Færslusöfn

Tilgangurinn, hégóminn og hjómið. Um gagnrýni Brynjólfs Bjarnasonar á existensíalismann

eftir Jóhann Björnsson

Sálarháski predikarans

Brynjólfi Bjarnasyni varð tíðrætt um sálarháska. Talaði hann þá bæði um sálarháska einstak­lingsins og sálarháska mannkynsins alls. Sálarháska mannkynsins lýsti hann í pólitískri gagnrýni sinni á auðvaldsþjóðfélagið sem hann taldi að myndi á endanum leiða til glötunar með græðgi sinni og vígbúnaðarhyggju.1 Sálarháski einstaklingsins hinsvegar er vissulega hluti af sálarháska mannkynsins en birtist í vitundarlífi einstaklingsins sem stendur andspænis – og í sífelldri spurn um tilveru sína.

Til hvers lifum við? Hversvegna breytum við sem raun ber vitni í daglegu lífi? Hefur þetta allt saman einhvern tilgang? Spurningar sem þessar leituðu á Brynjólf eins og svo marga aðra.

Dæmi um einstakling í verulegum sálarháska er predikarinn í Gamla testamentinu. Lífsviðhorf predikarans er á þá leið að allt sé hégómi og eftirsókn eftir vindi: „Hvaða ávinning hefur maðurinn af öllu striti sínu er hann streitist við undir sólinni? Ein kynslóð fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu.“2 Líf predikarans virðist rúið öllum tilgangi og það er sama hvað hann sjálfur gerir til þess að reyna að gæða líf sitt einhverju sem gæti verið einhvers virði en allt kemur fyrir ekki: „… reyndu gleðina og njóttu gæða lífsins! En sjá, einnig er það hégómi.“3 Ráð Epíkúrusar við tilvistarvandanum, það er að segja nautna- og gleðilífið sem færa átti mönnum hamingju,4 gekk ekki sem skyldi hjá predikaranum:

Ég safnaði mér silfri og gulli og fjársjóðum frá konungum og löndum; ég fékk mér söngmenn og söngkonur og það, sem er yndi karlmanna: fjölda kvenna. Og ég varð mikill og meiri öllum þeim, er verið höfðu í Jerúsalem á undan mér; einnig speki mín var kyr hjá mér. Og alt það, sem augu mín girntust, það lét ég eftir þeim; ég neitaði ekki hjarta mínu um nokkura gleði, því að hjarta mitt hafði ánægju af allri fyrirhöfn minni, og þetta var hlutdeild mín af allri fyrirhöfn minni. En er ég leit á öll verk mín, þau er hendur mínar höfðu unnið, og þá fyrirhöfn er ég hafði haft fyrir að gjöra þau, þá sá ég að alt var hégómi og eftirsókn eftir vindi, og að enginn ávinningur er til undir sólinni.5

Sálarháski predikarans, ef heimspeki Brynjólfs er beitt til greiningar, felst ekki eingöngu í þeirri tómhyggju og afneitun allra gilda sem svo berlega kemur í ljós heldur einnig í Guðstrúnni. Það hljómar undarleg að tómhygjumaður eins og predikarinn skuli þegar öllu er á botninn hvolft trúa á Guð og halda því fram að á endanum muni allt verða leitt fyrir dóm Guðs. Guðstrú predikarans má túlka sem hluta af sálarháska hans samkvæmt heimspeki Brynjólfs enda eiga trúarbrögðin að mati Brynjólfs engin svör við lífsins vanda nema blekkingar.6

Þó Brynjólfur sé sannfærður um að Guð sé ekkert nema hugarsmíð mannanna og þar með vel hægt að lifa án hans er hinsvegar ekki gerlegt að lifa í heimi þar sem tilgang er ekki að finna:

Annaðhvort hefur eilífðin einhvern tilgang og varanlegt gildi, sem ég skil ekki, eða þá að það hefur engan tilgang og ekkert gildi. Geri ég ráð fyrir hinu síðarnefnda, verð ég að lifa lífinu í vitundinni um fullkomið tilgangsleysi þess og allt verður hjóm og hégómi undir sólinni. Það mundi í rauninni ekki verða neitt líf, heldur fánýt og ömurleg bið eftir dauðanum.7

Endalok existensíalismans

Tilgangur lífsins hefur ekkert með Guð eða trúarbrögðin að gera að mati Brynjólfs og það sem hann á sameiginlegt með existensíalistunum Albert Camus og Jean-Paul Sartre8 er Guðleysi.

Guð er ekki til. Brynjólfur mundi ekki halda því fram að Camus og Sartre eigi í sálarháska vegna Guðleysis. Guðleysi er ekki sálarháski nema síður sé.

Þrátt fyrir það hélt Brynjólfur því fram árið 1970 að hlutverki existensíalismans væri lokið: „Hlut­verki existensíalismans er nú vafalaust lokið. En hann er ein átakanlegasta sönnun þess sálar­háska, sem mannkynið er statt í, þeirrar Jakobsglímu sem það þreytir og varðar líf þess.“9

Hver er þessi sálarháski sem mannkynið er statt í og á að birtast í existensíalismanum?10 Sálar­háski existensíalismans felst meðal annars í getuleysi hans til að leysa úr persónulegum vanda fólks sem á í erfiðleikum með lífsskoðanir sínar. Allir menn hafa einhverja lífsskoðun og þegar Brynjólfur ræðir lífsskoðanir, er vísað til skoðana um félagsmál, samfélags- og þjóðfélagsmál, siðgæðishugmynda og trúarskoðana svo eitthvað sé nefnt. Lífsskoðunin er síðan byggð á einhverri heimsskoðun sem er þá trúarleg, heimspekileg eða vísindaleg.11

Brynjólfur heldur því fram að Sartre sjálfur sýni fram á vanmátt existensíalismans í fyrirlestri sínum „Tilverustefnan er mannhyggja.“ Þar segir meðal annars frá er ungur nemandi Sartres kom til hans í vanda til að spyrja ráða. Svar Sartres er á þá leið að mati Brynjólfs að það útilokar existensíal­ismann frá því að geta leyst úr persónulegum vanda fólks. En Sartre svaraði nemanda sínum á eftirfarandi hátt: „Þú ert frjáls, veldu, þ.e.a.s. finndu einhver úrræði.“12

Existensíalisminn hefur klárlega brugðist að mati Brynjólfs. Annarsvegar býður hann mönnum í tilvistarvanda ekki upp á önnur svör en að vísa til persónulegs frelsis, ábyrgðar og ákvarðanatöku eins og fram kemur í samskiptum Sartres við nemanda sinn og hinsvegar vegna staðhæfing­arinnar um að lífið hafi í sjálfu sér engan tilgang annan en þann sem sérhver einstaklingur gefur lífi sínu. Existensíalistarnir sem þessu fylgja mundu þá segja þeim sem eiga í vanda með líf sitt að lífið hefði í sjálfu sér engan tilgang og sérhver einstaklingur yrði að bera ábyrgð á því að finna lífi sínu einhvern tilgang. Hér er enga lausn að finna að mati Brynjólfs. Að vera dæmdur til frelsis er ekkert annað en „vonarsnauð viska“ sem „… virðist vera lítil huggun í raun og varla til þess fallin að leysa nokkurn mannlegan vanda.“13 Þrátt fyrir að existensíalisminn feli í sér „vonarsnauða visku“ eins og Brynjólfur kýs að komast að orði þá veltir hann því fyrir sér hversvegna existensíal­isminn hafi haft það aðdráttarafl sem hann í raun og veru hefur haft. Hversvegna hefur heimspeki­stefna aðdráttarafl sem ekki er fær um að leysa nokkurn mannlegan vanda eins og Brynjólfur telur? Svar Brynjólfs er svohljóðandi:

Existensíalisminn hefur aðdráttarafl í fyrsta lagi af því, að hann endurspeglar vonleysi, efahyggju, umkomuleysi og siðferðilega upplausn þess tómarúms, sem verður, þegar arfhelg lífsskoðun líður undir lok án þess að önnur, er gefur lífinu tilgang, komi í staðinn. Í öðru lagi túlkar hann þá þrjósku og stoltu reisn mannsins, sem ákveður að finna einhver úrræði til bjargar, þótt öll sund virðist lokuð, rödd náttúrunnar, sem enn tekur um stýrisvölinn, þegar mest á ríður og hinn vitandi og hugsandi maður skilur að er hans eigin rödd, enda þótt hann kunni engin rök til að sanna gildi hennar. Hann velur og leitar úrræða í stað þess að gefast upp, enda þótt hann kunni engin skil á því, hversvegna hann gerir það. Hann tekur jákvæða afstöðu þrátt fyrir allt, velur lífið en ekki dauðann og það fyllir hann sjálfstrausti mitt í öllu vonleysi hins óskiljanlega og fjandsamlega heims.14

Aðdráttarafl existensíalismans felst ekki síst í raunsærri mynd hans af veruleikanum og þeirri hvatningu sem hann gefur mönnum til þess að láta ekki bugast í heimi sem ekki er alltaf vinsamlegur. Lífið er ekki alltaf auðvelt, ég er dauðleg vera, frjáls og ábyrg og hef tækifæri til þess að gera eitthvað í lífi mínu sem og ég verð að gera eins vel og ég get á meðan enn er tími til stefnu. Hvað er að þessari lífsskoðun og hver er í raun sálarháski hennar? Það er ekki rétt hjá Brynjólfi að existensíalisminn veiti mönnum engin svör. Að segja mönnum að þeir séu frjálsir og ábyrgir og verði að svara sínum spurningum hver fyrir sig eins og Sartre sagði nemanda sínum er eitt besta svar sem sérhver einstaklingur getur fengið sem er að velta fyrir sér lífsskoðun sinni og lífskostum. Það útilokar ekki að menn leiti ráða en það minnir menn á að þrátt fyrir ráð frá öðrum þá er það ávallt sá sem spurði sem velur svarið á endanum. Það er mun heiðarlegra að gera fólki grein fyrir frelsi sínu og ábyrgð á eigin lífi og skoðunum heldur en sú tilhneiging margra marxista að neita þegnunum um persónulegt frelsi og ætlast til þess að þeir lúti yfirvöldum í hugsun og verki. Slík svör marxista geta ekki talist vænleg til þess að leysa úr persónulegum vanda fólks. Þessu gerði Brynjólfur sér grein fyrir þrátt fyrir að hafa verið einn af forystumönnum marxista á Íslandi.

Hugmyndafræðin hressilega

Í viðtali árið 1988 segir Brynjólfur um marxismann: „Ég þekki nú enga hugmyndafræði, sem er öllu hressilegri en marxisminn.“15 Hann gerir sér jafnframt grein fyrir því að saga marxismans hefur ekki alltaf verið dans á rósum: „Hitt er svo annað mál, að feiknarleg mistök hafa verið gerð á ferli þessarar þróunar og fæðingarhríðir nýrra mannfélagshátta hafa haft miklar mannlegar þjáningar í för með sér.“16 Marxisminn kann að hafa ýmislegt sér til ágætis en það verður ekki horft framhjá því að of oft hefur saga hans einkennst af skipulagðri kúgun á einstaklingum, framtakssemi þeirra, frelsi og hugsunum. Slíkir fylgikvillar marxismans geta síður en svo talist „hressilegir.“ Þeir eru fremur ávísun á sálarháska þeirra sem við slíkt þjóðskipulag búa og þeirra sem réttlæta þá kúgun sem þar hefur átt sér stað. Hvað er þá svo slæmt við existensíalismann? Existensíalismann sem beinlínis hvetur menn til þess að víkjast ekki undan frelsi sínu og ábyrgð á eigin lífi og samborgara sinna? Hver eru ráð marxismans við lífsgátunni og tilvistarvanda einstaklinganna og á hvern hátt eru þau fremri svörum existensíalismans við ráðgátum lífsins? Svör við þessum spurningum finn ég ekki af lestri mínum á ritum Brynjólfs.

Á árunum 1956–1957 var existensíalisminn tískustefna í Póllandi kommúnismans þar sem marx­isminn gat ekki gefið svör við ýmsum persónulegum vandamálum svo sem spurningunni um tilgang og gildi lífsins. Þar „var eyða“ segir Brynjólfur.17 Það virðist svo vera eins og málin horfa við Brynjólfi að existensíalisminn hafi gefið mönnum von í fyrstu en síðan hafi það komist upp að sú von hafi verið fölsk. Existensíalisminn höfðar til einstaklingsins og leitar hans að tilgangi, bætt­um lífskostum og viðhorfum. Hann skerpir vitund manna um einstæðingsskapinn í heimi sem er án fyrirfram gefins tilgangs og gefur þau ráð helst að sérhver sé sinnar eigin gæfu smiður.

Brynjólfur hefur viðurkennt að þrátt fyrir stuðning sinn við samfélagsgreiningu og pólitíska stefnu marxismans hafi hann ávallt verið efins um marxíska heimspeki og þá efnishyggju sem er grundvöllur hennar. Það er því ekki að undra að Brynjólfur reynir ekki að gefa marxísk svör við gátunni um tilgang og gildi lífsins. Hann kaus að þræða milliveg efnishyggju og hughyggju. Hann gekk að mörgum þáttum efnishyggjunnar sem vísum svo sem að til væri efnisheimur óháður vitund en féllst ekki á að vitundin væri einvörðungu afsprengi efnasamsetningar sem í fyllingu tímans lognaðist út af og félli saman við hið dauða efni. Vitundin að mati Brynjólfs er lífsseigari en svo að nauðsynlega ber að gera ráð fyrir einhverskonar framhaldslífi: „Ef vér hættum að gera ráð fyrir lífi eftir dauðann, verða öll þau verðmæti að engu, sem eru forsenda lífs vors og starfs. Vér dæmum sjálfa oss til dauða, ekki aðeins eilífs dauða að lífinu loknu, heldur einnig þegar í þessu lífi.“18

Svar Brynjólfs við spurningunni um gildi lífs er falið í þeirri skoðun hans að lífið sé annað og meira en það líf sem lifað er hér á jörðinni frá fæðingu til dauða. Hér er mikill ágreiningur á milli Brynjólfs og existensíalistanna Sartres og Camus.

Framhaldslífið, siðgæði og tilgangur lífsins

Hversvegna ætti að vera einhver ástæða fyrir lífi mannfólksins, fæðingu þess og dauða? Hver gæti sú ástæða verið ef hún er fyrir hendi? Brynjólfur er allt að því sannfærður um að lífið hafi til­gang umfram þann tilgang og þá merkingu sem sérhver einstaklingur leggur í líf sitt á degi hverjum. Hvað hefur Brynjólfur fyrir sér í því að lífið hafi einhvern tilgang og hver gæti sá tilgangur verið? Ekki felst tilgangur lífsins í því að gera Guð dýrlegan eða lifa sem sköpunarverk hans þar sem Guð er hugmynd mannanna og hluti af blekkingum trúarbragðanna.

Tilgangurinn lífsins að mati Brynjólfs er falinn í lífinu eftir jarðneskan dauða. Lífið hlýtur að vera eitthvað meira en stundin milli fæðingar og dauða hér á jörðinni. Ég sagði að Brynjólfur væri allt að því sannfærður um að lífið hefði tilgang en sannfæring hans er eðli málsins samkvæmt takmörkunum háð. Það verða hvorki færðar óyggjandi sönnur á að lífinu sé ekki lokið eftir jarðvistina og því síður að lífið hafi tilgang sem er annar og meiri en sá sem sérhver finnur með sjálfum sér á degi hverjum. Brynjólfur gerir sér grein fyrir því að með því að halda fram að lífið sé eitthvað annað og meira að jarðlífi loknu, er hann að fullyrða meira en sönnur verða færðar á:

Vér getum heldur ekki sannreynt, að líf sé eftir dauðann, og engin vísindaleg staðreynd rennir stoðum undir þá skoðun. En ef vér höfnum henni og gerum oss að fullu ljóst, hvað sú höfnun hefur í för með sér, til hvaða rökréttra niðurstaðna hún leiðir, þá hefur það örlagaríkar afleiðingar, ekki aðeins fyrir lífsskoðun vora, heldur og fyrir líf vort. Ef vér gerum ráð fyrir, að líf hvers einstaklings sé aðeins blossi í eilífðinni og að á undan og eftir sé eilífur dauði, eilíft vitundarleysi, þá falla öll mannleg verðmæti dauð og ógild.19

Hér finnur Brynjólfur grundvöllinn að siðgæði í mannlegu samfélagi. Ef ekkert er framhaldslífið þá er enginn tilgangur með lífinu. Tilgangslaust líf er alveg laust við öll verðmæti og þar með skiptir siðgæði engu máli.

Líf þess sem staðhæfir að allt sé hégómi eins og predikarinn gerði, hlýtur samkvæmt heimspeki Brynjólfs að fela í sér skeytingarleysi um allt siðgæði. Er það mér einhvers virði í tilgangslausu lífi að rétta náunganum hjálparhönd?

Existensíalisminn er hér á öndverðum meiði. Lífið hefur engan hlutlægan tilgang sem einhvers­staðar er falinn fyrir mannlegu vitundarlífi eins og Brynjólfur heldur fram. Það er engin sérstök ástæða fyrir því að mennirnir fæðast í þennan heim og það er heldur engin ástæða að þeir deyji og hverfi úr honum aftur. Svona er lífið að mati existensíalistanna Camus og Sartres. Þar sem Brynjólfur heldur því fram að allir menn trúi á ódauðleikann annaðhvort á meðvitaðan hátt eða dulinn þá má velta því upp hvort þessi trú manna, dulin eða ódulin, á framhaldslíf sé nokkuð annað en von um eilíft líf sem endurspeglar óttann við dauðann.

Eilífðarþráin og óttinn við dauðann

Þráin eftir því að lifa eilíflega er mjög svo rík í vitundarlífi margra. En hvort sem framhaldslíf er hlutskipti mannanna eða ekki þá liggur það ljóst fyrir að maðurinn er dauðleg vera. Sérhver einstaklingur þarf fyrr eða síðar að hverfa úr þessu jarðríki. Sérhver einstaklingur er strax við fæðingu nógu gamall til þess að deyja og það sem meira er, á unga aldri veit hann vel af þeirri staðreynd.20 Hvernig bregðast menn við því að þurfa dag nokkurn að deyja? Brynjólfur Bjarnason tók smásögu eftir Sartre, Múrinn, sem dæmi um viðbrögð manns sem dæmdur hefur verið til dauða.21 Sögupersónan trúir ekki á líf eftir dauðann og sér því fyrir sér algjör endalok lífs síns. Saga þessi segir Brynjólfur að sé „einhver skeleggustu rök“ sem hann hefur séð gegn heimspeki Sartres.22 Ástæðan fyrir því er sú að eftir að dauðadómur hefur verið kveðinn upp, finnst honum sem ekkert skipti máli og að ekkert hafi í raun og veru skipt máli og að líf hans var í raun löngu lokið áður en aftakan átti að fara fram. Það mætti ímynda sér sögupersónu þessa taka sér orð predikarans í munn: „Allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi.“

Þessi umfjöllun vekur upp spurningar um verðmæta- og gildismat með tilliti til afstöðunnar til dauðans. Getur það verið að viðhorfið til dauðans og eilífðarmálanna hafi eitthvað með það að gera hvernig lífi menn lifa? Svo vill Brynjólfur halda fram samanber ummæli hans um söguhetjuna í Múrnum eftir Sartre. Þeir sem ekki trúa á einhverskonar framhaldslíf vitundarinnar eiga erfiðara með að fóta sig á hinu siðferðilega sviði. Hér er ég ekki sammála Brynjólfi. Ég get ekki séð að það skipti öllu máli fyrir lífið nú hvort eitthvert framhald verði eður ei. Hvernig horfir lífið við þeim sem ekki gengur út frá öðru en að lifa bara þessu jarðneska lífi? Er það óhjákvæmilegt að viðkomandi leggist í svall og siðleysi einvörðungu vegna þess að vitund hans á sér líklega ekkert framhaldslíf? Í mörgum tilvikum kann dauðaörvæntingin hugsanlega að taka völdin en það þarf ekki nauðsyn­lega að gerast. Menn geta ræktað viðhorf sín til lífs og dauða og leitast við að deyja sáttir og ef afstaðan til lífsins á að vera heil verður að rækta lífsviðhorfið í ljósi endanleikans, þ.e. dauðans. Dauðinn er það sem við getum verið viss um að muni mæta sérhverjum manni og því ekki að lifa í ljósi þeirrar staðreyndar og í samræmi við hana? Ef framhaldslíf er það sem við tekur þá mun það koma í ljós að jarðlífi loknu og fátt hægt að segja til um það á þessari stundu.

Heimspeki dauðans tengist órjúfanlegum böndum heimspeki lífsins. Menn lifa ávallt í ljósi þess að þeir muni fyrr eða síðar hverfa úr þessari jarðnesku vist hvort sem þeir gera það á meðvitaðan hátt eða ómeðvitaðan. Gildismatið á gæðum lífsins ber þess merki. Líf sem lifað er í átt til dauðans gerir kröfu að viðkomandi geri það upp við sig hvernig lífi hann ætlar að lifa. Flóttinn frá hugsun­inni um dauðann sem algengur er í hversdagslífinu sýnir lífshætti sem bera þess merki að dauð­inn sé hvergi nærri og að mennirnir muni lifa eilíflega. Þar er fólk sífellt að koma sér fyrir, byggja stærri og betri hús, kaupa sér fínni og hraðskreiðari bíla svo eitthvað sé nefnt. Allt kostar þetta aukna vinnu sem þýðir svo enn frekara fall í hina hversdagslegu og ópersónulegu tilvist. Þar með fjarlægjast menn sjálfa sig og líta engan veginn á sig sem heild með upphaf og endi heldur sem ferli sem engan endi tekur. Fyrirhyggjan, það að koma sér fyrir í þessum heimi verður því allsráðandi á kostnað umhyggjunnar.

Hér vaknar sú spurning hvernig lífsgæði fyrirhyggjunnar, það er að segja óhófið í efnis- og neyslu­gæðum, lítur út í ljósi þess að síðar á maður eftir að deyja frá þeim. Líf hvers einstaklings er ekki nema lítill blossi í eilífðinni og sérhver einstaklingur ætti að spyrja sjálfan sig að því hvort lífsstíllinn og gildismatið sé í raun í samræmi við þá staðreynd. Hvers virði er eigingirni og óhófleg söfnun dauðra hluta ef maður á síðan eftir að deyja frá þessu öllu saman?

Ekkert er þó gefið fyrir víst um háttalag mannsins. Vissulega má leiða líkum að breytni fólks við ýmsar aðstæður en undantekningar og vafamál eru oft ekki langt undan. Gætu þeir sem eru vel meðvitaðir um dauða sinn ekki allt eins lifað í anda máltækisins „etum og drekkum því við deyjum á morgun,“ lifað ósiðferðilegu og óhóflegu líferni holdsins lystisemda og í engu skeytt um mannleg verðmæti? Sjónarmið Brynjólfs má túlka á þennan hátt og er slíkt vissulega ekki útilokað. Það sem máli skiptir er að þeir sem kosið hafa líf lystisemdanna og siðleysisins vegna væntanlegs dauða hafa val og verða að gera það upp við sig hvernig lífi þeir ætla að lifa í ljósi dauðans. Með vali sínu á lífsstílnum sem hvetur til áts og drykkju vegna dauðans á morgun er vissulega tekin áhætta á timburmönnum, að verða bumbult af átinu og óglatt af óhófinu.

Hegðun okkar og samskipti við annað fólk getur ekki ráðist einvörðungu af því hvort við lifum fram­haldslífi eða ekki. Hversvegna roðnum við, finnum til skammar og fáum samviskubit? Eru það ekki ákveðnir þættir í fari mannsins sem áhrif hafa á hegðun burtséð frá því hvort lífið er eilíft eða örstutt? Roðna ég ekki og skammast mín vegna þess að líf mitt er að mjög stórum hluta lifað í ljósi þess að ég bý í samfélagi við annað fólk en ekki vegna hugsanlegs framhaldslífs? Maðurinn sem liggur á gægjum skammast sín þegar einhver kemur að honum. Hversvegna? Það er vegna þess að það var einhver sem kom að honum. Þannig eru mannleg samskipti og siðferði sem er samofið öllum mannlegum samskiptum burtséð frá trúnni á framhaldslíf.23

Þrátt fyrir að einhverjir vilji eta og drekka óhóflega skömmu fyrir andlát sitt standa þeir hinir sömu ávallt frammi fyrir þeirri spurningu hvernig maður fer í gröfina. Sáttur við lífið í heild sinni sem á sér upphaf og endi? Ef einhver fæst til þess að ígrunda sjálfan sig á þennan hátt þá er ekki annað að sjá en að það eitt sé út af fyrir sig prýðilegur árangur í átt til sannara og eiginlegra lífs. Á þann hátt kann dauðinn að þjóna þeim tilgangi að kenna mönnum að lifa eiginlegu og réttlátu lífi, að leggja mat á gæði lífsins og greina rétt frá röngu. Søren Kierkegaard kemst vel að orði er hann segir að dauðinn kenni mönnum einlægni.24

Fjarstæða og lífsfullnægja

Hvað er til ráða í tilgangslausum heimi þar sem ekkert er víst með framhaldslíf og allt eins má reikna með að allt sé búið að jarðlífi loknu? Þetta er hluti af heimsmynd existensíalismans. Án Guðs, án þess að skeyta um hvort eitthvað taki við að þessu lífi loknu, er sérhver einstaklingur krafinn þess að gera eitthvað með sjálfan sig í þessu lífi. Camus talar um fjarstæðukennt líf sem andstætt lífssýn Brynjólfs er gjörsneytt öllum tilgangi.25 Tveggja kosta er völ í fjarstæðukenndu lífi, annarsvegar að fallast á fjarstæðuna sem mundi leiða til sjálfsmorðs eða hinsvegar, eins og Camus leggur til, að gera uppreisn gegn fjarstæðunni og gefa lífinu tilgang og merkingu. En er hægt að finna tilgang í tilgangslausu lífi? Brynjólfur hélt fram að svo væri ekki og að ekki væri nægilegt að vísa til þeirra merkinga sem hversdagslegar athafnir hefðu og gæfu lífinu gildi: „… ef heimurinn hefur hvorki merkingu né tilgang, þá getum við ekki gefið honum gildi. Frá mínu sjónarmiði væri það aðeins sjálfssefjun til þess að geta haldið áfram að lifa.“26

Er lífinu í raun ekki lifað að mestu í því sem Brynjólfur kallar „sjálfssefjun?“ Er það „sjálfssefjun“ að gera eitthvað í lífinu sem vekur áhuga, hvort sem það er að tefla, lesa heimspeki, leika knattspyrnu eða hvað annað? Allt gefur þetta lífinu gildi, og er tilgangur lífsins einhver annar en að lifa því og gera eitthvað sem gefur því gildi? Er það ekki í raun á hverjum degi sem mannfólkið reynir að finna sér eitthvað að gera sem gefur lífinu gildi og veitir því einhverja lífsfullnægju? Þar með er uppreisnin, svo notað sé orðalag Camus, viðvarandi hjá sérhverjum einstaklingi sem teljast verður heill á geðsmunum; eða, eins og Viktor Frankl hélt fram, að þörfin til að finna lífi sínu einhvern tilgang væri frumhvöt ekki ósvipuð hungurhvöt og kynhvöt og því ávallt virk.27 Heimfært á orðalag Camus mætti segja að uppreisnin gegn fjarstæðunni væri frumhvöt. Að hafa það sem verkefni að gæða líf sitt merkingu, hvort sem einhver hlutlægur tilgangur í anda Brynjólfs fyrirfinnst eður ei, er að mínu mati mun heilbrigðara sjónarmið. Það er verkefni sem takast má á við á hverjum degi. Sjónarmið Brynjólfs er í raun ekki reist á öðru en von eða því sem ég vil kalla eilífðarþrá og ótta við dauðann. Þar fyrir utan er Brynjólfur heldur ekkert of viss um sannleiksgildi skoðana sinna í þessum efnum eins og hann sjálfur segir: „Vér getum heldur ekki sannreynt, að til sé líf eftir dauðann, og engin vísindaleg staðreynd rennir stoðum undir þá skoðun.“28 Fyrst ekkert er víst um framhaldslíf sem er samkvæmt Brynjólfi forsenda fyrir tilgangi lífsins þá er í framhaldi af því ekkert víst um tilgang lífsins. Er þá um nokkuð annað að ræða fyrir mannfólkið en taka áskorun Camus og gera uppreisn gegn fjarstæðunni sem lífið er?

Tilvísanir

1. Brynjólfur Bjarnason: „Brýnasta verkefnið: Að bjarga lífi hnattarins,“ Réttur, 3. hefti, 1984.

2. „Predikarinn“ í Gamla testamenti Biblíunnar 1, 3–4.

3. Sama rit, 2,1.

4. Lucretius: On the Nature of Things, þýð. W. H. D. Rouse. Harvard University Press, 1975.

5. „Predikarinn“ í Biblíunni 2, 8–11.

6. Brynjólfur Bjarnason: Lögmál og frelsi. Heimskringla, 1970. Bls. 161.

7. Sama rit, bls. 154.

8. Albert Camus vildi ekki kalla sig existensíalista, ekki frekar en Maurice Merleau-Ponty, enda hefur existensíalismi oftast verið tengdur heimspeki Jean-Pauls Sartre. Ég mun samt sem áður vísa til Camus sem existensíalista enda vísa ég til existensíalismans sem ákveðins hugsunar­háttar og viðhorfa í heimspeki en ekki eingöngu sem heimspeki Sartres.

9. Sama rit, bls. 162.

10. Brynjólfur skrifar þetta árið 1970. Ég hef velt því fyrir mér hvort sálarháski manna í dag sé í einhverju frábrugðinn þeim sem var þá. Við þessu hef ég í raun ekkert viðhlítandi svar en geri þó ráð fyrir að í grundvallaratriðum sé hann sambærilegur og felist fyrst og fremst í skorti á tilgangi í lífinu og erfiðleikum með mótun góðra lífsskoðana.

11. Brynjólfur Bjarnason: Lögmál og frelsi, bls. 147.

12. Jean-Paul Sartre: Tilverustefnan er mannhyggja, þýð. Páll Skúlason. Óútgefin drög að þýð­ingu, 1981.

13. Lögmál og frelsi, bls. 161.

14. Sama rit, bls. 161.

15. Brynjólfur Bjarnason og Einar Ólafsson: Brynjólfur Bjarnason, Pólitísk ævisaga. Mál og menn­ing. Reykjavík, 1989. Bls. 147.

16. Sama rit, bls. 147.

17. Lögmál og frelsi, bls. 159.

18. Brynjólfur Bjarnason: Gátan mikla. Heimskringla, 1956. Bls. 117.

19. Sama rit, bls. 112.

20. Martin Heidegger: Being and Time, þýð. John MacQuarrie og Edward Robinson. Harper & Row, 1962. Bls. 289.

21. Jean-Paul Sartre: Le Mur. Gallimard, 1939.

22. Brynjólfur Bjarnason: Á mörkum mannlegrar þekkingar. Heimskringla, 1965. Bls. 235.

23. Sjá hér greiningu Jean-Paul Sartres um mannleg samskipti í Being and Nothingness, þýð. Hazel Barnes. Washington Square Press, 1956.

24. Søren Kierkegaard: „The Decisiveness of Death (at the Side of a Grave)“·í Thoughts on Crucial Situations in Human Life. Three Discourses on Imagined Occasions. Augsburg Publishing House, 1941. Bls. 81.

25. Albert Camus: Le Myth de Sisyph. Gallimard, 1942.

26. Brynjólfur Bjarnason, Halldór Guðjónsson og Páll Skúlason: Samræður um heimspeki. Svart á hvítu, Reykjavík 1987. Bls. 75.

27. Viktor E. Frankl: Man’s Search for Meaning, (þýðanda ekki getið). Washington Square Press, 1959. Bls. 121.

28. Brynjólfur Bjarnason: Gátan mikla. Heimskringla, 1956. Bls. 117.

« Til baka