Inngangur ritstjóra að Hug 2016-17

Þema Hugar 2016-17 er Kerfi, en þetta opna þema kallaði fram afar fjölbreytta flóru greina sem snerta á þemanu á ólíkan hátt.

Kerfi er þó ekki eina þema Hugar að þessu sinni, en viðtal sem Björn Rúnar Egilsson lagði til Hugar leiddi til þess að aukaþemað Athygli varð til. Athygli hefur verið eitt af meginviðfangsefnum breska heimspekingsins Christoper Mole, sem er viðmælandi Björns, en í viðtalinu ræða þeir um bók hans Attention is Cognitive Unison. Í bókinni setur Mole fram kenningu sína um athygli sem hugrænan einhljóm og rekur frumspekilegar undirstöður athyglinnar, en siðferðilegt mikilvægi athyglinnar hafði hann ekki skoðað að ráði þar, eins og þeir Björn ræða í lok viðtalsins. Í framhaldi af samtali okkar Björns þar sem við ræddum m.a. áhugaverðar tengingar á milli hugmynda Mole um siðferðilegt mikilvægi athygli og þeirra hugmynda sem Jón Ásgeir Kalmansson setur fram í nýlegri doktorsritgerð sinni um Siðfræði athyglinnar, ákváðum við að biðja þá Mole og Jón Ásgeir að leggja til greinar í Hug í tengslum við þetta viðfangsefni. Þeir brugðust mjög vel við þeirri ósk og niðurstaðan er umræða sem vonandi er til þess að fallin að beina athygli lesenda að mikilvægi athyglinnar í hugsun okkar og athöfnum.

Síðasti Hugur var tileinkaður minningu Páls Skúlasonar, og við minnumst hans einnig að þessu sinni, enda varla annað hægt þegar þemað Kerfi er til umfjöllunar. Tvær greinar bárust Hug þar sem kerfishugsun Páls er til umræðu og þannig varð til undirþemað Kerfi Páls. Greinarnar byggja báðar á erindum höfunda á ráðstefnu um heimspeki Páls sem haldin var síðastliðið vor; Vilhjálmur Árnason skrifar um heimspeki Páls í ljósi hugmynda Habermas og Tryggvi Örn Úlfsson skrifar um kerfi Páls í ljósi Hegels.

Tvær þýðingar birtast að þessu sinni í Hug; þýðing Eyju Margrétar Brynjarsdóttur á greininni „Heimspekingar og stjórnmál“ eftir Susan Stebbings, og þýðing Steinunnar Hreinsdóttur á „Þegar varir okkar tala saman“ eftir Luce Irigaray. Það er mjög ánægjulegt að geta með þessum hætti aukið úrval heimspekitexta á íslensku eftir kvenheimspekinga frá ólíkum tímum og úr ólíkum áttum. Eins og Eyja ræðir í grein sinni í heftinu hafði Stebbing mikil áhrif á þróun rökgreiningarheimspeki í Bretlandi, en í „Heimspekingar og stjórnmál“ ræðir hún m.a. um mikilvægi heimspekilegrar hugsunar í lýðræðissamfélagi. Luce Irigaray er einn þekktasti kvenheimspekingur samtímans, en gagnrýni hennar á einkynjaða orðræðu heimspekinnar sem birtist m.a. í „Þegar varir okkar tala saman“ hefur haft mikil áhrif innan feminískrar heimspeki. Báðar snerta þessir höfundar á ólíkan hátt á því kerfi sem hefur skapað heimspekilegri hugsun ramma í gegnum tíðina.

Þær greinar sem hér birtast undir meginþemanu Kerfi eru í raun margar mun laustengdari þemanu en greinarnar tvær um kerfi Páls, en þær snerta þó allar ýmist beint eða óbeint á því. Það má segja að fyrstu þrjár greinarnar eigi það sameiginlegt að benda okkur hver á sinn hátt á þætti sem hefur hallað á og þörf er á að beina aukinni athygli að í heimspekiiðkun innan hefðbundins akademísks kerfis. Í grein sinni um „hin rifnu klæði Soffíu“ ræðir Sigríður Þorgeirsdóttir túlkun sína á Huggun heimspekinnar eftir Bóethíus þar sem hún dregur fram þær hliðar heimspekinnar sem hafa að gera með tilfinningar og líkamleika – hliðar sem hafa í gegnum tíðina ekki skipað háan sess innan þess kerfis sem akademísk heimspeki er. Sigrún Inga Hrólfsdóttir beinir athygli sinni einnig að því hvernig tilfinningaleg og líkamleg skynjun hefur verið sett skör neðar en rökhugsun, en í grein sinni um hugmyndir hlutmiðaðrar verufræði (e. object oriented ontology) fjallar hún m.a. um gagnrýni slíkra hugmynda á vestræna heimspekihefð fyrir að hafa með aðgreiningu sinni á sjálfsveru og hlutveru stuðlað að stigveldi milli skynvísi og rökvísi; lista og vísinda; raunvísinda og hugvísinda. Í greininni má finna hvatningu til þess að nýta hugmyndir hlutmiðaðrar verufræði til þess að standa á landamærunum milli lista, heimspeki og vísinda og nýta aðferðir þeirra allra jöfnum höndum, án stigveldis, í könnun okkar á heiminum og vitundinni. Af greininni má ráða að innan kerfis akademískrar hugsunar þurfi að huga að því að skapa rými til þess að slík landamærakönnun geti átt sér stað.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir snertir í sinni grein um „rökgreiningarheimspeki sem gagnrýnistól“ á því hvernig rými hafa verið sköpuð innan rökgreiningarheimspeki til þess að ástunda hana á fjölbreyttari hátt en ímynd hennar sem fag abstrakt hugtaka sem hafa lítið að gera með málefni samfélagsins gefur til kynna. Eins og Eyja sýnir fram á með dæmum úr fortíð og samtíð, er ekkert við aðferðir rökgreiningarheimspekinnar sem kemur í veg fyrir að hún geti nýst sem samfélagslegt gagnrýnistól, enda hafa rökgreiningarheimspekingar í gegnum tíðina nýtt sína fagþekkingu til mikilvægrar samfélagsrýni.

Eins og Finnur Dellsén bendir á hefur lítið sem ekkert verið skrifað um bayesíska þekkingarfræði á íslensku, en með grein sinni um tengslin á milli hefðbundinnar þekkingarfræði og þeirrar bayesísku, sem hefur sífellt meiri áhrif innan fagsins, bætir hann úr því og varpar nýju ljósi á kerfi hefðbundinnar þekkingarfræði. Í greininni fjallar Finnur m.a. um hvað hefðbundin þekkingarfræði getur lært af þeirri bayesísku og um það hvernig tengja megi bayesíska þekkingarfræði við hefðbundna þekkingarfræði með því að skoða tengslin á milli trúnaðar (e. credence) innan bayesískrar þekkingarfræði og skoðana (e. belief) innan þeirrar hefðbundnu.

Síðasta þemagrein Hugar er grein Jóhannesar Dagssonar um „sköpun, kerfi og reynslu“. Í greininni greinir Jóhannes hugtökin kerfi, reynsla og sköpun til þess að varpa ljósi á það hvað við eigum við þegar við tölum um sköpunargáfu. Þar sem athafnir og aðgerðir eru oft greindar í ljósi þess hvort þær séu byggðar á reglu sem ákveðið kerfi segir til um eða á því sem er vísað í sem óvænta sköpun án reglu, er mikilvægt að geta greint þau einkenni sem skilja að skapandi athöfn og athöfn sem byggir á fyrirfram ákveðnu kerfi.

Að þessu sinni barst aðeins ein umfjöllun um nýlega útkomið heimspekirit, en það er umfjöllun Báru Huldar Beck um þýðingu Jóns Ólafssonar á bók Øyvinds Kvalnes, Siðfræði og samfélagsábyrgð. Mikill fjöldi heimspekirita hefur komið út á íslensku á síðustu árum og hvet ég lesendur Hugar eindregið til að nýta þann vettvang sem hér er til þess að deila þeim hugmyndum og hugleiðingum sem efni þessara fjölbreyttu rita hafa kallað fram.

Það hefur verið einstaklega áhugavert og lærdómsríkt að taka þátt í því mikilvæga starfi sem útgáfa Hugar hefur lagt til íslenskrar heimspeki í gegnum tíðina. Það er mjög vandasamt og krefjandi, en á sama tíma algerlega nauðsynlegt fyrir vöxt íslenskrar heimspeki að gefa út ritrýnt heimspekirit á íslensku. Ég vil því nota tækifærið til að þakka höfundum og þýðendum efnis sem og ritrýnum í þessum Hug sem og öllum fyrri Hugum fyrir sín ómetanlegu framlög, auk þess sem ég þakka öllum fyrri ritstjórum og síðast en ekki síst stjórn FÁH fyrir að halda þessu mikilvæga verkefni gangandi. Ég óska verðandi ritstjóra velfarnaðar í starfi og þakka stjórn FÁH fyrir það traust sem þau hafa sýnt mér og fyrir ánægjulegt samstarf. Sérstakar þakkir fær Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson fyrir alla vinnuna við umbrot og lokafrágang.