til handa sjálfum sér, heldur beinist hún að hinum, höfðingjanum, sem vekur ugg og ótta. Höfðinginn er hinn illi, hinn hræðilegi, og það er fæðin eða öfundarblandið hatrið (ressentiment) í hans garð sem gefur þrælasiðnum sköpunar­kraft.14 Einkunnin „góður“, sem andstæða hins illa, er síðan hengd í sjálfsvorkunn á hið mein­lausa sjálf lítilmagnans. Hið góða er því eins og eftirþanki þrælasiðferðisins, ekki frumhæfing eins og hjá stoltum höfðingjunum. Enda verður að gæta að því að hér er um alls ólík gæðahugtök að ræða. Hugtakatvennd höfðingjasiðferðisins góður/lélegur er ekki sú sama og tvenndin góður/illur sem þrælasiðferðið getur af sér, því frá bæjardyrum höfðingjans er það hinn lélegi sem er orðinn góður að gildismati þrælanna, en hinn góði og göfugi er hinn illi. Þetta er mikilvægt að hafa í huga í sambandi við bókartitilinn Handan góðs og ills, sem Nietzsche benti sjálfur á að væri hættuleg nafngift. Þótt hann feli í sér tilraun til þess að stíga út yfir hugsunarhátt þrælasiðferðisins, þá er ekki þar með sagt að öllu siðferði sé hafnað.

Þrælarnir leitast sem sé við að umbylta gildum höfðingjanna og snúa hlutunum sér í hag. En hvernig fara þeir að? Það er ljóst að stöðu sinnar vegna getur þrællinn ekki með góðu móti gengið hreint til verks eins og sá sem valdið hefur. Hann verður að úthugsa og þróa með sér óbeinar leiðir til þess að tjá vilja sinn til valds. Þess vegna einkennist þrælslundin af undirferli og slægð; þau eru leiðir til að lifa af erfiðar aðstæður og sigrast á andstæðingnum. Hug­takið hræðslugæði lýsir því vel einu megineinkenni þrælasiðarins, en um það segir Sigurðar Nordal:

Mildi og miskunn, friðsemd og tillátssemi skræfunnar eru einskis verðar, enda geta þær snúizt upp í illmennsku, hvenær sem unnt er að leyna henni eða sleppa við víti fyrir hana. Verkin eru hér metin eftir því hugarfari, sem þau eru sprottin af. Sjálf eru þau að vísu söm, hvort sem þau eru gerð af ótta, í gróða skyni eða af öðrum lélegum hvötum, sem búnar eru grímu höfðinglyndis. En maðurinn, sem vinnur þau, er ekki samur. Og öðrum gerir það allan mun, hvort þeir geta treyst honum eða búast má við því þá og þegar, að hann snúist til svikráða.15

Þetta er býsna Nietzsche-skotinn kafli. Meginmunurinn á þeim manngerðum, sem þrælasiðferðið elur af sér annars vegar og höfðingjasiðferðið hins vegar, er að höfðinginn er gegnumheill og allur þar sem hann er séður, en þrællinn venst á að bregða fyrir sig ólíkindalátum og yfirdrepsskap sem erfitt er að henda reiður á. „Geymt en ekki gleymt“ eru einkunnarorð hans, langrækin hefnigirni og öfund eitra sál hans. „Sál hans lítur útundan sér; andi hans elskar felustaði, leynistigu og bakdyr […].“16 Hann er músin sem læðist, flagð undir fögru skinni og hefur því fleiri en einn mann að geyma. Höfðinginn, aftur á móti, er bæði of stoltur og of grunnhygginn til að vera með svona látalæti – hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur, kann ekki þá list að villa á sér heimildir, enda hefur hann hvorki löngun né ástæðu til þess: hann er ánægður með sig eins og hann er.

Það er þrællinn aftur á móti ekki, eins og gefur að skilja. Þar eð þrælasiðferðið er samkvæmt skilningi Nietzsches öðru fremur viðbragð lítilmagnans við erfiðum aðstæðum og kúgun segir hann grunnhugsun þess vera nei-kvæða. Þrællinn kveður nei við veruleika sínum og þeim öflum sem hann hræðist, öfundar og hatar. Hann þjáist yfir veröldinni eins og hún er því hún svarar á engan hátt óskum hans og þörfum. Þetta verður eitt megintilefni tómhyggjunnar en lífsskoðun fulltrúa hennar lýsir Nietzsche með þessum orðum: „Níhilisti er maður sem segir um heiminn eins og hann er að hann ætti ekki að vera og um heiminn eins og hann ætti að vera að hann sé ekki til“.17 En jafnframt verður þessi heimsafneitun, þessi óánægja þrælsins með aðstæður sínar, aflvaki mikillar sköpunar sem og umbyltingar. Til þess að takast á við þau tilvistarkjör sem þrælnum eru búin, grípur hann til þess ráðs að smíða hugmyndakerfi sér til halds og trausts. Áhrifamesta sköpunarverk þrælasiðferðisins er Guð og heimkynni hans handan hins jarðneska veruleika. Þannig finnur lítilmagninn leið til þess að takast á við flest það sem háir honum í þessum heimi. Frá siðferðilegu sjónarmiði er mikilvægasta hlutverk Guðs að hann er yfirnáttúrulegur grundvöllur gilda, dómstóll sem hægt er að áfrýja mannasetningum til. Þar með er siðferðið hafið upp af vettvangi manna og skilið frá þeim grunni verka og manngerðar sem höfðingjasiðferðið er reist á. Þrælasiðferðið er siðfræðileg yfirbygging lögmála og boðorða sem taka til allra jafnt, burtséð frá persónulegum verðleikum þeirra eða félagslegri stöðu. Athafnir eru dregnar í dilka réttlætis og ranglætis sem gera engan mannamun og setja hinum sterka og göfuga sömu mörk og lítilmagnanum. Þessi útjöfnun hefur einkennt framþróun vestrænna samfélaga, þar sem öllum hefur verið gert að lúta í sama gras í nafni jafnaðar og lýðræðis. Og til að fullkomna niðurlæginguna eru dygðir hinna minnimáttar – lítillæti, auðmýkt og hógværð – hafnar til vegs og virðingar, en dygðum hins sterka, stórmennsku, stolti og stærilæti, vísað í skammarkrók lastanna.18 Með þessu móti ná þrælarnir fram hefndum á höfðingjunum, sýna þeim í tvo heimana, þar sem handanheimurinn er hinn sanni veruleiki. Einungis í skjóli hans getur hinn veiklundaði þræll afborið jarðneska tilvist sína.

Þrælasiðurinn getur þannig af sér siðfræði sem afmarkað og almennt kerfi sem beitt er í því skyni að fordæma eða réttlæta athafnir. Þetta er augljósast í lögmálshyggju gyðingdómsins þar sem siðferði er skilið sem ytra reglukerfi, andstætt grískri siðfræði sem lítur fremur á siðferðið sem innri eiginleika einstaklingsins, dygðir hans og lesti.19 Þótt Nietzsche sé sjálfur dygðapostuli þá telur hann að grísk dygðasiðfræði hafi ekki síður en kristin kenning stuðlað að sigri þræla­siðarins, enda kallar hann kristnina í formála Handan góðs og ills platonisma „handa alþýðunni““.20 Með frummyndakenningu sinni lagði Platon glæsilegan grunn að hinni tveggja heima sýn og Sókrates er einn helzti hugmyndasmiður þrælasiðferðis. „Það sem fyrst verður að sanna er lítils virði“, segir Nietzsche og telur rökræðusiði Sókratesar ekki við hæfi heldra fólks.21 Það kemur vel fram í samræðum Platons hvernig þeir Sókrates eru að umbreyta siðferðilegum hugsunarhætti, ekki sízt með því að staðhæfa að áðurnefndur agaþós geti ekki borið þá nafnbót nema hann sé réttsýnn. Það er ekki nóg að maður beri augljós skilmerki höfðingjans – sé ríkur, hraustur og voldugur – hann verður að lúta hinum almenna mælikvarða á réttlæti sem siðferðileg skynsemi krefst.22 Þar með er kominn upp siðferðilegur dómstóll sem einstaklingar verða að svara til saka fyrir, og sjálfdæmi höfðingjans um eigið ágæti og jafnvel hamingju er ekki lengur marktækt. Með þessum hætti fer þrælasiðurinn með sigur af hólmi.

4. Nánar um siðagagnrýni Nietzsches

Þegar Nietzsche talar um mannlegt siðferði, eins og hann gerir í öllum sínum bókum, á hann yfirleitt við það siðferði sem er runnið undan rifjum þrælanna og kennir það gjarnan við hjarð­mennsku, öfundarhatur eða eitthvað ámóta. Nietzsche segir ákaflega margt um siðferðið og erfitt getur reynzt að koma því öllu heim og saman. Ég ætla samt að freista þess að varpa ljósi á nokkur grunnstef í greiningu hans með því að staðsetja hana í heimspeki hans almennt.

Það liggur beint við að byrja á tengslum siðagagnrýni Nietzsches viðfrumspekigagnrýni hans. Kenning Nietzsches um eðli og gerð veruleikans liggur raunar til grundvallar öllu því sem hann hefur að segja um mannlegt siðferði. Segja má að heimssýn Nietzsches sé af ætt Heraklítosar. Í innsta eðli sínu er veruleikinn óreiða, öngþveiti án forms og festu. Manneskjan er aftur á móti merkingarvera og sem slík skapar hún sér lífsskilyrði með því að koma skikkan og sköpulagi á veruleikann. Vera sem nærist á merkingu hefur ekki meira óreiðuþol en svo að hún verður að rökvæða veruleikann, njörva síkvika („dýnamíska“) verðandina niður við kyrrstæða („statíska“) eiginleika verunnar. Þetta er viljinn til valds í hnotskurn: „að þröngva eiginleikum verunnar upp á verðandina – það er æðsti viljinn til valds“.23 Þannig gengur sannleiksviljinn óhjákvæmilega útfrá þeim frumspekilegu ósannindum að veruleikinn búi yfir merkingu. Tungumálið leikur þarna lykil­hlutverk, því það er í orðræðunni sem merkingarheimurinn kemur í ljós, en um leið dregur það fjöður yfir óreiðuna sem undir býr.

Blekkingin um veruleikann, sem er forsenda merkingarbærs mannlífs, liggur því mun dýpra en þær fölsku heimstúlkanir sem að mati Nietzsches hafa hlaðizt upp í sögu vestrænnar guðfræði og heimspeki. Raunar er listin ein sönn því hún ein viðurkennir að vera bara túlkun og gerir enga tilraun til þess að höndla sannleikann. Sú viðleitni hefur aftur á móti auðkennt sannleiksleit trúarbragða og heimspeki og þar eð hinn náttúrulegi veruleiki hefur ekki svarað sannleikskröfum þeirra hafa hugsuðurnir opnað sýn til annars heims sem er hinn sanni veruleiki. Í þessari sannleiksleit liggja rætur tómhyggjunnar, því til að þessi viðleitni bæri árangur var megin­forsendum jarðlífsins hafnað. Heimurinn og mannlegt líf öðlast gildi sitt vegna þess sem er handan hans, í heimi frummynda, hugtaka eða guðlegra lögmála. Og til þessa handanheims sækir þrælasiðferðið verðmæti sín, lögmál og lífsreglur. Náungakærleikurinn er reistur á hræðslugæðum guðsóttans. Kristnin er dulbúin ómeðvituð tómhyggja sem býr í haginn fyrir meðvitaða tómhyggju þar sem ekkert skiptir máli. Sú hugsun sem felst í orðum Dostojevskís, „ef Guð er ekki til er allt leyfilegt“, er sameiginleg forsenda allrar siðferðilegrar tómhyggju. Það er vegna þessa sem dauði Guðs verður lykilatriði í greiningu Nietzsches á vanda vestrænnar menningar. Orð Nietzsches „Guð er dauður“ eru engin venjuleg yfirlýsing um trúleysi, heldur athugasemd í þá veru að grundvöllur þeirra siðferðisgilda sem boðuð hafi verið í vestrænni menningu sé hruninn.24 Þess vegna setur Nietzsche sér það verkefni að endurmeta grundvöll allra gilda.

Næst nefni ég til sögunnar hinn sálfræðilega og nánast lífeðlisfræðilega þátt í siðagagnrýni Nietzsches. Ef veruleikinn er sú iðandi kös sem Nietzsche lýsir, skiptir það öllu máli í hvaða farvegi túlkanir okkar veita honum. Þær grímur sem hengdar eru á veruleikann í viðleitni manna til skilnings og sköpunar, festast nefnilega á þá sjálfa, hylja þá um leið og þær leiða þá í ljós.25 Ríkjandi heimstúlkanir móta manninn um leið og hann mótar veruleikann. Það skipulag sem menn hafa á veruleika sínum er farvegur þeirra lífsafla sem manneskjan er – og beizlar þau í sína þágu. Því fastari skorður sem menn setja veruleikanum því þéttar sauma þeir að sjálfum sér. Þannig er manneskjan óhjákvæmilega hneppt í viðjar eigin veruleika – þeirra heimstúlkana sem við köllum einu nafni „menningu“. Menningin er afsprengi viljans til valds en jafnframt hefur hún vald gagnvart einstaklingnum, leggur á hann taumhald og umbreytir honum úr náttúruveru í heimalning og hópsál með því að beina lífsöflum hans í almennt viðurkennda farvegi.26

Það ferli sem kemur okkur til manns – máltaka, félagsmótun og ögun hvers konar – er, eins og kristin menning yfirhöfuð, skilgetið afkvæmi þrælasiðferðisins. Frá þessu sjónarhorni séð snýst gagnrýni Nietzsches einkum um það hvernig ríkjandi siðferðishugmyndir hafa skipulega afneitað þeim lífsöflum sem knýja áfram alla mannlega viðleitni. Hugmynd hans um órofa heild líkama og sálar gengur þvert á hina hefðbundnu frumspekilegu mannsmynd sem slítur andann og skynsemina úr tengslum við líkamann.27 Þær heimstúlkanir, sem hafna jörðinni sem eiginlegu heimkynni manna og uppsprettu verðmæta, hafna líka náttúruöflum mannsins.28 Þessi náttúru­lausa heimspeki dregur upp gelda fyrirmynd siðferðilegrar breytni sem skal einkennast af óeigingirni og ósérplægni. Þetta á sinn þátt í að lama mannlífið. Fólk situr fast og ófullnægt í hnappheldu ósveigjanlegra siðvenja og fæstir þora að fara sínar eigin leiðir. En bæld hjörðin er ekki öll þar sem hún er séð. „Náttúran lurkum lamin leitar út um síðir“, en þar sem hún er orðin fúllynd og örg af langri innilokun brýzt hún fram í óbeinum árásum og undirferli af ýmsu tagi, sem þó er jafnóðum hylmt yfir með siðferðilegum leikhæfileikum. Menn koma því ekki heilir út úr því ferli félagsmótunar sem er afsprengi þrælasiðferðis því það stíflar lífskraft þeirra og gerir þá veikgeðja. Slíkir menn þora ekki að horfast í augu við heiminn „eins og hann er“, þ.e. sem er ekki á einhvern tiltekinn hátt, heldur spinna þeir upp veruleika sem er þeim þolanlegur. Til að vinna bug á tómhyggjunni verður því að skapa menningu sem er í þjónustu lífsins og jarðarinnar og getur af sér sterkar sálir sem eru færar um að takast á við veruleikann af hugrekki og einurð – þora að vera þær sjálfar.

Í þriðja lagi er mikilvægt að missa aldrei sjónar á því að hér er á ferðinni söguleggreining Nietzsches á mannlegu siðferði. Þótt hinar fræðilegu ímyndir þræla- og höfðingjasiðferðis séu röklega skýrt aðgreindar þá tvinnast þessar rætur saman í sögulegri framvindu, og það er í þeirri „díalektík“ sem innsýn Nietzsches nær hvað dýpst. Orða mætti markmið sifjafræðinnar þannig að hún sýni „hve mikið blóð og grimmd eru að baki allra „góðra hluta“!“29 Siðferðisvera nútímans er afsprengi blóði drifinnar menningarsögu. Helzti vendipunkturinn í þeirri sögu varð þegar mann­dýrið lærði að blygðast sín fyrir eðlishvatir sínar og fékk samvizkubit gagnvart sjálfum sér. Slæm samvizka er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess réttarkerfis sem fylgir ríkisvaldi og trúarbrögðum. Það ógnarvald sem þessum stofnunum hefur fylgt gegnum söguna neyddi mannskepnuna smám saman til að hafa stjórn á hneigðum sínum. Náttúruöfl sem áður leituðu óhaminnar útrásar beinast nú inn á við og mynda hinn „innri“ mann, sakbitinn en siðprúðan.

„Enginn vafi leikur á því að samvizkubit er sjúkdómur, en það er sjúkdómur á borð við óléttu“.30 Afkvæmið er siðmenningin með öllu því „góða“ og „fagra“ sem henni tilheyrir. Og þessi orð eru ekki í kaldhæðnislegum gæsalöppum heldur eiga þær að minna á að gott og illt, fagurt og ljótt eru ekki andstæður, heldur sögulega samtvinnuð fyrirbæri; líkt og hið fegursta tré nærist á skít og drullu. Og ljósmæður þeirrar fæðingar sem hér um ræðir eru þeir sterku andar – trúarleiðtogar, heimspekingar, vísindamenn, listamenn – sem aðhyllzt hafa „hugsjón meinlætanna“.31 Þyngst á metunum vega verk meinlætaprestsins sem beinir öfundarhatri fjöldans í nýjan farveg; hann kennir fólki að áfellast sjálft sig sem syndara í stað þess að leita sökudólga. Þannig býr hann í haginn fyrir samfélag og siðmenningu. Með því að afneita lífsöflunum hefur hann á sinn hátt stuðlað að varðveizlu lífsins, þótt þessar „mannbætandi“ aðgerðir hafi jafnframt „sýkt“ mann­skepnuna enn frekar, þ.e. aukið þjáningu hennar og sektarkennd. En hún getur afborið það vegna þess að nú hefur þjáningin öðlazt merkingu, tilgang sem þó felur í sér tómhyggjuna sjálfa: „þessi þrá eftir að losna undan sýndinni, breytingunni, verðandinni, dauðanum […] allt þetta þýðir […] andóf gegn frumskilyrðum lífsins“.32 Mikilvægi meinlætanna felst þá endanlega í því að lífs­afneitun þeirra er óhjákvæmilegur undanfari þeirrar endurlausnar og lífsjátunar sem koma skal.

Fjórði dilkurinn sem ég vil draga siðagagnrýni Nietzsches í er siðferðilegur. Ég nefni þennan þátt sérstaklega til þess að það sé skýrt að þótt Nietzsche greini siðferðið alltaf í tengslum við sögulega, félagslega og sálfræðilega þætti, þá liggja líka „hrein“ siðferðileg sjónarmið gagnrýni hans til grundvallar. Þetta felst í orðum hans þegar hann lýsir verkefni sínu í Sifjafræði siðferðisins:33

Við skulum orða hina nýju kröfu: við þörfnumst gagnrýni siðferðilegra gilda, spyrja verður um gildi þessara gilda – og til þess þarf þekkingu á þeim skilyrðum og aðstæðum sem þau eru sprottin af […]. Menn hafa tekið gildi þessara „gilda“ sem gefið, sem staðreynd hafna yfir allan vafa; menn hafa hingað til aldrei efazt um eða hikað við […] að telja „hinn góða“ meira virði en „hinn illa“, meira virði í þeirri merkingu að hafa stuðlað að framför og farsæld mannsins almennt (þar á meðal framtíð hans).34

Síðar gefur Nietzsche í skyn að með árásum sínum á siðferðið sé hann að styrkja stoðir þess: „Hvort við siðleysingjar gerum dygðinni mein? – Jafn lítið og stjórnleysingjarnir furstunum. Fyrst eftir að farið var að skjóta á þá sitja þeir aftur öruggir í hásæti sínu. Boðskapur: það verður að skjóta á siðferðið“.35 Að baki rannsókn Nietzsches á uppruna siðferðisins er sú sannfæring að siðmenningin búi manninum ekki lífvænleg þroskaskilyrði, heldur ali hún á smásálarskap, andleysi og meðalmennsku. Þróun þrælasiðferðisins hefur leitt til „hins síðasta manns“ sem á sér engar æðri hugsjónir en að „hafa það gott“ og vera „eins og fólk er flest“; ekkert er fjarri honum en að skapa sitt eigið líf. Þótt siðagagnrýni Nietzsches sé einstök í sögu siðfræðinnar og feli í sér mikla áfellisdóma yfir mörgum merkustu fulltrúa hennar, þá er ákveðin „klassísk“ manngildishugsjón um sterka skapandi einstaklinga rauður þráður í verkum hans. Sérstaða hans felst fremur í róttækri sýn hans á skilyrði þess að hún geti orðið að veruleika.

Hinn siðferðilegi þáttur í greiningu Nietzsches kemur þó skýrast fram í ítrekuðum ásökunum um blekkingu, lygi og óheilindi sem gegnsýri siðmenninguna. Oft er hann uppfullur af vandlætingu „siðleysingjans“ gagnvart siðferðilegri hræsni. Einn afdrifaríkasti fylgifiskur þrælasiðferðis að hans mati er að það elur á tvískinnungi sem varla er svigrúm fyrir í einföldum hugarheimi höfðingjans.36, en greinina er að finna í þessu ritgerðarsafni. Í ljósi þessa má einnig hugsa um muninn á hetjum Íslendingasagna og framkomu yfirvegaðra manna á borð við Snorra goða og Snorra Sturluson sem Helgi Þorláksson skrifar um í grein sinni „Snorri goði og Snorri Sturluson“. Í stað þeirrar félagslegu fjarlægðar og mannamunar sem nærir hugtakakerfi höfðingja­siðferðisins byggist þrælasiðferðið á þeirri „fjarlægð“ sem siðfræðileg yfirbygging skapar á milli orða og gerða, hátternis og hugmynda. Hér gegnir rökhugsunin eða yfirvegunin sem þræla­siðurinn elur á lykilhlutverki. Hún veitir mönnum svigrúm til þess að beita siðferðinu fyrir sig sem tæki, bregða því yfir sig eins og skikkju, eða hafa það að yfirvarpi með einhverjum hætti. Í öllu falli leikur þrælasiðferðið á því bili sem myndast milli sýndar og reyndar, meðan höfðinginn er einhamur og kann ekki að leika tveimur skjöldum. Hjá honum eru esse og operari eitt, eins og Nietzsche orðar það, hann birtist fullkomlega í athöfnum sínum. Um hinn siðfræðilega meðvitaða mann þrælasiðferðisins segir Nietzsche aftur á móti á einum stað:

Siðapostular þurfa að hafa á sér yfirbragð dygðarinnar, einnig yfirbragð sannleikans, þeir gera þá fyrst mistök þegar dygðin nær tökum á þeim, þegar þeir missa tökin á dygðinni og verða sjálfir siðferðisverur, verða sannir. Eitt af því sem góður siðapostuli þarf að hafa til að bera eru miklir leikhæfileikar; áhættan sem hann tekur er að leiktilburðirnir verði honum óvart eiginlegir, því það er guðleg hugsjón hans að halda eðli sínu og athöfnum aðskildum.37

Framan af var krafa um algjöra hreinskilni að baki allri siðagagnrýni Nietzsches. Síðar sá hann að þessi krafa hvílir á þeirri frumspekilegu trú að hægt sé að sleppa undan blekkingunni og hafa fastan siðferðisgrunn undir fótum.38 Hreinskilni getur samt sem áður falizt í því að viðurkenna takmarkanir eigin túlkana, horfast í augu við söguna, lífið og náttúruna og flýja þau ekki á náðir falskra en þægilegri heimstúlkana. Einungis með því að viðurkenna blekkinguna sem óhjákvæmilegan þátt allrar túlkunar geta menn orðið vinir sannleikans39 – því hann er processus in infinitum – óendanlegt sköpunarferli. Gildi þess verður á endanum metið af því hvernig það býr í haginn fyrir mannlífið og viljann til valds.40 Hinir frjálsu andar trúa ekki á Sannleikann heldur fjölbreytileika sjónarhorna: „því fleiri hvötum sem við leyfum að tjá sig um hvert atriði, því fleiri augu, ólík augu, sem við höfum til að skoða hvern hlut, þeim mun fyllra verður „hugtak“ okkar um þann hlut, þeim mun meiri „hlutlægni“.41 Þessi hugmynd um ástríðufulla hlutlægni gefur einhverja vísbendingu um það hvað felst í því að endurmeta grundvöll allra gilda. Spyrja þarf: hvers konar tilvistarverkefni er nauðsynlegt til að gera þessa túlkunarsýn að veruleika?

Viðurkenning á því hver við erum er forsenda þess að við getum tekizt á við líf okkar af gleði og heilindum. En eftir aldalanga sögu þrælasiðferðis og villandi heimstúlkana er slíkt ekki á hvers manns færi. Þetta er ofurmannlegt verkefni og til þess að ýja að einkennum þess verður að segja nokkur orð um ofurmennið, þá hugsýn Nietzsches sem svo margir hræðast og er líklega það hugtak hans sem mestum misskilningi hefur valdið – og er þá mikið sagt.

5. Ofurmennið

Ég sagði í upphafi að hugmyndir Nietzsches um höfðingja og þræl væru fræðilegar ímyndir er draga fram dæmigerð einkenni tiltekins fyrirbæris sem þarf þó ekki að eiga sér stað í hreinni mynd neins staðar í veruleikanum. Nú segi ég það sama um ofurmennið. Að öðru leyti er staða ofurmennisins aftur á móti öll önnur en staða höfðingjans og þrælsins í siðfræði Nietzsches. Þau síðarnefndu eru greiningarhugtök, túlkunarlyklar sem gera honum kleift að sjá sögu mannlegs siðferðis undir sjónarhorni sem hefur verið algjörlega vanmetið í sögu siðfræðinnar. Og þótt hann hafi þau til marks um heilnæmar og sjúklegar rætur siðferðis fer því fjarri að hann sé að boða höfðingjasiðferði en fordæma þrælasiðferði. Þó að Nietzsche beri virðingu fyrir höfðingjasiðferði þá gerir hann sér auðvitað ljóst að það er afsprengi tiltekinna samfélaga sem eru liðin undir lok. Og þótt hann fari oft niðrandi orðum um þrælasiðferði þá sýnir greining hans jafnframt að það er vagga vestrænnar menningar og þar með þeirra verðmæta sem hún hefur skilað af sér. Nietzsche veit vel að hann er sjálfur afsprengi þrælasiðferðis og hann ætlar sér ekki þá dul að komast aftur fyrir það með neinum hætti. Harðskeyttur og sjónarhyrndur stíll Nietzsches gefur stundum annað í skyn, en þegar öllu er til skila haldið þá mælir söguleg „díalektísk“ greining hans alfarið gegn slíkri túlkun.42

Sifjafræði siðferðisins er gott dæmi um það sem Nietzsche kallar að „stunda heimspeki með hamri“. Hamarinn sem hann nefnir er ekki slaghamar eða sleggja heldur eins konar tónkvísl sem Nietzsche drepur á innviði menningarinnar til að hlusta eftir því hvort þeir séu traustar stoðir eða fúnar.43 Heimspekin um ofurmennið er annars eðlis. Hún horfir til framtíðar og gegnir lykilhlutverki í því áformi hans að endurmeta grundvöll allra gilda. Zaraþústra kveðst boða ofurmennið: „Maðurinn er reipi strengt á milli dýrs og ofurmennis – reipi yfir hyldýpi“, segir hann í inngangi sínum (4). Ein leið til þess að túlka þessa líkingu er að líta svo á að ofurmennið sé líkt og markmið sem manneskjan geti stefnt að, jafnt í sögulegum sem persónusögulegum skilningi. Dýrið, sem um ræðir, getur þá vísað hvort heldur er til höfðingjans, sem hömlur hjarðmenningar hafa ekki verið lagðar á, eða til þeirrar náttúruveru sem manneskjan er í frumbernsku. Maðurinn stendur aftur á móti fyrir hjarðmennið, afkvæmi þrælasiðferðis, og það er stig sem allir verða að feta eigi þeir að ná því marki sem ofurmennið er. Ofurmennið er því óhugsandi án milligöngu þeirrar siðunar sem er afsprengi þrælasiðferðis, enda ekki sízt ætlað það hlutverk að yfirvinna tómhyggju þess. Það er því afar villandi að leggja ofurmennið á nokkurn hátt að jöfnu við höfðingjann, þótt óneitanlega sé mikilvægur skyldleiki með þeim. Megin­munurinn felst í því að ofurmennið er siðmenntuð vera („hinn rómverski Sesar með sál Krists“44), en höfðinginn er á mörkum náttúru og menningar, og á það til að haga sér eins og hálfgerður villimaður frá sjónarmiði nútímamanna.45

Ofurmennið dregur alls ekki dám af taumleysi höfðingjans,46 siðmenningin hefur séð honum fyrir taumhaldi, heldur líkist honum í heilindum, sjálfsvirðingu og sjálfsframlagi. Þess vegna minnist Nietzsche líka oft á börn þegar hann lýsir hugsjón sinni. „Þroski manns: það er að hafa endurheimt alvöruna sem maður bjó yfir sem barn, að leik“, segir hann í einum orðskviða sinna.47 Við fyrstu sýn kemur á óvart að Nietzsche skuli tala hér um alvöru því alvörugefni er eitt af því sem sligar bældan þrælinn. En áhyggjublandin alvörugefni er annars eðlis en barnsleg alvara leiksins sem vekur einkum upp hugmyndir um algjöra og undanbragðalausa sjálfstjáningu. Áhyggjuleysi og ekki sízt sak-leysi heilbrigðs barns gerir því kleift að gleyma sér í leiknum og njóta stundarinnar í kátri alvöru. Þessi leikgleði er því algjör andstæða tómhyggjunnar sem getur ekki fellt sig við lífið eins og það er. Hin barnslega afstaða gerir mönnum kleift að sættast við óreiðu heimsins og skapa úr henni nýjan heim. Í Svo mælti Zaraþústra er barnið hæsta stigið í „þremur myndbreytingum andans“. Fyrsta stigið er kameldýr, sem líkt og þrællinn tekur möglunarlaust á sig ok siðmenningarinnar. Annað stigið er ljónið sem hristir af sér alla hlekki og kveður „heilagt Nei“ við boðum og bönnum. En þriðja stigið er barnið sem gefur lífinu ný gildi í skapandi játningu: „Heilagt „Já“, bræður mínir, er nauðsynlegt fyrir leik sköpunarinnar: nú vill andinn sinn eigin vilja, og sá sem hafði glatazt heiminum, vinnur nú sinn eigin heim“.48

Það er fleira athyglisvert við leikinn sem Nietzsche verður tíðrætt um í verkum sínum.49 Leikur er þess eðlis að maður verður að gefa sig allan í hann og hreyfingum hans – maður stjórnar honum ekki en er farvegur hans með einlægri þátttöku. Lífið sjálft hefur svipaða eiginleika. Sú verðmætasköpun sem er kjarninn í endurmati allra gilda er því ekki gerræðislegur tilbúningur einstaklingsins, heldur lýtur hún lífinu sjálfu. Einstaklingurinn gefur lífi sínu gildi með því að fagna forgengileika og óvissu lífsins. Hin káta alvara í lífsins leik birtist í formi þess sem Nietzsche kallar amor fati:

Forskrift mín að mikilleik manneskjunnar er amor fati: að maður vilji ekkert öðru vísi en það er – hvorki fram á við né aftur á bak, aldrei að eilífu. Ekki bara að láta sig hafa það, ennþá síður að hylma yfir það […], heldur elska það.50

Styrkur manns og stórmennska birtist sem sé í því að elska örlög sín – kveða já við tilvistarkjörum sínum. Nátengd þessu er hugmynd Nietzsches um eilífa endurkomu hins sama. Hún virðist vera í senn frumspekileg kenning um eilífa hringrás veruleikans og siðferðilegur prófsteinn á sálarstyrk manna. Sá sem elskar örlög sín getur viljað að allt endurtaki sig eða komi aftur – ekki sízt hans eigið hversdagslega líf. Þetta verður ofurmenninu hvatning til að líta á líf sitt sem listaverk sem á að geta staðið um aldur og ævi.

En hvernig fer það saman að tala um örlög og list – nauðsyn og sköpun? Nietzsche segir í einu orðinu að menn eigi að sætta sig við það og gleðjast yfir því sem þeir fá ekki breytt og í hinu orðinu hvetur hann þá til þess að vinna að sjálfum sér. Að vísu segir hann heimspeki skraddarans, „fötin skapa manninn“, eiga við um flesta, en í undantekningartilvikum skapi maðurinn fötin.51 Slíkar undantekningar eru ofurmenni sem hafa tileinkað sér þá „miklu og sjaldgæfu list“ að móta skapgerð sína, eins og Nietzsche kemst að orði.52 Það gera þeir með því að kynnast veikleikum sínum og styrk, berja smátt og smátt í skapgerðarbrestina og virkja krafta sína í þágu lífsins. Þetta verður einungis gert með þrotlausri vinnu og daglegum aga en uppskeran er heilbrigð sjálfsánægja, sjálfsþekking og sjálfsvirðing. Og sé nokkurt eitt atriði nauðsynlegt manneskjunni þá er það sjálfsánægja. Því „sá sem er óánægður með sjálfan sig“, segir Nietzsche, „er ávallt reiðubúinn að hefna sín, og við hin verðum fórnarlömb hans“.53 Hér er því um það að ræða að sigrast á öfundarhatrinu sem eitrar þrælslundina – að öðlast ávinning frelsisins. „Bara að ég væri einhver annar“, andvarpar hallokinn sem þjáist yfir lífinu.54 En styrkur ofurmennisins felst ekki sízt í því að sættast við eigin veikleika og vilja ekki vera „öðruvísi“.55 Að geta elskað örlög sín er þannig lykillinn að því að geta elskað sjálfan sig. Jafnframt er amor fati forsenda mannlegs frelsis, því frelsið er sjálfsstjórn sem ekki verður náð fyrr en einstaklingurinn hefur áttað sig á takmörkunum sínum og viðurkennt þau öfl sem eru að verki í honum. Þá fyrst getur hann virkjað mátt sinn til að hafa áhrif á það eina sem hann getur breytt, sem er hann sjálfur. En með því að breyta sér hefur hann í raun áhrif á allan heiminn því farvegur veruleikans verður annar í honum sjálfum.

Einhverjum kann nú að finnast að vígtennurnar hafi verið dregnar úr ofurmenninu – hvað með viljann til valds? Ég hef einmitt verið að lýsa honum. Æðsta stig viljans til valds er að öðlast vald yfir sjálfum sér. Ofurmennið leggur ekki hald á neitt, sigrar ekkert nema sjálfan sig.56 Nietzsche er því sammála spakmælinu: „Sá sem sigrar sjálfan sig er meiri en sá sem sigrar borgir.“ Höfðinginn státar sig af valdi sínu yfir öðrum og fótumtreður óvini sína ef honum sýnist svo. Hann beinir hvötum sínum út á við án siðferðilegra takmarkana. Þrællinn hefur bælt niður árásargjarnar hvatir sínar en beinir þeim gegn sjálfum sér í sektarkennd og sjálfsásökunum sem eitra jafnframt afstöðu hans til annarra. Ofurmennið aftur á móti hefur göfgað lífsöfl sín og veitir þeim út í umhverfið á markvissan hátt.57 Hann þarf engum að lúta eða þóknast, heldur einbeitir sér að mótun eigin skapgerðar. Sjálfsánægja hans er ekki háð afstöðu hans til nokkurs annars; hún er sjálfstæður ávinningur þess sem hefur tileinkað sér listina að lifa. Sjálfsstjórnin næst með því að beina öllum kröftum sínum að andránni – fagna henni en fárast ekki yfir því sem var eða því sem verður. Andráin verður þannig brennipunktur viljans til valds; með því að vilja eilíflega allt eins og það er safnar ofurmennið kröftum sínum saman í sköpunarverk líðandi stundar. Þannig sigrast ofurmennið á sálfræðilegum og frumspekilegum takmörkunum þrælasiðarins, virkjar lífsöfl sín til skapandi verka og lifir glaður við óreiðu veruleikans. Hann hefur því sigrazt á menninu, stigið yfir það, orðið ofur-menni.

6. Tímanleiki og tilvistarvandi

Það er tilvistarverkefni ofurmennisins að sigrast á óánægju mannsins. Þessi óánægja á sér margar rætur en sú dýpsta liggur í þeirri staðreynd að maðurinn er tímanleg, söguleg vera. Dýrið er áhyggjulaust vegna þess að það lifir ekki í tíma. Um leið og maðurinn, fyrir tilstilli tungu­málsins, öðlast olnbogarými í náttúrunni verður hann sjálfum sér að áhyggjuefni – sektarkennd vegna hins liðna og kvíði fyrir hinu óorðna setjast að. Í viðleitni sinni til að létta af sér oki óánægjunnar leitast menn án afláts við að „gleyma sér“ í verkefnum sínum sem miða öll að því að umbreyta og afneita því sem er. Neyzlusamfélagið og tæknimenningin nærast á þessum tilburðum mannsins við að snúast gegn vansæld sinni. En þetta er vonlaus viðleitni. Menn heimta látlaust eitthvað nýtt og öðruvísi, en hamingjan verður handan við hornið. Og í grunninum er þetta tómhyggja því maðurinn er ósáttur við veru sína. Eina færa leiðin til að sættast við veruleikann og höndla hamingjuna er að „lifa ósögulega“ mitt í flæði tímans:

Hver sá sem ekki getur gleymt öllu því liðna og komið sér fyrir á þröskuldi augnabliksins, hver sá sem er ófær um að standa á oddi eins og sigurgyðja án svima eða lofthræðslu, mun aldrei vita hvað hamingja er, og það sem verra er, mun aldrei gera neitt sem stuðlar að hamingju annarra.58

Þetta er galdurinn í lífernislist ofurmennisins. Sá sem elskar örlög sín og vill eilífa endurtekningu hins sama hefur létt af sér oki óánægjunnar og fagnar tímanleika sínum. Í Svo mælti Zaraþústra er líka kafli um „frjálsan dauða“ sem hefst með orðunum: „Deyðu á réttum tíma“.59 Mér virðist þessi hugmynd falla vel að túlkun minni á lífernislist ofurmennisins. Að elska örlög sín og takmarkanir er ekki sízt að sætta sig við eigin dauðleika. Og að lifa þannig á hverri stundu að maður geti hugsað sér hana endurtekna um alla eilífð er sama hugmynd og að lifa á réttum tíma. Í hugsun Nietzsches felst að þeir sem ekki geti lifað á réttum tíma geti ekki heldur dáið á réttum tíma. Dauðinn kemur þeim alltaf að óvörum því þeir eru ósáttir. Lausnin liggur ekki í því að lifa í voninni um annað líf heldur í því að fagna jarðlífinu sjálfu. Það geta þeir ekki nema í þeirri djúpstæðu sátt við sjálfa sig sem einkennir ofurmennið. Að öðrum kosti lifa þeir í „sygdommen til døden“, eins og Søren Kierkegaard orðaði það.

Það er reyndar athyglisvert að bera saman Nietzsche og Kierkegaard að þessu leyti. Óhætt er að segja að þessir höfundar fáist einkum við tilvistarvanda mannsins og þótt þeir greini hann á ólíka vegu þá gegnir tímanleikinn lykilhlutverki hjá þeim báðum. Hjá Kierkegaard kemur þetta atriði hvað bezt fram í hugtaki hans endurtekningunni, sem hann segir frá í samnefndri bók:

Satt að segja veitir ástin í endurtekningunni ein hamingju. Fremur en endurminningunni fylgir henni hvorki eirðarleysi vonarinnar né kvíði ævintýralegrar uppgötvunar, en henni fylgir ekki heldur angurværð endurminningarinnar: hennar er hið sæla öryggi andartaksins. […] Og sá einn verður hamingjusamur, sem ekki blekkir sjálfan sig með því að halda, að endurtekningin sé eitthvað nýtt. Haldi hann það, verður hann leiður á henni. Æskan vonar og æskan minnist, en til að vilja endurtekninguna þarf kjark. Sá, sem aðeins vill vona, er huglaus; sá, sem aðeins vill minnast, er makráður; en sá, sem vill endurtekninguna, er manneskja.60

Sú hugsun sem hér er á ferðinni er að mínu mati náskyld þeirri sem ég hef verið reifa í tengslum við lífernislist ofurmennisins, þótt forsendur Kierkegaards og Nietzsches séu gerólíkar. Fyrir Kierkegaard er það að lifa í endurtekningunni líf á trúarlegu tilverustigi fyrir náð eða kraft Guðs. Sá sem lifir í endurtekningunni hefur sigrazt á hverflyndi fagurkerans og alvörugefnum sjálfbirgings­hætti hins siðferðilega stigs. Lífsmáti fagurkerans getur verið með tvennum hætti. Hann getur verið flysjungur sem stjórnast af ást á hinu einstaka og leitar síendurtekinnar fullnægingar í unaðssemdum lífsins. Hann getur líka verið fræðilegur hugsuður eða gruflari sem gælir við hugmyndir án þess að tileinka sér þær í lífi sínu. Í báðum tilvikum er hann líkt og áhorfandi að lífinu en gefur sig því ekki á vald, skuldbindur sig ekki og forðast umfram allt að takast á við sjálfan sig. Hinn siðferðilegi einstaklingur aftur á móti festir ráð sitt í hinu almenna og gengst, líkt og hjarðmenni Nietzsches, undir þær skuldbindingar sem félagsleg hlutverk hans leggja honum á herðar.

Hér er ekki ráðrúm til að rekja þessar hugmyndir Kierkegaards, enda meginatriðið að benda á að takmarkanir þessara tilverustiga felast fyrst og fremst í því að þau fullnægja ekki manneskjunni. Það er alþekkt að menn tapi sjálfum sér í fáfengilegri eftirsókn eftir stundlegum gæðum og það er líka algengt að menn flýi ábyrgðina á eigin lífi inn í heim hugmyndanna, t.d siðfræðilegra og guðfræðilegra kenninga. Þýlyndi við hefðir, reglur og siði samfélagsins undir formerkjum siðferðilegrar ábyrgðar er ekki heldur traustur grunnur að byggja líf sitt á. Menn geta kollsiglt lífi sínu bæði innan marka hins fagurfræðilega og hins siðferðilega tilverustigs og þá reynir á möguleika endurtekningarinnar:

Þegar tilverunni er kollsiglt, mun koma í ljós, hvort maðurinn hefur kjark til þess að skilja, að lífið er endurtekning, og löngun til þess að hlakka til hennar. Sá, sem ekki kollsigldi lífi sínu, áður en hann tók að lifa, mun aldrei lifa. Sá, sem kollsigldi því, en fékk nóg, er illa farinn. Sá, sem valdi endurtekninguna, lifir.61

En hvað þýðir það að velja endurtekninguna? Lykilinn að henni er líkast til að finna í orðum Krists um að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Það þýðir að beina kröftum sínum að líðandi stund, njóta hennar og /eða nýta hana, allt eftir þeim verkefnum sem við blasa. „Sá, sem vill endurtekninguna, hefur þroskazt í alvörunni“, segir Kierkegaard í Endurtekningunni.62 Líkast til er það sama barnslega alvaran og hann í Ugg og ótta kallar – nánast með sömu orðum og Nietzsche – „hina elskulegu alvöru sem heyrir leiknum til“.63 Að vilja endurtekninguna er þá að takast á við lífið af einlægni og heilindum – falla hvorki í freistni vona né endurminninga.64 Ástin er aðeins í endurtekningunni, því hún er ævarandi verkefni sem er alltaf hér og nú, er hvorki hægt að ljúka né fresta. Kærleikurinn, sem Kristur boðaði, leyfir engin undanbrögð frá líðandi stund. Sá sem vill verða farvegur Guðs þarf að einbeita sér að andránni sem eilíft endurtekur sig. Þannig þjónar hann lífinu á vettvangi dagsins og semur sig í sátt við það.

Hætt er við að Nietzsche yrði bumbult af þessari samlíkingu, enda er kjarninn í lausn Kierkegaards trúin á hjálpræði Jesú Krists sem Nietzsche hafnaði, að því er virðist af innstu sannfæringu.65 Þar með er ekki sagt að hugsun Nietzsches sé ekki á trúarlegu stigi. Hann bendir á að raunsæi allra helztu trúarbragða mannkyns komi fram í því sameiginlega viðhorfi þeirra að „endurlausnin“ sé ekki fólgin í siðferðilegri dygð.66 Á köflum birtist ofurmennið í hlutverki endurlausnara sem Nietzsche boðar og vonast eftir:

Þessi maður framtíðarinnar sem mun ekki einasta endurleysa okkur frá þeim hugsjónum sem ríkt hafa hingað til, heldur einnig frá því sem hlaut að spretta af þeim, hinni miklu ógleði, viljanum til einskis, tómhyggjunni; þessi klukknahjómur hádegis og hinnar miklu ákvörðunar sem frelsar viljann aftur og endurheimtir jarðleg markmið hans og von hans fyrir manninn; þessi Andkristur og andníhilisti; þessi sigurvegari yfir Guði og tóminu – hann hlýtur að koma einhvern daginn.67

Þessi „díonýsíska“ trú hafnar algjörlega hinni kristnu hugmynd um „fyllingu tímans“ og þann æðri tilgang sem guðdómurinn gefur fyrirheit um. Samkvæmt kristnu gildismati má líta á eilífa endurkomu hins sama sem hámark tilgangsleysisins, en ofurmennið er reiðubúið að takast á við hana af dýpstu gleði. Sú eilífð sem ofurmennið fagnar með amor fati er því öll önnur en sú eilífð sem riddari trúarinnar öðlast hlutdeild í með endurtekningunni. Sá síðarnefndi hefur tekið undir sig „stökk trúarinnar“ út yfir þau jarðlegu mörk sem Nietzsche telur nauðsynlegt og rétt að halda sig innan. Þar að auki telur hann að „Guðleysi og eins konar endurheimt sakleysi fari saman“.68 Riddari trúarinnar lifir glaður í voninni, að kristilegum hætti, en ofurmennið gleðst yfir því sem er.

En einmitt vegna þessa afgerandi munar á kenningum Kierkegaards og Nietzsches sker í augu hversu keimlíkir hugsuðir þeir eru á margan hátt. Þótt hugmyndir þeirra hafi oft verið bornar saman þá held ég að mönnum hafi yfirsézt það sem mestu skiptir í siðferðishugsun þeirra beggja. Til dæmis heldur Alasdair MacIntyre því fram að þeir Nietzsche og Kierkegaard hafi hvor með sínum hætti sett fram skörpustu gagnrýnina á það áform Upplýsingarinnar að réttlæta siðferðið með rökum skynseminnar.69 Þeir hafi hvor í sínu lagi og hvor á sinn hátt sýnt fram á að þetta áform hafi verið dæmt til að mistakast því siðferðið verði að þeirra mati alls ekki á rökum reist heldur hvíli það á órökvísu vali eða vilja einstaklingsins. Einstaklingurinn verði einn og óstuddur að takast á við það verkefni að skapa sjálfan sig, án þess að beygja sig fyrir viðteknum siðferðiskröfum. Þess vegna boði báðir mikilvægi þess að einstaklingurinn lifi sem undan­tekning.

Ýmsum stoðum má renna undir þetta viðhorf MacIntyres, en mér sýnist það samt ekki vænlegt til skilnings á hugmyndum Nietzsches og Kierkegaards. Ég held að það sé nánast aukaatriði fyrir þeim báðum hvort hægt sé að réttlæta eða grundvalla siðferðisdóma með rökum skynseminnar. Því jafnvel þótt það sé hægt og það sé gert, er allt eftir sem máli skiptir fyrir mannlegt siðferði – og það er að vera heil manneskja. Það verkefni verða menn að takast á við á lífsleiðinni, hvort sem einhver siðfræði er til eða ekki. Raunar getur siðfræðin flækzt fyrir mönnum eins og Aristóteles benti á. Mönnum hættir til að draga sig inn í skel fræðanna og telja sig stunda heimspeki með orðunum einum:

ekki ósvipað sjúklingi sem leggur eyrun við orðum læknis en gegnir engu. Eins og þeir verða ekki heilir á líkama sem þannig hlynna að sér, verða þeir ekki heilir á sálinni sem ástunda slíka heim­speki.70

Í viðleitninni til þess að verða heilsteypt manneskja eru það rök mannlífsins sem gilda, lífssaga einstaklingsins frá bernsku til manns. Markmiðið er sálarheill einstaklingsins og hún er viðfangs­efni lífsspeki þeirra Kierkegaards og Nietzsches. Hvor með sínum hætti eru þeir uppteknir af sektarkennd og lífsþjáningu manneskjunnar. Það er eflaust engin tilviljun að þeir áttu báðir við vanheilsu og sálarháska að stríða, enda verður þeim tíðrætt um sjúkdóma og heilbrigði. Nietzsche segir berum orðum að vilji hans til lífs og heilsu hafi orðið honum að heimspeki.71 Hann sjúkdómsgreinir þrælasiðferðið og ætlar ofurmenninu það hlutverk að hleypa heilnæmu lofti inn í vistarverur vestrænnar menningar.72 Kierkegaard skrifaði um sjúkdóminn til dauðans, örvæntinguna og hugsýkina, sem einungis trúarlegur tilvistarháttur á lyf við. Endurtekningin og amor fati eru því hvor tveggja hugsuð sem læknisráð. Riddari trúarinnar og ofurmennið hafa endurheimt heilsu sína og heilindi, tíminn læknar sár þeirra í þeim sérstaka skilningi sem ég hef haldið hér fram. Með því að dansa á nálaroddi augnabliksins mitt í óvissu tilverunnar una báðir barnslega glaðir við sitt.

7. Samkennd og sjálfssköpun

Siðferðishugsun Nietzsches verður því að skilja í ljósi þess að henni er ætlað að hafa meðferðar­gildi öðru fremur, gera mann heilan.73 Þessi þáttur siðfræðinnar var veigamikill til forna, sérstak­lega í lífsspeki epíkúringa og stóumanna,74 en hefur verið vanræktur í siðfræði síðari tíma. Í stóuspeki felst líknin í því að láta af tilburðum til að stjórna því sem maður ræður ekki við og virkja þá krafta sem maður ræður yfir til dygðugs lífernis. Þannig byggja menn upp heilbrigðan grunn til að standa á í lífinu, öðlast sjálfsvirðingu og sálarheill sem er undirstaða allra góðra verka. Og orð þrælsins Epiktets um þroska mannsins hljóma eins og uppskrift að hinu sak-lausa ofurmenni Nietzsches:

Vanþroska maður þekkist af því, að hann sakar aðra um, ef honum farnast miður. Sá sem áfellist sjálfan sig, er kominn nokkuð áleiðis, en sannmenntaður maður ber hvorki sjálfan sig né aðra sökum.75

En kenning Nietzsches um ofurmennið hefði ekki orðið mönnum jafn óljúf og raun ber vitni ef það væri eingöngu glaðvær stóískur vitringur. Hann á sér líka harða og hrokafulla hlið sem er nánast andstæða æðruleysis og auðmýktar stóíkans.76 Í heimspeki Nietzsches er heldur ekkert æðra lögmál eða máttur sem einstaklingurinn á að lúta, eins og í kristni og stóuspeki; öðru nær. Ofurmennið verður hins vegar að viðurkenna lífsöflin sem hann er og virkja þau í sína eigin þjónustu. Eitt meginstef Nietzsches er miskunnarlaus gagnrýni á siðferði sem svipti manninn sjálfi sínu (Entselbstungs-Moral) og hann telur kristið siðferði gera einmitt þetta. Hann sér aftur á móti í klassískri siðfræði, þar á meðal hjá Epiktet77, upphefð sjálfsins. Einn magnaðasti óður til hins stolta einstaklings er í Siðfræði Nikomakkosar. Lýsing Aristótelesar á hinum mikilláta manni eða stórsálinni,megalopsychia, hefur án efa orðið Nietzsche til fyrirmyndar:

Nú virðist maður vera mikillátur sem er verðugur og telur sjálfan sig mikils verðan. […] Hinn mikilláti sýnir réttmæta fyrirlitningu (því skoðun hans er samkvæm sannleikanum) […] Hann verður einnig að vera opinskár í vináttu sinni og fjandskap (því launung er til marks um ótta, að hirða minna um sannleikann en álit annarra), og tala og framkvæma fyrir opnum tjöldum. Hann talar tæpitungulaust af því hann fyrirlítur annað fólk og er sannsögull nema þegar hann hæðist að fjöldanum.78

Stolt og verðskulduð sjálfselska eru aðalsmerki stórmennis Aristótelesar. En hann mælir þó alls ekki með því sem almennri reglu að menn elski sjálfa sig, því eigingirni smásálna er öllum til óþurftar. Enn fjarri Aristótelesi er að hvetja menn til að elska náungann án þess að fara í mann­greinarálit. Sönn vinátta verður einungis byggð á sjálfselsku og sjálfsvirðingu göfugra manna.

Nietzsche talar oft í þessum aristótelíska anda, en á sinn sérstaka hátt: „Gildi sjálfselskunnar veltur á lífeðlisfræðilegu gildi þess sem er haldinn henni: hún getur verið mjög verðmæt, hún getur verið fánýt og fyrirlitleg“.79 Hann segir líka að stórsálin birtist í mikilfengleika andans því hann feli í sér sjálfstæði. En sjálfstæði smásálna ætti ekki að leyfa, því það sé skaðlegt „jafnvel þegar þær leitast við að gera gott og ástunda „réttlæti““.80 Þessu fylgir sú hugmynd að einungis sumir einstaklingar, ofurmenni, hafi gildi í sjálfum sér. Athafnir hafa sem slíkar ekki sjálfstætt siðferðisgildi, heldur ræðst það af gerandanum. Eins og Philippa Foot hefur bent á, brýtur þetta í bága við réttlæti „sem varðar allt það sem ein persóna á að gjalda annarri – sem bannar athafnir eins og morð, pyndingar og þrælkun og dæmir þá illmenni sem framkvæma þær“.81 Þetta ber ekki að skilja sem svo að Nietzsche sé á nokkurn hátt meðmæltur slíkum athöfnum, einungis að kenning hans hafni þeim skilningi á réttlæti sem gengur útfrá ófrávíkjanlegum skyldum sérhvers gagnvart öllum. Í kenningu Nietzsches er engin virðing fyrir manneskjunni sem slíkri – miklu fremur fyrirlitning á slíkum hugmyndum vegna þess hvernig þær séu til komnar. Að hans mati geta sterkir einstaklingar einungis borið virðingu fyrir sínum líkum en í bezta falli umborið aðra.

Afstaða Nietzsches gengur því þvert á þá siðferðilegu kröfu að manneskjunni sé sýnd virðing óháð tilteknum eiginleikum. Að þessu leyti fellur kenning hans um ofurmennið betur að fagur­fræðilegum viðmiðunum en siðfræðilegum. Líkt og Kierkegaard hóf hið siðferðilega upp á hærra stig í trúarlegu líferni, þá hefur Nietzsche hið siðferðilega upp á æðra stig í „estetík“ ofur­mennisins. Hjá Kierkegaard víkja almenn siðaboð fyrir kröfum trúarinnar, en Nietzsche hafnar þeim vegna þess að þau hefti sköpunarkraft hinna frjálsu anda. Markmið ofurmennisins er vægðarlaus sjálfssköpun. Hann verður að rífa sig lausan frá almennu siðferði svo að hann einn sé höfundur lífs síns; tilhugsunin um að vera borinn uppi af sameiginlegri siðmenningu er honum óþolandi.82 Að þessu leyti er sjálfshyggja hans algjör og hann nýtur þess að dramba í dygðum sínum: „hugrekki, innsæi, samkennd og einmanaleika“.83 Það er athyglisvert að sam­kenndin sé meðal hinna eðlu dygða, og varla hægt að túlka hana þannig að hún nái til allra jafnt. Um afstöðuna til almennings hefði Nietzsche sjálfsagt tekið undir með Jónasi frá Hriflu: „Eina bjarglega leiðin er að fyrirlíta manneskjurnar, en þykja þó vænt um þær.“84

Kenning Nietzsches felur því ekki í sér lífvænlega leiðsögn í samfélagslegum efnum; þar er engin ábyrg siðfræði samkenndar og gagnkvæmrar virðingar. Það er ein afleiðing hinnar einsýnu höfnunar hans á kristinni arfleifð; með henni sturtar hann niður á einu bretti lýðræði og félagslegu réttlæti. Hér virðist mér birtast ein af fjölmörgum mótsögnum í heimspeki Nietzsches sem hann reynir á engan hátt að leysa. Maður skyldi ætla að „jáið“ við fjölbreytni og margbreytileika eigi líka að ná til mannlífsins. En forsendur skapandi mannlífs eru hefðir lýðræðis og frelsis, eins og John Stuart Mill færir rök fyrir í Frelsinu. Því þrátt fyrir að mannlífið hafi tilhneigingu til að steypast allt í sama mótið í lýðræðisríkjum þá eru hinir pólitísku innviðir þeirra nauðsynlegir til að sérvizka og sjálfssköpun geti þrifizt. Þetta er enn ein sönnun þess að þrælasiðferði býr í haginn fyrir ofurmennið. Og þrátt fyrir allt er Nietzsche sannfærður um gildi þrælasiðferðis, því hann telur það nauðsynlegt til að veita hjörðinni leiðsögn. Sjálfdæmishyggja meðal almennings er auk þess varasamt fyrirbæri í augum hans. Hinir sterku einstaklingar eiga aftur á móti tilkall til að selja sér sjálfdæmi í siðferðilegum efnum, því þeim er treystandi til að skapa.

Kenning Nietzsches býr yfir magnaðri gagnrýni á þau sögulegu og félagslegu lífsform og stofnanir sem hafa átt að tryggja framgang siðferðilegra hugsjóna. Hann afhjúpar miskunnar­laust þau öfl sem leitast við að tryggja völd sín með siðferðilegar hugmyndir að yfirvarpi. En sú sýn blindar hann á þá staðreynd að þessar sömu hugmyndir hljóta samt sem áður að vera mönnum til viðmiðunar í baráttu fyrir betra lífi öllum til handa. Sjúkdómsgreining Nietzsches á vestrænni menningu breytir engu um réttmæti þeirra siiðalögmála sem skynsemishefð hennar hefur fætt af sér.85 Heilnæmar rætur siðferðis í sálarlífi einstaklinga leysa ekki almennar siðareglur af hólmi. Því má þó aldrei gleyma að kenning Nietzsches er öðru fremur tilraun til að lýsa því einstigi sem ofurmennið verður að feta í sinni eigin sköpunarviðleitni. Og sú leið liggur ekki alltaf í sömu átt, því Nietzsche brýnir það fyrir mönnum að finna sína leið. Ofurmenni Nietzsches er sannarlega ekki „góðmenni“ í venjulegum skilningi þess orðs. En sé það okkur Ragnhildi einhver huggun, þá er næsta víst að sá einstaklingur, sem innsiglað hefur frelsið til að horfast skömmustulaust í augu við sjálfan sig, er skaðlaus öðrum – ekki vegna þess að hann sé meinlaus, heldur sterkur.

Tilvísanir

1. Ritgerðin er að stofni til fyrirlestur sem fluttur var á aðalfundi Félags áhugamanna um heimspeki 20. maí 1990, en hún birtist síðan í Skírni 167 (vor 1993), bls. 34–65. Ég færi þeim Róbert H. Haraldssyni og Sigríði Þorgeirsdóttur kærar þakkir fyrir afar gagnlegar athugasemdir sem ég tók mið af við frágang ritgerðarinnar. Einnig þakka ég Ástráði Eysteinssyni og Magnúsi D. Baldurssyni góðar ábendingar.

2. FW 275. Ekki tíðkast að vísa í blaðsíðutöl í rit Nietzsches heldur í kafla og undirkafla sem eru ýmist númeraðir eða með kaflaheitum. Þýðingar eru mínar, líka úr Handan góðs og ills (JGB). Við þýðingu á köflum úr Ragnarökkri (GD) studdist ég við þýðingardrög Garðars Ágústs Árnasonar heimspekinema. Lykil að tilvísunum í rit Nietzsches er að finna hér fyrir ofan.

3. JGB 260. Jenseits von Gut und Böse. Vorspiel einer Philosophie der Zukunft kom fyrst út 1886. Meginumfjöllun Nietzsches um höfðingja- og þrælasiðferði er þó að finna í „ádeiluriti“ sem hann birti ári síðar og nefndi Um sifjafræði siðferðisins (Zur Genealogie der Moral. Eine Streitschrift).

4. Hann tekur fram að á síðari tímum hafi þessar rætur siðferðisins meira og minna tvinnazt saman og sé jafnvel báðar að finna í sömu manneskjunni. Eitt lýsandi dæmi um slíka blöndu sýnist mér vera Jónas frá Hriflu, sbr. lýsingar samferðamanna hans í bókum Guðjóns Friðrikssonar, Með sverðið í annarri hendi og plóginn í hinni, t.d. bls. 154–55, og Dómsmálaráðherrann, t.d. bls. 279–80.

5. Óbirt erindi flutt á vegum Félags áhugamanna um heimspeki, 26. febrúar, 1977, bls. 6. Sjá einnig orðsifjagreiningu Nietzsches í GM I 5 og 10.

6. Dæmi sem Nietzsche tekur um „eðla kynþætti“ eru rómverskur, arabískur, germanskur og japanskur aðall, hómerskar hetjur og skandinavískir víkingar. Þetta eru greinilega ekki allt „ljóshærð villidýr“ í bókstaflegri merkingu, þótt Nietzsche noti það hugtak í þessu samhengi, sjá GM I 11. Sjá Arthúr Björgvin Bollason, Ljóshærða villidýrið, bls. 38–9.

7. Sigurður Nordal, Íslenzk menning I, bls. 199.

8. Sama rit, bls. 188.

9. Sama rit, bls. 195.

10. Sbr. Georg Henrik von Wright, The Varieties of Goodness.

11. GM I 2

12. GM I 10. Nietzsche talar hér um vímu og víða í verkum sínum (t.d. GM III 21) minnist hann á vínandann sem hafi eitrað Evrópu. Í Ecce homo (Af hverju ég er svona klár, 1) ráðleggur hann andans mönnum að drekka vatn.

13. GM I 11. Hér mætti minnast þess hvernig Gísli Súrsson sendir þræl sinn í opinn dauðann.

14. Þrælasiðferðið á sér fjölþættari rætur en veika samfélagsstöðu, sbr. það sem Nietzsche segir um prestastéttina (GM I 6), en hún elur líka á ressentiment í garð hinna harðskeyttu höfðingja. Mér sýnist Matthías Johannessen hafa skýrt Njálu útfrá þessari hugsun: „Í fornmáli er talað um öfundarhatur. Mörður þjáðist af því. Og þeir sem eru haldnir þessari aðþvíer virðist ólæknandi ástríðu eða meinsemd geta hvenærsem er kveikt nýja Njálsbrennu. Arfasátan er í eðli þeirra.“ Matthías telur að Mörður hafi öfundað Gunnar á Hlíðarenda „af glæsimennsku hans, orðstír og atgervi“. „Helgispjall“, Morgunblaðið, 27. september 1992.

15. Íslenzk menning I, bls. 194.

16. GM I 10.

17. NF 1885–1887, 9 [60] (KSA 12).

18. Með mismunandi stafsetningu í þessari málsgrein og víðar vil ég vekja athygli á því að dyggð er samstofna við dyggur (=trúr, hlýðinn) sem fer betur með þrælasiðferðinu heldur en dygð sem er dregið af dugur og hæfir því máttargæðum höfðingjans. Eyjólfur Kjalar Emilsson benti mér á þetta atriði.

19. Sbr. Þorstein Gylfason, Siðfræðispjall, bls. 6.

20. Rétt er að taka fram að viðhorf Nietzsches bæði til kristni og grískrar heimspeki eru margbrotin og fjarri því að hann afgreiði þau á jafn einfaldan hátt og hér er gefið í skyn.

21. GD, Sókratesarvandinn 5.

22. Sbr. orðaskipti Pólosar og Sókratesar um Arkelás Makedóníukonung; Platon, Gorgías, 470–71.

23. NF 1885–1887, 7 [54] (KSA 12).

24. Sjá t.d. ritgerð Martins Heidegger, „Nietzsches Wort ‘Gott ist tot’“.

25. Sjá umfjöllun um þessa hugmynd í ritgerðinni „Grímur manns og heims“ hér á vefnum, en hún hefur einnig birst í Broddflugum og í Nietzsche-hefti Tímarits Máls og menningar.

26. „[M]erking allrar menningar er að rándýrið „maðurinn“ er smækkaður í tamið og siðað dýr, heimalning […].“ (GM I 11).

27. Á einum stað kallar Nietzsche líkamann stóru skynsemina sem noti litlu skynsemina, andann, sem tæki og leikfang í sína þágu (Z I Um þá sem fyrirlíta líkamann).

28. Sjá nánari útfærslu á þessari hugmynd í ritgerðinni „Er manneskjan náttúrulaus?“ í þessu ritsafni, bls.

29. GM II 3. Þetta sýnir hann ekki sízt fram á með athugasemdum sínum í GM II um sögu refsinga sem ekki er tóm til að fara út í hér.

30. GM II 19.

31. Þriðja ritgerð GM er um þetta. Sjálfur lifði Nietzsche hálfgerðu meinlætalífi, sbr. Walter Kaufmann, Nietzsche. Philosopher, Psychologist, Antichrist, I hluti; og Karl Jaspers, Nietzsche. Einführung in das Verständnis seines Philosophieren, 1. bók.

32. GM III 28.

33. Sbr. einnig orð hans um merkingu tómhyggjunnar: „Að hin æðstu gildi fella sjálf gildi sitt“ (NF 1885–1887, 9[35] (KSA 12)).

34. GM Formáli 6.

35. GD Orðskviðir og örvar 36.

36. Ég ræði skylt atriði í síðasta hluta greinar minnar „Saga og siðferði. Hugleiðingar um túlkun á siðfræði Íslendingasagna“

37. NF 1887–1889, 11 [54] (KSA 13).

38. Sbr. FW 344.

39. Þ.e. fílósófar, en meginvilla heimspekinnar hefur verið að reyna að koma höndum yfir Sannleikann, sbr. upphaf Handan góðs og ills þar sem Nietzsche líkir sannleikanum við konu og álasar heimspekingum fyrir klaufaskap sem hafi hindrað þá í að ná ástum hennar.

40. Sannleikshugtak Nietzsches er erfitt viðfangs og ekki er hægt að gera því nein skil hér. Lesendum er bent á ritgerð Nietzsches „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“ og ritgerðasafnið The New Nietzsche. Contemporary Styles of Interpretations, ritstj. David B. Allison. Í nýrri bók, Interpretationswelten. Gegenwartsphilosophie jenseits von Essentialismus und Relativismus, setur Günther Abel fram kenningu um sannleikshugtakið í ljósi hugmynda Nietzsches.

41. GM III 12.

42. Þegar Nietzsche talar „afstrakt“ um þræla- og höfðingjasiðferði fer ekkert á milli mála að hugur hans er allur með því síðarnefnda, en þegar hann lýsir samfléttun þeirra í sögulegri framvindu orka allir dómar tvímælis.

43. GD Formáli.

44. NF 1884–1885, 27 [60] (KSA 11).

45. Eins og áður sagði fer það eftir því hvort hann er meðal jafningja eða „barbara“ (GM I 11).

46. Þetta er útbreiddur misskilningur á „Übermensch“. Í inngangi þýðingar sinnar á Gorgíasi eftir Platon skrifar Eyjólfur Kjalar Emilsson, til dæmis (bls. 34): „Siðfræði Kallíklesar er taumlaus einstaklingshyggja, og minnir manngildishugsjón hans helzt á ofurmenni Nietzsches […].“

47. JGB 94.

48. Z I Um myndbreytingarnar þrjár.

49. Sjá t.d. Alan D. Schrift, Nietzsche and the Question of Interpretation, sérstaklega bls. 63–73.

50. EH Af hverju ég er svona klár 10.

51. MAM II 325.

52. FW 290.

53. Sama.

54. GM III 14.

55. EH Af hverju ég er svona vitur 6.

56. Sjálft Übermensch-heitið dregur dám af hugtakinu Überwindung; það að að sigrast á sjálfum sér er Selbstbüberwindung. Þetta má skilja bæði á þann veg að einstaklingurinn og „maðurinn almennt“ þurfi að sigrast á sjálfum sér. „Der Mensch ist Etwas, das überwunden werden soll“ (Inngangur Zaraþústra, 3). Um tengsl ofurmennisins við aðra meginþætti í heimspeki Nietzsches sjá t.d. Michel Haar, „Nietzsche and Metaphysical Language“, The New Nietzsche, ritstj. David B. Allison.

57. Nietzsche dáir mest menn á borð við Goethe og Heine, öfluga einstaklinga sem virkjað hafa lífskraft sinn til skapandi verka.

58. UB Um gagn og ógagn sagnfræðinnar fyrir lífið 1.

59. Ég hef rætt þessa hugmynd í ritgerðinni „‚Deyðu á réttum tíma’. Siðfræði og sjálfræði í ljósi dauðans“, í þessu ritsafni á bls.

60. Søren Kierkegaard, Endurtekningin, bls. 22.

61. Sama rit, bls. 22.

62. Sama rit, bls. 23.

63. Søren Kierkegaard, Frygt og bæven [1843], „Epilog“.

64. Fyrir nokkrum árum var sýnt í Reykjavík leikritið Farðu ekki eftir norsku skáldkonuna Margaret Johansen. Þar gat að líta mann sem þoldi hvorki sjálfan sig né konuna sína og beitti hana hræðilegu ofbeldi. Hann virtist þó (a.m.k. blekkti hann nokkra áhorfendur) eiga sínar góðu hliðar, sem komu fram í rómantískum endurminningum um liðna tíð og gælum við framtíðina. En hann gat með engu móti tekizt á við líðandi stund – óreiðuþol hans, sem kona hans og barn reyndu stöðugt á, var ekkert. Aðrir, sem kunna að vera meinleysismenn, sóa orku sinni í áhyggjur af því liðna og kvíða hinu ókomna, en missa jafnóðum af lífi líðandi stundar.

65. Samt sem áður er afstaða Nietzsches til Krists sjálfs tvíbent. Árásir hans á kristnina, sem á köflum eru heldur ódýrt níð, beinast mest að útleggingum Páls postula á ritningunni og að sögu kirkjunnar. Rétt er að minnast þess að Kierkegaard var líka óvæginn gagnrýnandi kristindóms.

66. GM III 18.

67. GM III 24.

69. GM III 20.

70. Alasdair MacIntyre, After Virtue, kaflar 4, 5 og 9.

70. Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar (Ethica Nicomachea), 1105b.

71. EH Af hverju ég er svona vitur 2.

72. Nietzsche notar mikið líkingamál um vont og gott loft og sjálfur gerði hann sér far um það, heilsunnar vegna, að vera sem mest í heilnæmu fjallalofti.

73. Agnes Heller kallar þetta „the therapeutic aspect of moral philosophy“ í General Ethics, bls. 1.

74. Ekki má heldur gleyma því að fyrir Sókratesi var siðleysi eins konar sjúkdómur á sálinni; sbr. ritgerð mína „Forngrísk siðfræði.“

75. Hver er sinnar gæfu smiður, bls. 12.

76. Sbr. Wolfgang Müller-Lauter, Nietzsche. Seine Philosophie der Gegensätze und die Gegensätze seiner Philosophie, 6. og 7. kafli.

77. Sbr. M 131.

78. Sjá Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar, 1123b, 1124b.

79. GD Skærur 33.

80. NF 1884–1885, 27 [11] (KSA 11).

81. Philippa Foot, „Nietzsche’s Immoralism“.

82. Sbr. Richard Rorty, „Self-creation and affiliation: Proust, Nietzsche, and Heidegger“.

83. JGB 284. Í Dögun (Morgenröte) telur Nietzsche líka upp höfuðdygðirnar fjórar: „Hreinskilni gagnvart sjálfum sér og öllu því sem er manni vinveitt; hugrekki andspænis óvininum; veglyndi við hinn sigraða; kurteisi – alltaf […].“ (M 556).

84. Guðjón Friðriksson, Með sverðið í annarri hendi og plóginn í hinni, bls. 155.

85. Því má gagnrýna Nietzsche á svipaðan hátt og Marx sem hafnar réttmæti siðalögmála vegna þess að þau eru bundin samfélagi arðráns og firringar. Sbr. Albrecht Wellmer, „Über Vernunft, Emanzipation und Utopie“. Sjá einnig grein mína „Siðfræðin og mannlífið. Frá sjálfdæmishyggju til samræðusiðfræði“, sem er að finna í þessu greinasafni.

Lykill að tilvísunum

KSA: Friedrich Nietzsche, Sämtliche Werke. Kritische Studienausgabe in 15 Bänden. Ritstjórar Giorgio Colli og Mazzino Montinari. Berlin/New York: de Gruyter Verlag 1967-1977.

EH: Ecce Homo. KSA, 6. bindi.

FW: Die Fröhliche Wissenschaft. KSA, 3. bindi.

GM: Zur Genealogie der Moral. KSA, 5. bindi.

GT: Die Geburt der Tragödie. KSA, 1. bindi.

HGI: Handan góðs og ills. Arthúr Björgvin Bollason og Þröstur Ásmundsson þýddu. Hið íslenzka bókmenntafélag 1994.

M: Morgenröte. KSA, 3. bindi.

USL: „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“. Magnús D. Baldursson og Sigríður Þorgeirsdóttir þýddu, Skírnir (vorhefti 1993).

Z: Svo mælti Zaraþústra. Jón Árni Jónsson þýddi. Heimspekistofnun og Háskólaútgáfan 1996.

« Til baka