Færslusöfn

Björg C. Þorláksson

Björg C. Þorlákson (1874–1934). Málfræðingur, heimspekingur, lífeðlisfræðingur og rithöfundur.

Fædd 30. jan. 1874 að Vesturhópshólum, Húnavatnssýslu, dóttir Þorláks Þorlákssonar og Margrétar Jónsdóttur. Gekk á kvennaskóla á Ytri-Ey á Skagaströnd og kenndi þar 1894, en hélt til frekara náms í Kaupmannahöfn 1897 og lauk stúdentsprófi þar 1901. Árið 1902 lauk hún forpróf í heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla, en 1903 giftist hún Sigfúsi Blöndal, hætti þá námi en átti mikinn þátt í orðabók þeirri sem við hann er kennd. Árið 1920 hlaut hún styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar til frekara náms í heimspeki, flutti Hannesar Árnasonar fyrirlestra sína 1923–1924 og urðu þeir uppistaðan í doktorsritgerð hennar en hún lauk doktorsprófi frá Sorbonne-háskóla, fyrst norrænna kvenna, 17. júní 1926 (Le fondement physiologique des instincts, París, 1926). Sinnti einkum ritstörfum, rannsóknum og kennslu, gaf út allmargar greinar og þýðingar, og lét til sín taka í kvenréttindamálum. Lést 25. febrúar 1934.

Rannsóknir hennar þróuðust frá heimspekilegri sálarfræði yfir í lífeðlisfræði, þar sem hún fékkst við spurninguna um líkamlegan grundvöll andlegra eiginleika. Einkum er umfjöllun hennar um samúðarhugtakið frumleg og áhugaverð frá heimspekilegu sjónarmiði.

Nokkur önnur rit: Erindi um mentamál kvenna (1925), Svefn og draumar (1926), „Hvað er dauðinn?“ (Skírnir, 1914), „Samþróun líkama og sálar“ (Skírnir, 1928), „Undirrót og eðli ástarinnar“ (Skírnir, 1933).

« Til baka

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson (1788–1876) stærðfræðingur og heimspekingur.

Fæddur 25. maí 1788, sonur Gunnlaugs Magnússonar bónda að Tannastöðum í Hrútafirði og Ólafar Björnsdóttur. Lærði hjá ýmsum prestum og varð stúdent 1808, sigldi til náms við Kaupmannahafnarháskóla 1817 og lagði einkum fyrir sig stærðfræði, varð kennari við Bessastaðaskóla 1822 og síðar Lærða skólann í Reykjavík. Hann varði mörgum sumrum til landmælinga og afrakstur þess starfs var kort hans af Íslandi sem út kom árið 1844. Hann lést 17. mars 1876.

Helsta framlag hans til íslenskrar heimspeki er langt heimspekilegt kvæði, Njóla, sem kom fyrst út árið 1842. Í því gerir hann grein fyrir heimsskoðun sinni og lífssýn. Kvæðið hafði töluverð áhrif á sínum tíma, m.a. á Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi og á Einar Benediktsson.

« Til baka